Hæstiréttur íslands
Mál nr. 684/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 19. mars 2009. |
|
Nr. 684/2008. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson settur saksóknari) gegn X(Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
X var ákærður fyrir að hafa brotið gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, með nánar tilgreindri háttsemi gegn tveimur stúlkum. Í héraði var háttsemi sem X var gefin að sök talin sönnuð að því leyti að hann hafi faðmað stúlkurnar og jafnframt strokið annarri þeirra á baki utan klæða, talandi um að honum liði illa, en einnig kysst hina á sitt hvora kinnina. Fyrir Hæstarétti undi ákæruvaldið við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um hvað teldist sannað um háttsemi X. Var háttsemin ekki talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni eða 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga um að sýna barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særa það eða móðga. Var X því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur og honum gerð refsing.
Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
Af hálfu ákæruvaldsins er fyrir Hæstarétti unað við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um hvað sannað sé um það athæfi ákærða, sem hann var borinn sökum um í ákæru. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að háttsemi ákærða, sem sönnuð er, varði ekki við ákvæði 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt því verður héraðsdómur staðfestur.
Eftir þessum úrslitum málsins verður allur áfrýjunarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. desember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara á hendur X, kt. [...],[...], „fyrir eftirtalin kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, framin í Selfosskirkju, við Kirkjuveg, Selfossi, sem hér greinir:
1. 1. Með því að hafa, sunnudaginn 21. október 2007, faðmað stúlkuna A, fædda 1991, og strokið henni á baki utanklæða og látið þau orð falla að honum liði illa og straumarnir streymdu úr líkama hans við það að faðma hana.
2. 2. Með því að hafa, fimmtudaginn 13. mars 2008, faðmað stúlkuna B, fædda 1992, og kysst hana nokkrum sinnum á kinnina og reynt að kyssa hana á munninn og látið þau orð falla að hann væri skotinn í henni og hún væri falleg.
Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 61/2007, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu Sigurðar Sigurjónssonar hrl., f.h. ólögráða A, kennitala [...], er krafist miska- og skaðabóta að fjárhæð kr. 2.371.670, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi til 19. ágúst 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., f.h. ólögráða B, kennitala [...], er krafist miska- og skaðabóta að fjárhæð kr. 598.500, auk dráttarvaxta á höfuðstól kröfunnar frá dómsuppkvaðningu til greiðsludags.“
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af ákæru og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að skaðabótakrafa verði lækkuð verulega. Þá krefst hann þess að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.
Málavextir.
Ákæruliður 1.
Hinn 29. apríl 2008 barst lögreglu bréf frá Fjölskyldumiðstöð Sveitarfélagsins Árborgar þar sem farið var fram á það, fyrir hönd barnaverndar Árborgar, að fram færi lögreglurannsókn skv. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna meintrar kynferðislegrar áreitni X, sóknarprests, gegn barni, A. Kemur þar fram að móðir stúlkunnar hafi haft samband við starfsmann barnaverndarnefndar Árborgar og skýrt frá því að dóttir sín, sem hefði séð um barnastarfið í kirkjunni og sungið þar í barnakór, hefði í október eða nóvember síðastliðinn komið mjög reið út í bíl til sín við kirkjuna og sagt „krípí, krípí“. Hefði stúlkan þá sagt sér að ákærði hefði farið með hana á bak við skáp inni á skrifstofu sinni og sagt meðal annars við hana að hann yrði að fá að knúsa hana því honum liði svo illa. Kemur og fram í skýrslunni að stúlkan hafi í framhaldi komið í viðtal við Anný Ingimarsdóttur félagsráðgjafa og þá skýrt henni frá því að ákærði hefði oft faðmað hana, sagt við hana að hún væri sæt og kysst hana á kinnina.
Í framhaldi þessa var tekin lögregluskýrsla af ákærða 30. apríl sama ár. Kvaðst hann þá saklaus af því að hafa framið blygðunarsemisbrot gegn stúlkunni eða að hafa á annan hátt brotið gegn henni. Kvaðst hann muna eftir einu atviki sem gæti hugsanlega verið orsökin að þessum ásökunum en þá hefði hann hitt stúlkuna við opnar dyr skrifstofu sinnar, líklega eftir erfiða útför. Hefði hann þá tekið utan um hana og faðmað hana auk þess að segja þá við hana að honum þætti vænt um að hafa hana þarna í kirkjunni. Ekkert kynferðislegt hafi verið við þetta faðmlag og hefði hann ekki kysst stúlkuna á nokkurn máta.
Ákæruliður 2.
Hinn 25. apríl 2008 barst lögreglu bréf frá Fjölskyldumiðstöð Sveitarfélagsins Árborgar þar sem farið var fram á það, fyrir hönd barnaverndar Árborgar, að fram færi lögreglurannsókn skv. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 60/2002 vegna meintrar kynferðislegrar áreitni ákærða gagnvart barni, B. Kemur þar fram að aðdragandi málsins hafi verið sá að foreldrar stúlkunnar, C og D, hafi haft samband við formann sóknarnefndar kirkjunnar 30. mars 2008 og sagt frá því að dóttir þeirra hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hendi sóknarprestsins á staðnum, ákærða í þessu máli. Eftir að sóknarnefndin hefði rætt málið hefði hún vísað því áfram til fagráðs kirkjunnar. Hefði formaður þess rætt þessi mál við foreldrana og í framhaldi tilkynnt formlega um málið til barnaverndar Árborgar. Nefndin hefði þá ákveðið að fara út í könnun á málinu skv. 21. gr. barnaverndarlaga og að fengnum lýsingum foreldra á málavöxtum hefði verið óskað eftir að tekið yrði könnunarviðtal við stúlkuna í Barnahúsi. Hafi hún þar meðal annars greint frá því að hún hefði heyrt fiðlutónlist og svo séð hvar ákærði var að spila á fiðlu á skrifstofu sinni. Hefði hann þá sagt við hana: „Komdu hér ég verð að fá að faðma þig.“ Hefði hann svo faðmað hana og í framhaldi kysst hana fimm sinnum á kinnina. Hann hefði svo ætlað að kyssa hana á munninn en hún þá snúið sér undan. Þá hefði hann og sagt: „Ég er rosalega skotinn í þér, þú er rosalega sæt stelpa“ og að hún væri „geðveikt falleg“.
