Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Erfðaskrá
  • Samningur


                                     

Miðvikudaginn 12. mars 2014.

Nr. 32/2014.

C og

D

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

E

(Ragnar H. Hall hrl.)

Kærumál. Hjón. Erfðaskrá. Samningur.

A stóð ein að gerð erfðaskrár, eftir að eiginmaður hennar B hafði verið sviptur fjárræði, og afturkallaði þar fyrir sitt leyti sameiginlega erfðaskrá þeirra. Með úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var erfðaskrá A ógilt með skírskotun til þess að í sameiginlegri erfðaskrá hennar og B hefði falist erfðasamningur þar sem girt hefði verið fyrir að annað þeirra gæti síðar einhliða breytt eða afturkallað hana. Var þess í stað talið að hin sameiginlega erfðaskrá skyldi lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi A.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Frekari gögn bárust réttinum síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að við skipti á dánarbúi A skuli lögð til grundvallar sameiginleg erfðaskrá hennar og B 20. október 1986. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað verði fyrrgreindri kröfu varnaraðila. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lýtur krafa varnaraðila að því að erfðaskrá A frá 18. mars 2008 verði metin ógild og að erfðaskrá hennar og eiginmanns hennar, B, frá 20. október 1986 verði lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi hennar.

Í síðarnefndu erfðaskránni sagði í 4. grein: ,,Langlífara má ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum þeim, er það fær með erfðaskrá þessari, þannig að í bága komi við réttindi barna okkar eða niðja þeirra.“ Þá sagði í 5. grein: ,,Erfðaskrá þessari getur hvorugt okkar breytt eða afturkallað án samþykkis hins.“ Loks sagði í 6. grein: ,,Eftir andlát langlífara skulu eignir okkar skiptast að jöfnu milli barna okkar eða niðja þeirra.“

Þessi ákvæði erfðaskrárinnar sýna að sameiginlegur vilji þeirra beggja hafi verið að börn þeirra, eða niðjar þeirra, fengju jafnan hlut við skipti á eignum. Með 4. grein erfðaskrárinnar var heimild langlífari maka til að ráðstafa eignum, sem hann fékk með erfðaskránni, takmörkuð með erfðasamningi á þann hátt að það mætti ekki gerast með dánargjafagerningum eða erfðaskrá. Framangreind ákvæði erfðaskrárinnar takmörkuðu samkvæmt orðum sínum á hinn bóginn ekki sérstaklega heimildir til að ráðstafa eignum með gerningum í lifanda lífi.

Með þeim erfðasamningi sem fólst í 5. grein og 6. grein erfðaskrárinnar var girt fyrir að annað hjónanna gæti, án atbeina hins, ráðstafað eignum með þeim hætti, sem A gerði í erfðaskránni 18. mars 2008. Verður fallist á með héraðsdómi að hvorki hafi verið sýnt fram á að forsendur hafi brostið fyrir gerð upphaflegu erfðaskrárinnar né að önnur atriði ættu að leiða til þess að skipti á dánarbúi A skuli ekki reist á hinni sameiginlegu erfðaskrá.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hver aðila látinn bera sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013.

                Mál þetta, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 22. janúar 2013, var tekið til úrskurðar 4. desember sl.

                Sóknaraðili er E, [...] í [...].

                Varnaraðilar eru C, [...] í [...] og D, [...] í [...].

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að erfðaskrá A, kt. [...], dagsett 18. mars 2008, verði metin ógild og að erfðaskrá sem hún og eiginmaður hennar, B, undirrituðu í viðurvist lögbókandans í Reykjavík 20. október 1986 verði lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi hennar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

                Dómkröfur varnaraðila eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og þeim verði dæmdur málskostnaður.

I

                A, sem fædd var [...] 1923, lést [...] 2012. Þegar hún lést sat hún í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, B, sem fæddur var [...] 1920 og lést [...] 2012. Þau hjónin eignuðust þrjú börn; sóknaraðila, E, og varnaraðila, C og D. Þann 20. október 1986 gerðu þau hjónin sameiginlega erfðaskrá. Í meginmáli hennar eru meðal annars eftirfarandi ákvæði:

1. gr.

Það er sameiginleg ósk okkar og vilji, að það okkar, sem lengur lifir, skuli hafa heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum okkar, hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða, sbr. 1. gr. l. nr. 29/1985 um breyting á erfðalögum nr. 8/1962.

3. gr.

Erfðaskrá þessi fellur úr gildi:

a)       ef við skiljum að borði og sæng eða lögskilnaði,

b)       ef það okkar sem lengur lifir gengur í hjónaband að nýju.

4. gr.

Langlífara má ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum þeim, er það fær með erfðaskrá þessari, þannig að í bága komi við réttindi barna okkar eða niðja þeirra.

5. gr.

Erfðaskrá þessari getur hvorugt okkar breytt eða afturkallað án samþykkis hins.

6. gr.

Eftir andlát langlífara skulu eignir okkar skiptast að jöfnu milli barna okkar eða niðja þeirra.

7. gr.

Í hlut sonar okkar E skulu koma hlutabréf okkar í F h.f. Verði ekki um jöfn skipti að ræða milli barna okkar eða niðja þeirra vegna þessa ákvæðis, skal E greiða öðrum lögerfingjum muninn skv. samkomulagi, en ella skv. mati 2ja óvilhallra manna, sem tilnefndir skulu af borgardómi Reykjavíkur.

                Þann 21. nóvember 2001 undirrituðu þau hjónin, A og B, viðbótarerfðaskrá við erfðaskrá sína frá 20. október 1986 þar sem fram kom að arfur sem félli til niðja þeirra skyldi undanþeginn aðför skuldheimtumanna.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2007 var B sviptur fjárræði vegna heilabilunar. Í kjölfar þess, 10. október 2007, var Garðar Valdimarsson hæstaréttarlögmaður skipaður lögráðamaður hans.

                Þann 18. mars 2008 gerði A nýja erfðaskrá. Í henni er meðal annars að finna eftirfarandi ákvæði:

1. gr.

