Hæstiréttur íslands
Mál nr. 142/2000
Lykilorð
- Skaðabætur
- Húsbóndaábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 28. september 2000. |
|
Nr. 142/2000. |
Stefán Autrey Clyde Autrey og Cherie Autrey (Sigurbjörn Magnússon hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Skaðabætur. Húsbóndaábyrgð.
S naut um árabil heimaþjónustu hjá félagsmálastofnun R (F). Var I ráðin til starfa hjá F á árinu 1994 og hóf hún stuttu síðar störf á heimili S. Fólust störf hennar í þrifum, þvottum, matarinnkaupum og undirbúningi málsverða, en einnig var I ætlað að veita S félagslegan stuðning vegna einangrunar hennar. Í tengslum við störf sín fyrir S fór I sendiferðir fyrir hana í banka. Í febrúar 1998 kom í ljós að I hafði dregið sér fé af bankabókum S. Var I sakfelld og gerð refsing fyrir verknaðinn með dómi Hæstaréttar á árinu 1999. S lést á árinu 1999 og kröfðust A, B og C, erfingjar hennar, skaðabóta af R sem vinnuveitanda I, en bú I hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta og var henni ófært að endurgreiða fjármunina, sem hún hafði dregið sér. Talið var að ekki hefði verið nægilega skýrt kveðið á um það í reglum og starfslýsingu F að umsjón með fjármálum væri ekki liður í starfi starfsmanna, sem sinntu heimaþjónustu. Þá var talið sýnt að starfsmönnum F hefði verið kunnugt um að S kæmist ekki af heilsufarsástæðum út af heimili sínu hjálparlaust og ætti enga nákomna sem gætu sinnt henni. Því hefði verið sérstakt tilefni til að koma því á framfæri við S að starfsmenn heimaþjónustu ættu ekki að fást við verkefni af þessum toga í hennar þágu, sérstaklega í ljósi þess að deildarstjóra við heimaþjónustu var kunnugt um að I hefði sinnt bankaviðskiptum fyrir S. Var talið að S hefði sér að vítalausu mátt ætla að aðstoð við bankaviðskiptin félli innan verksviðs I. Var háttsemi I því talin standa í þeim tengslum við starf hennar hjá R að fella yrði á hann skaðabótaskyldu vegna umrædds tjóns af völdum hennar. Var R dæmdur til að greiða A, B og C þá fjárhæð, sem I dró sér.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Stefán Már Stefánsson prófessor.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2000. Þau krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 3.329.200 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. maí 1999 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjendur dæmd til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa þeirra verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
I.
Málið var sótt í héraði af dánarbúi Sigríðar A. Matthíasdóttur, sem var fædd 20. desember 1901 og lést 6. mars 1999. Áfrýjendur, sem eru dótturbörn Sigríðar, voru einu lögerfingjar hennar og luku skiptum á dánarbúinu 19. nóvember 1999. Þau tóku við aðild málsins fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum naut Sigríður um árabil heimaþjónustu hjá félagsmálastofnun stefnda, sem nú er nefnd félagsþjónustan í Reykjavík. Ingibjörg Erla Birgisdóttir var ráðin til starfa hjá félagsmálastofnuninni 31. maí 1994 til að sinna verkefnum við heimaþjónustu. Mun hún hafa byrjað 10. júlí sama árs að starfa á heimili Sigríðar, sem bjó ein í íbúð að Háteigsvegi 12 í Reykjavík. Fólust þau störf Ingibjargar aðallega í almennum heimilisþrifum, þvottum, persónulegum þrifum Sigríðar, matarinnkaupum og undirbúningi málsverða. Að auki kveður stefndi Ingibjörgu hafa verið ætlað að vera Sigríði til félagslegs stuðnings vegna einangrunar hennar, enda hafi hún ekki virst eiga samskipti við marga aðra en starfsmenn félagsmálastofnunarinnar. Í byrjun hafi Ingibjörg verið á heimili Sigríðar tvisvar í viku í fjórar klukkustundir hvort skiptið, en fljótlega hafi þriðja deginum verið bætt við í viku hverri. Í janúar 1997 hafi vikulegum starfsdögum Ingibjargar á heimilinu verið fjölgað í fjóra og síðan í fimm næsta mánuðinn þar á eftir.
