Hæstiréttur íslands
Mál nr. 85/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Réttindaröð
- Skaðabætur
|
|
Föstudaginn 2. apríl 2004. |
|
Nr. 85/2004. |
Þrotabú Ævintýrisins Tangarhöfði 7 hf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Selmu Halldóru Pálsdóttur (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Réttindaröð. Skaðabætur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu S um að hún skyldi njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir kröfu sinni á hendur þrotabúi Æ hf. Laut ágreiningur aðila að því hvort S ætti fjárkröfu á hendur sóknaraðila vegna afleiðinga slyss, sem hún varð fyrir í gönguferð í Glymsgili í lok september 2001 ásamt samstarfsmönnum sínum hjá Íslenskum ævintýraferðum hf. Þá greindi aðila á um hvort viðurkenna bæri kröfuna sem forgangskröfu í þrotabúið, samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í Hæstarétti var talið að ferðin í Glymsgil hafi verið farin á vegum fyrirtækisins og á ábyrgð þess. Þá var talið stjórnendum félagsins til gáleysis að skipuleggja ferðir í gilið án þess að vitneskja um hættur í gilinu lægi fyrir. Voru starfsmenn Íslenskra ævintýraferða hf. einnig hafa sýnt af sér gáleysi við fararstjórn í ferðinni. Var fébótaábyrgð því lögð á félagið vegna slyss S. Var bótaskylda félagsins ekki felld niður á grundvelli áhættutöku S auk þess sem ekki hafði verið sýnt fram á að hún hefði átt sök á tjóni sínu. Var því talið að krafa S um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns og örorku, er hún hlaut í slysinu, félli undir 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 en sá hluta kröfu S, er varðaði bætur fyrir ófjárhagslegt tjón, talinn meðal almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá var sá hluti vaxtakröfu S, sem féll til eftir að úrskurður um gjaldþrotaskipti gekk, viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 1. tölulið 114. gr. laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. febrúar 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003, þar sem viðurkennt var að varnaraðili skyldi njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir kröfu sinni á hendur sóknaraðila að fjárhæð 6.437.702 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Kæruheimild er í 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að kröfu varnaraðila verði skipað á fyrrgreindan hátt í réttindaröð og „staðfest verði sú ákvörðun skiptastjóra að hafna kröfu“ varnaraðila „bæði sem forgangskröfu og almennri kröfu.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara að viðurkennd verði, sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, skaðabótakrafa að fjárhæð 6.437.702 krónur auk 4,5% ársvaxta af 2.249.520 krónum frá 29. september 2001 til 8. maí 2002 en af 6.437.702 krónum frá þeim degi til 20. febrúar 2003. Þá er þess krafist að viðurkennd verði sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 krafa um 4,5% ársvexti af 6.437.702 krónum frá 20. febrúar 2003 til 27. ágúst 2003 og krafa um dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili staðfestingar hins kærða úrskurðar um málskostnað og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt fyrir Hæstarétti 25. mars 2004.
I.
Samkvæmt gögnum málsins starfaði varnaraðili sem sölumaður hjá Íslenskum ævintýraferðum hf. þegar hún ásamt vinnufélögum sínum og mökum þeirra fór í gönguferð í Glymsgil í Botnsdal í Hvalfirði laugardaginn 29. september 2001. Hafði markaðs- og kynningarstjóri fyrirtækisins átt frumkvæðið að ferðinni og sent svohljóðandi tölvupóst til allra starfsmanna þess 24. sama mánaðar: „Hæ hó, er stemming fyrir „canyoning team building group spirit - healing“ gljúfurgöngu upp að Glym nk. lau. kl. ca. 13,00 með Jóni Heiðari og co?? Við myndum fá einhvers konar napalm galla og vaða svo af stað... Það er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa hugmynd um þessa ferð ef að við ætlum að selja hana næsta sumar og við getum ekki beðið með það mikið lengur þetta haustið - nema við bíðum til vors!“. Mun félagið hafa haft með höndum rekstur ferðaþjónustu með áherslu á afþreyingar- og ævintýraferðir og meðal annars haft ferðir í Glymsgil á sölulista sínum. Engar slíkar ferðir munu þó hafa verið farnar á vegum félagsins fyrir umrædda ferð. Þá liggur fyrir að starfsmenn félagsins fengu ekki greitt sérstaklega fyrir að fara þessa ferð, nema sá sem tók að sér leiðsögn, en þeir greiddu heldur ekki sérstakt endurgjald fyrir hana.
Við upphaf ferðar var þátttakendum fenginn hlífðarfatnaður og hlífðarbúnaður. Þá var farið yfir hvernig þeir ættu að bera sig að þegar farið væri yfir ár. Ekkert var vikið sérstaklega að þeim aðstæðum sem voru í gilinu og hugsanlegum hættum þar. Þegar komið var að fossi, fyrsta erfiða haftinu á leið upp gilið, treystu þrjár konur úr hópnum sér ekki lengra og ákváðu að láta staðar numið. Samkvæmt framburði þeirra fyrir héraðsdómi treystu þær sér heldur ekki til að ganga sömu leið til baka án fylgdar og tóku þá ákvörðun að bíða þeirra sem héldu áfram og vera samferða þeim á bakaleiðinni. Við annan foss innarlega í gilinu ákváðu fjórir úr hópnum af sömu ástæðum að hætta áframhaldandi för inn gilið og var varnaraðili meðal þeirra. Eins og fyrri hópurinn, sem hafði numið staðar, ákváðu fjórmenningarnir að bíða eftir þeim sem héldu áfram og verða samferða þeim á leið þeirra til baka. Áður en sá hópur, sem hélt áfram, komst á leiðarenda varð grjóthrun í gilinu á þeim stað þar sem síðari hópurinn hafði numið staðar. Slys varð á mönnum við grjóthrunið, meðal annars varnaraðila, sem slasaðist illa á hægri fæti svo nema varð hann af um miðjan fótlegg. Samkvæmt lögregluskýrslu sem liggur fyrir í málinu stóðu björgunaraðgerðir yfir í rúmar fimm klukkustundir. Varnaraðili sneri ekki aftur til vinnu sinnar.
