Mál nr. 781/2014
- Umboðssvik
- Ásetningur
- Fjármálafyrirtæki
X og Y voru ákærð fyrir umboðssvik, með því að hafa í störfum sínum hjá A banka hf., bæði meðlimir í áhættunefnd bankans, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé hans í verulega hættu. Það hafi þau gert í tveimur tilvikum með því að fara út fyrir heimildir til að veita ábyrgðir er þau í sameiningu samþykktu og undirrituðu fyrir hönd bankans sjálfskuldarábyrgð hans á þremur samningum við B banka hf. Annars vegar í júlí 2006 vegna láns til C Inc. að fjárhæð 2.500.000.000 krónur og vegna láns til D Corp. að fjárhæð 4.3000.000.000 krónur, bæði tryggð með handveði í hlutabréfum félaganna í bankanum. Í báðum tilvikum var gjalddagi lánanna í júní 2007. Hins vegar vegna sjálfskuldarábyrgðar bankans á láni sem B banki hf. veitti í júní 2007 til C Inc. að fjárhæð 6.8000.000.000 krónur á gjalddaga í júní 2008. Í dómi Hæstaréttar var rakið að félögin C Inc. og D Corp. hefðu verið svokölluð kaupréttarfélög sem A banki hf. hafi stofnað til þess að efna kauprétti við starfsmenn bankans. Lengst af og fram til 2006 hafi bankinn sjálfur fjármagnað lán til kaupréttarfélaganna, en í framangreindum tilvikum hafi B banki hf. veitt félögunum lán og krafist sjálfskuldarábyrgðar A banka hf. Hvað snerti sjálfskuldarábyrgðir A banka hf. vegna lána til félaganna C Inc. og D Corp. í júlí 2006 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að X og Y hefðu brotið reglur bankans sem fylgja þurfti til þess að umræddar ábyrgðir yrðu veittar með réttum hætti. Hefði háttsemi þeirra því fullnægt þeim þáttum 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem lytu að heimildum og misnotkun þeirra á aðstöðu sinni. Við mat á ásetningi X og Y og því hvort þau hafi skapað A banka hf. verulega fjártjónshættu með háttsemi sinni var litið til þess að frá upphafi hins svonefnda kaupréttarkerfis bankans hefði hann sjálfur fjármagnað kaupréttarfélög með því að veita þeim lán til hlutafjárkaupa. Var talið ósannað að sú ráðstöfun að A banki hf. legði til sjálfskuldarábyrgð í stað þess að standa sjálfur að lánveitingunni hafi haft áhrif á áhættu hans. Taldi dómurinn því að ákæruvaldið hefði ekki sýnt fram á að ásetningur X og Y hafi staðið til þess að afla B banka hf. fjárvinnings á þann hátt að A banki hf. biði við það tjón. Þá hefðu ekki verið færðar sönnur á að X og Y hafi, miðað við þá skipan sem var á fjármögnun kaupréttarfélaga fyrir júlí 2006, vitað eða hlotið að vita að sömu eða meiri líkur væru á því að A banki hf. yrði fyrir fjártjóni vegna þeirrar háttasemi sem ákært var fyrir. Hvað snerti sjálfskuldarábyrgð A banka hf. á láni til félagsins C Inc. í júní 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að X og Y hafi misnotað aðstöðu sína er þau bundu bankann við ábyrgðina. Við mat á því hvort þau hafi með þeirri ráðstöfun af ásetningi valdið A banka hf. verulegri fjártjónshættu var tekið tillit til þess að ákæruvaldið hefði ekki sannað að ætluð áhætta bankans miðað við aðdraganda að veitingu ábyrgðarinnar og aðstæðna á þessum tíma hafi verið veruleg. Var meðal annars litið til þess að gengi hluta í A banka hf. hefðu farið hækkandi um nokkurra mánaða skeið. Þótt X og Y hafi verið ljóst að gengið hefði allt eins getað lækkað væri ósannað að þau hafi vitað eða hlotið að vita að sömu eða meiri líkur væru á því að bankinn yrði fyrir tjóni vegna ráðstöfunar þeirra. Samkvæmt þessu voru X og Y sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 2014. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði sakfelld samkvæmt ákæru og þau dæmd til refsingar.
Ákærði X krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærða Y krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa.
I
1
Með bréfi 2. desember 2010 kærði Fjármálaeftirlitið til sérstaks saksóknara nokkra nafngreinda fyrrum starfsmenn A banka hf. ,,og eftir atvikum aðra aðila“ vegna ætlaðra brota á lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, sbr. lög nr. 31/2005, sem breyttu þeim lögum, og brota á 117. gr. laga nr. 108/2007 um sama efni, en þau tóku gildi 1. nóvember það ár. Í bréfinu sagði meðal annars: ,,Þá telur Fjármálaeftirlitið að málið varði einnig 154. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 248. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk hugsanlegra brota á öðrum lögum.“ Yfirskrift bréfsins hljóðaði svo: ,,Kæra Fjármálaeftirlitsins vegna meintrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í [A banka] hf.“ Þeir sem kærðir voru skyldu koma til viðbótar þeim sem Fjármálaeftirlitið kærði 19. október 2010 vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar, en um það sakarefni var auk annars fjallað í dómum Hæstaréttar frá 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 og 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014. Í bréfinu sagði jafnframt: ,,Fjármálaeftirlitið tók til skoðunar fyrirkomulag kaupréttarsamninga hjá [A] yfir tímabilið 2003-2008, í gegnum tiltekin aflandsfélög (hér eftir kaupréttarfélög) sem sett voru á stofn af [A]. Það vakti athygli Fjármálaeftirlitsins hversu stóran eignarhlut umrædd kaupréttarfélög áttu í [A], en í árslok 2007 nam hann samtals 1.739.792.632 hlutum eða um 15,5% af útgefnu hlutafé, og var eignarhlutinn dreifður á 10 félög.“ Sagði ennfremur að kaupréttarfélögin hafi eingöngu keypt áður út gefin hlutabréf í bankanum á markaði en að ekki hefði verið gefið út nýtt hlutafé til þess að mæta kaupréttarsamningum starfsmanna bankans.
Þá var í bréfinu gerð grein fyrir rannsókn Fjármálaeftirlitsins á fyrirkomulagi kaupréttarsamninga í A banka hf. og þeim tíu erlendu félögum sem bankinn hafði hlutast til um að notuð yrðu til þess að framkvæma kaupréttarsamninga við starfsmenn. Jafnframt var lýst ætlan Fjármálaeftirlitsins um að það hafi verið starfsmenn A banka hf. sem hafi í raun stýrt kaupréttarfélögunum og tekið fyrir þau allar ákvarðanir. Innbyrðis tengsl félaganna hafi verið mikil og þeim hafi að mestu verið stýrt af sömu starfsmönnum bankans. Einnig sagði: ,,Fjármálaeftirlitið telur að eignarhaldið hafi verið í mörgum félögum til að fela umfang samanlagðrar eignar kaupréttarfélaganna í bankanum.“ Loks sagði: ,,Þá telur Fjármálaeftirlitið vert að kanna hvort að framangreindar lánveitingar og sjálfskuldarábyrgðir geti fallið undir 249. gr. hgl. um umboðssvik.“
2
Sérstakur saksóknari tók málið til rannsóknar og í skýrslu rannsakenda, sbr. 56. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var gerð grein fyrir því að rannsókn hafi farið fram ,,vegna gruns um markaðsmisnotkun með hlutabréf í [A] ... Meint markaðsmisnotkun var talin felast í kaupum aflandsfélaga/kaupréttarfélaga, sem [A] stofnaði, á hlutabréfum [A] í tengslum við kaupréttaráætlun bankans.“ Síðar sagði í skýrslunni að þótt athugasemdir hefði mátt gera við framkvæmd kaupréttarfyrirkomulagsins, einkum að því er varðaði sýnileika úti á markaði, hafi verið talið ,,eftir ítarlega rannsókn, að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi rannsókn á meintri markaðsmisnotkun vegna kaupréttarfélaganna í heild. Er þar helst litið til þess að í ársreikningum [A] var greint frá kaupréttarfyrirkomulaginu, að ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að mæta útgefnum kaupréttum og að í flestum tilvikum stemmdu veittir kaupréttir við það sem keypt var inn í kaupréttarfélögin.“ Frá þessu hafi þó verið undantekning á árinu 2006 þegar hlutabréf að nafnverði 326.163.000 krónur hafi verið keypt af félögunum C Inc. og D Corp. á tímabilinu frá júlí til september án þess að gerðir hafi verið kaupréttarsamningar við starfsmenn sem efna þyrfti með slíkum kaupum, svo sem sjá mætti af ársreikningi bankans fyrir þetta ár. Sagði síðan í skýrslunni: ,,Af þessum sökum var ákveðið að afmarka rannsóknina við kaup kaupréttarfélaganna [C] Inc. og [D] Corp. á árinu 2006. Við nánari rannsókn á sjálfskuldarábyrgð sem [A] gekkst í fyrir félögin ... samtals að fjárhæð 6,8 milljarðar kr. vaknaði grunur um að stjórnendur [A] hafi farið út fyrir heimildir sínar og stefnt fjármunum bankans í hættu.“ Sakarefni þau sem rannsókn laut að voru annars vegar ætluð markaðsmisnotkun vegna framangreindra kaupa á hlutabréfum í A banka hf. á árinu 2006 og hins vegar ætluð umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga ,,vegna sjálfskuldarábyrgða sem [A] gekkst í á árinu 2006 og 2007 vegna lánveitinga [B] banka til félaganna [D] Corp. og [C] Inc. samtals að fjárhæð 6,8 milljarða kr., án þess að nokkrar tryggingar væru til staðar vegna ábyrgðarveitinganna. Um var að ræða sjálfskuldarábyrgð vegna láns ... til [D] Corp. að upphæð 4,3 milljarða kr. á árinu 2006, ... láns ... til [C] Inc. að upphæð 2,5 milljarða kr. einnig á árinu 2006 og í þriðja lagi ... láns ... til [C] Inc. að fjárhæð 6,8 milljarðar kr. á árinu 2007.“
Í skýrslu rannsakenda var sérstaklega fjallað um kauprétti og kaupaukasamninga. Í þeim kafla kom fram að við rannsókn málsins hafi A banki hf. afhent yfirlit um útgefna kauprétti á árunum 2000 til 2008. Samkvæmt því yfirliti hafi á árinu 2006 verið gerðir kaupréttarsamningar við starfsmenn um hluti í A banka hf. á tilgreindu gengi samtals að nafnverði 181.500.000 krónur, andstætt því sem áður greinir og komið hafi fram í áðurnefndum skýringum með ársreikningi þessa árs.
Í upphafi rannsóknar nutu 13 einstaklingar réttarstöðu sakborninga. Átta þeirra var tilkynnt í maí 2013 að rannsókn málsins gagnvart þeim hefði verið hætt. Ákæra var gefin út 17. janúar 2014 og lýtur hún að ætluðum umboðssvikum beggja ákærðu, en ekki er ákært vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar.
3
Í ákæru 17. janúar 2014 eru ákærða X sem bankastjóra A banka hf. og ákærðu Y sem framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, en bæði voru þau í lánanefnd bankans, gefin að sök umboðssvik með því að hafa í störfum sínum fyrir bankann misnotað aðstöðu sína og stefnt fé hans í verulega hættu. Það hafi þau gert í tveimur tilvikum með því að fara út fyrir heimildir til að veita ábyrgðir er þau í sameiningu samþykktu og undirrituðu fyrir hönd bankans sjálfskuldarábyrgð hans á lánum samkvæmt þremur samningum við B banka hf. Annars vegar 4. júlí 2006 vegna láns til C Inc. að fjárhæð 2.500.000.000 krónur, sem tryggt hafi verið með handveði í hlutabréfum í A banka hf. að nafnverði 122.550.000 krónur, og vegna láns til D Corp. að fjárhæð 4.300.000.000 krónur sem tryggt hafi verið með handveði í hlutabréfum þess félags í bankanum að nafnverði 210.800.000 krónur. Gjalddagi lánanna hafi verið 30. júní 2007. Bæði hafi félögin verið skráð í Panama. Sjálfskuldarábyrgð A banka hf. hafi í báðum tilvikum verið veitt án þess að bankinn hafi fengið í hendur tryggingar. Ákærðu hafi afgreitt ábyrgðirnar á milli funda lánanefndar bankans en bókað hafi verið um þá afgreiðslu í fundargerðum nefndarinnar 5. og 12. júlí 2006. Ákvörðunin um að veita ábyrgðirnar hafi verið staðfest af ákærðu Y og E aðstoðarframkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans 7. júlí og af ákærða X 12. sama mánaðar, eftir að ábyrgðirnar höfðu verið veittar. Hins vegar vegna þess að ákærðu samþykktu og undirrituðu sjálfskuldarábyrgð A banka hf. á láni sem B banki hf. veitti 29. júní 2007 til C Inc. að fjárhæð 6.800.000.000 krónur á gjalddaga 30. júní 2008 án þess að teknar hafi verið tryggingar vegna ábyrgðarinnar. Ekki hafi verið útfyllt og staðfest ákvörðunarblað vegna ábyrgðarinnar og ákvörðun um að veita hana hafi ekki verið lögð fyrir lánanefnd bankans. Lánið hafi af hálfu B banka hf. verið háð því skilyrði að því yrði varið til þess að greiða upp lánin tvö, sem áður greinir, en gjalddagi þeirra var 30. júní 2007. Lánið frá B banka hf. hafi verið tryggt með öllum verðmætum á tilgreindum vörslureikningi en er ábyrgðin var veitt hafi verið á þeim reikningi hlutabréf í A banka hf. að nafnverði 223.684.211 krónur.
Ákæruvaldið kveður veitingu sjálfskuldarábyrgðarinnar í öllum tilvikum hafa brotið í bága við þágildandi lánareglur A banka hf. frá árinu 2003 og almennar útlána- og áhættureglur bankaráðs frá árinu 2005.
Í ákærunni kemur einnig fram að B banki hf. hafi sent innheimtuviðvörun til C Inc. 10. ágúst 2009 og gengið að innstæðu á vörslureikningnum, sem þá hafi verið 862.922 krónur, en ekki fengið greitt að öðru leyti upp í kröfu sína á hendur félaginu. Bankinn hafi 30. október 2009 lýst kröfu við slit A banka hf. á grundvelli ábyrgðar hans á láninu og hún þá numið 10.026.184.261 krónu. Slitastjórn hafi hafnað kröfunni vegna vanreifunar og sé ágreiningur um hana ekki útkljáður.
Brot ákærðu eru samkvæmt ákæru talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga.
II
1
A var settur á stofn með lögum nr. 14/1885 um stofnun landsbanka. Stofnframlag bankans var greitt úr landssjóði en í lögunum var einnig mælt fyrir um lán úr sjóðnum til bankans. Á grundvelli laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélags um A og Búnaðarbanka Íslands tók A banki hf. til starfa 1. janúar 1998. Bankinn var upphaflega í eigu ríkisins, en komst 31. desember 2002 að fullu í eigu annarra. Bankinn hóf fljótlega eftir þetta starfsemi í útlöndum og óx hún verulega á næstu árum.
