Print

Mál nr. 351/1999

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Kjarasamningur

           

Fimmtudaginn 3. febrúar 2000.

Nr. 351/1999.

Valgerður Björg Jónsdóttir

(Örn Clausen hrl.)

gegn

G. Torfasyni ehf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

                                              

Vinnusamningur. Kjarasamningur.

V starfaði við afgreiðslu í verslun G. Samkvæmt ákvæðum í kjarasamingum skyldi öll yfirvinna V greiðast með tímakaupi, sem næmi 1,0358% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Þar sem tímakaup V fyrir yfirvinnu hafði verið lægra en nam þessu hlutfalli af umsömdum launum hennar fyrir dagvinnu, sem voru nokkuð yfir lágmarkslaunum, taldi V sig ekki hafa fengið greidda yfirvinnu í samræmi við ákvæði kjarasamninga, en slíkt væri óheimilt samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Talið var, að svigrúm einstakra vinnuveitenda og launþega til að semja um laun og önnur starfskjör takmörkuðust við að þau væru launþegum jafn hagstæð eða betri en kveðið væri á um í kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Hins vegar hefði vinnusamningur V ekki rýrt rétt hennar í heild samkvæmt kjarasamningi, þar sem laun hennar fyrir hverja klukkustund í yfirvinnu hefðu verið lítillega umfram 1,0358% af lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningum. Talið var, að með yfirborgun væri komið út fyrir svið kjarasamnings, þar sem ákveðin væru lágmarkskjör launþega í viðkomandi starfsgrein. Þótti ekki unnt að fallast á þá skýringu V, að í kjarasamningnum fælist, að samningur um yfirborgun fyrir dagvinnu leiddi sjálfkrafa til þess að semja yrði jafnframt um sambærilega yfirborgun fyrir yfirvinnu. Var G því sýknaður af kröfu V um vangoldin laun fyrir yfirvinnu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi 6. september 1999. Endanleg krafa hennar er sú að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 145.992 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af tilgreindum fjárhæðum frá 1. desember 1995 til 1. júlí 1997, en af 145.992 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og dráttarvextir ekki dæmdir fyrr en frá þingfestingardegi málsins í héraði. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

 

I.

Áfrýjandi réðst til starfa við afgreiðslustörf í verslun stefnda í nóvember 1995, þar sem hún starfaði til 23. ágúst 1997. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvað hún munnlega umsamin laun á mánuði fyrir dagvinnu hafa verið í byrjun 85.000 krónur, en hækkað fljótlega í 90.000 krónur. Fyrir hverja klukkustund í yfirvinnu hafi verið greiddar 700 krónur, sem síðan hafi verið hækkað í 750 krónur. Þá er fram komið að eftir gerð nýs kjarasamnings stéttarfélags áfrýjanda, Verslunarmannafélags Reykjavíkur, og viðsemjenda þess í mars 1997 hækkuðu mánaðarlaun hennar í 94.230 krónur og tímakaup í yfirvinnu í 786 krónur. Ágreiningslaust er með aðilunum að launagreiðslur hafi verið þær, sem að framan greinir.

Í málatilbúnaði áfrýjanda er haldið fram að einungis hafi verið samið um það hver dagvinnulaunin skyldu vera, en yfirvinnukaup verið einhliða ákveðið af stefnda. Hinn síðarnefndi kveður hins vegar öll laun hafa byggst á samningi málsaðila.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður kjarasamningur stéttarfélags áfrýjanda og viðsemjenda þess frá febrúar 1995. Samkvæmt hljóðan hans voru síðast gildandi kjarasamningar framlengdir til ársloka 1996 með þeim breytingum, sem kveðið var á um í hinum nýja samningi. Samkvæmt því skyldu grundvallarlaun afgreiðslufólks í verslunum vera 50.718 krónur, sem með starfsaldurshækkunum urðu hæst 59.465 krónur. 1. janúar 1996 urðu sömu laun samkvæmt kjarasamningnum lægst 55.073 krónur, en hæst 63.820 krónur. Eftir gerð áðurnefnds kjarasamnings í mars 1997 skyldu sömu laun hins vegar vera 61.846 krónur lægst, en 68.820 krónur með öllum starfsaldurshækkunum.

