Hæstiréttur íslands
Mál nr. 767/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Miðvikudaginn 8. janúar 2014. |
|
Nr. 767/2013. |
Soffanías
Cecilsson hf. (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) gegn Landsbankanum
hf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var
úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni S hf. um dómkvaðningu matsmanna.
L hf. hafði höfðað mál á hendur S hf. vegna endurgreiðslu tveggja lánssamninga.
Með matsbeiðni óskaði S hf. eftir dómkvaðningu tveggja sérfróðra og óvilhallra
manna til að svara þremur spurningum er lutu að því hvenær L hf. hafi verið
rétt og skylt að ráðleggja S hf. að selja tiltekin verðbréf. Í úrskurði
héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði
m.a. að í sjálfu sér væri ljóst hvað meta ætti og hvað S hf. hygðist sanna með
matsgerðinni. Þá yrði því ekki haldið fram að bersýnilega óþarft væri að meta
þau atriði sem matsbeiðnin lyti að. Á hinn bóginn væru tvær spurninganna
leiðandi um atriði sem lagalegur ágreiningur stæði um og dómara bæri að leggja
mat á samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Væru ekki
forsendur til að dómkveðja sérfróða matsmenn til að svara þeim, sbr. 2. mgr.
60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Þá leiddi þriðja
spurningin af svari við hinum tveimur. Bæri því að hafna dómkvaðningu matsmanna
á grundvelli fyrirliggjandi matsbeiðni.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2013 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo sérfróða og óvilhalla menn til að svara nánar tilteknum spurningum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Soffanías Cecilsson hf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2013.
I.
Mál
þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. nóvember sl., er höfðað 28. desember 2012
af Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík, gegn Soffaníasi Cecilssyni
hf., Borgarbraut 1 í Grundarfirði.
Í
málinu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða 2.743.711.737
japönsk jen og 2.379.096.967 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þá
krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi
krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfurnar
verði lækkaðar verulega og að viðurkennt verði með dómi að dómkrafa stefnanda í
japönskum jenum sé ólögmæt. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Stefndi
lagði í þinghaldi 16. september sl. fram beiðni um dómkvaðningu tveggja
matsmanna til að svara nánar tilgreindum matsspurningum. Stefnandi áskildi sér
í fyrstu rétt til þess að mótmæla dómkvaðningunni og lagði fram bókun þess
efnis í þinghaldi 10. október sl. Lögmenn fengu færi á að reifa sjónarmið sín
um þetta álitaefni 5. nóvember sl. og var það tekið til úrskurðar í kjölfarið.
II.
Í
máli þessu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu tveggja lánssamninga milli
stefnda og Landsbanka Íslands hf. Annar lánssamningurinn, lán nr. 7206, er
dagsettur 13. mars 2007, og var upphaflega að fjárhæð 1.500.000.000 króna, í
nánar tilgreindum mynthlutföllum. Bar að endurgreiða lánið með einni afborgun í
lok lánstímans 25. mars 2010, en þó skyldi greiða vexti á sex mánaða fresti.
Lánið var ekki endurgreitt á gjalddaga. Með bréfi, dags. 6. september 2011, var
viðurkennt að lán þetta kvæði á um ólögmæta gengistryggingu og voru
eftirstöðvarnar endurreiknaðar. Kveður stefnandi að síðari dómkrafa sín taki
mið af þeim endurútreikningi þar sem miðað sé við lægstu óverðtryggðu vexti
Seðlabanka Íslands samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001.
Hinn
lánssamningurinn, lán nr. 9089, er frá 22. ágúst 2007. Samningurinn fól í sér
skyldu stefnanda til að veita stefnda „fjölmyntalán til 2,5 ára að jafnvirði
kr. 1.500.000.000 ... í japönskum jenum“. Bar að endurgreiða lánið sama dag og
fyrrgreint lán nr. 7206, 25. mars 2010, en vexti bar að greiða á sex mánaða
fresti. Stefnandi segir að þetta lán hafi verið greitt út með því að leggja
samtals 2.687.229.525 japönsk jen inn á gjaldeyrisreikning stefnda í sex hlutum
24. ágúst 2007. Stefnandi vísar einnig til þess að greitt hafi verið af láninu
að hluta í japönskum jenum. Kveður stefnandi fyrri dómkröfu sína nema
eftirstöðvum lánsins.
Hið
stefnda félag reisir sýknukröfu sína í mjög stutt umáli á því að fjármunirnir
hafi verið notaðir til að kaupa annars vegar hlutabréf í Landsbanka Íslands hf.
og hins vegar til að fjármagna kaup stefnda á peningabréfum bankans, allt í
samræmi við ákvæði í lánssamningunum. Telur stefndi sig vera óbundinn af þessum
samningum þar sem þeir séu ekki gildir og vísar um það m.a. til umboðsskorts,
en stefndi sé útgerðarfélag. Þá hafi bankinn virt að vettugi við
samningsgerðina upplýsingaskyldu sína, skyldur um góða viðskiptahætti,
leiðbeiningarskyldu og reglur um fjárfestavernd. Þannig telur stefndi að
stjórnendum bankans hafi verið kunnugt eða átt að vera kunnugt um að
fjárhagsstaða bankans væri svo slæm að óheimilt hafi verið að ráðleggja stefnda
að kaupa hlut í bankanum. Síðar hafi bankanum einnig verið skylt að vara
stefnda við svo félaginu væri unnt að selja bréfin. Þá telur stefndi sig eiga
gagnkröfu á hendur stefnda sem sé jafnhá eða hærri en stefnukröfurnar.