Samkvæmt gögnum málsins hafnaði Tryggingamiðstöðin hf. greiðslu bóta úr launþegatryggingu Íslenskra ævintýraferða hf. 18. janúar 2002 á þeim grundvelli að um frítímaslys hafi verið að ræða. Ekki var tekin afstaða til greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu félagsins. Að beiðni varnaraðila fór fram frekari lögreglurannsókn á tildrögum slyssins. Mun henni hafa lokið um mitt sumar 2002. Í framhaldi þess óskaði varnaraðili eftir greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu félagsins, en þeirri beiðni hafnaði Tryggingamiðstöðin hf. 10. desember sama árs á þeim grundvelli að umrædd ferð hafi ekki verið hluti af atvinnurekstri Íslenskra ævintýraferða hf. Samkvæmt gögnum málsins mun varnaraðili í kjölfarið hafa undirbúið málshöfðun á hendur Íslenskum ævintýraferðum hf. til heimtu skaðabóta vegna afleiðinga slyssins. Hinn 20. febrúar 2003 var bú félagsins hins vegar tekið til gjaldþrotaskipta, en áður hafði það skipt um heiti og hét nú Ævintýrið Tangarhöfði 7 hf. Varnaraðili lýsti kröfu í þrotabúið sem forgangskröfu á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 með bréfi til skiptastjóra 31. mars sama árs, þar sem höfuðstóll skuldar var sagður vera 20.000.000 krónur, en auk þess krafðist varnaraðili greiðslu á dráttarvöxtum af höfuðstólnum, tiltekinnar fjárhæðar vegna ritunar kröfulýsingar auk lögmannsþóknunar. Að beiðni varnaraðila voru dómkvaddir tveir matsmenn 2. maí 2003 til að meta afleiðingar umrædds slyss. Var niðurstaða þeirra 24. júní sama árs meðal annars sú að ástand varnaraðila hafi orðið stöðugt 8. maí 2002, varanleg örorka hennar væri 15% og varanlegur miski 35%. Varnaraðili mun í framhaldi þess hafa breytt lýstri kröfu í samræmi við niðurstöður matsmanna, en skiptastjóri hafnaði kröfunni. Varnaraðili mótmælti þeirri afstöðu skiptastjóra á skiptafundi 30. júní 2003 og óskaði eftir að ágreiningnum yrði vísað til héraðsdóms. Beindi skiptastjóri ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 26. ágúst 2003 og var mál þetta þingfest af því tilefni 19. september sama árs.
II.
Fyrir Hæstarétti heldur sóknaraðili því fram að skilyrði bótaábyrgðar séu ekki fyrir hendi auk þess sem krafa varnaraðila geti ekki talist forgangskrafa í þrotabúið. Telur hann ljóst að tjón varnaraðila verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna Íslenskra ævintýraferða hf. enda hafi fyllsta öryggis verið gætt í hvívetna í ferðalaginu. Hafi þátttakendur verið búnir góðum öryggisbúnaði, meðal annars blautbúningum, hjálmum og stöfum auk þess sem meðferðis hafi verið líflínur, sigbelti og fleira. Þá hafi verið farið yfir helstu öryggisatriði þegar komið var að gilinu. Veðurfar 29. september 2001 og dagana á undan hafi ekki gefið tilefni til að hætta við ferðina. Vitnum beri ekki saman um hvort rignt hafi við upphaf ferðarinnar en ljóst sé að síðar um daginn hafi byrjað að rigna. Bendir sóknaraðili á að ekki hafi rignt daginn áður, en gögn um veðurfar dagana þar á undan liggi ekki fyrir í málinu. Verði varnaraðili að bera halla af því. Samkvæmt þessu sé ljóst að þeir, sem skipulögðu umrædda ferð hafi sýnt af sér fyllstu varúð og hagað sér í einu og öllu eins og af þeim mátti ætlast.
Þá telur sóknaraðili að engin tengsl geti verið á milli háttsemi starfsmanna félagsins og þess óhapps, sem varnaraðili hafi orðið fyrir. Sé ósannað að rigningarveður hafi orsakað grjóthrun þennan dag eða átt þátt í slysinu. Vekur hann athygli á því að algengt sé að ferðamenn leggi leið sína að Glymsgili og skoði það ofan frá. Hafi grjóthrunið umrætt sinn getað stafað af því, en fyrir liggi að gönguhópur hafi þá verið í grenndinni. Þetta hafi hins vegar ekki verið rannsakað sérstaklega af lögreglu. Þá er því hafnað að leiðsögumaður hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar þeir leiðangursmenn, sem ekki treystu sér alla leið inn að fossinum Glym, voru skildir eftir í stað þess að fylgja þeim til baka, enda ekki hægt að segja til um hvort meiri hætta á grjóthruni hafi verið á þeim stað sem slysið varð eða á öðrum stað í gilinu. Slysið hefði allt að einu getað átt sér stað á leiðinni út úr gilinu í fylgd leiðsögumanns hefði sá háttur verið á hafður. Þá bendir hann á að það hafi ekki verið ákvörðun leiðsögumanns að varnaraðili staðnæmdist á þeim stað, sem hún varð fyrir hruninu, heldur hennar eigin ákvörðun. Hefði henni verið í lófa lagið að biðja reyndari leiðangursmenn um aðstoð við að komast á öruggari stað teldi hún öryggi sínu ógnað. Með vísan til framangreinds sé ljóst að umrætt slys geti einungis talist til óhappatilviks sem sóknaraðili geti með engu móti borið ábyrgð á.
Þá hafnar sóknaraðili því að tjóni varnaraðila hafi verið valdið í starfi manna, sem Íslenskar ævintýraferðir hf. báru ábyrgð á, eða í nánum tengslum við slík störf. Umrædd ferð hafi aðallega verið skemmtiferð starfsfólks fyrirtækisins, farin í frítíma og að frumkvæði þess. Hafi hún verið farin til þess að hrista fólk saman og þá hafi ekki spillt fyrir að ferðin var á sölulista fyrirtækisins. Engin skylda hafi hvílt á starfsmönnum til að fara í ferðina. Einungis einn leiðangursmanna hafi reiknað sér sérstaklega laun fyrir ferðina, Jón Heiðar Andrésson leiðsögumaður, en hann hafi ekki verið starfsmaður fyrirtækisins heldur Bátafólksins ehf., sem verið hafi verktaki fyrir Íslenskar ævintýraferðir hf. og séð um framkvæmd ferða fyrir það félag. Hafi hann meðal annars þegið laun sín frá Bátafólkinu ehf. Þessi tvö fyrirtæki hafi ekki sameinast fyrr en í maí 2002. Auk þessa hafi starfsmenn félagsins ekki óskað sérstaklega eftir því að þeim yrði greitt fyrir umrædda ferð og enginn hafi skrifað á sig yfirvinnu vegna hennar. Tekur sóknaraðili fram að Jón Heiðar hafi haft mesta reynslu af ferðum í Glymsgil og hafi borið ábyrgð á öryggi leiðangursmanna. Vilborg Hannesdóttir, gæða- og öryggisfulltrúi Íslenskra ævintýraferða hf., hafi hins vegar hvorki verið leiðsögumaður í ferðinni né í forsvari fyrir henni. Hún hafi ekki heldur verið starfsmaður Íslenskra ævintýraferða hf. í ferðinni, enda einn af eigendum og rekstraraðilum Bátafólksins ehf. Hafnar sóknaraðili því að Íslenskar ævintýraferðir hf. hafi haft boðvald yfir leiðangursmönnum í umræddri ferð.