2
Ákærði X var ráðinn bankastjóri A banka hf. 21. apríl 2003, en M hafði þá einn verið bankastjóri um nokkurt skeið. Áttu þeir að fara sameiginlega með stjórnun allra málefna bankans. Verkaskipting þeirra var á þann veg að M fór fyrir alþjóðasviði, viðskiptabankasviði og eignastýringarsviði, en ákærði X fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum. Báðir fóru þeir með viðskiptatengsl og viðskiptamál.
Ákærða Y var ráðin til starfa hjá A banka hf. sama dag og ákærði X. Hún var ráðin framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans.
3
Samþykktir fyrir A banka hf. voru upphaflega settar á stofnfundi félagsins 10. september 1997. Þeim var síðar breytt nokkrum sinnum, meðal annars á aðalfundi 9. febrúar 2007, en á þeim fundi var einnig samþykkt starfskjarastefna fyrir bankann í samræmi við ákvæði laga nr. 2/1995, eins og þeim var breytt með lögum nr. 89/2006.
Í IV. kafla samþykktanna var fjallað um stjórn bankans. Þar var í 18. grein kveðið á um að stjórn félagsins, sem samkvæmt samþykktunum nefndist bankaráð, skyldi skipuð fimm mönnum. Bankaráð skyldi kjósa sér formann úr sínum hópi og skipta að öðru leyti með sér verkum. Í 20. grein var mælt fyrir um að bankaráð hefði yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög sem um starfsemina giltu, reglur og samþykktir og hefði jafnframt eftirlit með rekstri bankans. Bankaráð skyldi setja reglur um verkaskiptingu þess og bankastjóra, sem taka skyldu mið af ákvæðum laga nr. 2/1995, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Bankaráðið skyldi einnig setja sér starfsreglur þar sem nánar skyldi fjallað um framkvæmd starfa þess og sérstaklega um heimildir þess til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti. Í 21. grein samþykktanna sagði meðal annars: ,,Framkvæmdastjórar félagsins, skv. lögum um fjármálafyriræki, nefnast bankastjórar. Bankastjórar bera ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fara með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin í lögum, reglugerðum eða samþykktum. Þeim ber að sjá um að bankareksturinn sé í samræmi við lög, reglugerðir eða samþykktir og ákvarðanir bankaráðs.“
Í starfsreglum fyrir bankaráð A banka hf., sem samþykktar voru á fundi bankaráðsins 29. júlí 2004, og breytt nokkrum sinnum eftir það, var í 8. grein fjallað um bankastjórn. Þar var kveðið á um að bankastjórar mynduðu bankastjórnina. Þegar mælt væri fyrir um heimildir eða ábyrgð bankastjórnar þyrfti ávallt atbeina beggja bankastjóra til að nýta heimildir eða taka ákvörðun. Í forföllum annars bankastjórans væri þó heimilt að hinn bankastjórinn stæði að máli ásamt staðgengli bankastjóra. Í grein 8.2 sagði: ,,Bankastjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur bankastjórn aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild bankaráðs nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar bankaráðs án verulegs óhagræðis fyrir bankann.“ Í 14. grein starfsreglnanna var mælt fyrir um að innan bankaráðs skyldu starfa tvær nefndir. Önnur þeirra var kjaranefnd sem skipuð skyldi tveimur bankaráðsmönnum, en með henni starfaði bankastjórn og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs. Kjaranefnd skyldi meðal annars fjalla um kaupréttarmál, kaupaukasamninga og lífeyrismál starfsmanna.
Í 5. lið greinar 9.2 í starfsreglunum var mælt fyrir um að verkefni bankaráðs væru meðal annars ,,að setja almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir bankans, hvort tveggja að fenginni umsögn bankastjórnar“. Í almennum útlána- og áhættureglum bankaráðs A banka hf. var í upphafi mælt fyrir um að bankastjórn bæri ábyrgð gagnvart bankaráði á útlánum bankans og ábyrgðum. Um útlánaáhættu bankans og aðra markaðsáhættu sagði meðal annars í 2. grein reglnanna að lánveitingar bankans skyldu vera í samræmi við mótaða stefnu hans á hverjum tíma. Við útlánaákvarðanir og áhættutökur skyldi bankastjórn sjá til þess að hagsmuna bankans væri ætíð gætt og fjárhagsstaða hans treyst. Þá sagði einnig svo: ,,Almennt skulu öll útlán bankans vera vel tryggð annað hvort með formlegum tryggingum eða haldi á greiðsluflæði. Heimilt er þó að veita lán án sérstakra formlegra trygginga til bestu fyrirtækja í viðskiptum við bankann, sé greiðsluflæði félagsins sterkt.“ Slíkt mátti einnig gera þegar ríki og sveitarfélög áttu í hlut svo og einstaklingar með góða viðskiptasögu. Þá var mælt fyrir um að bankastjórar skyldu setja ítarlegar útlánareglur um framkvæmd lánveitinga og ábyrgða.
Útlánareglur A banka hf., sem giltu á þeim tíma sem hér skiptir máli, voru frá 1. nóvember 2003. Þeim var ætlað að taka til almennra lánveitinga bankans. Ef um var að ræða ákvarðanir um lánveitingar sem féllu ekki innan ramma reglnanna þurfti skriflega ákvörðun frá lánanefnd eða því fagsviði innan bankans sem ákvörðun heyrði undir. Í grein 1.6 í reglunum var kveðið á um lán til fyrirtækja, stofnana og annarra rekstraraðila. Sagði þar meðal annars að við allar stærri eða áhættumeiri lánveitingar til rekstraraðila skyldi liggja fyrir skrifleg úttekt á fjárhags- og tryggingarstöðu ásamt rökstuddri niðurstöðu. Í grein 1.8 var kveðið á um að líta bæri á skuldbreytingu sem nýja lánveitingu og skyldi við skuldbreytingu á lánum ætíð reynt að bæta tryggingarstöðu bankans ef hún væri ekki fullnægjandi. Um ábyrgðir sagði svo í grein 2.6: ,,Ákvörðun um ábyrgðir skal meðhöndluð eins og um útlánaákvörðun sé að ræða. Ábyrgðir, skulu að jafnaði vera til tiltekins tíma og veittar með öruggum tryggingum.“ Í 3. kafla var að finna reglur um tryggingar. Þar var tiltekið með sama hætti og áður greinir í hvaða tilvikum mætti veita fyrirtækjum lán án sérstakra trygginga. Um önnur tilvik sagði í grein 3.4: ,,Að öðru leyti en að framan greinir skulu góðar tryggingar teknar fyrir útlánum og veittum ábyrgðum.“ Í grein 3.4.8 sagði um tryggingar í hlutabréfum að jafnaðarlega skyldi veðsetning hlutabréfa félaga sem mynduðu úrvalsvísitölulista í Kauphöll Íslands vera innan við 50% af markaðsverðmæti þeirra. Samkvæmt grein 4.1.6 um ákvörðunarblöð skyldu allar ákvarðanir um lánveitingar, opnun ábyrgða og tryggingar staðfestar með áritun þeirra sem færu með útlánaheimildina í hverju tilviki. Um útlánaheimild fyrirtækjasviðs sagði í grein 4.5 að það gæti samþykkt einstaka fyrirgreiðslu að fjárhæð allt að 100.000.000 krónur ef heildarskuldbinding viðskiptamanns og tengdra aðila væri eftir lánveitinguna lægri en 1.000.000.000 krónur. Hærri fyrirgreiðsla skyldi „lögð fram til samþykktar í Lánanefnd.“ Lánanefnd átti samkvæmt grein 4.8 að taka ákvarðanir um lánveitingar sem væru umfram útlánaheimildir annarra eða umfram þær viðmiðanir er tilgreindar væru í útlánareglum. Auk þess skyldu ,,Óvenjulegar og/eða sérlega áhættusamar lánveitingar, óháðar fjárhæð ... ávallt lagðar fyrir Lánanefnd.“ Um samþykki lánanefndar sagði í grein 4.8.2: ,,Gild samþykkt Lánanefndar er árituð af báðum bankastjórum. Ef einungis annar bankastjórinn situr fund Lánanefndarinnar er gild samþykkt árituð af bankastjóra og tveimur framkvæmdastjórum. Ígildi samþykktar Lánanefndar (samþykkt á milli funda) er lánssamþykkt árituð af báðum bankastjórum. Ef annar bankastjórinn er fjarverandi er gild samþykkt árituð af bankastjóra og tveimur framkvæmdastjórum.“ Loks sagði í grein 4.8.2.1: ,,Sömu undirskriftarreglur gilda varðandi útlánaákvarðanir sem samþykktar eru milli funda Lánanefndar. Í þeim tilfellum nægir þó að formaður Lánanefndar undirriti samþykktarblöðin en aðrir samþykki utanfundasamþykktirnar með því að undirrita fundargerð Lánanefndar þar sem utanfundasamþykktir eru tilgreindar. Meiriháttar útlánaákvarðanir skulu almennt ekki samþykktar á milli funda Lánanefndar.“
4
Síðsumars og er kom fram á haustið 2008 steðjuðu alvarlegir erfiðleikar að íslenskum fjármálafyrirtækjum, sem áttu ekki lengur kost á nægu lánsfé á erlendum fjármálamörkuðum. Í lok september og byrjun október var rekstur stærstu viðskiptabankanna að komast í þrot. Í dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 var lýst fallandi gengi hlutabréfa í A banka hf. allt frá 1. nóvember 2007 og þar til viðskiptum með hlutabréf í bankanum var hætt. Þá var lýst kröfum breska fjármálaeftirlitsins um tafarlausa greiðslu og tryggingar vegna reksturs útibús bankans í London. Að morgni 6. október 2008 gaf ríkisstjórn Íslands út yfirlýsingu þar sem fram kom að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu. Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar A banka hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Bankanum var eftir það veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum áðurnefndra laga nr. 161/2002, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Óumdeilt er að við þetta hafi hlutabréf í A banka hf. orðið verðlaus.
III
1
A banki hf. ákvað á árinu 2000 að gefa starfsmönnum kost á því að gera kaupréttarsamninga sem veittu þeim rétt, en kváðu ekki á um skyldu þeirra, til þess að kaupa tilgreindan fjölda hluta í bankanum á gengi sem ákveðið væri fyrirfram. Að jafnaði mun kaupgengi hafa verið miðað við gengi hlutabréfa í bankanum þegar kaupréttarsamningur var gerður. Í tölvubréfi U, regluvarðar í bankanum, til Fjármálaeftirlitsins 4. október 2007 sagði að kaupréttir hafi verið veittir ,,lykilstarfsmönnum bankans“ en ekki hafi verið um almennan kauprétt allra starfsmanna að ræða. Ákærðu lýsa því svo að A banki hf. hafi notað svonefnd kaupréttarfélög til þess að verja stöðu sína til að efna kaupréttarsamninga við starfsmenn sína. Þegar gerðir voru kaupréttarsamningar við starfsmenn um hlutabréf hafi kaupréttarfélög verið látin kaupa sama fjölda hluta og samtímis hafi bankinn gert svonefndan valréttarsamning við kaupréttarfélögin, sem veitt hafi bankanum kauprétt á þeim hlutum á sama gengi. Fyrir valréttinn hafi bankinn greitt allan fjármagnskostnað kaupréttarfélagsins, en kaup þess á hlutum hafi að fullu verið fjármögnuð með lántöku, fyrst frá A banka hf. en síðar hafi verið leitast við að fá önnur fjármálafyrirtæki til þess. Markmið þessarar skipunar hafi verið tvíþætt. Annars vegar að bankinn bæri ekki markaðsáhættu af hlutabréfunum heldur verði sig gegn hækkun á þeim frá þeim tíma sem kaupréttarsamningur hafi verið gerður við starfsmann og þar til hann skyldi efndur, en algengt hafi verið að kaupréttarsamningar væru efndir í nokkrum hlutum eftir fjögur til sex ár. Á hinn bóginn munu slíkir samningar sem gerðir voru á árinu 2007 hafa verið með þriggja ára biðtíma fram að upphafstíma efnda. Bankinn hafi þannig tryggt að hann gæti efnt kaupréttarsamninginn án þess að þurfa að bera áhættuna af hækkun á verði hlutabréfanna þennan tíma. Hins vegar að bankinn færi ekki með réttindi er fylgdu hlutabréfum í honum sem væru í eigu kaupréttarfélaga.
Í ódagsettu minnisblaði A banka hf. sem fylgdi áðurnefndu tölvubréfi U til Fjármálaeftirlitsins kom fram hvernig staðið var að því að tryggja efndir á kaupréttarsamningum við starfsmenn og ná jafnframt áðurnefndum markmiðum bankans. Því var lýst á þann veg að þegar eftir að kaupréttarsamningur hafi verið gerður við starfsmenn hafi bankinn gengist fyrir því að stofnaður yrði sjálfseignarsjóður (Trust) eða notaður sjóður sem þegar væri til, í því skyni að stofna eða kaupa félag. Það félag skyldi þá þegar kaupa svo marga hluti í bankanum sem þyrfti til þess að geta efnt þá kaupréttarsamninga sem stofnað hefði verið til í það sinn. Félagið sem ætti að kaupa hlutina hafi fengið lán til kaupanna, upphaflega frá A banka hf., en síðar frá öðrum fjármálafyrirtækjum, og á sama tíma gert samning við bankann um rétt hans til þess að kaupa alla hluti félagsins svo bankinn gæti efnt kaupréttarsamninga við starfsmenn sína. Kaupverð hlutanna sem bankinn hafi þannig keypt af kaupréttarfélagi hafi svarað til verðs hlutanna þegar félagið sjálft keypti þá, svo og til alls kostnaðar þess af því að taka lán og borga af því, auk annars kostnaðar sem til félli. Eina eign kaupréttarfélaganna hafi verið þau hlutabréf sem keypt voru og eina skuld þeirra lánið sem tekið hafi verið til kaupanna og til að greiða áfallinn kostnað.
2
Í áðurnefndu bréfi Fjármálaeftirlitsins 2. desember 2010 til sérstaks saksóknara var meðal annars fjallað um kaupréttarfélögin og uppbyggingu þeirra. Þar kom fram að rannsökuð hafi verið eftirtalin 10 kaupréttarfélög: LB Holding Ltd., C Inc., D Corp., Proteus Global Holding S.A., Marcus Capital Ltd., Peko Investment Company Ltd., Kimball Associated Inc., Kargile Portfolio Inc., Trine Limited og Cay Investors Global Inc. Fram kom í bréfinu að flest félaganna hafi verið skráð í Panama eða á Bresku Jómfrúreyjum og sögð í eigu tilgreindra sjálfseignarsjóða. Hlutafé kaupréttarfélaganna hafi verið lagt fram af A banka hf. og hafi það numið frá allt að 10.000 til 50.000 sterlingspundum að frátöldu einu tilviki er það hafi numið 5.000 evrum. Félögin C Inc. og D Corp. voru þar bæði sögð í eigu sjálfseignarsjóðsins The Aurora Trust. Í gögnum málsins kemur á hinn bóginn fram að allir hlutir í þessum félögum hafi 31. maí 2006 verið skráðir í eigu lögmannsstofunnar Mossack Fonseca & Co. sem hafði aðsetur í Panama.
