Hæstiréttur íslands

Mál nr. 584/2007


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Tilraun


                                     

Fimmtudaginn 23. október 2008.

 

Nr. 584/2007.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari)

gegn

Jóni Helga Óskarssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Tilraun.

J var ákærður fyrir tilraun til kynferðisbrots með því að hafa farið í íbúð að Ö í Reykjavík í því skyni að hafa samræði við 13 ára stúlku. Hafði B komist í kynni við stúlkuna í gegnum spjallrás á netinu en umrædd stúlka var í raun uppspuni sjónvarpsþáttarins Kompáss á Stöð 2. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar samskipti ákærða á spjallrásinni við svokallaða tálbeitu væru virt í heild benti allt til þess að hann hefði talið að hann myndi hitta þar 13 stúlku í því skyni að hafa við hana kynferðismök, enda yrði að telja skýringar hans á för sinni þangað afar ósennilegar. Gegn neitun ákærða og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms yrði sakfelling á honum hins vegar ekki reist á þeim gögnum einum sem ákæruvaldið byggði á í málinu og fengin voru með þeim hætti sem þar væri nánar lýst. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu B af tilraun til kynferðisbrots því staðfest. Í málinu hafði J einnig verið ákærður fyrir vörslu barnakláms í tveimur liðum. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu J af öðrum liðnum en sakfellingu á hinum staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms. Var J dæmdur til að greiðslu 200.000 króna sektar og upptöku á nánar tilgreindum tölvubúnaði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. 

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2007 af hálfu ákæruvalds sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ekki kemur fram í áfrýjunarstefnu að áfrýjað sé af hálfu ákærða, heldur einungis ákæruvaldsins. Kröfur ákærða koma því ekki til sérstakrar úrlausnar utan þess sem leiðir af 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum.

Í málinu er ákærða meðal annars gefin að sök tilraun til kynferðisbrots með því að hafa 10. janúar 2007 farið í íbúð að Öldugötu 7a í Reykjavík til að hafa samræði eða önnur kynferðismök við 13 ára stúlku, sem hann hafi gert ráð fyrir að hitta þar í því skyni í samræmi við samskipti við viðmælanda á spjallrás á netinu dagana 8. til 10. janúar 2007. Í raun hafi stúlkan verið uppspuni sjónvarpsþáttarins Kompáss á Stöð 2. 

Í héraðsdómi er nánar lýst aðdraganda, tilgangi og gerð sjónvarpsþáttarins, samskiptum ákærða á tiltekinni spjallrás við viðmælanda sinn, svo og komu ákærða í áðurnefnda íbúð. Þegar samskipti ákærða á spjallrásinni við svokallaða tálbeitu og símtal hans við hana örskömmu áður en hann fór inn í íbúðina eru virt í heild bendir allt til að hann hafi talið að hann myndi hitta þar 13 ára stúlku í því skyni að hafa við hana kynferðismök, enda eru skýringar hans á för sinni þangað afar ósennilegar. Gegn neitun ákærða og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður sakfelling á hendur honum hins vegar ekki reist á þeim gögnum einum sem ákæruvaldið byggir á og fengin voru með þeim hætti sem þar er nánar lýst. Verður niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ákærða af 1. lið ákæru því staðfest.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um 2. lið ákæru, upptöku og sakarkostnað.

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2007.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 1. júní 2007 á hendur: ,,Jóni Helga Óskarssyni kennitala 1702624689, Bjallavaði 11, Reykjavík,

Fyrir eftirtalin brot:

1.              tilraun til kynferðisbrots með því að hafa, miðvikudaginn 10. janúar 2007, farið í íbúð í Öldugötu 7a, Reykjavík, í því skyni að hafa samræði og önnur kynferðismök við 13 ára stúlku sem hann gerði ráð fyrir að hitta þar til kynferðismaka í samræmi við ráðagerðir í samskiptum við viðmælanda á spjallrás á netinu dagana 8. til 10. janúar 2007, sem sagðist vera 13 ára stúlka. Í raun var stúlkan á spjallrásinni uppspuni sjónvarpsþáttarins Kompáss á Stöð 2.

Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 11. gr. laga nr. 61/2007, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.              fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft í vörslum sínum ljósmyndir og hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt:

a.                Í HP Compaq fartölvu 13 ljósmyndir og 3 hreyfimyndir, en tölvuna haldlagði lögregla við húsleit á vinnustað ákærða að Súðarvogi 7, Reykjavík, föstudaginn 2. febrúar 2007.

b. turntölvu af óþekktri gerð, 63 ljósmyndir og 10 hreyfimyndir og á IBM hörðum diski 15 ljósmyndir og 1 hreyfimynd, en muni þessa haldlagði lögregla við húsleit á heimili ákærða að Bjallavaði 11, Reykjavík, mánudaginn 5. febrúar 2007.

Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku skv. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á ómerktum tölvuturni, HP Compaq fartölvu og IBM hörðum diski.“

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af refsikröfu og upptökukröfu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 23. janúar sl., til sjónvarpsstjóra Stöðvar 2 var þess farið á leit að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu yrðu látin í té gögn er vörðuðu tiltekna Kompásþætti sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni. Þar á meðal voru gögn er varða sakarefni máls þessa. Í bréfi lögmanns Stöðvar 2 segir m.a. um erindi lögreglustjórans. ,,Tilgangurinn með vinnslu þáttarins var að fjalla með almennum hætti um ákveðna skuggahlið íslensks samfélags. Var það gert með tilliti til hlutverks fjölmiðla í samfélaginu, að afhjúpa það sem miður fer og upplýsa almenning. Tilgangur þáttarins var ekki að fletta ofan af nánar tilgreindum einstaklingum og verða þess valdandi að ríkisvaldið kynni hugsanlega að koma fram refsingu á hendur þeim, heldur var þetta liður í umfjölluninni almennt.“ Síðan segir í bréfinu að fréttastofa Stöðvar 2 hafi í þetta skiptið ákveðið að gera undantekningu frá vinnureglum sínum um að afhenda lögreglu umbeðin gögn sem var gert.

Umfjöllun Kompáss byggðist á auglýsingu sem fréttamenn þáttarins settu inn á vefsíðuna einkamál.is. Auglýsingin er svofelld ,,Hæ ég er sæt og vel vaxin stelpa, langar að kinnast eldri strák. Ég er samt mjög fullorðinsleg, en ég er eigilega bara 13. Sendu mail á addapink93@hotmail. com ekkert rugl samt.

Á grunni þessara gagna hófst lögreglurannsókn gegn ákærða og var tekin af honum skýrsla 2. febrúar sl. en ákærði hafði áður gefið sig fram við lögreglu og sagt frá því að hann kæmi fram í Kompásþættinum sem í ákæru greinir. Er hann var spurður um samskiptin á netinu við stúlkuna, sem segist 13 ára, kvaðst ákærði allan tímann hafa talið þetta bull og vitleysu eins og hann komst að orði. Hann kvað einkamál.is vera fyrir 18 ára og eldri. Haft sé eftirlit með því og annað efni sé fjarlægt af síðunni. Kvaðst hann þannig hafa vitað að aðilinn sem hann var í samskiptum við hafi verið fullorðinn.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákæruliður 1.

