Hæstiréttur íslands

Mál nr. 234/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sameign
  • Jörð
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Vanreifun


Þriðjudaginn 21

 

Þriðjudaginn 21. júní 2005.

Nr. 234/2005.

Gunnar Hólm Guðbjartsson

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Guðjóni Guðbjartssyni

Önnu M. Guðbjartsdóttur

Hólmfríði Guðbjartsdóttur

Guðbjarti Guðbjartssyni

Steinunni Guðbjartsdóttur og

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Ólafi S. Guðbjartssyni

(sjálfur)

 

Kærumál. Sameign. Jörð. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Vanreifun.

Aðilar höfðu lengi deilt um óskipta sameign þeirra á jörðinni K og ýmsar tilraunir verið gerðar til skiptingar hennar. Tilgangur málshöfðunar GHG, var sá að koma fram slitum á sameigninni á þann hátt að hann fengi skipt út úr jörðinni nánar tilgreindri spildu í samræmi við eignarhluta sinn. Í stefnu var stærð spildunnar nánar tilgreind, án þess þó að greint væri frekar frá verðmæti landsins. Var sá annmarki ekki talin varða frávísun málsins. Talið var, að játa yrði GHG því úrræði að leita atbeina dómstóla til slita á sameigninni. Kröfugerð hans lyti á hinn bóginn að því að dómstólar skiptu umræddri spildu út úr sameigninni, í stað þess að gera kröfu til viðurkenningar á rétti hans til skiptingar sameignarinnar með slíkum hætti, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. GHG hafi ekki borið því við í málinu að ákvæði skipulags- og byggingalaga, sem áskildi samþykki sveitarstjórnar fyrir skiptingu jarða, bryti gegn vernd eignarréttar samkvæmt stjórnarskrá, eða skýrt með haldbærum hætti hverja lögvarða hagsmuni hann hefði af því að fá dóm í málinu í samræmi við kröfugerð sína að virtu synjunarvaldi sveitarstjórnar samkvæmt ákvæðinu. Þá hafi engin viðhlítandi grein verið gerð fyrir því hverju máli ákvæði jarðalaga skiptu fyrir úrlausnarefnið. Að virtu öllu þessu voru þeir annmarkar á málatilbúnaði GHG að ekki varð komist hjá því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um frávísun málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2005, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Guðjón Guðbjartsson, Anna M. Guðbjartsdóttir, Hólmfríður Guðbjartsdóttir, Guðbjartur Guðbjartsson og Steinunn Guðbjartsdóttir hafa einnig kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 26. maí 2005 og krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Ólafur S. Guðbjartsson krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili stefndi Reykjavíkurborg fyrir héraðsdóm til réttargæslu. Lagði réttargæslustefndi fram greinargerð í málinu, en hefur ekki látið það til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins hafa aðilar lengi deilt um óskipta sameign þeirra á jörðinni Króki á Kjalarnesi og ýmsar tilraunir verið gerðar til skiptingar hennar, en óumdeilt er að sóknaraðili á 52,083% af landi jarðarinnar. Málavöxtum er nánar lýst í hinum kærða úrskurði, sem og kröfum aðila og málsástæðum. Tilgangur málshöfðunar sóknaraðila er að koma fram slitum á umræddri sameign á þann hátt, að hann fái skipt út úr jörðinni nánar tilgreindri spildu í samræmi við eignarhluta sinn. Í stefnu er stærð spildunnar sem sóknaraðili krefst að skipt verði út úr jörðinni nánar tilgreind, án þess þó að greint sé frekar frá verðmæti landsins. Ekki verður fallist á það með varnaraðilum að krafa sóknaraðila sé að þessu leyti svo vanreifuð að varði frávísun. Grundvöllur málatilbúnaðar sóknaraðila er ljós í aðalatriðum og hefur varnaraðili teflt fram vörnum sínum í samræmi við það. Verður ekki fallist á að sóknaraðila hafi borið skylda til að leita eftir mati dómkvadds manns um andvirði einstakra hluta jarðarinnar, fyrr en ljóst var að varnaraðilar féllust ekki á kröfu hans að þessu leyti, enda áskildi sóknaraðili sér rétt til frekari framlagningar gagna í stefnu. Eru ekki næg efni til að telja þennan annmarka á reifun sóknaraðila fyrir kröfugerð sinni svo verulegan, að ekki hefði mátt bæta úr honum við meðferð málsins með öflun frekari sönnunargagna um verðmæti landsins.

Samkvæmt meginreglu eignaréttar getur hver sameigenda krafist slita á sameign, ef unnt er að skipta henni án þess að tjón hljótist af. Langvarandi ágreiningur hefur verið milli málsaðila um umrædda sameign þeirra eins og áður greinir og hefur ekki fengist úrlausn um skiptingu hennar. Einn varnaraðila krafðist árið 1996 nauðungarsölu á jörðinni samkvæmt 8. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Ágreiningi um söluna var vísað til héraðsdóms og staðfesti hann ákvörðun sýslumanns um að stöðva söluna, þar sem gerðarbeiðandinn hafi ekki sýnt fram á að skilyrði 2. mgr. 8. gr. laganna, um að eigninni verði ekki skipt milli eigenda án verulegs tjóns eða kostnaðar, væri fyrir hendi. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar.