Níu framangreindra félaga voru skráð í fyrirtækjaskrá, sem haldin er samkvæmt lögum nr. 17/2003 um það efni, og skráð þar sem erlend félög ,,v/bankaviðskipta“. Þessi félög voru skráð í þjóðskrá og fengu við það íslenska kennitölu. Stjórnir félaganna voru með einni undantekningu eingöngu skipaðar erlendum mönnum. Félögin sem skráð voru á Bresku Jómfrúreyjum og í Panama höfðu sömu stjórnendur að mestu og flest voru þau í umsjón áðurnefndrar lögmannsstofu í Panama.
Hvert félaganna um sig veitti tilgreindum starfsmanni A banka hf. umboð til að gera ráðstafanir fyrir hönd félaganna. Umboðin voru í mörgum tilvikum víðtæk og fólu í sér heimild umboðsmanns til þess að stjórna félögunum án nokkurra takmarkana. Þetta átti meðal annars við um umboð sem félögin C Inc. og D Corp. veittu nafngreindum starfsmanni A banka hf. Félögin veittu einnig öðrum starfsmönnum bankans umboð til tiltekinna ráðstafana.
Samkvæmt gögnum málsins munu samningar A banka hf. við starfsmenn um kauprétt þeim til handa hafa farið vaxandi á árunum 2003 til 2008. Hafi þannig umsamdir kaupréttir á hlutum í bankanum verið í árslok 2003 að nafnverði 218.000.000 krónur, 2004 467.000.000 krónur, 2005 946.400.000 krónur, 2006 946.400.000 krónur, 2007 1.488.700.000 krónur og 1. september 2008 1.488.690.000 krónur.
Eins og áður greinir mun A banki hf. hafa veitt kaupréttarfélögunum lán til kaupa á hlutafé í bankanum og fjármagnað þau einnig að öðru leyti allt fram á mitt ár 2006 þegar bankinn hafi leitað eftir því við önnur fjármálafyrirtæki að þau lánuðu félögunum og yfirtækju eldri lán bankans. Í áðurnefndu bréfi Fjármálaeftirlitsins 2. desember 2010 kom fram að við fall A banka hf. ,,virðist í fljótu bragði að 85% af hlutafjáreign félaganna sé fjármögnuð utan hans með lántökum.“ Í bréfinu kom fram að þótt samið hafi verið við B banka hf. og V fjárfestingabanka hf. um að þessi fjármálafyrirtæki veittu félögunum lán, hafi bankinn bæði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir lánum sem B banki hf. hafi veitt og að auki með öðrum ráðstöfunum keypt skuldabréf af báðum fjármálafyrirtækjunum að sömu fjárhæð og nam lánum þeirra til félaganna. Þannig hafi fjármögnun A banka hf. einungis breyst, orðið óbein í stað beinnar.
IV
1
Eins og fram er komið var sú skipan upphaflega við lýði að A banki hf. veitti kaupréttarfélögunum lán til hlutafjárkaupa en á árinu 2006 mun, eftir athugasemdir frá innri og ytri endurskoðun bankans, hafa verið byrjað að afla lánsfjár í þessu skyni hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst ákærði X hafa leitað til B banka hf. og V fjárfestingabanka hf. og hafi þessi fjármálafyrirtæki verið tilbúin til að veita slík lán en hið fyrrnefnda einungis gegn sjálfskuldarábyrgð A banka hf. Fyrir liggur að samið var um að B banki hf. veitti félaginu D Corp. lán að fjárhæð 4.300.000.000 krónur og C Inc. lán að fjárhæð 2.500.000.000 krónur. Lánanefnd þess banka samþykkti á fundi 29. júní 2006 að veita lánin. Í báðum tilvikum sagði svo í fundargerð: ,,Samþykkt var ... allt að ... mkr kúlulán í eitt ár. Lántaka er heimilt að framlengja höfuðstól lánsins tvisvar sinnum til eins árs í senn þannig að lánstími getur orðið samtals 3 ár.“ Ákærði X gat þess einnig í skýrslu sinni að þetta hafi verið í 18. og 19. sinn sem veitt hefði verið lán til kaupréttarfélaga sem hafi verið ætluð til að bankinn gæti staðið við kaupréttarsamninga við starfsmenn á þann hátt sem áður er lýst.
Á svonefndum ákvörðunarblöðum, sem útbúin voru af starfsmönnum A banka hf. 4. júlí 2006, var óskað eftir því af hálfu kaupréttarfélaganna tveggja að bankinn veitti ábyrgð á lánunum frá B banka hf. Lánstími væri eitt ár og með framlengingarheimild um eitt ár. Á ákvörðunarblöðunum voru ritaðir upphafsstafir E, sem var aðstoðarframkvæmdastjóri á fyrirtækjasviði bankans, og ákærðu Y við dagsetninguna 7. júlí 2006 en upphafsstafir ákærða X við 12. sama mánaðar. Málin voru tekin fyrir á fundi í lánanefnd A banka hf. 5. júlí 2006. Í fundargerð kom fram að ákærðu hafi bæði setið fundinn ásamt Þ, staðgengli bankastjóra, og E. Þar kom meðal annars fram: ,,5. Lánamál afgreidd milli funda ... [D]. ([...]) – 4.300 m.kr. ábyrgð til 1 árs í senn gegn 0,50% þóknun p.a. C Inc. ([...]) – 2.500 m.kr. ábyrgð til 1 árs í senn gegn 0,50% þóknun p.a.“ Í fundargerð nefndarinnar vegna fundar 12. júlí sama ár, þar sem þau sömu voru sögð mætt, var meðal annars bókað: ,,5. Lánamál afgreidd milli funda ... [D] Corp. ([...]) – 4.300 m.kr. ábyrgð til allt að 30/6 ´08 gegn 0,50% þóknun p.a. (v/láns [B] banka til félagsins gegn handveði í hlutabréfum í [A]). [C] Inc. ([...]) – 2.500 m.kr. ábyrgð til allt að 30/6 ´08 gegn 0,50% þóknun p.a. (v/láns [B] banka til félagsins gegn handveði í hlutabréfum í [A]).“
Lánssamningar B banka hf. við bæði félögin um framangreind lán voru undirritaðir 4. júlí 2006 af aðilum þeirra og ákærðu báðum fyrir hönd A banka hf. um sjálfskuldarábyrgð bankans. Gjalddagi var í báðum tilvikum tilgreindur 30. júní 2007. Í samningunum voru ákvæði í 4. grein um framlengingu lánanna, en þar sagði meðal annars: ,,Á síðasta gjalddaga lánsins ... hefur lántaki rétt á að fá eftirstöðvum lánsins framlengt til eins árs ... Endurgreiðsla lánsins verður þá með þeim hætti að höfuðstóll lánsins verður endurgreiddur að fullu með einni afborgun þann 30.06.2008, nema láninu verði framlengt ... Á sama hátt og gegn sömu skilyrðum hefur lántaki heimild til framlengingar lánsins til eins árs þar á eftir, til 30.06.2009 ... Lántaki skal óska skriflega eftir framlengingu lánsins með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.“
Handveðsyfirlýsingar félaganna vegna beggja lánanna voru dagsettar 4. júlí 2006, en þar veitti hvort félag um sig B banka hf. handveð í tilgreindum fjölda hluta í A banka hf., D Corp. í 210.800.000 hlutum og C Inc. í 122.550.000 hlutum. Í báðum yfirlýsingunum var tekið fram að hlutirnir væru jafnframt settir að veði til tryggingar láni sem hinu félaginu væri veitt. Beiðni um útborgun annars lánsins var frá 4. júlí 2006 og hins 7. sama mánaðar, en báðar gerðu beiðnirnar þó samkvæmt efni sínu ráð fyrir að lánin yrðu greidd út fyrrnefnda daginn.
Samkvæmt framangreindu verður ráðið að B banki hf. hafi á þann hátt, sem lýst hefur verið, haft handveð í tilgreindum fjölda hluta í A banka hf. sem félögin tvö áttu til tryggingar lánum þeim sem félögin tóku. A banki hf. hafði á hinn bóginn enga tryggingu vegna þeirrar sjálfskuldarábyrgðar sem bankinn veitti.
Í gögnum málsins kemur fram að í tengslum við þessi viðskipti hafi A banki hf. keypt skuldabréf útgefið af B banka hf. fyrir 6.800.000.000 krónur.
2
Þegar dró að umsömdum gjalddaga framangreindra lána kvaðst ákærði X í skýrslu sinni fyrir dómi hafa haldið áfram að reyna að endurfjármagna kaupréttarfélögin tvö og tekist að fá I banka hf. til þess að veita lán til D Corp., án þess að A banki hf. þyrfti að veita sjálfskuldarábyrgð á því láni. B banki hf. mun hafa fallist á að veita C Inc. lán að fjárhæð 6.800.000.000 krónur, sem er sama fjárhæð og félögin höfðu samtals tekið að láni um ári áður. Gerður var nýr lánssamningur 29. júní 2007 milli þessa félags og B banka hf. að framangreindri fjárhæð og skyldi gjalddagi þess láns vera 30. júní 2008 en í samningnum var einnig framlengingarheimild sama efnis og áður en tók þó einungis til eins árs. Ákærðu rituðu sama dag undir yfirlýsingu fyrir hönd A banka hf. um sjálfskuldarábyrgð hans á láninu. Samkvæmt samningnum var lánið veitt til þess að greiða upp lánin tvö sem félögin höfðu tekið árið áður og mun því hafa verið ráðstafað með þeim hætti. Um tryggingar sagði svo í lánssamningnum: ,,Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar ... setur lántaki bankanum að handveði vörslureikning sinn hjá bankanum nr. [...] sbr. handveðsyfirlýsingu dags. 04.07.2006. Markaðsverðmæti veðsettra hluta ... skal vera við útborgun lánsins ... a.m.k. 125% af höfuðstól þess.“ Í handveðssamningi 28. júní 2007 milli bankans og félagsins sagði meðal annars að það setti bankanum að handveði: ,,Öll verðmæti, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. öll verðbréf og peningainnstæður á vörslusafni veðsala hjá veðhafa ... og alla innistæðu ... eins og hún er á hverjum tíma“. Í málinu liggur fyrir yfirlit um færslur og innstæðu á vörslureikningi þeim sem veðsettur var. Þar kemur fram að B banki hf. hafi 28. og 29. júní 2007 móttekið samtals 223.684.211 hluti í A banka hf. og var miðað við að gengi þeirra væri 38,1 og verðmæti hins veðsetta samkvæmt því samtals 8.522.368.439 krónur eða sem nam ,,125% af höfuðstól“ lánsins sem veitt var. Var það í samræmi við framangreinda samþykkt lánanefndar B banka hf. og efni lánssamningsins. Ekki var gert ákvörðunarblað af hálfu A banka hf. eða um málið fjallað á fundi lánanefndar bankans þegar ákveðið var að hann skyldi takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á framangreindu láni B banka hf.
Lánssamningur D Corp. við I banka hf. um 5.617.010.078 krónur var gerður 6. júlí 2007. Yfirlýsing félagsins um handveð bankans í hlutabréfum sem það átti í A banka hf. að nafnverði 237.893.588 krónur var gerð 29. júní sama ár. Upplýst er í málinu að fjárhæð þá, sem I banki hf. lánaði D Corp., notaði félagið að stórum hluta til þess að greiða C Inc. eða 4.300.000.000 krónur. Síðarnefnda félagið greiddi síðan 3.496.000.000 krónur til A banka hf. fyrir hlutafé sem samningur hafði verið gerður um í febrúar 2007, og var um 115.000.000 hluti í bankanum. Sá samningur mun hafa verið gerður til að efna valréttarsamning sem stofnað var til upphaflega í febrúar 2006. Félagið átti eftir það mismuninn á þeirri fjárhæð, sem það fékk frá D Corp. og þess sem notað var til að greiða fyrir hlutaféð, og stóð sú fjárhæð, 804.000.000 krónur, á reikningi þess í A banka hf. Af þeim 115.000.000 hlutum sem C Inc. leysti til sín notaði félagið 101.184.211 hluti til að bæta við þá hluti sem það hafði áður sett B banka hf. að handveði er bankinn veitti því lán á árinu 2006, en það voru 122.550.000 hlutir. Samanlagt nafnverð hluta í A banka hf. sem C Inc. setti B banka hf. að handveði til tryggingar 6.800.000.000 króna láninu á árinu 2007 var því 223.684.211 krónur, svo sem fram kemur í ákæru. Í gögnum sem ákærði X hefur lagt fram í málinu og eru í samræmi við efni bréfs Fjármálaeftirlitsins 2. desember 2010 kom fram að heildareign C Inc. á hlutum í A banka hf. 29. júní 2007 hafi verið 238.269.412 hlutir. Við veðsetningu hlutabréfanna í A banka hf. í þetta sinn var miðað við að gengi þeirra á markaði væri 38,1. Sé gengið út frá þessum forsendum, sem ákæruvaldið hefur ekki hnekkt, var eign félagsins í reiðufé og hlutum í A banka hf. á þessum tíma nálægt 10.000.000.000 krónum.
V
1
Í fyrri lið ákærunnar eru ákærðu borin sökum um að hafa misnotað aðstöðu sína sem ,,meðlimir í lánanefnd“ A banka hf. með því að hafa farið út fyrir heimildir til veitingar ábyrgða þegar þau í sameiningu samþykktu og undirrituðu fyrir hönd bankans sjálfskuldarábyrgð í þeim tveimur tilvikum, sem áður greinir, á árinu 2006. Segir að lánin, sem bæði voru með gjalddaga 30. júní 2007, hafi verið veitt án utanaðkomandi trygginga. Ákærðu hafi afgreitt ábyrgðirnar á milli funda lánanefndarinnar og hafi verið bókað um þá afgreiðslu í fundargerðir nefndarinnar 5. og 12. júlí 2006. Ákvörðunarblöð um veitingu ábyrgðanna hafi verið staðfest 7. og 12. júlí sama ár, en það hafi verið gert eftir að bankinn var búinn að veita ábyrgðirnar með undirritun ákærðu á lánssamninga 4. sama mánaðar. Loks segir að veiting ábyrgðanna hafi brotið í bága við ,,lánareglur [A] frá árinu 2003 og almennar útlána- og áhættureglur bankaráðs [A] frá árinu 2005.“
Í röksemdum sem málsóknin er reist á og tilgreindar eru í ákærunni, sbr. d. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, kom fram að ekki léki vafi á að ákærðu hafi haft aðstöðu til að skuldbinda A banka hf. Ákærðu hafi notfært sér þessa aðstöðu er þau samþykktu að veita sjálfskuldarábyrgðirnar fyrir lánum samtals að fjárhæð 6.800.000.000 krónur. Þótt ákæruvaldið dragi ekki í efa að ákærðu hafi haft að formi til umboð til þess að skuldbinda A banka hf. með framangreindum hætti telur það að þau hafi skort heimild bankans til þess. Því til stuðnings var bent á að samkvæmt útlánareglum hans skyldi farið með ákvörðun um ábyrgð eins og um útlán væri að ræða og skyldu ábyrgðir veittar gegn öruggum tryggingum. Í almennum útlána- og áhættureglum bankaráðs hafi einnig komið fram að öll útlán skyldu vera vel tryggð, en í þessum tilvikum hafi ábyrgðirnar verið veittar án trygginga. Félögin D Corp. og C Inc. hafi ekki fallið undir fyrirtæki, sem reglurnar heimiluðu að veitt yrði ábyrgð fyrir án trygginga. Ekki hafi verið framkvæmd sú athugun á félögunum, áður en ábyrgðirnar voru veittar, sem mælt var fyrir um í grein 1.6 í útlánareglunum frá 2003. Þá hafi ábyrgðirnar verið samþykktar utan funda, en samkvæmt grein 4.8.2.1 í reglunum skyldu ,,Meiriháttar útlánaákvarðanir ... almennt ekki samþykktar á milli funda Lánanefndar.“ Gögn málsins beri með sér að ábyrgðirnar hafi þegar verið veittar með undirritun ákærðu og lánin greidd út áður en ákvörðunarblöð vegna þeirra hafi verið undirrituð og áður en málin voru afgreidd á fundi lánanefndar.