Varakrafa stefnda um lækkun er meðal annars reist á því að eigi síðar en 3.
desember 2007 hafi bankinn átt að ráðleggja stefnda að selja hluti sína í
bankanum og peningabréfin til að takmarka tjón stefnda. Jafnframt byggir
stefndi á því að lán nr. 9089 sé ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum,
en ekki erlent lán. Því beri að sýkna stefnda af endurgreiðslu þess í japönskum
jenum.
III.
Með
matsbeiðni, sem lögð var fram í þinghaldi 16. september sl., óskar stefndi
eftir dómkvaðningu tveggja sérfróðra og óvilhallra manna til þess að svara
þremur matsspurningum sem eru svohljóðandi:
„a) Að
matsmennirnir láti í té álit sitt á því hvenær Landsbanka Íslands hf. var rétt
og skylt að ráðleggja matsbeiðanda að selja hlutabréf þau og peningabréf
Landsbankans hf. sem bankinn seldi matsþola í mars og ágúst 2007, en kaupverð
verðbréfanna lánaði Landsbankinn hf. matsbeiðanda með lánum veittum í mars og
ágúst 2007 gegn handveði í í hinu seldu verðbréfum. Hvort lán var að fjárhæð
kr. 1.500.000.000. Við mat á því hvenær bankanum var rétt og skylt að ráðleggja
sölu verðbréfanna skulu matsmenn hafa hliðsjón af neikvæðri þróun markaðsverðs
hlutabréfa í bankanum og líklegri vitneskju bankans um að hin neikvæða
verðþróun héldi áfram.
b) Telji
matsmenn að ekki sé rétt að miða við sama tímamark um það hvenær Landsbanka
Íslands hf. var skylt að ráðleggja matsbeiðanda að selja annars vegar
hlutabréfin í bankanum og hins vegar peningabréf bankans, þá er þess óskað að
matsmennirnir láti í ljós álit sitt á því hvenær bankanum var rétt og skylt að
ráðleggja matsbeiðanda að selja hlutabréfin og hvenær bankanum var rétt og
skylt að ráðleggja matsbeiðanda að selja peningabréfin.
c) Þá er
þess óskað að matsmennirnir segi til um hvaða verð matsbeiðandi hefði fengið
fyrir umrætt hlutabréf og umrætt peningabréf ef matsbeiðandi hefði farið að
þeim ráðum sem bankanum var skylt að veita matsbeiðanda samkvæmt a og b hér að
framan.“
Aðili
að máli, sem rekið er á grundvelli laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, á að
meginstefnu til rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann
telur þörf á og er það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að hamla því nema
með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara almennt að verða við beiðni
málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr.
91/1991 nema að skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir
hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti
máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna eða að matsbeiðnin lúti að atriðum sem
dómara ber að leggja sjálfur mat á, ekki sérfróðir matsmenn, sbr. 2. mgr. 60.
gr. og 1. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna. Dómara ber að sjálfsdáðum að leggja
mat á framangreind atriði og þar með hvort dómkveðja beri matsmenn í samræmi
við matsbeiðni.
Í
2. málsl. 1. gr. 61. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að í beiðni skuli koma
skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað aðili hyggst
sanna með mati. Dómari telur í sjálfu sér ljóst af efni matsspurninganna hvað meta
eigi og hvað stefndi hyggst sanna með matsgerðinni. Í ljósi málatilbúnaðar
stefnda verður því heldur ekki haldið fram að það sé bersýnilega óþarft að meta
þau atriði sem matsbeiðnin lýtur að. Eins og matsspurningarnar eru úr garði
gerðar er þar á hinn bóginn gefið fyrir fram að Landsbanka Íslands hf. hafi
borið sérstök skylda til að ráðleggja stefnda að selja umrædd verðbréf eftir að
stefndi varð eigandi þeirra. Að því leyti eru matsspurningar a og b leiðandi um
atriði sem lagalegur ágreiningur stendur um og dómara ber að leggja mat á
samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Sé slíkri skyldu til að dreifa ræðst
niðurstaða um hvenær til hennar hafi stofnast einnig af lagalegum forsendum sem
dómari á að leggja sjálfur mat á, ekki sérfróðir matsmenn. Þessar spurningar
eru því svo þrungnar lagalegum álitaefnum, sem einungis krefjast lagaþekkingar,
að dómari telur ekki forsendur til að dómkveðja sérfróða matsmenn til að svara
þeim, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Þá
leiðir matsspurning c af svari við fyrrgreindum spurningum, a og b. Því ber að
hafna dómkvaðningu matsmanna á grundvelli fyrirliggjandi matsbeiðni.
Við
flutning málsins um framangreint álitaefni gerðu aðilar kröfu um greiðslu
málskostnaðar. Ákvörðun hans bíður lokaniðurstöðu málsins eins og ráð er fyrir
gert í XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Ásmundur
Helgason kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Beiðni
stefnda, Soffaníasar Cecilssonar hf., um dómkvaðningu matsmanna, sem lögð var
fram í þinghaldi 16. september sl., er hafnað.
Ákvörðun
málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.