Hæstiréttur íslands

Mál nr. 572/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 23

 

Föstudaginn 23. október 2009.

Nr. 572/2009.

A

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

B

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

A kærði frávísun héraðsdóms á kröfu hans um að kaupsamningi og afsali vegna jarðar, ásamt fasteignum, hlunnindum og réttindum, yrði rift sbr. 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Talið var að þar sem kaupsamningurinn og afsalið hafi verið fært í þinglýsingarbók í júní 2006 hafi ársfrestur til að höfða mál samkvæmt ákvæðinu verið liðinn er málið var höfðað í maí 2008. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. október sama ár. Kærður er sá þáttur úrskurðar Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. ágúst 2009, að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila um að rift verði kaupsamningi og afsali, dagsettu 23. maí 2006, sem innfært var í þinglýsingarbók 9. júní 2006, þar sem E afsalaði til varnaraðila jörðinni X, ásamt fasteignum, hlunnindum og réttindum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði hluti úrskurðarins verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

C og D var stefnt til réttargæslu í héraði en hafa ekki látið málið til sín taka.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. ágúst 2009.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 30. júní, er höfðað með stefnu, birtri 9. maí 2008, af A, kt. [...], [...], á hendur B, kt. [...], [...]. Til réttargæslu er stefnt þeim C, kt. [...], [...], Akureyri og D, kt. [...], [...], Blönduósi.

Dómkröfur

Stefnandi gerir í málinu eftirfarandi kröfur:

1.             Að kaupsamningi og afsali, dags. 23. maí 2006, sem innfært hafi verið í þinglýsingarbók sýslumannsins á Sauðárkróki hinn 9. júní 2006, þar sem E, kt. [...], hafi afsalað til stefnda jörðinni X, ásamt fasteignum, hlunnindum og réttindum, verð rift.

2.             Að afsali, dags. 14. mars 2007, sem innfært hafi verið í þinglýsingarbók sýslumannsins á Sauðárkróki hinn 31. ágúst 2007, þar sem E, kt. [...], hafi afsalað til stefnda landspildum að landnúmerunum [...], [...], [...] og [...], verði rift.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi eða mati dómsins að skaðlausu. Stefnandi kveðst enga kröfu gera á hendur réttargæslustefndu, en skora á þá að gæta í málinu réttar síns.

Stefndi krefst þess fyrst og fremst að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í hvorutveggja tilviki krefst hann málskostnaðar að skaðlausu.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað en sér úrskurðaður málskostnaður sérstaklega vegna þessa þáttar málsins.

Réttargæslustefndu hafa ekki látið þennan þátt málsins til sín taka.

Málavextir

Aðilar málsins eru bræður, synir F, kt. [...], og E, kt. [...], sem bjuggu um áratugaskeið í X. F lést hinn 11. janúar 2004 og fékk E leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann, hinn 19. janúar það ár. Með kaupsamningi og afsali, dagsettu 23. maí 2006, afsalaði E til stefnda jörðinni X ásamt mannvirkjum, hlunnindum og réttindum. Í kaupsamningi er tilgreint kaupverð 5,5 miljónir króna. Skjalið var móttekið til þinglýsingar hinn 30. maí 2006 og fært í þinglýsingabók hinn 9. júní 2006. Stefnandi krefst riftunar þessa gernings.

Með afsali, dagsettu 14. mars 2007 en mótteknu til þinglýsingar 30. ágúst 2007, og innfærðu í þinglýsingabók degi síðar, afsalaði E til stefnda eftirfarandi lóðum sem skipt hefði verið úr jörðinni X: „1. X lóð 3 [...] sem er 3057 fermetrar að stærð. 2. X lóð 5 [...] sem er 3020 fermetrar að stærð. 3. X lóð 6 [...] sem er 2630 fermetrar að stærð og 4. X lóð 7 [...] sem er 2424 fermetrar að stærð.“ Segir í afsalinu að kaupverð sé að fullu greitt við undirritun afsals og hafi meðal annars verið greitt með því að kaupandi hafi tekið að sér að greiða áhvílandi veðskuldir. Stefnandi krefst riftunar þessa gernings.