Allan starfstíma áfrýjanda hjá stefnda var óbreytt ákvæði í kjarasamningum um yfirvinnu, sem hljóðaði svo: „Öll yfirvinna greiðist með tímakaupi sem nemur 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu“.

II.

Í málatilbúnaði áfrýjanda er haldið fram að greiðslur stefnda fyrir yfirvinnu hafi ekki verið í samræmi við síðastgreint ákvæði kjarasamnings fyrir yfirvinnu. Umsamin föst laun fyrir dagvinnu hafi á starfstíma hennar verið frá 85.000 krónum til rúmlega 94.000 króna. Þau laun myndi stofn til viðmiðunar um fjárhæð yfirvinnukaups síns samkvæmt skýru ákvæði kjarasamningsins. Greitt tímakaup fyrir yfirvinnu hafi hins vegar verið lægra en kjarasamningur kveði á um. Slíkt sé óheimilt og er einkum vísað um það til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem kveði skýrt á um að laun og önnur starfskjör samkvæmt kjarasamningi skuli vera lágmarkskjör og að einstakir vinnusamningar, sem fari í bága við það, skuli ógildir. Hafi jafnframt komið fram af hálfu stéttarfélags áfrýjanda, að almennt séu greidd laun fyrir yfirvinnu á vinnumarkaði, sem nemi að lágmarki sama hlutfalli af raunverulegum dagvinnulaunum hvers launþega og mælt sé fyrir um í kjarasamningnum.

Stefndi mótmælir þeirri skýringu áfrýjanda, að með orðunum „mánaðarlaunum fyrir dagvinnu“ í kjarasamningi sé vísað til annarra laun en þeirra, sem kveðið sé á um í samningnum sjálfum. Lágmarkslaun fyrir dagvinnu séu þar umsamin í krónum talið og eðli máls samkvæmt hljóti skírskotun ákvæðisins að takmarkast við gildissvið kjarasamningsins. Ekki fái staðist að ákvæðinu sé ætlað að tryggja að allir hafi sama hlutfall fyrir yfirvinnu án tillits til þess hvort þeir taki laun samkvæmt kjarasamningnum eða þeir fái hærri laun. Rétt skýring á 1. gr. laga nr. 55/1980 geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu, sem áfrýjandi krefjist, heldur séu lágmarkskjör fyrir yfirvinnu í merkingu laganna umsamið hlutfall yfirvinnukaups af kauptöxtunum, sem í kjarasamningnum birtist. Þegar samið sé í einstökum vinnusamningum um hærri laun sé komið út fyrir gildissvið kjarasamnings, enda geti hann ekki mælt fyrir um það hver skuli vera fjárhæð greiðslna, sem ekki sé fjallað um í honum. Vísar stefndi sérstaklega til dóms Félagsdóms 1991, bls. 398 í IX. bindi dómasafns réttarins, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að launafjárhæðir, sem stofnað sé til með yfirborgunum, séu utan við svið kjarasamninga.

Af hálfu stefnda er loks haldið fram að kjarasamningsákvæðið eigi rætur í mun eldri kjarasamningum. Sé ákvæðið virt í því samhengi renni það ekki stoðum undir skýringu áfrýjanda á því. Þá hafi stéttarfélag áfrýjanda krafist þess að fá því breytt í samningaviðræðum 1995 um nýjan kjarasamning til samræmis við þá skýringu, sem áfrýjandi haldi nú fram, en án árangurs.

III.

Meðal málsgagna er skráning áfrýjanda á unnum yfirvinnustundum í starfi hjá áfrýjanda. Er ómótmælt að hún hafi fengið greitt eftir þeirri skráningu og yfirvinnukaup fyrir hverja klukkustund kom frá upphafi fram á sundurliðuðum launaseðlum. Ekkert er fram komið um að hún hafi gert athugasemdir við tímakaup í yfirvinnu fyrr en á árinu 1997. Eins og málið liggur fyrir verður lagt til grundvallar að samþykki áfrýjanda hafi legið fyrir frá upphafi um fjárhæð tímakaups í yfirvinnu og að samningur hafi komist á um þann hluta launa hennar sem önnur laun.

