Hæstiréttur íslands

Mál nr. 403/2002


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Verðbréfafyrirtæki
  • Umboð
  • Skuldabréf


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. febrúar 2003.

Nr. 403/2002.

Kristín Högnadóttir

 

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

gegn

 

Landsbanka Íslands hf. og

 

(Reinhold Kristjánsson hrl.)

 

Jóni Heiðari Guðmundssyni

 

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Skaðabótamál. Verðbréfafyrirtæki. Umboð. Skuldabréf.

K krafði L hf. og J um greiðslu skaðabóta vegna tveggja skuldabréfa sem áttu rót sína að rekja til vanskilaskulda tveggja sona hennar við L hf. sem hefðu meðal annars verið samkvæmt veðskuldabréfum og umboði sem sonur K hafði falsað á nafn hennar. Hefðu veðskuldabréfin verið gefin út að ráðleggingum J og andvirði þeirra ráðstafað af starfsmönnum Landsbréfa hf. til L hf. án þess að þeir hefðu haft til þess umboð frá K. Væru brot L hf. og J í því fólgin að svipta hana þeirri vörn gegn greiðslu vanskilaskuldanna að bréfin sem þær byggðust á væru fölsuð. Fallist var á það með héraðsdómi að ósannað væri að J hefði vitað eða mátt vita að vanskilaskuldirnar hvíldu ekki á öruggum heimildarskjölum. Þá mátti fallast á það með K að varlegra hefði verið af starfsmönnum Landsbréfa hf. að ganga eftir skriflegu umboði frá henni varðandi viðskiptin. Eins og málatilbúnaði K var háttað yrði hins vegar ekki á öðru byggt en að með útgáfu bréfanna og eftirfarandi ráðstöfun þeirra til L hf. hefðu veðskuldir þær, sem hvíldu á húseign hennar, lækkað verulega og hefði þetta þannig verið henni til hagsbóta. Yrði hún því ekki talin hafa sannað að hún hefði beiðið tjón, hvorki af völdum J né starfsmanna Landsbréfa hf. og L hf. Voru L hf. og J því sýknaðir af kröfum K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. ágúst 2002. Hún krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða sér 6.600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20 júní 1996 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi Landsbanki Íslands hf. krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og honum dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á dómkröfum áfrýjanda og að málkostnaður verði felldur niður.

Stefndi Jón Heiðar Guðmundsson krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með bréfi 11. nóvember 2002 féll áfrýjandi frá öllum kröfum sínum á hendur Herði Þór Ástþórssyni sem stefnt var í héraði. Hefur Hörður Þór jafnframt lýst því yfir að hann geri engar kröfur fyrir Hæstarétti. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi jafnframt frá öllum kröfum á hendur Högna Sigurjónssyni. Var því þá lýst yfir af hálfu Högna að hann gerði engar kröfur fyrir Hæstarétti. Jafnframt kom fram að stefndi Jón Heiðar Guðmundsson er hagfræðingur en ekki endurskoðandi, eins og segir í héraðsdómi.

II.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Áfrýjandi sækir stefndu in solidum um greiðslu skaðabóta. Hún reisir bótaskyldu þeirra aðallega á þeim grunni að kröfur samkvæmt tveimur skuldabréfum, útgefnum af henni 25. júní 1996 með veði í húseign hennar að Völvufelli 26 í Reykjavík, hvoru að fjárhæð 2.800.000 krónur, sem leiddu til þess að húseignin var seld á nauðungaruppboði 5. nóvember 2001, hafi átt rót sína að rekja til vanskilaskulda tveggja sona hennar við Landsbanka Íslands hf. Þessar vanskilaskuldir, alls að fjárhæð 7.824.048 krónur, hafi meðal annars verið samkvæmt veðskuldabréfum og umboði, sem sonur áfrýjanda hafi falsað á nafn hennar. Samtals munu veðlán á húseigninni vegna sonar hennar hafa numið 6.023.845 krónum. Veðskuldabréfin tvö hafi verið gefin út að ráðleggingum stefnda Jóns Heiðars og andvirði þeirra hafi verið ráðstafað af starfsmönnum Landsbréfa hf. til Landsbanka Íslands hf. án þess að þeir hafi haft til þess umboð frá henni. Brot stefndu séu í því fólgin að svipta hana þeirri vörn gegn greiðslu vanskilaskuldanna að bréfin sem þær byggðust á væru fölsuð. Stefndi Landsbanki Íslands hf. yfirtók rekstur Landsbréfa hf. 28. desember 2001.

Fallast verður á það með héraðsdómi að ósannað sé að stefndi Jón Heiðar hafi vitað eða mátt vita að vanskilaskuldirnar hvíldu ekki á öruggum heimildarskjölum, en ráðleggingar hans voru gefnar á fundi með áfrýjanda og sonum hennar. Málatilbúnaður hennar í héraði var upphaflega á því reistur að hún hafi á fundi þessum vitað um það að skjölin hefðu verið fölsuð og gefið bréfin út þar sem hún hafi ekki viljað kæra son sinn. Við aðalflutning málsins í héraði hélt hún því hins vegar fram að hún hafi ekki vitað um þetta fyrr en síðar. Þetta er þó í andstöðu við framburð hennar fyrir lögreglu og stangast á við önnur gögn málsins. Nýju veðskuldabréfin voru útbúin hjá Landsbréfum hf. fyrir son áfrýjanda og samkvæmt framburði hans undirritaði móðir hans þau í hans viðurvist og ráðstafaði hann andvirði þeirra til Landsbanka Íslands hf. eftir því sem um var talað á áðurgreindum fundi hjá stefnda Jóni Heiðari. Á þessum tíma hvíldu á húseign áfrýjanda hærri veðskuldir vegna skulda sona hennar við Landsbanka Íslands hf. en nam útgefnum skuldabréfum og fengust þær lækkaðar við útgáfu bréfanna og eftirfarandi skuldaskil.

Fallast má á það með áfrýjanda að varlegra hefði verið af starfsmönnum Landsbréfa hf. að ganga eftir skriflegu umboði frá henni varðandi viðskipti þau sem um getur í málinu. Eins og málatilbúnaði áfrýjanda er háttað verður hins vegar ekki á öðru byggt en að með útgáfu bréfanna og eftirfarandi ráðstöfun þeirra til Landsbanka Íslands hf. hafi veðskuldir þær, sem hvíldu á húseign hennar, lækkað verulega og hafi þetta þannig verið henni til hagsbóta. Hún verður því ekki talin hafa sannað að hún hafi beðið tjón, hvorki af völdum stefnda Jóns Heiðars né starfsmanna Landsbréfa hf. og stefnda Landsbanka Íslands hf. Með þessum athugasemdum en annars með vísun til röksemda héraðsdóms verður hann staðfestur að því er þessa aðila varðar um annað en málskostnað til stefnda Landsbanka Íslands hf.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti til stefnda Jóns Heiðars, svo sem nánar greinir í dómsorði,  en málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður að öðru leyti.

Gjafsóknarkostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað til stefnda Landsbanka Íslands hf.

Áfrýjandi, Kristín Högnadóttir, greiði stefnda Jóni Heiðari Guðmundssyni 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður að öðru leyti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2002.

          Mál þetta, sem dómtekið var 26. júní sl., var höfðað með stefnu, birtri 10. og 12. nóv. 2001 og áritaðri um birtingu 16. sama mánaðar.

          Stefnandi er Kristín Högnadóttir, kt. 251036-3739, Völvufelli 26, Reykjavík.

          Stefndu eru Landsbanki Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, Landsbréf hf, kt. 520789-3329, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, Högni Sigurjónsson, kt. 250156-4059, nú til heimilis í Þorsteinshúsi, Ytri-Skógum, Rangárvallasýslu, Hörður Þór Ástþórsson, kt. 111159-5219, Rauðalæk 8, Reykjavík, og Jón Heiðar Guðmundsson, kt. 250158-4409, Hólahjalla 3, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda:

          Að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 6.600.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. júní 1996 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfu á 12 mánaða fresti, fyrst  þann 20. júní 1997.

          Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál þar sem tekið verði tilliti til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyld og til þess útlagða kostnaðar sem stefnandi þurfi að leggja af hendi við rekstur málsins.

Dómkröfur stefnda, Landsbanka Íslands hf., sem hefur yfirtekið rekstur stefnda, Landsbréfa hf.:

          Aðallega er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.

          Til vara er þess krafist að stefnukrafan verði stórlega lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Dómkröfur stefnda, Högna Sigurjónssonar:

          Krafist er verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda og að stefnda verði aðeins gert að greiða dráttarvexti frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.

          Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað að mati dómsins ásamt 24,5% virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda, Harðar Þórs Ástþórssonar:

          Krafist er sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að meðtöldum virðisaukaskatti.

          Til vara er þess krafist að málskostnaður falli niður.

Endanlegar dómkröfur stefnda, Jóns Heiðars Guðmundssonar:

          Krafist er sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins ásamt 24,5% virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

          Til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega, að stefnda verði aðeins gert að greiða dráttarvexti frá dómsuppsögu til greiðsludags og að málskostnaður verði felldur niður.

