Hæstiréttur íslands

Mál nr. 297/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Óvígð sambúð
  • Opinber skipti


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. september 2004.

Nr. 297/2004.

K

(Eva Helgadóttir hdl.)

gegn

M

(enginn)

 

Kærumál. Opinber skipti. Óvígð sambúð.

M krafðist að fram færu opinber skipti til fjárslita milli hans og K vegna loka óvígðrar sambúðar. Með vísan til þess að veruleg óvissa væri um það hvort sambúð aðila hefði verið lokið áður en tiltekin fasteign var keypt, og þar með hvort hún ætti að koma undir skiptin, og þess að aðilar áttu að minnsta kosti bifreið og innbú við sambúðarslitin, þótti ekki unnt að synja kröfu M á þeim grundvelli að aðilar hefðu verið eignalausir við sambúðarslitin.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2004, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og sóknaraðila vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um opinber skipti verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2004.

         Með bréfi, dagsettu 19. mars 2004 og mótteknu í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. sama mánaðar, krafðist sóknaraðili opinberra skipta til fjárslita vegna óvígðrar sambúðar hans og varnaraðila. Ágreiningsmál þetta var þingfest 2. apríl 2004. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 17. maí 2004.

Sóknaraðili er M.

Varnaraðili er K.

Sóknaraðili krefst opinberra skipta til fjárslita milli hans og varnaraðila með vísan til 100. gr. laga nr. 20/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

 

Helstu málsatvik

         Málsaðilar hófu sambúð hér á landi á árinu 1973. Þau bjuggu lengst af á Q. Á árinu 1994 fór sóknaraðili til Æ til systur sinnar sem þar var búsett og hóf í framhaldinu störf þar. Varnaraðili flutti til Æ ásamt yngstu dóttur þeirra á árinu 1995 eftir að þau höfðu selt hús sitt á Q. Varnaraðili var við nám og störf í Æ. Hún flutti til Íslands, ásamt dótturinni, vorið 2000 og hóf störf á [...].

         Fyrir liggur að með kaupsamningi, dagsettum 6. desember 2000, keypti varnaraðili rúmlega 100 fermetra íbúð að Ö og var kaupverð hennar 9,7 milljónir króna. Kaupandi greiddi 2.500.000 krónur í peningum við undirritun kaupsamnings, 300.000 krónur með framsali húsbréfa, gaf út fasteignaveðbréf að fjárhæð 307.965 krónur og skuldabréf að fjárhæð 480.000 krónur auk þess hann veðskuldir að fjárhæð 6.112.035 krónur voru yfirteknar af kaupanda. Sóknaraðili tók lán í Æ með ábyrgð vinnuveitanda síns og lagði  2,5 milljón króna andvirði þess inn á reikning varnaraðila 10. nóvember 2000. Rann það fé til fasteignakaupanna. Íbúðin var afhent á kaupsamningsdegi.

         Fyrir liggur að málsaðilar hafa slitið sambúðinni en ágreiningur er með þeim um hvenær sambúðarslit hafi raunverulega orðið og einnig um það hvort fjárslit hafi þegar farið fram milli þeirra. Fyrir liggur að sóknaraðili hefur greitt afborganir af láninu í Æ en varnaraðili afborganir af áhvílandi veðskuldum af íbúðinni.

         Sóknaraðili höfðaði almennt einkamál á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 7. apríl 2003 og gerði þá dómkröfu að varnaraðili endurgreiddi henni umræddar 2,5 milljónir króna auk vaxta. Varnaraðili var sýknuð af kröfu sóknaraðila með dómi 18. nóvember 2003.

