Print

Mál nr. 160/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Skuldabréf
  • Lánssamningur
  • Verðtrygging
  • Ógilding samnings
  • Evrópska efnahagssvæðið
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit

                                     

Miðvikudaginn 13. maí 2015.

Nr. 160/2015.

Gunnar V. Engilbertsson

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.

Einar Páll Tamimi hdl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Kærumál. Skuldabréf. Lánssamningur. Verðtrygging. Ógilding samnings. Evrópska efnahagssvæðið. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.

G bar undir dómstóla lögmæti fjárnáms sem gert var í eignarhluta hans í fasteign fyrir kröfu Í hf. á grundvelli skuldabréfs. Deila aðila laut að lögmæti og skuldbindingargildi verðtryggingarákvæðis í skuldabréfinu, en fjárhæð þess var bundin vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Höfðu mótmæli G við fjárnámsgerðina verið reist á því að verðtryggingarákvæði skuldbréfsins væri ólögmætt og í andstöðu við 36. gr. og 36. gr. a. til c. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. tilskipun ráðsins nr. 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Undir meðferð málsins í héraði lét EFTA-dómstóllinn í té ráðgefandi álit í málinu um skýringu á tilskipunum 93/13/EBE og 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með hliðsjón af 2. mgr. 1. gr. fyrrnefndu tilskipunarinnar og að virtum VI. kafla laga nr. 38/2001, lögum nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs og reglum Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, yrði að staðfesta þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að 36. gr. og 36. gr. a. til c. laga nr. 7/1936 gætu aðeins tekið til skilmála um þá þrjá þætti í lánssamningi sem aðilum hans væri að lögum frjálst að semja um að því er varðaði verðtryggingu með vísitölu neysluverðs, nánar tiltekið hvort fjárhæð lánsins skyldi yfirleitt vera háð verðtryggingu að hluta eða öllu leyti, hvort þar yrði miðað við vísitölu neysluverðs eða hlutabréfavísitölur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr.38/2001 og hver grunnvísitalan skyldi vera. Taldi Hæstiréttur að engin efni væru til að líta svo á að skilmálar um þessi þrjú atriði í skuldabréfinu hefðu strítt gegn góðum viðskiptaháttum og raskað til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna G í óhag, þannig að þeir yrðu taldir ósanngjarnir í skilningi 3. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936, skýrðrar til samræmis við 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar kæmi til álita hvort lánveitandinn hefði látið hjá líða að veita G upplýsingar um efni og áhrif skilmála um verðtrygginguna í þeim mæli að það yrði talið ósanngjarnt af Í hf. eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera þá fyrir sig samkvæmt 36. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936. Með hliðsjón af þeirri greiðsluáætlun sem G undirritaði samhliða skuldabréfinu og yfirliti sem fylgdi henni, taldi Hæstiréttur að upplýsingaskyldu hefði verið fullnægt sem á honum hvíldi samkvæmt þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Við úrlausn málsins var enn fremur litið til þess að tilskipun 87/102/EBE hefði ekki haft lagagildi hér á landi og gæti lögskýring með hliðsjón af 3. gr. laga nr. 2/1993 ekki leitt til annarrar niðurstöðu um túlkun ákvæða laga nr. 121/1994, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015, þar sem leyst var úr ágreiningi um fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila 13. ágúst 2012 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð samtals 6.735.403 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámi þessu verði breytt á þann hátt að það taki til kröfu að fjárhæð samtals 3.887.393 krónur. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 4. maí 2015.

I

Mál þetta á rætur að rekja til skuldabréfs að fjárhæð 4.400.000 krónur, sem sóknaraðili gaf út 2. maí 2007 til Glitnis banka hf. og greiða átti með 180 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. júní sama ár. Höfuðstóll skuldarinnar átti að taka breytingum eftir vísitölu neysluverðs frá grunntölunni 267,1 stig og bera 5% ársvexti, sem bankanum var þó heimilt að endurskoða á fimm ára fresti. Um verðtrygginguna sagði eftirfarandi í skuldabréfinu: „Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu samkvæmt ofanskráðu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli síðari gjalddaga. Skal höfuðstóll skuldarinnar breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er verðbótum bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan er deilt í útkomuna með þeim fjölda gjalddaga, sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga, sem er í það sinn.“ Jafnframt var ákvæði um heimild kröfuhafans til að leita fjárnáms fyrir gjaldföllnum greiðslum samkvæmt skuldabréfinu án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, en sóknaraðili hafði að auki gefið út til Glitnis banka hf. á árunum 2005 og 2007 tvö tryggingarbréf með veði í nánar tilgreindum eignarhluta í fasteigninni Lækjargötu 4 í Reykjavík fyrir skuldum að fjárhæð samtals 27.950.000 krónur, sem fylgja átti breytingum á vísitölu neysluverðs. Óumdeilt er að þessar tryggingar hafi meðal annars náð til kröfu samkvæmt skuldabréfinu, svo og að sóknaraðili hafi stofnað til þeirrar skuldar í tengslum við kaup á eigninni, sem sett var að veði með tryggingarbréfunum.

Samhliða skuldabréfinu undirrituðu sóknaraðili og Glitnir banki hf. greiðsluáætlun, sem var fylgiskjal með því. Í áætluninni kom fram hver fjárhæð höfuðstóls skuldabréfsins væri, en frá henni yrðu dregnar 22.000 krónur vegna stimpilgjalds og 2.800 krónur út af skjalagerð, þannig að til útborgunar kæmu 4.375.200 krónur. Skuldin bæri áðurnefnda 5% ársvexti og féllu að auki til 195 krónur í kostnað á hverjum gjalddaga. Heildarlántökukostnaður yrði þannig 1.718.456 krónur, sem væri samanlögð fjárhæð vaxta á lánstímanum, kostnaðar á gjalddögum, stimpilgjalds og þóknunar vegna skjalagerðar, en þetta svaraði til þess að árleg hlutfallstala kostnaðar yrði 5,32%. Á skjali þessu sagði jafnframt eftirfarandi: „Athugið að áætlun þessi er byggð á núgildandi vísitölu og þeim vöxtum og verðskrám sem í gildi eru í Glitni banka hf. við gerð áætlunarinnar. Þeir þættir geta tekið breytingum í samræmi við ákvæði lánssamnings … Við staðfestum með undirritun okkar, að ofangreindir skilmálar eru hluti af viðfestum lánssamningi. Undirritaður lántaki staðfestir einnig að hafa móttekið og kynnt sér meðfylgjandi yfirlit sem sýnir eins og við á m.a. greiðsluferli lánsins, fjárhæð afborgana, vexti og kostnað á hvern gjalddaga og eftirstöðvar eftir greiðslu hvers þeirra um sig.“ Í yfirlitinu, sem hér var vísað til, var tiltekið hverjar yrðu eftirstöðvar höfuðstóls skuldarinnar á hverjum gjalddaga, fjárhæð afborgunar hverju sinni, vaxta og kostnaðar og loks samanlögð fjárhæð hverrar greiðslu. Fjárhæðirnar, sem sýndar voru á yfirlitinu, tóku mið af upphaflegum höfuðstól skuldabréfsins og var því ekki gert ráð fyrir breytingum á þeim af völdum verðtryggingar.

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því ráðstafaði Fjármálaeftirlitið tilteknum eignum og skyldum bankans til varnaraðila. Óumdeilt er að meðal þeirra eigna hafi verið skuldabréfið, sem sóknaraðili gaf út 2. maí 2007, og fyrrnefnd tryggingarbréf.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi staðið skil á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu til og með 1. júlí 2009, en 15. mars 2010 undirrituðu aðilarnir yfirlýsingu um breytingar á skilmálum þess. Í henni kom fram að eftirstöðvar skuldarinnar að meðtöldum verðbótum hafi 1. ágúst 2009 numið 4.823.784 krónum, en samkvæmt beiðni sóknaraðila yrðu þessar eftirstöðvar auk verðbóta og vaxta endurgreiddar með 153 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. mars 2011. Að auki var kveðið á um að vextir, sem féllu á skuldina frá 1. ágúst 2009 til 1. febrúar 2011, yrðu lagðir við höfuðstól hennar.

Sóknaraðili greiddi ekki af skuldabréfinu í samræmi við þessa breyttu skilmála. Að undangenginni greiðsluáskorun beindi varnaraðili til sýslumanns 7. maí 2012 beiðni um fjárnám hjá sóknaraðila á grundvelli bréfsins. Samkvæmt beiðninni nam höfuðstóll skuldarinnar 5.476.943 krónum, umsamdir vextir til 1. mars 2011 voru 22.821 króna, áfallnir dráttarvextir 763.614 krónur og kostnaður, sem nánar var sundurliðaður, 472.025 krónur, en skuldin var þannig sögð samtals 6.735.403 krónur. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 13. ágúst 2012 og var þá mætt af hendi beggja aðila. Fært var í gerðabók að sóknaraðili mótmælti framgangi gerðarinnar „á þeim forsendum að verðtryggingin sem kemur fram í heimildarskjalinu sé ólögmæt á grundvelli 36. gr. sbr. 36. gr. a-c l. nr. 7/1936 sbr. tilskipun Evrópusambandsins um ólögmæta skilmála í neytendasamningum sem er hluti af EES samningnum.“ Sýslumaður varð við kröfu varnaraðila um að gerðinni yrði fram haldið án tillits til þessara mótmæla og var að ábendingu hans gert fjárnám í nánar tilgreindum eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Lækjargötu 4. Jafnframt var fært til bókar að sóknaraðili hygðist „bera gerðina undir héraðsdóm.“ Af því lét hann þó ekki verða fyrr en með tilkynningu, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 27. nóvember 2012, en hún var árituð af varnaraðila um samþykki fyrir því að leitað yrði úrlausnar dómsins um gerðina þótt frestur til þess væri liðinn, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989.

Mál þetta var þingfest í héraði af framangreindu tilefni 18. janúar 2013. Ágreiningur aðilanna lýtur að ákvæðum um verðtryggingu í fyrrgreindu skuldabréfi, sem sóknaraðili telur ekki skuldbinda sig. Þótt aðilana hafi þannig hvorki greint á um höfuðstól skuldarinnar samkvæmt skuldabréfinu að frátöldum þeim hluta hans, sem myndast hefur vegna verðtryggingar, né um vexti af skuldinni að því leyti, sem þeir höfðu ekki fallið á verðbætur af höfuðstólnum, laut krafa sóknaraðila fyrir héraðsdómi að því að fjárnáminu 13. ágúst 2012 yrði hnekkt í heild. Fyrir Hæstarétti hefur hann á hinn bóginn gert fyrrgreinda kröfu um að fjárnáminu verði breytt á þann hátt að það verði aðeins látið ná til skuldar við varnaraðila að fjárhæð 3.887.393 krónur. Eftir málatilbúnaði sóknaraðila svarar þessi fjárhæð til þess sem stæði eftir af upphaflegum höfuðstól skuldarinnar án verðtryggingar þegar tekið hefði verið tillit til allra greiðslna af honum, þar á meðal vegna verðbóta, og af umsömdum vöxtum til 1. mars 2011, en hann andmælir því að varnaraðili geti átt nokkurt tilkall til dráttarvaxta af skuldinni eða greiðslu kostnaðar í tengslum við innheimtu hennar.

II

Í málinu byggir sóknaraðili á því að skilyrði séu til að víkja til hliðar ákvæðum um verðtryggingu í skuldabréfinu frá 2. maí 2007 á grundvelli 36. gr. a. til 36. gr. c. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eins og þeim var breytt lögum nr. 14/1995, en þau voru sett til að innleiða hér á landi ákvæði tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Héraðsdómur varð með úrskurði 4. júlí 2013 við kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði varðandi skýringu tilskipunar 93/13/EBE. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð með dómi 8. október 2013 í máli nr. 489/2013, þar sem spurningar til EFTA-dómstólsins voru þó orðaðar á annan veg en í úrskurðinum. EFTA-dómstóllinn lét í té álit með dómi 28. ágúst 2014 í máli nr. 25/13, en í álitinu var einnig fjallað að nokkru um atriði í málinu með tilliti til tilskipunar ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, svo sem henni hafði verið breytt með tilskipun 90/88/EBE frá 22. febrúar 1990. Lög nr. 121/1994 um neytendalán voru sett til að innleiða ákvæði síðastnefndra tilskipana í íslenskan rétt, en lögin voru felld úr gildi með lögum nr. 33/2013 um sama efni, meðal annars í tilefni af því að tilskipun 2008/48/EB hafði þá leyst af hólmi tilskipun 87/102/EBE með áorðnum breytingum.

Í hinum kærða úrskurði er rakið meginefni svara EFTA-dómstólsins í ráðgefandi álitinu, sem getið var að framan. Að auki er þar öðrum þræði vísað til annars álits, sem sami dómstóll veitti með dómi 24. nóvember 2014 í máli nr. 27/13 samkvæmt beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur vegna máls, sem þar var rekið um ágreining um lögmæti ákvæða um verðtryggingu skuldar samkvæmt samningi um neytendalán og varðaði í senn tilskipanir 87/102/EBE og 93/13/EBE.

III

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/13/EBE er tilgangur hennar að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um ósanngjarna skilmála í samningum milli atvinnurekenda og neytenda. Í 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar kemur fram að ákvæðum hennar sé ætlað að taka til skilmála í slíkum samningum, sem ekki hefur sérstaklega verið samið um, en ósanngjarnir teljist skilmálar af þeim toga ef þeir stríða gegn góðum viðskiptaháttum og raska til muna jafnvægi milli samningsskyldna aðilanna neytanda í óhag. Í 2. mgr. 1. gr. er tekið fram að tilskipunin nái ekki til samningsskilmála, sem endurspegli lög og bindandi stjórnsýslufyrirmæli. Ákvæði 36. gr. a., 36. gr. b., 36. gr. c. og 36. gr. d. laga nr. 7/1936 voru sett til að innleiða í landsrétt efnisreglur þessarar tilskipunar. Þótt ekki hafi verið settur í þau ákvæði fyrirvari, sem svarar til fyrirmæla 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, leiðir af sjálfu að hann gildi um samningsákvæði sem eigi sér samsvörun í ófrávíkjanlegri lagareglu.

Í VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er kveðið með tæmandi hætti á um heimildir til að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum og eru reglur um þetta ófrávíkjanlegar um önnur atriði en þau, sem það gagnstæða er tekið fram um, sbr. 2. gr. laganna. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir helstu atriðum þeirra reglna, svo og laga nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs, auk þess sem þar er að nokkru getið ákvæða í reglum um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sem Seðlabanki Íslands setti á grundvelli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 38/2001 og birtar voru í auglýsingu nr. 492/2001 í B-deild Stjórnartíðinda. Að virtum þessum ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla verður að staðfesta þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að á grunni alls framangreinds geti ákvæði 36. gr. a., 36. gr. b. og 36. gr. c. laga nr. 7/1936 aðeins tekið til skilmála um þá þrjá þætti í lánssamningi, sem aðilum hans er að lögum frjálst að semja um að því er varðar verðtryggingu sem slíka með vísitölu neysluverðs, eða nánar tiltekið hvort fjárhæð lánsins skuli yfirleitt vera háð verðtryggingu að hluta eða öllu leyti, hvort þar verði miðað við vísitölu neysluverðs eða hlutabréfavísitölur, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001, og hver grunnvísitalan skuli vera. Ekki eru efni til að líta svo á að skilmálar um þessi þrjú atriði í skuldabréfinu, sem sóknaraðili gaf út 2. maí 2007, stríði gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna málsaðila honum í óhag þannig að þeir verði taldir ósanngjarnir í skilningi 3. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936, skýrðrar til samræmis við 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

IV

Framangreind niðurstaða fær því ekki breytt að réttilega er gengið út frá því í hinum kærða úrskurði að til álita gæti komið að víkja til hliðar ákvæðum um verðtryggingu í skuldabréfi sóknaraðila frá 2. maí 2007 á grundvelli 36. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936, hafi Glitnir banki hf. látið hjá líða að veita honum upplýsingar um efni og áhrif skilmála um verðtrygginguna í þeim mæli að það yrði talið ósanngjarnt af varnaraðila eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera þá fyrir sig.

Um þau atriði, sem fjármálafyrirtæki getur í þessu tilliti talist nauðsynlegt að veita almennum neytanda upplýsingar um í tengslum við töku hans á verðtryggðu láni, verður að gæta að því að engin ákvæði eru í meginmáli tilskipunar 93/13/EBE um upplýsingaskyldu atvinnurekanda við neytanda í tengslum við gerð neytendasamninga. Tilskipuninni fylgir á hinn bóginn viðauki, sem hefur samkvæmt 3. mgr. 3. gr. hennar að geyma skrá sem er leiðbeinandi en ekki tæmandi um samningsskilmála sem teljist ósanngjarnir. Í d. lið 2. hluta viðaukans felst efnislega sú regla að til ósanngjarnra samningsskilmála heyri ekki skilmáli um „löglega vísitölubindingu“ sé aðferðin við „útreikning verðbreytinga ... útskýrð rækilega í samningi.“ Án tillits til þess hvort þessi regla geti tekið til samningsskilmála, sem endurspeglar ófrávíkjanlegt lagaákvæði og fellur þar með utan gildissviðs tilskipunarinnar samkvæmt 2. mgr. 1. gr. hennar, verður að gæta að því að viðaukinn, sem hér um ræðir, hefur á engan hátt verið leiddur inn í íslensk lög. Var og skýrlega tekið fram í lögskýringargögnum með frumvarpi, sem flutt var til að innleiða þessa tilskipun og varð að fyrrnefndum lögum nr. 14/1995, að hvorki stæði skylda til að lögfesta efni viðaukans né væri það ætlunin. Geta ákvæði þessa viðauka því ekki komið til frekari álita við úrlausn málsins.

Skuldabréfið, sem sóknaraðili gaf út 2. maí 2007, var gert vegna neytendaláns sem féll undir ákvæði þágildandi laga nr. 121/1994, en regla, sem í öndverðu var í f. lið 1. mgr. 2. gr. laganna og undanskildi gildissviði þeirra lánssamninga sem tryggðir væru með veði í fasteign, hafði þá verið felld brott með 1. gr. laga nr. 179/2000. Vegna þessa giltu ákvæði II. kafla laga nr. 121/1994 um upplýsingaskyldu, sem Glitnir banki hf. bar gagnvart sóknaraðila í tengslum við gerð lánssamnings þeirra. Lögum þessum var sem áður segir ætlað að leiða inn í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 87/102/EBE með þeim breytingum, sem gerðar höfðu verið á henni með tilskipun 90/88/EBE. Þótt tilskipun 87/102/EBE hafi ekki tekið til samninga um lán, sem veitt voru til að afla eignarréttinda að fasteign, sbr. a. lið 1. mgr. 2. gr. hennar, leiddi af þeirri ákvörðun löggjafans, sem fólst í setningu 1. gr. laga nr. 179/2000, að í íslenskum landsrétti gátu veðlán til fasteignakaupa talist upp frá því til neytendalána. Er því óhjákvæmilegt að líta svo á að tilskipunin hafi einnig að því er varðaði íslensk lán til fasteignakaupa haft þau áhrif á skýringu ákvæða II. kafla laga nr. 121/1994, sem um ræðir í 3. gr. laga nr. 2/1993, enda var aðildarríkjum heimilað í 15. gr. tilskipunarinnar að setja strangari reglur en þar greindi til verndar neytendum.

Um upplýsingaskylduna sem hvíldi samkvæmt þessu á Glitni banka hf. er þess að gæta að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 bar honum við gerð lánssamningsins, sem fólst í skuldabréfinu frá 2. maí 2007, að veita sóknaraðila upplýsingar meðal annars um fjögur atriði. Í fyrsta lagi um höfuðstól lánsins, sem væri fjárhæð þess án nokkurs kostnaðar, sbr. 1. tölulið þessarar málsgreinar. Í öðru lagi um heildarlántökukostnað, sem eftir 4. tölulið málsgreinarinnar skyldi reikna út samkvæmt 7. gr. laganna. Í þriðja lagi um árlega hlutfallstölu kostnaðar, sem eftir 5. tölulið málsgreinarinnar skyldi lýst sem árlegri prósentu heildarlántökukostnaðarins af höfuðstól skuldarinnar og reiknuð eftir 10., 11. og 12. gr. laganna. Í fjórða lagi um þá heildarupphæð, sem greiða ætti og væri samtala höfuðstóls, vaxta og lánskostnaðar, sbr. 6. tölulið málsgreinarinnar. Um heildarlántökukostnaðinn sagði nánar í 1. mgr. 7. gr. laganna að hann fæli í sér allan kostnað af láninu, þar á meðal vexti og önnur gjöld sem neytandi skyldi greiða, en þó með undantekningum sem ekki skipta hér máli. Um árlega hlutfallstölu kostnaðar sagði í 10. gr. að hún væri það vaxtaígildi sem jafnaði núvirði greiðsluskuldbindinga lánveitanda og neytanda samkvæmt lánssamningi þeirra og skyldi þessu ígildi lýst sem árlegri prósentu af höfuðstól lánsins. Þessi hlutfallstala skyldi reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningurinn væri gerður og gengið út frá því að samningurinn myndi gilda umsaminn tíma og aðilar hans standa við skuldbindingar sínar, sbr. 11. gr. laganna. Loks voru í 1. mgr. 12. gr. sérstök ákvæði um tilvik, þar sem lánssamningur heimilaði verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teldust til árlegrar hlutfallstölu kostnaðar en ekki væri unnt að meta hverju næmu á þeim tíma sem útreikningur væri gerður. Skyldi þá reikna hlutfallstöluna út miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld yrðu óbreytt til loka lánstímans.

