Hæstiréttur íslands

Mál nr. 528/2017

Héraðssaksóknari (Ólafur Hallgrímsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Bragi Björnsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. september 2017. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að farbanni verði beitt í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2017.

                Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, nígerískur ríkisborgari, fæddur [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 21. september 2017.

                Fallist dómurinn ekki á kröfu embættisins um gæsluvarðhald er þess krafist að dómurinn banni sakborningi að fara af landinu og að honum verði í úrskurðarorði gert skylt að tilkynna Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um verustað sinn og gefa sig fram við hana á lögreglustöð daglega. Þá skuli sakborningur afhenda lögreglu vegabréf sitt til varðveislu.

                Í greinargerð saksóknarfulltrúa kemur fram að á grundvelli 17. gr. laga nr. 64/2006 hafi peningaþvættisskrifstofu embættis héraðssaksóknara borist tilkynning um ætlað peningaþvætti. Málið hafi verið sent héraðssaksóknara til viðeigandi meðferðar, sbr. 3. tl. 8. gr. reglugerðar nr. 626/2006 um meðhöndlun tilkynninga um ætlað peningaþvætti. Samkvæmt tilkynningunni, sem dagsett sé 24. febrúar 2016, virðist sem erlendur aðili hafi komist yfir upplýsingar um fiskútflutning [...]. sem sé fiskvinnslufyrirtæki í [...]og sendi meðal annars gáma með sjávarafurðum til Suður-Kóreu. Óþekktur aðili, sem gefi sig út fyrir að vera fyrirsvarsmaður [...] ehf., hafi sent greiðslufyrirmæli með tölvupósti þess efnis að greitt skuli á reikning [...] ehf. og þannig berist greiðslan ekki til seljanda vörunnar, [...] ehf. Um sé að ræða tvær greiðslur, aðra upp á 31.000.000 krónur og hina að fjárhæð 22.000.000 krónur. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi þessir óþekktu aðilar virst hafa aðgang að reikningum [...] ehf. í gegnum sakborninga í máli þessu, sem séu sjö auk kærða, þaðan sem fjármunirnir hafi verið millifærðir á aðra reikninga rafrænt og teknir að hluta út í reiðufé. Samkvæmt gögnum lögreglu hafi tekist að rekja millifærslurnar til ákveðinna IP talna sem tengdar séu tölvum í vörslum sakborninga. Talið sé að aðilarnir hafi brotist inn í pósthólf viðskiptavinar [...] ehf. í Suður Kóreu og tekið yfir og stjórnað samskiptum þar á milli. Þegar aðilarnir sjái að [...] ehf. hafi sent pöntun til viðskiptavinarins sendi þeir kröfu á viðskiptaaðilann með breyttum greiðsluupplýsingum og stýri þannig greiðslum á eigin reikning þaðan sem peningarnir séu millifærðir eða teknir út í reiðufé.

                Sóknaraðili tekur fram að greining hafi leitt í ljós að þann 29. janúar 2016 kl. 13.20 hafi 31.599.105 krónur verið millifærðar á reikning [...] í eigu [...]. Einnig að þann 22. febrúar 2016 kl. 09.21 hafi 22.252.196 krónur verið millifærðar á reikning [...] í eigu [...] og þann 23. febrúar 2015 kl. 10.27 hafi 22.050.000 krónur verið millifærðar af reikningi [...] á reikning [...]. Færslan sé merkt Y, sem er einn sakborninga. Síðan hafi fjármunirnir verið millifærðir af ofangreindum reikningum í nokkrum greiðslum til erlendra aðila með SWIFT greiðslum og með greiðslum í gegnum Western Union. Ætluð brot telji héraðssaksóknari að geti varðað við 155. gr., 248. gr., og 264. gr. um almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Rannsókn embættis héraðssaksóknara hafi staðið síðan 25. febrúar 2016 og hafi mikill tími farið í umfangsmikla upplýsinga- og gagnaöflun sem farið hafi fram í því skyni að athuga kæruefni, afmarka hina ætluðu refsiverðu háttsemi og rekja millifærslu umræddra fjármuna. Húsleitir hafi farið fram á nokkrum stöðum og fjórir aðilar hafi sætt gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði til 4. mars 2016.