Áfrýjendur kveða Ingibjörgu hafa í tengslum við áðurgreind störf farið reglulega fyrir Sigríði í banka til að taka fé af reikningum hennar fyrir innkaupum og greiða í leiðinni reikninga. Það hafi komið í ljós í febrúar 1998 að Ingibjörg hafði dregið sér fé af reikningunum á undangengnum tveimur árum, en í ferðum sínum í banka, þar sem Sigríður átti viðskipti, hafi Ingibjörg ýmist tekið út fé eingöngu fyrir hana eða dregið sér úttekt að hluta eða með öllu. Samanlagt hafi Ingibjörg á þennan hátt tekið sér í heimildarleysi 3.329.200 krónur af bankareikningunum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999 og Hæstaréttar 10. júní sama árs var Ingibjörgu gerð refsing fyrir þetta athæfi. Áfrýjendur kveða hana vera ófæra um að endurgreiða framangreinda fjárhæð, en bú hennar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 13. nóvember 1995 og þeim lokið 26. mars 1997. Í málinu krefja áfrýjendur hins vegar stefnda um skaðabætur sem þessu nemur í skjóli ábyrgðar hans sem vinnuveitanda Ingibjargar.
II.
Í málinu liggur fyrir samningur, sem eftir efni sínu var milli félagsmálastofnunar stefnda og Sigríðar A. Matthíasdóttur um þjónustu vegna heimilishjálpar. Samningurinn, sem var dagsettur 27. mars 1998, var undirritaður af hálfu félagsmálastofnunar, en ekki af Sigríði eða öðrum fyrir hennar hönd. Í honum greinir meðal annars að Sigríður hafi þegið þjónustu sem þessa frá 22. mars 1985. Hefur ekki annað komið fram en að samningar sem þessi hafi allt frá þeim tíma legið til grundvallar þjónustu, sem stefndi veitti Sigríði. Fer því um kröfu áfrýjenda eftir reglum um skaðabætur innan samninga.
Eins og áður greinir var Ingibjörg Erla Birgisdóttir ráðin til starfa hjá félagsmálastofnun stefnda 31. maí 1994 og sinnti á hennar vegum heimaþjónustu á heimili Sigríðar frá 10. júlí sama árs. Stefndi hefur ekki vefengt að Ingibjörg hafi í vinnutíma sínum í þessu starfi gerst sek um það athæfi, sem áður greinir. Ágreiningur er hins vegar um hvort verknaður Ingibjargar hafi staðið í nægilegum tengslum við starf hennar til að stefndi geti sem vinnuveitandi hennar borið skaðabótaábyrgð á tjóni, sem af verknaðinum leiddi.
Meðal gagna málsins eru reglur, sem félagsmálaráð stefnda samþykkti 30. maí 1997 til samræmingar á heimaþjónustu. Í þeim kemur fram að markmið heimaþjónustu sé að stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf á eigin heimili eins lengi og verða megi með aðstoð, sem taki við þar sem getu þeirra sleppir. Skuli þetta gert meðal annars með því að veita aðstoð við „innkaup og útréttingar“. Í almennri starfslýsingu frá stefnda fyrir svokallaða sóknarstarfsmenn í heimaþjónustu er þess getið að meðal helstu verkefna þeirra séu „innkaup á mat og öðrum varningi til heimilishalds, ýmist með eða fyrir aðstoðarþega.“ Í áðurnefndum samningi stefnda við Sigríði 27. mars 1998 var meðal annars getið um að sinna ætti innkaupum fyrir hana eftir þörfum. Hins vegar er hvergi í þessum heimildum vikið frekar að því hvort eða að hvaða marki liðveisla við erindrekstur utan heimilis geti að öðru leyti átt undir heimaþjónusta.