Almennar útlána- og áhættureglur bankaráðs A banka hf. voru bindandi fyrir bankastjóra hans, sem og aðra starfsmenn. Í þessum reglum var mælt fyrir um skyldur þeirra gagnvart bankaráði. Samkvæmt reglunum hvíldi sú skylda á ákærðu báðum við veitingu lána og ábyrgða bankans að gæta ætíð að hagsmunum hans og treysta fjárhagsstöðuna. Af 2. grein reglnanna verður ekki dregin önnur ályktun en sú að ákærðu hafi borið að sjá til þess að öll útlán bankans, og þar með ábyrgðir sem veittar voru í nafni hans, væru tryggð, annað hvort með formlegum tryggingum eða með haldi í greiðsluflæði. Er sannað að ákærðu bar að standa að veitingu ábyrgða þeirra, sem um ræðir, með sama hætti og um lánveitingar væri að ræða, og þar með afla öruggra trygginga fyrir þeim. Ábyrgðirnar voru veittar án trygginga. Á hinn bóginn verður að taka tillit til þess að B banki hf. hafði tekið handveð í hlutum í A banka hf. til tryggingar lánunum, en nafnverð hlutanna, samkvæmt því sem í ákæru greinir, var samtals 333.350.000 krónur. Skráð gengi í kauphöll 4. júlí 2006 var 20 og gat því verðmæti hins veðsetta, miðað við þær forsendur, ekki verið meira en 6.667.000.000 krónur. Við mat á því hvað telja beri örugga tryggingu, einkum þegar um hlutabréf er að ræða, sem ákærðu var vel kunnugt um að gátu sveiflast verulega í verði, er unnt að líta til þeirra útlánareglna sem bankastjórar settu sjálfir starfsmönnum bankans til eftirbreytni samkvæmt fyrirmælum bankaráðs. Þar kom fram í grein 3.4.8 að við veðsetningu hlutabréfa sem mynduðu úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands skyldi að jafnaði miðað við að fjárhæð láns, eða ábyrgðar eins og hér á við, væri innan við 50% af markaðsvirði þeirra. Enginn vafi getur leikið á því að tryggingar þær sem B banki hf. hafði og A banki hf. gat eftir atvikum notið gátu ekki talist fullnægjandi miðað við fyrirmæli í reglum bankaráðs, sem ákærðu voru skuldbundin til að fara eftir. Þá leikur heldur ekki vafi á því að félögin tvö höfðu ekki þá stöðu að ábyrgjast mætti skuldbindingar þeirra, án trygginga. Jafnframt er sannað að engin sérstök athugun hafi farið fram á félögunum, áður en ábyrgðirnar voru veittar, svo sem bar að gera samkvæmt grein 1.6 í útlánareglum bankans. Á hinn bóginn verður að líta til þess að ákærði X og starfsmenn bankans þekktu bæði félögin og hagi þeirra gjörla, enda hafði bankinn allar upplýsingar um þau og heimildir til hvers konar ákvarðana í þeirra nafni. Loks er sannað að ákærðu höfðu 4. júlí 2006 undirritað lánssamninga um sjálfskuldarábyrgð A banka hf. án þess að nokkur gögn, sem í málinu eru, sýni að umsóknir um þær hafi verið samþykktar milli funda lánanefndar eða teknar fyrir á fundum nefndarinnar.
Af öllu framangreindu er sannað að ákærðu, sem höfðu í krafti stöðu sinnar umboð til þess að skuldbinda A banka hf., hafi brotið reglur hans sem fylgja þurfti til þess að umræddar sjálfskuldarábyrgðir bankans yrðu veittar með réttum hætti. Ekki getur leikið vafi á að þeim hafi verið þetta að fullu ljóst þegar þau stofnuðu til sjálfskuldarábyrgðanna í nafni bankans. Með því misnotuðu þau aðstöðu sína og brutu trúnað við bankann. Samkvæmt þessu er fullnægt þeim þáttum 249. gr. almennra hegningarlaga sem lúta að heimildum ákærðu og misnotkun þeirra á aðstöðu sinni.
Svo sem fram er komið eru sakargiftir í ákæru, sem skýrðar eru nánar í rökstuðningi með ákæruefnum, reistar á því að með framangreindri háttsemi sinni hafi ákærðu af ásetningi bakað A banka hf. verulega fjártjónshættu. Reglur þær, sem ákærðu brutu við veitingu sjálfskuldarábyrgðanna, hafi verið settar til þess að takmarka hættu á því að bankinn yrði fyrir fjártjóni við útlán og veitingu ábyrgða. Í reglunum hafi komið fram viðmið um það hvað telja bæri viðunandi áhættu við þessar ráðstafanir. Brot ákærðu á reglunum séu til marks um að til fjártjónshættu hafi verið stofnað. Kaupréttarfélögin tvö hafi ekki átt neinar eignir aðrar en hlutabréfin, sem sett voru að handveði til B banka hf. Félögin hafi ekki átt að geta hagnast á viðskiptum við A banka hf. með hlutabréf og bankinn átt að greiða allan kostnað af rekstri þeirra og fjármögnun. Bankinn hafi á hinn bóginn ekki borið ábyrgð á skuldbindingum félaganna, nema slík ákvörðun væri tekin í hverju tilviki. Eins og að framan greinir hafi veðtrygging B banka hf., sem taka þurfi hér tillit til, ekki verið í samræmi við þær kröfur sem útlánareglur mæltu fyrir um. Segir síðar í ákærunni: ,,Ákærðu léttu því af [B] og lögðu á [A] þá áhættu sem fólst í ófullnægjandi veðtryggingum fyrir endurgreiðslu lánanna.“ Þá hafi það aukið á áhættu A banka hf. að bankinn hafi ekkert ákvörðunarvald haft um það hvort og þá hvenær veðköll yrðu gerð eða hvort gengið yrði að þeim eignum sem veðsettar höfðu verið. Bankinn hafi því enga möguleika haft til þess að takmarka það tjón sem af ábyrgðunum gat hlotist. Ákærðu hafi þekkt útlánareglurnar og skyldur sínar að öðru leyti. Ákærði X hafi þekkt vel til félaganna. Báðum ákærðu hafi því átt að vera ljós sú fjártjónshætta sem fólst í veitingu ábyrgðanna og óhjákvæmilegt sé að líta svo á að brot þeirra hafi verið stórfelld.
Eins og fram er komið er sannað að ákærðu gættu þess ekki að A banki hf. hefði tryggingar að baki ábyrgðunum þegar þær voru veittar 4. júlí 2006. Verðmæti þeirra hlutabréfa, sem B banki hf. tók að handveði og A banki hf. gat notið að nokkru, var ófullnægjandi miðað við þær skyldur sem á ákærðu hvíldu að þessu leyti. Ber einnig að taka tillit til þess að báðum ákærðu gat ekki dulist að gengi hlutabréfanna gat lækkað enn frekar eins og það hafði gert síðustu mánuði á undan. Skilja verður rökstuðning í ákæru svo að auðgunarásetningur ákærðu hafi átt að vera B banka hf. til hagsbóta með því að áhættu hafi verið létt af þeim banka er ábyrgðirnar voru veittar.
Við mat á ásetningi ákærðu og því hvort þau hafi skapað A banka hf. verulega fjártjónshættu verður að taka tillit til þess að frá upphafi hins svonefnda kaupréttarkerfis bankans hafði hann sjálfur fjármagnað kaupréttarfélögin með því að veita þeim lán til hlutafjárkaupa og standa straum af kostnaði við þau og öðrum kostnaði félaganna. Ákvörðun hafði verið tekin um það á vettvangi bankans að gefnu tilefni að freista þess að afla fjármögnunar fyrir kaupréttarfélögin hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Að því er félögin D Corp. og C Inc. varðar tókst það á þann hátt að B banki hf. lánaði félögunum, en krafðist sjálfskuldarábyrgðar A banka hf. Þessi breyting á fjármögnun félaganna hafði því þau áhrif að í stað þess að leggja félögunum til fé þurfti bankinn að leggja fram sjálfskuldarábyrgð á láni sem annað fjármálafyrirtæki veitti þeim. Ósannað er að ráðstafanir þessar hafi haft áhrif á áhættu A banka hf. frá því sem annars hefði verið, ef bankinn hefði sjálfur veitt félögunum tveimur lán, að öðru leyti en því er laut að frumkvæði að veðköllum og fullnustu kröfunnar. Ákærði X bar í skýrslu fyrir dómi að þetta hafi verið í 18. og 19. sinn, sem kaupréttarfélögum hefði verið veitt lán og í þessu tilviki hafi sú eina breyting orðið á að það hafi ekki verið A banki hf., sem það gerði, heldur annað fjármálafyrirtæki. Hann kvaðst telja að með þessu hafi áhætta bankans verið minnkuð. Af framangreindu verður ekki séð, að ákæruvaldið hafi sýnt fram á að ásetningur ákærðu hafi staðið til þess að afla B banka hf. fjárvinnings á þann hátt að A banki hf. biði við það tjón, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafa heldur ekki verið færðar sönnur á að ákærðu hafi, miðað við þá skipan sem var á fyrir 4. júlí 2006, vitað eða hlotið að vita að sömu eða meiri líkur væru á því að A banki hf. yrði fyrir fjártjóni vegna háttsemi þeirrar sem ákært er fyrir.
Svo sem áður er getið keypti A banki hf. skuldabréf verðtryggt af B banka hf. að sömu fjárhæð og nam samanlagðri lánsfjárhæð síðarnefnda bankans til D Corp. og C Inc. 4. júlí 2006. Með því fjármagnaði A banki hf. í raun lánveitingarnar. Ekki er byggt á því í ákæru að þessi ráðstöfun sé hluti af ætluðu broti ákærðu.
Samkvæmt framangreindu er ekki fullnægt þeim skilyrðum til beitingar 249. gr. almennra hegningarlaga að sannað sé, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, að ákærðu hafi, með því að skuldbinda A banka hf. við sjálfskuldarábyrgðir umrætt sinn, af ásetningi valdið bankanum verulegri fjártjónshættu.
2
Í síðari lið ákærunnar eru ákærðu borin þeim sökum að hafa samþykkt og undirritað fyrir hönd A banka hf. sjálfskuldarábyrgð á lánssamning 29. júní 2007 milli B banka hf. og C Inc. en gjalddagi lánsins hafi verið 30. júní 2008. Ábyrgðin hafi verið veitt án utanaðkomandi trygginga. Veiting ábyrgðarinnar hafi hvorki átt sér þann aðdraganda að gert hafi verið ákvörðunarblað, sem samþykkt hafi verið, né málið borið upp á fundi lánanefndar A banka hf., en hvort tveggja hafi verið skylt. Lánið frá B banka hf. hafi verið bundið því skilyrði að eldri lán, sem greinir í fyrri lið ákæru, hafi verið gerð upp, sem gengið hafi eftir. Lánið hafi verið tryggt með veði í öllum verðmætum, sem á hverjum tíma hafi verið á vörslureikningi nr. [...], en við veitingu ábyrgðarinnar hafi verið á reikningnum hlutabréf í A banka hf. að nafnverði 223.684.211 krónur.
Samkvæmt því sem fram kemur í rökstuðningi fyrir ákæruefnum hafi veiting sjálfskuldarábyrgðarinnar brotið í bága við lánareglur með sama hætti og lýst hefur verið áður, að því viðbættu að hvorki hafi ákvörðunarblöð verið gerð í þetta sinn né um málið fjallað í lánanefnd. Slíkt hafi borið að gera, enda sé kveðið á um það í útlánareglum bankans að líta skuli á skuldbreytingu sem nýja lánveitingu. Ákærðu hafi með þessu misnotað þá aðstöðu sem þau höfðu til þess að samþykkja sjálfskuldarábyrgðina þótt verulega hafi skort á að reglum bankans væri fylgt við veitingu hennar. Lán B banka hf. hafi verið til C Inc. og fjárhæð þess 6.800.000.000 krónur.
Í grein 1.8 í útlánareglum A banka hf. frá nóvember 2003 sagði meðal annars: ,,Líta skal á skuldbreytingu sem nýja lánveitingu ... Við skuldbreytingar á lánum skal ætíð reynt að bæta tryggingarstöðu bankans ef hún er ekki fullnægjandi.“ Ákærðu bar því að tryggja að farið yrði með undirbúning að og ákvörðun um veitingu sjálfskuldarábyrgðar bankans umrætt sinn eins og um nýja lánveitingu væri að ræða. Þess gættu þau ekki og það þótt ákvörðunin hlyti að vera óvenjuleg og meiri háttar. Ekki er heldur unnt að fallast á þau rök ákærðu að um framlengingu á fyrra láni hafi verið að ræða. Með vísan til þess sem áður segir um skyldur ákærðu við ákvörðun sem þessa er einnig sannað að þau hafi af ásetningi misnotað aðstöðu sína er þau bundu A banka hf. við sjálfskuldarábyrgð á láni B banka hf. til C Inc. 29. júní 2007 á þann hátt sem í ákæru greinir.
Ákærðu eru sökuð um að hafa með framangreindri háttsemi af ásetningi valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Eins og greinir í ákæru naut B banki hf. handveðs í öllum verðmætum á vörslureikningi nr. [...], en á honum voru samkvæmt ákæru í lok júní 2007 hlutabréf í A banka hf. að nafnverði 223.684.211 krónur. Gengi í kauphöll á hlutum í bankanum á þeim tíma, sem miðað var við í viðskiptunum, var 38,1 og var samkvæmt því ætlað verðmæti hlutabréfanna 8.522.368.439 krónur. Var þetta í samræmi við þann áskilnað B banka hf. fyrir því að veita lánið að verðmæti, sem handveðsett væru til tryggingar því, næmu 1,25 faldri fjárhæð lánsins. Auk þess liggur fyrir í gögnum málsins að C Inc. átti á þessum tíma í reiðufé á reikningi í A banka hf. um 804.000.000 krónur og að auki átti félagið hluti í bankanum, sem ósannað er að veðsettir hafi verið og námu 14.621.201 krónu að nafnverði. Verðmæti þeirra miðað við skráð gengi á markaði á þessum tíma var um 557.000.000 krónur. Félagið átti miðað við þessar forsendur eignir, sem ósannað er að hafi verið veðsettar, að fjárhæð um 1.361.000.000 krónur. Samanlagt verðmæti veðsettra og óveðsettra eigna félagsins miðað við framangreindar forsendur var því um 1,45 sinnum hærra en lánið sem B banki hf. veitti því.
