Hæstiréttur íslands

Mál nr. 143/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


 

Fimmtudaginn 27. febrúar 2014.

Nr. 143/2014.

 

Ákæruvaldið

(Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um dómkvaðningu matsmanna í máli sem ákæruvaldið höfðaði á hendur honum vegna ætlaðra brota gegn a. og b. lið 1. tölul. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. 1. tölul. 146. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo óvilhalla, hlutlausa og sérfróða menn til nánar tiltekinna skoðunar- og matsstarfa. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á með héraðsdómara að ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 til að verða við kröfu varnaraðila um að hið umbeðna mat fari fram. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014.

Með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 15. mars 2013, var höfðað mál á hendur sex fyrrverandi stjórnendum A hf. vegna meintrar markaðsmisnotkunar og umboðssvika. Í I. kafla ákæru er ákærðu X, fyrrverandi bankastjóra, Y, fyrrverandi forstöðumanni eigin fjárfestinga A, og Z og Þ, fyrrverandi starfsmönnum eigin fjárfestinga A, gefin að sök markaðsmisnotkun í sameiningu í störfum sínum fyrir bankann í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning A með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.

Er háttsemi ákærðu talin varða við a- og b-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Í þinghaldi 12. júní sl. var þáttur ákærða X og meðákærðu Æ og Ö samkvæmt II. til IV. kafla ákæru skilinn frá málinu, sbr. 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og er málið rekið undir málsnúmerinu S-553/2013. Jafnframt var bókað í þingbók að verjendur áskildu sér rétt til að skila greinargerð í málinu og myndu þeir senda dóminum greinargerðir sínar eigi síðar en föstudaginn 15. nóvember sl. Frestur verjenda til að skila greinargerðum var framlengdur utan réttar til 16. desember sl. Í þinghaldi 17. desember sl. lýstu verjendur því yfir að þeir væru ekki reiðubúnir að skila greinargerðum. Jafnframt krafðist verjandi ákærða X frávísunar ákæru í málinu. Málflutningur um frávísunarkröfu ákærða fór fram 8. janúar sl., en kröfunni var hafnað með úrskurði dómsins sem kveðinn var upp í þinghaldi 16. janúar sl. Í því þinghaldi fór verjandi ákærða X fram á frekari frest til að skila greinargerð í málinu. Hann kvaðst jafnframt myndu leggja fram matsbeiðni og myndi efni greinargerðar ákærða ráðast af niðurstöðu matsgerðar. Var málinu frestað til 3. febrúar sl., en í því þinghaldi lagði verjandi fram matsbeiðni. Málflutningur um þennan þátt málsins fór fram í þinghaldi 7. febrúar sl.

Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hafnað verði kröfu ákærða um dómkvaðningu matsmanna.

Verjendur meðákærðu taka ekki afstöðu til álitaefnisins, en lögðu fram bókanir í þinghaldinu 7. febrúar sl., þar sem sjónarmið ákærðu eru nánar rakin.

I.

Ákærði X kveður tilgang með beiðni um dómkvaðningu matsmanna vera að afla sönnunargagna til stuðnings þeirri málsvörn að háttsemi ákærðu hafi verið lögmæt og að þau viðskipti sem í ákæru eru talin markaðsmisnotkun hafi verið í samræmi við reglur og áralangar viðskiptavenjur á hlutabréfamarkaði, sem allir markaðsaðilar hafi þekkt og eftirlitsaðilar, Fjármálaeftirlitið og Kauphöllin, hafi ekki gert athugasemdir við.

Ákærði telur að hluti af þeim gögnum sem óskað er eftir að matsmenn taki saman séu grundvallargögn í málinu og hefði átt að afla þeirra við rannsókn þess hjá sérstökum saksóknara. Ekki verði einvörðungu byggt á upplýsingum Fjármálaeftirlitsins um aðstæður á markaði og markaðsframkvæmd.

Ákærði krefst þess að dómkvaddir verði tveir óvilhallir matsmenn til að svara 18 spurningum, en röksemdir eru nánar raktar í matsbeiðninni. Spurningarnar eru eftirfarandi:

„1. Að matsmenn geri grein fyrir og skýri frá því hvort og hvaða heimildir hlutahafafundur í A hf. hafi veitt til að kaupa eigin hluti og við hvaða verði skv. 55. gr. hlutafélagalaga og geri grein fyrir heimildinni á hverjum tíma meðan A hf., var skráð á hlutabréfamarkað.