                Í greinargerð sóknaraðila kemur einnig fram að í skýrslutöku hjá lögreglu segðist Z, sakborningur í málinu, hafa kynnst A árið 2006. Þau hafi síðan nokkrum sinnum hist á Ítalíu og einu sinni annars staðar í Evrópu, mögulega Þýskalandi. Seint á árinu 2015 muni A síðan hafa haft samband við Z og beðið hana um að útvega íslenskan bankareikning vegna fyrirhugaðrar millifærslu fjármuna á reikninginn. Z segist þá hafa fengið heimild hjá Þ sem einnig sé sakborningur í málinu, til að láta millifæra fjármuni inn á reikning fyrirtækis hans, [...] ehf.

                Þá kemur fram að fyrir tilstuðlan A hafi kærði komið til landsins 2. febrúar sl., gagngert til þess að veita viðtöku hluta umræddra fjármuna og senda þá með símgreiðslu til félagsins [...] Ltd. í Hong Kong. Til þess hafi hann haft meðferðis nauðsynleg skjöl sem hafi verið tilhæfulausir reikningar um viðskipti milli aðila sem ekki hafi átt við rök að styðjast. Að beiðni A hafi X verið sóttur af Z og honum ekið á hótel í Hafnarfirði og fengið SIM kort svo unnt væri að hafa samband við hann.

                Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að kærði hafi komið til landsins gagngert til þess að veita viðtöku hluta umræddra fjármuna og senda þá með símgreiðslu til félagsins [...]. í Hong Kong. Z, Y og Þ, öll sakborningar í málinu, hafi farið í Arion banka hf. með skjöl sem kærði hefði útbúið og millifært í tvennu lagi um 21,7 milljón króna til félagsins í Hong Kong. Kærði virðist því hafa útbúið nauðsynleg skjöl svo unnt væri að koma hluta fjármunanna úr landi, auk þess sem hann hafi móttekið reiðufé. Það sé einnig grunur lögreglu að kærði tengist beint þeim aðilum sem hafi komið því til, með blekkingum í tölvupóstsamskiptum, að fjármunirnir hafi verið greiddir á reikning [...] ehf. í stað [...] ehf.

                Kærði hafi farið af landi brott 10. febrúar 2016 og því hafi lögreglu verið nauðsynlegt að krefjast þess við Héraðsdóm Reykjavíkur að gefin yrði út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum. Krafa um handtökuskipun hafi verið lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur 30. mars 2016 og úrskurður gefinn út samdægurs. Með bréfi til skrifstofu almannaöryggis innanríkisráðuneytisins, dags. 4. apríl 2016, hafi síðan verið óskað eftir því að kærði yrði eftirlýstur og hann handtekinn hvar sem til hans myndi nást og hann framseldur íslenskum yfirvöldum.

                Þann 14. febrúar sl. hafi borist tölvupóstur frá lögreglufulltrúa í alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra þess efnis að kærði hafi verið handtekinn á flugvellinum í Bologna á Ítalíu. Með bréfi til skrifstofu almannaöryggis innanríkisráðuneytisins, dags. 15. febrúar sl., hafi embætti héraðssaksóknara sent beiðni til ítalskra yfirvalda um framsal kærða, nígerísks ríkisborgara, sem fæddur er [...]. Ítölsk dómsmálayfirvöld hafi samþykkt framsalið þann 10. júlí sl. og þá hafi undirbúningur hafist að flutningi kærða til landsins af hálfu alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra. Þrír fulltrúar frá ríkislögreglustjóra hafi þann 15. ágúst sl. farið til Ítalíu og sótt kærða og hafi hann verið vistaður í fangaklefa við komuna til landsins þann 17. ágúst sl. Eftir að hafa fengið að hvíla sig og ráðfæra sig við lögmann hafi hann verið yfirheyrður af fulltrúum héraðssaksóknara að viðstöddum lögmanni og túlki.

