Hæstiréttur íslands
Mál nr. 383/2002
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Vanefnd
- Afhendingarréttur
- Stöðvunarréttur
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 13. febrúar 2003. |
|
Nr. 383/2002. |
Ólafur Lúðvíksson og Guðmundína Kolbeinsdóttir (Gylfi Thorlacius hrl.) gegn Byggingafélaginu Sólhofi ehf. (Þorsteinn Júlíusson hrl.) |
Fasteignakaup. Vanefndir. Afhendingarréttur. Stöðvunarréttur. Dráttarvextir.
ÓL og G keyptu íbúðarhúsnæði í byggingu af ÓÞ, en S ehf. tók síðar við réttindum og skyldum ÓÞ vegna framkvæmdanna. Verulegar vanefndir urðu á framkvæmd verksins og héldu ÓL og G að sér höndum með nánar tilteknar kaupsamningsgreiðslur. Fór svo að S ehf. höfðaði mál gegn ÓL og G til greiðslu eftirstöðva kaupverðsins auk ýmiss kostnaðar í tengslum við viðskiptin. Var ÓL og G gert að greiða S ehf. stærstan hluta af kröfunni, en frá henni dregin gagnkrafa sem aðilar höfðu orðið sammála um að ÓL og G ætti á hendur S ehf. Var upphafstími dráttarvaxta miðaður við þann dag sem S ehf. aflétti tryggingabréfi að fjárhæð 10.000.000 krónur af íbúð ÓL og G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2002. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms, en þó þannig að til frádráttar kröfu hans, sem þar var tekin til greina, komi samtals 1.365.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta varðar uppgjör vegna kaupa áfrýjenda á nánar tilgreindri íbúð af stefnda í fjöleignarhúsinu Lækjarsmára 13, Kópavogi, en kaupsamningur var gerður 28. maí 1993. Húsið var þá enn í byggingu og var íbúðin afhent áfrýjendum í maí 1995. Óumdeilt er að ýmsar vanefndir urðu af hálfu stefnda og héldu áfrýjendur vegna þessa að sér höndum með tilteknar greiðslur samkvæmt kaupsamningnum. Í málinu krefur stefndi áfrýjendur um greiðslu eftirstöðva kaupverðsins.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um einstaka liði í kröfu stefnda, sem þar var fallist á og áfrýjendur leita sýknu af, en þeir námu samtals 3.725.739 krónum.
Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi tókst samkomulag við aðalmeðferð málsins milli aðila um að áfrýjendur ættu gagnkröfu á hendur stefnda, sem í þremur liðum var talin nema alls 1.365.000 krónum samkvæmt bókun í þingbók, sem aðilarnir eru sammála um fyrir Hæstarétti að réttilega hafi verið færð. Héraðsdómur tók mið af þessu samkomulagi við úrlausn málsins, en þó þannig að gagnkrafa áfrýjenda er í hinum áfrýjaða dómi sögð vera 1.295.000 krónur eða 70.000 krónum lægri en samkomulagið laut að. Með fyrrgreindri dómkröfu fyrir Hæstarétti leitar stefndi leiðréttingar á þessu.
Fyrir Hæstarétti gera áfrýjendur meðal annars gagnkröfu um skaðabætur að fjárhæð 360.000 krónur fyrir drátt á afhendingu bílageymslu. Þessi krafa var ekki höfð uppi fyrir héraðsdómi og er því of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eins og henni var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um gagnkröfu áfrýjenda að öðru leyti. Samkvæmt öllu framansögðu á stefndi þannig kröfu á áfrýjendur að fjárhæð 2.360.739 krónur.
