Hæstiréttur íslands

Mál nr. 380/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


 

Þriðjudaginn 5. júní 2012.

Nr. 380/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. júní 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2012 var varnaraðili sakfelldur fyrir þjófnað, fjársvik, skjalafals, nytjastuld, hylmingu, eignaspjöll, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Um var að ræða mikinn fjölda brota sem framin voru á tímabilinu frá apríl 2011 til mars 2012. Varnaraðili hafði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2011 verið sakfelldur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni og dæmdur í 12 mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára. Þá var hann með dómi Héraðsdóms Suðurlands 10. janúar 2012 dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Í dóminum 4. maí 2012 voru skilorðsdómarnir teknir upp og varnaraðili dæmdur í einu lagi til að sæta tveggja ára fangelsi vegna málanna allra.

Varnaraðila var með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 3. og 4. maí 2012 gert að sæta gæsluvarðhaldi, í fyrra tilvikinu á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 en í hinu síðara á grundvelli 3. mgr. 97. gr. sömu laga eftir að áðurgreindur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur gekk hinn 4. maí 2012. Samkvæmt gögnum málsins er nú langt komin rannsókn á fjórum ætluðum brotum varnaraðila, en þar er um að ræða fjársvik 27. og 28. apríl 2012 og þjófnaðarbrot 4. apríl og 3. maí 2012.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 29. júní 2012, kl. 16.00, á grundvelli c. liðar 2. mgr. 95. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.

Í greinargerð kemur fram að kærði/dómfelldi  hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 3. maí sl., sbr. úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, R-247/2012 og R-249/2012 frá 4. maí, fyrst  á grundvelli c.- liðar 2. mg. 95. gr. sakamálalaga, en síðan einnig á grundvelli 3. mgr. 97. gr. sömu. laga, en dómur hafi fallið í máli hans 4. maí sl.

 Kærði/dómfelldi hafi hlotið með  dómi héraðsdóms Reykjavíkur  þann 4. maí sl. í  máli s-191/2012, 2 ára fangelsisdóm fyrir fjölmörg auðgunarbrot. Þar hafi kærði/dómfelldi verið sakfelldur og dæmdur fyrir fjölmörg auðgunarbrot, þjófnaði, gripdeild, fjársvik, hilmingu, nytjastuld, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot, með tveimur ákæruskjölum frá 13. og 29. mars 2012. Um hafi verið að ræða samtals um 30 brot, sem kærði/dómfelldi hafi verið ákærður fyrir einn eða með öðrum á tímabilinu frá júní 2011 fram til mars 2012, þar af hafi verið um að ræða um 9 auðgunarbrot eftir dóma, en kærði/dómfelldi hafi hlotið 1 mánaðar fangelsisdóm 10. janúar sl. við héraðsdóm Suðurlands og 12 mánaða fangelsisdóm 24. nóvember 2011 við hrd. Rvk. fyrir fjölmörg auðgunarbrot skilorðsbundið í 3 ár. Kærði/dómfelldi hafi fyrst verið úrskurðaður 3. maí sl.  í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga og  vegna ofangreind brots og  vegna  mála lögreglu:

Mál lögreglu nr. 007-2012-[...]

Þann 3. maí  2012 kl. 3.50 hafi lögregla verið á eftirliti við [...] hús nr. [...] við verslunina [...] að [...] í [...] en lögregla hafi orðið vör við bifreiðina [...], sem kærði hafi til umráða. Bifreiðinni sé ekið norður fyrir húsið, þar sem lögregla hafi afskipti af kærða. Þar sjái  lögregla kærða leggja frá sér hluti við vörubretti. Um hafi verið að ræða tvær ljósmyndavélar og linsu. Í kjölfarið komi tilkynning frá fjarskiptamiðstöð um innbrot í verslunina. Ásamt kærða hafi lögregla afskipti af tveimur öðrum aðilum. Meðkærði játi að hafa brotist inn í verslunina ásamt X, en á myndum sjáist hvar kærði X hafi brotist inní ofangreinda verslun. Meðkærðu hafi svo vísað á meira þýfi úr versluninni, en um hafi verið að ræða 3 myndavélar og 5 linsur. Á vettvangi hafi verið búið að brjóta rúðu í útihurð verslunarinnar, jafnframt því hafi verið búið að brjóta þrjár glerhurðir og glerkassa fyrir sýningarvélar og linsur. Ætlað verðmæti kr. 900.000,- .

Mál lögreglu nr. 007-2012-[...], innbrot með fleiri aðilum þann 4. apríl sl. að [...] í [...], í húsnæði [...], þar sem ekið hafi verið í gegnum rúðu og inn í húsnæðið og mótorhjóli stolið. Meðkærði hafi bent á kærða sem aðila í því broti.  Kærði/dómfelldi sé því undir sterkum grun um þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga. 

 

Gefin verði út ákæra fyrir 8. júní næstkomandi ásamt málum lögreglu nr. 024-2012-[...] og [...], en um sé að ræða fjársvik, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga vegna brota sem framin hafa verið þann 27. og 28. febrúar síðastliðinn á [...] og hafi kærði/dómfelldi játað þau brot. 

Kærði/dómfelldi sé nú undir sterkum grun um að hafa brotist, ásamt fleiri aðilum, inn í verslun [...] auk annarra brota.  Brotaferill kærða/dómfellda hafi verið samfelldur frá því að dómar hafi fallið á hann þann 24. nóv. og 10. jan. sl. Kærði/dómfelldi hafi sýnt af sér einbeittan brotavilja og hafi þar með rofið skilorðsdóma, eins og dómur  S-191/2012 frá 4. maí beri með sér. Kærði/dómfelldi hafi nú áfrýjað þeim dómi.

Með vísan til brotaferils kærða/dómfellda á undanförnum vikum, en hann sé nú undir sterkum grun um þjófnað og fjársvik og hafi nú hlotið 2 ára fangelsisrefsingu, sbr. dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-191/2012 frá 4. maí sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði/dómfelldi muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og það sé brýnt fyrir lögreglu að kærði/dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans sé lokið fyrir dómi og eftir atvikum Hæstarétti.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

Eins og að framan er rakið var kærði með dómum 24. nóvember 2011 og 10. janúar 2012 dæmdur í skilorðsbundna refsingu fyrir fjölmörg auðgunarbrot. Þá var hann með dómi héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 4. maí sl. dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjölmörg afbrot framin á tímabilinu frá júní 2011 til mars 2012. Með sumum brotanna rauf hann skilorð. Kærði hefur áfrýjað dóminum frá 4. maí sl.

Þá er kærði undir grun um þjófnaðarbrot þann 4. apríl sl. og 3. maí sl. Þá mun verða gefin út ákæra á hendur honum þann 8. júní n.k. vegna fjársvika framinna 27. og 28. febrúar sl.

Eins og að framan er rakið hefur brotaferill kærða verið samfelldur frá því að hann var dæmdur 24. nóvember og 10. janúar sl. og  þar til hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 3. maí sl. Verður því að telja yfirgnæfandi líkur á að hann muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.

Samkvæmt framansögðu er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála séu fyrir hendi. Er krafa um gæslu­varðhald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þorgerður Erlendsdóttir kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi en þó eigi lengur en til föstudagsins 29. júní 2012, kl. 16.00.