Hæstiréttur íslands
Mál nr. 614/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Málshöfðunarfrestur
- Lagaskil
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 7. desember 2011 |
|
Nr. 614/2011.
|
Þrotabú Milestone ehf. (Grímur Sigurðsson hrl.) gegn Karli Emil Wernerssyni (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málshöfðunarfrestur. Lagaskil. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli þrotabús M ehf. á hendur K var vísað frá dómi. Í málinu krafðist þrotabú M ehf. annars vegar þess að rift yrði tilteknum greiðslum til K, sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og hins vegar að K yrði gert að greiða þrotabúinu tiltekna fjárhæð, sbr. 142. gr. laga nr. 21/1991 og 109. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Deila aðila laut að því hvort málshöfðunarfrestir samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991, að því er riftunarkröfu þrotabúsins varðaði, og 110. gr. laga nr. 138/1994, að því er varðaði fjárkröfu þess, hefðu verið liðnir er málið var höfðað. Um hið fyrra atriði vísaði Hæstiréttur til skýringar á lögum við lagaskil almennt og á sviði réttarfars. Segir meðal annars í dómi réttarins að í málinu hefði sex mánaða málshöfðunarfresti samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 í fyrsta lagi geta lokið 23. maí 2010 en þar sem hann hefði ekki verið liðinn þegar fresturinn var tímabundið framlengdur í tólf mánuði með gildistöku laga nr. 31/2010 yrði þeim lögum beitt um frestinn og hefði málið verið höfðað innan þess frests. Um hið síðara atriði vísaði Hæstiréttur til þess að með lögum nr. 68/2010 hefði 110. gr. laga nr. 138/1994 verið felld brott og samkvæmt orðanna hljóðan skyldu lögin taka til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna, jafnvel þótt málshöfðunarfrestur hefði verið liðinn er þau tóku gildi. Í dómi réttarins segir meðal annars að málshöfðunarfrestur samkvæmt 110. gr. laga nr. 138/1994 hefði í reynd verið sérstakur fyrningarfrestur þar sem krafan félli niður í lok hans, enda væri ekki unnt að hafa hana uppi á annan hátt. Álitaefni, um hvort fresturinn hefði verið liðinn við málshöfðun, væri atriði sem taka yrði afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en gæti ekki varðað frávísun þess. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Bú Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009 og er frestdagur við skiptin 22. júní sama ár. Innköllun var gefin út til skuldheimtumanna og lauk kröfulýsingarfresti 23. nóvember 2009. Skiptastjóri fól endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young ehf. að rannsaka fjárreiður Milestone ehf., en félagið hafði um skeið verið umsvifamikið í íslensku viðskiptalífi. Mun þeirri rannsókn hafa lokið 12. mars 2010. Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila 8. nóvember sama ár, en hann var stjórnarformaður og stærsti hluthafi félagsins á árunum 2005 til 2009. Eins og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili uppi í málinu kröfur um að fjórum nánar tilgreindum greiðslum til varnaraðila verði rift og honum gert að greiða þrotabúinu tiltekna fjárhæð með dráttarvöxtum.
II
Sóknaraðili reisir riftunarkröfur sínar á ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en fjárkröfu meðal annars á 142. gr. sömu laga. Varnaraðili krafðist frávísunar málsins í héraði og byggði þá kröfu í fyrsta lagi á því að málshöfðunarfrestur 148. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið liðinn þegar málið var höfðað. Eins og að framan er rakið lauk kröfulýsingarfresti 23. nóvember 2009. Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 skyldi höfða dómsmál til að koma fram riftun áður en sex mánuðir væru liðnir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna, en frestur þessi skyldi þó aldrei byrja að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Með 1. gr. laga nr. 31/2010, sem öðluðust gildi 27. apríl það ár, var aukið nýju ákvæði til bráðabirgða í 194. gr. laga nr. 21/1991 og var 2. mgr. þess efnis að sex mánaða málshöfðunarfrestur í 148. gr. laganna skyldi verða tólf mánuðir fram til ársloka 2012.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 31/2010 skyldu þau öðlast þegar gildi. Í lögunum voru ekki sérstök ákvæði varðandi lagaskil og gilda því almennar reglur um það efni. Að meginreglu verður nýjum lögum beitt um lögskipti sem undir þau falla þótt til lögskiptanna hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, enda ræðst réttarstaða manna af lögum eins og þau eru hverju sinni. Þegar meta þarf hvort efni séu til að víkja frá þeirri meginreglu verður að gæta að því hvort réttarsamband, sem stofnað var til í gildistíð eldri laga, hafi verið fullmótað og komið í endanlegt horf þegar hin nýju lög tóku gildi. Sé með nýjum lögum ekki hróflað við þeim þáttum í myndun réttarsambands eða réttarstöðu sem liðnir voru við gildistöku þeirra verða þau að móta þá þætti réttarsambandsins, sem varða tímann eftir það, þótt þau kunni að hrófla við þeirri réttarstöðu sem ella hefði verið uppi eftir eldri lögum. Til viðbótar þessum almennu reglum um skýringu laga við skil þeirra í tíma er til þess að líta að sérstakar reglur taka til löggjafar á sviði réttarfars. Á því sviði verður nýjum lögum almennt beitt eftir að þau öðlast gildi þótt um sé að tefla réttarstöðu sem á rót í eldri lögum og jafnvel þótt nýju réttarfarsákvæðin kunni að íþyngja mönnum.
