Hæstiréttur íslands
Mál nr. 124/2005
Lykilorð
- Hjálparskylda
|
|
Fimmtudaginn 13. október 2005. |
|
Nr. 124/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Eiði Erni Ingvarssyni. (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Hjálparskylda.
E var ákærður fyrir að hafa látið farast fyrir að koma A undir læknishendur þegar hún veiktist lífshættulega í íbúð þar sem þau voru stödd og lést af völdum bannvænnar kókaín- og MDMA eitrunar. Talið var að E hafi verið ljóst að A væri í lífshættu og að honum hafi borið að kalla til sjúkralið. Hann var því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu, en til vara að refsing verði lækkuð.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta hann.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, Eiður Örn Ingvarsson, greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 1.253.496 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 199.200 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 199.200 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 10. september 2004 á hendur Eiði Erni Ingvarssyni, [...], Borgargerði 6, Reykjavík, fyrir brot gegn lífi og líkama með því að hafa, staddur í íbúð að Lindargötu [...], Reykjavík, ásamt A, látið farast fyrir að koma A undir læknishendur þegar hún veiktist þar lífshættulega síðdegis mánudaginn 25. ágúst 2003 og lést af völdum banvænnar kókaín- og MDMA (3.4 metílendíoxímetamfetamín) eitrunar.
Er þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. sömu lagagreinar.
Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist, að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Mánudaginn 25. ágúst 2003, kl. 20.29, barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um mannslát að Lindargötu [...] þar í borg. Tilkynnandi var ákærði, Eiður Örn Ingvarsson. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi tekið á móti lögreglu á vettvangi. Hafi hann lýst fyrir lögreglu að látin stúlka væri í svefnherbergi í íbúðinni. Ákærði hafi verið mjög hikandi og ekki tilbúinn að segja að fyrra bragði að um væri að ræða andlát. Er þess getið að íbúðin hafi verið á jarðhæð í 4 hæða húsi. Lögregla hafi farið inn í húsið og þar inn í svefnherbergi, sem hafi verið frekar sóðalegt, en föt hafi legið víða. Í rúmi við glugga hafi ljóshærð ung stúlka legið á vinstri hlið með sæng breidda upp að vanga. Hafi hún verið án klæða og hafi lögregla fært sængina niður að mitti. Húð stúlkunnar hafi verið gul að lit, orðin köld viðkomu og stíf. Aðgætt hafi verið með púls, sem enginn hafi fundist. Fingurgómar hafi verið orðnir bláleitir, sem og varir. Tækni- og rannsóknardeild lögreglu hafi verið kölluð að Lindargötunni, sem og héraðslæknir. Ákærði hafi verið í miklu uppnámi og borið þess merki að geta verið undir áhrifum örvandi efna. Framburður hans hafi verið samhengislaus á köflum. Um aðstæður á vettvangi er tekið fram að baðherbergisgólf hafi verið blautt. Í sturtubotninum hafi mátt sjá tvo blauta brúnleita púða og moppur. Ákærði var handtekinn af lögreglu á vettvangi vegna rannsóknar málsins og færður í fangageymslur lögreglu.
Í rannsóknargögnum málsins liggur frammi krufningarskýrsla Þóru Steffensen réttarmeinafræðings, en krufning á A fór fram 27. ágúst 2003. Í ályktun er dánarorsök tilgreind banvæn kókaín- og MDMA-eitrun. Réttarefnafræðilegar mælingar sýni styrk MDMA og umbrotsefnis þess innan þeirra marka sem sést hafi við banvænar eitranir af MDMA eingöngu. Styrkur kókaíns og umbrotsefnis þess, benzóýlekgóníns sé einnig innan þeirra marka sem sést hafi við banvænar eitranir af völdum kókaíns eingöngu. Styrkur amfetamíns í blóði hafi verið talsvert umfram það sem búast megi við þegar amfetamín sé notað til lækninga og bendi til vægrar eitrunar. Tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi bendi til að A hafi neytt kannabis, en geti ekki skorið úr um hvort hún hafi verið undir áhrifum þess er hún hafi látist. Þótt styrkur MDMA og kókaíns hafi verið innan þeirra marka sem sést hafi við banvænar eitranir af völdum MDMA eða kókaíns eingöngu, sé einnig vel þekkt að þol myndist gegn þessum efnum við endurtekna notkun og sé erfitt að setja efri banvæn mörk á styrk þessara efna. Tífalt stærri skammtar af kókaíni hafi mælst hjá einstaklingum sem látist hafi af völdum áverka en hjá einstaklingum sem látist hafi af völdum kókaíneitrunar. Einnig sé þekkt að ekki sé beint samband á milli skammtastærða og eitrunareinkenna MDMA. Einstaklingar hafi látist eftir að hafa neytt einnar töflu af MDMA meðan aðrir sem hafi tekið 40-50 töflur hafi lifað eitrunina af. Einstaklingar með margfalt hærri styrk af MDMA í blóði en A hafi lifað slíka eitrun af eftir að hafa fengið meðferð á sjúkrahúsi. Það sé því hugsanlegt að A hefði getað lifað eitranirnar af, hefði hún komist á sjúkrahús strax eftir að komið hafi verið að henni í krömpum. Hversu miklar líkurnar séu, sé hins vegar ekki hægt að segja til um.
Þá er á meðal gagna málsins matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 5. september 2003, um mælingar á blóði A. Í matsgerðinni kemur fram að etanól í blóði hafi verið 0,27 o/oo og 0,52 o/oo í þvagi. Niðurstöður rannsóknanna bendi eindregið til þess að konan hafi látist úr eitrun af völdum kókaíns og MDMA.