Það er vilji minn með vísan til heimildar í 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að börn mín þau, Ingigerður D og C, erfi, auk lögmælts erfðahluta þeirra eftir mig, 1/3 hluta allra þeirra eigna sem ég læt eftir mig.

4. gr.

Með erfðaskrá þessari falla úr gildi allar eldri erfðaskrár mínar.

                Samdægurs tilkynnti A skipuðum lögráðamanni B um afturköllun erfðaskrárinnar frá 20. október 1986 fyrir sitt leyti og gerð nýrrar erfðaskrár, með vísan til 2. mgr. 48. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Jafnframt var sýslumanninum í Reykjavík tilkynnt um afturköllunina og þess óskað að hún yrði færð inn í bækur sýslumannsembættisins.

                Dánarbú A var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2012 og var Helgi Birgisson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri. Með bréfi sem móttekið var 22. janúar 2013 vísaði skiptastjóri ágreiningi málsaðila um gildi erfðaskrár A frá 18. mars 2008 til héraðsdóms þar sem ekki hafði náðst samkomulag milli aðila á skiptafundi, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

                Við aðalmeðferð málsins gaf sóknaraðili skýrslu, svo og vitnin G, dóttir sóknaraðila, Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður og Þóra Björg Jónsdóttir héraðsdómslögmaður.

II

                Krafa sóknaraðila um að erfðaskrá A, dags. 18. mars 2008, verði metin ógild er á því reist að A hafi verið óheimilt að afturkalla sameiginlegu erfðaskrána frá 20. október 1986 fyrir sitt leyti, án samþykkis B. Síðargreinda erfðaskráin hafi verið í gildi í meira en 20 ár án þess að því væri nokkru sinni hreyft við B svo vitað sé að A vildi afturkalla hana eða breyta henni á nokkurn hátt. Sóknaraðili telji að eftir að B hafi misst andlega færni til að taka afstöðu til slíkra hugmynda hafi enginn verið bær til að heimila fyrir hans hönd afturköllun á sameiginlegum ákvæðum í erfðaskránni. Eftir því muni heldur ekki hafa verið leitað, enda hafi lögráðamanni B ekki verið gert viðvart um tiltækið fyrr en eftir að A hafði gert erfðaskrána 18. mars 2008.

                Ákvæði 3. gr. erfðaskrárinnar frá 20. október 1986 um það við hvaða atvik erfðaskráin geti fallið úr gildi og ákvæði 5. gr. hennar um að hvorugt hjónanna geti breytt eða afturkallað hana án samþykkis hins leiði til þeirrar niðurstöðu að einhliða ákvörðun A um að afturkalla hana „... hvað mig varðar ...“ eins og það sé orðað í erfðaskrá hennar 18. mars 2008 teljist hafa verið henni óheimil. Sá heimildarskortur valdi því að erfðaskrá hennar teljist ógild. Jafnframt sé ljóst að ákvæði 1. gr. erfðaskrárinnar frá 18. mars 2008 um aukinn arfshlut varnaraðila, sem vitaskuld sé á kostnað sóknaraðila, fara í bága við bindandi ákvæði 6. gr. erfðaskrárinnar frá 20. október 1986 og séu af sömu ástæðu óheimil og ógild. Af því leiði að taka beri til greina kröfu sóknaraðila um að sameiginleg erfðaskrá hjónanna frá 20. október 1986 verði lögð til grundvallar skiptum á dánarbúinu.

                Í bréfi til skiptastjóra dánarbús A 1. nóvember 2012 hafi lögmaður varnaraðila gefið „skýringu“ á ástæðum þess að A hafi ákveðið að gera erfðaskrána 18. mars 2008. Segi þar að sóknaraðili hafi fengið „mun stærri hlut en systkini hans, í fyrirtækinu F“ og A hafi viljað bæta varnaraðilum það. Af hálfu sóknaraðila sé bent á að ekkert í þessa veru komi fram í erfðaskránni eða gögnum sem stafi frá A sjálfri. Þessari staðhæfingu sé mótmælt sem rangri og ósannaðri. Sóknaraðili telji að þessi staðhæfing geti í besta falli skoðast sem einhvers konar misskilningur. Allt hlutafé í F hf. hafi verið selt um mitt ár 2007 og allir hluthafar fengið sama verð fyrir sína hluti í félaginu. Sóknaraðili hafi vissulega átt meira hlutafé í félaginu en varnaraðilar, en það hafi stafað af því að hann hafi eignast hlutafé í því með því að taka þátt í fjármögnun þess á árinu 2004, á tíma þegar reksturinn hafi gengið illa og félagið hafi þurft á auknu eigin fé að halda. Varnaraðilar hafi þá eins og aðrir hluthafar átt kost á því að taka þátt í því sama en kosið að standa utan við það. Sóknaraðili hafi unnið í áratugi við fyrirtækið ásamt föður sínum, [...]. Varnaraðilar hafi hins vegar kosið sér annan starfsvettvang og hafi e.t.v. þess vegna ekki viljað taka áhættu af fjárfestingu í fyrirtækinu eins og sóknaraðili hafi gert. Hvað sem öðru líði sé á því byggt af hálfu sóknaraðila að þetta atriði, hvað A hafi haldið um þessa hluti eða talið sér heimilt að gera til að „jafna“ stöðu erfingjanna, hafi ekki heimilað henni einhliða afturköllun eða breytingu á hinni sameiginlegu erfðaskrá hennar og B frá 20. október 1986.

III

                Varnaraðilar benda á að B hafi, ásamt fleirum, stofnað fyrirtækið F hf. árið 1954. Með árunum hafi hann og fjölskyldan eignast stærsta hluta fyrirtækisins. B hafi gefið börnum sínum þremur, málsaðilum, hluti í fyrirtækinu. Sóknaraðili hafi þó í upphafi fengið mun stærri hlut en varnaraðilar, eða um 20%. Hlutur hans hafi síðar jafnan verið um 27%. Varnaraðilar hafi hins vegar hvort um sig einungis fengið tæplega 4,5%. Hlutur föður þeirra hafi verið 31,5% og hlutur móður þeirra um 22%. Sá hlutur sem eftir hafi staðið hafi dreifst á nokkra aðila. Hlutföllin hafi haldist með þessum hætti um árabil. Þótt sóknaraðili hefði fengið stærri hlutdeild í fyrirtækinu hafi faðir þeirra alla tíð lagt áherslu á að sú regla yrði höfð í heiðri að gæta skyldi að því að hlutir fjölskyldumeðlima í fyrirtækinu héldust óskertir.