Í máli þessu gat sex mánaða málshöfðunarfresti samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 í fyrsta lagi lokið 23. maí 2010. Þar sem hann var ekki liðinn þegar fresturinn var tímabundið framlengdur 27. apríl 2010 með gildistöku 1. gr. laga 31/2010 verður þeim lögum beitt um frestinn samkvæmt því sem að framan er rakið. Mál þetta var höfðað 8. nóvember 2010 eða áður en tólf mánaða fresti samkvæmt 194. gr., sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 gat í fyrsta lagi lokið og verður kröfum sóknaraðila um riftun því ekki vísað frá dómi á grundvelli þess að málshöfðunarfrestur hafi þá verið liðinn.
III
Sóknaraðili reisir kröfu um greiðslu úr hendi varnaraðila einnig á ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Varnaraðili byggði frávísunarkröfu sína í héraði í öðru lagi á því að málshöfðunarfrestur þágildandi ákvæðis 110. gr. laga nr. 138/1994 hafi verið liðinn þegar málið var höfðað. Samkvæmt b. lið 1. mgr. þeirrar greinar skyldi höfða skaðabótamál þau sem um ræðir í 109. gr. laganna gegn stjórnarmönnum innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs þegar ákvörðunin eða athöfnin sem málið byggist á var samþykkt eða gerð nema krafan væri reist á refsiverðum verknaði. Varnaraðili telur að grundvöll ætlaðs tjóns sóknaraðila megi að öllu rekja til atburða á árinu 2007. Þar sem mál þetta hafi ekki verið höfðað fyrr en 8. nóvember 2010 hafi fyrrnefndur frestur verið liðinn og varði það frávísun málsins.
Með 28. gr. laga nr. 68/2010 var 110. gr. laga nr. 138/1994 felld brott. Lögin öðluðust gildi 24. júní 2010, en samkvæmt 2. mgr. 31. gr. þeirra skyldu „ákvæði um brottfall“, þar á meðal brottfall 110. gr., taka til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna jafnvel þótt málsóknarfrestur hafi verið liðinn er þau tóku gildi. Sóknaraðili telur að þessi ákvæði taki til atvika málsins þannig að enginn málshöfðunarfrestur gildi um kröfur sínar á hendur varnaraðila á grundvelli laga nr. 138/1994. Þá heldur hann því fram fyrir Hæstarétti að hvað sem þessu líði hafi atvik sem krafa hans er byggð á að hluta til gerst á árunum 2008 og 2009 og taki málshöfðunarfrestur þágildandi ákvæðis 110. gr. laga nr. 138/1994 þegar af þeirri ástæðu ekki til krafna hans í heild.
Nokkurs misræmis hefur gætt í dómaframkvæmd um hverju það varði að mál sé höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög og einkahlutafélög. Í dómum Hæstaréttar í máli nr. 52/1949, sem birtur er í dómasafni 1950 bls. 42, og máli nr. 18/1986, sem birtur er í dómasafni 1987 bls. 643, leiddi það til sýknu, en í dómi Hæstaréttar í máli nr. 9/2002, sem birtur er í dómasafni 2002 bls. 92, varðaði það frávísun. Ef frestur samkvæmt 110. gr. laga nr. 138/1994 eða hliðstæðu ákvæði í 136. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög leið án þess að félagið hefði uppi skaðabótakröfu á hendur stjórnarmanni var þess ekki kostur að gera slíka kröfu á öðrum vettvangi. Þessi frestur var því í reynd sérstakur fyrningarfrestur þar sem krafan féll niður í lok hans, enda var ekki unnt að hafa hana uppi á annan hátt. Í ljósi þessa verður að líta svo á að álitaefni um hvort málshöfðunarfrestur þessi hafi verið liðinn við höfðun málsins sé atriði sem taka verður afstöðu til við efnisúrlausn þess, en geti ekki varðað frávísun málsins í heild eða hluta. Fallast verður á með héraðsdómi að málið sé ekki vanreifað svo að varðað geti frávísun þess og hefur varnaraðili ekki fært fram önnur haldbær rök fyrir kröfu sinni um það efni. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Karl Emil Wernersson, greiði sóknaraðila, þrotabúi Milestone ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2011.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 27. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þb. Milestone ehf., Borgartúni 26, Reykjavík á hendur Karli Emil Wernerssyni, Engihlíð 9, Reykjavík, til staðfestingar á riftunum greiðslna og ráðstafana, og til endurgreiðslu verðmæta og greiðslu skaðabóta, auk vaxta og málskostnaðar. Stefna málsins var birt 9. nóvember 2010.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi
Þess er krafist að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum hins gjaldþrota félags, Milestone ehf., til stefnda, samtals að fjárhæð 504.244.324 krónur.
Greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 24. september 2007 að fjárhæð 299.288.364 krónur
Greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 30. maí 2008 að fjárhæð 10.598.953 krónur.
Greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 31. desember 2008 að fjárhæð 139.576.000 krónur
Greiðslu Milestone ehf. til stefnda þann 18. febrúar 2009 að fjárhæð 54.781.007 krónur.
Þess er krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda 418.793.766 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001
af 34.090 kr. frá 24. júlí 2007 til 31. júlí 2007,
af 51.595 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2007,
af 148.878.560 kr. frá þeim degi til 2. ágúst 2007,
af 226.773.260 kr. frá þeim degi til 9. ágúst 2007,
af 229.425.792 kr. frá þeim degi til 23. ágúst 2007,
af 232.925.792 kr. frá þeim degi til 29. ágúst 2007,
af 237.825.792 kr. frá þeim degi til 1. september 2007,
af 237.862.275 kr. frá þeim degi til 11. september 2007,
af 241.219.460 kr. frá þeim degi til 18. september 2007,
af 256.219.460 kr. frá þeim degi til 19. september 2007,
af 286.060.839 kr. frá þeim degi til 20. september 2007,
af 292.672.019 kr. frá þeim degi til 21. september 2007,
af 322.672.019 kr. frá þeim degi til 24. september 2007,
af 323.180.155 kr. frá þeim degi til 28. september 2007,
af 323.201.335 kr.frá þeim degi til 30. september 2007,
af 323.220.148 kr. frá þeim degi til 9. október 2007,
af 323.233.976 kr. frá þeim degi til 3. desember 2007,
af 323.261.936 kr. frá þeim degi til 31. desember 2007,
af 323.363.195 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2008,
af 374.863.195 kr. frá þeim degi til 7. janúar 2008,
af 376.543.811 kr. frá þeim degi til 31. janúar 2008,
af 376.713.811 kr. frá þeim degi til 8. febrúar 2008,
af 378.174.616 kr. frá þeim degi til 28. febrúar 2008,
af 378.345.141 kr. frá þeim degi til 7. mars 2008,
af 380.111.810 kr. frá þeim degi til 12. mars 2008,
af 380.391.810 kr. frá þeim degi til 31. mars 2008,
af 380.597.379 kr. frá þeim degi til 1. apríl 2008,
af 380.635.156 kr. frá þeim degi til 7. apríl 2008,
af 384.618.564 kr. frá þeim degi til 25. apríl 2008,
af 384.978.564 kr. frá þeim degi til 30. apríl 2008,
af 386.208.155 kr. frá þeim degi til 6. maí 2008,
af 386.464.155 kr. frá þeim degi til 31. maí 2008,
af 386.486.300 kr. frá þeim degi til 9. júní 2008,
af 388.614.687 kr. frá þeim degi til 23. júní 2008,
af 388.676.767 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2008,
af 388.751.296 kr. frá þeim degi til 31. júlí 2008,
af 388.843.645 kr. frá þeim degi til 8. september 2008,
af 391.552.461 kr. frá þeim degi til 27. september 2008,
af 391.579.342 kr.frá þeim degi til 30. september 2008,
af 391.582.512 kr. frá þeim degi til 31. október 2008,
af 393.177.594 kr. frá þeim degi til 23. desember 2008,
af 406.059.923 kr. frá þeim degi til 31. desember 2008,
af 406.070.888 kr. frá þeim degi til 13. mars 2009,
en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 206.000.000 króna hinn 24. september 2007, 22.530 krónur hinn 1. október 2007 og 35.010 krónur hinn 1. október 2008, sem dragast frá kröfunni miðað við stöðu á innborgunardögum og ganga fyrst til greiðslu áfallinna dráttarvaxta.
Að auki er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
Dómkröfur stefndu eru eftirfarandi
Aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, auk virðisaukaskatts.
Í þessum þætti málsins er krafa stefnda um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefnda og krefst þess að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms.
Ágreiningsefni
Milestone ehf. var stofnað í mars 1988 og hét þá Deiglan-Áman. Í upphafi ársins 2004 var félagið sameinað Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og Ísrann ehf. Nafninu var í kjölfarið breytt í Milestone. Umsvif félagsins jukust mikið á árunum 2005-2007. Félagið átti m.a. stóra hluti í Glitni banka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lyfjum og heilsu, auk þess sem félagið keypti á fyrri hluta ársins 2007 sænska félagið Moderna Finance AB.
Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 18. september 2009. Frestdagur við skiptin er 22. júní 2009.
Stefndi var stjórnarformaður og stærsti hluthafi Milestone ehf. á árunum 2005-2009 bæði sjálfur og gegnum félög í hans eigu.
Skiptastjóri lét fara fram rannsókn á fjárreiðum þrotabúsins. Rannsóknin var framkvæmd af Ernst & Young. Í skýrslu Ernst & Young kemur fram að stefndi fékk á síðustu 24 mánuðum fyrir gjaldþrot Milestone ehf. fjölmörg lán frá félaginu.
Stefnandi telur að nánar tilteknar ráðstafanir sem framkvæmdar voru til að lækka skuld stefnda við Milestone ehf. séu riftanlegar í skilningi XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Enn fremur telur stefnandi lán til stefnda vera ólögmæt samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og að stefnda beri að greiða þau til baka. Stefnandi krefst því endurgreiðslu úr hendi stefnda og að stefndi greiði stefnanda skaðabætur.
Málsástæður og lagarök stefndu um frávísun
Málshöfðunarfrestur 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Stefnandi var tekinn til gjaldþrotaskipta 18. september 2009, en kröfulýsingarfrestur rann út 23. nóvember s.á. Í 1. mgr. 148. gr. gþl. sagði á þeim tíma orðrétt: „Ef höfða þarf dómsmál til að koma fram riftun skal það gert áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests.“
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 9. nóvember 2010, eða tæpu ári eftir að kröfulýsingafrestur rann út. Stefndi kveður ljóst að ekkert hafi staðið því í vegi að skiptastjóri ætti kost á að gera riftunarkröfuna við lok kröfulýsingarfrests. Með vísan til 1. mgr. 148. gr. gþl. verði riftun því ekki komið fram gagnvart stefnda. Beri því samkvæmt dómaframkvæmd að vísa málinu frá dómi.
Með lögum nr. 31/2010 um breytingu á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti ofl., en þau tóku gildi við birtingu í a-deild Stjórnartíðinda 26. apríl 2010, kemur fram að sex mánaða málshöfðunarfrestur í 148. gr. laganna skuli vera tólf mánaða frestur fram til ársloka 2012. Sú lagabreyting hafi engin áhrif á mál þetta, enda hafi umrædd lög verið samþykkt eftir að gjaldþrotaskiptin hófust og meira að segja eftir að málshöfðunarfrestur í máli þessu var byrjaður að líða, nánar tiltekið voru rúmir fimm mánuðir af sex liðnir þegar lagabreytingin átti sér stað.
Önnur skýring á lögunum væri óheimilt afturvirkt inngrip í mannréttindi, m.a. eignarréttindi sem vernduð eru í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Á þetta hafi Réttarfarsnefnd bent á bls. 2 í umsögn hennar um frumvarpið, þar sem hún mælti jafnframt eindregið gegn því að frumvarpið yrði samþykkt.
Það sem skiptir mestu máli sé að ekki er unnt að breyta málsmeðferðarreglum eftir að meðferð máls er hafin. Þetta hafi ítrekað komið fram í dómum bæði hér á landi og erlendis. Það sé upphaf skiptameðferðarinnar og þau lög sem gilda þegar hún hefst sem ráði reglum um skiptin.
Þá sé ljóst að hafi ætlun löggjafans verið sú að lögin ættu að eiga við um þrotabú hvar úrskurður um gjaldþrotaskipti hafi átt sér stað fyrir gildistöku laganna þá hefði löggjafanum verið hægur leikur að tiltaka það í lögunum. Það gerði hann ekki. Á það sé að auki hvergi minnst í lögskýringargögnum. Þá hafi þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu í tilefni af athugasemdum Réttarfarsnefndar um afturvirkni verið ætlað að koma í veg fyrir að lögin væru afturvirk. Er því ljóst að löggjafinn ætlaðist ekki til þess að lögin væru afturvirk. Stefndi telur að gera verði kröfu um skýra lagaheimild sé lögum ætluð afturvirkni en því sé ekki fyrir að fara hér.
Stefndi telur að af dómaframkvæmd Hæstaréttar, og raunar einnig Mannréttindadómstóls Evrópu, megi ráða að afturvirkni komi einungis til greina sem lögmætt úrræði séu brýnar ástæður séu fyrir henni og skýrlega sé mælt fyrir um slíka afturvirkni í lögum. Hvorugt eigi við hér. Í því sambandi megi minna á þá viðurkenndu lögskýringarreglu að nýjum lögum verði ekki beitt afturvirkt þjóðfélagsþegnunum til óhagræðis, ef lögin mæla ekki fyrir um annað. Ljóst sé að málshöfðunarfrestur 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé settur vegna brýnna hagsmuna riftunarþola og til að takmarka íþyngjandi inngrip í réttindi hans.
