Hæstiréttur íslands
Mál nr. 154/2016
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins og þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
I
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi voru ákærði og brotaþoli í sama samkvæmi að [...], [...], laugardaginn 20. desember 2014. Þau þekktust fyrir, en áttu að eigin sögn hvorki samskipti í samkvæminu né á dansleik sem einhverjir samkvæmisgesta fóru á síðar um kvöldið. Að loknum dansleik, eða um klukkan hálffjögur þá um nóttina, mun brotaþoli hafa gengið til náða á heimili foreldra sinna að [...].
Ákærði og B vinur hans munu á hinn bóginn að loknum dansleiknum hafa um síðir farið á ný í samkvæmi að [...]. Þegar klukkan var að líkindum töluvert gengin í sex þá um nóttina fóru þeir saman að [...]. Þar hafði B næturstað en hann var kærasti systur brotaþola sem þar bjó. Fóru þeir inn í herbergi brotaþola sem var sofandi. B var þar í stutta stund áður en hann lagðist til svefns hjá kærustu sinni í næsta herbergi. Áður tók hann með símtæki sínu tvær ljósmyndir af ákærða eftir að hann hafði lagst í rúmið við hlið brotaþola. Jafnframt sendi hann ljósmyndirnar til tveggja vina sinna sem tengd voru brotaþola. Ákærði heldur því fram að brotaþoli hafi vaknað um leið og þeir B komu inn í herbergið, en brotaþoli og B segja hana hafi verið sofandi og einnig þegar ljósmyndirnar voru teknar.
Eftir að B var farinn úr herberginu hafði ákærði samræði við brotaþola. Kveðst hann hafa gert það með vilja og fullri þátttöku hennar. Á hinn bóginn heldur brotaþoli því fram að ákærði hafi nýtt sér svefndrunga hennar og ölvun til að ná fram vilja sínum, en hún hafi vaknað við að hann lá nakinn ofan á henni. Eftir þetta yfirgaf brotaþoli herbergið, vakti systur sína og lét vita um hvað gerst hefði. Fór systirin í herbergi brotaþola þar sem ákærði lá allsnakinn í rúminu og sagði honum að fara út. Í kjölfarið vaknaði heimilisfólkið, hringt var í lögreglu sem kom skömmu síðar á vettvang, handtók ákærða og færði til réttarlæknisfræðilegrar skoðunar, en brotaþoli fór á neyðarmóttöku.
Brotaþoli kvaðst hafa drukkið áfengi frá því um daginn, en ekki geta nákvæmlega sagt um hvenær þeirri neyslu lauk. Hún hefði á hinn bóginn fundið til áfengisáhrifa er hún lagðist til svefns en ekki telja þau hafa verið mikil. Ákærði kvaðst ekki hafa verið mikið ölvaður, þrátt fyrir neyslu áfengis fram eftir nóttu.
Ákærða var dregið blóð um klukkan 8 þá um morguninn og sýndi niðurstaða rannsóknar þess 1,18‰ alkóhóls. Þá voru á tímabilinu frá klukkan 8.45 til 9.45 tekin blóð- og þvagsýni úr brotaþola. Þvagsýni var með niðurstöðunni 2,39‰, en blóðsýnin annars vegar 1,41‰ og hins vegar 1,23‰. Í mati Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 29. janúar 2015 sagði: „Þegar litið er á niðurstöður mælinga á ofangreindum sýnum, sýna þær að hlutaðeigandi hefur verið ölvaður, þegar sýnin voru tekin. Einnig sýna niðurstöður mælinganna að etanólstyrkur í blóðinu hefur náð hámarki þegar fyrra blóðsýnið var tekið þ.e. kl. 08:45. Það styður niðurstaða úr síðara blóðsýninu. Út frá þessum niðurstöðum má sjá að brotthvarfshraði viðkomandi einstaklings er 0,18‰ á klst. Etanólstyrkur í þvaginu þ.e. 2,39‰ segir til um meðalstyrk etanóls í blóðinu einhvern tíma á undan. Sambærilegur etanólstyrkur í blóðinu hefur því verið a.m.k. 1,9‰ einhvern tíma fyrir klukkan 08:45 ... Ef reiknað er til baka með brotthvarfshraða etanóls úr blóði viðkomandi (0,18‰ á klst.) hefur etanólstyrkur verið um 1,9‰ um 2½ klukkustund fyrir sýnatöku.“
II
Af hálfu ákærða er meðal annars á það bent að við mat á aðstæðum umrætt sinn verði að líta til þess að B hafi boðið honum í herbergi brotaþola, tekið ljósmyndir af honum og brotaþola liggjandi í rúmi hennar, sent vinum sínum ljósmyndirnar, hringt í annan þeirra og sagt honum frá aðstæðum. Loks hafi B eytt ljósmyndunum úr síma sínum er lögregla kom á vettvang, en þær hafi þó fundist í síma vinarins. Hafi B kveikt loftljósið í herberginu, en slökkt það aftur er hann yfirgaf það. Á hinn bóginn hafi ekki orðið aldimmt við þetta þar sem bjarmi hafi borist frá öðru ljósi. Hafi brotaþoli verið vakandi er ljósmyndirnar voru teknar og sjáist að hún hafi þá haldið utan um hann. Þá verði við mat um sekt hans að horfa til þess að hann hafi legið rólegur í rúmi brotaþola er systir hennar kom að honum. Til viðbótar þessu hafi bæði hann og brotaþoli borið um kossa fyrir samræðið og við líkamsrannsókn hafi ekki komið í ljós áverkar sem bent gætu til valdbeitingar. Allt þetta styðji framburð hans um aðdraganda að samræði þeirra brotaþola.