          Upphaflega krafðist stefndi, Jón Heiðar Guðmundsson, frávísunar málsins að því er hann varðaði. Með úrskurði uppkveðnum 16. maí sl. var frávísunarkröfu þessari hafnað.

          Stefnandi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 11. júní sl.

Málavextir

          Á árinu 1992 stofnuðu synir stefnanda, þeir stefndi, Hörður Þór Ástþórsson, og stefndi, Högni Sigurjónsson, sameignarfélagið Smurstöðina Smiðshöfða 7 sf. Í sambandi við þennan rekstur bræðranna gáfu stefnandi og þáverandi eiginmaður hennar, Ástþór Guðmundsson, bræðrunum veðleyfi í íbúð sinni að Völvufelli 26, Reykjavík, fyrir 1.500.000 kr. láni. Verkaskiptingu bræðranna við rekstur smurstöðvarinnar var þannig hagað að stefndi Högni sá um fjármál og bókhald fyrirtækisins.

          Reksturinn mun ekki hafa gengið vel. Þann 5. janúar 1994 falsaði stefndi Högni umboð frá stefnanda til sín og sama dag gaf hann út á grundvelli umboðsins skuldabréf að fjárhæð 1.100.000 kr., tryggt með veðrétti í framangreindri íbúð stefnanda. Þann 5. maí 1994 gaf stefndi Högni út í nafni sameignarfélagsins tryggingarbréf að fjárhæð 2.000.000 kr. Þar var tryggingin veðréttur í framangreindri íbúð. Við útgáfu þess bréfs hafði stefndi Högni falsað undirskriftir stefnda Harðar sem meðútgefanda, undirskrift stefnanda og Ástþórs, þáverandi eiginmanns stefnanda, fyrir samþykki þinglýstra eiganda íbúðarinnar. Þann 5. sept. 1995 gaf stefndi Högni út skuldabréf að fjárhæð 660.000 kr. til Vátryggingafélags Íslands  hf. Á það bréf hafði stefndi falsað nafn stefnanda sem sjálfskuldarábyrgðarmanns.

          Stefndi Hörður gekk úr félagi við stefnda Högna um rekstur smurstöðvarinnar um mitt ár 1994. Að hans sögn gerði hann það eftir að hann hafði fengið vitneskju um hina fölsuðu löggerninga. Vitneskjuna kvaðst stefndi Hörður hafa fengið eftir að fjölskyldumeðlimir höfðu sett sig í samband við hann vegna fjárhagsskuldbindinga sem þeir bræður áttu að hafa lagt á móður þeirra. Stefndi Hörður kvaðst hafa ráðlagt föður sínum að kæra málið strax til lögreglu.             Að sögn stefnda Harðar varð það að samkomulagi með honum og stefnda Högna þá er stefndi Hörður gekk úr rekstrinum að stefndi Högni tæki yfir allar eignir og skuldir sameignarfélagsins.

          Rekstur smurstöðvarinnar gekk illa og framangreind bréf féllu í gjalddaga. Stefndi Högni leitaði til stefnda, Jóns Heiðars Guðmundssonar endurskoðanda, um aðstoð við að greiða úr fjárhagsvanda sínum og reyna að forða eign stefnanda að Völvufelli 26 frá uppboði. Þeim stefnda Jóni og stefnda Högna sýndist vænlegast að tekið yrði lán til 25 ára hjá stefnda, Landsbréfum hf., og lánið yrði notað til þess að greiða gjaldfallnar skuldir við stefnda, Landsbanka Íslands hf., sem að sögn voru þá um 7.800.000 kr., og fá umtalsverða niðurfellingu eða lækkun á skuldinni með greiðslu þessari.

          Vegna þessa boðaði stefndi Jón, stefnanda, stefndu, Högna og Hörð, og Ástþór Guðmundsson, föður stefnda Harðar og þáverandi eiginmann stefnanda, á fund á skrifstofu sína að Garðastræti 36 í júní 1996. Á fundinn mættu framangreindir aðilar  nema menn greinir á um það hvort Ástþór Guðmundsson mætti eða ekki.

          Á fundinum var rædd framangreind hugmynd um nýja lántöku. Niðurstaðan varð að nýtt lán yrði tekið samtals að fjárhæð 5.600.000 kr. Vegna lántöku þessarar gaf stefnandi út tvö skuldabréf hinn 25. júní 1996, hvort að fjárhæð 2.800.000 kr. Að sögn stefnda Högna og stefnda Jóns var svo umsamið að stefndi Högni myndi einn sjá um greiðslur af öðru bréfinu en stefndi Hörður um greiðslur af helmingi hins bréfsins en stefnandi um greiðslur af helmingi þess, a.m.k. til að byrja með. Þessu er neitað af stefnda Herði. Hann kveðst ekki hafa samþykkt að greiða neitt. Hvernig sem það var varðandi samþykki stefnda Harðar var lánið tekið hjá stefnda Landsbréfum hf. og andvirði lánsins notað til þess að greiða skuldir við Landsbankann.         

          Ekki var staðið við umsamdar greiðslu af framangreindum skuldabréfum.       Samkvæmt framlögðum skjölum greiddi stefndi Högni vegna annars skuldabréfsins 31.000 kr. hinn 18. júní 1997, 55.000 kr. 8. júlí s.á., 25.000 kr. 11. nóv. s.á. og 23.000 kr. 19. des. s.á.

          Meðal skjala málsins er mappa með kvittunum stíluðum á stefnanda vegna afborgana af öðru framangreindra bréfa. Ekki er í sóknarskjölum gerð grein fyrir samtölu þessara greiðslna. En fyrsta greiðsla virðist hafa farið fram 3. nóv. 1997 og sú síðasta 5. júní 2000.

          Á árinu 1998  skrifaði lögmaður stefnanda stefnda, Landsbréfum hf.,  og óskaði eftir upplýsingum vegna skuldabréfanna frá 25. júní 1996. Í svarbréfi Landsbréfa hf. kemur fram að bréf þessi hafi verið seld og stefnda, Landsbanka Íslands hf., greiddar 4.578.904 kr. Eftir það hafi verið aflýst því sem á hvíldi á íbúð stefnanda að Völvufelli 26.

          Með bréfi, dags. 10. sept. 1999, til ríkislögreglustjóra kærði lögmaður stefnanda og bað um opinbera rannsókn á undirskrift sona stefnanda, þeirra stefndu, Högna og Harðar, undir tvö skuldabréf, þ.e. tryggingarbréf að fjárhæð 2.000.000 kr., útgefið 5. maí 1994, til Landsbanka Íslands, skuldabréf að fjárhæð 660.000 kr., útgefið 5. sept. 1995, til Vátryggingafélags Íslands hf. og umboð til Högna Sigurjónssonar frá 5. janúar 1994. Á grundvelli þess umboðs hafi Högni gefið út skuldabréf þann 5. janúar 1994 að fjárhæð 1.100.000 kr. til Smiðshöfða 7 hf., Hvassaleiti 66, Reykjavík.

          Í kæru þessari segir m.a. "Eins og fram kemur í ofangreindu bréfi mínu til Landsbréfa hf. þann 06.07.1998 gaf Kristín út tvö bréf til Landsbréfa hf. þann 25.06.1996 til að bjarga sér frá þeim vandræðum sem ofangreindar falsanir höfðu fyrir hana fjárhagslega, þar sem hún gat ekki hugsað sér að kæra syni sína til lögreglu fyrir refsiverða  hegðun.---"

          Í framhaldi af kæru þessari fór fram lögreglurannsókn og í framhaldi af því var höfðað mál á hendur stefnda Högna og  var hann dæmdur í tíu mánaða fangelsi og var refsingin skilorðsbundin til þriggja ára. Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 9. janúar 2002, til stefnda Harðar var honum tilkynnt um niðurfellingu málsins hvað hann varðaði.

          Hinn 5. nóv. 2001 fór fram nauðungarsala á íbúð stefnanda til lúkningar uppboðskröfum Eignarhaldsfélags Alþýðubankans og Lífeyrissjóðs sjómanna.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

          Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu á því að stefnandi hefði getað beitt þeirri vörn gegn greiðslu bréfanna, sem geymdu falsaða undirskrift með hennar nafni eða voru reist á fölsuðu umboði hennar, að nafn hennar væri falsað á bréfin. Stefndu, Högni og Jón Heiðar, hafi gert sér grein fyrir þessum staðreyndum eða átt að gera það, alla vega stefndi, Jón Heiðar. Þessir aðilar hafi því með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi valdið stefnanda tjóni sem nemi stefnukröfu.