2. Hverjar voru heimildir annarra félaga sem skráð voru í Kauphöll hér á landi til að kaupa eigin hluti frá 1998-2008.

3. Með hvaða hætti voru þátttakendur á hlutabréfamarkaði upplýstir um heimildir skráðra hlutafélaga til að eiga viðskipti með eigin hlutabréf.

4. Voru veittar upplýsingar, og þá með hvaða hætti, um viðskipti A hf. með eigin hluti á hverjum ársfjórðungi í Kauphöll?

a.       Ef svo er, eru matsmenn beðnir um að taka saman þær upplýsingar sem birtar voru í Kauphöll um viðskipti A  hf. með eigin hluti á árunum 1998 og 2008. 

5. Að matsmenn skoði og lýsi því hvort viðskiptabankarnir, (þ.e. B hf., C hf. A hf. og forverar þeirra) hafi stundað viðskipti með eigin hlutabréf eftir að þau voru skráð á skipulegan verðbréfamarkað, og svari því í hve langan tíma þau viðskipti hafi staðið.

6. Að matsmenn svari því hvort það hafi verið þekkt markaðsframkvæmd, fyrir október 2008, að markaðsaðilar leituðu til veltubókar viðkomandi viðskiptabanka (eigin viðskipti bankanna) ef þeir óskuðu eftir að kaupa eða selja mikið magn af hlutabréfum. 

b.       Ef svarið er já, er þess óskað að matsmenn lýsi því hvernig slík viðskipti áttu sér stað og í hve langan tíma slíkt fyrirkomulag hafi tíðkast.

7. Að matsmenn skoði og taki saman upplýsingar um það hverjir hafi haft heimildir til að setja fram kaup- og sölutilboð í Kauphöllinni á árunum 1998-2008 (báðum árum meðtöldum) og leggi mat á eftirfarandi varðandi þessa aðila út frá fyrirliggjandi upplýsingum eða upplýsingum sem matsmenn afla:

c.        Var þessum aðilum almennt kunnugt um heimildir viðskiptabankanna til að eiga viðskipti með eigin bréf?

d.       Var þessum aðilum almennt kunnugt um að viðskiptabankarnir ættu viðskipti með eigin bréf og stunduðu svonefnda „óformlega viðskiptavakt“?

e.        Var þessum aðilum almennt kunnugt um að bankarnir höfðu sjálfir milligöngu um sölu á stórum hlutum í bönkunum, þ.e. seldu hluta af eigin bréfum í stórum viðskiptum?

8. Að matsmenn lýsi því hvernig ytra eftirliti með eigin viðskiptum viðskiptabankanna í Kauphöllinni á árunum 1998-2008 var háttað og svari eftirfarandi spurningum varðandi þetta eftirlit:

f.         Hver fór með eftirlit með viðskiptum viðskiptabankanna í Kauphöll á þessu tímabili?

g.       Hvaða upplýsingum um eigin viðskipti viðskiptabankanna höfðu eftirlitsaðilar aðgang að á hverjum tíma?

h.       Var eftirlitsaðila kunnugt um að viðskiptabankarnir ættu viðskipti með eigin bréf fyrir eigin reikning, þ.e. svonefnd veltubókaviðskipti.

i.         Var eftirlitsaðila kunnugt um eigin viðskipti A hf. á þessum tímabili og gat hann fylgst með þeim.

j.         Má ætla að eftirlitsaðila hafi verið kunnugt um eða gat hann séð að viðskiptabankarnir væru að kaupa eigin hlutabréf á árinu 2008 í meira magni en áður, fram að stöðvun á viðskiptum með hlutabréf í bönkunum?

9. Að matsmenn skoði og lýsi reglum og markaðsvenju varðandi það hvernig upplýst sé um lánveitingar í tengslum við kaup á hlutabréfum í Kauphöllinni:

k.        Hvaða reglur gilda um upplýsingagjöf í Kauphöllinni vegna lánveitinga viðskiptabanka til viðskiptamanna vegna kaupa á hlutabréfum.

l.         Hver hefur verið framkvæmdin hér á landi varðandi upplýsingagjöf út á markaðinn varðandi lánveitingar til kaupa á hlutabréfum?

