Hæstiréttur íslands

Mál nr. 80/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Lögheimili
  • Meðlag


                                     

Miðvikudaginn 11. febrúar 2015.

Nr. 80/2015.

K

(Auður Björg Jónsdóttir hrl.)

gegn

M

(Þyrí H. Steingrímsdóttir hrl.)

Kærumál. Börn. Lögheimili. Meðlag.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu M um að lögheimili sonar hans og K yrði hjá honum til bráðabirgða, meðan á dómsmáli þeirra um lögheimili drengsins stæði. Var K gert að greiða einfalt meðlag með drengnum, en ekki þóttu efni til að hrófla við því fyrirkomulagi sem verið hafði á umgengni K við hann.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2015, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um lögheimili sonar þeirra til bráðabirgða, umgengni við hann og greiðslu meðlags, meðan á dómsmáli þeirra um lögheimili drengsins stendur. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að lögheimili drengsins verði hjá sér þann tíma sem málið er rekið fyrir dómi og verði varnaraðila gert að greiða einfalt meðlag með drengnum þar til endanleg niðurstaða um lögheimili liggur fyrir. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2015.

                Mál þetta, sem höfðað var 1. desember sl., var tekið til úrskurðar 14. janúar sl.

                Stefnandi er M, kt. [...], [...] í [...].

                Stefnda er K, kt. [...], með lögheimili að [...] í [...], en dvalarstað að [...] í [...].

                Stefnandi krefst þess í málinu að honum verði dæmt lögheimili sonar aðila. Þá hefur hann krafist þess að úrskurðað verði um lögheimili drengsins til bráðabirgða. Er sá þáttur málsins hér til meðferðar.

                Stefnandi krefst þess að úrskurðað verði að lögheimili drengsins A, kt. [...], verði hjá honum til bráðabirgða á meðan mál þetta er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Verði fallist á framangreinda kröfu er þess jafnframt krafist að stefnda greiði með drengnum einfalt meðlag frá uppkvaðningu úrskurðar og að ákveðið verði með úrskurði inntak umgengni drengsins til bráðabirgða við stefndu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins, auk virðisaukaskatts.

                Stefnda krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað og henni úrskurðað áframhaldandi lögheimili drengins, A, á meðan mál aðila er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Jafnframt krefst hún sýknu af meðlagskröfu stefnanda og þess að honum verði gert að greiða henni einfalt mánaðarlegt meðlag frá uppkvaðningu úrskurðar. Stefnda krefst þess einnig að úrskurðað verði um inntak umgengni drengsins til bráðabirgða við þann aðila sem ekki hefur lögheimili hans. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

                Málsaðilar voru í sambúð frá október 2010 til nóvember 2012. Þau eiga saman soninn A sem fæddist [...] 2010. Þann 10. desember 2012 staðfestu þau forsjársamkomulag og gerðu með sér samning um lögheimili og meðlag vegna slita á sambúð fyrir sýslumanninum í Reykjavík. Samkvæmt samkomulagi þeirra skyldu þau fara sameiginlega með forsjá sonar síns, en lögheimili skyldi vera hjá stefndu og stefnandi greiða einfalt meðlag.

                Þann 27. ágúst 2013 gerðu aðilar með sér nýtt samkomulag um lögheimili og meðlag sem staðfest var af beggja hálfu hjá sýslumanninum í Reykjavík. Samkvæmt því samkomulagi skyldi lögheimili drengsins flytjast tímabundið til stefnanda til 1. september 2014. Stefnda skyldi greiða einfalt meðlag með drengnum frá 1. september 2013 til 1. september 2014. Þá skyldi lögheimili hverfa aftur til fyrra horfs að tímabilinu loknu, en samkomulagið skyldi þó endurskoðað tímanlega áður en það rynni út.

                Sonur aðila, A, var samkvæmt niðurstöðu athugana, dags. 22. febrúar 2013, metinn með [...]. Í niðurstöðu athugana á fagsviði yngri barna hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í október 2013, dags. 1. nóvember 2013, greinir að drengurinn sé með [...].