Tekin var lögregluskýrsla af ákærða 30. apríl 2008. Kvaðst hann þá vera saklaus af ásökunum um kynferðisbrot gegn stúlkunni. Kvaðst hann muna eftir tveimur tilvikum, báðum eftir áramótin, þar sem hann hefði faðmað stúlkuna í góðri meiningu. Í fyrra skiptið hefði það verið í opnu rými í kirkjunni, í tengslum við æfingu unglingakórsins. Hefði hann þá tekið utan um hana og sagt henni hvað honum þætti vænt um hana og mikils virði að hafa hana í kórstarfinu. Í síðara tilvikinu kvaðst ákærði hafa verið á skrifstofu sinni og verið þar að spila fiðlutónlist af geisladiski. Hefði stúlkan þá komið þar inn og haldið að hann væri að spila. Hefði hann þá tekið utan um hana, kysst hana á hvora kinn og sagt að honum þætti vænt um að hún skyldi hafa haldið það. Stúlkan hefði síðan farið og ekkert í fari hennar hefði sýnt að henni hefði mislíkað þetta. Hann hefði þá farið fram í kirkjuna, þar sem stúlkan hefði verið að leika á píanóið, og sagt við hana að hann hefði nú kannski faðmað hana fullmikið og spurt hvort hún gæti fyrirgefið sér það. Hefði stúlkan þá svarað: „Ekki málið.“
Skýrslur fyrir dómi.
Ákæruliður 1.
Skýrsla var tekin af A fyrir dómi skv. 1. mgr. a-liðar 74. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála. Skýrði hún þá frá því að sunnudaginn 21. október 2007 hefði hún verið að vinna við sunnudagaskólann í kirkjunni þegar ákærði hefði beðið hana að koma með sér inn á skrifstofu sína í kirkjunni. Kvaðst hún hafa talið að hann ætlaði að biðja hana um að aðstoða sig við tölvuna eins og hann hefði oft gert áður. Hefði hann þá dregið hana afsíðis, frá dyrunum, þangað sem enginn gat séð þau, og sagt við hana að hann yrði að fá að faðma hana af því að honum liði svo illa. Hefði hann sagst hafa farið til læknis og fengið hjá honum eina töflu á dag og væri hann að hugsa um að fara aftur til hans og fá þá tvær. Hefði hann svo sagt við hana að hann fyndi „að straumarnir streymdu úr líkama sínum“ þegar hann fengi að faðma hana. Hefði hann svo strokið á henni bakið, utan klæða, upp og niður um mjóbakið. Kvaðst hún hafa verið hálfhrædd meðan að á þessu stóð og hugsað allan tímann, eða vonað, að hann færi ekki neðar og á óviðeigandi staði. Hafi henni fundist þetta óþægilegt, enda fyndist henni ekki þægilegt þegar ókunnugir menn væru að strjúka á henni bakið. Jafnvel þótt þarna væri um prestinn að ræða, og hún hefði oft talað við hann, þá væri það ekki þannig að hana langaði eitthvað til að vera að faðma hann. Ákærði hefði faðmað hana þétt að sér og hefðu þau þá staðið andspænis hvort öðru. Kvaðst hún ekki hafa kunnað við að mótmæla þessu með einhverjum hætti. Spurð hvort henni hefði fundist þetta vera kynferðislegt áreiti kvaðst hún eiginlega ekki vita það en alla vega hefði henni ekki þótt þetta rétt hegðun. Eftir atvikið kvaðst hún ekkert muna hvað gerðist fyrr en hún hefði verið komin út í bíl til mömmu sinnar. Hefði hún strax sagt henni frá þessu og þá eiginlega verið alveg í sjokki. Sagðist stúlkan hafa vegna þessa hætt að koma í kirkjuna um síðustu jól en áður hefði hún verið þar virk í kirkju- og kórastarfi í nokkur ár, ásamt því að vera í sunnudagaskólanum.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að kynni hans af A væru þau að hún hefði gengið til spurninga og fermst hjá honum fyrir um fjórum árum. Þá hefði hún og verið sumarstarfsmaður kirkjunnar á Selfossi í nokkur ár auk þess að annast ýmis önnur verkefni fyrir kirkjuna ásamt nokkrum öðrum stúlkum. Kvaðst hann ekki muna hvort hún hefði verið í kórnum, en hún hefði einnig verið aðstoðarstúlka í sunnudagaskólanum. Aðspurður minntist hann þess að hafa einni sinni beðið stúlkuna um að aðstoða sig smávegis við tölvuna á skrifstofu sinni. Það atvik tengdist þó ekki því atviki sem lýst er í ákærulið 1 því að í því tilviki hefði hann verið á leið frá kirkjuskipinu til skrifstofu sinnar, líklega að lokinni einhverri athöfn, og stúlkan þá staðið þar við dyrnar. Hefði hann þá faðmað hana þar að sér, í kannski fjórar til fimm sekúndur, og þótt hann myndi ekki eftir því væri þó líklegt að hann hefði þá eitthvað strokið henni um handlegg eða bakið, utan klæða, í sama mund. Hefði hann og á sama tíma sagt við hana sem svo: „Ég er nú ekki alveg hress A mín. Gefðu mér nú kraft.“ Ástæða þessara orða hans hefði verið sú að hann hefði þá verið búinn að vera einkennilega lengi ekki alveg hress og stundum jafnvel fengið fáeinar hitakommur þegar á daginn leið. Hefði hann haft orð á því við stúlkuna að hann hefði verið að breyta um blóðþrýstingslyf og héldi að þetta stafaði af því. Hann kvaðst hins vegar ekki kannast við að hafa talað um að straumarnir streymdu úr líkama hans eða eitthvað slíkt. Sagði ákærði að þetta faðmlag við stúlkuna hefði ekki verið neitt frábrugðið því sem algengt væri hjá honum í samskiptum við annað fólk og sæi hann ekkert óeðlilegt við það á nokkurn hátt. Lýsti hann því nánar þannig að hann hefði tekið utan um herðar stúlkunnar og faðmað hana, en þó ekkert mjög þétt. Ekkert kynferðislegt eða ósiðlegt hefði verið í hans huga hvað þetta varðaði.
Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta útilokað að atvik þetta hefði átt sér stað á sunnudegi þótt það hefði ekki verið þannig í huga sér. Þá kvaðst hann kannast við að stúlkan hafi í tengslum við þetta atvik hætt að mæta í sunnudagaskólann. Hefði djákninn tilkynnt honum að hún væri hætt því starfi en hann kvaðst þó ekki muna nákvæmlega hvenær það gerðist. Gæti þó vel verið að það hefði verið í kjölfar þess atviks er hér um ræði enda þótt honum fyndist það ótrúlegt miðað við ekki meira tilefni.
Vitnið E, móðir A, skýrði frá því að umræddan sunnudag um kl. 12 hefði hún sótt dóttur sína í kirkjuna þar sem hún hefði annast barnastarfið ásamt annarri stúlku. Kvaðst vitnið hafa lagt bifreiðinni fyrir utan safnaðarheimilið og beðið þar eftir henni. Stúlkan hefði svo komið út skömmu síðar og snarast inn í bílinn. Hefði hún virst mjög skelkuð og hrist sig til í sætinu í hryllingi og sagt: „Krípí, krípí!“ Sagðist vitnið hafa orðið mjög undrandi á þessum viðbrögðum. Hefði A svo skýrt henni frá því að ákærði hefði eftir messu beðið hana um að koma inn á skrifstofu. Hefði hann þar dregið hana út í horn, á bak við skáp, þar sem ekki hefði sést til þeirra um opnar dyrnar. Hann hefði svo sagst þurfa að fá að faðma hana þar sem honum liði svo illa og hún væri svo yndisleg. Hefði hann tekið hana í fangið og spurt hana hvort hún fyndi ekki straumana á milli þeirra, eða eitthvað í þá veruna. Hefði hún og sagt ákærða hafa talað um að hann hefði verið hjá lækni og væri búinn að taka eina pillu og væri að hugsa um að taka aðra. Hefði þessu annaðhvort lokið með því að hún hefði sagt að mamma hennar væri komin að sækja hana eða að ákærði hefði sagt það.
Kvaðst vitnið strax eftir helgina hafa haft samband við Eygló, djákna, og tilkynnt henni um þetta og jafnframt látið hana þá vita að A myndi ekki halda áfram að starfa í kirkjunni. Hefði hún ekkert starfað þar síðan, að undanteknu einu skipti sem hún hefði verið sérstaklega beðin um að aðstoða þar fyrir jólin og hefði hún þá farið þangað með tveimur vinkonum sínum. Vitnið kvaðst í fyrstu ekki hafa verið viss hvort rétt væri að fara með þetta mál lengra vegna alls þess álags sem slíku myndi fylgja fyrir dótturina. Hún hefði svo frétt af því í gegnum Jörg, organista kirkjunnar, að önnur stúlka hefði lent í svipuðu atviki gagnvart ákærða. Þegar svo foreldrar B hefðu haft samband við sig vegna málsins hefði henni fundist sem ekki væri rétt að sitja hjá lengur. Hefði hún því lýst sig reiðubúna til að skýra frá málinu á viðeigandi stöðum.
Ákæruliður 2.
Skýrsla var tekin af B fyrir dómi skv. 1. mgr. a-liðar 74. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála. Kom fram hjá henni að fimmtudaginn fyrir skírdag, eftir æfingu með unglingakórnum, hefði hún setið ein við flygilinn í kirkjunni þegar hún heyrði fiðluhljóm frá skrifstofu ákærða. Kvaðst hún hafa ákveðið að athuga hvað þetta væri. Gaf stúlkan þá skýringu að hún og ákærði hefðu alltaf verið ágætis vinir og hann hefði alltaf haldið mikið upp á hana í fermingarfræðslunni. Þegar hún svo kíkti inn í herbergið hefði ákærði sagt við hana: „B mín, B mín. Komdu nú inn og hvað segir þú, hefur þú heyrt í honum þessum? Þetta er rosalega góður maður, fiðluleikari frá barroktímabilinu.“ Hún kvaðst hafa svarað því neitandi og hann þá sagt: „Ég frétti að þú varst að fá verðlaun fyrir lagið sem þú varst að semja.“ Hefði hún þá sagt já við því og hann þá sagt: „Ég verð nú að fá að faðma þig.“ Hún hefði þá svarað: „Já, ekkert mál.“ Hefði hann þá tekið utan um hana og kysst hana nokkrum sinnum á kinnina, eins og hann hefði gert nokkrum sinnum síðastliðin tvö ár. Hefði hann haldið mjög fast utan um hana „og ætlaði að kyssa mig á munninn en hann strauk varirnar, náði samt ekkert að kyssa mig alveg af því ég færði mig svona frá, svo kyssti hann mig nokkrum sinnum á hina kinnina, og hélt svo lengur utan um mig og sleppti mér svo alveg bara.“ Hann hefði svo roðnað, horft á hana brosandi og sagt: „Já þú segir það.“ Hún hefði þá sagt: „Heyrðu, ég held ég þurfi ... það er verið að kalla á mig eða eitthvað.“ Hefði hún þá hlaupið út og sagt kórstjóranum, Jörg, frá þessu. Stúlkan bætti svo við í frásögninni að eftir að hafa faðmað hana hefði ákærði sagt við hana: „Ég er alveg ofsalega skotinn í þér, þú ert ofsalega falleg.“ Spurð um viðbrögð kórstjórans við frásögn hennar sagði hún hann fátt hafa sagt en þó sagt meðal annars andvarpandi „já“, eins og hann væri ekkert hissa á þessu og spurt hvort allt væri í lagi og hvort hann ætti að skutla henni heim. Þá hefði hann og talað um að þau skyldu segja djáknanum frá þessu, henni Eygló. Skömmu síðar þarna á eftir hefði Jörg svo þurft að bregða sér aðeins frá og hún setið ein við orgelið og spilað þegar ákærði hefði komið til hennar og sagt: „B mín. Fyrirgefðu að ég faðmaði þig svona mikið þarna áðan, þetta var bara ... erum við ekki bara vinir? Er þetta ekki bara allt í lagi? Er þetta ekki bara búið?“ Hún kvaðst þá hafa svarað: „Jú jú, ekkert mál, þetta er allt í lagi.“ Hefði ákærði svo farið. Spurð um viðbrögð djáknans við frásögn hennar af atvikinu sagði hún hana hafa sagt: „Guð, hann má ekki gera svona!“ Í framhaldi af þessu hefði hún hringt í kærasta sinn, sem hefði komið og fylgt henni heim, enda orðið dimmt úti og hún ekki þorað að ganga ein heim. Hún hefði svo skýrt móður sinni frá þessu er heim var komið.
