Hæstiréttur íslands

Mál nr. 396/2004


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Brottrekstur úr starfi


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. mars 2005.

Nr. 396/2004.

Skeljahöllin ehf.

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Birgi Kristjánssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Sjómenn. Brottrekstur úr starfi.

B, sem var yfirvélstjóri á skipi í eigu S ehf., og kom um borð eftir að hafa neytt áfengis, var sagt fyrirvaralaust upp störfum og vísað frá borði sökum ölvunar. Hélt S ehf. því hvorki fram að um ítrekað brot hefði verið að ræða hjá B né að hann hefði áður sætt áminningu, sbr. 4. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Var uppsögnin því talin ólögmæt og S ehf. því gert að greiða B laun í þrjá mánuði í uppsagnarfresti auk vangreiddra launa.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 2004. Hann krefst aðallega að honum verði gert að greiða stefnda 274.812 krónur en til vara að krafa stefnda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu áfrýjanda, að ekki væri tölulegur ágreiningur um fjárhæð kröfu stefnda á hendur honum. Einungis væri af hans hálfu byggt á því að stefndi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum með þeim hætti, að sér hafi verið heimilt að víkja honum úr starfi án fyrirvara og án skyldu til að greiða honum laun í uppsagnarfresti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Skeljahöllin ehf., greiði stefnda, Birgi Kristjánssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. júní 2004.

             Mál þetta sem dómtekið var 9. júní síðastliðinn höfðar Birgir Kristjánsson til heimilis að Þórustíg 30, Njarðvík, þann 9. desember 2003 á hendur Skeljahöllinni ehf., Eyjavöllum 8, Keflavík.

             Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.037.527 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. júlí 2003 til greiðsludags.

             Krafist er málskostnaðar að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

             Það er krafist viðurkenningar sjóveðréttar í m.s. Kristbjörgu II HF – 75 skipaskrárnúmer 127 til tryggingar öllum dæmdum kröfum.

             Af hálfu stefnda eru endanlegar dómkröfur þær að stefndi verði einungis dæmdur til að greiða stefnanda 274.812 krónur.

             Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins og tekið verði tillit til skyldu lögmanna til að greiða virðisaukaskatt af þóknun sinni.

I.

             Málavextir eru þeir að stefnandi réð sig til starfa hjá stefnda sem yfirvélstjóri á m.s. Kristbjörgu II HF – 75 (127) í eigu stefnda, þann 14. apríl 2003.

             Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. Ráðning stefnanda var ótímabundin og hún markaðist ekki af ákveðnum verkefnum eða veiði­ferðum.

             Stefndi gaf enga launaseðla út, en greiddi skipverjum einhver laun eftir hendinni upp í laun þeirra. Málsaðilar eru sammála að stefndi hafi greitt inn á laun stefnanda 210.000 krónur.

             Stefnandi vann í fyrstu við skipið við búnað þess við að gera það klárt til veiða ásamt öðrum skipverjum, en þann 21. maí  2003 var lögskráð á skipið og því haldið til lúðuveiða á línu. Skipið þurfti að leita til hafnar í Vestmannaeyjum vegna bilunar um hvítasunnu sem bar upp helgina  7. - 9. júní. Á annan í hvítasunnu, þann 9. júní hélt hljómsveitin Hljómar tónleika í Vestmannaeyjum og brá stefnandi sér á tónleikana. Upp úr miðnætti kom stefnandi um borð að eigin sögn og hafði fengið sér nokkra bjóra. Fór hann til skipstjórans, forsvarsmanns stefnda, Helga Friðgeirssonar og bað hann um peninga til þess að greiða fyrir leigubíl sem ók honum til skips. Að sögn stefnanda brást skipstjórinn ókvæða við. Hann hafi orðið fokillur vegna ölvunar stefnanda og hafi flæmt stefnanda frá borði með látum. Og ekki nóg með það að hann hafi rekið stefnanda frá borði heldur hafi hann jafnframt rekið stefnanda úr starfi. Það hafi hann gert vegna ölvunar stefnanda. Stefnandi bar fyrir dómi að skipstjórinn hafi ekki áður fundið að áfengisneyslu stefnanda. Jafnframt kom fram hjá stefnanda að ekki hafi verið vitað hvenær viðgerð á skipinu yrði lokið svo hægt yrði að láta úr höfn. Stefnanda minnti að þeir hafi verið að bíða eftir einhverjum varahlutum.