                Vegna greininga drengsins þarf hann á sérstökum stuðningi að halda. Í nóvember 2013 var sett á laggirnar þjónustuteymi sem hefur m.a. þann tilgang að auka stuðning við drenginn og auka flæði milli þeirra aðila sem annast hann. Þjónustuteymið hefur reglulega haldið fundi á leikskóla drengsins þar sem málefni hans eru tekin fyrir og hefur unnið markvisst að bættum hag hans. Drengurinn hefur verið á leikskólanum [...], sem er sérhæfður [...], undanfarið eitt og hálft ár og er í aðlögun í [...] sem er skammtímavistun fyrir [...].

                Stefnandi leitaði eftir því að drengurinn yrði áfram með lögheimili hjá sér að framangreindu árstímabili loknu, sökum þess að stefnda hefði svo til ekkert sinnt drengnum og hann teldi drenginn hafa náð miklum framförum í sínu umhverfi. Sáttameðferð hjá sýslumanninum í Reykjavík lauk án árangurs og var í kjölfarið gefið út sáttavottorð. Lögheimili drengsins fluttist því aftur til stefndu 1. september 2014. Frá þeim tíma hefur umgengni aðila við drenginn verið jöfn, í viku í senn.

                Stefnda flutti í október sl. til [...] og hefur nú skráð drenginn í nýjan leikskóla þar og sagt upp leikskólaplássi hans í [...].

                Málsaðilar og sambýlismaður stefndu, B, gáfu skýrslu fyrir dóminum.

II

                Stefnandi byggir kröfu sína um að sér verði úrskurðað lögheimili sonar síns til bráðabirgða á því að brýna nauðsyn beri til að ákvarða lögheimili drengsins sem allra fyrst. Drengurinn sé greindur með [...]. Vegna þessa þurfi drengurinn á auknum stuðningi að halda, bæði frá foreldrum sínum og öðrum umönnunaraðilum. Hann hafi notið þjónustu sérstaks þjónustuteymis sem m.a. hafi þann tilgang að auka stuðning við drenginn og stuðla að flæði milli þeirra sem annist hann. Hin þverfaglega samvinna sérfræðinga hafi skilað drengnum árangri. Stefnandi hafi sótt fast að fá hlutaðeigandi úrræði fyrir drenginn gagngert til þess að auka möguleika hans á aukinni framvindu í þroska og málþroska, auk þess sem úrræðin miði að því að bæta almenna líðan drengsins. Þá hafi stefnandi einnig fengið pláss fyrir drenginn á [...] sem sé skammtímavistun fyrir [...].

                Fyrirliggjandi gögn sýni að drengnum líði vel hjá föður sínum. Hann hafi sýnt miklar framfarir á meðan hann hafi verið í umsjá hans og lögheimili hans hafi verið hjá honum tímabundið. Framangreind úrræði sem stefnandi hafi sótt um fyrir hönd drengsins hafi jafnframt stuðlað að áframhaldandi framförum.

                Háttsemi stefndu í garð drengsins hafi ætíð einkennst af sinnuleysi. Meðan lögheimili drengsins hafi tímabundið verið hjá föður árið 2013 hafi samskipti hennar við drenginn verið nánast engin. Samskiptamynstur hennar við drenginn hafi raunar ætíð miðað að því hvað henni henti án þess að tekið sé tillit til hans. Stefnda hafi nýlega flutt með drenginn til [...]. Hún hafi tilkynnt stefnanda að hún hefði í hyggju að segja upp leikskólaplássi drengsins í [...] og skrá hann á nýjan leikskóla í [...]. Fyrirséð sé að slíkt muni hafa slæm áhrif á líðan drengsins og þá sér í lagi sé litið til viðkvæms ástands hans sökum framangreindra greininga. Þá sé hætt við því að bakslag verði á þroskaframförum hans sem aftur muni raska því góða starfi sem unnið hafi verið af hálfu þeirra aðila sem staðið hafi að umönnun drengsins. Í [...] hafi drengurinn ekki aðgang að þverfaglegu teymi sérfræðinga eins og því sem hafi verið honum til aðstoðar. Þá sé á huldu hvar varnaraðili hyggist búa og hvernig hún hyggist sjá fyrir drengnum.