Fram kom einnig hjá stúlkunni að ákærði hefði haldið mikið upp á hana í fermingarfræðslunni og sagt oft við hana: „Já ég hef aldrei haft svona fallega stelpu í fermingarfræðslu, sem syngur svona fallega, og er svona sæt eins og þú.“ Þá hefði hann boðið henni að læra söng heima hjá sér, hjá konu sinni, en hún hefði ekki þáð það. Auk þess að bjóða henni oft far í bílnum sínum. Hann hefði alltaf verið lengi að kveðja og faðma hana og þegar hann faðmaði hana hefði hann alltaf strokið henni um handlegginn í leiðinni og þá óvart þurft alltaf að snerta brjóstin eða fara niður á rass eða eitthvað svoleiðis. Þá hefði henni þótt óþægilegt að hann hefði alltaf tekið fast utan um hana og svo hvíslað einhverju í eyrað á henni eins og: „Þú er svo falleg.“
Stúlkan sagðist hafa verið mjög hrædd meðan ákærði faðmaði hana að sér inni í herberginu og hugsað: Hvað er hann að gera?“ Þá hefði hún velt fyrir sér hvort hann myndi loka dyrunum sem hefðu verið opnar. Spurð um afleiðingar þessa atviks sagðist stúlkan eiga erfiðara með svefn en áður. Hún þyrði ekki að sofna án þess að hafa ljós kveikt. Hana dreymdi stundum illa og dreymdi oft ákærða. Þá færi hún ekki lengur í kirkjuna nema Jörg væri þar líka eða einhver annar en ákærði.
Ákærði sagði kynni sín af B hafa verið þau að hún hefði gengið til spurninga og fermst hjá honum. Kvaðst hann hafa haft dálæti á stúlkunni því hún hefði létt honum fermingarstarfið með því að vera mjög virk í samsöng barnanna. Þá hefði hún verið mjög virk í kórastarfi kirkjunnar og verið farin að syngja með kirkjukórnum. Þegar það atvik gerðist sem hér um ræði hefði hann verið staddur á skrifstofu sinni í kirkjunni. Hefði hann ákveðið að hlusta þar á geisladisk með fiðlukonsert sem hann hefði keypt. Þar sem hann hefði haldið að hann væri einn í kirkjunni hefði hann haft dyrnar á herberginu opnar. B hefði þá fljótlega komið inn í herbergið, brosandi, og spurt hvort þetta hefði verið hann að spila. Kvaðst ákærða hafa þótt afskaplega vænt um að svo músíkölsk stúlka hefði staðið í þeirri trú að hann væri að spila, enda væri mjög erfitt að láta sellóið hljóma eins og spilað væri á fiðlu. Hefði hann því staðið á fætur frá skrifborði sínu, tekið hana í fangið og faðmað hana þétt að sér, og sagt eitthvað á þá leið: „Þú er alltaf jafn indæl og elskuleg.“ Þá hefði hann og óskað henni til hamingju með að hafa sigrað í söngvakeppni og smellt kossi á hvora kinn. Að því búnu hefði hún farið aftur fram. Hann kvaðst þá sjálfur hafa fengið það á tilfinninguna að henni kynni að hafa þótt þetta óþægilegt og því fundist hann þurfa að fara til hennar og biðja hana afsökunar til forðast allan misskilning. Hefði hann sagt við hana: „B mín. Ég hef líklega knúsað þig nokkuð fast núna. Viltu fyrirgefa mér það.“ Hefði hún þá svarað: „Ekki málið.“ Hann hefði þó ekki talið að um neitt ósiðlegt athæfi hefði verið að ræða eða að framkoma hans hefði verið óeðlileg í ljósi aldursmunar þeirra. Aðspurður neitaði ákærði því að hafa reynt að kyssa hana á munninn því hann hefði einungis kysst hana einn koss á hvora kinn. Það væri þó í raun einum kossi of mikið miðað við það sem hann almennt gerði. Þá kannaðist hann ekki við að hafa sagt við hana að hann væri skotinn í henni og að hún væri falleg. Hefði ekkert kynferðislegt eða ósiðlegt verið í hans huga hvað þetta varðar. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir að stúlkan væri neitt óróleg eða eftir sig eftir þetta atvik og hefði hún sest við píanóið og spilað eins og ekkert hefði í skorist.
Ákærði sagði vígslubiskupinn í Skálholti hafa heimsótt sig um einum og hálfum mánuði seinna og tilkynnt sér að kæra væri komin fram á hendur ákærða fyrir kynferðislegt áreiti. Kvað ákærði sér hafa brugðið við þetta. Enda þótt honum hefði þótt það með ólíkindum hefði honum þó helst dottið í hug að B hefði kært. Vegna þessa hefði hann afráðið, strax í kjölfarið, að hringja í stjúpföður stúlkunnar, F, sem hann kvaðst hafa kannast lítillega við. Kvaðst ákærði hafa lýst því hversu alvarlegt mál það væri fyrir hann að slík kæra væri komin fram. Kunni hann og að hafa sagt í þessu símtali að ekki hefði verið meining hans að misbjóða stúlkunni en hann kvaðst ekki kannast við að hafa sagt að þetta hefðu verið mistök og hann hefði gengið of langt. F hefði hins vegar svarað að málið væri í höndum móður stúlkunnar. Hann hefði þá og hringt í kynföður stúlkunnar, D, og tjáð sig á sama hátt við hann og spurt hann hvort hann gæti eitthvað gert til að kæran yrði dregin til baka. Hefði D svarað því til að hann myndi ræða þetta við barnsmóður sína þótt hann héldi að það væri um seinan.
