Hæstiréttur íslands
Mál nr. 672/2013
Lykilorð
- Skuldabréf
- Kyrrsetning
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 15. maí 2014. |
|
Nr. 672/2013.
|
Einar Þór Einarsson (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Arion banka hf. (Karl Óttar Pétursson hrl.) og gagnsök |
Skuldabréf. Kyrrsetning. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
E gaf út skuldabréf í desember 2006 til K hf. að fjárhæð 147.000.000 krónur. Í janúar 2008 undirrituðu E og starfsmaður K hf. yfirlýsingu þar sem fram kom að gerð væri skilmálabreyting á skuldabréfinu þannig að það yrði eftirleiðis í þremur erlendum myntum. Kom þar fram að höfuðstóll skuldarinnar á „myntbreytingardegi“ væri jafnvirði 53.869.038 króna. A hf. byggði á því að hann hefði eignast skuldabréfið er Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun í október 2008 um að ráðstafa tilteknum eignum K hf. til N hf., sem síðar varð A hf. Í júlí 2009 óskaði E eftir því við A hf. að eignarhaldi á eignsafni sem samningur milli hans og K hf. um eignastýringu tók til yrði breytt á þann veg að eiginkona E yrði jafnframt skráð eigandi að því. E og eiginkona hans tilkynntu A hf. í ágúst sama ár að þau segðu upp samningnum um eignastýringu og óskuðu eftir að féð yrði lagt inn á tiltekinn innlánsreikning á nafni eiginkonu E. Í kjölfarið krafðist A hf. þess að sýslumaður kyrrsetti eign E á eignarstýringarsafni hans hjá A hf. til tryggingar kröfu A hf. samkvæmt áðurgreindu skuldabréfi. Náði kyrrsetningin fram að ganga. Höfðaði A hf. mál gegn E til staðfestingar á kyrrsetningunni auk þess sem hann gerði kröfu um að viðurkennt yrði að A hf. ætti kröfu á hendur E samkvæmt skuldabréfinu. Á meðan mál A hf. gegn E var rekið fyrir héraðsdómi höfðaði eiginkona E mál gegn A hf. þar sem hún krafðist þess að A hf. yrði gert að greiða henni tiltekna fjárhæð sem svaraði til helmings andvirðis inneignar á eignastýringarsafninu. Með héraðsdómi, sem ekki var áfrýjað til Hæstaréttar, var krafa hennar tekin til greina. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 470/2010 var áðurgreindu máli A hf. á hendur E vísað frá héraðsdómi. A hf. höfðaði aftur mál gegn E og krafði E um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar auk þess sem hann krafðist staðfestingar á áðurnefndri kyrrsetningu. E tók til varna og höfðaði jafnframt gagnsök á hendur A hf. og krafði hann um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. Var krafa E reist á því annars vegar að A hf. hefði ranglega haldið frá sér fé sem A hf. hefði haft til eignastýringar í þágu E og hins vegar að A hf. hefði ekki átt tilkall til 11 greiðslna af skuld E samkvæmt skuldabréfinu þar sem réttindi samkvæmt því hefði ekki fallið til A hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins í október 2008. Í héraði var fallist á fjárkröfu A hf. og kyrrsetning staðfest, en A hf. var sýknaður af kröfu E. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að ógerlegt væri að sjá af málatilbúnaði A hf. í héraðsdómsstefnu hvernig hann teldi að finna mætti fjárhæð skuldar E með tilliti til upphaflegs höfuðstóls hennar samkvæmt skuldabréfinu, verðbóta, vaxta og innborgana. Þótt E hefði ítrekað undir rekstri málsins andmælt útreikningum A hf. á skuldinni hefði sá síðarnefndi ekki lagt fram viðhlítandi gögn til úrbóta. Var fjárkröfu A hf. því vísað frá héraðsdómi. Þá leiddi af því að svo færi um dómkröfu A hf. sem varðaði þau efnislegu réttindi sem kyrrsetningu hjá E var ætlað að tryggja, að kröfu A hf. um staðfestingu hennar var einnig vísað frá héraðsdómi. Að því er varðaði kröfu E um greiðslu þess fjár sem A hf. hafði haft í vörslum sínum til eignastýringar vísaði Hæstiréttur til þess að ekkert lægi fyrir í málinu til stuðnings því að féð hefði við uppsögn samningsins um eignastýringu verið háð tryggingarréttindum til handa A hf. Þá væri kyrrsetningin sem A hf. fékk gerða í þessari eign E endanlega fallin niður með dóminum, en að auki hefðu fjárnám sem A hf. hafði tvívegis fengið gerð í eigninni verið felld niður. Var A hf. því gert að greiða E þá fjárhæð sem hefði verið gjaldkræf þegar eftir uppsögn samningsins. Fjárkröfu E vegna þeirra 11 greiðslna af skuldabréfinu eftir október 2008 var á hinn bóginn hafnað þar sem kröfuréttindi K hf. samkvæmt skuldabréfinu voru talin hafa færst í hendur A hf. með áðurgreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 2. september 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. október 2013 og áfrýjaði hann öðru sinni 17. sama mánaðar. Tekur áfrýjun hans bæði til dóms Héraðsdóms Reykjaness 24. júlí 2013 í máli gagnáfrýjanda á hendur honum og úrskurðar dómsins 21. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu hans um að aðalsök í málinu yrði vísað frá dómi. Aðaláfrýjandi krefst þess aðallega að kröfum gagnáfrýjanda í aðalsök í héraði verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim, en að því frágengnu að fjárhæð greiðslukröfu gagnáfrýjanda verði lækkuð og hafnað kröfu hans um staðfestingu kyrrsetningar, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá aðaláfrýjanda 18. ágúst 2009. Einnig krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 52.967.388 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 10. nóvember 2008 til greiðsludags. Loks krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. janúar 2014. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Til vara krefst hann þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 53.696.804 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til greiðsludags og að staðfest verði kyrrsetning 18. ágúst 2009 í „eign aðaláfrýjanda á eignarstýringarsafni hans nr. B#470500 hjá gagnáfrýjanda“, svo og að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda í gagnsök í héraði. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að aðaláfrýjandi gaf út skuldabréf 15. desember 2006 til Kaupþings banka hf. að fjárhæð 147.000.000 krónur. Í skuldabréfinu, sem bar númerið 327-74-6222, var mælt fyrir um að fjárhæð skuldar aðaláfrýjanda yrði bundin vísitölu neysluverðs með tiltekinni grunntölu og skyldi hann greiða af skuldinni svokallaða breytilega kjörvexti með 0,75% álagi. Á fyrsta gjalddaga skuldabréfsins, 1. janúar 2008, átti aðaláfrýjandi að greiða 130.000.000 krónur af höfuðstól skuldarinnar „auk vaxta og verðbóta“, en upp frá því eftirstöðvar skuldarinnar ásamt vöxtum með 48 mánaðarlegum afborgunum. Í skuldabréfinu var ekki kveðið á um tryggingar fyrir greiðslu skuldarinnar.
Samkvæmt yfirliti frá bankanum, sem aðaláfrýjandi hefur lagt fram, voru greiddar samtals 105.853.094 krónur inn á framangreinda skuld hans í fimmtán áföngum á tímabilinu frá 10. janúar til 18. október 2007, þó svo að slíkar afborganir hafi ekki verið ráðgerðar eftir hljóðan skuldabréfsins. Gagnáfrýjandi hefur ekki í málatilbúnaði sínum fært fram sérstakar skýringar á þessum greiðslum, sem flestar voru auðkenndar sem „umframgr.“ á yfirlitinu. Aðaláfrýjandi hefur einnig lagt fram greiðsluseðil til sín frá Kaupþingi banka hf. vegna gjalddaga skuldabréfs með númerinu 6222 1. janúar 2008, en samkvæmt seðlinum var þetta sá fyrsti af 49 gjalddögum skuldabréfsins. Átti afborgun af nafnverði að nema 48.914.539 krónum og af verðbótum 2.885.976 krónum, en að viðbættum vöxtum að fjárhæð 1.003.993 krónur og 510 krónum vegna kostnaðar átti samtals að greiða 52.805.018 krónur á þessum gjalddaga. Á seðlinum kom fram að „eftirstöðvar með verðb. eftir greiðslu“ yrðu engar.
Aðaláfrýjandi undirritaði 25. janúar 2008 skjal á eyðublaði frá Kaupþingi banka hf. með yfirskriftinni „beiðni um skilmálabreytingu úr íslenskum krónum í erlendar myntir“. Þar kom fram að beiðnin sneri að skuldabréfi nr. 327-74-6222 og óskaði aðaláfrýjandi eftir að skilmálum þess yrði breytt „með þeim hætti að eftirstöðvar skuldarinnar miðist framvegis við erlendar myntir skv. neðangreindu“, sem yrði „breytileg myntkarfa ... USD 33% ... CHF 34% ... JPY 33%“. Á skjalinu voru reitir, sem voru ætlaðir bankanum til útfyllingar, en þar kom meðal annars fram að „höfuðstóll sem skal myntbreyta“ væri 53.869.038 krónur, vextir yrðu 4,35% á ári að viðbættu 1,1% álagi, gjalddagi höfuðstóls yrði einn, 10. febrúar 2009, en vaxta tólf, í fyrsta sinn 10. febrúar 2008. Þessi síðarnefndi hluti skjalsins var dagsettur 29. janúar 2008. Þann dag undirrituðu aðaláfrýjandi og starfsmaður Kaupþings banka hf. yfirlýsingu með fyrirsögninni „myntbreyting úr íslenskum krónum í erlendar myntir“, þar sem fram kom að gerð væri skilmálabreyting á skuldabréfi nr. 327-74-6222 að upphaflegri fjárhæð 147.000.000 krónur þannig að það yrði „erlent myntkörfulán með breytilegum vöxtum“. Ætti skuldin að verða „eftirleiðis í eftirtöldum erlendum myntum: USD % hlutfall af lánsfjárhæð 33 ... CHF % hlutfall af lánsfjárhæð 34 ... JPY % hlutfall af lánsfjárhæð 33“. Neðan við undirskrift aðaláfrýjanda á yfirlýsingunni var reitur undir yfirskriftinni „útfyllist af starfsmanni bankans við myntbreytingu“, þar sem sagði að höfuðstóll skuldarinnar á „myntbreytingardegi“ væri jafnvirði 53.869.038 króna.
Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda er vísað til þess að Fjármálaeftirlitið hafi 21. sama mánaðar tekið ákvörðun um að ráðstafa tilteknum eignum og skuldbindingum Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú ber heiti gagnáfrýjanda, og kveðst hann með þessu hafa eignast fyrrgreint skuldabréf.
Aðaláfrýjandi undirritaði 31. mars 2009 skjal með fyrirsögninni „breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs með erlendu myntviðmiði“, þar sem kom fram að það sneri að skuldabréfi nr. 327-35-7015 útgefnu af honum 15. desember 2006 að upphaflegri fjárhæð 147.000.000 krónur. Neðan við fyrirsögnina „sundurliðun eftirstöðva“ sagði meðal annars: „Eftirstöðvar þann 12.01.2009 jafnvirði ISK 105.700.979“ og „Framreikn. eftirstöðvar jafnvirði ISK 94.265.063“. Þá kom fram að skilmálar ættu að breytast þannig að lánstími yrði fjórir mánuðir, gjalddagi fyrstu afborgunar, sem væri þó ein, yrði 10. maí 2009, en vaxtagjalddagar yrðu þrír, sá fyrsti 10. febrúar sama ár. Þetta skjal var jafnframt undirritað af hálfu gagnáfrýjanda. Enn undirrituðu aðilarnir skjal með sömu fyrirsögn 4. júní 2009 og var þar vísað á sama hátt og áður greinir til skuldabréfs frá 15. desember 2006. Þessu sinni sagði að „eftirstöðvar þann 20.05.2009“ væru „jafnvirði ISK 108.267.576“, vextir skyldu reiknaðir frá 14. apríl 2009 og greiðast mánaðarlega í fjögur skipti, í fyrsta sinn 1. maí sama ár, en fyrsti og jafnframt eini gjalddagi höfuðstóls yrði 1. september 2009.
Í málinu liggur fyrir að aðaláfrýjandi gerði 4. júní 2004 samning við Kaupþing banka hf. um eignastýringu og virðist óumdeilt að gagnáfrýjandi hafi tekið við stöðu viðsemjanda aðaláfrýjanda í október 2008. Með bréfi til gagnáfrýjanda 20. júlí 2009 óskaði aðaláfrýjandi eftir því að „eignarhaldi að eignasafni“, sem sá samningur tók til, yrði breytt á þann hátt að nafngreind eiginkona sín yrði „skráð eigandi ásamt mér enda eignasafnið hjúskapareign okkar.“ Aðaláfrýjandi og eiginkona hans tilkynntu síðan gagnáfrýjanda með bréfi, sem barst honum 6. ágúst 2009, að þau segðu upp samningnum frá 4. júní 2004 og var óskað eftir að „andvirði safnsins“ yrði lagt á tiltekinn innlánsreikning á nafni eiginkonu aðaláfrýjanda. Ekki verður séð að gagnáfrýjandi hafi svarað þessum bréfum.
Gagnáfrýjandi afhenti sýslumanninum í Hafnarfirði 12. ágúst 2009 beiðni um kyrrsetningu hjá aðaláfrýjanda, þar sem þess var farið á leit að kyrrsett yrði „fyrir gerðarbeiðanda eign gerðarþola á eignastýringarsafni hans nr. B # 470500 sem vistað er hjá gerðarbeiðanda, til tryggingar fullnustu eftirfarandi kröfum“. Í framhaldi af þessu sagði að krafa gagnáfrýjanda styddist við „skuldabréf nr. 327-35-7015 (upprunalega nr. 327-74-6222)“, en höfuðstóll hennar væri 28.793.898 japönsk jen, 305.932 svissneskir frankar og 270.437 bandaríkjadalir. Við þær fjárhæðir ættu að bætast samtals 2.984.152 krónur vegna innheimtuþóknunar og virðisaukaskatts auk „áfallandi dráttarvaxta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands ... komi til gjaldfellingar frá 1. september 2009 til greiðsludags og alls kostnaðar af frekari fullnustugerðum og eftirfarandi staðfestingarmáls.“ Tekið var fram að gagnáfrýjandi krefðist þess einnig að aðaláfrýjandi yrði „sviptur umráðum hinnar kyrrsettu eignar og hún verði í vörslu sýslumanns á reikningi hjá gerðarbeiðanda“, en um þetta vísaði hann til 19. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Í beiðninni var greint frá því að Kaupþing banki hf. hafi 15. desember 2006 lánað aðaláfrýjanda 147.000.000 krónur, sem hafi átt að endurgreiða með 130.000.000 krónum auk vaxta og verðbóta 1. janúar 2008, en eftir það með 48 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. febrúar sama ár. Aðaláfrýjandi hafi 29. janúar 2008 óskað eftir skilmálabreytingu, sem bankinn hafi samþykkt, og hafi lánið verið „fært yfir í erlendar myntir“ á þann hátt, sem áður var lýst. Lánstíminn „skyldi vera 12 ár með gjalddaga þann 10. febrúar 2009“, en „greiða skyldi vexti frá 10. febrúar 2008 til gjalddaga með eins mánaðar millibili.“ Lánið hafi að beiðni aðaláfrýjanda verið „fryst“ þannig „að gjalddagi þess er nú 1. september 2009“. Þetta lán hafi verið „tryggt með innistæðu á markaðsreikningi“ með tilteknu númeri, sem aðaláfrýjanda hafi svo verið heimilað að færa inn á eignastýringarsafn sitt hjá bankanum „án þess að það væri sérstaklega veðsett til tryggingar þessarar skuldar en það eignasafn stendur til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningi gerðarþola“. Á þeim reikningi væri yfirdráttarheimild fyrir 7.500.000 krónum, en „inneign á eignasafni“ væri yfir 98.000.000 krónur. Bankinn hafi ekki orðið við ósk aðaláfrýjanda og eiginkonu hans í fyrrgreindu bréfi, sem barst bankanum 6. ágúst 2009 og fylgdi beiðninni um kyrrsetningu, enda stæði eignastýringarsafnið að handveði fyrir yfirdráttarskuld og væri tékkareikningurinn yfirdreginn. Gagnáfrýjanda væri nauðsynlegt að tryggja hagsmuni sína með því „að kyrrsetja fyrir kröfu sinni ofangreindan reikning“, en hann hefði orðið þess vís í samtölum við aðaláfrýjanda að sá síðarnefndi hygðist ekki greiða skuldina. Aðaláfrýjandi hefði jafnframt óskað eftir að inneign á eignastýringarsafninu yrði „flutt yfir á nafn annars aðila“, en með því myndi tryggingarstaða versna „um sem nemur næstum allri innistæðunni.“ Gagnáfrýjandi teldi að mjög myndi draga úr líkindum til að fá fullnustu skuldarinnar eða fullnusta yrði verulega örðugri ef kyrrsetning yrði ekki heimiluð, en sér væri ekki kunnugt um aðra eign aðaláfrýjanda, sem gæti staðið „undir greiðslu þessarar skuldar.“ Teldi gagnáfrýjandi að skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 væri fullnægt til að gerðin mætti fara fram og væri óskað eftir að hún yrði tekin fyrir án undangenginnar boðunar til aðaláfrýjanda. Krafa um að sá síðastnefndi yrði „vörslusviptur hinni kyrrsettu eign“ væri reist á því að mikil hætta væri á „að eignin verði fjarlægð“ og yrðu þá hagsmunir gagnáfrýjanda í brýnni hættu. Loks var þess sérstaklega getið að „eins og mál standa núna er gerðarbeiðanda ómögulegt að gera fjárnám í eigninni þar sem lánið er ekki enn gjaldfallið.“
Sýslumaður tók þessa beiðni fyrir 18. ágúst 2009 á heimili aðaláfrýjanda án undangenginnar boðunar til hans. Við gerðina var meðal annars fært til bókar að gagnáfrýjandi krefðist þess að „kyrrsett verði eign gerðarþola á eignastýringarsafni hans nr. B # 470500 ... til tryggingar eftirfarandi kröfu“, sem síðan var tilgreind á sama hátt og í beiðni gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi hafi hist fyrir og hafi hann átt símtal við nafngreindan lögmann, en síðan mótmælt „þessari kyrrsetningargerð þar sem hann kveður eiginkonu sína líka vera eigandi að fjármununum.“ Hann hafi óskað eftir „þeirri breytingu“ við gagnáfrýjanda, en sá síðarnefndi „kannast ekki við að hafa orðið við ósk hans og að eignarsafnið sé einungis á nafni gerðarþola.“ Sýslumaður hafi hafnað mótmælum aðaláfrýjanda og ákveðið að kyrrsetningin næði fram að ganga gegn tryggingu að fjárhæð 1.000.000 krónur, sem gagnáfrýjandi hafi þegar sett. Var síðan bókað að sýslumaður „kyrrsetur eignarstýringarsafn gerðarþola nr. B # 470500“ án þess að nokkurs væri getið um að aðaláfrýjanda hafi verið gefinn kostur á að benda á eign til kyrrsetningar. Með þessu lauk gerðinni og var ekkert frekar fært til bókar vegna áðurnefndrar kröfu gagnáfrýjanda um að aðaláfrýjandi yrði sviptur umráðum yfir eigninni, sem kyrrsett var.
Gagnáfrýjandi fékk 21. ágúst 2009 útgefna stefnu í Héraðsdómi Reykjaness í máli á hendur aðaláfrýjanda. Samkvæmt henni krafðist gagnáfrýjandi annars vegar að fyrrgreind kyrrsetning yrði staðfest og hins vegar að „viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2005 af stefnda með gjalddaga þann 1. september 2009, að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar.“ Þá krafðist gagnáfrýjandi málskostnaðar. Aðaláfrýjandi tók til varna í málinu, sem var þingfest 9. september 2009.
Á meðan framangreint mál var rekið fyrir héraðsdómi höfðaði eiginkona aðaláfrýjanda mál á hendur gagnáfrýjanda, þar sem hún krafðist þess að honum yrði gert að greiða sér 49.179.500 krónur með dráttarvöxtum frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags auk málskostnaðar. Fjárhæð þessarar kröfu svaraði til helmings andvirðis inneignar á fyrrnefndu eignastýringarsafni eins og hún hafði verið tilgreind á yfirliti frá gagnáfrýjanda 6. ágúst 2009. Krafan var reist á því að eiginkona aðaláfrýjanda ætti helmingshlut í safninu á grundvelli tilkynningar til gagnáfrýjanda 20. júlí 2009 og að samningi við hann um eignastýringu hafi verið sagt upp. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2010 var kyrrsetningin 18. ágúst 2009 ekki talin standa þessari kröfu í vegi, enda hafi gerðin tekið til eignastýringarsafns aðaláfrýjanda, en ekki hlutdeildar eiginkonu hans í því, og var krafa hennar tekin til greina. Hún mun hafa fengið gert fjárnám hjá gagnáfrýjanda 6. ágúst 2010 fyrir kröfu samkvæmt þessum dómi, sem ekki var áfrýjað. Gagnáfrýjandi greiddi kröfuna 2. september sama ár með samtals 56.653.421 krónu að meðtöldum vöxtum og kostnaði.
Dómur gekk í héraði í áðurnefndu máli gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda 14. júlí 2010 og var honum áfrýjað til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 17. nóvember 2011 í máli nr. 470/2010 var málinu vísað frá héraðsdómi og gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum.
Að gengnum þessum dómi Hæstaréttar fékk gagnáfrýjandi gert fjárnám hjá aðaláfrýjanda 22. nóvember 2011 og studdist hann þar við „skuldabréf með skilmálabreytingum“ sem heimild til gerðarinnar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Við gerðina lagði gagnáfrýjandi meðal annars fram skjal með heitinu „endurútreikningur láns nr. 351-35-7015“ og virðist á grundvelli þess hafa krafist fjárnáms fyrir kröfu að höfuðstól 62.069.465 krónur að viðbættum vöxtum og kostnaði, sem hafi samtals numið 3.722.085 krónum. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns mætti aðaláfrýjandi ekki til gerðarinnar. Fjárnám var gert samkvæmt ábendingu gagnáfrýjanda í „eignastýringarsafni B # 470500“ og tekið fram að undir það ættu 58.551.586 krónur „skv. þremur reikningum og reikningur EUR 356,23.“ Jafnframt var gert fjárnám í nánar tilgreindri fasteign, þar sem aðaláfrýjandi virðist hafa átt heimili. Að ósk gagnáfrýjanda felldi sýslumaður þetta fjárnám niður 28. nóvember 2011. Sýslumaður tók fyrir 17. janúar 2012 nýja beiðni gagnáfrýjanda um fjárnám hjá aðaláfrýjanda á sama grundvelli. Í það sinn kvað gagnáfrýjandi höfuðstól skuldarinnar nema sömu fjárhæð og að framan var getið, en áfallna vexti og kostnað að frádreginni innborgun á hinn bóginn 22.667.378 krónum. Gegn andmælum aðaláfrýjanda ákvað sýslumaður að fjárnám næði fram að ganga og var það gert í inneign aðaláfrýjanda í eignastýringarsafni hjá gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi mun hafa borið ágreining um þetta fjárnám undir héraðsdóm, en gagnáfrýjandi fékk gerðina tekna fyrir á ný hjá sýslumanni 7. nóvember 2012 og var hún þá felld niður.