                Á meðan F hf. hafi að mestu verið í eigu fjölskyldunnar hafi arðgreiðslur verið í lágmarki. Hins vegar hafi miklir fjármunir verið teknir út úr félaginu í þágu fjölskyldunnar, einkum hjónanna B og A og sóknaraðila og fjölskyldu hans. Alþekkt sé að sóknaraðili og fyrrverandi eiginkona hans hafi borist mikið á og haft mikið umleikis. Þau hafi byggt sér glæsihús á sjávarlóð í [...], fest kaup á bújörð á [...] og eignast sumarbústað við [...]. Varnaraðilar hafi aldrei haft fjármuni til ráðstöfunar í neinni líkingu við það sem sóknaraðili hafi haft.

                B hafi látið af störfum sem forstjóri F hf. 1. mars 1998. Við starfslokin hafi hann gert starfslokasamning við fyrirtækið, dags. 11. febrúar 1998, þess efnis að hann fengi full laun frá félaginu til æviloka, 384.048 krónur á mánuði, auk ýmissa annarra hlunninda. Þá hafi verið tekið fram í starfslokasamningnum að ef A lifði mann sinn fengi hún sömu laun og hlunnindi og B hefði notið. Undir þennan samning rituðu stjórn F hf. og B og A.

                Eftir að B hafi sleppt hendinni af rekstri fyrirtækisins og sóknaraðili og börn hans, J yngri og G yngri, hafi tekið við rekstrinum hafi farið að halla undan fæti. Frá árinu 2001 hafi verið töluverður hallarekstur. Tap fyrirtækisins hafi þannig numið 286 milljónum króna á árinu 2001 og 61,9 milljónum króna á árinu 2002. Virðist varnaraðilum sem sóknaraðili og börn hans hafi keyrt fyrirtækið nánast í þrot á örfáum árum eftir að B eldri hafi ekki lengur notið við.

                Sumarið 2002 hafi félagið H veitt F hf. víkjandi lán (lán með breytirétti). Þann 20. desember 2002 hafi lögmaður H tilkynnt að félagið vildi breyta láninu í hlutafé í félaginu. Hlutur H í félaginu hafi eftir breytinguna orðið 16,7% af heildarhlutafé þess. Við þetta hafi eignarhlutir allra annarra hluthafa rýrnað. B hafi þá orðið eigandi 24,9% hlutafjár, sóknaraðili 21,2% hlutafjár en A 16,7% hlutafjár.

                Viðvarandi hallarekstur á árunum 2001 til 2004 hafi leitt til þess að með bréfi, dags. 26. janúar 2004, hafi sóknaraðili lagt til að F hf. tæki annað víkjandi lán. Í bréfinu hafi komið fram að I ehf., sem hafi verið einkahlutafélag í eigu sóknaraðila, J yngri og G yngri, hefði boðist til að lána félaginu 160 milljónir króna, gegn því að sá hlutur yrði 40% af heildarhlutafé félagsins, yrði láninu breytt í hlutafé. Þá hafi komið fram í bréfinu að fyrir lægi mat Deloitte & Touche á félaginu. Samkvæmt því mati hafi heildarvirði félagsins átt að vera á bilinu 419 til 461 milljón króna. Í bréfinu hafi verið lagt til að miðað yrði við að virði félagsins við lánveitinguna yrði 400 milljónir króna. Þetta upplegg hafi falið í sér að I ehf. hafi hvenær sem var getað breytt láninu í hlutafé á genginu 46,31 og eignast með því 40% af heildarhlutafé félagsins. Það hafi I ehf. gert á árinu 2005.

                Hluthöfum félagsins, þ. á m. varnaraðilum, hafi einungis verið veittur sjö daga frestur til að svara bréfinu. Svo hafi farið að tillagan hafi verið samþykkt. Varnaraðilar hafi hins vegar haft afar takmarkaðar upplýsingar um raunverulega stöðu fyrirtækisins. Verður að telja að mat á virði félagsins á árinu 2004 hafi verið óeðlilega lágt í ljósi þess að félagið hafi skilað hagnaði upp á 116,5 milljónir króna á því ári og eignir þess hafi numið tæpum tveimur milljörðum króna. Þá hafi matið verið fráleitt þegar litið sé til þess að félagið hafi verið selt á tífalt hærra verði einungis þremur árum síðar.

                Andleg heilsa B hafi skerst við heilablóðfall árið 2001. Í greinargerð Jóns Snædal yfirlæknis á öldrunarlækningadeild Landspítalans, dags. 24. september 2007, komi fram að skerðingin hafi einkum falist í tvennu, frumkvæði og framkvæmdasemi hafi orðið minni og hann hafi áttað sig verr á aðstæðum sínum. Heilsu B hafi farið aftur á næstu árum og árið 2005 hafi verið staðfest að hann væri með töluverða heilabilun. Andlegri heilsu hans hafi enn hrakað þegar komið hafi verið fram á árið 2007 og hafi hann meðal annars ekki alltaf þekkt eiginkonu sína. Sóknaraðili hafi alfarið séð um fjármál foreldra sinna frá árinu 2001. Á þeim tíma er F hf. hafi tekið framangreint víkjandi lán hafi B verið ófær um að taka ákvarðanir eða skilja eðli ráðstafana af þessu tagi. Þeim B og A virðist hafa verið sent bréf um fyrirhugaða lánveitingu, en A muni síðar ekki hafa kannast við það að málið hafi verið rætt við sig eða að sér hafi verið skýrt frá því hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir eignastöðu þeirra hjóna.