                Sóknaraðili tekur fram að við yfirheyrsluna hafi kærði kannast við að hafa komið til Íslands í lok janúar eða byrjun febrúar að beiðni A. Hann hefði aldrei áður komið til Íslands og verið forvitinn og fallist á það þar sem hann hefði fengið frítt flugfar og uppihald, auk þess sem A hafi lofað honum 500 evrum að launum við komuna til baka til Ítalíu. Tilgangur ferðarinnar hafi verði að eiga samskipti við Z vegna millifærslu á fjármunum sem A hafi sagt að væru vegna einhverra viðskipta sem hann vissi ekki hver væru. Z muni ekki hafa svarað símtölum A og hann hafi því verið farið að lengja eftir peningamillifærslunni. Þar sem hann hafi ekki treyst henni hafi hann sent kærða til að fá staðfestingu á millifærslunum og senda sér afrit að millifærslukvittunum að þeim loknum. Hann segðist hins vegar ekki hafa verið viðstaddur eða framkvæmt neinar millifærslur sjálfur.

                Kærði hafi kannast við að hafa hitt sakborningana Y, Z og Þ en ekki aðra. Kærði hafi ekki kannast við að hafa komið með þau gögn sem sakborningar í málinu segi að hann hafi framvísað eða þá reikninga sem bornir hafi verið undir hann í yfirheyrslunni. Hann hafi aðeins séð tvær millifærslukvittanir sem hann hafi tekið mynd af á síma og sent A Við brottförina frá Íslandi hafi Z síðan afhent honum íslenska fjármuni sem hún hafi sagt kærða að skipta í evrur á flugvellinum og afhenda A. Mun þetta hafa verið um 2.700 evrur, en hluti af því hafi verið afgangur af framfærslupeningum sem Z hafi látið kærða hafa við komuna til Íslands að beiðni A.

                Að kröfu héraðssaksóknara hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 17. til og með 24 ágúst 2017, sbr. úrskurð R-[...]/2017.

                Þann 23. ágúst 2017 hafi verið tekin skýrsla af sakborningi Z og framburður kærða borin undir hana. Hún hafi ekki kannast við að hafa látið kærða hafa peninga, hvorki við komuna til landsins né við brottförina. Þá hafi hún haldið sig við þann fyrri framburð að kærði hafi komið með þau skjöl sem vörðuðu hin meintu viðskipti sem hafi verið forsenda fyrir millifærslunum. Í skýrslutöku í dag, 24. ágúst, hafi kærði haldið sig við fyrri framburð og hafi hafnað framburði Z

                Til rannsóknar séu ætluð brot gegn XVII., XXVI. og XXVII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, einkum 155. gr. um skjalafals, 247. gr. um fjárdrátt 248. gr. um fjársvik og 264. gr. um peningaþvætti, en hin tilgreindu brot gegn almennum hegningarlögum geta varðað allt að 8 ára fangelsi hið fyrst nefnda, en tvö síðarnefndu allt að 6 ára fangelsi.

                Telja verði hvoru tveggja ríka almanna- og einkahagsmuni fyrir því að umbeðin rannsóknaraðgerð verði heimiluð. Meðal annars sé um að ræða meint stórfelld auðgunarbrot, sem hagsmunir almennings krefjast að upplýst verði um. Meint brot varði öll verulega fjárhagslega hagsmuni og verulega hagsmuni aðila sem hafi átt í hvers konar viðskiptum við [...] ehf. á umræddum tíma.

                Samkvæmt framansögðu liggi fyrir grunur um skjalafals sem geti varðað allt að átta ára fangelsisvist. Að auki liggi fyrir grunur um mjög alvarleg auðgunarbrot sem hafi valdið [...] ehf. og hinum suður kóreska viðskiptavini þess gríðarlegu tjóni. Verulegir hagsmunir standi til þess að umrædd brot verði rannsökuð og upplýst vegna afdrifaríkra afleiðinga af háttseminni.