Eins og getið er um í héraðsdómi hvíldi á íbúð áfrýjenda lán að fjárhæð 10.000.000 krónur samkvæmt tryggingarbréfi, sem seljandi íbúðarinnar hafði gefið út skömmu eftir gerð áðurnefnds kaupsamnings um hana við áfrýjendur. Veði samkvæmt bréfinu var fyrst létt af íbúðinni 6. febrúar 2002. Svo sem getið er í héraðsdómi gátu áfrýjendur átt á hættu fram að þeim tíma að fullnustu yrði leitað í íbúðinni fyrir þeirri kröfu, er tryggingarbréfið tók til. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar höfðu þau heimild til að halda eftir öllum greiðslum sínum, sem vörðuðu kaupin, meðan svo stóð á, enda námu þær stórum lægri fjárhæð en tryggingarbréfið. Samkvæmt 13. gr. áðurgildandi vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. nú 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu geta dráttarvextir ekki fallið á kröfu stefnda fyrr en 6. febrúar 2002, þegar veðinu var létt af íbúðinni. Verða áfrýjendur dæmd í sameiningu til að greiða stefnda áðurgreinda skuld ásamt dráttarvöxtum, eins og nánar segir í dómsorði.
Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.
Það athugast að héraðsdómari kvaddi til sérfróða meðdómsmenn án þess að séð verði að tilefni hafi verið til þess.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Ólafur Lúðvíksson og Guðmundína Kolbeinsdóttir, greiði óskipt stefnda, Byggingafélaginu Sólhofi ehf., 2.360.739 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2002 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. maí 2002.
Mál þetta var höfðað 26. september 2001 og tekið til dóms 7. þessa mánaðar. Stefnandi er Sólhof ehf., kt. 610194-2499, en stefndu eru Ólafur Lúðvíksson, kt. 311061-4429 og Guðmundína Kolbeinsdóttir, kt. 091162-3349, bæði til heimilis að Lækjarsmára 13 í Kópavogi.
Dómskröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda kr. 4.065.774,00 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 362.823,00 frá 22. júní 1994 til 27. júní 1994, af kr. 487.823,00 frá þeim degi til 20. júlí 1994, af kr. 587.823,00 frá þeim degi til 16. nóvember 1994, af kr. 1.587.823,00 frá þeim degi til 1. apríl 1995, af kr. 2.309.424,00 frá þeim degi til 5. maí 1995, af kr. 2.495.774,00 frá þeim degi til 16. apríl 1995, af kr. 3.865.774.,00 frá þeim degi til 30. mars 1998 og af kr. 4.065.774,00 frá þeim degi til 1. júlí 2001, og síðan með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. 1. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, allt að frádregnum kr. 1.365.000,00. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega sýknu, til vara sýknu að svo stöddu og til þrautavara lækkunar á stefnukröfum. Málskostnaðar er krafist í aðal og varakröfu en að hann verði látin niður falla í þrautavarkröfu.
I.
Stefndu keyptu íbúð nr. 0101 í fjölbýlishúsi að Lækjarsmára 13 í Kópavogi af Ólafi G. Þórðarsyni, sem stóð fyrir byggingunni. Stefnandi Sólhof ehf., einkahlutafélag Ólafs G. Þórðarsonar, tók síðar við öllum réttindum og skyldum varðandi byggingaframkvæmdir. Aðilar gerðu með sér kaupsamning 28. maí 1993 og er skemmst frá því að segja að verulegar vanefndir urðu á framkvæmd verksins af hálfu stefnanda, en stefndu héldu að sér höndum með kaupsamningsgreiðslur. Í þessu máli krefur stefnandi stefndu um eftirstöðvar kaupverðs.
Málavextir eru nánar þeir að í kaupsamningi segir að íbúðin skyldi vera nánast tilbúin að innan við afhendingu. Veggir og loft málað. Innihurðir, eldhúsinnrétting og skápar í svefnherbergi fylgi uppsett. Baðherbergi flísalagt með uppsettum skápum, vaski, klósetti og baði. Í kaupsamningi segir þó um rafmagn að rafvirki dragi í fyrir vinnuljósi í íbúð en rafmagn í sameign verði frágengið. Að utan skyldi nánast allt frágengið, bílastæði malbikað, göngustígar hellulagðir og lóðin tyrfð. Íbúðin skyldi vera fokheld í október 1993 og afhendast eigi síðar en í janúar 1994. Lóð skyldi grófjöfnuð eigi síðar en 1. september 1994 og bílastæði malbikað eigi síðar en í október 1994.