Verði þrátt fyrir þetta talið að bótaskylda hafi verið fyrir hendi heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi með þátttöku sinni í ferðinni „tekið áhættu sem henni mátti vera ljós og verði því að lækka hugsanlegar bætur til hennar vegna eigin sakar.“ Verði í þessu sambandi að hafa í huga að tekin sé áhætta með því að fara í „venjulega fjallgöngu hvað þá för eins og ferðin í Glymsgil var.“ Sem sölumaður hjá fyrirtækinu, sem bauð eins og nafnið gefur til kynna ekki upp á „hefðbundnar“ ferðir fyrir ferðamenn heldur „ævintýraferðir“, sem „oft á tíðum voru erfðari og buðu upp á meiri áhættu en hefðbundnar ferðir“ hafi henni mátt vera þetta ljóst. Þá hafnar sóknaraðili því að krafa varnaraðila verði viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabúið samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem umrætt slys hafi ekki orðið á meðan varnaraðili hafi verið að sinna starfi sínu í þágu fyrirtækisins. Verði hins vegar fallist á það bendir sóknaraðili á að aðrar kröfur en krafa um bætur vegna varanlegrar örorku geti ekki fallið undir fyrrnefnt ákvæði laganna. Að síðustu mótmælir sóknaraðili því að það sé hans að sanna að grjóthrun á umræddum stað sé fátítt. Engin efni séu til að snúa sönnunarbyrðinni við líkt og gert sé í hinum kærða úrskurði.
Varnaraðili heldur því fram fyrir Hæstarétti að umrædd ferð hafi verið farin á vegum Íslenskra ævintýraferða hf. og á ábyrgð félagsins enda tilgangur hennar að kynna starfsmönnum og þá sérstaklega sölumönnum þessa tilteknu gönguferð þar sem hún var á sölulista félagsins. Máli sínu til stuðnings vísar varnaraðili til skýrslu þáverandi framkvæmdastjóra félagsins og skýrslu markaðs- og kynningarstjóra þess fyrir héraðsdómi. Þá hafi ferðin verið skipulögð af gæða- og öryggisfulltrúa Íslenskra ævintýraferða hf., starfsmaður félagsins hafi verið leiðsögumaður auk þess sem sérhæfður búnaður og tæki sem notuð voru í ferðinni hafi verið í eigu þess. Auk þessa heldur varnaraðili því fram að undirbúningur og leiðsögn í ferðinni hafi verið ófullnægjandi. Bendir varnaraðili á að frumskylda leiðsögumanns gagnvart öðrum þátttakendum sé öryggisgæsla og leiðbeiningarskylda. Við varhugaverðar aðstæður, eins og í Glymsgili, verði að gera auknar kröfur til undirbúnings ferðar og leiðsögumanns. Hafi félagið þurft að haga skipulagningu ferðarinnar þannig að tryggt væri að aðstæður í gilinu væru forsvaranlegar. Þá hafi það verið á ábyrgð leiðsögumanns að bregðast við og gera viðhlítandi ráðstafanir þegar aðstæður í gilinu komu í ljós. Hafi sú háttsemi að skilja þátttakendur eftir án aðstoðar í gilinu við þær aðstæður sem voru umræddan dag falið í sér stórfellt gáleysi. Bendir varnaraðili á að skipuleggjendur ferðarinnar hafi ekki getað upplýst hvort veðurfar hafi verið kannað sérstaklega fyrir ferðina. Annar leiðsögumanna ferðarinnar hafi borið fyrir héraðsdómi að hann gæfi veðri liðinna daga engan gaum þegar farið væri í ferð sem þessa. Verði þessi afstaða hans, sem annist fararstjórn í krafti sérþekkingar á staðháttum, ekki metin á annan hátt en sem stórkostlegt gáleysi sem félagið beri ábyrgð á. Með vísan til framangreinds heldur varnaraðili því fram að umrætt slys í Glymsgili megi rekja til óforsvaranlegrar leiðsagnar leiðsögumanna Íslenskra ævintýraferða hf. Með ferðinni hafi verið tekin óþarfa áhætta, sem lagt hafi líf og limi starfsmanna félagsins í hættu. Sökum sérhæfðrar þekkingar þeirra starfsmanna, sem skipulögðu ferðina, hafi þeim mátt vera ljóst að aðstæður til gönguferðar upp gilið hafi ekki verið forsvaranlegar umrætt sinn. Beri félagið ótvírætt ábyrgð á þessum yfirsjónum starfsmanna sinna samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð. Bendir varnaraðili á að sakarmatið í slíkum tilvikum sé strangt. Þá vekur hann athygli á því að forsvarsmenn félagsins hafi viðurkennt fyrir héraðsdómi að hafa ekki þekkt staðhætti og þær hættur sem leynast í Glymsgili. Hafi ferðin verið tekin af sölulista í kjölfar slyssins en leiðsögumaðurinn hafi viðurkennt fyrir héraðsdómi að hann gæti ekki ábyrgst öryggi þátttakenda í þessum ferðum.
Í tilefni af varakröfu sinni tekur varnaraðili fram að það skipti ekki sköpum um ábyrgð félagsins hvort varnaraðili var í starfi meðan á ferðinni stóð, enda um skipulagða hópferð að ræða á vegum þess. Beri félagið ábyrgð á öllum ferðum á þess vegum óháð því hvort krafist sé greiðslu af þátttakendum eður ei. Að síðustu mótmælir varnaraðili að hún hafi með þátttöku í ferðinni tekið áhættu, sem henni mátti vera ljós, þannig að áhrif hafi til lækkunar á greiðslu bóta til hennar. Bendir hún á að ekki hafi verið skýrt frá hættu á grjóthruni áður en lagt var í ferðina. Þá hafi þátttakendum ekki verið unnt að átta sig á því fyrirfram hversu erfið ferðin var auk þess sem þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir aðstæðum. Þvert á móti hafi forsvarsmenn félagsins borið fyrir héraðsdómi að aðstæður ættu í ferðum sem þessum að koma þátttakendum á óvart.
III.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort varnaraðili eigi fjárkröfu á hendur sóknaraðila vegna afleiðinga slyss, sem hún varð fyrir í fyrrnefndri gönguferð í Glymsgili í lok september 2001. Verði fallist á að varnaraðili eigi slíka kröfu er deilt um hvort lækka beri kröfuna vegna áhættutöku hennar eða eigin sakar. Þá greinir aðila á um hvort viðurkenna skuli kröfuna sem forgangskröfu í þrotabúið, samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eða sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laganna. Verði fallist á að umrædd krafa eigi undir fyrrnefnda ákvæðið er deilt um hvort krafa varnaraðila falli þar undir í heild sinni. Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur.