Með vísan til framangreinds, sem og 72. gr. stjórnarskrárinnar, verður að játa sóknaraðila því úrræði að leita atbeina dómstóla til slita á sameigninni, og verður hann talinn hafa af því lögvarða hagsmuni að leggja ágreining um það undir dómstóla. Eins og mál þetta er lagt fyrir dómstóla krefst sóknaraðili þess að sameign hans og varnaraðila verði slitið og hann fái skipt út úr óskiptu landi jarðarinnar spildu samkvæmt nánar tilgreindum hnitum, sem lýst er í aðal- og varakröfu hans. Að því frágengnu krefst hann þess að fá skipt út spildu, sem að mati dómsins nemi eignarhluta hans. Lýtur kröfugerð hans þannig að því að dómstólar skipti tilteknu landi út úr sameigninni með nánar tilgreindum hætti í stað þess að gera kröfu til viðurkenningar á rétti hans til skiptingar sameignarinnar með slíkum hætti, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er meðal annars óheimilt að skipta jörðum nema samþykki sveitarstjórnar komi til, en fyrir liggur að hið umþrætta landsvæði er innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur.  Kemur fram í greinargerð réttargæslustefnda að um það sé fjallað í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2001-2024 og að gert sé ráð fyrir íbúðabyggð í að minnsta kosti hluta landsins, en ekki hafi verið ráðist í gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Hefur sóknaraðili ekki borið við í málinu að umrætt ákvæði laga nr. 73/1997 brjóti gegn vernd eignarréttar samkvæmt stjórnarskrá eða skýrt með haldbærum hætti hverja lögvarða hagsmuni hann hafi af því að fá dóm í málinu í samræmi við kröfugerð sína að virtu synjunarvaldi sveitarstjórnar samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði. Þá er engin viðhlítandi grein gerð fyrir því hverju máli ákvæði jarðalaga nr. 81/2004 kunna að skipta fyrir úrlausnarefnið, sbr. einkum 3. gr. og II. og IV. kafli laganna. Að virtu öllu framansögðu eru þeir annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila að ekki verði komist hjá að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2005.

Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu 18., 24. og 25. maí 2004.  Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu, 28. apríl sl.

Stefnandi er Gunnar Hólm Guðbjartsson, Lyngási, Kjalarnesi.

Stefndu eru  Guðjón Guðbjartsson, Háagerði, Kjalarnesi, Ólafur Guðbjartsson, Sjávarhólum, Kjalarnesi, Anna Guðbjartsdóttir, Austurbrún 25, Reykjavík, Hólmfríður Guðbjartsdóttir, Goðheimum 11, Reykjavík, Guðbjartur Guðbjartsson, skráður í Þýskalandi og Steinunn Guðbjartsdóttir, Brekkugerði 7, Reykjavík.   Þá er Reykja-víkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur stefnt til réttargæslu.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1.  Krafa um slit sameignarinnar að Króki.

Aðalkrafa.

A.             Stefnandi krefst þess að sameign hans og stefndu um jörðina Krók Kjalarnesi verði slitið og aðallega að hann fái skipt út úr óskiptu landi jarðarinnar  Króks, Kjalarnesi, spildu neðan þjóðvegar nr. 1 er afmarkast með eftirfarandi hnitum á uppdrætti á dómsskjali nr. 3:

 

Nr.              austur (x)             Norður (y)

13             361800.76             418503.47

14             361834.64             418517.64

15             361939.31             418633.45

16             361930.11             418648.85

17             361993.63             418749.37

18             361697.47             418702.53

19             361719.01             418791.21

20             361705.76             418687.70

21             361737.81             418625.54            

22             361780.17             418649.45

23             361745.98             418706.43

28             362304.13             419443.23

29             362434.80             419346.81

51             361902.09             418996.31

52             362050.47             419159.83

53             362236.24             419072.49

54             362068.18             418846.18                        

Um er að ræða samfellda landspildu er afmarkast að vestanverðu frá landamerkjum við Lykkju að frádreginni 3.165,5 fermetra lóð í kringum íbúðarhúsið Háagerði sem er í eigu stefnda, Guðjóns Guðbjartssonar, til norðurs  í átt að þjóðvegi 1 svo sem afmarkað er á dómsskjali nr. 3.

Stefnandi krefst þess jafnframt að hann fái skipt út úr landi jarðarinnar Króks, Kjalarnesi spildu ofan þjóðvegar nr. 1 er afmarkast með eftirfarandi hnitum:           

Nr.              austur (x)             Norður (y)

35             362839.02             419673.80

36             362841.03             419780.78

40             363721.85             420360.00

41             363739.85             420330.34

42             363744.08             420259.79

43             363746.49             420236.44

44             362998.95             419768.75

48             363740.46             420307.94

49             363741.67             420283.13

Um er að ræða land ofan þjóðvegar nr. 1 sem skiptist eftir endilöngu þannig að syðri hluti þess lands sem nemur 52,083%  komi í hlut stefnanda svo sem afmarkað er á dómsskjali nr. 3.

B.              Stefnandi krefst þess að afmörkuðum spildum samkvæmt A. lið kröfugerðar fylgi öll gögn og gæði sem eiganda ber, þar með talið greiðslumark í sauðfé sem nemur 76,67 ærgildum.

C.              Stefnandi krefst þess að stefndu verði sameiginlega dæmd til að afsala eignarhlutum sínum í eftirfarandi húseignum að Króki sem eru í sameign aðila gegn greiðslu eftirfarandi kaupverðs:

Eign              byggingaár           Metið verðmæti Eignarhlutdeild stefndu            Til greiðslu

Íbúðarhús   1919     kr. 450.000,00   47.917%                        kr. 215.626,00

Hlaða     1930     kr.   50.000,00   47.917%                        kr.   23.958,00

Fjós         1930     kr.   75.000,00   47.917%                        kr.   35.938,00

Haughús    1930     kr.   30.000,00   47.917%                        kr.   14.375,00

Votheysturn 1960             kr.   40.000,00   47.917%                        kr.   19.167,00

Millibygging 1973   kr.   25.000,00   47.917%                                                                                 kr.   11.979,00

Fjós           1978     kr. 450.000,00    95.833%                        kr. 431.248,00

Samtals kaupverð til greiðslu gegn útgáfu afsals               kr. 752.291,00

sem skiptist þannig að stefndu, Guðjón, Anna, Steinunn, Hólmfríður og Guðbjartur fái greiddar kr. 120.158,00 hvert og Ólafur fái greiddar kr. 151.498,00.   

Varakrafa.