Hinn 13. júní 2006 lagði stefnandi fram kröfu um opinber skipti á dánarbúi F heitins. Til varna tóku auk stefnda E, G, kt. [...], H, kt. [...], I, kt. [...] og J, kt. [...]. Lauk því máli með því að hinn 13. september 2006, var undirritað skjal, undir yfirskriftinni „Samkomulag – veðsetningarkvöð“ sem fól í sér að dánarbú F skyldi greiða stefnanda 1.450.000 krónur, afsala sér endurgjaldslaust til hans hálfum „sekúndulítra af borholu í landi Laugarhvamms“ auk frekari skilmála varðandi borholuna. Segir í skjalinu að stefndi skuldbindi sig til þess að veðsetja ekki nánar tilgreindar spildur og skuli þeirri kvöð þinglýst á X. Segir svo að með samkomulagi þessu sé fallið frá kröfu um opinber skipti á dánarbúi F. Þá er það sagt skilyrði samkomulagsins að hver beri sinn kostnað af málinu. Undir þetta skjal rita Ásdís Ármannsdóttir héraðsdómslögmaður fyrir hönd réttargæslustefnda C fyrir hönd stefnanda, réttargæslustefndi D fyrir hönd dánarbús F og réttargæslustefndi D fyrir hönd G. Ekki er getið annarra aðila að samkomulaginu. Er samkomulagið stimplað sem dómsátt í máli D-4/2006 og undirritað af héraðsdómara málsins.

Hinn 26. júní 2007 var þingfest málið E-75/2007, er stefnandi hafði höfðað á hendur stefnda, dánarbúi F, G og E. Krafðist hann þar aðallega greiðslu að fjárhæð 1.450.000 ásamt dráttarvöxtum úr hendi dánarbús F, þess að dánarbúið og mæðginin E og stefndi skyldu dæmd skyld til að stofna sérstaka spildu úr landi X, og staðfestingar þess að stefndi hefði ekki umráða- og afnotarétt borholu en þann rétt og eignarrétt hefðu á hinn bóginn stefnandi og G. Þá krafðist stefnandi staðfestingar þess að óheimilt væri að veðsetja spilduna og mannvirki á henni og þess að stefnda og dánarbúi F yrði gert að halda spildunni veðbandalausri og loks krafðist stefnandi þess að viðurkennt væri að hann væri eigandi 62,5% borholu og mannvirkja henni tengdum og vatnsréttinda innan tiltekinnar spildu, á móti G. Ekki þykir ástæða til að rekja hér varakröfur stefnanda í þessu máli. Í málsástæðum sínum í umræddu máli sagði stefnandi að dómkröfur sínar væru byggðar „á efndakröfum á samkomulagi aðila“ og er þar vísað til þess samkomulags sem áður var rakið og staðfest hafði verið sem dómsátt í máli D-4/2006.

Máli þessu var vísað frá dómi samkvæmt kröfu stefndu, með úrskurði héraðsdóms Norðurlands vestra, upp kveðnum 21. febrúar 2008 en málskostnaður var felldur niður. Í rökstuðningi dómsins fyrir niðurfellingu málskostnaðar segir meðal annars: „Við ákvörðun um málskostnað er horft til þess að stefnandi hefur með málshöfðun sinni reynt að knýja fram efndir á samkomulagi sem gert var á milli hans annars vegar og dánarbús F og G hins vegar. Samkomulagið sem varð að dómsátt er hins vegar ófullkomið svo ekki sé meira sagt og sennilega hefði verið rétt af dómara að hafna því sem dómsátt. Þó verður að hafa í huga að samkomulagið var gert til að koma í veg fyrir að dánarbú F yrði tekið til opinberra skipta en var ekki gert um ákveðnar kröfur sem stefnandi hafði áður sett fram á hendur stefndu.“

Með skiptabeiðni, dags. 5. maí 2008, krafðist stefnandi þess að nýju að bú föður síns yrði tekið til opinberra skipta.

Málsástæður og lagarök stefnda vegna frávísunarkröfu sinnar

Stefndi segir, að máli stefnanda á hendur sér og fleirum, þar sem stefnandi hafi krafist opinberra skipta á dánarbúi föður þeirra, hafi hinn 13. september 2006 lokið með dómsátt stefnanda, dánarbús F og G persónulega. Komi og fram í stefnu þess máls að þeirri dómsátt hafi verið ætlað að leiða ágreining aðila til endanlegra lykta. Þá komi fram í stefnu stefnanda í máli nr. E-75/2007 að með dómsáttinni hafi staðið til að ljúka skiptum á hlutdeild stefnanda í dánarbúinu, það er arfshluta stefnanda eftir föður sinn og hafi það verið sameiginlegur skilningur aðila.

