Hæstiréttur íslands

Mál nr. 386/2006


Lykilorð

  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Skriflegur málflutningur


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. nóvember 2006.

Nr. 386/2006.

Helgi Ingvarsson

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

dánarbúi Gunnars Helgasonar

Þóru Ágústsdóttur

Þorsteini Guðjónssyni

Sigurgeir Guðjónssyni

Pálma Guðjónssyni

Sigurveigu Guðjónsdóttur

Erni Helga Guðjónssyni

Birni Guðjónssyni

Ágústu Guðjónsdóttur

Bergþóri Guðjónssyni

Ísleifi Helga Guðjónssyni og

Hirti Guðjónssyni

(enginn)

 

Fasteign. Eignarréttur. Hefð. Skriflegur málflutningur.

H stefndi sameigendum sínum að jörðinni Hlíðarenda til viðurkenningar á eignarrétti hans á tilteknum húseignum, sem stóðu á jörðinni, og lóðum umhverfis þær. Ekki var fallist á að sýnt hefði verið fram á að móðir H hefði keypt umrædd fasteignarréttindi. Hins vegar talið að hún hefði haft umráð yfir íbúðarhúsinu á jörðinni í fullan hefðartíma, sem útilokuðu aðra frá afnotum þess. Stóð 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð ekki í vegi fyrir því að fallist yrði á að hún hefði hefð að húseignina. Ekki var hins vegar talið að umráð yfir húsinu hafi útilokað aðgang eða afnot sameigenda H að stærra landsvæði en það stóð á. Var því viðurkenndur eignarréttur hans að íbúðarhúsinu ásamt því landi sem húsið stendur á.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur  Börkur Þorvaldsson.

 Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júlí 2006. Hann krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur sinn að íbúðarhúsi og 986 m² lóð umhverfis það á jörðinni Hlíðarenda í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra, sem auðkennd er með nánar tilgreindum hnitum samkvæmt uppdrætti. Einnig krefst hann með sama hætti viðurkenningar á eignarrétti að rústum útihúsa og 2.697,8 m² lóð umhverfis þær á sömu jörð, einnig í samræmi við nánar tilgreind hnit samkvæmt uppdrætti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994, ber að líta svo á að þeir krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Við andlát Helga Erlendssonar árið 1967 eignuðust þrjú börn hans, Gunnar Helgason, Guðjón Helgason og Ingibjörg Svava Helgadóttir jörðina Hlíðarenda í Fljótshlíð í óskiptri sameign. Viðurkenningarkröfur sínar í máli þessu reisir áfrýjandi aðallega á því að móðir hans Ingibjörg Svava hafi keypt íbúðarhús og útihús á jörðinni af samerfingjum sínum. Verði það ekki talið sannað reisir hann kröfur sínar á því að hann hafi öðlast eignarrétt að þeim fyrir hefð. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, eru tekin af tvímæli um að áfrýjandi sé eigandi þess hluta jarðarinnar Hlíðarenda sem áður var í eigu móður hans.

 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjanda hafi ekki tekist sönnun þess að móðir hans hafi keypt hin umdeildu fasteignarréttindi af bræðrum sínum.

 Stefndu hafa viðurkennt að móðir áfrýjanda hafi að mestu haft umráð íbúðarhússins að Hlíðarenda um áratugaskeið. Verður ráðið af gögnum málsins að þau umráð hafi útilokað aðra frá afnotum hússins og breytir engu þar um þótt annar bræðranna hafi haft einhvern aðgang að salerni í húsinu. Hefur móðir áfrýjanda samkvæmt gögnum málsins haft eignarráð hússins í fullan hefðartíma. Áfrýjandi krefst, eins og að framan er rakið, viðurkenningar á eignarrétti að lóð umhverfis íbúðarhúsið. Við afmörkun hennar kveðst hann fylgja ummerkjum eldri girðinga. Engin gögn eru í málinu um þessar girðingar eða hversu lengi þær stóðu. Hefur áfrýjanda því ekki tekist að sýna fram á að eignarráð hans yfir íbúðarhúsinu hafi útilokað aðgang eða afnot sameigenda hans af stærra landsvæði en íbúðarhúsið stendur á. Hið sama gildir um útihúsin og landspilduna umhverfis þau, en í málinu nýtur lítilla gagna um umráð móður áfrýjanda eða afnot bræðra hennar að þeim.