Hér áður var lýst greiðsluáætlun sem undirrituð var samhliða skuldabréfinu og yfirliti sem fylgdi henni. Um þau atriði, sem Glitni banka hf. bar samkvæmt framansögðu að veita sóknaraðila upplýsingar um eftir ákvæðum II. kafla laga nr. 121/1994, var í fyrsta lagi tilgreint í áætluninni að höfuðstóll skuldarinnar væri 4.400.000 krónur, sem var lánsfjárhæðin án nokkurs kostnaðar í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laganna. Í því sambandi má jafnframt líta til þess að í skuldabréfinu kom skýrlega fram að þessi fjárhæð tæki í framtíðinni breytingum í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunntölu hennar sem einnig var tilgreind í skuldabréfinu. Gagnvart almennum neytanda hér á landi gerðist þess ekki þörf að tíunda þar nánar hvað vísitala neysluverðs væri eða hvernig breytingar á henni myndu á þessum forsendum sjálfkrafa hafa áhrif á höfuðstól skuldarinnar. Í öðru lagi kom fram í greiðsluáætluninni að heildarlántökukostnaður myndi nema 1.718.456 krónum, svo og að hann fælist í stimpilgjaldi, þóknun fyrir skjalagerð, vöxtum af skuldinni og kostnaði sem félli til á hverjum gjalddaga. Þessar upplýsingar voru í samræmi við áðurnefnd ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. laganna að því gefnu að ekki hafi verið þörf á að gera ráð fyrir því að verðbætur teldust þessu til viðbótar til heildarlántökukostnaðar við útreikning samkvæmt 12. gr. þeirra. Í þriðja lagi sagði í áætluninni að árleg hlutfallstala kostnaðar yrði 5,32%. Tilgreining þessa hlutfalls var í samræmi við áskilnað 5. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laganna að því gefnu að heildarlántökukostnaður hafi réttilega verið reiknaður eftir 11. og 12. gr. þeirra. Loks var þess í fjórða lagi getið í áætluninni að heildarupphæðin sem greiða þyrfti yrði 6.093.656 krónur. Enn að því gefnu að heildarlántökukostnaður, sem var innifalinn í þessari fjárhæð, hafi réttilega verið reiknaður samkvæmt 11. og 12. gr. laganna fullnægði þessi þáttur í áætluninni áskilnaði 6. töluliðar 1. mgr. 6. gr. þeirra, en að auki var sundurliðun þessarar heildarupphæðar í yfirlitinu sem fylgdi áætluninni, þar sem gerð var grein fyrir greiðslum á hverjum gjalddaga.

Stendur þá samkvæmt framansögðu eftir að taka afstöðu til þess hvort útreikningur í greiðsluáætluninni á árlegri hlutfallstölu kostnaðar hafi verið í samræmi við ákvæði 12. gr. laga nr. 121/1994 með tilliti til þess sem sagði í 11. gr. laganna. Síðarnefnda ákvæðið fól efnislega í sér þann grundvöll fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar að hann skyldi miða við þær staðreyndir sem máli skiptu gagnvart ákvæðum lánssamnings og kunnar voru við gerð hans. Fyrrgreinda ákvæðið geymdi á hinn bóginn í 1. mgr. sérreglu um hvernig fara ætti í útreikningnum með atriði sem eftir fyrirmælum samningsins gátu tekið breytingum á síðari stigum, en þetta gat nánar tiltekið stafað af heimildum í honum til að beita verðtryggingu, breyta vaxtastigi eða breyta öðrum gjöldum sem teldust til árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Skyldi þetta sem áður segir gert þannig að árlega hlutfallstalan yrði reiknuð út miðað við þá forsendu að „verðlag, vextir og önnur gjöld“ yrðu óbreytt út lánstímann. Í greiðsluáætluninni var sérstaklega tekið fram að hún byggði á „núgildandi vísitölu og þeim vöxtum og verðskrám“ sem voru í gildi við gerð hennar. Gat því ekki orkað tvímælis fyrir sóknaraðila, þegar hann er settur í stöðu almenns neytanda, að í áætluninni væri meðal annars lagt til grundvallar að vísitölustig neysluverðs yrði það sama til loka lánstímans og vísitölustigið sem var tilgreint í ákvæðum skuldabréfsins sem grunnvísitala. Þessi háttur á útreikningnum gat ekki villt um fyrir sóknaraðila, sem eins og almennum neytendum hér á landi mátti vera ljóst að til undantekninga heyri að vísitölustig neysluverðs standi óbreytt tvo mánuði í senn, fyrir komi að það lækki milli mánaða en langoftast hækki það, þótt nánast ógerlegt sé að sjá fyrir hverju slíkar breytingar kunni að nema til lengri eða skemmri tíma. Í þessu sambandi skiptir þó öðru fremur máli að með fyrrgreindum orðum 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 um að miða ætti útreikning við þá forsendu að verðlag yrði óbreytt til loka lánstímans var eftir hljóðan þeirra boðið að fara þessa leið við útreikninginn, enda var þar ekki rætt um að miðað skyldi við að verðlagsþróun yrði óbreytt þann tíma.

Til þess verður að líta að 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 svaraði í meginatriðum efnislega til 6. mgr. 1. gr. a. tilskipunar 87/102/EBE, svo sem henni var breytt með 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 90/88/EBE, en þó að teknu tilliti til þess að þetta ákvæði tilskipunarinnar tók til lánssamninga sem höfðu að geyma heimild til breytinga „á vaxtagjöldum og upphæð eða stigi annars kostnaðar er fellur undir árlega hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður“, svo sem sagði í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar. Í slíkum tilvikum skyldi reikna hlutfallstöluna út „á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður verði óbreytanlegur og gildi fram til loka lánssamnings.“ Orðalagið í íslenska textanum um að vextir og annar kostnaður „verði óbreytanlegur“ svaraði til orðanna „remain fixed“ í enskum texta tilskipunarinnar. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu í áðurnefndu ráðgefandi áliti sínu 24. nóvember 2014 í máli nr. 27/13 að „þegar lánssamningur er bundinn við vísitölu neysluverðs og lántökukostnaðurinn tekur þar af leiðandi breytingum í samræmi við verðbólgu, samrýmist það ekki neytendalánatilskipuninni að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%.“ Sé þessi skýring á ákvæðum tilskipunarinnar lögð til grundvallar má ljóst vera að áðurgreint orðalag 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði tilskipunar 87/102/EBE. Um afleiðingar þess verður að gæta að því að tilskipun þessi hafði ekki lagagildi hér á landi. Í 3. gr. laga nr. 2/1993 er mælt svo fyrir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Slík lögskýring tekur eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast er unnt gefin merking, sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu, en hún getur á hinn bóginn ekki leitt til þess að orðum íslenskra laga verði gefin önnur merking en leidd verður af hljóðan þeirra, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010. Orð 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 um að miðað skyldi í áætlun um greiðslur samkvæmt lánssamningi, þar sem fjárhæð skuldar var verðtryggð, við það að verðlag yrði óbreytt höfðu ótvíræða merkingu og gáfu ekki svigrúm til að miða slíka áætlun við aðra forsendu á grundvelli skýringar á þessu ákvæði samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993. Að lögum ber því að líta svo á að greiðsluáætlunin sem sóknaraðili undirritaði 2. maí 2007 hafi þannig jafnframt að því leyti sem hér um ræðir verið í samræmi við ákvæði 4., 5. og 6. töluliðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 10., 11. og 12. gr. laga nr. 121/1994.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Það athugast að við aðalmeðferð málsins í héraði var tekin skýrsla af nafngreindum starfsmanni Hagstofu Íslands, sem eftir bókun í þingbók taldist koma fyrir dóm sem vitni. Endurrit af skýrslunni hefur ekki verið lagt fyrir Hæstarétt. Verður því ekki séð hvort skýrslugjafi þessi hafi þar borið um atvik málsins af eigin raun og þannig geta talist vitni, en hvað sem því líður var skýrslutaka af vitni í máli þessu andstæð 94. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015.

I

Mál þetta var tekið til úrskurðar að lokunum munnlegum málflutningi þann 5. janúar sl. Sóknaraðili er Gunnar V. Engilbertsson, Lækjargötu 4, Reykjavík en varnaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 13. ágúst 2012 um fjárnám í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Lækjargötu 4, Reykjavík, fastanr. 200-2691. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 13. ágúst 2012 um fjárnám í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Lækjargötu 4, Reykjavík, fastanr. 200-2691. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

II

Málavextir

Varnaraðili tók á árunum 2005 og 2007 lán hjá Glitni banka hf. til kaupa á fasteign að Lækjargötu 4 í Reykjavík. Af því tilefni gaf hann út þrjú skuldabréf, hið fyrsta 12. október 2005 að fjárhæð 18.400.000 krónur, annað sama dag að fjárhæð 4.600.000 krónur og hið þriðja 2. maí 2007 að fjárhæð 4.400.000 krónur. Í skuldabréfunum kemur fram að fjárhæðir þær sem teknar voru að láni skyldu breytast í réttu hlutfalli við breytingar á skráðri grunnvísitölu neysluverðs. Til tryggingar endurgreiðslu lánanna gaf varnaraðili út tvö tryggingarbréf með veði í fyrrgreindri fasteign, hið fyrra 17. október 2005 og hið seinna 2. maí 2007.

Varnaraðili tók við réttindum Glitnis banka hf. vegna framangreindra skuldabréfa og tryggingarbréfa á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008.

Í málinu deila aðilar um lögmæti verðtryggingarákvæðis í skuldabréfinu frá 2. maí 2007. Umrætt skuldabréf ber yfirskriftina ,,Skuldabréf bundið vísitölu neysluverðs með vaxtaendurskoðunarákvæði“. Sóknaraðili viðurkennir þar að skulda Glitni banka hf. 4,4 milljónir króna sem skuli endurgreiða með 180 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. júní 2007. Vextir eru 5,00% og reiknast frá kaupdegi. Í reitinn ,,Grunnvísitala“ er ritað 267,1. Í 1. gr. skuldabréfsins var svofellt ákvæði: „Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu samkvæmt ofanskráðu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli síðari gjalddaga. Skal höfuðstóll skuldarinnar breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er verðbótum bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan er deilt í útkomuna með þeim fjölda gjalddaga, sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga, sem er í það sinn.“ 

Með skuldabréfinu frá 2. maí 2007 fylgdi greiðsluáætlun sem var undirrituð af varnaraðila og fulltrúa sóknaraðila sama dag og skuldabréfið sjálft. Hún tilgreindi alla 180 gjalddaga skuldabréfsins og hverjar yrðu eftirstöðvar skuldarinnar hverju sinni, heildargreiðslu á hverjum gjalddaga og hvernig hún sundurliðaðist í afborganir, vexti og kostnað. Ekki var í greiðsluætluninni gert ráð fyrir að greiðslur af láninu myndu breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Hins vegar var í greiðsluáætluninni svofellt ákvæði: „Athugið að áætlun þessi er byggð á núgildandi vísitölu og þeim vöxtum og verðskrám sem í gildi eru í Glitni banka hf. við gerð áætlunarinnar. Þeir þættir geta tekið breytingum í samræmi við ákvæði lánssamningsins. Ef lánsfjárhæð er breytileg og/eða lánstími óákveðinn er áætlunin byggð í dæmaskyni eingöngu á tilteknum upphæðum og eins árs lánstíma.“

Í skuldabréfinu frá 2. maí 2007 er ákvæði um heimild til að gjaldfella alla skuldina fyrirvaralaust við vanskil á greiðslu afborgana, vaxta og verðbóta. Þar segir einnig að þegar skuldin sé í gjalddaga fallin megi gera fjárnám til fullnustu hennar án undangengins dóms eða réttarsáttar samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Óumdeilt er að síðan um mitt ár 2009 hefur sóknaraðili ekki greitt af láninu. Hinn 15. mars 2010 undirritaði sóknaraðili skilmálabreytingu skuldabréfsins. Þar kemur fram að 1. ágúst 2009 hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið 4.823.784 krónur. Samkvæmt beiðni sóknaraðila skuli eftirstöðvar lánsins, auk verðbóta og vaxta, endurgreiðast með 153 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. mars 2011. Að kröfu sóknaraðila gerði sýslumaðurinn í Reykjavík 13. ágúst 2012 fjárnám í eignarhluta varnaraðila í fasteigninni að Lækjargötu 4 í Reykjavík á grundvelli fyrrgreindrar aðfararheimildar í skuldabréfinu. Við fjárnámið mótmælti varnaraðili framgangi gerðarinnar. Mótmælin voru á því reist að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins væri ólögmætt og í andstöðu við 36. gr. og 36. gr. a til c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. tilskipun ráðsins 93/13/EBE. Sýslumaður féllst ekki á mótmæli varnaraðila og að ábendingu sóknaraðila var gert fjárnám í fyrrgreindri fasteign 13. ágúst 2012. Sóknaraðili bar ákvörðun sýslumanns um aðfarargerðina undir héraðsdómara samkvæmt heimild í 92. gr. laga nr. 90/1989 og samþykkti sóknaraðili að það yrði gert þó svo að frestur til þess samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar væri liðinn. Frá 1. janúar sl. tilheyrir embætti sýslumannsins í Reykjavík embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sbr. reglugerð nr. 1151/2014.

Skýrslur fyrir dómi gáfu sóknaraðili og Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, starfmaður Hagstofu Íslands.

III

Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins

Undir rekstri málsins var að beiðni sóknaraðila aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 8. október 2013 skyldi leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi í málinu:

1.    Samrýmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ef löggjöf í ríki sem aðild á að EES-samningnum heimilar að samningur neytanda og veitanda um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrirfram ákveðinni vísitölu?

2.    Ef svarið við fyrstu spurningunni er á þann veg að verðtrygging greiðslna af láni sem tekið er til fjármögnunar fasteignakaupa sé samrýmanleg ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE þá er í öðru lagi spurt hvort tilskipunin takmarki svigrúm viðkomandi samningsríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir skuli valda breytingum á hinni fyrirfram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar?

3.    Ef svarið við annarri spurningunni er að tilskipun 93/13/EBE takmarki ekki það svigrúm samningsríkis sem nefnt er í þeirri spurningu þá er í þriðja lagi spurt hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast, b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið?

4.    Telst aðferðin við útreikning verðbreytinga í lánssamningi um fjármögnun fasteignakaupa hafa verið útskýrð rækilega fyrir neytanda í skilningi d. liðar 2. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í þriðju spurningunni?

5.    Á ríki sem er aðili að EES-samningnum val milli þess við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE, annars vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að heimilt sé að lýsa óskuldbindandi fyrir neytanda óréttmæta skilmála í skilningi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, eða hins vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að slíkir skilmálar skuli ávallt vera óskuldbindandi fyrir neytandann?

Hið ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins var kveðið upp 28. ágúst sl. í málinu nr.  E-27/13 og voru svör dómstólsins eftirfarandi.

1.       Tilskipun 93/13/EBE leggur ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda. Það er landsdómstólsins að meta hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur. Matið verður að taka mið af skýringu dómstólsins á hugtakinu ,,óréttmætur skilmáli“.

2.       Tilskipun 93/13/EBE takmarkar ekki svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við hina íslensku vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar að því gefnu að þeim sé lýst með skýrum hætti í samningnum.

3.       Það er landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort samið hafi verið sérstaklega um tiltekinn samningsskilmála í skilningi 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE.

4.       Það er landsdómstólsins að meta hvort samningsskilmála um verðtryggingu afborgana af láni til fjármögnunar á fasteignakaupum skuli teljast hafi verið lýst fyrir neytandanum með skýrum og skiljanlegum hætti. Slíkt mat verður að taka mið af nákvæmu orðalagi viðeigandi samningsskilmála og öllum öðrum aðstæðum, þar á meðal þeim sem vísað er til í a- og b-hluta þriðju spurningar landsdómstólsins, auk ákvæða landsréttar um verðtryggingu.

5.       1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar verður að túlka með þeim hætti að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt tilskipuninni beri þeim dómstól að tryggja að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa.

IV

1. Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 36. gr. a til d, eins og þær greinar séu réttilega skýrðar til samræmis við tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, beri að víkja til hliðar verðtryggingarákvæðum þess skuldabréfs sem fjárnámið byggir á. Stór, en óviss, hluti fjárnámskröfunnar sé til kominn vegna umræddra verðtryggingarákvæða og því sé enginn grundvöllur fyrir fjárnáminu. Tilskipunin hafi verið innleidd í íslensk lög með lögum nr. 14/1995 sem bættu greinum 36 a til d við lög nr. 7/1936. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

                Sóknaraðili bendir á að þegar 36. gr. sbr. 36. gr. a og c laga nr. 7/1936 séu lesnar saman komi fram sú regla að samningum, m.a. samningsskilmálum, sem ekki hafi verið samið um sérstaklega, enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef talið yrði ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því hvort það teljist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera slíkan samning eða samningsákvæði fyrir sig skuli líta til efnis samnings, m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist, stöðu samningsaðila, atvika við samningagerðina og atvika sem síðar komu til, nema hvað ekki verði litið til atvika er síðar komu til sé það neytanda í óhag. Samningur eða samningsákvæði teljist þó alltaf ósanngjarn(t) stríði hann eða það gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Þá felst í tilvísuðum greinum laga nr. 7/1936 að ef skilmála samnings er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða honum breytt, skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans. Loks felist í greinunum að sönnunarbyrðin fyrir því að samið hafi verið sérstaklega um samning og að hann falli ekki undir ofangreinda reglu hvíli á atvinnurekandanum.

                Sóknaraðili byggir á því að þrátt fyrir að í orðalagi 36. gr., sbr. 36. gr. a til d laga nr. 7/1936, felist aðeins heimild til að víkja ósanngjörnum samningum til hliðar, þá felist í ákvæði 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar að dómstólum sé skylt að víkja til hliðar óréttmætum samningum og samningsskilmálum ef framangreind lagaákvæði eru réttilega skýrð til samræmis við tilskipun 93/13/EBE.

                Sóknaraðili heldur því fram að ákvæði um verðtryggingu í umræddu skuldabréfið sé óréttmætt í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE. Ákvæðið falli undir l. lið 1. gr. viðauka við tilskipunina enda staðfesti d-liður 2. gr. viðaukans að vísitölubinding falli undir þann lið. Hins vegar eigi undanþága d-liðar 2. gr. viðaukans ekki við, þar sem aðferðin við útreikning verðbreytinga sé ekki útskýrð rækilega í umræddu skuldabréfi í skilningi ákvæðisins. Honum hafi því verið alls ókleift að gera sér í hugarlund hvernig vísitalan gæti þróast á lánstímanum. Þá hafi greiðsluáætlun sú sem hann hafi fengið við útgáfu skuldabréfsins ekki getað gefið neina raunhæfa mynd af því hvernig höfuðstóll skuldarinnar og afborganir myndu þróast. Skuldabréfið geti hins vegar að öðru leyti haldið gildi sínu án ákvæðis um verðtryggingu.

                Sóknaraðili byggir á því, verði ekki talið að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins falli undir 1. lið eða aðra liði 1. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE, að ákvæðið sé engu að síður óréttmætt samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar sem slíkri, sbr. 1. mgr. 4. gr. hennar. Vísaði sóknaraðili til þess í munnlegum málflutningi að verðtryggingaákvæðið væri óréttmætt þar sem það fæli í sér skilmála sem færu í bága við kröfur tilskipunar 87/102/EBE um neytendalán eins og fram hafi komið í dómi EFTA-dómstólsins í máli nr. 27/2013 frá 24. nóvember 2014. Enn fremur mætti líta til laga nr. 121/1994 um neytendalán.

2. Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að verðtrygging sé heimiluð með skýrum hætti í lögum. Núgildandi ákvæði um verðtryggingu hafi verið lögfest á árinu 2001, er lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hafi tekið gildi. Þannig sé ljóst að þegar skuldabréf það, sem deilt er um í máli þessu, var gefið út á árinu 2007 hafi verið skýr heimild í lögum fyrir því að binda lánsfé við vísitölu neysluverðs. Sé sú heimild enn í fullu gildi og umrætt lán og vísitölubinding þess að öllu leyti því í samræmi við lög.

