Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2016

A (Oddgeir Einarsson hrl.)
gegn
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Barnavernd
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn

Reifun

Með vísan til forsendna staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að A skyldi svipt forsjá þriggja dætra sinna á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í forsjárhæfnismati sem lá fyrir í málinu kom meðal annars fram að A var ekki talin hæf til að fara með forsjá dætra sinna og að ótvírætt var að öryggi og þroska þeirra yrði ekki borgið á heimili hennar. Þá var talið einsýnt að þær leiðir sem líklegastar voru taldar til að skila árangri hefðu verið notaðar og tæmdar, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 2016. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 700.000 krónur.    

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2016

Mál þetta var höfðað 17. desember 2015 og dómtekið 15. janúar 2016.

Stefnandi er barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

 Stefndi er A, [...], Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefnda, A, verði svipt forsjá dætra sinna, B, fæddrar 2002, C, fæddrar 2005 og D, fæddrar 2009, sem nú eru vistaðar á heimili á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda málskostnaðar.

Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga um meðferð einkamála, sbr. fyrirmæli 53. gr. b í barnaverndarlögum nr. 80/2002.

I.

Málavextir

                Með úrskurði stefnanda barnaverndar Reykjavíkur frá 23. júní 2015 var ákveðið á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að B 12 ára, C 10 ára og D 5 ára, dætur stefndu, yrðu vistaðar á heimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði frá þeim degi að telja. Með vísan til ofangreinds ákvæðis svo og 1. mgr. 28. gr. laganna  krafðist stefnandi framlengingar vistunarinnar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til 23. desember 2015. Féllst dómurinn á kröfu stefnanda með úrskurði sínum 28. september 2015. Telpurnar voru í kjölfarið vistaðar á Vistheimili barna en hafa dvalist hjá fósturforeldrum síðan 7. júlí 2015.

Telpurnar lúta forsjá stefndu A. Stefnda var í sambandi við barnsföður sinn um nokkurt skeið en var einstæð móðir allt frá því að elsta dóttir þeirra fæddist. Árið 2004 flutti sonur hennar, fæddur 1994 og ekki samfeðra við dæturnar, til foreldra hennar og hefur hann búið þar síðan. Barnsfaðir stefndu var um skamman tíma í umgengni við B en kaus að gefa umgengnina eftir, að eigin sögn, vegna samskiptavanda hans og stefndu. Stefnda hefur um allnokkurt skeið búið ásamt dætrum sínum í þriggja herbergja íbúð í hennar eigu að [...]. Atvinnusaga hennar er ekki samfelld. Hún var síðast í hlutastarfi en fær nú fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera. Hún kveðst hins vegar vera í virkri atvinnuleit.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafði fyrst afskipti af málefnum eldri telpnanna í maí 2008 en tildrög þess var nafnlaus tilkynning þar sem lýst var áhyggjum af velferð þeirra í umsjá stefndu en talið var að hún beitti þær harðræði og andlegu ofbeldi. Tilkynningar af sama meiði höfðu borist frá leikskóla, nágrönnum og aðstandendum. Af gögnum má jafnframt sjá að stefnda leitaði fjárhagsaðstoðar á þessum tíma til þjónustumiðstöðvar [...] en fékk synjun þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði hennar.

Í kjölfar tilkynningarinnar var gerð könnun í samræmi við barnaverndarlög. Í samtali við stefndu kom í ljós að hún byggi ein en hefði verið undir miklu álagi enda að mestu séð ein um telpurnar. Af gögnum frá leikskóla mátti sjá ákveðnar vísbendingar um að telpurnar væru á eftir í þroska. Ekki þótti ástæða til frekari afskipta og lauk málinu eftir könnun í október 2008.

Fjórar nafnlausar tilkynningar bárust Barnavernd Reykjavíkur á árinu 2010 þar sem lýst var áhyggjum af telpunum. Kom m.a. fram að stefnda öskraði mikið á þær og að sérþörfum þeirrar elstu, B, væri ekki sinnt. Gerðar voru kannanir sem leiddu í ljós að stefnda átti fullt í fangi með telpurnar en sú yngsta var þá fædd. B hafði verið greind með væga þroskahömlun og fékk sérkennslu í skóla. Óskað var eftir stuðningi við heimilið frá þjónustumiðstöð, m.a. tilsjón, og var málinu þannig lokið í apríl 2011.

Enn barst tilkynning til stefnanda í september 2011 þar sem lýst var áhyggjum af telpunum í umsjá stefndu. Á meðferðarfundi í desember 2011 var vísað til þess að samtals 11 tilkynningar hefðu borist frá árinu 2008. Fram kom að stefnda felldi sig tímabundið við tilsjón inn á heimilið en auk þess hefði hún fengið stuðning inni á heimilinu, úrræðið Ráðgjafinn heim, undanfarna 6 mánuði. Fram kom að telpurnar væru krefjandi og uppeldi þeirra vandasamt. Taldi hún sig ekki hafa þörf fyrir stuðningsfjölskyldu. Lagt var til að gerð yrði meðferðaráætlun, m.a. að sótt yrði um úrræðið Greining og ráðgjöf heim, í því skyni að greina aðstæður telpnanna og styðja móðurina við uppeldið. Stefnda samþykkti fyrstu meðferðaráætlunina í febrúar 2012.

Í skýrslu Greiningar og ráðgjafar heim frá 12. nóvember 2012 segir að samtals 14 heimsóknir hafi verið farnar á heimili mæðgnanna en markmið þeirra var að meta uppeldishæfni stefndu, veita henni ráðgjöf og stuðning og leitast við að greina orsök tilkynninga um samskiptaerfiðleika á heimilinu. Fram kemur að stefnda eigi í nokkrum erfiðleikum með skipulag á heimilinu en því er lýst sem „kaótísku“ en þó ekki óhreinu. Hvað uppeldi telpnanna varði virtist hún eiga erfitt með að setja þeim mörk og bar því á óhlýðni í hennar garð. Þá bar á erfiðleikum stefndu við að aðstoða telpurnar við heimanám. Sérstaklega er getið um reiðiköst C sem stefnda réð illa við. Í skýrslunni er rakinn sá stuðningur sem stefndu var veittur og fólst í aðstoð við að gera áætlanir í því skyni að koma á reglu og umgjörð um daglegt líf telpnanna. Aðstoð var veitt við að koma á umbunarkerfi, kerfi tengt útivistartíma, auk þess sem stefnda gaf í lok tímabilsins heimild til að hafa samband við skóla í því skyni að fá aukna aðstoð fyrir eldri telpurnar. Tekið var fram að ítrekað hefði verið stungið upp á stuðningsfjölskyldu fyrir stefndu en hún hafi alltaf afþakkað. Þá hafi ráðgjafar ekki náð að virkja stuðning fjölskyldu og vina stefndu þar sem hún hafi ekki viljað að þau yrðu upplýst um stöðu mála. Vísað var til þess að samkvæmt upplýsingum frá skóla stæðu eldri telpurnar illa, bæði námslega og í félagslegu tilliti. Ljóst væri að þær drægjust aftur úr jafnöldum sínum og að stefnda ætti í einhverjum vandræðum með heimanám B. Fram kom að stefnda væri í mikilli vörn gagnvart ráðgjöf og hafi ekki gengið sérlega vel að nýta sér þau úrræði sem reynd hafi verið, svo sem að fylgja eftir áætlunum. Ljóst væri að hún væri hjálpar þurfi þegar kæmi að uppeldi telpnanna en hún réttlætti vankantana. Tekið er fram að stefnda sé mörgum kostum búin, sé jákvæð og drífandi. Hún hafi áhuga á að halda heimili og ekki skorti mat né aðbúnað fyrir telpurnar. 

Í niðurlagi skýrslunnar er að finna ráðleggingar sem felast í því að leitast verði við að gera stefndu betur grein fyrir alvarleika hegðunar C og ástandi heimilisins, sem einkennist af óreiðu og óreglu. Í því sambandi voru lögð til ýmis úrræði. Í endurnýjaðri meðferðaráætlun frá desember 2012 var m.a. gert ráð fyrir því að úrræðinu Greining- og ráðgjöf heim yrði fylgt eftir. Í skýrslu þeirra frá 19. mars 2013 kemur fram að frá því að síðasta skýrsla var rituð hafi verið farnar 4 heimsóknir á heimili stefndu en 5 hafi verið afboðaðar af hennar hálfu. Efni skýrslunnar er í meginatriðum það sama og í þeirri fyrri. Samkvæmt upplýsingum frá frístundaheimili C hafði ítrekað sést til stefndu er hún beitti C harðræði og mátti ljóst vera að telpan óttaðist viðbrögð hennar. Í niðurlagi skýrslunnar er enn bent á að erfitt reynist að fá stefndu til samstarfs, sömu vandamál séu uppi á teningnum. Lögð er til vistun mæðgnanna á Vistheimili barna til þess að unnt sé að fylgjast betur með viðbrögðum stefndu við hegðun telpnanna.