Gagnáfrýjandi fékk gefna út stefnu í máli þessu í Héraðsdómi Reykjaness 23. nóvember 2011 og krafðist samkvæmt henni að aðaláfrýjanda yrði gert að greiða sér 62.069.465 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til greiðsludags, svo og að staðfest yrði fyrrgreind kyrrsetning 18. ágúst 2009. Þá krafðist gagnáfrýjandi málskostnaðar. Mál þetta var þingfest í héraði 14. desember 2011 og tók aðaláfrýjandi til varna auk þess að höfða gagnsök á hendur gagnáfrýjanda 10. janúar 2012. Í henni krafðist aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 52.967.388 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 10. nóvember 2008 til greiðsludags. Samkvæmt málatilbúnaði aðaláfrýjanda greindist þessi gagnkrafa hans í tvo þætti og var annars vegar um að ræða kröfu hans um greiðslu á 49.179.500 krónum, sem munu hafa staðið eftir af fjárhæðinni sem gagnáfrýjandi hafði til eignastýringar í þágu aðaláfrýjanda samkvæmt áðursögðu, og hins vegar samtölu 11 greiðslna, sem aðaláfrýjandi kvað gagnáfrýjanda hafa borist inn á kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 15. desember 2006 á tímabilinu 10. nóvember 2008 til 4. ágúst 2009.
Áðurgreind fjárhæð, sem gagnáfrýjandi krafðist samkvæmt héraðsdómsstefnu úr hendi aðaláfrýjanda, var studd við endurútreikning gagnáfrýjanda 10. nóvember 2011 á kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 15. desember 2006. Í þeim endurútreikningi var horft fram hjá breytingum, sem gerðar voru á skilmálum skuldabréfsins 25. janúar 2008 varðandi gjaldmiðil skuldbindinga samkvæmt því eða eftir atvikum gengistryggingu þeirra. Jafnframt voru vextir reiknaðir á nýjan leik vegna tímabilsins, sem fjárhæð skuldarinnar átti að hafa tekið breytingum eftir gengi erlendu gjaldmiðlanna, en í héraðsdómsstefnu kvað gagnáfrýjandi þennan endurútreikning hafa verið gerðan á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Í þinghaldi 7. nóvember 2012 breytti gagnáfrýjandi kröfugerð sinni á þann hátt að í stað þess að krefjast greiðslu á 62.069.465 krónum leitaði hann aðallega dóms um skyldu aðaláfrýjanda til að greiða sér 53.836.604 krónur en til vara 53.696.804 krónur. Samkvæmt skýringum, sem gagnáfrýjandi gaf á þessum breytingum á dómkröfu, áttu þær rætur að rekja til þess að hann teldi nýlega dóma Hæstaréttar standa því í vegi að hann gæti endurreiknað vexti sem aðaláfrýjandi hefði þegar staðið skil á.
Með hinum áfrýjaða dómi var aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 53.836.604 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til greiðsludags og var jafnframt staðfest kyrrsetning sýslumanns 18. ágúst 2009. Þá var gagnáfrýjandi sýknaður af kröfunni, sem aðaláfrýjandi hafði uppi í gagnsök, en málskostnaður felldur niður.
II
Í héraðsdómsstefnu gagnáfrýjanda var greint þannig frá atvikum málsins að aðaláfrýjandi hafi „í formi skuldabréfs“ 15. desember 2006 fengið lán hjá Kaupþingi banka hf., sem væri „nú stefnandi“. Þetta lán hafi átt að endurgreiða þannig að 1. janúar 2008 yrðu greiddar 130.000.000 krónur auk vaxta og verðbóta, en eftirstöðvar með 48 mánaðarlegum afborgunum á gjalddögum frá 1. febrúar sama ár. Aðaláfrýjandi hafi 29. janúar 2008 farið fram á skilmálabreytingu, sem gagnáfrýjandi hafi samþykkt. Lánstíminn skyldi þá vera 12 ár með fyrsta gjalddaga 10. febrúar 2009. Gagnáfrýjandi hafi síðan „fryst“ lánið að beiðni aðaláfrýjanda „þannig að gjalddagi þess skyldi vera þann 1. september 2009.“ Þetta lán hafi verið tryggt með innstæðu á tilteknum bankareikningi hjá gagnáfrýjanda, en aðaláfrýjanda hafi á síðari stigum verið heimilað að færa þá innstæðu á eignastýringarsafn sitt hjá gagnáfrýjanda án þess að gætt hafi verið að því að það yrði veðsett til tryggingar þessari skuld.
Gagnáfrýjandi lýsti því síðan í héraðsdómsstefnu að hann hafi 18. ágúst 2009 fengið kyrrsetningu hjá aðaláfrýjanda í inneign hans á nánar tilteknu eignarstýringarsafni, en greint var í stuttu máli frá ástæðum þess að gagnáfrýjandi teldi skilyrði hafa verið uppfyllt fyrir þeirri gerð. Hann hafi í framhaldi af henni höfðað mál til staðfestingar á kyrrsetningunni og viðurkenningar á að aðaláfrýjandi stæði í skuld við sig samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu 15. desember 2006 og með gjalddaga 1. september 2009, en höfuðstóll þess hafi verið tilteknar fjárhæðir í þremur erlendum gjaldmiðlum. Í héraði hafi þeirri viðurkenningarkröfu verið hafnað, en krafa um staðfestingu kyrrsetningar tekin til greina að hluta. Dómi um þetta hafi verið áfrýjað, en Hæstiréttur vísað málinu frá héraðsdómi 17. nóvember 2011. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 stæði kyrrsetning áfram eftir slík lok dómsmáls um staðfestingu hennar ef gefin væri út réttarstefna í nýju máli í því skyni innan viku frá því að fyrra máli lyki. Þess var jafnframt getið að gagnáfrýjandi hafi 22. nóvember 2011 fengið gert fjárnám hjá aðaláfrýjanda, sem ekki hafi mætt til gerðarinnar, en gagnáfrýjanda væri nauðsynlegt að „fá útgefna þessa stefnu vegna ákvæða 92. gr. aðfararlaga um heimild til að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð innan átta vikna frá því að gerð lauk.“
Eftir þá umfjöllun, sem að framan greinir, var í sérstökum lið í héraðsdómsstefnu rakinn „rökstuðningur kröfugerðar“ gagnáfrýjanda, þar sem sagði eftirfarandi: „Stefnandi kveðst hafa endurreiknað lán stefnda á grundvelli þeirra fyrirmæla sem fram koma í 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu (vxl.), enda falli samningsákvæði skuldabréfsins undir gildissvið 1. mgr. 18. gr. Höfuðstóll skuldabréfsins á myntbreytingardegi, þ.e. þegar skuldabréfinu var myntbreytt í erlendar myntir, var 53.869.038 kr., sbr. skilmálabreytingu dags. 29.01.2008 á dskj. nr. 4. Sú fjárhæð hafi verið endurreiknuð í samræmi við 18. gr. vxl., þ.e.a.s. upphaflegur höfuðstóll kröfunnar, í íslenskum krónum (53.869.038 kr.), hafi verið vaxtareiknaður með óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands frá útgreiðsludegi skuldabréfsins (30.01.2008), sbr. 3. mgr. 18. gr. vxl., og hafi verið lagðir við höfuðstól einu ári eftir lántöku og síðan árlega, sbr. 12. gr. vxl. Frá þessari fjárhæð hafi svo verið dregnar greiðslur, sem stefndi hafi innt af hendi (þ.e. afborganir af höfuðstól, vextir, dráttarvextir og vanskilaálögur), samtals 6.485.781 kr., vaxtareiknaðar frá greiðsludegi hverrar greiðslu til viðmiðunardags endurútreiknings, sem sé gjalddagi lánsins, þ.e. 1. september 2009. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar, þ.e. höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Stefnandi kveður að samkvæmt ofangreindu nemi nýr höfuðstóll kröfunnar, endurreiknuð í samræmi við 18. gr. vxl., á gjalddaga hennar 62.069.465 kr.“ Í framhaldi af þessu var síðan tekin upp í stefnuna tafla með sundurliðun útreiknings á vöxtum af 20 innborgunum, sem gagnáfrýjandi kvað hafa borist inn á skuldina á tímabilinu frá 5. mars 2008 til 4. ágúst 2009. Samkvæmt sundurliðuninni nam höfuðstóll þessara innborgana samtals 6.485.781 krónu þegar dregin hafi verið frá greiðsla á kostnaði, reiknaðir vextir af innborgununum voru alls 807.740 krónur og þessar tvær fjárhæðir samanlagðar 7.293.521 króna.
Eftir framangreinda umfjöllun um kröfugerð voru í héraðsdómsstefnu raktar lagatilvísanir gagnáfrýjanda, talin upp gögn, sem yrðu lögð fram við þingfestingu málsins, gerður áskilnaður um frekari gagnaöflun og fyrirkalli beint til aðaláfrýjanda.
III
Um framangreindan málatilbúnað gagnáfrýjanda í héraðsdómsstefnu er þess að gæta að hvergi var þar beinlínis tekið fram hvort hann styddi kröfu sína um greiðslu úr hendi aðaláfrýjanda við skuldabréfið, sem sá síðarnefndi gaf út 15. desember 2006, en í lýsingu atvika, sem áður var rakin, var aðeins rætt um að aðaláfrýjandi hafi þann dag tekið lán „í formi skuldabréfs“, sem að nokkru var reifað frekar, hjá Kaupþingi banka hf., sem ranghermt var að væri „nú“ gagnáfrýjandi. Hafi gagnáfrýjandi ætlast til að málatilbúnaður sinn í stefnunni yrði skilinn á þann veg að fjárkrafa sín væri reist á skuldabréfinu, sem hann hefur reyndar loks tekið af tvímæli um í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti, var reifun málsins í stefnunni í verulegum atriðum áfátt. Þannig kom þar hvergi fram hver höfuðstóll skuldabréfsins hafi verið, að fjárhæð þess hafi verið bundin vísitölu neysluverðs eða hvaða vexti skuldin hafi átt að bera. Greint var í meginatriðum frá upphaflegum skilmálum skuldabréfsins um endurgreiðslu skuldarinnar, en í engu var getið um verulegar innborganir, sem Kaupþingi banka hf. bárust samkvæmt áðursögðu inn á skuldina fyrir fyrsta gjalddaga hennar, hvað þá hvernig þeim hafi verið ráðstafað til innborgunar á höfuðstól eða í öðru skyni.
Í lýsingu atvika í stefnunni var heldur ekki greint frá því að skilmálum skuldabréfsins hafi 29. janúar 2008 verið breytt á þann hátt að fjárhæð skuldarinnar á tilteknum degi stæði ekki lengur í íslenskum krónum eða eftir atvikum að gengistrygging fjárhæðar í þeim gjaldmiðli kæmi í stað verðtryggingar með vísitölu neysluverðs og skuldinni hafi þannig verið ætlað að verða upp frá því í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum eða ráðast af gengi þeirra, en þó var að nokkru getið um breytingar, sem gerðar voru á skilmálum um endurgreiðslu skuldarinnar, án þess að breyttum vaxtakjörum væri lýst. Með því að þessarar meginbreytingar á fjárhæð skuldarinnar var ekki getið á viðhlítandi hátt var áðurgreind umfjöllun í stefnunni um rökstuðning kröfugerðar gagnáfrýjanda, sem í verulegum atriðum snerist um endurútreikning skuldarinnar, því sem næst óskiljanleg.
Af fyrrnefndri töflu, sem tekin var upp í héraðsdómsstefnu og sýna átti sundurliðun á útreikningi vaxta af innborgunum á skuld aðaláfrýjanda, varð að vísu ráðið að inntar hafi verið af hendi 20 slíkar innborganir á tímabilinu frá 5. mars 2008 til 4. ágúst 2009. Þeim innborgunum var á hinn bóginn að engu öðru leyti lýst, svo sem um það hvernig þær kunni að hafa skipst í greiðslu vaxta og afborgana af höfuðstól skuldarinnar eða hvort skuldinni hafi verið haldið í skilum með þeim. Á þessum rökstuðningi fyrir kröfugerð gagnáfrýjanda var að öðru leyti sá annmarki að í engu var getið hvernig „upphaflegur höfuðstóll kröfunnar“, sem gagnáfrýjandi nefndi þannig ranglega, hafi getað talist 53.869.038 krónur 29. janúar 2008 þegar skilmálabreyting var gerð. Þá var ekki sýnt hvernig þessi fjárhæð hafi við endurútreikning skuldarinnar verið vaxtareiknuð með ótilgreindum „óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands frá útgreiðsludegi skuldabréfsins“, sem var ranglega sagður hafa verið 30. janúar 2008, og ekki var þess getið hver niðurstaða þess útreiknings hafi orðið. Í skýringum í stefnu var hermt að frá þessum ótilgreinda endurreiknuðum höfuðstól skuldarinnar væru dregnar greiðslur, sem aðaláfrýjandi hafi innt af hendi, nánar tiltekið afborganir af höfuðstól, vextir, dráttarvextir og svonefndar vanskilaálögur, og næmu þær samtals 6.485.781 krónu. Af þessari lýsingu var ekki ljóst hvort einungis sú fjárhæð hafi komið til frádráttar endurreiknaðri skuld aðaláfrýjanda eða hvort jafnframt hafi verið tekið tillit til reiknaðra vaxta af þeim greiðslum, sem voru að fjárhæð 807.740 krónur samkvæmt töflunni í héraðsdómsstefnu með sundurliðun vaxtaútreiknings.
Samkvæmt því, sem að framan hefur verið rakið, var ógerlegt að sjá af málatilbúnaði gagnáfrýjanda í héraðsdómsstefnu hvernig hann teldi að finna mætti fjárhæð skuldar aðaláfrýjanda með tilliti til upphaflegs höfuðstóls hennar samkvæmt skuldabréfinu frá 15. desember 2006, verðbóta, vaxta og innborgana. Þótt aðaláfrýjandi hafi undir rekstri málsins ítrekað andmælt útreikningum gagnáfrýjanda á skuldinni hefur sá síðarnefndi ekki lagt fram viðhlítandi gögn til að bæta úr þessum annmörkum á málatilbúnaði sínum. Verður þannig að taka til greina kröfu aðaláfrýjanda um að fjárkröfu gagnáfrýjanda verði vísað frá héraðsdómi. Með því að svo fari um dómkröfu gagnáfrýjanda, sem varðar þau efnislegu réttindi sem kyrrsetningu hjá aðaláfrýjanda 18. ágúst 2009 var ætlað að tryggja, leiðir af sjálfu að málalok verða þau sömu um kröfu gagnáfrýjanda um staðfestingu kyrrsetningarinnar. Verður málinu þannig vísað í heild frá héraðsdómi að því er varðar aðalsök í héraði.
IV
Sem fyrr segir krefst aðaláfrýjandi þess meðal annars fyrir Hæstarétti að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 52.967.388 krónur. Er þetta sama krafa og aðaláfrýjandi gerði í gagnsök í héraði og hefur hann eins og áður kom fram greint hana í tvo þætti, þar sem annars vegar er krafa um greiðslu á 49.179.500 krónum, sem aðaláfrýjandi kveður gagnáfrýjanda hafa ranglega haldið frá sér af fé sem gagnáfrýjandi hafi haft í vörslum sínum til eignastýringar í þágu aðaláfrýjanda, og hins vegar á samanlagðri fjárhæð 11 greiðslna, sem aðaláfrýjandi kveður gagnáfrýjanda hafa fengið á tímabilinu frá 10. nóvember 2008 til 4. ágúst 2009 inn á kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 15. desember 2006.
Að því er varðar fyrrnefnda þáttinn í dómkröfu aðaláfrýjanda, sem hér um ræðir, verður að líta til þess að samkvæmt yfirliti frá gagnáfrýjanda um eignastýringarsafn aðaláfrýjanda í vörslum bankans, sem sýndi stöðu þess 6. ágúst 2009, var andvirði þess 98.359.001 króna. Í fyrrgreindu máli eiginkonu aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda, sem lokið var með óáfrýjuðum héraðsdómi 23. mars 2010, krafðist hún greiðslu úr hendi gagnáfrýjanda á sem svaraði helmingi þessarar fjárhæðar eða 49.179.500 krónum. Sú krafa var tekin til greina með dóminum og greiddi gagnáfrýjandi hana. Má því líta svo á að ágreiningur geti ekki staðið um að hinn helmingur þessa eignastýringarsafns, sem aðaláfrýjandi krefst nú að gagnáfrýjanda verði gert að standa sér skil á, hafi 6. ágúst 2009 numið sömu fjárhæð.
Í 11. lið samnings aðaláfrýjanda við Kaupþing banka hf. 4. júní 2004 um eignastýringu var kveðið á um heimild aðaláfrýjanda til að segja samningnum upp „hvenær sem honum hentar“ og var ekki áskilinn uppsagnarfrestur, en mælt var svo fyrir að bankinn legði eign viðskiptavinar, sem kæmi til útborgunar vegna uppsagnar, á vörslureikning handa honum nema hann gæfi fyrirmæli um aðra ráðstöfun fjárins. Aðaláfrýjandi sagði þessum samningi upp fyrir sitt leyti með bréfi, sem barst gagnáfrýjanda 6. ágúst 2009, og óskaði eftir að andvirði eignastýringarsafnsins yrði lagt inn á tiltekinn bankareikning eiginkonu sinnar. Ekkert liggur fyrir í málinu til stuðnings því að þetta fé aðaláfrýjanda hafi við uppsögn samningsins verið háð tryggingarréttindum til handa gagnáfrýjanda. Kyrrsetningin, sem gagnáfrýjandi fékk gerða í þessari eign aðaláfrýjanda 18. ágúst 2009, er endanlega fallin niður með dómi þessum, sbr. 3. málslið 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990. Þá hafa fjárnám, sem gagnáfrýjandi hefur tvívegis fengið gerð í þessari eign aðaláfrýjanda, verið felld niður samkvæmt því sem áður greinir. Að þessu virtu hefur gagnáfrýjandi engar haldbærar varnir gegn kröfu aðaláfrýjanda um að honum verði gert að greiða af þessum sökum 49.179.500 krónur. Gagnáfrýjandi verður því dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda þá fjárhæð, sem var samkvæmt framansögðu gjaldkræf þegar eftir uppsögn samningsins frá 4. júní 2004, en af þeim sökum á aðaláfrýjandi rétt til dráttarvaxta af henni frá 6. ágúst 2009 svo sem nánar greinir í dómsorði.
Síðari þátturinn í kröfu aðaláfrýjanda, sem hér um ræðir, er reistur á því að gagnáfrýjandi hafi ekki að réttu lagi átt tilkall til greiðslna af skuld aðaláfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu frá 15. desember 2006, þar sem réttindi samkvæmt því hafi ekki fallið til gagnáfrýjanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008, auk þess sem skuldabréfið hafi hvað sem því líði ekki verið áritað um framsal frá Kaupþingi banka hf. til gagnáfrýjanda. Um þessar málsástæður er þess að gæta að réttindi samkvæmt skuldabréfinu voru ekki reist á afleiðusamningum milli Kaupþings banka hf. og aðaláfrýjanda, þótt það kunni að hafa verið gefið út til uppgjörs á skuldum samkvæmt slíkum samningum, svo sem aðaláfrýjandi hefur haldið fram. Skuldabréf þetta getur því ekki fallið undir sérstök fyrirmæli, sem komu fram um afleiðusamninga í 1. lið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins og leiddu til þess að þeir færðust ekki frá Kaupþingi banka hf. til gagnáfrýjanda. Af orðalagi þessa ákvæðis í ákvörðuninni leiddi að kröfuréttindi Kaupþings banka hf. færðust í hendur gagnáfrýjanda án þess að koma þyrfti til sérstaks framsals í hverju og einu tilviki. Að þessu virtu eru engin efni til að verða við dómkröfu aðaláfrýjanda að þessu leyti.
Eftir úrslitum málsins verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar kröfur gagnáfrýjanda, Arion banka hf., um greiðslu úr hendi aðaláfrýjanda, Einars Þórs Einarssonar, og staðfestingu kyrrsetningar, sem gerð var hjá honum 18. ágúst 2009.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 49.179.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 5.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. júlí 2013.
Mál þetta, sem var þingfest 14. desember 2011, var höfðað af Arion banka hf., kt. [...], Borgartúni 19, Reykjavík, með birtingu stefnu 24. nóvember 2011 gegn Einari Þór Einarssyni, kt. [...], Mýrarkoti 6, Bessastaðahreppi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 53.836.604 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til greiðsludags.
Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu að aðalstefndi verði dæmdur til greiðslu 53.696.804 króna með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 1. september 2009 til greiðsludags. Lagði aðalstefnandi fram sundurliðun á útreikningi sínum, dskj. 34.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi þess að staðfest verði með dómi kyrrsetning í eigu stefnda á eignastýringarsafni hans nr. B#470500 hjá stefnanda, samkvæmt kyrrsetningargerð nr. K-13-2009 er fram fór við sýslumannsembættið í Hafnarfirði þann 18. ágúst 2009. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi gerir aðallega þá dómkröfu að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Þá krefst stefndi þess að synjað verði um staðfestingu kyrrsetningargerðar nr. K-13-2009 frá 18. ágúst 2009.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Þann 25. janúar 2012 þingfesti stefndi, Einar Þór Einarsson, gagnstefnu í málinu þar sem hann gerði þær dómkröfur að gagnstefndi verði dæmdur til þess að greiða gagnstefnanda 52.967.388 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 556.433 krónum frá 10. nóvember 2008 til 10. desember 2008 en af 1.034.109 krónum frá þeim degi til 12. janúar 2009, en af 1.616.306 krónum frá þeim degi til 3. apríl 2009, en af 2.262.745 krónum frá þeim degi til 13. apríl 2009, en af 2.651.232 krónum frá þeim degi til 4. maí 2009 en af 2.782.308 krónum frá þeim degi til 2. júní 2009 en af 2.967.591 krónu frá þeim degi til 1. júlí 2009, en af 3.210.536 krónum frá þeim degi til 4. ágúst 2009, en af 3.791.888 krónum frá þeim degi til 6. ágúst 2009, en af 52.967.388 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gagnstefnda auk virðisaukaskatts.
Gagnstefndi lagði fram greinargerð í gagnsök 7. mars 2012 og krafðist þess aðallega að máli gagnstefnanda yrði vísað frá dómi. Til vara krafðist hann sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda. Til þrautavara krefst hann sýknu að svo stöddu og til þrautaþrautavara krefst gagnstefndi þess að kröfur gagnstefnanda í gagnsök verði lækkaðar verulega og jafnframt að dráttarvaxtakröfum gagnstefnanda verði alfarið hafnað.
Í öllum tilvikum gerði gagnstefndi kröfu um málskostnað úr hendi gagnstefnanda.
Málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram þann 29. maí 2012 og var henni hafnað með úrskurði uppkveðnum 21. júní 2012.
Málflutningur um frávísunarkröfu gagnstefnda fór fram 4. október 2012 og var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 19. október 2012.
Aðalmeðferð í máli aðalstefnanda og gagnstefnanda fór fram þann 26. júní sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.
Málavextir.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á veðskuldabréfi númer 327-74-6222, útgefnu af stefnda til stefnanda þann 15. desember 2006, sem var skilmálabreytt þann 29. janúar 2009 og fékk númerið 0327-35-7015.
Stefndi byggir sýknukröfur sínar á aðildarskorti og að ofangreind lántaka hafi verið hluti af afleiðusamningi stefnda við Kaupþing hf. Hafa fjölmörg gögn verið lögð fram í málinu sem verða rakin að hluta hér með.
Eignastýringarsafnið B#470500.
