Hæstiréttur íslands
Mál nr. 338/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Miðvikudaginn 28. maí 2014. |
|
Nr. 338/2014.
|
Ólafur H. Jónsson (Jónas Aðalsteinsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú Ó var tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki var talið að Ó hafi tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddar yrðu af árangurslausu fjárnámi sem gert var hjá honum. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2014 sem barst héraðsdómi degi síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2014 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili þess 2. desember 2013 að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslauss fjárnáms sem gert var hjá sóknaraðila 2. september sama ár vegna tiltekinnar kröfu varnaraðila. Jafnframt því að krefjast gjaldþrotaskipta lýsti varnaraðili fjórum kröfum á hendur sóknaraðila, þar á meðal þeirri sem varð til þess að hið árangurlausa fjárnám var gert, og námu þær samtals 578.154.349 krónum.
Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir kröfunum. Meðal þeirra var krafa vegna sjálfskuldarábyrgðar sem sóknaraðili tókst á hendur gagnvart varnaraðila með yfirlýsingu 16. ágúst 2007 til tryggingar efndum á skuldbindingum Vendi ehf. vegna skuldar þess félags á svonefndum myntveltureikningi hjá bankanum. Hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar var 2.000.000 evrur eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum á hverjum tíma, auk vaxta og kostnaðar stæði aðalskuldari ekki við greiðsluskyldu sína. Í kröfugerð varnaraðila um gjaldþrotaskipti var krafan vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar sögð nema 526.163.580 krónum og var því til sönnunar lögð fram fyrrgreind sjálfskuldarábyrgð, undirrituð af sóknaraðila. Varnaraðili höfðaði 11. febrúar 2014 dómsmál gegn sóknaraðila til greiðslu skuldar vegna ábyrgðarinnar. Var málið þingfest 26. mars 2014 og fékk sóknaraðili frest til 30. apríl sama ár til að leggja fram greinargerð af sinni hálfu. Þar krafðist hann sýknu af kröfu varnaraðila, aðallega með þeim rökum að krafan væri fyrnd, en til vara að hún væri niður fallin vegna aðgerðaleysis bankans. Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að krafan sé fyrnd.
Báðir aðilar hafa lagt fram ný gögn hér fyrir dómi. Þar á meðal er kvittun fyrir því að sóknaraðili hafi 16. apríl 2014 greitt að fullu skuld sína við varnaraðila sem varð til þess að hið árangurlausa fjárnám var gert hjá honum.
II
Varnaraðili styður kröfu sína um gjaldþrotaskipti við 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 þar sem ekki voru liðnir þrír mánuðir frá því að fjárnám var gert hjá sóknaraðila án árangurs og þar til héraðsdómara barst krafan. Við gildistöku laganna var gerður sá fyrirvari samkvæmt ákvæðinu að ekki yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara ef ástæða væri til að ætla að árangurlaust fjárnám, sem gert hefði verið hjá honum á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, gæfi ekki rétta mynd af fjárhag hans. Þessi fyrirvari var felldur brott með 17. gr. laga nr. 95/2010.
Að þessu virtu verður að líta á hið árangurslausa fjárnám, sem gert var hjá sóknaraðila 2. september 2013, sem sönnunargagn um ógjaldfærni hans. Breytir í því sambandi engu þótt skuldin sem leiddi til fjárnámsins hafi verið greidd. Á hinn bóginn getur sóknaraðili varist kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á að hann sé allt að einu fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma, sbr. upphafsákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Eins og áður er fram komið krefst varnaraðili þess að sóknaraðili greiði sér áðurnefnda fjárhæð vegna sjálfskuldarábyrgðar sem hann tókst á hendur gagnvart bankanum. Með því að leggja fram fyrrgreinda sjálfskuldarábyrgð, undirritaða af sóknaraðila, hefur varnaraðili nægilega leitt í ljós að hann eigi lögvarða kröfu á hendur sóknaraðila á grundvelli þeirrar yfirlýsingar. Þótt sóknaraðili haldi því fram að krafan sé fyrnd eða fallin niður hefur sá ágreiningur málsaðila ekki verið til lykta leiddur fyrir dómstólum. Af þessum sökum verður ekki horft framhjá kröfunni við mat á því hvort sóknaraðili sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það í bráð. Að teknu tilliti til þess verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddar verða af fjárnámsgerðinni 2. september 2013. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur og þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort aðrar kröfur varnaraðila, sem að framan greinir og enn eru óuppgerðar, séu nægilega tryggðar.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ólafur H. Jónsson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2014.
