Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/2003
Lykilorð
- Banki
- Biðlaun
- Niðurlagning stöðu
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2004. |
Nr. 337/2003. |
Landsbanki Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn Sigurveigu S. Róbertsdóttur (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Bankar. Biðlaun. Niðurlagning stöðu.
S hafði starfað um árabil hjá ríkisbankanum L. Með lögum nr. 50/1997 var ákveðið að leggja niður L og skyldi L hf. taka við rekstrinum 1. janúar 1998. Áttu allir starfsmenn L að eiga kost á sambærilegu starfi hjá L hf. og áttu þeir að njóta sömu réttinda og þeir áður höfðu notið samkvæmt kjarasamningum og ráðningarsamningum. S þáði starf hjá L hf. og gegndi því þar til henni var sagt upp frá 31. maí 2002, vegna samdráttar í þjónustu eins af bankaútibúum L hf. Taldi S að hún ætti rétt til biðlauna í 12 mánuði á grundvelli laga nr. 70/1996 þar sem starf hennar hefði verið lagt niður. Talið var að eftir að S lét af störfum hjá L og tók við starfi hjá L hf. hafi lög 70/1996 ekki lengur átt við um réttarstöðu hennar. Yrði ekki af reglum laga nr. 50/1997 eða öðrum réttarheimildum ráðið að L hf. bæri sem einkaaðila um ókominn tíma skylda til að svara til biðlauna gagnvart þeim starfsmönnum sínum sem áður hefðu starfað hjá L. Var L hf. sýknað af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins hóf stefnda störf hjá Landsbanka Íslands í maí 1983. Hinn 29. maí 1997 tóku gildi lög nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, en samkvæmt 3. gr. laganna skyldi áfrýjandi taka við rekstri og starfsemi fyrstnefnda bankans 1. janúar 1998 og hann lagður niður frá þeim tíma. Í 1. mgr. 8. gr. laganna var kveðið á um það að allir starfsmenn Landsbanka Íslands, sem tækju laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða annarra stéttarfélaga, skyldu eiga kost á sambærilegu starfi hjá áfrýjanda. Áttu þeir að njóta sömu réttinda og þeir nutu samkvæmt kjarasamningum og ráðningarsamningum, en réttur til launa úr hendi Landsbanka Íslands að falla niður, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Sagði í 10. gr. þeirra að um biðlaunarétt, sem kynni að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum, ættu að gilda ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Með bréfi 27. júní 1997 greindi bankastjórn Landsbanka Íslands stefndu frá þeim breytingum, sem framangreind lagaákvæði myndu hafa í för með sér fyrir hana og aðra starfsmenn bankans. Var óskað eftir að hún léti í ljós fyrir 15. september 1997 hvort hún hygðist nýta sér rétt sinn til að taka við starfi hjá áfrýjanda, en hvort sem hún gerði það eða ekki lyki störfum hennar hjá Landsbanka Íslands 31. desember sama ár samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1997. Óumdeilt er að stefnda þáði af þessu tilefni starf hjá áfrýjanda.
Áfrýjandi tilkynnti stefndu með bréfi 20. nóvember 2001 að hann hefði ákveðið að stytta afgreiðslutíma í bankaútibúinu á Vopnafirði, þar sem hún starfaði, og fækka með því stöðugildum þar. Var henni af þessum sökum sagt upp starfi frá 1. desember 2001 að telja. Einnig var henni tjáð að vinnuframlags hennar yrði ekki krafist á uppsagnarfresti, sem stæði til 31. maí 2002. Fengi hún laun eftir kjarasamningi bankamanna á því tímabili, en lokauppgjör þeirra færi fram 1. júní 2002.