Við mat á því hvort ákærðu hafi með þeirri ráðstöfun, sem hér um ræðir, af ásetningi valdið A banka hf. verulegri fjártjónshættu, ber að taka tillit til þess að ákæruvaldið hefur ekki sannað að ætluð áhætta bankans miðað við aðdraganda að veitingu ábyrgðarinnar og aðstæðna á þessum tíma hafi verið veruleg. Við þær breytingar sem urðu á fjármögnun félaganna tveggja er I banki hf. veitti D Corp. lán að fjárhæð 5.617.010.078 krónur, án þess að krafist yrði sjálfskuldarábyrgðar A banka hf., losnaði bankinn því við að bera sjálfskuldarábyrgð á láni þess félags. Sjálfskuldarábyrgðin tók aðeins til þess láns sem C Inc. var veitt, en það var að höfuðstól jafn hátt og lánin til beggja félaganna árið áður. Eins og fram er komið lagði C Inc. fram meiri tryggingar en það hafði gert ári fyrr, en ástæða þess að félagið var í stakk búið að gera það virðist hafa verið sú að hluti af lánsfé I banka hf. til D Corp. var nýttur í þágu fyrrnefnda félagsins til kaupa á hlutafé í A banka hf. að nafnverði 115.000.000 krónur. Auk þess stóðu framangreindar 804.000.000 krónur af lánsfénu á reikningi þessa félags hjá A banka hf.
Eins og áður greinir bar ákærðu að gæta hagsmuna bankans við þessa ráðstöfun og veita ekki ábyrgð nema gegn tryggingum sem væru viðunandi fyrir hann. Á þeim tíma sem sjálfskuldarábyrgðin var veitt var gengi hluta í A banka hf. hátt og hafði farið hækkandi um nokkurra mánaða skeið. Þótt ákærðu hafi báðum verið ljóst að gengið gat allt eins lækkað er ósannað að þau hafi vitað eða hlotið að vita að sömu eða meiri líkur væru á því að A banki hf. yrði fyrir tjóni en ekki vegna ráðstöfunar þeirrar, sem ákært er fyrir í þessum lið. Ákæruvaldið hefur þar með ekki sannað að veiting sjálfskuldarábyrgðarinnar 29. júní 2007 hafi, þegar litið er til aðstæðna og annarra ráðstafana sem þá voru gerðar og lýst hefur verið, leitt til verulegrar fjártjónshættu fyrir A banka hf.
3
Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna ákærðu af kröfum ákæruvaldsins í málinu. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Helgu Melkorku Óttarsdóttur og Sigurðar G. Guðjónssonar, 3.720.000 krónur til hvors um sig.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2014.
Árið 2014, mánudaginn 20. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af héraðsdómurunum Guðjóni St. Marteinssyni, sem dómsformanni, og Halldóri Björnssyni og Ásgeiri Brynjari Torfasyni lektor, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-22/2014: Ákæruvaldið gegn X og Y en málið var dómtekið 24. september sl.
Málið er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, dagsettri 17. janúar 2014, á hendur:
,,X[...], kt. [...],
[...], Reykjavík
og
Y, kt. [...],
[...],
fyrir umboðssvik, með því að hafa í störfum sínum fyrir [A banka] hf., kt. [...], [...], Reykjavík (hér eftir A), ákærði X sem bankastjóri og ákærða Y sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, bæði meðlimir í Lánanefnd bankans, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu, með því að fara út fyrir heimildir til veitingar ábyrgða, er þau í sameiningu:
-
Samþykktu og undirrituðu fyrir hönd A banka hf., sjálfskuldarábyrgðir bankans á lánssamninga B banka hf. (hér eftir B), dagsetta 4. júlí 2006:
-
við félagið C Inc., skráð á Panama, að fjárhæð 2.500.000.000 króna, en lán B til félagsins var tryggt með veði í hlutabréfum í A að nafnvirði 122.550.000 krónur. Lánið var á gjalddaga 30. júní 2007.
-
við félagið D Corp., skráð á Panama, að fjárhæð 4.300.000.000 króna, en lán B til félagsins var tryggt með veði í hlutabréfum í A að nafnvirði 210.800.000 krónur. Lánið var á gjalddaga 30. júní 2007.
Ábyrgðirnar voru veittar án utanaðkomandi trygginga. Ákærðu afgreiddu ábyrgðirnar á milli funda Lánanefndar A og bókað var um þá afgreiðslu í fundargerð Lánanefndar 5. júlí 2006 og aftur 12. júlí 2006. Ákvörðunarblöð um veitingu ábyrgðanna voru staðfest af ákærðu Y og E, aðstoðarframkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs A 7. júlí 2006 og ákærða X 12. júlí 2006, þ.e. eftir veitingu ábyrgðanna.
-
Samþykktu og undirrituðu fyrir hönd A, sjálfskuldarábyrgð A á lánssamning B, dagsettan 29. júní 2007, við félagið C Inc., að fjárhæð 6.800.000.000 króna, en lánið var á gjalddaga 30. júní 2008. Ábyrgðin var veitt án utanaðkomandi trygginga.
Ákærðu bundu A við sjálfskuldarábyrgðina án þess að veiting hennar væri lögð fyrir Lánanefnd A og án þess að fyllt væri út og staðfest ákvörðunarblað um veitingu ábyrgðarinnar. Greint lán frá B var bundið því skilyrði að andvirði þess yrði varið til uppgreiðslu á lánum, sem vísað er til í lið 1. Lán B til C Inc. var tryggt með veði í öllum verðmætum á vörslureikningi nr. [...], á hverjum tíma, en við veitingu ábyrgðarinnar voru á vörslureikningnum hlutabréf í A að nafnverði 223.684.211 krónur.
Veiting sjálfskuldarábyrgðanna skv. 1. og 2. lið braut í bága við lánareglur A frá árinu 2003 og almennar útlána- og áhættureglur bankaráðs A frá árinu 2005.
Sjálfskuldarábyrgðirnar voru veittar vegna lánveitinga B til kaupa félaganna C Inc. og D Corp. á hlutabréfum í A. Greind félög höfðu gert valréttarsamninga við A í tengslum við veitingu kauprétta til starfsmanna A. Samkvæmt valréttarsamningunum voru félögin skuldbundin til að selja A bréfin til baka á ákveðnu tímabili á fyrirfram ákveðnu gengi.
B sendi innheimtuviðvörun til C Inc., dags. 10. ágúst 2009 og gekk í framhaldinu, 7. október 2009, að innstæðu á handveðsettum vörslureikningi, samtals 862.922 krónur, en fékk að öðru leyti ekkert greitt upp í kröfur sínar á hendur félaginu. Þá lýsti B kröfu í bú A, 30. október 2009, að fjárhæð samtals 10.026.184.261 króna á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar A á framangreindum lánveitingum. Slitastjórn A hafnaði kröfunni á grundvelli vanreifunar og er krafan í ágreiningsferli.
Brot ákærðu varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Verjandi ákærða X krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Þess er krafist að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.
Verjandi ákærðu Y krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verið skilorðsbundin. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins.
Upphaf máls þessa má rekja til kæru Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara, dagsettrar 2. desember 2010. Kæran er sögð vegna „meintrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í [A] hf.“ eins og segir í inngangi kærunnar. Í kærunni segir að Fjármálaeftirlitið „kærir hér með [A] hf. og eftirfarandi fyrrverandi starfsmenn [A]: F [...]; G [...] og eftir atvikum aðra aðila...“. Í kærunni er tafla þar sem aðrir aðilar sem tengjast málinu er taldir upp. Nöfn níu einstaklinga eru á listanum, þar á meðal nafn ákærða X. Nafn ákærðu Y er ekki á listanum. Kæra Fjármálaeftirlitsins er mjög umfangsmikil og lýtur einkum að markaðsmisnotkun eins og fram kemur í upphafi en einnig er vikið að nokkrum öðrum hugsanlegum brotum. Þá segir í kærunni: ,,Þá telur Fjármálaeftirlitið vert að kanna hvort framangreindar lánveitingar og sjálfskuldarábyrgðir geti fallið undir 249. gr. hgl um umboðssvik.“
Í niðurlagi kærunnar segir: ,,Fjármálaeftirlitið telur atvik málsins benda til þess að um kerfisbundna og ítrekaða markaðsmisnotkun hafi verið að ræða og að kæra beri málið til embættis sérstaks saksóknara, sbr. 2. mgr. 148. gr. vvl. og 1. gr. laga nr. 135/2008.“
Eftir þetta fór fram umgangsmikil rannsókn hjá embætti sérstaks saksóknara. Teknar voru skýrslur af fjölda manns, þar á meðal ákærðu. Viðskýrslutökur báðum ákærðu hjá lögreglu hafa bæði neitað sök frá upphafi. Er framburður þeirra hjá lögreglu efnislega á sama veg og framburður þeirra fyrir dómi.
Þar sem rannsóknin beindist að langmestu leyti að öðru sakarefni en því sem í ákæru greinir þykir, eins og á stendur, ekki þörf á því að rekja gang hennar frekar en vísað verður til hennar ef ástæða þykir.
Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði X neitar sök. Hann var annar bankastjóra A á þeim tíma sem í ákæru greinir og kvaðst hann hafa unnið samkvæmt ákveðnu skipulagi er sneri að kaupréttarkerfi starfsmanna bankans sem hafi verið komið á á árinu 2000 er bankinn var ríkisbanki og þá samþykkt af bankaráði. Hann kvað aðalhöfund þess kerfis hafa verið H sem síðar varð yfirmaður [...]. Ákærði skýrði hvernig kaupréttarkerfi bankans virkaði. Hann kvað bankann hafa metið það svo er hann veitti starfsmönnum kauprétt að nauðsynlegt væri fyrir bankann að tryggja sig og að hafa aðgang að hlutabréfum í bankanum til að geta afhent starfsmönnum. Tryggingin hafi verið fólgin í því að hafa aðgang að hlutabréfum í bankanum á föstu verði svo að ekki þyrfti að taka áhættuna af hækkun hlutabréfanna og einnig svo að ekki þyrfti að gefa út ný hlutabréf sem of litlir peningar fengjust fyrir yrðu þau afhent starfsmönnum í samræmi við kaupréttarfyrirkomulagið. Hann kvað tvær leiðir færar til að tryggja bankann fyrir þessu. Önnur hafi veri sú að bankinn keypti hlutabréf og ætti sjálfur. Hin leiðin hafi verið sú að kaupa sambærilega kauprétti af þriðja aðila. Ákærði skýrði hvernig staðið var að þessu í bankanum frá árinu 2000 en frá þeim tíma fjármagnaði A félög sem keyptu hlutabréf í bankanum en jafnframt var gerður samningur við viðkomandi félag þar sem kveðið var á um afhendingu hlutabréfanna á þeim tíma sem bankinn þurfti á að halda til að efna kaupréttarsamninga bankans við starfsmenn. Fyrir þetta greiddi bankinn gjald sem endurspeglaði allan kostnað félaganna við að fjármagna sig og annan rekstur. Ákærði kvað félögin sem um ræðir hafa fjármagnað sig hjá A frá árinu 2000 er kaupréttarfyrirkomulaginu var komið á á árinu 2000. Hann kvað þann háttinn hafa staðið allt til áramóta 2005/2006 er upp kom umræða um að rétt væri að fjármagna þetta utan bankans. Ákærði kvaðst þá hafa kannað þetta meðal annars hjá B banka. Niðurstaða þess varð sú að B banki var reiðubúinn að fjármagna félögin sem í ákæru greinir gegn ábyrgð A. Ákærði kvað niðurstöðuna hafa verið þá að engin breyting varð á áhættu A vegna þessa. Ákærði lýsti því og vísaði til gagna málsins um að áður en kom til ábyrgðaveitinganna, sem í ákæru greinir, hefði A veitt 17 lán, sambærileg þeim sem B banki veitti og lýst er í ákærunni. Í þeim tilvikum öllum hefði A tekið alla áhættuna eins og ákærði bar. Hann kvað því undarlegt að sæta ákæru fyrir það eitt að reyna að koma fjármögnun vegna þessa út úr bankanum, sem hann gerði. Hann skýrði ávinning bankans af framvirkum varnarsamningum miðað við tiltekið gengi hlutabréfa í A, annars vegar miðað við 30. júní 2006 og hins vegar miðað við 30. júní 2007. Kvað hann ávinninginn verulegan og lýsti því og skýrði með útreikningum sínum. Hann kvað í þessu ljósi ótrúlegt að sitja nú undir ákæru vegna þessa þrátt fyrir að hafa skýrt þetta hjá lögreglu.
Varðandi millifundarsamþykktir vísaði ákærði til samantektar sem liggur fyrir. Þar kemur fram að á árinu 2006 hafi lánanefnd A afgreitt 1279 lánasamþykktir. Málin skiptist þannig að 648 lán voru afgreidd á fundi lánanefndar en 631 mál á milli funda. Í ákæru sé gefið í skyn að afgreiðsla málsins milli funda hafi ekki verið samkvæmt reglum bankans. Ákærði hafnaði því og benti á að þær 17 afgreiðslur lána til félaga vegna kaupréttar sem vísað var til að ofan hafi allar verið millifundasamþykktir og því sé að hans mati einkennilegt að sambærileg afgreiðsla nú hafi verið andstæð reglum bankans eins byggt sé á í ákæru.
Ákærði lýsti því að fyrir endurfjármögnun lána C og D um mánaðamótin júní/júlí 2007 hafi áhætta A gagnvart þessum tveimur félögum verið þannig að bankinn var í ábyrgð að fjárhæð 6,8 milljarðar króna gagnvart B vegna félaganna. Auk þess hafi bankinn verið með fjármögnum upp á rúma 4,5 milljarða króna gagnvart sömu félögum. Á þessum tíma hafi verið reynt að endurfjármagna félögin til að minnka áhættu A. Tekist hafi að fjármagna D í I og C hafi tekið yfir skuldbindingar D innan B. Ákærði kvað áhættu A fyrir endurfjármögnunina hafa verið rúma 11,3 milljarða króna en eftir hana hafi hámarks áhætta bankans verið 6,8 milljarðar króna en gæti í raun verið tæpir 6 milljarðar króna vegna rúmlega 800 milljóna króna sem voru á reikningi C í A. Heildaráhætta bankans hafi þannig lækkað um meira en 5 milljarða króna að sögn ákærða. Hann kvað samningana við félögin sem um ræðir hafa verið unna þannig að félögin hafi ekki getað hagnast og skýrði hann þetta nánar. Nefndi ákærði í þessu sambandi ákvæði samninganna um það að ákveði starfsmenn að sækjast ekki eftir því að kaupa hlutabréf í bankanum þá kveði samningarnir á um það að bankinn eigi að fá nettó ávinningi af hlutabréfunum ef einhver er. Þá kveði samningarnir einnig á um það að bankinn eigi ekki að greiða neitt ef tap myndast. Ákærði var annars bankastjóra A á árinu 2006 til 2008 og formaður lánanefndar. Hann lýsti rétti sínum til bónusgreiðslna og þá kvaðst hann hafa átt kauprétti sem hann innleysti aldrei.
1
Ákærði kvað kaupréttarsamninga hafa verið gerða árlega. Á þeim tíma sem í ákæru greinir höfðu bæði innri og ytri endurskoðendur bankans fært í tal að heppilegra væri, en ekki nauðsynlegt, að fjármögnun vegna þessa ætti sér stað utan bankans. Ákærði kvað þetta ástæðu þess að hann leitaði til B banka eins og rakið var að framan. Úr varð að A tókst á hendur ábyrgðirnar sem í ákæru greinir. Í kjölfarið hafi farið af stað vinna innan bankans til að koma þessu fyrirkomulagi á. Aðrir starfsmenn bankans hafi unnið málið og ákærði ekki komið að því fyrr en með undirritun um samþykki 12. júlí 2006 á fundi lánanefndar bankans. Ákærði endurtók það sem rakið er að framan um tilganginn með þessu fyrirkomulagi en hann var sá að minnka áhættu bankans af kaupréttarsamningum við starfsmenn.
