Hæstiréttur íslands

Mál nr. 520/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


         

Fimmtudaginn 18. október 2007.

Nr. 520/2007.

Dala-Rafn ehf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Skeljungi hf.

(enginn)

Olíuverslun Íslands hf. og

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

Keri ehf.

(Anton B. Markússon hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

D kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kröfum hans um skaðabætur, vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna, á hendur O og K var vísað frá dómi vegna vanreifunar, sbr. e-liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar sagði að grundvöllur málatilbúnaðar D væri nægilega skýr um það hverja hann krefði um skaðabætur og af hvaða sökum. Mótmæli O og K við gildi þeirra gagna, sem D styddi útreikninga sína um tjónið við, og aðrar fullyrðingar þeirra um að sóknaraðili hefði ekki sýnt fram á tjón sitt með viðhlítandi gögnum, varðaði efnishlið málsins, en gæti ekki leitt til frávísunar þess. Var því ekki fallist á að krafa D væri óljós eða reifun hennar í stefnu slíkum annmörkum háð að varðaði frávísun. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2007, þar sem kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðilunum Olíuverslun Íslands hf. og Keri ehf. var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðilunum Olíuverslun Íslands hf. og Keri ehf. til efnismeðferðar. Skilja verður kröfu hans svo að hann krefjist einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Olíuverslun Íslands hf. og Ker ehf. krefjast hvor fyrir sig staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Skeljungur hf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Kröfum, málsástæðum og lagarökum málsaðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili reisir kröfur sínar á því að varnaraðilar hafi haft ólögmætt samráð sín í milli um verðlagningu á olíuvörum á árunum 1996-2001. Hann heldur því fram að saknæm og ólögmæt háttsemi þeirra hafi bakað sér tjón þar sem hún hafi haft áhrif á verðlagningu á olíuvörum er sóknaraðili hafi þurft til atvinnureksturs síns. Í aðalkröfu hefur sóknaraðili gert grein fyrir hvernig ákvarða beri umfang tjóns hans og á þeim grunni krafist tiltekinnar fjárhæðar óskipt úr hendi allra varnaraðila. Fallist dómur ekki á útreikninga hans sem viðhlítandi sönnun fyrir umfangi tjóns krefst hann að því frágengnu skaðabóta að álitum að virtum tilgreindum atriðum.

Það er á forræði sóknaraðila hvaða gögn hann færir fram til þess að sanna tjón sitt. Málsaðilar höfðu ekki lýst gagnaöflun lokið þegar málið var tekið til úrskurðar um framkomna frávísunarkröfu en sóknaraðili hafði í stefnu gert áskilnað um framlagningu gagna, dómkvaðningu matsmanna og skýrslugjafir fyrir dómi. Grundvöllur málatilbúnaðar sóknaraðila er nægilega skýr um það hverja hann krefur um skaðabætur og á hvaða málsástæðum hann reisir kröfur sínar. Mótmæli varnaraðilanna Olíuverslunar Íslands hf. og Kers ehf. við gildi þeirra gagna, sem sóknaraðili reisir á útreikninga sína um tjónið, og aðrar fullyrðingar þeirra um að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á tjón sitt með viðhlítandi gögnum, varða efnishlið málsins en leiða ekki til frávísunar þess. Samkvæmt öllu framanrituðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilarnir Olíuverslun Íslands hf. og Ker ehf. verða dæmdir til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði, en málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur að öðru leyti niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilarnir Olíuverslun Íslands hf. og Ker ehf. greiði hvor um sig  sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað. Kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2007.

          Mál þetta var höfðað 20. mars 2007 og tekið til úrskurðar 28. ágúst 2007. Stefnandi er Dala-Rafn ehf., Fjólugötu 27, Vestmannaeyjum. Stefndu eru Skeljungur hf., Hólmaslóð 8, Reykjavík, Olíuverslun Íslands hf., Sundagörðum 2, Reykjavík, og Ker hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík.

          Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum 8.348.357 kr. með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2003 til 22. mars 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi bóta að álitum dómsins úr hendi stefndu in solidum. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.

          Dómkröfur stefnda Skeljungs hf. eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað. 

          Dómkröfur stefnda Kers hf. eru aðallega þær að öllum kröfum stefnanda á hendur stefnda verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar. 

          Dómkröfur stefnda Olíuverslunar Íslands hf. eru aðallega þær að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda en til þrautavara er þess krafist að kröfur verði lækkaðar verulega. Í öllum tilfellum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

          Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefndu, Kers hf. og Olíuverslunar Íslands hf., um frávísun málsins. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og honum dæmdur málskostnaður. 

I.

          Stefnandi hefur rekið útgerð í Vestmannaeyjum frá árinu 1975 er hann hóf að gera út bát með nafninu Dala-Rafn. Hann kveðst þá hafa farið til Olíuverslunar Íslands hf. og óskað eftir viðskiptum um olíu- og smurolíukaup fyrir útgerð sína. Viðskiptakjör stefnanda hjá Olíuverslun Íslands hf. hefðu verið þau að hann keypti olíuvörur á auglýstu listaverði með 45 daga greiðslufresti. Enginn afsláttur hefði verið veittur af listaverði. Hin olíufélögin hefðu öll boðið sömu viðskiptakjör.

          Stefnandi kveðst hafa keypt á árinu 1980 annan bát, en útgerð bátsins hefði verið mjög skuldug við Olíufélagið hf. (nú Ker hf.) vegna olíukaupa. Stefnandi hefði ekki séð sér annað fært en að flytja viðskipti sín frá Olíuverslun Íslands hf. yfir til Olíufélagsins hf., þar sem síðarnefnda félagið hefði krafist þess, ella yrði þess freistað að gjaldfella veðskuldabréf í eigu Olíufélagsins hf., sem var með veði í bátnum, og gefið hafði verið út vegna olíukaupa seljanda. Stefnandi hafði greitt hluta af kaupverði bátsins með yfirtöku veðskuldabréfsins.

          Stefnandi var í viðskiptum við Olíufélagið hf. til ársins 1985 er hann flutti viðskipti sín til Skeljungs hf. Stefnandi kveður það hafa verið vegna deilna við Olíufélagið hf. í tengslum við ráðgjöf um notkun á glussaolíu. Stefnandi hefði greitt fyrrnefnt veðskuldabréf upp til að geta flutt viðskipti sín. Viðskiptakjör stefnanda hjá Skeljungi hf. hefðu verið þau sömu og hann var með hjá Olíufélaginu hf. og Olíuverslun Íslands hf.

          Í málinu liggja fyrir skriflegir samningar milli stefnanda og Skeljungs hf., sem stefnandi kveður að félagið hafi farið fram á að gerðir yrðu. Fyrsti samningurinn var undirritaður 19. september 1995 um eldsneytis- og smurolíuviðskipti vegna reksturs skipa stefnanda. Í honum var kveðið á um að stefnandi kaupi allt sitt eldsneyti og smurolíu af félaginu. Verð á gasolíu og skipagasolíu var samkvæmt verðlista seljanda á hverjum tíma. Frá verði á skipagasolíu var hins vegar veittur afsláttur, 0,60 kr. pr. líter og 10% afsláttur af smurolíu. Stefnanda bar að greiða úttektir hvers mánaðar fyrir mánaðamót eftir úttektarmánuð. Nýr samningur var gerður 9. október 2002 um kaup stefnanda á eldsneyti, smurolíu og hreinsi- og rekstrarvörum. Veittur afsláttur af verðskrá var 1,50 kr. pr. líter af skipagasolíu, 4 kr. af bensíni og díselolíu, auk 13% afsláttar af smurolíu, hreinsiefnum og rekstrarvörum. Samningur sama efnis var aftur gerður 29. september 2003, en afsláttur hækkaður nokkuð. Gerður var samningur enn á ný 17. nóvember 2005 þar sem afsláttur af skipagasolíu er 4,25 kr. pr. líter, afsláttur af bensíni og díselolíu er 6,50 kr. eða 8,50 kr. eftir því hvort það er selt með eða án þjónustu. Þá er veittur 18% afsláttur af smurolíu, smávörum og hreinsiefni. Í öllum samningunum var uppsagnarákvæði.