                                                               i.      Hefur önnur framkvæmd gilt um lán til viðskiptamanna vegna kaupa á eigin bréfum? Ef já, hver er sú framkvæmd?  

m.      Eru til reglur hér á landi sem kveða á um skyldu eða heimild fjármálafyrirtækja til að meta á hverjum tíma „markaðsáhættu“ af lánveitingu til hlutabréfakaupa og tilkynna um slíkt mat í Kauphöll.

n.       Eru til reglur hér á landi sem kveða á um skyldu eða heimild fjármálafyrirtækja til að sleppa því að tilkynna um sölu á skráðum hlutabréfum í því tilviki að viðskiptabankinn metur „markaðsáhættu“ vegna lánveitingarinnar umfram tiltekin mörk.

                                                               i.      Ef svo er, hver eru mörk metinnar markaðsáhættu sem heimilar eða skyldar viðskiptabanka til þess að láta hjá líða að tilkynna um sölu.

o.       Eru til dæmi um að viðskiptabanki hafi tilkynnt um markaðsáhættu vegna lánveitingar til hlutabréfakaupa, eða viðskiptabanki hafi  upplýst viðkomandi markaði um að hann tilkynni ekki eða tilkynni aðeins að hluta um sölu á hlutbréfum vegna niðurstöðu mats á markaðsáhættu eða vegna fjármögnunar á kaupum á hlutabréfum?

10. Þess er óskað að matsmenn svari þeirri spurningu hvort niðurstaða viðurkenndra rannsókna á verðbreytingum á hlutabréfaverði innan dags í kauphöllum og öðrum mörkuðum hafi leitt í ljós að ávöxtun, flökt og viðskiptamagn innan dags sé að jafnaði hæst við opnun og lokun markaða þ.e. myndi s.k. „U“-laga feril yfir daginn.

p.       Ef svarið við spurningunni er jákvætt, er þess óskað að matsmenn geri grein fyrir því hversu víðtækur þessi eiginleiki sé og hvort að búast megi við því að sama mynstur sé að finna í íslenskum kauphallargögnum.

11. Að matsmenn beri saman í sömu mynt þróun á verðmæti hlutabréfa í A hf. við  þróun á hlutabréfavísitölum fyrir fjármálafyrirtæki í Skandinavíu og/eða Evrópu, annars vegar fyrir tímabilið 1. janúar 2005 til 31. október 2007 og hins vegar fyrir tímabilið 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 og staðreyni hvort fylgni sé þar á milli.

12. Að matsmenn rannsaki og geri grein fyrir þróun á verði hlutabréfa og stofnfjárbréfa í eftirfarandi fjármálafyrirtækjum frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008:

q.       D hf.

r.        E hf.

s.        F.

t.         G.

13. Að matsmenn skoði og svari þeirri spurningu hvort rétt sé að á tímabilinu 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 hafi EFL „uppfært stöðugt kauptilboð sitt svo það samsvari næsta sölutilboði í tilboðsbókinni.“ og með því hafi orðið viðskipti með sjálfvirkri pörun í Kauphöllinni.

14. Að matsmenn skoði og svari með rökstuddum hætti neðangreindum spurningum.

(i)      Að matsmenn skoði og lýsi með tilvísan til gagna hvað teljist vera viðskipti í Kauphöll.

(ii)    Að matsmenn skoði öll gögn um A hf. varðandi umfang viðskipta með hlutabréf bankans, þ.e. summu paraðra þingviðskipta og tilkynntra viðskipta fyrir hvert ár talið frá 1998 til og með 3. október 2008, og sérstaklega fyrir tímabilið sem ákæran tekur til þ.e. 1.nóvember 2007 til og með 3. október 2008.

(iii)    Að matsmenn meti hver telst hafa verið hlutdeild EFL í kaupviðskiptum með hlutabréf í A hf. út frá skilgreiningu Kauphallar á hugtakinu viðskipti og skilgreini hvernig hlutfallið skuli reiknað fyrir gefið tímabil.

(iv)   Að matmenn meti hvað telst vera hlutdeild EFL í söluviðskiptum með hlutabréf í LA hf. út frá skilgreiningu Kauphallar á hugtakinu viðskipti þ.e. óskað er eftir því að matsmenn skilgreini hvernig þetta hlutfall skuli reiknað fyrir gefið tímabil.