Þann 4. júní 2004 gerði stefndi samning um eignastýringu við aðalstefnanda. Í gr. 11 eru ákvæði um uppsögn á samningnum og segir að viðskiptavinur geti sagt upp samningnum hvenær sem honum henti og bankinn geti sagt samningnum upp með fjögurra vikna fyrirvara. Þá eru ákvæði um að viðskiptavinur geti gefið fyrirmæli um aðra ráðstöfun á þeim fjármunum sem séu í safninu en bankinn leggi til. Þá er tekið fram að uppsögn samningsins skuli vera skrifleg, með símbréfi eða öðrum sannanlegum hætti. Að auki er tekið fram að allar eignir, sem hafi verið eða muni verða inni á reikningnum, tilheyri og sé eign reikningseigandans.
Með bréfi, dagsettu 20. júlí 2009, er þess farið að leit við stefnanda að hann breyti eignarhaldi á eignastýringarsafninu þannig að eiginkona stefnda, Steinunn R. Sigurðardóttir, verði skráður eigandi ásamt aðalstefnda, enda sé eignasafnið hjúskapareign þeirra. Er bréfið áritað um móttöku hjá Nýja Kaupþingi banka hf. 20. júlí 2009.
Með bréfi, dagsettu 31. júlí 2009, sagði stefndi samningi um eignastýringu upp hjá stefnanda. Var farið fram á það í bréfinu til stefnanda að andvirði safnsins yrði lagt inn á sparisjóðsreikning nr. 327-13-74 á nafni eiginkonu stefnda, Steinunnar R. Sigurðardóttur. Er bréfið áritað um móttöku hjá Nýja Kaupþingi banka hf., 6. ágúst 2009.
Með bréfi lögmanns stefnda til stefnanda, dagsettu 17. ágúst 2009, var þess krafist að stefnandi yrði við kröfum stefnda og eiginkonu hans um að leggja andvirði eignastýringarsafnsins inn á tékkareikning eiginkonu stefnda, en við því hafði bankinn ekki orðið.
Handveðssamningur.
Þá er í gögnum málsins afrit af handveðssamningi sem stefndi undirritaði 15. apríl 2005 hjá stefnanda. Setti stefndi að handveði með þeim samningi alla fjármálagerninga og öll önnur verðmæti sem eru inni á eignastýringarsafni veðsala hjá veðhafa, þ.e. fjárvörslureikning veðsala, Eignastýring #470500. Segir í samningnum að veðið nái til allra fjármálagerninga/verðmæta sem verði geymd á ofangreindum fjárvörslureikningi veðsala, bæði þeirra sem séu til staðar við undirritun samningsins og einnig þeirra sem bætist við síðar. Er veðandlagið sett veðhafa að handveði til tryggingar greiðslum á yfirdráttarskuld á tékkareikning nr. 327-26-7633 hjá Kaupþingi banka. Í samningnum eru skilmálar veðsetningarinnar raktir frekar og heimild til fullnustu.
Lánssamningur og gjaldeyrisviðskiptin.
Samkvæmt gögnum málsins undirritaði stefndi lánssamning í erlendum myntum við stefnanda 29. mars 2006. Segir í gr. 2.1 í samningnum að lántaki lofi að taka að láni og bankinn lofi að lána að jafnvirði 60.000.000 íslenskra króna í erlendum myntum þannig: USD 25%, CHF 30%, JPY 20% og EUR 25%. Í gr. 2.3 segir að lánið skuli greiðast inn á reikning lántaka, aðalstefnda, við bankann. Tilgangur láns þessa sé kaup á fasteign og lántaki skuldbindi sig til að ráðstafa láninu til þess verkefnis sem það sé veitt til. Í gr. 2.4 segir að lántaki skuldbindi sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu þann 5. mars 2007 og er vísað um greiðslu vaxta til 3. gr. samningsins. Í gr. 2.5 segir m.a. að lántaki heimili bankanum að skuldfæra reikning sinn í bankanum, 0324-26-7644, fyrir greiðslum afborgana og vaxta samkvæmt þessum samningi. Skuldfærsla reikningsins fari fram án undangenginnar tilkynningar til lántaka og gildi heimildin þar til lánið sé að fullu greitt. Óski lántaki eftir breytingum á fyrirkomulagi þessu skuli hann senda bankanum skriflega beiðni þess efnis. Verði vanskil af hálfu lántaka hafi bankinn einnig heimild til að skuldfæra bankareikninginn fyrir gjaldfallinni afborgun lánsins, auk vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar af láninu eins og ákveðið sé í samningnum. Þá skuldbindi lántaki sig til að hafa ávallt innstæðu á reikningnum til greiðslu afborgana. Í gr. 2.6 segir að lántaka sé heimilt að greiða lánið hraðar eða að fullu áður en að samningsbundnum gjalddaga sé komið án sérstaks uppgreiðslugjalds. Í gr. 2.7 segir að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af, en greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum, þá skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans. Í gr. 4.1 segir að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar samkvæmt lánssamningnum gefi lántaki út tryggingarbréf, útgefið 16. mars 2006, að upphaflegum höfuðstól 125.000.000 króna, bundið vísitölu neysluverðs á 1. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Kirkjuvöllum 5, Hafnarfirði. Þá eru í samningnum ákvæði um útreikning vaxta og lántökukostnað. Í gr. 7 eru ákvæði um einhliða uppsögn lánveitanda á lánssamningnum. Í gr. 8 eru ákvæði um breytingar á lánssamningi og tilkynningar milli aðila samningsins og í gr. 9 er fyrirvari vegna endurfjármögnunar bankans. Í gr. 14 eru ákvæði sem heimila lánveitanda að selja þriðja aðila aðild að lánssamningnum í heild eða að hluta, eða framselja lánið til þriðja aðila án samráðs eða samþykkis lántaka. Í gr. 14.2 segir að með undirritun sinni á lánssamninginn veiti lántaki lánveitanda heimild til að framselja lánið eða selja hluta þess til annarra fjármálafyrirtækja, telji lánveitandi slíkt framsal hagkvæmt, m.a. vegna X. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, án þess að honum verði tilkynnt um það fyrirfram. Þá er ákvæði sem segir að rísi mál vegna lánasamnings þessa skuli reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Er lánssamningur þessi undirritaður af stefnda.
Í beinu framhaldi af ofangreindum samningi áttu eftirfarandi viðskipti sér stað vegna framvirkra gjaldmiðlaviðskipta stefnda hjá stefnanda samkvæmt framlögðum gögnum. Fyrstu viðskiptin eru frá 18. apríl 2006 þar sem stefndi seldi 60.000.000 króna og keypti 645.230,67 EUR. Þann 6. júní 2006 keypti stefndi 64.875.000 krónur og seldi 500.000,00 ISV. Þann sama dag keypti stefndi 500.000,00 ISV og seldi 64.875.000 krónur. Aftur þann sama dag keypti stefndi 500.000,00 ISV og seldi 66.298.295 krónur. Þann 13. júní 2006 keypti stefndi 60.326.400 krónur og seldi 640.000 EUR. Þann 6. september 2006 keypti stefndi 66.298.295 krónur og seldi 500.000,00 ISV. Þann sama dag keypti stefndi 500.000,00 ISV og seldi 66.809.515 krónur. Þann 6. október 2006 keypti stefndi 66.809.515 krónur og seldi 500.000,00 ISV. Þann sama dag keypti stefndi 500.000,00 ISV og seldi 67.377.540 krónur. Þann 6. nóvember keypti stefndi 67.377.540 krónur og seldi 500.000,00 ISV. Þann sama dag keypti stefndi 500.000,00 ISV og seldi 69.136.100 krónur og þann 10. janúar 2007 keypti stefndi 64.841.675 krónur og seldi 500.000,00 ISV.
Handveðssamningur.
Þann 5. maí 2006 undirritaði stefndi handveðssamning milli aðila þar sem hann setti að handveði markaðsreikning númer 0327-13-300926 til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum veðsala við veðhafa, hvenær sem þær hafa eða munu stofnast og í hvaða formi sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er, hvort sem þær eru vegna víxla, skuldabréfa, tékka og yfirdráttar á tékkareikningum, debet- og kreditkortaviðskipta, lánssamninga, reikningslána o.fl.
Afleiðusamningurinn
Þann 14. júní 2006 undirrituðu gagnstefnandi og KB banki hf. almenna skilmála fyrir viðskiptavini markaðsviðskipta Kaupþings banka hf. Segir í 2. mgr. 7. gr. samningsins að með undirritun sinni á skilmála þessa samþykki viðskiptavinur að kominn sé á skriflegur samningur við bankann, í samræmi við III. kafla laga um verðbréfaviðskipti með síðari breytingum, um að skyldur viðskiptavinar og bankans, samkvæmt samningum um afleiður, sbr. 17. gr. laga um verðbréfaviðskipti, skuli jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnun, við endurnýjun, vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Eru almennir samningsskilmálar um gildissvið, framkvæmd samninga, símaupptökur, skuldfærslu reikninga og gjaldtöku, tryggingar, skuldajöfnun, vanefndir og heimild bankans til að gjaldfella skuldbindingar viðskiptavinar, ábyrgð á samningum og skaðleysisyfirlýsing, upplýsingaskyldu og tilkynningar, trúnað og óhlutdrægni og ýmis ákvæði tilgreind. Með samningnum er handveðssamningur vegna afleiðusamninga nr. 1112 þar sem bankareikningur nr. 0327-13-7622 er settur að handveði fyrir þeim viðskiptum. Í tölvupósti frá Kaupþingi banka til lögmanns gagnstefnanda segir að það sé enginn afleiðusamningur nr. 1112 fyrir hendi.
Handveðssamningur vegna afleiðusamninga nr. 1112.
Þann 14. júní 2006 undirritaði stefndi handveðssamning vegna afleiðusamninga nr. 1112 þar sem hann setti að handveði bankareikning nr. 0327-13-7622 og þar með alla innstæðu þess reiknings.
Skuldabréf nr. 0327-74-6222.
Þann 15. desember 2006 undirritaði stefndi skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð, verðtryggt lán með breytilegum vöxtum að fjárhæð 147.000.000 króna hjá stefnanda. Var númer bréfsins 0327-74-6222. Er lánstíminn fimm ár, vextir reiknast frá kaupdegi, fjöldi afborgana eru fjörutíu og níu og fyrsti gjalddagi 1. janúar 2008. Lánið bar kjörvexti 6,20% með vaxtaálagi 0,75% eða samtals 6,95%. Þá er ritað í reitinn „gjalddagar“. „Greiða skal kr. 130.000.000 þann 1. janúar 2008 auk vaxta og verðbóta frá kaupdegi. Greiða skal eftirstöðvar með 48 greiðslum á 1. mán. fresti í fyrsta sinn þann 1.2.2008.“ Grunnvísitala bréfsins er 266,1 stig og bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
Þann 29. janúar 2008 undirritaði stefndi breytta skilmála um myntbreytingu úr íslenskum krónum í erlendar myntir vegna ofangreinds skuldabréfs þannig að skilmálar bréfsins verði þannig að lánstíminn verði tólf mánuðir, vextir reiknist frá 30. janúar 2008, gjalddagi fyrstu afborgunar verði 10. febrúar 2009, fjöldi afborgana verði einn, grunnvextir verði 4,34%, vaxtaálag þá 1,1% eða samtals 5,45% og vaxtagjalddagar skyldu verða „12x1, fyrst 10.02.2008“. Þá er tekið fram að veðskuldabréfið verði í eftirtöldum erlendum myntum. USD 33%, SHF 34%, JPY 33%. Á bakhlið skjalsins kemur fram að lánið sé númer 0327-74-06222 og er undirritun aðalstefnda vottuð af tveimur vitundarvottum. Þá segir einnig: „Útfyllist af starfsmanni bankans við myntbreytingu.“ og er höfuðstóll lánsins á myntbreytingardegi jafnvirði 53.869.038 íslenskra króna. Undirritar starfsmaður bankans þessa áritun. Fékk skuldabréfið við skilmálabreytinguna númerið 0327-35-7015.
Í gögnum málsins liggur fyrir útreikningur dagsettur og undirritaður 29. janúar 2008 af aðilum þar sem andvirði skuldabréfsins er 53.788.234 krónur og bankakostnaður 80.804 krónur eða samtals 53.869.038 krónur. Er það samkvæmt stefnanda sú fjárhæð sem árituð var á skilmálabreytinguna undirritaða sama dag af stefnda. Þá kemur enn fremur fram í þeim útreikningi að heildarlántökukostnaður verði 3.104.848 krónur og er sú fjárhæð sundurliðuð í vexti og kostnað vegna þrettán gjalddaga.
Þann 31. mars 2009 undirritaði stefndi breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins með erlendu myntviðmiði. Númer skuldabréfs verður 0327-35-7015, upphaflega að fjárhæð 147.000.000 króna og útgáfudagur 15. desember 2006. Eru eftirstöðvar þann 12. janúar 2009 sagðar að jafnvirði 105.700.979 krónur og framreiknaðar eftirstöðvar 94.265.063 krónur. Skilmálar verði þannig að lánstíminn sé fjórir mánuðir, vextir reiknist frá 12. janúar 2009, fyrsti gjalddagi 10. maí 2009, fjöldi afborgana einn og mánuður á milli gjalddaga. Vextir eru óbreyttir og fjöldi vaxtadaga sagðir 3 x 1, fyrst 10. febrúar 2009 og lokagjalddagi 10. maí 2009. Dagsetning skjalagerðar er 25. febrúar 2009. Þá er áritað að lánið sé lengt um þrjá mánuði en að öðru leyti haldist ákvæði skuldabréfsins óbreytt.
Þann 4. september 2009 undirritar stefndi breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins með erlendu myntviðmiði. Segir í skjalinu að dagsetning skjalagerðar sé 20. maí 2009, númer skuldabréfs sé 0327-35-007015 og upphafleg fjárhæð 147.000 króna. Sundurliðun eftirstöðva er sögð þann 20. maí 2009 jafnvirði 108.267.576 króna. Er skilmálabreytingin skráð þannig að vextir reiknist frá 14. apríl 2009 og sé fyrsti gjalddagi afborgunar 1. september 2009. Fjöldi afborgana sé einn og mánuður á milli gjalddaga. Lokagjalddagi er 1. september 2009 og skuldfærslureikningur 0327-26-7622. Vextir voru óbreyttir og fjöldi sérstakra vaxtagjalddaga sagðir „4 x 1 fyrst 01.05.2009.“ Þá er áritað að vaxtagjalddagar séu 4 x 1 fyrst 01.05.2009, lán lengt sem því nemi og vaxtakjör óbreytt. Að öðru leyti haldist ákvæði veðskuldabréfsins óbreytt. Eru ofangreindar skilmálabreytingar áritaðar á frumrit skuldabréfsins.
Útreikningur á láni nr. 327-35-007015, dagsettur 12. ágúst 2008, liggur fyrir í málinu þar sem kemur fram að staða lánsins sé 108.860.457 krónur á þeim degi.
Þann 1. janúar 2008, gaf stefnandi út greiðsluseðil og sendi stefnda með gjalddaga 1. janúar 2008 vegna skuldabréfs nr. 6222, upphaflega að fjárhæð 147.000.000 króna, útgefið 15. desember 2006. Eru eftirstöðvar sagðar 48.914.539 krónur, afborgun verðbóta 2.885.976 krónur, vextir 1.003.993 krónur og tilkynningar og greiðslugjald 510 krónur eða samtals 52.805.018 krónur. Eru eftirstöðvar sagðar 0.00 krónur. Tiltekið er að gjalddagi sé 1 af 49.
Greiðsluyfirlit, dagsett 21. september 2009, vegna skuldabréfs nr. 0327-74-6222 liggur fyrir í málinu þar sem fram kemur að greitt hafi verið inn á skuldabréfið frá 10. janúar 2007 til 19. júní 2007 samtals 105.853.094 krónur. Kemur fram á yfirlitinu að þann 1. febrúar 2008 hafi verið skuldfært uppgjör að fjárhæð 53.869.038 krónur en gjalddaginn hafi verið 1. janúar 2008. Einnig liggur fyrir í málinu yfirlit yfir greiðslur útláns, útprentað 5. mars 2012, þar sem fram kemur að gjalddagi vegna skuldabréfs nr. 0327-35-6222 sé 1. janúar 2008 og greiðsludagur 1. febrúar 2008 og til greiðslu séu alls 53.869.038 krónur. Kveður aðalstefnandi að þessi fjárhæð sé ógreidd.
Þann 10. nóvember 2011 fór fram endurútreikningur á skuldabréfinu. Segir í skjalinu sem stílað er á stefnda í kaflanum „Forsendur láns“. Upphaflegur höfuðstóll í ÍSK 53.869.038 krónur. Uppgreiðsluvirði láns í dag í ÍSK 109.685.045 krónur. Lánveitandi Arion banki hf. Útgreiðsludagur 30. janúar 2008 og dagsetning útreiknings 1. september 2009. Í kaflanum „Endurútreikningur“ segir: Upphaflegur höfuðstóll í ÍSK 53.869.038 krónur. Áfallnir vextir á upprunalegan höfuðstól 15.493.948 krónur. Uppgreiðsluandvirði láns án innborgana í ÍSK 69.362.986 krónur. Greiðslur til vaxtaútreiknings 6.485.781 króna. Vextir á innborganir 807.740 krónur og alls greitt með vöxtum 7.293.521 króna. Niðurstaða endurútreiknings og nýr höfuðstóll sé 62.069.465 krónur og lækki um 47.615.580 krónur.
Eru eftirtaldar innborganir tilgreindar í bréfinu til stefnda.
Innborganir á lán
|
Dagsetning |
Greiðslur |
Kostnaður |
Gr. til vaxtaútreiknings |
Vextir á innb. |
Alls greitt með vöxtum |
|
5.3.2008 |
103.200 kr. |
600 kr. |
102.600 kr. |
27.528 kr. |
130.128 kr. |
|
5.3.2008 |
237.613 kr. |
600 kr. |
237.013 kr. |
63.593 kr. |
300.606 kr. |
|
10.4.2008 |
289.833 kr. |
600 kr. |
289.233 kr. |
72.016 kr. |
361.249 kr. |
|
13.5.2008 |
324.790 kr. |
600 kr. |
324.190 kr. |
74.580 kr. |
398.770 kr. |
|
10.6.2008 |
263.925 kr. |
600 kr. |
263.325 kr. |
56.334 kr. |
319.659 kr. |
|
10.7.2008 |
280.080 kr. |
600 kr. |
279.480 kr. |
54.999 kr. |
334.479 kr. |
|
13.8.2008 |
374.555 kr. |
600 kr. |
373.955 kr. |
66.590 kr. |
440.545 kr. |
|
10.9.2008 |
361.347 kr. |
600 kr. |
360.748 kr. |
58.907 kr. |
419.655 kr. |
|
10.10.2008 |
467.849 kr. |
600 kr. |
467.249 kr. |
69.094 kr. |
536.343 kr. |
|
10.11.2008 |
556.433 kr. |
600 kr. |
555.833 kr. |
74.111 kr. |
629.944 kr. |
|
10.12.2008 |
477.676 kr. |
600 kr. |
477.076 kr. |
56.931 kr. |
534.007 kr. |
|
12.1.2009 |
582.197 kr. |
600 kr. |
581.597 kr. |
58.547 kr. |
640.144 kr. |
|
3.4.2009 |
323.699 kr. |
300 kr. |
329.399 kr. |
18.455 kr. |
347.854 kr. |
|
3.4.2009 |
316.740 kr. |
300 kr. |
316.440 kr. |
17.729 kr. |
334.169 kr. |
|
14.4.2009 |
389.232 kr. |
300 kr. |
388.932 kr. |
19.533 kr. |
408.465 kr. |
|
4.5.2009 |
130.331 kr. |
300 kr. |
130.031 kr. |
5.169 kr. |
135.200 kr. |
|
2.6.2009 |
185.283 kr. |
300 kr. |
184.983 kr. |
4.802 kr. |
189.785 kr. |
|
1.7.2009 |
192.945 kr. |
300 kr. |
192.645 kr. |
3.371 kr. |
196.016 kr. |
|
1.7.2009 |
50.000 kr. |
0 kr. |
50.000 kr. |
875 kr. |
50.875 kr. |
|
4.8.2009 |
581.352 kr. |
300 kr. |
581.052 kr. |
4.576 kr. |
585.628 kr. |
|
|
6.495.081 kr. |
9.300 kr. |
6.485.781 kr. |
807.740 kr. |
7.293.521 kr. |
Þann 12. ágúst 2009 sendi stefnandi sýslumanninum í Hafnarfirði kyrrsetningarbeiðni þar sem farið var fram á að eignastýringarsafn aðalstefnda nr. B#470500 yrði kyrrsett til tryggingar kröfu stefnanda vegna skuldabréfs nr. 327-35-7015. Var staða eignastýringarsafnsins sögð vera 98.359.001 sem krafist var kyrrsetningar á. Fór kyrrsetning fram 18. ágúst 2009 í málinu K-13-2009 á heimili stefnda. Mótmælti hann kyrrsetningunni.
Þann 21. ágúst 2009 höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda til viðurkenningar á skuld stefnda við stefnanda og til staðfestingar á kyrrsetningargerð nr. K-13-2009 hjá sýslumanninum í Hafnarfirði er framkvæmd var 18. ágúst 2009 en kyrrsett var eign stefnda í eignastýringarsafni hans nr. B#470500 hjá stefnanda til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 327-26-7015 (6222). Gekk dómur í héraðsdómi þann 14. júlí 2010 þar sem staðfest var kyrrsetning í helmingi eignastýringarsafnsins en viðurkenningarkröfunni vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 470/2010 þann 17. nóvember 2011 var málinu vísað frá héraðsdómi í heild sinni, m.a. á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði farið út fyrir grundvöll málsins, enda hefði bankinn einungis krafist viðurkenningar á því að hann ætti ótilgreinda fjárkröfu samkvæmt skuldabréfinu en ekki kröfu tiltekinnar fjárhæðar. Samrýmdist það ekki 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., en samkvæmt ákvæðinu gæti kyrrsetning ekki farið fram til tryggingar fjárkröfu án þess að kveðið væri á um fjárhæð hennar.
Þann 23. mars 2010 gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu E-12679/2009. Krafði Steinunn R. Sigurðardóttir, eiginkona aðalstefnda og gagnstefnanda, þess að Arion banka hf. yrði gert að greiða henni 49.179.500 krónur ásamt tilgreindum dráttarvöxtum á grundvelli eignarhluta hennar í eignastýringarsafni nr. B#470500 hjá gagnstefnda. Var gagnstefndi, stefndi í því máli, dæmdur til að greiða henni umþrætta fjárhæð ásamt dráttarvöxtum. Var þeim dómi ekki áfrýjað til Hæstaréttar og greiddi gagnstefndi þá fjárhæð til lögmanns gagnstefnanda þann 2. september 2010.
Framsal Fjármálaeftirlitsins.
Af hálfu stefnanda var lögð fram ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefnda fyrir Kaupþing banka hf., ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, til Nýja Kaupþings banka hf., kt. 581008-0150. Segir í 1. lið að öllum eignum Kaupþings banka hf., hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum, sé ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf. þegar í stað. Þær eignir og réttindi sem tilgreindar séu í VIÐAUKA séu þó undanskildar framsalinu.
Með bréfi þann 14. október 2008 frá forstjóra Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Fjármálaeftirlitsins segir um forsendur fyrir skiptingu efnahagsreiknings Landsbanka Íslands hf., Kaupþings hf. og Glitnis hf. í samræmi við lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. m.a. að afleiðusamningar séu ekki færðir yfir í nýja bankann. Þá er tekið fram að útlán til viðskiptavina, önnur en þau sem tilgreind eru sérstaklega, skulu færð yfir í nýja bankann á bókfærðu verði að teknu tilliti til áætlaðra afskrifta einstakra útlána.