Svigrúm einstakra vinnuveitenda og launþega til að semja um laun og önnur starfskjör takmarkast við að þau séu hinum síðarnefnda jafn hagstæð eða betri en kveðið er á um í kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Samningur málsaðila um dagvinnulaun áfrýjanda var nokkuð yfir lágmarkslaunum kjarasamnings stéttarfélags hennar. Laun fyrir hverja klukkustund í yfirvinnu voru einnig lítillega hærri en umsamið hlutfall yfirvinnu var miðað við lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningnum fyrir dagvinnu. Vinnusamningur áfrýjanda rýrði þannig ekki rétt hennar í heild samkvæmt kjarasamningi, heldur þvert á móti.

Við úrlausn málsins verður ekki komist hjá að líta til þess að hömlur á samningsfrelsi þurfa að vera skýrar svo heimilt sé að víkja samningi um laun eða önnur starfskjör til hliðar. Með yfirborgun er komið út fyrir svið kjarasamnings, þar sem ákveðin eru lágmarkskjör launþega í viðkomandi starfsgrein. Er samkvæmt því ekki unnt að fallast á þá skýringu áfrýjanda, að í kjarasamningnum felist að samningur um yfirborgun fyrir dagvinnu leiði sjálfkrafa til þess að semja verði jafnframt um sambærilega yfirborgun fyrir yfirvinnu. Getur ekki breytt þeirri niðurstöðu þótt ómótmælt sé að yfirborgun yfirvinnukaups sé almennt látin haldast í hendur við umsamda yfirborgun dagvinnukaups í einstökum vinnusamningum, þar sem samið er um hærri laun en felast í kjarasamningum.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður kröfum áfrýjanda á hendur stefnda hafnað. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var, að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað fyrir dóm­þinginu af Valgerði Björgu Jónsdóttur, kt. 040575-5889, Trönuhólum 18, Reykja­vík á hendur G. Torfasyni ehf., kt. 670395-3089, Laugavegi 178, Reykjavík með stefnu birtri 25. júní 1998 og þingfestri 30. júní 1998.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefn­anda 152.215 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 8.957 krónum frá 1. desember 1995 til 1. janúar 1996, en af 35.530 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1996, en af 40.765 krónum frá þeim degi til 1. mars 1996, en af 49.555 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1996, en af 55.372 krónum frá þeim degi til 1. maí 1996, en af 56.532 krónum frá þeim degi til 1. júní 1996, en af 70.142 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1996, en af 77.312 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1996, en af 85.653 krónum frá þeim degi til 1. september 1996, en af 92.773 krónum frá þeim degi til 1. október 1996, en af 99.994 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1996, en af 112.403 krónum frá þeim degi til 1. desember 1996, en af 129.593 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1997, en af 137.222 krónum frá þeim degi til 1. mars 1997, en af 142.511 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1997, en af 149.326 krónum frá þeim degi til 1. maí 1997, en af 140.547 krónum frá þeim degi til 1. júní 1997, en af 148.503 krón­um frá þeim degi til 1. júlí 1997, en af 152.215 krónum frá þeim degi til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1.júlí 1997, en síðan árlega þann dag.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar ásamt virð­is­auka­skatti úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins auk vaxta af málskostnaði samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá uppkvaðningu dóms til greiðsludags.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af kröfum stefn­anda, en til vara að stefnukrafa verði lækkuð.  Þá gerir stefndi þær kröfur að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 8. febrúar sl.  Gætt var ákvæða 1. mgr.115. gr. laga nr. 91/1991, áður en dómur var kveðinn upp.

II.