(v)      Að matsmenn afli frá A hf. upplýsinga um öll viðskipti EFL og fyrirrennara EFL þ.e. Fjárstýringar A hf. frá 1998 til 23. júní 2003, með hlutabréf í A hf. bæði á kaup- og söluhlið, og jafnt í pöruðum viðskiptum og tilkynntum viðskiptum, og reikni út frá þeim gögnum og leggi fram upplýsingar um hver var hlutdeild ELF (miðað við EFL frá 23. júní 2003, en fram að þeim tíma Fjárstýringar bankans) í viðskiptum með hlutabréf í A hf. á árunum 1998 til 3. október 2008. Nánar tiltekið hver var hlutdeild EFL í kaupviðskiptum með hlutabréf í A hf., hver var hlutdeild EFL í söluviðskiptum með hlutabréf í A hf. og hver var nettó breyting á eign A hf. í eigin bréfum á hverju ári á framangreindu tímabili. Óskað er eftir því að útreikningar sem beiðið er um séu lagðir fram miðað við hvert almanaksár frá 1998 til og með 2008. Jafnframt er óskað eftir að þau hlutföll, sem að framan greinir, séu sérstaklega reiknuð út fyrir ákærutímabilið. Þá er þess óskað að matsmenn sýni í töflu umfang viðskiptanna þannig að lesa megi út úr matsgerð hlutdeild EFL og fyrirrennara EFL annars vegar í þingviðskiptum og hins vegar í utanþingsviðskiptum bæði á kaup- og söluhlið.

(vi)   Jafnframt er óskað eftir skoðun og mati á því hvaða áhrif það hefur á þá liði sem spurning undir v-lið tekur, ef litið er á að arðgreiðslu með hlutum í A hf. í kjölfar hluthafafundar í apríl 2008, sem sölu EFL.

15. Að matsmenn reikni út eftirfarandi hlutfall:  (Öll kaupviðskipti EFL með hlutabréf í A hf. mínus öll söluviðskipti EFL með hlutabréf í A hf.)  deilt með (Öllum viðskipti með hlutabréf í A hf.) á hverju ári frá og með 1998-2008, og jafnframt fyrir ákærutímabilið sérstaklega, og geri nákvæma grein fyrir því hvað hlutfallið mæli. Jafnframt er þess óskað að matsmenn reikni þetta hlutafall fyrir hvern dag og lýsi því myndrænt með grafi sem sýnir umrætt hlutfall á y ás og með x-ás sem tímalínu.

16. Að matsmenn reikni fyrir tímabilið 1998 til október 2008 eftirfarandi hlutföll:

                                            i.            Hlutfall meðalviðskipta  EFL af daglegri meðalveltu miðað við 30 daga hlaupandi meðaltal

                                          ii.            Hlutfall meðal nettóviðskipta EFL af daglegri meðalveltu ( 30 daga hlaupandi meðaltal)

                                        iii.            Hlutfall daglegra viðskipta EFL af daglegri meðalveltu ( 30 daga hlaupandi meðaltal)

                                         iv.            Hlutfall nettó viðskipta EFL af daglegri meðalveltu ( 30 daga hlaupandi meðaltal)

                                           v.            30 daga meðalstöðu EFL í A fram til 3.10.2008.

17. Spurningar sem snúa að viðskiptum í lokunaruppboðum

u.       Hver var heildarveltan  með hlutabréf í A hf. í svokölluðum lokunaruppboðum og hve hátt hlutfall af heildarveltu með  hlutabréf í A hf. voru þau viðskipti á hverju ári frá því tíma sem slíkt fyrirkomulag var tekið upp til 3.október 2008,  og jafnframt sérstaklega fyrir ákærutímabilið 1.nóvember 2007  til 3. október 2008.

v.        Hver er fjöldi viðskipta í lokauppboði á ákærutímabilinu.  Hve hátt hlutfall er sá fjöldi af heildarfjölda viðskipta með hlutabréf í A hf. á ákærutímabilinu. Hve oft leiddu þau viðskipti til hækkunar, lækkunar eða óbreytts verðs annars vegar í heild sinni og hins vegar þegar EFL tekur þátt eða EFL tekur ekki þátt. 

w.      Hver er meðalfjöldi þessara viðskipta á dag á ákærutímabilinu.  

x.        Í þeim tilfellum þar sem hækkun á sér stað hver er þá meðalhækkunin annars vegar þegar EFL tekur þátt og hins vegar þegar EFL tekur ekki þátt á ákærutímabilinu.

y.        Hver er tíðnidreifingin á hækkun/lækkun í viðskiptum í lokauppboði á ákærutímabilinu þ.e. hve oft er verðbreytingin (i) engin, (ii) á bilinu  0-0,25%, (iii) á bilinu 0,25-0,5% o.s.frv. plús eða mínus breyting.

z.        Hvað mikið nafnverðs hlutafjár í A hf.  kaupir EFL að meðaltali í hverju lokunaruppboði og til samanburðar hver var algengasta nafnverðsupphæð (viðskiptalota) með hlutabréf í A hf. á ákærutímabilinu.