Ákærði kveðst hafa verið trúverðugur og stöðugur í framburði við alla meðferð málsins, öfugt við brotaþola. Hafi hún til að mynda fyrst við síðari skýrslutöku fyrir dómi viðurkennt frekari atlot þeirra á milli og þá ekki fyrr en eftir að lögreglumaður hafi borið um frásögn hennar á vettvangi. Þá byggir ákærði á því að frásögn vitnisins B hafi verið ótrúverðug og ákærða æ óhagstæðari eftir því sem liðið hafi á meðferð málsins.
III
Samkvæmt framburði þeirra tveggja lögreglumanna sem höfðu afskipti af ákærða við handtöku og á lögreglustöð var hann áberandi ölvaður. Samræmist þetta niðurstöðu rannsóknar um alkóhólmagn í blóði hans. Þá er ekki fallist á með ákærða að miða verði við að brotaþoli hafi verið vakandi er umræddar ljósmyndir voru teknar. Hefur enga þýðingu í því sambandi hvort loftljós hafi verið kveikt.
Fram er komið að ljósasería var í glugga á herbergi brotaþola og kvaðst móðir hennar telja, líkt og ákærði, að kveikt hafi verið á seríunni. Samkvæmt framburði brotaþola var myrkur í herberginu er ákærði athafnaði sig. Bar systir hennar að svo hafi verið áður en hún kveikti loftljósið og sá ákærða í rúmi brotaþola. Þótt miðað verði við að logað hafi á ljósaseríu í glugga ber ljósmynd lögreglu af vettvangi með sér að dregið var fyrir gluggann. Þrátt fyrir að héraðsdómur hafi látið hjá líða að fjalla sérstaklega um þetta atriði telst það óverulegt við mat á sönnun um sekt ákærða. Gildir hið sama um þá staðreynd að ekki fundust áverkar á brotaþola, enda er framburður hennar ekki á þá lund að ætla megi að hún hafi fengið áverka við atferli ákærða.
Brotaþoli bar einatt að hún hefði rumskað við að nakinn maður væri að kyssa hana á munninn og í fyrstu hefði hún ósjálfrátt tekið á móti. Ekki kvaðst hún geta lýst atvikum nákvæmlega og vildi ekki vefengja að hennar fyrstu viðbrögð hefðu verið að taka undir atlot, enda hefði hún verið ringluð, hrædd og í losti sökum þess að hún hefði ekki áttað sig á hvað væri að gerast. Er þessi frásögn í samræmi við framangreinda lýsingu lögreglumanns fyrir dómi um að brotaþoli hafi sagt sér að hún hefði „kysst á móti og tekið þátt í þessu. Svo þarna undir restina þá var hún farin að átta sig á því hvað væri í gangi.“ Samræmist þetta einnig frumskýrslu lögreglumannsins þar sem fram kom að brotaþoli hefði verið „ný-vöknuð, ringluð og svolítið ölvuð ... ekki hafa áttað sig á því hvað var í gangi“.
Í héraðsdómi er rakinn framburður vitna um bágt ástand brotaþola eftir þennan atburð og hefur hún ekki sagst geta fullyrt nákvæmlega um atvik. Ákærði hefur bent á að brotaþoli hafi haft orð á því í upphafi fyrstu skýrslutöku lögreglu 21. desember 2014 að hún hefði farið í sturtu eftir að hún yfirgaf herbergið. Af næstu orðum hennar við sömu skýrslugjöf verður á hinn bóginn ekki annað ráðið en að hún hafi klætt sig í einhver föt sem voru innan handar, farið úr herberginu og þegar í framhaldinu vakið systur sína. Síðar við sömu skýrslutöku ítrekaði hún svo að hafa farið „strax“ og vakið systur sína. Er það sú frásögn sem hún hélt sig við.