Sú venja hafi myndast þegar komi að lögum um gjaldþrotaskipti að eigi lög að gilda um aðila sem lýstur hafi verið gjaldþrota fyrir gildistöku laga þurfi þau lagaskil að koma bersýnilega fram í lagatextanum. Nægir þar að nefna 189. og 190. gr. laga nr. 21/1991 sem og 6. tl. 139. gr. laga nr. 6/1978.
Þar sem á ekkert slíkt sé minnst í lögunum verði að gagnálykta á þann veg að málshöfðunarfrestir skv. lögunum eins og þau voru fyrir lagabreytingu eigi að gilda.
Stefndi kveður ótækt að löggjafinn geti breytt málshöfðunarfresti þegar hann sé byrjaður að telja þrotabúi til hagsbóta á kostnað riftunarþola. Slík lög væru afturvirk og ólögmæt. Megi hér vísa til 72. gr. stjórnarskrárinnar, Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sjónarmiða um réttmætar væntingar og dómafordæma. Er því ljóst að líta beri til laganna eins og þau voru fyrir lagabreytingu og samkvæmt þeim séu málshöfðunarfrestir liðnir. Því beri að vísa málinu frá dómi.
Þá beri að líta til þess að upphaf málshöfðunarfrestsins hafi verið við lok kröfulýsingarfrests 23. nóvember 2009, en ekki við skil endurskoðendafyrirtækisins Ernst & Young á skýrslu sinni 12. mars 2010. Sé það þannig meginregla að upphaf frestsins miðist við lok kröfulýsingarfrests og að einungis í sérstæðum undantekningartilvikum sé heimilt að víkja frá henni. Mál þetta sé í eðli sínu einfalt og hefði ekki þurft umfangsmiklar bókhaldsrannsóknir til að upplýsa það.
Það sé ein af meginskyldum skiptastjóra að kanna bókhald félags og færslur sem þar hafi átt sér stað. Þessari skyldu sinni beri hann að sinna strax og sé upphaf hennar ekki háð því að kröfulýsingarfrestur sé runninn út. Það sé ótæk lögskýring að skiptastjóri geti framlengt upphaf málshöfðunarfrests um fleiri mánuði með því einu að framselja þessa skyldu sína til annars aðila. Sé skiptastjóra ætlað að nýta málshöfðunarfrestinn til rannsóknar á bókhaldi. Lauk rannsókn Ernst og Young raunar meira en tveimur mánuðum áður en sex mánuðir voru liðnir frá lokum kröfulýsingarfrests. Átti því að vera hægur leikur að höfða mál þetta innan frestsins.
Ekki verði annað ráðið en skiptastjóri hafi haft fullnægjandi upplýsingar til að höfða mál þetta þegar við upphaf starfa sinna eða í síðasta lagi eftir skýrslutökur í september 2009. Komi þannig fram í skýrslutökum að skiptastjóri hafði undir höndum skýrslu frá Ernst og Young (dskj. 89), sem hvergi sé vikið að í stefnu, þar sem fjallað hafi verið um starfsemi félagsins. Sé í skýrslunni fjallað um þá gerninga sem hér sé krafist riftunar á. Þá hafi þeir gerningar sem hér um ræðir legið fyrir í bókhaldi félagsins og hafi verið vikið að þeim í skýrslutökum. Við þetta bætist svo að í bréfum skiptastjóra dags. 16. og 20. júlí 2010 sé fjallað um þá gerninga sem krafist er riftunar á. Sé því alveg ljóst að skiptastjóri hafði á þeim tíma fullnægjandi gögn og upplýsingar til að höfða mál þetta. Þrátt fyrir það liðu um fjórir mánuðir þar til málið var loks höfðað, en það hafði jafngilt nærri því sjálfum málshöfðunarfrestinum. Verði stefndi ekki látinn bera hallann af þessum drætti sem er alls óútskýrður. Því verði að miða upphaf kröfulýsingarfrests við lok kröfulýsingarfrests í samræmi við skýra meginreglu þar um.
Málshöfðunarfrestur 110. gr. þágildandi laga um einkahlutafélög. Í stefnu er stefndi krafinn um skaðabætur vegna ætlaðs tjóns stefnanda sem rekja mátti til endurgreiðslu lána sem fóru að stærstum hluta fram í septembermánuði 2007. Um skaðabótaábyrgð stefnda sem stjórnarmanns fer skv. XV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Sé um að ræða almenna skírskotun laganna til almennra reglna skaðabótaréttar og verður ætluð ábyrgð stefnda því ekki reist á þeim síðarnefndu án þeirra fresta sem kveðið er á um í greininni.