Samkvæmt framburði þáverandi framkvæmdastjóra Íslenskra ævintýraferða hf. og eins eigenda félagsins fyrir héraðsdómi voru þátttakendur í gönguferð þeirri, sem hér um ræðir, annars vegar starfsmenn félagsins og hins vegar makar þeirra. Ferð í Glymsgil hafði verið á söluskrá félagsins og var farið í ferðina í samræmi við skipulag félagsins á slíkri ferð. Leiðsögumenn í ferðinni voru þar á vegum félagsins. Bar Jón Heiðar Andrésson í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann hafi verið starfsmaður í ferðinni og annast leiðsögn. Er óumdeilt að hann hafi verið sá eini, sem fékk sérstaklega greitt fyrir hana. Af framburði Vilborgar Hannesdóttur, gæða- og öryggisfulltrúa félagsins, er og ljóst að hún átti vissan þátt í undirbúningi ferðarinnar og tók, ásamt Jóni Heiðari, ákvarðanir um hvernig brugðist var við þeim aðstæðum sem upp komu í ferðinni. Þá verður, með vísan til framburðar framkvæmdastjórans og sölu- og markaðsfulltrúa félagsins fyrir héraðsdómi, að telja í ljós leitt að tilgangur ferðar starfsmanna þess í Glymsgil umrætt sinn hafi öðrum þræði verið að kynna þeim þessa tilteknu gönguferð af eigin raun með það fyrir augum að auka sölu á henni. Samkvæmt þessu verður ekki dregin önnur ályktun en að ferðin í Glymsgil hafi verið farin á vegum fyrirtækisins og á ábyrgð þess. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort varnaraðili fékk sérstaklega greitt fyrir að fara í ferðina.
Ekki eru fyrir hendi í málinu miklar upplýsingar um aðstæður í Glymsgili og hættur, sem fylgja ferðum þangað. Gunnar Ragnar Vilhjálmsson var einn þeirra björgunarsveitarmanna, sem kom til aðstoðar eftir að það slys varð, sem um er fjallað í máli þessu. Hann kvaðst þekkja aðstæður í gilinu allvel þar sem hann hefði stundað þar ísklifur með félögum sínum í björgunarsveitinni. Hann kvaðst helst vilja fara inn í gilið í þurrviðri og jafnvel þegar allt væri frosið. Hann kvað þá félaga aldrei fara í gilið vegna hættu á grjóthruni við aðstæður á borð við þær sem ríktu við slysið, en þá hefði verið votviðristíð. Hermann Helgason, einn eiganda eyðijarðarinnar Stóra- Botns, kvað það annað slagið koma fyrir að grjóthrun yrði í gilinu. Taldi hann af þeim sökum mjög hættulegt að leggja leið sína þangað. Ekki verður séð af framburði forráðamanna og starfsmanna Íslenskra ævintýraferða hf. fyrir héraðsdómi að af hálfu félagsins hafi verið aflað upplýsinga um þær hættur, sem fylgt gætu ferðum í gilið, eða að farið hafi fram mat á þeim áður en slíkar ferðir voru settar á söluskrá félagsins. Þá verður heldur ekki séð að af hálfu þess hafi verið fyrirfram lagt mat á það við hvaða aðstæður teldist óhætt að fara í slíkar ferðir, en ráða má af framburði vitna fyrir héraðsdómi að veðurfarsaðstæður geti ráðið miklu um hrunhættu. Verður að telja það stjórnendum félagsins til gáleysis að skipuleggja ferðir í gilið án þess að vitneskja um þessi atriði lægi fyrir, en fyrirfram hlaut þeim að vera ljóst að hætta kynni að vera því samfara að fara í gilið. Hætti félagið enda við að selja og skipuleggja ferðir í Glymsgil eftir slysið og kvað Jón Heiðar Andrésson, sá starfsmanna félagsins sem best þekkti aðstæður í gilinu, það vera vegna þess hann gæti ekki ábyrgst öryggi fólks í slíkum ferðum.
Eins og að framan er rakið verður að ætla að veðurfar geti skipt máli varðandi hættu á hruni og að sú hætta aukist í vætutíð. Af gögnum málsins er ljóst að forsvarsmenn Íslenskra ævintýraferða hf. og skipuleggjendur ferðarinnar gáfu veðurfarsaðstæðum engan sérstakan gaum þegar ferðin var farin. Þá liggur fyrir að þeir ferðalangar, sem ekki treystu sér alla leið, voru látnir bíða í gilinu þar sem þeir gáfust upp eftir að þeir sem betur máttu sín lykju göngunni upp undir fossinn. Var þetta gert enda þótt með í för hafi verið margir vanir leiðsögumenn, sem aðstoðað hefðu getað fólkið við að komast til baka. Með þessu lengdist að óþörfu sá tími, sem fólkið dvaldi í gilinu. Verður því að telja að starfsmenn Íslenskra ævintýraferða hf. hafi einnig sýnt af sér gáleysi við fararstjórn í ferðinni. Þegar allt þetta er virt verður fébótaábyrgð lögð á félagið vegna slyss varnaraðila.
Fyrir liggur að meginstarfsemi Íslenskra ævintýraferða hf. voru ferðir um óbyggðir Íslands þar á meðal gönguferðir. Í ljósi þess að umrædd gönguferð var, eins og áður er rakið, á sölulista fyrirtækisins, þar sem lögð var áhersla á sérþekkingu og sérhæfingu þess, er fallast á með héraðsdómi að þátttakendur í ferðinni hafi mátt reikna með að skipuleggjendur hennar ásamt leiðsögumanni hafi þekkt aðstæður í gilinu og miðað ferðina við það. Hafi varnaraðili haft réttmæta ástæðu til að treysta mati þeirra. Liggur fyrir af framburði vitna að starfsmönnum var ekki kynnt fyrir ferðina að sérstök hætta gæti verið henni samfara. Verður bótaskylda félagsins því ekki felld niður á grundvelli áhættutöku varnaraðila. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að hún hafi átt nokkra sök á tjóni sínu.
IV.
Samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um bætur vegna örorku manns, sem starfaði í þjónustu þrotamannsins og varð þar fyrir slysi sem olli örorku, forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi það átt sér stað á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með ákvæði þessu, sem skipar vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, er vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Verður ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiðir af orðanna hljóðan. Þegar rætt er í ákvæðinu um bætur vegna örorku í þjónustu þrotamannsins er ótvírætt sett sú regla að réttur til bóta, sem þar getur átt undir, þurfi að eiga rætur að rekja til slyss, sem launþegi í starfi hjá þrotamanninum hefur orðið fyrir. Þá veitir reglan eingöngu forgangsrétt fyrir kröfu um bætur vegna örorku eða kröfu um bætur vegna fjártjóns af þessum sökum. Forgangsrétturinn verður þannig ekki talinn ná til bóta fyrir ófjarhagslegt tjón.