Ákærði neitar sök. Hann staðfesti að netsamskiptin sem hann átti við einstaklinginn sem í ákæru greinir hafi átt sér stað. Hann kvaðst hins vegar aldrei hafa ætlað sér að hafa samræði við 13 ára stúlku, eins og lýst er í ákærunni. Netsamskiptin um kynferðislegt tal o.þ.h., þýði ekki, að hans sögn, að fyrir honum hafi vakað það sem honum er gefið að sök í ákærunni. Líta beri á netsamskiptin að þessu leyti sem fantasíu, ekki alvöru, þótt samskiptin hafi leitt til þess að hann fór að Öldugötu 7a eins og síðar verður rakið. Ákærði kvaðst aldrei hafa gert ráð fyrir því að einstaklingurinn sem hann var í netsamskiptum við væri 13 ára stúlka, þrátt fyrir orðalag auglýsingarinnar sem áður var rakið. Kvaðst hann hafa gert ráð fyrir þessu vegna þess að yngra fólk en 18 ára gæti ekki sett auglýsingar, eins og þá sem hér um ræðir, inn á einkamál.is. Tók ákærði fram að nýlega hafi verið umræða um þetta og þeir sem ekki áttu að vera inni á vefsíðunni væru fjarlægðir þaðan. Börn ættu ekki að vera þar.  Kvaðst ákærði þar með hafa gert ráð fyrir því að hann hefði netsamband við fullorðinn einstakling þrátt fyrir það að hann segðist vera 13 ára stúlka, í samræmi við auglýsinguna. Ákærði kvaðst hafa farið að Öldugötu 7a þar sem hann hitti Kompásmenn. Áður en hann fór þangað kvaðst hann hafa hringt og rætt við konu með fullorðinslega rödd, ekki ungling eða unga manneskju. Helst mátti skilja á ákærða að hann hafi farið á Öldugötuna sökum forvitni til að kanna hverjir væru að fíflast og kvaðst hann ekki hafa gert sér grein fyrir því við hverju hann gæti búist er hann kæmi þangað. Hann tók hins vegar fram að augljóst hafi verið að fullorðið fólk átti hlut að máli. Hann hafi ekki farið á Öldugötu 7a í því skyni að hafa kynferðismök af neinu tagi. Hann lýsti viðbrögðum sínum á staðnum en þau hafi mótast af því að honum hafi brugðið við að sjá A, stjórnanda Kompásþáttarins.

Vitnið A, ritstjóri Kompáss, lýsti aðdraganda, tilgangi og gerð Kompásþáttarins sem hér um ræðir. Hann lýsti því að auglýsingin, sem getið var um að framan, hafi verið sett inn á netsíðuna einkamál.is. Hann kvað sérstakt leyfi hafa verið fengið hjá einkamál.is til að koma auglýsingunni þar inn. Það hafi þurft sökum þess að einstaklingurinn, sem hlut á að máli, er sagður 13 ára en 18 ára aldurstakmark sé fyrir sambærilegar auglýsingar. A lýsti því að ákærði hefði haft símsamband við 28 ára gamla konu sem Kompás hafði á sínum snærum í því skyni að hafa samband við ákærða bæði símleiðis og á netinu. A vildi ekki gefa upp nafn konunnar, sem hann kallaði tálbeitu, þar sem henni hafi verið lofað því fyrir fram auk þess sem hún hafi verið ,,verkfæri“ í þeim skilningi að vitnið og samstarfsmaður hans, B, hafi ákveðið framvinduna. A kvaðst vita að til væru einhvers konar reglur um tálbeitu við rannsókn sakamála en þessa vitneskju hafi hann fengið eftir viðtöl við lögreglu, fólk hjá saksóknara og fleiri. Hann kvað þáttagerðarmenn ekki hafa kynnt sér efni þessara reglna. Hann kvaðst ekki vita hvort það sem gert var við gerð þáttarins rúmaðist innan heimildar samkvæmt framangreindum reglum enda taldi hann sig ekki bundinn af þeim við gerð fréttaþáttar.

