Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2002
Lykilorð
- Skuldamál
- Útivist
- Kröfugerð
- Vextir
|
|
Fimmtudaginn 17. október 2002. |
|
Nr. 230/2002. |
Húsanes ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Hljómalind ehf. (enginn) |
Skuldamál. Útivist. Kröfugerð. Vextir.
HN höfðaði mál á hendur HL til greiðslu skuldar sem átti rætur að rekja til kaupa HL á fasteign. Útivist varð af hálfu HL fyrir héraðsdómi. Í héraðsdómi var ekki talið skýrt af hendi HN í dómkröfu hans hvernig innborganir HL skyldu dragast frá skuld hans. Væri af þeim sökum rétt að draga þær frá höfuðstól skuldarinnar á greiðsludögum og var HL dæmt til að greiða HN fjárhæð sem svaraði til mismunarins á höfuðstól skuldarinnar og samanlagðri fjárhæð innborgana HL. HN skaut málinu til Hæstaréttar en HL lét málið ekki til sín taka. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að HN hafði breytt dómkröfu sinni fyrir Hæstarétti þannig að hann færði inn í dómkröfu sína atriði sem vörðuðu ráðstöfun innborgana HL án þess þó að gefa viðhlítandi skýringar á forsendum útreikninga sinna. Með vísan til þessa og annarra annmarka á málatilbúnaði HN var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti. Skaut HN máli sínu öðru sinni til Hæstaréttar með stoð í 4. mgr. 153. gr. laga um meðferð einkamála og færði dómkröfu sína aftur í sama horf og hún var í samkvæmt héraðsdómsstefnu. Var talið að með því hafi hann sneitt hjá þeim annmörkum sem áður leiddu til frávísunar málsins frá Hæstarétti. Voru því ekki efni til annars en að taka hana til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. maí 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.978.022 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. september 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð samtals 4.889.720 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka.
Málið hefur verið flutt skriflega samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994.
I.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 18. júní 2001 á hendur stefnda til greiðslu skuldar að fjárhæð 5.978.022 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga af þeirri fjárhæð frá 15. september 1999 til greiðsludags og málskostnaðar, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 4.889.720 krónur. Í héraðsdómsstefnu greindi meðal annars að þessi skuld ætti rætur að rekja til kaupa stefnda á nánar tiltekinni fasteign, en í kaupsamningi um hana 4. júní 1999 hafi hann meðal annars skuldbundið sig til að inna af hendi til áfrýjanda 5.790.687 krónur 15. september sama árs sem lokagreiðslu kaupverðs. Vanskil hafi orðið á þessari greiðslu, en auk hennar ætti áfrýjandi kröfu á stefnda vegna hlutdeildar þess síðarnefnda í fasteignagjöldum ársins 1999 af eigninni, 187.231 krónu, og í brunatryggingariðgjöldum á sama tímabili, 104 krónur. Samanlagt námu þessar fjárhæðir stefnukröfunni. Í stefnunni var þess jafnframt getið að eftirfarandi innborganir hefðu verið greiddar inn á skuldina: 2.489.720 krónur 5. janúar 2000, 1.500.000 krónur 18. apríl sama árs og 900.000 krónur 2. júní sama árs. Myndu þessar fjárhæðir „dragast frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardögum.“
Útivist varð af hálfu stefnda fyrir héraðsdómi. Í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 30. október 2001, var ekki talið skýrt af hendi áfrýjanda í dómkröfu hans hvernig áðurgreindar innborganir stefndu skyldu dragast frá skuldinni. Væri af þeim sökum rétt að draga þær frá höfuðstól skuldarinnar á greiðsludögum. Því til samræmis var stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 1.088.302 krónur, sem svaraði til mismunarins á höfuðstól skuldarinnar og samanlagðri fjárhæð innborgana stefnda. Dæmdir voru dráttarvextir af höfuðstólnum, eins og hann stóð á hverjum tíma að teknu tilliti til þessara innborgana, auk þess sem stefnda var gert að greiða áfrýjanda 123.000 krónur í málskostnað.