Í málinu hefur stefndi borið fyrir sig að í áðurnefndri starfslýsingu sé þess hvergi getið að umsjón með fjármálum af einhverjum toga sé meðal þess, sem starfsmönnum hans beri almennt að sinna við heimaþjónustu, og hafi Ingibjörgu aldrei sérstaklega verið falið það verk í þágu Sigríðar af yfirmönnum sínum. Slíkt verkefni geti heldur ekki undir neinum kringumstæðum samræmst tilgangi heimaþjónustu eða verksviði starfsmanns, sem henni sinni. Í skýrslu, sem yfirmaður öldrunarþjónustudeildar félagsþjónustu stefnda gaf fyrir héraðsdómi, bar hún að starfsmenn við heimaþjónustu ættu ekki að sinna fjármálum þeirra, sem þjónustunnar njóti, heldur verði þeir síðarnefndu að útvega fé til innkaupa sjálfir eða með atbeina aðstandenda eða viðskiptabanka, en væri ekki önnur leið fær gæfist kostur á aðstoð félagsráðgjafa í þeim efnum. Deildarstjóri við heimaþjónustu stefnda bar þessu til samræmis fyrir héraðsdómi að starfsmenn sínir ættu ekki að sinna bankaviðskiptum fyrir þá, sem þeir veittu þjónustu. Þrátt fyrir þetta verður ekki horft fram hjá því að slíkra reglna sér hvergi stað í áðurnefndum gögnum um hvað felist í heimaþjónustu. Var þó full ástæða fyrir stefnda til að taka þar af tvímæli um þetta, ekki síst í ljósi þess, sem áður segir, að rætt var í umræddum gögnum án nánari skýringa um að í skjóli heimaþjónustu væri meðal annars veitt aðstoð við „innkaup og útréttingar“. Þess verður og að gæta að af gögnum málsins er sýnt að starfsmönnum stefnda, sem gegndu stjórnunarstörfum varðandi heimaþjónustu hans, var kunnugt um að Sigríður kæmist ekki af heilsufarsástæðum út af heimili sínu hjálparlaust, enda hafi hún þurft að notast við göngugrind. Kemur þar einnig fram að þeir hafi verið þeirrar skoðunar að Sigríður ætti enga ættingja, sem sinntu henni, hún væri mjög félagslega einangruð og ætti lítil samskipti við aðra en starfsmenn stefnda. Var í þessu ljósi sérstakt tilefni til að koma því á framfæri við Sigríði eða aðstandendur hennar að starfsmenn við heimaþjónustu stefnda ættu ekki að fást við verkefni af þessum toga í hennar þágu. Enn brýnna var tilefnið til slíkra ábendinga þegar þess er gætt að fyrir liggur í málinu að deildarstjóra við heimaþjónustu stefnda var kunnugt um að Ingibjörg hefði sinnt bankaviðskiptum fyrir Sigríði, en lét þó við það eitt sitja að áminna Ingibjörgu um að henni væri þetta óheimilt.
Að öllu þessu virtu verður að telja stefnda hafa staðið þannig að verki að Sigríður hafi sér að vítalausu mátt ætla að aðstoð við bankaviðskiptin, sem hún fól Ingibjörgu, félli innan verksviðs þess, sem veitti henni heimaþjónustu í starfi hjá stefnda. Stóð því háttsemi Ingibjargar í þeim tengslum við starf hennar hjá stefnda að fella verður á hann skaðabótaskyldu vegna þess tjóns af hennar völdum, sem um ræðir í málinu.
Í málinu er hvorki deilt um fjárhæð skaðabótakröfu áfrýjenda né vexti af henni. Stefndi hefur ekki fært haldbær rök fyrir varakröfu sinni. Verður krafa áfrýjenda því tekin að fullu til greina eins og nánar segir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi handa hverjum þeirra fyrir sig eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Reykjavíkurborg, greiði áfrýjendum, Stefáni Autrey, Clyde Autrey og Cherie Autrey, 3.329.200 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. maí 1999 til greiðsludags.