                Við mat á því hvort skilyrðum bráðabirgðaráðstöfunar lögheimilis, eftir því sem barni sé fyrir bestu, sé fullnægt, sé m.a. litið til stöðugleika í lífi barnsins, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Vegna þeirra greininga sem drengurinn hafi sé ljóst að stöðugleiki sé honum sérstaklega mikilvægur. Í frumvarpi því er orðið hafi að barnalögum nr. 76/2003 segi í athugasemdum við 2. mgr. 34. gr. laganna að við mat á breytingum á umhverfi þurfi m.a. að líta til einstaklingsbundinna atriða. Þá segi að það að hrífa barn úr kæru umhverfi, frá skólafélögum og vinum og flytja það í óþekkt umhverfi geti orsakað mikla aðlögunarörðugleika. Með vísan til greininga og þeirrar þjónustu sem drengnum hafi verið aflað á núverandi leikskóla og þess jákvæða starfs sem unnið hafi verið í þágu drengsins telji stefnandi það andstætt hagsmunum drengsins að flytjast með stefndu í [...].

                Þá sé tímasetning stefndu til breytinga á högum drengsins einstaklega óheppileg og beri vott um tillitsleysi stefndu gagnvart þörfum drengsins. Faðir stefnanda hafi nýlega látist, en drengurinn hafi verið mjög hrifinn af afa sínum. Ljóst sé að bæði drengurinn og föðurfjölskyldan séu á sérlega viðkvæmum stað núna og síst til hagsbóta fyrir drenginn að vera tekinn úr vistvænlegu umhverfi. Slíkt bæti aðeins auknu álagi, streitu og vanlíðan við þá sorg og skilningsleysi sem fylgi því að missa nákominn ættingja. Þá eigi stefnda von á barni og sé að hefja nýja sambúð með núverandi kærasta á nýjum stað. Það sé fyrirséð að þeim miklu breytingum sem fyrirhugaðar séu hjá stefndu muni fylgja talsvert umrót sem leiði til þess að stöðugleiki á högum drengsins raskist verulega.

                Þá segi í athugasemdum við 2. mgr. 34. gr. að líta skuli til tengsla barns við hvort foreldri um sig. Sé litið til málavaxtalýsingar stefnanda og framlagðra gagna sjáist að stefnandi hafi verið aðalumönnunaraðili drengsins undanfarið, auk þess að vera burðarásinn í samskiptum drengsins við þá sérfræðinga sem unnið hafi með honum. Þá sé stefnandi enn fremur virkur aðili í stuðningsteymi því er komið hafi verið á legg á vegum téðra sérfræðinga og leikskólans.

                Virðist sem stefndu varði engu meginregla barnalaga um að hafa skuli það í fyrirrúmi sem börnum sé fyrir bestu. Samskipti hennar við drenginn hafi einkennst af sinnuleysi. Þá hafi hún ætíð hagað umgengni eftir eigin höfði og án tillits til þarfa drengsins. Í frumvarpi því er orðið hafi að barnalögum nr. 76/2003 sé sérstaklega tekið fram að bráðabirgðaákvörðun lögheimilis grundvallist fyrst og fremst á því hvað sé barni fyrir bestu.