Varnaraðili byggir á því að lánið sé í samræmi við þágildandi ákvæði laga um neytendalán nr. 121/1994. Þannig komi höfuðstóll skuldarinnar skýrt fram í skuldabréfinu sjálfu og þar sé skýrlega tekið fram að höfuðstóllinn breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu, en hún sé tilgreind 267,1 í skuldabréfinu. Þá sé í greiðsluáætlun greint frá því að útborguð fjárhæð sé 4.375.200 krónur, þ.e. höfuðstóll skuldarinnar að frádregnum lántökugjöldum, stimpilgjöldum, þinglýsingargjöldum og kostnaði við skjalagerð. Vextir séu tilgreindir 5% í skuldabréfinu og í greiðsluáætluninni. Í greiðsluáætluninni, þar sem m.a. sé getið um vexti og árlega hlutfallstölu kostnaðar, komi fram að áætlunin sé byggð á núgildandi vísitölu og þeim vöxtum og verðskrám sem í gildi séu í Glitni banka hf. við gerð áætlunarinnar. Þeir þættir geti tekið breytingum í samræmi við ákvæði lánssamnings. Ef lánsfjárhæð er breytileg og/eða lánstími óákveðinn sé áætlun byggð í dæmaskyni eingöngu á tilteknum upphæðum og eins árs lánstíma.

Varnaraðili vísar til þess að samningsfrelsi sé ein af meginstoðum samningaréttarins, en í henni felist að mönnum sé almennt heimilt að velja sér gagnaðila við samningsgerð, frjálst að velja efni löggerninga og ákveða hvort samningur skuli gerður yfirleitt. Önnur grunnregla samningaréttar sé að samninga skuli halda, en ljóst sé að traust og tiltrú í viðskiptalífinu byggi á því að þessi regla sé höfð í heiðri. Undantekningarreglur 36. gr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 beri að skýra þröngt. Það sé skilyrði fyrir því að samningsákvæðum verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. nefndra laga að ákvæði hans sé talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju. Ljóst sé að verðtrygging er heimil samkvæmt skýrum lagafyrirmælum. Þá sé ljóst að verðtrygging hafi verið notuð í lánasamningum í meira en 30 ár og geti því ekki talist andstæð viðskiptavenju. Sóknaraðili og varnaraðili hafi samið um það við töku lánsins að höfuðstóll skuldarinnar skyldi breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu sem hafi verið 267,1. Með þessu hafi báðir aðilar tekið áhættu. Óumdeilt sé að vísitala neysluverðs hafi hækkað frá þeim tíma þegar skuldabréfið var gefið út. Það gefi hins vegar ekki rétta mynd af stöðunni að horfa einungis á vísitölu neysluverðs, heldur verði einnig að horfa til breytinga á vísitölu íbúðarhúsnæðis og launavísitölu. Þegar breytingar á framangreindum vísitölum séu skoðaðar sjáist að vísitala launakostnaðar og vísitala íbúðarhúsnæðis hafi einnig hækkað verulega á umræddu tímabili og hljóti það að draga úr áhrifum hækkunar vísitölu neysluverðs á neytendur.

Varnaraðili vísar til þess að í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 komi fram að við mat á því hvað teljist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Efni fyrirliggjandi lánasamnings sé skýrt og að öllu leyti í samræmi við lög. Hvað varði stöðu samningsaðila þá sé nauðsynlegt að hafa í huga að sóknaraðili sé menntaður viðskiptafræðingur, sem hafi starfað hjá fjármálafyrirtækjum, m.a. við lánamál, í mörg ár. Þá sé hann virkur í viðskiptalífinu, sitji í fjölda stjórna og sé framkvæmdastjóri a.m.k. eins félags. Sóknaraðili ætti því að hafa góða þekkingu á því hvað felst í verðtryggingu og vera í góðri stöðu til að meta þá áhættu sem felst í því að taka verðtryggt lán. Ákvæði um verðtryggingu hafa verið í lögum um áratugaskeið. Mæli lög fyrir um að verðþróun skuli mæld á tiltölulega einfaldan hátt, með mælingum á verði almennra neysluvara sem eru hluti af algengum innkaupum hvers heimilis. Ættu flestir neytendur því að hafa skilning á þeim útreikningum sem verðtrygging sé grundvölluð á. 

                Varnaraðili vísar til þess að við gerð samningsins hafi að öllu leyti verið farið að ákvæðum laga um neytendalán og sóknaraðili fengið ítarlegar upplýsingar við lántökuna. Ljóst sé að engin hafi séð fyrir þá þróun sem hafi orðið á fjármálamörkuðum haustið 2008. Sviptingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum geti hins vegar með engu móti leitt til þess að sóknaraðili losni undan þeirri skyldu að greiða skuldir sínar við varnaraðila á grundvelli samningalaga, enda geti það almennt ekki talist óvenjulegt, ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju, að fjármálafyrirtæki eins og varnaraðili geri kröfu um að sóknaraðili eða aðrir viðskiptavinir greiði skuldir sem þeir hafa stofnað til.

Hvað varðar tilvísun sóknaraðila til tilskipunar 93/13/EBE þá byggði  varnaraðili á því í munnlegum málflutningi að tilskipunin ætti ekki við í málinu. Samningsskilmálar um verðtryggingu í hinu umdeilda skuldabréfi endurspegluðu ákvæði íslenskra laga og reglna og féllu því utan gildissviðs tilskipunarinnar. Undanþága 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar tæki til samningsskilmála sem aðilar ættu val um hvort þeir tækju upp í samningi, en gætu að öðru leyti ekki samið sérstaklega um yrðu þeir fyrir valin, þar sem slíkir samningsskilmálar væru taldir endurspegla lög og bindandi stjórnvaldsfyrirmæli. Verði fallist á að tilskipunin gildi í málinu byggir varnaraðili á því að um sé að ræða svokallaða lágmarkstilskipun. Þau ákvæði tilskipunarinnar, sem sóknaraðili vísi til, hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 14/1995. Innleiðingin hafi í meginatriðum falist í því að 36. gr. a-d var bætt við lög nr. 7/1936. Engin haldbær rök hafi komið fram um það að tilskipunin sé ekki réttilega innleidd. Í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 14/1995 segi að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu um margt víðtækari en ákvæði tilskipunarinnar og veiti neytendum í raun meiri rétt en kveðið sé á um í tilskipuninni.

Varnaraðili hafnar því að útreikningur verðbreytinga hafi ekki verið útskýrður nægilega rækilega í samningi aðila. Í samningum komi skýrt fram að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu. Þá verði að líta til þess að verðtrygging hafi ekki sérstaklega verið sett saman fyrir þennan samning, enda heimili íslensk lög aðeins verðtryggingu lánsfjár ef grundvöllur verðtryggingarinnar sé vísitala neysluverðs. Vísitala neysluverðs sé reist á grunni sem Hagstofan ákveði í samræmi við niðurstöður neyslukönnunar á grundvelli fyrirmæla í lögum nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs. Ákvæði l. liðar 1. mgr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE miðist við samninga þar sem aðilar semji sérstaklega um fyrirkomulag verðtryggingar.

Varnaraðili vísar til þess að viðauki við umrædda tilskipun sé til leiðbeiningar og ekki tæmandi. Ljóst sé af 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar að skráin leggi ekki fastákveðnar skyldur í þessu sambandi á aðildarríki EES-samningsins. Tilgreind dæmi þurfi þannig ekki alltaf að vera ósanngjörn og skilmálar, sem séu ekki tilgreindir, geti talist ósanngjarnir. Sóknaraðili geti því ekki byggt kröfur sínar á umræddum viðauka, enda sé hann aðeins til leiðbeiningar og hafi ekkert sjálfstætt gildi.

Varnaraðili mótmælir þeim kröfum sóknaraðila að ákvæði um vísitölu í lánasamningnum eigi að víkja til hliðar í heild sinni. Ljóst sé að binding lánsfjárhæðar við vísitölu neysluverðs valdi lántaka ekki tjóni ein og sér, heldur verði tjónið vegna skerðingar greiðslugetu þegar misgengi verði á milli þróunar launatekna og þeirra mælinga á verðþróun sem séu grundvöllur vísitölu neysluverðs. Það þurfi því að líta til breytinga á launavísitölunni samhliða breytingum á vísitölu neysluverðs. Einnig geti hækkandi fasteignaverð mildað áhrif sem hækkanir á vísitölu neysluverðs hafi. Því geta kröfur um fulla ógildingu vísitölubindingar aldrei átt rétt á sér. Þá verði einnig að líta til þess að vextir af vísitölutryggðum lánum séu talsvert lægri en af óverðtryggðum lánum og órjúfanleg tengsl á milli verðtryggingar og vaxtakjara. Því gætu sanngirnisrök aldrei leitt til þess að ákvæðum um vísitölu í skuldabréfinu yrði vikið til hliðar í heild og önnur ákvæði látin standa eftir.

                                                                                           V                                        

1. Almennt um ágreining aðila

                Ágreiningur málsins snýst um skuldbindingagildi verðtryggingarákvæðis í skuldabréfi sem sóknaraðili gaf út til forvera varnaraðila 2. maí 2007. Í II. kafla dóms þessa hefur skuldabréfinu og greiðsluáætlun sem því fylgdi verið lýst. Sóknaraðili telur að þar sem stór hluti kröfu varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu sé til kominn vegna umrædds verðtryggingarákvæðis sé enginn grundvöllur fyrir fjárnámi sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Lækjargötu 4, Reykjavík, hinn 13. ágúst 2012 til tryggingar kröfunni. Því krefst sóknaraðili þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns um fjárnámið.

                Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á því að á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, sbr. 36. gr. a til d sömu laga, eins og þær greinar séu skýrðar til samræmis við tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, beri að víkja til hliðar verðtryggingarákvæðum þess skuldabréfs sem fjárnámið byggir á. Ákvæði um verðtryggingu í hinu umdeilda skuldabréfi sé óréttmætt í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. l. lið 1. mgr. og d-lið 2. mgr. viðauka við tilskipunina. Varnaraðili grundvallar málatilbúnað sinn hins vegar á því að tilskipunin hafi verið réttilega innleidd í íslenskan rétt en ákvæði skuldabréfsins um verðtryggingu brjóti ekki gegn ofangreindum ákvæðum tilskipunarinnar. Í munnlegum málflutningi lagði varnaraðili áherslu á að hann teldi að tilskipunin ætti ekki við um verðtryggingaákvæði skuldabréfsins.

Undir rekstri málsins var að beiðni sóknaraðila aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Hafa spurningar til EFTA-dómstólsins og svör hans við þeim áður verið rakin í kafla III.

2. Gildandi reglur um verðtryggingu lána

Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem veita lánveitanda heimildir til verðtryggingar eru ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laganna. Í 13. gr. laganna er tekið fram að ákvæði laganna gildi um skuldbindingar sem varði sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Er tekið fram að með verðtryggingu samkvæmt ákvæðum kaflans sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og fari um heimildir til verðtryggingar samkvæmt 14. gr. laganna nema lög kveði á um annað. Í þeirri grein er veitt almenn heimild til að „verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr.“, enda sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum, sem um vísitöluna gilda, og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur fram að einnig sé heimilt í lánssamningi að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi, en miða verður við að þar með séu heimildir til verðtryggingar í íslenskum lögum tæmandi taldar, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 92/2010.

Í lögum nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs er að finna nánari ákvæði um útreikning vísitölu neysluverðs. Í 2. gr. laganna kemur fram að Hagstofan framkvæmi neyslukönnun heimilisútgjalda. Að lokinni úrvinnslu könnunarinnar skal Hagstofan breyta grunni vísitölu neysluverðs í samræmi við niðurstöður hennar og annarra upplýsinga sem aflað er sérstaklega í þessu skyni. Hagstofan skal gera opinberlega grein fyrir könnun þessari og niðurstöðum hennar og hvernig þeim er beitt til myndunar nýs vísitölugrunns. Samkvæmt 3. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 27/2007, skal vísitala neysluverðs reiknuð í mánuði hverjum miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan hvern mánuð. Heimilt er að safna verðupplýsingum yfir lengra tímabil ef verðlag vöru breytist ört. Ef ekki er unnt að miða við samtímaupplýsingar um verðlag eða verðbreytingar eða sé það ekki talið eiga við er Hagstofu Íslands heimilt að miða við meðaltal mánaðar eða mánaða eftir því sem við á. Vísitalan skal svo sem kostur er miðast við meðalverðlag í landinu samkvæmt því sem fram kemur í greininni.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna setur Seðlabanki Íslands nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Hefur það verið gert með reglum nr. 492/2001. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglnanna skal höfuðstóll verðtryggðs láns breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Þá segir þar að höfuðstóll láns skuli breytast á hverjum gjalddaga áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Jafnframt er þar kveðið á um að grunnvísitala sé sú vísitala sem í gildi er þegar lán er veitt, nema samningur eða eðli máls leiði til annars.

Samkvæmt þessu er einungis heimilt að miða verðtryggingu láns við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði enda sé ekki ákveðið að miða við hlutabréfavísitölu samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna. Ef samið er um að lán sé verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs er aðilum þannig óheimilt að semja frekar um grunn verðtryggingar og ræðst hann alfarið af téðum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum settum samkvæmt þeim og ákvörðunum Hagstofu Íslands. Sú almenna tilhögun við framkvæmd verðtryggingar fjárskuldbindinga sem hér er lýst hefur í grundvallaratriðum verið við lýði allt frá setningu laga nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl. þótt verðtrygging fjárskuldbindinga hafi raunar einnig þekkst fyrir þann tíma.

3. Reglur um óréttmæta skilmála í neytendasamningum o.fl.

Samkvæmt framangreindu geta einstaklingar og lögaðilar nýtt sér samningsfrelsi sitt til þess að semja um verðtryggt lán og geta þeir jafnframt valið milli kosta við verðtryggingu sem eru taldir upp með tæmandi hætti í lögum. Er verðtrygging miðað við vísitölu neysluverðs einn slíkur kostur og í reynd sá sem hefur verið langalgengastur á almennum lánamarkaði um alllangt skeið. Að því gefnu að samningsaðilar hafi ákveðið að miða verðtryggingu lánssamnings að fullu við vísitölu neysluverðs er svigrúm þeirra til frekari samninga hins vegar óverulegt og takmarkast í reynd við hvaða grunnvísitölu skuli miða við.

Ákvæði  36. gr. a–d laga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 14/1995, verður að skýra til samræmis við tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum sem þeim er ætlað að leiða í íslensk lög, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar gildir hún meðal annars ekki um samningsskilmála sem endurspegla lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Af aðfararorðum tilskipunarinnar verður ráðið að þessi takmörkun á gildissviði hennar grundvallist á því að ganga megi út frá því að lög og stjórnvaldsfyrirmæli, sem beint eða óbeint ráði til lykta skilmálum neytendasamninga, feli í sér sanngjarnt jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila og feli þar af leiðandi ekki í sér óréttmæta skilmála, sbr. einnig 70. mgr. dóms EFTA-dómstólsins 28. ágúst 2014 í máli nr. E-25/13. Er því talið ónauðsynlegt að tilskipunin nái til slíkra skilmála. 

Í greinargerð varnaraðila er á því byggt að tilskipunin, eins og hún hefur verið leidd í íslenskan rétt, hafi ekki verið því til fyrirstöðu að áðurlýstur lánssamningur var bundinn verðtryggingu svo sem nánar hefur verið gerð grein fyrir. Í ljósi þessarar málsástæðu varnaraðila er það á forræði dómsins að taka afstöðu til þess hvort og að hvaða marki téðar reglur tilskipunarinnar, eins og þær hafa verið leiddar í íslensk lög, taki til sakarefnis málsins. Verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að varnaraðila sé óheimilt að bera það fyrir sig að sakarefni málsins falli utan gildissviðs tilskipunarinnar.

Í samræmi við það sem áður hefur verið rakið um tilskipun 93/13/EBE verður sú almenna ályktun dregin af 2. mgr. 1. gr. hennar að hún eigi ekki við áðurlýstan lánssamning að því marki sem samningsaðilar höfðu ekki forræði á efni hans, sbr. einnig 68. mgr. fyrrgreinds dóms EFTA-dómstólsins í máli nr. E-25/13. Í þessu felst að tilskipunin getur átt við um þá ákvörðun aðila að lán skuli verðtryggt, hvaða lögákveðni kostur við verðtryggingu er valinn svo og hver skuli vera grunnvísitala samnings. Að þessum atriðum slepptum gátu samningsaðilar ekki haft frekari áhrif á verðbótaþátt samnings, svo sem grunn verðtryggingar eða nánari útreikning vísitölu samkvæmt ákvæðum laga nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs. Var því ekki um það að ræða að varnaraðili gæti nýtt sér yfirburðastöðu sína til þess að knýja fram ósanngjarna skilmála um þessi atriði sem réðust af lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og nánari ákvörðunum opinberrar stofnunar um útreikning vísitölu, svo sem áður greinir.

Ákvæði fyrrnefndrar tilskipunar verða ekki skýrð á þá leið að verðtrygging lánssamninga teljist í eðli sínu ósanngjarn samningsskilmáli, sbr. einkum d-lið 2. hluta viðauka tilskipunarinnar sem dómurinn telur að líta beri til við nánari túlkun á efnisákvæðum hennar. Ákvörðun varnaraðila um að bjóða sóknaraðila verðtryggt lán í samræmi við nánari ákvæði laga var því, við þær aðstæður sem um ræðir í málinu, hvorki í eðli sínu andstæð góðum viðskiptaháttum né fól hún í sér ójafnvægi milli réttinda og skyldna varnaraðila í óhag. Er þannig ekkert komið fram sem styður að varnaraðili hafi nýtt sér það takmarkaða svigrúm sem hann hafði til samninga, og áður er lýst, til þess að ná fram efnislega ósanngjörnum samningsskilmálum. Verður því ekki á það fallist að skilmálum samningsins um verðtryggingu verði vikið til hliðar á þessum grundvelli með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. einkum 6. gr. laga nr. 11/1986, eða fyrrnefndra ákvæða 36. gr. a–d laga nr. 7/1936 eins og þeim var breytt með lögum nr. 14/1995.

Að því marki sem skilmálar lánssamnings aðila um verðtryggingu fjölluðu um nánari grundvöll og framkvæmd verðtryggingar í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli féll samningurinn utan gildissviðs 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar og þar með einnig utan gildissviðs fyrrnefndra ákvæða laga nr. 7/1936, sbr. einnig 75. og 76. mgr. fyrrnefnds dóms EFTA-dómstólsins í máli nr. E-25/13. Geta téð ákvæði laga nr. 7/1936 því ekki leitt til ógildis skilmálanna að þessu leyti. Þá er það álit dómsins að ekkert sé komið fram í málinu sem styðji að lánssamningur aðila hafi að þessu leyti verið ósanngjarn í skilningi fyrrnefndrar 36. gr. laga nr. 7/1936 og er þá horft til þess sem áður er rakið að skilmálar lánssamningsins voru að þessu leyti ekki á forræði samningsaðila og réðust í reynd af lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og ákvörðunum opinberrar stofnunar.

4. Uppfyllti varnaraðili upplýsingaskyldu sína samkvæmt lögum nr. 121/1994?

Á það verður fallist með sóknaraðila að fyrrgreind niðurstaða haggi því ekki að samningur aðila geti talist ósanngjarn samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 og ákvæðum 36. gr. a–d sömu laga, ef nægilega er fram komið að varnaraðili hafi vanrækt að veita sóknaraðila viðhlítandi upplýsingar um raunverulegt efni samningsins og, að því er varðar skilmála um verðtryggingu, rækilegar útskýringar á framkvæmd verðtryggingar, sbr. d-lið 2. hluta fyrrnefnds viðauka tilskipunar 93/13/EB. Gildir þá einu þótt slíkar upplýsingar hafi lotið að ófrávíkjanlegum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem beint eða óbeint var vísað til í samningi aðila, sbr. til hliðsjónar 78. mgr. fyrrgreinds dóms EFTA-dómstólsins í máli nr. E-25/13 og 96. mgr. dóms EFTA-dómstólsins 24. nóvember 2014 í máli nr. E-27/13. Í síðarnefndum dómi komst dómstólinn m.a. að þeirri niðurstöðu að það samrýmdist ekki tilskipun  87/102/EBE um neytendalán að miðað væri við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi væri ekki 0%.

Svo sem áður greinir kom skýrlega fram í heiti þess skuldabréfs sem sóknaraðili gaf út til varnaraðila að bréfið væri verðtryggt og bundið vísitölu neysluverðs. Jafnframt kom fram í bréfinu sú grunnvísitala sem miðað var við, hvenær höfuðstóll myndi í fyrsta sinn taka breytingum til samræmis við vísitölu og hvernig verðbótaútreikningur hefði áhrif á fjárhæð afborgana. Verður því ekki séð að varnaraðili hafi að þessu leyti veitt sóknaraðila ófullnægjandi upplýsingar um skilmála samningsins. Hins vegar hefur sóknaraðili lagt áherslu á að aðferðin við verðtryggingu hafi ekki verið rækilega útskýrð í samningi eða fylgigögnum. Við munnlegan flutning málsins vísaði sóknaraðili í þessu sambandi einkum til þess að sú greiðsluáætlun sem útbúin hefði verið af varnaraðila hefði verið ófullnægjandi með tilliti til fyrirmæla laga nr. 121/1994 um neytendalán, sem voru í gildi er sóknaraðili gaf út skuldabréfið,  og samnefndrar tilskipunar 87/102/EBE með síðari breytingum. Að mati dómsins er hér um að ræða lagarök sem sóknaraðila er heimilt að færa fram til stuðnings þeirri málsástæðu að varnaraðili hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína þar sem aðferðin við útreikning verðbreytinga hafi ekki verið útskýrð rækilega. Verða mótmæli varnaraðila við málflutningi sóknaraðila að þessu leyti því ekki tekin til greina.