                Með framangreindum lögskiptum hafi sóknaraðili og börn hans eignast 40% í félaginu í gegnum I ehf., til viðbótar við eignarhluta sóknaraðila. Um leið hafi eignarhlutur annarra fjölskyldumeðlima rýrnað, bæði varnaraðila sem og B og A, um nær helming. Eftir veitingu lánsins hafi B einungis verið eigandi 14,92% hlutafjár í stað 28%, A hafi átt 10,53% í stað 20% og hlutur varnaraðila hvors um sig hafi orðið 2,32% í stað 4,5%. Eftir þessar sviptingar hafi sóknaraðili og aðilar honum tengdir verið orðnir eigendur tæplega 53% hlutafjár í félaginu. Ljóst sé að við hlutafjáraukninguna sem hafi þannig átt sér stað hafi ekki verið gætt hagsmuna þeirra B og A, né þeirrar grundvallarreglu sem þau hafi alla tíð haft í heiðri um að hlutir fjölskyldumeðlima í félaginu héldust óskertir.

                Í júlí 2007 hafi F hf. verið selt. Varnaraðilar og móðir þeirra hafi ekkert frétt af fyrirhuguðum áformum um sölu fyrr en sunnudaginn 15. og mánudaginn 16. júlí en kaupsamningurinn um félagið sé dagsettur 18. júlí. Vegna sumarleyfa og vinnu úti á landi hafi ekkert þeirra verið statt í Reykjavík á þessum tíma. Sóknaraðili og börn hans hafi hringt í varnaraðila og móður þeirra og krafist þess að þau gæfu samþykki sitt og umboð samdægurs, ella fengju þau ekkert fyrir sín bréf. Hvorki varnaraðilar né móðir þeirra hafi fengið að sjá sjálfan samninginn fyrr en eftir að gengið hafði verið frá kaupunum. Muni A oft hafa rætt það þann tíma sem hún hafi átt ólifað hvað henni hefði þótt þessi tímapressa óþægileg, einkum vegna þess að hún hafi ekki getað ráðfært sig við neinn.

                B hafi á þessum tíma verið vistaður á lokaðri heilabilunardeild Landakotsspítala. Þann 16. júlí 2007 hafi sóknaraðili og sonur hans, J yngri, farið þangað. Að þeirra áeggjan hafi B eldri skrifað undir umboð til handa J yngri til að selja öll hlutabréf sín í F hf. Í umboðinu hafi einnig falist heimild til handa J yngri til að fella úr gildi eftirlaunasamning B eldri við F hf. Af sama tilefni hafi A veitt J yngri umboð til sölu hlutabréfanna, en þar sé ekki minnst á eftirlaunasamninginn. A hafi ekki verið upplýst um ógildingu eftirlaunasamningsins fyrr en allt hafi verið um garð gengið. Muni hún hafa reiðst mjög yfir því að gengið hefði verið svo freklega á hlut þeirra B.

                Þegar varnaraðila, C, hafi verið greint frá fyrirhugaðri sölu F hf. hafi hann farið fram á það við sóknaraðila að honum yrði, í félagi við varnaraðila, D, og móður þeirra, gert kleift að kaupa [...], sumarhús að [...] í [...] við [...]. Sóknaraðili muni hafa tjáð varnaraðila, C, að hann myndi kanna möguleikann á því. Í kaupsamningnum um F hf. komi hins vegar fram undir ákvæðinu „Ráðstafanir heimilar seljendum“ að gefa ætti út afsal til handa G fyrir sumarhúsi í eigu félagsins í [...], án greiðslu. Þessi gerð hafi ekki verið borin undir stjórnarfund og ekki hafi verið aflað samþykkis A eldri, varnaraðila eða annarra hluthafa svo vitað sé. Sóknaraðili hafi tilkynnt varnaraðilum og móður sinni að þeim stæði til boða að kaupa eignina af G yngri. Varnaraðilar og móðir þeirra hafi verið ósátt við þessa tilhögun og talið að verið væri að hygla G yngri umfram þau og aðra hluthafa.

                Eftir þetta muni A hafa talið augljóst að sóknaraðili, sem hafi farið með fjármál þeirra B, gætti ekki hagsmuna þeirra svo sem eðlilegt væri. Auk þess hafi henni sárnað mjög að hann skyldi ekki hafa haft hana á nokkurn hátt með í ráðum eða upplýst hana um ráðstöfun eigna þeirra. A hafi ítrekað rætt þessi mál við varnaraðila og tengdadóttur sína. Í framhaldi af því hafi A ákveðið að óska eftir því að B yrði sviptur fjárræði. Sóknaraðili muni hafa orðið æfur við móður sína vegna þeirrar ákvörðunar og þess að hún hefði tekið fjármál þeirra úr höndum hans. Hann hafi lokað á öll samskipti við hana og varnaraðila. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2007, hafi sóknaraðili krafist þess að Garðari Valdimarssyni hæstaréttarlögmanni yrði vikið úr starfi fjárhaldsmanns B. Garðar hafi svarað bréfinu 5. desember 2007. Sýslumaður hafi hafnað framangreindri kröfu sóknaraðila.

                Eftir að B hafi verið sviptur fjárræði hafi A farið að setja sig inn í ýmsa hluti varðandi fjármál þeirra sem hún hafi ekki gert eða kosið að gera áður. A hafi að sögn verið skarpgreind kona, sem hafi áhuga á þessum málum, og muni þessi þátttaka hennar hafa eflt sjálfstraust hennar til muna. A muni hafa rætt við Garðar Valdimarsson hæstaréttarlögmann um eftirlaunasamninginn og um möguleg viðbrögð sín, meðal annars hvort ástæða væri til að höfða misneytingarmál á hendur sóknaraðila og syni hans. Garðar Valdimarsson hafi sent G yngri, sem þá hafi verið forstjóri F hf., bréf, dags. 12. nóvember 2007, þar sem fram hafi komið sú afstaða C að afsalið á umræddum eftirlaunasamningi væri ógilt og hefði falið í sér misneytingu samkvæmt ákvæði 31. gr. samningalaga nr. 7/1936. G eldri hafi hins vegar ákveðið fyrir sitt leyti að hún vildi ekki aðhafast frekar, enda hafi hún verið sannfærð um að B eldri hefði aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, höfðað mál gegn sonarsyni sínum og nafna.