Samband íslenskra bankamanna greindi áfrýjanda frá því í bréfi 10. apríl 2002 að það teldi starfsmenn hans í útibúum á suðurlandi og austurlandi, sem sagt hafi verið upp síðla árs 2001, eiga rétt til biðlauna vegna þess að störf þeirra hafi verið lögð niður. Þessari skoðun andmælti áfrýjandi með bréfi til stéttarfélagsins 27. júní 2002. Stefnda höfðaði af því tilefni mál þetta 11. desember 2002 og krafði áfrýjanda um greiðslu á samtals 1.011.110 krónum. Kröfu þessa sundurliðaði hún þannig í héraðsdómsstefnu að um væri að ræða föst laun í fimm mánuði, alls 895.500 krónur, 5/12 hluta af svokölluðum þrettánda mánuði, 74.625 krónur, og sama hlutfall af orlofsframlagi, 40.985 krónur. Kom fram í stefnunni að stefnda teldi sig eiga rétt á biðlaunum í tólf mánuði frá því að uppsagnarfresti hennar lauk 1. júní 2002. Málið væri þó aðeins höfðað um hluta heildarkröfunnar, enda væri hún ekki fallin öll í gjalddaga. Fram er komið af hálfu stefndu að hún hóf störf hjá öðrum að loknu umræddu fimm mánaða tímabili og þáði fyrir þau hærri laun en hún hafði áður notið úr hendi áfrýjanda. Hefur hún því fallið frá áskilnaði um biðlaun eftir lok þess tímabils, auk þess að lækka kröfu sína í 631.922 krónur vegna launa, sem hún hafi fengið frá öðrum á fyrstu fimm mánuðunum eftir lok uppsagnarfrestsins.
II.
Stefnda hafði gegnt starfi hjá Landsbanka Íslands í nærri 15 ár þegar starfsemi hans var hætt 1. janúar 1998. Verður að líta svo á að staðan, sem hún gegndi þá, hafi verið lögð niður þannig að til álita hefði komið réttur hennar til biðlauna samkvæmt 10. gr. laga nr. 50/1997, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 3. febrúar 2000 í máli nr. 357/1999 og 9. mars 2000 í máli nr. 377/1999. Til þess kom þó ekki, enda tók stefnda sem fyrr segir við starfi sama dag hjá áfrýjanda og voru þá ekki fyrir hendi skilyrði til greiðslu biðlauna samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996, sbr. 34. gr. þeirra. Þótt áfrýjandi hafi sem hlutafélag verið að verulegu leyti í eigu íslenska ríkisins þegar stefndu var sagt upp störfum 20. nóvember 2001 tóku fyrirmæli laga nr. 70/1996 ekki til hennar eða annarra starfsmanna áfrýjanda, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 2. gr. þeirra. Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1997 var kveðið á um það að starfsmaður Landsbanka Íslands, sem tæki við starfi hjá áfrýjanda 1. janúar 1998, skyldi upp frá því „njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum.“ Hvorki var í þessu né öðrum ákvæðum laganna mælt fyrir um að áfrýjandi bæri sem einkaaðili um ókominn tíma skyldu eins og ríkisstofnun gagnvart starfsmanni sínum, sem áður var í þjónustu Landsbanka Íslands, til að svara til biðlauna ef staða hans yrði lögð niður. Slík skylda verður ekki leidd af öðrum réttarheimildum, en til þess verður að líta að fyrrnefndir dómar Hæstaréttar vörðuðu réttarstöðu manna, sem létu af störfum hjá Landsbanka Íslands áður en áfrýjandi tók við rekstri og starfsemi hans. Með því að lagaheimild brestur þannig fyrir kröfu stefndu verður fallist á kröfu áfrýjanda um sýknu.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Landsbanki Íslands hf., er sýkn af kröfu stefndu, Sigurveigar S. Róbertsdóttur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 16. maí sl. er höfðað með stefnu útgefinni 11. desember 2002 og var málið þingfest þann 12. desember 2002.
Stefnandi málsins er Sigurveig S. Róbertsdóttir, kt. 301152-4779, til heimilis að Kolbeinsgötu 24a, Vopnafirði.
Stefndi er Landsbanki Íslands hf. kt. 540291-2259.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 631.922 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 282.782 frá 1.júní 2002 til 1. júlí s.á. af kr. 386.975 frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af kr. 439.303 frá þeim degi 1. september s.á., af kr. 516.312 frá þeim degi til 1. október s.á. og af kr. 631.922 frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er krafist skaðabóta að sömu fjárhæð og með sömu dráttarvöxtum og greinir í aðalkröfu.
Þá er þess krafist, að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12. mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. júní 2003.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru, aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af bæði aðal- og varakröfu stefnanda.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Málavextir:
Óumdeilt er, að stefnandi réðst til starfa hjá Landsbanka Íslands í maí 1983 og síðar til Landsbanka Íslands hf. þann 1. janúar 1998 og vann þar uns henni var sagt upp störfum frá og með 1. desember 2001 með 6 mánaða uppsagnarfresti, þar sem ákveðið hefði verið að stytta afgreiðslutíma bankans. Hún hafi allan þann tíma unnið hjá útibúinu á Vopnafirði.