Málavextir eru þeir að stefnandi var ráðin til starfa, sem afgreiðslustúlka í verslun stefnda, Knickerbox í byrjun nóvember 1995, en eftir að hafa unnið í eitt ár varð stefn­andi aðstoðarverslunarstjóri í versluninni.  Umsamin mánaðarlaun voru 85.000 krónur í byrjun, en launin hækkuðu í febrúar 1996 í 90.000 krónur.  Laun fyrir yfirvinnu voru greidd sérstaklega og var yfirvinnutímakaup stefnanda í fyrstu 700 krónur, en frá febrúar 1996 var tímakaup stefnanda í yfirvinnu 750 krónur.  Auk þess fékk stefnandi af­slátt af vörum í versluninni.  Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefn­anda.  Þann 10. mars 1998 hækkuðu laun félagsmanna VR um 4.7%.  Í kjölfarið hafði stefnandi samband við stéttarfélag sitt og bað um að reiknuð yrðu út laun hennar í samræmi við nýgerða kjarasamninga og var henni þá tilkynnt af stéttarfélaginu að yfir­vinnulaun hennar hefðu verið of lág.  Er stefndi hækkaði laun stefnanda í samræmi við fyrrgreinda kjarasamninga breytti hann sundurliðun á launaseðli og sundurliðaði launa­greiðslur í grunnlaun á mánuði og yfirborgun, sem hann tilgreindi sem bónus.  Í sam­ræmi við þessa sundurliðun hækkuðu laun stefnanda í 75.600 krónur og bónus­greiðsla varð 18.630 krónur.

Stefnandi sagði upp störfum hjá stefnda með þriggja mánaða fyrirvara í maí 1997 og hætti störfum hjá stefnda 23. ágúst 1997.

Stefndi kvaðst fyrst hafa fengið athugasemdir við launauppgjör til handa stefn­anda með bréfi VR dagsettu 21. ágúst 1997.

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að samkvæmt ákvæði 1.8 í kjarasamningi VR beri að greiða yfirvinnutímakaup í hlutfalli við dagsvinnulaun eins og þau séu í hverjum starfssamningi fyrir sig.  Hlutfallið sé 1.0385% af mánaðarlaunum.  Hér sé um að ræða lágmarksskjör sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980.

Stefndi hafi ekki farið eftir ákvæðum kjarasamnings við greiðslu yfirvinnulauna heldur hafi hann greitt fasta fjárhæð í upphafi 700 krónur fyrir eftirvinnutímann í stað 882,73 króna.

Stefnandi mótmælti því að stefndi hafi samið við stefnanda um fast tímakaup í yfir­vinnu, enda brjóti slíkir samningar í bága við ákvæði laga nr. 55/1980 um lág­marks­kjör.

Stefndi hafi við útborgun launa í mars einhliða breytt launagreiðslum og lækkað mán­aðarlaun á launaseðli og nefni hluta launa  „bónus” eingöngu til þess að lækka stofn fyrir yfirvinnu, sem hann síðan reikni miðað við ákvæði kjarasamnings 1.0385%, en af lægri stofni.Stefnandi kvað dagsvinnulaun fyrir mars ekki hafa breyst, einungis stofn yfirvinnu.  Slíkt sé með öllu óheimilt enda beri að reikna yfir­vinnu út frá heildarmánaðarlaunum fyrir dagvinnu hvort sem hún nefnist bónus, yfir­borg­un eða eitthvað annað.  Jafnframt beri að hafa í huga að óheimilt sé að breyta kjör­um starfsmanna nema að undangengnum uppsagnarfresti sbr. meginreglu vinnu­réttar og ákvæða kjarasamninga um uppsagnarfrest.

Stefnandi hafi unnið hjá stefnda í meira en sex mánuði og hefði því áunnið sér þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi, en eftir þriggja mánaða starf skuli uppsögn vera skrifleg og bundin við mánaðamót.  Stefnda hafi því borið að segja skrif­lega upp gildandi ráðningarfyrirkomulagi með 3ja mánaða fyrirvara, sem hann  hafi ekki gert.

Stefnandi gerði kröfu um leiðréttingu á yfirvinnugreiðslum í samræmi við kjara­samn­inga VR og vinnuveitenda frá 1. nóvember 1995 til 1. ágúst 1997, en þá hafi stefn­anda verið sagt upp störfum hjá stefnda.