Vitnið B, framleiðandi Kompáss, lýsti tilgangi með gerð Kompásþáttarins og aðdraganda að honum. Hann lýsti aðferðinni sem notuð var og tilbúningi persóna sem settar voru á netið og að auglýsingin, sem getið er um að framan, hafi verið sett á einkamál.is. Fengist hafi leyfi til að hafa auglýsinguna þar inni. Leyfið hafi þurft vegna þess að einstaklingurinn í auglýsingunni er sagður vera 13 ára gamall, en 18 ára aldurstakmark sé fyrir sambærilegar auglýsingar. B kvað konuna, tálbeituna, sem kom fram sem 13 ára stúlka hafa verið 30 ára gamla konu. B kvað þáttagerðarmenn hafa hugleitt notkun tálbeitu eins og gert var og vita af takmörkuðum heimildum lögreglu til notkunar tálbeitu. Hann tók hins vegar fram að sjónvarpsþáttagerðarmennirnir væru ekki rannsakendur mála og reglur um tálbeitu ættu ekki við um þá. B neitaði að gefa upp nafn konunnar, sem kom fram sem tálbeita, af sömu ástæðum og vitnið A en vitnisburður hans um þetta var rakinn að ofan.

Niðurstaða ákæruliðar 1.

Framleiðandi og ritstjóri Kompásþáttarins, sem í ákæru greinir, lýstu tilgangi með gerð þáttarins og því hvernig tálbeita var notuð. Við flutning málsins var vikið að  lögmæti hluta framlagðra gagna, einkum þeirra sem til urðu við gerð sjónvarpsþáttarins með aðstoð tálbeitu. Engin fyrirmæli eru í lögum um notkun tálbeitu við lögreglurannsóknir. Ríkissaksóknari gaf á árinu 1999 út fyrirmæli um notkun tálbeitu. Þar segir í 2. lið að heimilt sé að nota tálbeitu þegar sterkur grunur sé um að verið sé að fremja eða reynt verði að fremja alvarlegt afbrot. Þá segir í 8. lið reglnanna að ekki megi nota tálbeitu til þess að kalla fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin. Þessi tvö sjónarmið eru meðal þeirra grundvallarsjónarmiða sem hafa þarf í huga við mat á lögmæti tálbeitu en þessi sjónarmið verða einnig leidd af hæstaréttarmálinu nr. 67/1993. Augljóst er að reglur um heimild til notkunar tálbeitu við lögreglurannsóknir eiga ekki við um fjölmiðla. Af framangreindum reglum ríkissaksóknara og af viðurkenndum óskráðum meginreglum í íslenskum rétti er ljóst að lögreglu hefði ekki, við rannsókn máls, verið heimilt að beita þeim aðferðum sem þáttagerðarmennirnir notuðu í samskiptum við ákærða. Það er því mat dómsins að verulegur vafi leiki á því hvort lögreglu hafi verið heimilt að nota gögn, sem aflað hefur verið á þann hátt sem raun ber vitni, sem grundvöll rannsóknar sakamáls. Yrði það heimilað myndi það af augljósum ástæðum skerða mjög réttaröryggi. Málsmeðferð og sakfelling, sem reist væri á gögnum sem aflað væri á viðlíka hátt, kynni að fara í bága við meginreglur sem lýst er í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það er því mat dómsins að sönnunargildi gagnanna, sem aflað var á þann hátt sem lýst var, sé mjög takmarkað, ef nokkurt. Þessi gögn ber hins vegar að meta eins og öll önnur gögn málsins.