Fallist er á með ákærða að framburður vitnisins B hafi um sumt verið óskýr. Er haft eftir vitninu í héraðsdómi að hann hafi verið mjög drukkinn og litið á framferði sitt sem grín. Margítrekaði vitnið við alla meðferð málsins að ölvun sín hefði verið svo veruleg að hann myndi ekki skýrt eftir atvikum. Er í héraðsdómi rétt eftir vitninu haft að hann hafi ekki talið að brotaþoli hefði vaknað við umganginn í þeim ákærða. Sú frásögn hans var á sömu lund bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Er í héraðsdómi nægilega rökstutt með hvaða hætti litið er til framburðar B við niðurstöðu máls.
Fyrir liggur af framangreindu mati að brotaþoli var ölvuð er hún lagðist til svefns. Styrkir það framburð hennar um svefndrunga og viðbrögð hennar við atferli ákærða.
Í málinu hefur fjölskipaður héraðsdómur metið framburð brotaþola trúverðugan. Hafi hann verið skýr og stöðugur í öllum höfuðatriðum og samræmst öðrum gögnum, þar á meðal vitnisburði B, auk þess að fá ríkan stuðning í fyrrgreindum ljósmyndum af ákærða uppi í rúmi hennar umrædda nótt. Þá fái framburður brotaþola stuðning í vætti fimm vitna um ástand hennar eftir að hún kom út úr herbergi sínu, svo og í vottorði og framburði sálfræðinga um líðan hennar.
Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á með ákærða að annmarkar séu á sönnunarmati héraðsdóms sem valdið gætu að vísa beri málinu til nýrrar meðferðar í héraði, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa nýtt sér ölvun og svefndrunga brotaþola til að hafa við hana samræði og þannig gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Refsing ákærða verður ákveðin fangelsi tvö ár og sex mánuðir.
Að virtum þeim ítarlegu gögnum sem fyrir liggja um miklar andlegar afleiðingar sem brotaþoli hefur þurft að glíma við vegna brots ákærða, einkum fyrstu mánuði eftir atvik, verða miskabætur henni til handa ákveðnar 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dómsorð:
Ákærði, Björn Valdimarsson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.
Ákærði greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, samtals 1.197.570 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 5. febrúar 2016.
I.
Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru, dags. 25. mars 2015, „á hendur Birni Valdimarssyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir nauðgun, með því að hafa að morgni 21. desember 2014, að [...], [...], haft samræði við A, kennitala [...], gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og ölvunar“. Er þetta talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
A, kt. [...], gerir kröfu um miskabætur að fjárhæð 1.800.000 krónur, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. desember 2014 þar til mánuður sé liðinn frá birtingu bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákæru og að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á [...] barst tilkynning, kl. 06.26, sunnudaginn 21. desember 2014, um það að nauðgun hefði hugsanlega átt sér stað að [...] þar í bæ og að gerandinn væri þar á staðnum. Er lögreglumenn komu á vettvang stóð húsráðandinn, C, í anddyri hússins. Hélt hann þar í ákærða, sem hann sagði að hefði hugsanlega nauðgað dóttur hans, A, brotaþola máls þessa. Kemur og fram í skýrslunni að brotaþoli hafi verið inni í herbergi systur sinnar grátandi og augljóslega í mikilli geðshræringu. Hefði hún skýrt frá því að hún hefði sofnað heima hjá sér um kl. 04.00, eftir að hafa verið á dansleik fyrr um kvöldið. Hefði hún vaknað við það að einhver var að kyssa hana og hafa við hana kynferðismök. Niðamyrkur hefði verið í herberginu og hefði hún ekki áttað sig á því hver lægi ofan á henni. Sagðist hún telja að gerandinn, ákærði í máli þessu, hefði fengið sáðlát inn í sig. Hún hefði svo náð áttum og farið grátandi inn í herbergi D systur sinnar og vakið hana. Fram kemur í skýrslunni að D hefði farið inn í herbergi brotaþola, komið þar að ákærða þar sem hann hefði legið nakinn í rúmi hennar, rekið hann á fætur og sagt honum að klæða sig og koma sér í burtu. Ákærði var handtekinn á staðnum og fluttur á lögreglustöðina á [...]. Er í skýrslunni haft eftir honum að hann hefði yfirgefið gleðskap í húsinu við hliðina, ásamt brotaþola og B. Hefði brotaþoli boðið honum inn í húsið og þaðan inn í herbergi sitt. Þau hefðu kysst heillengi og í kjölfarið haft kynferðismök með fullu samþykki hennar. Hún hefði síðan farið fram á klósettið en D hefði svo komið inn í herberbergið og beðið hann um að fara.