A.             Stefnandi krefst þess að sameign hans og stefndu um jörðina Krók Kjalarnesi verði slitið og til vara að hann  fái skipt út úr óskiptu landi jarðarinnar  Króks, Kjalarnesi, spildu neðan þjóðvegar 1 er afmarkast með eftirfarandi hnitum á uppdrætti á dómskjali nr. 4:

Nr.              austur (x)             Norður (y)

13             361800.76             418503.47

14             361834.64             418517.64

15             361939.31             418633.45

16             361930.11             418648.85

17             361993.63             418749.37

18             361697.47             418702.53

19             361719.01             418791.21

20             361705.76             418687.70

21             361737.81             418625.54            

22             361780.17             418649.45

23             361745.98             418706.43

24             361782.63             418612.85

25             361821.58             418633.25

26             361847.69             418581.32

27             361810.48             418561.06

28             362304.13             419443.23

29             362434.80             419346.81

51             361902.09             418996.31

52             362050.47             419159.83

53             362236.24             419072.49

54             362068.18             418846.18                        

Um er að ræða samfellda landspildu er afmarkast frá landamerkjum við Lykkju að frádreginni 3.165,5 fermetra lóð í kringum íbúðarhúsið Háagerði sem er í eigu stefnda, Guðjóns Guðbjartssonar og  2.500 fermetra lóð í kringum íbúðarhús og útihús að Króki til norðurs í átt að þjóðvegi nr. 1 svo sem afmarkað er á dómskjali nr. 4.

Stefnandi krefst þess jafnframt að hann fái skipt út úr landi jarðarinnar Króks, Kjalarnesi spildu ofan þjóðvegar nr. 1 er afmarkast með eftirfarandi hnitum á uppdrætti á dómskjali nr. 4:

Nr.              austur (x)             Norður (y)

35             362839.02             419673.80

36             362841.03             419780.78

40             363721.85             420360.00

41             363739.85             420330.34

42             363744.08             420259.79

43             363746.49             420236.44

44             362998.95             419768.75

48             363740.46             420307.94

49             363741.67             420283.13

Um er að ræða land ofan þjóðvegar nr. 1 sem skiptist eftir endilöngu þannig að syðri hluti þess lands sem nemur 52,083%  komi í hlut stefnanda svo sem afmarkað er á dómsskjali nr. 4.

B.             Stefnandi krefst þess að afmörkuðum spildum samkvæmt A. lið kröfugerðar fylgi öll gögn og gæði sem eiganda ber, þar með talið greiðslumark í sauðfé sem nemur 76,67 ærgildum.

Þrautavarakrafa.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að hann fái skipt út úr óskiptu landi jarðarinnar Króks Kjalarnesi spildu sem að mati dómsins nemur eignarhluta stefnanda 52.083% að stærð og/eða gæðum og með spildunni fylgi öll gögn og gæði sem eiganda ber, þar með talið greiðslumark í sauðfé sem nemur 76.67 ærgildum.

2.             Kostnaður af landsskiptum.

Stefnandi krefst viðurkenningar á því að allur kostnaður vegna slita á sameigninni að Króki og uppskiptingu lands, s.s. gerð nýrra landamerkja og færsla girðinga, skuli skiptast milli aðila í samræmi við eignarhlutdeild þannig að stefnandi greiði 52,083% þess kostnaðar og stefndu sameiginlega 47,917%.         

3.             Málskostnaðarkrafa.

             Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu þ.m.t. 24,5% virðisaukaskatts samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.

Dómkröfur stefndu og réttargæslustefnda.

             Stefndu gera aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi.  Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefjast stefndu í báðum tilvikum málskostnaður úr hendi stefnanda.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, en hann krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. 

Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefnda, mótmælti stefnandi henni og gerði þá kröfu að henni yrði hafnað og að málskostnaður yrði látinn bíða efnisdóms.

I.

Málsatvik.

             Ágreiningur málsins varðar jörðina Krók á Kjalarnesi, en málsaðilar eiga hana í óskiptri sameign og þau fengu hana í arf eftir föður sinn/foreldra.  Málsaðilar eru systkin, þ.e. stefnandi og stefndi Guðjón og Ólafur eru albræður, en aðrir stefndu eru hálfsystkin þeirra, börn Guðbjarts Jónssonar og Gunnleifar Kr. Sveinsdóttur.   

1.                                 Upphafið er að rekja til þess að dánarbú Guðbjarts og eiginkonu hans, Gunnleifar, var tekið til opinberra skipta. Í byrjun fór skiptaráðandinn í Kjósarsýslu með skiptin, en eftir gildistöku laga nr. 20/1991 var Jóhann Níelsson hrl. skipaður skiptastjóri í dánarbússkiptunum.  Samkvæmt beiðni skiptaráðandans í Kjósarsýslu voru Gylfi Már Guðbergsson og Valur Þorvaldsson fengnir til þessa að skipta landi jarðarinnar Króks og meta mannvirki á jörðinni eftir nánari fyrirmælum.  Niðurstaða þessarar vinnu lá fyrir 1. ágúst 1991.  Ekki varð samkomulag með málsaðilum um landsskipti á grundvelli tillögu tvímenninganna.   Eftir að skiptastjóri, Jóhann Níelsson hrl., hafði tekið við dánarbússkiptunum var enn á ný reynt að ná samkomulagi um landskiptin.   Stefnandi upplýsir að hann hafi fyrir sitt leyti getað fallist á tillögu skiptastjórans og eru dómkröfur málsins í þessu máli í meginatriðum  byggðar á þessari tillögu.  Aftur á móti féllust stefndu ekki á að ljúka landskiptagerðinni í samræmi við tillögu skiptastjórans.

2.             Hinn 3. febrúar 1995 gekk úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. Q-10/1993.  Ágreiningurinn varðaði eignarhald dánarbúsins annars vegar og stefnanda hins vegar á einstökum mannvirkjum á jörðinni og ræktun. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar. Á grundvelli úrskurðarins  úthlutaði skiptastjóri eignarhluta dánarbús Guðbjarts og Gunnleifar til erfingja með skiptayfirlýsingu dags. 16. maí 1995.  Um var að ræða 50% jarðarinnar Króks, Kjalarneshreppi ásamt ræktun, girðingum, vegum, rétt, greiðslumarki og öðru er jarðarhlutanum fylgir og fylgja ber, 50% íbúðarhúss, fjóss, hlöðu, haughúss og votheysturns, 100% nýrra fjóss (notað sem fjárhús) og húseignina  Litla Krók.  Þar sem hlutur stefndu í arfskiptunum hafði verið aukinn með erfðaskrá fengu stefndu úthlutað 15.2778% og stefnandi 4.1667% auk erfingjans Ágústu I. Hólm.   Eftir úthlutun þessa voru eignarhlutir sameigenda í jörðinni Króki, með ræktun, rétt, girðingum, vegum, íbúðarhúsi, fjósi, hlöðu, votheysturni og haughúsi þannig að stefnandi á 52,083%, stefndu í máli þessu hvert um sig 7,6389% og Ágústa I. Hólm 2,083%, allt í óskiptri sameign.  Fjárhús, fjós og húseignin Litli Krókur skiptist milli sameigenda í þeim hlutföllum er eignum þessum var úthlutað úr dánarbúi Guðbjarts og Gunnleifar.   Stefnandi á því 4.166% að óskiptu í þessum byggingum.  Ekki hafa orðið breytingar á eignahlutföllum þessum fyrir utan það að stefndi, Ólafur Guðbjartsson, hefur keypt eignarhlut Ágústu Ingibjargar Guðbjartsdóttur.