                Gagnvart stefnda, Landsbréfum hf., byggir stefnandi á því að þeir starfsmenn félagsins sem komið hafi að málinu hafi sýnt af sér sök og liggi hún helst í því að félagið hafi ekki mátt ráðstafa andvirði bréfanna án þess að hafa til þess umboð frá stefnanda eða einhvers konar heimild. Með þessu hafi þeir sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem meðal annars hafi orsakað tjón stefnanda en ekki verði séð að nokkur samningur hafi verið gerður við stefnanda varðandi útgáfu þeirra skuldabréfa sem stefnandi gaf út þann 25. júní 1996, samtals að nafnverði 5.600.000 kr. Ekki hafi fundist umboð frá stefnanda til stefnda, Landsbréfa hf., stefnda Högna, stefnda Harðar eða stefnda, Jóns Heiðars, um að þessir aðilar mættu ráðstafa því fé sem var andvirði bréfanna. Stefndi, Landsbréf hf., hafi því ekki mátt ráðstafa andvirði bréfanna annað en til stefnanda. Ljóst sé af atvikum málsins að stefndu hafi í sameiningu ráðstafað fé stefnanda að eigin vild án þess að hafa til þess heimild frá stefnanda og með því valdið henni tjóni af ásetningi.

          Enn fremur byggir stefnandi á eftirfarandi málsástæðum:

          Gagnvart stefndu, Högna og Herði, er á því byggt að þeir hafi átt og rekið Smurstöðina sf. saman á eigin ábyrgð. Vegna skulda þessa sameignarfélags hafi stefndi Högni gripið til framangreindra falsana. Með því móti hafi fengist fjármunir til að greiða skuldir Smurstöðvarinnar sf. Þeir stefndu Högni og Hörður hafi notfært sér bágindi stefnanda og fákunáttu og aflað sér þannig fjár með ólögmætum hætti. Vegna þeirra krafna sem beint var að stefnanda vegna falsana stefnda Högna hafi stefnandi neyðst til að gefa út skuldabréf að fjárhæð samtals 5.600.000 kr. í júní 1996. Ekki verði séð að stefnandi komist hjá greiðslu þessara bréfa, annaðhvort með því að koma þeim í skil eða með andvirði Völvufells 26. Sé því ljóst hvert tjón stefnanda sé vegna ofangreindra svika stefnda Högna. Stefndi Hörður hafi ætíð vitað um svik stefnda Högna. Hann hafi ekkert gert til að koma í veg fyrir þau eða upplýsa stefnanda um þau áður en í óefni hafi verið komið og beri því einnig ábyrgð á tjóni stefnanda. Einnig sé ljóst að hann hafi jafnt stefnda Högna notið góðs af því að sameiginlegar skuldir þeirra hafi verið greiddar með þeim fjárhæðum sem fengust fyrir þau skuldabréf sem stefndi Högni falsaði en saman hafi þeir borið ábyrgð á skuldum Smurstöðvarinnar sf.

          Gagnvart stefnda, Jóni Heiðari, eru kröfur stefnanda á því byggðar að hann hafi verið ráðgjafi og aðstoðarmaður stefndu, Högna og Harðar, í greiðsluerfiðleikum þeirra. Ekki verði séð hvaða heimild hann hafi haft til ráðgjafar við stefnanda. Verði því að telja að hann  hafi komið fram við stefnanda og kallað hana fyrir sig fyrir hönd stefndu, Högna og Harðar, sem hlutdeildarmaður í svikum þeirra við stefnanda. Ósennilegt sé að stefndi, Jón Heiðar, hafi ekki vitað hvernig í pottinn var búið þar sem hann hljóti að hafa kynnt sér skuldastöðu stefndu, Högna og Harðar. Það sé einnig ósennilegt að stefndi, Jón Heiðar, hefði kvatt stefnandi fyrir sig nema stefndu, Högni og Hörður, hafi áður lýst því fyrir stefnda, Jóni Heiðari, að stefnandi væri fákunnandi um fjármál og þýðingu veðskuldabréfa. Þessi framkoma stefnda, Jóns Heiðars, hafi verið óeðlileg og óheiðarleg. Andvirði bréfanna hafi ekki verið notað til að greiða sjálfskuldarábyrgðarskuld stefnanda við Vátryggingafélag Íslands hf. eins og stefndi, Jón Heiðar, hafi lofað, að sögn stefnanda. Stefnandi hafi sjálf fengið þá skuld fellda niður með aðstoð lögmanns síns eftir að dómur féll um fölsun Högna á þeirri sjálfskuldarábyrgð er krafan byggði á. Ekki verði séð að þörf hafi verið á 5.600.000 kr. til að greiða þær kröfur Landsbanka Íslands hf. á Smurstöðina sf., sem veðtryggðar voru í Völvufelli 26. Til tryggingar skuldum Smurstöðvarinnar sf. hafi verið þinglýst tryggingarbréfi að höfuðstól 2.000.000 kr. en efni bréfsins hafi verið að bréfið stæði til tryggingar skuldum firmans Smurstöðvarinnar sf. við Landsbanka Íslands hf., svo sem víxilskuldum og yfirdrætti á tékkareikningi.  Eins og fram komi í bréfi Landsbanka Íslands hf., dags. 17. maí 1999, hafi tryggingarbréfið verið innheimt sem kröfubréf sem hafi verið ólögmætt. Tryggingarbréfið hafi átt að standa til tryggingar víxilskuldum Smurstöðvarinnar sf. og yfirdættti. Þær skuldir hafi hins vegar ekki verið settar undir tryggingarbréfið heldur innheimtar þar að auki. Stefndi, Jón Heiðar, hafi annast þá milligöngu sem eigendur Smurstöðvarinnar sf. hafi örugglega þurft að hafa við Landsbréf hf. og Landsbanka Íslands hf. Því sé ljóst að hann hafi ekki komið heiðarlega fram gagnvart stefnanda. Allavega hafi hann sýnt af sér vítavert gáleysi og með því valdið stefnanda tjóni þar sem ljóst sé að ekki hafi þurft að greiða þá fjárhæð sem greidd var til Landsbanka Íslands hf. á grundvelli þess tryggingarbréfs sem veðtryggt var í Völvufelli 26. Ljóst sé að greitt hafi verið umfram skyldu.

          Stefnda, Jóni Heiðar, hafi borið að upplýsa stefnanda um þá áhættu sem hún var að taka með því að gefa út skuldabréf með veði í Völvufelli 26 að fjárhæð 5.600.000 kr. Þá hefði og verið eðlilegra að stefndu, Högni og Hörður, hefðu verið greiðendur bréfanna. Stefndi, Jón Heiðar, hefði átt sem fjármálaráðgjafi og aðstoðarmaður skuldara að gera sér grein fyrir bágri fjárhagsstöðu stefndu, Högna og Harðar, og að móðir þeirra, verkakona, hefði ekki fjárhagslega getu til greiðslu bréfanna,

          Gagnvart stefnda, Landsbréfum hf., byggir stefnanda á sömu málsástæðum og gagnvart stefnda, Jóni Heiðari, svo og að félaginu hefði borið að hafa samband við stefnanda og upplýsa hana um gang mála nema sá aðili sem fór fram á þjónsutu stefnda, Landsbréfa hf., þ.e. sölu félagsins á bréfunum tveimur, sem útgefin voru 25. júní 1996, og síðan ráðstöfun á andvirði bréfanna, hefði haft skriflegt umboð frá stefnanda. Stefndi, Landsbréf hf., verði að upplýsa á hvaða fjárhæð bréfin hafi verið seld og hvernig nákvæmlega andvirði bréfanna hafi verið varið og hver hafi komið fram gagnvart stefnda, Landsbréfum hf., þar að lútandi. Hegðun starfsmanna stefnda, Landsbréfa hf., brjóti í bága við meginreglur 1. mgr. 15. gr. og 17. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996.

          Geti stefndi, Landsbréf hf., ekki upplýst hver hafi komið fram gagnvart félaginu með bréfin og farið fram á sölu þeirra og beðið um að andvirði þeirra yrði varið til greiðslu skuldar Smurstöðvarinnar sf. til stefnda, Landsbanka Íslands hf., sé enn fremur ljóst að félagið hafi ekki haft nokkurt umboð til þess að ráðstafa andvirði bréfanna og beri þar af leiðandi að greiða andvirði þeirra til stefnanda.

          Starfsmenn stefnda, Landsbréfa hf., hafi hlotið að sjá að skuldari bréfanna var annar en skuldari þeirra lána sem andvirði bréfanna var notað til að greiða. Þeim hafi því borið að upplýsa stefnanda um gang mála. Ekki sé útilokað að stefnandi hefði þá kannað réttarstöðu sína með aðstoð lögmanns sem þá hefði orðið til þess að stefnandi hefði komist að raun um að henni var óskylt að greiða skuldabréf sem byggðu á fölsuðum undirskriftum og einnig að verið var að greiða umfram skyldu.

          Stefndi, Landsbréf hf., hafi greitt stefnda, Landsbanka Íslands hf., umfram skyldu þar sem tryggingarbréfið hafi verið til tryggingar skuldum Smurstöðvarinnar sf. við Landsbankann, þ.e. víxilskuldir og yfirdrátt. Tryggingarbréfið hafi hins vegar verið greitt eins og hvert annað kröfubréf, sem það hafi ekki verið. Hafi víxilskuldir og yfirdráttarskuldir Smurstöðvarinnar verið greiddar þar að auki umfram skyldu. Með þessari afgreiðslu hafi stefndi, Landsbréf hf., valdið stefnanda tjóni sem nemi allavega samtölu þeirra víxla og yfirdráttarskulda sem kvittun Landsbanka Íslands hf. frá 17. maí 1999 kveði á um, að fjárhæð 1.158.924 kr.