Ákærði var fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík, þar sem fram fór á honum réttarlæknisfræðileg skoðun. Liggur fyrir skýrsla tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna þeirrar skoðunar og ljósmyndir af ákærða. Kemur þar fram að á hálsi, hægra megin að aftan og vinstra megin að framan, hafi verið 1-2 cm roðarákir og um 0,5 mm grunnt hrufl á hálsinum vinstra megin. Önnur ný áverkamerki hafi ekki greinst.
Lögregla flutti brotaþola á neyðarmóttöku Landspítala og kom hún þangað í fylgd móður sinnar kl. 08.25 síðar um morguninn. Fyrir liggur í gögnum málsins skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun sem stúlkan gekkst undir á neyðarmóttöku og í þeim kafla skýrslunnar sem ber fyrirsögnina „frásögn sjúklings“ er skráð eftir henni: „Sofnaði og rumskaði svo fyrst þegar hún var vör við mann uppí hjá sér, lá ofan á henni og var að reyna að kyssa hana. Heldur að hann hafi verið ber. Var örugglega fullur. Hélt svo áfram og hafði við hana samfarir um leggöng, en veit ekki hvort hann lauk sér af. „Fraus og var eins og slokknaði á mér, varð stjörf, hann sagði ekkert og ég sagði ekkert og það var svarta myrkur, vissi ekki hver þetta var fyrr en rétt í lokin.“ Fór fram úr og inn til systur sinnar og var hágrátandi. Hann var eftir í herberginu. Veitti ekki mótspyrnu og veit ekki til þess að hann hafi haldið henni eða gert eitthvað annað og finnur ekki fyrir eymslum eða veit um neina áverka.“ Þá segir m.a. í niðurstöðum læknis um skoðunina að þetta komi heim og saman við sögu um skoðun en enga áverka sé að finna á líkama eða kynfærum, sem útiloki þó ekki að kynmök hafi átt sér stað. Loks kemur fram að sýni hafi verið tekin til mögulegrar DNA-skoðunar frá munni og ytri og innri kynfærum auk þess sem blóð- og þvagsýni hafi verið tekin til alkóhólákvörðunar. Við rannsókn á þessum sýnum hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði fundust engin lífsýni sem nothæf gátu talist til DNA-kennslagreiningar. Fyrir liggur í málinu matsgerð rannsóknastofunnar vegna rannsóknar á blóð- og þvagsýnunum úr brotaþola og kemur þar fram það álit að etanólstyrkur í blóði hennar hafi verið 1,9‰ um 2½ klst. fyrir sýnatökuna kl. 08.45 umræddan dag.
Í málinu liggja fyrir vettvangsmyndir lögreglu og tvær ljósmyndir sem B tók umrædda nótt og sýna ákærða liggja við hlið brotaþola í rúmi hennar. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu fékk lögreglumaður myndirnar á „Facebook“-síðu E, sem B hafði sent honum kl. 05.38 um nóttina. Þar sem lögregla hafi verið kvödd á staðinn kl. 06.26 megi ætla að meint brot hafi átt sér stað á tímabilinu kl. 05.38 til 06.26.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu vegna málsins að kvöldi sunnudagsins 21. desember 2014 og aftur 21. janúar 2015, en brotaþoli, A, gaf skýrslu hjá lögreglu 21. desember 2014 og síðan aftur 13. janúar 2015.
Fyrir liggur vottorð F sálfræðings vegna brotaþola, dags. 12. mars 2015. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi komið í sjö viðtöl á tímabilinu 9. janúar til 12. mars 2015. Hafi henni í meðferðinni verið veittur sálrænn stuðningur, gert hafi verið greiningarmat og hafin sérhæfð hugræn atferlismeðferð við einkennum áfallastreituröskunar og öðrum afleiðingum meints kynferðisbrots. Segir í samantektarkafla vottorðsins að allt viðmót brotaþola bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og bjargarleysi í meintu broti. Sýni niðurstöður endurtekins greiningarmats að brotaþoli þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar meints brots. Sálræn einkenni hennar vegna þessa samsvari einkennum sem séu þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Þá hafi niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvarað vel frásögnum hennar í viðtölum. Hafi hún ávallt virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Ekki sé hægt að segja til um það með vissu hver áhrif meints brots verði þegar til lengri tíma sé litið en ljóst þyki að atburðurinn hafi haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola.
III.
1.
Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði ákærði frá atvikum mjög á sama veg og hjá lögreglu. Lýsti hann því meðal annars að hann hefði fyrr um kvöldið verið í veislu að [...]. Hefði hann farið á ball á eftir en í kjölfarið hefði honum verið boðið í eftirpartý að [...]. Ákærði kvaðst hafa þekkt brotaþola í gegnum sameiginlega vini en ekki átt nein bein samskipti við hana þarna um kvöldið önnur en að hann hefði talað lítillega við hana í veislunni fyrir ballið. Hann hefði svo seint um nóttina, líklega eftir kl. 5, farið úr eftirpartýinu að [...] og inn í húsið við hliðina, að [...], í boði B. Ekki væri því rétt það, sem haft er eftir honum í frumskýrslu lögreglu, að brotaþoli hefði boðið honum inn. Hann hefði aldrei sagt það. Hið rétta væri að B hefði farið með hann inn í herbergi brotaþola og kallað til hennar að hann væri kominn með ákærða. Brotaþoli hefði verið sofandi en vaknað, litið upp og svarað þegar þeir komu þarna inn. Ákærði kvaðst þá hafa sest á rúmstokkinn hjá henni, til fóta. B hefði svo verið „að ýta mér sem sagt upp í rúmið inn að veggnum og upp í það, eða þú veist, já og sem sagt fer yfir fætur hennar við það“. Í kjölfarið kvaðst ákærði hafa byrjað að spjalla við brotaþola. Þetta hefði síðan þróast á þann veg að B hefði, líklega eftir um eina mínútu, farið út úr herberginu aftur og kvatt með þeim orðum að hann ætlaði að leyfa þeim að vera eftir tveimur. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa tekið eftir því að B tæki myndir inni í herberginu áður en hann fór, en hins vegar hefði hann séð hann halda á síma sínum. Taldi hann að B hefði kveikt ljósið í herberginu þegar þeir komu þangað inn en slökkt það aftur er hann fór út. Ákærði og brotaþoli hefðu síðan haldið áfram að spjalla og hann þá meðal annars sagt við hana að hún væri sæt og hún svarað á sama hátt. Þetta hefði síðan þróast út í það að þau hefðu horfst í augu og byrjað að kela og kyssast. Hann hefði svo farið úr fötum sínum og hún einnig hjálpað til við það. Þau hefðu snert hvort annað kynferðislega og loks haft samfarir um leggöng. Taldi ákærði að um 30 til 40 mínútur hefðu þá verið liðnar frá því að hann kom inn í herbergið. Eftir að samförunum lauk hefði liðið smástund þar til brotaþoli hefði sagst ætla að fara á klósettið. Sjálfur kvaðst ákærði hafa legið rólegur í rúminu, nakinn, þegar systir brotaþola hefði komið inn í herbergið „smá æst“ og beðið hann um að klæða sig og fara. Ákærði sagðist hafa hváð og spurt hana hvað væri í gangi en síðan klætt sig. Meðan hann var að því hefði pabbi brotaþola komið æstur inn í herbergið og spurt hvað hann væri að gera þarna. Pabbinn hefði síðan gripið um hálsinn á honum, dregið hann fram í anddyri hússins og sagt honum þar að brotaþoli væri grátandi. Lögreglan hefði svo komið skömmu síðar.
2.
Brotaþoli lýsti atvikum mjög á sama veg og hún hafði gert hjá lögreglu. Lýsti hún því meðal annars að hún hefði fyrr um kvöldið verið í umræddu útskriftarboði að [...] og farið eftir það á ball. Ákærði hefði verið í boðinu fyrr um kvöldið en þau hefðu ekki átt þar nein samskipti og ekki heldur á ballinu í kjölfarið. Þegar ballið var búið hefði hún fengið far með tveimur stelpum og strák, sem hún þekkti ekki, sem hefðu skutlað henni heim, í hús foreldra hennar. Kvaðst hún hafa verið undir áhrifum áfengis en ekki dauðadrukkin. Er þangað kom, líklega um kl. 3.30, hefði hún farið beint inn til sín og lagst til svefns án þess að hitta þar nokkurn mann. Hefði hún einungis verið íklædd nærbuxum er hún sofnaði. Hún hefði svo vaknað við það skömmu síðar að nakinn maður, sem hún sá ekki hver var vegna myrkurs í herberginu, lá ofan á henni, var að hafa við hana samfarir og að þau væru að kyssast. Hún hefði þá áttað sig á því hvað var í gangi. Hefði hún þá orðið mjög hrædd, frosið og ekkert gert, hvorki veitt mótspyrnu né kallað á hjálp. Kvaðst hún ekki muna neitt hvað gerðist eftir það, þ. á m. með hvaða hætti þessu hefði lokið. Hún myndi það eitt að hafa staðið upp úr rúminu, klætt sig í buxur, bol og gollu og farið inn í herbergi systur sinnar. Þar hefði hún bara grátið stanslaust án þess að geta nokkuð sagt, en síðan loks getað sagt systur sinni frá því að það væri maður inni í herberginu hennar. Systir hennar hefði þá einhvern veginn strax áttað sig á því hvað um væri að vera, farið inn í herbergið og rekið ákærða þaðan út.