3.             Eins og að framan greinir náðist ekki samkomulag með málsaðilum um skiptingu sameignarinnar með tilstuðlan skiptastjórans Jóhanns Níelssonar hrl. og leitaði stefnandi því  til sýslumannsins í Reykjavík og óskaði eftir því að hann tilnefndi matsmenn til þess að fara með landskipti á jörðinni Króki í samræmi við ákvæði landskiptalaga. Hinn 31. maí 1995 voru kvödd til þess verks Guðrún Sigtryggsdóttir lögfræðingur og Stefán Ingólfsson verkfræðingur.  Á grundvelli landskiptalaga nr. 46/1941 mótmælti lögmaður stefndu landskiptagerðinni með bréfi 7. júlí 1995.  Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á þau andmæli og felldi niður landskiptin og kvaðningu tilgreindra matsmanna.  Stefnandi skaut þeirri ákvörðun sýslumanns til dómsmálaráðuneytis sem staðfesti hana síðla árs 1995.   Náðu því landskipti ekki fram að ganga með þessum hætti.

4.             Með beiðni 7. maí 1996 krafðist stefnda, Steinunn Guðbjartsdóttir, uppboðs til slita á sameign aðila máls þessa að Króki. Við fyrirtöku beiðninnar hjá sýslumanninum í Reykjavík 29. ágúst 1996 mótmælti stefnandi því að uppfyllt væru skilyrði til að uppboð færi fram til slíkra slita, þar sem sameignin væri skiptanleg. Við fyrirtöku 4. september 1996 ákvað sýslumaður að taka mótmæli stefnanda til greina og stöðvaði framgang uppboðsins.

Þessari ákvörðun sýslumanns var skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti ákvörðun sýslumanns með úrskurði uppkveðnum 9. maí 1997, samanber málið nr. Z-16/1996. Úrskurður þessi var ekki kærður til Hæstaréttar.  Í forsendum hans segir:   “Við úrlausn þessa máls verður að líta til þess að land jarða er almennt skiptanlegt og að við skipti á jörðinni Króki virðist ekki þurfa að byggja á sjónarmiðum um nýtingu lands eða mannvirkja til hefðbundins búskapar.   Sóknaraðili þykir með vísan til ofangreinds ekki hafa leitt að því nægjanlega sterkar líkur að skipting jarðarinnar sé óframkvæmanleg.  Með hliðsjón af framangreindum staðreyndum um stærð jarðarinnar, hús sem á henni eru og þess sem fram er komið um nýtingu hennar þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á hvaða verðmæti það séu sem fara forgörðum við skipti jarðarinnar í sjö hluta og ekki leitt nægjanlega sterkar líkur að því að samanlagt verðmæti hlutanna yrði verulega minna en jarðarinnar óskiptrar.     Þá hafa engin gögn verið lögð fram eða haldbær rök leidd að því að kostnaður við skiptin yrðu verulega meiri en almennt gerist við skipti á jörðum.”

5.             Þann 5. júlí 1996 var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni stefnanda þessa máls um að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir menn til þess að meta hvort unnt væri að skipta landi jarðarinnar Króks og hvernig þau skipti yrðu haganlegust.  Lögmaður stefndu mætti við þingfestingu beiðninnar og mótmælti umbeðinni dómkvaðningu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 16. september 1996 í málinu nr. M-25/1996  var ákveðið að dómkvaðning skyldi ná fram að ganga en þó þannig að synjað var að leggja þá spurningu fyrir matsmenn hvernig skipti sameignarinnar væru haganlegust þannig að hver sameigenda fengi land sem næmi sínum eignarhluta.  Til að framkvæma umbeðið mat, að því leyti sem fallist hafði verið á matsspurningar, voru þann 15. nóvember 1996 dómkvaddir Þórarinn Magnússon verkfræðingur og Kristján Jónasson héraðsráðunautur.

Matsgerð þeirra er dags. 13. maí 1997.   Samkvæmt matsgerð er það niðurstaða matsmanna að unnt væri að skipta jörðinni að öllu leyti milli sameigenda, þannig að hver fái í sinn hlut land sem að verðmæti, með tilliti til legu, landgæða og skipulags, samsvaraði eignarhlutdeild hans af sameignarlandinu. Þá var það niðurstaða matsmanna að skiptin á sameigninni hefðu ekki í för með sér tjón á henni.  Matsmenn mátu einnig verðmæti húsbygginga þeirra sem eru í sameign aðila máls þessa og er kröfugerð í aðalkröfu lið 1 C byggð á því mati.  Matsmenn mátu stærð hæfilegrar lóðar í kringum Krók vera 2.500 fermetra og verðmæti hennar væri 500.000 krónur.  Af hálfu matsþola, þ.e. stefndu í þessu máli, hefur ekki verið krafist yfirmats.

