Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 21. júlí 2000. |
|
Nr. 288/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Hrafn Bragason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. ágúst nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var hinn kærði úrskurður kveðinn upp kl. 13.15 hinn 15. júlí sl. Kæra varnaraðila er árituð um móttöku 18. júlí sl., án þess að nánari tímasetning komi þar fram. Samkvæmt yfirlýsingu tveggja starfsmanna héraðsdóms, sem sóknaraðili hefur lagt fram, var tekið á móti kæru varnaraðila eftir hádegi umræddan dag. Þann vafa, sem ríkir um móttökutíma kærunnar, ber að skýra varnaraðila í hag. Að þessu virtu þykir ekki fram komið að frestur samkvæmt 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið liðinn þegar kæran barst héraðsdómi. Verður því ekki fallist á kröfu sóknaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti.
Í héraðsdómi er því lýst að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í að flytja inn mikið af fíkniefnum. Fallist er á með héraðsdómi að vegna rannsóknarhagsmuna séu fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. ágúst nk., kl. 16:00.
Í greinargerð Lögreglustjórans í Reykjavík, á dskj. nr. 1 kemur fram, að Ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík (ÁFD) rannsaki nú stórfellt ætlað brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf. Síðan er málsatvikum lýst með eftirfarandi hætti í greinargerðinni:
[...]
Niðurstaða.
Verið er að rannsaka ætluð brot kærða gegn fíkniefnalöggjöfinni og gætu þau varðað allt að 10 ára fangelsi, ef sönnuð þættu, sbr. 173.gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða eftir atvikum fangelsisrefsingu samkvæmt lögum nr. 65/1974. Rannsókn málsins er á frumstigi. Lögð hafa verið fyrir dóminn gögn, sem renna stoðum undir grunsemdir lögreglu um ætlað brot kærða. Með vísan til alls ofanritaðs þykir rétt, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991 að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, enda ljóst af gögnum málsins að yfirheyra þarf kærða frekar svo og samseka og/eða vitni og ljóst er, að hann geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Er því krafa lögreglunnar tekin til greina að öllu leyti og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. ágúst nk. kl. 16.00, eins og krafist er.
Skúli J. Pálmson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. ágúst nk. kl. 16.00.