          Árið 1993 keypti stefnandi 573 brúttótonna skuttogara, Sindra, og breytti nafni hans í Dala-Rafn VE-508, en seldi eldri bát sinn með sama nafni, sem hann hafði gert út frá árinu 1975. Stefnandi gerði togarann út á árunum 1993-2003. Samkvæmt yfirliti í stefnu var hlutfall olíukostnaðar af rekstrarkostnaði skipsins 14,4-26,4%, eða 7,4-14,9% af heildarrekstrarkostnaði, á árunum 1996-2001. Stefnandi hefur lagt fram ársreikninga sína og reikninga vegna viðskipta sinna á árunum 1996-2001, aðallega við Skeljung hf., en einnig eru um 30 reikningar frá Olís (Olíuverslun Íslands hf.) og tveir reikningar frá Esso (Olíufélaginu) vegna kaupa á bensíni og díselolíu.

          Stefnandi seldi á árinu 2003 skuttogarann Dala-Rafn og keypti skömmu síðar Emmu, 114 brúttótonna togbát. Breytti stefnandi nafni hans í Dala-Rafn VE-508 og gerir hann út þann bát enn þann dag í dag.

          Stefnandi kveðst ítrekað hafa reynt allt frá árinu 1990 að fá betri kjör á olíukaupum sínum hjá Skeljungi hf. og öðrum olíufélögum, m.a. með viðræðum, tilboðum og óskum um að þau gerðu sér tilboð um hagstæðara olíuverð og viðskiptakjör, en án árangurs.  

          Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu 28. október 2004, í máli nr. 21/2004, að stefndu hefðu brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. 3. gr. laga nr. 107/2000, með samningum og samstilltum aðgerðum á árunum 1993 til 2001. Ákvörðun samkeppnisráðs var kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem með úrskurði sínum 29. janúar 2005, í máli nr. 3/2004, staðfesti að olíufélögin hefðu gerst sek um brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þó var talið að brot væru ekki sönnuð í jafn mörgum tilvikum og samkeppnisráð taldi vera. Áfrýjunarnefndin lækkaði sektir sem samkeppnisráð hafði lagt á stefndu. Úrskurði áfrýjunarnefndar hefur verið skotið til dómstóla.

II.

          Stefndi Ker hf. byggir frávísunarkröfu sína á því að dómkröfur og málsástæður stefnanda séu svo vanreifaðar að ekki verði lagður á þær dómur. Þá byggir stefndi á því að verulega skorti á að aðild stefnda sé skýrð í stefnu og tiltekið hvaða lögvörðu hagsmuni hann hafi af úrlausn þeirra dómkrafna sem hafðar eru uppi í málinu.

          Við munnlegan flutning málsins sagði lögmaður stefnda að ákvörðun samkeppnisráðs hefði að verulegu leyti verið felld úr gildi með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þá hefði dómsmál verið höfðað til ógildingar á úrskurðinum, sbr. mál nr. 4965/2005, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

          Stefndi bendir á að stefnandi hafi verið í viðskiptum við stefnda til ársins 1985, en þá hefði hann flutt þau til stefnda Skeljungs hf. Ekkert samningssamband eða viðskiptatengsl hefðu verið á milli stefnanda og stefnda Kers hf. á þeim tíma sem meint brot eigi að hafa átt sér stað.