Á meðferðarfundi hjá Barnavernd Reykjavíkur 4. apríl 2013 var farið yfir málefni mæðgnanna. Stuðningur hafi verið veittur á heimilinu, stefnda hefði auk þess samþykkt óboðað eftirlit á heimilið. Eldri telpurnar fengju aukna aðstoð við nám í skólanum og voru haldnir fundir í skólanum um málefni þeirra. Þó hefði ekkert lát orðið á tilkynningum þar sem áhyggjum var lýst af velferð telpnanna í umsjá móður. Hefðu samtals sjö tilkynningar borist eftir að meðferðaráætlun var fyrst gerð. Ákveðið var að fylgja eftir tillögum um vistun telpna á Vistheimili barna en vegna plássleysis var þeim fyrirætlunum frestað til haustsins. Í meðferðaráætlun frá 17. apríl 2013 var vísað í umsókn á Vistheimili barna og að lagt yrði forsjárhæfnismat á stefndu. Markmið áætlunarinnar sé að tryggja aðstæður telpnanna í umsjá móður, greina styrkleika og veikleika móður sem uppalanda og veita móður leiðbeiningar í uppeldishlutverki. Í meðferðaráætlun frá 5. júní 2013 var m.a. mælt fyrir um óboðað eftirlit á heimili stefndu og að greitt yrði fyrir telpurnar á sumarnámskeið. Stefnda dró hins vegar til baka samþykki sitt varðandi óboðað eftirlit.

Þann 9. september 2013 voru telpurnar í samræmi við ofangreint vistaðar á Vistheimili barna sem lauk 20. september 2013 en þá dró stefnda samþykki sitt til baka. Almennt er greiningar- og kennsluvistun á Vistheimili barna um 6‒8 vikna löng. Í greinargerð frá meðferðaraðilum vistunarheimilisins kemur fram að tilgangur dvalarinnar væri sá að ná stjórn á telpunum og nálgast þær á rólegri hátt. Jafnframt segir að stefnda hafi frá upphafi verið ósátt við dvölina á heimilinu og því verið vör um sig. Erfitt hafi verið að nálgast hana með leiðbeiningum þar sem hún hafi upplifað umræðu um þær mæðgur sem „árás“ á sig. Fram kemur að hún hafi í samræðum sínum við telpurnar og hegðun látið þær axla ábyrgð á veru þeirra á heimilinu og vanlíðan hennar. Hún hafi ekki náð að setja telpunum viðeigandi ramma í uppeldinu, hana hafi skort þolinmæði og ekki gefið skýr skilaboð sem fylgt hafi verið eftir. Tekið er fram að telpurnar hafi góða getu til að falla inn í slíkan ramma sé hann til staðar. Þá virtist hún ekki hafa getu til að fylgja heimanámi telpnanna eftir með skipulagi og aðstoð. Henni til tekna er nefnt að hún hafi gætt vel að umhirðu telpnanna og hafi þær verið hreinar og í fínum fötum.

Stefnda samþykkti þegar hér er komið sögu ekki frekari aðstoð frá Greiningu og ráðgjöf heim en samþykkti að fá tilsjónaraðila á heimilið frá þjónustumiðstöð. Í meðferðaráætlun frá 4. október 2013 voru þau markmið sett að greina styrkleika og veikleika móður sem uppalanda og veita móður leiðbeiningar í uppeldishlutverki. Var ákveðið til viðbótar við ofangreint að sækja um PMT námskeið (parent management training) fyrir stefndu hjá þjónustumiðstöð og skoða tómstundaúrræði fyrir telpurnar í samráði við stefndu, auk þess sem sótt yrði um aðstoð við heimanám fyrir þær í [...].

Forsjárhæfnismat E sálfræðings lá fyrir 3. janúar 2014. Þar kemur fram að heildartala greindar stefndu mælist 65 stig sem er á stigi vægrar þroskaskerðingar. Sú tala sé hins vegar sett fram með fyrirvara þar sem misþroski mældist á prófinu. Með 95% vissu megi segja að raunveruleg greindartala sé á bilinu 62-70 stig en um 1% jafnaldra mælist með sömu tölu eða lægri. Málfarslega mældist hún á tornæmisstigi sem valdi því að hún eigi erfitt með allan almennan skilning og að tengja saman hluti og aðstæður. Verkleg greind mældist á stigi vægrar greindarskerðingar og sýndi stefnda því þroskamynstur sem benti til óyrtra námserfiðleika en þekkt mun vera að einstaklingar með slík þroskamynstur eigi við erfiðleika að stríða í samskiptum og hegðun. Eigi stefnda því í raunverulegum erfiðleikum með allan skilning, bæði á verkefnum og vinnu, námi, sem og í félagslegum samskiptum. Þetta skýri einnig vanskilning stefndu á ástæðum afskipta barnaverndaryfirvalda og tilganginn með forsjárhæfnismatinu. Engin geðræn einkenni komi fram í viðtölum eða við skoðun og var því ekki talin þörf á sértækri meðferð fyrir hana að því leyti. Hins vegar sé ljóst að hún þurfi töluverðan stuðning við umönnun stúlknanna en þær séu krefjandi vegna þroskafrávika og hegðunarerfiðleika. Bendir sálfræðingurinn á að áfram muni koma upp aðstæður í umönnun telpnanna og í tengslum við hegðun og nám sem stefnda geti átt erfitt með að skilja. Hún geti þá í vanmætti sínum brugðist við með því að öskra á telpurnar eins og fram hafi komið í tilkynningum til Barnaverndar. Slíkt orsakist af vanlíðan þegar hún standi frammi fyrir torskildum aðstæðum. Enn fremur sé hún undanlátssöm við telpurnar og geti illa haldið reglu á heimilinu. Í skýrslunni segir jafnframt að ýmsa styrkleika sé að finna hjá stefndu í tengslum við uppeldi telpnanna. Hún sé natin við þær og þolinmóð að sinna þeim þegar þær eru þægar. Hún sjái til þess að þær séu hreinar og fínar eins og umsagnir skóla staðfesti. Þá fái þær nægan mat og praktískir hlutir séu í lagi. Við skoðun virtust þær vel tengdar stefndu og hún veita þeim umhyggju og tilfinningalega nánd. Telur sálfræðingurinn vissa hættu á hegðunarfrávikum hjá telpunum til lengri tíma vegna vangetu stefndu við að setja þeim mörk.

Sálfræðingurinn telur lengri stuðning við stefndu óumflýjanlegan, bæði varðandi nám telpnanna og uppeldi. Ljóst sé að ráðgjöf við stefndu hafi gengið illa og skýrist það af þroskastöðu hennar og skilningi á aðferðum en einnig af því að hún sé stolt kona og hafi því verið í mikilli vörn gagnvart ráðgjöf annarra. Virðist hún ofmeta sig sem uppalanda. Bendir sálfræðingurinn á leiðir sem gætu talist vænlegar til árangurs við að bæta úr þessum vanköntum. Taldi hann stefndu hafa sýnt að hún gæti verið til samvinnu og nýtt sér aðstoð sem henni væri boðin næðist að vinna traust hennar.

Ný meðferðaráætlun var gerð 3. febrúar 2014 sem tók mið af ofangreindu mati og lögð áhersla á langtímastuðning við hæfi í formi tilsjónar á heimili stefndu. Þá yrði aðstoð tengd heimanámi telpnanna aukin, svo og fjárhagsaðstoð tengd skóla.

Á meðferðarfundi 19. júní 2014 var farið yfir málefni stefndu og var áframhaldandi stuðningur talin forsenda þess að móðir teldist nægilega hæf til að fara með forsjá telpnanna. Áfram yrði haft eftirlit með hennar málum og í tengslum við veittan stuðning. Tilsjónaraðili hafði verið á heimili stefndu frá því í október 2013 og henni veittur stuðningur við dætur sínar. Fram kom að stefnda hefði ekki nýtt sér PMT námskeiðið sem skyldi og ekki mætt vel í meðferðina. Í ljósi þess sem fram kom í forsjárhæfnismati um greind stefndu og að hún gæti átt í erfiðleikum með að tileinka sér sértækar uppeldisaðferðir án stuðnings og persónulegrar ráðgjafar var litið svo á að rétt væri að draga til baka umsókn um PMT. Þess í stað var ákveðið að tilsjónaraðili myndi veita stefndu stuðning og handleiðslu varðandi telpurnar. Vegna áframhaldandi tilkynninga til Barnaverndar um öskur á telpurnar var ákveðið að tilsjónaraðili myndi sérstaklega vinna að því að leiðbeina móður um hvernig takast mætti á við erfiðar aðstæður. Vísað er til þess að málefni telpnanna væru í farvegi samkvæmt upplýsingum frá skóla og leikskóla þó ljóst væri að skerpa þyrfti á ákveðnum atriðum svo sem mætingu og erfiðleikum þeirra við að lesa úr félagslegum aðstæðum. Að mestu væri unnið að heimanámi í skólanum. Fjárhagsaðstoð yrði við haldið en fram kom að móðir hefði ekki nýtt sér aðstoð við greiðslu fyrir tómstundastarf telpnanna. Í kjölfarið var ákveðið að málinu yrði lokið á grundvelli barnaverndarlaga og fylgt eftir á þjónustumiðstöð.