          Þá hafi stefnda, Landsbréfum hf, borið að upplýsa stefnanda um greiðslubyrði bréfanna tveggja frá 25. júní 1996 og kanna með hvaða hætti stefnandi gæti greitt bréfin. Í því sambandi er vísað til réttarreglna um skyldu banka og verðbréfafyrirtækja til að upplýsa fáfróðan almenning um eðli slíkra skuldbindinga sem stefnandi var að takast á hendur. Hefði slík könnun farið fram hefði komið í ljós að stefnandi var alls ófær um greiðslu bréfanna. Ekki sé útlokað að starfsmenn stefnda, Landsbréfa hf., hefðu þá uppgötvað að stefnandi hafði aldrei skuldbindið sig til að greiða þau bréf sem greiða átti með þeim skuldabréfum sem stefnandi gaf út 25. júní 1996.

          Gagnvart stefnda, Landsbanka Íslands hf., er byggt á sömu málsástæðum og gagnvart stefnda, Landsbréfum hf. og því sérstaklega að undir tryggingabréfið hafi verið teknar kröfur sem þar áttu ekki heima. Því hafi verið ofgreitt til stefnda, Landsbanka Íslands hf., sem nemi 1.158.924 kr.

          Stefnandi byggir jafnframt á því að hún sé vanfróð um peningamál og viðskiptabréf og hafi með engu móti getað gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni áður en hún samþykkti skuldabréfin frá 25. júní 1996 og hvað hún var í raun að gera með undirskrift sinni. Þó hafi hún gert sér grein fyrir að hún var að bjarga eign sinni undan nauðungaruppboði. Allir stefndu hafi notfært sér vankunnáttu hennar og fáfræði sér til hagsbóta.

          Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á alla stefndu á því að hún hafi orðið fyrir því tjóni sem skuldabréfin tvö hljóði um þann 25. júní 1996 sem nemi 5.600.000 kr. þann dag. Einnig hafi hún orðið fyrir ólögmætri meingerð og eigi því rétt á miskabótum. Gerð er krafa um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 kr. Ljóst sé að allar þær hremmingar sem stefnandi hafi gengið í gegnum og eigi eftir að gera komi til með valda henni miklum óþægindum og hugarangri.

          Ef stefndu, Jón Heiðar Guðmundsson og Landsbréf hf., verði sýknuð af kröfu um skaðabætur að fjárhæð 6.600.000 kr. er á því byggt að þessir aðilar hafi allavega valdið stefnanda því tjóni sem nemi fjárhæð þeirra víxla og yfirdráttarheimilda sem ekki hafi verið tryggð með veði í Völvufelli 26. Sú krafa nemi auk miskabóta 2.258.000 kr.

          Stefnandi styður kröfur sína við almennu skaðabótaregluna og húsbóndaábyrgðarregluna. Þá vísar stefnandi til upplýsingaskyldu hvað varðar greiðslugetu skuldara og ábyrgðarmanna sem bankar og verðbréfafyrirtæki beri gagnvart fáfróðum aðilum varðandi útgáfu skuldabréfa og ábyrgðir þar að lútandi, samanber t.d. samkomulag banka og sparisjóða frá 1998 um ábyrgðarmenn. Í því efni er vísað til þeirra sjónarmiða sem ógildingarreglur samningalaga eru byggðar á, þeirra misneytingar- og heiðarleikasjónarmiða sem 31. til 36. gr. samningalaga séu reistar á. Þá vísar stefnandi einnig til fjársvikaákvæða hegningarlaga í þessu sambandi og þá til þeirra meginreglna sem felist í 15. og 17. gr. laga nr. 13/1996 um skyldur starfsmanna verðbréfafyrirtækja. Þá er vísað til reglna kröfuréttar og viðskiptabréfaréttar um tryggingarbréf og til 26. gr. skaðabótalaga.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Landsbanka Íslands hf.

                Stefndi, Landsbanki Íslands hf., hefur yfirtekið rekstur stefnda, Landsbréfa hf., með samruna sem hófst með samrunatilkynningu í Lögbirtingablaði nr. 139/2001 og lauk með samþykki hluthafa beggja fyrirtækja þann 28. des. 2001. Greinargerð lögmanns stefnda, Landsbanka Íslands hf., tekur einnig til málatilbúnaðar gagnvart stefnda, Landsbréfum hf.

                Stefndi, Landsbréf hf., hafi aðeins haft milligöngu um að leita kaupenda að skuldabréfum þeim sem stefnandi gaf út 25. júní 1996 og tryggja að framboðnar veðtryggingar yrðu eins og veðskuldabréfin kváðu á um. Stefndi, Landsbréf hf., hafi ekki lagt mat á það sem greiða skyldi með andvirði bréfanna. Það hafi aðstoðarmaður stefnanda samið um áður. Engar athugasemdir hafi borist frá viðkomandi út af þessari þjónustu fyrr en með stefnu í máli þessu.

                Undirliggjandi fjárkröfur stefnda, Landsbanka Íslands hf., hafi ekki byggt á veðskuldabréfum sem höfðu að geyma "falsaðar undirritanir" eða "falsað" umboð.

                Hefði stefnandi kært sig um að mótmæla undrritun sinni sem veðsali á tryggingarbréf, útgefið 5. maí 1994, þá hafi hún haft fjölda tækifæra til þess fram til 25. júní 1996. Með því að gera það ekki hafi stefnandi viljandi skapað allt annað viðskiptaumhverfi en raunin varð. Þrátt fyrir dóm frá 22. sept. 2000 út af játningu sonar stefnanda á notkun nafns stefnanda í tilgreindu tilviki þá hafi stefnandi með tómlæti sínu tapað hugsanlegum rétti. Stefndi, Landsbréf hf., hafi ekki ráðstafað andvirði bréfanna með öðrum hætti en ráðgjafi stefnanda hafði gefið fyrirmæli um. Sú ráðstöfun hafi verið forsenda þess að efni bréfanna stæðist eins og stefnandi hafði undirritað það. Hér sé engin sök þess sem leitaði kaupanda að veðtryggðri skuldbindingu sem annar aðila hafði undirbúið og lagt upp.

                Því er harðlega mótmælt að stefndi, Landsbréf hf., hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við að fylgja eftir þeim skilyrðum sem tryggðu uppgjör og aflýsingu allra eldri veðbanda. Efni veðskuldabréfanna, afhending þeirra til sölumeðferðar í því formi sem þau voru og framkvæmd,  sem tryggði aflýsingu veðkvaða, hafi verið sá samningur sem söluaðili hafi byggt umboð sitt á. Öll ráðstöfun andvirðis bréfanna hafi því verið í samræmi við samkomulag aðilanna.

                Tryggingarbréfið hafi verið svokallað allsherjarveð sem ætlað sé að tryggja allar almennar skuldbindingar sem kunni að stofnast í viðskiptum banka og viðskiptavinar. Tryggingarbréf án sérgreiningar sé ekki sjálfstæð fjárskuldbinding og sé því nauðsynlegt að tengja skuld og tryggingarbréf saman með aðför. Það hafi verið gert í þessu tilviki.

                Því er sérstaklega mótmælt að greidd hafi verið hærri fjárhæð með andvirði veðskuldabaréfanna en um hafi verið samið. Afsláttur og niðurfelling skulda hafi byggt á samningi en ekki uppgjöri á  veðtryggðum kröfum. Veðtryggðar kröfur í eigu stefnda hafi verið hærri en greiðslan sem barst 4. júlí 1996. Því  hafi aldrei verið um ofgreiðslu að ræða.

                Stefnandi hafi ekki gert tilraun til þess að sanna að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem sé sennileg afleiðing athafna stefndu, Landsbréfa hf. eða Landsbanka Íslands hf. Þá sé ekki hægt að fallast á rétt stefnanda til miskabóta. Til þess séu engin rök. Því er alfarið hafnað að bótaréttur stefnanda geti byggt á almennu skaðabótareglunni og húsbóndaábyrgðarreglunni. Þá hafi samkomulag um persónu-ábyrgðir sem hafi tekið gildi á árinu 1998 ekkert að gera með þær skuldbindingar sem hafi stofnast fyrir þann tíma. Þetta samkomulag hafi verið gert til að draga úr vægi persónuábyrgða en hafi ekki almennt gildi við mat á efnisreglum ábyrgðarréttarins.

                Krafa um greiðslu málskostnaðar byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991.

                Krafa um lækkun stefnukröfu er sett fram ef svo ólíklega vilji til að niðurstaða dómsins yrði sú að stefnandi ætti bótakröfu á hendur Landsbanka Íslands hf. á grundvelli þeirra málsástæðna sem stefnandi byggi rétt sinn á.