          Stefndi telur að kröfugerð stefnanda uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um glöggan málatilbúnað. Stefnandi vísi með almennum hætti til atvika, en slíkt geti ekki talist fullnægjandi um glöggan málatilbúnað. Telur stefndi að þessi annmarki eigi að leiða til þess að málinu verði vísað frá.

          Einnig segir stefndi að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi leitað eftir viðskiptum við stefnda á umræddu tímabili. Ekki sé sýnt fram á með gögnum eða rökstuðningi í stefnu að stefnandi eigi kröfu á hendur honum. Ekkert komi fram um tengsl eða samskipti við stefnda. Allt þetta eigi að leiða til þess að kröfum stefnanda á hendur stefnda verði að vísa frá dómi.

          Um lagarök er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og óskráðra meginreglna réttarfars.

          Málskostnaðarkrafa er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

III.

          Stefndi, Olíuverslun Íslands hf., byggir frávísunarkröfu sína á því að dómkröfur og málsástæður stefnanda séu svo vanreifaðar að dómur verði ekki byggður á þeim. Þannig sé með engu móti reynt að skýra með hvaða hætti stefndi hafi valdið stefnanda tjóni nema með almennri skírskotun til atvikalýsingar í skýrslum samkeppnisyfirvalda sem nú sé verið að fjalla um í hliðsettum dómi.

          Stefndi segir að kröfur stefnanda virðist byggðar á því að stefndu hafi sammælst um verðbreytingar á eldsneyti, en stefndi mótmælir því alfarið að um slíkt samráð hafi verið að ræða. Ef eitthvert samráð hafi verið viðhaft varðandi verðbreytingar á eldsneyti sé um að ræða mjög fá og afmörkuð tilvik. Stefnandi verði að reifa þessi atvik og reyna að sýna fram á með skýrum hætti hvernig stefndi á að hafa valdið stefnanda tjóni.

          Stefndi telur að tilraunir stefnanda til að sýna fram á meint tjón séu mjög óljósar og ætti vanreifun að þessu leyti að leiða til frávísunar.

          Um lagarök er vísað til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

          Málskostnaðarkrafa er byggð á 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum. 

IV.

          Stefnandi telur að málið sé ekki vanreifað þannig að það sé ekki tækt til dóms. Hann telur að í málatilbúnaði stefndu um frávísunarkröfu sé erfitt að átta sig á því af hverju þeir telja málið vanreifað.

          Stefnandi mótmælir því að úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafi verið hrundið í meginatriðum og þeim forsendum sem stefnandi hafi lagt til grundvallar í máli þessu. Umfangsmikil rannsókn hafi farið fram hjá samkeppnis­yfirvöldum og hald verið lagt á gögn. Rannsókn samkeppnisyfirvalda og sönnunar­gögn standi óhögguð þar til dómur hafi kveðið á um annað. Þá heldur stefnandi því fram að það byggist á misskilningi hjá stefndu að ekkert samningssamband sé á milli stefnanda og stefndu, Kers hf. og Olíuverslunar Íslands hf. Brot stefndu skv. 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 birtist í ýmsu formi, en stefnandi hafi eðlilega ekki verið í beinu samningssambandi við stefndu í samráði þeirra. Stefnandi kveðst byggja á niðurstöðu samkeppnisyfirvalda, en það sé viðurkennt í Evrópurétti að þolendur samkeppnisbrota geri slíkt. Þá telur stefnandi að samningssamband sé ekki skilyrði bótaskyldu.

          Stefnandi segir að atvikum og málsástæðum sé lýst í meginatriðum í stefnu, en nánari grein fyrir málsástæðum eigi að gera við málflutning. Stefnandi heldur því fram að í dómaframkvæmd sé þekkt að slakað sé á sönnunarkröfum þegar erfitt reynist að sanna tjón og vísar í því sambandi til dóma Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 2592, 1999, bls. 4429 og 1999, bls. 1709.

          Stefnandi telur að „keðjan“ milli málsatvika, málsástæðna og lagaraka sé skýr og að málið sé tækt til efnislegrar meðferðar.