Spurð um líðan sína í kjölfar þessa atburðar sagðist brotaþoli hafa verið mjög hrædd næstu daga og mánuði á eftir. Hún hefði lítið getað sofið og alltaf fengið martraðir er hún sofnaði. Hún hefði átt erfitt með að vera ein heima og hugsað mikið um að allir gluggar væru lokaðir og dyr læstar. Hún hefði stöðugt óttast að hitta ákærða og átt erfitt með einfalda hluti eins og klæða sig, setja í þvottavél og fara í vinnuna.
3.
Vitnið B kvaðst hafa verið í umræddu eftirpartýi að [...] og verið orðinn mjög drukkinn. Að því loknu hefði hann farið, ásamt ákærða, sem einnig hefði verið mjög drukkinn, yfir að [...] og þá sagt sem svo í gríni við ákærða: „Þú verður bara hjá [A] ...“. Þar hefðu þeir farið inn í herbergi til brotaþola og kveikt ljósið, en hún hefði verið sofandi. Kvaðst vitnið svo hafa ákveðið að taka myndir af ákærða, sem hefði þá verið sestur á rúmgaflinn hjá brotaþola og „var að fikra svona, eða hvort hann fikraði sig fyrir ljósmyndina“. Kvaðst B telja að brotaþoli hefði þá verið sofandi. Þeir hefðu ekkert talað við hana og hún ekkert sagt við þá. Hann minntist þess ekki að hún hefði opnað augun en hún hefði ef til vill eitthvað velt sér í rúminu. Eftir að hafa tekið myndirnar af ákærða uppi í rúminu hjá brotaþola kvaðst B minna að hann hefði slökkt ljósið í herberginu, farið út og lokað á eftir sér, eftir að hafa verið innan við eina mínútu þar inni. Kvaðst hann hafa talið að ákærði myndi „rotast þarna við hliðina á henni svefndauða eða eitthvað“. Hefði hann svo farið inn í herbergi til D, kærustu sinnar og systur brotaþola, og reynt að segja henni frá þessu, en hún hefði ekki veitt því neina athygli þar sem hún hefði verið sofandi. Því næst kvaðst hann hafa sent myndirnar til G og E, í húsinu við hliðina, og fylgt því eftir með því að hringja í E. Hefði þetta átt að vera „ægilega fyndið“, þar sem ákærði væri þarna hjá brotaþola. Þeir hefðu rætt eitthvað stutt saman um þetta en í kjölfarið kvaðst hann hafa lagst til svefns og steinsofnað. Hann hefði svo vaknað við það að brotaþoli kom hágrátandi, ráðvillt og rugluð inn í herbergið og talaði um að einhver maður væri inni í herberginu hennar. Hefði D spurt hana hvort hún hefði sofið hjá honum og hún þá svarað „ég veit það ekki, ég veit það ekki“. Hefði hún augljóslega ekkert vitað hvað væri í gangi. B kvaðst þá hafa farið og kíkt inn í herbergið og séð ákærða þar liggjandi nakinn uppi í rúmi. Hefði honum þá brugðið mjög og því snúið við aftur inn í herbergið til brotaþola og D, án þess að segja orð við ákærða. Þegar hann hefði svarað játandi spurningu D um hvort maðurinn væri þarna ennþá hefði hún farið inn í herbergið og öskrað þar á ákærða. Við það hefði C pabbi hennar vaknað og blandað sér í málið. Sérstaklega aðspurður kvaðst B hafa metið aðstæður svo umræddan morgun að brotaþola hefði verið nauðgað.
Vitnið D kvaðst hafa vaknað upp við það að brotaþoli kom grátandi inn til hennar. Hefði í fyrstu verið erfitt að fá hana til að segja hvað gerst hefði en augljóst hefði verið að það hefði verið eitthvað meira en bara vondur draumur. Hefði brotaþoli ruggað sér fram og til baka en loks sagt: „Hann reið mér“ og haldið síðan áfram að gráta. Hefði brotaþoli ekki virst vita um hvaða mann væri að ræða. Vitnið kvaðst þá hafa staðið upp og farið „alveg brjáluð“ inn í herbergi brotaþola, kveikt þar ljósið, rifið sængina af ákærða, tekið fötin hans og hent þeim í hann með þeim orðum að hann skyldi koma sér út. Spurð um líðan brotaþola í kjölfarið sagði vitnið að hún hefði verið mjög þung og orðið fljótt pirruð út af smæstu atriðum. Þá kvaðst vitnið hvorki minnast þess að B hefði sýnt henni myndir í síma sínum fyrr um nóttina né að hafa orðið vör við að hann hringdi í E vegna þeirra.