18. Spurningar er snúa að afkomu A hf.  af hlutabréfaeign í sjálfum sér og viðskiptum með þau.

aa.    Óskað er eftir að matsmenn skoði og skil rökstuddu áliti um hver hafi verið meðalstaða EFL í hlutabréfum í A hf. á ákærutímabilinu.  Jafnframt er óskað eftir því að matsmenn skoði og skili rökstuddu áliti um hve hátt hlutfall þessi meðalstaða hafi verið miðað við útgefið hlutafé A hf

bb.    Óskað er eftir að matsmenn skoði og skili rökstuddu áliti á því hvert  hefði verið tap EFL af hlutabréfum í A hf. ef EFL hefði átt umrædda meðalstöðu yfir allt ákærutímabilið.

cc.     Óskað er eftir því að matsmenn reikni út hvert hefði verið tap EFL af eign sinni í hlutabréfum í A hf. og viðskiptum sínum með þau hlutabréf ef dagleg nettóbreyting EFL í hlutabréfum í A hf. hefði  ýmist verið keypt eða seld á meðalverði hvers dags (sem má skilgreina sem meðaltal lokaverðs dagsins og dagsins á undan) en það samsvarar því að EFL hefði aðeins átt ein viðskipti hvern viðskiptadag  í þeim tilgangi að breyta grunnstöðunni og keypt eða selt magn sem samsvarar nettóbreytingu  stöðunnar hvern dag og þá miðað við meðalgengi dagsins sem skilgreint væri út frá meðaltali lokagengis dagsins á undan og kaupdagsins.

dd.    Óskað er eftir að matsmenn noti síðan hina réttu afkomu EFL samkvæmt bókhaldi A hf. af viðskiptum með hlutabréf í A hf. á ákærutímabilinu þ.e. 3.645 mkr. tap  ásamt niðurstöðu útreikninga liða i-v til að meta hve mikið af umræddu tapi EFL af viðskiptum með hlutabréf í A hf. megi rekja til lækkunar á gengi hlutabréfanna á tímabilinu vegna grunnstöðutöku bankans annars vegar og hins vegar hve mikið af sé hægt að tengja við árangur eða árangursleysi EFL í skammtímaviðskiptum með hlutabréf í A hf.“

II.

Sækjandi telur matsbeiðni ekki fullnægja skilyrðum 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008. Spurningar sem hún hafi að geyma séu svo umfangsmiklar og víðtækar að ekki verði séð hvað eigi að meta. Þá skorti verulega á rökstuðning um hvaða atriði eigi að færa sönnur á með matinu. Telur sækjandi að hafna beri matsbeiðninni þar sem hún sé tilgangslaus til sönnunar og vísar í því sambandi til 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Þá vísar sækjandi til athugasemda í frumvarpi til laga um meðferð sakamála, þar sem fram kemur að dómari skuli ekki verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanna nema hann telji þörf á að afla slíks mats til þess að dómur verði lagður á málið. Sækjandi telur að fram komin matsbeiðni varði ekki ákæru og forsendur hennar, heldur lúti að atriðum sem ýmist skipti ekki máli eða séu tilgangslaus til sönnunar á ákæruatriðum. Því beri að hafna beiðninni, sbr. 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008. Sækjandi bendir jafnframt á að unnt sé að leiða sönnunaratriði í ljós á einfaldari hátt en með dómkvaðningu matsmanna, t.d. geti dómari lagt fyrir ákæruvaldið að afla gagna, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Loks vísar sækjandi til meginreglu sakamálaréttarfars um frjálst sönnunarmat dómara, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, og áréttar jafnframt að dómari skuli sjálfur leggja mat á atriði sem krefjist almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laganna.

III.