Aðspurður sagði ákærði að honum væri það mjög tamt að faðma fólk að sér, og jafnvel kyssa það, og ætti það jafnt við um karla og konur. Hefði verið viðtekin venja í fjölskyldu hans að heilsast og kveðjast þannig.
Vitnið C, móðir B, segir dóttur sína hafa skýrt sér frá umræddu atviki með ákærða, um hálfum mánuði fyrir páskana 2007. Hefði stúlkan þá komið fyrr en venjulega heim af kóræfingu í kirkjunni og sagst þurfa að tala við vitnið. Hefði stúlkan þá skýrt sér frá því að hún hefði heyrt spilaða tónlist og farið að athuga hvaðan hún kæmi. Hefði hún litið inn um dyrnar á skrifstofu ákærða og hann þá beðið hana um að koma inn til sín. Hefði hann talað um hvað hún væri falleg og myndarleg og hvort hann mætti ekki taka utan um hana. Hefði hann þá tekið utan um hana og kysst á munninn. Hún hefði reynt að víkja sér undan en samt hefði kossinn lent á munni hennar. Hún hefði svo sagst þurfa að fara því Jörg organisti væri að bíða eftir sér. Hefði hún svo farið til Jörg og sagt honum frá því sem gerðist. Hefði hann þá spurt hana hvort hún vildi ekki aðeins hinkra við og róa sig niður, enda hefði hún verið í miklu uppnámi. Hann hefði svo sent hana heim stuttu síðar. Hún hefði svo hitt pabba sinn á leiðinni og hefði hann ekið henni heim. Sagði vitnið dóttur sína hafa verið í uppnámi þegar þær ræddu þetta saman og hefði stúlkan haft áhyggjur af því hvort hún myndi þora að fara aftur í kirkjuna. Hefði hún þannig strax talað um að ekki kæmi til greina að hún myndi syngja á skírdag eins og til hefði staðið. Það hefði þó orðið úr og hefði vitnið þá farið með henni í kirkjuna. Augljóst hefði hins vegar verið hversu neikvæð áhrif þetta atvik hefði haft á stúlkuna. Hefði það meðal annars komið fram í því að hún hefði átt erfitt með svefn og óttast að vera ein á ferli. Mætti segja að hennar daglega líf hefði farið úr skorðum. Þannig hefði hún ekki viljað fara ein í kirkjuna og hefði því þurft að fylgja henni þangað og vera þar með henni. Sagði vitnið að vegna alls þessa hefðu þau foreldrarnir tekið þá ákvörðun eftir páskana að tilkynna um þennan atburð til sóknarnefndarinnar, þrátt fyrir að stúlkan hefði verið því mótfallin í upphafi að um þetta yrði rætt annars staðar af ótta við að það myndi spyrjast út. Sagði hún aðspurð að þetta hefði eingöngu verið ákvörðun þeirra foreldranna og hefðu hvorki Jörg Sondermann né aðrir haft þar nein áhrif á. Loks kom fram hjá vitninu að hin mikla fjölmiðlaumræða um málið hefði haft mjög slæm áhrif á stúlkuna.
Vitnið F, stjúpfaðir B, sagði konu sína, C, hafa sagt sér frá umræddu atviki fyrst. Hefði hún þá sagt ákærða hafa kysst stúlkuna á munninn og að hún hefði verið alveg í öngum sínum yfir þessu. Sagði hann stúlkuna ekki mikið hafa viljað ræða við sig um þennan atburð til að byrja með, enda kvaðst hann hafa haft mikið að gera á þessum tíma og því ekki mikið verið heima. Hún hefði þó gert það stuttu síðar en hann myndi ekki nákvæmlega hvað þeim fór í milli. Hann minnti þó að hún hefði talað um að ákærði hefði kysst hana á munninn. Stúlkan hefði augljóslega verið mjög tætt og ólík sjálfri sér í kjölfarið. Þannig hefði hún forðast að þurfa að fara í kirkjuna sem hún hefði alltaf viljað áður. Vitnið sagði ákærða hafa hringt í sig, eftir að málið hefði verið komið í lögreglurannsókn, og spurt hvort hann mætti koma og heimsækja hann til að ræða við hann. Kvaðst vitnið hafa fallist á það. Ákærði hefði svo hringt skömmu síðar og þá farið á gamla heimilisfangið þeirra. Ekkert hefði orðið úr heimsókninni en ákærði hefði hins vegar þá sagt honum í símanum frá þessu atviki. Hefði hann talað um að hann hefði kysst stúlkuna á munninn. Það hefði ekki verið illa meint og hann sæi eftir því. Hefði ákærði svo spurt hvort vitnið gæti ekki talað við stúlkuna og reynt að sansa hana eitthvað til því hann óttaðist að annars myndi hann missa hempuna. Sagði vitnið að sér hefði verið mjög brugðið vegna þessa símtals því hann hefði engan veginn átt von á þessu. Ákærði hefði einnig óskað eftir að fá að ræða við móður stúlkunnar en vitnið hefði sagt henni að C hefði engan áhuga á að tala við hann. Vitnið kannaðist við og staðfesti þá lögregluskýrslu sem hann gaf vegna málsins.
Vitnið D, faðir stúlkunnar, kvaðst aðspurður minnast þess að hafa tekið dóttur sína upp í bíl sinn í mars 2008. Hefði hún byrjað á því að spyrja hvort móðir hennar væri búin að segja honum hvað gerðist. Kvaðst hann þá hafa svarað að móðir hennar hefði hringt í sig og sagst þurfa að ræða við sig alvarlegt mál en af því hefði þó ekki orðið. Stúlkan hefði svo skýrt honum frá því að presturinn hefði reynt að króa hana af í kirkjunni. Hefði hann faðmað hana og reynt að kyssa hana á munninn en hún þá náð að snúa sér undan. Minnti vitnið að hún hefði talað um að ákærði hefði talað um hve hrifinn hann væri af henni. Vitnið kvaðst þá hafa spurt hana hvort hún væri ekki örugglega að segja satt frá því þetta væri alvarlegt mál. Hefði hún þá svarað að hún væri að segja satt. Sagðist vitnið þá hafa sagt að hann myndi ræða þetta við móður hennar og skoða hvað rétt væri að gera. Í framhaldi hefði hann svo rætt við C og þau þá orðið sammála um að þau yrðu að tilkynna sóknarnefndinni um málið því ákærði yrði að víkja. Nokkru eftir þetta hefði ákærði svo hringt í vitnið og þá augljóslega í miklu uppnámi. Hefði hann spurt eitthvað á þá leið hvort ekki væri hægt að draga málið til baka því annars myndi það leiða til þess að hann missti hempuna. Kvaðst vitnið þá hafa svarað að málið væri ekki lengur í sínum höndum. Ekkert hefði verið rætt í símtalinu hvað gerðist umrætt sinn. Spurður um hvort hann gæti lýst afleiðingum atburðarins á stúlkuna sagðist vitnið eiga erfitt með það. Hins vegar væri klárt að þau foreldrarnir og stjúpfaðir stúlkunnar hefðu staðið mjög þétt á bak við hana vegna þessa án þess þó að vera með eitthvert drama í kringum málið. Hefði hún því hugsanlega sloppið betur en ef svo hefði ekki verið. Vitnið staðfesti lögregluskýrslu sem hann gaf vegna málsins.