Stefndi greiði hverjum áfrýjenda fyrir sig samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. þ.m. er höfðað með stefnu birtri 3. júní sl.
Stefnandi er dánarbú Sigríðar A. Matthíasdóttur, Háteigsvegi 12, Reykjavík, kt. 201201-6839.
Stefndi er Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu bóta vegna fjárdráttar starfsmanns Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar að fjárhæð 3.329.200 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga af 3.329.200 krónum frá 14. maí 1999 til greiðsludags.
Jafnframt er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað samkvæmt mati dómsins.
MÁLSATVIK
Ingibjörg Erla Birgisdóttir hóf störf á heimili Sigríðar A. Matthíasdóttur þann 10. júlí 1994 sem starfsmaður Félags- og þjónustumiðstöðvar aldraðra hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Í starfi þessu fólst félagsleg heimaþjónusta sem Reykjavíkurborg er skylt að veita samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lögum um málefni aldraðra nr. 82/1989. Í upphafi var um að ræða starf tvo daga í viku þ.e. mánudaga og fimmtudaga frá kl. 13.00-17.00. Fljótlega var bætt við innliti eftir hádegi á miðvikudögum. Í janúar 1997 var aðstoðin aukin í fjóra daga á viku þ.e. mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga frá kl. 13.00-17.00. Í febrúar 1997 var þjónustan enn aukin um einn dag þ.e.a.s. á föstudegi frá kl. 13.00-15.00. Starfssvið Ingibjargar var að sjá um almenn heimilisþrif. Ingibjörg sá um matarinnkaup á heimilið og undirbjó kvöldmat. Þá sá hún um þvott, böðun og persónuleg þrif Sigríðar þar til í mars 1998 þegar heimahjúkrun kom inn í þjónustu þá sem Félags- og þjónustumiðstöð aldraðra veitti. Ekki hvað síst var svo Ingibjörgu ætlað að vera Sigríði félagslegur stuðningur vegna félagslegrar einangrunar Sigríðar en Sigríður virðist ekki hafa átt félagsleg samskipti við marga utan starfsmanna Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar.
Með bréfi Lögreglunnar í Reykjavík, dags. 15. september 1998, til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar er óskað gagna um Ingibjörgu E. Birgisdóttur auk upplýsinga um tiltekin atriði, en í bréfi þessu kemur fram að Ingibjörg hafi verið kærð til lögreglu, grunuð um að hafa dregið til sín fjármuni í eigu Sigríðar A. Matthíasdóttur.
Ingibjörg Erla, var ákærð 2. febrúar 1999, og dæmd í 8 mánaða fangelsi fyrir brot á 247. gr. laga 19/1940, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 11. mars 1999. Kröfu á hendur Ingibjörgu Erlu, um bótagreiðslu, er aðstandandi stefnanda hafði uppi, var vísað frá með vísan til 1. mgr. 172. gr. laga númer 19/1991. Með dómi Hæstaréttar 10. júní 1999 var Ingibjörg Erla dæmd í 10 mánaða fangelsi en þar af voru 7 mánuðir skilorðsbundnir.
Með bréfi lögmanns stefnanda til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, dags. 6. apríl 1999, var þess krafist, á grundvelli húsbóndaábyrgðar, að stofnunin greiddi 3.329.200 krónur ásamt vöxtum til greiðsludags í skaðabætur vegna þess tjóns sem dánarbúið varð fyrir vegna fjárdráttar Ingibjargar E. Birgisdóttur, sem starfsmanns í heimaþjónustu hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, en Ingibjörg sinnti heimaþjónustu hjá Sigríði eins og að framan greinir. Með svarbréfi Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, dags. 14. apríl 1999, var bótaskyldu hafnað, m.a. á þeim grundvelli að skilyrði vinnuveitandaábyrgðar væru ekki fyrir hendi í máli þessu.
Ástæðu þess að starfsmanni stefnda er ekki stefnt segir stefnandi þá, að starfsmaður stefnda hafi ekki fjárhagslega möguleika á endurgreiðslu, en hún hafi verið úrskurðuð gjaldþrota 13.05.1995.