Á þeim tíma sem atvik máls þessa áttu sér stað var í gildi 110. gr. laga um einkahlutafélög, en hún hljóðaði svo: „Skaðabótamál þau sem um ræðir í 1.2. mgr. 109. gr. skal höfða nema krafan byggist á refsiverðum verknaði: b. gegn stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum, svo og rannsóknarmönnum, innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs þar sem ákvörðunin eða athöfnin, sem málið byggist á, var samþykkt eða gerð.“
Síðan segir að mál skv. 3. mgr. 109. gr. skuli höfða í síðasta lagi þrem mánuðum eftir að félagið hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Stefndi kveður að yfirgnæfandi hluti þeirra atvika sem skaðabótakrafa stefnanda byggir á hafi átt sér stað í september 2007. Hafi því frestur samkvæmt 110. gr. einkahlutafélaga runnið út í lok árs 2009, en þá var greinin enn í lögunum. Fresturinn rann því út í samræmi við gildandi lög í lok árs 2009.
Málshöfðunarfrestur sem þegar sé runninn út í samræmi við gildandi lög geti ekki raknað við með afturvirkum hætti með því einu að ákvæði þar að lútandi sé fellt úr lögum. Breyti engu í því sambandi þó að í 31. gr. laga nr. 68/2010 hafi verið kveðið á um að „ákvæði um brottfall“ tækju til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna jafnvel þótt málshöfðunarfrestur hafi þá verið liðinn. Með því sé í raun verið að breyta eldri lögum með afturvirkum hætti. Slíkt stangist á við grundvallarreglur réttarríkisins og mannréttindi sem tryggð séu með meðal annars 72. gr. stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og sjónarmið um réttmætar væntingar. Beri því að vísa skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda frá dómi.
Ætluð vanreifun. Þá sé krafa stefnda um frávísun málsins að lokum byggð á því, að krafa á hendur honum sé verulega vanreifuð og málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki áskilnað 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt e-lið ákvæðisins skal stefnandi tilgreina í stefnu þær málsástæður, svo og önnur atvik, sem hann byggir málsókn sína á. Við slíka tilgreiningu verður að gera kröfu um að lýsing málsástæðna nægi til að taka af tvímæli um hver krafan sé. Einnig verði að verða ljóst af þeirri umfjöllun, sem fram fari í stefnu, hvað felist í þeim atvikum sem leiða eigi til þess að krafan verður til.
Þegar lýsing málsástæðna í stefnu sé skoðuð sé ljóst að hún uppfylli ekki kröfur e-liðar 1. mgr. 80. gr. eml. Þar láti stefnandi við það sitja að vísa almennt til þess hvað sé bannað að gera samkvæmt lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög, auk tilvísunar til allra þeirra gerninga sem mál þetta lýtur að og að ætla verði að stefndi hafi tekið ákvörðun um lánveitingar og borið ábyrgð á þeim. Þannig sé samhengi milli málsástæðna og dómkrafna óljóst og stefnan ekki sett fram með skýrum og glöggum hætti. Þá virðist grundvöllur kröfu á hendur stefnda nokkuð á reiki. Beri því að vísa málinu frá dómi á grundvelli 80. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Málshöfðunarfrestur 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Stefnandi kveður að bú Milestone ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009. Kröfulýsingarfresti í búið hafi lokið 23. nóvember 2009. Í 148. gr. gþl. sé kveðið á um sex mánaða málshöfðunarfrest frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfu. Fresturinn byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Samkvæmt því hafi sex mánaða málshöfðunarfresti lokið 23. maí 2010. Stefnandi bendir á að fyrir þann tíma, þ.e. 23. maí 2010, hafi lögunum verið breytt og málshöfðunarfrestur lengdur í tólf mánuði, sbr. lög nr. 31/2010. Stefnandi telur lagaákvæðið skýrt og að það gildi um öll þrotabú sem séu til meðferðar er lögin taka gildi. Ákvæði laganna eigi að skýra eftir orðanna hljóðan. Til ársins 2012 sé málshöfðunarfresturinn tólf mánuðir og gildi það um öll þrotabú.
Stefnandi hafnar því að um afturvirkni sé að ræða. Hann telur að heimilt sé að breyta málsmeðferðarreglum meðan mál sé í gangi. Hann telji meginregluna vera þá að málsmeðferðin ákvarðist af lögum eins og þau séu hverju sinni, þótt upphaf málsins megi rekja til eldri laga. Stefnandi áréttar að með nýju lögunum sé verið að breyta meðferð málsins og stefndi verði að sætta sig við það.
Stefnandi bendir á að tilgangur löggjafans með þessum breytingum á málsmeðferðarfrestum hafi verið sá, að um mjög umfangsmikil gjaldþrotamál sé að ræða og gæta verði jafnræðis kröfuhafa, þ.e. að einstakir kröfuhafar séu ekki betur settir en aðrir vegna ráðstafana sem gerðar voru áður en slitameðferð hófst. Tilgangurinn hafi verið sá að ná til allra þrotabúa. Stefnandi hafnar þeirri lögskýringu sóknaraðila að lagabreytingin taki einungis til þeirra þrotabúa sem voru úrskurðuð eftir 27. apríl 2010 sem sé gildistökudagur laganna.