        

Helstu málsástæður og lagarök aðila

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að hann hafi verið langdvölum fjarri heimili í Æ vegna starfa sinna við [...]. Varnaraðila hafi ekki líkað það og vistin í Æ og því farið til Íslands ásamt dóttur þeirra vorið 2000. Sóknaraðili hafi einnig haft hug á að flytja til Íslands en ekki viljað gera það nema þau gætu eignast íbúð á Íslandi. Varnaraðili hafi hringt í hann um haustið og tjáð honum að hún vildi ekki vera í Æ. Sóknaraðili hafi því fengið 2,5 milljón króna lán í Æ með ábyrgð vinnuveitanda síns og sent varnaraðila andvirði þess til íbúðarkaupa. Varnaraðili hafi notað andvirði lánsins til að greiða útborgunargreiðslu og einnig nýtt til kaupanna eftirstöðvar af húsbréfum, að verðmæti 300.000 krónur, vegna sölu á húsi þeirra á Q. Sóknaraðili kveður íbúðina hafa verið skráða á nafn varnaraðila vegna reglna um greiðslur vaxtabóta.

Sóknaraðili kveðst hafa komið til Íslands um jólin 2000 og þá dvalið hjá þeim mægðum í íbúðinni. Varnaraðili hafi síðan komið til Æ í mars 2001. Sóknaraðili hafi undirbúið sumarleyfi á Íslandi sumarið 2001 en til þess hafi ekki komið þar sem varnaraðili hafi hringt 25. maí og tjáð honum að hún vildi slíta sambandi þeirra. Hann hafi viljað halda sambúðinni áfram en til þess hafi ekki komið.

Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að engin fjárskipti hafi átt sér stað milli aðila vegna sambúðarslitanna. Sóknaraðili telur þær fullyrðingar varnaraðila engum rökum studdar að fjárskipti aðila hafi verið gerð haustið 2000 með því að sóknaraðili greiddi henni umræddar fjárhæðir. Þar sem báðir aðilar hafi þá verið svo að segja eignalausir séu þessar fullyrðingar í raun mjög ótrúlegar.

Varnaraðili hafi búið áfram í íbúðinni og greitt af áhvílandi veðskuldum en hann hafi greitt af láninu í Æ. Hann hafi gert tilraun til að fá þetta framlag til íbúðarkaupanna endurgreitt með því að höfða almennt einkamál á grundvelli reglna kröfuréttarins en varnaraðili hafi verið en sýknuð af kröfu hans meðal annars með vísan til þess að ekki hefði verið leitað búskipta milli aðila á grundvelli skiptaréttarreglna og að ekki nyti við skuldaviðurkenningar eða annarra gagna um að um lán hefði verið að ræða. Vísað er til þess að í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafi varnaraðili verið sýknuð meðal annars vegna þess að ekki hafi verið leitað búskipta milli aðila á grundvelli skiptaréttarreglna. Af hálfu sóknaraðila er talið að í þeim orðum héraðsdóms felist leiðbeining um hvaða farveg skuli beina málinu í. Í ljósi þessa dóms sé nauðsynlegt að taka mál þetta upp á grundvelli reglna skiptaréttarins og sé í því skyni óskað opinberra skipta á fjárbúi þeirra með vísan til 100. gr. skiptalaga nr. 20/1991.

Þar sem megineign hins óskipta bús sé hér á landi krefjist sóknaraðili opinberra skipta á Íslandi. Í því sambandi er vísað til almennra reglna alþjóðlegs einkamálaréttar og bréfs dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 17. febrúar 2004 þar sem segi að það sé mat ráðuneytisins að uppfyllt séu lagaskilyrði til þess að fara með umrædda kröfu. Jafnframt sé þar ákveðið, með vísan til 3. mgr. 3. gr. laga nr. 20/1991, að haganlegast sé að mál vegna skiptanna skuli rekið í umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að við skiptin verði tekið tillit til þess að sóknaraðili hafi lagt til íbúðarkaupanna að Ö andvirði 2,5 milljóna króna láns sem hann hafi tekið í Æ. Auk þess hafi eldri húsbréf vegna sölu á húsi málsaðila á Q verið notuð til kaupanna en bréfin hafi að hluta til verið í hans eigu. Sóknaraðili muni meðal annars gera kröfu um það við skiptin að varnaraðili endurgreiði honum 2,5 milljóna króna framlag hans til íbúðarkaupanna, auk vaxta, og andvirði hans hluta húsbréfanna.