Ákærða er gefin að sök ,,tilraun til kynferðisbrots með því að hafa, miðvikudaginn 10. janúar 2007, farið í íbúð í Öldugötu 7a, Reykjavík, í því skyni að hafa kynferðismök við 13 ára stúlku sem hann gerði ráð fyrir að hitta þar til kynferðismaka í samræmi við ráðagerðir í samskiptum við viðmælanda á spjallrás á netinu dagana 8. til 10. jánúar 2007, sem sagðist vera 13 ára stúlka.“ Ákærði hefur borið að hann hafi ekki farið að Öldugötu 7a í þessu skyni. Ákærði hefur fyrir dómi og hjá lögreglu borið að hann hafi gert sér grein fyrir því að viðmælandinn hafi ekki verið 13 ára stúlka heldur fullorðin kona eins og hann bar um. Þetta kvaðst ákærði m.a. hafa ráðið af símtölum sínum við konuna. Konan, sem hér um ræðir, hefur ekki komið fyrir dóm og ekki liggur fyrir hver hún er. Hins vegar liggur fyrir vitnisburður þáttagerðarmannanna um að konan sé um þrítugt. Samkvæmt þessu gat ákærði ekki fullframið brot það sem honum er gefið að sök að hafa gert tilraun til að fremja. Hafi verið um tilraun að ræða var hún ónothæf. Það eitt leysir ákærða þó ekki undan sök. Meta verður ásetning ákærða eins og hér stendur á. Það er mat dómsins, að netsamskipti ákærða við þáttagerðarmennina eða tálbeituna, geti talist sönnun um það að ákærði hafi haft ásetning til þess að fremja brotið sem hann er ákærður fyrir. Helgast þetta álit dómsins af því hvernig stofnað var til samskiptanna og að gögnin, sem til urðu við gerð þáttarins, hafi lítið sönnunargildi í máli þessu. Vikið var að þessu að framan. Þá geta samskipti á netinu, eins og hér um ræðir, þar sem ýmislegt er sagt, sem ekki á neitt skylt við raunveruleikann, ekki orðið grundvöllur sakfellingar í opinberu máli. Þá er ekkert fram komið í málinu sem leiðir til þess að hafna eigi framburði ákærða um það að hann hafi gert sér grein fyrir því að hann hafði símsamband við fullorðna konu áður en hann fór að Öldugötu 7a en ekki 13 ára stúlku.

Samkvæmt þessu er ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi haft ásetning til að fremja brotið sem í ákæru greinir og ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.

Ákæruliður 2

a. Ákærði neitar sök og sagðist ekki hafa vitað af myndunum í tölvu sinni.

Ákærði kvað hreyfimyndirnar sem í þessum ákærulið greinir hafa verið tvær en ekki þrjár, þar sem önnur hreyfimyndin sé á tveimur stöðum í tölvu sinni. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð þessar hreyfimyndir þar sem hann kvaðst ekki hafa getað opnað myndirnar í tölvunni og hann hafi ekki vitað hvers konar myndir þetta voru. Ákærði kvað hirðuleysi og hugsunarleysi af sinni hálfu hafa leitt til þess að hann eyddi ekki gögnum, sem hann fékk send óumbeðið, eins og þessum myndum. Ákærði kvaðst hafa fengið hreyfimyndirnar sendar meðan hann var í netsambandi við einstakling sem sendi honum myndirnar. Þegar hann hafi ætlað að spyrja aðilann um það hvað það væri sem ákærði fékk sent, hafi einstaklingurinn verið farinn af spjallrásinni. Hann hafi þannig fengið hreyfimyndirnar sendar óumbeðið. Hið sama eigi við um ljósmyndirnar 13 sem í þessum ákærulið greinir.

b. Ákærði neitar sök á sömu forsendum og í a-lið hér að framan. Hann kvað turntölvuna sem innihélt 63 ljósmyndir og 10 hreyfimyndir vera gamla og hann hafi ekki vitað hvað hún hafði að geyma. Þessi gögn kvað ákærði hafa komið í tölvu sína óumbeðið í gegnum IRC forrit og hann hafi ekki vitað af þeim. Á þeim tíma sem hann fékk myndirnar í tölvuna kvaðst hann ekki hafa vitað að hægt væri að loka fyrir óumbeðið efni. Því hafi þetta slæðst inn í tölvuna án þess að ákærði bæði um það.

Hvað varðar 15 ljósmyndir og 1 hreyfimynd á IBM, hörðum tölvudiski, kvað ákærði svipað eiga við um þær myndir og um myndirnar á turntölvunni sem getið var um að framan.