Áfrýjandi skaut héraðsdóminum upphaflega til Hæstaréttar 30. janúar 2002. Krafðist hann þess að stefndi yrði dæmdur til að greiða sér 5.978.022 krónur með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 15. september 1999 til 5. janúar 2000, af 4.216.705 krónum frá þeim degi til 18. apríl sama árs, af 2.970.726 krónum frá þeim degi til 2. júní sama árs og af 2.152.618 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krafðist áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi lét ekki málið til sín taka og var dómur Hæstaréttar kveðinn upp í því 18. apríl 2002. Í þeim dómi var vísað til þess að áfrýjandi hafi breytt dómkröfu sinni fyrir Hæstarétti með því að þar væri meðal annars tíundað í einstaka atriðum af hvaða fjárhæð hann krefðist dráttarvaxta á hverjum tíma að teknu tilliti til innborgana stefnda. Þessar breytingar á dómkröfunni væru ekki skýrðar nánar í greinargerð áfrýjanda, en með henni hafi hann þó lagt fram kvittanir fyrir innborgunum stefnda og væri sú fjárhæð, sem hann krefðist dráttarvaxta af hverju sinni, í samræmi við stöðu skuldarinnar samkvæmt þeim kvittunum þegar innborgun hafi verið dregin frá. Í öllum þessum kvittunum hafi óskertur höfuðstóll skuldarinnar verið tilgreindur, dráttarvextir reiknaðir af honum til dagsetningar kvittunarinnar og áfallinn kostnaður sundurliðaður, en í kvittunum fyrir síðustu tveimur greiðslunum hafi fyrri innborgun stefnda verið dregin frá samtölunni, sem þannig væri fengin. Samkvæmt þessum tveimur kvittunum hafi innborgunum stefnda ekki verið ráðstafað til að greiða fyrst áfallna vexti og kostnað og síðan til lækkunar á höfuðstól skuldarinnar, svo sem áfrýjandi hafi þó lýst í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti að hann teldi rétt að gera, heldur hafi dráttarvextir verið reiknaðir áfram af óskertum höfuðstól skuldarinnar og af áföllnum kostnaði. Að auki væri í dómkröfu áfrýjanda, eins og hún var orðin fyrir Hæstarétti, ekki lengur ráðgert að innborganir kæmu til frádráttar skuld stefnda nema að því er varðaði þá fjárhæð, sem bæri dráttarvexti á hverjum tíma. Þóttu að öllu þessu athuguðu slíkir annmarkar á málatilbúnaði áfrýjanda að vísa yrði málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur í máli þessu skotið áðurnefndum héraðsdómi öðru sinni til Hæstaréttar með stoð í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Eins og ráðið verður af framangreindu hefur hann nú fært dómkröfu sína aftur í sama horf og hún var í samkvæmt héraðsdómsstefnu, en þó þannig að tilvísun til lagaheimilda um hæð dráttarvaxta hefur verið breytt í tilefni af gildistöku laga nr. 38/2001.
II.
Fyrir því er langvarandi venja að í dómi um peningakröfu, sem skuldari hefur greitt að hluta, sé látið við það sitja að kveða á um skyldu hans til að greiða upphaflegan höfuðstól kröfunnar með nánar tilgreindum vöxtum, án þess að mælt sé berum orðum fyrir um af hvaða fjárhæð þeir skuli reiknast á hverjum tíma, og til að greiða málskostnað, en allt að frádreginni einni eða fleiri innborgunum, sem hafi verið inntar af hendi á tilteknum dögum. Er þá gengið út frá því að við endanlegt uppgjör kröfunnar verði að öðru jöfnu farin sú leið að reikna út stöðu kröfunnar eins og hún var hverju sinni þegar innborganir voru inntar af hendi og þeim ráðstafað til að greiða fyrst áfallinn kostnað og vexti, en að þeim liðum frágengnum gangi þær til lækkunar á höfuðstól kröfunnar, sem borið geti vexti upp frá því. Í þessu ljósi er almennt ekki tekin afstaða til þess í dómi um peningakröfuna sem slíka hvernig standa eigi á síðari stigum að endanlegu uppgjöri hennar, enda er þá meðal annars haft í huga að ágreiningur, sem kann að rísa um útreikning og greiðslu kröfunnar, getur komið sjálfstætt til kasta dómstóla í máli um lögmæti fullnustugerðar fyrir henni.