Kröfu sína sundurliðar stefnandi svo í stefnu:

 

Laun vegna nóvember 1995

Mánaðarlaun 85.000 kr.

kr. 88.000

44,5 yfirvinnustundir á 882.73 kr.

kr. 39.281

Orlof 10,17% af 124.281 kr.

kr. 12.944

Samtals

kr. 140.225

Áður greitt

kr.-131.268

Mismunur ógreitt

kr. 8.957

 

Laun vegna desember 1995

Mánaðarlaun 85.000 kr.

kr. 71.750

92 yfirvinnustundir á 882.73 kr.

kr. 81.211

40 yfirvinnustundir vegna neysluhléa

kr. 35.309

Orlof 10,17% af 166.211 kr.

kr.12.944

Samtals

kr. 207.417

Áður greitt

kr. -180.844

Mismunur ógreitt

kr. 26.573

 

Laun vegna janúar 1996

Mánaðarlaun 85.000 kr.

kr. 88.000

26 yfirvinnustundir á 882.73 kr.

kr. 22.951

Orlof 10,17% af 110.951 kr.

kr. 11.284

Samtals

kr. 122.235

Áður greitt

kr.-117.000

Mismunur ógreitt

kr. 5.235

 

Laun vegna mars 1996

Mánaðarlaun

kr. 90.000

34 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr. 31.778

orlof 10,17% af 121.778 kr.

kr.12.385

Samtals

kr.134.163

Áður greitt

kr. -125.373

Mismunur ógreitt

kr. 8.790

 

Laun vegna apríl 1996

Mánaðarlaun

kr. 90.000

22,5 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr. 21.030

Orlof 10,17% af 111.030 kr.

kr. 11.292

Samtals

kr. 122.322

Áður greitt

kr. -116.505

Mismunur ógreitt

kr. 5.817

 

Laun vegna maí 1996

Mánaðarlaun

kr. 90.000

21 yfirvinnustund á 934,65 kr.

kr. 19.628

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 1.996

Samtals

kr. 111.624

Áður greitt

kr.-110.464

Mismunur ógreitt

kr.1.160

 

Laun vegna júní 1996

Mánaðarlaun

kr. 90.000

25,75 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr. 24.067

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 2.448

Samtals

kr. 116.515

Áður greitt

kr. -102.905

Mismunur ógreitt

kr.13.610

 

Laun vegna júlí 1996

Mánaðarlaun 90.000 kr.

kr.73.256

35,25 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr.32.946

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr.3.351

Samtals

kr.109.553

Áður greitt

kr.-102.383

Mismunur ógreitt

kr.7.170

 

Laun vegna ágúst 1996

Mánaðarlaun 90.00 kr.

kr. 81.628

41 yfirvinnustund á 934,65 kr.

kr. 38.321

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 3.897

Samtals

kr.123.846

Áður greitt

kr.-115.505

Mismunur ógreitt

kr.8.341

 

Laun vegna september 1996

Mánaðarlaun

kr. 90.000

35 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr. 32.713

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 3.327

Samtals

kr.126.040

Áður greitt

kr.-118.920

Mismunur ógreitt

kr.7.120

 

Laun vegna október 1996

Mánaðarlaun

kr. 90.000

35,5 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr. 33.180

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 3.374

Samtals

kr. 126.554

Áður greitt

kr.-119.333

Mismunur ógreitt

kr. 7.221

 

Laun vegna nóvember 1996

Mánaðarlaun

kr. 90.000

61 yfirvinnustund á 934,65 kr.

kr. 57.014

Orlof 10,17 % af yfirvinnu

kr. 5.798

Samtals

kr.152.812

Áður greitt

kr.-140.403

Mismunur ógreitt

kr.12.409

 

Laun vegna desember 1996

Mánaðarlaun

kr. 90.000

84,5 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr. 78.978

Desemberuppbót

kr. 24.000

Orlof 10,17 % af yfirvinnu

kr. 8.032

Samtals

kr. 201.010

Áður greitt

kr.-183.820

Mismunur ógreitt

kr. 17.190

 

Laun vegna janúar 1997

Mánaðarlaun

kr. 90.000

37,5 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr. 35.049

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 3.565

Samtals

kr.128.614

Áður greitt

kr. -120.985

Mismunur ógreitt

kr. 7.629

 

Laun vegna febrúar 1997

Mánaðarlaun

kr. 90.000

26 yfirvinnustundir á 934,65 kr.