6.             Faðir málsaðila stundaði hefðbundinn búskap á jörðinni, til framleiðslu bæði lambakjöts og mjólkur. Eftir lát hans sá stefndi, Ólafur, að mestu um búreksturinn fyrir hönd dánarbúsins. Síðar eignaðist hann bústofninn með samningum við aðra erfingja.  Þá eignaðist stefndi, Ólafur,  rétt annarra sameigenda en stefnanda til greiðslumarks jarðarinnar Króks samkvæmt yfirlýsingu 3. júní 1996. Með því að stefndi, Ólafur Guðbjartsson,  hélt áfram búsetu að Króki og stundaði þar landbúnaðarstarfsemi áfram án samþykkis eða heimildar stefnanda, sem meirihlutaeiganda þeirra eigna sem stefndi var að nýta, krafðist stefnandi þess með bréfi 12. febrúar 1996 að hann rýmdi jörðina og mannvirki hennar innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins.Við þessu var ekki orðið af hálfu stefnda og krafðist stefnandi þá útburðar hans af jörðinni.  Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 301/1996 sem upp var kveðinn 27. ágúst 1996 var útburðarkröfunni hafnað. Í forsendum dómsins kom fram að stefnandi, sem meirihlutaeigandi, teldist eiga rétt á að víkja stefnda af eigninni en þar sem stefndi hefði búið jörðina í tæp sex ár frá andláti föður aðila þá ætti hann rétt á uppsögn með hæfilegum fyrirvara. Að fenginni þessari niðurstöðu sendi stefnandi stefnda uppsagnarbréf sem birt var honum 25. september 1996 og var uppsagnarfrestur 6 mánuðir frá 1. október 1996 að telja.   Samkvæmt því skyldi afnotum vera lokið 1. apríl 1997.  Stefndi varð ekki við kröfu um að víkja af eigninni eftir að uppsagnarfresti var lokið og leitaði stefnandi því að nýju útburðar hans af eigninni.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 1. október 1997 var fallist á  að víkja stefnda ásamt öllu er honum tilheyrði þ.m.t. sauðfé, vélum, tækjum og öðru lausafé af jörðinni Króki og mannvirkjum þeim sem stefnandi á meirihluta í. Synjað var hins vegar um útburð úr þeim mannvirkjum sem stefnandi á 4.1667% í.  Af hálfu stefnda var þessi úrskurður kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann þann 3. nóvember 1997 með dómi í málinu nr. 434/1997. Á grundvelli þessa dóms var stefndi síðan borinn af eigninni með atbeina sýslumannsins í Reykjavík 12. janúar 1998 og lauk þá afnotum hans af eignum þeim sem stefnandi á meirihluta í.  Hins vegar hélt hann áfram afnotum af mannvirkjum þeim sem stefnandi á 4.1667% í og hefur umráð þeirra enn í dag.   Hefur hann haft sauðfé á húsi sem kallað er nýrra fjós.  Að öðru leyti telst sameignin vera í sameiginlegum umráðum aðila máls þessa í samræmi við almennar reglur eignaréttar um slík umráð og inntak þeirra.

7.             Með bréfi 13. ágúst 1996 gerði stefnandi stefndu tilboð um kaup á eignarhluta þeirra í sameigninni.   Því tilboði var hafnað en gert tilboð á móti um kaup á hlut stefnanda í sameigninni með bréfi dags. 15. ágúst 1996 sem stefnandi hafnaði.

8.               Með bréfi 17. október 1997 óskaði lögmaður stefnanda eftir upplýsingum frá Framleiðsluráði landbúnaðarins um skráningu greiðslumarks og handhöfn beingreiðslna á jörðinni.  Með bréfi Framleiðsluráðs 30. október 1997 kom í ljós að stefndi, Ólafur,  hafði á fundi framkvæmdanefndar Framleiðsluráðs landbúnaðarins verið skráður sem framleiðandi sauðfjárafurða að Króki.  Stefnandi telur að þessi skráning hafi farið fram án heimildar og án vitundar stefnanda sem augljóslega sé í bága við lög nr. 99/1993 en stefnandi hafði fengið staðfestingu þann 26. janúar 1996 að dánarbú Guðbjarts Guðbjartssonar væri skráð handhafi beingreiðslna og að greiðslumark í sauðfé væri 147,2 ærgildi, sbr. símbréf Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Eftir að stefndi, Ólafur, hafði verið borinn út af jörðinni Króki í janúar 1998 taldi stefnandi að þar með hlyti að vera lokið ólögmætum afnotum hans af greiðslumarki að Króki og var Framleiðsluráði kynnt að framkvæmd útburðarins hafði verið lokið þann 12. janúar 1998 með bréfi dags. 5. mars 1998.

Með bréfi dags. 14. júlí 1998 var stefnanda tilkynnt að ákveðið hefði verið að skipta upp greiðslumarki jarðarinnar Króks á milli aðila máls þessa þannig að 53,6 ærgildi kæmu í hlut stefnanda en 93,6 ærgildi kæmu í hlut annarra eigenda jarðarinnar. 

Stefnandi skaut þessari ákvörðun til úrskurðarnefndar skv. 42. gr. laga nr. 99/1993.    Felldi hún ákvörðun Framleiðsluráðs úr gildi þann 2. október 1998 og úrskurðaði að greiðslumark skyldi skiptast með sama hætti og eignahlutföll jarðarinnar.   Samkvæmt því fylgja 76.67 ærgildi eignarhlut stefnanda en 70,53 ærgildi eignarhluta annarra.

9.             Með stefnu útgefinni 13. október 1998 höfðaði stefndi, Ólafur, mál á hendur stefnanda og krafði hann um skaðabætur vegna tjóns er hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna þess að lokað var fyrir vatn í íbúðarhúsinu að Króki en tengd hafði verið vatnslögn án heimildar út í útihús það sem stefndi hélt fé sitt í.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 30. september 1999 var stefnandi sýknaður af bótakröfum stefnda, þar sem hann var ekki talinn bótaskyldur vegna tjóns þess sem stefndi taldi sig hafa orðið fyrir og reyndi því ekki á gagnkröfur stefnanda.  Þar sem krafa stefnda í máli þessu náði ekki áfrýjunarfjárhæð leitaði hann tvívegis eftir leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar málsins en var synjað.

10.             Stefnandi krafðist í framhaldi af þessu skaðabóta úr hendi stefnda, Ólafs, fyrir afnot hans af eignarhluta stefnanda í sameigninni að Króki frá 16. maí 1995 þar til afnotum lauk með útburði í janúar 1998.  Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr.  302/2002, sem upp var kveðinn 13. febrúar 2002 var kröfum stefnanda hafnað.