Báðir ákæruliðir.
Vitnið Anný Ingimarsdóttur, félagsráðgjafi hjá fjölskyldumiðstöð Sveitarfélagsins Árborgar, lýsti aðdraganda þess að kæra var lögð fram hjá lögreglu vegna stúlknanna beggja. Lýsti hún samtölum við foreldra þeirra og að ákveðið hefði verið að óska eftir könnunarviðtölum við stúlkurnar áður en farið yrði með málið til lögreglu. Hefði frásögnum foreldranna og stúlknanna borið allvel saman varðandi umrædd samskipti þeirra við ákærða.
Vitnið Eygló Jóna Gunnarsdóttir, djákni í Selfosskirkju, sagði A hafa hætt að leysa hana af í sunnudagaskólanum 21. október 2007. Hefði móðir stúlkunnar hringt í vitnið og sagt að dóttir hennar kæmi ekki oftar í kirkjuna. Hefði hún sagt ástæðu þessa vera þá að ákærði hefði kallað stúlkuna inn á skrifstofu sína, farið þar í skjól frá dyrunum og faðmað hana þar að sér. Hefði stúlkan svo komið skelkuð út í bíl til móður sinnar. Kvaðst vitnið aðspurð hafa lagt trúnað á þessa frásögn. Hefði hún enga ástæðu til annars enda væri ákærði elskulegur maður sem faðmaði fólk og kyssti. Móðirin hefði beðið hana fyrir þetta svo hún hefði hvorki rætt þetta við ákærða né aðra. Vitnið sagði Jörg Sondermann svo hafa stuttu síðar sagt sér frá því að B hefði lent í svipuðu atviki gagnvart ákærða. Hefði frásögnin verið á þeim nótum að ákærði hefði faðmað hana og sagt að hún væri falleg. Borin var undir vitnið sú frásögn B af viðbrögðum vitnisins, þegar stúlkan og Jörg hittu hana í kirkjunni, um að hún hefði þá sagt: „Guð, hann má ekki gera svona.“ Kvaðst vitnið þá ekki minnast þess að hafa svarað með þessum hætti. Loks kom fram hjá vitninu að algengt væri hjá ákærða að heilsa elskulega, jafnvel með kossi á kinn. Það sé hans háttur. Eigi það jafnt við um unga og gamla, karla og konur. Kvaðst hún ekki hafa litið svo á að þessi háttsemi væri af kynferðislegum toga. Aðspurð kvaðst hún ekki geta útilokað að hún hefði einhvern tímann séð ákærða kyssa á munn. Hún hefði hins vegar ekki orðið vör við að hann hefði í frammi eitthvert ósiðlegt eða kynferðislegt athæfi í kirkjunni.
Vitnið Jörg Sondermann, organisti kirkjunnar, sagði B hafa verið hjá sér í unglingakór Selfosskirkju sem hann hefði stjórnað. Sagði hann stúlkuna hafa komið til sín í kirkjunni, um viku fyrir skírdag, og sagt prestinn hafa faðmað sig og kysst. Hefði hún verið í miklu uppnámi vegna þessa. Kvaðst vitnið hafa sagt henni að fara heim og ræða þetta atvik við móður sína og hefði stúlkan því ekki mætt á kóræfinguna sem haldin hefði verið þarna strax á eftir. Hún hefði svo síðar, eða eftir páskafríið, sagt sér frá því að ákærði hefði einnig talað um að hann væri skotinn í henni og að hún væri falleg. Nokkru eftir þetta hefði D, faðir stúlkunnar, haft samband við sig og beðið um að þau foreldrarnir fengju að hitta hann til að ræða málið. Kvaðst vitnið hafa bent þeim á að tala við formann sóknarnefndarinnar vegna málsins. Vitnið sagði að í kjölfar þessa atviks hefði orðið sú breyting á hjá stúlkunni að hún hefði ekki treyst sér lengur til að koma í kirkjuna. Kvaðst hann hafa getað samið við hana um að hún sækti hjá honum píanótíma með því skilyrði að alltaf væri þá einhver annar á staðnum til að fylgjast með. Aðspurður kvaðst vitnið ekki kannast við að deilur hafi verið á milli hans og ákærða í kirkjunni. Þeir hefðu haft mismunandi skoðanir en samstarfið hefði þó ekki verið slæmt. Hann kannaðist þó við að ákærði hefði kvartað yfir störfum hans til sóknarnefndar. Vitnið kvaðst ekki hafa sérstaklega orðið þess var að ákærða væri það gjarnt að faðma fólk, og jafnvel kyssa, í venjulegum samskiptum. Þá hefði hann heldur ekki orðið var við neitt óeðlilegt eða ósiðlegt í samskiptum ákærða við sóknarbörn. Vitnið sagðist hafa heyrt af atvikinu sem snerti samskipti ákærða og A, áður en atvikið með B kom upp, því hann og móðir A væru samstarfsmenn. Kvaðst hann hafa skýrt móðurinni frá atvikinu með B. Hann hefði svo rætt um þetta mál við formann sóknarnefndar en það hefði verið samkvæmt ósk formannsins.