Á meðferðarfundi 27. nóvember 2014 var farið yfir málefni stefndu og telpnanna að nýju. Í viðtali við móður kom fram að B, elsta dóttir hennar, virti ekki fyrirmæli auk þess sem meira bæri á reiðivanda C. Illa gengi að fá þær til að virða reglur svo sem um útivist og svefntíma. Fram kemur að 24 tilkynningar hafi borist frá árinu 2010 þar sem áhyggjum var lýst yfir aðstæðum telpnanna. Sú síðasta hafi komið frá móðurömmu þeirra. Var það mat Barnaverndar Reykjavíkur að þrátt fyrir langtímastuðning inni á heimili hafi stefnda ekki nægilegt innsæi í þann vanda sem hún stæði frammi fyrir. Hún hafi m.a. verið mótfallin áframhaldandi afskiptum Barnaverndar. Var talið ljóst að nú þyrfti hún sérhæft úrræði til að geta nýtt aðstoð. Var því lagt til að gerð yrði ný meðferðaráætlun þar sem úrræðinu Ylfa yrði komið á tímabundið. Um er að ræða sérhæfða félagsþjónustu sem stýrt er af þroskaþjálfum, ætlaða foreldrum sem þurfa sérstaklega á þjálfun í uppeldisfærni að halda. Áfram kæmi til stuðningur frá þjónustumiðstöð. Stefnda undirritaði meðferðaráætlunina 4. desember 2014.

Í skýrslu þroskaþjálfa á vegum Ylfu frá 12. febrúar 2015 kemur fram að þjónustan hafi staðið yfir í tvo mánuði og hafi miðað að því að veita stefndu aðstoð, m.a. við svefntíma dætra sinna, símanotkun elstu dótturinnar á næturnar, heimilishald og heimanám. Er því lýst hvernig notað hafi verið umbunarkerfi fyrir telpurnar og hvernig þeim eldri hafi verið sett mörk. Stefnda hafi hins vegar ekki ráðið við umbunarkerfið en telpunum hafi líkað það vel og því hafi starfsmenn haldið því við. Mikil þörf hafi verið á því að vinna með samskipti milli mæðgnanna og sé ljóst að stefnda eigi erfitt með einbeitingu. Virtist hún hafa litla innsýn í þarfir telpnanna. Lýst er áhyggjum yfir samskiptum B og stefndu en stefnda virtist ekki mæta þörfum hennar. Talið var nauðsynlegt að heimsóknir héldu áfram frá 19:45 til 21:15 og jafnvel lengur. Talið er nauðsynlegt að þróa umbunarkerfi áfram og huga að þörfum B.

Á meðferðarfundi 12. mars 2015 var farið yfir það sem gerst hafði í málefnum mæðgnanna. Sótt hafði verið um tilsjón fyrir stefndu og persónulegan stuðning fyrir B. Þá var ákveðið að halda áfram aðstoð Ylfu við heimili mæðgnanna auk þess sem úrræðið Stuðningurinn heim yrði tímabundið nýtt samhliða. Þá var lagt til að sótt yrði um eina helgi í mánuði í Vinasetri fyrir telpurnar. Undirritaði stefnda meðferðaráætlun 24. mars 2015. Ákveðið var á meðferðarfundi 11. maí 2015 að sótt yrði um sveitadvöl fyrir B um sumarið og aukahelgi í Vinasetri að því loknu. Auk þess yrði sótt um úrræðið Tröð fyrir hana.

Í skýrslu Ylfu frá 18. maí 2015, sem rituð var eftir fimm mánaða stuðning við heimilið, kemur fram að vel hafi gengið að ná til mæðgnanna. Árangur hafi náðst þegar stuðningur var fyrir hendi en þegar dregið var úr honum hafi horft til verri vegar. Er það skoðun skýrsluritara að aðstæður telpnanna séu ekki góðar „en þó misslæmar“. Enn eru áhyggjur mestar af B og sagt að samskipti á milli hennar og stefndu séu slæm. Stefnda sé ófær um skilja þarfir hennar og sé það raunar svo að B leiti ekki til hennar með vandamál sín. Fái B hvorki vasapeninga né strætómiða og það þó gengið hafi verið eftir því af hálfu starfsmanna Ylfu. Sé ástæðan ekki sú að stefndu skorti fjárráð. Þá sjái hún henni ekki fyrir nauðsynjum og er nefnt sem dæmi að B hafi ítrekað beðið hana um brjóstahaldara. Þess í stað kaupi stefnda föt fyrir hana sem hæfi ekki hennar aldri. Fram kemur að B hafi leitað til starfsmanna Ylfu og tjáð þeim að sér liði það illa bæði heima og í skólanum að hún vildi ekki lifa lengur. Ljóst sé að hún sé illa stödd félagslega og telji sig verða fyrir einelti í skólanum. Stefnda hafi tekið fyrir að B fengi sumardvöl og fram kom að hún hefði aðeins farið einu sinni í Vinasetur. Einnig hafi komið fram að samskipti væru stirð á milli stefndu og móður hennar og hefði B því haft minni samskipti við hana en áður. Í niðurlagi skýrslunnar segir að nauðsynlegt sé að stuðla að gæðastundum fyrir B og komi starfsmenn Ylfu til með að hitta hana eina einu sinni í viku. Talið er fullreynt að ræða við stefndu en nauðsynlegt sé að halda áfram heimsóknum á heimilið til að stuðla að gæðastundum með telpunum. Nauðsynlegt væri líka að víka út reynsluheim þeirra utan heimilis. Heppilegast væri að þeirra mati að B dveldi annars staðar.

Á meðferðarfundi 1. júní 2015 var vísað í fund með þeim aðilum sem komu að aðstoð við stefndu, þ.e. þjónustumiðstöð, Ylfu og Stuðningnum heim. Fram kom að stefnda afþakkaði stuðning reglulega og nú hafni hún frekari stuðningi frá Ylfu og fyrir B frá þjónustumiðstöð. Þá afþakkaði hún sumarúrræði og tómstundastarf fyrir hana. Fram kemur að talið sé að ekki verði við það unað að stefnda hafni hvað eftir annað stuðningsúrræðum við telpurnar og sé ljóst að líðan telpnanna sé ekki góð og fari versnandi eftir því sem þroski þeirra aukist. Þá sé ljóst að sá stuðningur er stefnda fær skili takmörkuðum árangri. Lagt var til að telpurnar yrðu vistaðar tímabundið utan heimilis og að stefnda gangist undir nýtt forsjárhæfnismat.

Í lokaskýrslu Ylfu frá 10. júní 2015 kemur fram að stuðningi við heimili stefndu hafi verið hætt vegna erfiðleika við að fá stefndu til frekara samstarfs. Hafi hún einnig hafnað því að starfsmenn Ylfu fengju að hitta B áfram. Vísað er í upplýsingar frá skóla um B og C þar sem fram hafi komið þungar áhyggjur af aðstæðum þeirra. Sé það mat starfsmanna Ylfu að stefnda ráði ekki við að veita dætrum sínum viðunandi uppeldisskilyrði. Ekki er fundið að ytri aðbúnaði telpnanna en samverustundir einkennist af forsendum stefndu og samskipti séu neikvæð. Ráði stefnda ekki við að styðja dæturnar þegar eitthvað bjátar á og hafi ekki innsýn í þarfir þeirra. Sé efast um hæfni stefndu til að takast á við uppeldi telpnanna og þungar áhyggjur séu af þeim.

Í lokaskýrslu Stuðningurinn heim frá 11. júní 2015 kemur fram að heimsóknir hafi verið 20 á tímabilinu 23. febrúar 2015 til 1. júní 2015. Fjögur skipti hafi fallið niður en stefnda hafi þá afboðað eða ekki verið heima. Markmið heimsóknanna hafi verið að aðstoða stefndu í uppeldishlutverki sínu og við að setja dætrum sínum mörk, gefa þeim fyrirmæli o.sv.frv. Fram kemur í skýrslunni að á tímabilinu hafi stefnda ekki verið sérlega móttækileg fyrir leiðbeiningum. Ljóst sé að henni þyki vænt um dætur sínar og vilji þeim vel. Ytri umgjörð sé í lagi og fjárráð en hana skorti skilning á hvernig best væri að nýta peningana. Skorti hana innsýn í þarfir þeirra og hún eigi erfitt með að sýna þeim skilning og setja þeim þau mörk sem þær þurfa. Telja skýrsluritarar ljóst að hún muni þurfa áframhaldandi stuðning í uppeldishlutverkinu í framtíðinni.

Eins og rakið var í upphafi var málið lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur með tillögu um vistun telpnanna utan heimilis. Stefnda var ekki fús til þess að samþykkja þá tillögu og úrskurðaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur þann 23. júní 2015 um vistun telpnanna í tvo mánuði sem síðar var framlengd um fjóra mánuði, þ.e. allt til 23. desember sl. með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. september 2015.

Þann 29. júní 2015 samþykkti stefnda meðferðaráætlun en tilgangur hennar var að gera endurmat á forsjárhæfni stefndu m.t.t. stuðnings þar sem fyrri tilraunir hefðu ekki skilað tilætluðum árangri og að veita telpunum stuðning miðað við þarfir þeirra með það að markmiði að bæta líðan þeirra. Þennan sama dag komu telpurnar með móður sinni á vistheimilið og hittu hana þar eftir samkomulagi í 2‒3 klst. í senn. Í málinu er að finna greinargerð starfsmanna heimilisins, dagsetta 15. júlí 2015, þar sem rakin er tilhögun og framkvæmd vistunar, samskipti stefndu við telpurnar og við starfsmenn og hvernig staðið var að fósturaðlögun.