11.    Með bréfum til stefndu dags. 15. júní 2000 setti stefnandi enn fram kröfur um skipti sameignarinnar að Króki og gerði þar grein fyrir þeirri spildu sem hann gerði kröfu til þess að fá skipt sér til handa.   Kröfugerð í máli þessu er í megindráttum í samræmi við þær kröfur sem þar voru settar fram.  Af hálfu stefndu var ekki fallist á þessar kröfur og er málarekstur því nauðsynlegur enda ekki aðrar leiðir færar til þess að skipta sameigninni svo sem rakið hefur verið.

II.

Málsástæður og lagarök stefnda, Guðjóns, fyrir frávísun málsins.

Í fyrsta lagi er byggt á því að málið sé svo vanreifað af hálfu stefnanda að ekki verði komist hjá því að vísa því frá dómi.  Málavaxtalýsing stefnanda ber það með sér að þó nokkuð skorti á að öll sameign aðila málsins sé tekin undir málsóknina, en eins og skilja megi af stefnu er meining stefnanda sú að ná fram endanlegri skiptingu á jörðinni og sameign aðila málsins sem ekki hefur tekist hingað til.

Í öðru lagi skortir mat á verðmæti landsins eftir því hvar það liggur á jörðinni.  Stefndi telur aðferðarfræði þá sem stefna byggir á, að líta einungis til flatarmáls jarðarinnar, ekki gefa rétta mynd ef meiningin er að skipta landinu eftir verðmæti þess, svo sem rétt er að gera.  Engin sönnun liggur fyrir um það af hálfu stefnanda að sú aðferðarfræði sem hann miðar við í kröfugerð sinni í stefnu sé sú sem gefi réttasta og sanngjarnasta niðurstöðu við skiptingu jarðarinnar.  Raunar er augljóst að þessi skipting er mjög óhagfelld sérstaklega fyrir stefnda, Guðjón, þar sem hann á íbúðarhús á jörðinni.  Skv. flatarmálsútreikningi ætti stefndi, Guðjón, að eignast um 4,7 ha lands við skiptinguna, en í aðalkröfu stefnanda er einungis reiknað með að hann fái 2.500 fm. lóð í kring um hús sitt, en annað land allt annars staðar á jörðinni.  Augljóslega er þessi skipting því óhagstæð fyrir stefnda, Guðjón.  Stefnandi byggir á því í málatilbúnaði sínum að það sé honum mikilvægt að fá samfellda spildu í kring um húseignir sínar á lóðinni.  Stefnandi virðist ekki líta svo á að stefndi, Guðjón, eigi að njóta sömu réttinda við skiptin. 

Stefndi telur að stefnanda hefði verið í lófa lagið að afla álits dómkvaddra matsmanna um réttláta skiptingu jarðarinnar til að tryggja þessa sönnun.  Þetta gerði stefnandi ekki og er málið því svo vanreifað að þessu leyti að frávísun er nauðsynleg.

Í þriðja lagi er á það bent að ekki liggur mat dómkvaddra matsmanna fyrir því að það verð sem stefnandi sé tilbúinn til að greiða fyrir húsin, sem hann á í sameign með öðrum aðilum málsins, sé sanngjarnt og rétt verð.  Stefndi telur að  stefnanda hafi verið í lófa lagið að leggja fram matsgerð um þetta atriði einnig, en augljóst er að 7 ára gömul matsgerð gefur enga mynd af raunverulegu verðmæti þeirra eigna í dag. 

III.

Málsástæður og lagarök stefnda, Ólafs, fyrir frávísun málsins.

Frávísunarkrafan er byggð á 2. mgr. 18. gr. eml. Byggt er á því að um sé að ræða óskipta sameign og krafan sé höfð uppi um hagsmuni stefndu sem sameigenda að Króki. Óumdeilt sé að stefndi, Ólafur, nýti fjós á lögbýlinu Króki fyrir sauðfé sem stefnandi á aðeins rúm 4% í. Hann hafi tekjur af rekstrinum og verði því fyrir tjóni ef stefnanda verði heimilað að leysa húsin til sín.  Ólafur telur einnig að hann verði fyrir tjóni ef fallist verður á sjónarmið stefnanda gagnvart öðrum húsum. Einnig telur hann sig verða fyrir tjóni gagnvart lögbýlisrétti jarðarinnar en hann á greiðslumark á lögbýlinu og vísar hann til 38. gr. laga nr. 99/1993. Ólafur bendir á að stefnandi hyggst greiða honum 151.498 krónur fyrir allan hans húsakost á Króki en ekkert hyggst hann greiða fyrir lögbýlisréttinn og þau hlunnindi. Hann bendir  á hagstæð lán sem gefist út á lögbýli frá lánasjóði landbúnaðarins, einnig lág fasteignargjöld af lögbýli. Við flutning frávísunarkröfunnar upplýsti Ólafur að engin dýr væru á jörðinni í dag.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnd, Önnu, Hólmfríðar, Guðbjarts og Steinunnar, fyrir frávísun málsins.

Af hálfu stefndu er áréttað að eins og krafan er sett fram er erfitt að greina á milli forms og efnis.  Krafan um frávísun málsins er byggð á eftirfarandi málsástæðum.

Í fyrsta lagi á því að Héraðsdómi sé ætlað að fara út fyrir verksvið dómstólanna og því eigi að vísa málinu frá dómi, sbr. lokamálslið 1. mgr. 24. gr. eml.  Dómstólnum sé í raun ætlað að framkvæma skipti og leggja mat á sakarefnið sem í eðli sínu er “frjálst” mat sem á undir stjórnvöld eða a.m.k. undir sönnunarfærslu sem er á færi aðila einna. 

Stefndu telja að með þessu hunsi stefnandi meginreglur réttarfarslaga um forræði aðila á sakarefni og sönnunarfærslu og ætli dómstólnum að verða einhvers konar rannsóknarréttur sem eigi að finna út úr þeim atriðum sem stefnandi vill ekki leggja á sig að finna út úr eða kosta til.  Sömuleiðis virðist stefnandi ekki hafa ratað réttu leiðirnar í málinu og hendir málinu til dómstólanna í von um að þeir geti gert eitthvað við það.  Sömuleiðis er eins og hann ætli stefndu að lappa upp á málið fyrir sig að einhverju leyti. 