Efni framangreindrar dómsáttar hafi verið talið nægilega ljóst og mögulegt að efna hana og því hafi ekki verið synjað um gerð hennar, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sé sáttin aðfararhæf, sbr. 3. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Að svo miklu leyti sem ágreiningur kunni að vera uppi um efni sáttarinnar, beri að leysa úr honum við aðför og eftir atvikum með málsmeðferð fyrir héraðsdómi, sbr. 14. og 15. kafla aðfararlaga. Stefnandi hafi hvorki krafist aðfarar á grundvelli sáttarinnar né höfðað mál henni til ógildingar svo sem honum sé heimilt samkvæmt 110. gr. laga um meðferð einkamála.

Stefndi segir, að með gerð dómsáttarinnar hafi stefnandi fallið frá kröfu um opinber skipti á dánarbúi föður síns, eins og berlega komi fram í sáttinni. Hafi sáttin meðal annars falið í sér greiðslu á arfshluta hans eins og lýst hafi verið yfir með bindandi hætti af hans hálfu við meðferð máls nr. E-75/2007. Með því sé afskiptum stefnanda af skiptum dánarbúsins lokið, enda liggi fyrir dómsátt um það með hverjum hætti hann fái arfshlut sinn greiddan. Sé dómsáttin bindandi fyrir stefnanda og hafi sama gildi og dómur. Hafi hún ekki verið ógilt með dómi. Eftir gerð hennar geti stefnandi því ekki haft uppi á sama grundvelli og í því máli kröfur um riftun einstakra gerninga sem móðir aðila hafi gert áður en dómsáttin hafi tekið gildi, og enn síður um síðari gerninga. Verði þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi, sbr. meginreglu 1. og 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála.

Þá kveðst stefndi byggja frávísunarkröfu sína á því, að málshöfðunarfrestur samkvæmt 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 hafi verið liðinn þegar mál þetta hafi verið höfðað. Í 3. ml. 2. mgr. 15. gr. laganna sé mælt fyrir um að mál skuli höfðað áður en ár sé liðið frá því erfingi hafi fengið vitneskju um gjöf. Engar undantekningar séu frá þessu. Fyrir liggi að móðir aðila hafi selt stefnda jörðina X með kaupsamningi og afsali dagsettu 23. maí 2006 og hafi skjalið verið móttekið til þinglýsingar 30. maí og fært í þinglýsingarbók 9. júní 2006. Stefnandi hafi krafist opinberra skipta á dánarbúi föður aðila með kröfu, dagsettri 13. júní 2006. Hafi krafan byggst á 1. og 2. mgr. 15. gr. erfðalaga og tilefni hennar verið umrædd sala jarðarinnar X til stefnda, eins og rækilega hafi verið gerð grein fyrir í kröfunni. Liggi því fyrir, að stefnda hafi í síðasta lagi hinn 13. júní 2006 verið kunnugt um nefnda ráðstöfun jarðarinnar sem hann nú krefjist riftunar á. Stefna í málinu hafi hins vegar verið gefin út 5. maí 2008 og málið þingfest 27. maí. Hafi þá löngu verið liðinn ársfrestur 2. mgr. 15. gr. til málshöfðunar. Kveðst stefnandi einnig byggja á því, að stefnanda hafi verið kunnugt um afsal landspildnanna, samkvæmt afsali dagsettu 14. mars 2007, í meira en ár þegar mál þetta hafi verið höfðað. Verði einnig af þeim ástæðum að vísa málinu frá dómi.

Stefndi kveðst taka fram, að hann geti hvorki borið ábyrgð á því að stefnandi hafi ekki krafist riftunar nefnds gernings innan málshöfðunarfrests, né á málatilbúnaði hans að öðru leyti. Krafa stefnanda um opinber skipti dánarbús föður aðila í júní 2006 hafi enga þýðingu um lengd frests til höfðunar máls til riftunar afsalsgerninga móður aðila til stefnda, og veiti stefnanda ekki rýmri rétt til málshöfðunar en skýrt sé tekið fram í 2. mgr. 15. gr. Hafi stefndi og ekki mátt ætla annað, en að ekki yrði hróflað við afsali jarðarinnar til hans, sérstaklega ekki eftir að máli stefnanda gegn dánarbúi F hafi lokið með dómsátt hinn 13. september 2006.