Eins og áður var rakið varð varnaraðili fyrir umræddu slysi í Glymsgili 29. september 2001 í ferð, sem farin var í nánum tengslum við starf hennar hjá Íslenskum ævintýraferðum hf., eða innan við átján mánuðum fyrir frestdag. Verður því talið að krafa varnaraðila um bætur vegna örorku, er hún hlaut í slysinu, falli undir 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili krefst viðurkenningar á kröfu í þrotabú fyrirtækisins að fjárhæð 6.437.702 krónur. Krafa varnaraðila skiptist þannig samkvæmt hinum kærða úrskurði: Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns að frádregnum launum og sjúkradagpeningum 547.714 krónur, þjáningarbætur 340.970 krónur, varanlegur miski 1.908.550 krónur og varanleg örorka 3.640.468 krónur. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan nýtur sá hluti bótakröfu varnaraðila, er varðar örorku hennar, að fjárhæð 4.188.182 krónur forgangsréttar samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar ber að telja þann hluta kröfu varnaraðila, er varðar bætur fyrir ófjárhagslegt tjón, meðal almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá verður vaxtakrafa varnaraðila viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 1. tölulið 114. gr. laganna eins og nánar greinir í dómsorði.
Um málskostnað og gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Við gjaldþrotaskipti sóknaraðila, þrotabús Ævintýrisins Tangarhöfði 7 hf., er viðurkennd krafa varnaraðila, Selmu Halldóru Pálsdóttur, að fjárhæð 4.188.182 krónur ásamt 4,5% vöxtum af 547.714 krónum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum frá 29. september 2001 til 20. febrúar 2003 og er henni skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Viðurkennd er krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila, að fjárhæð 2.249.520 krónur ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 29. september 2001 til 20. febrúar 2003 og er henni skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Viðurkennd er krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila um 4,5% vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 2.249.520 krónum frá 20. febrúar 2003 til 24. júní sama árs, en af 6.437.702 krónum frá þeim degi til 27. ágúst sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og er henni skipað í réttindaröð sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 1. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili greiði í ríkissjóð samtals 850.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun lögmanns hennar fyrir báðum dómstigum, samtals 850.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003.
Bú einkahlutafélagsins Ævintýrið Tangarhöfða 7 var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 20. febrúar 2003. Meðal lýstra krafna var skaðabótakrafa sóknaraðila þessa máls. Skiptastjóri lýsti þeirri afstöðu að henni bæri að hafna. Var ágreiningi um kröfuna vísað til dómsins með bréfi skiptastjórans 26. ágúst 2003, sbr. 120., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili er Selma H. Pálsdóttir, kt. 131273-2909, Vættaborgum 2, Reykjavík. Varnaraðili er þrotabú Ævintýrisins Tangarhöfða 7 ehf., áður Íslenskar ævintýraferðir ehf., kt. 560101-2870. Varnaraðili til réttargæslu er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennd verði sem forgangskrafa í þrotabúið krafa hennar að fjárhæð 6.437.702 krónur auk 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af kr. 2.249.520 frá 29. september 2001 til 8. maí 2002, af 6.437.702 krónum frá þeim degi til 27. ágúst 2003, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst sóknaraðili þess að sama krafa verði viðurkennd sem almenn krafa í þrotabúið. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar samkvæmt reikningi sem er að fjárhæð 1.254.320 krónur, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Sóknaraðila var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 11. mars 2003.
Varnaraðili, þrotabú Ævintýrisins Tangarhöfða 7 ehf., krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins.
Réttargæsluaðilinn Tryggingamiðstöðin hf. krefst málskostnaðar.
Sóknaraðili var á árinu 2001 starfsmaður Íslenskra ævintýraferða ehf., en nafni félagsins var breytt í Ævintýrið Tangarhöfða 7 (hér eftir yfirleitt nefnt fyrirtækið) skömmu áður en bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta fyrr á þessu ári. Laugardaginn 29. september 2001 fóru starfsmenn fyrirtækisins í ferð inn í Glymsgil í Botnsdal. Í þeirri ferð slasaðist sóknaraðili er grjót hrundi yfir hana og fótur hennar brotnaði illa svo nema varð hann af um miðjan fótlegg. Ágreiningur aðila snýst um hvort sóknaraðili eigi bótakröfu á hendur þrotabúinu og þá hvort kröfuna beri að lækka vegna eigin sakar eða áhættutöku. Verði krafan viðurkennd þarf einnig að leysa úr um stöðu hennar í skuldaröð. Hins vegar er ekki ágreiningur um fjárhæðir að öðru leyti.
Við aðalmeðferð málsins gaf sóknaraðili skýrslu svo og stjórnendur fyrirtækisins. Þá gáfu skýrslur nokkrir þeirra sem fóru í umrædda ferð. Loks var tekin skýrsla af einum björgunarsveitarmanni er tók þátt í björgun sóknaraðila, svo og einum af þremur eigendum eyðibýlisins Stóra-Botns.
Allnokkrir af þeim sem gáfu skýrslur fyrir dóminum lýstu aðdraganda þess að ferðin var farin. Fyrirtækið hafði boðið upp á ferð eins og þessa í bæklingi sínum þetta sumar, en hún hafði samt ekki verið farin. Þriðjudaginn 24. september sendi Dóra Magnúsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri fyrirtækisins, tölvupóst til allra starfsmanna þar sem hún stakk upp á að farið yrði í gljúfurgöngu upp að Glym næsta laugardag. Í orðsendingunni segir m.a.: „Það er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa hugmynd um þessa ferð ef við ætlum að selja hana næsta sumar og við getum ekki beðið með það mikið lengur þetta haustið nema við bíðum til vors!”
Dóra Magnúsdóttir gaf skýrslu fyrir dóminum. Sagði hún að þessi ferð hefði ekki selst neitt og þess vegna hefði verið farið í hana til að starfsmenn þekktu hana. Aðrir sem gáfu skýrslu, t.d. Arngrímur Hermannsson, sem var stjórnarformaður fyrirtækisins, sagði ferðina hafa verið til hrista hópinn saman. Garðar K. Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði að tilgangur ferðarinnar hefði verið tvíþættur, annars vegar skemmtun, hins vegar kynning fyrir starfsmenn. Vitni töldu ekki að starfsmönnum hafi verið skylt að fara í ferðina. Áhugi hafi verið það mikill að ekki hafi reynt á það. Allir sölumennirnir hefðu farið, nema einn sem var á vakt.