Ákærði var fyrst yfirheyrður um atburði þriðjudaginn 26. ágúst 2003. Um atvik bar hann með þeim hætti að hann hafi komið til Reykjavíkur um miðnætti sunnudagskvöldið 24. ágúst, úr veiðiferð utan af landi. Um kl. 00.30 til 01.00 hafi B ekið ákærða frá tilteknum stað að heimili C að Lindargötu [...] í Reykjavík, en á heimili C hafi ákærði dvalið. B hafi fljótlega haldið á brott en C komið að Lindargötunni. Í kjölfarið hafi ákærði og C byrjað að drekka áfengi. Einhvern tíma að morgni mánudagsins 25. ágúst hafi tvær stúlkur komið að Lindargötunni og hafi A verið önnur þeirra. Gat ákærði þess að hann hafi hringt í stúlkurnar og boðið þeim í samkvæmið, en símanúmer þeirra hafi hann fengið hjá B. Ákærði, C, A og vinkona hennar hafi drukkið áfengi og tekið kókaín í nefið. Einhver annar hafi jafnframt verið í samkvæminu sem ákærði kvaðst á þeim tíma ekki muna hver hafi verið. Ákærði hafi um nóttina farið í sturtu með A þar sem þau hafi haft samfarir. Einhverju síðar hafi ákærði og A verið orðin tvö ein eftir í íbúðinni, en ákærði hafi ekki gert sér grein fyrir hvernig tíminn hafi liðið. Hafi þau haldið samförum áfram. Síðar hafi ákærði ákveðið að nálgast hass er hann hafi átt á vísum stað utandyra. Hafi hann klætt sig og farið að Skúlagötu, þar sem hann hafi geymt efnið. Er ákærði hafi komið til baka í íbúðina hafi A verið í stól í stofu í íbúðinni og hafi hún verið í krampakasti. Á borði fyrir framan hana hafi verið sprauta með nál og botn af áldós. Einnig hafi verið þar kertastjaki, en greinilegt hafi verið af ummerkjum að þar hafi verið ,,mallað” í sprautuna. A hafi öll kippst til og hafi froða komið út um munnvik hennar. Hafi ákærði farið aftan að henni og haldið henni uppi með því að smeygja höndum undir handarkrika hennar. Þannig hafi hann gengið með hana um gólf. Hafi hún verið meðvitundarlaus og hangið máttlaus í höndum hans. Síðan hafi ákærði sett A í kalda sturtu til að hressa hana við. Hafi hann lagt hana upp í horn sturtuklefans í sitjandi stöðu og látið renna á hana kalt vatn. Hafi hún þá aftur farið að kippast til. Þá hafi ákærði náð í tvo stóra púða og sett undir hana í sturtunni. Á meðan hann hafi verið að setja púðana undir hana og hagræða henni hafi höfðuð hennar skollið í sturtuklefann. Hafi ákærði haldið áfram að kæla hana með vatni og hafi hún þá hætt að kippast til. Hafi ákærði þá óttast að hún væri dáin eða við það að deyja. Hafi hann þá tekið hana út úr sturtunni og fært hana fram á gólfið. Þar hafi hann sett púða undir höfðuð hennar. Tunga hennar hafi þá legið út um munninum. Hafi hann troðið putta upp í kok hennar til að hagræða tungunni. Síðan hafi hann lagt hana á bakið, notað blástursaðferð og reynt hjartahnoð. Kvaðst ákærði þá hafa fundið fyrir púls hjá henni. Eftir það hafi ákærði borið A inn í svefnherbergi og lagt hana þar niður í rúm. Í framhaldi þessa hafi hann hringt í föður sinn og leitað eftir því við hann hvort hann gæti fært sér sígarettur, en honum hafi verið kunnugt um að faðir sinn væri að vinna skammt undan. Ákærði hafi ákveðið að taka áðurnefnda sprautu og önnur ummerki um fíkniefnaneyslu A og hafi hann sett þessa hluti í handtösku hennar. Faðir ákærða hafi komið með sígaretturnar. Eftir að hann hafi verið kominn á staðinn hafi ákærði leitað eftir því við hann að líta á A og athuga hvort hann findi púls hjá henni. Hafi faðir ákærða þreifað á hendi hennar og hálsi en engan púls fundið. Hafi hann þá sagt ákærða að hringja strax á Neyðarlínuna og því næst horfið af vettvangi. Hafi ákærði ekki treyst sér til að hringja strax í Neyðarlínuna þar sem hann hafi þurft að fela fíkniefni og áhöld til fíkniefnaneyslu. Það hafi hann gert en á þeim tíma hafi honum verið ljóst að A væri dáin. Eftir að ákærði hafi falið fíkniefnin hafi hann farið að horni Lindargötu og Klapparstígs og hitt föður sinn þar. Hafi faðir ákærða innt ákærða eftir því hvort hann væri búinn að hringja í Neyðarlínuna og hafi ákærði sagt svo ekki vera. Ákærði hafi hringt í C og sagt honum að A væri látin, að ákærði yrði að kalla til lögreglu og að C skyldi taka hluti úr íbúðinni ef hann þyrfti áður en lögregla kæmi á staðinn. C hafi komið að Klapparstígnum og þeir ekið um á bifreið C, uns þeir hafi farið að Lindargötunn. C hafi sennilega farið inn á Lindargötuna, áður en hann hafi haldið á brott. Í kjölfarið hafi ákærði kallað til lögreglu.
Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 27. ágúst 2003. Við þá skýrslugjöf skýrði ákærði frá atvikum með svipuðum hætti og í fyrri skýrslugjöf hjá lögreglu. Kvaðst hann þá muna að D hafi komið að Lindargötunni á mánudeginum 25. ágúst, eftir að A og vinkona hennar, E, hafi komið þangað. Er ákærði var beðinn um að lýsa neyslu fíkniefna að Lindargötunni kvaðst hann einungis geta lýst eigin neyslu. Kvaðst hann hafa drukkið brennivín. Einnig hafi hann tekið inn kókaín á u.þ.b. einnar klukkustundar fresti, en efnið hafi verið sett á marmaraflís í stofunni. Hafi hann gert ráð fyrir að A og vinkona hennar hafi einnig notað eitthvað af því efni. Ákærði kvað sér ekki hafa verið kunnugt um að einhverjir hafi notað sprautur við fíkniefnaneysluna, en hann kvað þó A og vinkonu hennar hafa verið að ,,pukrast” eitthvað inni á baðherbergi í íbúðinni. Ákærði kvaðst hafa fengið sér ecstacy fíkniefni á Lindargötunni. Einhverjar töflur hafi verið á staðnum, en ekki hafi hann áttað sig á hver hafi komið með þær. Ákærði kvaðst minnast þess að hafa látið A og E fá eina töflu saman. Þær hafi skipt henni á milli sín. Aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa aðstoðað einhvern við inntöku á fíkniefnum með sprautu. Er undir ákærða voru bornar fullyrðingar E um að ákærði hafi aðstoðað hana við að sprauta í sig kókaíni inni á salerni kvaðst ákærði ekki muna eftir því, en ekki geta útilokað að það hafi átt sér stað. Hafi ákærði verið ,,sprautuneytandi” 7 árum áður. Kvaðst ákærði ,,kannski” hafa getað sprautað E en ekki A, þar sem hann hafi haft þau áform að hafa við hana samfarir, en hann hafi ekki viljað hafa samfarir við ,,sprautusjúkling”. Er ákærði lýsti á ný atvikum er hann fór úr íbúðinni til að sækja fíkniefni á mánudeginum tók hann fram, að kókaín hafi verið á eldhúsborði í íbúðinni í efnapoka og lítilræði hafi verið af kókaíni á áðurnefndri marmaraflís á stofuborðinu. Væri ekki útilokað að A hafi sprautað þessum efnum í sig á meðan ákærði hafi nálgast hassið, svo sem áður hafi komið fram. Gat ákærði þess að hann hafi hringt í B og farið þess á leit við hann að koma umsvifalaust í íbúðina. Hafi ákærði þá staðið í þeirri trú að A væri látin. Eftir það hafi ákærði þó talið sig finna púls hjá henni og því sent B SMS skilaboð um að allt væri í lagi. Hafi ákærði hringt í föður sinn, svo sem áður hafi komið fram, og farið þess á leit við hann að hann kæmi með sígarettur fyrir ákærða. Ákærði kvaðst hafa verið í annarlegu ástandi á þessum tíma og því ekki í stakk búinn að taka réttar ákvarðanir. Kvaðst ákærði hafa óttast lögreglu vegna fyrri afskipta hennar af honum. Kvaðst hann af þeim ástæðum ekki hafa verið ,,ábyrgur af því” að hafa ekki fyrr kallað eftir aðstoð fyrir A. Er faðir ákærða hafi ekki fundið púls hjá henni hafi ákærði gert sér grein fyrir að A væri látin og að hún hafi verið það um talsverðan tíma. Hafi ákærði því ekki talið ástæðu til að kalla til lögreglu fyrr en hann hafi náð sambandi við C til að gera honum grein fyrir stöðu mála. Er ákærði var inntur eftir því hvort A hafi hringt í einhvern á mánudeginum kvaðst ákærði ekki muna eftir því. Kvaðst hann þó muna að sími hennar hafi orðið blautur inni á baðherberginu og því hætt að virka. Hafi A sett hann á ofn til að reyna að koma honum í lag á nýjan leik.
Ákærði var í þriðja sinn yfirheyrður af lögreglu 23. janúar 2004. Í upphafi þeirrar skýrslutöku kvaðst ákærði vilja koma á framfæri óánægju með orðalag í fyrri skýrslum sínum hjá lögreglu, sem hann kvaðst hafa undirritað ,,í sjokki”. Kvaðst ákærði óska eftir að gefa nýja skýrslu í málinu, ,,út úr sínum munni”. Kvaðst ákærði ekki hafa álitið A í neinni hættu allt þar til faðir ákærða hafi komið að Lindargötunni og lýst því yfir að hann teldi hana látna. Kvaðst hann ekki hafa átt neitt frumkvæði að fíkniefnaneyslu hennar og hafi hann aldrei látið hana fá fíkniefni í hendur. Hafi hann ekki tekið þátt í slíkri neyslu af hennar hálfu, né hafi hann stuðlað að slíkri neyslu hennar. Á einhverju tímabili hafi ákærði gert sér grein fyrir að A ,,væri í slæmum málum”, en síðan hafi hann haldið að allt væri í lagi hjá henni. Ákærði kvað föður sinn, C og B hafa komið að Lindargötunni eftir að A hafi látist. Kvaðst ákærði hafa hringt í Neyðarlínuna ef hann hefði gert sér grein fyrir að hún væri í einhverri hættu.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi skýrði ákærði þannig frá atvikum að hann hafi komið úr veiðiferð til Reykjavíkur á sunnudagskvöldinu 24. ágúst 2004. Kvaðst hann eftir komu til Reykjavíkur hafa hitt C að Lindargötu [...] í Reykjavík. Hafi ákærði verið með dvalarstað hjá C þar sem hann hafi verið ,,milli húsa” á þeim tíma. Ekki hafi verið samkvæmi í gangi á Lindargötunni er hann hafi komið þangað, en eftir miðnættið hafi B hringt í A og fært í tal við hana hvort hún vildi ekki koma í samkvæmi á Lindargötunni. Eftir það hafi A komið að Lindargötunni ásamt vinkonu sinni, en ákærði kvaðst ekki muna nákvæmar tímasetningar í því efni. Ákærði hafi ekki þekkt stúlkurnar fyrir. Í samkvæmið hafi einnig komið B og vinkona hans, D og F. Í samkvæminu hafi ákærði, eins og aðrir, drukkið áfengi og neytt einhverra fíkniefna. Ekki kvaðst ákærði hafa veitt sérstakri athygli fíkniefnaneyslu annarra samkvæmisgesta. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa ásamt A farið í sturtu á meðan samkvæmið hafi verið í gangi og hafi þau haft þar samfarir. Flestir gestanna hafi yfirgefið samkvæmið um hádegi á mánudeginum. Eftir það hafi ákærði aftur haft samfarir við A. Síðar um daginn hafi ákærði farið út úr húsi til að ná í hass til neyslu. Hafi sú ferð sennilega tekið um 15 mínútur. Er hann hafi komið til baka hafi A verið í krampakasti. Hafi ákærða brugðið verulega við það og ákveðið að bregða á það ráð að ganga með hana um gólf. Síðan hafi hann sett hana í kalda sturtu. Hafi ákærða verið ljóst að hún hafi sprautað sig með fíkniefnum þar sem sprauta og önnur tæki til slíks hafi verið á borði í stofunni. Þau áhöld hafi ákærði ekki áður séð í fórum A. Eftir að hafa sett A í sturtu hafi ákærði staðið í þeirri trú að hún væri búin að jafnað sig. Hann hafi þó aftur orðið hræddur um heilsu hennar, þreifað eftir púlsi og ákveðið að setja hana aftur undir kalda sturtu. Í þeirri atrennu hafi höfðuð hennar skollið utan í sturtuklefann. Í framhaldinu hafi hann beitt blástursaðferð gagnvart henni. Eftir þetta hafi hann lagt hana inn í rúm í svefnherbergi. Hafi hún skolfið í krampa og verið með froðu í báðum munnvikjum. Kvaðst ákærði hafa verið ,,í sjokki” og ekki athugað að hringja í Neyðarlínuna. Hafi hann ekki gert sér grein fyrir að A væri látin er faðir ákærða hafi gert honum grein fyrir að hann teldi svo vera. Ákærði kvað sér ekki hafa verið ljóst hvað tímanum hafi liðið á meðan á þessu hafi staðið, t.d. hve langur tími hafi liðið frá því faðir hans hafi sagt honum að A væri látin, þar til hann hafi hringt á Neyðarlínuna. Fyrir dómi lýsti ákærði því að faðir hans hefði komið í tvígang að Lindargötunni. Hafi hann komið í fyrra sinnið með sígarettur að beiðni ákærða. Í þeirri ferð hafi faðir ákærða ekki farið inn í svefnherbergi í íbúðinni. Í síðara skiptið hafi hann hins vegar gert það og þá lýst þeirri skoðun sinni að A væri látin. Ákærði kvaðst á mánudeginum hafa sent B SMS skilaboð um að koma umsvifalaust á Lindargötuna vegna A. Hann hafi fljótlega eftir þau skilaboð sent honum önnur um að líðan hennar væri í lagi. Ákærði kvaðst telja að hann hafi ekki verið ábyrgur gerða sinna þennan dag þar sem hann hafi verið í losti vegna þess er komið hafi fyrir A, auk þess sem hann hafi verið undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna.
Vitnið B kvaðst hafa haft kynni af A áður en þeir atburðir hafi átt sér stað að Lindargötu [...] er mál þetta varði. Á milli kl. 06.00 og 08.00 á mánudagsmorgninum 25. ágúst 2003 hafi vitnið verið statt að Lindargötunni ásamt öðru fólki og tilgreindi það sérstaklega ákærða, C og G í því sambandi. A hafi þá hringt í vitnið og leitað eftir því að fá að koma í samkvæmi. Vitnið hafi að öllum líkindum greint ákærða frá þessu og fengið samþykki fyrir því að hún fengi að koma í samkvæmi á Lindargötunni. Hafi vitnið, ásamt G, farið úr samkvæminu, ekið um í bænum, litið við í öðru samkvæmi og síðan farið aftur í samkvæmið að Lindargötunni. Er vitnið hafi komið aftur á Lindargötuna hafi A verið komin þangað ásamt vinkonu sinni. Í samkvæminu hafi einhverjir samkvæmisgesta notað fíkniefni og hafi A t.a.m. haft á orði að hún hafi notað eitthvað af fíkniefninu ecstacy, en hún hafi sennilega verið að koma úr samkvæmi þar sem slíkt efni hafi verið notað. Ekki hafi vitnið orðið vart við að gestir hafi sprautað sig með fíkniefnum á Lindargötunni. Eftir um eina til eina og hálfa klukkustundu hafi vitnið orðið vart við eitthvað ,,pukur” hjá A og vinkonu hennar og hafi þær dvalið lengi inni á salerni í íbúðinni. Hafi vitnið grunað að þær hafi verið að sprauta þar í sig fíkniefnum, en því hafi verið kunnugt um að A hafi áður gert slíkt. Á meðan vitnið hafi verið í samkvæminu hafi ákærði eitthvað dvalið inni á salerninu ásamt A. Ekki hafi vitnið haft vissu fyrir hvað þar hafi átt sér stað, en það hafi grunað að þau hafi haft þar kynferðislegt samneyti. Einhver hafi tjáð vitninu að vinkona A hafi fengið krampakast í samkvæminu, en það kvaðst telja líklegt að það hafi átt sér stað á meðan vitnið hafi verið fjarverandi. Vitnið og G hafi farið úr samkvæminu á hádegi á mánudeginum. Hafi það nálgast áfengi fyrir ákærða í áfengisverslun í Austurstræti og farið með það til ákærða á Lindargötuna. Því næst hafi vitnið ekið G til síns heima en í kjölfarið hafi það ekið að heimili fyrrverandi kærustu sinnar. Þar hafi það dvalið fram eftir degi. Tók vitnið fram að C hafi yfirgefið samkvæmið á svipuðum tíma og vitnið.