                Eftir framangreindar sviptingar muni A hafa talið að forsendur fyrir sameiginlegri erfðaskrá þeirra B væru brostnar með öllu. Hún hafi því gert nýja erfðaskrá í mars 2008 og afturkallað sameiginlegu erfðaskrána fyrir sitt leyti. Fjárhaldsmaður B hafi tekið við tilkynningu um þetta og ekki gert neinar athugasemdir. Meginástæða fyrir þessari breytingu muni hafa verið sú að A hafi viljað bæta börnum sínum, varnaraðilum, það ójafnræði sem hún hafi talið þau hafa sætt bæði vegna upphaflegs ójafnvægis í eignahlutföllum og aðstöðumunar í F hf. og eignabreytinga í félaginu.

                Varnaraðilar hafi fengið fyrirframgreiddan arf í mars 2008 sem hafi numið 100.000.000 króna til hvors þeirra um sig. Með gjafaafsali 23. mars 2012 hafi A gefið varnaraðilum fasteignina [...] og landspildu úr jörðinni [...] í [...]. Varnaraðilar eigi eignirnar að jöfnu, 50% hvort. Rökin fyrir þessu gjafaafsali hafi verið þau sömu og fyrir ráðstöfuninni þeim til hagsbóta í erfðaskránni á árinu 2008.

                Varnaraðilar krefjist þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Gagnkvæmar erfðaskrár eigi að endurspegla gagnkvæman vilja þeirra sem standi að slíkum gerningum. Sá sameiginlegi vilji ráðist af forsendum sem snerti báða arfleifendur sameiginlega með einum eða öðrum hætti. Af þeim sökum sé ljóst að forsendur arfleifenda fyrir gagnkvæmum erfðaskrám skipti miklu máli. Bresti forsenda annars arfleifandans leiði það að jafnaði til þess að forsendur teljist brostnar fyrir hinni gagnkvæmu erfðaskrá í heild sinni. Það sé jafnframt meginregla erfðaréttar að arfleifanda sé heimilt að breyta, auka við eða afturkalla erfðaskrá sem hann hafi gert. Meginreglan við gagnkvæmar erfðaskrár sé sú að tilkynna þurfi hinum aðilanum um afturköllun hennar, sbr. 2. málslið 2. mgr. 48. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

                Í fyrsta lagi telji varnaraðilar ljóst og óumdeilt að fjárhaldsmanni B hafi verið tilkynnt um afturköllun hinnar gagnkvæmu erfðaskrár. Hann hafi engar athugasemdir gert við afturköllunina. Beri því að líta svo á að hann hafi fyrir hönd B samþykkt afturköllunina í verki, eða a.m.k. ekki gert við hana athugasemdir. Afturköllunin sé því gild að lögum.

                Í öðru lagi telji varnaraðilar óheimilt að binda arfleifendur í erfðaskrá með þeim hætti sem gert hafi verið í hinni gagnkvæmu erfðaskrá. Þótt arfleifandi geti skuldbindið sig með yfirlýsingu þess efnis að gera ekki erfðaskrá eða taka ekki aftur eða breyta erfðaskrá, sbr. 49. gr. erfðalaga, gildi ákvæðið einungis gagnvart „erfingja“ arfleifandans „eða öðrum aðilja“. Þá gildi ákvæðið einungis um erfðaskrá sem arfleifandi „hefur þegar gert“. Samkvæmt þessu sé ljóst annars vegar að ekki sé hægt að hafa ákvæði sem þetta inni í erfðaskrá frá öndverðu og hins vegar að ákvæðið geti ekki tekið til þess þegar arfleifendur geri gagnkvæma erfðaskrá. Ef 49. gr. hefði átt að taka til þess þegar arfleifendur geri gagnkvæma erfðaskrá hefði verið eðlilegt að vísa til „meðarfleifanda“ í texta sjálfrar 49. gr., þar sem gagnaðili að gagnkvæmri erfðaskrá geti hvorki verið „erfingi“ né „annar aðili“. Það sé því ljóst að A hafi verið nægjanlegt að tilkynna um afturköllun erfðaskrárinnar, í samræmi við meginreglu 2. málsliðar 2. mgr. 48. gr. erfðalaga. Þannig sé enda ekki gert ráð fyrir því í ákvæðinu að annars konar aðferðir geti komið til greina.

                Í þriðja lagi telji varnaraðilar að líta verði til þess að Garðar Valdimarsson hæstaréttarlögmaður hafi einungis verið skipaður lögráðamaður B að því er fjárræði varði. Hann hafi því ekki getað ráðið öðru en fé B, sbr. 3. gr. laga nr. 71/1997. B hafi því enn verið sjálfráða og haft arfleiðsluhæfi. Það sé hins vegar ljóst að B hafi verið með heilabilun á háu stigi, verulega skerta andlega færni og hefði aldrei skilið eðli þeirrar ráðstöfunar sem um hafi rætt. Það hefði því verið óforsvaranlegt af hálfu A að láta B samþykkja slíka afturköllun. Að B lifandi hafi það ekki getað bundið hendur hennar og heimildir til afturköllunar með sama hætti og hefði hann verið látinn.

                Í fjórða lagi telji varnaraðilar að umrædd erfðaskrá hafi í raun verið ógild og að vettugi virðandi vegna brostinna forsendna. Í 6. gr. erfðaskrárinnar komi fram að eftir andlát B og A hafi eignir þeirra átt að skiptast að jöfnu milli barna þeirra. Ef ekki yrði um jöfn skipti á milli þeirra að ræða vegna þess að hlutabréf í F hf. hafi átt að koma í hlut sóknaraðila myndi hann greiða varnaraðilum muninn. Að mati varnaraðila sé ljóst að það hafi verið grundvallarforsenda erfðaskrárinnar að börn B og A myndu njóta jafnrar hlutdeildar í veraldlegum eigum þeirra að þeim látnum. Í lifanda lífi hafi hjónunum enda verið mikið í mun að börnum þeirra væri ekki mismunað. Þannig hafi það verið ófrávíkjanleg regla B að gæta skyldi hagsmuna allra fjölskyldumeðlima að því er varðaði eignarhald F hf. Það hafi verið skýr forsenda B fyrir því að afsala sóknaraðila stærri hlut í fyrirtækinu en hinum systkinunum og fela honum stjórn og forræði félagsins að hann gætti ávallt hagsmuna foreldra sinna og systkina. B muni hafa lagt mikla áherslu á samheldni innan fjölskyldunnar. A muni að sögn alla tíð hafa verið ósammála B um þennan upphaflega mismun milli systkinanna en hafi getað réttlætt hann fyrir sjálfri sér á þessum forsendum B og með þeim skilyrðum sem hann hafi sett.