                Lækkunarkrafan er byggð á svipuðum eða sömu sjónarmiðum og sýknukrafan. Málatilbúnaður stefnanda virðist vera rekstur bótamáls á hendur stefndu. Það geri þá kröfu til stefnanda að stefnandi sanni tjón sitt. Slík sönnunarfærsla hafi ekki komið fram. Með því að svo sé skorti öll skilyrði þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu einhverra bóta. Ekki séu því efni til að dæma stefnda, Landsbankann hf., til greiðslu einhverra bóta að ósönnuðu tjóni stefnanda að því gefnu að bótaskilyrði séu að öðru leyti talin vera fyrir hendi.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Jóns Heiðars Guðmundssonar.

                Sýknukrafa þessa stefnda er á því byggð að stefnandi eigi enga bótakröfu að lögum á hendur honum. Bótaréttur á hendur stefnda Jóni verði hvorki byggður á reglum skaðbótaréttar né heldur á neins konar samningsgrundvelli. Bótakröfu stefnanda skorti alla stoð í lögum eða samningi. Þá verði stefnandi að bera tjón sitt sjálf eftir reglum skaðabótaréttar um samþykki, áhættutöku og eigin sök og leiði það einnig til sýknu stefnda. Hafi krafa verið til staðar þá sé hún niður fallin fyrir tómlæti og fyrningu.

                Byggi stefnandi kröfu sína á hendur stefnda Jóni á samningsgrundvelli er sýknukrafan einnig byggð á aðildarskorti og þá sem efnisgalla á málinu af hálfu stefnanda. Sýknukrafa á þessum grundvelli er studd því að ekkert samningssamband hafi verið í milli stefnanda og stefnda og þ.a.l. ekkert kröfuréttarsamband. Í því efni er vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

                Til stuðnings sýknukröfu á grundvelli bótaskyldu utan samninga er bent á eftirfarandi.

                Í fyrsta lagi hafi stefndi Jóni hvorki vitað né mátt vita að hluti þeirra skuldaskjala sem tryggð voru með veði í íbúð stefnanda voru fölsuð. Hvorki hafi stefndi Högni tjáð honum það né hafi verið á það minnst á fjölskyldufundinum. Sú könnun á skuldastöðu Smurstöðvarinnar sf. sem stefndi Jón framkvæmdi hafi ekki tekið til rithandarrannsókna enda slík starfsemi langt utan við starfssvið rekstrarráðgjafa. Fáheyrt sé að ætla að allir þeir er aðstoða við skuldaráðgjöf, hvort heldur um er að ræða ólöglærða rekstrarráðgjafa, starfsmenn greiðsluþjónusut bankanna eða Ráðgjafarþjónustu heimilanna, stundi slíka starfsemi.

                Í öðru lagi hafi fjárhæð skuldbreytingarlánsins verið með öllu eðlileg. Þar sem ekki sé hægt að ætlast til að ólöglærður rekstrarráðgjafi ástundi lögfræðistörf þau er lúta að túlkun og fyllingu löggerninga hafi stefndi Jón hvorki vitað né mátt vita að lægri fjárhæð hefði hugsanlega verið nægileg þar eð tryggingarbréf hefði verið innheimt sem kröfubréf.

                Í þriðja lagi hafi stefndi Jón enga milligöngu haft um greiðslu þess lánsfjár sem fyrir skuldbreytingarbréfin fékkst til kröfuhafa og hafi hann engu lofað stefnanda í því sambandi enda hafi stefndi Jón enga heimild haft til fjárvörslu fyrir stefnda Högna, Smurstöðina sf. eða stefnanda sjálfa. Stefndi Jón hafi engan þátt átt í ráðstöfun lánsfjárins og því sé það ekki á ábyrgð hans, hafi lánsféð runnið til greiðslu annarra skulda en til var ætlast.

                Í fjórða lagi hafi tillögurnar sem ræddar voru á fjölskyldufundinum verið fullkomlega eðlilegar og í raun góðar. Þær hafi falið í sér að eign stefnanda yrði bjargað undan nauðungarsölu. Enda hafi þær verið samþykktar af fundarmönnum. Verði ekki fram hjá því litið að skuldbreytingarlánið átti einnig að nota til að greiða upp lán sem stefnandi hafði sjálf samþykkt veð fyrir og hafi hún því haft hagsmuni af því að lánið yrði fengið, burt séð frá tilkomu annarra lána sem unnt hefði verið að fá hnekkt vegna falsana, hafi þá á annað borð legið fyrir vitneskja um þær. Efni tillagnanna hafi ekki verið það að einstæð verkakona endurgreiddi ein og óstudd andvirði skuldbreytingarlánsins, heldur þeir aðilar sem stofnað höfðu til hinna upphaflegu skulda, þ.e. þeir bræður, stefndu Högni og Hörður. Tillögurnar hafi verið samþykktar á fjölskyldufundinum með þeim breytingum að stefnandi greiddi sjálf um óákveðinn tíma af 1/4 hluta lánsins. Stefndi Jón hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en efndir yrðu í samræmi við þessar samþykktir. Á þessum tíma hafi stefnandi ekki verið einstæð verkakona, heldur hafi hún verið í hjúskap með Ástþóri Guðmundssyni og hafi hann verið einn þeirra er stóðu að samþykkt fjölskyldufundarins.

                Í fimmta lagi verði að telja að samþykki, áhættutaka og eigin sök stefnanda leiði til sýknu stefnda Jóns. Stefnandi hafi samþykkt eigin útgáfu skuldbreytingar-lánsins að yfirlögðu ráði og með samþykki eiginmanns síns að ósk stefnda Högna eða þeirra bræðra beggja en hún hafi ekki rætt málið frekar við stefnda, hvorki fyrr né síðar. Ekki verði heldur fram hjá því litið að strax árið 1992 hafi stefnandi tekið þá ákvörðun ásamt eiginmanni sínum að hjálpa sonunum með því að veita þeim heimild til að veðsetja íbúð sína fyrir láni að fjárhæð 1.500.000 kr. til Smurstöðvarinnar sf.  Stefnandi virðist síðan enn hafa tekið sömu ákvörðun með því að samþykkja á greindum fjölskyldufundi að greiða sjálf í óákveðinn tíma 1/4 hluta skuldbreytingarlánsins. Með vísan til þess að þegar var komið í vanskil það lán sem stefnandi hafði sjálf veitt veðheimild fyrir hafi henni mátt vera ljós sú áhætta sem því fylgdi að gangast með þessum hætti í ábyrgð fyrir aðra á enn hærra láni og treysta auk þess því að þeir hinir sömu myndu ráðstafa lánsfjárhæðinni með réttum hætti. Enn skýrari verði áhættutaka stefnanda og eigin sök þegar litið sé til háttsemi hennar eftir að henni varð ljóst að hluti þeirra lána sem skuldbreytingarlánið átti að greiða upp  höfðu verið fengin með fölsunum. Af gögnum málsins verði ekki skýrlega ráðið hvenær stefnanda hafi orðið kunnugt um falsanirnar en ljóst sé þó að það hafi verið löngu áður en hún fór að gera ráðstafanir í þeim tilgangi að takmarka tjón sitt. Ef marka megi framburð eiginmanns stefnanda við skýrslutöku hjá lögreglu árið 2000  virðist fjölskyldumeðlimum hafa orðið um falsanirnar kunnugt strax á árinu 1997 eða jafnvel enn fyrr því ef marka megi fullyrðingar lögmanns stefnanda í bréfum hans frá árunum 1998, 1999 og 2000 hafi henni verið kunnugt um falsanirnar þegar árið 1996 er hún undirritaði skuldbreytingarlánin. Í bréfum þessum segi beinlínis að stefnandi hafi valið þann kost að undirrita skuldabréfin í stað þess að kæra syni sína fyrir fölsun og við þessa fullyrðingu sé í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 10.  nóv. 2000, til stefnda Landsbréfa hf. og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar hdl., því bætt við að hún hafi valið þann kost að "skrifa undir bréfin og freista þess að þau yrðu greidd af sonum hennar eða málum yrði á einhvern hátt bjargað." Ef marka megi framburð stefnda Harðar við skýrslutöku hjá lögreglu árið 2000 hafi stefnanda verið kunnugt um falsanir eða a.m.k. óheimilar veðsetningar löngu fyrr, eða strax árið 1994. Séu greindar fullyrðingar lögmanns stefnanda og framburður stefnda Harðar lagðar til grundvallar hafi allir þeir er fjölskyldufundinn sátu vitað um falsanir stefnda Högna en hafi látið hjá líða að tjá stefnda þá vitneskju sína. Sé framburður stefnda Harðar lagður til grundvallar hafi stefnanda verið kunnugt um falsanirnar strax á árinu 1994. Hefði stefnandi þá þegar getað komið í veg fyrir fölsun nafnritunar sinnar á síðasta falsaða skuldaskjalið en það hafi ekki verið gefið út fyrr en 5. sept. 1995. Stefnandi hefði þannig getað komið í veg fyrir allt það tjón sem hún síðar hafi orðið fyrir af völdum falsana stefnda Högna og vanskila þeirra bræðra að frátöldu tjóni vegna vanskila þess láns sem hún hafi sjálf samþykkt. Í fyrsta lagi með því að kæra strax til lögreglu og fá með því dóm um að hluti skuldbindinga hennar væri marklaus og í öðru lagi með því að samþykkja ekki undirritun skuldbreytingarlánanna tveimur árum síðar, enda hefðu skuldbreytingarlánin verið óþörf ef stefnandi hefði farið þessa leið nema e.t.v. vegna lánsins sem hún hafði sjálf veitt veðheimild fyrir í upphafi. Í það minnsta hefði hún á fjölskyldufundinum getað látið stefnda Jóni í té vitneskju sína um falsanir stefnda Högna.