Símaskýrsla var tekin af vitninu G. Skýrði hún frá því að C hefði hringt í sig samdægurs og umrætt atvik milli ákærða og B átti sér stað. Hefði hún verið að ráðgast við sig og spyrja hvort vitnið vissi til þess að eitthvað svipað atvik hefði áður komið upp í kirkjunni. C hefði þó ekki viljað sjálf lýsa fyrir vitninu hvað gerst hefði heldur beðið B um að tala við vitnið. Hefði B svo lýst því að hún hefði farið inn á skrifstofu ákærða og hann þá sagt við hana hvað hún væri falleg. Að því búnu hefði hann tekið þéttingsfast utan um hana, eiginlega óþægilega fast, og svo kysst hana á munninn. Hefði stúlkan sagt að henni hefði fundist þetta óþægilegt. Kom og fram hjá vitninu að þær tvær hefðu hist síðar og stúlkan þá lýst betur aðdraganda þess að hún fór inn á skrifstofuna. Hefði stúlkan sagst hafa verið að spila á píanó í kirkjunni og þá heyrt ákærða spila. Hún hefði ákveðið að ganga í átt að skrifstofunni, þaðan sem tónlistin kom, og ákærði þá kallað í hana og beðið hana um að koma inn.
Vitnið Sólrún Guðjónsdóttir kvaðst hafa starfað sem meðhjálpari með ákærða allan hans starfstíma í kirkjunni. Kvaðst hún aldrei á þessum tíma hafa orðið vör við neitt óeðlilegt eða ósiðsamleg í fari hans gagnvart börnum og unglingum. Ákærði væri mjög einlægur maður og ætti það alveg eins til að faðma fólk að sér og kyssa í kveðjuskyni.
Vitnið Eysteinn Óskar Jónasson, formaður sóknarnefndar Selfosskirkju, kannaðist við að til sín hefðu komið foreldrar stúlku, líklega í apríl eða maí á þessu ári, og óskað eftir að fá að ræða við hann vegna áreitis gagnvart dóttur þeirra í kirkjunni. Hefði komið fram hjá þeim að stúlkan hefði oftar en einu sinni sagt þeim frá því að ákærði hefði verið að faðma hana. Í fyrstu hefðu þau fullvissað hana um að það hlyti að stafa af væntumþykju hans í hennar garð en er stúlkan hefði komið heim úr kirkjunni, eftir að hafa komið hágrátandi til Jörg organista, hefði þeim fundist sem eitthvað meira hlyti að vera á bak við það en einhver vitlaus viðbrögð dóttur sinnar. Vitnið kvaðst í framhaldi hafa upplýst þau um að sóknarnefndin væri ekki réttur aðili til að fjalla um slík mál en hins vegar væri sérstök nefnd á vegum biskupsembættisins sem það gerði. Eftir það hefði hann nánast ekkert heyrt af þessu máli fyrr en það var orðið blaðamál.
Vitnið Ína Stefánsdóttir kvaðst sjá um kaffið og ræstingar í kirkjunni og hafa starfað með ákærða í mörg ár. Hefðu þau samskipti ávallt verið góð og eins gæti hún staðfest að ákærði hefði átt góð samskipti við unglinga í tengslum við fermingarundirbúninginn og unglingastarfið í kirkjunni.
Elís Kjartansson lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og staðfesti þær skýrslur sem hann hefði unnið vegna rannsóknar málsins. Skýrði hann nánar hvernig að skýrslutökum var staðið og þá sérstaklega töku símaskýrslna.
Niðurstaða.
Ákærða er í 1. ákærulið gefið að sök að hafa framið kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa umrætt sinn faðmað stúlkuna A og strokið henni á baki utanklæða og látið þau orð falla að honum liði illa og straumarnir streymdu úr líkama hans við það að faðma hana.
Framburðum A og ákærða ber að mestu leyti saman um samskipti þeirra í greint sinn og telst sannað, með framburði ákærða og stúlkunnar, að ákærði hafi faðmað hana, strokið henni á baki utanklæða og látið þau orð falla að honum liði illa eins og greint er í ákæru. Ákærði hefur hins vegar ekki kannast við að hafa látið þau orð falla að straumarnir streymdu úr líkama hans við það að faðma hana, eins og hún lýsti í sinni skýrslu, heldur hafi hann sagt sem svo: „Gefðu mér nú kraft A mín“ þar sem hann hafi ekki verið alveg hress. Stendur þar orð á móti orði hvað þetta varðar. Er að þessu leyti ekki við annað að styðjast en trúverðugan framburð stúlkunnar og þá frásögn móður hennar, E, af því hvað stúlkan sagði þegar hún kom út í bíl, að ákærði hefði spurt stúlkuna hvort hún fyndi ekki straumana á milli þeirra. Að þessu athuguðu þykir, gegn neitun ákærða frá upphafi, og þar sem framburður hans þykir í sjálfu sér einnig trúverðugur, ekki komin fram sönnun um að hann hafi þá jafnframt látið þau orð falla að straumarnir streymdu úr líkama hans við það að faðma hana.
Í 2. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa í greint sinn faðmað stúlkuna B, kysst hana nokkrum sinnum á kinnina, reynt að kyssa hana á munninn og látið þau orð falla að hann væri skotinn í henni og hún væri falleg.
Ákærði kveðst kannast við að hafa faðmað stúlkuna og kysst hana koss á hvora kinn. Kossarnir hafi hins vegar einungis verið tveir og hann hafi hvorki reynt að kyssa hana á munninn né sagt við hana að hún væri falleg og að hann væri skotinn í henni. Er framburður hans nánar þannig að hann hafi tekið hana í fangið og sagt eitthvað á þá leið: „Þú er alltaf jafn indæl og elskuleg.“ Þá hafi hann og óskað henni til hamingju með að hafa sigrað í söngvakeppni og smellt kossi á hvora kinn.