Borin voru undir ákærða ákvörðunarblöð, dagsett 4. júlí 2006, vegna ábyrgðanna sem í 1. lið ákæru greinir. Ákærði staðfesti undirritun sína á bæði blöðin þótt hann væri ekki viss um að undirritunin hefði átt sér stað 12. júlí 2006 eins og skjölin bera með sér, og skýrði hann hvers vegna hann teldi þetta. Hann kvað undirritun sína á ákvörðunarblaðið hafa verið staðfestingu þess sem meðákærða Y og E höfðu ákveðið 7. júlí 2006. Undirritun sín 12. sama mánaðar hafi líklega átt sér stað á lánanefndarfundi og skýrði hann það. Hann kvað þann hátt hafa verið algengan að hafi vitað af tiltekinni ákvörðun eins og þeirri sem hér um ræðir og hann hafi síðan staðfest hana með áritun sinni síðar, allt eins og reglur bankans kveði á um. Hann kvað ekki hafa verið áskilnað um það í reglum bankans að uppáskriftir þyrftu allar að eiga sér stað sama dag. Ákærði tók fram að hann telji líklegast að ákvörðunarblöð hafi verið til staðar er mál félaganna sem um ræðir voru til afgreiðslu á lánanefndarfundi 5. júlí 2006 þótt lögreglan hafi ekki fundið blöðin og benti á ýmislegt sem hefði komið fram sem lögreglan hefði ekki fundið undir rannsókn málsins. Hann taldi þannig að ákvörðunarblöðin hefðu verið til en þau kynnu að hafa farist fyrir er ný ákvörðunarblöð voru útbúin, enda fremur sjaldgæft að sama mál komi tvisvar sinnum til afgreiðslu á lánanefndarfundi. Ástæða þess að þetta mál var tvisvar tekið fyrir hjá lánanefnd var sú að framlengingarheimildin vegna beggja ábyrgðanna var tekin fyrir og samþykkt á lánanefndarfundi 12. júlí 2006 en hana skorti á fundinum 5. sama mánaðar. Því hafi þetta í raun verið sama málið sem tekið var tvisvar sinnum fyrir á fundi lánanefndarinnar. Hann kvaðst hafa munað eftir framlengingarheimildinni á lánasamningnum samkvæmt ákærulið 1 og aðspurður hvort ábyrgðarveitingin samkvæmt lið 2 væri ný eða ekki kvaðst ákærði hafa rætt um 3% af hlutabréfum í bankanum er hann ræddi við J bankastjóra B banka um fjármögnunina. Ákærði kvaðst hafa vitað að 3% hlutabréfa í bankanum væri af stærðargráðunni 6 til 7 milljarðar króna. Hvort félögin sem um ræðir voru eitt eða tvö kvað hann ekki skipta máli.
Ákærði skýrði gerð og tilgang ákvörðunarblaða. Hann kvað lánanefndarfund geta veitt lán eða samþykkt ábyrgð án þess að mál hefði farið í eitthvert ákveðið ferli innan bankans og án þess að ákvörðunarblað lægi fyrir og skýrði hann þetta með vísan í lánareglur bankans.
Samkvæmt fundargerð lánanefndar bankans voru ábyrgðirnar teknar fyrir á fundum lánanefndar 5. og 12. júlí 2006. Ákærði kvað fyrirtökuna 12. júlí hafa verið til að bæta við framlengingarheimild vegna beggja ábyrgðanna til 30. júní 2008. Hann skýrði að hann hefði vitað allt um félögin tvö er hann ritaði undir ábyrgðir A á lánunum. Hið sama ætti við um meðákærðu Y og E. Bæði hafi vitað nákvæmlega hvert eðli félaganna var.
Spurður um form millifundasamþykkta kvað ákærði allar lánasamþykktir einhvers konar skjöl sem tveir þar til bærir starfsmenn bankans skrifi upp á. Hann kvað bankastjórana samþykkja reglurnar og þeir þyrftu ekki að bera þær undir bankaráðið. Hann kvað skýringuna meðal annars þá að það hafi verið skilyrði Fjármálaeftirlitsins er [...] K og L kæmu ekki að lánamálum. Þess vegna var ekki í bankanum lánanefnd stjórnar eins og í öðrum bönkum. Bankastjórar A hafi haft þetta allt á sinnu könnu. Þannig vísaði ákærði því á bug að hann hefði með samþykki ábyrgðarveitinganna brotið reglur bankans sem vísað er til í ákærunni. Þá vísaði ákærði til þess að mikill fjöldi mála hafi verið afgreiddur á milli funda lánanefndar, bæði stór og smá. Nærri helmingur lánamála á árinu 2006 hafi verið afgreiddur með samþykktum milli funda og svipað hlutfall á árinu 2007. Millifundasamþykktir hafi allar verið samþykktar á fundum lánanefndar. Aldrei hafi verið gerð athugasemd við þetta fyrirkomulag og ekki sé til ein einasta millifundasamþykkt sem ekki hafi verið staðfest með þessum hætti. Hann kvað ákæruvaldið túlka reglur um millifundasamþykktir á annan hátt en allir aðrir jafnt ákærðu og þeir aðilar sem höfðu með höndum eftirlit innan bankans með því að reglunum yrði fylgt. Ákærði kvað þannig engar takmarkanir að finna í lánareglum varðandi heimildir ákærðu til ákvarðana eins og hér um ræðir, enda komi undirritun á fundargerð lánanefndar frá öðrum bankastjóra og öðrum starfsmanni bankans eins og reglurnar kveði á um.
Aðspurður hvort ekki þyrfti að horfa til hagsmuna bankans kvað ákærði það augljóst og að það hafi verið gert og er vísað til þess sem ákærði bar áður um þetta og rakið var að framan sem og um hagnað bankans af vörnum sem ákærði kom á og lýst var. Ákærði kvaðst því aldrei haft annað að leiðarljósi í þessari vinnu sinni en hagsmuni bankans. Ákærði staðfesti undirritun samninganna en kvaðst ekki viss um það hvort hann hefði undirritað samningana 4. júlí 2006. Eins líklegt væri að hann hefði undirritað þá á fundi lánanefndar 5. júlí eða sama dag og lánið var greitt út.
Spurður um ástæðu þess hvers vegna ekki var farið fram á tryggingar vegna sjálfsskuldarábyrgðanna kvað ákærði þær liggja óbeint inni í félögunum þannig að ef reyndi á sjálfsskuldarábyrgð bankans þá fengi bankinn tryggingarnar, það er hlutabréfin í A frá B banka. Spurður um mat bankans á þessum undirliggjandi tryggingum, sem voru hlutabréfin í A, með hliðsjón af reglum bankans um heimildir til að meta hlutabréf sem tryggingar kvað ákærði reglurnar ekki eiga við þar sem það væri hlutverk lánanefndar að taka ákvarðanir eins og hún gerði í tilvikum þegar hlutfall hlutabréfa sem trygginga væri hærra en kveðið væri á um í reglum bankans, sem ættu við um aðra en lánanefndina, Hafi bankastjórarnir tveir sett þessar reglur sem viðmið fyrir aðra starfsmenn sem höfðu útlánaheimildir. Hann lýsti sjónarmiðum sem höfð voru til hliðsjónar við lán bankans til eignarhaldsfélaga þar sem einu tryggingarnar voru hlutabréf og lýsti mun á þeim tilvikum og ábyrgðarveitingunni sem í þessu máli greinir, meðal annars með hliðsjón af greiðsluflæði til félaganna frá A vegna samninganna sem lýst er í ákæru.
2
Ákærði staðfesti undirritun sína á lánasamninginn sem hér um ræðir. Hann taldi hins vegar engar líkur á því að hann hefði undirritað samninginn 29. júní 2007 eins og samningurinn ber með sér. Hann skýrði hvers vegna hann var viss um þetta og taldi líklegt að hann hefði undirritað samninginn 2. júlí 2007.
Ákærði kvað þennan samning hafa verið ákveðna tegund framlengingar eða skuldbreytingar sökum þess að 6,8 milljarðar króna sem um ræðir voru aldrei greiddar út. Ákærði kvað fyrirgreiðslu A gagnvart þessum tveimur félögum hafa numið rúmlega 11,3 milljörðum króna á þessum tíma. Þá hafi D fengið rúmlega 5,7 milljarða króna að láni hjá I banka sem notaðir voru til þess að greiða rúmlega 1 milljarðs króna skuld félagsins við A og 4,8 milljarðar króna voru greiddir C sem yfirtók þá lánið sem í ákærulið 1. greinir. Ákærði kvað áhættu A vegna þessara tveggja félaga hafa minnkað um rúmlega 5,3 milljarða króna með þessari ráðstöfun og skýrði hann þetta meðal annars með útreikningum sem hann lagði fram. Ákærði kvaðst ekki vita hvort gerð voru ný ákvörðunarblöð vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar sem í þessum lið greinir. Hann kvaðst hafa gefið sér það að starfsmenn á fyrirtækjasviði bankans hefðu metið það svo að ekki þyrfti ákvörðunarblöð er svona stæði á enda væri í raun um sama málið að ræða og samkvæmt ákærulið 1. Hann kvaðst ekki hafa komið að þeirri ákvörðun og taldi líklegt að einhver lögfræðinga bankans hefði komið að þeirri ákvörðun. Þá kvaðst hann ekki geta borið um það hvernig ábyrgðarveitingarnar voru skráðar hjá bankanum. Hann hafi ekki haft með það að gera. Hann kvaðst hafa samþykkt sjálfskuldarábyrgðina með það í huga að verið væri að endurfjármagna það sem um ræðir í ákærulið 1 auk þess sem verið hafi verið að losa bankann undan ábyrgð eins og rakið var að ofan um lækkun áhættu bankans um rúma 5,3 milljarða króna. Spurður um það hvort sjálfskuldarábyrgðin sem hér um ræðir væri ný ábyrgð kvað ákærði um framlengingu að ræða og er vísað til þess sem rakið var að ofan um þetta. Hann kvað þetta aldrei hafa verið rætt en hann kvaðst hafa samþykkt ábyrgðina þar sem hafi verið hagsmunir bankans.
Ákærði X var spurður um ábyrgðarveitinguna samkvæmt þessum ákærulið með hliðsjón af grein 1.8 í útlánareglum bankans þar sem segir að líta skuli á skuldbreytingu sem nýja lánveitingu. Hann kvaðst hafa litið þannig á að tvær ábyrgðaveitingar hefi verið sameinaðar í eina. Hann kvað það ekki hafa verið sitt hlutverk að taka ákvarðanir um það hvort ákvörðunarblöð þyrfti eða ekki. Lögfræðingar bankans hafi annast það.
Ákærði kvað ábyrðaveitinguna sem um ræðir alls ekki meiriháttar ávörðun eins og lýst er í 7. mgr. greinar 4.8.2.1 í útlánareglunum enda hafi áhætta bankans minnkað eins og fram hefur komið.
Ákærða Y neitar sök. Hún kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs A á árunum 2003 til 2008 og heyrði hún beint undir bankastjórana M og meðákærða X. Hún lýsti starfsemi fyrirtækjasviðs sem var eitt af stærri sviðum bankans og kvað tugi lánamála hafa verið afgreidd þar daglega. Hún kvað alla sem tóku þátt í ákvörðunum um lánveitingar innan bankans, sama hvort um væri að ræða útibú bankans eða fagsvið eins og fyrirtækjasvið, hafa starfað eftir sérstökum lánareglum. Annað hafi hins vegar átt við um bankastjórana að hennar sögn. Þeir höfðu, eins og reglurnar beri með sér, heimild til að víkja frá þeim. Bankastjórarnir hafi tekið ákvarðanir um útlán eftir heimildum sem bankaráðið veitti þeim. Hún kvað lánamál sem voru umfram útlánaheimildir fyrirtækjasvið hafa verið borin upp í lánanefnd til ákvarðanatöku. Þar hafi bankastjórarnir tekið ákvarðanir saman eða ef annar var fjarverandi hafi staðgengill bankastjóra og ákærða komið í stað viðkomandi. Hún lýsti heimild til afgreiðslu mála milli funda og að það hafi verið gert með því að hafa samráð við annan bankastjóranna. Gert var ráð fyrir því að formaður lánanefndarinnar, meðákærði X, samþykkti millifundaákvörðun á formlegum fundi lánanefndar. Aðrir staðfestu fundargerð þar sem millifundasamþykktir voru teknar fyrir í lánanefnd undir sérstökum dagskrárlið. Þessi háttur hafi verið hafður á við samþykki ábyrgðaveitinganna til B banka sem í ákæru greinir. Hún kvað millifundasamþykktir þannig hafa verið teknar fyrir á vikulegum fundum lánanefndar allan starfstíma hennar í bankanum, allt í samræmi við lánareglur bankans. Hún kvaðst ekki hafa vitað af neinum athugasemdum við þetta vinnulag, hvorki frá eftirlitsaðilum innan bankans né utan hans, en mikill málafjöldi hafi verið afgreiddur á sama hátt.
Hún kvað veðtöku og veðhlutföll sem vísað er til í lánareglum hafa átt við um almenna lánveitendur innan bankans en lánanefnd hafði heimild til að víkja frá þeim viðmiðunum og voru fjölmörg dæmi þess. Er ábyrgðirnar vegna félagana C og D voru veittar voru félögin nýstofnuð. Tilgangur félaganna var sá að halda utan um hlutabréf í A sem ætluð voru til að efna kauprétt sem samið hafði verið um við starfsmenn bankans. Hún kvað mikilvægt að bankinn gæti varið sig gegn breytingum á gengi hlutabréfanna á samningstímanum og dregið úr fjárhagslegri áhættu bankans. Hún lýsti því að fyrirkomulag varðandi lánveitingar til félaganna vegna kaupréttar starfsmanna hafi verið til staðar í bankanum er hún hóf þar störf. Hún kvaðst telja að lánveitingarnar og einnig sjálfskuldarábyrgðirnar sem hér um ræðir hefði verið beint og eðlilegt framhald af ákvörðun bankaráðs og bankastjórnar um að veita starfsmönnum kauprétt á hlutabréfum á fyrirfram umsömdu gengi. Hún kvað sjálfsskuldarábyrgðina vera með undirliggjandi tryggingu sem bankinn hefði haft aðgang að ef reyndi á ábyrgð bankans og einnig stóðu væntingar til þess að ábyrgðinni yrði unnt að aflétta síðar.
Um framlengingu ábyrgðanna, sbr. ákærulið 2, taldi hún að litið hefði verið þannig á að framlengingarheimildin á upphaflegu samþykktinni 12. júlí 2006 tæki yfir hana. Auk þess vísaði ákærða til breytingar á tilkynningu og staðfestingu utanfundasamþykkta lánanefndar, dags. 20. desember 2004, þar sem segir að ekki þyrfti að gera grein fyrir framlengingu að tilteknum skilmálum uppfylltum.