                Stefndi Jón telur það ljóst að skilyrði sakarreglunnar sé ekki uppfyllt í máli þessu, þ.e. þau skilyrði að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og að tjón þetta sé sennileg afleiðing háttsemi stefnda. Stefnandi beri sönnunarbyrði um allt annað. Verði hins vegar talið að um einhverja sök sé að ræða af hálfu stefnda Jóns beri allt að einu að sýkna hann vegna áhættutöku og eigin sakar stefnanda hvort sem hún hafi haft vitneskju um falsanir á því tímamarki er hún undirritaði skuldbreytingarskjölin eða nokkru síðar.

                Varakrafa stefnda Jóns um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og útreikning dráttarvaxta frá dómsuppsögu er í fyrsta lagi byggð á þeim málsástæðum að fjárhæð tjóns stefnanda sé ekki sannað nema að litlu leyti og ekki frá hvaða tíma og miskabótakrafa sé órökstudd. Í öðru lagi er varakrafan byggð á sömu málsástæðum og sýknukrafan. Einkum eigin sök stefnanda. Sömuleiðis ætti að leiða til lækkunar að stefnda Jóni hafi aldrei verið send nein viðvörun eða kröfubréf heldur hafi honum fyrst orðið kunnugt um kröfur stefnanda við höfðun máls þessa. Hér sé um að ræða brot á 1. mgr. 36. gr. Codex Ethicus fyrir Lögmannafélag Íslands.

                Um lagarök vísar stefndi Jón til 2. mgr. 16. gr. og e- og g-liða 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, skilyrða almennu skaðabótareglunnar, reglna um sönnunarbyrði kröfuhafa, til fyrningarlaga nr. 14/1905 og 36. gr. Codex Ethicus Lögmannfélags Íslands með síðari breytingum. Einnig til ólögfestra ákvæða um áhrif tómlætis. Krafa stefnda um upphafsdag dráttarvaxta er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 15. gr. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 9. gr. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 58/1988 um virðisaukasktt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur sem einstaklingur og sé honum því nauðsynlegt að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Harðar Þórs Ástþórssonar

                Sýknukrafa þessa stefnda er á því reist að kröfur stefnanda á hendur honum eigi sér enga stoð enda hafi hann ekki valdið stefnanda neinu fjárhagstjóni. Hann hafi aldrei átt neinn þátt í undirbúningi og gerð veðskuldabréfanna sem gefin voru út þann 25. júní 1996,  hvað þá að hann hafi haft vitneskju um gerð þeirra. Stefndi Hörður hafi ekki átt í neinu samstarfi við stefnda Högna eftir að hann hætti afskiptum af sameignarfélaginu, Smurstöðinni Smiðshöfða 7 sf., á árinu 1994. Þaðan af síður hafi hann átt í samstarfi við stefnda, Jón Heiðar Guðmundsson.

                Jafnframt er því mótmælt af stefnda Herði að hann, stefnandi og stefndi Högni hafi komist að samkomulagi á fundi með stefnda Jóni árið 1996 um mánaðarlegar greiðslur stefnda Harðar til stefnanda vegna skulda sameignarfélagsins. Fullyrðingar stefnanda um loforð stefnda Harðar séu ósannaðar með öllu. Á fundinum hafi verið óskað eftir slíkum greiðslum frá stefnda Herði en hann hafi hafnað því alfarið. Ástæða þess hafi verið að þær kröfur sem honum hafi verið ætlað að greiða af hafi stefndi Högni stofnað fyrir hönd sameignarfélagsins með fölsunum og án vitneskju stefnda Harðar.

                Jafnframt er á því byggt að stefndi Hörður beri ekki ábyrgð á þeim fjárhagsskuldbindingum sem stefndi Högni hafi lagt á hendur sameignarfélagi þeirra bræðra þar sem þær skuldbindingar hafi verið gerðar án nokkurrar vitneskju stefnda Harðar. Stefndi Hörður hafi rekið Smurstöðina Smiðshöfða 7 sf. í félagi við stefnda Högna árin 1992-1994 en stefndi Högni hafi annast fjármál og bókhald félagsins. Stefndi Hörður hafi verið alveg grandlaus um þær fjárskuldbindingar sem stefndi Högni gerði árið 1994 með fölsunum á undirskrift stefnda Harðar, stefnanda o.fl. Megi um það m.a. vísa til framburðar stefnda Högna við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 19. apríl 2000 og 21. apríl 2000.

Þegar stefndi Hörður fékk vitneskju um fölsunarbrot stefnda Högna hafi bréfin þegar verið útgefin og því fjarri lagi að telja að stefndi Hörður hafi haft tök á að koma í veg fyrir svikin. Stefndi Hörður hafi ráðlagt föður sínum að kæra verknaðinn en ekkert hafi orðið úr því. Stefndi Hörður hafi hins vegar tekið ákvörðun um að hætta umsvifalaust öllum afskiptum af sameignarfélaginu vegna umræddra brota bróður síns og hafi þeir gert um það samkomulag. Stefndi Hörður hafi sótt um atvinnuleysisbætur og hafi hann fyrst fengið þeim úthlutað 22. ágúst 1994.

                Stefndi Hörður beri enga ábyrgð á störfum stefnda Jóns. Stefndi Jón hafi aldrei starfað fyrir stefnda Hörð og hafi þeir aldrei átt í samskiptum vegna málsins að því undanskildu að stefndi Hörður mætti á fund til ráðgjafans árið 1996. Þrátt fyrir að stefndi Högni kunni að hafa ráðið stefnda Jón til starfa fyrir hönd sameignarfélagsins hafi stefndi Hörður á þeim tíma verið hættur afskiptum af félaginu.

                Stefnandi hafi allt frá árinu 1994 haft vitneskju um fölsun stefnda Högna á undirskrift sinni og eiginmanns hennar á umrædda löggerninga sem gerðir voru það ár en ekkert aðhafst til þess að fá fjárhagsskuldbindingar þær sem lagðar voru á hana niður felldar. Stefndi Hörður hafi fengið spurnir á árinu 1994 af hinum fölsuðu löggerningum frá  fjölskyldu sinni. Það sé ljóst af gögnum málsins að stefnanda hafi verið fullkunnugt um falsanir stefnda Högna á undirskrift hennar áður en hún gaf út veðskuldabréfin árið 1996. Þannig segi í bréfi lögmanns stefnanda til Landsbréfa þann 6. júlí 1998, dskj. 11, að stefnandi hafi " … staðið frammi fyrir því að skrifa undir skuldabréf eða kæra syni sína fyrir fölsun." Þá segi í kæru stefnanda til lögreglunnar, dags. 10. sept. 1998,  að stefnandi hafi gefið út tvö bréf til Landsbréfa hf. þann 25.6.1996 "….til að bjarga sér frá þeim vandræðum sem ofangreindar falsanir höfðu fyrir hana fjárhagslega…"  Í stefnu komi fram að stefndi Jón  hafi upplýst stefnanda á fundinum 1996 að á sameignarfélaginu hvíldu lán sem hún væri skráður sjálfskuldarábyrgðaraðili að. Með því að aðhafast ekkert vegna þeirra fjárhagsskuldbindinga sem á hana höfðu verið lagðar, verði að líta svo á að stefnandi hafi fallist á að veita syni sínum, stefnda Högna, veðleyfi í íbúð sinni.

                Þrátt fyrir að vera grandsöm um falsanir stefnda Högna á undirskrift sinni á löggerninga á árunum 1994 og 1995 virðist stefnandi hafa ákveðið að veita syni sínum af fúsum og frjálsum vilja fjárhagsaðstoð með útgáfu veðskuldabréfanna til greiðslu skulda sonar síns árið 1996. Útilokað sé að telja að stefndi Hörður geti borið einhverja ábyrgð á þeirri ákvörðun stefnanda. Staðhæfingar í stefnu um að stefnandi hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað hún var að gera með undirritun á veðskuldabréfin sé fráleit í ljósi þess að fullyrt sé að hún hafi gert sér grein fyrir því að hún var að bjarga eign sinni undan nauðungaruppboði. Stefnandi sé ekki andlega skert. Hún hafi því mátt gera sér fulla grein fyrir að hún var að gefa út veðskuldabréf árið 1996, sem hún yrði greiðandi að og að andvirði bréfanna yrði ráðstafað til greiðslu skulda stefnda Högna.

                Miskabótakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji kröfuna og sé henni því alfarið hafnað.

