Hæstiréttur íslands
Mál nr. 692/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Gagnaöflun
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 21. nóvember 2012. |
|
Nr. 692/2012. |
Ákæruvaldið (Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari) gegn X og (Óttar Pálsson hrl.) Y (Þórður Bogason hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Gagnaöflun. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður þar sem hafnað var kröfu X og Y um að ákæruvaldinu yrði gert að láta taka lögregluskýrslur af vitnum ákæruvaldsins í þeim tilvikum þar sem slíkar skýrslur höfðu ekki verið teknar. Þá hafði einnig verið hafnað kröfu um að tekin yrði saman skrá um tölvupóstssamskipti og símtöl X og Y og vitna frá tilteknu tímamarki. Kæru X og Y var vísað frá Hæstarétti þar sem úrskurðurinn sætti ekki kæru samkvæmt 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 19. nóvember 2012 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2012 þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að héraðsdómur legði fyrir sóknaraðila að láta taka lögregluskýrslur af tilteknum vitnum og taka saman nánar tilgreindar skrár. Um kæruheimild vísa varnaraðilar til p. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að framangreind kröfur verði teknar til greina.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Samkvæmt p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sætir kæru til Hæstaréttar úrskurður héraðsdómara um heimild til að leggja fram sönnunargagn, skyldu til að láta það af hendi til framlagningar í máli eða hald til að fylgja þeirri skyldu eftir. Hinn kærði úrskurður fól hvorki í sér úrlausn um þessi atriði né sætir hann kæru samkvæmt öðrum stafliðum sömu málsgreinar. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2012.
Með ákæru embættis sérstaks saksóknara 14. desember 2011 og framhaldsákæru 28. febrúar 2012 er ákærðu, X og Y, gefið að sök umboðssvik, í störfum sínum fyrir A hf. með tilgreindri lánveitingu til einkahlutafélagsins B, sem talin eru varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Í þinghaldi 15. nóvember sl. gerðu verjendur ákærðu þá kröfu að dómari myndi leggja fyrir sækjanda, á grundvelli 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008, að láta taka lögregluskýrslur af þeim vitnum er væru á vitnalista ákæruvalds og ekki hefði áður verið tekin lögregluskýrsla af. Þá var gerð sú krafa að dómari myndi leggja fyrir sækjanda að taka saman skrá um tölvupóstsamskipti og símtöl ákærðu og vitna frá föstudeginum 8. febrúar 2008.
Sækjandi hefur krafist þess að kröfum verjenda verði hafnað.
Verjendur vísa til þess að því er varðar kröfu um að lögregluskýrslur verði teknar af þeim vitnum sem ekki hafa áður gefið lögregluskýrslu vegna málsins að þeim sé nauðsynlegt að vita um hvað vitnin muni bera. Sé þeim það nauðsynlegt til að geta undirbúið varnir fyrir ákærðu og haldið þeim uppi í málinu. Eigi lögregla að rannsaka mál og afla allra nauðsynlegra gagna. Sé lögregluskýrsla ekki gerð hafi ekki verið fullnægt skilyrðum um rannsókn málsins, sbr. 53. og 54. gr. laga nr. 88/2008. Um lagarök fyrir kröfunni sé vísað til 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að því er varði kröfu um að sækjandi taki saman skrá um tölvupóstsamskipti og símtöl ákærðu frá föstudeginum 8. febrúar 2008, þá sé verjendum með sama hætti nauðsynlegt að fá yfirlit um þessi gögn til að unnt sé að halda vörnum uppi. Ekki liggi fyrir hvort í þessum gögnum sé að finna atriði sem gagnist ákærðu í vörn sinni og því sé nauðsynlegt að þessara gagna sé aflað.
Sækjandi hefur mótmælt kröfum ákærðu. Með skýrslutökum af vitnum sem tilgreind séu á vitnalista ákæruvalds og ekki hefur verið tekin lögregluskýrsla af sé ætlunin að leiða í ljós atvik málsins, eins og þau birtist í sönnunargögnum málsins. Það sé ákæruvaldi heimilt, enda fari sönnunarfærsla í málinu fram fyrir dómi. Að því er varði skrá um tölvupóstsamskipti og símtöl þá liggi ekki fyrir hjá lögreglu neinir heildstæðir listar um símtöl eða tölvupóstsamskipti þessara einstaklinga á umræddum degi. Verjendum sé nú sem fyrr heimilt að kynna sér á starfstöð embættisins öll þau símtöl og tölvupósta sem lögreglan hafi aflað í tengslum við rannsókn málsins svo þeir geti tekið afstöðu til þess hvort þeir telji að leggja beri einhver þeirra gagna fram í málinu. Þetta hafi verjendum staðið til boða mánuðum saman. Þá sé til þess að líta að umrædd gögn bæti engu við fyrirliggjandi sönnunargögn og séu ekki til þess fallin að upplýsa málið frekar. Um sé að ræða gögn sem skipti ekki máli að mati ákæruvaldsins og séu tilgangslaus til sönnunar.
Niðurstaða:
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 er rannsókn sakamáls í höndum lögreglu, nema örðuvísi sé fyrir mælt í lögum. Er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laganna leggja aðilar síðan fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið sé tillit til við úrlausn máls. Frumkvæðisskylda dómara við öflun sönnunargagna er að íslenskum rétti verulega takmörkuð og sú undantekning ein gerð í 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 að dómara er unnt að beina því til ákæranda að afla gagna til að upplýsa mál eða skýra ef það verður talið nauðsynlegt. Styðst þetta við þau grunnrök að það er ákæruvalds að sýna fram á sekt ákærða og verður skynsamlegur vafi í þeim efnum metinn ákærða í hag, sem aftur getur leitt til sýknu í máli, sbr. 108. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Með samsvarandi hætti er ákærða að benda á veikleika í málatilbúnaði ákæruvalds, m.a. að því er framlögð gögn varðar, sem kann að leiða til skynsamlegs vafa í máli.
Sönnunarfærsla í sakamáli fer fram fyrir dómi. Með skýrslutökum á rannsóknarstigi máls er ekki verið að marka máli þann farveg að einungis þau vitni, sem komið hafa fyrir lögreglu á rannsóknarstigi, verði leidd fyrir dóminn. Á vörn ákærðu ekki að vera áfátt þó svo vitni komi fyrir dóm, án þess að hafa borið um atvik hjá lögreglu. Þá hafa ákærðu ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að þau gögn og upplýsingar sem ákærðu fara fram á að héraðsdómari leggi fyrri sækjanda að afla, geti haft þýðingu við málsvörn ákærðu. Með vísan til þessa verður kröfum ákærðu hafnað.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu ákærðu, X og Y, um að dómari leggi fyrir sækjanda að láta taka lögregluskýrslur af vitnum þeim er fram koma á vitnalista ákæruvalds og ekki hefur áður verið tekin lögregluskýrsla af, er hafnað. Kröfu ákærðu um að sækjandi taki saman skrá um tölvupóstsamskipti og símtöl ákærðu og vitna frá föstudeginum 8. febrúar 2008, er hafnað.