Stefnandi lést þann 6. mars 1999 og taka erfingjar stefnanda við eignum og skuldum, samanber einkaskiptaleyfi dagsett 18. mars 1999.
Krafa stefnanda er um endurgreiðslu á þeim peningum er starfsmaður stefnda dró sér á tímabilinu janúar 1996 til janúar 1998, er samtals 3.329.200 krónur. Með dómi Hæstaréttar frá 10. júní sl., og viðurkenningu starfsmanns stefnda, sé sannað að í janúar 1998 hafði starfsmaður stefnda dregið sér samtals 3.329.200 krónur, af bankareikningum stefnanda. Dráttarvaxta sé krafist frá 14. maí 1999, þ.e. mánuði frá dagsetningu svarbréfs félagsþjónustu Reykjavíkurborgar til lögmanns stefnanda.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Því er haldið fram af stefnanda, að Reykjavíkurborg beri húsbóndaábyrgð á starfsmönnum Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar og þau atvik er fjallað er um í þessu máli falli undir reglur um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum sínum.
Lagaákvæði, aðallega III og IV kafli laga númer 82/1989 og X kafli laga númer 40/1991, tryggi öldruðum þjónustu, gegn hæfilegu gjaldi eða án endurgjalds, allt eftir tekjum þess er rétt hafi á þjónustunni, sbr. V kafla laga 82/1989. Ábyrgð á þjónustu þessari sé á herðum sveitarfélaga, í þessu tilviki stefnda. Stefndi ráði til sín starfsmenn til þess að framfylgja lagaskyldu sinni. Starfsmaður stefnda hafi valdið stefnanda tjóni.
Stefnda beri skylda til að fylgjast með framkvæmd starfa starfsmanna sinna, enda hafi yfirmaður starfsmanns Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, kannast við þau störf er innt hafi verið af hendi á heimili stefnanda. Starfsmenn stefnda hafi farið inn á heimili aldraðra og sjúkra, sem hafa enga möguleika á því að velja þá einstaklinga er veljist til starfa inn á heimilinu. Vegna öldrunar hefði stefnandi enga möguleika haft á að fylgjast með því hvort starfsmaður stefnda drægi sér fé, stefnandi hafði hins vegar rétt til þess að treysta því að stefndi fylgdist með og bæri ábyrgð á þeim starfsmönnum er veldust til starfa á heimili stefnanda. Sé lögð áhersla á að stefndi hefði haft sérstaka ástæðu til að fylgjast með starfsmönnum er hafi verið úrskurðaðir gjaldþrota.
Brot starfsmanns stefnda, er valdi stefnanda fjárhagstjóni, sé unnið í vinnutíma starfsmannsins, þegar hann eigi að vera að sinna starfi sínu fyrir stefnanda. Hin refsiverða meðferð starfsmanns stefnda á fé stefnanda sé nægilega tengt verkefnum starfsmannsins, til að skaðabótaábyrgð verði felld á stefnda eftir reglunni um vinnuveitandaábyrgð.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skilyrði vinnuveitandaábyrgðar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar séu ekki fyrir hendi. Eitt meginskilyrði vinnuveitendaábyrgðar sé, að sá sem valdi tjóni verði að hafa valdið því við framkvæmd þess starfs sem hann gegni í þágu vinnuveitandans eða í nánum tengslum við það. Í máli þessu sé þetta skilyrði ekki uppfyllt og því ekki unnt að líta svo á að stefndi beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Í starfslýsingu vegna starfs við heimaþjónustu aldraðra, sé að finna tæmandi lýsingu á þeim verkefnum sem starfsmanni stefnda hafi borið að inna af hendi í starfi sínu. Þar sé þess hvergi getið að umsjón fjármála af einhverju tagi sé ein af starfsskyldum starfsmanna heimaþjónustunnar eða þáttur sem undir einhverjum kringumstæðum geti talist samræmast tilgangi eða verksviði þess starfs sem starfsmanni stefnda bar að inna af hendi. Þá hafi Ingibjörgu aldrei verið falið af yfirmanni sínum að annast fjármál Sigríðar. Fjármálaumsjón hafi því ekki verð ein af starfsskyldum hennar í því starfi sem stefnda bar að inna af hendi.