Kaupverð var 8.700.000 krónur og skyldi greiðast þannig:
1. Við undirritun samnings kr. 1.000.000
2. Þegar íbúð væri fokheld kr. 1.000.000
3. Við afhendingu íbúðar kr. 721.601
4. Yfirtekin veðskuld á 1. veðréttir kr. 706.342
5. Með íbúð að Engihjalla 9 kr. 5.272.057
Samtals kr. 8.700.000
Segir í kaupsamningi að 1. 2. og 3. liður megi að öllu eða einhverju leyti greiðast með húsbréfum í stað skuldabréfa.
Ekki er deilt um að stefnandi tók íbúð stefndu að Engihjalla 9 upp í kaupin og var hún metin á 5.272.057 krónur. Þá er heldur ekki deilt um að stefndu eigi enn ógreiddar kaupsamningsgreiðslur samkvæmt 2. og 3. tölulið hér að ofan, samtals 1.721.601 króna. Við kaupsamningsgerð afhentu stefndu víxil að fjárhæð 1.050.000 krónur sem var samþykktur til greiðslu af stefnda Ólafi en útgefinn af Ólafi G. Þórðarsyni með gjalddaga 10. september 1993. Aðilar deila um tilurð og tilgang þessa víxils. Stefnandi segir að hann hafi verið greiðsla stefndu á fyrstu kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 1.000.000 krónur og hafi 50.000 krónurnar verið vextir og kostnaður við víxilinn. Stefndu halda því aftur á móti fram að samið hafi verið um að stefnandi geymdi víxilinn þar til íbúðin yrði fokheld og þau fengju húsbréf. Í þessu sambandi vísa þau til ákvæða kaupsamnings þar sem segir: „Greiðsluliður númer 1, 2 og 3 mega, að öllu eða einhverju leyti, greiðast með húsbréfum í stað skuldabréfa.”
Ólafur G. Þórðarson seldi víxilinn í Sparisjóð Kópavogs og fór hann í vanskil á gjalddaga. Fór víxillinn í innheimtu og lauk málinu með réttarsátt 25. janúar 1994 þar sem stefndi Ólafur og Ólafur G. Þórðarson lofuðu að greiða skuldina. Ekki var staðið við sáttina og var gert árangurslaust fjárnám hjá báðum skuldurum. Gjaldþrotaskipta var krafist á búi Ólafs G. Þórðarsonar þann 22. september 1994. Til þess að komast hjá gjaldþrotaskiptum gaf Ólafur G. Þórðarson út skuldabréf að fjárhæð 1.170.000 krónur og afhenti til tryggingar greiðslu víxilskuldarinnar. Bréfið var tryggt með veði í íbúð nr. 0201 að Lækjarsmára 13, Kópavogi. Fór svo að eigandi þeirrar íbúðar greiddi skuldina samkvæmt skuldabréfinu ásamt áföllunum kostnaði með 1.370.000 krónum þann 16. apríl 1997. Var andvirðið notað til þess að greiða eftirstöðvar víxilskuldarinnar sem þá var með kostnaði 1.229.965 krónur en áður höfðu borist greiðslur inn á skuldina þann 27. júní 1994, 125.000 krónur, þann 20. júlí 1994, 100.000 krónur og þann 16. desember 1996, 424.032 krónur. Síðustu greiðslu, 424.032 krónur, greiddu stefndu.