Í þeirri greiðsluáætlun, sem fylgdi áðurlýstu skuldabréfi, kom fram að áætlunin byggði á núgildandi vísitölu og þeim vöxtum og verðskrá sem í gildi væru hjá varnaraðila við gerð áætlunarinnar. Sagði jafnframt að þeir þættir gætu tekið breytingum í samræmi við ákvæði lánssamnings. Þá sagði að áætlunin væri hluti lánssamningsins og lántaki staðfesti að hafa móttekið og kynnt sér meðfylgjandi yfirlit yfir áætlaðar greiðslur, meðal annars greiðsluferil lánsins, fjárhæð afborgana, vexti og kostnað á hvern gjalddaga og eftirstöðvar eftir greiðslu hvers þeirra um sig. Í áætluninni komu því næst fram áætlaðar greiðslur á gjalddögum lánsins auk upplýsinga um eftirstöðvar, hlutfall afborgunar og vaxta svo og kostnaðar. Er ekki um það deilt að þessi áætlun tók ekki með neinum hætti tillit til þess að lánið var bundið verðtryggingu. Með því að vísa til þess að afborganir lánsins gætu tekið breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs var að mati dómsins fyrirsjáanlegt að greiðslur myndu í reynd verða hærri en gert væri ráð fyrir í áætluninni án þess að athygli sóknaraðila væri sérstaklega vakin á því með öðrum hætti en að árétta að áætlunin miðaðist við óbreytta vísitölu neysluverðs. Þá liggur fyrir að varnaraðili leitaðist ekki við að útskýra áhrif verðtryggingar samningsins á fjárhæð greiðslna eða höfuðstól með neinum öðrum hætti, svo sem með dæmum um áhrif verðbreytinga á höfuðstól og greiðslur.

Af 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994, sem og af 9. og 12. gr. sömu laga, verður dregin sú ályktun að skylda til að upplýsa lántaka um lántökukostnað komi ekki í veg fyrir að samið sé um það að kostnaðurinn sé breytilegur og þar af leiðandi óviss. Er því þannig lýst í 1. mgr. 12. gr. laganna hvaða áhrif verðtrygging og annar breytilegur kostnaður hefur á útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Þar segir að ef lánsamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skuli reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Þó að verðtrygging lánssamnings leiði óhjákvæmilega til óvissu um hverjar verðbætur afborgana og vaxta kunni að verða, getur lánveitandi samkvæmt þessu ekki komist hjá því að reikna út hlutfallstölu kostnaðar að þessu leyti með vísan til þess að það sé ekki unnt, sbr. 2. málsliðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994.

Samkvæmt 4. gr. tilskipunar 87/102/EBE, sbr. tilskipun 90/88/EBE, skal í lánssamningi meðal annars koma fram yfirlýsing um árlega hlutfallstölu lánskostnaðar. Í e-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar segir að með árlegri hlutfallstölu kostnaðar sé átt við heildarkostnað við neytendalán, lýst sem árlegri prósentu af upphæð láns þess sem veitt er og reiknuð út í samræmi við 1. gr. a. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar felur hugtakið heildarlánskostnaður í sér allan kostnað, að meðtöldum vöxtum og öðrum kostnaði, sem neytandinn þarf að greiða fyrir lánið. Í 6. mgr. 1. gr. a segir að þegar um sé að ræða lánssamninga, „sem í eru ákvæði er heimila breytingar á vaxtagjöldum og upphæð eða stigi annars kostnaðar er fellur undir árlega hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður verði óbreytanlegur og gildi fram til loka lánssamnings“. Ákvæði 12. gr. laga nr. 121/1994, sem áður hefur verið lýst, á sér fyrirmynd í framangreindu ákvæði tilskipunarinnar.

Með hliðsjón af fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994, svo og 6. mgr. 1. gr. a tilskipunar 87/102/EBE sama efnis, sbr. 1. gr. tilskipunar 90/88/EBE, verður samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að verðbætur hafi fallið undir heildarlántökukostnað samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 og d-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 87/102/EBE. Er þetta í samræmi við það álit sem fram kemur í 90. til 92. mgr. í fyrrnefndum dómi EFTA-dómstólsins 24. nóvember 2014 í máli nr. E-27/13. Var varnaraðila því skylt að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld yrðu óbreytt til loka lánstímans, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna. Téð fyrirmæli laga nr. 121/1994 verður að skýra til samræmis við þau ákvæði tilskipunar 87/102/EBE og breytingatilskipana sem ákvæðinu var ætlað að leiða í íslensk lög, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Við úrlausn um efnislegt inntak reglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið verður hins vegar að horfa til viðtekinna aðferða við skýringu, þ. á m. fordæma EFTA-dómstólsins.

Í fyrrgreindum dómi EFTA-dómstólsins er fjallað um túlkun framangreindra ákvæða neytendalánatilskipunarinnar. Þar er sú ályktun dregin að hugtakið „heildarlántökukostnaður“ feli í sér allan kostnað sem neytanda ber skylda til þess að greiða samkvæmt lánssamningnum, að meðtöldum vöxtum og kostnaði sem leiði af verðtryggingu höfuðstólsins. Eigi þessar upplýsingar að stuðla að gagnsæi á markaðnum, þar sem þær geri neytandanum kleift að bera saman mismunandi lánatilboð. Þá er þess getið í fyrrgreindum dómi að ákvæði 6. mgr. 1. gr. a í tilskipuninni geri ráð fyrir því að vaxtagjöld og annar kostnaður geti verið breytilegur. Sé á hinn bóginn gert ráð fyrir því við lántöku að verðbólgustig haldist í 0%, þegar raunveruleg verðbólga er töluvert hærri, gefi það ekki rétta mynd af þeim kostnaði sem leiði af verðtryggingu og þar með heildarlántökukostnaði í skilningi d-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Slík yfirlýsing veiti því ekki raunhæfa mynd af árlegri hlutfallstölu kostnaðar eins og hún sé skilgreind í e-lið 2. mgr. 1. gr. og a-lið 1. mgr. 1. gr. a í neytendalánatilskipuninni.

Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af 3. gr. laga nr. 2/1993, verður að skýra 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 á þá leið að við útreikning árlegrar hlutfallstölu hafi verið skylt að miða við að verðlagsþróun yrði óbreytt út lánstímann. Var það því ósamrýmanlegt þessari kröfu laga nr. 121/1994 að miða greiðsluáætlun sóknaraðila við að verðbólgustig yrði 0%, svo sem gert var.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að varnaraðili hafi ekki veitt sóknaraðila tilskildar upplýsingar um heildarlántökukostnað þegar sá síðarnefndi gaf út téð skuldabréf til varnaraðila. Á það verður hins vegar ekki fallist að af þessari vanrækslu leiði fyrirvaralaust að varnaraðila sé óheimilt að krefjast lántökukostnaðar sem byggist á verðbótaákvæði lánssamnings. Er þá horft til þess sem áður segir að lög nr. 121/1994 geri skýrlega ráð fyrir því að aðstæður kunni að vera með þeim hætti að árleg hlutfallstala kostnaðar byggist á áætlun með tilliti til breytilegra atriða sem ekki er hægt að meta með vissu á þeim tíma sem útreikningur er gerður, þ. á m. á verðtryggingu sbr. 2. mgr. 6. gr., 9 og 1. mgr. 12. gr. laganna.

Ekki er fjallað um það í tilskipun 87/102/EBE, eða síðari tilskipunum sem breyttu henni, hvaða afleiðingar það eigi að hafa þegar lánveitandi veitir ekki viðhlítandi upplýsingar um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu lánskostnaðar við gerð lánssamnings. Líkt og fram kemur í 94. mgr. í fyrrnefndum dómi EFTA-dómstólsins í máli nr. E-27/13 verður því að meta, að teknu tilliti til allra atvika málsins, hvaða afleiðingar vanræksla varnaraðila hafði á hagsmuni sóknaraðila og hvaða þýðingu hún eigi nú að hafa að lögum. Gilda um þetta atriði innlendar reglur svo framarlega sem sú vernd, sem neytendalánatilskipunin felur í sér, telst tryggð.

5. Réttaráhrif vanrækslu varnaraðila samkvæmt lögum nr. 121/1994

Svo sem áður greinir byggist málatilbúnaður sóknaraðila á því að ógildingarákvæði 36. gr. og 36. gr. a til d í lögum nr. 7/1936 eigi við um samning aðila. Er þannig ekki lagt til grundvallar að 14. gr. laga nr. 121/1994 eigi samkvæmt orðum sínum við um téðan lánssamning enda þótt í munnlegum málflutningi hafi verið vísað til þeirra sjónarmiða sem liggja að baki ákvæðum greinarinnar. Þá eru ekki færð að því rök að 15. gr. laga nr. 121/1994 kunni að eiga við en þar er mælt fyrir um að vanræksla lánveitanda að þessu leyti geti skapað honum bótaábyrgð, enda hafi neytandi mátt ætla að lánskjör væru hagstæðari en þau hafi síðar reynst vera.

Við mat á réttaráhrifum þess að varnaraðili vanrækti að veita sóknaraðila þær upplýsingar sem honum bar, svo sem með raunhæfri greiðsluáætlun, verður í upphafi að horfa til þess að ákvæði skuldbréfsins um verðtryggingu voru skýr og fortakslaus sem og alvanaleg á lánamarkaði. Gat sóknaraðila því ekki dulist að það lán sem hann tók hjá varnaraðila var verðtryggt og bundið vísitölu neysluverðs. Einnig lítur dómurinn til þess að jafnvel þótt fullnægjandi greiðsluáætlun hefði verið sett fram af hálfu varnaraðila hefði slík áætlun engu breytt um það að varnaraðila hefði allt að einu verið heimilt að krefja sóknaraðila um fullar verðbætur við þær aðstæður að vísitala hefði tekið breytingum umfram áætlunina. Þá hefur áður verið komist að þeirri niðurstöðu að téðir skilmálar gátu ekki talist efnislega ósanngjarnir í skilningi laga. Jafnframt er ekkert komið fram um að þeir hafi verið óeðlilegir með hliðsjón af þeim kjörum sem almennt tíðkuðust á lánamarkaði.

Í málinu hafa ekki verið lagðar fram nákvæmar upplýsingar um verðbreytingar á þeim tíma sem lánið var tekið. Við munnlegan flutning málsins voru þó leiddar að því líkur að tiltölulega litlar breytingar hefðu verið á vísitölu neysluverðs um það leyti sem lánið var tekið. Samkvæmt þessu hefði fullnægjandi greiðsluáætlun ekki gefið til kynna verulega hækkun lánsins vegna verðbóta. Er af þessum sökum vafasamt hvort og þá hvaða þýðingu greiðsluáætlun í lögmætu formi hefði í raun haft fyrir sóknaraðila þegar hann lagði mat á það hvort hann vildi taka téð lán hjá varnaraðila. Þá verður að líta til þess að varnaraðila mátti vera ljóst við töku lánsins að verðbreytingar kynnu að verða á lánstímanum og lánið kynni að taka breytingum samkvæmt hækkunum á vísitölu neysluverðs í samræmi við það, sbr. grunnrök 3. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994. Sóknaraðili hefur hins vegar enga tilraun gert til þess að sýna fram á það með útreikningum að lánið hafi í heild sinni hækkað verulega umfram það sem hann mátti vænta á grundvelli almennrar þekkingar sinnar.

                Samkvæmt öllu framangreindu telur dómurinn ekki fram komið að framangreind vanræksla varnaraðila, á því að veita sóknaraðila fullnægjandi greiðsluáætlun þegar hann tók téð lán hjá varnaraðila, hafi haft slíkar afleiðingar fyrir hagsmuni sóknaraðila að geti leitt til ógildis verðbótaákvæðis lánssamnings aðila. Verður kröfu sóknaraðila því hafnað og staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um fjárnám að kröfu varnaraðila í eignarhluta sóknaraðila, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Við meðferð málsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Einar Páll Tamimi hdl.

Af hálfu varnaraðila flutti málið Áslaug Árnadóttir hdl.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómara kveður upp úrskurð þennan ásamt Skúla Magnússyni héraðsdómara og Ásmundi Helgasyni héraðsdómara.

                                                                     Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um fjárnám í eignarhluta sóknaraðila, Gunnars Engilbertssonar, í fasteigninni Lækjargötu 4, Reykjavík, fastanr. 200-2691, að kröfu varnaraðila, Íslandsbanka hf.

                Málskostnaður fellur niður.

DÓMUR DÓMSTÓLSINS

28. ágúst 2014

(34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls – Kæra úrskurðar um að leita ráðgefandi álits – Verðtrygging veðlána – Tilskipun 87/102/EBE – Tilskipun 93/13/EBE – Meginreglurnar um jafnræði við málsmeðferð og skilvirka framkvæmd EES-réttar)

Mál E-25/13,

BEIÐNI, samkvæmt 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, frá Héraðsdómi Reykjavíkur, í máli

Gunnars V. Engilbertssonar

gegn

Íslandsbanka hf.

um túlkun á tilskipun 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

DÓMSTÓLLINN,

skipaður dómurunum Carl Baudenbacher, forseta og framsögumanni, Per Christiansen og Páli Hreinssyni,

dómritari: Gunnar Selvik,

hefur, með tilliti til skriflegra greinargerða frá:

-          Stefnanda, Gunnari V. Engilbertssyni, í fyrirsvari er Einar Páll Tamimi, hdl., sem nýtur aðstoðar Guðrúnar Ingu Torfadóttur, hdl.

-          Stefnda, Íslandsbanka hf., í fyrirsvari er Áslaug Árnadóttir, hdl. og henni til aðstoðar sem lögfræðilegur ráðgjafi er Jóhannes Karl Sveinsson, hrl.

-          Ríkisstjórn Íslands, í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Anna Katrín Vilhjálmsdóttir, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu og Eiríkur Áki Eggertsson, lögfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Lögfræðilegir ráðgjafar þeirra eru Andri Árnason, hrl., og Stefán Andrew Svensson, hrl.

-          Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Xavier Lewis, framkvæmdastjóri, Markus Schneider, aðstoðarframkvæmdastjóri, og Auður Ýr Steinarsdóttir, lögfræðingur, á lögfræði- og framkvæmdasviði.

-          Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Michel Van Beek og Nicola Yerrell, hjá lagaskrifstofu framkvæmda-stjórnarinnar.

með tilliti til skýrslu framsögumanns,

og munnlegs málflutnings lögmanns stefnanda, Einars Páls Tamimi, lögmanns stefnda, Áslaugar Árnadóttur, málflutningsmanns ríkisstjórnar Íslands, Stefáns Andrew Sveinssonar, fulltrúa ESA, Markus Schneider, og fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar, Nicola Yerrell, sem fram fór 9. apríl 2014,

kveðið upp svofelldan

Dóm

I             Löggjöf

EES-réttur

1        Í 3. gr. EES-samningsins segir:

Samningsaðilar skulu gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir.

Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð.

Þeir skulu enn fremur auðvelda samvinnu innan ramma samnings þessa.

2        Í 7. gr. EES-samningsins segir:

Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:

(a) gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;

(b) gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.

Tilskipun 93/13/EBE

3        Tilskipun ráðsins 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum (Stjtíð. ESB 1993 L 95, bls. 29) var tekin upp í XIX. viðauka EES-samningsins, í lið 7a.

4        Í 6., 13., 20. og 24. lið formálsorða tilskipunarinnar segir:

Til að greiða fyrir stofnun innri markaðar og tryggja rétt borgarans í hlutverki neytanda við kaup á vöru og þjónustu samkvæmt samningum sem lög annarra aðildarríkja en hans eigin gilda um er mikilvægt að nema burt óréttmæta skilmála úr slíkum samningum.

[...]

Talið er að lög og stjórnsýsluákvæði aðildarríkjanna, sem beint eða óbeint ákvarða skilmála neytendasamninga, feli ekki í sér óréttmæta skilmála. Það virðist því ekki nauðsynlegt að láta ákvæði þessarar tilskipunar ná til skilmála sem endurspegla lög eða bindandi stjórnsýsluákvæði og meginreglur eða ákvæði alþjóðasamninga sem aðildarríkin eða bandalagið er aðili að. Orðalagið „lög og bindandi stjórnsýsluákvæði“ í 2. mgr. 1. gr. á einnig við um reglur sem samkvæmt lögum gilda í samskiptum samningsaðila, nema samið hafi verið um aðra skipan.

[…]

Samningar skulu orðaðir á eðlilegu, skiljanlegu máli, neytandi skal fá tækifæri til þess að skoða alla skilmála og í vafamálum gildir sú túlkun sem neytandanum kemur best.

[…]

Dómstólar og stjórnvöld aðildarríkjanna verða að eiga tiltækar réttar og árangursríkar leiðir til að hindra áframhaldandi notkun óréttmætra skilmála í neytendasamningum.

5        Í 1. gr. tilskipunarinnar segir:

1. Tilgangurinn með þessari tilskipun er að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um óréttmæta skilmála í samningum milli seljanda eða veitanda og neytanda.

2. Þessi tilskipun nær ekki til samningsskilmála sem endurspegla lög og bindandi stjórnsýsluákvæði og ákvæði eða meginreglur í alþjóðasamningum sem aðildarríkin eða bandalagið eiga aðild að, m.a. á sviði flutningamála.

6        Í 2. gr. tilskipunarinnar segir:

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

(a) „óréttmætir skilmálar“: samningsskilmálar samkvæmt skilgreiningu í 3. gr.;

(b) „neytandi“: einstaklingur sem í samningum, er þessi tilskipun nær til, á viðskipti í öðru skyni en vegna starfs síns;

(c) „seljandi eða veitandi“: einstaklingur eða lögpersóna sem í samningum, er þessi tilskipun nær til, á viðskipti vegna starfs síns, hvort sem það er opinbert starf eða ekki.

7        Í 3. gr. tilskipunarinnar segir:

1. Samningsskilmáli sem hefur ekki verið samið um sérstaklega telst óréttmætur ef hann, þrátt fyrir skilyrðið um „góða trú“, veldur umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns.

2. Ekki telst hafa verið samið sérstaklega um samningsskilmála ef hann hefur verið saminn fyrirfram og neytandi því ekki haft tækifæri til að hafa áhrif á efni skilmálans, einkum þegar um er ræða fastorðaða staðalsamninga.

Þótt samið hafi verið sérstaklega um einstök atriði samningsskilmála eða einn tiltekinn samningsskilmála, þá gildir þessi grein áfram um afganginn af samningnum ef heildarmat á samningnum sýnir að hann er þrátt fyrir það fastorðaður staðalsamningur.

Ef seljandi eða veitandi heldur því fram að samið hafi verið sérstaklega um staðalskilmála er sönnunarbyrðin hans.

3. Í viðaukanum er skrá, leiðbeinandi en ekki tæmandi, yfir samningsskilmála sem teljast óréttmætir.

8        Í 4. gr. tilskipunarinnar segir:

1. Með fyrirvara um 7. gr. skal við mat á því hvort samningsskilmáli er óréttmætur taka tillit til þess um hvers konar vörur eða þjónustu samningurinn er og hafa hliðsjón af öllum aðstæðum á þeim tíma sem samningurinn er gerður og öllum öðrum skilmálum samningsins eða annars samnings sem hann hangir saman við.

2. Matið á því hvort samningsskilmálar séu óréttmætir nær hvorki til skilgreiningar á aðalefni samningsins né samræmis milli verðs og vara eða þjónustu og greiðslu fyrir hana ef þessir skilmálar eru orðaðir á eðlilegu, skiljanlegu máli.

9        Í 5. gr. tilskipunarinnar segir:

Í samningum þar sem allir eða tilteknir skilmálar sem neytanda eru boðnir eru skriflegir skulu skilmálarnir ávallt orðaðir á eðlilegu, skiljanlegu máli. Í vafamálum um túlkun skilmála gildir sú túlkun sem neytandanum kemur best. Þessi túlkunarregla gildir ekki í tengslum við málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 7. gr.

10      Í 6. gr. tilskipunarinnar segir:

1. Aðildarríkin skulu mæla svo fyrir um að óréttmætir skilmálar í samningi seljanda eða veitanda við neytanda séu ekki samkvæmt landslögum þeirra bindandi fyrir neytandann og að samningurinn verði áfram bindandi fyrir samningsaðila ef hann getur haldið gildi sínu að öðru leyti án óréttmætu skilmálanna.

2. Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að neytandinn sé ekki sviptur þeirri vernd sem þessi tilskipun veitir honum við það að lög lands utan bandalagsins eru valin sem gildandi lög fyrir samninginn ef hann tengist náið yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

11      Í viðauka tilskipunarinnar segir:

Samningsskilmálar sem um getur í 3. mgr. 3. gr.

1. Samningsskilmálar sem hafa að markmiði eða þau áhrif:

...

(l) að gera ráð fyrir að vöruverð sé ákveðið við afhendingu eða heimila seljanda vöru eða veitanda þjónustu að hækka verðið án þess, í báðum tilvikum, að veita neytandanum tilsvarandi rétt til að ógilda samning ef endanlegt verð er of hátt samanborið við umsamið verð við gerð samnings;

...

2. Gildissvið g-, j- og l-liðar:

...

(c) Ákvæði g-, j- og l-liðar gilda ekki um:

- viðskipti með framseljanleg verðbréf, fjármálapappíra og aðrar vörur eða þjónustu ef verðið er bundið breytingum á vísitölu, markaðsverði verðbréfa eða vöxtum á fjármagnsmarkaði sem seljandinn eða veitandinn hefur ekki áhrif á;

- ...

(d) Ákvæði l-liðar koma ekki í veg fyrir löglega vísitölubindingu ef aðferðin við útreikning verðbreytinga er útskýrð rækilega í samningi.

Landsréttur

Lög nr. 7/1936

12      Tilskipunin var leidd í lög á Íslandi með lögum nr. 14/1995 sem breyttu 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga (samningalög) auk þess að bæta fjórum greinum við þau, 36. gr. a., 36. gr. b., 36. gr. c. og 36. gr. d.

13      Í 1. mgr. 36. gr. samningalaga segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Hið sama eigi við um aðra löggerninga.

14      Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skal við mat samkvæmt 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.

15      Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. a. gilda ákvæði 36. gr. a–d um samninga, meðal annars samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda. Sjá hér ennfremur 36. gr. d.

16      36. gr. b. kveður á um að skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skuli vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skuli túlka samninginn neytandanum í hag.

17      Samkvæmt 36. gr. c. gilda ákvæði 36. gr. um samninga samkvæmt 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr. 36. gr. c.

18      Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. c. skal, við mat á því hvort samningur sé ósanngjarn, líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., meðal annars skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.

19      Í 3. mgr. 36. gr. c. segir að samningur teljist ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.

Lög nr. 38/2001

20      Almenn heimild til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár var fyrst veitt með lögum nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl. og hafa ákvæði um það efni verið í lögum síðan. Núgildandi reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár er að finna í VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ákvæði kaflans eru ófrávíkjanleg, ef frá eru taldar þær undanþágur sem kveðið er á um í 2. gr.

21      Í samræmi við 13. gr. laganna gilda ákvæði VI. kafla þeirra um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Þar kemur einnig fram að með verðtryggingu sé í þessum kafla laganna átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og að um heimildir til verðtryggingar fari samkvæmt 14. gr. nema lög kveði á um annað.

22      Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar. Í 2. mgr. 14. gr. segir að í lánssamningi sé þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

23      1. mgr. 15. gr. laga nr. 38/2001 kemur fram að Seðlabanki Íslands geti að fengnu samþykki ráðherra ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Bankinn getur jafnframt að fengnu samþykki ráðherra ákveðið að vextir verðtryggðra innstæðna og lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum. Þá setur Seðlabankinn nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Reglur Seðlabanka Íslands nr. 492/2001

24      Á grundvelli 15. gr. laga nr. 38/2001 setti Seðlabankinn reglur nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

25      1. gr. reglnanna kveður á um að verðtrygging sparifjár og lánsfjár miðað við innlenda verðvísitölu skuli miðast við vísitölu neysluverðs eins og Hagstofa Íslands auglýsi hana mánaðarlega, sbr. ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema lög kveði á um annað.

26      Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglnanna er verðtrygging láns með ákvæði um að höfuðstóll þess miðist við vísitölu neysluverðs því aðeins heimil að lánið sé til fimm ára hið minnsta. Í 2. mgr. segir að höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Grunnvísitala skal vera vísitala sú, sem í gildi er þegar lán er veitt, nema samningur eða eðli máls leiði til annars.

27      Í 3. mgr. 4. gr. reglnanna segir að gjalddagar láns skuli allir vera á sama degi mánaðar, þannig að tímabilið milli gjalddaga teljist í heilum mánuðum. Sé gjalddagi láns á einhverjum öðrum degi mánaðar en lánveiting á sér stað, skal til leiðréttingar reikna dagvexti með sérstökum verðbótum, fyrir frávikið innan lánveitingarmánaðar (mest 29 dagar). Við útborgun láns greiðir lánþegi dagvextina, ef gjalddagi er síðar í mánuði en lánveiting, en lánveitandi greiðir, ef gjalddagi er fyrr. Í 4. mgr. er veitt heimild til að semja svo um í fjármálagerningum, sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði samanber lög nr. 110/2007 um kauphallir, að á útborgunardegi láns og greiðsludegi afborgana og vaxta miðist verðbætur innan mánaðar við daglega línulega breytingu á vísitölu neysluverðs, það er milli gildis hennar á fyrsta degi mánaðar og gildis hennar á fyrsta degi næsta mánaðar þar á eftir. Loks segir í 5. mgr. að á kvittunum skuli jafnan gera nákvæma grein fyrir útreikningi greiðslu og áföllnum verðbótum.

28      Samkvæmt 5. gr. reglnanna er þó heimilt að í lánssamningum sé miðað við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Um lánstíma gilda ákvæði 1. mgr. 4. gr. og tæknileg útfærsla í skuldaskjölum fer eftir 2., 3. og 5. mgr. 4. gr. eins og við getur átt.

Lög nr. 12/1995

29      Í lögum nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs er að finna ákvæði um aðferðir við útreikning vísitölu neysluverðs. Þar segir að Hagstofa Íslands skuli reikna og birta vísitöluna mánaðarlega. Hún skal reist á grunni sem Hagstofan ákveður samkvæmt niðurstöðum neyslukönnunar. Vísitalan skal svo sem kostur er miðast við meðalverðlag í landinu. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna er sérstök nefnd Hagstofunni til ráðgjafar um gerð vísitölunnar og fylgist með reglubundnum útreikningi hennar.

Lög nr. 121/1994

30      Á útgáfudegi skuldabréfsins (sjá 33. mgr. hér að neðan) voru í gildi lög nr. 121/1994 um neytendalán. Lögin leiddu tilskipun 87/102/EBE í íslenskan rétt, en í stað þeirra komu lög nr. 33/2013 sem tóku gildi 1. nóvember 2013 og innleiddu tilskipun 2008/48/EB. Fyrri tilskipunin kveður á um skilyrði til upplýsingagjafar að því er neytendalán varðar. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. hennar eiga ákvæði 4. gr. og 6. til 12. gr. ekki við um lánssamninga eða samninga um loforð um lánveitingu sem tryggð sé með fasteignaveði, að því marki sem slíkt er ekki þegar undanþegið tilskipuninni samkvæmt a-lið 1. mgr. 2. gr. Með lögum nr. 179/2000, sem breyttu lögum nr. 121/1994, ákvað íslenski löggjafinn þó að ákvæði tilskipunar 87/102/EBE skyldu ná til veðlána.

31      12. gr. laga nr. 121/1994 varðar lánssamninga sem heimila verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður. Samkvæmt greininni skal í slíkum tilvikum reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Í greininni er jafnframt mælt fyrir um að þegar árleg hlutfallstala kostnaðar sé reiknuð skuli gera ráð fyrir eftirfarandi: (i) Ef engin hámarksupphæð er tilgreind í lánssamningi skal hámarksupphæð láns, sem veitt er, teljast 150.000 kr.; (ii) Ef ekki er tilgreindur ákveðinn lánstími og ekki er unnt að ráða hann af samningi skal lánstími talinn eitt ár; (iii) Ef í samningi er kveðið á um fleiri en einn greiðsludag skal ganga út frá endurgreiðslu á þeim tíma sem samningur kveður fyrst á um.

II           Málavextir og meðferð málsins

32      Með bréfi dagsettu 5. nóvember 2013, sem skráð var í málaskrá dómstólsins 12. nóvember sama ár, óskaði Héraðsdómur Reykjavíkur eftir ráðgefandi áliti í máli sem rekið er fyrir dómstólnum milli Gunnars V. Engilbertssonar og Íslandsbanka hf.

33      Stefnandi tók á árunum 2005 og 2007 þrjú lán í formi veðskuldabréfa til fasteignakaupa í Reykjavík. 2. maí 2007 var síðasta skuldabréfið gefið út. Í fyrirsögn skuldabréfsins sagði að það væri ,,bundið vísitölu neysluverðs með vaxtaendurskoðunarákvæði“. Einnig kom fram nafn útgefanda skuldabréfsins, lánstími, fjöldi afborgana og mánuðir milli þeirra, gjalddagi fyrstu afborgunar, upphafstími vaxtaútreiknings og inn á hvaða reikning láninu skyldi ráðstafað. Þá sagði í sérstökum reit að grunnvísitalan væri 267,1 stig.

34      Í 1. gr. skuldabréfsins sagði: „höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu samkvæmt ofanskráðu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli síðari gjalddaga.“ Þar var einnig ákvæði um hvernig færi um þær breytingar á höfuðstól skuldarinnar sem fylgdu, en um þær sagði: ,,Skal höfuðstóll skuldarinnar breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.“ Um afborganirnar sagði svo: ,,Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er verðbótum bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan er deilt í útkomuna með þeim fjölda gjalddaga, sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga, sem er í það sinn.“

35      Með skuldabréfinu fylgdi greiðsluáætlun sem var undirrituð af báðum aðilum sama dag og skuldabréfið sjálft. Hún tilgreindi alla 180 gjalddaga skuldabréfsins og hverjar yrðu eftirstöðvar skuldarinnar hverju sinni, heildargreiðslu á hverjum gjalddaga og hvernig hún sundurliðaðist í afborganir, vexti og kostnað. Þá var í greiðsluáætluninni ákvæði þar sem fram var tekið að áætlunin byggðist á ,,núgildandi vísitölu“ (og þeim vöxtum og verðskrám sem í gildi voru hjá bankanum) og að ,,[þ]eir þættir [gætu] tekið breytingum í samræmi við ákvæði lánssamningsins.“ Enn fremur sagði: ,,Ef lánsfjárhæð er breytileg og/eða lánstími óákveðinn er áætlunin byggð í dæmaskyni eingöngu á tilteknum upphæðum og eins árs lánstíma.“ Tekið var fram að greiðsluáætlunin væri hluti viðhengds lánssamnings. Jafnframt staðfesti lántaki að hafa móttekið og kynnt sér greiðsluáætlunina. Loks innihélt skuldabréfið ákvæði um heimild til gjaldfellingar allrar skuldarinnar við greiðslufall á afborgunum auk heimildar til fjárnámsgerðar til fullnustu hennar án undangengins dóms eða réttarsáttar samkvæmt lögum nr. 90/1989 um aðför.

36      Í lánsumsókn, sem einnig er dagsett 2. maí 2007, segir að hún sé fylgiskjal með fyrrnefndu skuldabréfi og að veð fyrir skuldinni sé fasteign stefnanda í Reykjavík.

37      Frá miðju ári 2009 hefur stefnandi ekki greitt af skuldabréfinu. Að kröfu stefnda gerði sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám í eignarhluta stefnanda í fasteigninni í Reykjavík vegna áhvílandi veðbanda á grundvelli aðfararheimildarinnar í skuldabréfinu. Við fjárnámið mótmælti stefnandi framgangi gerðarinnar. Mótmælin voru á því reist að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins væru ólögmæt og í andstöðu við 36. gr. og 36. gr. a. til c. laga nr. 7/1936. Sýslumaður féllst ekki á mótmæli stefnanda og stefnandi lagði málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann krafðist þess að gerðin yrði felld úr gildi.

38      Stefnandi heldur því fram að ekki hafi verið samið sérstaklega um verðtryggingarákvæðið og það sé óréttmætt samningsákvæði, andstætt 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Á grundvelli 3. gr. EES-samningsins og 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar hafi borið að túlka samsvarandi ákvæði landsréttar þannig að hinum óréttmæta samningi yrði vikið til hliðar. Jafnframt telur stefnandi að 36. gr. laga nr. 7/1936 geti ekki talist nægilegur grundvöllur til að víkja ákvæðinu til hliðar. Sú grein mæli einungis fyrir um heimild til ógildingar en ekki skyldu.

39      Stefnandi heldur því þar að auki fram að framkvæmd verðtryggingarinnar hafi ekki verið útskýrð til fulls í skuldabréfinu og því hafi hann ekki skilið þá fjárhagslegu áhættu og afleiðingar sem hárri verðbólgu fylgja. Að hans mati gæfi greiðsluáætlunin ekki raunhæfa mynd af því hvernig höfuðstóll skuldarinnar og afborganirnar myndu þróast á lánstímanum.

40      Stefndi hafnar sjónarmiðum stefnanda. Hann telur að verðtrygging hafi verið heimil lögum samkvæmt og að lánið hafi uppfyllt öll viðeigandi skilyrði. Hvað sem því líður sé ekki unnt að víkja til hliðar fyrirmælum skuldabréfsins um verðtryggingu án þess að raska öðrum ákvæðum þess. Stefndi telur jafnframt að tilskipunin hafi verið réttilega innleidd í landsrétt því samkvæmt 7. gr. EES-samningsins hafi íslenski löggjafinn val um form og aðferð við innleiðingu tilskipana. Niðurstaða þessa máls ráðist því, að mati stefnda, af túlkun laga nr. 7/1936, þar sem tilskipanir hafi ekki bein réttaráhrif.

41      Stefndi telur að viðauki tilskipunarinnar hafi ekki verið innleiddur en það hafi ekki verið skylt þar sem listinn í viðaukanum sé aðeins til leiðbeiningar og ekki tæmandi.

42      Samkvæmt stefnda komi skýrt fram í skuldabréfinu að höfuðstóll lánsins breytist, í samræmi við ákvæði landsréttar, í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu sem einnig komi skilmerkilega fram í skjalinu.

43      Með úrskurði 4. júlí 2013 féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á beiðni stefnanda um að leita ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum á fyrstu spurningu hans en ekki á annarri spurningunni. Stefndi kærði þann úrskurð til Hæstaréttar Íslands sem ákvað að beina neðangreindum spurningum til EFTA-dómstólsins.

44      Með vísan til bréfs Hæstaréttar Íslands frá 8. október 2013 og dóms hans frá sama degi í máli nr. 489/2013 beindi Héraðsdómur Reykjavíkur eftirfarandi spurningum til EFTA-dómstólsins:

1.      Samrýmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ef löggjöf í ríki sem aðild á að EES-samningnum heimilar að samningur neytanda og veitanda um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrirfram ákveðinni vísitölu?

2.      Ef svarið við fyrstu spurningunni er á þann veg að verðtrygging greiðslna af láni sem tekið er til fjármögnunar fasteignakaupa sé samrýmanleg ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE þá er í öðru lagi spurt hvort tilskipunin takmarki svigrúm viðkomandi samningsríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir skuli valda breytingum á hinni fyrirfram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar?

3.      Ef svarið við annarri spurningunni er að tilskipun 93/13/EBE takmarki ekki það svigrúm samningsríkis sem nefnt er í þeirri spurningu þá er í þriðja lagi spurt hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast, b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið?

4.      Telst aðferðin við útreikning verðbreytinga í lánssamningi um fjármögnun fasteignakaupa hafa verið útskýrð rækilega fyrir neytanda í skilningi d. liðar 2. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í þriðju spurningunni?

5.      Á ríki sem er aðili að EES-samningnum val milli þess við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE, annars vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að heimilt sé að lýsa óskuldbindandi fyrir neytanda óréttmæta skilmála í skilningi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, eða hins vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að slíkir skilmálar skuli ávallt vera óskuldbindandi fyrir neytandann?

45  Með bréfi dagsettu 1. apríl 2014 leitaði dómstóllinn svara hjá aðilum málsins við því hvort máli skipti við úrlausn málsins, líkt og stefndi hélt fram í skriflegri greinargerð, að íslenski löggjafinn hafi, með lögum nr. 179/2000 sem breyttu lögum nr. 121/1994, ákveðið að ákvæði tilskipunar 87/102/EBE skyldu ná til veðlána og þá að hvaða marki.

46      Vísað er til skýrslu framsögumanns um frekari lýsingu löggjafar, málsatvika, meðferðar málsins og skriflegra greinargerða sem dómstólnum bárust. Verða þau ekki rakin frekar nema að því leyti sem forsendur dómsins krefjast.

III       Umfang beiðni landsdómstólsins

47      Stefnandi heldur því fram að spurningarnar sem Héraðsdómur Reykjavíkur beindi til EFTA-dómstólsins taki ekki að öllu leyti til sömu atriða og þær spurningar sem til stóð að héraðsdómurinn beindi til hans áður en Hæstiréttur kvað upp sinn dóm. Þar af leiðandi leggur stefnandi til að upphaflegu spurningum héraðsdóms verði svarað auk þeirra sem héraðsdómurinn hefur nú beint til dómstólsins.

48      Dómstóllinn minnir á að það er einungis landsdómstólsins, sem málið hefur verið lagt fyrir og sem axla verður ábyrgð á eftirfarandi dómsniðurstöðu, að meta bæði þörfina á ráðgefandi áliti til að hann geti kveðið upp dóm og mikilvægi spurninganna sem hann vísar til EFTA-dómstólsins í ljósi þeirra tilteknu aðstæðna sem uppi eru í málinu (sjá mál E‑13/11 Granville Establishment gegn Volker Anhalt, Melanie Anhalt and Jasmin Barbaro, née Anhalt [2012] EFTA Ct. Rep. 400, 18. mgr.).

49      Jafnvel þó að ákvörðunin um að óska eftir ráðgefandi áliti sé í raun oft tekin að beiðni annars eða beggja aðila í innlendu málsmeðferðinni er samstarf dómstólsins og landsdómstólsins algerlega óháð frumkvæði aðilanna (sjá mál E-18/11 Irish Bank Resolution Corporation Ltd gegn Kaupþing hf („Irish Bank“) [2012] EFTA Ct. Rep. 592, 55. og 56. mgr.). Ganga verður út frá því fyrirfram að spurningar landsdómstóls eigi erindi til dómstólsins. Telja verður að sömu sjónarmið eigi almennt við um það hvernig landsdómstólar hafa með rökstuddum hætti afmarkað efni og umfang þeirra spurninga sem vísað er til dómstólsins (sjá mál E-10/12 Yngvi Harðarson gegn Askar Capital hf. [2013] EFTA Ct. Rep. 204, 38. og 41. mgr., og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til).

50      Öfugt við stöðuna sem uppi var í máli Irish Bank virðist af beiðninni í þessu máli sem hinn þar til bæri landsdómstóll hafi ákveðið að beina spurningunum til EFTA-dómstólsins eins og þær voru orðaðar í dómi Hæstaréttar Íslands.

51      Dómurinn mun því svara spurningunum eins og þær voru orðaðar í beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. nóvember 2013.

IV        Svör dómsins

Gildissvið tilskipunar ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán

52  Til þess að unnt sé að veita landsdómstólnum gagnlegt svar tekur dómstóllinn mið af öllum atriðum sem landsdómstóllinn leggur fram í beiðni um ráðgefandi álit. Er þá einkum litið til rökstuðningsins að baki ákvörðuninni um að leita ráðgefandi álits svo og þeirra þátta EES-réttar sem nauðsynlegt er að túlka að teknu tilliti til sakarefnisins. Í því sambandi kann dómstóllinn að takmarka umfjöllun sína og túlkun við þau ákvæði EES-réttar sem nýtast landsdómstólnum sem hefur það verkefni að túlka ákvæði landsréttar og taka afstöðu til hvernig þau samræmast EES-rétti (sjá áður tilvitnað mál Yngva Harðarsonar, 39. mgr., og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til).

53  Af skriflegum greinargerðum í máli þessu virðist mega ráða að íslenski löggjafinn hafi mælt fyrir um að ákvæði tilskipunar ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, eins og þau voru tekin upp í lið 7h í XIX. viðauka við EES-samninginn, skyldu einnig ná til aðstæðna innanlands í þeim skilningi að með lögum nr. 179/2000 sem breyttu lögum nr. 121/1994 var tilskipun 87/102/EBE einnig beitt um veðlán.

54  Það er í samræmi við dómvenju að þegar reglur landsréttar sem einungis eiga við aðstæður innanlands byggjast á sömu eða svipuðum lausnum og EES-réttur, í þeim tilgangi að forðast röskun á samkeppni, er það EES-samstarfinu í hag að komið sé í veg fyrir ólíka túlkun í framtíðinni. Af þeim sökum verður að gæta samræmis við túlkun reglna eða hugtaka sem fengin eru úr EES-rétti óháð þeim aðstæðum sem þau eiga við um (sjá mál E-17/11 Aresbank S.A. gegn Landsbankanum hf., Fjármálaeftirlitinu og Íslandi [2012] EFTA Ct. Rep. 916, 45. mgr., og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til).