Vitnið kvað ákærða hafa sent því SMS skilaboð í farsíma síðar um daginn. Þá hafi klukkan sennilega verið ríflega 16.00. Skilaboðin hafi varðað A og lýst því að líkami hennar væri að fjara út. Fljótlega hafi komið önnur skilaboð um að allt væri í lagi. Hafi vitnið skilið skilaboðin þannig að eitthvað alvarlegt hafi komið fyrir. Ákærði hafi hringt í vitnið nokkrum sinnum eftir þetta og síðasta skiptið óskað eftir að vitnið kæmi á Lindargötuna. Vitnið hafi þá lagt af stað, en á leiðinni hafi ákærði sent því SMS skilaboð sem hafi hljóðað ,,false alarm”. Hafi vitnið þá snúið við en 10 mínútum síðar hafi ákærði enn hringt og óskað eftir því að það kæmi á Lindargötuna. Þangað kvaðst vitnið hafa verið komið milli kl. 17.30 og 18.00 á mánudeginum. Ákærði hafi tekið á móti vitninu og greint frá því að A væri látin. Hafi ákærði verið í gríðarlegu uppnámi. Vitnið kvaðst hafa séð A liggjandi í rúmi í hnipri með sæng breidda yfir sig að hluta til. Hafi það áttað sig strax á því að hún væri látin. Líkami hennar hafi verið skjannahvítur, auk þess sem ákærði hafi haft á orði að hún væri búin að vera þannig í einhvern tíma og að líkami hennar væri farinn að stirðna. Hafi ákærði greint frá því að hann hafi verið búinn að fara með hana í sturtu. Ekki kvaðst vitnið hafa treyst sér til að skoða A nánar. Hafi það rætt við ákærða í um 10 til 15 mínútur og ráðlagt honum að hringja í Neyðarlínuna. Hafi ákærði ekki viljað gera það strax og hafi virst sem hann hafi óttast að honum yrði kennt um andlát hennar. Hafi vitnið tjáð ákærða að það vildi ekki hafa frekari afskipti af málinu og hafi það þvínæst haldið á brott.
Vitnið H kvað son sinn hafa hringt í sig um kl. 17.00 á mánudeginum 25. ágúst 2003. Hafi vitnið á þeim tíma verið við vinnu að Baldursgötu 1 í Reykjavík. Hafi ákærði spurt vitnið að því hvenær það myndi hætta vinnu þann dag og hafi vitnið upplýst að það myndi ekki vera fyrr en um kl. 19.00. Hafi ákærði þá tjáð vitninu að sig vanhagaði um sígarettur og farið þess á leit að það útvegaði sér þær. Hafi vitnið farið heim til sín um kl. 17.30 og sótt þangað þrjá pakka af sígarettum. Í framhaldinu hafi það gengið yfir að dvalarstað ákærða á Lindargötunni til að afhenda honum sígaretturnar. Ákærði hafi þá verið án klæða að ofanverðu en klæddur stuttum buxum. Hafi ákærði beðið vitnið um að tala ekki hátt þar sem stúlka væri sofandi í íbúðinni. Hafi vitnið og ákærði rætt saman um stund. Hafi vitninu verið litið inn í herbergi þar sem það hafi séð stúlku liggja í rúmi. Ekki hafi verið breitt yfir hana, en hún hafi verið án klæða. Hafi vitnið beint því til ákærða að breiða yfir hana, sem hann hafi gert. Ekki hafi vitnið verið ánægt með hvernig það hafi til tekist og hafi það bætt úr. Hafi vitnið innt ákærða eftir því hvort ekki væri allt í lagi með stúlkuna, en því hafi fundist hún vera sofandi. Er vitnið hafi hagrætt sæng stúlkunnar hafi það komið við háls hennar. Hafi því fundist það finna fyrir púlsi, en bar því við að það hafi verið að vinna erfiðisvinnu þann dag og því ekki verið næmt í fingurgómum. Hafi vitnið innt ákærða a.m.k. tvisvar sinnum eftir því hvort ekki væri allt í lagi og hafi ákærði játað því og sagt stúlkuna sofandi. Hafi ákærði þó lýst því að hann teldi hana hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum. Ekki hafi vitnið borið skynbragð á þá hluti og treyst ákærða í þeim efnum þar sem hann hafi þekkt þá hluti mun betur en vitnið. Hafi vitninu þó verið ljóst að stúlkan hafi verið í einhvers konar lyfjadái. Vitnið hafi farið aftur til vinnu sinnar og unnið til kl. 19.00. Þá hafi það ekið vinnufélaga inn í Skeiðarvog. Vitnið kvaðst hafa verið komið að heimili þess á Klapparstígnum um kl. 19.30 um kvöldið. Er það hafi verið komið inn á heimili sitt hafi það áttað sig á því að gleraugu vitnisins hafi orðið eftir út í bíl og hafi það því farið út úr húsi aftur. Hafi það þá séð ákærða koma gangandi niður Klapparstíginn. Hafi vitnið gengið til móts við hann. Ákærði hafi þá verið mjög æstur og hafi vitnið ekki áttað sig í fyrstu á hvað hann væri að ræða um. Hafi þeir farið inn á heimili vitnisins að Klapparstíg [...]. Þá hafi vitnið áttað sig á hvað hafi komið fyrir og ráðlagt ákærða að hringja strax í Neyðarlínuna. Hafi ákærði þá leitað eftir því við vitnið að það kæmi með honum að Lindargötunni. Ákærði hafi lagt af stað á undan vitninu og hafi það orðið þess áskynja að hann hafi hringt í Neyðarlínuna á leið sinni. Er vitnið hafi komið á Lindargötuna nokkrum mínútum á eftir ákærða hafi lögregla verið komin þangað.