 

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að málsaðilar hafi gengið í gegnum ýmsa fjárhagserfiðleika á sambúðartímanum, aðallega vegna útgerðar sóknaraðila á Q. Á árinu 1987 hafi varnaraðili fengið arf eftir móður sína, sem hafi átt að teljast séreign hennar en hafi runnið unn í fjársamlag þeirra vegna umræddra fjárhagsvandræða. Þrátt fyrir það hafi þau misst hús sem þau hafi átt á Q og í kjölfarið flutt algjörlega eignalaus til Æ.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að sóknaraðili hafi lýst því yfir um áramótin 1999/2000 að hann vildi slíta sambúð þeirra. Sambúðarslitin hafi átt sér langan aðdraganda vegna vaxandi erfiðleika í sambúðinni. Við sambúðarslitin hafi verið afráðið að varnaraðili flyttist til Íslands með dóttur þeirra. Þar sem námi hennar hafi ekki verið lokið fyrr en vorið 2001 og dóttir hennar hafi verið í grunnskóla í Æ hafi henni ekki verið fært að flytja samstundis. Málsaðilar hafi því búið áfram undir sama þaki. Um leið og skólum hafi lokið hafi hún flutt til Íslands ásamt dóttur þeirra og þær flutt til ættingja.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að málsaðilum hafi ekki verið tíðrætt um fjárskipti enda eina eign búsins gömul bifreið sem sóknaraðili hafi notað til að komast á milli staða. Við tilhögun fjárskipta hafi orðið úr að sóknaraðili legði til fjárhæð sem hann væri aflögufær um sem uppgjör á fjárskiptum þeirra. Aldrei hafi verið rætt um fjárhæð greiðslunnar. Forsenda hennar hafi hins vegar verið tvíþætt. Annars vegar sú að varnaraðila yrði gert kleift að framfleyta sér og dóttur þeirra og koma upp nýju heimili í nýju landi. Hins vegar uppgjör á fjárhagsvandræðum sóknaraðila og glötuðum móðurarfi varnaraðili vegna þeirra. Fjársamlagi aðila hafi verið slitið með framangreindum hætti í kjölfar sambúðarslitanna og hafi ekki verið um neitt fjársamlag að ræða eftir það. Af hálfu varnaraðila er fullyrðingum sóknaraðila um sambúð þeirra eftir að hún flutti til Íslands mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Í október 2000 hafi varnaraðili ein gert tilboð í fasteign að Ö og hafi hún því eignast hana utan sambúðartíma málsaðila.

Varnaraðili kveðst byggja aðalkröfu sína á 116. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. sé dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem dæmdar séu að efni til. Með vísan til 2. mgr. 116. gr. verði krafa sem dæmd hafi verið að efni til ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól og skuli nýju máli um slíka kröfu vísað frá dómi. Varnaraðili telur að með niðurstöðu héraðsdóms í málinu nr. E-4800/2003 hafi verið kveðinn upp efnisdómur þar sem hún hafi verið sýknuð af kröfum sóknaraðila og hafi sá dómur fullt gildi á grundvelli meginreglu réttarfars um res judicata áhrif dóms. Í dóminum felist hins vegar ekki leiðbeining um það að grundvöllur sé fyrir kröfu um opinber skipti á búi aðila þvert gegn skýru ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðili telur augljóst af málatilbúnaði sóknaraðila að tilgangur hans sé að ná fram kröfu sem varnaraðili hafi verið sýknuð efnislega af. Vísar varnaraðili í þessu sambandi til meginreglna réttarfars um forræði aðila á kröfugerð og málatilbúnaði, sbr. 80. og 111. gr. laga nr. 91/1991.