                Með vísan til framangreinds telji stefnandi að farsællegast sé fyrir drenginn að vera alfarið búsettur hjá sér og að lögheimilið verði hjá honum meðan málarekstur um varanlegt lögheimili standi yfir. Nauðsynlegt sé að drengurinn fái að búa hjá stefnanda, enda þær aðstæður sem stefnda hafi upp á að bjóða háðar óvissu, þar sem ekki liggi ljóst fyrir hvernig hún hyggist sjá fyrir sér og drengnum, auk þess sem hún hafi ekki upplýst stefnanda hvar hún búi í [...]. Líf hennar hafi einkennst af rótleysi, hún hafi haldist illa í starfi, auk þess sem hún hafi glímt við þunglyndi. Þá hafi hegðun hennar í garð drengsins síst verið til fyrirmyndar. Í ljósi framangreinds og þeirra aðstæðna sem nú séu uppi varðandi fyrirhugaðan flutning á leikskóla í framhaldi flutnings stefndu með drenginn í [...], telji stefnandi heillavænlegast fyrir drenginn að fá að vera hjá sér meðan málið sé rekið fyrir héraðsdómi. Stefnandi byggi þannig kröfu sína um lögheimili til bráðabirgða á því að hann hafi umfram stefndu hæfi til að fara með umsjá drengsins til bráðabirgða.

                Með vísan til allra framangreindar málsástæðna telji stefnandi brýna nauðsyn til þess að ákvarða lögheimili drengsins hjá honum í [...] og í nálægð við þá þjónustu sem hann njóti, enda sé ljóst að stefnda hyggist á næstunni segja upp leikskólaplássi drengsins í [...] og skrá hann á leikskóla í [...] þar sem hann njóti ekki þeirrar þjónustu sem núverandi leikskóli bjóði upp á. Ljóst sé að sá ráðahagur muni valda drengnum verulegum óþægindum, enda þannig hróflað enn frekar við þeim stöðugleika sem hann sé orðinn vanur hjá stefnanda og því umhverfi sem hann hafi stuðlað að fyrir drenginn. Um lagarök vísist til 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003.

III

                Stefnda kveðst telja ljóst að lögheimili til bráðabirgða sé betur borgið hjá sér. Mikilvægt sé að drengurinn fái að umgangast foreldra sína báða á meðan á rekstri málsins standi. Hún sé mun liðlegri þegar komi að umgengni en stefnandi. Hún leggi mikið upp úr því að drengurinn fái mikla umgengni við stefnanda, auk þess sem hún reyni að koma til móts við hann svo umgengni verði sem þægilegust fyrir hann. Til að mynda hafi hún boðið stefnanda að aka á móti honum [...] kvölds og morgna virka daga aðra hverja viku til að umgengni gæti haldist á virkum dögum. Þá hafi hún viðrað við hann þá hugmynd að drengurinn yrði bæði í leikskóla í [...] og [...]. Sóknaraðili leggi aftur á móti ekki mikið upp úr því að drengurinn umgangist stefndu og fjölskyldu. Stefnda telji ljóst að fái stefnandi lögheimili drengsins verði umgengni í lágmarki, sem sé alls ekki drengnum í hag.

                Stefnda hafi hagsmuni drengsins ávallt að leiðarljósi. Það sjáist best á því að þegar hún hafi orðið þunglynd í kjölfar áfalls, hafi hún falið stefnanda lögheimili drengsins, þótt það hafi valdið henni miklum sálarkvölum að hafa drenginn ekki hjá sér. Stefnda sé mjög vel hæf til þess að annast umsjá drengsins og honum líði vel hjá henni. Honum semji einnig vel við eldri bróður sinn og sambýlismann stefndu. Þá líði honum mjög vel á sínu nýja heimili í [...], en þar búi fjölskyldan í rúmgóðri íbúð í barnvænu hverfi. Stefnda sé án einkenna þunglyndis í dag og líði almennt mjög vel. Á heimili stefndu búi hann við mikla umhyggju og alúð, auk þess sem hann fái þá örvun sem honum sé nauðsynleg og talæfingar.