                Talið sé að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningurinn hafi framið brot sem sætt geta ákæru og að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að tryggja návist hans svo unnt sé að birta honum ákæru í málinu en sakborningurinn sé nígerískur ríkisborgari en sé skráður til heimilis á Ítalíu. Sakborningurinn sé kvæntur og eigi einn son en þau búi bæði í Nígeríu. Líta verði til þess að sakborningur hafi ekki komið sjálfviljugur til landsins heldur eftir framsal í fylgd lögreglufulltrúa. Þá telji ákæruvaldið að með hliðsjón af því að sakborningurinn sé erlendur ríkisborgari sem engin tengsl hafi við landið, að veruleg hætta sé á að hann reyni að koma sér undan saksókn gangi hann laus. Því sé lagaskilyrðum uppfyllt til að hann sæti gæsluvarðhaldi svo að hann komi sér ekki undan saksókn. Rannsókn málsins sé á lokastigi og embættið stefni að útgáfu ákæru í málinu á næstu vikum.

                Til rannsóknar séu ætluð brot gegn XVII., XXVI. og XXVII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, einkum 155. gr. um skjalafals, 248. gr. um fjársvik og 264. gr. um peningaþvætti, en hin tilgreindu brot gegn almennum hegningarlögum geti varðað allt að 8 ára fangelsi hið fyrst nefnda, en tvö síðarnefndu allt að 6 ára fangelsi.

                Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til b liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Verði ekki fallist á kröfu um gæsluvarðhald er gerð krafa um að sakborningi verði bönnuð brottför af landinu, með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og að honum verði í úrskurðarorði gert skylt að tilkynna Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um verustað sinn og gefa sig fram við hana á lögreglustöðinni á Hverfisgötu daglega. Þá skuli sakborningur afhenda lögreglu vegabréf sitt til varðveislu.

                Kærði mótmælir kröfunum. Hann krefst þess að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað eða gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá mótmælir hann einnig því að kærða verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds og mótmælir því sérstaklega að kærði myndi þurfa að tilkynna sig til lögreglu á hverjum degi yrði fallist á farbann.

Niðurstaða:

         Héraðssaksóknari hefur krafist þess aðallega að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er það almennt skilyrði þess að fallast megi á að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi að hann sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Auk þess verður eitthvert þeirra sérstöku skilyrða sem rakin eru í fjórum stafliðum í greininni að vera fyrir hendi.

         Með vísan til rannsóknargagna málsins og þess sem fram kemur í greinargerð héraðssaksóknara verður á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að skjalafalsi og auðgunarbrotum sem fangelsisrefsing er lögð við samkvæmt viðeigandi ákvæðum, en einkum er þar um að ræða 155. gr., 248. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga. Brot gegn framangreindum ákvæðum geta varðað allt að átta ára fangelsi. Því verður á það fallist að fyrrgreindu almennu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt.

         Krafa héraðssaksóknara er reist á því að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. Samkvæmt þeim tölulið má beita gæsluvarðhaldi ef ætla má að sakborningur muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Kærði er erlendur ríkisborgari sem hefur engin tengsl við Ísland. Hann er nígerískur ríkisborgari búsettur á Ítalíu. Hann á eiginkonu og barn, en samkvæmt því sem fram kom fyrir dóminum býr eiginkona hans í Ghana en sonur hans, sem hann á með annarri konu, í Nígeríu. Hann var handtekinn á Ítalíu og framseldur þaðan til Íslands. Samkvæmt þessu má ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn ef hann verður látinn laus. Af þessum sökum er fullnægt skilyrðum til að úrskurða varnaraðila áfram í gæsluvarðhald á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en eins og atvikum er háttað verður ekki talið að nærvera hans verði tryggð með öðrum og vægari úrræðum. Eins og fram kemur í greinargerð héraðssaksóknara er rannsókn málsins á lokastigi og líklegt að ákæra verði gefin út á næstu vikum. Verður því fallist á aðalkröfu héraðssaksóknara eins og hún er fram sett.

         Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

                                                                              Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Kærði, X nígerískur ríkisborgari, fæddur [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. september 2017.