 Skipstjórinn lýsti málsatvikum á annan veg fyrir dómi. Hann kvað stefnanda hafa komið um borð um kl. 3:30 um nóttina dauðadrukkinn  og hafi barið að dyrum hjá sér og farið þess á leit að fá 30.000 til 40.000 krónur til þess að klára fylleríið. Skipstjórinn hafi neitað honum um peningana og sagt stefnanda að fara sofa. Stefnt væri að því að halda til veiða klukkan 9:00 næsta morgun. Hann hafi síðan lokað á stefnanda hurðinni. Skipstjórinn bar fyrir dómi að hann hafi sagt stefnanda að ef hann færi ekki að sofa þá yrði hann að hypja sig. Ennfremur bar skipstjórinn, forsvarsmaður stefnda, fyrir dómi að hann hafi sagt við stefnanda að ef hann gæti ekki starfað með þeim þá yrði hann að fara. Stefnandi hafi ekki verið um borð um morguninn. Stefnandi hafi síðan komið klukkun 15:30 sótt farangur sinn og farið frá borði. Skipstjórinn kvaðst hafa látið stefnanda fá 5.000 krónur til þess að komast í land með Herjólfi.

II.

Stefnandi gerir annars vegar kröfu til greiðslu á vangreiddum launum og hins vegar kröfu til greiðslu launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti vegna fyrirvaralausrar og ástæðulausrar brottvísunar úr skiprúmi.

Vangreidd laun.

Stefnandi byggir mál sitt á því að hann hafi verið ráðinn ótímabundinni ráðningu á m.s. Kristbjörgu II HF – 75 (127) hjá stefnda þann 14. apríl 2003. Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ráðningin var ekki tímabundin eða til ákveðins tíma, sbr. 9. gr. sjómanna­laga. Uppsagnarfrestur yfirmanna, þ.m.t. yfirvélstjóra, eru þrír mánuðir, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 2. mgr. 1.24 kjarasamnings V.S.F.Í og L.Í.Ú.

Með vísan til 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á stefnandi rétt á launum á ráðningartíma. Ráðning stefnanda hófst 14. apríl 2003 og lauk 9. júní 2003, þegar forsvarsmaður stefnda vísaði stefnanda fyrirvaralaust úr starfi. Samkvæmt gr. 1.18 eiga vélstjórar rétt á að fá kauptryggingu greidda vikulega. Þá skal útgerðarmaður hafa lokið launauppgjöri og launagreiðslum til vélstjóra eigi síðar en 15 dögum eftir lok kauptryggingatímabils, en kauptryggingatímabil er hver almannaksmánuður en samkvæmt því voru launavanskil stefnda veruleg.

Brottvísun úr starfi.

Stefnandi telur að brottvísun sín úr starfi hafi verið ólögmæt. Samkvæmt 1. mgr. 4. tl. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 er skipstjóra heimilt að víkja skipverja úr skiprúmi sé hann ítrekað drukkinn um borð eða brot þeim mun alvarlegra. Brottvísun stefnanda átti sér stað þegar stefnandi var að koma um borð um miðnætti undir áhrifum áfengis. Skipstjóri virðist hafa reiðst svo að hann rak stefnanda samstundis. Stefnandi hafði hvorki ítrekað verið drukkinn um borð né fengið áminningu vegna þessa.