Nánar kom fram að lagt hafði verið upp úr því hjá fyrirtækinu að starfsmenn og sérstaklega sölumenn færu í þær ferðir sem í boði voru. Oftast hafi því verið hagað svo að starfsmenn fóru í ferðir sem ekki voru fullbókaðar, einn eða fleiri í senn. Ferð í Glymsgil hafði ekki verið farin þetta sumar og umræddan dag voru ekki aðrir með en starfsmenn og makar þeirra. Fram kom í skýrslu Arngríms Hermannssonar sú skýring á því að makar voru teknir með að þetta hefði verið um helgi og ef makar hefðu ekki fengið að fara hefði þátttakan ekki orðið eins góð.
Svo virðist sem starfsmönnum hafi ekki verið greidd laun sérstaklega fyrir þáttöku í ferðinni. Jón Heiðar Andrésson, sem var leiðsögumaður í ferðinni, kvaðst þó hafa reiknað þennan dag sem vinnudag. Þá kváðust flestir starfsmenn hafa verið á föstum launum, en ekki aðrir en Jón Heiðar töldu sig hafa fengið greitt fyrir ferðina.
Af skýrslum vitna og aðila má ráða að þungbúið hafi verið þennan dag. Sumir sögðu að rigningarúði hefði verið er þau lögðu af stað í gönguna. Fram kom í skýrslu Arngríms Hermannssonar og fleiri að rignt hefði dagana á undan. Ekki hefði verið rætt við hópinn neitt um hættu á grjóthruni. Arngrímur kvaðst þó hafa litið eftir því hvort ummerki væru um hrun. Hann hefði ekki orðið var við neinar vísbendingar um það. Jón Heiðar Andrésson sagði að það hefði verið gott veður. Hann kvaðst ekki hafa velt neitt fyrir sér hvernig veðrið hefði verið dagana á undan.
Vitni lýstu ferðinni á mjög svipaðan veg. Fyrst hefði Jón Heiðar Andrésson leiðbeint um hvernig ætti að vaða ána og brýnt fyrir þeim að nota hjálma. Þátttakendur hefðu fengið hjálma og flotgalla. Ferðin hefði reynst erfið. Við eitt haft í gilinu hefðu þrjár konur orðið eftir. Nokkru síðar hefðu fimm hætt förinni, en sóknaraðili var ein þeirra. Nokkrir héldu áfram og voru um það bil komnir á leiðarenda er þeir urðu varir við grjóthrun.
Nánar lýsa vitnin því svo að sóknaraðili og félagar hennar hefðu verið á þröngum stað í gilinu og lítið getað hreyft sig. Ekkert þeirra virðist hafa treyst sér til að snúa til baka. Kom það ekki til tals í hópnum að þau sneru við strax, heldur var miðað við að þau biðu þar til félagar þeirra kæmu til baka. Sama var um þær þrjár sem fyrst stoppuðu. Fram kom hjá þeim að þau hefðu ekki treyst sér ein til baka.
Fram kom í skýslu Arngríms Hermannssonar, stjórnarformanns fyrirtækisins, að honum hefði dottið í hug að hrunið hefði orsakast af umferð fólks fyrir ofan gilið. Það hefði verið hópur þar á ferð um daginn, en sagði að það hefði ekki verið rannsakað. Hann hefði sjálfur litið eftir því hvort hætta væri á hruni og hefði hann talið svo ekki vera. Það hefði ekki verið rigning.
Fæstir þátttakenda höfðu farið inn í Glymsgil áður. Upplýsingar um aðstæður í gilinu hafa komið fram í málinu í lýsingum vitna. Ekki er á hinn bóginn upplýst hvort oft megi gera ráð fyrir grjóthruni í gilinu og þá við hvaða aðstæður. Fyrirtækið virðist ekki hafa byggt ákvörðun um skipulagningu ferðarinnar á öðru en eigin reynslu starfsmanna og eigenda þess. Af því sem fram kom um þekkingu manna á aðstæðum verður ráðið að engar eiginlegar athuganir hafa verið gerðar. Þannig virðist leiðsögumaðurinn Jón Heiðar Andrésson ekki hafa gert ráð fyrir hættu á grjóthruni, en stjórnarformaður fyrirtækisins, Arngrímur Hermannsson, kvaðst hafa kannað hvort ummerki væru um hrun.
Jón Heiðar Andrésson kvaðst hafa farið nokkrar ferðir í gilið til klifurs og hefði aldrei orðið var við grjóthrun. Sama væri um þá sem hann þekkti. Hann kvaðst ekki hafa kynnt sér aðstæður í gilinu á annan hátt en með því að fara þangað.
Hermann Helgason gaf skýrslu fyrir dómi, en hann er einn þriggja eigenda jarðarinnar Stóra-Botns. Hann sagði að það væri grjóthrun af og til í gilinu. Kvaðst hann telja hættulegt að vera í gilinu. Skipuleggjendur ferða hefðu aldrei haft samband við sig eða systkini sín til að spyrja um aðstæður í gilinu eða óska eftir leyfi til að fara með hópa þangað. Sagði Hermann að ef eftir hefði verið leitað hefði hann ekki gefið leyfi til slíkra ferða.
Gunnar Agnar Vilhjálmsson, félagi í Björgunarfélagi Akraness, kvaðst hafa farið í gilið ásamt félögum sínum nokkrum sinnum. Hann kvaðst ekki fara þangað nema þegar allt væri frosið eða þegar mjög þurrt væri. Annars væri hætta á grjóthruni of mikil. Hann kvaðst hafa séð er hann kom á staðinn að óvenjumikið hefði verið í ánni. Aukin hætta á grjóthruni væri í rigningartíð.
Í vottorði Guðrúnar Karlsdóttur, endurhæfingarlæknis, sem dagsett er 23. nóvember 2002, segir m.a.:
“ Hún varð þar fyrir grjóthruni og skullu steinar á hægri fót og fótlegg hennar. Hún mun þegar hafa aflimast (amputerast) gegnum miðhluta fótarins. Var flutt á slysadeild LSH í Fossvogi. Röntgenmyndir sem teknar voru þar við komu sýndu að sá hluti fótarins sem eftir var var kurlbrotinn, bæði ristarbein og að því er virtist öll tarsalbein (háristarbein) og einnig calcaneus (hælbein) og talus (völubein). Reyndist auk þess vera með opið brot á sköflungi og mjúkvefir þar voru illa kramdir og rifnir. Vegna ástands mjúkvefja var ákveðið að gera aflimun (amputation) ofan við sköflungsbrotið eða um miðjan fótlegg. Aðgerðina framkvæmdi Jón Ingvar Ragnarsson, bæklunarlæknir.”
