Hæstiréttur íslands
Mál nr. 211/2011
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Laun
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2012. |
|
Nr. 211/2011.
|
Örn Guðmundsson (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Grillhúsinu ehf. (Bergþóra Ingólfsdóttir hrl.) og gagnsök |
Vinnusamningur. Laun. Tómlæti.
Ö höfðaði mál á hendur G ehf. til efnda á samkomulagi um starfslok sem hann taldi hafa komist á. Tæpu ári síðar seldi Ö hlut sinn í G ehf. til sameiganda að félaginu. Talið var að Ö hefði í þeim lögskiptum sýnt af sér tómlæti við að halda kröfu sinni vegna starfslokanna til haga. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu G ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2011. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, „af 500.000 krónum frá 30. september 2007 en af 1.000.000 krónum frá 1. október sama ár til greiðsludags.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði upphaflega héraðsdómi fyrir sitt leyti 16. júní 2011. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 20. júlí 2011 og gagnáfrýjaði hann öðru sinni 8. ágúst það ár. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar á báðum dómstigum.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Samkvæmt þessum málsúrslitum verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Aðaláfrýjandi, Örn Guðmundsson, greiði gagnáfrýjanda, Grillhúsinu ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. desember 2010, er höfðað með stefnu birtri 11. desember 2009.
Stefnandi er Örn Guðmundsson, Markarvegi 5, Reykjavík, en stefndi er Grillhúsið ehf., áður Bryggjuhúsið ehf., Tryggvagötu 20, Reykjavík.
Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, af 500.000 krónum frá 30. september 2007 en af 1.000.000 frá 1. október sama ár til greiðsludags. Þá er þess krafist, með vísan til 12. gr. vaxtalaga, að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 31. október 2008. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti á málsþóknun að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans að skaðlausu.
Með úrskurði, dagsettum 1. júlí 2010, var frávísunarkröfu stefnda hafnað.
I.
Helstu málavextir eru þeir, að stefnandi var frá árinu 2002 einn eigandi og rekstraraðili veitingastaðarins Grillhússins en árið 2005 seldi hann 66% hlut úr félaginu en var áfram að eigin sögn faglegur framkvæmdastjóri félagsins og sá um rekstur veitingastaðarins. Óumdeilt er, að stefnandi lauk störfum hjá félaginu í ágúst 2007 en aðila greinir á um það, með hvaða hætti starfslok hans bar að og hvort samið var sérstaklega um kjör hans við starfslok. Stefnandi heldur því fram að komið hafi upp ágreiningur milli aðila og að þann 1. júlí 2007 hafi þeir stefnandi og stjórnarformaður stefnda, Þórður Bachmann, hist á skrifstofu stefnda og gert með sér samkomulag sem fól í sér starfslokasamning þess efnis að stefnandi héldi áfram fullri vinnu hjá stefnda til 1. september sama ár en myndi þá láta af störfum og þiggja í laun 500.000 krónur á mánuði frá 1. september til 31. október það ár. Þann 21. ágúst sama ár hefði stefndi hins vegar skipað stefnanda að afhenda lykla að veitingastaðnum og afhenda bifreið, sem hann hafði haft til umráða vegna starfs síns. Stefnandi hefði litið á þetta sem uppsögn.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að framlagt skjal, dagsett 1. júlí 2007, sé samningur um starfskjör stefnanda, heldur hafi verið um að ræða uppsagnarbréf stefnanda, sem afhent hafi verið stjórnarformanni stefnda, sem með áritun sinni á bréfið hafi einungis verið að kvitta fyrir móttöku þess. Kröfu stefnanda um launagreiðslur eftir starfslok hefði verið hafnað en fallist á ósk hans um að vinna ekki út uppsagnarfrestinn. Hafi stefnanda verið greidd laun til síðasta starfsdags.
Í júní 2008 var gerður samningur um kaup þeirra Þórðar Bachmann og Harðar Häsler á hlut stefnanda í stefnda á 6.000.000 króna.
II.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á því að á fundi hans og Þórðar Bachmann, stjórnarformanns stefnda, hinn 1. júlí 2007, hafi aðilar gert með sér samkomulag um að stefnandi yrði áfram í fullri vinnu hjá stefnda fram til september 2007 en eftir það myndi stefnandi láta af störfum og þiggja í laun 500.000 krónur á mánuði fyrir september og október sama ár, þ.e. samtals 1.000.000 króna. Samkomulagið hafi falið í sér starfslokasamning. Þá sé á því byggt, að um hafi verið að ræða uppsögn þegar stefnandi var hinn 21. ágúst 2007 krafinn um að afhenda lykla að veitingastaðnum Grillhúsinu og bifreið, sem stefnandi hefði haft afnot af í tengslum við starf sitt í þágu stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna vinnuréttarins og meginreglunnar um að samninga beri að efna. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við ákvæði 129., sbr. 130. gr., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu sína um virðisaukaskatt á málsþóknun reisir stefnandi á lögum nr. 50/1988. Um dráttarvexti og vaxtavexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að hann hafi aldrei samþykkt að greiða stefnanda laun umfram starfstíma hans hjá stefnda. Stefnandi hafi sjálfur sagt upp starfi sínu í bréfi, dagsettu 1. júlí 2007, sem sé uppsagnarbréf hans, og í því hafi hann sett fram ósk um viðbótarlaun eftir að starfi hans í uppsagnarfresti lauk. Stefndi hafi hins vegar aldrei samþykkt það og kvittun fyrir móttöku uppsagnarbréfsins feli ekki í sér skuldbindingu að því leyti af hálfu stefnda. Stefndi hafi aldrei samþykkt að greiða laun án þess að til kæmi vinnuframlag stefnanda þar á móti.