                Þegar A hafi afturkallað erfðaskrána frá 1986 á árinu 2008, eða 22 árum síðar, hafi „sviðsmyndin“ verið gjörbreytt. Þannig hafi gríðarleg tilfærsla átt sér stað með eign fjölskyldunnar í F hf., til hagsbóta fyrir sóknaraðila og börn hans. Um hafi verið að ræða gerninga sem beinlínis hafi rýrt hag varnaraðila og foreldra þeirra. A muni hafa verið afar ósátt við þessa þróun mála og viljað kappkosta að ná þeim jöfnuði með börnum þeirra B sem að hafi verið stefnt með erfðagerningnum frá 1986. Hún hafi verið þess fullviss að hefði B haldið andlegu atgervi sínu hefði hann aldrei samþykkt framangreindar ráðstafanir og tilfærslur. Í ljósi alls framangreinds sé ljóst að A hafi talið að hin gagnkvæma erfðaskrá endurspeglaði ekki lengur þann vilja þeirra hjóna sem hafi verið forsenda erfðaskrárinnar og alls ekki hinsta vilja hennar sjálfrar. Forsendur fyrir henni hafi því brostið.

                Í fimmta lagi sé ljóst að afturköllun erfðaskrárinnar hafi engin áhrif haft á arf sóknaraðila eftir föður sinn. Þannig hafi erfðaskráin frá árinu 2008 einungis að geyma hinsta vilja A eldri. Á þeim tíma hafi B enn verið á lífi og alls óvíst hvort þeirra lifði hitt. Það sé því ljóst að umrædd afturköllun erfðaskrárinnar og gerð hinnar nýju erfðaskrár í kjölfarið hafi einungis haft áhrif á hlutdeild sóknaraðila í arfshluta móður sinnar. Undir þeim kringumstæðum sé það óeðlileg niðurstaða að hún fái ekki notið þeirrar heimildar erfðalaga sem mælt sé fyrir um í 35. gr. þeirra.

                Ef svo ólíklega færi að ekki yrði fallist á neinar framangreindar málsástæður, krefjist varnaraðilar þess í sjötta lagi að dómurinn neyti heimildar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og víki til hliðar því ákvæði í erfðaskránni frá árinu 1986 sem áskilji samþykki beggja fyrir afturköllun hennar. Varnaraðilar telji að með hliðsjón af öllu framangreindu og þegar litið sé til efnis erfðaskrárinnar, þeirrar staðreyndar að B hafi þjáðst af heilabilun og atvika sem hafi átt sér stað eftir gerð erfðaskrárinnar árið 1986 sé ósanngjarnt af hálfu sóknaraðila að bera fyrir sig umrætt ákvæði erfðaskrárinnar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Standi ákvæðið óbreytt samkvæmt orðanna hljóðan sé ljóst að A hafi ekki haft nein ráð til þess að breyta erfðaskránni, svipt þeim grundvallarréttindum að geta ráðstafað eignum sínum á grundvelli arfleiðsluhæfis og þar af leiðandi setið uppi með gagnkvæm erfðafyrirmæli sem sannanlega hafi ekki falið í sér hinsta vilja hennar. Það sé meginregla erfðaréttar að arfleifanda eigi alltaf að vera heimilt að breyta, auka við eða afturkalla erfðaskrá sem hann hafi gert. Þá sé það meginregla við túlkun og skýringu erfðaskrár að lögð sé megináhersla á vilja arfleifanda, enda geymi erfðaskrá hinsta vilja hans. Sú meginregla sé enn mikilvægari í tilviki gagnkvæmra erfðaskráa, þar sem slíkir gerningar eigi að endurspegla sameiginlegan vilja arfleifenda. Síðast en ekki síst verði að horfa til þess að hin sameiginlega erfðaskrá hafi verið nærfellt aldarfjórðungsgömul og allar forsendur fyrir henni gjörbreyttar.

                Um lagarök vísist til erfðalaga nr. 8/1962 og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. laganna. Þá vísist til meginreglu samningaréttar og erfðaréttar um brostnar forsendur. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Málsaðilar deila um það hvort A hafi verið heimilt að afturkalla fyrir sitt leyti sameiginlega erfðaskrá sína og eiginmanns síns, B, og gera nýja erfðaskrá.

                Í sameiginlegri erfðaskrá A og B frá 20. október 1986 er meðal annars mælt fyrir um heimild þess langlífara til að sitja í óskiptu búi með niðjum þeirra. Í henni segir að eftir andlát þess langlífara skuli eignir þeirra skiptast að jöfnu á milli barna þeirra, eða niðja þeirra. Þá er gert ráð fyrir því að sóknaraðili eignist hlutabréf þeirra hjóna í F hf., en leiði þetta til ójafnra skipta skuli hann greiða öðrum lögerfingjum muninn. Þá kemur fram í erfðaskránni að hvorugt hjónanna geti breytt eða afturkallað erfðaskrána án samþykkis hins.

                Þann 18. mars 2008 gerði A nýja erfðaskrá þar sem fram kemur að varnaraðilar skuli erfa þriðjung eigna hennar, auk lögmælts erfðahluta þeirra eftir hana, sbr. heimild í 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962, og að með þeirri erfðaskrá falli eldri erfðaskrár hennar úr gildi.