Varakröfu sína byggir varnaraðili á því að enginn grundvöllur sé fyrir kröfugerð sóknaraðila um opinber skipti á grundvelli 100. gr. laga nr. 20/1991. Byggir varnaraðili á því að fjárfélagi aðila hafi þegar verið slitið og því sé ekkert fjársamlag aðila til staðar. Slík krafa verði að koma fram við slit á sambúð en ekki fjórum árum síðar. Telur varnaraðili þann skilning koma fram í athugasemdum í fumvarpi til laga nr. 20/1991 og í ákvæðum sem kveði á um skilyrði til opinberra skipta til fjárslita milli hjóna.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að í XIV. kafla laga nr. 20/1991 séu taldar upp með tæmandi hætti heimildir fólks til að krefjast opinberra skipta á öðru en dánarbúi. Kveðið sé á um í 98. gr. að skilyrði fyrir beiðni um opinber skipti á fjársamlagi hjóna sé að sammæli hafi ekki tekist um skipti fyrir yfirvaldi. Felist því í ákvæðinu lokaúrræði til slita á fjársamlagi hjóna. Varnaraðili telur að túlka beri ákvæði 100. gr., sem taki til fjárslita milli sambúðarfólks, með sambærilegum hætti þannig að krafa um opinber skipti sé því aðeins tæk að önnur úrræði hafi verið reynd án árangurs. Þá felist einnig í því að krafa um opinber skipti sé ekki tæk þegar skipti hafi þegar farið fram eins og um sé að ræða í þessu máli.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að fjársamlagi aðila hafi lokið við sambúðarslit sumarið 2000 og sé engum gögnum til að dreifa um annað. Samkomulag aðila hafi ekki verið skriflegt og ekki gert fyrir yfirvaldi enda sé slíkt ekki skylt þegar um slit á óvígðri sambúð sé að ræða. Þar sem sambúð aðila hafi augljóslega verið lokið þegar varnaraðili réðst í að kaupa íbúð haustið 2000 hafi engin önnur ástæða verið fyrir greiðslu sóknaraðila til varnaraðila en að um uppgjör á fjársamlagi þeirra. Við heildarskoðun á fjársamlagi málsaðila á sambúðartímanum verði ekki séð að hallað hafi verið á nokkurn með samkomulagi málsaðila, enda hafi það verið grundvöllur samkomulagsins að dóttir þeirra nyti góðs af peningagreiðslu sóknaraðila þar sem hún hafi gert varnaraðila kleift að koma þaki yfir höfuð hennar. Þá hafi það verið hluti af samkomulagi málsaðila að varnaraðili fengi ekki meðlagsgreiðslur úr hendi sóknaraðila vegna dóttur þeirra. Þá vísar varnaraðili einnig til þess að arfur sem hún hafi fengið eftir móður sína á sambúðartímanum hafi farið upp í skuldir sóknaraðila en við slit fjársamlagsins hafi sú fjárhæð verið að lágmarki einnar milljónar króna virði.

Af hálfu varnaraðila er jafnframt vísað til þess að samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991 komi aðeins þær eignir til skipta sem til staðar hafi verið þegar sambúð hafi verið slitið. Þar sem sambúð aðila hafi verið slitið vorið 2000 og fjárslit á þeirra efnalitla fjársamlagi þá þegar farið fram geti fasteign varnaraðila aldrei talist andlag skipta ef beiðni sóknaraðila nær fram að ganga. Annar skilningur sé ekki í samræmi við raunveruleikann enda hafi sóknaraðili aldrei átt að búa í íbúðinni og hafi ekki verið með í ráðum þegar varnaraðili hafi fest kaup á henni. Það bú sem nú sé krafist skipta á sé því eignalaust og beri einnig að hafna kröfu sóknaraðila á þeim grundvelli.

Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi með einhverjum hætti verið að leggja dóm á það hvort skilyrði úrskurðar um opinber skipti væru fyrir hendi enda ráðuneytið ekki til þess bært að kveða á um það.

Niðurstaða

         Óumdeilt er með aðilum að kröfu þessari sé réttilega beint til Héraðsdóms Reykjavíkur.

         Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. nóvember 2003 í málinu nr. E-4800/2003, sem sóknaraðili þessa máls höfðaði á hendur varnaraðila var hún sýknuð af kröfu um endurgreiðslu á peningaláni að fjárhæð 2,5 milljónir króna, m.a. með eftirfarandi röksemdum:

         „Dómurinn fellst ekki á þau rök stefnanda að engu skipti þótt upphaflega hafi fjárhæðin átt að vera nýtt til sameiginlegra þarfa aðila því til þess hafi ekki komið, enda er málið höfðað á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins en ekki til búskipta og skortir raunar gögn til hins síðara.  Af þessu leiðir m.a. að ekki fær staðist það sem segir í innheimtubréfi að stefnandi hafi tekið lán í hinum norska banka á eigin nafni fyrir hönd stefndu.  Ekki nýtur við skriflegrar skuldaviðurkenningar eða annarra gagna varðandi það að um lán hafi verið að ræða, þ.e. að upphaflegt framlag til íbúðarkaupa hafi umbreyst í lán, og þá með hvaða skilmálum lánað hafi verið.  Staðhæfing stefnanda, sem kröfugerð hans hvílir á, er því ósönnuð.”

         Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 segir að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem komi að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem séu dæmdar þar að efni til. Í 2. mgr. 116. gr. segir að krafa sem ekki hafi verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en segi í lögum þessum. Nýju máli um slíka kröfu skuli vísað frá dómi.

         Í máli þessu er til úrslausnar krafa sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli málsaðila vegna sambúðarslita þeirra. Í erindi lögmanns sóknaraðila til héraðsdóms, þar sem umrædd krafa er sett fram, er vísað til þess að við skiptin verði gerð krafa um að tekið verði tillit til þess sem sóknaraðili lagði til kaupa á íbúð að Ö þannig að varnaraðili endurgreiði honum framlag hans til íbúðarkaupanna, annars vegar umræddar 2,5 milljónir króna og hins vegar andvirði húsbréfa vegna sölu á fasteign þeirra á Q.

         Samkvæmt því hyggst sóknaraðili hafa uppi frekari kröfur við opinber skipti milli aðila en þær sem lúta að endurgreiðslu á andvirði umrædds 2,5 milljóna króna láns. Enda þótt sóknaraðili hyggist m.a. hafa uppi við opinber skipti kröfur sem sprottnar eru af sömu lögskiptum aðila og fjallað var um í fyrrnefndu dómsmáli verður ekki talið að dómur í því máli hafi bindandi réttaráhrif varðandi það sakarefni sem hér er til umfjöllunar með þeim hætti að vísa beri frá dómi kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita í kjölfar óvígðrar sambúðar málsaðila. Verður því ekki fallist á aðalkröfu varnaraðila um frávísun kröfunnar frá dómi.

         Eins og varnaraðili bendir sjálf á er ekki skylt að ganga frá fjárslitum eftir óvígða sambúð fyrir yfirvaldi eða með öðrum formlegum hætti. Í 98. gr. laga nr. 20/1991 segir að ef annað hjóna eða þau bæði hafi sótt um leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar án undangengis skilnaðar að borði og sæng en sammæli hafi ekki tekist um skipti milli þeirra fyrir yfirvaldi geti annað þeirra eða þau bæði krafist að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra. Í 100. gr. laganna segir hins vegar að ef karl og kona slíta óvígðri sambúð eftir að hafa búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár eða búið saman skemmri tíma og annaðhvort eignast barn eða konan er þunguð af völdum karlsins geti annað þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Í 100. gr. er þannig hvorki að finna það skilyrði fyrir kröfu um opinber skipti til fjárslita eftir óvígða sambúð að sammæli hafi ekki tekist um skipti fyrir yfirvaldi né er þar vísað til 98. gr. laganna. Því verður ekki fallist á með varnaraðila að það verði ráðið af lögum nr. 20/1991 að sambúðarfólk geti ekki leitað eftir opinberum skiptum til fjárslita eftir óvígða sambúð án þess að leita fyrst annarra leiða til að ná samkomulagi um skiptin. Verður kröfu sóknaraðila því ekki hafnað af þessari ástæðu.

