Hæstiréttur íslands

Mál nr. 98/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Föstudaginn 13. febrúar 2015.

Nr. 98/2015.

Arion banki hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

gegn

Unni Magdalenu Björnsdóttur

(enginn)

Kærumál. Frávísun frá héraðsdómi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A hf., sem krafðist þess að ógild yrði ákvörðun um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna U, var vísað frá dómi. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að veðskuldabréf það sem A hf. byggði rétt sinn á hefði verið útgefið af U til S hf. Á bréfið væri áritað að D hf. hefði framselt bréfið til A hf. tiltekinn dag. Engin umfjöllun væri hins vegar um það í stefnu hvernig D hf. hefði eignast bréfið. Var því talið að stefnan uppfyllti ekki skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. febrúar sama ár.  Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2015.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. desember sl. um frávísunarkröfu stefndu, er höfðað af Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, á hendur Unni Magdalenu Björnsdóttur, Hvannarima 10, Reykjavík, með stefnu birtri 19. mars 2014.

Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi ákvörðun umsjónarmanns stefndu, dags. 30. mars. 2010, um að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna skyldi komast á vegna fasteignarinnar að Hvannarima 10, Reykjavík, fnr. 204-0344.

Stefnda krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar að mati dómsins.

Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2010 var stefndu veitt heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar vegna fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði sínu að Hvannarima 10 í Reykjavík. Hinn 30. mars sama ár tók umsjónarmaður með greiðsluaðlöguninni fyrir stefndu ákvörðun um að greiðsluaðlögunin skyldi komast á, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Byggir stefnandi dómkröfu sína á því að stefnda hafi vanefnt verulega skuldbindingar sínar samkvæmt ákvörðun umsjónarmannsins, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 50/2009, og því eigi að ógilda hana.

Vegna kröfu sinnar um frávísun vísar stefnda til þess að hvorki sé því lýst í stefnu né komi það fram á veðskuldabréfi því sem stefnandi byggir rétt sinn á hvernig Drómi hf. hafi eignast umrætt skuldabréf, en samkvæmt áritun á bréfið hafi Drómi hf. framselt það til stefnanda 31. desember 2012. Vanræksla á þessu varði frávísun málsins, enda sé um að ræða viðskiptabréf sem þurfi að bera með sér öll réttindi og skyldur samkvæmt því, þar á meðal hvort aðilaskipti hafi orðið að bréfinu.

Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu. Vísar hann til þess að skýrlega komi fram í stefnu hvernig stefnandi hafi eignast kröfu sína. Að vísu sé ekki getið allra í framsalsröðinni en úr því hafi verið bætt með framlagningu stefnanda á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 21. mars 2009.

Niðurstaða

Veðskuldabréf það sem stefnandi byggir rétt sinn á er útgefið af stefndu til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, kt. [...], hinn 28. apríl 2006. Á bréfið er áritað að Drómi hf., kt. [...], framselji  bréfið til stefnanda 31. desember 2013. Engin umfjöllun er þó um það í stefnu hvernig það félag er komið að bréfinu en þess einungis getið að stefnandi hafi fengið bréfið framselt til sín framangreindan dag.

Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Meðal þeirra atriða sem þarf að lýsa er aðild máls ef aðilaskipti hafa orðið að kröfu, en varnir stefnda geta meðal annars ráðist af atriðum sem að því lúta. Samkvæmt framansögðu uppfyllti stefna í málinu ekki þessar kröfur. Samkvæmt því, og með vísan til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 46/2012, verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.

Stefnandi greiði stefndu 300.000 krónur í málskostnað.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Arion banki hf., greiði stefndu, Unni Magdalenu Björnsdóttur, 300.000 krónur í málskostnað.