Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Dómstóll
  • Lögvarðir hagsmunir


Mánudaginn 27

 

Mánudaginn 27. ágúst 2001:

Nr. 296/2001.

A

(Pétur Gunnlaugsson hdl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(enginn)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Dómstólar. Lögvarðir hagsmunir.

Barnaverndarnefnd R (B) fór með forsjá drengsins X samkvæmt yfirlýsingu móður hans, sem áður hafði farið ein með forsjána. A, faðir drengsins, hafði og veitt samþykki sitt fyrir þessu. X var í kjölfarið ráðstafað í fóstur til hjóna, en naut áfram nokkrar umgengni við foreldra sína. A höfðaði mál gegn B og krafðist þess að viðurkenndur yrði með dómi umgengnisréttur hans við X, svo og að umgengni yrði skipað á nánar tilgreindan hátt. Samkvæmt 5. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 með áorðnum breytingum, leysir barnaverndarnefnd úr um umgengni barns í fóstri við kynforeldri sín. A krafðist þess ekki að hnekkt yrði ákvörðun B um umgengni hans við X, heldur að inntak umgengninnar yrði ákveðið með dómi. Með því að slíkt er ekki á verksviði dómstóla, var A heldur ekki talinn hafa hagsmuni af því að fá með dómi sérstaka viðurkenningu á umgengnisrétti sínum. Var því staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa málinu frá.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. ágúst 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Sóknaraðili krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að á árinu 1989 eignaðist sóknaraðili son með nafngreindri konu. Hún fór með forsjá sonarins, en á árinu 1995 leitaði hún vegna heilsubrests síns til barnaverndarnefndar varnaraðila með ósk um að drengnum yrði fundið fósturheimili. Gerði hún yfirlýsingu 17. janúar 1996 um að barnaverndarnefndin tæki við forsjá hans. Sóknaraðili veitti nokkru síðar samþykki sitt fyrir þessum gerðum. Í kjölfarið var drengnum ráðstafað í fóstur til hjóna, sem hann býr nú hjá. Allt frá upphafi mun hann hafa notið umgengni við báða foreldra sína, en þó aðeins fáein skipti á hverju ári, eins og nánar er greint í úrskurði héraðsdómara. Urðu af þessu deilur milli sóknaraðila og barnaverndarnefndar, sem leiddu til þess að sóknaraðili höfðaði mál þetta með stefnu 23. mars 2001. Samkvæmt henni voru dómkröfur hans í málinu þær að „viðurkenndur verði með dómi umgengnisréttur hans við son sinn X... Verði umgengni þeirra feðga hvor við annan háttað þannig, að X dvelji hjá föður sínum eina helgi í mánuði, fyrstu helgi hvers mánaðar, tvo daga í senn og gisti drengurinn eina nótt. Ennfremur gerir stefnandi kröfu um sumarfrí í einn mánuð í ágúst eða júlí eftir samkomulagi, svo og að stefnandi umgangist drenginn yfir jól og páska.”

Samkvæmt 5. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 með áorðnum breytingum kveður barnaverndarnefnd á um umgengni barns í fóstri við kynforeldri sín. Eins og ráðið verður af framangreindu gerir sóknaraðili ekki kröfu í málinu um að hnekkt verði ákvörðun barnaverndarnefndar varnaraðila um umgengni hans við son sinn, heldur að inntak umgengninnar verði ákveðið með dómi. Slíkt er ekki á verksviði dómstóla, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1999, bls. 1511. Samkvæmt þessu og með því að fallist verður á með héraðsdómara að sóknaraðili geti ekki haft hagsmuni af því að fá með dómi sérstaka viðurkenningu á umgengnisrétti sínum verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi, en kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2001

1

                Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 28. mars 2001 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi um frávísunarkröfu stefnda 20. f.m.

                Stefnandi er  A, […].

                Stefndi er barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Síðumúla 39, Reykjavík.

                Í stefnu segir að dómkröfur stefnanda séu þær að viðurkenndur verði með dómi umgengnisréttur hans við son sinn, X, […].  Verði umgengni þeirra feðga hvor við annan háttað þannig að Friðrik dvelji hjá föður sínum einna helgi í mánuði, fyrstu helgi hvers mánaðar, tvo daga í senn og gisti drengurinn eina nótt.  Ennfremur geri stefnandi kröfu um sumarfrí í einn mánuð í ágúst eða júlí eftir samkomulagi svo og að stefnandi umgangist drenginn yfir jól og páska.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði “ex officio” vísað frá héraðsdómi og að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað.  Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnanda og að sér verði tildæmdur málskostnaður.

                Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að sér verði ákvarðaður málskostnaður.

2

                X, […], er sonur C og stefnanda.  Móðirin fór með forsjá drengsins en vegna veikinda sinna fól hún stefnda forsjá hans og óskaði eftir því að honum yrði fundið varanlegt fósturheimili.  Segir í stefnu að skrifleg yfirlýsing þessa efnis hafi verið undirrituð 17. janúar 1996 en stefnanda hafi ekki verið greint frá henni fyrr en 14. febrúar s.á.  Þann 18. maí 1996 var drengnum komið í tímabundið reynslufóstur til hjónanna K og S í Borgarnesi.  Hann hefur verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá 5. nóvember 1996 og fara þau með forsjá drengsins.

                Umgengni X við stefnanda hefur verið sem hér greinir.  Einu sinni árið 1996, tvisvar árið 1997, og tvisvar árið 1998.  Á árinu 1999 fór engin umgengni fram en drengurinn mun hafa hitt stefnanda einu sinni í tengslum við umgengni við móður.  Samkvæmt úrskurði stefnda 15. febrúar 2000 skyldi umgengni vera fjórum sinnum á því ári en varð þrisvar þar sem niður féll umgengni sem fram átti að fara í Borgarnesi.  Umgengni fór síðan fram í mars 2001.

                Umgengni á árinu 1998 var á grundvelli skriflegs samkomulags aðila máls þessa 25. nóvember 1997.  Samkomulagið skyldi endurskoðað að aflokinni umgengni í desember 1998.  Af því varð þó ekki fyrr en með úrskurði 15. febrúar 2000.  Málefnið var eigi að síður til meðferðar á árinu 1999.  Samkvæmt greinargerð Dóru Júlíussen félagsráðgjafa, sem var lögð fyrir fund stefnda 18. janúar 2000, var málið lagt fyrir fund hjá stefnda 23. mars 1999 vegna framangreinds ákvæðis um endurskoðun.  Á þeim fundi gerðu fósturforeldrarnir grein fyrir sjónarmiðum sínum en málinu var frestað svo að stefnanda gæfist kostur á að tjá sig um það.  Á fundi 18. maí 1999 mætti lögmaður fyrir hönd stefnanda og óskaði eftir öllum gögnum sem lægju að baki tillagna starfsmanna stefnda um umgengni.  Stefnandi mætti á fund stefnda 22. júní 1999 ásamt lögmanni sínum.  Sett var fram ósk um að nýr félagsráðgjafi kæmi að málum stefnanda og að óvilhallur sálfræðingur kannaði hug Friðriks Hrafns til umgengni við hann.  Lögmaðurinn krafðist þess að fá aðgang að fóstursamningi og lagði til að stefnandi fengi sumarfrí í tvær vikur með drengnum en að þeim tíma loknum yrði úrskurðað um framtíðarumgengni.  Stefndi hafnaði þegar kröfu um afhendingu gagna.  Í tilvitnaðri greinargerð Dóru Júlíussen segir að 19. júlí 1999 hafi stefnanda verið sent bréf og hann hvattur til að hitta X sem fyrst en ekkert hafi heyrst frá honum.  Stefnandi hafi þ. 19. nóvember 1999 sett fram við Birnu Guðmundsdóttur félagsráðgjafa ósk um að hitta X helgina 18. – 19. desember.  Þegar rætt  hafi verið við fósturforeldra  drengsins hafi komið í ljós að sú helgi hentaði þeim ekki en þau hafi alltaf óskað eftir því að umgengni færi ekki síðar fram en um mánaðamót nóvember – desember.  Stefnandi hafi síðan afþakkað boð um aðra tiltekna daga í desember.

                Í greinargerð, sem fram var lögð af hálfu félagsþjónustu Reykjavíkurborgar á fundi stefnda 1. febrúar 2000, segir að á árinu 1999 hafi Sólveig Ásgrímsdóttir sálfræðingur verið fengin til þess að kanna hug X til umgengninnar og hafi hún átt eitt viðtal við hann á heimili hans í Borgarnesi.  Stefnandi og lögmaður hans hafi ekki talið  hana vera óvilhalla og öðrum tilnefndum sálfræðingi hafi verið andmælt á líkum forsendum.  Þeir hafi hins vegar ekki tilnefnt sálfræðing, sem þeir væru sáttir við, og hefði könnun sálfræðings á hug X til umgengni við stefnanda því ekki farið fram.