Stefnda undirritaði samning um umgengni og símatíma við telpurnar 7. júlí 2015, þann dag er þær fluttu á fósturheimili í [...], en gildistími samningsins var til 1. september 2015. Kvað hann á um dvöl aðra hverja helgi á heimili stefndu og tvö símtöl á viku, þá viku sem þær dveldu ekki hjá henni. Eftir að talsmaður hafði rætt við B var ákveðið að draga úr umgengni stefndu við hana. Á meðferðarfundi 1. október 2015 var tekin ákvörðun um að lagt yrði til við barnaverndarnefnd að dregið yrði enn frekar úr umgengni stefndu við telpurnar. Ástæðan var vanlíðan telpnanna eftir símtöl við stefndu. Þá hafi þess gætt að vantraust stefndu í garð fósturforeldra hafi haft áhrif á líðan telpnanna og valdið togstreitu hjá þeim. Einnig kom fram að stefnda hefði verið í samskiptum við einstaklinga á heimili sínu á meðan umgengni stóð þrátt fyrir að telpurnar væru því mótfallnar. Þessu til stuðnings var vísað til gagna máls og tilkynninga til Barnaverndar Reykjavíkur. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðaði um umgengnina þann 13. október 2015, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og var ákveðið í samræmi við tillögur Barnaverndar Reykjavíkur að umgengni yrði aðra hverja viku tvo tíma í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar og klukkustund einu sinni í viku þegar umgengni lægi niðri. Lagt var til að símtöl við telpurnar yrðu felld niður. Fram kemur í úrskurðinum að það þjóni hagsmunum telpnanna best að umgengni við móður, á meðan á vistun þeirra utan heimilis standi, verði háttað á þann veg að hún valdi þeim ekki vanlíðan og áhyggjum og aðstæður telpnanna í umgengni séu tryggðar. 

Á meðferðarfundi 21. ágúst 2015 var lagt til að brýnir hagsmunir telpnanna mæltu með því að þær færu í [...] í [...] þá um haustið. Yngsta telpan væri að hefja skólagöngu sína nú. Talið var að kostur væri að hafa skólann nálægt fósturheimili. Afstaða telpnanna væri skýr um að þær vildu skipta um skóla en stefnda var því mótfallin. Þá var ákveðið á meðferðarfundi 9. desember 2015 að umgengni yrði einu sinni í mánuði í tvo tíma í senn undir eftirliti í húsnæði barnaverndarnefndar. Telpurnar dvöldu hjá afa sínum og ömmu, foreldrum stefndu, frá kl. 12:00 á aðfangadag til kl. 14:00 á jóladag ásamt stefndu og liggur ekki annað fyrir en að sú umgengni hafi gengið vel.

Á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur þann 12. nóvember 2015 var lagt til að farið yrði fram á forsjársviptingu fallist stefnda ekki á að afsala sér forsjá telpnanna. Í greinargerð sem lögð var fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur kemur m.a. fram að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og telpnanna sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Vísað er til skýrslu sálfræðings og úrræðisins Ylfa um að stuðningur sé fullreyndur og að frekari úrræði megni ekki að bæta aðstæður telpnanna og forsjárhæfni stefndu.

Á fundi Barnaverndar Reykjavíkur þann 24. nóvember 2015 mótmælti stefnda kröfu um forsjársviptingu og var borgarlögmanni þá falið, eftir yfirferð málsins, að fylgja henni eftir fyrir dómi eins og nú hefur verið gert.

Skýrsla E sálfræðings, þar sem forsjárhæfni stefndu var endurmetin, lá fyrir 3. nóvember 2015. Fram kemur að enn komi glögglega fram lítið innsæi stefndu í þarfir telpnanna og ofmat á eigin hæfileikum sem uppalanda. Þrátt fyrir að hafa fengið virkan stuðning inni á heimilinu eftir síðasta mat hafi hún átt í erfiðleikum við að taka á hegðun telpnanna og setja þeim mörk. Hafi hún brugðist við á sama hátt og áður, þ.e. með öskrum, eins og tilkynningar beri með sér. Þá sé stefnda mjög sjálfsmiðuð og geti ekki sett sig í spor telpnanna en líklegt sé að þroskastaða hennar hafi þar áhrif. Einnig hafi hún ákveðna persónueiginleika sem hafi hindrandi áhrif á gang úrræðis. Hafi hún á tímabilinu afþakkað bæði heimanámsaðstoð og félagsstarf fyrir þær, svo og unglingaráðgjafa fyrir elstu dótturina. Þrátt fyrir viðamikinn stuðning í mörg ár hafi sú aðstoð lítinn sem engan árangur borið og það jafnvel þó að til hafi komið stuðningur Ylfu sem hafi tekið sérstakt tillit til þroskastöðu hennar. Er það mat sálfræðingsins að staða stefndu sé verri í dag en fyrir síðasta mat og að stuðningur við hana sé fullreyndur. Telur hann hana, þrátt fyrir ákveðna styrkleika, hvorki hafa nægilega né nauðsynlega hæfni til að fara með forsjá dætra sinna. Telur hann velferð og þroska þeirra ekki tryggða í umsjá hennar. Sérþarfir þeirra knýi á meiri stuðning og aðhald en almennt gerist og um leið reyni meira á getu stefndu á fjölþættum sviðum. Telur sálfræðingur stefndu ekki geta stutt dætur sínar til þess að ná árangri eða stöðugleika varðandi hina ýmsu þætti. Ljóst sé að allar hafi þær mismunandi þarfir.

Aðspurður um mögulega þörf stefndu fyrir meðferð og/eða stuðningsúrræði telur sálfræðingurinn hana ekki hafa þörf fyrir frekari stuðning í persónulegu lífi. Hvað varði stuðningsúrræði í uppeldislegu tilliti telur matsmaður þau úrræði fullreynd og setur því ekki fram frekari tillögur.

Sálfræðingur kveður sterk tengsl vera til staðar á milli stefndu og telpnanna en efasemdir séu um gæði þeirra tengsla enda séu þarfir stefndu í forgrunni. Mest virðist tengslin vera við yngstu telpuna eins og sakir standa enda reyni eldri telpurnar meira á hana.

Verður að lokum vikið að helstu upplýsingum um stöðu telpnanna samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Fyrstu upplýsingar eru frá þjónustumiðstöð [...] frá maí 2008 en sagt er að áhyggjur hafi vaknað á samráðsfundi á leikskólanum vegna gruns um þroskaseinkun C. Upplýsinga var aflað í tengslum við könnun frá 29. október 2008 sem áður er lýst. Kom þá fram hjá stefndu að C væri afar krefjandi en B, sú eldri, væri í talþjálfun og stefnt að greiningu eftir tvö ár. Samræmdist þetta upplýsingum frá leikskóla telpnanna en þar segir m.a. um C að fljótlega hafi komið í ljós að einbeiting væri mjög stutt og málþroski lélegur en móðir hafi ekki verið því sammála. Hún hafi þó fallist á að senda erindi til þjónustumiðstöðvar vegna málþroskamats. B eigi erfitt með ákveðin hljóð og oft sé erfitt að skilja hana. Hún hafi tekið miklum framförum, en hún hafi fengið sérkennslu. Stefnda hafi þó verið þess fullviss um að telpan myndi ekki þurfa á eins mikilli aðstoð í skólanum og kennarar bentu á.

B fór í greiningu á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins í febrúar 2010. Hún var þá í 2. bekk í [...] en m.a. var grunur um þroskahömlun. Vísað var til tveggja sálfræðiathugana þar sem greindartölur komu út á mörkum þroskahömlunar og tornæmis. Samkvæmt niðurstöðum var hún greind með væga þroskahömlun, athyglisbrest og álag tengt félagslegum aðstæðum. Mælt var með markvissum sérstuðningi og sérkennslu í skólanum með einstaklingsmiðaðri námskrá og áframhaldandi iðjuþjálfun, auk þess sem huga þyrfti að talþjálfun fyrir telpuna.