Með bréfi bankastjórnar þann 27. maí 1997 var stefnanda kynnt efni laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skyldi stefndi taka við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands hinn 1. janúar 1998 og var stefnanda gefinn kostur á sambærilegu starfi hjá hlutafélaginu frá þeim tíma, sbr. 8. gr. laganna.
Með bréfi stefnda, dagsettu 20. nóvember 2001, var stefnanda tilkynnt, að hann hefði ákveðið að stytta afgreiðslutíma Landsbankans á Vopnafirði og þar af leiðandi fækka stöðugildum starfsfólks. Henni var því sagt upp störfum frá og með 1. desember 2001. Vinnuframlags var ekki krafist af hálfu bankans á uppsagnarfresti. Í samræmi við ákvæði kjarasamnings yrðu henni greidd laun til loka uppsagnarfrests 31. maí 2002.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi hafi unnið í full 18 ár hjá bankanum, þegar hún hafi verið látin hætta þar störfum. Í uppsagnarbréfi bankans komi fram, að vinnuframlags sé ekki óskað af hennar hálfu eftir 1. desember 2001, hún fái greidd laun til og með 31. maí 2002 og lokauppgjör fari fram 1. júní 2002. Stefnandi hafi þannig látið af störfum 30. nóvember 2001 og notið launa til 31. maí 2002.
Stefnandi telur sig eiga rétt á biðlaunum eða skaðabótum frá stefnda í 12 mánuði frá því uppsagnarfrestur hennar rann út 31. maí 2002 skv. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða og 34. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 10. gr. laga nr. 59/1997. Af þeim séu, þegar stefna er útgefin, liðnir 5 mánuðir, þ.e. júní til og með október 2002. Í biðlaununum telji stefnandi eiga að felast föst mánaðarlaun, hlutdeild í 13. mánuði og hlutdeild í orlofsframlagi. Stefnandi hafi verið í 100% starfi, þegar henni hafi verið sagt upp, en þá hafi mánaðarlaun hennar miðað við fullt starf verið kr. 178.100.
Þar sem nú sé gerð krafa um greiðslu biðlauna í 5 mánuði, sé gerð krafa um sömu hlutdeild, eða 5/12 af 13. mánuði og orlofsframlagi, sem sé kr. 98.365.
Mánaðarlaun stefnanda fyrir maímánuð 2002 hafi numið kr. 178.100 og sundurliðast kröfugerðin því þannig:
1. 5 mánaðalaun x 178.100 kr. 890.500
2. 5/12 af 13. mánuði, kr. 178.100 kr. 74.625
3. 5/12 af orlofsframlagi, af kr. 98.365 kr. 40.985
Samtals kr. 1.006.110
Stefnandi vísar til þess, að starfsmenn Landsbanka Íslands hafi fallið undir lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 38/1954, sbr. lög nr. 70/1996. Í 14. gr. laga nr. 38/1954 og í 34. gr. laga nr. 70/1996 sé gert ráð fyrir að starfsmenn, sem lögin taki til, eigi rétt á 12 mánaða biðlaunum, hafi þeir unnið í 15 ár eða lengur hjá ríkinu.
Á tímabilinu frá því stefnandi hætti störfum hafi hún fengið greidd laun frá öðrum, þannig: Fyrir júlí kr. 74.478, ágúst 73.847, fyrir september 125.772, og október kr. 101.091 eða samtals kr.
Þá vísar stefndi til þess, að þegar sú ákvörðun hafi verið tekin að breyta ríkisbönkunum í hlutafélagabanka, hafi það gerst með setningu sérstakra laga, nr. 50/1997. Samkvæmt 8. gr. þeirra laga sé skýrt kveðið á um, að allir starfsmenn, sem laun taki samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, eigi kost á sambærilegu starfi hjá Landsbanka Íslands hf. við yfirtöku hlutafélagsins á bankanum. Þá segir, að taki maður, sem gegnir starfi hjá Landsbanka Íslands við starfi hjá Landsbanka Íslands hf., skuli hann njóta sömu réttinda og hann hafi haft samkvæmt kjarasamningum eða ráðningar- samningum.
