Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-30
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Umferðarslys
- Örorka
- Stjórnarskrá
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 9. mars 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. febrúar 2023 í máli nr. 425/2021: A gegn TM tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi í bifreið sem tryggð var ábyrgðartryggingu hjá gagnaðila. Deila aðila lýtur að fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku.
4. Aðilar deila í fyrsta lagi um við hvaða grundvöll árslauna samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli miða útreikning bóta og í öðru lagi um fjárhæð viðmiðunarlauna sem nota beri við útreikning bóta samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna. Í þriðja lagi deila aðilar um þann margfeldisstuðul sem útreikningur bóta skal byggja á. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans um að hafna kröfum leyfisbeiðanda um greiðslu frekari bóta úr hendi gagnaðila. Hefði leyfisbeiðanda ekki tekist að sýna fram á að aðstæður hennar hefðu verið óvenjulegar þannig að árslaun hennar yrðu ákveðin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og var grundvöllur árslauna því ákveðinn eftir 3. mgr. 7. gr. laganna. Þá yrði fjárhæð viðmiðunarlauna samkvæmt fyrrgreindu ákvæði ekki fundin með öðrum hætti en þeirri lögbundnu aðferð sem gagnaðili hafði notað við bótauppgjör með vísan til dómframkvæmdar Hæstaréttar og skýrra fyrirmæla skaðabótalaga. Loks var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að sá margfeldisstuðull sem mælt væri fyrir um í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga og notkun hans stangaðist á við fyrirmæli sem leidd yrðu af ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Það hafi fordæmisgildi um hvort það standist ákvæði 65. og 72. gr. stjórnarskrár að leyfisbeiðandi fái ekki fullar bætur fyrir tjón sitt og að sú skerðing bóta eigi fyrst og fremst rætur að rekja til ungs aldurs leyfisbeiðanda í ljósi áhrifa vaxta við núvirðisútreikning bóta. Leyfisbeiðandi byggir á því að tjón hennar fáist ekki að fullu bætt með þeim bótum sem henni hafa verið greiddar. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar þar sem hún hafi orðið fyrir líkamstjóni og skerðingu á aflahæfi sínu til frambúðar. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að hinn áfrýjaði dómur sé bersýnilega rangur að efni til.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem byggt er á af hálfu leyfisbeiðanda, meðal annars hvort fyrirmæli skaðabótalaga um viðmið við útreikning bóta vegna líkamstjóns samrýmist ákvæðum stjórnarskrár. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.