Í framburði B kemur fram að ákærði hafi sagst verða að fá að faðma hana vegna verðlauna sem hún hefði fengið fyrir að semja lag. Hefði hún þá svarað: „Já, ekkert mál“ og hann þá tekið utan um hana og kysst hana nokkrum sinnum á kinnina. Hefði hann haldið mjög fast utan um hana og ætlað að kyssa hana á munninn „en hann strauk varirnar, náði samt ekkert að kyssa mig alveg af því ég færði mig svona frá, svo kyssti hann mig nokkrum sinnum á hina kinnina, og hélt svo lengur utan um mig og sleppti mér svo alveg bara.“ Ákærði hefði svo sagt: „Ég er alveg ofsalega skotinn í þér, þú ert ofsalega falleg.“
Stúlkan fór eftir þetta til organistans, Jörg Sondermann, og skýrði honum frá atvikinu. Kvað hann stúlkuna hafa komið til sín í uppnámi og sagt að ákærði hefði faðmað hana og kysst. Hún hefði hins vegar ekki sagt honum frá því fyrr en eftir páskafríið að ákærði hefði einnig sagt við hana að hann væri skotinn í henni og hún væri falleg. Framburður C var á þá leið að B hefði skýrt henni frá því við komuna heim úr kirkjunni að ákærði hefði sagt að hún væri falleg og myndarleg og hvort hann mætti ekki taka utan um hana. Hann hefði þá tekið utan um hana og kysst hana á munninn. Hún hefði reynt að víkja sér undan en samt hefði kossinn lent á munni hennar. D sagði stúlkuna hins vegar hafa lýst atvikinu þannig fyrir sér í samtali stuttu síðar að ákærði hefði reynt að kyssa hana á munninn og minnti hann jafnframt að hún hefði sagt ákærða í því sambandi hafa talað um hve hrifinn hann væri af henni. G lýsti frásögn stúlkunnar á þann veg að ákærði hefði talað um að hún væri falleg og að því búnu tekið þéttingsfast utan um hana og kysst hana á munninn. Loks skýrði F frá því að ákærði hefði sagst í símtali hafa kysst stúlkuna á munninn.
Þegar framangreint er virt telst sannað, með framburði ákærða sjálfs og B, að ákærði hafi faðmað hana og kysst, alla vega tvisvar, í greint sinn. Eftir stendur hins vegar að leysa úr því hvort næg sönnun teljist fram komin, í samræmi við 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, um það hvort ákærði hafi kysst hana oftar, reynt að kyssa hana á munninn og látið þau orð falla að hann væri skotinn í henni og hún væri falleg. Fyrir liggur að framburður stúlkunnar um fleiri kossa, um að ákærði hafi reynt að kyssa hana á munn og jafnframt viðhaft framangreind ummæli, er einungis studdur frásögnum annarra af því hvað hún sagði þeim fljótlega eftir atvikið. Þá liggur fyrir að þessum framburðum um frásögn stúlkunnar ber heldur ekki alveg saman við það sem hún hefur sjálf borið fyrir dómi og ákæran sýnist byggð á, og innihalda ekki lýsingu á því sem hér skiptir máli, varðandi fjölda kossa, hvort ákærði hafi reynt að kyssa á munn eða kysst á munn, og hvaða ummæli hann hafi viðhaft um stúlkuna. Þegar virtir eru saman framangreindir framburðir ákærða og stúlkunnar, sem báðir þykja í sjálfu sér trúverðugir, og jafnframt horft til þess sem hér hefur verið rakið að öðru leyti, þykir ekki vera komin fram sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um að ákærði hafi kysst B oftar en tvisvar, reynt að kyssa hana á munn og látið þau orð falla að hann væri skotinn í henni og hún væri falleg.
Ákærði mótmælir að háttsemi hans verði heimfærð undir brotalýsingu tilvitnaðra lagaákvæða í ákæru, auk þess sem ákvæði 199. gr. almennra hegningarlaga sé ekki nægilega skýrt til að því verði beitt vegna þessa. Með 8. gr. laga nr. 61/2007 var ákvæði um kynferðislega áreitni fært í 199. gr. almennra hegningarlaga en þar segir svo: „Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“ Í athugasemdum með 8. gr. frumvarpsins, er varð að breytingarlögunum nr. 61/2007, kemur fram sú útskýring löggjafans að kynferðisleg áreitni sé háttsemi, kynferðislegs eðlis, sem teljist hvorki samræði né önnur kynferðismök. Felist hún í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Þá kemur þar meðal annars fram að ef um sé að ræða þukl eða káf innan klæða sé ekki nauðsynlegt að kynfæri eða brjóst séu snert til að háttsemin teljist kynferðisleg áreitni og geti þá þukl og káf annars staðar en á kynfærum og brjóstum þá einnig talist kynferðisleg áreitni.
Sú háttsemi ákærða, sem honum er gefin að sök, og sönnun er talin liggja fyrir um, lýtur að því að hann hafi faðmað umræddar stúlkur og jafnframt strokið annarri þeirra á baki, utan klæða, talandi um að honum liði illa, en einnig kysst hina á sitt hvora kinnina. Með hliðsjón af því sem á undan er rakið telur dómurinn að þessi háttsemi ákærða geti ekki talist kynferðislegt áreitni í skilningi 199. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður ekki heldur fallist á með ákæruvaldi að ákærði hafi með þessari háttsemi sýnt stúlkunum yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, sært þær eða móðgað í skilningi 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Verður ákærði því sýknaður af báðum liðum ákæru.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu, og með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, er bótakröfum A og B vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 697.200 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristins Bjarnasonar hrl., 306.768 króna þóknun Sigurðar Sigurjónssonar hrl., skipaðs réttargæslumanns A, og 334.656 króna þóknun og 18.400 króna aksturskostnaður Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., skipaðs réttargæslumanns B. Hefur við ákvörðun lögmannsþóknunar verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Daði Kristjánsson, settur saksóknari.
Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari sem dómsformaður ásamt meðdómendunum Hervöru Þorvaldsdóttur og Jóni Finnbjörnssyni héraðsdómurum.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvalds í máli þessu.
Allur sakarkostnaður, 1.357.024 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 697.200 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristins Bjarnasonar hrl., 306.768 króna þóknun Sigurðar Sigurjónssonar hrl., skipaðs réttargæslumanns A, og 334.656 króna þóknun og 18.400 króna aksturskostnaður Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., skipaðs réttargæslumanns B.
Bótakröfum A og B er vísað frá dómi.
Ásgeir Magnússon
Hervör Þorvaldsdóttir
Jón Finnbjörnsson.