Hæstiréttur íslands
Mál nr. 227/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Símahlerun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 21. júní 2001. |
|
Nr. 227/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Kærumál. Símhleranir. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Verjandi X krafðist þess að fá afhent endurrit af úrskurðum héraðsdóms um símhleranir hjá X. Talið var að túlka yrði 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 þannig að verjandi gæti aðeins krafist aðgangs að gögnum, sem vörðuðu mál, þar sem hann hefði verið skipaður verjandi. Í kröfu X var hins vegar ekki getið um hvaða mál þeir úrskurðir vörðuðu, sem hann krafðist endurrita af, heldur var óskað aðgangs að endurritum allra úrskurða, sem vörðuðu X, á tilteknu tímabili. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2001, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að verjanda hans yrðu afhent endurrit af úrskurðum um símhleranir hjá varnaraðila frá árinu 1995 til 25. maí 2001. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „krafa mín f.h. X [...] um að fá afhent endurrit af úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur um símhleranir hjá X [...] allt frá árinu 1995 þar til mál nr. 241/2001 var til meðferðar, verði tekin til greina.”
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Í málinu greinir aðila á um hvort verjanda varnaraðila beri réttur til að fá afhent endurrit úrskurða þar sem heimiluð var hlerun á símtæki varnaraðila. Varnaraðili er grunaður um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli. Í tengslum við rannsókn þess máls var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2001, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 23. maí 2001. Sóknaraðili kveður umbeðna úrskurði hins vegar tengjast öðru máli, sem varði rannsókn á því hvort varnaraðili hafi átt þátt í hvarfi karlmanns, sem saknað hefur verið frá árinu 1994.
Skilja verður 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, þannig að verjandi geti aðeins krafist aðgangs að gögnum, sem varða mál, þar sem hann hefur verið skipaður verjandi. Í kröfu varnaraðila er ekki getið um hvaða mál þeir úrskurðir varði, sem hann krefst endurrita af, heldur óskar hann aðgangs að endurritum allra úrskurða, sem varða varnaraðila, á tilteknu tímabili. Eins og kröfugerð varnaraðila er háttað verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá héraðsdómi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2001.
Með bréfi Páls Arnórs Pálssonar hrl. dagsettu 11. júní s.l. og mótteknu í dóminum 13. s.m. gerir hann, með vísan til bókunar frá 25. maí s.l. í málinu nr. R-241/2001, kröfu um að honum verði afhent endurrit af úrskurðum dómsins um símhleranir hjá X, [...], allt frá árinu 1995 þar til mál nr. R-241/2001 var til meðferðar en úrskurðina kveðst hann ekki hafa fengið afhenta hjá lögreglu þrátt fyrir skýr ákvæði 2. mgr. 88. gr. laga nr. 9171991 um meðferð opinberra mála. Aðgerð hljóti að vera lokið þar sem X hafi verið kunngert að símar hans hafi verið hleraðir.
Í bréfinu eru ástæður fyrir því að úrskurða sé krafist allt frá árinu 1995 sagðar vera þær að við meðferð máls í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 1996 hafi lögmaðurinn fyrir tilviljun komist yfir úrskurð um símhlerun hjá X vegna rannsóknar á hvarfi Valgeirs Víðissonar. Nú segi fulltrúi Lögreglustjórans í Reykjavík að síðari úrskurðir um símhlerun hjá X séu vegna rannsóknar sama máls en símhleranirnar samt notaðar í þágu þess fíkniefnamáls sem leiddi til gæsluvarðhalds yfir X 21. maí s.l.
Fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík greindi frá því fyrir dóminum að úrskurðir þeir sem krafist er afhendingar á varði rannsókn annars máls en fíkniefnamáls þess sem kærði sat í gæsluvarðhaldi vegna og var yfirheyrður um. Hann kveður afhendingu úrskurðanna geta spillt fyrir rannsókn málsins og þess vegna sé kröfu um afhendingu þeirra hafnað með vísan til lokamálsliðar 2. mgr. 88. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála.
Niðurstaða
Lögreglan vinnur að rannsókn á hvarfi Valgeirs Víðissonar sem saknað hefur verið frá því í júní 1994 og hefur X verið yfirheyrður vegna gruns um aðild að hvarfi hans. Úrskurðir þeir um símhlerun sem krafist er afhendingar á eru allir uppkveðnir vegna rannsóknarhagsmuna í því máli.
Lögmaðurinn byggir kröfu sína um afhendingu úrskurðanna á ákvæði 2. mgr. 88. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála en þar er kveðið á um að þeim sem aðgerð skv. 86. gr. er beint að skuli að henni lokinni birtur úrskurður um hana eða tilkynnt hún og að það skuli gert svo fljótt sem verða má, þó þannig að það skaði ekki rannsóknarhagsmuni málsins. Fram er komið að X hefur verið kynnt að símar hans hafi verið hleraðir.
Dómurinn fellst á það með lögreglu að staða rannsóknar málsins vegna hvarfs Valgeirs Víðissonar sé þannig að það myndi skaða rannsóknarhagsmuni málsins ef endurrit úrskurðanna yrði afhent. Verður kröfu lögmannsins því hafnað.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Hafnað er kröfu Páls Arnórs Pálssonar hrl. um að honum verði afhent endurrit af úrskurðum um símhleranir hjá X frá árinu 1995 til 25. maí 2001.