Í öðru lagi telja stefndu dómkröfuna ekki þess eðlis að dómstólar geti leyst úr henni. Stefndu benda á að til þess að hægt sé að gera kröfur á hendur stefndu verði þær að vera þess efnis að stefndu geti orðið við þeim.  Stefndu telja svo ekki vera í málinu enda hafa þeir ekki forræði sakarinnar né eiga alla þá hagsmuni sem taka þarf afstöðu til.  Stór hluti af því sem krafist er á undir mismunandi stjórnvöld að leysa úr, samanber eftirfarandi:

1.        Skv. 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þarf leyfi borgarinnar til að skipta jörðinni.  Slíks leyfis hefur ekki verið aflað enda hefur engin vinna farið fram í samræmi við þessa grein. 

2.                    Þegar málið var höfðað giltu jarðalög nr. 76/1965 um lögbýli.  Skv. þeim þarf skiptingin að miða við hagsmuni sveitarfélags og þeirra sem “landbúnað stunda”, sbr. 1. gr.

3.                    Ekki hefur stefnandi leitt huga að því hvernig uppfylla eigi skilyrði 12. gr. þágildandi jarðalaga en þar þarf samþykki ráðherra til að taka land úr landbúnaðarnotum og fyrst þarf að samþykkja það af viðkomandi jarðanefnd og sveitarstjórn á grundvelli fyrirliggjandi umsagnar Skipulags ríkisins.

4.                    Ekki er í stefnu gerð nein tilraun til að fjalla um 3. mgr. 12. gr. eða hvernig eigi að uppfylla ákvæði þessarar greinar en eins og dómkrafan er orðuð ætlast stefnandi til að dómstóll taki ákvörðun um það sem ekki heyrir undir hans valdsvið.

5.                    Stefnandi virðist ætla að búta jörðina upp án þess að taka afstöðu til þess hver sé hin upprunalega jörð og þar með lögbýlið.  Af 13. gr. eldri jarðalaga megi ráða að gert er ráð fyrir að tekin sé afstaða til þess við uppskipti nema jörð sé fyrst tekin úr landbúnaðarnotum.  Í þessu samhengi þykir sérkennilegt að krafist er ráðstöfunar fyrir atbeina dómstóla sem er í andstöðu við fyrirmæli jarðalaga og skv. 18. gr. því refsiverð.  Málsmeðferðin er brýnt brot á 2. gr. stjórnarskrárinnar.

6.                    Eftir að mál var höfðað tóku gildi jarðalög nr. 81/2004 en þau tóku gildi 1. júlí 2004.  Í því sambandi hefði stefnandi þurft, áður en hann höfðaði málið, að huga að 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 13. gr. og 14. gr.  Ekkert af þessu hefur verið gert.  Dómsorð að kröfu stefnanda yrði óþinglýsingarhæft sbr. 54. gr. laga nr. 81/2004.  Væri það afar sérstæð staða.

Þótt stefndu yrðu dæmd eftir kröfum stefnanda væri ekki hægt að fylgja dómnum eftir með aðför enda með öllu óvíst að sú skipting, sem þarna er lögð til, yrði samþykkt af stjórnvöldum.

Í þriðja lagi telja stefndu kröfuna vanreifaða. Það þurfi að gæta að ákvæðum 72. gr. stjórnarskrár, en þar eru tvö skilyrði sett fyrir að menn láti eign sína af hendi.  Annað skilyrðið er fyrir hendi sem lagaheimild og er það dregið í efa af hálfu stefndu.  Hitt skilyrðið er að fullt verð komi fyrir.  Í því felst að verðmætarýrnun má ekki verða við skiptinguna þegar tekið er tillit til markaðsvirði og notagildis hins útskipta hluta, sölumöguleika hans og kostnaðar við skiptin.  Ekki hefur verið gerð grein fyrir neinum þessara atriða.  Stefnandi hefur ekki varpað nægilegu ljósi á hvort verðmæti fari ekki til spillis en í matsgerðinni, sem hann vísar til og reynir að byggja einhverjar kröfur á, kemur fram að lega og landgæði séu mismunandi og þar af leiðandi er verðgildi hinna ýmsu svæða mismunandi.  Ekki verður séð í dómkröfum að tekið sé nokkurt tillit til þess sem matsmenn nefni, sem er að meta ræktað land á skipulögðu íbúðarsvæði og utan þess, óræktað land á skipulögðu íbúðarsvæði og utan þess, ræktanlegt og óræktanlegt.  Því síður að farið sé út í þá undirflokkun sem matsmenn telja nauðsynlega. 

Ekki er gerð tilraun til að endurmeta einstök mannvirki en matsgerð var gerð þ. 13.5.1997 fyrir meira en 7 árum.  Frá þeim tíma hefur margt breyst í skipulagsmálum og vegamálum og má t.d. benda á áform um Sundabraut.  Ekki er gerð grein fyrir því hvort þessi skipting leiði til að eignarhlutur annarra verði jafnverðmætur og hvort sá hlutur sé skiptanlegur.  Sé hann ekki skiptanlegur hvort hann sé þá seljanlegur.  Ekki er gerð grein fyrir því hvernig umferðarrétti og vegalagningu eigi að vera háttað.  Ekkert liggur fyrir um að skiptingu sé hér haganlega fyrir komið.  Þá sé ekkert minnst á Litla-Krók.

Skv. stefnu er byggt á meginreglum landskiptalaga en ekki er gerð grein fyrir með hvaða hætti tekið er tillit til þeirra atriða sem í landskiptalögum greinir.

Stefndu telja þessa þætti vanreifaða.  Ekki er hægt að bæta úr vanreifun undir rekstri máls vegna þess að hún lýtur að grundvelli þess og skerðir möguleika stefndu á að taka til lögheimilaðra varna í greinargerð og þar með yrði jafnræði málsaðila raskað.  Þrautavarakrafa stefnanda keyrir um þverbak að þessu leyti.

Að því leyti sem annmarkar þessir leiða ekki til frávísunar myndu þeir leiða til sýknu.  Jafnframt verður í umfjöllun um sýknukröfuna vikið að atriðum sem eru óupplýst og ósönnuð og styrkir sú umfjöllun jafnframt aðalkröfuna. 

V.

Sjónarmið réttargæslustefnda, Reykjavíkurborgar.