Af hálfu ákærða X er þess krafist að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að framkvæma mat samkvæmt skriflegri beiðni, sem lögð hefur verið fram í málinu. Matsbeiðnin felur í sér spurningar í 18 töluliðum, auk fjölmargra undirliða.

Spurningar í töluliðum 1 til 9, sem ákærði óskar eftir að beint verði til dómkvaddra matsmanna, lúta að því að upplýsa um heimildir A hf. og annarra viðskiptabanka til að eiga viðskipti með eigin hlutabréf, lánveitingar og upplýsingagjöf í því sambandi, sem og venjur sem ríkt hafa í því efni. Spurningarnar lúta að verulegu leyti að öflun sönnunargagna um atriði, sem eftir atvikum mætti leiða í ljós við skýrslutökur af sakborningum og vitnum við aðalmeðferð málsins. Þá felur samantekt á ákvæðum laga og reglna sem gilt hafa á þessu sviði ekki í sér mat samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008, auk þess sem lagatúlkun á undir dómara máls, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Spurning í lið 10 lýtur að því að gera grein fyrir rannsóknum sem unnar hafa verið á „kauphegðun innan dags á mörkuðum“ og niðurstöðum þeirra, en slík samantekt felur ekki í sér mat samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008. Ekki verður séð að upplýsingaöflun sem beiðnin lýtur að nýtist við sönnunarfærslu í málinu, en verjanda ákærða myndi vera í lófa lagið að afla slíkra gagna til hliðsjónar við málflutning við aðalmeðferð málsins.

Spurningar í liðum 11 og 12 lúta að því að gerð verði grein fyrir þróun á verði hlutabréfa í A hf., borið saman við þróun á hlutabréfavístölum fyrir fjármálafyrirtæki í Skandinavíu og Evrópu á tilgreindum tíma. Þá verði gerð grein fyrir þróun á verði hlutabréfa eða stofnfjárbréfa í fjórum tilgreindum fjármálafyrirtækjum. Beiðnin lýtur ekki að því að eiginlegt mat fari fram, heldur að aflað verði tiltekinna upplýsinga. Telji ákærði að gögnin sem um ræðir nýtist við málsvörn hans getur hann aflað þeirra, að því marki sem þau eru tiltæk, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.

Spurning í lið 13 lýtur að því hvort rétt sé að á tímabilinu 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 hafi deild eigin fjárfestinga A „uppfært stöðugt kauptilboð sitt svo það samsvari næsta sölutilboði í tilboðsbókinni“, eins og haldið sé fram í kærubréfi Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara, dagsettu 19. október 2009. Samkvæmt 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga. Verða matsmenn ekki dómkvaddir til að leggja mat á hvort sönnun hafi tekist um tiltekin atriði er varða sakarefnið.

Beiðni samkvæmt spurningum í liðum 14 til 18 lýtur að því að dómkvaddir verði matsmenn til að reikna út hlutdeild deildar eigin fjárfestinga A og áður Fjárstýringar A í viðskiptum með hlutabréf í bankanum á árunum 1998 til október 2008, að teknu tilliti til svokallaðra utanþingsviðskipta, þ.e. viðskipta sem stofnað var til utan viðskiptakerfis Kauphallarinnar og í kjölfarið tilkynnt til Kauphallarinnar. Í ákæru er ákærðu gefin að sök markaðsmisnotkun í tilboðum og viðskiptum með hlutabréf í A í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallarinnar á tímabilinu 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, sem hafi tryggt óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfunum og gefið eða verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Er framangreindum viðskiptum nánar lýst í fjórum töflum, sem teknar hafa verið upp í ákæru. Ákæra lýtur ekki að utanþingsviðskiptum með hlutabréf í bankanum. Upplýsingar sem ákærði óskar eftir að aflað verði með framangreindum spurningum varða því ekki sakarefni málsins og myndu ekki koma að haldi sem sönnunargögn. Mat samkvæmt beiðninni myndi því vera sýnilega þarflaust til upplýsingar í málinu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til framangreinds rökstuðnings er það niðurstaða dómsins að ekki sé þörf á að aflað verði mats samkvæmt beiðni ákærða til að dómur verði lagður á málið. Ber því, samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008, að hafna beiðni ákærða um dómkvaðningu matsmanna.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákærða, X, um að dómkvaddir verði matsmenn eins og krafa er gerð um á dómskjali nr. 19.