Sú þjónusta sem stefndi veitti á heimili Sigríðar hafi verið lögbundin þjónusta. Í 27. og 4l. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé að finna skilgreiningu á hinni félagslegu þjónustu sem stefnda hafi borið að veita Sigríði. Af þeim ákvæðum megi glögglega sjá að umsjón fjármála aldraðra í einhverri mynd sé ekki hluti af hinni félagslegu heimaþjónustu eða eitt af þeim verkefnum sem stefnda hafi borið að inna af hendi þegar Reykjavíkurborg veitti Sigríði félagslega heimaþjónustu.
Í samræmdum reglum í heimaþjónustu öldrunarþjónustudeildar, sem samþykktar hafi verið í Félagsmálaráði Reykjavíkur þann 30. maí 1997, sé hvergi að finna ákvæði um að starfsmaður í félagslegri heimaþjónustu skuli annast fjármálaþjónustu fyrir þjónustuþega. Í inngangi reglnanna komi fram að tilgangur samræmdra reglna sé að stuðla að því allir séu jafnir varðandi þjónustu án tillits til þjóðafélagsstöðu, þrýstings frá umsækjanda eða aðstandendum þeirra.
Þá komi það hvergi fram í þjónustusamningi stefnda við Sigríði, að fjármálaþjónusta væri innifalin í heimaþjónustunni enda geti hún aldrei orðið hluti af þjónustu þeirri sem Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar veiti, hvorki samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga eða lögum nr. 82/1989 um málefni aldraðra, né samkvæmt reglum um heimaþjónustu öldrunarþjónustudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar.
Ofangreind lagaákvæði, starfslýsing starfsmanna í félagslegri heimaþjónustu, samræmdar reglur um heimaþjónustu fyrir aldraða og þjónustusamningur Sigríðar Matthíasdóttur marki umfang og grundvöll þess starfs sem starfsmanni stefnda hafi borið að inna af hendi lögum samkvæmt.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu sem fram kemur í stefnu, að þar sem brot starfsmanns stefnda hafi verið unnið í vinnutíma sé hin refsiverða meðferð starfsmannsins á fé stefnanda nægilega tengd verkefnum starfsmannsins í starfi. Stefndi telur að það sé meginregla að vinnuveitandi beri ekki ábyrgð á refsverðri háttsemi starfsmanna sinna. Stefndi telur jafnframt að ekki sé unnt að líta svo á að sú staðreynd að saknæm athöfn sé framin í vinnutíma leiði til þess að því grundvallarskilyrði vinnuveitandaábyrgðar að brot sé framið í nánum tengslum við starf sé þá fullnægt. Þvert á móti telur stefndi að inntak þessarar dómvenjuhelguðu reglu feli það í sér að ekki sé nægjanlegt að sýna fram á að tjóni sé valdið í vinnutíma, heldur verði að gera þær kröfur að sá sem á sök á tjóni hafi valdið tjóninu við framkvæmd þess starfs sem hann gegnir í þágu vinnuveitandans eða í órjúfanlegum tengslum við sjálft starfið sem starfsmanni bar að inna af hendi. Fyrr sé umrætt skilyrði vinnuveitendaábyrgðar ekki fullnægt.