Vitnið C var yfirheyrt af lögreglu 26. og 27. ágúst 2003. Kvað það ákærða hafa verið utanbæjar helgina 23. til 24. ágúst 2003. Hafi ákærði hringt í vitnið á sunnudagskvöldinu 24. ágúst og leitað eftir því hvort þeir ættu ekki að fá sér bjór saman. Úr því hafi ekki orðið. Hafi vitnið komið á heimili sitt á Lindargötunni um kl. 03.00 aðfaranótt mánudagsins, en þar hafi þá enginn verið. Skömmu síðar hafi ákærði komið þangað. Hafi ákærði haft á orði að von væri á tveim stúlkum og hafi hann nefnt nafn A sérstaklega í því sambandi. Hafi ákærði hringt í A af Lindargötunni og hafi hún, ásamt vinkonu sinni, komið þangað skömmu síðar. Hafi vitnið hvoruga þeirra stúlkna séð áður. Einhverju síðar hafi fleiri komið á staðinn, þ.á m. D og F. Á Lindargötunni hafi allir drukkið áfengi, en ekki hafi vitnið veitt eftirtekt neyslu fíkniefna. Kvaðst vitnið sjálft hafa notað fíkniefni um nóttina, m.a. amfetamín, kókaín og hass. A og vinkona hennar hafi sífellt verið að orða við ákærða að fara með sér í sturtu. Á einhverjum tíma um morguninn hafi D og F farið af staðnum. Hafi vitnið orðið ,,pirrað” þar sem A og vinkona hennar hafi þá ekkert fararsnið sýnt, en vitnið hafi viljað losna við þær af staðnum. Vinkonu A hafi vitnið skutlað heim um kl. 13.00 til 13.30 á mánudeginum. Því næst hafi vitnið leigt sér herbergi á gistiheimili í Garðabæ, en það hafi ekki viljað fara aftur að Lindargötunni. Við yfirheyrslu 27. ágúst tók það fyrst fram að ákærði hafi hringt í vitnið um kl. 16.00 á mánudeginum og spurt hvort það ætti hass. Hafi vitnið sagt svo vera og að það væri falið við rafmagnskassa á horni Sölvhólsgötu og Klapparstígs. Hafi vitnið gefið ákærða leyfi til að nota efnið. Er undir vitnið voru bornar upplýsingar um tengingar við símanúmer þess þennan dag kvað það geta staðist að ákærði hafi hringt í það kl. 13.52 og 14.04 þennan dag. Um kl. 19.00 hafi ákærði hringt í vitnið og sagt því að koma þegar heim. Hafi vitnið skynjað óróleika og spurt ákærða hvort eitthvað væri að. Hafi ákærði eingöngu sagt að vitnið yrði að koma strax heim. Hafi vitnið séð til ferða ákærða og föður hans utandyra við Klapparstíg. Hafi ákærði verið í miklu uppnámi og sagt að A væri dáin. Hafi hann haft á orði að hún hafi tekið of stóran skammt af fíkniefnum. Ákærði hafi komið inn í bifreið til vitnisins og þeir ekið um miðborgina, þar til þeir hafi komið að Lindargötunni. Hafi ákærði spurt vitnið hvort það vildi fjarlægja eitthvað úr íbúðinni áður en ákærði myndi hringja í Neyðarlínuna. Kvaðst vitnið hafa sagt ákærða að það hefði ekkert að fela í íbúðinni. Hafi það ekki treyst sér til að fara inn í íbúðina og því haldið á brott.
Vitnið E kvaðst fyrst hafa kynnst A á árinu 1999, en A hafi þá verið við vinnu á Akureyri. Kvaðst vitnið hafa komið að norðan í júní 2003 og þá hafa dvalið hjá A í um viku, en A hafi dvalið á heimili systur sinnar í Hafnarfirði. Vitnið hafi flutt og ekki haft samband við A fyrr en föstudagskvöldið 22. ágúst 2003. Þær hafi ákveðið að skemmta sér saman og byrjað að drekka áfengi upp úr kl. 21.00 það kvöld heima hjá A. Eftir það hafi þær farið saman í heimahús. Þar hafi þær verið af og til alla helgina, allt fram á aðfaranótt mánudagsins 25. ágúst. Hafi þær neytt fíkniefna, þar á meðal kókaíns, hass, ecstacy og spítt. Efnið hafi þær notað í þeim mæli að þær hafi ekkert þurft að sofa. Aðfaranótt mánudagsins 25. hafi B, kunningi A, hringt og rætt við A. Í framhaldi af því símtali hafi þær tvær ákveðið að fara í samkvæmi að Lindargötu [...]. Í þann mund er þær hafi verið að leggja af stað hafi ákærði hringt í A til að kanna hvort þær væru ekki að koma. A hafi átt gamla bifreið og hafi hún ekið henni að Lindargötunni. Er þær hafi komið á Lindargötuna hafi ákærði verið þar ásamt C. Kvaðst vitnið hvorugan þeirra hafa séð áður. Vitnið kvaðst hafa keypt sér sprautur fyrir samkvæmið á Lindargötunni og hafi það sprautað sig með spítti í tví- eða þrígang fyrir samkvæmið. Sama hafi A gert. Þær hafi byrjað að drekka bjór er þeim hafi verið boðinn í samkvæminu. C hafi síðan boði þeim kókaín. Hafi hann komið efninu fyrir á borði og hafi vitnið, A, ákærði og C öll fengið sér efni í nefið. Ákærði hafi látið vitnið og A sameiginlega fá eina ecstacy töflu. Henni hafi þær skipt á milli sín en vitnið hafi látið sinn hluta í veskið. A hafi tekið sinn hluta í nefið. Kvaðst vitnið hafa farið inn á baðherbergið og sprautað sínum hluta í sig með sprautu. Tíminn hafi liðið og hafi fleiri stúlkur komið í samkvæmið. Hafi þeim einnig verið boðin fíkniefni. Kvaðst vitnið telja að öðrum hafi ekki verið kunnugt um að það og A hafi notað sprautur við inntöku fíkniefna. Síðar um nóttina hafi I komið í samkvæmið. Hún hafi verið vinkona A, en vitnið kvaðst ekki hafa séð hana áður. Vitnið og A hafi farið nokkrar ferðir saman inn á salernið til að sprauta sig með spítti. Hafi þær engan látið vita af þeim athöfnum en í eitt skiptið hafi A greint ákærða frá þessu og því að þær væru orðnar uppiskroppa með fíkniefni. Í eitt skiptið hafi A komið til vitnisins og greint frá því að ákærði hafi ætlað að ,,fixa” efni fyrir þær. Hafi ákærði viljað sprauta efninu í vitnið og hafi hann sagt að það væri 95% kókaín. Hafi vitnið verið tregt í fyrstu þar sem það hafi viljað sprauta sig sjálft. Þar sem vitnið hafi verið undir það miklum áhrifum fíkniefna hafi það fallist á að ákærði myndi sprauta í það fíkniefnum. Eftir inntöku efnanna hafi vitninu liðið mjög einkennilega, verið með hraðan hjartslátt, skolfið mikið og haft það á tilfinningunni að það væri að springa. Hafi það fundið hvernig það hafi sigið niður á gólfið í baðherberginu. Það hafi rankað við sér nokkru síðar en þá hafi verið búið að koma því fyrir í stól í stofunni. Kvaðst vitnið hafa haft það á tilfinningunni að það væri að deyja. Þá hafi gestir í samkvæminu verið búnir að hagræða tungu vitnisins til að það myndi ekki gleypa hana, auk þess sem þeir hafi skvett á það vatni. Þegar vitnið hafi rankað við sér hafi A verið skelfingu lostin. Kvaðst vitnið öðru hvoru hafa farið inn á salerni til að kasta upp. Að öðru leyti hafi það lítið getað fylgst með því sem fram hafi farið. Kvaðst það þó minnast þess að A hafi haft á orði að hana langaði til að prófa það sem vitnið hafi prófað. Kvaðst vitnið eindregið hafa ráðlagt A frá því. Er vitnið hafi beðið A um að koma með sér heim hafi A ákveðið að vera lengur í samkvæminu. Hafi C ekið vitninu úr samkvæminu. Ekki hafi það heyrt frá A eftir það.