Samkvæmt upplýsingum frá skóla frá maí 2010 kemur fram að B hafi tekið miklum framförum námslega en sé þó töluvert á eftir sínum jafnöldrum á því sviði svo og á því félagslega. Hún lendi í útistöðum við telpurnar í árganginum en hafi fengið aðstoð með félagsfærniaðlögun. Samkvæmt upplýsingum frá október 2011 kemur fram að námsleg staða hennar sé slök og hún eigi í erfiðleikum í félagslegum samskiptum. Í janúar 2013 kemur fram að erfið félagsleg samskipti virðist vera farin að hafa áhrif á B. Hún eigi ekki vinkonu en fái að vera með í leik. Þá sé hún slök í öllum námsþáttum. Einnig er tekið fram að stefnda hafi ýmist kvartað yfir of miklu eða of litlu heimanámi en í samráði við félagsráðgjafa hefði verið ákveðið að eina heimanám B væri heimalestur. Í júní 2015 komu fram upplýsingar um að oft gætti óróleika og pirrings hjá B. Hún hafi fengið leiðbeiningar um líkamlega umhirðu. Tekið er fram að hún hafi mætt 34 sinnum of seint á skólaárinu og verið 12 sinnum með fjarvistir þar sem fjölskyldan hafi sofið yfir sig. Námsleg staða hennar sé mjög slök og er rakin til greiningar hennar. Hún vinni samkvæmt einstaklingsnámskrá og reynt sé að koma til móts við þarfir hennar eins og kostur sé. Heimanám sé aðeins lestur sem þó hafi ekki tekist að fylgja nægilega vel eftir eins og þörf krefji. Þá kemur fram að B virðist leita félagsskapar út fyrir hverfið að skóla loknum. Hún sé með skólasystrum sínum í frímínútum en eigi ekki góða vinkonu í skólanum. B sé orðin frakkari í samskiptum við kennara og skólafélaga sem hafi útilokað hana á samfélagsmiðlunum. Tilvik hafi komið upp þar sem B hafi lent í vandræðum með samskipti á þeim vettvangi og hafi síminn verið tekinn af henni og geymdur í skólanum að beiðni móður. Lýst er yfir áhyggjum af velferð B og talið að efla þurfi utanumhald og stuðning við hana. Sá stuðningur sem veittur hafi verið inn á heimilið sé talinn algert lágmarksúrræði.

Eins og áður segir fóru telpurnar allar í [...] um haustið. Í umsögn umsjónarkennara B frá október 2015 kemur fram að hún hafi eignast vinkonur í bekknum á fyrstu dögum skólans og sú vinátta hafi haldist innan og utan skóla. Hún sé ekki sterk námslega, en fylgi bekknum í alla tíma og fái námsefni við hæfi.

Telpurnar fóru hver um sig í tvö viðtöl til F, sálfræðings. Óskað var eftir mati hennar á líðan telpnanna og lá mat hennar fyrir 3. október 2015. Í niðurstöðum hennar vegna B kemur fram að hún reyndist þunglynd. Segir að þær niðurstöður séu í samræmi við klínískt mat og komi ekki á óvart miðað við það sem telpan hafi gengið í gegnum. Hún þurfi mikið á stuðningi og sjálfsstyrkingu að halda bæði vegna þess sem hún hafi gengið í gegnum heima en einnig vegna þess eineltis sem hún hafi orðið fyrir. Sjálfsmynd hennar sé slök. Á kvíðalista komi fram mikið stress, sérstaklega gagnvart námi. Einnig komi fram félagskvíði og erfiðleikar með félagshæfni og samskipti. Mælt er með því að skoða aðstæður hennar í skólanum til að minnka stressið í náminu.

B greindi sálfræðingi frá því að henni liði vel hjá fósturforeldrum en móðir öskri mikið á hana. Einnig kom fram að henni þætti ranglátt að þeim systrum væri kennt um hvernig komið væri því það væri „allt mömmu að kenna.“ Hún var ekki afdráttarlaus með búsetustað.

Samkvæmt upplýsingum leikskóla um C frá maí 2010 mun hún hafa fengið greiningu og var í samræmi við niðurstöðu hennar í sérkennslu hluta úr degi. Einnig var óskað eftir sérstakri ráðgjöf frá þjónustumiðstöð.

Samkvæmt upplýsingum frá [...] frá október 2011 kemur fram að námsleg staða hennar sé slök og hún eigi erfitt með að skilja leiðbeiningar. Hún fái sérkennslu sem hún oft geti ekki nýtt sér nægilega vel sökum mætinga. Félagslega eigi hún erfitt uppdráttar.

C fór í greiningu í nóvember 2012 en samkvæmt bréfi Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins kemur fram að grunur hafi verið um væga þroskahömlun. Einkenni athyglisbrests og ofvirkni hafi verið yfir viðmiðunarmörkum og áhyggjur af hegðun og mótþróa. Fagfólk frá Greiningarstöð hafi tekið þátt í teymisfundum og veitt ráðgjöf á meðan beðið var greiningar. Hafi henni verið vísað til barnalæknis á BUGL vegna ADHD-einkenna og hún sett á lyf vegna þeirra. Niðurstöður greiningar voru þær að hún væri með víðtæka erfiðleika á sviði vitsmunaþroska og greindist á mörkum þroskahömlunar og tornæmis. Auk þess var hún greind með álag tengt félagslegum aðstæðum. Mælt var m.a. með markvissri kennslu og sérkennslu í skóla. Mæta þyrfti námserfiðleikum hennar á uppbyggilegan hátt og veita stuðning varðandi félagslega aðlögun. Þá þyrfti hún aðstoð við heimanám. Einnig var mælt með hegðunarmótun og leiðbeiningum fyrir móður til að takast á við krefjandi þarfir og hegðun C og að þjónustumiðstöð kæmi þar til aðstoðar.

Í bréfi skólastjóra frá 19. febrúar 2014 og 22. október 2014 er því lýst hvernig kennslu C er háttað miðað við sérþarfir hennar. Hún standi ekki sterk námslega séð en sé dugleg að nýta aðstoð. Framfarir hafi orðið í félagslegum samskiptum en hún eigi enga bestu vinkonu. Í bréfi frá 4. desember 2014 er tekið fram að líðan hennar hafi breyst nokkuð undanfarnar vikur en hún sé daufari og virðist oftar þreytt. Þá hafi foreldrar barna lýst áhyggjum sínum af stöðu telpunnar í félagahópnum og því að hún hafi verið treg að fara heim til sín fyrr en seint og um síðir og tali mikið um að hún sé ein heima. Í bréfi frá 12. júní 2015 segir að undanfarið hafi borið á óöryggi og þráhyggjueinkennum hjá telpunni. Hún hafi kvartað undan stríðni og áreiti í formi SMS-skilaboða með niðrandi ummælum. Hún eigi þó vinkonur sem séu góðar við hana og standi með henni þegar á móti blási. Sjálf kvarti hún undan þreytu og þá hafi hún litla matarlyst. Námsleg staða hennar sé langt fyrir neðan meðallag miðað við jafnaldra nema í lestri og hún þurfi aðstoð í öllum námsgreinum. Farið sé að bera á uppgjöf í námi og hún farin að finna fyrir vanmætti. Lýst var áhyggjum af velferð C og talin þörf á að efla utanumhald og stuðning við hana. Stuðningur sem veittur hafi verið inni á heimilinu sé mjög mikilvægur.

Í umsögn umsjónarkennara C í [...] frá október 2015 kemur fram að C hafi verið óörugg í byrjun skólaárs og vör um sig. Úr því hafi þó dregið eftir því sem hún aðlagast umhverfinu en hún leiti enn eftir stuðningi og öryggi. Hún fái sérstaka námsaðstoð í skólanum og námsleg staða sé viðunandi. Hún eigi við greinilegan athyglisbrest að etja sem hafi áhrif á getu hennar til að halda sig að verki í náminu. Samskipti hafi gengið vel við samnemendur en hún eigi stundum erfitt með að lesa í hegðun annarra.

Í greinargerð F um líðan C kemur fram að hún mælist með mikinn kvíða sem komi fram í streitu og líkamlegum einkennum kvíða ásamt félags- og aðskilnaðarkvíða. Einnig hafi komið fram talsverð vanvirkni. Fram kemur að telpan hafi verið mjög vör um sig í viðtölum og meðvituð um það ástand sem nú ríkti. Taldi hún það stafa af því að þær systur hafi alltaf verið að rífast og það hafi komið kvartanir. Hún eigi erfitt með að treysta öðrum og sé mjög næm og viðkvæm fyrir því sem hún sjái og heyri. Hún sakni stefndu mjög mikið, hugsi mikið um hana og hve erfitt sé að fara frá henni. Þá líði henni „stundum illa og stundum vel“ hjá fósturforeldrum.

Upplýsingar úr ungbarnaeftirliti D voru jákvæðar um þroska og umönnun hennar. Hið sama má segja um upplýsingar úr leikskóla en í október 2011 var talið of snemmt að leggja mat á námslega stöðu. Hún er sögð ekki enn farin að tala en skilji einföld skilaboð. Í maí 2012 er tekið fram að hún mæti oft mjög seint á morgnana og sé þá mjög æst. Hún eigi erfitt með að skilja leiðbeiningar og leikreglur. Ljóst sé að hún standi jafnöldrum sínum nokkuð að baki í námslegum þroska. Samkvæmt upplýsingum frá janúar og nóvember 2013 ber enn á slæmri mætingu á morgnana sem leiði til þess að hún missi af hópastarfi. Námsleg staða sé fyrir neðan meðallag.

Í umsögn umsjónarkennara D í [...] frá október 2015 kemur fram að námsleg staða hennar sé frekar slök í lestri og flokkist í svokallaðan áhættuflokk hvað ýmsa þætti varðar. Í stærðfræði þurfi hún aðstoð og þá skorti hana einbeitingu í náminu og daglegum athöfnum. Henni semji yfirleitt vel við börnin og taki tiltali ef með þurfi.