kr. 24.301

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 2.471

Samtals

kr. 116.772

Áður greitt

kr. -111.483

Mismunur ógreitt

kr.5.289

 

Laun vegna mars 1997

Mánaðarlaun

kr. 90.000

31,50 yfirvinnustundir á 934,65

kr. 31.311

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr.3.184

Samtals

kr.124.495

Áður greitt

kr.-117.680

Mismunur ógreitt

kr.6.815

 

Laun vegna apríl 199

Mánaðarlaun

kr. 94.230

26,5 yfirvinnustundir á 978,58 kr.

kr. 25.932

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 2.637

Samtals

kr.122.799

Áður greitt

kr.-131.598

Mismunur ofgreitt

kr.-8.799

 

Laun vegna maí 1997

Mánaðarlaun

kr. 94.230

37,5 yfirvinnustundir á 978,58 kr.

kr. 36.697

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 3.732

Samtals

kr. 134.659

Áður greitt

kr.-126.703

Mismunur ógreitt

kr. 7.956

 

Laun vegna júní 1997

Mánaðarlaun

kr. 94.230

17,5 yfirvinnustundir á 978,58 kr.

kr. 17.125

Orlofsuppbót

kr. 8.400

Orlof 10,17% af yfirvinnu

kr. 1.741

Samtals

kr.121.496

Áður greitt

kr. -117.784

Mismunur ógreitt

kr. 3.712

Mismunur alls

kr.152.215

 

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 28/1930, um greiðslu verkkaups og laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Þá byggir stefn­andi kröfur sínar á kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og vinnu­veit­enda og bókunum, sem teljast hluti kjarasamninga.

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi fengið fullt endurgjald fyrir starf sitt hjá stefnda.

Stefndi mótmælti því, að hann hafi ekki hækkað laun stefnanda í samræmi við um­samdar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum VR og VSÍ í mars 1997 og að stefnandi hafi gert athugasemdir við það í apríl 1997.  Stefndi kvað að það hafi ekki verið fyrr en í apríl að afloknum atkvæðagreiðslum félagsmanna stéttarfélaga að legið hafi fyrir að kjarasamningar yrðu samþykktir og hafi vinnuveitendur almennt ekki greitt launahækkanir fyrr en með apríllaunum.  Stefndi kvaðst þá hafa hækkað heild­arlaun stefnanda um 4.7% frá gildistöku kjarasamnings í mars eins og launaseðill fyrir apríl það ár beri með sér.  Kvað stefndi það hafa verið í fullu samræmi við kjara­samn­ing VR frá því í mars 1997.  Við kynningu á kjarasamningunum hafi mikið verið fjallað um meðhöndlun og fyrirkomulag yfirborgana.  Hafi stefndi með hliðsjón af þeim upplýsingum breytt sundurliðun greiðslna á launaseðli stefnanda og skýrt það út fyrir stefnanda við launaútborgun apríllauna.  Kvað stefndi að stefnandi hafi gengið úr skugga um að heildargreiðslur hefðu hækkað í samræmi við kjarasamninginn, en ekki gert neinar athugasemdir við það að sundurliðunin á launaseðlinum væri á annan hátt en áður.

Stefndi mótmælti, sem röngum og ósönnuðum, fullyrðingum stefnanda um að sam­kvæmt kjarasamningi beri að reikna yfirvinnu af heildarmánaðarlaunum að með­töldum yfirborgunum og öðrum aukagreiðslum.  Um eðli og innihald yfirborgunar fari eftir samkomulagi starfsmanns og vinnuveitanda.  Þessi skilningur sé staðfestur í dómi Fél­agsdóms frá 17. janúar 1991 í málinu nr. 5/1990, þar sem dómurinn telji launa­fjár­hæðir sem stofnað sé til með yfirborgunum, utan við svið kjarasamninga.  Stefndi hafi samið við stefnanda um launagreiðslur, sem hafi verið verulega hærri en lág­marks­laun samkvæmt kjarasamningi, hvort sem litið sé til mánaðarlauna eða greiðslna fyrir yfirvinnu.  Stefndi kvað stefnanda hafa skrifað tímaseðla og hafi laun verið gerð upp í samræmi við þá, eins og launaseðlar beri með sér.  Stefndi kvaðst hafa, á starfstíma stefnanda, hækkað laun stefnanda hlutfallslega í samræmi við um­samdar launahækkanir í kjarasamningum verslunarmanna.