Vitnið J kvað því hafa verið kunnugt um að systir þess, A, hafi verið í fíkniefnaneyslu þá helgi er hún hafi látist. Vitnið kvað hana hafa komið á heimili sitt á sunnudeginum 24. ágúst og hafi hún gætt barna sinna fyrir sig. Vinkona hennar, E, hafi verið með A. Staðfesti vitnið að A hafi hringt í sig á mánudeginum 25. ágúst um 10 til 15 mínútum eftir kl. 16.00 og þá úr síma ákærða. Hafi hún farið þess á leit við vitnið að það myndi sækja sig. Aðspurt kvað vitnið A hafa verið skýrmælta í þessu samtali. Kvaðst vitnið hafa tjáð henni að það hefði ekki tök á að sækja hana á þeirri stundu sökum anna. Hafi það veitt því eftirtekt að einhver hafi hvíslað í nágrenni við A að henni yrði skutlað heim fljótlega.
Vitnin F, D og I hafa borið að þau hafi verið í samkvæmi að Lindargötunni aðfaranótt mánudagsins 25. ágúst. Einnig hafi verið í samkvæminu ákærði, C, A og E. Fleiri hafi komið þar við. Áfengi hafi verið haft um hönd í samkvæminu. Vitnið I kvaðst hafa séð A sprauta sig með fíkniefnum inni á baðherbergi, en vitnið F kvaðst hafa orðið vart við að samkvæmisgestir hafi sprautað í sig fíkniefnum. Bar vitnið D að E hafi fengið krampa um nóttina sem hafi lýst sér eins og hún hafi tekið inn of stóran skammt af fíkniefnum. Hafi vitnið grunað að fíkniefnaneysla færi fram inni á salerninu. Þá bar vitnið I að ákærði og A hafi dvalið saman inni á baðherberginu og að það hafi grunað að þau hafi haft þar samfarir.
Lögreglumennirnir Hilmir Þór Kolbeins og Kristján Ingi Kristjánsson staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Hilmir Þór bar að erfiðlega hafi gengið að fá ákærða til að gera grein fyrir atvikum er lögregla hafi komið að Lindargötunni. Hafi virst sem ákærði hafi verið undir einhverskonar áhrifum, en í viðræðum við lögreglu hafi tímasetningar verið á reiki hjá honum.
Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur staðfesti krufningarskýrslu er hún ritaði vegna krufningar á A 27. ágúst 2003. Kvað hún erfitt að tímasetja nákvæmlega dánarstund A, þar sem hún hafi verið sett í kalda sturtu skömmu fyrir andlátið, en kæling skömmu fyrir andlát myndi skekkja ákvarðanir á dánarstundu. Kvað vitnið þekkt að neysla á kókaíni og MDMA ylli krömpum og froðufalli. Miðað við styrk efna í líkama A hafi þau líklega valdið krömpum fyrir andlát hennar. Kvað vitnið gríðarlega mikilvægt að einstaklingi er hefði tekið inn efni í þeim mæli er A hefði gert yrði þegar komið á sjúkrahús. Þar væri unnt að tryggja að öndunarvegur væri opinn, gefin væru krampastillandi og blóðþrýstingslækkandi lyf ef þörf væri á. Jafnframt væri viðkomandi kældur niður með böðum eða lyfjum. Með slíku móti væri einstaklingnum hjálpað í gegnum þann tíma er tæki fyrir líkamann að skola lyfjunum út. Vitnið kvað lík A hafa verið með mar á tungubroddi og heilabjúg. Bendi það til krampakasts hjá henni og súrefnisskorts í heila. Hafi það verið undanfari þess að hjarta hennar hafi stöðvast vegna fíkniefnaeitrunar, en sá tími er liði frá krampakasti til hjartastopps gæti verið mjög breytilegur frá einu tilviki til annars.
Jakob Kristinsson staðfesti matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, frá 5. september 2003.