Þegar áfrýjandi skaut héraðsdómi í máli þessu upphaflega til Hæstaréttar leitaði hann ekki dóms í samræmi við framangreinda venju, heldur kaus hann að færa inn í dómkröfu sína atriði, sem vörðuðu ráðstöfun innborgana stefnda og þar með hvernig fyrirsjáanlega yrði staðið að endanlegu uppgjöri kröfunnar. Réttarfarsreglur stóðu þessu að engu leyti í vegi. Á málatilbúnaði áfrýjanda voru hins vegar sem áður segir þeir meginannmarkar að engar viðhlítandi skýringar voru gefnar á forsendum útreikninga hans á stöðu kröfunnar þegar stefndi innti af hendi innborganir, í kröfugerð áfrýjanda var ekki ráðgert að innborganir kæmu til frádráttar skuldinni og að auki varð ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að áfrýjandi ofreiknaði vexti svo um munaði í kvittunum, sem hann gaf út fyrir innborgunum stefnda og dráttarvaxtakrafa hans tók mið af. Var því alls ófært að fella efnisdóm á málið eins og áfrýjandi lagði kröfu sína fyrir Hæstarétt.
Með þeirri dómkröfu, sem áfrýjandi gerir nú fyrir Hæstarétti, sneiðir hann hjá framangreindum annmörkum, sem leiddu til frávísunar málsins með dómi réttarins 18. apríl 2002. Dómkrafan í þeim búningi, sem hún er nú í, er í samræmi við þá dómvenju, sem áður er getið. Eru því ekki efni til annars en að taka hana til greina, svo sem nánar segir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður látið standa óraskað. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Stefndi, Hljómalind ehf., greiði áfrýjanda, Húsanesi ehf., 5.978.022 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. september 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, sem stefndi innti af hendi 5. janúar, 18. apríl og 2. júní 2000, samtals að fjárhæð 4.889.720 krónur.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2001.
Mál þetta sem dómtekið var 26. júní sl. er höfðað fyrir dómþinginu af Húsanesi ehf., kt. 510691-1059, Iðavöllum 13a, Keflavík, með stefnu birti hinn 18. júní sl. á hendur Hljómalind150%'>Mál þetta sem dómtekið var 26. júní sl. er höfðað fyrir dómþinginu af Húsanesi ehf., kt. 510691-1059, Iðavöllum 13a, Keflavík, með stefnu b ehf., kt. 711293-2729, Laugavegi 21, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Sigríður Kristinsdóttir, kt. 260846-2729, Unufelli 3, Reykjavík.
Dómkröfur: Þess er krafist að stefndi greiði stefnanda skuld að fjárhæð kr. 5.978.022,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 5.978.022,00 frá 15/09/1999 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að upphæð kr. 4.889.720,00.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða e.a. skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, en nýr málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Málsatvik og málsástæður: Stefnandi kveður kröfu sína vera byggða á kaupsamningi dags. 4. júní 1999 um húseignina nr. 21 við Laugaveg í Reykjavík. Stefndi hafi keypt eignina og skuldbundið sig til þess að greiða kaupverð hennar, kr. 21.500.000,00 þannig:
|
Með yfirtöku áhvílandi lán |
kr. 7.209.313,00 |
|
Við undirritun kaupsamnings |
kr. 6.500.000,00 |
|
Hinn 15. júlí 1999 |
kr. 2.000.000,00 |
|
Hinn 15. september 1999 |
kr. 5.790.687,00 |
Eignin hafi verið afhent stefnda hinn 1. júní 1999.