Afsal fyrir eigninni var gefið út 12. desember 1994. Segir í afsalinu að eignin sé ekki komin í það horf er kaupsamningur segi til um. Afsalsgjafi skuldbindi sig til þess að efna kaupsamning eins fljótt og unnt verði. Síðan segir í afsali: „Umsamið kaupverð verður að fullu greitt, þegar afsalsgjafi hefur uppfyllt kaupsamninginn. Eftirfarandi greiðslur eru ógreiddar:
1. Víxill (sem var greiðsla við undirritun kaupsamnings) kr. 1.000.000
Víxillinn var í vanskilum (dr.ve. skiptast skv. samk. lagi)
2. Þegar íbúð er fokheld................................................. kr. 1.000.000
3. Við afhendingu íbúðar................................................ kr. 721.601
kr. 2.721.601”
Þá segir einnig í afsalinu að stefndu taki að sér að greiða áhvílandi skuldabréf á eigninni eins og tekið hafi verið fram í kaupsamningi.
Íbúðin varð fokheld 16. nóvember 1994. Stefndu bjuggu endurgjaldslaust í íbúðinni sem þau áður áttu að Engihjalla 9, Kópavogi þar til þau fluttu inn í íbúðina að Lækjarsmára 13 í maí 1995. Stefndu hafa lýst hér fyrir dómi ástandi hússins er þau fengu íbúðina afhenta. Sögðu þau að sameign hafi verið ómúruð og ófrágengin að öllu leyti. Ekki hafi verið flutt inn í aðrar íbúðir í stigaganginum og þær margar staðið opnar. Mikill gólfkuldi hafi verið í íbúð stefndu þar sem bílgeymsla hafi verið undir húsinu og hún ófrágengin og óeinangruð. Stefndu hafi tekið að sér að mála íbúðina og með samkomulagi við stefnanda tekið að sér að setja upp innréttingar.
Þann 24. október 1997 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu vegna sömu krafna og dæmt er um í þessu máli. Stefndu tóku til varnar og öfluðu mats. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 1999 voru stefndu sýknuð að svo stöddu þar sem verulega þótti skorta á að stefnandi hefði efnt skyldu sína samkvæmt kaupsamningi. Margir verkliðir væru enn óunnir og ennfremur hvíldi á eigninni 10.000.000 króna tryggingabréf til tryggingar skuldum stefnanda.
Í þessu máli sundurliðar stefnandi kröfur sína þannig:
1. 362.823 krónur vegna veðskuldabréfs sem hvíldi á eign stefndu að Engihjalla 9 í Kópavogi. Óumdeilt er að stefndu skuldbundu sig til þess að færa þetta veð af eigninni en gerðu það ekki. Stefnandi tók því lánið yfir og krefst nú endurgreiðslu á eftirstöðvum lánsins með vöxtum frá 22. júní 1994, en þann dag greiddi hann lánið upp.
2. 225.000 krónur sem er kostnaður vegna vanskila á víxli.
3. 1.229.965 krónur sem er innlausnarfjárhæð umrædds víxils.
4. 140.035 krónur vegna lögmannskostnaðar vegna skuldabréfs sem fór í vanskil. Gerð var grein fyrir þessu skuldabréfi hér að framan. Ólafur G. Þórðarson notaði þetta skuldabréf til þess að greiða víxilinn en bréfið fór síðan i vanskil. Kostnaður að fjárhæð 140.000 krónur er kostnaður lögmanns við innheimtu skuldabréfsins.
5. 1.000.000 krónur vegna kaupsamningsgreiðslu er íbúðin varð fokheld.
6. 721.601 króna sem er kaupsamningsgreiðsla og átti að greiðast við afhendingu íbúðar.
7. 186.360 krónur vegna vinnu rafvirkja við að draga í rafmagn í íbúð stefndu. Stefnandi skýrir þennan lið þannig að um aukaverk hafi verið að ræða samkvæmt kaupsamningi aðila.