Niðurstaða:
Réttarlæknisfræðileg krufning á líki A, sem og niðurstöður Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði slá föstu að A hafi tekið inn verulegt magn fíkniefna fyrir andlát sitt, en niðurstaða er að A hafi látist vegna banvænnar eitrunar af völdum fíkniefnanna kókaíns og MDMA (3,4 methylenedioxymethamphetamine, ecstacy). Framburðir vitna í málinu benda ótvírætt til að A hafi sprautað í sig fíkniefnum í samkvæmi því er átti sér stað að Lindargötu [...] í Reykjavík aðfaranótt mánudagsins 25. ágúst 2003, en vinkona hennar, E ber m.a. um það og að þær tvær hafi neytt fíkniefna allt frá föstudagskvöldinu 23. ágúst. Af gögnum málsins um tengingar síma ákærða við síma vitnisins J má ráða, að A hafi rætt við systur sína í síma rétt eftir kl. 16.00 á mánudeginum 25. Sækir þetta jafnframt stoð í framburð J sjálfrar, sem hefur borið um þetta símtal og greint frá því að systir hennar hafi verið skýrmælt í því samtali. Ákærði hefur borið að eftir að hann hafi komið að A í krampakasti hafi hann símleiðis verið í tengslum við B, C og föður sinn H. Þessir einstaklingar hafa allir staðfest þetta. B hefur borið að ákærði hafi fyrst sent sér SMS skeyti varðandi ástand A fljótlega eftir kl. 16.00. C hefur borið að ákærði hafi haft samband við sig um kl. 19.00 vegna A, en H hefur fullyrt að hann hafi komið á Lindargötuna með sígarettupakka fyrir ákærða rétt eftir kl. 17.30. Þá hafi A verið í rúmi og ákærði greint frá því að hann teldi hana hafa tekið inn of stóran skammt af fíkniefnum. Miðað við framburði ákærða og vitna má slá föstu, að hinn banvæna fíkniefnaskammt hafi A tekið á tímabilinu frá 16.00 til 17.30 á mánudeginum. Fram kemur í gögnum málsins að ákærði hafi hringt í Neyðarlínuna kl. 20.27 um kvöldið og að Neyðarlínan hafi tilkynnt lögreglu um það símtal tveim mínútum síðar, eða kl. 20.29.
Ákærði kvaðst sjálfur hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna í samkvæminu á Lindargötunni. Hefur hann synjað fyrir að hafa sprautað A með fíkniefnum, en m.a. viðurkennt að hafa látið henni í té fíkniefnið ecstacy og að hafa ásamt henni og öðrum tekið kókaín í nefið. Ákærði hefur fullyrt að hann hafi farið úr íbúðinni á mánudeginum til að ná í hass sem hafi verið geymt í næsta nágrenni. Er hann hafi komið til baka úr þeirri ferð hafi A verið í krampakasti inni í stofu og hafi froða komið úr munnvikjum hennar. Hafi hann veitt eftirtekt sprautu og öðrum tækjum til inntöku á fíkniefnum á borði fyrir framan hana. Hann hefur lýst framhaldinu svo að hann hafi reynt að koma A til hjálpar með ýmsu móti, m.a. með því að láta hana ganga um gólf, sett hana í kalda sturtu, jafnframt því sem ákærði bar við yfirheyrslur hjá lögreglu 26. ágúst 2003 að hann hafi beitt blástursaðferð og hjartahnoði. Í kjölfarið hafi hann komið henni fyrir inni í svefnherbergi þar sem hann hafi breitt yfir hana sæng.
Krufning á líki A hefur leitt í ljós mar á tungu og heilabjúg. Fram hefur komið hjá Þóru Steffensen réttarmeinafræðingi, að mar og heilabjúgur séu afleiðinga krampakasts er hún hafi fengið, en að Ahafi látist vegna hjartastopps sem afleiðingu af inntöku á fíkniefnunum og hafi hjartastoppið átt sér stað einhverju síðar.
Með vísan til framburðar ákærða sjálfs og framburðar Þóru Steffensen verður miðað við, að A hafi ekki látist í því krampakasti er ákærði kom að henni í og hann hefur sjálfur lýst. Þóra Steffensen hefur lýst mikilvægi þess að einstaklingi er tekið hafi inn of stóran skammt fíkniefna sé komið undir læknishendur og þeim úrræðum sem tiltæk séu við útskolun fíkniefna. Í því ljósi verður ótvírætt að telja að lífslíkur A hafi verið talsverðar, hefði ákærði sinnt þeirri frumskyldu sinni að kalla til sjúkralið er hún fékk krampakast vegna ofneyslu fíkniefnanna. Ákærði gekk þess ekki dulinn að A hafði tekið inn of stóran skammt af fíkniefnum síðdegis á mánudeginum 25. og að krampakast hennar hafi stafað af þeim völdum. Aðgerðir af hans hálfu í framhaldi bera þess jafnframt skýr merki að hann hafi talið lífi hennar ógnað. Engu að síður lét ákærði hjá líða að kalla til sjúkralið og lögreglu fyrr en um kvöldið, er nokkuð var um liðið frá andláti hennar. Ákæruvald miðar við að sinnuleysi ákærða um að kalla til sjúkralið varði við 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga, en ákærði hafi látið farast fyrir að koma A til hjálpar, sem augljóslega hafi verið stödd í lífsháska. Á þetta verður að fallast. Sinnuleysi um athafnir varða einstaklinga að öðru jöfnu ekki refsiábyrgð. Refsiábyrgð á grundvelli 221. gr. laga nr. 19/1940 er undantekning þar frá og mælir fyrir um skyldu til athafna við lífsháska, sé það gert án þess að sá sem í hlut eigi stofni lífi sínu eða annarra í háska við slíkar aðstæður. Engar slíkar aðstæður voru fyrir hendi á Lindargötunni umrætt sinn og beindust að ákærða. Verður miðað við að ákærða hafi verið hinar lífshættulegu aðstæður ljósar og að honum hafi borið að kalla sjúkralið að Lindargötunni vegna hins hættulega skammts fíkniefna er A hafði tekið inn. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 221. gr. laga nr. 19/1940.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1993 3 sinnum verið dæmdur fyrir auðgunarbrot. Frá árinu 1994 hefur hann 5 sinnum gengist undir sáttir eða verið dæmdur vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni, en síðast gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 9. apríl 2003 vegna brota á fíkniefnalöggjöf. Ákærði lét farast fyrir að hringja á sjúkralið mánudaginn 25. ágúst 2003, en símtal af hans hálfu í þá veruna kynni að hafa bjargað lífi A. Framferði ákærða þann dag ber vott um skeytingaleysi um líf ungrar stúlku sem í ástandi sínu var honum að öllu leyti háð um líf sitt. Er hér um alvarlegt brot að ræða. Með hliðsjón af því sæti ákærði fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar þeirri refsingu komi 1 dags gæsluvarðhaldsvist ákærða við rannsókn málsins.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Eiður Örn Ingvarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingu komi 1 dags gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 160.000 krónur.