 Samkvæmt framansögðu hefur áfrýjanda ekki tekist að færa sönnur á að móðir hans hafi keypt umrædd fasteignarréttindi af bræðrum sínum. Á hinn bóginn hafa stefndu heldur ekki leitt að því líkur að móðir áfrýjanda hafi fengið þau til láns eða á leigu eða með öðrum hætti skuldbundið sig beint eða óbeint til að skila þeim aftur eða að hún hafi mátt vænta þess að um tímabundin afnot væri að ræða. Af þessum sökum stendur 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð því ekki í vegi að hefð geti unnist. Samkvæmt framansögðu verður viðurkenndur eignarréttur áfrýjanda að íbúðarhúsi að Hlíðarenda í Fljótshlíð í Rangaárþingi eystra ásamt því landi sem húsið stendur á.

Rétt er að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkenndur er eignarréttur áfrýjanda, Helga Ingvarssonar, að íbúðarhúsi á jörðinni Hlíðarenda í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra, ásamt því landi sem húsið stendur á.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 24. apríl 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. mars. s.l., er höfðað með stefnu birtri 25. – 31. ágúst s.l.

Stefnandi er Helgi Ingvarsson, kt. 261138-7869, Sólheimum, Hvolsvelli.

Stefndu eru Gunnar Helgason, kt. 100425-2119, Efstasundi 7, Reykjavík, Þóra Ágústsdóttir, kt. 240732-3519, Kirkjuhvoli, Hvolsvelli, Þorsteinn Guðjónsson, kt. 050461-5729, Rauðuskriðum, Hvolsvelli, Sigurgeir Guðjónsson, kt. 040168-5679, Rauðhömrum 8, Reykjavík, Pálmi Guðjónsson, kt. 060648-7199, Háaleitisbraut 101, Reykjavík, Sigurveig Guðjónsdóttir, kt. 060748-4119, Gilsbakka 5, Hvammstanga, Örn Helgi Guðjónsson, kt. 061245-2199, Sætúni 2, Hellu, Björn Guðjónsson, kt. 150147-2719, Syðri-Hömrum 2, Hellu, Ágústa Guðjónsdóttir, kt. 160653-7959, Hvolsvegi 21, Hvolsvelli, Bergþór Guðjónsson, kt. 231056-5729, Njálsgerði 4, Hvolsvelli, Ísleifur Helgi Guðjónsson, kt. 240459-3029, Sollia 1, Solbergmoen, Noregi og Hjörtur Guðjónsson, kt. 280843-7849, Nestúni 7, Hellu.

Dómkröfur stefnanda eru þær:

1)  að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að íbúðarhúsi og 986 m² lóð umhverfis það á jörðinni Hlíðarenda í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra, sem auðkennd er á uppdrætti þannig hnitmerkt: frá punkti nr. 106 (x-hnit 453187,503; y-hnit 358337,568; hæð 105,77) að punkti nr. 107 (x-hnit 453231,407; y-hnit 358329,325; hæð 109,4), frá þeim puntki að punkti nr. 108 (x-hnit 453226,454; y-hnit 358312,008; hæð 105,57) og frá þeim punkti að punkti nr. 109 (x-hnit 453218,649; y-hnit 358313,112; hæð 104,65), frá þeim punkti að punkti nr. 110 (x-hnit 453216,667; y-hnit 358306,434; hæð 104.65) og frá þeim punkti að punkti nr. 111 (x-hnit 453181,178; y-hnit 358318,337; hæð 102,85).

2)  að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að rústum útihúsa og 2697,8 m² lóð umhverfis þær á jörðinni Hlíðarenda í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra, sem auðkennd er á uppdrætti þannig hnitmerkt: frá punkti nr. 101 (x-hnit 453221,389; y-hnit 358380,133; hæð 112,14) að punkti nr. 102 (x-hnit 453288,242; y-hnit 358382,325; hæð 118,57) frá þeim punkti að punkti nr. 103 (x-hnit 453280,155; y-hnit 358312,008; hæð 105,57) og frá þeim punkti að punkti nr. 103 (x-hnit 453280,155; y-hnit 358350,688; hæð 112,47), frá þeim punkti að punkti nr. 104 (x-hnit 453250,908; y-hnit 358337,922; hæð 110.54) og frá þeim punkti að punkti nr. 105 (x-hnit 453207,896; y-hnit 358342,282; hæð 109,01).