Mál þetta var þingfest 16. janúar 2014 og tekið til úrskurðar 10. apríl sama ár.
Skiptabeiðandi, Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, krefst þess að bú skuldara, Ólafs H. Jónssonar, kt. 071249-2719, Huldubraut 50, Kópavogi, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Skiptabeiðandi kveðst eiga kröfur á hendur skuldara sem að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði nemi 526.163.580 krónum. Í kröfu um gjaldþrotaskipti eru tilteknar fjórar kröfur skiptabeiðanda á hendur skuldara. Sú fyrstnefnda sé samkvæmt yfirdrætti á reikningi nr. 0192-26-707 en reikningshafi sé R4 ehf. Skuldari hafi 9. apríl 2008 tekist á hendur sjálfsskuldarábyrgð fyrir allt að 1.500.000 krónum auk vaxta og kostnaðar. Þá sé krafan einnig vegna tveggja lánssamninga, nr. 5537 og 5538, dagsettir 21. ágúst 2008, á milli skiptabeiðanda og skuldara um fjölmyntalán til tveggja ára, annars vegar að fjárhæð 60.000 USD og hins vegar að fjárhæð 141.000 GBP. Skiptabeiðandi kveður lánin hafa verið endurreiknuð umfram skyldu í samræmi við lög nr. 151/2010 í ágúst 2011, en verði ekki endurreiknuð frekar enda sé um gild lán í erlendri mynt að ræða. Þá sé krafan í fjórða lagi til komin vegna yfirdráttar á svokölluðum myntveltureikningi nr. 0111-29-61390, en reikningshafi sé Vendi ehf. Hinn 31. janúar 2011 hafi innistæðulausar færslur á reikningnum numið 2.376.772,38 EUR og hafi reikningnum þá verið lokað. Skuldari hafi hinn 16. ágúst 2007 gengist í sjálfsábyrgð á greiðslu skuldarinnar fyrir allt að 2.000.000 EUR eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum á hverjum tíma, auk vaxta og kostnaðar.
Skiptabeiðandi kveðst hafa tekið við réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008.
Samkvæmt gögnum málsins var gert árangurslaust fjárnám hjá skuldara 2. september 2013. Skiptabeiðnin var móttekin af héraðsdómi 2. desember 2013.
Fyrirkall, ásamt skiptakröfu, var löglega birt skuldara. Þegar krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á dómþingi 16. janúar 2014 var sótt þing af hálfu skuldara án þess mótmæli kæmu fram gegn kröfu skiptabeiðanda. Samkomulag var gert með aðilum um að fresta meðferð málsins, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þegar krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á dómþingi hinn 10. apríl sl. var enn sótt þing af hálfu skuldara og var óskað eftir því að leggja fram gögn, sem ætlað var að sýna annars vegar að krafa skiptabeiðanda vegna yfirdráttar á reikningi nr. 0111-29-061390 væri fyrnd og hins vegar að kröfur skiptabeiðanda að öðru leyti væru nægilega tryggðar með veði í fasteign þriðja manns. Af hálfu skiptabeiðanda var framlagningu gagnanna mótmælt, en með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 181/2010 heimilaði dómari framlagningu gagnanna. Að svo búnu var málið tekið til úrskurðar að kröfu skiptabeiðanda.