Jafnframt bendir stefndi á þá meginreglu skaðabótaréttar að hegði starfsmaður sér með svo óvenjulegum eða afbrigðilegum hætti, að almennt verði ekki gert ráð fyrir að menn hagi sér þannig við vinnu sína, megi telja að vinnuveitandi beri ekki bótaábyrgð á því tjóni sem starfsmaður veldur við slíka hegðun, sbr. t.d. Hrd. 1962:74. Í máli þessu hafi starfsmaður stefnda, Ingibjörg Erla Birgisdóttir, valdið tjóni af ásetningi við athöfn sem augljóslega sé ekki í neinum tengslum við það starf sem henni bar að inna af hendi. Stefndi telur sig því ekki bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Brot starfsmanns stefnda hafi verið refsiverðar athafnir samkvæmt almennum hegningarlögum og brot framin af ásetningi. Stefndi telur að brot sem framin séu af beinum ásetningi af starfsmanni stefnda séu ekki í neinum tengslum við starf hans og því á hans ábyrgð. Sú staðreynd að athafnir þær er valdið hafi tjóni stefnanda hafi verið framkvæmdar af ásetningi leiðir til þess að því meginskilyrði vinnuveitandaábyrgðar að tjóni sé valdið við athafnir sem eru í nægjanlegum tengslum við starf tjónvalds, sé ekki uppfyllt.
Stefndi telur að Sigríður hafi sjálf borið eigin sök á því tjóni sem hún og síðar dánarbú hennar varð fyrir vegna hinna refsiverðu athafna Ingibjargar. Ingibjörgu hafi ekki borið að annast fjármál Sigríðar og báðum hafi mátt vera það ljóst að umsjón fjármála hafi ekki verið ein af starfsskyldum hennar. Þrátt fyrir þetta hafi Sigríður falið Ingibjörgu að annast fyrir sig fjármál sín en við þá umsjón hafi hin refsiverðu brot Ingibjargar verið framin. Í þessu sambandi vilji stefndi benda á að Ingibjörg hafi sinnt heimaþjónustu hjá Sigríði frá 10. júlí 1994, og hefði því verið inni á heimili Sigríðar í tæp fjögur ár áður en hún varð uppvís að fjárdrætti. Sigríður hefði notið heimaþjónustu frá árinu 1985 en eins og gögn málsins beri með sér hafi Sigríður verð félagslega einangruð og ekki notið mikilla samskipta við fólk utan starfsmanna heimaþjónustunnar. Þá hefði Sigríði ekki líkað við starfsmenn heimaþjónustunnar þar til Ingibjörg hóf störf á heimili hermar. Eins og fram komi í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. mars 1999, hafi Sigríður og Ingibjörg fljótlega orðið vinkonur. Ingibjörgu hafi þótt vænt um Sigríði og vitnað um það fyrir dómi að Sigríður hafi getað hringt í sig hvenær sem var jafnt á nóttu sem á degi. Það sé því ljóst að trúnaðarsamband hafi myndast milli Ingibjargar og Sigríðar sem gengið hafi langt út fyrir venjulegt vinnusamband. Af því hafi leitt að Sigríður hafi falið Ingibjörgu störf sem henni sem starfsmanni stefnda hafi ekki borið að inna af hendi, þ.á.m. umsjón fjármála. Afskiptaleysi annarra hefði leitt til þess að Sigríður hafi verið afskipt af öðru fólki og einangrast félagslega. Sinnuleysi hennar nánustu um hagi hennar hefði leitt til þess að hún hafi átt aðeins einn vin, Ingibjörgu. Ingibjörg hafi sinnt sýnilega fjölmörgum erindum fyrir Sigríði öðrum en þeim sem henni bar að gera sem starfsmaður stefnda. Þau viðvik hafi hún annast sem vinur Sigríðar ekki sem starfsmaður stefnda. Ingibjörg hafi hins vegar misnotað vináttusamband þeirra sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á.
Með því að fela Ingibjörgu störf sem Sigríður hafi vitað, eða mátt vita, að henni bar ekki að inna af hendi sem starfsmaður stefnda, hafi skapast grundvöllur fyrir brot. Á þessari greiðasemi Ingibjargar beri stefndi hins vegar ekki vinnuveitandaábyrgð. Stefndi geti einungis borið ábyrgð á þeim störfum sem starfsmanni stefnda hafi borið að inna af hendi skv. lögum og þjónustusamningi við Sigríði Matthíasdóttur.