Þá er staðfesting stefnanda frá 10. janúar 2012 um að skuldabréf nr. 327-35-7015 (upphaflega nr. 354-74-6222) hafi verið framselt frá Kaupþingi banka hf. til Arion banka hf. í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf.
Skýrsla stefnda fyrir dómi.
Stefndi kvaðst fyrir dóminum hafa verið í miklum viðskiptum við Kaupþing banka hf. í gegnum tíðina og hafi hlaupið á milljarði yfir árið. Hann hafi selt fyrirtækið Sandtak og fengið fyrir það 104.000.000 króna, sem hann hafi sett inn á eignastýringarsafn hjá bankanum. Það hafi verið í kringum árið 2004. Eftir að hann seldi fyrirtækið hafi hann keypt og selt fasteignir, blokkir og raðhús og fleira og hafi það farið í gegnum bankann. Þá hafi hann verið með útgerð á sama tíma. Þá hafi bankinn séð um fjárfestingar fyrir sig í hlutabréfum, skuldabréfum, erlendum samningum o.fl. Hafi það verið kallað afleiðusamningar, gjaldmiðlaskiptasamningar o.fl. Hafi stefnandi fjármagnað alla þessa hluti. Stefndi kvaðst hafa gefið út skuldabréf 15. desember 2006 að fjárhæð 147.000.000 króna og hafi það verið hluti af afleiðuviðskiptum. Andvirði lánsins hafi farið í að greiða upp 60.000.000 króna lán sem hafi verið gefið út nánast á sama degi. Stefndi kvaðst ekki hafa fengið sérstakt uppgjör vegna skuldabréfsins heldur hafi féð farið í að greiða marga aðra samninga. Stefndi kveðst hafa reynt að fá uppgjör bæði hjá stefnanda og skilanefnd Kaupþings banka hf. en ekki fengið nema að hluta vegna lánasamnings, dskj. nr. 40. Stefndi kvaðst hafa fengið yfirlit frá skilanefndinni fyrir nokkrum dögum þar sem standi lán nr. 3077 vegna erlends lánasamnings og hafi hann greitt þennan lánasamning um leið og hann fékk skuldabréfið útgreitt. Stefnda var sýnt dskj. 17, afrit af greiðsluseðli, og kvaðst hann kannast við hann. Kvað hann aðspurður að þegar lánið 147.000.000 króna hafi verið tekið hafi staða hans hjá stefnanda verið góð. Þau hafi verið með fullt af lánasamningum og bankinn hafi verið með fullt af veðum í Kirkjuvöllum, Engjavöllum og Strandgötu. Þá hafi bankinn verið með veð fyrir öllum skuldum hans. Aðspurður kvað hann lánið hafa verið sett upp sem fimm ára lán, en síðan hafi bara átt að skoða stöðuna. Þetta hafi verið ákvörðun bankans. Kvað hann ávallt hafa verið gefin út skilyrt veðleyfi af hálfu bankans þegar greiðslur komu inn vegna sölu eigna og hafi greiðslur því gengið til bankans. Aðspurður um greiðslur að fjárhæð 105.000.000 króna kvað hann það hafa verið ýmsar innkomur sem bankinn hafi ráðstafað inn á skuldabréfið. Hann hafi ekki gefið bankanum bein fyrirmæli um að þær greiðslur færu inn á skuldabréfið, en bankinn hafi gefið út skilyrt veðleyfi þegar eignir seldust og ráðstafað greiðslum í framhaldi af sölum. Aðspurður um viðbrögð hans þegar greiðsluseðill, dskj. 17, var gefinn út kvaðst hann hafa þá rætt við bankann og sagt þá fjárhæð ekki vera í samræmi í ákvæði skuldabréfsins. Bankinn hafi sagt að það þyrfti að breyta eftirstöðvunum, þar sem búið væri að selja mismikið af fasteignum og þá annaðhvort í erlent lán eða lán með 20% vöxtum. Hann hafi samið um það við Sigurð Þór Snorrason, starfsmann bankans. Útistandandi hafi verið þá eitthvað af ógreiddum samningum og mikið af íbúðum óseldar á þeim tíma. Aðspurður um skilmálabreytingar fylgjandi veðskuldabréfinu kvaðst hann ekki hafa séð yfirstrikanir á bakhlið bréfsins en kannaðist við aðrar.
Lýsti stefndi því hvernig kyrrsetningin fór fram. Kvað hann sýslumann ekki hafa leiðbeint sér við gerðina né hafi honum verið bent á að hann gæti bent á eignir né að hann gæti losnað undan gerðinni með því að benda á eignir eða setja tryggingar fyrir gerðinni. Fulltrúi sýslumanns hafi ekki kynnt sig persónulega en kynnt sig sem fulltrúa sýslumanns. Þá hafi Elín Stefánsdóttir, starfsmaður Arion banka, verið með sýslumanni. Stefndi kvaðst hafa lagt fram bréf sitt til Arion banka við gerðina um uppsögn á eignastýringarsafninu.
Stefndi kvaðst hafa verið í útgerð á þessum tíma, leigja og selja kvóta og fengið fyrirgreiðslu hjá stefnanda vegna þeirra viðskipta. Á þessum tíma hafi þau fengið tækifæri á að leigja kvóta fyrir 60.000.000 króna í byrjun ágúst 2009. Þau hafi á þeim tíma þurft að losa peninga vegna þeirra viðskipta. Þá lýsti stefndi því að í júlí 2009 hafi hann óskað eftir því að eignastýringarsafnið væri fært á nafn þeirra hjóna. Í framhaldi hafi hann sagt eignastýringarsafninu upp.
Aðspurður um það hvort stefndi hafi lýst því yfir við stefnanda í ágúst 2009 að hann ætlaði ekki að standa við skuldbindingar sínar, neitaði hann því. Sagði hann Elínu hafa hringt þá í sig og sagt sér að það þyrfti að fara að gera upp bréfið, það stæði í rúmlega 108.000.000 króna. Stefndi kvaðst hafa sagt að sér hafi þótt það fullmikið en hann væri tilbúinn að greiða upphaflegan höfuðstól sem hafi verið rúmlega 53.000.000 króna. Þá kvaðst stefndi aldrei hafa fengið tilkynningar um breytingu á vöxtum skuldabréfsins.
Aðspurður um það í hvað lánsfjárhæð skuldabréfsins hafi farið, kvað hann það hafa farið inn á lán, dskj. 40, og aðra samninga, hann hafi m.a. verið með fleiri skuldabréf þarna. Aðspurður um bréf til stefnanda, dagsett 20. júlí 2009, dskj. 10, kvaðst stefndi hafa verið á sjó á þessum tíma, og eiginkona hans hafi átt í erfiðleikum með að taka út fé af eignastýringarsafninu. Því hafi þau ætlað að setja helming af eignastýringarsafninu á hennar nafn svo hún ætti auðveldara með að taka út fé. Þar sem bankinn hafi ekki orðið við beiðni þeirra hafi þau sagt eignastýringarsafninu upp. Þau hafi hins vegar engin svör fengið frá stefnanda vegna þeirra bréfa.
Aðspurður um dskj. 17, greiðsluseðil, kvaðst stefndi ekki muna til þess að hafa fengið hann sendan heim á sínum tíma en gæti ekki fullyrt um það. Hann myndi þó að honum hafi verið sýndur seðillinn og sagt að það væri staðan sem síðan hafi verið gengið frá. Kvaðst stefndi hafa fengið yfirlit yfir viðskipti sín send um hver áramót og hann hafi áframsent þau til síns endurskoðanda. Hann hafi ekki gert athugasemdir við þau yfirlit. Alltaf hafi verið talað um það að skuldabréfið yrði gert upp þegar íbúðir seldust.
Málsástæður stefnanda í aðalsök.
Stefnandi byggir málsókn sína á verðtryggðu skuldabréfi sem stefndi gaf út þann 15. desember 2006 til stefnanda upphaflega að fjárhæð 147.000.000 króna. Var skuldabréfið upphaflega með númer 327-74-6222 en fékk nýtt númer, 0327-35-7015, við skilmálabreytingu bréfsins 29. janúar 2008 þegar bréfinu var breytt í erlent lán. Skuldabréfið sé til [tólf]fimm ára með fyrsta gjalddaga 1. janúar 2008. Samkvæmt ákvæðum bréfsins hafi átt að greiða 130.000.000 króna af bréfinu á fyrsta gjalddaga en eftirstöðvar bréfsins með 48 gjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. febrúar 2008.
Þann 29. janúar 2008 hafi stefndi óskað eftir skilmálabreytingu á láninu úr íslenskum krónum í erlendar myntir. Við myntbreytinguna hafi nýja lánið fengið nýtt númer, 7015, og var heildarskuld stefnda þá 53.869.038 krónur. Stefndi hafi líka skrifað undir greiðsluáætlun, dskj. 41, en þar komi fram andvirði skuldabréfsins, 53.788.284 krónur, og ef lántökukostnaður, 80.084 krónur, séu dregnar frá fáist eftirstöðvar skuldabréfsins sem koma fram á sjálfri skilmálabreytingunni 29. janúar 2008, 53.869.038 krónur.
Á dskj. 31, greiðsluyfirliti, komi fram eftirstöðvar skuldabréfsins með vöxtum og áföllnum kostnaði, samtals 53.869.038 krónur. Er sú fjárhæð með dráttarvöxtum til 30. janúar 2008. Þegar skilmálabreytingin hafi verið gerð hafi dráttarvextir verið fallnir á kröfuna, 1.063.425 krónur, og samtals hafi eftirstöðvar því verið orðnar 53.869.038 krónur sem hafi verið höfuðstóll skuldarinnar við myntbreytinguna og innfært á skuldabréfið. Stefndi hafi á þeim tíma engar athugasemdir gert við skuldina og ekki fyrr en kyrrsetningin fór fram. Lagði stefnandi fram bókun 23. janúar 2013 þar sem höfuðstóll skuldarinnar er útskýrður.
Stefndi hafi aftur þann 31. mars 2009 óskað eftir breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins með erlendu myntviðmiði sem stefnandi varð við. Voru eftirstöðvar þann 12. janúar 2009 sagðar að jafnvirði 105.700.979 króna og framreiknaðar eftirstöðvar 94.265.063 krónur.
Þann 4. júní 2009 hafi stefndi aftur óskað eftir skilmálabreytingu og frystingu á láninu og var lánið þá að jafnvirði 108.267.576 króna.
Stefnandi kveður lán þetta hafa verið tryggt með innstæðu á markaðsreikningi nr. 327-13-300926 hjá stefnanda, en að stefndi hafi svo farið fram á að færa þá inneign inn á eignastýringarsafn sitt hjá stefnanda með númerinu B # 470500 án þess að það hafi verið sérstaklega veðsett til tryggingar greiðslu skuldarinnar.
Þá hafi stefndi greitt hraðar inn á bréfið en bréfið sjálft kvað á um eða 105.853.094 krónur til 1. janúar 2008, sbr. dskj. 34. Eftirstöðvar lánsins hafi því verið 52.805.018 krónur 1. janúar 2008, eins og dómskjal 17, greiðsluseðillinn, beri með sér. Þann greiðsluseðil hafi stefndi ekki greitt.
Stefnandi kveðst hafa endurreiknað lán stefnda á grundvelli þeirra fyrirmæla sem fram koma í 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, enda falli samningsákvæði skuldabréfsins undir gildissvið 1. mgr. 18. gr. Höfuðstóll skuldabréfsins á myntbreytingardegi, þ.e. þegar skuldabréfinu hafi verið myntbreytt í erlendar myntir, hafi verið 53.869.038 krónur, sbr. skilmálabreytingu dags. 29. janúar 2008. Sú fjárhæð hafi verið endurreiknuð í samræmi við 18. gr. vxl., þ.e.a.s. upphaflegur höfuðstóll kröfunnar, í íslenskum krónum (53.869.038 kr.), hafi verið vaxtareiknaður með óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands frá útgreiðsludegi skuldabréfsins (30.01.2008), sbr. 3. mgr. 18. gr. vxl., og hafi verið lagðir við höfuðstól einu ári eftir lántöku og síðan árlega, sbr. 12. gr. vxl. Frá þessari fjárhæð hafi svo verið dregnar greiðslur, sem stefndi hafi innt af hendi (þ.e. afborganir af höfuðstól, vextir, dráttarvextir og vanskilaálögur), samtals 6.485.781 króna, vaxtareiknaðar frá greiðsludegi hverrar greiðslu til viðmiðunardags endurútreiknings, sem sé gjalddagi lánsins, þ.e. 1. september 2009. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar, þ.e. höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Stefnandi kveður að samkvæmt ofangreindu nemi nýr höfuðstóll kröfunnar, endurreiknaður í samræmi við 18. gr. vxl., á gjalddaga hennar 62.069.465 krónum sem hafi verið stefnufjárhæð.
Stefnandi hafi lagt fram bókun þann 7. nóvember 2012 þar sem hann hafi breytt kröfugerð sinni til lækkunar og lagt fram endurútreikning hennar, byggðan á forsendum dóma Hæstaréttar í málum nr. 471/2010, 600/2011 og 646/2012. Segir stefnandi í bókun sinni að hann geti ekki, með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar í ofangreindum málum, krafið stefnda um greiðslu vaxta umfram þá fjárhæð erlendra vaxta, sem hann hafi sannanlega greitt, enda teljist vextir af kröfunni fullgreiddir samkvæmt fullnaðarkvittunum stefnanda. Stefnandi lækki því kröfu sína í málinu með tilliti til þessa. Lagði stefnandi fram sundurliðun á útreikningi sínum því til staðfestu.
Stefnandi mótmælti bókun stefnda á dskj. 36 sem nýjum málsástæðum og ósönnuðum enda engin grein gerð fyrir þeim í greinargerð stefnda. Einnig mótmælir stefnandi bókun á dskj. 38 þar sem stefndi krefst lækkunar krafna vegna innborgana 7. febrúar 2007 og 11. maí 2009 en millifærsla þann 7. febrúar 2007 tengist máli þessu ekkert og millifærsla 11. maí 2009 hafi verið færð inn á lánið eins og komi fram á dskj. 45.
Stefnandi skýrir muninn á aðal- og varakröfu þannig að í aðalkröfunni sé ofgreiðslu vaxta ekki ráðstafað inn á höfuðstólinn. Stefndi hafi greitt hærri vexti en óverðtryggðir vextir voru, en í varakröfunni sé ofgreiddum vöxtum ráðstafað inn á höfuðstólinn. Ákveðin óvissa hafi verið um það hvernig skyldi fara með ofgreidda vexti. Í dómi Hæstaréttar, Plastiðjumálinu, hafi lántakandi krafist endurgreiðslu á ofgreiddum vöxtum en Hæstiréttur hafnað því. Þá séu greiddir vextir stefnda færðir inn á endurútreikninginn en ekki vextir samkvæmt Seðlabanka Íslands. Því sé ekki verið að krefja aðalstefnda um ofreiknaða vexti af skuldinni.
Upphaflega hafi verið gerð krafa um greiðslu með erlendu myntviðmiði áður en dómar Hæstaréttar fóru að ganga. Í stefnu sé gerð krafa miðað við fyrri útreikning skv. 5. gr. vaxtalaga en síðan hafi Borgarbyggðardómurinn gengið og hafi kröfugerðin þá verið lækkuð í samræmi við þann dóm.
Þá krefst stefnandi dráttarvaxta og segir kröfuna hafa fallið í gjalddaga 1. september 2009 og sé heimild í bréfinu að reikna dráttarvexti frá gjalddaga.
Þegar kyrrsetningin var gerð, 18. ágúst 2009, var skuldabréfið ekki fallið í gjalddaga og þá ekki aðfararhæft.
Kyrrsetningin.
Stefnandi segir að þann 13. mars 2009 hafi stefndi óskað eftir því að fjármunir sem hann átti í bankanum yrðu færðir á eignastýringarsafn hans í bankanum nr. B#470500 sem hafi verið gert. Þeir fjármunir hafi verið handveðsettir fyrir öllum skuldum stefnda við bankann. Annar handveðssamningurinn frá 5. maí 2006 hafi verið til tryggingar fyrir innlánsreikningi stefnda gagnvart öllum skuldum hans hjá bankanum. Eignastýringarsafn nr. B#470500 hafi ekki verið veðsett nema til tryggingar á yfirdráttarskuld reiknings nr. 763 hjá bankanum. Hinn samningurinn hafi verið til tryggingar á öllum skuldum stefnda hjá bankanum. Bankinn hafi hins vegar ætlað, við yfirfærslu af reikningi stefnda yfir í eignastýringarsafnið, að safnið yrði áfram til tryggingar öllum skuldum stefnda hjá bankanum en bankinn hafi hins vegar gert ákveðin mistök þannig að skuldabréf nr. 7015 hafi verið ótryggt. Stefndi hafi óskað tvívegis eftir því að skuld hans við bankann yrði fryst, sem hafi verið gert þannig að afborgunum var frestað og að lokum þannig að lokagreiðsla yrði 1. september 2009. Í framhaldi hafi stefndi farið í ákveðnar breytingar á eignum sínum sem virtust vera gerðar í þeim tilgangi að koma eignum undan þannig að bankinn gæti ekki gengið í þær vegna skulda stefnda við stefnanda. Þannig hafi stefndi í júní 2009 fært hesthús, sem hann átti, yfir á nafn eiginkonu sinnar. Þá hafi stefndi óskað eftir því í júlí 2009 að helmingur eignastýringarsafnsins yrði fært á nafn eiginkonu sinnar. Á þeim tíma hafi stefnandi verið í þeirri trú að eignarstýringarsafnið væri allt veðsett fyrir skuldum stefnda við bankann. Í framhaldi hafi stefndi, eða 31. júlí 2009, sagt upp eignastýringarsafninu og óskað eftir afhendingu eignanna. Vegna þessara aðgerða taldi stefnandi brýnt að fá fjármuni á eignastýringarsafninu kyrrsetta en þann 6. ágúst 2009 hafi eftirstöðvar skuldabréfsins verið 108.860.457 krónur en inneign á eignastýringarsafninu verið 98.359.001 króna. Á þeim tíma töldu allir að eftirstöðvar sem voru í erlendum myntum að nokkur mismunur væri á kröfu bankans og eignastöðu stefnda, svo kyrrsetningar var krafist í ágúst 2009 og sé krafist staðfestingar á þeirri kyrrsetningu. Eiginkona stefnda höfðaði síðan mál gegn bankanum og gerði kröfu um greiðslu á helmingi af eignastýringarsafninu í máli nr. E12679/2009 við Héraðsdóm Reykjavíkur og varð niðurstaðan sú að bankinn var dæmdur til greiðslu á þeim fjármunum. Stefnandi greiddi þá fjárhæð 2. september 2009 ásamt dráttarvöxtum.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 470/2011 vísaði Hæstiréttur máli stefnanda frá dómi, uppkveðnum 17. nóvember 2011, vegna ákveðinna galla á málatilbúnaði stefnanda þess máls. Það mál, sem rekið sé hér, hafi verið höfðað innan viku frá því málinu var vísað frá Hæstarétti.
Stefnandi mótmælir því að umrætt eignasafn stefnda sé einnig í eigu eiginkonu stefnda en hann hafi ekki gert reka að því að breyta safninu í svokallað hjónasafn sem heimilt sé. Þá mótmælir stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að hann hafi boðið fram greiðslu á höfuðstól kröfunnar en á þeim tíma hafi skuldin verið uppreiknuð rúmlega 108.000.000 króna en þá hafi menn talið að lán í erlendri mynt væri lögleg krafa.
Þann 18. ágúst 2009 hafi farið fram kyrrsetningargerð hjá sýslumanninum í Hafnarfirði þar sem kyrrsett var inneign stefnda á eignastýringarsafni hans nr. B # 470500. Stefnandi kveður kyrrsetninguna hafa verið nauðsynlega til þess að tryggðir væru hagsmunir hans.
Stefnandi vísar til 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., en þar komi fram að kyrrsetning standi í eina viku frá því gerðarbeiðanda sé kunnugt um frávísun dóms. Að loknum þeim fresti falli gerðin sjálfkrafa úr gildi, nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið stefnu gefna út á ný til staðfestingar henni. Stefna hafi verið birt stefnda í máli þessu 24. nóvember 2011 og sé málið því höfðað innan tilskilins frests.
Þá hafi stefnandi gert aðför í eignum stefnda þann 22. nóvember 2011. Ekki hafi verið mætt af hálfu stefnda við þá aðfarargerð.
Lagatilvísanir.
Stefnandi kveðst vísa um efnisleg skilyrði kyrrsetningar til 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann en vegna kröfunnar um staðfestingu kyrrsetningar til VI. kafla sömu laga. Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991. Vísað er til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936.
Stefnandi mótmælir kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðilaskorts. Kveður hann skuldabréfið hafa verið gefið út til Kaupþings banka hf., sem fór yfir til Nýja Kaupþings banka hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, birt í Lögbirtingablaðinu, og tekin á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hafi skuldabréfinu verið ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf. auk þess sem yfirlýsingar liggja fyrir frá gagnstefnda um eign bréfsins en um þetta efni hafi gengið dómur í máli Hæstaréttar nr. 567/2011. Þá hafi stefndi undirritað tvær skilmálabreytingar hjá stefnanda en ekki til Kaupþings sem hann byggi nú á að eigi bréfið. Stefndi hafi greitt 11 greiðslur til stefnanda en ekki til Kaupþings. Sáttaumleitanir hafi farið fram til að leysa málið og sé það í bága við málsástæðu stefnda nú um að stefnandi eigi ekki kröfuna. Þá fari sú yfirlýsing stefnda um að hann hafi boðið stefnanda höfuðstól skuldarinnar til greiðslu í bága við málsástæðu hans nú. Stefndi hafi aldrei boðið Kaupþingi hf. greiðslu.
Stefnandi mótmælir kröfu stefnda um lækkun á skuldinni. Í greinargerð stefnda sé gerð almenn krafa um lækkun en enginn rökstuðningur færður fyrir þeirri kröfu.
Gagnsök.
Gagnstefndi krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda. Til vara krefst hann lækkunar á kröfum gagnstefnanda. Þá sé fallið frá þeirri kröfu í greinargerð að krefjast sýknu að svo stöddu. Krafa gagnstefnanda, 3.791.888 krónur, sé samtala innborgana sem stefndi hafi greitt til stefnanda og 49.179.500 krónur sé helmingur af eignastýringarsafni stefnda hjá stefnanda. Varðandi fyrri hluta kröfunnar byggi gagnstefnandi á því að gagnstefndi hafi ekki fengið skuldabréfið framselt þar sem það sé afleiðusamningur og ekki hafi verið heimilt að framselja það til Nýja Kaupþings banka hf. Skuldabréfið hafi því ekki verið framselt. Þessu sé mótmælt en skuldabréfið sé ekki afleiðusamningur. Þá mótmælir gagnstefndi því að skuldabréfið hafi verið notað til að greiða afleiðusamninga. Gagnstefnandi hafi sjálfur sagt að skuldabréfið hafi verið notað til að greiða upp í lánasamninga. Gagnstefndi mótmælir framlögðum gögnum um afleiðusamninga og að þau hafi eitthvað inn í málið að gera. Varðandi kröfu gagnstefnanda um 49 milljónir, vísar gagnstefndi til greinargerðar sinnar varðandi þennan lið. Mótmælir hann einnig dráttarvaxtakröfum gagnstefnanda en verði krafa gagnstefnanda tekin til greina þá beri honum að fá greidda vexti í fyrsta lagi frá 10. janúar 2012 eða mánuði eftir að krafan var birt. Gagnstefndi mótmælti öllum kröfum gagnstefnanda og málsástæðum hans.