Þótt stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hann kom um borð þá réttlæti það ekki fyrirvaralausa brottvísun, en skilyrði þess samkvæmt sjómannalögum er að skipverji sé ítrekað drukkinn um borð. Jafnframt þurfi því skilyrði að vera fullnægt að skipverji hafi áður fengið áminningu, sem sé forsenda fyrirvaralausrar brottvísunar úr starfi samkvæmt almennum reglum vinnuréttar. Skilyrði hafi því ekki verið fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 4. tl. 24. gr. sjómannalaga til þess að víkja stefnanda úr starfi fyrirvaralaust. Því sé brottvikning stefnanda ólögmæt og varða stefnda bótum. Stefnandi eigi því rétt til óskertra launa í þrjá mánuði.

 

Vangreidd laun.

Laun á ráðningartíma tímabilið 14. apríl 2003 til 9. júní 2003 eða í 56 daga sundurliðar stefnandi þannig:

Kauptrygging á mánuði kr. 190.564

(190.564:30 x 56 = 355.719)                                        kr.        355.719

Fast kaup á mánuði kr. 3.015

(3.015:30 x 56 = 5.628)                                                                           5.628

Starfsaldurálag á mánuði  kr. 3.811

(3.811:30 x 56 = 7.114)                                                                           7.114

Fatapeningar á mánuði  kr. 2.879  

(2.879 : 30 x 56 = 5.374)                                                                         5.374

Fæðispeningar á dag kr. 945

(21. 05 – 09.06 eða 19 dagar 945 x 19 = 17.955 )                               17.955

Alls                                                                              kr.        391.790

Orlof 10.17%                                                                                        39.854           

Samtals                                                                        kr         431.635

Innborgun launa                                                        kr.        210.000

Eftirstöðvar launa                                                      kr.        221.635

 

Laun í uppsagnarfresti:

Kröfu um laun í 3ja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga sundurliðar stefnandi með eftirfarandi hætti:

Kauptrygging á mánuði   kr. 190.564 x 3                kr.        571.692

Fast kaup á mánuði kr. 3.015 x 3                                              9.045

Fatapeningar kr. 2.833 x 3                                                         8.499

Starfsaldursálag kr. 3.811 x 3                                                  11.433

Fæðispeningar á dag kr. 945 x 90                                          85.050

Alls                                                                 kr.        685.719

Orlof 10.17%                                                                             69.737

Samtals                                                                        kr.        755.456

Framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð

755.456 x 8%                                                                             60.436

Samtals                                                                        kr.        815.892

 

Heildarkrafa stefnanda vegna vangreiddra launa og launa í uppsagnarfresti er því samtals 1.037.527 krónur sem er stefnufjárhæðin.

III.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi reynst óáreiðanlegur vegna vínhneigðar og hafi honum vegna ölvunar aðfaranótt 10. júní verið sagt upp störfum. Skipstjóri þurfti að færa stefnanda upp á bryggju. Byggir stefndi á því að þar sem stefnandi hafi komið ölvaður um borð hafi hann fyrirgert rétti til launa í 3ja mánaða uppsagnarfresti. Það hafi verið fyllilega réttmætt og löglegt að reka hann úr skiprúmi fyrirvaralaust.

Við aðalmeðferð urðu málsaðilar sammála um það að ráðningartímabil stefnanda hófst 14. apríl og lauk 9. júní, eða samtals verið í 56 daga. Ennfremur voru málsaðilar sammála um það að lögskráningartímabil var frá 21. maí 2003 til 9. júní 2003 eða í 19 daga.

Um fjárhæðir einstakra launaliða á mánuði eða daga eins og kauptryggingu, fast kaup, fæðispeningar og svo framvegis er ekki ágreiningur um. Hins vegar telur stefndi að orlof 10.17% sé einungis reiknað af kauptryggingu, fastakaupi og starfs­aldurálagi, en ekki af fatapeningum og fæðispeningum. Ennfremur er á því byggt að draga beri frá 4% framlag stefnanda í lífeyrissjóð.