                Fullyrðing stefnanda um að stuðningur sem drengurinn njóti í leikskóla sé honum að þakka sé röng, enda sé um að ræða samstarf foreldra og leikskóla. Auk þess hafi stefnda unnið stöðugt að því að drengurinn fái aðstoð og stuðning, á meðan stefnandi hafi ekki viljað fá greiningu eða aðstoð á tímabili, þar sem hann hafi viljað bíða og sjá til. Ekkert í gögnum málsins styðji fullyrðingu hans um að drengnum hafi farið fram á meðan hann hafi búið hjá föður sínum, umfram eðlilegan þroska hans. Þroskaframfarir hans muni halda áfram á leikskóla í [...], en staðfest hafi verið að þar fái hann sama stuðning og þjónustu og hann fái á leikskólanum sínum í [...].

                Vegna raskana drengsins sé honum ekki þungbært að skipta um leikskóla, en á leikskólanum í [...] eigi hann engan besta vin eða vin sem hann leiki oftar við en aðra. Þá virðist hann ekki tengjast leikskólastarfsfólki tilfinningaböndum. Ummæli stefnanda um stöðugleika eigi ekki við þegar um leikskólabörn sé að ræða og enn síður hvað son aðila varði, þar sem hann virðist ekki tengjast leikskólasystkinum. Þá sé nokkuð um liðið frá því að stefnda hafi flutt ásamt fjölskyldu sinni í [...]. Ekki sé að sjá að það hafi haft nokkur áhrif á þroska drengsins eða líðan hans, eins og stefnandi haldi fram.

                Þá fái stefnda ekki skilið af hverju stefnandi segi að það sé á huldu hvar hún hyggist búa og hvernig hún hyggist sjá fyrir drengnum. Fjölskyldan sé flutt í stóra íbúð og hafi fjárhaglega burði til að sjá fyrir sér og sínum. Aftur á móti hafi stefnandi lýst því fyrir stefndu að hann eigi bágt með að ná endum saman og verði að vinna næturvinnu um helgar til að geta greitt af leiguíbúð sinni. Vegna þessa þurfi hann oft að setja drenginn í pössun, auk þess sem þetta komi eðlilega niður á umgengni þeirra feðga daginn eftir næturvinnu. Stefnandi sé með geðhvarfasýki sem haldið sé niðri með lyfjum, auk þess sem hann eigi sér langa fíkniefnaneyslusögu. Vegna þessa óttist stefnda um drenginn sé lögheimili hans hjá sóknaraðila. Um lagarök vísist til 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003.

IV

                Eins og fram hefur komið höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefndu í því skyni að honum verði dæmt lögheimili sonar þeirra. Var málið þingfest 4. desember sl. Þann sama dag lagði stefnandi fram beiðni sína um úrskurð um lögheimili til bráðabirgða. Stefnda skilaði greinargerðum í málinu 5. janúar sl. Áður hafði árangurslaust verið leitað sátta með aðilum hjá sýslumanni samkvæmt 33. gr. a í barnalögum nr. 76/2003.

                Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins að úrskurðað verði að lögheimili sonar aðila, [...], sem fæddist [...] 2010, verði hjá honum til bráðabirgða á meðan málið er rekið fyrir dóminum. Þá krefst hann meðlags og þess að úrskurðað verði um inntak umgengni. Stefnda krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og henni úrskurðað lögheimilið og meðlag til bráðabirgða og jafnframt verði úrskurðað um inntak umgengni.

                Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða hvernig fara skuli um lögheimili barns, eftir því sem barninu er fyrir bestu. Jafnframt getur dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða.

                Sonur aðila, A, er fjögurra ára, fæddur í [...] 2010. Hann hefur verið greindur með [...]. Af gögnum málsins er ljóst að hann þarf á miklum stuðningi að halda. Drengurinn hefur undanfarið eitt og hálft ár verið á leikskólanum [...] þar sem hann hefur fengið margþáttaðan stuðning. Sérstakt þjónustuteymi hefur verið sett saman vegna hans og fundar það reglulega og ræðir stöðu hans og stuðningsúrræði.