3)    stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda hæfilegan málskostnað að mati dómsins.

 

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og jafnframt að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.

Málavextir.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að jörðin Hlíðarendi sé bær og kirkjustaður í Fljótshlíð, vel þekktur sögustaður úr Íslendingasögum.  Enginn búskapur hafi verið þar um árabil og dveljist enginn þar að staðaldri.  Engar framleiðsluheimildir fylgi jörðinni en við bæjarhlaðið standi Hlíðarendakirkja, reist 1897, en kirkja hafi staðið á jörðinni allt frá 12. öld.  Standi kirkjan á svæði ofar og til hliðar við íbúðarhúsið og við hlið hennar sé kirkjugarður sveitarinnar.

Systkinin Ingibjörg Svava, móðir stefnanda, Gunnar og Guðjón hafi eignast jörðina við lát föður þeirra, Helga Erlendssonar árið 1967.  Mun hafa staðið til að Guðjón, sem þá bjó á Rauðuskriðum, fengi jörðina til ábúðar, en úr því hafi ekki orðið, heldur hafi Guðjón nýtt jörðina til slægna.  Eftir að Guðjón hætti að nýta heimalandið hafi Ingibjörg Svava keypt íbúðarhús og útihús á jörðinni.  Hinn 19. maí 1973 hafi Oddgeir Guðjónsson, þáverandi hreppstjóri Fljótshlíðarhrepps ásamt úttektarmanni hreppsins, Jóni Kristinssyni, bónda á Lambey, gert úttekt og mat á húsunum samkvæmt ósk systkinanna.  Í úttektinni sé íbúðarhúsið, sem byggt var árið 1948, talið þarfnast mikilla endurbóta til þess að geta talist íbúðarhæft og er það metið á 78.000 krónur, en útihús á 15.000 krónur, en þau voru talin næstum ónothæf.  Að beiðni Ingibjargar Svövu vottuðu úttektarmenn í maí 1997 að umrætt mat hafi verið gert vegna kaupa hennar á íbúðarhúsinu og öllum útihúsum af sameigendum hennar, Guðjóni og Gunnari.  Þá hefur stefnandi lagt fram gögn sem hann segir vera reikningsyfirlit vegna kaupanna á húsunum og komi þar fram að kaupverðið, 62.000 krónur (2/3 af 93.000 krónum), hafi verið greitt með yfirtöku Ingibjargar Svövu á áhvílandi skuldum.

Stefnandi segir að frá því móðir hans keypti húsin á jörðinni hafi hún og eiginmaður hennar, Ingvar Þórðarson, dvalið öll sumur á Hlíðarenda á meðan heilsa þeirra leyfði.  Þau hafi haldið húsunum við og frætt gesti um sögustaðinn.  Þá hafi þau staðið skil á skyldum landeigenda, m.a. alfarið séð um greiðslu á fjallskilagjöldum.  Hafi stefnandi og fjölskylda hans hjálpað þeim, heyjað, hirt um tún og girðingar og haft eftirlit með staðnum.  Þá sé einnig rúmlega 30 m² sumarhús á jörðinni sem Helgi Erlendsson hafi heimilað syni sínum, stefnda Gunnari, að reisa, líklega fyrir um 50 árum, en í fasteignamati sé bústaðurinn sagður byggður árið 1975.  Hús þetta hafi lítið sem ekkert verið notað í mörg ár og sé sennilega ónýtt.

Stefnandi segist hafa eignast hlut móður sinnar í jörðinni sem fyrirframgreiðslu upp í arf í apríl 2002.  Í yfirlýsingu sé eignarhlutanum þannig lýst að um sé að ræða jörð og ræktað land (16,4 ha), fastanúmer 219-3763 að fasteignamati 1.681.000 krónur (33,3333%) og 63,1 m² einbýlishús, byggt 1948, fastanúmer 219-3765 að fasteignamati 1.056.000 krónur (100%).  Á þinglýsingarvottorði kemur fram að umræddu skjali hafi verið þinglýst með athugasemd um eignarrétt að íbúðarhúsi. 