Um lagastoð fyrir gjaldþrotaskiptakröfunni vísar skiptabeiðanda til 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta ef kyrrsetning, löggeymsla eða fjárnám hefur verið gert hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær komi í gjalddaga eða verði það innan skamms. Í málinu liggur fyrir að árangurslaust fjárnám var að beiðni skiptabeiðanda gert hjá skuldara hjá embætti sýslumannsins í Kópavogi 2. september 2013, en ekki var mætt af hálfu skuldara við gerðina. Af þessum sökum er ljóst, eins og málið lá fyrir, að skilyrði voru til að ljúka fjárnámi án árangurs, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Árangurslausa gerðin er því í þessu tilliti sönnunargagn um að skuldarinn hafi verið ógjaldfær þegar fullnustu var leitað var hjá honum, en kröfu um gjaldþrotaskipti á grundvelli hennar getur skuldari ávallt varist með því að sýna fram á gjaldfærni sína. Í máli þessu liggur ekki fyrir að skuldari hafi leitað endurupptöku gerðarinnar sbr. 1. tölulið 1. mgr. 67. gr. laga nr. 90/1989 og þá liggur fyrir að skuldari mótmælti ekki kröfu skiptabeiðanda við þingfestingu málsins 16. janúar 2014, sbr. 4. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991.
Eins og áður greinir styður skiptabeiðandi kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi skuldara við ákvæði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Það girðir aftur á móti fyrir að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann færir sönnur á að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum sínum eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Í þinghaldi 10. apríl síðastliðinn voru af hálfu skuldara lögð fram í málinu ljósrit tveggja tryggingarbréfa. Annars vegar er um að ræða tryggingarbréf, dags. 11. september 2000, útgefið af Guðrúnu Árnadóttur, að fjárhæð allt að 7 milljónir króna, tryggt með 4. veðrétti í fasteigninni að Huldubraut 50 í Kópavogi, til tryggingar skilvísri greiðslu á skuldum við handhafa. Bréfið var framselt til skiptabeiðanda 17. ágúst 2006. Hins vegar er um að ræða tryggingarbréf, dags. 17. ágúst 2006, útgefið af skuldara, að fjárhæð allt að 16 milljónir króna, tryggt með 3. veðrétti í áðurgreindri fasteign.
Samkvæmt skiptabeiðni nema kröfur skiptabeiðanda á hendur skuldara vegna sjálfskuldarábyrgðar á yfirdráttarskuld á reikningi nr. 0192-26-707 og vegna lánssamninga nr. 5537 og 5538 samtals 51.990.769 krónum, en með framlagningu áðurgreindra verður ekki talið að skuldari hafi borið brigður á réttmæti og fjárhæð þeirra krafna. Áðurgreind tryggingarbréf standa til tryggingar skuld að höfuðstól samtals að fjárhæð 23.000.000 króna. Þá ber síðara tryggingarbréfið með sér, en það er útgefið á árinu 2006, að á 1. veðrétti fasteignarinnar að Huldubraut 50 og á undan framangreindum tryggingarbréfum hvíli lán frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fjárhæð 12.500.000 krónur. Engin gögn hafa verið lögð fram um stöðu þess láns eða annarra veðbanda, sem kunna að hvíla á fasteigninni í dag. Þá liggur ekkert fyrir um fasteignamatsverð eða ætlað söluverð fasteignarinnar.
Með hliðsjón af framangreindu verður þegar af þeirri ástæðu ekki fallist á að skuldari hafi með framlagningu áðurgreindra tryggingarbréfa sýnt fram á að kröfur skiptabeiðanda séu nægjanlega tryggðar, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, en samkvæmt 1. mgr. 71. gr. sömu laga skal dómari gæta þess af sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði séu fyrir gjaldþrotaskiptum þótt ekki hafi verið móti því mælt. Samkvæmt öllu framanröktu þykir skilyrðum 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 vera fullnægt og ber því að taka til greina kröfu sóknaraðila um að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Úrskurðurinn er kveðinn upp af Ragnheiði Bragadóttur, héraðsdómara.
ÚRSKURÐARORÐ:
Bú Ólafs H. Jónssonar, kt. 071249-2719, er tekið til gjaldþrotaskipta.