Þá kvað gagnstefndi að búið væri að taka á frávísunarkröfum aðila í úrskurðum og því ekki gerð krafa um það aftur nú við aðalmeðferð málsins. Þá kvað gagnstefndi að bókanir, sbr. dskj. 33, hafi verið til að bregðast við sérstöku réttarástandi vegna nýrra dóma Hæstaréttar. Gagnstefndi mótmælti því að skýrslutökur úr öðru dómsmáli, sbr. dskj. 35, hafi sönnunargildi í máli þessu. Þá mótmælir gagnstefndi því að gagnstefnandi hafi boðið fram greiðslu á höfuðstól skuldarinnar, enda hafi hann ekki lagt fram nein gögn þess efnis, né hafi hann reynt að geymslugreiða fjárhæðina. Gagnstefndi mótmælir því að ákvæði skuldabréfsins hafi verið brot gegn ákvæðum vaxtalaga um lengd verðtryggðra skuldabréfa. Skuldabréf nr. 7015 hafi verið til fimm ára en skuldari hafi greitt hraðar inn á skuldina en bréfið sjálft bar með sér. Það hafi ekki breytt grundvelli skuldabréfsins á neinn hátt.
Gagnstefndi mótmælir því að í endurútreikningi hans hafi falist ný málsástæða. Ástæða þess að dskj. 34 hafi verið lagt fram, sé sú að dómur hafi fallið í máli gegn Arion banka og útreikningurinn sé byggður á því. Stefndi hafi aldrei verið krafinn um óverðtryggða vexti afturvirkt. Rangt sé að sé verið að krefja um vexti aftur í tímann. Segir gagnstefndi að í útreikningum, sbr. dskj. 34, hafi stefndi tvisvar greitt hærri vexti en seðlabankavextir hafi verið en samkvæmt Plastiðjudóminum eigi skuldari ekki rétt á endurgreiðslu.
Málsástæður og lagarök stefnda í aðalsök.
Stefndi krefst þess aðallega að máli stefnanda verði vísað frá dómi. Fór málflutningur fram um þá kröfu þann 29. maí 2012 og var frávísunarkröfu stefnda hafnað með úrskurði uppkveðnum 21. júní 2012. Engar nýjar málsástæður hafa komið fram hjá stefnda sem rökstyðja frekari frávísunarkröfu hans.
Aðildin.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Byggir stefndi á því að umþrætt skuldabréf hafi verið liður í afleiðusamningum sem stefndi hafi gert við stefnanda og samkvæmt því hafi ekki verið heimilt að ráðstafa skuldabréfinu frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf. Stefndi kveðst hafa leitað eftir því hjá Kaupþingi banka hf., undir rekstri Hæstaréttarmáls nr. 470/2010, að fá afrit af afleiðusamningi nr. 1112 en slitastjórn sagt hann ekki fyrir hendi. Segir stefndi að svo virðist sem skilanefnd hafi glatað honum. Stefndi kveður stefnanda ekki hafa leitt líkur að eignarhaldi sínu á bréfinu og vísar til framburðar Sigurðar Þórs Snorrasonar, forstöðumanns viðskiptasviðs Arion banka hf., í héraðsdómsmálinu E-3425/2009 þar sem hann lýsir því að stefndi hafi verið í fjölþættum viðskiptum við bankann og að skuldabréfið, að fjárhæð 147.000.000 króna, sé rakið til þeirra viðskipta svo og til gjaldmiðlaskiptasamninga. Þá sé skilyrt að skuldabréf beri með sér áritun um framsal á bréfinu sjálfu, sbr. tilskipun frá 1798. Þá byggir stefndi sýknukröfu sýna á að skuldabréfið sé nafnbréf, gefið út til Kaupþings banka hf., og beri ekki áritun um framsal til stefnanda. Undirritun starfsmanna bankans síðar hafi enga þýðingu varðandi framsalsheimildir bankans.
Varakrafa um lækkun.
Verði sýknukrafa stefnda ekki tekin til greina krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda. Vísar hann til þess að stefnandi hafi ekki gert grein fyrir tölulegum grundvelli kröfunnar með vísan til skuldabréfsins. Stefndi mótmælir fyrirliggjandi útreikningum sem marklausum. Grundvöllur endurútreikninga sé ekki skýrður, lánsnúmer sé rangt og upphaflegur höfuðstóll í íslenskum krónum en ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Segir stefndi kröfur stefnanda koma fyrst fram í málflutningi og mótmælir því og öllum þeim breytingum sem stefnandi hefur gert undir rekstri málsins. Stefnandi hafi raskað grundvelli málsins frá útgáfu stefnu.
Þá kveður stefndi verðtryggingu lánsins vera ólögmæta og því beri að sýkna hann. Verðtryggð lán verði að vera til fimm ára. Verðtryggt lán miðað við gengi verði líka að vera til fimm ára. Þá hafi stefndi ekki greitt neitt inn á lánið, allar greiðslur séu greiðslur sem bankinn hafi tekið úr öðrum samningum sem stefndi hafi verið með hjá bankanum.
Verði stefndi ekki sýknaður af öllum kröfum stefnanda, krefst stefndi þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar um 20.954.998 krónur og til þrautavara um 29.543.848 krónur. Segir hann að láninu hafi fyrst verið breytt á fyrsta gjalddaga lánsins og því sé lánið ekki verðtryggt. Stefndi hafi greitt inn á lánið um 105.000.000 króna og ef þetta dragist allt frá þá sé höfuðstóllinn 41.146.906 krónur. Þá séu innborganir að auki 6.913.590 krónur. Þá þurfi að leiðrétta dskj. 40, lánasamningur í erlendum myntum. Innborgun að fjárhæð 4.689.468 krónur hefði líka átt að lækka bréfið í öndverðu. Þessi fjárhæð hafi verið greidd af láninu en bankinn neiti að leggja fram gögn um þetta. Þá mótmælir stefndi vaxtaleiðréttingu í dskj. 38, útborgun af reikningi stefnda inn á reikning stefnanda sem sé vaxtaleiðrétting. Það sé greiðsla sem stefndi eigi að fá. Þá mótmælir stefndi nýjum málsástæðum sem koma fram í bókun stefnanda í dskj. nr. 33 en þær málsástæður komi ekki fram í stefnu.
Dráttarvextir.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um dráttarvexti af kröfunni frá 1. september 2009. Verði krafa stefnanda tekin til greina eigi hann ekki rétt á dráttarvöxtum fyrr en frá dómsuppsögu. Ekki sé rökstutt í stefnu hvers vegna bankinn eigi að fá dráttarvexti nema þá frá dómsuppsögu. Stefndi hafi boðið fram greiðslu en lánardrottinn ekki viljað taka við henni. Skuldunaut sé þá ekki skylt að greiða vexti frá þeim tíma.
Stefndi kveðst hafa boðið stefnanda að greiða 53 milljónir og hafa boðið bankanum veðheimildir í skipi og fasteign en bankinn neitað og krafið hann um 108 milljónir. Staðfest sé með framburði starfsmanna bankans að stefndi hafi boðið fram greiðslu á höfuðstól skuldarinnar en bankinn ekki viljað taka við greiðslunni, sbr. tilskipun frá 1798. Sé því um viðtökudrátt af hálfu gagnstefnda að ræða.
Kyrrsetningin.
Stefndi kveður að hafna eigi kröfu stefnanda um staðfestingu á kyrrsetningunni þar sem Arion banki hafi ekki verið réttur aðili að kyrrsetningargerðinni. Að auki hafi kyrrsetningin verið gerð á þeim gögnum sem lágu fyrir við kyrrsetninguna en eingöngu ljósrit af skuldabréfinu hafi þá legið frammi. Þá hafi verið farið heim til stefnda án boðunar og honum ekki boðið að benda á aðrar eignir til tryggingar kröfunni. Ágreiningur sé um aðildina og líka tölulega skuld. Þá séu rangfærslur í kyrrsetningarbeiðninni eins og að sagt sé að eignasafnið væri veðsett.
Stefndi vísar til 5. gr. laga um kyrrsetningu og segir að skilyrði kyrrsetningar hafi ekki verið fyrir hendi þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann ætti lögvarða kröfu á hendur stefnda. Í 6. gr. kyrrsetningarlaga sé talið fram með hvaða hætti kyrrsetning fari fram. Hún sé til tryggingar peningakröfu sem hægt sé að fylgja eftir með fjárnámi. Þá eigi kyrrsetning ekki að fara fram nema raunhæfa nauðsyn beri til. Svo hafi ekki verið fyrir hendi hér. Kyrrsetningu verði aðeins beitt í undantekningartilvikum. Skilyrði kyrrsetningar hafi ekki verið fyrir hendi og því beri að hafna henni. Krafan sem kyrrsetningunni sé ætlað að tryggja var ekki enn komin í gjalddaga og stefndi hafði greitt allar afborganir sem voru gjaldfallnar. Stefndi hafi ekkert aðhafst sem hafi verið óeðlilegt né gæti réttlætt aðgerðir stefnanda. Stefndi hafi líka sannanlega boðið fram greiðslu. Þá hafi gögnin sem fylgdu kyrrsetningarbeiðninni ekki verið í lögmæltu formi, en tilskilið sé að frumrit skuli fylgja beiðni. Það hafi ekki verið í þessu máli. Nú fyrst sé frumrit lagt fram í þessu máli. Þá eigi að boða gerðarþola til kyrrsetningargerðar og sérstök ástæða þurfi að vera til staðar sé svo ekki gert. Þá hafi stefndi aldrei undirritað endurritið heldur hafi Elín sagst hafa ritað nafn Einars í gerðina.
Þá vísar stefndi til 39. gr. laga um kyrrsetningu og segir hana ekki eiga við þegar Hæstiréttur vísar máli frá dómi.
Krafa gagnstefnanda.
Gagnstefnandi krefst þess að gagnstefnda verið gert að greiða gagnstefnanda 52.967.388 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 556.433 krónum frá 10. nóvember 2008 til 10. desember 2008 en af 1.034.109 krónum frá þeim degi til 12. janúar 2009 en af 1.616.306 krónum frá þeim degi til 3. apríl 2009, en af 2.262.745 krónum frá þeim degi til 14. apríl 2009 en af 2.651.232 krónum frá þeim degi til 4. maí 2009, en af 2.782.308 krónum frá þeim degi til 2. júní 2009 en af 2.967.591 krónu frá þeim degi til 1. júlí 2009, en af 3.210.536 krónum frá þeim degi til 4. ágúst 2009, en af 3.791.888 krónum frá þeim degi til 6. ágúst 2009, en af 52.967.388 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í gagnsök.
Í gagnstefnu segir í kaflanum „málsástæður og atvik máls“ að málavextir séu þeir að gagnstefnandi hafi, ásamt eiginkonu sinni, Steinunni Rósborgu Sigurðardóttur, átt í umfangsmiklum viðskiptum við Kaupþing banka hf., kt. 560882-0419, og notið þar sérfræðiráðgjafar, meðal annars um ávöxtun sparifjár, en þau hjón hafi átt í bankanum fjármuni í eignastýringu í eignastýringarsafni nr. 470500, samkvæmt samningi, dagsettum 4. júní 2004. Gagnstefnandi hafi, fyrir milligöngu Kaupþings banka hf., verið umfangsmikill á byggingarmarkaði, keypt m.a. fasteignir í byggingu, áframbyggt og selt í samráði við bankann. Til uppgjörs í afleiðusamningum hafi gagnstefnandi gefið út skuldabréf til bankans þann 15. desember 2006 að fjárhæð 147.000.000 króna, verðtryggt. Eftir útgáfu skuldabréfsins hafi bankanum borist, úr afleiðusamningum, fyrir gjalddaga, umtalsverðar greiðslur eða ríflega 100.000.000 króna sem bankinn hafi ekki gert grein fyrir.
Í október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir völd hluthafafundar Kaupþings banka hf., vikið stjórninni frá og skipað skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 21. október 2008 hafi öllum eignum Kaupþings banka hf., hverju nafni sem þær nefnist, verið ráðstafað til Nýja Kaupþings hf., nú Arion banka hf. Samkvæmt 1. gr. um eignir hafi réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum ekki flust til hins nýja banka og séu því kröfur gagnstefnda í aðalsök ekki á hans forræði, enda hafi gagnstefndi ekki framsalsheimild fyrir bréfinu.
Með bréfi lögmanns gagnstefnanda 20. júlí 2009 til gagnstefnda hafi þess verið farið á leit að eignarhaldi á eignastýringarsafni yrði breytt og það skráð eftirleiðis á nafn beggja hjóna, enda væri eignasafnið hjúskapareign þeirra. Tilkynning þessi til bankans hafi verið í samræmi við ákvæði 10. gr. samningsins. Á eignasafninu hafi engar kvaðir hvílt eða bönd og hafi bankanum borið að verða þegar við beiðninni, sbr. bréf lögmanns gagnstefnanda þann 17. ágúst 2009. Gagnstefndi hafi ekki orðið við tilmælum og borið fyrir sig að starfsmenn væru í sumarleyfum. Gagnstefnandi og eiginkona hans hafi sagt upp samningi um eignastýringu með bréfi þann 31. júlí 2009. Uppsögn hafi verið með skýrri heimild í 11. gr. samningsins. Bankinn hafi áritað tilkynninguna um móttöku 6. ágúst 2009 og upplýst þá um að inneign á eignastýringarsafni næmi samtals 98.359.000 krónum. Eignarhlutur hvors hjóna um sig hafi því numið 49.179.500 krónum. Gagnstefnanda hafi verið, skv. 11. gr. samningsins, frjálst að segja samningnum upp án fyrirvara og gefa fyrirmæli um ráðstöfun, allt í samræmi við samning, og hafi gagnstefnda verið skylt að verða við tilmælum. Þá hafi eigendur krafist þess að fjármunirnir yrðu lagðir inn á sparisjóðsreikning eiginkonu gagnstefnanda hjá bankanum. Gagnstefndi hafi ekki virt þessi fyrirmæli, án nokkurra skýringa. Eiginkona gagnstefnanda hafi höfðað mál á hendur gagnstefnda til heimtu á eignarhlut sínum. Krafa hennar hafi verið viðurkennd með dómi og hafi gagnstefndi greitt inneign hennar samkvæmt dómi í kjölfar fjárnáms í september 2010.
Lögmaður gagnstefnanda og maka hans hafi sett fram við bankastjóra skriflegar athugasemdir með bréfi 17. ágúst 2009 og gert þá kröfu á bankann að hann viðurkenndi skyldur sínar, án þess að þeim væri svarað. Þann 18. ágúst 2009 hafi gagnstefndi fengið eignastýringarsafn gagnstefnanda kyrrsett hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Gagnstefndi hafi höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness gegn gagnstefnanda til staðfestingar kyrrsetningunni o.fl. Héraðsdómur hafi staðfest kyrrsetninguna að hluta en hins vegar hafi dómurinn hafnað því að gagnstefndi ætti kröfu samkvæmt skuldabréfi því er krafan byggðist á. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 17. nóvember 2011 í máli nr. 470/2010 hafi málinu verið vísað frá héraðsdómi. Með stefnu, útgefinni 23. nóvember 2011, hafi Arion banki hf. í máli þessu enn einu sinni stefnt gagnstefnanda þar sem nú séu hafðar uppi þær kröfur á hendur honum að aðalstefnda verði gert að greiða aðalstefnanda 62.069.465 krónur með dráttarvöxtum frá 1. september 2009 til greiðsludags. Jafnframt sé þess krafist að staðfest verið með dómi kyrrsetningargerð frá 18. ágúst 2009. Gagnstefnandi hafi ítrekað krafið bankann um afhendingu á umræddum fjármunum. Þá hafni gagnstefnandi því alfarið að hann skuldi gagnstefnda þá fjármuni er hann sé krafinn um.
Þá kveður gagnstefnandi að gögn málsins beri með sér að gagnstefndi hafi tekið skuldabréf nr. 7015, útgefið 15. desember 2006, og hagnýtt sér það sem eigin eign. Gagnstefnandi hafi greitt gagnstefnda eftir hrun Kaupþings banka hf., að kröfu gagnstefnda, eftirfarandi greiðslur:
|
Þann 10. nóvember 2008 |
556.462 krónur. |
|
Þann 10. desember 2008 |
477.676 krónur. |
|
Þann 12. janúar 2009 |
582.197 krónur. |
|
Þann 3. apríl 2009 |
329.699 krónur. |
|
Þann 3. apríl 2009 |
316.740 krónur. |
|
Þann 14. apríl 2009 |
389.232 krónur. |
|
Þann 4. maí 2009 |
130.331 krónu. |
|
Þann 2. júní 2009 |
185.283 krónur. |
|
Þann 1. júlí 2009 |
192.945 krónur. |
|
Þann 1. júlí 2009 |
50.000 krónur. |
|
Þann 4. ágúst 2009 |
581.352 krónur. |
|
Samtals eru þetta |
3.791.917 krónur. |
Gagnstefnandi gerir kröfu til þess að fá þessar greiðslur, sem gagnstefndi hafi krafist með ólögmætum og óréttmætum hætti, endurgreiddar með dráttarvöxtum af hverri greiðslu, frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Dómkröfur gagnstefnanda séu til að fá andvirði af eignasafni sínu útgreitt með dráttarvöxtum og kostnaði. Eindagi kröfunnar sé 6. ágúst 2009 en þann dag hafi gagnstefndi áritað kröfu um fyrirmæli, sbr. dskj. nr. 5. Þá sé gerð krafa um endurgreiðslu á innborgunum ásamt dráttarvöxtum eins og fram hefur komið, enda hafi bankanum verið með öllu óheimilt að innheimta kröfuna og hagnýta skuldabréfið með slíkum ólögmætum og óréttmætum hætti.
Gagnstefnandi kveður ekkert eignastýringarsafn vera til þar sem því hafi verið sagt upp og því eigi að greiða þá fjármuni út með dráttarvöxtum. Gagnstefndi hafi tekið skuldabréfið til sín en gagnstefnandi hefur greitt til gagnstefnda 3.791.888 krónur.
Málsástæður og lagarök gagnstefnda.
Gagnstefndi reifaði ekki kröfu sína um frávísun og vísaði til úrskurðar þar um frá 19. október 2012 þar sem frávísunarkröfu hans í gagnsök var hafnað.
Gagnstefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök. Til vara krefst hann þess að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar og jafnframt að dráttarvaxtakröfum gagnstefnanda verði alfarið hafnað.
Aðilar gera kröfur um málskostnað úr hendi hvors um sig að mati dómsins í þessum þætti.
Gagnstefndi lýsir í greinargerð sinni sömu málavöxtum og koma fram í stefnu í aðalsök.
Gagnstefndi byggir kröfu sína um sýknu m.a. á því að krafa gagnstefnanda virðist annars vegar byggjast á endurgreiðslu þeirra greiðslna, sem gagnstefnandi hafi greitt gagnstefnda vegna skuldabréfsins, en hins vegar á því að gagnstefndi greiði honum helming þeirrar fjárhæðar sem sé á eignastýringarsafni gagnstefnanda nr. 470500.
Varðandi fyrra atriðið byggi gagnstefndi í fyrsta lagi á því að hann sé réttur eigandi kröfu skuldabréfs nr. 7015 og allar tilraunir gagnstefnanda til að halda öðru fram séu haldlausar. Gagnstefndi árétti að í gegnum allan ágreining aðila, þ.m.t. fyrra mál gagnstefnda til kyrrsetningar umræddra fjármuna, sbr. dómur Hrd. í máli nr. 470/2011, sbr. dskj. nr. 16, hafi gagnstefnandi aldrei haldið þessari röksemd á lofti. Um þetta vísist til greinargerðar sem gagnstefnandi lagði fram í því máli, sbr. dskj. 29. Það virðist því vera að gagnstefnandi hafi nú fyrst áttað sig á þessu atriði og teflt því fram, sem verði að teljast verulega ótrúverðugt af hans hálfu, og gera þessa röksemd hans að nánast engu.
Gagnstefndi byggir á því að hann sé réttur og lögmætur eigandi kröfu skv. skuldabréfi nr. 7015 og hafi verið það frá birtingu ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008, sbr. dskj. nr. 24, hafi öllum eignum Kaupþings banka hf. hverju nafni sem nefnist, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum, verið ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf. Þar með hafi kröfu skv. skuldabréfi nr. 7015 verið ráðstafað til gagnstefnda. Þetta fái frekari stoð í forsendum fyrir skiptingu efnahagsreiknings, dags. 19. október 2008, sem hafi verið lagðar fram sem dskj. nr. 25. Þar komi fram að útlán til viðskiptavina séu færð yfir til gagnstefnda. Varðandi þetta vísi gagnstefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 567/2011. Þessu til viðbótar liggi frammi í málinu sameiginlegar yfirlýsingar slitastjórnar Kaupþings banka hf. og gagnstefnda, sbr. dskj. nr. 20, um að skuldabréf nr. 7015 hafi verið framselt frá Kaupþingi banka hf. til gagnstefnda í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008. Af þessu ætti að vera ljóst að gagnstefndi sé réttur og lögmætur eigandi skuldabréfs nr. 7015 frá 21. október 2008 og hafi réttilega tekið við greiðslum úr hendi gagnstefnanda vegna skuldabréfsins.
Gagnstefndi áréttar að samkvæmt viðskiptabréfareglunum fái framsalshafi þann rétt sem bréfið bendir til og hafi því gagnstefnandi tapað mótbárum sínum. Ekki skipti máli þótt skuldabréfið hafi ekki verið stimplað um framsalið, eins og gagnstefnandi virðist byggja málatilbúnað sinn á, enda sé það ekki gildisskilyrði framsals skv. viðskiptabréfareglunum. Þá sé þess einnig að geta að gagnstefnandi hafi skrifað undir tvær skilmálabreytingar hjá gagnstefnda, þ.e. þann 31. mars 2009 og 4. júní 2009, og sé skuldabréfið stimplað um það. Gagnstefndi byggi á því að þær áritanir svari til áritunar á bréfið, eða a.m.k. ígildis áritunar á bréfið, um framsal þess.
Verði ekki fallist á ofangreinda röksemd, byggir gagnstefndi sýknukröfu sína í öðru lagi á grundvelli þess að gagnstefnandi hafi með aðgerðum sínum viðurkennt að gagnstefndi sé eigandi skuldabréfsins. Gagnstefnandi hafi greitt 11 afborganir af skuldabréfinu eftir að skuldabréfið var framselt gagnstefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 21. október 2008, líkt og gagnstefnandi staðfesti í gagnstefnu. Gagnstefnandi hafi ávallt greitt af skuldabréfinu til gagnstefnda án fyrirvara eða neinna athugasemda af nokkru tagi. Gagnstefnandi virðist fyrst hafa gert efnislegar athugasemdir við eignarhald gagnstefnda á skuldabréfinu við þingfestingu gagnstefnu þann 25. janúar 2012. Hér verði einnig að horfa til þess að gagnstefnandi virðist ekki hafa byggt á þessari athugasemd í fyrra staðfestingarmáli gagnstefnanda gegn gagnstefnda, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 470/2011, sbr. dskj. nr. 16 og einnig nr. 29. Þá ítreki gagnstefndi að gagnstefnandi hafi, í skýrri mótsögn við framangreinda afstöðu sína nú, skrifað undir tvær skilmálabreytingar við skuldabréfið hjá gagnstefnda. Með því telji gagnstefndi að gagnstefnandi hafi viðurkennt að gagnstefndi sé réttur eigandi kröfu skv. umræddu skuldabréfi. Að minnsta kosti hafi gagnstefnandi sýnt af sér verulegt tómlæti með því að hafa ekki haft frammi efnislegar athugasemd þessu aðlútandi þrátt fyrir fjölmörg tækifæri og ríkt tilefni.
