Hæstiréttur íslands
Mál nr. 433/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 20. ágúst 2007. |
|
Nr. 433/2007. |
Ákæruvaldið(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1.mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að S skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. ágúst 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. september 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila þannig að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili mun hafa áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí 2007. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 2007.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt.], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 1. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála stendur vegna dóms í máli nr. S-1013/2007, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 14. september næstkomandi klukkan 16.
Dómfelldi var úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní síðastliðinn á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um opinberra mála nr. 19/1991. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí síðastliðinn var hann dæmdur til 20 mánaða fangelsisrefsingar, meðal annars fyrir rán. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum í dag, var dómfelldi dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi, meðal annars fyrir meiri háttar líkamsárás og tilraun til ráns. Dómfelldi lýsti því yfir eftir uppkvaðningu dómsins að hann tæki sér lögboðinn 4 vikna frest til að taka ákvörðun um hvort hann myndi óska eftir að dóminum yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald er studd þeim rökum að hætta sé á að dómfelldi haldi áfram brotastarfsemi meðan á áfrýjunarfresti stendur. Áfrýjunarfrestur vegna dóms þess, sem kveðinn var upp í dag, rennur út 13. september nk.
Þrátt fyrir ungan aldur verður að telja að dómfelli sé síbrotamaður. Samkvæmt því og með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. nr. 19/1991 ber að taka kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Helgi I. Jónsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Gæsluvarðhald yfir dómfellda, X, skal haldast til fimmtudagsins 13. september 2007 kl. 16.