                Samkvæmt greindum úrskurði stefnda 15. febrúar 2000 skyldi ákvörðun um umgengni verða endurskoðuð í janúar 2001.  Eftir nokkurn aðdraganda var málið tekið til úrskurðar á fundi 27. mars 2001 og   úrskurður uppkveðinn 2. apríl um að umgengni X við stefnanda skuli vera fjórum sinnum á ári, einn dag í senn, í Reykjavík.  Í úrskurðinum greinir frá því að sálfræðingur, sem hafi rætt við X í tilefni af umfjöllun hinnar stefndu nefndar, og skipaður talsmaður hans skv. 43. gr. a barnaverndarlaga nr. 58/1992, sbr. 24. gr. laga nr. 160/1998, hafi lýst þeim vilja drengsins að umgengni yrði áfram með sama hætti og verið hefði.

- - - - -

                Meginmálsástæða stefnanda er að það sé grundvallarréttur X að fá að umgangast föður sinn með eðlilegum hætti og hitta hann reglulega enda  hafi drengurinn lýst á ákveðinn hátt vilja sínum til þess að hafa mikil samskipti við sig.  Mælt sé fyrir um umgengnisrétt barna í barnaverndar- og barnalögum.  Ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið skýrt þannig að í rétti til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis felist m.a. réttur foreldris til þess að umgangast börn sín með eðlilegum hætti.  Ríkar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til þess að takmarka umgengni og séu engar málefnalegar ástæður til þess að takmarka umgengni stefnanda við fjögur skipti á ári.

                Ljóst sé að stefndi hafi virt að vettugi almenn lagafyrirmæli stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu, málshraða, rannsóknarskyldu, jafnræði og meðalhófsregluna svo og réttarreglurnar um upplýsinga- og andmælarétt.  Stefnanda sé nauðugur sá kostur að leita atbeina dómstóla.

                Stefnandi byggir málshöfðun sína á 60. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segi að dómendur eigi úrskurðarvald um embættistakmörk yfirvalda.  Mál þetta snúist um lög­mæltan rétt og inntak þess réttar.  Af þeim sökum telur stefnandi að dómstólar geti tekið til efnislegrar úrlausnar þær ákvarðanir sem stjórnvaldið hafi tekið í fjölskyldu­málefnum stefnanda.

3

                Stefndi styður frávísunarkröfu sína eftirfarandi rökum:

                Það sé ekki hlutverk dómstóla að kveða á um inntak umgengnisréttar.  Hins vegar hafi þeir úrlausnarvald um það hvort úrskurðir barnaverndaryfirvalda séu byggðir á lögmætum grunni en dómkröfur stefnanda lúti ekki að því álitaefni.

                Stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af viðurkenningardómi um umgengni þar sem réttur hans til umgengni sé óumdeildur og lögákveðinn.

                Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 starfi barnaverndarnefndir á vegum sveitarfélaga og hin stefnda nefnd skuli kosin af borgarstjórn Reykjavíkur.  Þar sem Reykjavíkurborg sé ekki stefnt til aðildar að málinu beri að vísa því frá dómi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

                Með vísun til framangreinds lagaákvæðis beri að vísa málinu frá dómi þar sem hvorki móður né fósturforeldrum hafi verið stefnt.

                Að lokum beri að vísa málskostnaðarkröfu stefnanda frá dómi þar sem henni sé ekki beint að Reykjavíkurborg, sbr. 6. gr. barnaverndarlaga.

4

                Í 1. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 segir að barn, sem sé í fóstri, með eða án samþykkis kynforeldra, eigi rétt á umgengni við þá og aðra sem séu barninu nákomnir.  Kynforeldrum sé rétt og skylt að rækja umgengni og samneyti við barn og hlíta nánari skilmálum er að því lúta samkvæmt ákvörðun barnverndarnefndar.  Réttur stefnanda að þessu leyti er óumdeildur og hefur hann ekki lögvarða hagsmuni af því, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, að dómur gangi til viðurkenningar hans.

                Samkvæmt 5. mgr. 33. gr. laga nr. 58/1992 á barnaverndarnefnd úrlausnarvald um umgengni barna í fóstri við kynforeldra sína og kveðið er á um málskot til  barnaverndarráðs í 49. gr. sömu laga.  Það er ekki hlutverk dómstóla að kveða á um inntak umgengnisréttar.

                Samkvæmt þessu ber að vísa málinu frá dómi.  Ákveðið er að stefnandi skuli greiða stefnda 60.000 krónur í málskostnað.

                Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, A, greiði stefnda, barnaverndarnefnd Reykja­víkur, 60.000 krónur í málskostnað.