Stefnandi hafnar umfjöllun stefnda um afstöðu réttarfarsnefndar og bendir á að upphaflega frumvarpið hafi ekki haft að geyma ákvæði um lengingu á málshöfðunarfrestum og það frumvarp hafi farið til umsagnar hjá réttarfarsnefnd. Í meðförum þingsins hafi þessi breyting um lengingu málshöfðunarfrests komið inn þ.e. í kjölfar bréfs réttarfarsnefndar. Breytingarnar hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir afturvirkni.
Stefndi bendir á að breytingar sem gerðar voru á 148. gr. gþl. eigi við um öll mál sem eru til meðferðar. Hann telur það vera meginregluna að þegar lög taki gildi taki þau til allra mála sem séu til meðferðar. Um undantekningar sé kveðið á t.d. í 2. mgr. 188. gr. s.l. Einnig vísar stefnandi til 19. gr. laga 92/1989, 197. gr. laga nr.19/1991, og 165. gr. laga 91/1991.
Málshöfðunarfrestur 110. gr. þágildandi laga um einkahlutafélög. Stefnandi telur að óumdeilt sé að tveggja ára fresturinn sem kveðið er á um í 110. gr. laga um einkahlutafélög hafi veri liðinn. Hins vegar hafi nefnd 110. gr. ehl. verið felld úr gildi með 28. gr. laga nr. 68/2010 og hafi þau lög tekið gildi 24. júní 2010. Stefnandi telur ákvæðið skýrt um að málshöfðunarfrestir hafi verið felldir úr gildi. Stefndi telur aðalatriðið hér vera að afturvirkni laga sé ekki bönnuð nema þegar um skattalög sé að ræða. Afturvirkni sé heimil, en ákvæðið verður að vera skýrt.
Stefnandi leggur áherslu á að málshöfðunarfresturinn hafi verið felldur úr lögum um meðferð einkahlutafélaga. Þar af leiðandi sé enginn frestur og komi ákvæði fyrningarlaga þá einungis til skoðunar.
Ætluð vanreifun málsins. Að lokum hafnar stefnandi því að um vanreifun sé að ræða í málatilbúnaði hans. Gerð sé ítarleg grein fyrir málavöxtum, málsástæðu og lagarökum og auðvelt sé að tengja skýrar dómkröfur málsins við þær málsástæður og lagarök sem byggt er á í málinu. Það virðist ekki hafa vafist fyrir stefnda að taka til varnar í málinu.
Niðurstaða
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009. Kröfulýsingarfrestur rann út 23. nóvember sama ár. Meginreglan er sú að miða eigi upphaf kröfulýsingarfrests við þetta tímamark, en samkvæmt 1. mgr. 148. gr. gþl., þ.e. áður en því ákvæði var breytt með lögum nr. 31/2010, skal höfða dómsmál til að koma fram riftun áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna og byrjar fresturinn þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu hinn 9. nóvember 2010, eða tæpu ári eftir að kröfulýsingarfrestur rann út. Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. gjaldþrotalaga, áður en ákvæðinu var breytt með lögum nr. 31/2010 var málshöfðunarfresturinn því runninn út.
Hinn 26. apríl 2010 tók gildi breyting á nefndri lagagrein, sbr. lög nr. 31/2010 og var málshöfðunarfresturinn lengdur úr sex mánuðum í tólf mánuði. Að öðru leyti var ákvæðið óbreytt. Ástæðu þessarar breytingar má væntanlega rekja til efnahagshruns þess er varð í október 2008. Hafði það í för með sér aukinn fjölda gjaldþrota bæði einstaklinga og félaga og oft á tíðum eru gjaldþrotamál þessi viðamikil. Upphaf að greindri lagabreytingu er að finna í þingskjali nr. 221, 197. máls á 138. löggjafarþingi 2009-2010 þar sem kveðið er svo á, að þrátt fyrir ákvæði XX. kafla gþl. um tímamörk og fresti til riftunar ráðstafana þrotamanns skuli á tímabilinu frá 6. október 2008 til 31. des. 2011 miða tímamörk og fresti riftunar ráðastafana þrotamanns við fjögur ár. Í meðförum Alþingis var ákvæðinu breytt og skv. þskj. 1008 kom inn það ákvæði að málshöfðunarfrestur 148. gr. gjaldþrotalaga ætti að vera tólf mánuðir fram til ársloka 2012. Í nefndaráliti allsherjarnefndar sbr. þskj. 891 kemur fram sá rökstuðningur hennar, að í umsögn réttarfarsnefndar hafi verið tekið fram að þegar krafa um gjaldþrotaskipti hafi verið tekin til greina liggi fyrir frestdagur við skiptin en af honum ráðast riftunarfrestir. Réttarfarsnefnd bendi sérstaklega á, að á hinn bóginn sé hættara við að málshöfðunarfrestir 148. gr. laganna renni út, ef skiptin ganga ekki greiðlega. Allsherjarnefnd telji því ljóst að við þessu þurfi að bregðast með sömu rökum og búa að baki tillögum um lengingu riftunarfresta og leggi hún því til að við bráðabirgðaákvæðið bætist, að málshöfðunarfrestur skuli vera tólf mánuðir fram til ársloka 2012.