Ákærða kvað aldrei hafa hvarflað að sér að með veitingu ábyrgðanna væri hún að brjóta gagn hagsmunum bankans, þvert á móti taldi hún sig hafa verið að tryggja hagsmuni bankans eins og best var á kosið.
1
Ákærða kvaðst hafa setið í lánanefnd á þessum tíma en ekki átt formlegt sæti í nefndinni. Hún lýsti launakjörum sínum hjá bankanum, meðal annars fjórum kaupréttarsamningum sem hún nýtti sér ekki.
Hún staðfesti undirritun á ákvörðunarblöðum vegna ábyrgðanna sem hér um ræðir. Hún kvað ákvörðunarblöðin hafa verið hluta af vinnulagi í bankanum. Þau voru oft gerð áður en lán voru veitt en það hafi ekki verið algilt. Hún kveðst ekki hafa útbúið ákvörðunarblöðin sem hér um ræðir þótt upphafstafir hennar gefi það til kynna. Hún taldi líklegt að hún hefði beðið annan starfsmann að útbúa blöðin en tók hins vegar fram að hún myndi það ekki. Hún kvaðst hafa þekkt félögin sem um ræðir og vitað um tilgang þeirra en hún hafi rætt við meðákærða X um samþykki ábyrgðanna. Fram kom hjá ákærðu að hún mundi ekki hver bar erindið upp við hana en hún kvaðst fyrst hafa verið spurð um þetta á árinu 2013. Allur gangur væri á því hvernig beiðnir bærust bankanum um lán eða ábyrgðir. Hún kvað afgreiðslu mála félaganna sem hér um ræðir hafa fengið sambærilega meðferð og önnur mál innan bankans. Á ákvörðunarblöðum sem hér um ræðir eru félögin sem í ákæru greinir sögð í áhættuflokki 3. Ákærða kvað 12 áhættuflokka hafa verið í kerfinu. Flokkur 1 hafi verið bestur og skýrði hún áhættuflokkunarkerfi bankans sem var í mótun en margar breytur hafi skipt máli við flokkunina. Hún lýsti vinnu innan bankans á grundvelli ákvörðunarblaða. Hún skýrði tilgang millifundasamþykkta, hvernig að þeim var staðið innan bankans og hvernig þær voru bornar upp eftir á, á fundum lánanefndar, allt eins og reglur bankans kveða á um. Hún kvað samþykki milli funda oft gerð á ákvörðunarblöðum en það hafi ekki verið einhlítt. Ákvörðun gat verið greinargerð starfsmanna og áritun á skýrslu um viðkomandi erindi og skýrði hún það. Hún kvað reglur bankans ekki áskilja að millifundasamþykktir væru gerðar á því formi sem um ræðir í máli þessu, það er með ákvörðunarblöðum, en lokaákvörðunin væri alltaf skrifleg. Hún kvað meðákærða X hafa undirritað ábyrgðirnar á fundum lánanefndar í samræmi við reglur bankans. Hún kvað ákærðu hafa haft heimild til að samþykkja ábyrgðarveitingarnar eins og gert var. Hún kvað lánanefndarfund hafa getað veitt lán eða samþykkt ábyrgð án þess að ákvörðunarblað lægi fyrir. Undirritun fundargerðar lánanefndar þýði að fyrir liggi gilt samþykki fyrir ábyrgðinni sem um ræðir, allt eins og reglur bankans kveði á um.
Ákærða staðfesti undirritun sína á báða lánasamningana sem í þessum ákærulið greinir. Samningarnir bera með sér að undirritun hafi átt sér stað 4. júní 2006. Hún kvaðst viss um það að ákærðu hefðu undirritað báða samningana á fundi lánanefndar 5. júlí 2006 og skýrði hún það.
2
Ákærða staðfesti undirritun á lánasamninginn sem í þessum ákærulið greinir. Hún kvaðst ekki vita hvers vegna ekki voru gerð ný ákvörðunarblöð vegna þessarar ábyrgðarveitingar en hún gat sér þess til að þeir sem sýsluðu með þetta mál innan bankans hefðu talið að framlengingarheimildin í fyrri samþykktinni í lánanefnd 12. júlí 2006 hefði tekið yfir þessa ábyrgð auk þess sem horft hefði verið til skjals, dagsett 20. desember 2004, undirritað af bankastjórum bankans, um breytingar á tilkynningum og staðfestingu utanfundarsamþykkta og talið að ekki þyrfti að útbúa ný gögn vegna ábyrgðarinnar sem um ræðir í þessum ákærulið.
Hún kvaðst ekki geta skýrt hvernig ábyrgðaveitingin var skráð í gögnum bankans sem tvær ábyrgðir. Hún telji það mistök sem hún geti ekki skýrt.
Hún kvað ekki hafa orðið breytingu á ábyrgð bankans við ábyrgðarveitinguna sem í þessum ákærulið greinir.
Fyrir liggur að málin voru tekin fyrir á fundi lánanefndar 5. og 12. júlí 2006. Hún kvaðst telja að málin hafi verið tekin fyrir tvisvar sinnum vegna þess að á fyrri fundinum hafi vantað framlengingarheimildina sem var síðan leiðrétt og samþykkt á síðari fundi lánanefndarinnar 12. júlí 2006.
Vitnið E var aðstoðarframkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs A á árunum 2006 til 2008. Hann lýsti starfi sínu, meðal annars samskiptum við lántaka og að hann legði mál fyrir lánanefnd, þá hafi hann setið í lánanefnd þar sem hlutverk hans var að taka lánaákvarðanir og undirrita ákvörðunarblöð. Hann staðfesti undirrituna sína á ákvörðunarblöð vegna ábyrgðaveitinganna sem í 1. lið ákæru greinir en auk sín hafi ákærðu bæði undirritað blöðin. Hann mundi ekki hver leitaði eftir undirritun hans en kvað þetta hafa verið sitt hlutverk í bankanum og hann hafi líklega undirritað um 10 sambærileg skjöl daglega. Hann kvað ritara lánanefndar hafa greint sér frá því að undirritunin hefði átt sér stað milli funda lánanefndar en slíkar ákvarðanir hafi verið skriflegar og hann taldi þau ákærðu Y hafa undirritað skjölin saman. Hann kvað millifundasamþykktir hafa verið algengar. Hann kvað engum manni hjá bankanum hafa dottið það í hug að ábyrgðirnar sem um ræðir í ákæru hafi verið veittar andstætt reglum bankans. Hann vissi ekki hvers vegna ákvörðunarblöðin voru undirrituð eftir lánanefndarfundinn 5. júlí 2006 eins og lýst er í ákærunni. Hann vissi hvert hlutverk félaganna var og lýsti því. Hann kvaðst ekki hafa útbúið skjölin en kvað ritara lánanefndar hafa greint sér frá því að N hefði sent lánanefndinni skjölin og kvaðst vitnið því hafa talið að hann hefði útbúið þau. E vissi ekki hvers vegna mál félaganna sem um ræðir voru tekin fyrir á tveimur lánanefndarfundum eins og fram hefur komið.
Spurður um sakarefnið í 2. lið ákæru kvað E fundargerðir lánanefndar 12. júlí 2006, þar sem samþykkt var ábyrgð allt að 30. júní 2008, dekka ábyrgðina hvað snerti áhættu og skuldbinda bankann í 2 ár eins og samþykktin bæri með sé. Hann lýsti því að hvað varðar skjalafrágang hafi málið ekki verið „dekkað“. Fylgja hefði þurft til ábyrgðardeildar bankans minnisblað eða álíka um það að sameina ætti ábyrgðina í eina eins og gert var.
Vitnið O var forstöðumaður útlánaeftirlits fyrirtækjalána hjá A á árunum 2006 og 2007. Tölvupóstur vitnisins frá 7. febrúar 2007 sem fjallar um tryggingar og fleira, meðal annars tryggingagat miðað við lánareglur, eins og segir í póstinum, var borin undir hann. Hann kvaðst ekki geta tjáð sig um þetta svona löngu síðar. Hann myndi þetta ekki og hefði ekki haft tækifæri til að kynna sér gögnin í mörg ár en pósturinn var sendur í febrúar árið 2007. Hann kvaðst ekki þekkja annað til félaganna sem um ræðir en að þau hefðu haldið utan um kauprétt starfsmanna bankans. Hann kvaðst ekki hafa fylgst með störfum lánanefndar. Hins vegar hafi hlutverk hans verið að fylgjast með málum eftir á og lýsti hann nauðsyn réttrar skráningar svo að réttar upplýsingar kæmu fram við tölvukeyrslur.
Vitnið F hóf störf hjá A árið 1985 og síðar hjá A hf. og starfaði þar til síðari hluta árs 2008. Á þeim tíma sem í ákæru greinir var F rekstrarstjóri og hafði með að gera eignamál, öryggismál, greiðslubókhald, áætlanagerð og reikningsskil. Hann lýsti því að á árunum 1999 hafi verið byrjað að huga að kaupréttarkerfi fyrir bankann og var því komið á árið 2000 en bankinn naut aðstoðar bandarísks banka JP Morgan við að koma kerfinu á. Alþjóðasvið bankans hafi leitt þessa vinnu undir stjórn H. Fyrstu kaupréttarfélögin sem stofnuð voru til að verja kauprétti voru stofnuð haustið 2000 og lýsti hann því. Markmið skipulagsins sem um ræðir var að bankinn ætti alltaf rétt á því að kaupa hlutabréf í bankanum á umsömdu kaupréttargengi til að forða bankanum frá gengisáhættu sem leiddi af kaupréttarsamningum. Aðspurður kvað hann bankann hafa haft gríðarlegan hag af þessu fyrirkomulagi. Ef kaupréttarsamningarnir voru óvarðir þurfti að gjaldfæra kostnað sem af þeim leiddi í reikningum bankans. Með samningunum um kaupréttinn hafi bankinn átt rétt á því að kaupa hlutabréfin á föstu gengi og greiddi ákveðna fasta þóknun fyrir sem kom fram í ársreikningi bankans. Í upphafi fjármagnaði A kaupréttarfélögin. Ábyrgðirnar sem bankinn veitti félögunum C og D fólu í sér minni áhættu fyrir bankann en ef bankinn hefði lánað beint, eins og gert var framan af, og skýrði hann þetta og greindi frá því að á árinu 2006 hafi verið reiknað út að uppsafnaður ávinningur bankans af þessu fyrirkomulagi hafi verið um 10 milljarðar króna.
Vitnið P var lögfræðingur í einkabankaþjónustu hjá A á árinu 2006 og 2007 og skýrði störf sín í bankanum. Hann kannaðist við félögin sem hér um ræðir og staðfesti undirritun sína á báða samningana fyrir hönd félaganna en hann hafði fengið umboð frá stjórnum félaganna til undirritunar. Hann kvað A hafa verið að efna launaskuldbindingar gagnvart starfsmönnum sínum og að bankinn hefði gert tryggingarráðstafanir til að geta efnt samningana gangvart starfsmönnunum síðar. Þótt hann hafi verið í einhverjum samskiptum við starfsmenn B vegna þessa þá mundi hann það ekki frekar. P gat ekkert borið um ákvörðunarblöðin sem um ræðir vegna þessara mála og vissi ekki hvort þessi mál færu fyrir lánanefnd bankans.
P staðfesti undirritun sína á samningin sem í 2. lið ákæru greinir. Hann kvað allt hið sama eiga við um aðkomu sína og vitneskju um þann samning og um samningana samkvæmt 1. lið ákæru og rakið var.
Vitnið N var greinandi hjá útibúi A í London á árunum 2006 og 2007. Hann var spurður um tölvupóst frá 7. júlí 2006 er vitnið sendi Q, ákvörðunarblöð um ábyrgðir vegna félaganna C og D. Hann kvaðst ekki muna eftir þessu eða því að hafa útbúið ákvörðunarblöð vegna félaganna og taldi ólíklegt að hann hefði unnið slíkt skjal fyrir ákærðu Y.
Vitnið R starfaði við útlánaeftirlit A frá desember 2007 til desember 2008. Hann lýsti því hvað fólst í starfi hans hjá bankanum. Hann skýrði tölvupóst sem hann sendi starfsmönnum í bankanum 12. september 2008 og varðaði félagið C og skráningu þess hjá bankanum. Hann skýrði afdrif þessa erindis innan bankans.
Vitnið J var forstjóri B banka á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann kvað ákærða X hafa leitað til sín vegna lánveitinga B banka til C og D. Hann mundi ekki nákvæmlega hvernig málið var en X hefði verið eini starfsmaður A sem var í sambandi við vitnið vegna þessa. J kvaðst telja að hann hefði falið útlánasviði bankans að annast málið en S var framkvæmdastjóri þess. Ástæða þess að farið var fram á sjálfskuldarábyrgð A hafi verið sú að við lánveitingar hafi verið óskað eftir þeim tryggingum sem unnt var að veita og ábyrgð A hefði bætt tryggingarstöðu B.
Vitnið T var viðskiptastjóri hjá B banka á árunum 2006 og 2007. Hann kvaðst hafa verið viðskiptastjóri félaganna C og D og kannaðist við lánveitinguna sem í 1. lið ákæru greinir. Hann gat ekki borið um það hvernig það kom til að A tókst á hendur ábyrgð samkvæmt samningunum sem hér um ræðir. Hann hafi hins vegar fengið upplýsingar um þetta hjá yfirmönnum sínum í bankanum og málinu hafi því verið stillt svona upp er það var tekið fyrir á lánanefndarfundi B banka 29. júní 2006. T kvaðst ekki hafa verið í neinum samskiptum við bankastjóra A vegna þessa.
Vitnið staðfesti samninginn sem í 2. lið ákæru greinir og tilgang hans. Hann vissi ekki hvernig þetta kom til en það hafi hugsanlega verið til einföldunar að hans sögn. T kvaðst hafa verið í samskiptum við P og G hjá A vegna frágangs málsins og hafi þeir komið fram fyrirhönd félaganna.
Vitnið S var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs B banka á árinu 2006 fram á mitt ár 2007. S kannaðist við lánasamningana sem hér um ræðir. Hann mundi ekki aðkomu sína að gerð þeirra þótt hann hefði undirritað þá báða en hann taldi samningana hafa verið unna hjá hans sviði í bankanum. Hann skýrði hvernig þessi lánamál hefðu verið afgreidd innan B banka. Hann vissi ekki hvers vegna krafist var sjálfskuldarábyrgðar A.
Í gögnum málsins frá B kemur fram að félögin C og D séu á athugunarlista. S skýrði hvers vegna svo hafi verið en það hafi tengst lánshæfismatskerfi innan bankans. Hann skýrði þetta og kvað félög á athugunarlista ekki þýða að aukin áhætta tengdist félögunum.
S mundi ekki hvort hann hefði komið að lánveitingunni sem í 2. lið ákæru greinir. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa setið fund fyrirtækjasviðs B banka þar sem þess var óskað að C yfirtæki lán D að fjárhæð 4,3 milljarðar króna og handveðsett hlutabréfbréf til tryggingar á láni D væru losuð en þessi tillaga var samþykkt. Hann kvað hafa verið horft í gegnum félögin og litið til trygginga sem voru hlutabréfin í A og sjálfskuldarábyrgð A. Það hafi því ekki skipt máli út frá áhættu hvort félögin sem skulduðu sömu fjárhæð væru eitt eða tvö.