Ekki er krafist frávísunar af hálfu réttargæslustefnda, heldur einungis málskostnaðar.  Réttargæslustefndi taldi að málið ætti ekki undir dómstóla.  Hann vísaði til 30. gr. skipulagslaga að samþykki sveitarstjórnar þyrfti og það lægi ekki fyrir. Hann taldi að með dómkröfunni væri skautað fram hjá nefndu skilyrði. 

VI.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun málsins.

Stefnandi kvað grundvöll málsins vera skýran.  Hann taldi að búið væri að reyna ýmsar leiðir til að skipta sameigninni, til dæmis með uppboðssölu, og einnig hafi átt að dómkveðja matsmenn til að gera tillögu að skiptingu, en það ekki tekist.  Þetta væri sú leið sem eftir væri og stefnandi taldi hana heimila.  Hann mótmælti því að 24. gr. laga um meðferð einkamála ætti við.  Þau lagaákvæði, þ.e. 30. gr. skipulagslaga svo og jarðalögin, stæðu því ekki í vegi að dómstóll gæti tekið kröfuna til greina.  Stefnandi upplýsti að þegar dómur lægi fyrir myndi hann fara til sveitarstjórnaryfirvalda og fá samþykki þeirra og taldi ekki mun vera á, hvort komið væri til yfirvalda með samning milli aðila eða dóm.  Þá taldi hann að engin landbúnaðarstarfsemi væri á jörðinni og ætti því tilvitnun til jarðalaga ekki við.  Þá taldi hann tilvitnun til þinglýsingarlaga þýðingarlausa.

Stefnandi hafnaði því að krafan væri vanreifuð.  Óvefengt væri að hann ætti rúm 52% í jörðinni Króki.  Hann vildi skipta eigninni og gerði því þá dómkröfu sem fram kemur í stefnu og hann telur grundvöll málsins skýran.  Stefnandi hafnar rökstuðningi um vanreifun.  Hann hafði hugsað sér, ef stefndu myndu ekki fallast á dómkröfuna, að óska eftir því að matsmenn yrðu dómkvaddir til að meta meðal annars verðmætið. Ef landskikinn er dómkrafan fjallar um er of verðmætur miðað við landið í heild, myndu dómstólar minnka hann þannig að sanngjörn lausn fengist.

VII.

Forsendur og niðurstaða.

Eins og málsatvikalýsing ber með sér, hefur langvarandi ágreiningur verið með aðilum málsins varðandi sameign þeirri á jörðinni Króki. Óumdeilt er að stefnandi eigi 52.083% jarðarinnar.  Hann vill í máli þessu skipta sameigninni, þannig að hann fái landspildu þá er í dómkröfum greinir og er stærð hinnar umkröfðu spildu reiknuð hlutfallslega. 

Þau lagaúrræði sem eiga við um slit á sameign er í 2. mgr. 8. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.  Skilyrði samkvæmt því ákvæði er meðal annars, að  sameigninni verði ekki skipt milli eigenda án verulegs tjóns eða kostnaðar.  Það liggur fyrir í málinu að einn stefndu í þessu máli gerði á árinu 1996 kröfu um slit á sameigninni á grundvelli ofangreindrar lagaheimildar. Stefnandi þessa máls tók til varnar. Lyktaði því máli þannig að krafan var ekki tekin til greina og litið meðal annars svo á að stefnda í þessu máli hafi ekki leitt að því nægjanlega sterkar líkur að skipting jarðarinnar sé óframkvæmanleg. 

Dómurinn lítur svo á, að stefnandi eigi það lagaúrræði að setja ágreining sinn fyrir dómstóla. Ljóst er að ef svo væri ekki gæti svo farið að aðilum væru allar bjargir bannaðar ef lagaskilyrðum 2. mgr. 8. gr. nauðungarsölulaganna yrði ekki fullnægt.  Því hafnar dómstóllinn þeirri málsástæðu stefndu að vísa eigi máli þessu frá á grundvelli 24. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Vandinn er hins vegar sá í þessu máli sem öðrum að setja kröfuna þannig fram að hún sé dómtæk og málatilbúnaðurinn uppfylli skilyrði réttarfarslaga.  Að mati dómsins eru ýmsir hnökrar á málatilbúnaði stefnanda sem gera það að verkum að því beri að vísa frá dómi.

Eins og að framan greinir er stærð spildunnar sem krafist er eignarhalds á tilgreind án þess að tillit sé tekið til verðmætis landsins.  Augljóst er að landið er mjög misverðmætt eftir legu þess og landgæðum. Brýn nauðsyn er því til að reifa í stefnu sjónarmið um verðmæti landsins og sýna fram á að um haganleg skipti sé að ræða og þau séu án tjóns fyrir aðra sameigendur. Sérstaklega er það nauðsynlegt þegar höfð er hliðsjón af  72. gr. stjórnarskrárinnar. Málatilbúnaður stefnanda er vanreifaður hvað þetta atriði varðar.  Að mati dómsins bætir síðar til komin matsgerð ekki úr þessum annmarka. 

Þá ber einnig að líta til þess, að leyfi opinberra aðila skortir í máli þessu til þess að hægt sé að skipta jörðinni og er málið því vanreifað að því leyti. Ekki er fallist á þau sjónarmið stefnanda að unnt sé að afla þessara leyfa að gengnum dómi.  Er hér til dæmis  vísað til 30. gr. laga nr. 73/1997, en samkvæmt því ákvæði þarf leyfi sveitarstjórnar  til þess að jörðinni verði skipt og einnig t.d. 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976 en leyfi ráðherra þarf sé jörðin notuð til landbúnaðar, en nefnd jarðalög giltu er mál þetta var höfðað.    

Þegar af þeim ástæðum sem raktar eru hér að framan er máli þessu vísað frá dómi. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Kristinn Bjarnason hrl.

Stefndi, Ólafur Guðbjartsson, flutti mál sitt sjálfur.

Af hálfu stefndu, Guðjóns, Önnu, Hólmfríðar, Guðbjarts og Steinunnar Guðbjartsbarna, flutti málið Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Af hálfu réttargæslustefnda flutti málið Anton Björn Markússon hdl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað  frá dómi.  Málskostnaður fellur niður.