Jafnframt sé ljóst, með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu vinnuréttar um að laun séu gagngjald fyrir vinnuframlag, að stefnda beri ekki skylda til þess að greiða stefnanda laun umfram þann tíma sem stefnandi innti af hendi vinnuframlag í þágu stefnda. Stefnandi hafi látið af störfum að eigin ósk fyrir lok ágústmánaðar 2007 og hafi stefndi kosið að una því, en sú ákvörðun hafi enga skyldu bakað honum til þess að greiða stefnanda laun lengur en stefnandi kaus að inna vinnu af hendi, enda hafi það ekki verið samþykkt af hálfu stefnda.
Stefndi kveðst mótmæla fullyrðingum stefnanda um að stefnanda hafi verið vikið úr starfi á meðan á uppsagnarfresti stóð. Hið rétta sé að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að verða leystur undan vinnuskyldu sinni á tímabili uppsagnarfrests. Stefnandi hefði, þegar umrædd atvik urðu, haft uppi óskir um að aðrir hluthafar stefnda keyptu hlut hans í stefnda. Þeir samningar hafi ekki gengið fullkomlega að óskum stefnanda og því hafi hann ekki talið sér fært að starfa áfram í þágu stefnda.
Stefndi kveður stefnanda bera sönnunarbyrðina fyrir því að honum hafi verið vikið án fyrirvara úr starfi á uppsagnarfresti og einnig um þá staðhæfingu, að stefndi hafi lofað þeim greiðslum, sem stefnandi gerir kröfu um, eftir að vinnuframlagi hans lauk. Slík sönnun liggi ekki fyrir og beri því að sýkna stefnda af kröfum þessum, enda hafi stefndi þegar greitt stefnanda öll laun, sem hann hafi átt rétt á samkvæmt vinnusamningi aðila.
Þá byggir stefndi einnig á því, að við mat á stöðu stefnanda í vinnusambandi hans, sem og varðandi efni ráðningarsamnings hans, beri að líta til stöðu stefnanda hjá félaginu, en hann hafi ekki verið eins settur og aðrir starfsmenn stefnda þar sem hann hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins og séð um allan rekstur þess. Stefnandi hafi sjálfur lagt grunn að kjörum sínum hjá stefnda en hann hefði stofnað félagið og rekið það einn um árabil. Hann hafi því ráðið kjörum sínum alfarið þann tíma og haldið þeim ráðningarkjörum óbreyttum við breytt eignarhald á félaginu. Stefnandi hafi fengið greidd föst mánaðarlaun auk bifreiðahlunninda en ekki verið reiknað orlof af launum. Hann hafi hins vegar tekið sér orlof að vild, enda hefði hanni haft í hendi sér hvenær hann tók sér leyfi frá störfum og haldið óskertum launum á meðan.
Loks kveðst stefndi byggja á því, að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir tómlæti. Krafan hafi fyrst komið fram rúmum tveimur árum eftir að starfslok hans urðu, þ.e. með birtingu stefnu í desember 2009. Stefnandi hafi verið í samskiptum við stefnda í nærfellt eitt ár frá starfslokum eða fram í júní 2008 vegna samninga um kaup á hlut hans í félaginu. Aldrei á þeim tíma hefði stefnandi hreyft þessari kröfu sinni og framlagt bréf hans, dagsett 1. júlí 2007, hafi fyrst komið fyrir sjónir stefnda við þingfestingu málsins. Megi nærri geta að stefndi hefði tekið tillit til þeirrar kröfu við fyrrgreinda samningsgerð og næsta víst að ekki hefði orðið af samningum um þau kaup ef sú krafa hefði þá verið komin fram. Stefnanda hefði verið eðlilegt, teldi hann á rétti sínum brotið hvað varðaði launauppgjör við starfslok, að hafa þá kröfu upp þá þegar en ekki einhverjum árum síðar og eftir að samningar voru gerðir við hann um kaup á hlut hans í félaginu og aflausn hans undan skuldbindingum þess. Það hefði stefnandi hins vegar ekki gert og verði að meta honum það til tómlætis. Að sama skapi beri að fella niður kröfu stefnanda um dráttarvexti af kröfu hans með sömu rökum.