V.

          Í máli þessu telur stefnandi að stefndu, Skeljungur hf., Ker hf. og Olíuverslun Íslands hf., beri óskipta ábyrgð gagnvart honum vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna missis hagnaðar árin 1996-2001. Grundvöllur málatilbúnaðar stefnanda er nægilega skýr að því leyti að ljóst er að hann byggir á því að með ólögmætu samráði stefndu, sem náð hafi til alls olíumarkaðarins á Íslandi, hafi þeim tekist að halda olíuverði hærra en ef eðlilegar samkeppnisaðstæður og verðmyndun hefði ríkt á olíumarkaðinum á Íslandi.           

          Í stefnu er gerð grein fyrir því hvernig fjárhæð kröfu stefnanda er fundin og  í rökstuðningi sínum byggir hann á tveimur aðferðum. Aðalkrafa stefnanda um skaðabætur að fjárhæð 8.348.357 kr. er reist á viðmiðunaraðferð sem felur í sér samanburð við annan skyldan markað í öðru landi. Telur stefnandi að markaðirnir Færeyjar og Ísland séu algerlega sambærilegir. Eru útreikningar hans um tjón byggðir á verði á gasolíu. Engin gögn liggja fyrir um verð eða aðstæður í Færeyjum en úr því kann að verða bætt undir rekstri málsins. Í  rökstuðningi um varakröfu segir að hún sé byggð á kostnaðar- eða framlegðaraðferð. Um sömu aðferð sé að ræða og samkeppnisráð byggði á í ákvörðun sinni nr. 21/2004. Stefndu hafa lagt fram matsgerðir úr máli nr. E-4965/2005 þar sem útreikningar samkvæmt síðarnefndu aðferðinni eru vefengdir. Stefnandi telur samkvæmt þessum útreikningi að tjón sitt nemi 2.375.145 kr. vegna kaupa á gasolíu og 12.857 kr. vegna bensíns, samtals 2.388.002 kr. Nokkurs ósamræmis gætir því milli málsástæðna og dómkrafna þar sem varakrafa er rökstudd með tilteknum útreikningum og ákveðinni fjárhæð en dómkrafa til vara er hins vegar um bætur að álitum. Hvoru tveggja, bætur samkvæmt viðmiðunaraðferð og kostnaðar- eða framlegðaraðferð, rúmast hins vegar innan aðalkröfu.

          Kröfur stefnanda samkvæmt framangreindum aðferðum eru rökstuddar með útreikningum sem miða við kaup stefnanda og verð hjá einum stefnda, Skeljungi hf. Eins og áður var rakið hefur stefnandi átt viðskipti við alla stefndu en mismikil að fjárhæðum og eftir tegundum eldsneytis. Hann hefur einungis keypt skipa­gasolíu af stefnda Skeljungi hf., en bensín og díselolíu af þeim öllum. Ætti því að vera unnt að aðgreina viðskiptin og þá hugsanlegt tjón. Ekkert liggur fyrir um að tjón hans hefði orðið það sama hvort sem hann hefði verið í viðskiptum við stefnda Skeljung hf. eða aðra stefndu. Að öllu þessu virtu er óljóst af málatilbúnaði stefnanda hvort fyrir hendi sé skilyrði sameiginlegrar ábyrgðar af hálfu stefndu, Kers hf. og Olíuverslunar Íslands hf., um að þeir hafi valdið sama tjóni og stefndi Skeljungur hf., þannig að um óskipta ábyrgð þeirra gæti verið að ræða. Verður kröfum stefnanda á hendur stefndu, Keri hf. og Olíuverslun Íslands hf., því vísað frá dómi vegna vanreifunar með vísan til e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

          Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að málskostnaður verði felldur niður með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

          Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

          Kröfum stefnanda, Dala-Rafns ehf., á hendur stefndu, Keri hf. og Olíuverslun Íslands hf., er vísað frá dómi.

          Málskostnaður fellur niður.