Þá telur stefndi að á honum hafi ekki hvílt frumkvæðisskylda til að hafa sérstakt eftirlit með framkvæmd starfa starfa sinna sinna eins og haldið sé fram í stefnu. Hvorki í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga né lögum nr. 92/1989 um málefni aldraðra sé lögð skylda á sveitarstjórnir til að hafa sérstakt eftirlit með framkvæmd starfa starfsmanna í heimaþjónustu. Lögin kveði því einungis á um að heimaþjónusta skuli vera lögbundin þjónusta sveitarfélaga. Af þessum sökum telur stefndi að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á hinum refsiverðu athöfnum starfsmanns stefnda á grundvelli þess að eftirliti með starfsmanninum hafi ekki verið framfylgt.
Jafnvel þótt komist væri að þeirri niðurstöðu að stefndi ætti að sinna eftirliti með starfsmanni stefnda telur stefndi að slíkt eftirlit geti ekki orðið grundvöllur ábyrgðar stefnda enda væri tilgangur slíks eftirlits eingöngu sá að tryggja að þjónustuþegar fengju heimaþjónustu í samræmi við gildandi lög en skapaði ekki sjálfstæðan grundvöll fyrir ábyrgð sveitarstjórna á saknæmum athöfnum starfsmanna sinna sem ekki séu hluti af starfsskyldum starfsmanna samkvæmt lögum. Í þessu sambandi bendir stefndi á hið væga sakarmat sem fram komi í Hrd. 1958:134; 1970:1085 og 1960:774. Vanræksla eftirlits stefnda með starfsmanni sínum geti ekki orðið grundvöllur að vinnuveitandaábyrgð stefnda í máli þessu.
Málskostnaðarkrafa stefndu byggir á 130. gr. sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
NIÐURSTAÐA
Fram kom hjá vitninu Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, yfirmanni öldrunarþjónustu Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, að starfsmönnum við heimilisþjónustu, þar á meðal Ingibjörgu Erlu Birgisdóttur, hafi verið bannað að annast fjármál fyrir þá sem þáðu þjónustu á heimilum sínum. Þá eru þau verkefni sem Ingibjörgu bar að vinna fyrir Sigríði Matthíasdóttur tæmandi upp talin í starfslýsingu fyrir Sóknarstarfsmenn í heimaþjónustu sem lögð var fram í málinu af hálfu stefnanda. Í 14. tl. starfslýsingar þessarar segir að starfsmanni beri að vinna önnur þau störf sem starfsmanni kynnu að verða falin af yfirmanni en ekki er sýnt fram á það hér að yfirmenn Ingibjargar hafi falið henni að annast ferðir í banka fyrir Sigríði Matthíasdóttur.
Fram kom í skýrslu vitnisins Ragnheiðar Steinbjörnsdóttur, deildarstjóra, yfirmanns Ingibjargar, að sú síðarnefnda hafði sagt vitninu frá ferðum sínum í banka fyrir Sigríði en einnig kom fram hjá vitninu að það hafði sagt Ingibjörgu að hún mætti þetta ekki.Samkvæmt starfslýsingu þeirri sem gilti um störf Ingibjargar var eingöngu falið að annast almenn heimilisstörf fyrir Sigríði Matthíasdóttur. Hún tók hins vegar að sér að fara í banka fyrir Sigríði og er það álit dómsins, að refsiverður verknaður hennar í sambandi við þær ferðir hennar hafi ekki verið í þeim tengslum við framkvæmd skyldustarfa hennar samkvæmt þjónustusamningi stefnda og Sigríðar, að reglur um vinnuveitandaábyrgð leiði til þess að stefndi teljist bera ábyrgð gagnvart stefnda á tjóni hans. Þá er ekki fallist á það að það að yfirmaður Ingibjargar hafi vitað um ferðir þessar baki stefnda bótaskyldu.
Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Reykjavíkurborg skal sýkn af kröfum stefnanda, dánarbús Sigríðar Matthíasdóttur.
Málskostnaður fellur niður.