Þá byggi gagnstefnandi á því að skuldabréf nr. 7015 hafi ekki verið framselt til gagnstefnda, að því er virðist á þeim grundvelli að skuldabréfið sé afleiðusamningur eða tengist á einhvern hátt slíkum gerningi. Varðandi þetta vísar gagnstefnandi til þess að tekið sé fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 að afleiðusamningar eigi ekki að flytjast til gagnstefnda. Gagnstefndi mótmælir þeirri fullyrðingu gagnstefnanda að skuldabréfið hafi verið gefið út til uppgjörs á afleiðusamningi, a.m.k. sé ósannað á þessu stigi málsins að svo sé. Því sé sérstaklega mótmælt að þau gögn sem gagnstefnandi hafi lagt fram sem dskj. nr. 19 sanni, eða geri á nokkurn hátt líklegt, að svo sé. Gagnstefndi mótmæli einnig túlkun gagnstefnanda á dómi Hæstaréttar í máli nr. 470/2010 um að Hæstiréttur hafi hafnað því að gagnstefndi ætti kröfu skv. skuldabréfi nr. 7015, enda eigi þetta ekki við rök að styðjast. Gagnstefndi árétti jafnframt að ekki sé að sjá af málatilbúnaði gagnstefnanda að hann hafi nokkru sinni boðið Kaupþingi banka hf. greiðslu vegna skuldabréfsins þrátt fyrir að málatilbúnaður hans byggist á því að Kaupþing banki hf. eigi skuldabréfið.
Eins og áður segi virðist kröfugerð gagnstefnanda öðrum þræði byggjast á því að gagnstefndi eigi að verða við fyrirmælum hans, sbr. dskj. nr. 6, og greiða honum það sem gagnstefnandi heldur fram að sé hans hlutur af eignastýringarsafni nr. 470500. Varðandi þennan hluta kröfu gagnstefnanda byggi gagnstefndi sýknukröfu sína á því að ekki sé hægt að dæma hann til greiðslu þessarar kröfu þar sem gagnstefndi hafi fengið gert fjárnám í umræddum fjármunum á eignastýringarsafni nr. 470500, og gagnstefndi krefjist greiðslu á, með aðfarargerð, dags. 17. janúar 2012, sbr. dskj. nr. 27.
Þá byggir gagnstefndi á því að eignastýringarsafnið hafi verið kyrrsett þann 18. ágúst 2009. Höfðað hafi verið mál til staðfestingar þeirri kyrrsetningu og héraðsdómur Reykjaness hafi staðfest kyrrsetninguna með dómi sínum. Málinu hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar sem vísaði því frá héraðsdómi þann 17. nóvember 2011, líkt og fjallað sé um að ofan. Með því hafi kyrrsetningin þó ekki fallið niður, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990. Í ákvæðinu komi fram að ef staðfestingarmáli sé vísað frá dómi standi gerðin í eina viku frá því málsaðila urðu þau málalok kunn. Ekki fyrr en að loknum þeim fresti falli gerðin úr gildi, nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið stefnu gefna út á ný til staðfestingar henni. Gagnstefndi fékk gefna út stefnu á ný til staðfestingar kyrrsetningunni þann 23. nóvember 2011, sbr. dskj. nr. 1. Fjármunir á eignastýringarsafninu hafa því verið kyrrsettir frá 18. ágúst 2009. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 31/1990 varðveiti sýslumaður kyrrsetta peninga þar til gerðarbeiðandi öðlast rétt til afhendingar þeirra á grundvelli fjárnáms fyrir kröfu sinni eða gerðarþoli hefur verið sýknaður af kröfu gerðarbeiðanda í dómsmáli um hana. Þar sem gagnstefndi fékk frumrit skuldabréfsins afhent eftir að dómur Hæstaréttar féll þann 17. nóvember 2011 og skuldabréfið var orðið aðfararhæft sendi gagnstefndi inn aðfararbeiðni til sýslumannsins í Hafnarfirði. Málið hafi verið tekið fyrir þann 17. janúar 2012 og var þá tekið fjárnám í eignastýringarsafni gagnstefnanda, sbr. dskj. nr. 28. Gagnstefndi hafi því öðlast rétt til afhendingar fjármunanna á grundvelli fjárnáms. Það sé því ljóst að gagnstefnandi geti engan veginn átt rétt á að fá þessa fjármuni greidda, og það þrátt fyrir að ágreiningur sé milli aðila um sjálfa aðfarargerðina, sbr. ágreiningsmál aðila nr. Y-1/2012 sem rekið er fyrir héraðsdómi Reykjaness.
Gagnstefndi telur að ofangreindar röksemdir, hver og ein og allar saman, eigi að leiða til þess að hann verði alfarið sýknaður af kröfum gagnstefnanda.
Fallist dómurinn ekki á aðalkröfu gagnstefnda, krefst gagnstefndi þess að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega og að kröfu stefnanda um vexti verði alfarið hafnað. Gagnstefndi krefst þess jafnframt að öllum kröfum gagnstefnanda um vexti verði hafnað, a.m.k. að krafa gagnstefnanda, verði fallist á hana, beri vexti í fyrsta lagi frá 10. janúar 2012 með birtingu gagnstefnu, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í öllu falli ber gagnstefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi áður gert þessar kröfur gagnvart gagnstefnda. Þá mótmælir gagnstefndi öllum málsatvikum, málsástæðum og lagarökum gagnstefnanda sem ganga gegn málatilbúnaði gagnstefnda.
Gagnstefndi mótmælir að varakrafa gagnstefndanda komist að. Varðandi fyrri helminginn vegna ófærðar innborgunar, vísar stefnandi til tölvupósts sem liggur frammi í málinu. Í tölvupóstinum segi: „ Hæ, Einar skuldar okkur ISK 4.294.425,- fyrir uppgjör dagsins... hvaða reikning má skuldfæra??". Þá svari Pétur Richter. „ Það má skuldfæra af eftirfarandi reikningi: Varðandi það sem eftirstendur út af FX samningi Einars Þórs þa á að taka það út af reikningi 0327-13-300926“. Um sé að ræða annan reikning er skuldfært hafi verið útaf vegna skuldabréfsins.
Varðandi lagarök fyrir kröfum sínum vísar gagnstefndi til meginreglna einkamálaréttarfars um skýran og ótvíræðan málatilbúnað. Gagnstefndi vísar einnig til almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Gagnstefndi vísar m.a. til reglna um viðskiptabréf, þ.m.t. mótbárumissi skuldara. Gagnstefndi vísar til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008. Gagnstefndi vísar einnig til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Varðandi kröfu stefnda um málskostnað vísar gagnstefndi m.a. til ákvæða einkamálalaganna, einkum 129.-131. gr. þeirra. Gagnstefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi gagnstefnanda.
Niðurstöður.
Aðalsök.
Frávísunarkrafan.
Stefndi krefst þess aðallega að máli stefnanda verði vísað frá dómi. Fór málflutningur fram um þá kröfu þann 29. maí 2012 og var frávísunarkröfu stefnda hafnað með úrskurði uppkveðnum 21. júní 2012. Engar nýjar málsástæður hafa komið fram hjá stefnda sem rökstyðja frekari frávísunarkröfu hans. Verður henni því hafnað.
Krafa um sýknu vegna aðildarskorts.
Stefnandi gerir þá kröfu í aðalsök að stefnda verði gert að greiða honum 53.836.604 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 1. september 2009.
Stefndi krefst aðallega sýknu á grundvelli aðildarskorts þar sem skuldabréf það sem stefnt er fyrir sé hluti af afleiðusamningum sem stefndi hafi gert við Kaupþing hf. og óheimilt hafi verið að framselja stefnanda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Eins og rakið er í kaflanum um málavexti, gerði stefndi margs konar samninga við stefnanda. Er þar rakinn samningur frá 4. júní 2004 um eignastýringu við stefnanda. Þá liggja fyrir nokkrir handveðssamningar í málinu. Sá fyrsti frá 15. apríl 2005 þar sem öll verðmæti stefnda, þar á meðal eignastýringarsafnið, var sett að handveði vegna tékkareiknings stefnda hjá stefnanda nr. 327-26-7633. Annar handveðssamningur var undirritaður 5. maí 2006 þar sem markaðsreikningur stefnda nr. 0327-13-300926 var settur að handveði til tryggingar á öllum skuldum og fjárskuldbindingum stefnda hjá stefnanda. Þá er handveðssamningur frá 14. júní sérstaklega tilgreindur vegna afleiðusamnings nr. 1112 og var bankareikningur nr. 0327-13-7622 settur að handveði vegna afleiðusamninga.
Í skilmálabreytingum, sem stefndi undirritaði vegna skuldabréfs nr. 0327-35-7015, átti að skuldfæra af reikningi stefnda nr. 0327-26-7622.
Ekkert er að finna í gögnum málsins né í ofangreindum samningum, um að andvirði skuldabréfsins nr. 0327-35-7015 hafi átt að renna inn á einhverja af ofangreindum reikningum stefnda hjá stefnanda né hefur stefndi sýnt fram á að þeir fjármunir hafi verið til þess notaðir að greiða fyrir afleiðu- eða gjaldeyrisskiptasamninga eða verið partur af þeim viðskiptum.
Stefndi var augljóslega í margslungnum viðskiptum við sinn viðskiptabanka. Þrátt fyrir það hefur hann ekki sýnt fram á að sú lántaka, sem deilt er um í máli þessu, hafi verið hluti af afleiðusamningi. Bankareikningur nr. 0327-13-7622 var settur að handveði fyrir afleiðusamningi nr. 1112. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að lántakan tengist ofangreindum afleiðuviðskiptum en greiðslur voru skuldfærðar af tékkareikningi stefnda nr. 0327-26-7622. Þá kom fram hjá stefnda fyrir dóminum að innborganir á skuldabréfið hafi komið úr sölusamningum vegna fasteigna sem hann var að byggja og selja. Hafi bankinn gefið út skilyrt veðleyfi þegar eignir seldust og hafi söluandvirði þeirra viðskipta verið varið til að greiða inn á skuldabréfið. Verður umþrætt skuldabréf því ekki talið hafa verið hluti af afleiðusamningum sem stefndi var með hjá stefnanda og gögn liggja frammi um.
Var yfirfærsla skuldabréfsins frá Kaupþingi banka hf. yfir til Nýja Kaupþing banka hf., síðar Arion banka hf., því lögmæt samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008. Þá verður einnig að líta til þess að stefndi undirritaði skilmálabreytingar hjá Nýja Kaupþingi banka hf. bæði 31. mars 2009 og 4. júní 2009 án þess að gera nokkurn fyrirvara um rétthafa bréfsins.
Að þessu sögðu verður þeirri málsástæðu stefnda að sýkna beri hann vegna aðildarskorts hafnað.
Aðal- og varakrafa stefnanda.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða honum 53.836.604 krónur með dráttarvöxtum frá 1. september 2009 til greiðsludags.
Stefndi krefst sýknu af þessum kröfum stefnanda. Verði sýknukrafa stefnda ekki tekin til greina krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda. Vísar hann til þess að stefnandi hafi ekki gert grein fyrir tölulegum grundvelli kröfunnar með vísan til skuldabréfsins. Stefndi mótmælir fyrirliggjandi útreikningum sem marklausum. Grundvöllur endurútreikninga sé ekki skýrður, lánsnúmer sé rangt og upphaflegur höfuðstóll í íslenskum krónum og ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Segir stefndi kröfur stefnanda koma fyrst fram í málflutningi og mótmælir því og öllum þeim breytingum sem stefnandi hefur gert undir rekstri málsins. Stefnandi hafi raskað grundvelli málsins frá útgáfu stefnu.
Þá kveður stefndi verðtryggingu lánsins vera ólögmæta og því beri að sýkna hann. Verðtryggð lán verði að vera til fimm ára. Verðtryggt lán miðað við gengi verði líka að vera til fimm ára. Þá hafi stefndi ekki greitt neitt inn á lánið, allar greiðslur séu greiðslur sem bankinn hafi tekið úr öðrum samningum sem stefndi hafi verið með hjá bankanum.
Verði stefndi ekki sýknaður af öllum kröfum stefnanda, krefst stefndi þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar þannig að stefnda verði ekki gert að greiða stefnanda hærri fjárhæð en 20.954.998 krónur og til þrautavara að hann verði ekki dæmdur til að greiða hærri fjárhæð en 29.543.848 krónur. Segir hann að láninu hafi fyrst verið breytt á fyrsta gjalddaga lánsins og því sé lánið ekki verðtryggt. Stefndi hafi greitt inn á lánið um 105.000.000 króna og ef þetta dragist allt frá þá sé höfuðstóllinn 41.146.906 krónur. Þá séu innborganir að auki 6.913.590 krónur. Þá þurfi að leiðrétta dskj. 40, lánasamning í erlendum myntum. Innborgun að fjárhæð 4.689.468 krónur hefði líka átt að lækka bréfið í öndverðu. Þessi fjárhæð hafi verið greidd af láninu en bankinn neiti að leggja fram gögn um þetta. Þá mótmælir stefndi vaxtaleiðréttingu í dskj. 38, útborgun af reikningi stefnda inn á reikning stefnanda sem sé vaxtaleiðrétting. Það sé greiðsla sem stefndi eigi að fá.
Stefnandi lagði fram bókun þann 7. nóvember 2012 um breytta kröfugerð til lækkunar fyrir stefnda. Lagði stefnandi einnig fram yfirlit yfir útreikninga lánsins en stefnandi kvað endurútreikning lánsins byggjast á nýjum dómum Hæstaréttar um greiðslur inn á gengistryggð lán. Þá hefur stefnandi sýnt fram á, bæði með skjallegum gögnum og við aðalmeðferð málsins, hvernig upphaflegur höfuðstóll skuldarinnar var fenginn við skilmálabreytingu lánsins úr íslenskum krónum yfir í erlendar myntir, hvernig lánið hafi verið endurreiknað með vísan til 18. gr. laga nr. 38/2001 að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, sem sé stefnufjárhæð og síðan aftur að gengnum dómum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012, sem sé endanleg dómkrafa. Hefur stefndi ekki hnekkt þeim útreikningum og verða þeir lagðir til grundvallar við niðurstöður þessa máls.
Stefndi krefst m.a. sýknu á þeim grundvelli að lánsnúmer sé rangt í stefnu og upphaflegur höfuðstóll í íslenskum krónum sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Þá hafi nýjar málsástæður komið fram við aðalmeðferð málsins. Ekki er tekið undir þessar málsástæður stefnda. Skýrt hefur verið hvernig lánsnúmer skuldabréfsins er tilkomið og höfuðstóll skuldarinnar hefur verið skýrður. Þá verður ekki tekið undir þá málsástæðu að lækkun höfuðstóls kröfunnar sé ný málsástæða né hafi breytt grundvelli málsins. Hefur það ekki komið niður á málatilbúnaði stefnda. Þá verður ekki tekið undir þá málsástæðu stefnda að skilmálar skuldabréfsins og verðtrygging sé ólögmæt. Upphaflega var skuldabréfið til fimm ára. Verður sá áskilnaður að verðtrygging sé ekki heimil nema lánstíminn sé til fimm ára ekki skilinn svo að skuldara sé óheimilt að greiða hraðar niður skuld sína en ákvæði bréfsins segir til um. Engu breytir þótt ein greiðsla sé mun hærri en aðrar greiðslur eða hvernig afborgunum yfirleitt er háttað í samningnum. Ætti það ekki að raska grundvelli skilmála skuldabréfsins, enda skuldaranum til hagsbóta, falli það að greiðslugetu hans.
Stefndi krefst lækkunar á dómkröfum stefnanda og vísar m.a. til greiðslu sem hann kveður hafa verið greidda inn á lánið að fjárhæð 4.294.425 krónur þann 7. febrúar 2007 og greiðslu þann 11. maí 2009 að fjárhæð 389.232 krónur. Stefnandi mótmælti því að fyrri innborgunin væri inn á umþrætt lán en sagði seinni innborgunina hafa verið færða inn á lán stefnda.
Samkvæmt kvittun, sem stefndi lagði fram, voru 4.294.425 krónur teknar út af reikningi stefnda nr. 0327-13-300926 þann 7. febrúar 2007 og lagðar inn á reikning 0300-26-001505 í eigu Kaupþings banka hf. Er tilvísun sögð 311312 og skýring sögð vaxtaleiðrétting. Gegn mótmælum stefnanda hefur stefndi ekki sýnt fram á að þessi fjárhæð hafi verið innborgun á skuldabréf nr. 0327-35-7015 en skuldfæra átti tékkareikning 0327-26-7622 vegna greiðslna inn á skuldabréfið. Að auki ber einn gjaldmiðlaskiptasamningur sem lagður var fram í málinu númer 281396/311312 sem gerður var 10. janúar 2007 með gjalddaga 6. febrúar 2007. Verður ekki annað séð en þessi greiðsla tilheyri þeim samningi og sé skuldabréfinu óviðkomandi. Verður þessari málsástæðu stefnda því hafnað. Þá er rakið í yfirliti stefnanda um innborganir í stefnu þann 14. apríl 2009 innborgun að fjárhæð 389.232 krónur en stefnandi skýrði fyrir dóminum að þann dag hefðu 418.509 krónur verið dregnar út af reikningi stefnda en lagðar aftur inn þann 11. maí 2009 og 389.232 krónur skuldfærðar aftur þann sama dag. Er því þessi fjárhæð í endurútreikningi stefnanda. Verður þessari kröfu stefnda því hafnað.
Að öllu ofansögðu virtu hefur stefnandi sýnt fram á að hann eigi þá fjárkröfu sem hann gerir á hendur stefnda. Hefur stefndi ekki sýnt fram á með málatilbúnaði sínum að fjárkrafa stefnanda sé óljós, óskýr eða ekki dómtæk. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 53.836.604 krónur ásamt vöxtum eins og rakið er að neðan.
Stefnandi gerir kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum dráttarvexti af stefnufjárhæð frá 1. september 2009 en þá hafi skuldin verið gjaldfallin. Stefndi mótmælir þessari kröfu og segir stefnanda ekki hafa rétt til dráttarvaxta fyrr en frá dómsuppsögu. Stefnandi hafi ekki rökstutt í stefnu hvers vegna bankinn eigi að fá sér dæmda dráttarvexti og þá hafi stefndi boðið fram greiðslu en stefnandi ekki viljað taka við henni. Því sé um viðtökudrátt að ræða og geti stefnandi ekki krafið um dráttarvexti fyrir þann tíma.
Í dómkröfum stefnanda í stefnu er gerð krafa um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2009. Í málsatvikum og málsástæðum er gerð grein fyrir gjalddaga kröfunnar og í lagatilvísunum styður stefnandi kröfu sína um vexti við 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga. Tekur dómurinn ekki undir þá málsástæðu stefnda að dráttarvaxtakrafa stefnanda sé órökstudd. Þá byggir stefndi á því að hann hafi boðið fram höfuðstól skuldarinnar og vísar til framburðar Elínar Guðlaugar Stefánsdóttur, starfsmanns Arion banka hf., frá 17. febrúar 2010 í héraðsdómsmálinu E-3425/2009. Stefnandi mótmælti því að nefndur framburður hefði nokkurt sönnunargildi í máli þessu. Í nefndum framburði er vitnið spurt hvort stefndi hafi boðið að greiða höfuðstólinn og svaraði vitnið því að það hafi verið svona „viðrað þarna“. Jafnframt kemur fram í framburði vitnisins að stefndi í þessu máli hafi sagt að hann bæri ekki ábyrgð á hruninu og að hann væri jafnvel til í að borga höfuðstólsupphæðir. Gegn mótmælum stefnanda verður ekki byggt á þessum framburði, enda hefur hann ekki verið staðfestur fyrir dóminum í þessu máli. Að auki er ekki ljóst hvaða höfuðstólsupphæðir var verið að fjalla um á þeim fundi sem vitnað var til með stefnda eða hvenær hann átti sér stað. Auk þess hefur stefndi ekki sýnt fram á með gögnum að hann hafi reynt eða gert tilraunir til að greiða inn á höfuðstólinn eða þá fjárhæð sem hann taldi að honum bæri að greiða. Verður þeirri málsástæðu stefnda að um viðtökudrátt sé að ræða því hafnað og honum gert að greiða dráttarvexti af dómkröfunni frá 1. september 2009 eins og segir í dómsorði.
Kyrrsetningin.
Þann 12. ágúst 2009 sendi stefnandi kyrrsetningarbeiðni til sýslumannsins í Hafnarfirði og óskaði eftir því að eignastýringarsafn stefnda, B#470500, yrði kyrrsett til tryggingar fullnustu á skuld stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015 (upprunalega nr. 327-74-622). Var skuldin sundurliðuð í JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437. Eru málavextir raktir í beiðninni og segir að gerðarbeiðandi hafi orðið þess vís í samtölum við gerðarþola að hann hyggist ekki greiða umrædda skuld. Gerðarþoli hafi farið fram á að innistæða hans á eignastýringarsafninu verði flutt yfir á nafn annars aðila og með því versni tryggingarstaða gerðarþola við gerðarbeiðanda sem nemi næstum allri innistæðunni sem sögð var vera yfir 98.000.000 króna. Gerðarbeiðanda væri ekki kunnugt um aðra eign í eigu gerðarþola sem gæti staðið undir greiðslu skuldar hans. Þá var því lýst að ómögulegt væri að gera fjárnám í eigninni þar sem lánið væri ekki enn gjaldfallið. Þá er tekið fram í beiðninni að gögn séu send með beiðninni í ljósriti en frumrit séu fyrir hendi og vísað til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990.
Þann 18. ágúst 2009 kyrrsetti sýslumaðurinn í Hafnafirði eignastýringarsafn hans nr. B#470500, sem vistað var hjá gerðarbeiðanda til tryggingar skuld vegna skuldabréfs nr. 327-35-7015 í erlendri mynt auk vaxta og kostnaðar í kyrrsetningarmálinu K-13-2009. Var gerðarþoli ekki boðaður til gerðarinnar, með vísan til 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, og farið að heimili hans þar sem hann hittist fyrir sjálfur. Var honum kynnt krafa gerðarbeiðanda um kyrrsetningu á eignasafni hans nr. B#470500. Er bókað að gerðarþoli, stefndi, hafi hringt í lögmann sinn og í framhaldi mótmælti hann gerðinni og kvað eiginkonu sína einnig vera eiganda að fjármununum. Hann hafi óskað eftir þeirri breytingu við bankann en bankinn kannist ekki við að hafa orðið við ósk hans og að eignasafnið sé einungis á nafni gerðarþola. Er bókað að fulltrúi sýslumanns hafi ákveðið að gerðin skyldi ná fram að ganga og kyrrsetti eignastýringarsafnið.
Stefndi mótmælir kröfum stefnanda um staðfestingu á kyrrsetningunni m.a. með því að stefnandi hafi ekki verið réttur aðili að kyrrsetningargerðinni.
Í kaflanum að ofan um aðild komst dómurinn að því að stefnandi væri réttur eigandi kröfunnar og hafnar sýknukröfu stefnda á grundvelli aðildarskorts. Sömu rök eiga við um þessa málsástæðu stefnda og er henni hafnað.
Stefndi vísar til 5. gr. laga um kyrrsetningu og segir að skilyrði kyrrsetningar hafi ekki verið fyrir hendi þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann ætti lögvarða kröfu á hendur stefnda.
Ekkert er fram komið um að sýslumaður hafi átt að hafna framkvæmd kyrrsetningarinnar í öndverðu á grundvelli aðildarskorts. Verður þessari málsástæðu stefnda því hafnað.