Því er haldið fram að stefndi hafi greitt stefnanda upp í laun 210.000 krónur og eigi því stefnandi kröfu til vangreiddra launa að fjárhæð 274.812 krónur.

IV.

Stefndi lét undir höfuð leggjast að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda sem honum var lögskylt samkvæmt 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en ráðning hófst 14. apríl 2003.

Ágreiningslaust er að stefnandi var hvorki ráðinn tímabundið né til tiltekinna verkefna eða veiðiferða.

Ágreiningslaust er að þann 9. júní 2003 voru launagreiðslur stefnda til stefnanda í vanskilum. Einnig er ágreiningslaust að stefndi hafði þá greitt stefnanda 210.000 krónur inn á laun hans fyrir tímabilið 14. apríl 2003 til 9. júní 2003 og lögskráningardagar voru frá 21. maí 2003 til 9. júní 2003.

Ágreiningslaust er að stefnandi kom um borð eftir að hafa neytt áfengis um kvöldið 9. júní 2003 eða nóttina. Skipstjórinn sagði stefnanda þá upp fyrirvaralaust og vísaði honum frá borði sökum ölvunar stefnanda. Stefndi hefur hvorki haldið því fram að um ítrekað brot hafi verið að ræða hjá stefnanda né heldur að stefnandi hafi áður sætt áminningu, en þessi þættir þurfa að vera til staðar til þess að fyrirvaralaus riftun á ráðningarsamningi geti talist lögmæt samkvæmt 1. mgr. tl. 24. gr. sjómannalga nr. 35/1985.

Líta verður svo á að forsvarsmaður stefnda sem var skipstjórinn um borð hafi þá sagt stefnanda upp störfum fyrirvaralaust sökum ölvunar stefnanda. Eins og uppsögnina bar að verður því að telja hana ólögmæta og stefnanda beri bætur af þeim sökum. Stefnandi á því samkvæmt 1. mgr. 25. gr. og  2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að 10.17% orlof sé einungis reiknað af kaup­tryggingu, föstum launum og starfsaldurálagi en ekki af fatapeningum og fæðis­peningum. Á það fellst dómurinn ekki. Orlof 10.17% skal greiða af heildarlaunum samkvæmt grein 1.21 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga L.Í.Ú. annars vegar og Vélstjórafélags Íslands hins vegar. Orlof nemur því kr. 69.737.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnda beri að greiða framlag atvinnu­rekanda í lífeyrissjóð. Á það verður ekki fallist á þeirri forsendu að tjón stefnanda geti ekki talist að fullu bætt nema tillit verði jafnframt tekið til þessa þáttar. Vísað er hér til hæstaréttadóma nr. 284/1099 og hrd. nr. 144/2002. Krafa stefnanda er því tekin til greina eins og hún er fram sett hér að framan í kafla II að fjárhæð 60.436 krónur fyrir framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð á 3ja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt gr. 1.46 í kjarasamningi.

Niðurstaða málsins er því sú að dómkröfur stefnanda eru teknar til greina og er stefnda gert að greiða stefnanda 1.037.527 krónur (vangreidd laun 221.635 krónur og laun í 3ja mánaða uppsagnarfresti 815.892 krónur) með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 25. júlí 2003 og verður það lagt til grundvallar þrátt fyrir að ráðningarsambandi var slitið 9. júní 2003. Þá ber að fallast á kröfu stefnanda um að staðfestur verði sjóveðréttur hans í skipinu m.s. Kristbjörgu II HF – 75 skipaskrárnúmer 127 fyrir dómkröfunni með vísan til 1. tl. 197. gr. siglinga­laga nr. 34/1985.

Eftir úrslitum máls ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 180.000 krónur.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Skeljahöllin ehf., greiði stefnanda, Birgi Kristjánssyni 1.037.527 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 25. júlí 2003 til greiðsludags og 180.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi á sjóveðrétt í m.s. Kristbjörgu II HF – 75 skipaskrárnúmer 127 fyrir hinni dæmdu fjárhæð ásamt vöxtum.