Í greinargerð F sálfræðings kemur fram að telpan saknar stefndu þegar hún er ekki hjá henni. Einnig sakni hún fósturforeldra sinna þegar hún er ekki hjá þeim og er sérlega hænd að fósturföður. Hún þurfi mikla aðstoð við nám en það geti verið vegna breytinga á aðstæðum. Geti börn á þessum aldri tekið stórt framfarastökk í þroska þegar þau komi í meira örvandi umhverfi en þau hafi áður verið í. Sálfræðingur metur stöðu telpunnar góða miðað við það sem hún hafi gengið í gegnum og telur það örugglega stafa af því að hún nái að „draga til sín“ allt það góða sem hún fái frá fósturforeldrum.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á því að ákvæði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Það er mat stefnanda, með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu, að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu telpnanna þriggja sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra. Stefnandi telur að stuðningsaðgerðir á grundvelli laganna dugi ekki til að tryggja öryggi telpnanna og fullnægjandi uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefndu. Stefnda sé að mati stefnanda óhæf til að fara með forsjá dætra sinna og veita þeim það öryggi, skjól og þá umhyggju sem ætlast er til að foreldri veiti barni sínu og ætla verður að þeim sé nauðsynlegt til að ná að þroskast og dafna með eðlilegum hætti. Ítrekað hafi verið reynt að aðstoða stefndu á víðtækan hátt en afskipti barnaverndaryfirvalda hafi staðið frá 2008 með hléum en samfellt frá 2011, en sú aðstoð hafi ekki gagnast henni sem skyldi. Þá telur stefnandi að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og telpnanna sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Stefnandi telur fullvíst að líkamlegri og andlegri heilsu svo og þroska telpnanna sé hætta búin sökum þess að stefnda sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjá þeirra vegna greindarskorts og breytni eins og málum er háttað.

Stefnandi telur stuðningsaðgerðir fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefndu. Leitast hafi verið við að eiga eins góða samvinnu við stefndu um málið og aðstæður hafi leyft, svo og að beita eins vægum úrræðum gagnvart henni og unnt hefur verið hverju sinni. Mikill og margvíslegur stuðningur hafi verið reyndur í mörg ár sem hafi ekki skilað viðunandi árangri til lengri tíma. Stefnda virðist sýna lítið frumkvæði í að veita dætrum sínum þroskavænlegar aðstæður, hún veiti þeim takmarkaða eftirfylgni og stuðningur fagaðila í þeim efnum skili litlum sem engum árangri. Stefnda virðist þannig ekki ná að tryggja að líðan systranna sé viðunandi eða að tryggja þeim þroskavænleg skilyrði. Hagsmuni telpnanna þurfi að hafa að leiðarljósi og virða rétt þeirra til þroskavænlegra aðstæðna. Þær séu allar þrjár með sérþarfir og ljóst sé að stefnda búi ekki yfir þeirri færni sem til þurfi til að annast þær. Með vísan til alls þessa sé það mat stefnanda að það þjóni hagsmunum telpnanna best að þeim stöðugleika sem kominn hafi verið á verði ekki raskað enda sé það í fullu samræmi við meginreglu barnaverndarlaga, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, um að barnaverndarstarf skuli stuðla að því að stöðugleiki ríki í uppvexti barna. Krafa stefnanda byggir á því að of mikil og óforsvaranleg áhætta felist í því að láta stefndu fara með forsjá dætra sinna.

Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tæk nú að mati stefnanda en brýna nauðsyn beri til að skapa telpunum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem þær eigi rétt á að búa við lögum samkvæmt. Geti þau stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða ekki megnað að skapa telpunum þau uppeldisskilyrði sem þær eiga skýlausan rétt til hjá stefndu. Að mati stefnanda hafi vægustu ráðstöfunum ávallt verið beitt til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og sé krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki gripið til viðarhlutameiri úrræða en nauðsyn hefur verið.

Þá vísar stefnandi til þess að þá séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Það sé almenn skylda foreldra, sem lögfest er í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að sýna börnum virðingu og umhyggju, auk þess sem óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Forsjárréttur foreldra takmarkast af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og kemur einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland er aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir er mælt um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefnda telur að krafa stefnanda um að hún verði svipt forsjá barna sinna brjóti í bága við fjölmargar meginreglur barnaverndarlaga. Stefnda telur að svipting forsjár hennar yfir telpunum sé andstæð hagsmunum og vilja þeirra eins og fram komi í gögnum máls en það úrræði brjóti gegn 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Stefnda geti vel annast telpurnar með stuðningi og búið þeim nauðsynleg uppvaxtarskilyrði. Hún sé meðvituð um þörf sína fyrir stuðning inni á heimilinu en telji að ekki hafi verið nægileg festa í þeim sem veittur var og skipulagi úrræða hafi verið ábótavant.

Stefnda telur lagastoð skorta varðandi kröfu stefnanda og vísar því til stuðnings aðallega til meginreglna barnaverndarlaga nr. 80/2002 um meðalhóf máli sínu til stuðnings. Stefnda kveðst hafa verið í samvinnu við Barnavernd, farið í forsjárhæfnismat sem og heimilað stuðning inni á heimilinu í formi margs konar tilsjónar og ráðgjafar og hafi hún þannig fallist á það sem Barnavernd krafðist. Taldi hún að með því gæti hún stutt við bakið á dætrum sínum, en eldri tvær dæturnar séu mjög erfiðar í hegðun. Stefnda telur að meðalhófs hafi ekki verið gætt varðandi málsmeðferð alla í máli stefndu og dætra hennar. Ekki hafi verið ráðist í þá vinnu sem nauðsynleg hafi verið fyrir stefndu og telpurnar og því eigi enn eftir að reyna önnur og vægari úrræði til þess að koma í veg fyrir að fjölskyldunni verði sundrað. Friðhelgi fjölskyldunnar er ein af grundvallarmannréttindum sem ekki megi svipta foreldra og börn og því beri að hafna kröfum stefnanda um sviptingu forsjár stefndu yfir börnum sínum.  

Stefnda telur að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið ferðinni allt frá því að fyrst hafi verið rætt um vistun telpnanna utan heimilis. Hafi stefnandi þannig markvisst dregið úr möguleikum stefndu til að byggja upp forsjárhæfni sína og það þrátt fyrir samvinnu stefndu. Þá telur stefnda að stefnandi hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni þar sem eitt hafi verið látið yfir allar ganga óháð þörfum þeirra. Telpurnar séu ólíkar og hafi hver og ein sínar sérþarfir.

Stefnda vísar til ákvæða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Skuldbinda aðildarríki samningsins sig í inngangi til að veita fjölskyldunni, sem grundvallareiningu samfélagsins, eðlilegt umhverfi til vaxtar og velfarnaðar og einnig að viðurkenna að barn eigi að fá að alast upp innan fjölskyldu, við hamingju, ást og skilning. Í 8. gr. samningsins skuldbinda íslensk stjórnvöld sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þ.m.t. fjölskyldutengslum. Þessi ríka skylda er eitt af grundvallaratriðum í réttindum barns og stjórnvöldum með öllu óheimilt að ráðast í viðlíka aðgerðir og nú eru uppi án þess að hafa með öllum ráðum gert sitt til að veita fjölskyldunni lið, en ekki sundra, líkt og unnið hefur verið að undanfarna mánuði að mati stefndu. Loks vísar stefnda í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem skuldbindi einnig íslensk stjórnvöld til að virða friðhelgi fjölskyldu stefndu og ganga eigi á þann rétt nema brýna nauðsyn beri, til verndar heilsu eða rétti stúlknanna. Telur stefnda því ljóst að lagastoð skorti fyrir svo alvarlegu inngripi sem forsjársvipting sé.

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði svipt forsjá dætra sinna og er krafan reist á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt a-lið málsgreinarinnar er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skuli sviptir forsjá telji nefndin að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska en samkvæmt d-lið telji hún fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu ljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna fíkniefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts, eða vegna þess að breytni foreldranna sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. 

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skal kröfu um sviptingu forsjár því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða að slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Helgast hin mikla áhersla á meðalhóf af því að hér er um að ræða það úrræði sem gengur lengst af úrræðum laganna.

Eins og áður greinir á mál þetta sér langa forsögu en upphaf þess má rekja til tilkynningar á árinu 2008 er laut að vanrækslu dætra stefndu, sem þá voru tvær. Tilkynningar sem lutu m.a. að andlegu ofbeldi og óviðundandi aðstæðum telpnanna héldu áfram að berast á árinu 2010 og enn allt fram á síðasta ár. Samtals bárust 27 tilkynningar á tímabilinu, oftast nafnlausar. Af því tilefni gripu barnaverndaryfirvöld til þeirra aðgerða sem áður hefur verið lýst og voru afskipti þeirra svo til samfelld frá árinu 2010, fyrir utan stutt tímabil þegar málinu var lokað og vísað á Þjónustumiðstöð [...].

Stefnda hefur ein alið dætur sínar upp með takmarkaðri aðkomu fjölskyldu sinnar. Ágreiningslaust er að ytri aðbúnaður telpnanna hefur verið í lagi og honum vel sinnt enda í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt upplýsingum úr skóla voru telpurnar glaðlyndar að eðlisfari og virtist almennt líða vel, þar til breytingar urðu eins og síðar er getið um. Fram kemur að telpurnar mættu mjög oft seint í skólann en ástæða þess var oftast sú að mæðgurnar sváfu allar yfir sig. Samskipti við stefndu virðast almennt hafa gengið vel, hún sinnti fundum í skóla og lagði sig fram.