55  Hins vegar er óljóst í máli þessu, að teknu tilliti til efnis deilunnar, hvort tilskipun 87/102/EBE um neytendalán og/eða samband hennar við tilskipun 93/13/EBE þarfnist túlkunar og ef svo er að hvaða marki.

56  Þar af leiðandi mun dómstóllinn takmarka svör sín við greiningu ákvæða tilskipunar 93/13/EBE og mun ekki veita leiðsögn um túlkun tilskipunar 87/102/EBE. Það fellur í hlut landsdómstólsins sem leitar ráðgefandi álits að leggja mat á það hvort hann telji hið ráðgefandi álit veita nægilega leiðsögn eða hvort leita þurfi frekara álits hjá dómstólnum (sjá mál E-2/12 INT HOB-vín ehf. [2013] EFTA Ct. Rep. 816, 14. mgr.).

Gildissvið tilskipunar 93/13/EBE

57      Stefndi, Ísland og ESA hafa öll, bæði í skriflegum greinargerðum sínum og við munnlegan málflutning, látið í ljós efasemdir um það hvort samningsskilmálarnir sem deilt er um falli undir gildissvið tilskipunarinnar. Þau benda á að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. nái tilskipunin ekki til samningsskilmála sem endurspegla lög eða bindandi stjórnsýsluákvæði landsréttar.

58      Ekki er fjallað um þetta atriði í spurningunum sem beint var til dómstólsins. Það leiðir þó af því hlutverki dómstólsins að veita álit varðandi öll túlkunaratriði EES-réttar sem geta orðið landsdómstólnum að liði við að komast að niðurstöðu í máli þessu að leggja verður mat á það, í upphafi, hvort samningsskilmálar um verðtryggingu afborgana veðláns eins og þess sem fjallað er um í þessu máli skuli teljast ófrávíkjanlegir samkvæmt 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

Athugasemdir sem lagðar voru fyrir dómstólinn

59      Stefndi og ESA halda því fram að þegar landslög hafi að geyma reglur sem taki, beint eða óbeint, til skilmála neytendasamninga sé neytandi almennt ekki í verri samningsaðstöðu og þurfi því ekki á sömu vernd að halda þar sem búið sé að jafna aðstöðumuninn. Því komi fram í 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar að hún nái ekki til samningsskilmála sem endurspegla lög eða stjórnsýsluákvæði landsréttar.

60      Stefndi telur að verðtryggingin sem deilt er um í þessu máli byggist á reglum sem verði að teljast ófrávíkjanlegar. Ekki sé skylt að verðtryggja veðlán en það sé venjuhelguð og almenn leið til að takast á við hættu á verðbólgu. Ef samningsaðilar samþykkja að lán skuli verðtryggt verði verðtryggingin að vera í samræmi við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt reglum laga nr. 12/1995 skuli Hagstofa Íslands enn fremur annast útreikning á vísitölu neysluverðs sem verðtryggingin verði sömuleiðis að byggjast á. Þá telur stefndi að hin umdeildu verðtryggingarákvæði séu í samræmi við viðeigandi reglur laga nr. 38/2001 og nr. 12/1995.

61      Ríkisstjórn Íslands telur að orðalagið ,,lög og bindandi stjórnsýsluákvæði“ í 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar taki ekki einungis til ófrávíkjanlegra laga sem eiga við um samningsskilmála heldur einnig til skilmála sem samkvæmt lögum gilda í samskiptum samningsaðila nema samið hafi verið um aðra skipan.

62      ESA telur að samningsskilmálar sem endurspegla ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla sem eiga við um ákveðna flokka samninga séu undanskildir gildissviði tilskipunarinnar skv. 2. mgr. 1. gr. hennar og að sú sé raunin í máli þessu. ESA telur að nákvæm ákvæði landsréttar taki á flestu sem við kemur verðtryggingunni og útreikningi á vísitölu neysluverðs sem hún er tengd við. Þessar lagareglur teljist ekki bindandi í þeim skilningi að neytendum sé skylt að gangast undir verðtryggða lánssamninga. Ef einkaaðilar ákveða hins vegar að gera það séu skilmálar verðtryggingarinnar eins og kveðið er á um þá í landsrétti bindandi. Skilmálar skuldabréfa og greiðsluáætlana, eins og þeirra sem um ræðir í máli þessu, ráðist því að minnsta kosti óbeint af áðurnefndum ákvæðum.

63      Stefnandi heldur því hins vegar fram að tilskipunin eigi við um hinn umdeilda veðlánagerning. Það leiði hvorki af formálsorðum tilskipunarinnar né dómaframkvæmd að hann sé undanþeginn gildissviði hennar. Undanþágur 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar eigi ekki við um hina umdeildu verðtryggingarskilmála. Veðlánagerningurinn sem batt skyldur lántaka við vísitölu neysluverðs endurspegli ekki bindandi ákvæði laga eða stjórnsýslufyrirmæla í skilningi þeirrar greinar. Jafnvel þó að í fyrstu mætti ætla að undanþága 2. mgr. 1. gr. ætti við væri beiting hennar útilokuð þar sem upplýsa þurfi neytanda um ófrávíkjanleg ákvæði laga og stjórnsýslufyrirmæla og stefndi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að því er varðar lög nr. 12/1995.

64      Að mati framkvæmdastjórnarinnar leiðir það af 13. lið formálsorða tilskipunarinnar að 2. mgr. 1. gr. hennar sé ætlað að ná til samningsskilmála sem stjórnast af ákvæðum landsréttar eða varaskilmála sem gilda þegar aðilarnir hafa ekki samið sérstaklega um annað. Rökin að baki 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar séu þau að með réttu megi gera ráð fyrir því að löggjafi aðildarríkis hafi þegar leitað jafnvægis milli allra réttinda og skyldna aðila í ákveðnum tegundum af samningum.

65      Framkvæmdastjórnin telur jafnframt að verðtryggingin falli undir ákvæði íslenskra laga nr. 38/2001. 14. gr. þeirra laga heimili verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar. Þannig hafi löggjafinn með skýrum hætti vegið hagsmuni aðila lánssamninga og gefið kost á verðtryggingu með ákveðnum skýrt afmörkuðum skilyrðum. Notkun verðtryggingarákvæðis virðist þó einungis vera valkostur. Slík ákvæði séu heimil samkvæmt landsrétti en ekki skyld og gildi ekki sjálfkrafa þegar ekki hefur verið samið sérstaklega um þau. Þar af leiðandi geti þau ekki talist endurspegla bindandi lög í skilningi 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Almenn sjónarmið um að túlka beri ákvæði EES-réttar sem miða að neytendavernd þröngt styðji þá niðurstöðu.

Álit dómstólsins

66      Það fellur undir lögsögu dómstólsins að túlka tilskipunina, viðauka hennar og þau viðmið sem landsdómstólnum ber að taka mið af við athugun á því hvort samningsskilmálar séu óréttmætir samkvæmt tilskipuninni.

67      Það álitaefni hvort samningsskilmálar um verðtryggingu eins og þeir sem um ræðir í máli þessu endurspegli lög eða bindandi stjórnsýsluákvæði og séu þar af leiðandi undanþegnir gildissviði tilskipunarinnar samkvæmt 2. mgr. 1. gr. er því á forræði landsdómstólsins (sjá til samanburðar mál C-488/11 Asbeek Brusse and de Man Garabito, dómur frá 30. maí 2013, birtur með rafrænum hætti, 33. mgr.). EFTA-dómstóllinn verður að takmarka sig við að veita leiðsögn sem landsdómstóllinn verður að taka mið af við mat á því hvort aðstæður eins og þær sem eru uppi í þessu máli falli undir 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

68      Samkvæmt 13. lið formálsorða tilskipunarinnar tekur undanþágan í 2. mgr. 1. gr. til skilmála sem endurspegla ákvæði landslaga sem samningsaðilar hafa ekki val um að gildi þeirra á milli eða sem gilda sjálfkrafa þegar ekki er um annað samið.

69      Undanþágan nær ekki aðeins til samningsskilmála sem endurspegla þau ákvæði landslaga sem gilda um ákveðinn flokk samninga heldur einnig til annarra samninga sem sú löggjöf nær til samkvæmt ákvæðum landslaga (sjá til samanburðar mál C-92/11 RWE Vertrieb, dómur frá 21. mars 2013, birtur með rafrænum hætti, 26. og 27. mgr.).

70      Þessi undanþága byggir á þeirri réttmætu ályktun að löggjafi aðildarríkis hafi í grundvallaratriðum komið í veg fyrir óréttmæta skilmála í neytendasamningum þar sem hinar bindandi reglur leiti jafnvægis á milli réttinda og skyldna samningsaðila. Frá sjónarhóli neytandans er það því sérstaklega mikilvægt að EES-ríki tryggi í reynd slíkt jafnvægi. Meta verður hvort svo sé í hverju tilviki fyrir sig ef vald er framselt.

71      Í þessu máli var samið um að veðlánið skyldi bundið vísitölu neysluverðs með vaxtaendurskoðunarákvæði bundnu tilteknum skilyrðum, eins og nánar getur í 33. til 35. mgr. hér að framan.

72      Dómstóllinn bendir á að íslensk löggjöf heimili bindingu tiltekinna lána við vísitölu neysluverðs. Hagstofa Íslands hefur útreikning vísitölunnar með höndum. Hagstofa Íslands er óháður fagaðili sem heyrir undir forsætisráðherra Íslands. Vísitalan er háð ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði og útreikningur hinnar undirliggjandi grunnvísitölu eru útlistuð í lögum nr. 38/2001, lögum nr. 12/1995 og reglum Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Reglur Seðlabankans eru háðar samþykki fjármála- og efnahagsráðherra samkvæmt 15. gr. laga nr. 38/2001.

73      Verðtryggingin virðist þó ekki vera ófrávíkjanleg, í þeim skilningi að skylt sé að verðtryggja fasteignalán. Engu að síður er ljóst af málsgögnum að verðtrygging er útbreidd á Íslandi. Enn fremur er verðtrygging ekki regla sem á sjálfkrafa við í þeim tilvikum þar sem samningsaðilar hafa ekki sérstaklega samið um annað fyrirkomulag.

74      Að sama skapi virðast samningsaðilar að verulegu leyti bundnir af því kerfi sem mælt er fyrir um í lögum og reglugerðum landsréttar ef þeir sammælast um að verðtryggja lán í samræmi við einn þeirra möguleika sem í boði eru samkvæmt íslenskum lögum. Sú virðist vera raunin ef aðilar ákveða að binda lán við vísitölu neysluverðs eins og lýst er í 33. til 35. mgr.

75      Að því marki sem hinir umdeildu samningsskilmálar endurspegla reglur íslensks réttar um verðtryggingu lána á grundvelli vísitölu neysluverðs standa ekki efnisleg rök til að gera greinarmun á skilmálum sem samkvæmt landsrétti verða að fylgja ákveðnum tegundum samninga, eins og til dæmis veðlánum, og skilmálum sem eru lögbundnir að efni til en samningsaðilar hafa val um hvort þeir leggi til grundvallar í lögskiptum sínum. Í hvorugu tilvikinu hefur ójöfn samningsstaða áhrif á efni skilmálans neytanda í óhag. Að því marki sem samningsaðilar verða að taka mið af samningsskilmálum sem endurspegla lagakerfi og regluverk landsréttar er það enn fremur svo að þær reglur gilda jafnt um lánveitendur og neytendur.

76      Undanþága samningsskilmála sem endurspegla lög og bindandi stjórnsýsluákvæði tekur því einnig til samningsskilmála sem aðilar eiga val um hvort þeir taki upp í samning en geta að öðru leyti ekki samið sérstaklega um efni þeirra verði þeir fyrir valinu. Sú réttmæta ályktun að komið hafi verið í veg fyrir óréttmæta samningsskilmála nær því jafnt til slíkra tilvika og tilvika þar sem samningsaðilar hafa ekkert val eða hafa ekki komið sér saman um annað fyrirkomulag. 

77      Það leiðir því af 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar og forsendum að baki kerfi neytendaverndarinnar sem tilskipunin kom á að einnig skal telja slíka samningsskilmála endurspegla lög og bindandi stjórnsýsluákvæði og því undanþegna gildissviði tilskipunarinnar. Almennar hugleiðingar um að undanþágur frá reglum EES-réttar um neytendavernd verði að túlka með þröngum hætti geta ekki breytt þeirri niðurstöðu.

78      Þar sem undanþága 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar á einungis við að því leyti sem samningsskilmálar endurspegla lög og bindandi stjórnsýsluákvæði verður að meta hvort og að hvaða marki reglur landsréttar séu tæmandi og seljandi eða veitandi hafi þar af leiðandi ekki rétt til þess að kveða einhliða á um tiltekin atriði í almennum skilmálum við samningsgerðina. Á hinn bóginn ber ekki að telja ákvæði landsréttar sem heimila samningsaðilum að semja um tiltekin atriði bindandi. Enn fremur getur lánveitanda verið skylt að láta neytanda í té tilteknar upplýsingar um þá samningsskilmála sem teljast bindandi (sjá til samanburðar C‑472/10 Invitel, dómur frá 26. apríl 2012, birtur með rafrænum hætti, 29. mgr.). Um þetta atriði er nánar fjallað í 143. mgr. þessa dóms.

79      Það er í verkahring landsdómstólsins að taka afstöðu til hvort samningsskilmálar um verðtryggingu afborgana veðláns, eins og þeir sem um ræðir í máli þessu, skuli teljast endurspegla lög eða bindandi stjórnsýsluákvæði samkvæmt 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

Efni fyrstu spurningarinnar

Athugasemdir sem lagðar voru fyrir dómstólinn

80      Að því er efni fyrstu spurningarinnar varðar bendir stefnandi á að það samrýmist ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE að löggjöf í ríki sem aðild á að EES-samningnum heimili að samningur neytanda og veitanda um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrirfram ákveðinni vísitölu að því gættu að ástæður verðbreytinga eða aðferðin sem beitt er sé útskýrð skilmerkilega og rækilega í skuldabréfinu. Hins vegar telur stefnandi að upplýsingarnar sem veittar voru í þessu máli hafi ekki gert honum, sem neytanda, kleift að lesa út úr skilmálum samningsins umfang þeirrar skuldbindingar sem hann tekst á hendur fyrir eða við samningsgerðina. Engar leiðbeiningar sé að finna um hvaða áhrif verðtryggingin geti haft á greiðsluskylduna á samningstímanum. Til að svo mætti vera hefði þurft að taka fram öll atriði sem þýðingu hafa með skýrum og ótvíræðum hætti í samningnum.

81      Eigi tilskipunin við um mál þetta bendir stefndi á að í viðauka hennar sé að finna lista yfir þá skilmála sem geti talist óréttmætir. Sá listi sé þó ekki tæmandi og hafi ekki talist bindandi. Eins og lesa megi úr l-lið 1. mgr. viðaukans geti verðtrygging í sjálfu sér ekki talist óréttmæt. Jafnframt geti tilvitnaður liður ekki tekið til verðtryggingarinnar sem hér um ræðir þar sem hún sé ekki háð geðþóttaákvörðunum. Það leiði enn fremur af c- og d-lið 2. mgr. viðaukans við tilskipunina að notkun verðtryggingarákvæða teljist réttmæt að því gefnu að þau samrýmist lögum og að aðferðin við útreikning verðbreytinga sé rækilega útskýrð í samningi.

82      ESA heldur því fram, á sömu forsendum og stefndi, að í tilskipuninni sé ekki að finna almennt bann við því að fjármálafyrirtæki notist við verðtryggingarákvæði í veðlánum til neytenda. Þvert á móti komi skýrlega fram í d-lið 2. mgr. viðauka tilskipunarinnar að verðtryggingarákvæði teljist ekki óréttmætir skilmálar í sjálfu sér ef vísitölubindingin er „lögleg“ og „aðferðin við útreikning verðbreytinga er útskýrð rækilega í samningi.“ Áherslan sé því á skýrleika og gæði þeirra upplýsinga sem seljandi eða veitandi lét neytandanum í té um verðtrygginguna við samningsgerðina.

83      ESA telur bæði skilyrði d-liðar 2. mgr. viðauka tilskipunarinnar uppfyllt. Í fyrsta lagi sé skýr heimild fyrir því í VI. kafla laga nr. 38/2001 og reglum nr. 492/2001 að lán séu verðtryggð að því gefnu að vísitölubindingin stjórnist af hinni opinberu vísitölu neysluverðs. Í öðru lagi megi ráða af þeim upplýsingum sem landsdómstóllinn hafi veitt að verðtryggingin hafi verið rækilega útskýrð í samningnum. Skuldabréfið og greiðsluáætlunin sem því fylgdi innihaldi ákvæði sem útskýri sérstaklega að höfuðstóll skuldarinnar skuli breytast á hverjum gjalddaga, í samræmi við vísitölu neysluverðs, áður en vextir og afborgun séu reiknuð út.

84      Framkvæmdastjórnin telur að 3. og 4. gr. tilskipunarinnar mæli fyrir um meginreglur við mat á því hvort tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur en útiloki ekki notkun verðtryggingarákvæðis. 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar lesin með hliðsjón af viðauka hennar sýni þetta enn frekar. Það staðfesti ekki aðeins að listi skilmálanna í 1. mgr. viðaukans sé eingöngu leiðbeinandi heldur veiti l-liður 1. mgr., lesinn með hliðsjón af d-lið 2. mgr., einnig skýra staðfestingu á því að heimila megi verðtryggingarákvæði með því eina skilyrði að slíkur skilmáli innihaldi rækilega útskýringu á aðferðinni sem beitt er við útreikning verðbreytinga.

Álit dómstólsins

85      Til að þess að svör dómstólsins komi að sem mestu gagni og að teknu tilliti til þess möguleika að landsdómstóllinn telji að tilskipunin kunni að eiga við um samningsskilmála sem binda veðlán við vísitölu neysluverðs, samanber umfjöllun í 71. til 79. mgr. hér að framan, mun dómstóllinn einnig taka afstöðu til þeirra álitaefna sem tengjast næstu spurningum landsdómstólsins. 

86  Með fyrstu spurningunni leitar landsdómstóllinn í aðalatriðum svars við því hvort tilskipunin leggi almennt bann við notkun samningsskilmála um verðtryggingu veðlána í samningum lánveitenda og neytenda.

87  Meginreglur um mat á því hvort tiltekinn samningsskilmáli teljist óréttmætur er að finna í 3., 4. og 5. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt tilskipuninni telst samningsskilmáli óréttmætur ef ekki hefur verið samið sérstaklega um hann og skilmálinn veldur þrátt fyrir skilyrðið um ,,góða trú“, umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns.  

88  3. gr. tilskipunarinnar hefur aðeins að geyma almenn atriði um þá þætti sem geta gert það að verkum að samningsskilmáli teljist óréttmætur í ljósi hugtakanna um „góða trú“ og „umtalsvert ójafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila“ (sjá til samanburðar, mál C-478/99 Framkvæmdastjórnin gegn Svíþjóð [2002] ECR I-4147, 17. mgr.).

89  Í viðaukanum sem vísað er til í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar er listi, leiðbeinandi en ekki tæmandi, yfir skilmála sem teljast óréttmætir. Skilmáli á listanum telst ekki endilega óréttmætur og skilmáli sem ekki er að finna á listanum getur engu að síður talist óréttmætur (sjá til samanburðar mál C-243/08 Pannon GSM [2009] ECR I-4713, 37. og 38. mgr.). Ef efni viðaukans nægir ekki eitt og sér til að slá því föstu að umdeildur samningsskilmáli teljist óréttmætur, er það engu að síður grundvallarþáttur sem þar til bær dómstóll getur byggt mat sitt um óréttmæti skilmálans á.

90  5. gr. tilskipunarinnar leggur jafnframt þá skyldu á seljanda eða veitanda að orða skilmála á eðlilegu og skiljanlegu máli. Í 20. lið formálsorða tilskipunarinnar er tekið fram að neytandi verði að fá tækifæri til þess að skoða alla skilmála samningsins.

91  Það fellur undir lögsögu dómstólsins að túlka hugtakið ,,óréttmætur samningsskilmáli“ eins og það er notað í 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar og viðauka hennar til að skýra þær forsendur sem landsdómstólnum ber að beita þegar hann leggur mat á samningsskilmála með hliðsjón af tilskipuninni. Það er hins vegar landsdómstólsins að ákveða, að teknu tilliti til þeirra forsendna, hvort tiltekinn samningsskilmáli teljist í raun óréttmætur í ljósi atvika málsins.

92  Hvað varðar þá spurningu hvort tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur eða ekki segir í 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar að því skuli svarað að teknu tilliti til þess um hvers konar vörur eða þjónustu samningurinn var gerður og með hliðsjón af öllum aðstæðum sem tengjast gerð samningsins. Í þessu máli verður landsdómstóllinn einnig að taka tillit til þess að vextir af verðtryggðu láni eru alla jafna lægri en þeir væru ef um óverðtryggt lán væri að ræða.