Vitnið, C rannsóknarlögreglumaður, rannsakaði tölvur ákærða sem í ákæru greinir. Meðal gagna málsins eru ljósmyndir sem sýna börn á þann hátt sem lýst er í ákærunni. Við hverja mynd er dagsetning þar sem segir hvenær skrá sé búin til og dagsetnig sem segir til um hvenær viðkomandi skrá var síðast opnuð. C kvaðst ekki geta staðfest að þessi áritun segi til um að viðkomandi skrá með ljósmynd hafi verið búin til í tölvu ákærða eða opnuð í henni. Skýrði C þetta nánar: Ekki sé hægt að ráða af þessu út frá textanum sem segir til um hvenær t.d. viðkomandi skrá var síðast opnuð, hvort viðkomandi skrá var opnuð í tölvu ákærða eða einhverri annari tölvu. C kvaðst engar forsendur hafa til þess að segja af eða á um það hvort myndirnar 63 hafi verið opnaðar í tölvu ákærða. Þetta sé ekki hægt að ráða við skoðun tölvunnar. Hreyfimyndirnar í a-lið hafi ekki verið unnt að opna í tölvu ákærða og lýsti C því hvernig myndirnar hafi verið sendar ákærða í tölvuna. Ekki hafi verið unnt að opna myndirnar í tölvu ákærða og skýrði C hvers vegna það var ekki hægt. Ráða mátti af vitnisburðinum að eitthvað hefði vantað á tölvu ákærða til að þetta hafi verið hægt. C hvað tæknilega mögulegt að menn fái senda skrár ,,file“ óumbeðið í samskiptum á netinu og skýrði hann þetta nánar. Þá er ekki hægt að útiloka að slík gögn vistist í tölvu án atbeina eiganda, hér ákærða.

Niðurstaða ákæruliðar 2 a og b.

Myndirnar sem um ræðir í þessum ákæruliðum voru allar í tölvum ákærða. Af framburði ákærða og vitnisburði C má ráða að ekki hafi verið unnt að opna þrjár hreyfimyndir, sem getið er um í a-lið þessa ákæruliðar, í tölvu ákærða og auk þess hefur ákærði borið að hann hafi ekki vitað hvers kyns myndir þetta voru. Að þessu virtu, og því að ekki var unnt að opna myndirnar í tölvunni, ber að sýkna ákærða af þeim hluta a-liðar þessa ákæruliðar er varðar þrjár hreyfimyndir. Ekki verður annað ráðið af framburði ákærða og af öðrum gögnum málsins en að aðrar myndir hafi verið unnt að opna í tölvum ákærða, hvort sem hann vissi um myndirnar eða ekki, en framburður ákærða að hann hafi ekkert vitað um myndirnar, er mjög ótrúverðugur og í litlu samræmi við framburð hans undir rannsókn málsins. Allar eru myndirnar því marki brenndar sem í ákæru greinir og sýna börn, á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Hefur ákærði þannig með vörslu myndanna, utan þeirra þriggja hreyfimynda sem áður var um getið, gerst sekur um brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000, eins og í ákærunni greinir.

Ákærði gekkst undir lögreglustjórasátt á árinu 2001 fyrir umferðarlagabrot en hefur ekki sætt frekari refsingu. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð 200.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar.

Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga skal ákærði sæta upptöku á ómerktum tölvuturni, HP Compaq fartölvu og IBM hörðum diski.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði, þar talinn tilgreindur hluti af 336.648 króna þóknun til Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi og sama hlutafall af 317.226 króna málsvarnarlauna til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Jón Helgi Óskarsson, greiði  200.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar.

Ákærði sæti upptöku á ómerktum tölvuturni, HP Compaq fartölvu og IBM hörðum diski.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði, þar talinn tilgreindur hluti af 336.648 króna þónun til Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi og sama hlutafall af 317.226 króna málsvarnarlauna til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.