                Málsaðilar slitu sambúð sinni í nóvember 2012. Frá þeim tíma hefur drengurinn lotið sameiginlegri forsjá þeirra. Samkvæmt samkomulagi aðila skyldi lögheimili hans vera hjá stefndu. Hann dvaldi þó mikið hjá stefnanda, einkum á meðan stefnda var húsnæðislaus um nokkurra mánaða skeið. Aðilar sömdu síðan um, með samkomulagi 27. ágúst 2013, að lögheimili drengsins skyldi færast tímabundið til 1. september 2014 til stefnanda. Mikinn hluta þess tíma var stefnda í lítilli umgengni við drenginn vegna veikinda sinna. Áður en sá tími rann út sem lögheimili drengsins skyldi vera hjá stefnanda óskaði hann þess að lögheimili hans yrði áfram hjá sér. Leitað var sátta hjá sýslumanni, árangurslaust, og lögheimili drengsins færðist aftur til stefndu 1. september 2014. Frá þeim tíma hefur umgengni aðila við drenginn verið jöfn, vika í senn hjá hvoru foreldri.

                Fljótlega eftir að lögheimili drengsins færðist til stefndu flutti hún í [...], þar sem hún stundar nám á þessari önn, en hún hyggst fara í háskólanám að því loknu. Hún tilkynnti stefnanda að hún hygðist flytja son þeirra á nýjan leikskóla í [...] og sagði plássi hans á [...] lausu. Þann 5. janúar sl. sótti hún drenginn á [...] og fór með hann á nýjan leikskóla í [...], leikskólann [...]. Stefnda hefur lagt fram staðfestingu leikskólans á vistunarplássi drengsins og átta klukkustunda stuðningi á dag, dags. 13. janúar sl. Þar kemur jafnframt fram að til viðbótar muni drengurinn fá ákveðnar þjálfunarstundir með „þroskaþjálfa/sérkennslustjóra“ í markvissri málörvun. Sett hafi verið upp sjónrænt dagskipulag, kennarar hafi fengið sjónrænar myndir til að notast við og umhverfið sé kjarnað og skipulagt. Aðlögun drengsins hafi gengið vel. Þá hefur stefnda lagt fram staðfestingu talmeinafræðings, dags. 13. janúar sl., um að honum hafi sama dag borist beiðni læknis um talþjálfun drengsins.

                Stefnandi telur að flutningur drengins á nýjan leikskóla þjóni ekki þörfum hans, en búið sé að koma upp umfangsmiklu stuðningsneti fyrir hann í leikskóla hans í [...], svo sem greint hefur verið frá hér að framan. Stefnda hefur vísað til þess að samkvæmt 28. gr. a í barnalögum hafi hún heimild til þess að velja leikskóla fyrir barnið. Samkvæmt því lagaákvæði skulu foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barnið. Ef þau búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um það hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla og grunnskóla o.fl. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.

                Af lögskýringargögnum með barnalögum nr. 76/2003 má ráða að við ákvörðun um forsjá eða lögheimili barns til bráðabirgða skuli gæta varfærni, en í greinargerð með 36. gr. eldri barnalaga nr. 20/1992, sem var sambærilegt við 35. gr. núgildandi laga, kemur fram að ákvörðun um forsjá til bráðabirgða eigi við þegar brýna nauðsyn beri til. Grundvallarsjónarmið við slíka ákvörðun er ávallt hvað barni sé fyrir bestu. Þá skiptir máli að raska högum barnsins sem minnst þar til endanleg niðurstaða er fengin.

                Á þessu stigi málsins liggja ekki fyrir dóminum ítarleg gögn um forsjárhæfni aðila eða hjá hvoru þeirra hagsmunum drengsins er betur borgið til framtíðar, en frekari gagnaöflun mun fara fram í dómsmáli aðilanna. Liggur ekki annað fyrir en að báðir aðilar séu hæfir til þess að fara með hagsmuni drengsins. Þá liggur ekki fyrir samanburður á þeim stuðningi sem drengnum stendur til boða á leikskólunum [...] í [...] og [...] í [...]. Virðist sem hugað sé að þörfum hans á báðum stöðum.