Stefnandi heldur því fram, að í ákvæði þessu sé beint tekið á því, að starfsmaður, sem flyst úr ríkisbankanum í hlutafélagabankann, eigi að njóta sömu réttinda og hann hafði áður.
Stefnandi kveður ekki leika vafa á, að hluti af þeim réttindum, sem vísað er til í 8. gr. laganna og sem starfsmaður eigi að njóta eftir aðilaskiptin að rekstrinum, sé biðlaunaréttur samkvæmt lögum nr. 70/1996, enda sé sérstaklega tekið fram í 10. gr. laganna, að um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskipta-bönkunum, gildi ákvæði laga nr. 70/1996, um skyldur og réttindi starfsmanna ríkisins.
Þá bendir stefnandi á hæstaréttardóm frá 9. mars 2000, í málinu nr. 377/1999, þar sem fram kemur, að þar sem ríkissjóður hafi lagt allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar ríkisviðskiptabankanna til hlutafélaganna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1997, hafi hlutafélagsbankinn tekið yfir allar skuldbindingar Landsbanka Íslands, ekki aðeins samkvæmt kjarasamningum og ráðningarsamningum heldur einnig samkvæmt lögum.
Málsástæður stefnda:
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/1997 og laga nr. 70/1996 , sbr. lög nr. 38/1954, eigi stefnandi ekki rétt á greiðslu biðlauna af hálfu stefnda. Biðlaunaréttur ríkisstarfsmanna hafi aldrei verið skilyrðislaus. Í ákvæðum 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 komi skýrt fram, að réttur til biðlauna falli niður ef starfsmaður tekur við starfi hjá ríkinu eða öðrum, fái hann sömu laun og áður. Sú hafi einmitt verið raunin þegar stefnandi hafi hafið störf hjá Landsbanka Íslands hf. Við þá ráðningu hafi stefnandi hætt að lúta lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gagnvart Landsbanka Íslands hf. eigi stefnandi því enga kröfu til greiðslu biðlauna.
Varakrafa stefnanda, sem er krafa um skaðabætur, sé vanreifuð og beri því að vísa henni frá dómi.
Verði ekki á það fallist, beri að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda enda hafi ekki verið sýnt fram á nauðsynleg skilyrði þess að skaðabótaskylda hafi stofnast.
Niðurstaða:
Ekki er umdeilt í málinu, að stefnandi hafi sem ríkisstarfsmaður fallið undir ákvæði laga nr. 38/1954 og síðar laga nr. 70/1996.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 3. febrúar 2000 í málinu nr. 357/1999 var því slegið föstu, að ákvæði laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefðu áður gilt um starfsmenn ríkisviðskiptabankanna. Þar varð niðurstaðan því sú, að biðlaunaréttur samkvæmt 14. gr. laganna hefði fylgt þeim störfum. Um biðlaunaréttinn gilda nú ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða og 34. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 10. gr. laga nr. 50/1997.
Í hæstaréttardómi frá 9. mars 2000 í málinu nr. 377/1999, segir, með vísan til 2. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1997, að hlutafélagabankinn hafi tekið yfir allar skuldbindingar Landsbanka Íslands, ekki aðeins samkvæmt kjarasamningum og ráðningar- samningum, heldur einnig samkvæmt lögum.
Réttur til biðlauna samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 og 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, verður ekki virkur nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Fyrsta skilyrði þess, að rétturinn verði virkur, er að staða sé lögð niður.
Í því tilviki sem hér um ræðir, virðist byggt á því af hálfu stefnda, að staða stefnanda hafi verið lögð niður með breytingu á rekstrarformi bankanna 1. janúar 1998, og að með bréfi Landsbanka Íslands til allra starfsmanna, dags. 27. júní 1997, hafi stefnanda verið sagt upp starfi hjá þeim banka.
Ekkert kemur fram um það í lögum nr. 50/1997, að segja beri upp starfsmönnum Landsbanka Íslands og ráða þá að nýju hjá Landsbanka Íslands hf. við breytinguna.