Vanskil hafi orðið á lokagreiðslu kaupverðs og hafi stefnandi falið lögmanni hana til innheimtu.
Stefnufjárhæðin sundurliðist þannig:
|
Lokagreiðsla kaupverðs |
kr. 5.790.687,00 |
|
Hlutdeild stefnda í fasteignagjöldum (tímabilið 1/6 99 - 31/12 99) |
kr. 187.231,00 |
|
Hlutdeild stefnda í brunatr.iðgj. (tímabilið 1/6 99 - 31/12 99) |
kr. 104,00 |
|
Samtals |
kr. 5.978.022,00 |
Vaxta sé krafist frá 15. september 1999 sem hafi verið umsaminn gjalddagi lokagreiðslu og fyrirhugaður afsals- og uppgjörsdagur, ef ekki hefðu komið til vanefndir stefnda.
Í stefnu málsins segir síðan svo: ,,Inn á skuldina hafi verið greiddar innborganir, kr. 2.489.720 hinn 5. janúar 2000, kr. 1.500.000,00 hinn 18. apríl 2000 og kr. 900.000,00 hinn 2. júní 2000, sem dragist frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardögum.
Inn á skuldina hafi verið greiddar þessar innborganir: 05/01/2000 kr. 2.489.720,00; 18/04/2000 kr. 1.500.000,00; 02/06/2000 kr. 900.000,00; og verði tekið tillit til þeirra við uppgjör kröfunnar. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.”
Lagarök: Vísað er til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fær m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga 39/1922. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti, þmt. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við l. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga númer 91/1991.
Af hálfu stefnda hefur hvorki verið sótt þing né látið sækja þing og er því þó löglega stefnt. Verður þá eftir 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir framlögðum skjölum og skilríkjum að því leyti sem þau eru í samræmi við dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst í máli þessu greiðslu á skuld að fjárhæð kr. 5.978.022 ásamt dráttarvöxtum eins og fram kemur í dómkröfum, allt að frádregnum innborgunum að upphæð kr. 4.889.720. Ekki er skýrt nánar frá því í dómkröfum hvernig innborganirnar skuli dragast frá skuldinni. Þykir því rétt að þær dragist frá skuldinni á þann veg sem skuldara er hagkvæmast, þ.e. frá höfuðstól á innborgunardögum. Höfuðstóll kröfu stefnanda á hendur stefnda lækkar því sem þessu nemur og dæmist vera kr. 1.088.302 með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Þá krefst stefnandi greiðslu á virðisaukaskatti af málflutningsþóknun samkvæmt lögum nr. 50/1988. Ekki verður séð að Húsanes ehf. sé undanþegið virðisaukaskatti samkvæmt lögum nr. 50/1988. Því verður ekki fallist á kröfu stefnanda um greiðslu á virðisaukaskatti.
Málskostnaður ákveðst vera kr. 123.000.
Dóminn kvað upp Skúli J. Pálmason héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Hljómalind ehf., greiði stefnanda, Húsanesi ehf., kr. 1.088.302 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af kr. 5.978.022 frá 15. september 1999 til 5. janúar 2000, af kr. 3.488.302 frá 5. janúar 2000 til 18. apríl 2000, þá af kr. 1.988.302 frá 18. apríl 2000 til 2. júní 2000, af kr. 1.088.302 frá 2. júní 2000 til 1. júlí 2001, en dráttarvaxta af kr. 1.088.302 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags, samkvæmt lögum nr. 38/2001.
Stefnda greiði stefnanda kr. 123.000 í málskostnað.