Stefnandi hefur lagt fram yfirlýsingu dagsetta 29. maí 1995, undirritaða af foreldrum hans, Ingibjörgu Svövu og Ingvari Þórðarsyni.  Yfirlýsingin er þess efnis að þau sem eigendur að hluta jarðarinnar og einir eigendur allra fasteigna jarðarinnar, lýsi því yfir að stefnandi og kona hans fái ábúðarrétt þeirra og eignarrétt að þeirra hluta öðlist þau þegar skiptum á milli meðeigenda sé lokið.  Þá eru stefnanda og konu hans heimilar ráðstafanir varðandi skipulag og annað sem lúti að jörðinni.

Guðjón Helgason mun hafa látist 4. nóvember 2002 og lauk skiptum í búi hans í júlí 2004.  Mun ekkja hans, stefnda Þóra Ágústsdóttir og börn þeirra, stefndu Guðjónsbörn, hafa eignast þriðjungshlut í jörðinni.  Móðir stefnanda mun hafa látist 31. maí 2004.

Stefnandi segist um árabil og í samráði við móður sína haft í hyggju að byggja Hlíðarenda upp, bæði sem sögustað og til eigin búsetu.  Margir ferðamenn komi á hverju ári og telur stefnandi mikilvægt að búið sé á jörðinni til að sinna þeim og halda hlutum í röð og reglu.

Ingibjörg Svava, móðir stefnanda, mun um árabil hafa reynt án árangurs að ná samkomulagi við sameigendur sína um fyrirkomulag á framtíðarnýtingu jarðarinnar.  Gerð hafi verið tillaga um það árið 1999 að eigendur jarðarinnar tilnefndu menn í gerðardóm sem hefði það hlutverk að ákveða endanlega skiptingu jarðarinnar.  Var í tillögunum gert ráð fyrir tiltekinni skiptingu en meðeigendur Ingibjargar Svövu hafi komið með nýjar tillögur sem að mati hennar þrengdu heimild gerðardómsmanna um of.  Þá hafi stefndi Gunnar gengið út frá því að hann væri eigandi afgirtrar lóðar í landi jarðarinnar þar sem sumarbústaður hans stendur, en stefnandi telur þennan stefnda ekki hafa afsalskjöl fyrir því.    Þegar samkomulag náðist ekki á þessum nótum freistaði móðir stefnanda þess að fá sameigninni slitið með uppboði samkvæmt lögum um nauðungarsölu.  Sú beiðni hafi hins vegar verið afturkölluð á samþykkisfresti. 

Stefnandi mun með bréfi dagsettu 29. mars 2005 hafa farið fram á það við sameigendur sína að gengið yrði formlega frá samningi við hann um afmörkun lóðar í kringum bæjarhúsið og þá spildu sem útihúsin stóðu á, en stefnandi segir sér nauðsynlegt að fá slíku  heimildarskjali þinglýst áður en ráðist verður í endurbyggingu þeirra húsa sem hann eigi.  Mun verkfræðistofan Hönnun hf. hafa afmarkað lóðir í kringum íbúðarhúsið, samtals 986 m² og í kringum rústir útihúsa, 2697,8 m².  Segir stefnandi að við afmörkun lóðar um íbúðarhúsið hafi verið fylgt ummerkjum eldri girðinga og við afmörkun lóðar útihúsa hafi verið fylgt húsagarði og vinnusvæði þar í kring.  Hafi stefndu ekki sinnt þessari málaleitan stefnanda og því sé málshöfðun þessi óumflýjanleg.

Stefndu lýsa málavöxtum svo að við fráfall Helga Erlendssonar hafi börn hans eignast jörðina Hlíðarenda í óskiptri sameign.  Hafi orðið að samkomulagi að Ingibjörg Svava hefði að mestu afnot af íbúðarhúsi og hafi systkinin í fyrstu greitt sameiginlega skuldir og önnur gjöld af eignunum, en síðar hafi Ingibjörg Svava tekið að sér að greiða þessi gjöld.   Hafi bræður hennar litið á þetta sem leigu fyrir afnotarétt og ætlast til að húsinu yrði haldið við.  Til hafi staðið að Guðjón Helgason tæki við jörðinni, en móðir stefnanda hafi komið í veg fyrir það með því að vera einungis tilbúin til að leigja honum hlut sinn í jörðinni til eins árs í senn. 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að árið 1973 hafi Ingibjörg Svava, móðir hans, keypt af þáverandi sameigendum sínum, Gunnari og Guðjóni, íbúðarhúsið og útihúsin á Hlíðarenda og lóð umhverfis þau.  Úttekt hreppstjóra Fljótshlíðarhrepps frá 19. maí 1973 staðfesti það, sbr. yfirlýsingu frá 1997.  Sé reikningur úttektarmanna stílaður á eigendur húsa á Hlíðarenda, en Ingibjörg Svava hafi greitt hann.  Þá liggi fyrir að kaupverðið hafi verið greitt með þeim hætti að kaupandi yfirtók lán sem hvíldu á jörðinni.  Ekki hafi verið gengið frá skriflegu afsali eða lóðarsamningi við móður stefnanda vegna sölunnar, enda hafi jörðin verið að öðru leyti í eigu systkinanna.  Þá bendir stefnandi á að hvorki hafi verið krafist leigusamnings né lóðarleigu frá því móðir stefnanda eignaðist fasteignirnar 1973 og engar athugasemdir hafi verið gerðar við nýtingu hennar og stefnanda á húsinu og lóð umhverfis það. 