                Af hálfu stefnda Högna er vísað til almennra reglna samningaréttar, kröfuréttar og félagaréttar. Málskostnaðarkrafa er byggð á 130., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Högna Jóhanns Sigurjónssonar

                Af hálfu þessa stefnda er mótmælt fullyrðingum stefnanda um svikasamsæri hans og annarra stefndu gegn stefnanda til að fá hana til undirritunar skuldbreytingarlánsins. Svik stefnda Högna gagnvart stefnanda hafi falist í fölsun nafnritunar hennar á hin eldri skuldabréf og þannig hafi hann sviksamlega fengið veð í íbúð hennnar umfram þá heimild sem hún hafi veitt í upphafi. Það brot sitt hafi stefndi Högni játað strax og sakir voru á hann bornar og hafi honum réttilega verið refsað fyrir það. Gagnvart stefnanda hafi hann ekki staðið við sinn hluta þess samkomulags er gert hafi verið á fjölskyldufundinum hjá stefnda Jóni. Það teljist ekki til svika  í lögfræðilegri merkingu, heldur til vanefnda á loforði.

                Krafa stefnda Högna um lækkun dómkrafna er byggð á þeirri niðurstöðu fjölskyldufundarins að hann tæki að sér greiðslu helmings skuldbreytingarlánsins. Um það hafi verið samkomulag milli hans og stefnanda og á því byggir stefndi Högni. Hann viðurkennir að eiga sök á helmingi þess tjóns sem stefnandi hafi sannanlega orðið fyrir, en tjón að fjárhæð 5.600.000 kr. eða tjón sem nemi helmingi þeirra fjárhæðar, 2.800.000 kr., og það með dráttarvöxtum frá útgáfudegi skuldbreytingar-lánanna, sé ósannað enda kveði skilmálar bréfanna á um uppgreiðslu þeirra á 25 árum. Tjón stefnanda upp á hvoruga þessa fjárhæð sé því sannað. Eins og dómkrafa stefnanda sé fram sett í sóknargögnum fái stefndi Högni ekki ráðið svo óyggjandi sé, hvert sannanlegt tjón stefnanda sé af sínum völdum en telur að það nemi  helmingi þeirrar fjárhæðar sem hún sjálf hafi greitt af skuldbreytingarlánunum að frádregnum innborgunum stefnda inn á reikning hennar.

                Krafa stefnda Högna um upphafsdag dráttarvaxta er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 15. gr. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 9. gr. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 58/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé honum því nauðsynlegt að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

          Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi stefnandi, stefndu, Hörður,  Högni og Jón, Ástrún Ástþórsdóttir, dóttir stefnanda, Ástþór Már Ástþórsson, sonur stefnanda, Ástþór Guðmundsson, fyrrum eiginmaður stefnanda, og Páll Haraldsson viðskiptafræðingur.

Niðurstaða

          Fram kom hjá stefnanda við skýrslugjöf hér fyrir dómi að hún hafi farið á fund til stefnda, Jóns Heiðars Guðmundssonar. Á fundinum hafi verið þeir stefndu, Högni og Hörður. Ástþór Guðmundsson, þáverandi eiginmann sinn, kvaðst hún hafa hitt út á götu eftir fundinn. Stefnandi kvaðst hafa undirritað skuldabréfin tvö á fundinum. Hún hafi ekki frétt um fölsun á skuldabréfum fyrr en 1997 eða 1998.

          Þessi fullyrðing stefnanda gengur þvert á málavaxtalýsingu í stefnu, svo og fullyrðingar í bréfi lögmanns stefnanda til ríkislögreglustjóra, dags. 10. sept. 1999, þar sem beðið var um opinbera rannsókn á meintum fölsuðum undirskriftum undir tryggingabréf að fjárhæð 2.000.000 kr., útg. 5. maí 1994, til Landsbanka Íslands hf., skuldabréf að fjárhæð 660.000, útg. 5. sept. 1995, til Vátryggingafélags Íslands hf. og umboð til Högna Sigurjónssonar frá 5. janúar 1994, en á grundvelli þessa umboðs hafi Högni gefið út skuldabréf þann 5. janúar 1994 að fjárhæð 1.100.000 kr. Í bréfi  þessu segir m.a.: "Eins og fram kemur í ofangreindu bréfi mínu til Landsbréfa hf. þann 06.07.1998 gaf Kristín út tvö bréf til Landsbréfa hf. þann 25.06 1996 til að bjarga sér frá þeim vandræðum sem ofangreindar falsanir höfu fyrir hana fjárhagslega, þar sem hún gat ekki hugsað sér að kæra syni sína til lögreglu fyrir refsiverða hegðun."

          Í skýrslu stefnanda fyrir lögreglu hinn 31. janúar 2000 staðfesti stefnandi sem rétt efni framangreinds bréfs lögmannsins. Í skýrslu þessari er auk þess m.a. bókað eftirfarandi eftir stefnanda: "Kristín segir að það hafi ekki verið fyrr en árið 1996 að hún hafi verið kölluð á skrifstofu Jóns Heiðars sem hún (svo) minnir að sé endurskoðandi og þar hafi henni verið tilkynnt að fyrirtæki sona hennar stæði mjög illa fjárhagslega og mörg lán í vanskilum. Þar á meðal hafi verið lán sem hún var skráður sjálfskuldarábyrgðaraðili. Hafi Jón þessi sagt henni að útbúa þyrfti ný skuldabréf á hennar nafni til að greiða upp hin gjaldföllnu lán og skuldabréf þessi yrðu að vera tryggð með veði í íbúð hennar að Völvufelli 26 annars ætti hún á hættu að missa húsið. Kristín segir að hún hafi ekki skilið hvað hafi verið á seyði en þrátt fyrir það hafi hún ekki spurt neitt frekar út í það hvers vegna hún þyrfti að taka lán þó illa gengi hjá fyrirtæki sona hennar. Kristín kveðst bara hafa hlýtt ráðum þessa Jóns Heiðars og tekið 2 lán með milligöngu hans, samtals að fjárhæð kr. 5.600.000…."

          Fullyrðingar stefnanda eru mótsagnakenndar varðandi það hvenær hún frétti af fölsunum stefnda Högna á skuldabréf og umboð í hennar nafni. Stefndi Hörður bar fyrir lögreglu vegna rannsóknar á fölsunarmálinu, að hann hafi dregið sig út úr rekstri Smurstöðvarinnar Smiðshöfða 7 sf. á árinu 1994 eftir að upp komst að stefndi Högni var búinn að veðsetja án heimildar húseign foreldra hans að Völvufelli 26. Stefndi Hörður kvaðst hafa ráðlagt föður sínum að kæra strax en ekkert hefði orðið úr því. Hér fyrir dómi bar stefndi Hörður mjög á sama veg.

          En hvort sem stefnandi hafði frétt af hinum fölsuðu undirskriftum áður en hún undirritaði skuldabréfin frá 25. júní 1996 eða ekki, þá hefði henni átt að vera ljóst að eitthvað var öðruvísi en það átti að vera þar sem hún og þáverandi eiginmaður hennar höfðu einungis gefið þeim stefndu, Högna og Herði, veðleyfi fyrir 1.500.000 kr. En á fundinum hjá stefnda, Jóni Heiðari Guðmundssyni, var talað um lán að taka þyrfti lán að fjárhæð 5.600.000 kr. til þess að koma í veg fyrir uppboð á húseign stefnanda vegna lána sem voru í vanskilum og hvíldu á húseign hennar.

          Á fundinum var ákveðið að leita eftir láni hjá stefnda, Landsbréfum hf., og nota lánið til þess að greiða upp vanskilaskuldirnar.

          Eins og málið liggur fyrir er því óvíst hvort stefnandi vissi um hinar fölsuðu undirskriftir stefnda Högna áður en hún undirritaði skuldabréfin frá 25. júní 1996 enda þótt ljóst þyki að stefnandi hefði mátt gera sér grein fyrir að eitthvað var öðruvísi en það átti að vera. Með útgáfu skuldabréfanna 25. júní 1996 var húseign stefnanda forðað frá uppboði a.m.k. að sinni.

          Ekkert er fram komið um að á fundinum hafi verið minnst á hinar fölsuðu undirskriftir stefnda Högna eða annað sem gefur til kynna að stefndi, Jón Heiðar, hafi vitað eða mátt vita um falsanirnar. Stefndi Högni leitaði til stefnda Jóns sem ráðgjafa í þeim greiðsluerfiðleikum sem hann stóð frammi fyrir. Þegar litið er til þeirra greiðsluerfiðleika sem við blöstu og svo þess að beðið hafði verið um uppboð á húseign stefnanda, þá verður ekki séð að ráðgjöf stefnda Jóns í þá veru að leita eftir nýju láni til lengri tíma og nota það lán til þess að greiða vanskilaskuldirnar við stefnda, Landsbanka Íslands hf., sem á þeim tíma munu hafa numið 7.824.048 kr., hafi verið óeðlileg.