Á þeim tíma, sem þessi breyting varð á rekstrarformi bankans, voru í gildi lög nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Í 3. gr. þessara laga segir: „Aðilaskipti, sbr. 1. gr., geta ein sér ekki verið ástæða fyrir uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekanda, hvorki fyrir né eftir aðilaskiptin.” Verður þá að líta svo á, að stefnanda hafi ekki verið sagt upp eða staða hennar lögð niður við breytinguna 1. janúar 1998, enda er það ekki berum orðum sagt í ofangreindu bréfi frá 2. júní 1997.
Ekkert hefur komið fram um það, að stefnandi hafi skipt um starf við aðilaskiptin 1. janúar 1998.
Annað skilyrði fyrir því, að biðlaunaréttur verði virkur, er að starfsmaður hafi ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins eða annars aðila.
Til þess, að biðlaunaréttur verði virkur við þessi skilyrði, verður starfi að ljúka, án þess að starfsmanni sé boðið sambærilegt starf. Þegar stefnanda var boðið sambærilegt starf á vegum stefnda og hún hafði haft hjá Landsbanka Íslands og hún tók því boði, varð biðlaunaréttur hennar ekki virkur. Biðlaunarétturinn féll hins vegar ekki niður, en verður virkur, ef skilyrðum laganna er fullnægt síðar.
Ekki er ágreiningur í málinu um að stefnanda var sagt upp störfum með bréfi dagsettu 19. nóvember 2001, frá 1. desember 2001. Jafnframt kom fram í bréfinu, að ástæða uppsagnarinnar væri, að ákveðið hefði verið að draga saman í rekstri Landsbankans á Vopnafirði og þar af leiðandi fækka stöðugildum starfsfólks. Leikur þá ekki vafi á, að fullnægt er því skilyrði laganna, að staða stefnanda hefur verið lögð niður. Jafnframt kemur fram í bréfinu, að vinnuframlags verði ekki krafist af stefnanda í uppsagnarfresti, en laun verði greidd til loka frestsins, þ.e. til 31. maí 2002. Stefndi hefur ekki boðið stefnanda sambærilega stöðu eða aðra stöðu og ekki hefur verið sýnt fram á, að stefnanda hafi boðist staða hjá öðrum.
Eru þá uppfyllt skilyrði 34. gr. laga nr. 70/1996 um greiðslu biðlauna og er kröfunni samkvæmt ofanskráðu réttilega beint að stefnda, Landsbanka Íslands hf.
Í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða laga nr. 70/1996 segir, að sé starf lagt niður, eigi starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna, þann 1. júlí 1996, og fallið hefði undir lög nr. 38/1954, en teljist ekki embættismaður skv. 22. gr. laga nr. 70/1996, rétt til bóta, er nemi launum í sama tíma og um væri að ræða biðlaun samkvæmt 34. gr. laganna.
Stefnandi hóf störf sem ríkisstarfsmaður 1983 og hefur því sem slík fallið undir lög nr. 54/1954. Stefnandi telst ekki hafa verið embættismaður samkvæmt 22. gr. laga nr. 70/1996 og ber því að nefna greiðslu þá, sem henni ber, bætur, eins og gert er ráð fyrir í varakröfu stefnanda.
Er þá varakrafa stefnanda tekin til greina, en jafnframt hafnað kröfu stefnda um frávísun varakröfunnar frá dómi.
Að þessari niðurstöðu fenginni er ekki tölulegur ágreiningur um kröfugerð stefndanda, og verður niðurstaða málsins sú, að stefndi, Landsbanki Íslands hf., greiði stefnanda, Sigurveigu S. Róbertsdóttur, kr. 631.922 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 282.782 frá 1. júní 2002 til 1. júlí s.á. af kr. 386.975 frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af kr. 439.303 frá þeim degi til 1. september s.á., af kr. 516.312 frá þeim degi til 1. október s.á. og af kr. 631.922 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda kr. 250.000 í málskostnað.
Dóm þennan kveður upp Logi Guðbrandsson, héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Hafnað er kröfu stefnda um frávísun varakröfu stefnanda frá dómi.
Stefndi, Landsbanki Íslands hf. greiði stefnanda, Sigurveigu S. Róbertsdóttur, kr. 631.922 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 282.782 frá 1. júní 2002 til 1. júlí s.á. af kr. 386.975 frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af kr. 439.303 frá þeim degi til 1. september s.á., af kr. 516.312 frá þeim degi til 1. október s.á. og af kr. 631.922 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda kr. 250.000 í málskostnað.