Stefnandi bendir á að það hafi löglíkur með sér að lóðarréttindi hafi fylgt húsunum því að öðrum kosti væri ekki um fasteignir að ræða í skilningi eignarréttar. Hafi hugtakið fasteign verið skilgreint sem afmarkaðir hlutar af yfirborði jarðar ásamt þeim verðmætum, lífrænum og ólífrænum, sem varanlega séu við landið skeytt.  Varanleg viðskeyting feli ekki aðeins í sér hvernig verðmætin séu fest við landið, heldur taki einnig til þeirra heimilda sem tengja verðmætin við það.  Fræðilega séð sé því ekki um fasteign að ræða ef hús hefur ekki varanleg lóðarréttindi.  Mannvirki án varanlegra lóðarréttinda sé ekki fasteign heldur lausafé.  Sé því eðlilegt að líta svo á að lóðarréttindi fylgi húsum stefnanda, því ella hefði það ekki varanlegan tilvistarrétt.

Stefnandi bendir á að hjá Fasteignamati ríkisins hafi íbúðarhúsið og útihúsin, á meðan þau stóðu, verið skráð eign móður hans og hafi hún greitt af þeim fasteignagjöld og síðar stefnandi.  Þá hafi húsin verið brunatryggð á nafni þeirra.

Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að hefð sé fullnuð í merkingu hefðarlaga nr. 46/1905.  Hafi stefnandi og sá, sem hann leiðir rétt sinn af, litið á umræddar fasteignir sem sína eign og farið með sem sínar í rúm þrjátíu ár eða frá árinu 1973.  Stefnandi hafi sjálfur rifið útihús sem verið hafi ónýt að hans mati og enginn hafi dregið eignarrétt móður hans í efa.  Séu skilyrði hefðarlaga um óslitið eignarhald því uppfyllt.  Stefnandi hafi orðið eigandi að umræddum eignum fyrir hefð, ef ósannað yrði talið að móðurbræður hans hefðu afsalað eignunum til hennar.

Stefnandi krefst þess, verði fallist á eignarréttarkröfur hans, að stærð lóðar umhverfis íbúðarhúsið verði ákveðin 986 m² og lóð umhverfis rústir útihúsa verði ákveðin 2697,8 m², í báðum tilvikum í samræmi við teikningu Hönnunar hf. frá 15. október 2004.  Við afmörkun lóðar um íbúðarhúsið sé fylgt ummerkjum eldri girðinga, en umhverfis rústir húsa fylgt húsagarði og vinnusvæði.  Séu lóðirnar í þeirri mynd í samræmi við aðstæður og ummerki og ættu því ekki að hafa í för með sér sérstakt óhagræði fyrir aðra eigendur jarðarinnar.

Stefnandi vísar til meginreglna samninga- kröfu- og eignarréttar og byggir málskostnaðarkröfu á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu byggja á því að það sé rangt að móðir stefnanda hafi keypt íbúðarhús og útihús á jörðinni Hlíðarenda og séu engar heimildir til um það, enginn sölusamningur hafi verið gerður, ekkert skriflegt samkomulag sé til og ekkert afsal fyrir hendi.  Þá hafi aldrei komið fram í samningaviðræðum vegna skiptingar jarðarinnar að stefnandi teldi sig eiga umrædd hús og lóð umhverfis þau og enginn fyrirvari varðandi hús og lóðir hafi komið fram við nauðungaruppboð sem haldið var á jörðinni árið 2000.  Stefnandi virðist byggja eignarrétt á fyrirframgreiddum arfi, en sú yfirlýsing fullnægi ekki kröfu erfðaréttarins um slíka samninga.  Þó svo væri þá sé yfirlýsingin skilyrt þannig að hún hafi ekki átt að taka gildi fyrr en skiptum jarðarinnar hefði verið lokið.  Virðist stefnandi því ekki hafa eignast hlut foreldra sinna með eðlilegum hætti og virðist dánarbú þeirra því vera réttur eigandi eignarhlutarins.