          Það tókst, sem ráðgjöf stefnda Jóns miðaði að, þ.e. að fá umtalsverða niðurfellingu á vanskilaskuldunum með greiðslunni að fjárhæð 4.578.904 kr. sem fékkst fyrir skuldabréfin hjá stefnda, Landsbréfum hf. Stefnda, Landsbanka Íslands hf., voru greiddar 4.693.180 kr. Í framhaldi af því var aflýst veðkröfum sem hvíldu á húsnæði stefnanda nema skuld við Vátryggingafélag Íslands að fjárhæð 966.515 kr. Meðal skjala málsins er bréf stefnda, Jóns Heiðars Guðmundssonar, til Ólafs Axelssonar hrl., dags. 7. júlí 1996. Með bréfi þessu er óskað eftir því að innheimtukostnaður að fjárhæð 611.000 kr. teljist greiddur að fullu með 500.000 kr. og er sú greiðsla boðin fram samdægurs.

          Þegar til þess er litið sem hér hefur verið rakið er ekki á það fallist með stefnanda að greitt hafi verið umfram skyldu þá er samið var  um 4.693.180 kr. sem fullnaðargreiðslu á 7.824.048 kr. skuld. Ekki skipta máli í þessu sambandi fullyrðingar stefnanda um tryggingarbréf. Ljóst þykir að til þess að fá svo verulega lækkun á skuldunum hefur þurft að gera allar skuldirnar upp.

          Enda þótt því sé neitað af stefnda Herði að hann hafi lofað að greiða af öðru skuldabréfinu þá er ljóst að ekki var ætlunin að stefnandi greiddi ein af bréfunum heldur lofaði stefndi Högni að greiða af öðru bréfinu og hann og stefndi Jón bera að stefndi Hörður hafi ætlað að greiða af helmingi hins bréfsins. Það að bréfin voru höfð tvö styrkir þær fullyrðingar en gegn andmælum stefnda Harðar telst ósannað að hann hafi lofað að greiða af hinu bréfinu, hvorki að hluta né í heild.

          Fram kom hjá stefnda Jóni að ástæða þess að stefnandi var útgefandi skuldabréfanna 25. júní 1996 hafi verið slæm greiðslustaða bræðranna, stefndu Harðar og Högna.

          Þrátt fyrir fullyrðingar stefnanda um að skuldabréfin frá 25. júní 1996 hafi hún undirritað á fundinum á skrifstofu stefnda Jóns verður gegn andmælum þeirra stefndu, Jóns og Högna, ekki á þeirri fullyrðingu byggt.  Heldur verður lögð til grundvallar fullyrðing stefnda Högna um að hann hafi eftir fundinn leitað til stefnda, Landsbréfa hf., og þar hafi skuldabréfin verið útbúin og hann síðan farið með þau til stefnanda til undirritunar. Það sem fékkst fyrir skuldabréfin var notað til þess að greiða vanskilaskuldir við stefnda, Landsbanka Íslands hf.

          Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi Jón hafi komið fram sem hlutdeildarmaður í svikum þeirra stefndu, Högna og Harðar, eins og segir í stefnu. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á nein önnur atvik er fella bótaskyldu á stefnda Jón gagnvart stefnanda.   

          Miskabótakrafa stefnanda á sér ekki lagastoð og á það við um alla stefndu.

          Er stefndi Jón því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

          Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda Jóni málskostnað. Eftir atvikum þykir rétt að stefnandi greiði stefnda Jóni 124.500 kr. upp í málskostnað og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu lögmannsþóknunar.

          Þá er óskað var eftir láni frá stefnda, Landsbréfum hf., var óskað eftir láninu í því skyni að greiða vanskilaskuldir við stefnda, Landsbanka Íslands hf. Á eign stefnanda, sem var útgefandi skuldabréfanna, hvíldu veðlán til Landsbanka Íslands að því er virðist samtals að höfuðstól 6.023.845 kr. Því er ómótmælt að lán þessi voru í vanskilum. Það verður ekki séð neitt óeðlilegt við þá afgreiðslu stefnda, Landsbréfa hf., að taka við skuldabréfum útgefnum af eiganda hins veðsetta húsnæðis og ráðstafa að ósk stefnda Högna, sem annaðist samskiptin við bæði stefnda, Landsbréf hf., og stefnda, Landsbanka Íslands hf., andvirði bréfanna til kröfuhafa vanskilaskuldanna, þ.e. stefnda, Landsbanka Íslands hf., til greiðslu skuldanna.

          Af hálfu stefnda, Landsbanka Íslands hf., er því haldið fram að afsláttur stefnda, Landsbanka Íslands hf., og niðurfelling skulda hafi byggst á samningi en ekki uppgjöri á veðtryggðum kröfum. Samkvæmt skjölum málsins voru eins og rakið hefur verið veðtryggðar kröfur í eigu þessa stefnda mun hærri en nam andvirði skuldabréfanna frá 25. júní 1996.

          Við niðurstöðu máls þessa þykir samkomulag banka og sparisjóða frá 1998 um ábyrgðarmenn ekki skipta máli.

          Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á nein þau atvik er felli bótaskyldu á stefndu, Landsbréf hf. og Landsbanka Íslands hf.  Þar sem stefndi, Landsbanki Íslands hf., hefur yfirtekið rekstur stefnda, Landsbréfa hf., verður stefndi, Landsbanki Íslands hf., sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu, bæði af kröfum á hendur stefnda, Landsbréfum hf., og á hendur stefnda, Landsbanka Íslands hf.

          Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda, Landsbanka Íslands hf., málskostnað. Eftir atvikum þykir rétt að stefnandi greiði þessum stefnda 124.500 kr. upp í málskostnað og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu lögmannsþóknunar.

          Stefndi Hörður hætti afskiptum af rekstri Smurstöðvarinnar Smiðshöfða 7 sf. á árinu 1994. Ekkert hefur komið fram sem gefi til kynna að hann hafi átt nokkurn þátt í fölsunum bróður síns, stefnda Högna. Að eigin sögn benti hann föður sínum strax á árinu 1994 á að kæra falsanirnar. Stefndi Hörður virðist hafa átt þau ein samskipti við stefnda Jón að hann mætti einu sinni á skrifstofu stefnda Jóns ásamt stefnanda og stefnda Högna.

          Gegn andmælum stefnda Harðar er ósannað að hann hafi lofað að greiða af öðru skuldabréfanna frá 25. júní 1996. Ekki hefur verið sýnt fram á nein þau atvik er felli skaðabótaábyrgð á hendur stefnda Herði vegna útgáfu framangreindra skuldabréfa og verður stefndi Hörður því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

          Eftir atvikum þykir rétt að þessi stefndi beri sinn kostnað af málinu.

          Fram er komið og viðurkennt að stefndi Högni falsaði undirritun stefnanda á skuldabréf og umboð. Vegna þessa var stefndi Högni dæmdur í tíu mánaða fangelsi skilorðsbundið. Mál þetta er risið af skuldabréfum sem gefin voru út til þess að bjarga húseign stefnanda frá nauðungaruppboði vegna vanskila á hinum fölsuðu skuldabréfum. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi verið fengin til þess með svikum og blekkingum að gefa út skuldabréfin 25. júní 1996. Hitt er viðurkennt að stefndi Högni lofaði að greiða af öðru bréfinu. Það loforð vanefndi stefndi Högni þar sem hann samkvæmt því sem fram kemur í skjölum málsins hefur aðeins greitt 134.000 kr. og var síðasta greiðslan innt af hendi 19. des. 1997.

          Eins og málið liggur fyrir hefur stefnandi ekki sýnt fram á hverju tjón það nemur sem vanefnd stefnda Högna á að greiða af 2.800.000 kr. skuldabréfinu olli. Stefndi Högni átti ekki að greiða stefnanda af láninu heldur eiganda skuldabréfsins. Ekki hefur verið sýnt fram á að nauðungarsölu á húseign stefnanda hefði verið forðað hefði stefndi Högni staðið í skilum með greiðslur af bréfi þessu.

          Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á hverju tjón stefnanda nemur vegna vanefnda stefnda Högna á því að greiða af framangreindu skuldabréfi ber að vísa málinu frá dómi að því er þennan stefnda varðar.

          Þegar atvik málsins eru virt þykir þrátt fyrir fyrirmæli 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 með vísan til 3. mgr. sömu greinar rétt að þessi stefndi beri  sinn kostnað af málinu.

          Málskostnaður stefnanda 757.385 kr. greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., 747.000 kr. Við ákvörðun málskostnaðarins hefur verið litið til virðisaukaskattsskyldu lögmannsþóknunar.

          Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari dæmir málið.

D ó m s o r ð:

          Stefndi, Landsbanki Íslands hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Kristínar Högnadóttur, í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda, Landsbanka Íslands hf., 124.500 kr. í málskostnað.

          Stefndi, Jón Heiðar Guðmundsson, er sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda, Jóni Heiðari Guðmundssyni, 124.500 kr. í málskostnað.

          Stefndi, Hörður Þór Ástþórsson, er sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu. Málskostnaður að því er þennan stefnda varðar fellur niður.

          Kröfum stefnanda á hendur stefnda, Högna Jóhanni Sigurjónssyni, er vísað frá dómi. Málskostnaður að því er þennan stefnda varðar fellur niður.

          Málskostnaður stefnanda 757.385 kr. greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., 747.000 kr.