                Við gerð nýju erfðaskrárinnar á árinu 2008 var B ennþá á lífi. Hann hafði verið sviptur fjárræði á árinu 2007 og honum skipaður lögráðamaður. A tilkynnti lögráðamanninum um afturköllun erfðaskrárinnar frá árinu 1986 og gerð nýrrar erfðaskrár samdægurs. Fjárræði er ekki skilyrði þess að mega ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá. Hins vegar er ágreiningslaust með aðilum að B hafi á þeim tíma er A gerði nýju erfðaskrána ekki verið svo heill heilsu andlega að hann gæti ráðstafað hagsmunum sínum á skynsamlegan hátt.

                Það er meginregla í erfðarétti að arfleifandi hefur heimild til að afturkalla erfðaskrá sína, breyta henni eða bæta að vild. Í sameiginlegri erfðaskrá sinni skuldbundu þau hjónin, A og B, sig hins vegar til að breyta ekki eða afturkalla erfðaskrána án samþykkis hins. Samkvæmt reglum erfðaréttar er heimilt að skuldbinda sig til að hlíta tiltekinni erfðaheimild, sbr. 49. gr. erfðalaga, en þar segir að arfleifandi geti skuldbundið sig gagnvart erfingja sínum eða öðrum aðila með yfirlýsingu um að gera ekki erfðaskrá eða taka ekki aftur eða breyta erfðaskrá, sem hann hefur þegar gert. Ef erfðaskrá er andstæð slíkum samningi veldur það ógildingu hennar, ef erfingi rengir hana.

                Samkvæm 2. mgr. 48. gr. erfðalaga er afturköllun sameiginlegrar eða gagnkvæmrar erfðaskrár aðeins gild að hún sé gerð kunn hinum aðilanum, nema því eins að slíkt sé ekki unnt vegna sérstakra ástæðna. Við skýringu á þessu ákvæði er til þess að líta að sameiginleg eða gagnkvæm erfðaskrá þarf ekki að innihalda ákvæði um hvernig farið skuli með afturköllun erfðaskrárinnar. Verður að telja að ákvæðinu sé ætlað að mæla fyrir um afturköllun í slíkum tilvikum. Verður því að líta svo á að með framangreindu ákvæði í sameiginlegri erfðaskrá þeirra hjóna, A og B, hafi verið girt fyrir það að annað þeirra gæti síðar breytt eða afturkallað erfðaskrána einhliða. Gildir það jafnt þótt einungis hafi verið um arfshlut eftir annað þeirra að ræða. Hefur það ekki áhrif á þessa niðurstöðu að B hafi enn verið á lífi, en skertur andlegu hæfi, þegar A afturkallaði erfðaskrána. Þá getur tilkynning til lögráðamanns ekki skoðast sem samþykki B á afturköllun erfðaskrárinnar.

                Varnaraðilar byggja á því að um forsendubrest fyrir sameiginlegu erfðaskránni hafi verið að ræða. Aðstæður hafi verið allt aðrar árið 2008 en þegar sameiginlega erfðaskráin hafi verið undirrituð árið 1986. Með nýrri erfðaskrá hafi A verið að leitast við að jafna hlut barna sinna. Um það sem valdið hafi þessum forsendubresti er einkum vísað til þeirra atvika sem urðu á árinu 2004 er félagið I ehf. sem var í eigu sóknaraðila og barna hans, veitti F hf., víkjandi lán og varð í kjölfarið eigandi 40% hlutar í F hf., sem rýrði hlut annarra hluthafa. Þá er einnig vísað til óánægju A vegna niðurfellingar á eftirlaunasamningi B við F hf. og meðferð sóknaraðila á fjármunum þeirra hjóna.

                Sóknaraðili kom fyrir dóminn og skýrði frá því að þau systkinin hefðu öll fengið hlut í fyrirtækinu F hf. frá foreldrum sínum. Hann hafi fengið 5% en varnaraðilar 4,5% hvort. Hann hafi síðar keypt 20% hlut [...]. Sóknaraðili neitaði því að hann hefði séð um fjármál föður síns frá árinu 2001. Gjaldkeri F hf. hafi séð um að greiða reikninga föður hans og dregið það af launum hans. Dóttir hans hafi séð um skattskýrslu fyrir hann. Þá kvaðst hann ekki vita um neinar eignir foreldra sinna erlendis. Hann kvað það alrangt að hann og börn hans hafi nær því keyrt fyrirtækið í þrot, en samdráttur í [...]sölu í kjölfar atvika 11. september 2001 hafi valdið erfiðleikum í rekstri. Þörf hafi verið á að auka hlutafé í fyrirtækinu, til að koma í veg fyrir rekstrarstöðvun. Öllum hluthöfum hafi staðið til boða að koma að þessu. Hann hafi hins vegar verið sá eini sem hafi verið tilbúinn til þess og hann hafi meðal annars gengist í persónulegar ábyrgðir vegna þessa. Um sölu fyrirtækisins á árinu 2007 skýrði hann svo frá að tilboðið hefði verið kynnt öðrum hluthöfum þegar það hefði borist. Hann hefði farið til móður sinnar og kynnt henni það. Aðrir hluthafar hafi ekki þurft að selja. Það hafi verið hluti kaupsamningsins að eftirlaunasamningur við föður hans félli niður, en vaninn væri í slíkum samningum að öllum skuldbindingum við fyrri hluthafa væri lokið. Fyrirtækið hafi verið selt á tæpa fjóra milljarða, en þar af hafi um einn milljarður komið í hlut foreldra hans. Ljóst sé að ávöxtun vegna þeirrar fjárhæðar hafi verið mun meiri en sem numið hafi þeim um það bil 650.000 krónum á mánuði sem faðir hans hafi fengið samkvæmt eftirlaunasamningnum. Þá kvað hann rangt að hann hefði að einhverju leyti fengið meira en varnaraðilar, en þau hefðu meðal annars verið á launum hjá fyrirtækinu án nokkurs vinnuframlags. Varnaraðilar hafi verið til skiptis í stjórn fyrirtækisins og varnaraðili, Ingigerður, hafi sótt hluthafafundi samkvæmt umboði frá móður þeirra. Þau hafi aldrei óskað eftir meiri upplýsingum varðandi rekstur fyrirtækisins.