Stefndu benda á að á yfirlýsingu stefnanda frá 28. apríl 2002 um að hann hafi hlotið fyrirfram upp í arf hlut móður hans í jörðinni, komi fram athugasemd sýslumanns um að útgefanda yfirlýsingarinnar skorti þinglýsta eignarheimild í íbúðarhúsi.  Þá komi fram í fasteignabók athugasemd við hlut stefnanda um eignarrétt í íbúðarhúsi.  Stefndu segja öll skjöl og yfirlýsingar um eignarrétt Ingibjargar Svövu  einhliða komin frá henni og stefnanda og þá sé enn fjarstæðukenndara að stefnandi eigi rétt til þeirra lóða sem krafist sé í stefnu.  Engin framlögð gögn styðji þá kröfu og hafna stefndu henni alfarið.

Stefndu gera alvarlega athugasemd við málatilbúnað stefnanda.  Lögð séu fram 37 skjöl sem að mestu leyti komi málinu ekki við og tengist ekki kröfugerð stefnanda.  Gera stefndu þá kröfu að stefnandi greiði þeim refsimálskostnað en málatilbúnaður hans sé tilefnislaus og án nokkurrar sönnunar af hálfu stefnanda.

Stefndu vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og byggja málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 131. gr.

Niðurstaða.

Ekki er um það deilt í máli þessu að systkinin Ingibjörg Svava, móðir stefnanda, Gunnar og Guðjón hafi eignast jörðina Hlíðarenda við lát föður þeirra, Helga Erlendssonar, árið 1967.  Stefnandi heldur því fram að móðir hans hafi keypt íbúðarhúsið og útihúsin á jörðinni og lóð umhverfis þau af sameigendum sínum árið 1973, en engin skjöl liggja fyrir um þann gjörning.  Stefnandi telur að greitt hafi verið fyrir jörðina með þeim hætti að kaupandi hafi yfirtekið lán sem hvíldu á henni.  Samkvæmt yfirlýsingunni frá 29. maí 1995 áttu stefnandi og kona hans að öðlast eignarrétt að hluta Ingibjargar Svövu og Ingvars þegar skiptum á milli meðeigenda væri lokið.

Ekki virðist um það deilt í máli þessu að jörðin Hlíðarendi varð óskipt sameign barna Helga Erlendssonar við lát hans árið 1967.  Var þess freistað á sínum tíma að komast að samkomulagi um skiptingu jarðarinnar með skipan gerðardóms, en allar tilraunir í þá átt munu hafa farið út um þúfur.  Í kjölfarið freistaði stefnandi þess að krefjast nauðungarsölu á eigninni til slita á sameign í samræmi við ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991.  Umboðsmaður gerðarþola mun hafa orðið hæstbjóðandi á uppboðinu, sem haldið var 4. apríl 2000, en uppboðsbeiðnin mun hafa verið afturkölluð á samþykkisfresti.  

Stefndi Gunnar, hinn eini eftirlifandi barna Helga Erlendssonar, aftók með öllu fyrir dómi að systir hans hefði keypt íbúðarhúsið og útihúsin af þeim bræðrum.  Hann kvaðst ekki hafa verið viðstaddur úttektina sem framkvæmd var árið 1973 og mundi ekki tilefni þess að hún var gerð.

Oddgeir Guðjónsson skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði ásamt Jóni Kristinssyni metið húsin á Hlíðarenda árið 1973.  Hann kvað tilefnið hafa verið það að Ingibjörg Svava hafi verið að kaupa húsin af bræðrum sínum en ágreiningur hafi verið um verðið.