Niðurstaða
1
Ákærðu, sem bæði neita sök, eru gefin að sök umboðssvik með því að hafa í störfum sínum fyrir A, ákærði X sem bankastjóri og ákærða Y sem framkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs, bæði meðlimir í lánanefnd bankans, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til veitinga ábyrgða er þau í sameiningu samþykktu og undirrituðu fyrir hönd A sjálfskuldarábyrgðirnar sem í ákæru greinir.
Ákærðu höfðu bæði, stöðu sinnar vegna hjá A, heimild til að skuldbinda bankann eins og þau gerðu er þau samþykktu og undirrituðu fyrir hönd A sjálfskuldarábyrgðirnar sem í báðum köflum ákæru greinir. Samþykki þeirra á sjálfskuldarábyrgðunum tengdist efndum bankans á kauprétti starfsmanna eins og lýst er í ákærunni en ekki er um það deilt að því fyrirkomulagi var komið á fót á árinu 2000. Að sögn beggja ákærðu byggðist vinna þeirra varðandi kauprétt starfsmanna á þeim grunni.
Ákærðu hafa bæði neitað því að hafa misnotað aðstöðu sína og að hafa farið út fyrir heimildir til veitingar ábyrgða eins og þeim er gefið að sök.
Í ákæru segir að veiting sjálfskuldarábyrgðanna samkvæmt báðum köflum ákæru hafi brotið í bága við lánareglur A (hér á eftir nefndar útlánareglur) frá árinu 2003 og almennar útlána- og áhættureglur bankaráðs A frá árinu 2005. Því er ekki lýst í meginmáli ákæru hvaða greinar reglnanna ákærðu er gefið að sök að hafa brotið með veitingu ábyrgðanna. Hins vegar er því lýst í röksemdarkafla ákærunnar að byggt sé á því að ákærðu hafi brotið gegn eftirtöldum greinum útlánareglna: 2.6 og 3.4 um ábyrgðir og tryggingartöku, 4.1.6 um ákvörðunarblöð, 4.8 um lánanefnd og 4.8.2.1 þar sem kveðið er á um nánari útfærslu á samþykki lánanefndar. Þá eru ákærðu talin hafa brotið gegn 2. gr. almennra útlána- og áhættureglna bankaráðs A.
Í 2. gr. almennra útlána- og áhættureglna bankaráðs A segir að bankastjórn skuli setja ítarlegar útlánareglur um framkvæmd lánveitinga og ábyrgða. Síðan segir m.a. í 2. gr. reglnanna sem hér um ræðir: ,,Almennt skulu öll útlán bankans vera vel tryggð annað hvort með formlegum tryggingum eða haldi á greiðsluflæði“. Fyrir liggur að bankastjórnin setti útlánareglur eins kveðið er á um að ofan. Hér að neðan verður vikið að því hvort ákærðu hafi misnotað aðstöðu sína með samþykki sjálfskuldarábyrgðanna með hliðsjón af útlánareglum bankans. Í hinni tilvitnuðu grein er lýst stefnu bankaráðs. Tilvitnaður hluti greinarinnar er svo almennt orðaður að ákærðu verða ekki án umfjöllunar um lánareglurnar talin hafa brotið gegn 2. gr. almennra útlána- og áhættureglna bakaráðs A.
Í grein 2.6 í útlánareglunum segir að ákvörðun um ábyrgðir skuli meðhöndla eins og um lánaákvörðun sé að ræða og að ábyrgðir skuli að jafnaði vera til tiltekins tíma og veittar með öruggum tryggingum. Sambærilegt ákvæði er í grein 3.4 um tryggingar vegna lánveitinga.
Þá segir í röksemdarkafla ákærunnar að ábyrgðir samkvæmt 1. lið ákæru hafi verið veittar án utanaðkomandi trygginga. Loks er vísað til greinar 1.6 í útlánareglunum þar sem er mælt er fyrir um mat á félögum vegna lánveitinga.
Ákærðu hafa bæði borið fyrir dómi og hjá lögreglu að útlánareglur bankans eigi ekki við um ákvarðanir lánanefndar bankans. Um þetta vísast til framburðar þeirra og vitnisburðar E sem bar að engum manni innan bankans hefði dottið það í hug að ábyrgðirnar sem hér um ræðir hefðu verið veittar andstætt reglum bankans.
Í grein 1.1 í útlánareglum bankans er svofellt ákvæði: „Útlánareglum þessum er ætlað að taka til almennra lánveitinga [A] hf. Ef um er að ræða ákvarðanir um lánveitingu sem fellur ekki innan þessara reglna þarf skriflega ákvörðun frá lánanefnd eða viðkomandi fagsviði, þ.e. Fyrirtækjasviði og útlánaþjónustu Einstaklings- og markaðssviðs. Sama á við ef vafi leikur á um hvort útlánaveiting falli undir ákvæði þessara reglna.“
Í grein 4.8 í útlánareglunum segir meðal annars : „Lánanefnd tekur ákvarðanir um lánveitingar sem eru umfram útlánaheimildir annarra eða umfram þær viðmiðanir sem tilgreinar eru í útlánareglum.“ Síðan segir: „Óvenjulegar og/eða sérlega áhættusamar lánveitingar, óháðar fjárhæð skulu ávallt lagðar fyrir Lánanefnd.“
Í grein 4.8.2 í lútlánareglunum er fjallað um samþykki lánanefndar. Þar segir: „Gild samþykkt Lánanefndar er árituð af báðum bankastjórum. Ef einungis annar bankastjórinn situr fund Lánanefndarinnar er gild samþykkt árituð af bankastjóra og tveimur framkvæmastjórum. Ígildi samþykktar Lánanefndar (samþykkt á milli funda) er lánasamþykkt árituð af báðum bankastjórum. Ef annar bankastjórinn er fjarverandi er gild samþykkt árituð af bankastjóra og tveimur framkvæmdastjórum.“
Bankastjórar A voru tveir og mynduðu þeir lánanefnd. Fyrir liggur í máli þessu að ábyrgðirnar sem í 1. lið ákæru greinir voru undirritaðar af þar til bærum aðilum, ákærða X, sem var annar bankastjóra, ákærðu Y sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans og E aðstoðarframkvæmdastjóra, allt í samræmi við grein 4.8.2 í útlánareglunum og voru því gildar ákvarðanir samkvæmt reglum bankans.
Greinar 1.1 og 4.8 í útlánareglunum verða ekki skýrðar öðruvísi en svo að lánanefnd bankans hafi haft heimild til að víkja frá viðmiðunum sem vísað er til að ofan. Ákærðu báru bæði um þetta og þennan skilning á reglunum og að framkvæmdin hefði verið þessi. Fær það stoð í vitnisburði E. Engin gögn eða vitnisburður liggur fyrir um annan skilning á reglunum. Sú leið er ekki fær að byggja sakfellingu á því að skýra útlánareglur bankans þannig að þær hefði átt að framkvæma og skýra á annan hátt en tíðkaðist innan bankans.
Með framburði ákærðu, vitnisburði E og öðrum gögnum málsins er sannað að ákvörðunarblöð voru staðfest eins og lýst er í ákærunni. Ekki verður ráðið af útlánareglum bankans hvenær árita eigi að ákvörðunarblöð. Fyrir liggur ákvörðun lánanefndar eins og rakið var og verða ákærðu ekki talin hafa gerst brotleg við útlánareglur, grein 4.1.6, þótt staðfesting á ákvörðunarblöðum hafi verið á þeim tíma sem í ákæru greinir.
Sannað er með framburði ákærðu og öðrum gögnum málsins að ábyrgðarveitingarnar voru samþykktar milli funda lánanefndar eins og í ákæru greinir. Í röksemdakafla ákæru er á því byggt að með þessu hefðu ákærðu gerst brotleg við 7. lið greinar 4.8.2.1 í útlánareglum bankans. Greinin hljóðar svo „Meiriháttar útlánaákvarðanir skulu almennt ekki samþykktar á milli funda Lánanefndar.“ Þessi grein reglnanna er mjög matskennd. Ákærðu hafa bæði borið að þau hafi ekki talið ákvarðanirnar sem hér um ræðir meiriháttar í skilningi þessa ákvæðis útlánareglana enda hafi áhættustaða bankans verið bætt eins og bæði báru um. Það var í verkahring ákærðu að meta þetta. Dómurinn getur ekki hnekkt þessu mati þeirra og talið þar með að þau hafi brotið gegn ofangreindri reglu með samþykki sínu milli funda lánanefndar. Auk þess að vísa til framburðar ákærðu um þetta er vísað til vitnisburðar E og til fyrirliggjandi gagna um millifundaákvarðanir sem voru u.þ.b. helmingur ákvarðana lánanefndar á þeim tíma sem hér um ræðir.
Er því gegn neitun ákærðu ósannað að þau hafi gerst brotleg við reglu 4.8.2.1 í útlánareglum bankans.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ósannað að ákærðu hafi með veitingu ábyrgðanna sem hér um ræðir misnotað aðstöðu sína með því að fara út fyrir heimildir til veitingar ábyrgða. Ákærðu hafa þannig ekki brotið reglur bankans sem ákæran byggir á.
Ákærðu hafa frá upphafi borið að þau hafi bætt áhættustöðu bankans með því að færa ný lán sem tengdust kauprétti starfsmanna út úr bankanum, eins og gert var með ábyrgðarveitingunum sem um ræðir. Er í þessu sambandi einnig vísað til vitnisburðar F. Þá hefur ákærði X lagt fram útreikninga sem hann telur sýna bætta áhættustöðu bankans vegna þessa breytta fyrirkomulags sem hann kom á og hann skýrði fyrir dóminum og að áhættustaða bankans hefði minnkað við ábyrgðaveitingarnar samkvæmt ákærulið 1.
Ákæruvaldið hefur ekki lagt fram gögn eða útreikninga sem sýna verri áhættustöðu A eftir ábyrgðaveitingarnar sem um ræðir. Dómkvaddir matsmenn voru ekki fengnir til að meta fjártjónshættu og bera saman stöðu bankans fyrir og eftir ábyrgðaveitingar og þá hvort ákærðu hafi stefnt fé bankans í verulega hættu eins og lýst er í ákærunni.
Með vísan til alls ofanritaðs er, gegn eindreginni neitun ákærðu sem styðst við vitnisburð F og önnur gögn málsins, ósannað, að ákærðu hafi með ábyrgðarveitingunum samkvæmt ákærulið 1 stefnt fé bankans í verulega hættu eins og lýst er í ákærunni.
Tvö af skilyrðum umboðssvika samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga er að misnotkun á aðstöðu hafi átt sér stað og auðgunarásetningur. Samkvæmt öllu ofanrituðu er hvorugu skilyrði umboðsvika fullnægt og ber því að sýkna ákærðu af þessum lið ákærunnar.
2
Ákærðu hafa bæði borið að þau hafi samþykkt ábyrgðarveitinguna sem hér um ræðir en þau hafi litið svo á að hún hafi í raun verið hin sama og veitt var vegna lánanna sem í 1. lið greinir og því um að ræða framlengingu á sömu ábyrgð. Bæði báru að áhættustaða bankans hefði ekki breyst til hins verra, þvert á móti hafi hún batnað. Eins og rakið hefur verið voru ábyrgðirnar samkvæmt ákærulið 1 teknar fyrir á tveimur fundum lánanefndar bankans, fyrst 7. júlí 2006 er samþykkt var að ábyrgð bankans gilti til eins árs í senn. Síðari afgreiðsla lánanefndar var 12. júlí 2006 er samþykkt var að ábyrgð vegna sömu lána gilti: „Allt að 30.6.08“. Vísa ákærðu til þessa til stuðnings skilningi sínum á því að í raun væri um sömu ábyrgð að ræða.
Í öllum lánasamningum sem í ákæru greinir segir: „Sjálfskuldarábyrgðin gildir að öllu leyti óbreytt, þótt greiðslufrestir verði veittir með skuldbreytingum eða öðrum hætti á ofangreindum lánasamningi, uns hann er að fullu greiddur.“ Fyrir liggur að lánasamningur D var að fullu greiddur með ráðstöfunum sem hér um ræðir. Gerður var nýr lánasamningur vegna láns C þannig að lántakinn verð einn í stað tveggja áður og samþykktu ákærðu ábyrgðina. Ákærðu hafa bæði borið að þau hafi verið í góðri trú er þau undirrituðu ábyrgðina sem hér um ræðir. Þegar litið er til aðdraganda ábyrgðaveitingarinnar, samþykkis lánanefndar 12. júlí 2006 um að ábyrgðin gilti allt til 30. júní 2008 og með hliðsjón af ákvæði í skuldabréfunum sem rakið var að ofan og þeirrar afstöðu ákærðu að þau hafi bætt áhættustöðu bankans, telur dómurinn að ákærðu hafi bæði verið í góðri trú um að ekki þyrfti að bera málið upp í lánanefnd er þau samþykktu sjálfskuldarábyrgðina samkvæmt þessum ákærulið. Ábyrgðaveiting þessi var ný og hefði átt að bera hana undir lánanefnd, sbr. grein 4.8 í útlánareglum bankans. Ásetningur er saknæmisskilyrði samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt ofanritað er virt er það mat dómsins að ekki sé uppfyllt saknæmisskilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga að því er varðar misnotkun á aðstöðu. Verða ákærðu því ekki talin hafa haft ásetning til þess að misnota aðstöðu sína enda hefur ekkert annað komið fram en að ákærðu hafi aðeins haft hag bankans að leiðarljósi við ábyrgðarveitinguna.
Um fjártjónshættu og að ákærðu hafi stefnt fjármunum bankans í verulega hættu er vísað til sömu sjónarmiða sem rakin voru í ákærulið 1. Því til viðbótar er vísað til framburðar ákærða X sem hann hefur stutt eigin útreikningum um áhættustöðu bankans og til vitnisburðar F. Á sama hátt og lýst var í ákærulið 1 hefur ákæruvaldið ekki aflað fullnægjandi sönnunargagna um fjártjónshættu. Með vísan til þessa og jafnframt til sömu raka og rakin voru í ákærulið 1 er ósannað, gegn eindreginni neitun ákærðu, að þau hafi með veitingu þessarar sjálfskuldarábyrgðar stefnt fjármunum bankans í verulega hættu.
Tvö af skilyrðum umboðssvika samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga eru að misnotkun á aðstöðu og auðgunarásetningur hafi átt sér stað. Samkvæmt öllu ofanrituðu er hvorugu skilyrði umboðssvika fullnægt og ber því að sýkna ákærðu af þessum lið ákærunnar.
Í niðurlagi ákæru er fjallað um innheimtuviðvörun B til C Inc. og kröfu B í bú A. Ekki þykja efni til að fjalla um þetta hér.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin 18.119.062 króna málsvarnarlaun Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða X, og 5.982.585 króna málsvarnarlaun Helgu Melkorku Óttarsdóttur hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærðu Y. Þóknun verjenda er fyrir vinnu þeirra undir rannsókn málsins og dómsmeðferð. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar verjenda.
Ásmunda Björk Baldursdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, og Halldór Björnsson og Ásgeir Brynjar Torfason lektor í viðskiptafræði.
Dómsorð:
Ákærðu, X, og Y, eru sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin 18.119.062 króna málsvarnarlaun Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða X, og 5.982.585 króna málsvarnarlaun Helgu Melkorku Óttarsdóttur hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærðu Y.