                Við mat á því hvort drengnum sé fyrir bestu að lögheimili hans verði áfram hjá stefndu eða færist til stefnanda, til bráðabirgða þar til endanlega verður leyst úr málinu, verður að leitast við að meta hvað sé best fyrir hagsmuni hans. Verður þá að líta til þess að búið er að koma á fót þroskavænlegu umhverfi fyrir drenginn sem hann þekkir vel til í [...]. Mikil vinna hefur verið lögð í að styðja drenginn sem best og stefnandi hefur átt stóran þátt í henni. Stefnda hefur lagt minna af mörkum að þessu leyti, svo sem sjá má af fundargerðum teymisfunda og öðrum framlögðum gögnum. Það liggur fyrir að stefnda tók framangreinda ákvörðun um að færa drenginn á nýjan leikskóla án samráðs við stefnanda. Svo virðist sem ekkert samráð hafi heldur verið haft við leikskóla drengsins um það hvernig standa bæri að flutningnum og koma upplýsingum um stöðu drengsins á milli leikskóla. Þá er ekki að sjá að nein sérstök könnun hafi farið fram á þeim úrræðum sem drengnum stæðu til boða í [...] áður en að flutningi um leikskóla kom, heldur hafi nokkur óvissa ríkt um það hvaða stuðningsúrræði væru í boði.

                Þegar litið er til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að hagsmunum drengsins sé best borgið með því að hann hafi lögheimili hjá stefnanda á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir dóminum, enda sé stöðugleiki hans best tryggður með því. Þykja skilyrði 35. gr. barnalaga til þess að ákvarða lögheimili til bráðabirgða því vera uppfyllt. Þrátt fyrir að drengurinn hafi nú lokið aðlögun á nýjum leikskóla hefur hann einungis verið þar í fáeina daga og fer aftur í umhverfi sem hann þekkir vel, en í umsögn leikskólans [...] kemur fram að hann njóti forgangs í leikskólann vegna fötlunar sinnar og aldurs. Verður því fallist á kröfu stefnanda um að úrskurðað verði að drengurinn a hafi lögheimili hjá honum til bráðabirgða á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir dóminum. Verður jafnframt fallist á kröfu hans um meðlag á sama tíma.

                Aðilar krefjast þess bæði að úrskurðað verði um inntak umgengni á meðan málið er til meðferðar fyrir dóminum. Fram kom við munnlegan flutning málsins að þau óska þess bæði að umgengni verði óbreytt í viku í senn hjá hvorum aðila, hvernig sem niðurstaða um lögheimili verði. Aðilar eru sammála um að framangreint fyrirkomulag umgengni, sem hefur staðið frá því síðasta haust, hafi gengið vel. Þá virðast þau bæði vera tilbúin til þess að leitast við að láta það ganga upp, þrátt fyrir fjarlægð á milli þeirra. Í því ljósi þykja ekki efni til að dómurinn hrófli við fyrirkomulagi umgengni aðila við drenginn.

                Fram kom við flutning málsins að báðir aðilar hafa óskað gjafsóknar og bíða svars innanríkisráðuneytisins. Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í málinu.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Lögheimili drengsins A, kt. [...], skal vera hjá stefnanda, M, til bráðabirgða þar til endanleg niðurstaða í máli þessu liggur fyrir.

                Stefnda, K, skal greiða einfalt meðlag með drengnum frá uppkvaðningu úrskurðar þessa þar til endanleg niðurstaða í málinu liggur fyrir.

                Umgengni aðila við drenginn skal haldast óbreytt, þar til endanleg niðurstaða í málinu liggur fyrir.

                Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegs dóms í málinu.