         Óumdeilt er að varnaraðili flutti frá Æ til Íslands með dóttur málsaðila vorið 2000 en þau höfðu þá verið í sambúð í 27 ár. Í skýrslu sem tekin var af varnaraðila í framangreindu dómsmáli kvaðst hún hafa flutt til tengdamóður sinnar þegar hún flutti til Íslands og haldið sambúðarslitunum leyndum. Varnaraðili viðurkenndi að sóknaraðili hefði dvalið hjá henni og börnunum að Ö um jólin 2001 og að hún hafi farið til Æ í mars 2001 til að ná í fagbréf sitt og til þess að vera viðstödd skírn á barnabarni sínu í [...]. Í málinu liggur fyrir staðfesting Hagstofu Íslands á því varnaraðili hafi verið skráð með lögheimili í Æ frá 28. september 1995 til 19. september 2000 er lögheimili hennar hafi samkvæmt samnorrænu flutningsvottorði verið skráð að [...] Reykjavík. 

         Í málinu nýtur engra gagna við um meint fjárslit málsaðila. Varnaraðili heldur því fram að gengið hafi verið frá skiptum á innbúi og að í umræddri greiðslu sóknaraðila á 2,5 milljónum króna inn á reikning varnaraðila 10. nóvember 2000 hafi falist endanlegt uppgjör milli þeirra. Fyrir liggur að varnaraðili gerði tilboð í íbúðina að Ö í lok október 2000 og gengið var frá kaupsamningi 6. desember 2000. Þá liggur fyrir að umræddar 2,5 milljónir runnu til að greiða útborgunargreiðslu í umræddri íbúð. Samkvæmt fyrrgreindum dómi frá 18. nóvember 2003 hóf sóknaraðili að endurkrefja varnaraðila um umrædda greiðslu í maí 2002.

         Samkvæmt framangreindu greiddi sóknaraðili umrædda fjárhæð inn í reikning varnaraðila án nokkurra skýringa á sama tíma og varnaraðili stóð í fasteignakaupum. Varnaraðili hefur engin gögn lagt fram eða leitt að því líkur með útreikningum eða öðrum hætti að umrædd greiðsla hafi falið í sér efndir á samkomulagi um fjárslit málsaðila. Með vísan til framangreinds þykir varnaraðili ekki hafa sýnt fram á að fjárslit hafi farið fram milli málsaðila í kjölfar sambúðarslita þeirra.

         Samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991 koma aðeins til skipta þær eignir og réttindi sem tilheyrðu aðilum þegar óvígri sambúð var slitið ef ekki verða sammæli um annað. Samkvæmt 105. gr. laganna skal skiptastjóri svo fljótt sem verða má eftir skipun hans boða aðilanna, umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara til skiptafundar og leita þar vitneskju um hverjar eignir geti komið til skipta og hvorum aðilanum þær tilheyri. Ágreiningi um þessi atriði sem skiptastjóra tekst ekki að jafna verður samkvæmt 112. gr. laganna skotið til héraðsdóms.

         Samkvæmt því sem áður er rakið þykir vera veruleg óvissa um það hvort sambúð málsaðila hafi verið lokið áður en umrædd fasteign var keypt og þar með um það hvort hún eigi að koma undir skiptin. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um eignastöðu eða skuldastöðu málsaðila við sambúðarslit. Með hliðsjón af framangreindu og því að málsaðilar áttu að minnsta kosti bifreið og innbú við sambúðarslitin þykir ekki unnt að synja kröfu sóknaraðila á þeim grundvelli að málsaðilar hafi verið eignalausir við sambúðarslitin.

         Með vísan til alls framangreinds ber að fallast á kröfu sóknaraðila um opinber skipti fari fram til fjárslita vegna slita á óvígri sambúð málsaðila.

         Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

         Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Ásdís Kjerulf hdl. en Eva Bryndís Helgadóttir hdl. af hálfu varnaraðila.

         Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

         Fallist er á kröfu sóknaraðila, M, um að opinber skipti fari fram til fjárslita vegna slita á óvígðri sambúð hans og varnaraðila, K.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 100.000 krónur í málskostnað.