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að móðir hans hafi keypt íbúðarhúsið og útihúsin á Hlíðarenda ásamt lóð umhverfis þau af bræðrum sínum árið 1973.  Enginn kaupsamningur mun hafa verið gerður af þessu tilefni og ekki liggja fyrir í málinu neinar yfirlýsingar frá móðurbræðrum stefnanda sem gefa tilefni til að ætla að nokkur löggerningur af þessu tagi hafi verið gerður.  Þvert á móti hefur stefndi Gunnar eindregið neitað því að systir hans hafi keypt fasteignirnar af þeim bræðrum og þá er ljóst að hann var ekki viðstaddur umrædda úttekt.  Stefnandi byggir á því að umrædd úttekt staðfesti kaupin, Ingibjörg Svava hafi greitt úttektarmönnum og sé reikningur þeirra stílaður á eigendur húsa á Hlíðarenda og jafnframt er á því byggt að kaupverðið skyldi greitt með yfirtöku lána sem hvíldu á jörðinni.  Tilraunir aðila til þess að komast að samkomulagi um skiptingu jarðarinnar með skipan gerðardóms og krafa stefnanda í kjölfarið um nauðungarsölu til slita á sameign benda ekki til þess að einhugur hafi ríkt um að Ingibjörg Svava væri ein eigenda húsanna þrátt fyrir að í samningsdrögum væri gert ráð fyrir að hún ætti húsin.  Gegn eindreginni neitun stefnda Gunnars hefur stefnanda að mati dómsins því ekki tekist að sanna að móðir hans hafi keypt húsin að Hlíðarenda af bræðrum sínum og hún hafi síðan verið bær til þess að afhenda honum þessar eignir sem fyrirframgreiddan arf. 

Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi og sá sem hann leiðir rétt sinn af hafi eignast íbúðarhúsið, útihús og lóðir umhverfis þau fyrir hefð í merkingu hefðarlaga nr. 46/1905.  Stefndu halda því fram að þau systkinin hafi gert með sér óformlegt samkomulag um að móðir stefnanda hefði að mestu afnot af íbúðarhúsi ásamt Gunnari að litlu leyti, en upplýst er að stefndi Gunnar á sumarbústað á jörðinni.  Hafi systkinin í fyrstu greitt skuldir og önnur gjöld af eignunum sameiginlega en síðar hafi Ingibjörg Svava tekið að sér greiðslu gjaldanna.  Hafi bræður hennar litið á þetta sem leigu fyrir afnotarétt og hafi verið ætlast til þess að húsinu væri haldið við.  Stefndi víkur að vísu ekki að sjónarmiðum stefnanda um hefð í greinargerð sinni, en við munnlegan flutning málsins benti lögmaður stefnda á að tilvitnun stefnanda til hefðarlaga hefði engan tilgang enda væri ekki unnt að vinna hefð með leigu.  Að mati dómsins er þessi málsástæða stefndu ekki of seint fram komin. 

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga er skilyrði fyrir hefð 20 ára óslitið eignarhald á fasteign en samkvæmt 3. mgr. 2. gr. geta umráð hefðanda sem fengið hefur hlut að veði, til geymslu til láns eða leigu, ekki heimilað hefð.  Eins og rakið hefur verið hér að framan komst jörðin Hlíðarendi í óskipta sameign barna Helga Erlendssonar við lát hans árið 1967.  Hefur því verið hafnað hér fyrir dómi að Ingibjörg Svava hafi eignast íbúðarhús, útihús og lóðir umhverfis þau árið 1973 eins og stefnandi heldur fram.  Hins vegar er óumdeilt að hún hafði afnot af þessum eignum á jörðinni.  Eins og umráðum móður stefnanda yfir þessum eignum var háttað og þegar litið er til afstöðu sameigenda hennar, einkum stefnda Gunnars, verður að telja að hún hafi haft eignirnar til láns eða leigu og því girða ákvæði 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga fyrir það að stefnandi eða móðir hans, sem hann kveðst leiða rétt sinn frá,  hafi eignast umræddar eignir fyrir hefð.  Verða stefndu því sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málkostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest, en lögmenn málsaðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Gunnar Helgason, Þóra Ágústsdóttir, Þorsteinn Guðjónsson,  Sigurgeir Guðjónsson, Pálmi Guðjónsson, Sigurveig Guðjónsdóttir,  Örn Helgi Guðjónsson, Björn Guðjónsson, Ágústa Guðjónsdóttir, Bergþór Guðjónsson, Ísleifur Helgi Guðjónsson og Hjörtur Guðjónsson, skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Helga Ingvarssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.