                Vitnið G, dóttir sóknaraðila, greindi frá því að hún hefði séð um skattskýrslu afa síns, B. Hún hafi aldrei séð neinar upplýsingar um eignir erlendis. Hún kannaðist ekki við að faðir hennar hefði séð um fjármál foreldra sinna, en gjaldkeri F hf. hefði séð um að greiða reikninga. Hún kvaðst ekki kannast við samtal við ömmu sína sem varnaraðilar vísi til í aðilaskýrslu sinni. Hún lýsti því hvers vegna hefði komið til lántöku hjá F hf. á árinu 2004. Nánar spurð um hluthafafund vegna lántökunnar taldi hún að allir hluthafar hefði samþykkt að fundurinn yrði haldinn fyrr en upphaflega hefði verið áætlað.

                Vitnið Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður skýrði frá því að hún hefði hitt A í ársbyrjun 2008. A hafi beðið sig um að kanna réttarstöðuna í tengslum við niðurfellingu eftirlaunasamnings sem hefði verið felldur niður án aðkomu hennar og umboð eiginmanns síns til J yngri vegna sölu F hf. A hefði viljað afturkalla fyrri erfðaskrá og greiða varnaraðilum fyrir fram greiddan arf. Ástæður þess hafi einkum verið þær að hún hafi talið að sóknaraðili hefði fengið stærri hlut en varnaraðilar í F hf. og hún hafi viljað jafna hlut þeirra. Þá hafi hún sagt að B hefði sagt sér að þau ættu peningaeignir erlendis sem sóknaraðili hafi fengið umráð yfir, en sóknaraðili hafi síðan ekki kannast við þær. A hafi sagt sér að sóknaraðili hefði séð um fjármál B eftir heilablóðfall hans árið 2001. Hún taldi A hafa verið andlega skýra.

                Vitnið Þóra Björg Jónsdóttir héraðsdómslögmaður staðfesti að hafa aðstoðað Þórunni Guðmundsdóttur við frágang erfðaskrár A frá 2008. Hún hafi verið viðstödd undirritun hennar. A hafi tekið fram að efni hennar væri í samræmi við það sem um hafi verið rætt. Ekkert hafi verið að andlegu atgervi hennar. Þá hafi hún farið með tilkynningu til lögráðamanns B eftir undirritun erfðaskrárinnar.

                Í gögnum málsins er ekkert sem bendir til þess að fullyrðingar varnaraðila um aðkomu sóknaraðila að fjármálum föður síns eftir heilablóðfall hans árið 2001 eigi við rök að styðjast. Bæði hann og dóttir hans hafa hafnað því að hann hafi séð um fjármál föður síns og vísað til þess að gjaldkeri F hf. hafi séð um að greiða reikninga hans. Þá liggja engin gögn fyrir í málinu um að þau hjónin, A og B, hafi nokkru sinni átt eignir erlendis og er það því ósannað. Varðandi þá fullyrðingu að sóknaraðili hafi fengið stærri hlut í fyrirtækinu F hf. en varnaraðilar er til þess að líta að ekki verður annað séð en að B og A hafi upphaflega látið sóknaraðila fá lítillega stærri hlut í félaginu en varnaraðila. Sóknaraðili starfaði við fyrirtækið, en ekki varnaraðilar. Samkvæmt framlögðum kaupsamningi keypti hann hlut af föður sínum árið 1978. Við það eignaðist hann stærri hlut í félaginu en varnaraðilar. Sameiginleg erfðaskrá A og B var gerð árið 1986, en á þeim tíma lá fyrir að sóknaraðili átti stærri hlut í F hf. en varnaraðilar. Var það engu að síður vilji þeirra hjóna að sóknaraðili fengi alla þeirra hluti í fyrirtækinu við andlát þeirra, en gæta skyldi þó að því að eignir þeirra skiptust jafnt milli þeirra systkina. Þá er til þess að líta að á árinu 2001 staðfestu þau hjónin framangreinda erfðaskrá með því að gera viðbótarerfðaskrá við hana. Var það því enn á þeim tíma sameiginlegur vilji þeirra að eignum þeirra skyldi skipta jafnt niður á milli barna þeirra. Ekki þykir neitt fram komið um að óeðlilega hafi verið staðið að lánveitingu félags í eigu sóknaraðila og barna hans til F hf. á árinu 2004 eða að sóknaraðili hafi borið ábyrgð á slæmri fjárhagsstöðu félagsins. Þrátt fyrir að hlutur sóknaraðila í félaginu hafi aukist í kjölfarið er til þess að líta að hlutur hans var þegar orðinn meiri en varnaraðila áður en sameiginlega erfðaskráin var gerð. Þá tók sóknaraðili á sig skuldbindingar til fjármögnunar fyrirtækisins. Ágreiningslaust er að sala félagsins á árinu 2007 hafi verið hagstæð. Mikil verðmæti komu í stað eftirlaunasamnings þess sem felldur var niður og verður ekki talið að niðurfelling hans geti leitt til forsendubrests.

                Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á það að nokkuð hafi komið fram í málinu sem hafi valdið því að forsendur hinnar sameiginlegu erfðaskrár hafi brostið eða annað gerst til þess að leysa A undan ákvæðum hennar. Þá verður ekki talinn grundvöllur til þess að ógilda ákvæði erfðaskrárinnar, um að henni verði ekki breytt eða hún afturkölluð án samþykkis hins, með heimild í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

                Með hliðsjón af framansögðu, svo og dómi Hæstaréttar Íslands frá 27. apríl 2012 í málinu nr. 219/2012, er það niðurstaða dómsins að A hafi ekki verið heimilt að afturkalla ráðstafanir sem gerðar voru með sameiginlegri erfðaskrá hennar og eiginmanns hennar, B, 20. október 1986, með nýrri erfðaskrá 18. mars 2008. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að erfðaskráin frá 1986 verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi A.

                Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Við skipti á dánarbúi A, sem lést 2. júlí 2012, skal sameiginleg erfðaskrá hennar og eiginmanns hennar, B, frá 20. október 1986 lögð til grundvallar.

Málskostnaður fellur niður.