8. 200.000 krónur vegna úttektar stefndu á skápum í Húsasmiðjunni hf. Svo samdist með aðilum að stefndu fengju heimild stefnanda til þess að taka út innréttingar í Húsasmiðjunni hf. Gerðu þau það en stefnandi telur að stefndu hafi farið út fyrir heimild sína með því að taka út skápa í barnaherbergi og í forstofu. Stefndu telja aftur á móti þessa úttekt innan samningsákvæða. Samtals nema stefnukröfur stefnanda því 4.065.774 krónur.
Stefnandi krefst uppgjörs á viðskiptum aðila og vísar í þeim efnum til samningsbundinna ákvæða og annars samkomulags um að hann eigi lögvarinn rétt til þess að fá söluverð eignarinnar greitt. Hann byggir kröfur sínar á meginreglum samningsréttar um skuldbindingagildi samninga og meginreglum kauparéttarins, sérstaklega 28. gr. laga nr 39/1922.
Við aðalmeðferð málsins samþykkti stefnandi eftirfarandi lækkunarkröfu stefndu:
1. 229.000 krónur, sem er kostnaður stefndu við að setja upp innréttingar. Við aðalmeðferð var bóka að aðilar væru sammála um að hæfilegt endurgjald fyrir þennan verklið væri 229.000 krónur.
2. 850.000 krónur vegna skuldabréfs sem stefnandi skildi eftir á íbúð stefndu. Stefndu greiddu skuldabréfið upp 3. desember 1996 með 850.000 krónum.
3. 216.000 krónur vegna afhendingadráttar á íbúðinni. Við aðalmeðferð var bókað eftir aðilum að þeir væru sammála um að stefnandi greiddi 216.000 krónur vegna afhendingadráttar á íbúðinni.
Til frádráttar koma því samtals 1.365.000 krónur.
II.
Stefndu halda því fram að við undirskrift kaupsamnings hafi þau verið látin afhenda víxil að fjárhæð 1.050.000 krónur til tryggingar fyrir útborgun íbúðarinnar. Við afhendingu víxilsins hafi verið um það samið og því lofað af hálfu stefnanda að hann færi ekki í umferð fyrr en íbúðin yrði fokheld, enda hafi seljendum verið gert ljóst að stefndu gætu ekki greitt hann fyrr en fokheldisvottorð lægi fyrir og þau gætu fengið lánafyrirgreiðslu vegna eignarinnar. Ekki hafi verið staðið við þessi fyrirheit af hálfu stefnanda og víxillinn seldur nær strax í banka.
Íbúðin hafi ekki verið í umsömdu ástandi þegar stefndu hafi fengið hana afhenta. Hún hafi verið nánast tilbúin undir tréverk. Ástand sameignar hafi ekki heldur verið í samræmi við ákvæði kaupsamningsins.
Vegna þeirra stórfelldu vanefnda sem orðið hafi á kaupsamningi af hálfu stefnanda, bæði með afhendingadrætti íbúðarinnar og því hve íbúðin hafi þarfnast mikilla lagfæringa eftir afhendingu, hafi stefndu lent í vanskilum með greiðslu lánsins sem þau hafi yfirtekið með kaupsamningi. Af þessum sökum hafi íbúðin farið á nauðungaruppboð haustið 1996. Eftir uppboðið hafi þau greitt upp vanskil á láni er hvíldi á 1. veðrétti með alls 1.367.718 krónum. Þá hafi þau þurft að greiða 424.032 krónur vegna fjárnáms sem hvílt hafi á íbúðinni. Þetta fjárnám hafi verið gert vegna víxilsins sem þau hafi verið fengin til að gefa út vegna fyrstu útborgunnar.
Stefndu telja að stefnandi hafi misbeitt aðstöðu sinni og gerst brotlegur við ákvæði 3. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggjörninga, sérstaklega 33. og 36. gr. Auk þess verði að telja að með veðsetningu sinni á eigninni til Steypustöðvarinnar hf. með tryggingarbréfi að fjárhæð 10.000.000 króna og með öðrum heimildarlausum veðsetningum hafi stefnandi gerst brotlegur við grundvallarreglu kröfuréttar og ákvæði 250. gr. almennra hegningarlaga um skilasvik.