Stefndi vísar til 6. gr. kyrrsetningarlaga en þar segi með hvaða hætti kyrrsetning fari fram. Svo hafi ekki verið þar sem gerðarbeiðandi hafi eingöngu haft ljósrit af skuldabréfinu við kyrrsetningargerðina sem sé í andstöðu við 2. mgr. 6. gr. kyrrsetningarlaga. Samkvæmt framburði Elínar Guðlaugar Stefánsdóttur í héraðsdómsmálinu E-3425/2009, sem stefndi lagði sjálfur fram í máli þessu og byggir á, svarar hún því aðspurð að hún hafi sjálf farið með fulltrúa sýslumanns heim til stefnda þegar kyrrsetningin fór fram og að hún hafi haft frumrit skuldabréfsins meðferðis. Þá hafi stefndi hringt í lögmann sinn og fengið ráðleggingar í gegnum síma. Telur dómurinn að með þessu séu þau skilyrði 2. mgr. 6. gr. laganna uppfyllt, en í gögnum málsins liggja einnig fyrir önnur þau gögn er gerðarbeiðandi lagði fram með kyrrsetningarbeiðni sinni. Telur dómurinn að skilyrði 5. og 6. gr. laganna hafi verið uppfyllt, enda var það mat sýslumannsins í Hafnarfirði sem framkvæmdi gerðina að svo hafi verið.
Stefndi byggir á því að hafna beri staðfestingu á þeim forsendum að gerðarþoli hafi ekki verið boðaður til gerðarinnar né honum boðið að benda á aðrar eignir til tryggingar kröfunni.
Samkvæmt gögnum þeim sem lágu fyrir við kyrrsetninguna verður ekki annað séð en að gerðarbeiðandi hafi sýnt nægjanlega fram á að hætta væri á því að gerðarþoli myndi reyna að koma þeim fjármunum undan sem krafist var kyrrsetningar á og sýnt fram á að skilyrði 2. tl. 3. mgr. 21. gr. aðfararlaga hafi verið fyrir hendi. Þó svo að ekki hafi verið bókað um það sérstaklega hvort gerðarþoli ætti aðrar eignir eða ekki til að benda á, breytir það ekki gildi kyrrsetningarinnar, en virða verður að gerðarþoli hafði lögfræðiaðstoð í gegnum síma á meðan á gerðinni stóð. Verður þessari málsástæðu stefnda því hafnað.
Þá byggir stefndi á því að krafan sem kyrrsetningunni var ætlað að tryggja hafi ekki enn verið komin í gjalddaga og stefndi hafi greitt allar afborganir sem voru gjaldfallnar. Kyrrsetning er bráðabirgðagerð, gerð í þeim tilgangi að tryggja að fjármunir séu til staðar þegar krafa verður aðfararhæf. Er þessari mótbáru stefnda hafnað.
Þá vísar stefndi til 39. gr. laga um kyrrsetningu og segir hana ekki eiga við þegar Hæstiréttur vísi máli frá dómi. Í 2. mgr. 39. gr. kyrrsetningarlaga segir að þótt synjað sé um staðfestingu gerðar í héraðsdómi, standi hún í þrjár vikur frá dómsuppsögu. Að loknum þeim fresti falli gerðin niður, nema gerðarbeiðandi fái áður gefna út stefnu til æðra dóms til að fá héraðsdómi hrundið. Ef æðri dómur staðfestir ákvæði héraðsdóms um synjun um staðfestingu gerðar, falli hún úr gildi frá dómsuppsögu þar. Í 3. mgr. segir að ef staðfestingarmál sé ekki þingfest gerðarbeiðanda að vítalausu, því sé vísað frá dómi eða það er hafið með samkomulagi málsaðila, standi gerðin í eina viku frá því honum urðu þau málalok kunn. Að loknum þeim fresti falli gerðin sjálfkrafa úr gildi, nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið stefnu gefna út á ný til staðfestingar henni.
Ofangreind kyrrsetning fór fram 18. ágúst 2009. Þann 21. ágúst s.á. var gefin út réttarstefna og hún birt stefnda 28. ágúst 2009. Var skilyrði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1991 uppfyllt um að réttarstefna skuli gefin út innan viku frá lokum kyrrsetningar. Var niðurstaða héraðsdóms þann 14. júlí 2010 að kyrrsetning eignastýringarsafnsins var staðfest, en þó einvörðungu í helmingi eignastýringarsafnsins. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og var dómur réttarins kveðinn upp 17. nóvember 2011 í máli nr. 470/2010 þar sem málinu var í heild vísað frá dómi. Var réttarstefna aftur gefin út 23. nóvember 2011 og málið þingfest 14. desember 2011. Var stefna því gefin út aftur innan viku frá því að Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi.
Hafi það verið tilgangur 1. mgr. 36. gr. laganna um að eingöngu væri heimilt að gefa út réttarstefnu innan viku frá því að máli er vísað frá héraðsdómi, væri uppi mikil óvissa um slík mál sem hér er fjallað um, sem getur útilokað að kröfuhafi nái fram rétti sínum, fari svo að niðurstöðum undirréttar sé vísað frá dómi með dómi Hæstaréttar. Hlýtur að gilda einu hvort frávísun máls sé með úrskurði undirréttar eða með dómi Hæstaréttar. Ber því að hafna þessari málsástæðu stefnda.
Að öllu ofansögðu virtu hefur stefndi ekki sýnt fram á að kyrrsetningin sem fram fór þann 18. ágúst 2009 í eignastýringarsafni nr. B#470500 í eigu stefnda hafi verið framkvæmd með þeim hætti að synja beri um staðfestingu hennar. Verður krafa stefnanda um að kyrrsetningin verði staðfest því tekin til greina. Ekki eru efni til að fara í sundurliðun þeirrar fjárhæðar, en fyrir liggur að stefnandi hefur greitt eiginkonu stefnda, Steinunni Rósborgu Sigurðardóttur, út helming eignastýringarsafnsins. Verður krafa um staðfestingu á kyrrsetningunni því tekin til greina að því virtu.
Gagnsök.
Gagnstefnandi gerir þá dómkröfu að gagnstefnda verði gert að greiða honum 52.967.388 krónur ásamt tilgreindum vöxtum. Er dómkrafa gagnstefnanda grundvölluð á inneign sem gagnstefnandi kveðst eiga og séu í vörslum gagnstefnda að fjárhæð 49.179.500 krónur og hafi verið inni í eignastýringarsafni gagnstefnanda hjá gagnstefnda. Er hér um að ræða sömu fjármuni og aðalstefnandi krefst kyrrsetningar á og dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að taka beri kröfu aðalstefnanda um staðfestingu á kyrrsetningu þeirra fjármuna til greina. Af þeim sökum og með vísan til þess rökstuðnings verður að sýkna gagnstefnda af þessari kröfu gagnstefnanda.
Gagnstefnandi krefst þess einnig að gagnstefndi greiði honum nánar tilgreindar fjárhæðir, samtals 3.791.888 krónur með nánar tilgreindum vöxtum, en gagnstefnandi segir gagnstefnda hafa krafist þeirra greiðslna með ólögmætum og óréttmætum hætti. Hafi gagnstefnda verið með öllu óheimilt að innheimta kröfuna og hagnýta sér skuldabréfið með þeim hætti sem gagnstefndi gerði.
Með vísan til forsendna í aðalsök verður gagnstefndi sýknaður af þessari kröfu gagnstefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður og að hvor aðili beri sinn kostnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð.
Stefndi, Einar Þór Einarsson, kt. 041154-2419, greiði stefnanda, Arion banka hf., kt. 581008-0150, 53.836.604 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til greiðsludags.
Staðfest er kyrrsetning sýslumannsins í Hafnarfirði frá 18. ágúst 2009 í máli nr. K-13-2009.
Gagnstefndi, Arion banki hf., er sýkn af öllum kröfum gagnstefnanda.
Málskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. júní 2012.
Mál þetta, sem var þingfest 14. desember 2011, var höfðað af Arion banka hf., kt. [...], Borgartúni 19, Reykjavík, með birtingu stefnu 24. nóvember 2011 gegn Einari Þór Einarssyni, kt. [...], Mýrarkoti 6, Bessastaðahreppi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 62.069.465 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til greiðsludags.
Þá er þess krafist að staðfest verði með dómi kyrrsetning í eign stefnda á eignastýringarsafni hans nr. B#470500 hjá stefnanda, samkvæmt kyrrsetningargerð nr. K-13-2009 er fram fór við sýslumannsembættið í Hafnarfirði 18. ágúst 2009.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
Stefndi gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Þá krefst stefndi þess að synjað verði um staðfestingu kyrrsetningargerðar nr. K-13-2009 frá 18. ágúst 2009.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Að loknum málflutningi 29. maí sl. um frávísunarkröfu stefnda í aðalsök var málið tekið til úrskurðar.
II.
Stefnandi kveður málavexti vera þá að stefndi hafa fengið lán hjá Kaupþingi banka hf., kt. 560882-0419, í formi skuldabréfs sem hafi verið útgefið þann 15. desember 2006. Skyldi lánið endurgreiðast þannig að 1. janúar 2008 skyldi greiða 130.000.000 króna auk vaxta og verðbóta en eftirstöðvar skyldi greiða með 48 greiðslum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 1. febrúar 2008. Stefnandi kveður stefnda hafa farið fram á skilmálabreytingu þann 29. janúar 2008 á láninu sem stefnandi hafi samþykkt. Lánstíminn skyldi vera 12 ár með fyrsta gjalddaga þann 10. febrúar 2009. Stefnandi kveður sig hafa, að beiðni stefnda, „fryst“ lánið vegna þeirrar stöðu sem skapaðist í október sl., þannig að gjalddagi þess skyldi vera þann 1. september 2009. Stefnandi kveður lán þetta hafa verið tryggt með innstæðu á markaðsreikningi nr. 327-13-300926 hjá stefnanda, en að stefndi hafi svo farið fram á að færa þá inneign inn á eignastýringarsafn sitt hjá stefnanda með númerinu B # 470500 án þess að það hafi verið sérstaklega veðsett til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Stefnandi kveður að þann 18. ágúst 2009 hafi farið fram kyrrsetningargerð hjá sýslumanninum í Hafnarfirði þar sem kyrrsett var inneign stefnda á eignastýringarsafni hans nr. B # 470500. Stefnandi kveður kyrrsetninguna hafa verið nauðsynlega til þess að tryggðir væru hagsmunir hans. Stefnandi hafi orðið þess var að stefndi hafi fært eignir sínar yfir á eiginkonu stefnda. Kveðst stefnandi telja að það muni draga mjög úr líkindum til að fullnusta skuldarinnar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri komi ekki til þess að umbeðin kyrrsetning verði heimiluð. Stefnandi kveður sér ekki vera kunnugt um aðra eign í eigu stefnda en hinn kyrrsetta reikning, sem staðið geti undir greiðslu þessarar skuldar.
Þann 21. ágúst 2009 var mál höfðað fyrir héraðsdómi Reykjaness til staðfestingar ofangreindri kyrrsetningargerð. Í málinu var þess jafnframt krafist að viðurkennt yrði með dómi að stefnandi ætti fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2006 af stefnda með gjalddaga þann 1. september 2009, að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar. Stefnandi kveður að þar sem um hafi verið að ræða ólögmætt gengistryggt lán hafi viðurkenningarkröfu stefnanda verið hafnað fyrir héraðsdómi sem staðfesti þó kyrrsetninguna að hluta til. Málinu hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar og að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að kröfugerð stefnanda hefði verið ábótavant og að málinu hafi verið vísað frá héraðsdómi, sjá dóm Hæstaréttar frá 17. nóvember 2011 í máli réttarins nr. 470/2010.
Stefnandi kveðst vísa til 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þar komi fram að kyrrsetning standi í eina viku frá því að gerðarbeiðanda er kunnugt um frávísun dóms. Að loknum þeim fresti falli gerðin sjálfkrafa úr gildi, nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið stefnu gefna út á ný til staðfestingar henni.
Stefnandi gerði jafnframt aðför í eignum stefnda þann 22. nóvember 2011. Ekki hafi verið mætt af hálfu stefnda við þá aðfarargerð. Nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að fá útgefna þessa stefnu vegna ákvæða 92. gr. aðfararlaga um heimild til að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð innan átta vikna frá því að gerð lauk. Kveðst stefnandi því telja, með vísan til framanritaðs, að uppfyllt séu skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 til að heimila umrædda kyrrsetningu.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveðst hafa endurreiknað lán stefnda á grundvelli þeirra fyrirmæla sem fram komi í 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, enda falli samningsákvæði skuldabréfsins undir gildissvið 1. mgr. 18. gr. Höfuðstóll skuldabréfsins á myntbreytingardegi, þ.e. þegar skuldabréfinu var myntbreytt í erlendar myntir, hafi verið 53.869.038 krónur, samanber skilmálabreytingu 29.01.2008. Sú fjárhæð hafi verið endurreiknuð í samræmi við 18. gr. vxl., það er að segja, upphaflegur höfuðstóll kröfunnar, í íslenskum krónum (53.869.038 kr.), hafi verið vaxtareiknaður með óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands frá útgreiðsludegi skuldabréfsins 30. janúar 2008, samanber 3. mgr. 18. gr. vxl., og hafi verið lagðir við höfuðstól einu ári eftir lántöku og síðan árlega, samanber 12. gr. vxl. Frá þessari fjárhæð hafi svo verið dregnar greiðslur, sem stefndi hafi innt af hendi, það er, afborganir af höfuðstól, vextir, dráttarvextir og vanskilaálögur, samtals 6.485.781 króna, vaxtareiknaðar frá greiðsludegi hverrar greiðslu til viðmiðunardags endurútreiknings, sem sé gjalddagi lánsins, það er 1. september 2009. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar, það er höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Stefnandi kveður að samkvæmt ofangreindu nemi nýr höfuðstóll kröfunnar, endurreiknaður í samræmi við 18. gr. vxl., á gjalddaga hennar 62.069.465 krónum.
Lánið endurreiknist þannig:
Innborganir á lán
|
Dagsetning |
Greiðslur |
Kostnaður |
Gr. til vaxtaútreiknings |
Vextir á innb. |
Alls greitt með vöxtum |
|
5.3.2008 |
103.200 kr. |
600 kr. |
102.600 kr. |
27.528 kr. |
130.128 kr. |
|
5.3.2008 |
237.613 kr. |
600 kr. |
237.013 kr. |
63.593 kr. |
300.606 kr. |
|
10.4.2008 |
289.833 kr. |
600 kr. |
289.233 kr. |
72.016 kr. |
361.249 kr. |
|
13.5.2008 |
324.790 kr. |
600 kr. |
324.190 kr. |
74.580 kr. |
398.770 kr. |
|
10.6.2008 |
263.925 kr. |
600 kr. |
263.325 kr. |
56.334 kr. |
319.659 kr. |
|
10.7.2008 |
280.080 kr. |
600 kr. |
279.480 kr. |
54.999 kr. |
334.479 kr. |
|
13.8.2008 |
374.555 kr. |
600 kr. |
373.955 kr. |
66.590 kr. |
440.545 kr. |
|
10.9.2008 |
361.347 kr. |
600 kr. |
360.748 kr. |
58.907 kr. |
419.655 kr. |
|
10.10.2008 |
467.849 kr. |
600 kr. |
467.249 kr. |
69.094 kr. |
536.343 kr. |
|
10.11.2008 |
556.433 kr. |
600 kr. |
555.833 kr. |
74.111 kr. |
629.944 kr. |
|
10.12.2008 |
477.676 kr. |
600 kr. |
477.076 kr. |
56.931 kr. |
534.007 kr. |
|
12.1.2009 |
582.197 kr. |
600 kr. |
581.597 kr. |
58.547 kr. |
640.144 kr. |
|
3.4.2009 |
323.699 kr. |
300 kr. |
329.399 kr. |
18.455 kr. |
347.854 kr. |
|
3.4.2009 |
316.740 kr. |
300 kr. |
316.440 kr. |
17.729 kr. |
334.169 kr. |
|
14.4.2009 |
389.232 kr. |
300 kr. |
388.932 kr. |
19.533 kr. |
408.465 kr. |
|
4.5.2009 |
130.331 kr. |
300 kr. |
130.031 kr. |
5.169 kr. |
135.200 kr. |
|
2.6.2009 |
185.283 kr. |
300 kr. |
184.983 kr. |
4.802 kr. |
189.785 kr. |
|
1.7.2009 |
192.945 kr. |
300 kr. |
192.645 kr. |
3.371 kr. |
196.016 kr. |
|
1.7.2009 |
50.000 kr. |
0 kr. |
50.000 kr. |
875 kr. |
50.875 kr. |
|
4.8.2009 |
581.352 kr. |
300 kr. |
581.052 kr. |
4.576 kr. |
585.628 kr. |
|
|
6.495.081 kr. |
9.300 kr. |
6.485.781 kr. |
807.740 kr. |
7.293.521 kr. |
Lagatilvísanir:
Stefnandi vísar um efnisleg skilyrði kyrrsetningar til 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann en hvað varðar kröfuna um staðfestingu kyrrsetningar vísar hann til VI. kafla sömu laga. Stefnandi byggir kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990, og kröfuna um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991. Vísað er til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936.
Málavextir, málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi gerir alvarlegar athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda sem um margt sé byggð á hreinum rangfærslum og ekki studd haldbærum gögnum.
Málavexti kveður stefndi réttilega vera þá að stefndi, ásamt eiginkonu sinni, Steinunni Rósborgu Sigurðardóttur, kt. 070165-3419, hafi átt umfangsmikil viðskipti við Kaupþing banka hf., kt. 560882-0419, og notið þar sérfræðiráðgjafar, meðal annars um ávöxtun sparifjár, en þau hjónin hafi átt í bankanum fjármuni í eignastýringu í eignastýringasafni nr. 470500, skv. samningi dagsettum 4. júní 2004. Stefndi hafi verið, fyrir milligöngu Kaupþings banka hf., umsvifamikill á byggingarmarkaði, hafi meðal annars keypt fasteignir í byggingu, áframbyggt og selt í samráði við bankann. Sem lið í afleiðuviðskiptum hafi stefndi gefið út skuldabréf til Kaupþings banka hf., 15.desember 2006, að fjárhæð 147.000.000 krónur, verðtryggt. Eftir útgáfu skuldabréfs hafi bankanum borist úr viðskiptunum, og fyrir fyrsta gjalddaga, umtalsverðar greiðslur eða 105.853.094 krónur sem bankinn geri ekki grein fyrir.
Í október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir völd hluthafafundar Kaupþings banka hf. og stjórnin vikið og skipuð hafi verið skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlits 21.10.2008 hafi öllum eignum Kaupþings banka hf., hverju nafni sem þær nefnast, verið ráðstafað til Nýja Kaupþings hf., nú Arion banka hf. Samkvæmt 1. gr. ákvörðunarinnar um eignir fluttust réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum ekki yfir til hins nýja banka og séu því kröfur stefnanda ekki á hans forræði, enda hafi stefnandi ekki framsalsheimild fyrir bréfinu. Þá hafi stefnda aldrei verið tilkynnt um framsal bréfsins.
Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 20. júlí 2009, til stefnanda, sem móttekið var sama dag, var þess farið á leit að eignarhaldi á eignastýringarsafni yrði breytt og skráð eftirleiðis á nafn beggja hjóna enda eignasafnið hjúskapareign þeirra. Tilkynning þessi til bankans hafi verið í samræmi við ákvæði 10. gr. samnings.
Á eignasafninu hafi engar kvaðir hvílt eða bönd og hafi bankanum borið að verða þegar við beiðninni, samanber bréf lögmanns stefnda, dagsett 17. ágúst 2009. Stefnandi hafi ekki orðið við tilmælum og hafi borið fyrir sig að starfsmenn, sem um erindið ættu, væru í sumarleyfum. Stefndi og eiginkona hans sögðu upp samningi um eignastýringu með bréfi, dagsettu 31. júlí 2009. Uppsögn hafi verið með skýrri heimild í 11. gr. samnings. Bankinn hafi áritað tilkynninguna um móttöku 6. ágúst 2009 og upplýst þá um að inneign á eignarstýringarsafni næmi samtals 98.359.000 krónum.
Stefnda var, samkvæmt 11. gr. samningsins, frjálst að segja honum upp, án fyrirvara, og gefa fyrirmæli um ráðstöfun, allt í samræmi við samning, og var stefnanda skylt að verða við tilmælum. Eigendur kröfðust þess að fjármunir yrðu lagðir inn á sparisjóðsreikning eiginkonu stefnda hjá bankanum. Stefnandi virti ekki þessi fyrirmæli án nokkurra skýringa. Eiginkona stefnda höfðaði mál á hendur stefnanda til heimtu á eignarhlut sínum. Krafa hennar var viðurkennd með dómi og greiddi stefnandi inneign hennar í kjölfar fjárnáms í september 2010.
Hinn 18. ágúst 2009 hafi stefnandi fengið kyrrsett eignastýringarsafn B#470500 hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði. Athugasemdir og mótmæli stefnda við gerðina voru ekki tekin til greina, hafnað var að gerðinni skyldi frestað, gerðarþola ekki boðið að benda á eignir og gerðinni lokið. Stefndi mótmælti kyrrsetningunni og taldi skilyrði kyrrsetningar ekki fyrir hendi. Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness gegn stefnda til staðfestingar kyrrsetningu o.fl. Með dómi Hæstaréttar frá 17. nóvember 2011 í máli nr. 470/2010, hafi málinu verið vísað frá héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar eru verulegar athugasemdir gerðar við framkvæmd kyrrsetningar og málatilbúnað stefnanda sem var svo óburðugur að málinu var vísað frá héraðsdómi. Stefndi tekur undir skýran og glöggan rökstuðning í hæstaréttardómi og hefur hann uppi sem varnir í þessu máli. Stefnandi gerði aðför hjá stefnda þann 22. nóvember sl. Aðför var án boðunar og eftir aðfinnslur við sýslumann var gerðin endurupptekin af hálfu gerðarbeiðanda og felld niður. Að öðru leyti vísast til málavaxtalýsingar í gagnstefnu.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi þar sem málatilbúnaður stefnanda sé svo óskýr og ómarkviss og fari í bága við ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Stefndi kveður frumgögn ekki hafa verið lögð fram í málinu, frumrit af veðskuldabréfi að fjárhæð 147.000.000 króna hafi ekki verið lagt fram í málinu. Skuldabréfið sé viðskiptabréf og því nauðsyn að leggja frumritið fram. Það hafi ekki verið gert.
Kveður stefndi málsatvikalýsingu í stefnu vera ruglingslega og ranga og ekki studda skjallegum gögnum. Því sé erfitt að taka til varna. Í stefnu sé minnst á lán að fjárhæð 147.000.000 króna en ekki sé gerð frekari grein fyrir því láni í stefnu. Ljósrit liggi frammi af þessu skuldabréfi. Þá segir að stefndi hafi farið fram á skilmálabreytingu 29. janúar 2008, sem stefnandi hafi samþykkt. Þá hafi lánstíminn átt að vera tólf ár en engin gögn liggi frammi þessu til stuðnings. Þá liggi fyrir skjal sem heiti „myntbreyting úr íslenskum krónum í erlendar myntir“. Þar sé lánstími sagður tólf mánuðir eða ár. Engin fjárhæð sé tilgreind á þessu skjali utan að í lið sem ætlaður er fyrir bankann til útfyllingar komi fram fjárhæðin 53.869.038 krónur. Stefndi hafi ekki ritað undir þessa fjárhæð. Þá segi að lánstími sé tólf ár. Þá segi í stefnu að stefndi hafi farið fram á að frysta lánið. Engin gögn liggi fyrir um frystingu lánsins. Þá kveðst stefndi ekki vita hvaða staða skapaðist í október sl. sem gæti skipt máli fyrir stefnda. Þá segi í stefnu að lánið hafi verið tryggt með veði. Engin gögn styðji þá staðhæfingu. Hins vegar komi fram í gögnum um kyrrsetningu að lánið hafi ekki verið tryggt með veði.
Stefndi kveður Hæstarétt Íslands hafa dæmt um málatilbúnað stefnanda í málinu nr. 470/2010. Þar komi fram að grundvöllur þess að kyrrsetning fari fram sé að fyrir hendi sé fjárhæð sem kyrrsetningin eigi að tryggja. Stefndi telur að ekki séu skilyrði til að höfða nýtt mál vegna þessarar kyrrsetningar og hafnar því að 39. gr. kyrrsetningarlaga eigi við í máli þessu. Máli stefnanda hafi verið vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar. Túlka verði 3. mgr. 39. gr. kyrrsetningarlaga þannig að hægt sé að höfða nýtt mál innan viku frá því að máli sé vísað frá héraðsdómi en eigi ekki við þegar máli er sópað út af borðinu með dómi Hæstaréttar Íslands.
Stefndi kveðst hafa verið í miklum viðskiptum við stefnanda vegna umsvifa stefnda. Stefnandi hafi tekið greiðslur til sín úr afleiðusamningum stefnda upp á rúmlega 106.000.000 króna. Kveður stefndi að afleiðusamningar hafi ekki gengið yfir til stefnanda við fall bankanna, þeir samningar hafi verið undanskildir.
Stefndi ætlar að stefnandi hafi sniðgengið verðtryggingarheimildir VI. kafla laga nr. 38/2001 og verðtryggt skammtímalán við útgáfu skuldabréfs 15. desember 2006, en samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 og reglugerð 492/2001 skuli verðtryggt lán vera að minnsta kosti til 5 ára og verðtryggt með neysluvísitölu og ná ákvæðin til allrar fjárhæðar lánsins. Stefndi telur að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins sé ekki skuldbindandi og beri að horfa fram hjá því ákvæði. Stefnandi sendi greiðsluseðil um gjalddaga 1. janúar 2008, sem staðfesti staðhæfingar stefnda um uppgreiðslu lánsins og það hafi, í reynd, aðeins verið til eins árs. Í nefndum dómi Hæstaréttar sé fjallað um skuldabréf að fjárhæð 147.000.000 króna og að bréfið sé verðtryggt. Í skilmálum skuldabréfsins sé tekið fram að greiða átti á fyrsta gjalddaga 1. janúar 2008 130.000.000 króna. Með því ákvæði sé verið að sniðganga verðtryggingarákvæði laga og sé það óheimilt.
Í málinu liggi fyrir greiðsluseðill, til stefnda frá Kaupþingi banka hf. vegna fyrsta gjalddaga skuldabréfs, 1. janúar 2008, en þar hafi verið vísað til númers á skuldabréfi, sem framangreint bréf frá 15. desember 2006 hafi borið. Samkvæmt greiðsluseðlinum hafi þetta verið fyrsti gjalddagi af 49 gjalddögum skuldabréfsins og skyldi afborgun af nafnverði nema 48.914.539 krónum og af verðbótum 2.885.976 krónum, en að viðbættum vöxtum að fjárhæð 1.003.993 krónur og 510 krónum vegna tilkynningar- og greiðslugjalds átti samtals að greiða 52.805.018 krónur á þessum gjalddaga. Á seðlinum komi fram að „eftirstöðvar með verðbótum eftir greiðslu“ yrðu engar. Fyrir fyrsta gjalddaga hafði stefndi hins vegar greitt 105.853.094 krónur inn á höfuðstól kröfunnar. Stefnandi hafi með engu móti gert grein fyrir þeim greiðslum og þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvernig þetta efni greiðsluseðilsins fái samrýmst því, sem kveðið hafi verið á um í skuldabréfinu samkvæmt framansögðu, og því ekki lagt grundvöll að stefnukröfu málsins. Greiðsluseðill þessi sé tilgreindur í dómi Hæstaréttar þar sem fram komi að stefnda beri að greiða 52.805.018 krónur og eftir greiðslu væru eftirstöðvar engar. Hafi Hæstiréttur tekið fram að í málatilbúnaði stefnanda hafi engar skýringar komið fram á því hvernig þetta efni greiðsluseðilsins fái samrýmst því sem kveðið hafi verið á um í skuldabréfinu samkvæmt framansögðu.
Í stefnu horfi stefnandi algjörlega fram hjá dómskjali 4 sem sé skuldabréfið ásamt skilmálabreytingu. Stefnandi sýni ekki fram á það í stefnu hvernig stefnufjárhæðin er fundin en við það hafi Hæstiréttur gert athugasemdir. Úr þessu hafi ekki verið bætt í þessu máli. Krafan sé enn eins óupplýst og hún hafi verið þegar aðgerðir stefnanda hófust. Þá komi fram í dómskjali 18 yfirlit yfir greiðslur sem gangi inn til Kaupþings banka. Þetta dómskjal hafi verið lagt fram af hálfu stefnda í fyrra málinu en ekki af hálfu stefnanda. Þessar greiðslur hafi byrjað að berast stefnanda í janúar 2007 en hann ekki fengist til að upplýsa hvaðan þessar greiðslur komi. Á fyrstu fimm mánuðunum hafi um 70.000.000 krónur verið greiddar til stefnanda. Ekkert komi fram í stefnu með hvaða hætti farið var með þessar greiðslur. Auk þess hafi þessar greiðslur borist áður en komið var að fyrsta gjalddaga skuldabréfsins. Þá komi fram á greiðsluseðli, dómskjali 17, að með greiðslu á 52.805.018 krónum sé skuldabréfið greitt upp að fullu. Engin grein sé gerð fyrir þessu í stefnu. Því sé ekki hægt að leggja fram efnisdóm í máli þessu. Með þessum málatilbúnaði hafi stefndi engan grundvöll til að verjast dómkröfum stefnanda. Því verði að vísa máli þessu frá dómi þar sem kröfugerðin uppfylli ekki ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé dómskjal 21, sem stafi frá stefnanda, skjal sem samrýmist ekki öðrum gögnum málsins auk þess sem það sýni allt aðrar fjárhæðir.
Þá gerir stefnandi á engan hátt grein fyrir fyrri meðferð málsins og hefur ekki barið í þá bresti sem dómur Hæstaréttar í Hrd. 470/2010 byggi á og sé krafa stefnda um frávísun málsins m.a. þeim rökum studd. Kyrrsetning geti ekki farið fram til tryggingar fjárkröfu, sem stefnandi hafi uppi við stefnda án þess að kveða á um hvernig fjárhæð kröfu sé til fundin. Þetta sé andstætt skýrum ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. kyrrsetningarlaga, að ekki sé tilgreind sú fjárhæð sem kyrrsetningu er ætlað að tryggja.
Stefndi hafi frá öndverðu hafnað fyrirliggjandi útreikningum á meintri kröfu stefnanda. Stefnandi hafi gefið út skuldabréf 15. desember 2006 til Kaupþings banka hf. að fjárhæð 147.000.000 króna og hafi sú skuld verið bundin vísitölu neysluverðs með grunntölu 266,1 stig og borið svokallaða breytilega kjörvexti með 0,75% álagi. Á fyrsta gjalddaga skuldabréfsins, 1. janúar 2008, hafi stefndi átt að greiða 130.000.000 króna af höfuðstóli skuldarinnar „auk vaxta og verðbóta frá kaupdegi“, en upp frá því skyldu eftirstöðvar skuldarinnar greiddar ásamt vöxtum með 48 mánaðarlegum afborgunum.
Stefndi ætlar, að stefnandi hafi sniðgengið verðtryggingarheimildir VI. kafla laga nr. 38/2001 og verðtryggt skammtímalán við útgáfu skuldabréfs 15. desember 2006, en samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 og reglugerð 492/2001 skuli verðtryggt lán vera að minnsta kosti til 5 ára og verðtryggt með neysluvísitölu og ná ákvæðin til allrar fjárhæðar lánsins.
Stefndi telur að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins sé ekki skuldbindandi og beri að horfa fram hjá því ákvæði. Stefnandi sendi greiðsluseðil um gjalddaga 1. janúar 2008, sem staðfesti staðhæfingar stefnda um uppgreiðslu lánsins og það hafi, í reynd, aðeins verið til eins árs.
Ekki geri stefnandi grein fyrir því með hverjum hætti greiðslur sem bárust stefnanda á tímabilinu janúar 2007 til 18. október 2007, samtals að fjárhæð 105.853.094 krónur, hafi verið nýttar.
Samkvæmt yfirliti stefnanda hafi eftirstöðvar lánsins verið uppgreiddar með skuldafærslu 1. janúar 2008. Stefnandi geri ekki grein fyrir þessu. Þá hafi skuldabréfið engar innfærslur um greiðslur. Skilmálabreytingar stefnanda á veittu verðtryggðu láni í íslenskum krónum í erlendar myntir hafi verið stefnanda óheimilar. Stefndi telji því ósannað að hann standi í skuld við stefnanda eins og dómkröfum sé hér háttað. Þá telji stefndi að málatilbúnaður stefnanda fari gegn ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð o.fl. og séu löggerningarnir því ógildir. Þá telji stefndi það rangan skilning stefnanda að hann geti höfðað mál að nýju vegna kyrrsetningar eins og hann byggi á í stefnu og beri því meðal annars að vísa máli frá dómi þar sem með dómi Hæstaréttar hafi kyrrsetningin verið felld niður.
Málsástæður og lagarök stefnanda vegna frávísunarkröfunnar.
Stefnandi krefst þess að kröfum stefnda um að málinu verði vísað frá dómi verði hafnað auk þess sem hann krefst málskostnaðar að mati dómsins.
Stefnandi mótmælir málavaxtalýsingu stefnda. Telur stefnandi málið nægjanlega reifað í stefnu og nauðsynleg gögn hafi verið lögð fram með stefnunni. Þó sé ranglega farið með lánstímann í stefnu, hann eigi að vera tólf mánuðir en ekki tólf ár en það varði ekki frávísun málsins frá dómi.
Aðdraganda þessa máls kveður stefnandi hafa verið að upphaflega hafi stefndi gefið út skuldabréf nr. 6222 að fjárhæð 147.000.000 króna til varnaraðila. Skuldabréfið átti að greiða á fimm árum. Þann 29. janúar 2008 óskaði stefndi sérstaklega eftir því að bréfinu yrði breytt úr íslenskum krónum í erlenda mynt. Þessi skjöl séu fylgiskjöl nr. 3 með dómskjali 3. Við þá breytingu hafi skuldabréfið fengið annað númer, eða 7015. Með skilmálabreytingunni hafi málsaðilar staðfest að eftirstöðvar lánsins hafi verið 53.869.038 krónur. Aðilar hafi samhliða skilmálabreytingunni gert greiðsluáætlun fyrir stefnda, dskj. 21, en þar megi sjá nýjan höfuðstól skuldabréfsins og áætlaða mánaðarlega greiðslubyrði af láninu. Afborganir af láninu hafi tvisvar verið frystar að beiðni stefnda þannig að gjalddaga lánsins hafi verið frestað til 1. sept. 2009. Til tryggingar hafi stefndi handveðsett varnaraðila innistæður á Markaðsreikningi nr. 300926, sbr. fylgiskjal 8 með dskj. 3. Síðar hafi stefndi farið fram á að þeir fjármunir yrðu fluttir yfir á eignarstýringarsafn stefnda nr. 4070500 sem stefnandi hafi samþykkt með því skilyrði að eignarstýringarsafnið yrði áfram veðsett fyrir skuldum stefnda. Þetta hafi brugðist en þau mistök hafi verið gerð að safnið hafi eingöngu verið til tryggingar tékkareikningi 7633, sem þá var ónotaður, í stað þess að vera til tryggingar öllum skuldum stefnda. Þar sem stefnandi taldi stefnda notfæra sér þessi mistök með því að flytja fjármuni úr eignastýringarsafninu, fór stefnandi fram á kyrrsetningu sem framkvæmd var 28. ágúst 2009. Þá voru 98.000.000 króna inni á eignastýringarsafni stefnda. Í framhaldi fór stefnandi í staðfestingarmál sem lauk með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 470/2010. Var málinu vísað frá héraðsdómi vegna annmarka á málatilbúnaði. Stefnandi nýtti sér heimild í 3. mgr. 39. gr. kyrrsetningarlaga og höfðaði nýtt mál innan viku frá uppkvaðningu dómsins. Þá kveður stefnandi útreikning á gengistryggða láninu liggja frammi og ekki sé ágreiningur um að gengistryggingin hafi verið ólögmæt.
Stefndi haldi því fram að gögn vegna frystingar lánsins vanti í málið en það sé ekki rétt. Fylgiskjal nr. 4 með dskj. 3 sé umrætt skjal. Þá telji stefndi öll gögn sem sýna að umþrætt lán hafi verið tryggt með innistæðu á Markaðsreikningi vanti en það sé rangt. Sá handveðssamningur sé fylgiskjal nr. 7 með dskj. 3. Þá haldi stefndi því fram að stefnandi hafi ekki barið í þá bresti sem komu í ljós við fyrri meðferð málsins og lauk með dómi Hæstaréttar nr. 470/2010. Stefnandi hafnar þessu. Í umræddum dómi hafi verið tekið á því að stefnandi hafi ekki getað gert viðurkenningarkröfu, sem úr hafi verið bætt í þessu máli. Um þá fjárhæð megi hins vegar deila.
Þá byggi stefndi á því að stefnandi hafi ekki gert grein fyrir greiðslum sem komu inn á lánið fyrir janúar 2008 eða áður en skilmálabreyting var gerð. Ekki hafi verið ágreiningur fram að þessu milli aðila um þær greiðslur og því hafi ekki verið talin nauðsyn á að reifa þær sérstaklega í stefnu en þær hafi verið færðar inn á skuldabréfið. Þó sé greiðsla, sem tilgreind sé að fjárhæð 53.869.038 krónur á því yfirliti, vegna útgáfu á skuldabréfi sem var til greiðslu á fyrra láninu nr. 6222, en greiðslan hafi verið gerð með útgáfu á síðara láninu. Þá byggi stefndi á því að á dskj. 17 komi fram að lánið sé greitt upp en um sé að ræða greiðsluseðil, sem hafi ekki verið greiddur, en ekki kvittun og því hafi stefnandi ekki talið ástæðu til að tilgreina hann sérstaklega í stefnu. Stefnandi kveður ótrúlegt að stefnandi láti liggja að því að lánið sé uppgreitt með vísan til dskj. 17, sem var með gjalddaga 1. janúar 2008. Í málinu liggi fyrir gögn þar sem stefndi staðfesti að hann skuldi varnaraðila fjármuni eftir að greiðsluseðillinn hafi verið gefinn út, t.d. samning um myntbreytingu á láninu og tvær skilmálabreytingar á árinu 2009. Þá sé á dskj. 21. greiðsluáætlun sem stefndi hafi staðfest 29. janúar 2008, sem sé eftir að umræddur greiðsluseðill var gefinn út. Stefnandi telji málsástæðu stefnda um heimild til verðtryggingar lánsins ekki eiga við í þessum þætti málsins.
Stefnandi telur það ekki geta komið til að í stefnu séu tilgreind rök er snúi að vörnum sem komi fram í greinargerð eftir þingfestingu máls. Þá veki stefndi á því athygli að skuldabréfið tengist afleiðuviðskiptum og eigi raunar ekki að vera í vörslum stefnanda. Þessari málsástæðu hafi ekki verið teflt fram í fyrra málinu. Það hafi stefnandi ekki getað séð fyrir. Þá mótmælir stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að skilmálabreyting úr íslenskum krónum í erlendar myntir hafi verið óheimil og að málatilbúnaður varnaraðila gangi gegn þriðja kafla samningalaga og því séu löggerningarnir ógildir. Sé svo leiði það til sýknu en ekki frávísunar. Þá mótmælir stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að óheimilt sé að höfða mál þetta til staðfestingar á kyrrsetningargerð stefnanda þar sem 3. mgr. 39. gr. kyrrsetningarlaga eigi ekki við. Stefnandi hafi höfðað nýtt mál innan viku frá því að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 470/2010 gekk og hafi málið því verið höfðað innan viku frá því að málinu var vísað frá héraðsdómi. Því hafi varnaraðila verið heimilt að höfða nýtt staðfestingarmál.
Stefnandi hafnar málsástæðum stefnda varðandi fjárhæð kröfunnar í stefnu. Endurútreikningur lánsins sem sé deilt um í máli þessu liggi frammi á dskj. 5 en þar komi fram að lánið fyrir endurútreikning hafi verið 109.685.045 krónur en með nýjum höfuðstóll eftir endurútreikning sé fjárhæð lánsins 62.069.465 krónur og lækki um 47.615.580 krónur. Þá telur stefnandi að fyrirmæli 18. gr. laga nr. 151/2010 gangi fyrir ákvæði fullnaðarkvittana en með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010 voru bein og órjúfanleg tengsl á milli gengistryggingar og vaxtaákvæða í þeim lánum. Því gilti það sama um vexti og gengistryggingu. Við þessar aðstæður ætti að reikna vexti skv. 4. gr. vaxtalaga en eftir að ofangreindur dómur gekk hefðu verið sett ný lög og samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 151/2010 skuli fara með útreikning með ákveðnum hætti frá stofndegi að uppgjörsdegi. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar. Endurútreikningur samkvæmt þessu liggi fyrir í dskj. nr. 5. Stefnandi kveður útreikning sinn í stefnu vera í samræmi við þetta ákvæði laganna.
Stefnandi mótmælir þeirri málsástæðu stefnda að frumrit skuldabréfs að fjárhæð 147.000.000 króna hafi ekki verið lagt fram og sé sú málsástæða of seint fram komin og því beri að vísa máli þessu frá dómi. Þá viti stefndi vel að frumrit skuldabréfsins liggi frammi í öðru dómsmáli fyrir sama dómstól og sé ósanngjarnt að bera slíka málsástæðu fyrir sig. Hægt sé að fá skuldabréfið að láni úr því máli til að sýna dóminum undir rekstri málsins.
Niðurstöður.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því að frumrit skuldabréfs hafi ekki verið lagt fram í málinu en um viðskiptabréf sé að ræða og verði ekki dæmt um efni skuldabréfsins nema frumrit liggi fyrir. Við munnlegan málflutning upplýsti stefnandi að frumrit skuldabréfsins hefði verið lagt fram í öðru máli er rekið er fyrir sama dómstól en ekki væri hægt að leggja það fram í báðum málunum. Hins vegar væri hægt að fá skuldabréfið lánað úr því máli til að sýna dóminum það.
Í málinu er ekki ágreiningur um efni skuldabréfsins og er það ekki frávísunarástæða að frumrit skuli ekki liggja frammi í þessu máli, enda ræðst niðurstaða málsins ekki af gildi bréfsins. Verður máli þessu því ekki vísað frá á þeirri forsendu.
Stefndi byggir einnig á því að önnur skjalleg gögn vanti til stuðnings kröfugerð stefnanda. Eins og rakið er að ofan, liggja frammi í málinu afrit gagna er stefnandi byggir kröfugerð sína á. Eins og málatilbúnaður stefnanda er úr garði gerður, varðar sá skortur á gögnum er stefndi telur að sé fyrir hendi, ekki frávísun málsins. Þá telur stefndi fjárkröfu stefnanda ekki rökstudda þannig að dómur verði lagður á hana. Meðal annars sé ekki tekið fram í stefnu hvernig farið hafi verið með innborganir á skuldabréfið að fjárhæð rúmlega 106.000.000 króna. Stefnandi kvað engan ágreining hafa verið á milli aðila um ráðstöfun þeirra fjármuna, en þeir hefðu farið til greiðslu afborgana og vaxta á skuldabréfi númer 327-35-7015. Við skilmála- og myntbreytinguna úr íslenskum krónum í erlenda mynt, þann 29. janúar 2008, hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið 53.869.038 krónur og hafi enginn ágreiningur verið um þá fjárhæð á þeim tíma. Gögn liggi frammi eftir þann tíma um eftirstöðvar skuldarinnar sem stefndi hafi ekki gert athugasemdir við á þeim tíma. Í stefnu er gerð grein fyrir grundvelli fjárkröfu stefnanda. Þó svo að stefndi sé ekki sáttur við forsendur útreiknings kröfunnar, varðar það ekki frávísun málsins frá dómi, enda verður úr slíkum ágreiningi leyst við efnismeðferð málsins. Verður ráðið af stefnu og öðrum gögnum málsins hvernig krafa stefnanda er reiknuð til fjárhæðar. Er málið ekki vanreifað að því leyti, enda má bæta úr þeim ágöllum í meðförum málsins svo sem á grundvelli heimildar í 2. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda.
Þá telur stefndi áritanir á skuldabréf nr. 7015 um skilmálabreytingar ófullnægjandi. Hvort svo sé varðar ekki frávísun málsins frá dómi. Að teknu tilliti til ofangreinds, telur dómurinn málið ekki svo vanreifað af hálfu stefnanda að það varði frávísun frá dómi.
Stefndi krefst þess, verði kröfu hans um að vísa fjárkröfu varnaraðila frá dómi ekki tekin til greina, að kröfu stefnanda um staðfestingu á kyrrsetningu í málinu K-13-2009 verði vísað frá dómi þar sem skilyrði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. kyrrsetningarlaga séu ekki uppfyllt. Í gögnum málsins liggur fyrir kyrrsetningarbeiðni, dagsett 12. ágúst 2009, þar sem krafan er sundurliðuð í erlendri mynt. Þá liggur fyrir, í dskj. 5, endurútreikningur erlendra lána og í stefnu er fjárkrafa stefnanda sundurliðuð og er sá útreikningur studdur gögnum. Í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 470/2010 var kröfu stefnanda vísað frá héraðsdómi þar sem fjárkrafa stefnanda í því máli var óljós og byggð á ólögmætu gengistryggðu láni og svo að krafist var viðurkenningar á ótilgreindri fjárkröfu stefnanda á hendur stefnda. Úr þessu hefur verið bætt að mati dómsins. Telur dómurinn að skilyrði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. séu uppfyllt að þessu leyti. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda.
Stefndi byggir á því að skilyrði 3. mgr. 39. gr. kyrrsetningarlaga eigi ekki við þar sem fyrra máli milli sömu aðila hafi verið vísað frá dómi samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands nr. 470/2010. Eigi vikufrestur sem tilgreindur sé í 3. mgr. 39. gr. laganna eingöngu við þegar máli sé vísað frá héraðsdómi en ekki Hæstarétti. Því hafi mál þetta verið höfðað of seint. Á þá málsástæður verður ekki fallist. Hafi það verið tilgangur ákvæðisins, væri uppi mikil óvissa um slík mál sem hér er fjallað um, sem getur útilokað kröfuhafa að ná fram rétti sínum, fari svo að niðurstöðum undirréttar sé vísað frá dómi með dómi Hæstaréttar. Hlýtur að gilda einu hvort frávísun máls sé með úrskurði undirréttar eða með dómi Hæstaréttar. Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 470/2010 var kveðinn upp 17. nóvember 2011 og stefna í máli þessu birt 24. nóvember sama ár klukkan 13.05. Er málið því höfðað á nýjan leik innan tilskilins frests. Ber því að hafna þessari málsástæðu stefnda.
Að mati dómsins er samkvæmt framansögðu ekki efni til að vísa máli þessu frá dómi og er kröfu stefnda um það því hafnað.
Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms í málinu.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð.
Kröfu stefnda, Einars Þórs Einarssonar, um að máli þessu skuli vísað frá dómi er hafnað.
Málskostnaður bíður efnisdóms.