Vitnin C og H, foreldrar brotaþola, lýstu því að þau hefðu vaknað við það umræddan morgun að yngri dóttir þeirra væri að öskra á einhvern og skipa honum að fara út. Er þau komu fram hefði D verið inni í herbergi brotaþola að segja ákærða, sem þá lá undir sæng inni í herberginu, að koma sér út, en brotaþoli hefði verið grátandi uppi í rúmi, inni í herbergi D. Bæði lýstu foreldrarnir því að eftir umrætt atvik hefði brotaþola augljóslega liðið mjög illa. Þannig sagði C að hún hefði verið mjög niðurdregin, viðkvæmari en fyrr og ólík sjálfri sér á allan hátt og H að hún hefði verið brotin og að henni hefði augljóslega verið illt á sálinni.
Vitnin E og G lýstu því að D hefði vakið þau upp umræddan morgun, en þau dvöldu þá að [...]. Hefði D beðið þau um að koma að [...], þar sem þar væri allt í háalofti. Er þau komu yfir kvaðst E hafa séð brotaþola hágrátandi inni í herbergi hjá D en hann hefði ekkert talað við hana. Hann kvaðst hins vegar hafa rætt við B, sem hefði verið miður sín og kennt sér um hvað gerst hefði þar sem hann hefði farið með ákærða um nóttina inn í herbergið til brotaþola. G kvaðst hafa farið inn í herbergið til D og hafi brotaþoli þá verið þar inni hágrátandi. Hefði hún sagt að hann hefði „sofið hjá“ henni gegn hennar vilja, en hún sjálf hefði þá verið sofandi. G kvaðst þá hafa spurt hvort hann hefði nauðgað henni og brotaþoli þá svarað því játandi. Bæði könnuðust vitnin við að hafa stuttu áður um nóttina séð myndir í síma E, sem B hefði sent E. Kvaðst E hafa vaknað við að B hringdi í hann, þegar hann hefði verið nýsofnaður, og spurt hvort hann hefði séð myndirnar sem hann hefði sent honum. Ekkert annað hefði verið rætt og hefðu þau ekkert áttað sig á því að neitt alvarlegt væri í gangi. Hefðu þau litið á þetta sem eitthvert grín og því aftur lagst til svefns.
F sálfræðingur staðfesti og skýrði frekar vottorð sitt. Sagðist hún hafa hitt brotaþola tíu sinnum síðan vottorðið var gefið út, og því alls sautján sinnum. Ljóst væri að atvikið hefði haft mjög alvarleg áhrif á hefðbundið og daglegt líf brotaþola. Einkennin hefðu truflað vinnu hennar og félagslíf, auk þess að trufla öryggiskennd hennar verulega. Meðferðinni væri nú lokið, en hún væri þó enn í eftirfylgd eftir meðferð.
Auk framangreindra gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins þau I og J, sem staðfestu að brotaþoli hefði verið samferða þeim í bíl af ballinu umrædda nótt. Þá lýstu héraðslögreglumaðurinn K og lögreglumennirnir L og M aðkomu sinni að málinu. Þær N læknir og O hjúkrunarfræðingur gáfu símaskýrslur vegna skýrslna sem þær unnu vegna skoðunar á brotaþola á neyðarmóttöku Landspítalans, en einnig gáfu símarskýrslur þeir P rannsóknarlögreglumaður og Q, sérfræðingur á tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vegna skýrslna tæknideildarinnar og R læknir, S deildarstjóri og T lyfjafræðingur vegna rannsóknar á áfengismagni hjá ákærða og brotaþola.
IV.
Ákærði er í máli þessu borinn sökum um nauðgun með því að hafa að morgni 21. desember 2014, að [...], [...], haft samræði við brotaþola gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu vegna svefndrunga og ölvunar. Eins og áður greinir hefur brotaþoli lýst atvikum mjög á sama veg, bæði í skýrslum sínum hjá lögreglu og síðan fyrir dómi. Kvaðst hún fyrir dómi hafa sofnað, líklega um kl. 3.30, nokkuð undir áhrifum áfengis, og vaknað við það skömmu síðar að ókunnugur maður væri að kyssa hana og hafa við hana samfarir. Hún hefði í svefnrofunum í fyrstu kysst á móti en þegar hún hefði áttað sig á að þetta væri ekki draumur hefði hún orðið mjög hrædd og frosið. Hún myndi síðan lítt eftir sér fyrr en hún hefði farið fram úr rúminu, klætt sig í buxur, bol og gollu, farið inn í herbergi systur sinnar og sagt henni þar hágrátandi frá því að ókunnugur maður væri inni í herberginu hennar.