93  Einnig verður að gæta afleiðinga skilmálans samkvæmt þeim lögum sem eiga við um samninginn. Það þarf því að gæta að viðeigandi ákvæðum landsréttar (sjá til samanburðar mál C-226/12 Constructora Principado, dómur frá 16. janúar 2014, birtur með rafrænum hætti, 24. mgr.) sem felur í sér samanburð á lagalegri stöðu neytandans samkvæmt samningnum annars vegar og reglum landsréttar hins vegar. Til þess að svo megi verða er einnig nauðsynlegt að meta lagalega stöðu neytandans með hliðsjón af þeim úrræðum sem hann hefur að landsrétti til að koma í veg fyrir áframhaldandi beitingu óréttmætra skilmála (sjá til samanburðar mál C‑415/11 Aziz, dómur frá 14. mars 2013, birtur með rafrænum hætti, 68. mgr.).

94  Við aðstæður þegar slíkt ójafnvægi myndast, þrátt fyrir skilyrðið um ,,góða trú“, verður landsdómstóllinn að meta hvort seljandi eða veitandi sem kemur fram við neytanda af sanngirni og réttlæti geti réttilega talið að neytandinn hefði fallist á slíkan samningsskilmála ef um hann hefði verið samið sérstaklega.

95  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar skal mat á óréttmæti skilmálanna þó hvorki tengjast skilgreiningu á aðalefni samningsins né samanburði á verði og endurgjaldi, annars vegar, og þeirri þjónustu eða vöru sem kemur í staðinn, hins vegar, ef skilmálarnir eru á skýru og skiljanlegu máli. 

96  Sú undanþága á þó ekki við í þessu máli þar sem 4. gr. tilskipunarinnar gerir ekki ráð fyrir skilmála sem felur í sér aðferð til að breyta verðlagi þeirrar þjónustu sem neytandanum er veitt (sjá til samanburðar, áður tilvitnað mál Invitel, 29. mgr.).

97  Af ofangreindum athugasemdum má sjá að tilskipunin leggur ekki skilyrðislaust bann við verðtryggingarákvæðum í samningum um veðlán eins og þeim sem hér um ræðir, þar sem 3. og 4. gr. tilskipunarinnar mæla einungis fyrir um meginreglur við mat á því hvort tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur og í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, með hliðsjón af d-lið 2. mgr. viðauka hennar, segir berum orðum að verðtryggingarákvæði teljist ekki óréttmætir skilmálar, í sjálfu sér, ef vísitölubindingin er „lögleg“ og „aðferðin við útreikning verðbreytinga er útskýrð rækilega í samningi.“

98      Það leiðir að sama skapi af viðeigandi ákvæðum viðaukans auk 3. mgr. 3. gr. og 5. gr. tilskipunarinnar að skýrleiki og gæði upplýsinganna um verðtrygginguna sem seljandi eða veitandi veitti neytandanum á undirritunartíma samningsins hefur sérstaka þýðingu við matið (sjá til samanburðar um það atriði, álit Wahls aðallögsögumanns frá 8. maí 2014 í sameinuðum málum C-359/11 og C-400/11 Schulz and Egbringhoff, birt rafrænt, 53. liður). Það er landsdómstólsins að meta hvort skilyrðin um skýrleika og gæði upplýsinga séu uppfyllt.

99  Fyrstu spurningunni verður því að svara þannig að tilskipun 93/13/EBE leggur ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda. Það er landsdómstólsins að leggja mat á það hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur. Matið verður að taka mið af leiðbeiningum dómstólsins um skýringu hugtaksins ,,óréttmætur skilmáli“.

Önnur spurningin

100    Inntak annarrar spurningar landsdómstólsins er í aðalatriðum hvort, ef gert er ráð fyrir að tilskipunin leggi ekki almennt bann við verðtryggingu veðlána, tilskipunin takmarki svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar.

Athugasemdir sem lagðar voru fyrir dómstólinn

101    Stefnandi telur tilskipunina ekki takmarka svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á hinni fyrirfram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar. Þau skilyrði þurfi að vera uppfyllt að meðalneytandi sé fær um að skilja þá þætti, séu þeir rækilega útskýrðir í samningi, og að þeir stuðli að því að hann geti gert sér grein fyrir skuldbindingum sínum með allnokkurri vissu.

102    Stefndi heldur því fram að það leiði af 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar að henni sé einvörðungu ætlað að setja reglur um óréttmæta skilmála í samningum. Hún hafi ekki áhrif á vald EES-ríkis til að setja reglur um verðtryggingu lána sérstaklega sé slík verðtrygging órjúfanlegur þáttur hagkerfis landsins, það er til að tryggja og varðveita kaupmátt sparifjáreigenda.

103    Ríkisstjórn Íslands telur að tilskipunin takmarki ekki svigrúm EES-ríkja til að ákveða í landsrétti hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við vísitölu neysluverðs, eða eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar þar sem skilmálarnir sem um ræðir í máli þessu falli ekki innan gildissviðs tilskipunarinnar. Enn fremur varði þau ákvæði landsréttar sem lúta að vísitölunni og vísað er til í spurningu Héraðsdóms Reykjavíkur ekki samningsskilmálana í sjálfu sér. Falli ákvæðin því hvorki undir tilskipunina né takmarkist af henni.

104    Í öðru lagi telur ríkisstjórn Íslands, þrátt fyrir ofangreint, að þar sem landsréttur EES-ríkis muni þjóna sem viðmið landsdómstólsins við mat á því hvort samningsskilmálarnir teljist réttmætir geti breytingar á vísitölunni vegna þeirra þátta og aðferða sem kveðið er á um í ákvæðum landsréttar ekki einar og sér stutt þá niðurstöðu að samningsskilmálarnir sem vísa til vísitölunnar séu óréttmætir. Tilskipunin geti ekki takmarkað ákvæði landsréttar í framkvæmd. Jafnvel þótt svo væri að tilskipunin gæti takmarkað þetta svigrúm, getur ríkisstjórnin ekki séð hvernig slíkt geti haft áhrif á það hvernig Hagstofa Íslands reiknar út vísitölu neysluverðs en hún er óháður aðili sem reiknar vísitöluna út í samræmi við evrópska staðla.

105    Eigi tilskipunin við heldur ESA því fram að samkvæmt d-lið 2. mgr. viðauka hennar sé þess einungis krafist að aðferðin við útreikning verðbreytinga sé útskýrð rækilega í samningnum, að því gefnu að verðtryggingarákvæði séu lögleg samkvæmt reglum landsréttar. Engar reglur séu fyrir hendi þar sem tekið er fram hvaða þáttum megi eða megi ekki taka mið af við útreikning breytinga á fyrirfram ákveðinni vísitölu.

106    Að mati ESA er tilskipuninni ekki ætlað að takmarka vald stjórnvalda aðildarríkis til að setja reglur um samningsskilmála. Stjórnvöldum ríkisins sé því frjálst að setja reglur um það hvaða þættir geti valdið breytingum á hinni fyrirfram ákveðnu vísitölu og hvaða aðferðir skuli notaðar til að mæla þær breytingar. Sú staðreynd að bindandi lög og stjórnsýsluákvæði séu í 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar sérstaklega undanskilin gildissviði hennar renni stoðum undir þá niðurstöðu að tilskipuninni sé ekki ætlað að taka til valds stjórnvalda aðildarríkis til að setja reglur um skilmála í neytendasamningum.

107    Að mati framkvæmdastjórnarinnar ætti að svara spurningunni neitandi þar sem ekkert komi fram í tilskipuninni um það efni. Framkvæmdastjórnin bendir sérstaklega á að í d-lið 2. mgr. viðauka hennar sé ekki kveðið á um nein sérstök skilyrði eða forsendur fyrir þeim þáttum sem taka beri mið af eða aðferð við útreikning.

Álit dómstólsins

108    Í upphafi bendir dómstóllinn á að svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á hinni fyrirfram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar, sé ekki takmarkað.

109    Á grundvelli tilskipunarinnar er aðeins hægt að leggja mat á samningsskilmála sem heimilar verðtryggingu veðláns. Ef skilmálinn telst ekki endurspegla bindandi ákvæði samkvæmt 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar verður hann að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar til þess að teljast ekki óréttmætur, sérstaklega skilyrði d-liðar 2. mgr. viðaukans, þar sem segir að aðferðinni við útreikning verðbreytinga verði að lýsa með skýrum hætti í samningi að því gefnu að verðtryggingarákvæði séu lögleg fyrir umrædda tegund samninga samkvæmt landsrétti.

110    Þar af leiðandi verður að svara annarri spurningunni með þeim hætti að tilskipunin takmarki ekki svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við hina íslensku vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar, að því gefnu að þeim sé lýst með skýrum hætti í samningnum.

Þriðja spurningin

111    Inntak þriðju spurningar landsdómstólsins er í aðalatriðum hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar

(a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast,

(b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og

(c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið.

Athugasemdir sem lagðar voru fyrir dómstólinn

112    Stefndi ítrekar þá skoðun sína að verðtryggingarákvæðið sem um ræðir falli utan gildissviðs tilskipunarinnar. Lögsaga EFTA-dómstólsins nái til spurninga sem varða EES-samninginn, bókanir hans og viðauka.

113    Stefndi heldur því fram að upplýsingar þær sem stefnandi fékk við útgáfu skuldabréfsins hafi bæði verið í samræmi við 6. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994. Stefndi telur þar að auki að sérstaklega hafi verið samið um verðtryggingarákvæðið þar sem stefnanda buðust aðrir kostir og hefði til dæmis getað samið um óverðtryggt lán. 

114    Íslenska ríkið telur að samningsskilmáli sem endurspegli ákvæði landsréttar, sem við eigi um slíka samninga falli utan gildissviðs tilskipunarinnar. Hins vegar muni samningsskilmálar sem ekki endurspegla ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 teljast ógildir að landsrétti nema þeir séu lántaka til hagsbóta. Samkvæmt því endurspegli verðtryggingarákvæði annað hvort ákvæði íslenskra laga og falli utan gildissviðs tilskipunarinnar eða endurspegli ekki íslensk lög og séu því ekki gild að íslenskum rétti. Á þeim forsendum, telur ríkisstjórn Íslands að spurningin sé fræðilegs eðlis og því ekki dómtæk þar sem svarið við henni geti, í ljósi svara við fyrri spurningunum, ekki haft nein áhrif á mat landsdómstólsins sem málið er rekið fyrir.

115    Að þessu virtu og að því gefnu að spurningunni sé ekki vísað frá dómi telur ríkisstjórn Íslands að það sé hlutverk landsdómstólsins að meta hvort samið hafi verið sérstaklega um verðtryggingarákvæðið í samræmi við 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

116    ESA heldur því einnig fram að það sé landsdómstólsins að meta hvort samið hafi verið sérstaklega um samningsskilmálana sem um ræðir í skilningi 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Dómstóllinn geti veitt leiðbeiningar um það hvenær telja megi að sérstaklega hafi verið samið um samningsskilmála.

117    Ef gengið er út frá því að tilskipunin eigi við telur ESA óljóst að það hafi nokkra þýðingu við úrlausn málsins sem rekið er fyrir landsdómstólnum hvort sérstaklega hafi verið samið um skilmálana. ESA vísar til eigin skýrslu, frá árinu 2001, um beitingu tilskipunar 93/13/EBE. Í skýrslunni komi fram að Ísland hafi opnað fyrir þann möguleika að mat verði lagt á óréttmæti allra skilmála neytendasamninga á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, einnig þeirra sem sérstaklega hafi verið samið um. Slík aukin vernd sé sérstaklega heimiluð í 8. gr. tilskipunarinnar. Í öllu falli telur ESA enga vísbendingu að finna um það í beiðni landsdómstólsins að samið hafi verið sérstaklega um skilmálana.

118    Hvað varðar skilyrði (a) telur ESA að hvorugur samningsaðilinn hafi getað samið sérstaklega um grunnvísitöluna eða útreikning á henni þar sem þau atriði séu lögbundin. Hvað varðar skilyrði (b) segir ESA að sú staðreynd að greiðsluáætlun hafi fylgt skuldabréfinu sem sundurliðaði áætlaðar greiðslur á gjalddögum lánsins breyti ekki niðurstöðu mats hennar á því atriði. Sérstaklega sé tekið fram í greiðsluáætluninni að hún sé aðeins áætlun sem geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins. Enn fremur séu upplýsingarnar sem veittar hafi verið í samræmi við viðeigandi ákvæði landslaga, það eru ákvæði laga nr. 38/2001 og reglna nr. 492/2001. Hvað varðar skilyrði (c) tekur ESA fram að sú staðreynd að báðir aðilar hafi undirritað greiðsluáætlunina breyti ekki mati hennar. Efni greiðsluáætlunarinnar sé ekki umsemjanlegt þar sem hún byggi á spá um væntanlegar afborganir samkvæmt skuldabréfinu sem ræðst af mánaðarlegum útreikningi vísitölu neysluverðs.

119    Framkvæmdastjórnin telur að það sé landsdómstólsins að meta hvort telja beri að samið hafi verið sérstaklega um verðtryggingarákvæðið, að teknu tilliti til allra aðstæðna. Við slíkt mat verði að taka sérstakt tillit til 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Við fyrstu sýn virðist að þær upplýsingar sem fylgi beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur bendi til þess að verðtryggingarákvæði hafi bæði verið staðlaður skilmáli hjá bankanum og hluti af stöðluðu skjali. Framkvæmdastjórnin telur jafnframt að ef bankinn haldi því engu að síður fram að samið hafi verið sérstaklega um samningsákvæðið beri hann sönnunarbyrði fyrir því að svo sé í samræmi við þriðja undirlið 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

Álit dómstólsins

120    Af gögnum málsins virðist mega ráða að aðilar samnings geti samkvæmt 4. gr. reglna Seðlabankans nr. 492/2001 komið sér saman um grunnvísitölu. Engu að síður er óljóst við skoðun gagnanna hvort banki geti ákveðið einhliða hvaða grunnvísitala lántaka, í skilningi tilskipunarinnar, býðst og, ef svo er, hvort sú hafi verið raunin í málinu sem rekið er fyrir landsdómstólnum. 

121    Hvað þetta atriði varðar minnir dómstóllinn á að það er í verkahring landsdómstólsins að taka afstöðu til þess, að virtum öllum atvikum málsins, hvort sérstaklega hafi verið samið um þá samningsskilmála sem tekist er á um í málinu sem hann hefur til meðferðar (sjá til samanburðar, áður tilvitnað mál Constructora Principado, 19. mgr.). Dómstóllinn verður að takmarka álit sitt við að leiðbeina landsdómstólnum um það atriði hvenær líta beri svo á að samið hafi verið sérstaklega um samningsskilmála.

122    Í 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að við slíkt mat teljist ekki hafa verið samið sérstaklega um samningsskilmála ef hann hefur verið saminn fyrirfram og neytandi hefur ekki haft tækifæri til að hafa áhrif á efni hans, einkum þegar um er að ræða fastorðaða staðalsamninga. Þótt samið hafi verið sérstaklega um einstök atriði samningsskilmála eða efni tiltekins samningsskilmála gildir tilskipunin áfram um önnur atriði samnings ef heildarmat á honum sýnir að hann er þrátt fyrir það fastorðaður staðalsamningur. Loks segir í þriðja undirlið 2. mgr. 3. gr. að ef seljandi eða veitandi heldur því fram að samið hafi verið sérstaklega um staðalskilmála beri hann sönnunarbyrðina fyrir því.

123    Það leiðir af 8. gr. tilskipunarinnar að hún kveður á um lágmarkssamræmingu. Það er því í verkahring landsdómstólsins að taka afstöðu til hvort sú íslenska löggjöf sem við á veiti ríkari vernd. Sérstaklega verður landsdómstóllinn að meta hvort sú vernd gegn óréttmætum skilmálum í neytendasamningum sem mælt er fyrir um í 36. gr. til 36 gr. d, laga nr. 7/1936 feli í sér ríkari vernd með þessum hætti og hvort hún nái einnig til skilmála sem samið hefur verið sérstaklega um.

124    Hvað spurninguna sjálfa varðar verður í fyrsta lagi að hafa í huga að það eitt að tekið sé fram í skuldabréfinu að skuldbindingin sé verðtryggð og tilgreint sé við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast þýðir ekki að telja þurfi samningsskilmála sérstaklega umsaminn. Í öðru lagi verður með sama hætti að leggja mat á þýðingu þess að skuldabréfinu hafi fylgt yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins. Tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins. Í þriðja lagi getur það ekki breytt því mati sem verður að fara fram samkvæmt 2. mgr. 3. gr. að báðir aðilar hafi undirritað greiðsluyfirlitið. Nánar tiltekið er efni greiðsluáætlunarinnar ekki umsemjanlegt þar sem hún byggir á spá um væntanlegar afborganir samkvæmt skuldabréfinu sem ræðst af mánaðarlegum útreikningi vísitölu neysluverðs.

125    Þar af leiðandi er ekkert í beiðni landsdómstólsins sem bendir til þess að sérstaklega hafi verið samið um efni skuldabréfsins sem málið sem þar er rekið snýst um. Ef stefndi heldur öðru fram er það hans að færa sönnur á að svo sé samkvæmt 3. undirlið 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Af gögnum sem fylgja beiðninni virðist aftur á móti mega ráða að verðtryggingarákvæðið hafi hvort tveggja verið staðlaður skilmáli hjá bankanum og hluti af stöðluðu skjali.

126    Í ljósi þess sem rakið er hér að framan verður að svara þriðju spurningunni með þeim hætti að það sé landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort samið hafi verið sérstaklega um tiltekinn samningsskilmála í skilningi 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE.

Fjórða spurningin

127    Inntak fjórðu spurningar landsdómstólsins er í aðalatriðum hvort telja beri að aðferðinni við útreikning verðbreytinga í lánssamningi um fjármögnun fasteignakaupa hafi verið lýst rækilega fyrir neytanda í skilningi d. liðar 2. gr. viðauka tilskipunarinnar þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í þriðju spurningunni.

Athugasemdir sem lagðar voru fyrir dómstólinn

128    Stefnandi heldur því fram að verðtryggingin sé almennt lögleg þótt því fari fjarri að aðferðin við útreikning verðbreytinga, það er undirliggjandi forsendur útreiknings vísitölunnar, sé rækilega útskýrð. Í skuldabréfinu komi fram sú meginregla að lánið skuli tengt við vísitölu neysluverðs. Þar sé einnig útskýrt nokkuð ítarlega hvernig höfuðstóllinn breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Þessar upplýsingar geri stefnanda þó ekki kleift að lesa úr skilmálum samningsins umfang þeirrar skuldbindingar sem hann tekst á hendur fyrir eða við samningsgerðina. Engar leiðbeiningar sé að finna um hvaða áhrif verðtryggingin geti haft á greiðsluskylduna á samningstímanum. Til að svo mætti vera hefði þurft að taka fram öll atriði sem þýðingu hafa með skýrum og ótvíræðum hætti í samningnum.

129    Að því gefnu að tilskipunin eigi við um skuldabréfið telur stefndi að á útgáfudegi þess hafi reglur landsréttar gilt um hvaða upplýsingar um skilmála neytendalána yrði að láta neytendum í té meðal annars um verðtryggingarákvæði veðlána. Stefndi segist sannarlega hafa farið að þessum reglum það er að segja 6. og 12. gr. laga nr. 121/1994.

130    Að því gefnu að spurningunni verði ekki vísað frá dómi telur íslenska ríkisstjórnin að d-liður 2. mgr. viðauka tilskipunarinnar, sem ætlað sé að afmarka gildissvið l-liðar 1. mgr. viðaukans, hafi ekki áhrif á málið sem rekið er fyrir landsdómstólnum. Verðtrygging höfuðstóls láns teljist ekki breyting á verði vöru eða þjónustu á samningstímabilinu. Henni sé fremur ætlað að tryggja að höfuðstóll lánsins haldist stöðugur á uppgreiðslutíma þess og lækki ekki vegna verðbólgu á því tímabili. Þar að auki heimili íslensk löggjöf verðtryggingu lána eingöngu í tengslum við hina opinberu vísitölu neysluverðs. Þar af leiðandi geti lánveitendur ekki einhliða breytt þeirri fjárhæð sem lántakar skulda.

131    Ef dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að d-liður 2. gr. viðaukans eigi við um verðtryggingarákvæðin sem um ræðir telur ríkisstjórn Íslands að líta megi á upplýsingarnar sem veittar hafa verið sem rækilega útskýringu á aðferðinni við útreikning verðbreytinga sérstaklega þar sem upplýsingar um vísitölu neysluverðs séu aðgengilegar öllum. Ríkisstjórnin bendir á að vísað hafi verið til grunnvísitölunnar á undirritunardegi lánsins og að láninu hafi fylgt greiðsluáætlun með lýsandi dæmi um áætlaðar afborganir sem byggðist á þeim forsendum sem gefnar voru. Ekki sé þó hægt að slá því almennt föstu hvort slíkt skjal með dæmum lýsi aðferðinni við útreikning verðbreytinga með skýrum hætti. Þar af leiðandi sé það landsdómstólsins að meta hvort svo sé með hliðsjón af hinu raunverulega skjali, öllum aðstæðum og vitneskju samningsaðila.