Þann 2. maí 2003 voru þeir Björn Daníelsson, lögfræðingur, og Yngvi Ólafsson, læknir, kvaddir af Héraðsdómi Reykjavíkur til að meta örorku sóknaraðila. Niðurstöðu lýsa þeir í matsgerð sem dagsett er 24. júní 2003. Er ekki þörf á að rekja hana nákvæmlega þar sem ekki er ágreiningur um fjárhæðir í málinu. Þó skal þess getið að þeir telja stöðugleikatímapunkt samkvæmt 2. og 3. gr. skaðabótalaga vera 8. maí 2002. Þá telja þeir varanlega miski samkvæmt 4. gr. laganna vera 35% og varanlega örorku samkvæmt 5. gr. vera 15%.
Kröfugerð sóknaraðila er sundurliðuð í gögnum málsins. Þar sem ekki er ágreiningur um fjárhæðir í málinu verður hér látið nægja að skýra frá því að krafa um bætur vegna tímabundinnar örorku að frádregnum launum og sjúkradagpeningum nemur 547.714 krónum. Krafa um þjáningabætur nemur 340.970 krónum. Krafa vegna varanlegs miska er að fjárhæð 1.908.550 krónur og vegna varanlegrar örorku 3.640.468 Samtals er því krafist viðurkenningar á kröfu að fjárhæð 6.437.702 krónur, auk vaxta eins og áður greinir.
Málsástæður sóknaraðila.
Kröfu um skaðabætur byggir sóknaraðili á því að slysið verði rakið til óforsvaranlegrar leiðsagnar leiðsögumanna varnaraðila og að með ferðinni hafi verið tekin óþörf áhætta, líf og limir starfsmanna hafi verið lagðir í hættu. Beri varnaraðili ábyrgð á þessum yfirsjónum starfsmanna sinna samkvæmt reglunni um húsbóndaábyrgð.
Sóknaraðili kveðst hafa verið í starfi sem sölumaður hjá fyrirtækinu. Ferðin hafi verið farin til að kynna sölumönnunum ferðina, en ferðin hafi verið á söluskrá. Sölumennirnir hafi ekki fengið sérstaklega greitt fyrir að fara í ferðina, en þeir hafi heldur ekki greitt neitt fyrir. Ferðin hafi verið farin til að gera sölumennina hæfari til starfa, ferðin hafi verið í tengslum við starfið, undir stjórn fyrirtækisins og skipulögð af því, notast hafi verið við búnað fyrirtækisins og fararstjórar þess hafi verið leiðsögumenn.
Leiðsögumönnum hafi mátt vera ljós hætta af grjóthruni í gilinu. Miklar rigningar dagana á undan og vatnavextir í ánni hafi gert leiðina torfærari en ella. Hefði fyllsta öryggis verið gætt hefði átt að hætta við ferðina. Sóknaraðili sjálf hafi verið ókunnug staðháttum. Því hafi leiðsögumönnum borið að gera henni grein fyrir hættunni sem skapaðist af aðstæðunum. Sóknaraðili vísar hér til 12. gr. reglugerðar um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks nr. 130/1981.
Sóknaraðili segir að ekki hafi allir komist á leiðarenda og hafi hópurinn skipst í þrennt. Leiðsögumennirnir fimm hafi hins vegar allir komist á leiðarenda og því skilið hina eftir án eftirlits. Segir sóknaraðili þá hafa sýnt stórfellt gáleysi með þessu. Hafi þeim borið að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra sem urðu eftir á leiðinni, en enginn þeirra hafi haft sambærilega sérþekkingu og leiðsögumennirnir. Enginn leiðsögumaður hafi verið nálægur þegar grjóthrunið varð. Vegna þekktrar grjóthrunshættu, sérstaklega eftir rigningar, hafi leiðsögumönnunum borið að fylgja sóknaraðila og samferðamönnum hennar í öruggt skjól. Það hafi verið vanrækt og verði fyrirtækið að bera ábyrgð á þeirri yfirsjón.
Aðalkrafa sóknaraðila er sú að fjárkrafa hennar verði viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabúið, sbr. 5. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi orðið fyrir slysi í starfi sínu hjá fyrirtækinu. Þá hafi slysið orðið innan átján mánað fyrir frestdag.
Verði ekki fallist á að krafan sé forgangskrafa er krafist viðurkenningar á kröfunni sem almennri kröfu. Um hafi verið að ræða skipulagða hópferð er varnaraðili stóð fyrir og stjórnaði. Skipti ekki máli þótt ekki hafi verið krafist greiðslu fyrir ferðina.
Málsástæður varnaraðila, þrotabúsins.
Varnaraðili telur að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði til að tjón sóknaraðila sé bótaskylt. Vísar hann til þess að meðal almennra starfsmanna varnaraðila hafi kviknað hugmynd um að fara í skemmti- og ævintýraferð í frítíma sínum. Ferðin hafi ekki verið hluti af vinnuskyldu sóknaraðila eða annarra starfsmanna. Allir hafi vitað hvert ferðinni var heitið og hvert inntak hennar var. Hver og einn hafi tekið þátt í ferðinni af fúsum og frjálsum vilja og á eigin áhættu.
Þá segir í greinargerð varnaraðila að leiðsögumenn í ferðinni hafi ekki verið í starfi fyrir varnaraðila heldur félagar í hópi samstarfsmanna sem ákveðið höfðu að fara í ferðina. Þá hafi þeir ekki sýnt af sér saknæma háttsemi. Þvert á móti hafi þeir sýnt fyllstu varúð. Tjónið verði rakið til óhappatilviks. Hrunið úr berginu hafi verið óhapp og ekki sé vitað til þess að sambærilegt óhapp hafi áður átt sér stað. Allir þeir sem inn í slíkt gil fari geri það á eigin ábyrgð, aldrei sé hægt að sjá fyrir hvort hrunið geti úr slíku bergi. Veðurfar hafi ekki verið orsök slyssins. Við fossinn sé alltaf mikill úði og bleyta. Þá telur varnaraðili ósannað að vatnsmagn í ánni hafi skipt einhverju um slysið. Það að sóknaraðili kaus að stoppa á ákveðnum stað í gilinu verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi einhvers af samferðamönnum hennar. Þá verði það ekki metið til sakar að henni hafi ekki verið fylgt til baka, engin leið hafi verið að segja til um hvort hætta á hruni hafi verið meiri á einum stað í gilinu en öðrum.
Þá telur varnaraðili að jafnvel þó tjónið verði rakið til sakar starfsmanns hafi tjóninu ekki verið valdið í starfi viðkomandi hjá honum eða í nánum tengslum við það starf. Ferðin hafi verið farin án afskipta varnaraðila sem vinnuveitanda. Ferðin hafi ekki verið vinnuferð. Sóknaraðili hafi ekki verið við störf er slysið varð.