Ákærði hefur allt frá því að hann var handtekinn kannast við að hafa haft samfarir við brotaþola umrædda nótt, en haldið því fram að það hafi verið með fullu samþykki hennar. Var framburður hans, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, á þann veg að hún hefði vaknað þegar hann og vitnið B komu inn í herbergið til hennar og svarað þegar B hefði kallað til hennar að hann væri kominn með ákærða. Kvaðst ákærði hafa spjallað við hana, bæði áður en B fór aftur út úr herberginu og eftir að hann var farinn. Þannig hefði hún verið vakandi þegar B tók fyrirliggjandi ljósmyndir af honum uppi í rúminu hjá brotaþola, auk þess að vera vakandi og taka fullan þátt í kossum, atlotum og loks samförum þeirra í kjölfarið. Þessi framburður ákærða gengur hins vegar þvert á framangreindan framburð brotaþola og vitnisburð B um að hann teldi að brotaþoli hefði verið sofandi þegar hann tók fyrrgreindar ljósmyndir af ákærða liggjandi við hlið hennar, enda hefði hún ekki opnað augun, sagt neitt eða sýnt önnur merki þess að vera vakandi í greint sinn. Þá verður og að telja að umræddar ljósmyndir styðji á engan hátt framburð ákærða um að brotaþoli hafi verið vakandi á þeim tíma heldur styðji miklu fremur framburð B um hið gagnstæða.
Það er mat dómsins að framangreindur framburður brotaþola sé í alla staði trúverðugur, en hann hefur frá upphafi verið skýr og stöðugur í öllum höfuðatriðum, bæði samkvæmt skýrslum hennar hjá neyðarmóttöku, lögreglu og sálfræðingi og samkvæmt framburði vitna þar um. Samræmist framburður hennar og í einu og öllu fyrrgreindum framburði vitnisins B, auk þess að fá ríkan stuðning af fyrrgreindum ljósmyndum af ákærða uppi í rúmi hjá brotaþola umrædda nótt. Þá fær framburður brotaþola stuðning af framburði vitnanna D, G, E, C og H um ástand hennar eftir að hún kom út úr herbergi sínu umrædda nótt. Loks fær framburður brotaþola ríkan stuðning af vottorði og framburði sálfræðingsins F um áhrif atviksins á líðan brotaþola í kjölfarið, og vitnisburði foreldranna C og H og systurinnar D um afleiðingar atviksins á líðan brotaþola og daglegt líf hennar í kjölfarið.
Að því virtu sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi með samræðinu við brotaþola hlotið að vera ljóst að hann væri að ganga lengra en hann hafði nokkra ástæðu til að ætla sér heimilt, og notfært sér þannig að brotaþoli gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og undanfarandi áfengisdrykkju. Verður í þessu tilliti ekki talið neinu máli skipta þótt brotaþoli hafi í svefnrofunum, rétt áður en hún vaknaði, kannast við að hafa kysst ákærða í móti. Er samkvæmt því talið nægilega sannað, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Að virtum málsatvikum og með tilliti til refsimarka framangreinds hegningarlagaákvæðis þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Krafa brotaþola um skaðabætur byggist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu dómsins, og vottorðs og vitnisburðar F sálfræðings um áhrif atviksins á líðan brotaþola í kjölfar brotsins, verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 1.000.000 króna í miskabætur, með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, en dráttarvextir dæmast frá 24. mars 2015, þegar liðinn var mánuður frá því að lögmaður ákærða tilkynnti um höfnun hans á kröfunni.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, þóknun og kostnað verjenda sinna á rannsóknarstigi og fyrir dómi og þóknun og kostnað réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri, sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum Ástríði Grímsdóttur og Boga Hjálmtýssyni héraðsdómurum.
Dómsorð:
Ákærði, Björn Valdimarsson, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði A 1.000.000 króna í miskabætur, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. desember 2014 til 24. mars 2015, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað að fjárhæð 222.189 krónur, 1.100.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, 81.840 króna þóknun og 13.600 króna ferðakostnað Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, vegna verjandastarfa hans á rannsóknarstigi, og 650.000 króna þóknun og 54.400 króna ferðakostnað réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns.