Hæstiréttur íslands

Mál nr. 781/2016

Bjarnleifur Bjarnleifsson og Lilja G. Gunnarsdóttir (Óskar Sigurðsson hrl.)
gegn
Magnúsi L. Sigurðssyni og Ólafíu K. Bjarnleifsdóttur (Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Umferðarréttur
  • Innsetningargerð

Reifun

B og L, sem keypt höfðu hluta úr landi M og Ó, kröfðust þess að þau yrðu með beinni aðfarargerð sett inn í umferðarrétt um veg sem lá yfir landareign þeirra síðarnefndu. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að réttur B og L væri ekki svo skýr og ótvíræður að krafa þeirra um beina aðför yrði tekin til greina og í því sambandi m.a. vísað til ákvæðis kaupasamnings aðilanna þar sem fram kæmi að M og Ó gætu afturkallað afnotarétt B og L að veginum. Í dómi Hæstaréttar var úrskurður héraðsdóms staðfestur með þeim athugasemdum að ekki hefði verið hægt að stofna til umferðarréttarins á grundvelli deiliskipulags fyrir svæðið, líkt og B og L byggðu meðal annars á, auk þess sem þau hefðu ekki sýnt fram á að útilokað væri fyrir þau að komast með öðrum hætti um land sitt og að mannvirkjum á því en um þann hluta vegarins sem lægi um land M og Ó.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. nóvember 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að þeir yrðu með beinni aðfarargerð „settir inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt um veg sem liggur frá Árbæjarvegi yfir landareign gerðarþola með landnúmer 174770 að fasteign gerðarbeiðenda, fastanúmer 231-9532 og landnúmer 196052, og að hindranir sem gerðarþolar hafa lagt á veginn verði fjarlægðar á kostnað gerðarþola.“ Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 21. nóvember 2016. Þeir krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði keyptu sóknaraðilar af varnaraðilum hluta úr landi Grásteins í Rangárþingi ytra 25. mars 2009 og reistu sér þar heimili sem nefnt er Fagurhóll. Í 2. grein kaupsamnings vegna sölunnar sagði um afnotarétt vega á landinu að 756 metra ,,vegur sem liggur frá Árbæjarvegi að mælipunkti P17 ... verður sameiginleg eign beggja aðila. Vegur frá mælipunkti P17 að P20 við miðja hestarétt telst einkaeign seljenda. Vegur frá miðri hestarétt frá mælipunkti P20 að húsi kaupenda við Fagurhól telst þeirra einkaeign.“ Síðan sagði um þann vegaslóða sem aðilar deila um að þar til „seljendur ákveða annað hafa kaupendur afnot af veginum frá mælipunkti P17-P20. Ákveði seljendur breytt fyrirkomulag á afnotum vegarins skal kaupanda (eigendum Fagurhóls) tilkynnt það með árs fyrirvara.“

Með vísan til fyrrgreinds ákvæðis tilkynntu varnaraðilar sóknaraðilum 9. janúar 2015 að þau afturkölluðu afnotarétt sóknaraðila af veginum sem merktur væri frá mælipunktum P17 til P20. Afturköllunin tæki gildi eftir eitt ár og yrði sóknaraðilum þá óheimil umferð um veginn. Sóknaraðilar mótmæltu lokun vegarins 18. júlí 2016 og 27. sama mánaðar tilkynntu varnaraðilar að hliði á veginum yrði læst 15. næsta mánaðar. Munu varnaraðilar hafa lokað veginum í kjölfarið.

Sóknaraðilar byggja á því að fyrir liggi deiliskipulag fyrir Fagurhól sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn 12. júní 2014 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2014, sbr. auglýsing nr. 898/2014. Með því hafi verið ákveðið hvernig aðkomu að fasteign sóknaraðila skuli háttað.

Ekki var á grundvelli deiliskipulagsins unnt að stofna til umferðarréttar, þess efnis sem sóknaraðilar krefjast innsetningar í, nema að fegnu samþykki varnaraðila ellegar á grundvelli þeirra úrræða um eignarnám sem lög mæla fyrir um, sbr. 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafa sóknaraðilar ekki sýnt fram á að útilokað sé fyrir þá að komast með öðrum hætti um land sitt og að mannvirkjum á því en um þann hluta núverandi vegar sem liggur um land varnaraðila. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á það með héraðsdómi að réttur sóknaraðila sé eigi svo skýr og ótvíræður að krafa hans um beina aðför verði tekin til greina. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar Bjarnleifur Bjarnleifsson og Lilja G. Gunnarsdóttir, greiði óskipt varnaraðilum, Magnúsi L. Sigurðssyni og Ólafíu K. Bjarnleifsdóttur, samtals 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðs­dóms Suður­lands 8. nóvember 2016.

            Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. október 2016 barst dóminum 17. ágúst  2016 og var málið þingfest 6. september 2016. 

            Sóknaraðilar eru Bjarnleifur Bjarnleifsson, kt. 170151-2599 og Lilja G. Gunnarsdóttir, kt. 270252-3299, bæði til heimilis að Fagurhóli, Hellu, en varnaraðilar eru Magnús L. Sigurðsson, kt. 220356-5319 og Ólafía K. Bjarnleifsdóttir, kt. 030156-5529, bæði til heimilis að Grásteini, Hellu.

            Sóknaraðilar, hér eftir gerðarbeiðendur, krefjast þess:

„1.       Að gerðarbeiðendur verði settir inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt um veg sem liggur frá Árbæjarvegi yfir landareign gerðarþola með landnúmer 174770 að fasteign gerðarbeiðenda, fastanúmer 231-9532 og landnúmer 196052, og að hindranir sem gerðarþolar hafa lagt á veginn verði fjarlægðar á kostnað gerðarþola

2.         Að gerðarþolum verði gert að greiða gerðarbeiðanda málskostnað að skaðlausu in solidum samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“

            Dómkröfur varnaraðila, hér eftir gerðarþola, eru að kröfum gerðarbeiðenda verði hafnað. Verði fallist á kröfur gerðarbeiðenda að einhverju eða öllu leyti er þess krafist að málskot til æðri dóms fresti réttaráhrifum.

            Þá er krafist málskostnaðar in solidum úr hendi gerðarbeiðenda auk virðisaukaskatts í samræmi við málskostnaðarreikning eða samkvæmt mati dómsins.

Málavextir

            Samkvæmt gögnum málsins keyptu gerðarbeiðendur hluta úr landi Grásteins af gerðarþolum með kaupsamningi dagsettum 25. mars 2009. Er landið merkt orðinu Fagurhóll. Fagurhóll er samþykkt sem lögbýli og er á lögbýlaskrá Þjóðskrár Íslands.

            Í 2. gr. kaupsamningsins segir frá vegi sem liggur frá Árbæjarvegi að mælipunkti p17, sem samkvæmt mælingu sé 6756 metrar, sem sé sameiginleg eign beggja aðila. Vegur frá mælipunkti p17 að p20 við miðja hestarétt teljist einkaeign seljenda. Vegur frá miðri hestarétt frá mælipunkti p20 að húsi kaupenda við Fagurhól teljist þeirra einkaeign. Svo segir að þar til seljendur ákveði annað hafi kaupendur afnot af veginum frá mælipunkti p17-p20. Ákveði seljendur breytt fyrirkomulag á afnotum vegarins skuli kaupanda (eigendum Fagurhóls) tilkynnt það með árs fyrirvara. Ekkert er fjallað frekar um vegspotta þennan í skjalinu, en ekki munu liggja aðrir vegir að húsi gerðarbeiðenda.

            Framhefur verið lagt bréf gerðarþola, dags. 9. janúar 2015, til gerðarbeiðenda, sem ekki hefur verið mótmælt, með fyrirsögninni „Tilkynning um afturköllun afnotaréttar í samræmi við 2. gr. kaupsamnings um Fagurhól“. Segir að með tilkynningunni sé gerðarbeiðendum tilkynnt með vísun til 2. gr. ofanlýsts kaupsamnings, að gerðarþolar hyggist nýta sér heimild sína til að afturkalla afnotarétt gerðarbeiðenda af veginum frá mælipunkti p17 til og með p20. Er í tilkynningunni gefinn ársfrestur uns ákvörðunin taki gildi og umferð um veginn verði gerðarbeiðendum óheimili. Segir að ársfresturinn byrji að líða frá og með dagsetningu bréfsins.

            Með bréfi lögmanns gerðarbeiðenda, dags. 18. júlí 2016, var framangreindu mótmælt og þess krafist að gerðarþolar létu af öllum aðgerðum sínum til að tálma gerðarbeiðendum umferð um veginn.

            Með bréfi lögmanns gerðarþola, dags. 27. júlí 2016, var síðastgreindu bréfi svarað og tekið fram að rangt sé farið með staðreyndir og sagt að hliði á veginum muni verða lokað og læst 15. ágúst 2016.

            Með bréfi, dags. 28. júlí 2016, lögðu gerðarbeiðendur fram kæru hjá lögreglu vegna þessa. Kemur fram að lögregla hafi komið á staðinn, en jafnframt kemur fram í dagbók lögreglu að hún hafi bent aðilum á að reyna að leysa ágreining sinn með öðrum leiðum en með aðkomu lögreglu.

            Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykki þann 12. júní 2014 deiliskipulag fyrir Fagurhól í samræmi við málsmeðferðarreglur 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagið var birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2014, sbr. auglýsingu nr. 898/2014. Á deiliskipulagsuppdrætti er aðkoma sýnd frá þjóðvegi 271 um sameiginlega heimreið með Grásteini, sem er í eigu gerðarþola, þ.e. með sama hætti og skilgreint var í greindum kaupsamningi aðila. Sætti deiliskipulagið engum andmælum varðandi aðkomu og umferð af hálfu gerðarþola á kynningartíma tillögunnar.

            Gerðarþolar kveða deiliskipulagið ekki veita gerðarbeiðendum neinn rétt yfir eignum gerðarþola líkt og staðfest hafi verið í dómsmáli milli aðilanna, en ekki hefur dómur í því máli verið lagður fram þó að fram hafi verið lögð endurrit af skýrslutökum í því. Kveða gerðarþolar deiliskipulagið hafa verið unnið einhliða af hálfu gerðarbeiðenda og á grundvelli gagna sem þau sjálf, einhliða, hafi kosið að leggja til grundvallar, þ.m.t. ranga landskiptateikningu. Þá kveða gerðarþolar rangt að deiliskipulaginu hafi ekki verið mótmælt, en það hafi verið gert með bréfi 10. nóvember 2014, en það bréf hefur verið lagt fram í málinu. Kveða gerðarþolar að Sveitarfélagið Rangárþing Ytra hafi þegar ljáð máls á því að deiliskipulagið komi til með að sæta breytingum eða verða fellt úr gildi.           

Málsástæður og lagarök gerðarbeiðenda

            Gerðarbeiðendur kveða að með kaupsamningi, dagsettum 25. mars 2009, hafi þau keypt land úr landi gerðarþola. Sjálfsögð forsenda af hálfu gerðarbeiðenda hafi verið að þau gætu komist að landi sínu um greindan veg, sem þau hafi kostað sjálf lagningu á til hálfs við gerðarþola. Hafi gerðarbeiðendur enda enga hagsmuni af því að kaupa land og byggja hús sem þeim sé ómögulegt að komast að. Að sama skapi hafi gerðarþolar enga hagsmuni af því að loka umræddum vegarkafla og sé tilgangur lokunarinnar því sá einn að koma í veg fyrir aðgang gerðarbeiðenda að heimili sínu.

            Í samræmi við þennan sjálfsagða rétt gerðarbeiðenda um greiðan aðgang að heimili sínu telja þeir rétt, og í samræmi við almennar túlkunarreglur á sviði samninga- og kröfuréttar, að túlka áðurnefnda 2. gr. kaupsamningsins, sem mælir fyrir um afnotarétt gerðarbeiðenda af þeim hluta vegarins sem er í einkaeigu gerðarþola, þannig að skyldu gerðarþolar nýta sér ákvæðið og breyta fyrirkomulagi á afnotum vegarins þyrfti annar vegur eða aðkoma að koma í staðinn. Hafi það verið forsenda gerðarbeiðenda fyrir kaupunum að afnot af vegi að landi þeirra fylgdi kaupunum. Þá hafi það einnig verið forsenda fyrir þátttöku gerðarbeiðenda í kostnaði við uppbyggingu vegarins að þeir gætu átt leið um veginn að heimili sínu. Fái þessi túlkun og hljómgrunn í réttarframkvæmd Hæstaréttar sem hafi talið það sjálfsagða forsendu af hálfu kaupanda fasteignar að hann geti komist að landi sínu. Hafi rétturinn því litið svo á að landi og lóðum fylgi réttur til umferðar um þá vegi sem að þeim liggja, enda megi ekki komast að þeim á annan hátt.

            Þá eigi gerðarbeiðendur einnig umferðarrétt að heimili sínu samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Fagurhól, sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn Rangárþings ytra 12. júní 2014 og tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2014. Gerðarþolar geti því ekki lokað fyrir aðgengi eða umferð um greindan veg, nema búið sé að tryggja aðra aðkomu að fasteign gerðarbeiðanda.

            Í þessu sambandi minna gerðarbeiðendur á að óheimilt sé að tengja vegi og götur þjóðvegum nema í samræmi við skipulag og að fenginni heimild Vegagerðarinnar, sbr. 29. gr. vegalaga nr. 80/2007. Fyrir liggi samþykkt deiliskipulag, sem geri grein fyrir aðkomu að landi og fasteign gerðarbeiðenda. Þá liggi fyrir að bæði gerðarbeiðendur og gerðarþolar teljist sameiginlega veghaldarar þessa vegar, sem liggi að fasteign gerðarbeiðenda, í skilningi 6. gr. vegalaga. Af því leiði að óheimilt sé að setja hlið fyrir veginn nema með samþykki beggja aðila, hvað þá að læsa hliði og útiloka aðkomu og umferð, sbr. 53. gr. greindra laga.

            Gerðarbeiðendur kveðast hafa, þrátt fyrir að þau telji að gerðarþolar séu skuldbundnir til að tryggja aðkomu að fasteign þeirra, leitað leiða til að breyta aðkomu sinni einfaldlega til að vera laus undan samskiptum við gerðarþola. Kveðast þau hafa óskað eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi Fagurhóls, sem felist í nýrri aðkomu. Sé málið til meðferðar hjá sveitarstjórn og bíði m.a. umsagnar Vegagerðarinnar. Slíkur ferill taki hins vegar tíma, bæði afgreiðsla skipulags og síðan eftirfarandi vegaframkvæmdir, og í dag sé staðan sú að eina aðkoma og umferðarréttur gerðarbeiðanda að fasteign þeirra sé um núverandi veg, sem gerðarþolar hindri með öllu. Gerðarbeiðendur muni, ef sveitarstjórn samþykkir breytingu á gildandi deiliskipulagi, færa aðkomu að eign sinni til þess að vera laus við fyrrgreind samskipti við gerðarþola. Muni þau hins vegar krefja gerðarþola um allan kostnað sem af þessu hljótist.

            Sé ljóst að gerðarbeiðendur eigi lögbundna og samningsbundna kröfu á því að fara óhindrað um veg þann sem sem liggi að heimili þeirra. Gerðarþolar hafi ekki sinnt áskorunum gerðarbeiðenda um að láta af aðgerðum sem feli í sér tálmanir á aðgengi þeirra að heimili sínu og sé því nauðsynlegt að gera kröfu um að þeir verði settir með beinni aðfarargerð inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt um veginn, sbr. 1. mgr. 78. gr., sbr. og 72. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Telja gerðarbeiðendur réttindi sín vera svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með sýnilegum sönnunargögnum, sbr. 1. mgr. 78. gr. og 83. gr. laga nr. 90/1989. Séu því skilyrði 1. mgr. 78. gr. laganna uppfyllt að mati gerðarbeiðenda.

            Um lagarök vísa gerðarbeiðendur til laga um aðför nr. 90/1989, einkum 73., 78. gr. og 83. gr. laganna. Þá vísa gerðarbeiðendur einnig til skipulagslaga nr. 123/2010 og vegalaga nr. 80/2007, einkum 29. og 53. gr. laganna. Þá er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Loks vísast til meginreglna samninga- og kröfuréttar um túlkun samninga.

Málsástæður og lagarök gerðarþola

                Gerðarþolar vísa til þess að gerðarbeiðendur hafi athugasemdalaust undirritað kaupsamning þar sem þau keyptu land af gerðarþolum. Hafi gerðarbeiðendur að fullu verið meðvituð um að hluti þess vegar sem lá að húsi þeirra væri einkaeign gerðarþola og þeim frjálst að afturkalla afnot gerðarbeiðanda með ákveðnum hætti. Hafi  gerðarbeiðandi Bjarnleifur meira að segja átt í sérstökum samskiptum við samningsgerðina um einmitt þetta tiltekna atriði. Komi m.a. fram að gerðarbeiðandi viðurkenni að það sé á herðum þeirra að leggja nýjan veg þegar afnot af einkaveginum hafi verið afturkölluð. Samning þennan beri að halda að efni sínu sbr. lög nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerning. Gerðarbeiðendur séu bundnir af undirritun sinni á samninginn um efni hans, hvort sem þeim kunni nú að líka betur eða verr.

                Gerðarþolar kveða að makalausar séu fullyrðingar gerðarbeiðenda um að það hafi verið „forsenda af hálfu gerðarbeiðenda að þau gætu komist að landi sínu um greindan veg, sem þau kostuðu sjálf lagningu á hálfs við gerðarþola“. Sá málatilbúnaður standist enga skoðun. Forsenda gerðarbeiðenda fyrir kaupunum hafi verið sú sem fram komi í samningi, um rétt gerðarþola til að afturkalla not þeirra af veginum. Þannig hafi gerðarbeiðendur sjálfir ákveðið að það væri ekki forsenda kaupanna að þau gætu alla tíð komist að húsi sínu um þann vegarkafla sem hér er deilt um. Hafi gerðarbeiðendur viðurkennt bæði að hafa lesið og skilið samninginn og vísa gerðarþolar til skýrslna þeirra fyrir héraðsdómi um það svo og til efnislegrar niðurstöðu héraðsdómsins. Kveða gerðarþolar að ítrekað hafi verið skorað á gerðarbeiðendur að sýna fram á að þau hafi kostað einhverju til við lagningu vegarins þar sem þau telji þann málatilbúnað sér hagfelldan. Það hafi ekki verið gert og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að vegurinn hafi verið lagður að jöfnu með aðilum.

Fullyrðing gerðarbeiðenda um að það sé „ sjálfsagður“ réttur að aka um annarra manna eignir, sé nokkuð umhugsunarverð. Það sé ekki sjálfsagður réttur manna að njóta eigna annarra nema sérstaklega knýjandi aðstæður kalli á það. Vísa gerðarþolar m.a. til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 í þessu sambandi. Þá sé þessi réttur ekki sjálfsagðari en svo að gerðarþolar hafi samþykkt að lúta þessari takmörkun og tekið á sig skyldu um að annast nýtt aðgengi að húsi sínu, hvað svo sem þau nú reyni að halda fram. Þá séu engin fyrirmæli laga um sjálfsagðan rétt manna til að geta ekið að húsdyrum hjá sér.

                Vísa gerðarþolar til þess að mál þetta hafi verið höfðað 16 ágúst 2016 en þá hafi verið liðnir ríflega 19 mánuðir þar sem legið hafi fyrir að gerðarþolar hygðust nýta rétt sinn og afturkalla umferðarréttinn. Hafi þessar fyrirætlanir engum sérstökum mótmælum sætt, fyrr en með bréfi lögmanns gerðarþola þann 18 júlí sl. Þáverandi lögmaður gerðarbeiðenda hafi þó sent lögmanni gerðarþola tölvupóst þann 16. nóvember 2015, þar sem beðið hafi verið um að hinkrað yrði með lokun þar til héraðsdómsmálinu væri lokið, ekki að fallið yrði frá henni. Það hafi og verið gert. Þannig sé það fyrirsláttur einn að nú séu gerðarbeiðendur komnir í aðgerðir til að leggja sér nýja heimreið og slíkt taki tíma. Utan þess að ekki verði séð að deiliskipulagsbreytingu þurfi til að leggja vegstúf frá sameiginlegum vegi að húsi gerðarbeiðenda.

                Í áðurgreindu héraðsdómsmáli hafi m.a. verið fjallað um gildi þess deiliskipulags sem gerðarbeiðendur hafi fengið samþykkt án þess að gerðarþolar hafi fengið það séð, og segi þar „þá ráðast landamerki jarðanna ekki af hnitsettri teikningu/uppdrætti í samþykktu deiliskipulagi fyrir Fagurhól, eins og dómkrafa stefnenda byggir á, en umrætt deiliskipulag létu stefnenda [sic] gera fyrir jörð sína án aðkomu stefndu. Með slíkri einhliða framsetningu landamerkja verða stefndu ekki svipt eign sinni eða landamerkjum breytt. Breytir þar engu um þó svo stefndu hafi ekki gert athugasemdir við skipulag…“ Þessi niðurstaða héraðsdóms sæti ekki endurskoðun í þessu máli sbr. 4. tl. 116. gr. l. 91/1991 um meðferð einkamála og 2. mgr. 83. gr. l. 90/1989, og beri því að líta á umþrætt deiliskipulag sem markleysu við úrlausn þessa máls.

                Í samræmi við vegalög nr. 80/2007 sé eigandi einkavegar veghaldari hans. Þannig séu gerðarþolar og gerðarbeiðendur veghaldarar vegarins sem liggur frá Árbæjarvegi að mælipunkti p17. Frá þeim stað séu gerðarþolar einir veghaldarar í skilningi laganna. Vísa gerðarþolar þá til 53. gr. sömu laga þar sem komi fram að veghaldara sé heimilt að setja hlið um veg sinn. Þurfi ekki að skýra eða réttlæta slíka lokun sérstaklega þar sem um einkaeign sé að ræða. Þar af leiðandi séu framkvæmdir, svo sem hraðahindranir sem gerðarþolar hafi komið fyrir, þeim að fullu heimil og aftri ekki umferð um veginn. Varðandi gífuryrði sem gerðarþolar kveða að séu í aðfararbeiðni um „spjöll“ á veginum og að gerðarþolar fari „hamförum í tilraunum sínum til að koma í veg fyrir að gerðarbeiðendur komist að heimili sínu.“ telja gerðarþolar að þau dæmi sig sjálf að trúverðugleika, m.a. með tilliti þeirrar staðreyndar að hlið það sem gerðarþolar settu upp hafi staðið ólæst til 15. ágúst sl. Séu því engin tilefni til að verða við kröfum um að fjarlægja hindranir.

                Gerðarþolar kveða að sérstaklega þurfi dómstóllinn að hafa það í huga við úrlausn þessa máls að ranglega sé með það farið í málatilbúnaði gerðarbeiðenda að þeim sé aftraður aðgangur að húsi sínu eða landi. Vegurinn sem liggi frá Árbæjarvegi að einkavegi gerðarþola liggi á landamerkjum jarðanna. Þannig hafi gerðarbeiðendur fullt og óskorað aðgengi að landi sínu og húsnæði. Það aðgengi kunni að vera þeim ekki þóknanlegt en það fari fjarri að þau komist ekki að fasteign sinni eða landi með öðrum hætti. Það að sú staða sé nú uppi að þau gangi veginn sjálfan, sem þeim sé óheimilt, eða smá spöl yfir land sitt til að komast að húsi sínu sé eðlileg afleiðing þess sinnuleysis sem gerðarbeiðendur hafi sýnt í 19 mánuði. Réttlæti það á engan hátt að fallast á kröfur þeirra en gerðarþolum verði ekki gert að sæta þvingunaraðgerðum vegna seinagangs og framtaksleysis gerðarbeiðenda.

                Gerðarþolar benda á að tilgangur beinna aðfarargerða sé sá að veita gerðarbeiðanda umráð réttar sem telja má svo ljóst að hann njóti, að sönnur verði lagðar á með framlagningu skjala, sbr. 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Í málinu sé langur vegur frá að réttur gerðarbeiðenda geti í fyrsta lagi talist augljós í skilningi aðfararreglna, í öðru lagi þess þá síður að gögn málsins verði talin bera með sér að gerðarþolar eigi þann rétt sem þau krefjast. Þvert á móti kveða gerðarþolar að öll gögn málsins bendi til þess að verið sé að reyna knýja fram rétt til handa gerðarbeiðendum, vegna sinnuleysis þeirra, á kostnað gerðarþola. Ennfremur vegna þess að þau telji sig eiga sérstakan rétt til að geta keyrt um annarra manna eigur upp að húsdyrum hjá sér. Það megi telja fráleitt, en í besta falli ljóst að verulega varhugavert sé að láta gerðina ná fram að ganga sbr. 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga.