Stefndu hafi verið rétt að halda eftir greiðslu kaupverðs þar sem að stefnandi hafi ekki efnt skyldur sínar. Í afsali komi fram að umsamið kaupverð skuli greiða þegar afsalsgjafi hafi efnt sínar kaupsamningsskyldur. Með þessu ákvæði í afsali sé gjalddaga hinna umsömdu greiðslna frestað þar til fullar efndir hafi farið fram af hálfu stefnanda.
Stefndu mótmæla dráttarvöxtum, sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta, enda falli skuldin ekki í gjalddaga fyrr en stefnandi hafi efnt sína samningsskyldu. Stefndu krefjast skuldajafnaðar og að dómurinn taki þá sérstaklega tillit til eftirfarandi atriða: Stefndu fengu íbúðina afhenta einu og hálfu ári of seint. Stefndu þurftu sjálf að innrétta hana að verulegu leyti. Stefndu þurftu um árabil að búa í ófrágengnu og hálfkláruðu húsi með ófrágenginni sameign og lóð. Stefndu þurftu árum saman að búa við mikinn gólfkulda þar sem bílskýli var opið og óeinangrað. Frágangur hússins er víða óvandaður og húsið því verðminna en önnur hús á sama stað. Stefndu hafa ekki getað ráðstafað eign sinni með eðlilegum hætti enda hún yfirveðsett af stefnanda án heimildar. Stefndu hafa ásamt öðrum eigendum sjálf þurft að annast lagfæringar og frágang á sameign.
III.
1. Gegn andmælum stefnanda telst ósönnuð sú fullyrðing stefndu að víxillinn hafi átt að geymast og gerast upp síðar er stefndu fengju húsbréf. Víxillinn var seldur í banka og fór í vanskil á gjalddaga 10. september 1993. Réttarsátt var gerð 25. janúar 1994. Stefndu stóðu ekki við sáttina og að lokum greiddi stefnandi víxilinn með fullnaðargreiðslu 1.229.965 krónum, en áður hafði stefnandi greitt inn á víxilskuldina 125.000 krónur 27. júní 1994 og 100.000 krónur 20. júlí 1994. Verður þessi krafa stefnanda, samtals að fjárhæð 1.454.965 krónur, tekin til greina, en ekki þykir rétt að fallast á afleiddan kostnað stefnanda að fjárhæð 140.035 krónur vegna veðskuldabréfs, sem hann greiddi víxilinn með.
2. Stefndu greiddu íbúðina að Lækjarsmára 13, Kópavogi m.a. með íbúð sinni að Engihjalla 9, Kópavogi og skuldbundu sig til þess að aflétta af þeirri íbúð veðskuld við Sparisjóð Kópavogs. Það gerðu þau ekki og halda því fram að forsvarsmenn stefnanda hafi gefið það loforð að þessi skuld yrði gefin eftir vegna allra þeirra óþæginda sem þau hefðu mátt þola vegna tafa á byggingaframkvæmdum. Gegn andmælum stefnanda þykir þessi staðhæfing ósönnuð. Verða stefndu því dæmd til þess að greiða þessa skulda að fjárhæð 362.823 krónur með dráttarvöxtum frá 22. júní 1994, en þann dag greiddi stefnandi lokagreiðslu lánsins.
3. Ekki er deilt um að ógreidd er kaupsamningsgreiðsla að fjárhæð 1.000.000 krónur er stefndu áttu að greiða er íbúð þeirra yrði fokheld. Ekki er heldur deilt um að ógreidd er kaupsamningsgreiðsla að fjárhæð 721.601 krónur sem stefndu áttu að greiða við afhendingu íbúðarinnar. Verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda þessa kaupsamningsgreiðslur.
4. Í kaupsamningi segir að rafvirki dragi aðeins fyrir vinnuljósi í íbúðina. Rafvirki á vegum stefnanda gekk frá rafmangi og er reikningur hans að fjárhæð 186.350 krónur. Efnislegar varnir hafa ekki komið fram gegn þessari kröfu og verður hún því tekin til greina.