                Telpurnar eiga allar við þroskafrávik að stríða. Þær eldri hafa báðar fengið greiningu og eru hegðunarvandamál C veruleg. Sú yngsta hefur ekki fengið greiningu en hefur þegar dregist aftur úr í þroska og í námslegu tilliti. Eldri telpurnar fengu fljótlega sérhæfða aðstoð í grunnskóla sem síðar var aukin til muna auk þess sem ábyrgð á heimanámi telpnanna var tekin að langmestu leyti af herðum stefndu og færð til skólans.

Stefnda telur sig nægilega hæfa til að gegna forsjárskyldum sínum fái hún ákveðinn stuðning stefnanda. Vísar hún í þessu sambandi til fyrra forsjárhæfnismats E, sálfræðings, frá 3. janúar 2014. Bendir hún á í þessu sambandi að hún eigi þrjár krefjandi dætur sem allar hafi mismunandi þarfir. Hún telur að stefnandi gangi of langt með kröfu sinni. Hafi meðalhófs ekki verið gætt enda hafi ekki verið látið reyna nægilega á önnur vægari úrræði áður en gripið var til þess ráðs að aðskilja mæðgurnar.

                Með ofangreindu forsjárhæfnismati var stefnda greind með verulega þroskaskerðingu. Komu fram tillögur sálfræðingsins um langtímastuðning við stefndu og nálgun að teknu tilliti til þessa en ljóst væri að hana skorti skilning og getu til að standa ein að ýmsum þáttum uppeldis telpnanna.

Frá árinu 2012 voru gerðar samtals 10 meðferðaráætlanir en meginmarkmið þeirra, fram til þess tíma er telpurnar voru tímabundið vistaðar utan heimilis, var að styrkja stefndu til að gegna forsjár- og uppeldisskyldum til samræmis við þau markmið sem fram koma í 2. gr. barnaverndarlaga en ákvæðið kveður á um að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Þannig er ljóst að barnaverndarstarf skal miða að því að halda fjölskyldum sameinuðum svo lengi sem það þjónar hagsmunum barnanna.

                Eins og áður er gerð ítarleg grein fyrir og staðfest var með skýrslum vitna fyrir dómi var stefndu veittur víðtækur stuðningur af hálfu stefnanda og þjónustumiðstöð um langt skeið. Þetta kom sér í lagi skýrt fram í nákvæmri skýrslu G, félagsráðgjafa. Aðstoðin fólst m.a. í fjárhagslegum stuðningi, aðstoð við að vakna á morgnana og einstaklingsmiðaðri þjónustu inni á heimili stefndu þar sem ýmist hún ein eða mæðgurnar saman fengu handleiðslu fagaðila við ýmsa þætti daglegs lífs og innbyrðis samskipti. Þrátt fyrir alla ofangreinda aðstoð héldu tilkynningar áfram að berast. Því var ákveðið að vista telpurnar á Vistheimili barna þar sem viðunandi árangur hafði ekki náðst við að styrkja stefndu í uppeldishlutverki sínu, m.a. vegna samskiptavanda hennar og telpnanna. Eins og áður segir batt stefnda enda á þá dvöl, hafnaði frekari úrræðum Barnaverndar en þáði tilsjón frá þjónustumiðstöð.

                Eftir að forsjárhæfnismat lá fyrir tók við áframhaldandi aðstoð þjónustumiðstöðvar. Í lok árs taldi stefnandi sýnt að frekari aðstoð þyrfti að koma til og samþykkti stefnda sérhæfða úrræðið Ylfa sem áður er lýst. H þroskaþjálfi kom fyrir dóminn og lýsti þeirri kennslu og aðstoð sem stefndu og telpunum var veitt hjá Ylfa. Komu tveir þroskaþjálfar á heimilið í samtals fimm mánuði en félagsráðgjafi á vegum Stuðningurinn heim tók við hluta af heimsóknum síðustu tvo mánuðina og veitti stefndu aðstoð. Ekki verður annað séð en að með úrræðunum hafi verið unnið markvisst að ákveðnum markmiðum og var um mjög mikinn stuðning að ræða. Upplifun telpnanna var jákvæð og virtust þær ná ákveðnum árangri og færni í að nýta sér kennsluna. Smám saman kom í ljós að stefnda var ekki til samvinnu og hafnaði aðstoð Ylfa og Stuðningsins heim. Bera gögn málsins með sér að tortryggni stefndu jókst í garð þeirra aðila sem veittu henni þjónustuna, en það hafði einnig ítrekað komið í ljós þegar telpurnar voru yngri. Sér dómurinn því ekki efni til að fallast á það með stefndu að annmarkar hafi verið á stuðningnum.

                Gagnrýni stefndu beinist eins og áður segir fyrst og fremst að því að ekki hafi verið gert nóg til að styrkja hana í uppeldishlutverkinu áður en gripið var til þess ráðs að vista telpurnar utan heimilis og í kjölfarið að krefjast forsjársviptingar. Að mati dómsins þykir einsýnt að líta verði heildstætt til vinnslu málsins og þeirra úrræða gripið var til. Að virtri niðurstöðu fyrra forsjárhæfnismats þóttu einstaklingsmiðuð úrræði inni á heimilinu henta þörfum stefndu best enda ólíklegt að hefðbundin uppeldisnámskeið myndu skila henni árangri miðað við þroskastöðu hennar.

Þrátt fyrir áberandi teikn á lofti um að velferð dætra stefndu væri hætta búin í umsjá stefndu og efasemdir um að hún gæti valdið hlutverki sínu var stefndu ítrekað gefið tækifæri til þess að sýna fram á að hún gæti með stuðningi tileinkað sér uppeldisaðferðir og samskiptatækni við dætur sínar. Verður að telja líklegt að hér hafi skipt máli að stefnda hafði alla tíð verið reglusöm og hún hafði til að bera ákveðna elju og áhuga á dætrum sínum. Einnig þáði hún ráðleggingar og var kurteis í framkomu. Augljóst var að verkefnið sem hún stóð frammi fyrir var ærið vegna greininga og hegðunarvandamála eldri telpnanna og tók stuðningurinn inn á heimilið mið af því. Dómurinn telur því að ekki fái staðist að stefnandi hafi ekki tekið mið af þörfum stefndu við mat á viðeigandi úrræðum hverju sinni. Sjá má af gögnum málsins að komið var til móts við óskir stefndu eins og hægt var hverju sinni. Afstaða stefndu var mjög skýr varðandi ákveðin úrræði og hvernig hún kaus að nýta þau. Þá afþakkaði hún stuðningsfjölskyldu ítrekað og gaf fyrirmæli um að fjölskylda hennar yrði ekki upplýst um stöðu málsins. Var svo bæði fyrir og eftir að hún naut stuðnings lögmanns og var sjálfsákvörðunarréttur hennar virtur í þessum efnum.

Dómurinn bendir á að takmarkaðar upplýsingar eru til um umönnunarhæfni stefndu og tengslamyndun hennar og telpnanna í bernsku þeirra. Fyrstu mánuðir og ár í lífi hvers barns er mikilvægur mótunartími sem hefur afgerandi áhrif á framtíðarþroskamöguleika þess. Því er engin leið að vita að hve miklu leyti þær aðstæður hafa mótað þroskastöðu telpnanna eins og hún birtist í dag. Ágreiningslaust er að tengsl mæðgnanna eru sterk í dag þó dregið hafi úr tengslum stefndu og B. Hins vegar tekur dómurinn undir það mat E sálfræðings sem hann áréttaði hér fyrir dómi að draga mætti gæði tengslanna í efa. Stefnda er að mörgu leyti mjög háð telpunum og hafði það sýnilega hamlandi áhrif á möguleika þeirra til félagslegrar örvunar. Kom ítrekað fyrir að stefnda hafnaði tómstundum og öðrum stuðningi sem eldri telpurnar höfðu þörf og vilja til að njóta, sér í lagi B. Í einhverjum tilvikum kom til undanlátssemi sem endurspeglar einn þátt vandans sem stefnda glímir við, þ.e. hún hversu illa hún er í stakk búin til að takast á við andstreymi, að setja telpunum mörk almennt séð og að beina þeim í uppbyggilegan farveg.

Á árinu 2015 fór að halla verulega undan fæti hjá eldri telpunum eins og fram kemur í gögnum frá skóla en teikn voru um það nokkru áður. Líðan þeirra versnaði, svo og félagsleg staða. Lýstu skólayfirvöld og fulltrúar Ylfu verulegum áhyggjum af B sem vildi ekki lifa lengur. Ljóst var að hún treysti sér ekki til að leita til móður sinnar og berlega kom í ljós að hún var vanrækt tilfinningalega. Eins og áður er lýst greip stefnandi ekki til aðgerða fyrr en í kjölfar lokaskýrslu Ylfu frá júní 2015 þar sem fullyrt var að stuðningur við heimilið væri fullreyndur og lýst yfir þungum áhyggjum af telpunum öllum og aðstæðum þeirra. Efast væri um hæfni stefndu til að ala telpurnar upp enda skorti hana innsýn í þarfir þeirra. Að meginstefnu til er samhljómur í lokaskýrslu Stuðningsins heim frá sama tíma.