Af ákvæði 148. gr. gjaldþrotalaganna, eins og henni var breytt með lögum nr. 31/2010, verður hins vegar ekki ráðið hvenær lagaskilin eru, þ.e. til hvaða mála/tíma tólf mánaða málshöfðunarfresturinn tekur. Ekkert er kveðið á um það í lögum hvernig taka eigi á málum sem eru til meðferðar þ.e. þegar umræddur sex mánaða frestur er hafinn. Því verður ekki ráðið af 148. gr. gjaldþrotalaganna eins og henni var breytt með lögum nr. 31/2010 að hún eigi að gilda um ágreining málsaðila. Verður því að ganga út frá því að málshöfðunarfresturinn hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað.
Í málinu gerir stefnandi einnig sjálfstætt kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda og byggir kröfuna á almennum reglum skaðabótaréttarins (einkum sakarreglunni) ásamt 5. mgr. 79. og 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hér er til þess að líta að frestur til að hafa uppi skaðabótakröfur á hendur stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum einkahlutafélaga, sbr. b-lið 110. gr. laga nr. 138/1994, voru tvö ár frá lokum þess reikningsárs þar sem ákvörðunin eða athöfnin, sem málið byggðist á var samþykkt eða gerð. Málsaðilar eru sammála um að hér eigi að miða við árið 2007 þannig að málshöfðunarfresturinn rann út í lok ársins 2009. Það var síðan með 28. gr. laga nr. 68/2010 að nefnd 110. gr. var felld úr gildi. Í sömu lögum, sbr. 2. mgr. 31. gr., tók eftirfarandi ákvæði gildi: „Ákvæði um brottfall (136. gr. laga um hlutafélög og 110. gr. laga um einkahlutafélög) taka til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laga þessara jafnvel þótt málssóknarfrestur hafi verið liðinn er þau tóku gildi.“ Stefnandi heldur því fram að þar sem 110. gr. ehl. hafi verið felld úr gildi og 2. mgr. 31. gr. tekin upp í hennar stað, þá takmarkist fresturinn einungis að fyrningarlögunum.
Almennt gilda lög ekki um atvik sem gerst hafa áður en lögin tóku gildi. Til þess að svo sé þarf ákvæðið að bera það skýrlega með sér og telur dómurinn að þegar ákvæðið sé lesið í heild sinni skorti verulega á skýrleika þess og er þá sérstaklega horft til upphafs ákvæðisins. Þá ber hér einnig að líta til þess að rúmlega 10 mánuðir voru liðnir frá því að málshöfðunarfrestur 110. gr. laga um einkahlutafélög rann út. Samkvæmt ákvæðinu er því verið að endurvekja málshöfðunarfrest sem var runninn út. Líta verður svo á að ofangreind lagasetning standist ekki ákvæði 72. gr. stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttarins.
Eins og að framan greinir byggir stefnandi skaðabótakröfu sína einnig á almennum reglum skaðabótaréttarins (einkum sakarreglunni). Hefur það ekki þýðingu varðandi lengingu á málshöfðunarfresti, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 9/2002. Í ljósi þess að mál þetta var ekki höfðað fyrir en með birtingu stefnu hinn 9. nóvember 2010 verður á líta svo á að málshöfðunarfresturinn hafi þá verið liðinn.
Að síðustu byggir stefndi á því að málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður. Telja verður að málatilbúnaður stefnanda sé í samræmi við gögn málsins og að stefnandi hafa gert nægilega grein fyrir þeim atvikum sem krafa hans byggir á. Krafa stefnanda og málsástæður hans þykja einnig nægilega reifaðar og skýrar í stefnu til þess að stefndi geti áttað sig á því um hvað málið snýst og tekið til varna, svo sem hann gerði á rúmum þrjátíu blaðsíðum. Þá hefur gagnaöflun ekki verið lýst lokið. Kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá dómi sökum vanreifunar er því hafnað.
Með vísan til þess sem að framan greinir er máli þessu vísað frá dómi. Samkvæmt 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Þb. Milestone ehf., greiði stefnda, Karli Emil Wernerssyni 600.000 kr. í málskostnað.