132    Í upphafi og ef talið verður að tilskipunin eigi við vill ESA taka fram að íslensk þýðing viðeigandi ákvæðis viðauka tilskipunarinnar sé frábrugðin enskri útgáfu textans. Í ensku þýðingunni er notað orðalagið: ,,explicitly described“ í stað hins íslenska: ,,útskýrð rækilega“. Þýðingar á öðrum málum eru: á frönsku: ,,explicitement décrit“; á þýsku: ,,ausdrücklich beschrieben“; á ítölsku: ,,siano esplicitamente descritte“; á spænsku: ,,se describa explícitamentre“; á dönsku: ,,udførligt beskrevet“; og á sænsku: ,,beskrivs tydligt“.

133    ESA telur að hugtakið beri að skýra í samræmi við fyrrnefndar þýðingar tilskipunarinnar. Með öðrum orðum að aðferðina við útreikning verðbreytinga verði að útskýra með skýrum hætti.

134    ESA telur jafnframt að það sé landsdómstólsins að meta hvort verðtryggingarákvæði hafi verið útskýrt með nægilega skýrum hætti í viðeigandi skjölum í skilningi d-liðar 2. mgr. viðauka tilskipunarinnar. Hafa verði hliðsjón af 5. gr. tilskipunarinnar þegar metið er hvort svo sé og jafnframt að meta beri réttmæti viðskiptavenju gagnvart hinum ,,almenna neytanda“ sem teljist ,,sæmilega vel upplýstur og sæmilega athugull og forsjáll“ að virtum félagslegum, menningarlegum og tungumálalegum þáttum.

135    ESA heldur því fram að aðstæðurnar sem lýst er í beiðninni um ráðgefandi álit gefi til kynna að aðferðin við útreikning verðbreytinga í samningum um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi verið útskýrð fyrir neytandanum með nægilega skýrum hætti. Sér í lagi virðist samningurinn endurspegla þá aðferð við útreikning sem vísað sé til með beinum hætti í VI. kafla laga nr. 38/2001 og reglum nr. 492/2001. Að öllu gættu uppfylli þær upplýsingar sem veittar voru um endurskoðun höfuðstóls lánsins og um útreikning afborgana samkvæmt verðbréfinu og greiðsluáætluninni sem því fylgdi skilyrði tilskipunarinnar.

136    Framkvæmdastjórnin heldur því fram að það hvort aðferðin við útreikning verðbreytinga hafi verið útskýrð rækilega, eins og krafa sé gerð um í d-lið 2. mgr. viðauka tilskipunarinnar, sé afgerandi þáttur þessa máls. Slíkt geri neytandanum kleift að taka upplýsta ákvörðun áður en hann undirritar samninginn. Meðal þátta sem líta verði til í því sambandi séu þau atriði sem vísað sé til í a- og b-hluta þriðju spurningarinnar ásamt tildrögum skilmálans í heild sinni. Einnig verði að horfa til allra annarra atvika sem skipt geti máli þar með talið hvort, og þá að hversu miklu leyti, skilmálinn sé í samræmi við ákvæði landsréttar um verðtryggingu.

137    Þá segir framkvæmdastjórnin að í þeim tilfellum þar sem vaxtagreiðslur af lánum eru verðtryggðar sé ljóst að greiðsluáætlun geti, eðli málsins samkvæmt, ekki sagt fyrir um nákvæmar afborganir í framtíðinni. Þó uppfylli skýr og afdráttarlaus yfirlýsing um að afborganirnar kunni að breytast í samræmi við tilgreinda vísitölu ásamt sérstakri tilvísun til þeirrar verðtryggingaraðferðar sem notast er við yfirleitt framangreind skilyrði um gagnsæi. 

Álit dómstólsins

138    Ef tilskipunin á við um mál þetta verður að athuga að íslensk þýðing hennar er efnislega frábrugðin öðrum útgáfum ákvæðisins meðal annarra hinni ensku, norsku, þýsku, frönsku, dönsku, sænsku, ítölsku og spænsku. Í þeim útgáfum er notast við orðalagið ,,rækilega lýst“ (e. explicitly described) en ekki ,,útskýrð rækilega“ (e. explicitly explained).

139    Ef ósamræmi er á milli ákvæða tilskipunar eftir því á hvaða tungumáli hún er ber að leggja til grundvallar að útgáfan á því tungumáli sem endurspeglar markmið og heildarsamhengi ákvæðisins við reglur tilskipunarinnar, svo og meginreglur EES-réttar, lýsi merkingu ákvæðisins að EES-rétti (sjá til samanburðar áður tilvitnað mál Irish Bank, 84. til 99. mgr.). Þar af leiðandi er þess krafist samkvæmt d-lið 2. mgr. viðauka tilskipunarinnar að aðferðinni við útreikning verðbreytinga sé ,,rækilega lýst“ en ekki að hún sé ,,rækilega útskýrð“.

140    Hvað spurningu landsdómstólsins varðar þá nær lögsaga EFTA-dómstólsins til túlkunar hugtaksins ,,óréttmætur samningsskilmáli“ eins og það er notað í 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar og viðauka hennar að því gættu að það er landsdómstólsins að meta, á grundvelli þeirra viðmiða, hvort tiltekinn samningsskilmáli sé í raun óréttmætur miðað við atvik málsins og hvort aðferðinni við útreikning verðbreytinga veðláns til fjármögnunar á fasteignakaupum hafi verið rækilega lýst.

141    Það er ákaflega mikilvægt að neytandi fái nægilegar upplýsingar um skilmála samnings og afleiðingar hans áður en hann samþykkir hann. Þetta á sérstaklega við í tilvikum þar sem aðilar koma sér saman um verðtryggingu sem leiðir sjálfkrafa til breytinga á höfuðstól skuldarinnar líkt og bindingu við vísitölu neysluverðs í þessu tilviki. Það er á grundvelli þeirra upplýsinga sem neytandi ákveður hvort hann vilji skuldbinda sig eða ekki samkvæmt skilmálum sem seljandinn eða veitandinn hefur samið fyrir fram.

142    Samkvæmt framansögðu hefur einnig grundvallarþýðingu að þessu leyti, í fyrsta lagi, hvort samningurinn lýsi framkvæmd verðtryggingar láns með gegnsæjum hætti svo að neytandi geti séð fyrir, á grundvelli skýrra og skiljanlegra forsendna, þær breytingar sem orðið geta á höfuðstól lánsins (sjá til samanburðar um það atriði áður tilvitnað mál Invitel, 24., 26. og 28. mgr.).

143    Það er ljóst að skyldunni til að vekja athygli neytandans á þeirri aðferð sem notuð er við útreikning á verðbreytingum afborgana er ekki fullnægt með því einu að vísa í samningnum til laga eða stjórnsýslufyrirmæla sem kveða á um réttindi og skyldur aðila. Það er lykilatriði að seljandi eða veitandi upplýsi neytanda um efni viðeigandi ákvæða (sjá til samanburðar um það atriði, áður tilvitnað mál Invitel, 29. mgr.).

144    Í þessu máli verður að meta hvort ,,aðferðinni við útreikning verðbreytinga“ hafi verið lýst í verðtryggingarákvæðinu með skýrum og skiljanlegum hætti í samræmi við d-lið 2. mgr. viðauka tilskipunarinnar. Slík lýsing verður að gefa neytandanum færi á að taka upplýsta ákvörðun áður en hann undirritar samninginn. Meðal viðeigandi þátta eru þau atriði sem vísað er til í a- og b-hluta þriðju spurningarinnar ásamt tildrögum skilmálans í heild sinni, og allar aðrar aðstæður sem skipt geta máli, eins og framkvæmdastjórnin hefur bent á.

145    Þegar afborganir láns eru verðtryggðar má, eðli málsins samkvæmt, finna spá um væntanlegar afborganir í greiðsluáætlun. Slík spá getur aðeins í undantekningartilvikum og fyrir tilviljun samsvarað hinum raunverulegu afborgunum sem krafist er. Þar af leiðandi verður samningurinn að innihalda skýra og afdráttarlausa yfirlýsingu um að afborganirnar kunni að breytast í samræmi við tilgreinda vísitölu ásamt sérstakri lýsingu á og tilvísun til þeirrar verðtryggingaraðferðar sem notast er við.

146    Því verður að svara fjórðu spurningunni með þeim hætti að það sé landsdómstólsins að meta hvort samningsskilmáli um verðtryggingu afborgana af láni til fjármögnunar á fasteignakaupum skuli teljast hafa verið lýst fyrir neytandanum með skýrum og skiljanlegum hætti. Slíkt mat verður að taka mið af nákvæmu orðalagi viðeigandi samningsskilmála og öllum öðrum aðstæðum, þar á meðal þeim sem vísað er til í a- og b-hluta þriðju spurningar landsdómstólsins, auk ákvæða landsréttar um verðtryggingu.

Fimmta spurningin

147    Til að geta veitt landsdómstólnum eins gagnlega túlkun á EES-rétti og frekast er unnt, er nauðsynlegt að líta á fimmtu spurninguna þannig að með henni sé spurt, í aðalatriðum, hvaða skyldur leiði af 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar í tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli teljist óréttmætur samkvæmt tilskipuninni.

Athugasemdir sem lagðar voru fyrir dómstólinn

148    Stefnandi heldur því fram að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar og dómaframkvæmd í tengslum við hana sé EES-ríkjum skylt að taka upp í landsrétt ákvæði um að óréttmætir samningsskilmálar í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar skuli ekki skuldbinda neytanda. EES-ríki geti ekki vikið frá skyldunni til að leysa neytanda frá skuldbindingu óréttmæts samningsskilmála.

149    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar telur stefnandi einnig að samningur sem inniheldur óréttmætt ákvæði skuli áfram skuldbinda samningsaðila ef mögulegt er að viðhalda samningnum án hins óréttmæta ákvæðis. Hann telur ljóst að það sé mögulegt í þessu máli. Samningurinn verði þá einfaldlega venjulegur, óverðtryggður samningur um veðlán til neytenda.

150    ESA telur að spurningin sé, í máli sem þessu, einungis fræðilegs eðlis þar sem ljóst sé af upplýsingum sem fylgt hafi beiðninni um ráðgefandi álit að íslenski löggjafinn hafi þegar valið aðferð við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Dómurinn sé þó bær til þess að endurorða spurninguna telji hann ráðlegt að leiðbeina landsdómstólnum um þær skyldur sem leiði af 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar í tilvikum þar sem dómstóll aðildarríkis kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur í skilningi tilskipunarinnar.

151    Hvað skyldu dómstóla aðildarríkjanna til að skýra ákvæði landsréttar til samræmis við EES-rétt varðar bendir ESA á að 3. gr. EES-samningsins mæli fyrir um að EES-ríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja beitingu og virkni EES-réttar. ESA telur enn fremur að það sé viðurkennd dómaframkvæmd að landsdómstóli sem hefur mál til meðferðar sem tilskipunin tekur til beri að meta sanngirni samningsskilmálanna að eigin frumkvæði.

152    Samkvæmt framansögðu telur ESA að í 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar sé gerð krafa um að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt tilskipuninni beri þeim dómstól að (i) kveða upp úrskurð í samræmi við það og (ii) sjá til þess að afleiðingarnar séu þær að tryggt sé að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann; og ákveða hvort samningurinn geti ,,haldið gildi sínu að öðru leyti án óréttmætu skilmálanna“ og (aðeins) ef svo er að ,,samningurinn verði áfram bindandi fyrir samningsaðila“.

153    Loks telur ESA að 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar kveði á um að viðeigandi tímapunktur til að skoða hvort tiltekinn skilmáli sé óréttmætur í skilningi tilskipunarinnar sé við undirritunartíma samningsins sem um ræðir. Með öðrum orðum geti skilmáli sem telst réttmætur á þeim tímapunkti ekki talist verða óréttmætur samkvæmt tilskipuninni síðar á gildistíma samningsins. Eins geti óréttmætur skilmáli heldur ekki talist réttmætur með tímanum eða vegna breytinga sem eiga sér stað eftir undirritun samningsins.

154    Í tengslum við þá spurningu hvort skylt sé að sjá til þess að óréttmætur samningsskilmáli teljist óskuldbindandi fyrir neytandann að landsrétti tekur framkvæmdastjórnin fram að í 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar sé skýrt kveðið á um að óréttmætir samningsskilmálar ,,séu ekki“ bindandi fyrir neytandann.

155    Stefndi og ríkisstjórn Íslands eru sammála um að samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar sé EES-ríkjum skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að óréttmætir skilmálar í samningi sem seljandi eða veitandi gerir við neytanda séu ekki bindandi fyrir neytandann. EES-ríki hafi þó val um form og aðferð við innleiðingu samkvæmt 7. gr. EES-samningsins í samræmi við meginregluna um forræði á réttarfari með þeim takmörkunum sem leiði af meginreglunum um jafnræði við málsmeðferð og um skilvirka framkvæmd EES-réttar. Það er því mat ríkisstjórnarinnar að nægilegt sé að ríki veiti dómstólum sínum vald til að ógilda óréttmæta samningsskilmála ef þeim er skylt að beita því valdi vegna skilmála sem þeir telja óréttmæta samkvæmt tilskipuninni.

156    Hvað stöðuna að íslenskum rétti varðar telur ríkisstjórn Íslands, með vísan til 36. gr. a og 36. gr. c laga nr. 7/1936, að 36. gr. sömu laga taki jafnt til samningsskilmála sem talist geti óréttmætir samkvæmt tilskipuninni og skilmála sem einvörðungu geti talist ógildir eða óréttmætir á grundvelli ákvæða landslaga. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 sé íslenskum dómstólum skylt að skýra lög og reglur landslaga til samræmis við samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Samkvæmt þeirri skyldu og í samræmi við stjórnskipulega lögsögu þeirra verði íslenskir dómstólar að ógilda samningsskilmála sem þeir telja óréttmæta í skilningi þeirra lagaákvæða sem innleiddu tilskipunina.

157    Íslenska ríkið heldur því fram að útkoman fyrir neytandann sé þar með sú sama í reynd óháð því hvort landsréttur skyldi dómstóla til að ógilda óréttmæta samningsskilmála eða veiti þeim aðeins vald til þess.

Álit dómstólsins

158    Í ljósi þeirra miklu almannahagsmuna sem liggja að baki vernd neytenda sem eru í veikri stöðu gagnvart seljendum eða veitendum er gerð sú krafa til EES-ríkja samkvæmt tilskipuninni, eins og ljóst er af 1. mgr. 7. gr. með hliðsjón af 24. lið formálsorða hennar, að þau skapi réttar og árangursríkar leiðir ,,til að hindra áframhaldandi notkun óréttmætra skilmála í neytendasamningum“.

159    Í 3. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um að EES-ríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja beitingu og virkni EES-réttar. Það er órjúfanlegur hluti af markmiðum EES-samningsins að dómstólum aðildarríkjanna beri skylda til að skýra ákvæði landsréttar til samræmis við EES-rétt eins og þeim er frekast unnt. Þeir verða þar af leiðandi að beita viðurkenndum lögskýringaraðferðum landsréttar, eins og þeim er frekast unnt, til að ná fram þeirri niðurstöðu sem viðeigandi regla EES-réttar stefnir að (sjá mál E-6/13 Metacom AG gegn Rechtsanwälte Zipper & Collegen [2013] EFTA Ct. Rep. 856, 69. mgr. og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til).

160    Nauðsynlegt er að vísa jafnt til orðalags 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar sem og til markmiða og heildarkerfisins að baki ákvæðinu til að meta afleiðingar þess að samningsskilmáli teljist óréttmætur (sjá til samanburðar um það atriði, mál C‑482/07 AHP Manufacturing [2009] ECR I‑7295, 27. mgr. og mál C‑125/10 Merck Sharp & Dohme Corp. [2011] ECR I‑12987, 29. mgr.).

161    Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar hafa EES-ríkin sjálfræði upp að vissu marki um útfærslu á þeim lagareglum sem eiga við um óréttmæta skilmála. Engu að síður er þeim skýrlega gert að mæla svo fyrir að slíkir skilmálar ,,séu ekki [...] bindandi fyrir neytandann og að samningurinn verði áfram bindandi fyrir samningsaðila ef hann getur haldið gildi sínu að öðru leyti án óréttmætu skilmálanna.“

162    Af viðurkenndri dómaframkvæmd leiðir að þegar lagalegar forsendur og staðreyndir máls leyfa ber landsdómstólnum skylda til að meta að eigin frumkvæði hvort samningsskilmáli sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar sé óréttmætur. Þannig er bætt fyrir það ójafnræði sem ríkir milli neytanda og seljanda eða veitanda (sjá til samanburðar mál C-280/13 Barclays Bank, dómur frá 30. apríl 2014, birtur með rafrænum hætti, 34. mgr. og áður tilvitnað mál Aziz, 46. mgr. og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til).

163    Það er því landsdómstólsins að slá því föstu hvaða reglur landsréttar gilda um málið sem rekið er fyrir honum, nýta öll þau úrræði sem felast í lögsögu hans, skoða málið í ljósi allra ákvæða landsréttar og beita viðurkenndum lögskýringaraðferðum með það fyrir augum að tryggja virkni 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar að fullu og að niðurstaðan sé í samræmi við markmið hennar (sjá, varðandi þetta atriði, mál C‑282/10 Dominguez, dómur frá 24. janúar 2012, birtur með rafrænum hætti, 27. mgr., og dómaframkvæmd sem þar er vitnað til og mál C-618/10 Banco Español de Crédito, dómur frá 14. júlí 2012, birtur með rafrænum hætti, 58. mgr.).

164    Af 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar leiðir að dómstólum aðildarríkjanna er einungis gert að koma í veg fyrir beitingu óréttmæts samningsskilmála þannig að hann verði ekki bindandi fyrir neytandann án þess að þeir hafi einnig heimild til að endurskoða efni skilmálans. Samningurinn verður, að meginstefnu, að halda gildi sínu (sjá til samanburðar um það atriði, mál C-26/13 Kásler and Káslerné Rábai, dómur frá 30. apríl 2014, birtur með rafrænum hætti, 80. til 84. mgr.) án annarra breytinga en þeirra að hinir óréttmætu skilmálar eru felldir út að því marki sem reglur landsréttar leyfa.

165    Í ljósi framangreindra atriða er svarið við fimmtu spurningunni að 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar verði að túlka með þeim hætti að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt tilskipuninni beri þeim dómstól að tryggja að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa.

V         Málskostnaður

166    Ríkisstjórn Íslands, Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem skilað hafa greinargerðum til EFTA-dómstólsins, skulu hver bera sinn málskostnað. Þar sem um er ræða mál sem er hluti af málarekstri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur kemur það í hlut þess dómstóls að kveða á um kostnað málsaðila.

Með vísan til framangreindra forsendna lætur,

DÓMSTÓLLINN

uppi svohljóðandi ráðgefandi álit um spurningar þær sem Héraðsdómur Reykjavíkur beindi til dómstólsins, á þeim forsendum og að svo miklu leyti sem samningsskilmálar um verðtryggingu afborgana veðláns, eins og þær sem deilt er um í málinu sem rekið er fyrir landsdómstólnum, teljast ekki endurspegla lög eða bindandi stjórnsýsluákvæði samkvæmt 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/13/EBE:

1.      Tilskipun 93/13/EBE leggur ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda. Það er landsdómstólsins að meta hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur. Matið verður að taka mið af skýringu dómstólsins á hugtakinu ,,óréttmætur skilmáli“.

2.      Tilskipun 93/13/EBE takmarkar ekki svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við hina íslensku vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar að því gefnu að þeim sé lýst með skýrum hætti í samningnum.

3.      Það er landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort samið hafi verið sérstaklega um tiltekinn samningsskilmála í skilningi 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE.

4.      Það er landsdómstólsins að meta hvort samningsskilmála um verðtryggingu afborgana af láni til fjármögnunar á fasteignakaupum skuli teljast hafi verið lýst fyrir neytandanum með skýrum og skiljanlegum hætti. Slíkt mat verður að taka mið af nákvæmu orðalagi viðeigandi samningsskilmála og öllum öðrum aðstæðum, þar á meðal þeim sem vísað er til í a- og b-hluta þriðju spurningar landsdómstólsins, auk ákvæða landsréttar um verðtryggingu.

5.      1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar verður að túlka með þeim hætti að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt tilskipuninni beri þeim dómstól að tryggja að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa.

Carl Baudenbacher                             Per Christiansen                      Páll Hreinsson

Kveðið upp í heyranda hljóði í Lúxemborg 28. ágúst 2014.

Philipp Speitler                                                                            Carl Baudenbacher

Settur dómritari                                                                           Forseti