5. Í kaupsamningi segir að skápar í svefnherbergi fylgi íbúðinni. Samdist svo með aðilum að stefndu tækju innréttingar og skápa út á reikning stefnanda í Húsasmiðjunni hf. Stefnandi heldur því fram að stefndu hafi umfram heimild tekið út skápa til þess að setja upp í barnaherbergi og forstofu. Stefnandi þykir ekki hafa fært nægileg rök fyrir þessari kröfu sinni og verður hún því ekki tekin til greina.
Gagnkröfur stefndu þykja óljósar og órökstuddar og er því ekki unnt að taka þær til greina í þeim búningi sem þær voru settar fram í greinargerð og í málflutningi að öðru leyti en því sem þegar hefur orðið samkomulag um.
Niðurstaða málsins verður því sú að stefndu verða dæmd til þess að greiða stefnanda samtals 3.725.739 krónur (1.454.965 + 362.823 + 1.000.000 + 721.601.000 + 186.350) með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 362.823 krónum (veðskuldabréf áhvílandi á Engihjalla 9), frá 22. júní 1994 til 27. júní 1994, af 487.823 krónum (útlagt vegna víxils, 125.000 krónur), til 20. júlí 1994, af 587.823 krónum (útlagt vegna víxils, 100.000 krónur), frá þeim degi til 5. maí 1995, af 774.173 krónum (raflagnavinna, 186.350 krónur), frá þeim degi til 16. apríl 1997, af 2.004.138 krónum (greiðsla víxils, 1.229.965 krónur), frá þeim degi til 1. júlí 2001, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til 8. febrúar 2002, en af 3.725.739 krónum (kaupsamningsgreiðslur 1.000.000 + 721.601 krónur), frá þeim degi til greiðsludags.
Það er álit dómsins að ógreiddar kaupsamningsgreiðslur, samtals að fjárhæð 1.721.601 króna, eigi ekki að bera dráttarvexti fyrr en 8. febrúar 2002, en þann dag var lagt fram í málinu aflýst tryggingabréf að fjárhæð 10.000.000 króna, sem stefnandi hafði þinglýst í fullkomnu heimildarleysi á íbúð stefndu til tryggingar skuld stefnanda við Steypustöðina hf. Var stefndu rétt að halda eftir þessum kaupsamningsgreiðslum á meðan stefnandi efndi ekki kaupsamninginn að þessu leyti. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins voru stefndu tiltæk þessi vanefndaúrræði vegna þess að þau gátu átt von á því hvernær sem var að fullnustu yrði leitað í íbúð þeirra á grundvelli þessa veðs.
Til frádráttar tildæmdum fjárhæðum koma samkvæmt samkomulagi aðila 445.000 krónur (229.0000 + 216.000) sem beri dráttarvexti frá 15. maí 1995, en þann dag fluttu stefndu inn í íbúðina. Að auki koma til frádráttar 850.0000 krónur er beri dráttarvexti frá 3. desember 1996. Með hliðsjón af öllum málavöxtum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Birni Björnssyni húsasmíðameistara og Ragnari Ingimarssyni verkfræðingi.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Ólafur Lúðvíksson og Guðmundína Kolbeinsdóttir, greiði stefnanda, Sólhofi ehf., 3.725.739 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 362.823 krónum frá 22. júní 1994 til 27. júní 1994, af 487.823 krónum frá þeim degi til 20. júlí 1994, af 587.823 krónum frá þeim degi til 5. maí 1995, af 774.173 krónum frá þeim degi til 16. apríl 1997, af 2.004.138 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til 8. febrúar 2002, en af 3.725.739 krónum frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum 445.000 króna innborgun 15. maí 1995 og 850.000 króna innborgun 3. desember 1996.
Málskostnaður fellur niður.