                Ríkar kröfur séu gerðar til styrkleika sönnunargagna sem lögð eru fram í málum sem varða beina aðför. Slík gögn þurfi að styðja að gerðarbeiðendur eigi þau réttindi sem þau haldi fram. Ekkert efnislegt gagn sé lagt fram sem gæti verið skilið þannig að umferðarréttur sé gerðarbeiðenda, eða nauðsyn þeirra til að fá slíkan rétt yfirstígi skuldbindandi samning og stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Einu gögn gerðarbeiðenda sem snúa að efnislegri úrlausn séu kaupsamningur og tilkynning um virkjun á 2. gr. hans. Þá sé lagt fram deiliskipulag sem áður hafi verið lýst af hverju skipti engu um þessa úrlausn og gerðarbeiðendur séu að fullu meðvitaðir um. Tilhæfulaus kæra til lögreglu og urmull ljósmynda sem enga þýðingu hafi um efnislega úrlausn og sýni einfaldlega aðstæður. Hvergi sé deilt um að búið sé að loka einkavegi gerðarþola og gerðarbeiðendur þurfi að finna sér aðra leið upp að húsdyrum. Gerðarbeiðendur sæki sér ekki réttindi að lögum fyrir að þurfa að ganga armæðulega nokkra metra heim til sín, jafnvel þó þau hafi verið í verslunarleiðangri.

                Að öllu framangreindu virtu sé þannig hvorki efnisleg nauðsyn né lagaskilyrði fyrir því að verða við kröfum gerðarbeiðenda og beri því að hafna þeim og dæma gerðarþolum málskostnað.

                Um lagarök vísa gerðarþolar til laga um aðför nr. 90/1989, laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga, vegalaga nr. 80/2007 og stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða

                Í máli þessu gera gerðarbeiðendur kröfu um að verða settir inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt einsog nánar greinir í dómkröfum. Er af hálfu gerðarbeiðenda vísað til ákvæða laga um aðför nr. 90/1989 einkum greina nr. 73., 78. og 83, auk ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og vegalaga nr. 80/2007, einkum 29. og 53. gr. laganna.

                Fyrir liggur að þegar gerðarbeiðendur keyptu umrætt land af gerðarþolum þá var um það samið þeirra á milli, að gerðarþolar ættu í sinni einkaeign þann hluta vegarins sem er á milli mælipunktanna p17 og p20. Þá var um það samið að gerðarbeiðendur hefðu afnot eða umferðarrétt um veginn þangað til gerðarþolar myndu ákveða annað. Var samið um hvernig skyldi þá með fara, þ.e. að afnotarétturinn væri uppsegjanlegur með eins árs fyrirvara. Kemur ekkert fram um það í samningi aðilanna að fyrirvarar hafi verið verið gerðir um þetta af hálfu gerðarbeiðenda eða að það hafi verið forsenda hjá þeim við samningsgerðina að málum yrði háttað á annan veg.

                Gerðarbeiðendur vísa jafnframt til deiliskipulags þar sem segir að aðkoma að svæðinu sé um veg þennan, sem að hluta til liggur milli mælipunkta p17 og p20. Sá hængur er þó á að ekki mælir deiliskipulagið fyrir um það hversu langt skuli ekið eftir veginum eða hvort ekið skuli alla leið í hlað á Fagurhóli, en jafnframt verður ekki betur séð á korti sem sýnir deiliskipulagið, en að sá hluti vegarins sem liggur milli mælipunktanna p17 og p20 sé utan deiliskipulagsins.

                Að mati dómsins geta gerðarbeiðendur ekki leitt af efni 29. og 53. gr. vegalaga nr. 80/2007 að þeir eigi umræddan umferðarrétt sem sé svo skír sem áskilið er í 78. sbr. 83. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, en þess er að geta að í 53. gr. vegalaga segir að enginn megi gera girðingu yfir veg með hliði á vegi án leyfis veghaldara nema um einkaveg sé að ræða, en fyrir liggur að aðilar sömdu um að vegspottinn væri í einkaeigu gerðarþola.

                Er því sá réttur sem gerðarbeiðendur kveðast eiga ekki svo skír og ótvíræður sem áskilið er í ákvæðum aðfararlaga til að aðfarargerð megi fara fram og ber að synja kröfu gerðarbeiðenda sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

            Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Kröfu gerðarbeiðenda, Bjarnleifs Bjarnleifssonar og Lilju G. Gunnarsdóttur, um beina innsetningargerð, er hafnað.

                Málskostnaður fellur niður.