Verði niðurstaða dómsins sú að varnaraðili beri bótaábyrgð á slysi sóknaraðila ber varnaraðili fyrir sig að lækka beri bætur vegna eigin sakar sóknaraðila. Hún hafi mátt gera sér ljósa hættuna er hún lagði sig í er hún fór inn í gilið.
Varnaraðili féll frá athugasemdum við kröfugerð sóknaraðila eftir að hún var lækkuð við aðalmeðferð málsins.
Loks mótmælir varnaraðili því að hugsanleg krafa yrði viðurkennd sem forgangskrafa. Vísar hann þar til sömu sjónarmiða og að framan er greint frá um að slysið hafi ekki átt sér stað er sóknaraðili var í starfi, heldur í starfsmannaferð. Til vara um þennan þátt bendir varnaraðili á að einungis krafa vegna örorku geti talist forgangskrafa í samræmi við orðalag 5. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, um þjáningabætur og um bætur fyrir varanlegan miska geti því ekki talist forgangskrafa.
Málsástæður varnaraðila til réttargæslu.
Ekki er ástæða til að taka upp hér þær athugasemdir sem réttargæsluaðilinn Tryggingamiðstöðin hf. setur fram í greinargerð sinni. Er þar vísað til allra þeirra sömu málsástæðna og varnaraðili hefur uppi. Raunar eru langir kaflar í greinargerðum þessara aðila samhljóða. Þá gerir félagið fyrirvara við það hvort ábyrgðartrygging sú sem í gildi var nái til ábyrgðar vegna umrædds slyss, en það er ekki reifað frekar enda ekki til úrlausnar í þessu máli. Þá var eins og áður segir fallið frá mótmælum við tölulega útlistun kröfu sóknaraðila eftir að hún hafði verið lækkuð.
Forsendur og niðurstaða.
Í umrædda ferð fóru starfsmenn fyrirtækisins og makar. Upplýst er að í ferðinni voru helstu stjórnendur fyrirtækisins, m.a. stjórnarformaður og framkvæmdastjóri. Farið var í ferðina í samræmi við skipulag sem fyrirtækið hafði útbúið. Ferðin var boðin af fyrirtækinu og ber það því ábyrgð eftir almennum reglum á tjóni sem kann að vera valdið í ferðinni. Sú staðreynd að enginn greiddi fyrir þátttöku í ferðinni breytir þessu ekki.
Telja verður að fyrirtækið hafi staðið fyrir því að ferðin var farin. Skýrt kemur fram að ferðin var ekki eingöngu skemmtiferð, heldur fræðsla fyrir starfsmenn sem átti að nýtast þeim beint í starfi. Í því samhengi verður því að líta svo á að þeir hafi verið í starfi í ferðinni, að ferðin hafi verið farin í þágu vinnuveitanda, þótt ekki felist í því að þeim hafi borið að fá greidd laun.
Í raun er í máli þessu mjög lítið upplýst um aðstæður í Glymsgili. Aðstæðum þar er lýst að nokkru í gögnum og vitnin Hermann Helgason og Gunnar Agnar Vilhjálmsson gerðu grein fyrir hættum er þeir töldu vera samfara ferðum í gilinu og dvöl þar. Af hálfu varnaraðila hefur lítið verið lagt fram um þekkingu á aðstæðum sem starfsmenn fyrirtækisins bjuggu yfir. Jón Heiðar Andrésson, sem virðist hafa verið talinn sá starfsmanna sem best þekkti til, hafði farið alloft inn í gilið og heyrt lýsingar vina sinna á ferðum þangað.
Af gögnum málsins og þeirri reynslu sem atvik þessa máls lýsa má draga þá ályktun að nokkur hætta sé samfara því að fara um og dveljast í Glymsgili. Sennilegt má telja að hættan sé mismikil eftir aðstæðum, einkum veðurfari síðustu daga. Þekking á þessu er þó ekki nákvæm eða yfirgripsmikil. Fyrirtækið, Íslenskar ævintýraferðir, síðar nefnt Ævintýrið Tangarhöfða 7, bauð ferðir í gilið. Það fór umrætt sinn með starfsmenn sína og maka þeirra. Þeim bar að kynna sér eftir föngum aðstæður í gilinu og máttu þátttakendur í ferðinni reikna með að skipuleggjendur ferðarinnar þekktu aðstæður í gilinu og þær helstu hættur sem þar kynnu að leynast. Eftir því sem upplýst er voru aðstæður þannig umrætt sinn að auknar líkur mátti telja á grjóthruni vegna rigninga undangenginna daga. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að leggja sönnunarbyrðina á varnaraðila fyrir því að umrætt grjóthrun hafi verið svo óvænt og fátítt að ekki verði með réttu til þess ætlast að skipuleggjandi ferða geri sér ljósa hættuna á því. Ekki hefur verið sýnt fram á að svo hafi verið og því verður það metið stjórnendum fyrirtækisins til gáleysis að ferðin var farin.
Ósannað er að hrunið hafi verið af manna völdum.
Þátttakendum var ekki skýrt frá hættu á grjóthruni. Eins og áður segir máttu þeir treysta stjórnendum ferðarinnar og þekkingu þeirra á aðstæðum. Er ekki hægt að líta svo á að þátttakendur í ferðinni hafi tekið á sig áhættu af hugsanlegu hruni úr berginu.
Fyrirtækið lagði til búnað og skipulagningu sína til ferðarinnar. Tilgangur ferðarinnar var öðrum þræði að þjálfa starfsfólk. Þótt ekki hafi verið greidd laun fyrir þátttöku í ferðinni var hún beinn hluti af starfi sóknaraðila og verður öll krafa hennar talin forgangskrafa samkvæmt 5. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt framansögðu verður viðurkennd bótaskylda varnaraðila og bætur verða ekki lækkaðar vegna eigin sakar eða áhættutöku.
Krafan verður viðurkennd sem forgangskrafa með vöxtum til upphafs skipta, en vextir frá þeim degi verða viðurkenndir sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili hefur gjafsókn og verður þóknun lögmanns hennar ákveðin 700.000 krónur. Varnaraðila ber að greiða 1.220.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Krafa sóknaraðila, Selmu H. Pálsdóttur, í þrotabú Ævintýrisins Tangarhöfða 7 ehf., er viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 6.437.702 krónur auk 4,5% ársvaxta af 2.249.520 krónum frá 29. september 2001 til 8. maí 2002, en af 6.437.702 krónum frá þeim degi til 20. febrúar 2003. Sem krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 eru viðurkenndir 4,5% ársvextir af 6.437.702 krónum frá 20. febrúar 2003 til 27. ágúst 2003 og dráttarvextir frá þeim degi til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 700.000 kónur.
Varnaraðili, þrotabú Ævintýrisins Tangarhöfða 7 ehf., greiði 1.220.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.