Um lagarök vísar stefnandi varðandi sýknukröfu til almennra reglna vinnuréttar um efndir ráðningarsamninga, meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga. Kröfu um málskostnað styður stefndi við 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Ágreiningur í máli þessu lýtur aðallega að því, hvort líta beri á framlagt skjal, dagsett 1. júlí 2007, sem bindandi samning milli aðila um starfskjör stefnanda við starfslok, eins og stefnandi heldur fram, eða hvort einungis er um að ræða kröfugerð stefnanda og uppsögn, eins og stefndi heldur fram. Þá byggir stefndi jafnframt á því, að krafa stefnanda sé niður fallin vegna tómlætis.
Í framangreindu skjali kemur fram að það er stílað á stjórn Bryggjuhússins ehf. Síðan segir: „Hér með tilkynnist að undirritaður, Örn Guðmundsson, segir hér með upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri Bryggjuhússins ehf. frá og með 1.9.2007 vegna óásættanlegs ágreinings meðal eigenda fyrirtækisins. Örn verður í fullri vinnu til 1.9.2007 og stýrir fyrirtækinu sem framkvæmdastjóri þangað til“. Þá segir að Örn, stefnandi máls þessa, muni eftir starfslok þiggja laun í tvo mánuði fram til 31. október 2007, 500.000 krónur fyrir hvorn mánuð. Samkvæmt efni skjalsins ritar stefnandi undir skjalið og Þórður Bachmann, stjórnarformaður stefnda, undirritar það einnig en fyrir ofan undirritun hans segir: „Móttekið f.h. stjórnar Bryggjuhússins ehf“.
Óumdeilt er að stefnandi lét af störfum hjá stefnda í lok ágúst 2007 en formleg starfslok voru ákvörðuð 1. september eins og greinir í framangreindu skjali. Bæði stefnandi og Þórður Bachmann báru um það við aðalmeðferð málsins að þeir hefðu hist á fundi 1. júlí 2007 og er óumdeilt að skjalið er ritað af Þórði á þeim fundi. Er jafnframt óumdeilt, að Þórður fyllti út í eyður, sem gerðar höfðu verið í hinum prentaða texta og lutu að því í hversu marga mánuði stefnandi ætti að þiggja 500.000 króna mánaðarlaun eftir starfslok og fram til hvaða tíma. Skjalið ber það með sér samkvæmt efni sínu að vera uppsagnarbréf stefnanda en hins vegar verður jafnframt að fallast á það með stefnanda, að skjalið sjálft og það, sem hér hefur verið rakið um útfyllingu þess, leiði líkur að því, að í skjalinu hafi einnig falist einhvers konar samkomulag milli þeirra stefnanda og Þórðar um kjör stefnanda við starfslok. Gegn eindreginni neitun af hálfu stefnda verður hins vegar ekki byggt á þeirri fullyrðingu stefnanda að stefnanda hafi verið sagt upp störfum fyrirvaralaust á fundi þeirra Þórðar 21. ágúst 2007. Er ekkert komið fram í málinu að öðru leyti sem styður þá fullyrðingu stefnanda.
Af hálfu stefnanda er viðurkennt að ekki hafi verið gerður reki að því að innheimta vangreidd laun fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, sem dagsett er 12. febrúar 2008, þegar að minnsta kosti rúmir fjórir mánuðir voru liðnir frá því stefnandi taldi fyrri launagreiðsluna komna í vanskil. Verður að miða við þá dagsetningu innheimtunnar þótt fullyrt hafi verið af hálfu stefnda, að bréfið hafi aldrei borist stefnda eða fyrirsvarsmönnum hans. Samkvæmt gögnum málsins virðist framangreint innheimtubréf vera eina tilraunin, sem gerð var til innheimtu umstefndrar kröfu, þar til mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 11. desember 2009. Þá hefur stefnandi sjálfur borið á þá leið, að hin vangreiddu laun hafi aldrei borið á góma við samningaviðræður vegna kaupa Þórðar Bachmann og Hafsteins Häsler á hlut stefnanda í stefnda sem lauk með undirritun kaupsamnings og sjálfsskuldaábyrgðaryfirlýsingar 3. júní 2008. Í sjálfsskuldarábyrgðaryfirlýsingunni kemur fram, að aðilar staðfesti að samkomulag þetta, ásamt kaupsamningi um hlutafé, skuli marka endi á lögskiptum þeirra í millum í tengslum við eignatengsl þeirra í Bryggjuhúsinu. Þá verður einnig að líta til stöðu stefnanda sem eiganda að hlut í stefnda þegar samningaviðræður fóru fram um framangreind kaup vorið 2008. Er það mat dómsins að staða stefnanda sem meðeiganda að stefnda hafi gefið honum aukið tilefni til þess að halda launakröfu sinni fram við samningaviðræðurnar við meðeigendur sína. Að öllu framanrituðu virtu, er það niðurstaða dómsins að telja verði að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti um að halda fram rétti sínum til launa fyrir september og október 2007 að það varði hann réttindamissi. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að líta til undantekningarreglu 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og ákveða að hvor aðili beri sinn hluta af málinu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DómsorÐ:
Stefndi, Grillhúsið ehf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Arnar Guðmundssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.