Á þessum tímapunkti taldi stefnandi brýna nauðsyn bera til að vista telpurnar í tvo mánuði utan heimilis en eins og áður er rakið féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á áframhaldandi vistun í fjóra mánuði.

Seinna forsjárhæfnismat E sálfræðings frá nóvember 2015 hefur að geyma afdráttarlausa niðurstöðu um að stefnda sé ekki nægilega hæf til þess að fara með forsjá dætra sinna áfram. Þá hafi stuðningsúrræði við stefndu persónulega og í uppeldislegu tilliti verið fullreynd. E kom fyrir dóminn og rökstuddi niðurstöðuna á skilmerkilegan hátt. Kvað hann stefndu vissulega eiga við þroskahömlun að stríða en lagði áherslu á að ekki sé sjálfgefið að greindarskerðing rýri forsjárhæfni. Hins vegar hafi nú ítrekað komið í ljós og það þrátt fyrir óvenjulega mikinn og sérhæfðan stuðning við stefndu inni á heimilinu að hún hefur ákveðna persónueiginleika sem hafi hindrandi áhrif á gang úrræða. Jafnvel það úrræði sem henni líkaði best hafi ekki dugað. Þessir persónueiginleikar hafi verið fyrir hendi er fyrra mat var framkvæmt en neikvæð áhrif þeirra hafi ágerst síðan þá. Staða stefndu hafi þannig versnað, svo og staða telpnanna. Taldi hann ótvírætt að öryggi og þroska telpnanna væri ekki borgið á heimili stefndu.

Dómurinn tekur undir niðurstöður sálfræðingsins. Í dag eru dætur stefndu orðnar nokkuð stálpaðar og tími mótunar geðtengsla liðinn. Hins vegar hafa þær enn yfir að búa aðlögunarfærni og hæfni til þess að falla inn í ákveðinn ramma fái þær forsendur til þess eins og fagaðilar hafa bent á. Það er samdóma álit þeirra fagaðila sem komu fyrir dóminn og gáfu álit sitt á þeim vanköntum sem stæðu stefndu fyrir þrifum að þeir væru, að hana skorti innsæi í eigin vankanta, að hún ofmæti getu sína sem uppalanda auk þess sem hana skorti innsæi í þarfir telpnanna. Glögglega kom fram í skýrslu stefndu fyrir dómi að hún telur vandann ekki felast í eigin vanköntum heldur annarra. Dómurinn telur að samspil ofangreindra persónueiginleika og slakrar greindar stefndu hafi valdið því að þau ótal mörgu úrræði og aðstoð sem henni bauðst skiluðu litlum sem engum árangri. Því sé mál hennar í dag komið í þennan farveg.

Telpunum var skipaður talsmaður í samræmi við 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga og var leitað afstöðu þeirra í nokkur skipti frá því að lögð var fram tillaga um vistun þeirra utan heimilis. Ekki þykir efni til að rekja efni greinargerðanna og verður ekki annað séð en að samviskusamlega hafi verið reynt að koma óskum telpnanna til skila. Fram kom að telpurnar vildu hitta stefndu áfram. Þær voru ekki á einu máli um það hvernig þær vildu haga heimsóknunum og virtist sú yngsta finna minnst fyrir breytingunum. Þær eldri vildu aðspurðar ekki vera í burtu frá móður sinni til 18 ára aldurs. Áður er rakið það sem fram kom í viðtölum hjá F sálfræðingi um líðan telpnanna og óskir þeirra.

Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga  skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Dómarar hittu telpurnar allar skömmu fyrir aðalmeðferð. Þær voru glaðlyndar og ekki bar á vanlíðan í viðtölunum. Hins vegar var augljóst að þroski þeirra var ekki í samræmi við aldur, sér í lagi þeirra eldri, sem einkum kom fram í erfiðleikum þeirra við að skilja spurningar og setja hluti í samhengi. Þá voru að auki einkenni ADHD og hegðunarvandamál C áberandi og þurfti að nálgast hana á ákveðinn hátt. Aðspurð gaf B ekki afdráttarlaust svar við því hvar hún vildi búa til langframa en við nánari umhugsun taldi hún það vera hjá stefndu enda hefði hún róast og væri hætt að öskra. Hún kvaðst hafa verið sátt við stuðninginn á heimilinu en stefnda hafi verið ósammála því. B kvað sér líða betur í dag en henni gerði á árinu 2015. Hún kvaðst vera ánægð með nýtt umhverfi, kvað fósturforeldra fína og skóli, vinkonur og tómstundir veittu henni mikla ánægju. C kvaðst vilja búa hjá móður sinni en fram kom að hjá fósturforeldrum væri „stundum gott og stundum ekki“ sem eru orðrétt sömu svör hennar og hjá F sálfræðingi. Báðar eldri telpurnar tóku fram að móðir þeirra saknaði þeirra og liði illa að vera ein. D var sjálfri sér nóg og í spjalli við hana kom fram að best væri að sofa hjá fósturforeldrum og að þau og C og B væru best við hana.

I, talsmaður telpnanna, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hún kvaðst hafa rætt við telpurnar í síðasta skipti 22. nóvember 2015 og var þá falið að leita eftir afstöðu þeirra til varanlegs fósturs. Þær höfðu allar styrkst að mati talsmanns og bjuggu yfir meira öryggi en í upphafi fósturs. Vitnið greindi frá því að B hefði óskað eftir samtali við hana daginn fyrir aðalmeðferðina og sagt að hún hefði hugsað betur um það sem dómarar hefðu spurt hana um. Hún vildi koma því á framfæri að hún teldi betra að hún byggi hjá fósturforeldrum áfram. Spurð um ástæðu þess, kvaðst hún ekki vilja fara í gamla skólann sinn en jafnframt ætti hún mjög góðar vinkonur sem hún vildi halda tengslum við, hún væri í crossfit, sundi og kór og fósturforeldrar „pössuðu vel uppá hana“. Kvaðst vitnið hafa ritað þetta upp orðrétt eftir telpunni.

Dómurinn telur ljóst vera að þrátt fyrir að telpurnar séu ólíkar og þarfir þeirra að vissu leyti líka, þurfa þær allar vegna þroskastöðu sinnar á festu að halda og umhverfi sem veitir þeim öryggi og örvun. Slíkar aðstæður verða ekki tryggðar lúti þær forsjá stefndu eins og staða hennar er í dag. Voru þær eldri farnar að bera augljós merki vanlíðanar og einkenni vanþroska þeirrar yngstu komu sífellt meira í ljós. Augljóst er að telpurnar verða meira krefjandi fyrir stefndu eftir því sem þær eldast og sýna meira sjálfstæði og þar með reynir meira á foreldrahæfni hennar.

Þá telur dómurinn einsýnt að þær leiðir sem líklegastar voru taldar til að skila árangri hafi verið notaðar og tæmdar, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Gætti stefnandi meðalhófs og er hafnað þeirri málsástæðu stefndu að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för eftir að tekin var ákvörðun. Þá braut stefnandi ekki rannsóknarregluna við úrvinnslu málsins. 

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga gildir sú meginregla að í starfsemi barnaverndaryfirvalda skulu hagsmunir barnsins sem í hlut á ávallt hafðir í fyrirrúmi og ber þeim í því skyni að grípa til þeirra ráðstafana sem ætla má að barninu séu fyrir bestu, sbr. og 1. mgr. 3. gr. sáttmála Sameinuðu þjónanna um réttindi barnsins sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 19/2013. Ljóst er að þegar hagsmunir foreldris og barns vegast á skulu hagsmunir barna ráða för. Það er mat dómsins að tryggja þurfi velferð telpnanna og að það verði ekki gert með öðrum hætti en stefnandi hefur krafist. Góður vilji stefndu og fjölskyldu hennar nú geta ekki breytt þeim staðreyndum sem við blasa og dregur ekki úr vægi þeirra gagna og framburða sem raktir hafa verið.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telur dómurinn að hagsmunir telpnanna allra krefjist þess að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Þykja skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga uppfyllt. Verður því fallist á kröfu stefnanda um forsjársviptingu.

Dómurinn vill benda á að hann telur mikilvægt að litið verði til óska telpnanna um umgengni í samræmi við 81. gr. barnaverndarlaga. Einnig telur dómurinn mikilvægt að nákomnum ættingjum telpnanna sé leiðbeint um möguleika þeirra til þess að óska eftir ítarlegri umgengni en verið hefur. Þá geta telpurnar verið aðilar barnaverndarmáls þegar þær ná 15 ára aldri.

Stefnandi krefst ekki málskostnaðar úr hendi stefndu. Stefnda hefur gjafsókn í málinu sem takmörkuð er við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Allur gjafsóknarkostnaður hennar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar eins og nánar greinir í dómsorði.

D Ó M S O R Ð:

                Stefnda, A er svipt forsjá dætra sinna, B, C og D.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadóttur hdl., sem er ákveðinn 797.940 krónur.

                                                                Sigríður Hjaltested

                                                                Guðfinna Eydal

                                                                Guðrún Oddsdóttir