Stefndi mótmælti fullyrðingum um að ekki hafi verið ágreiningur á milli VR og VSÍ um þann skilning VR að skylt sé að hafa sömu yfirborgun á yfirvinnu og mán­að­ar­launum.  Við gerð kjarasamninga árið 1995 hafi VR gert þá kröfu að tilgreint yrði í kjara­samningum að yfirvinna reiknaðist af heildarlaunum, en því hafi verið hafnað af full­trúum vinnuveitenda.

Stefndi mótmælti því að stefnandi hefði gert athugasemdir við launauppgjör sín í mars 1997.  Stefnandi hafi sagt upp starfi sínu í maí 1997.  Ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að stefnandi hefði ætlað í nám til útlanda um haustið.  Fyrstu at­huga­semdir sem stefnda hafi borist hafi verið með bréfi VR, sem dagsett sé 21. ágúst 1997, eða um það leyti sem stefnandi hafi verið að hætta störfum hjá stefnda.

Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda sökum tóm­lætis stefnanda.  Stefnandi hafi tekið við launum athugasemdalaust og engar at­huga­semdir hafi verið gerðar fyrr en um það bil sem stefnandi hafi hætt störfum hjá stefnda.

Varakröfu sína byggir stefndi á því að ekki beri að hækka greiðslu fyrir yfirvinnu til handa stefnanda fyrr en frá þeim tíma sem sannanlega hafi verið gerðar at­huga­semdir við launauppgjör og dráttarvextir verði reiknaðir frá þingfestingu málsins.

Um lagarök vísar stefndi til samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samn­inga og meginreglu vinnuréttar um fyrirvaralausa viðtöku launa og að­gerð­ar­leysi.  Þá vísar stefndi til 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldu­trygg­ingu lífeyrisréttinda.  Stefndi styður kröfu sína og við kjarasamning Vinnu­veit­enda­sambands Íslands og Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Verzl­un­ar­manna­félag Reykjavíkur.

Varakröfu sína byggir stefndi á meginreglu vinnuréttar um fyrirvaralausa viðtöku launa og aðgerðarleysi auk 9. og 10. grein vaxtalaga nr. 25/1987.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála.

V.

Ágreiningur aðila máls þessu lýtur að því hvort yfirvinnugreiðslur til stefnanda hafi verið í samræmi við gildandi kjarasamninga.

Óum­deilt er að aðilar sömdu í upphafi starfstíma stefnanda um að mánaðarlaun hennar skyldu vera 85.000 krónur á mánuði og að mánaðarlaunin hækkuðu í 90.000 krónur eftir þrjá mánuði.  Þá er óumdeilt að greiðsla fyrir yfirvinnu var fyrstu þrjá mánuði starfstímans 700 krónur fyrir hverja yfirvinnustund en hækkaði þá í 750 krónur. 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu líf­eyrisréttinda, skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein og samn­ingar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjara­samningar ákveða skulu vera ógildir.

Samkvæmt grein  1.8 í  samningi milli Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Vinnu­veitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins á öll yfirvinna að greið­ast með tímakaupi sem nemur 1.0385% af mánaðarlaunum  fyrir dagvinnu.

Fyrir liggur að mánaðarlaun stefnanda og greiðslur fyrir yfirvinnu voru hærri en kveðið er á um að skuli vera lágmarkslaun samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi, þó svo eftirvinna hafi ekki verið 1.0385% af mánaðarlaunum stefnanda. Þegar litið er til þess verður ekki talið að fyrrgreindur samningur aðila um greiðslu fyrir eftirvinnu sé brot á 1. gr. laga nr. 55/1980.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan, en uppkvaðning hans hefur dregist sökum embættisanna dómarans.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, G. Torfason ehf, er sýkn af kröfum stefnanda, Valgerðar Bjargar Jóns­dóttur.

Málskostnaður fellur niður.