Stefndi kveðst vísa til XV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, vegna dómsátta og réttaráhrifa þeirra, svo og til meginreglna 116. gr. laganna. Þá kveðst stefndi vísa til erfðalaga nr. 8/1962, einkum 12., 15. og 29. gr., og eftir atvikum til ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og fleira. Kröfu um málskostnað kveðst stefndi styðja við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnanda í þessum þætti málsins og lagarök.

Stefnandi mótmælir frávísunarkröfum stefnda. Hann segir að gerningar E móður sinnar hafi verið úr öllu hófi og hafi til dæmis ekkert verið greitt fyrir sumarhúsaspildurnar.

Stefnandi segir að náðst hafi samkomulag erfingjanna, en systkini stefnanda hafi svo hlaupið frá því.

Stefnandi segir að stefndi hafi ekki verið aðili að umræddri dómsátt og þá segir stefnandi að dánarbú geti ekki verið aðili að dómsátt.

Stefnandi segir að umrædd dómsátt sé ekki aðfararhæf, þar sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og fleira girði fyrir að aðför verði komið fram á hendur dánarbúi. Þá hafi jörðin ekki verið eign dánarbúsins þegar dómsáttin hafi verið gerð.

Stefnandi segir að sér sé ómögulegt að fá dómsáttina lýsta ógilda með dómi þar sem óheimilt sé að stefna dánarbúi.

Þá fái ekki staðist að gerningar séu gerðir í nafni dánarbús, þá skuli gera í nafni þess sem sitji í óskiptu búi.

Stefnandi kveðst hafna því að res judicata áhrif séu af dómsáttinni á þetta mál. Ekki séu sömu aðilar á ferð og ekki sama sakarefni.

Vegna þeirra sjónarmiða stefnda, að málshöfðunarfrestsákvæði erfðalaga geri frávísun málsins óhjákvæmilega segist stefnandi benda á að kröfur sínar í málinu séu tvær. Afsali vegna sumarhúsaspildna hafi ekki verið þinglýst fyrr en í ágústmánuði 2007 og því hafi höfðun málsins í maí 2008 verið innan ársfrestsins. Vegna fyrri kröfu sinnar, kveður stefnandi að skoða beri málið í heild og þegar það sé gert og hafður sé í huga tilgangur tilgreindra ákvæða erfðalaga, væri óeðlilegt ef fyrri kröfuliði sínum yrði vísað frá dómi þar sem of seint hefði verið stefnt í málinu.

Stefnandi segist byggja heimild sína til riftunar kaupsamnings og afsals stefnda og E vegna umræddra gerninga á 2. mgr. 15. gr. erfðalaga.

Niðurstaða

Stefnandi byggir riftunarheimild sína á 2. mgr. 15. gr. erfðalaga. Í henni segir, að hafi maki gefið gjöf úr óskiptu búi, og sé hún óhæfilega há, miðað við efni búsins, og geti þá erfingi fengið gjöf hrundið með dómi, ef viðtakandi hafi séð eða átt að sjá, að gefandi sæti í óskiptu búi og að gjöf væri úr hófi fram. Mál til riftunar verði því aðeins höfðað, að búið hafi verið tekið til skipta eða erfingi hafi krafist skipta. Mál skuli höfða, áður en ár sé liðið frá því, að erfingi eða lögráðamaður hafi fengið vitneskju um gjöfina, og þó ekki síðar en innan þriggja ára frá afhendingu gjafar.

Fyrri gerningurinn sem stefnandi krefst riftunar á, kaupsamningur og afsal jarðarinnar X, var færður í þinglýsingabók hinn 9. júní 2006 og var því úti ársfrestur sá sem 2. mgr. 15. gr. erfðalaga setur þeim sem vill höfða mál til riftunar gernings. Við munnlegan flutning um frávísunarkröfuna hélt stefnandi því fram að slík niðurstaða yrði, í ljósi forsögu málsins og tilgangs ákvæðisins, ósanngjörn. Að mati dómsins er umrætt lagaákvæði hins vegar fortakslaust og veitir enga undantekningu frá þessum fresti, nema síður sé raunar, því í ákvæðinu er auk umrædds ársfrests því bætt við að aldrei skuli mál höfðað síðar en þremur árum frá afhendingu gjafar. Þar sem krafa stefnanda um riftun framanrakins gernings er þannig að mati dómsins komin fram að liðnum þeim fortakslausa fresti, sem settur er í 2. mgr. 15. gr. erfðalaga, verður fallist á frávísunarkröfu stefnda á þessum kröfulið stefnanda.

Stefndi kvaðst byggja á því, að stefnanda hefði í meira en ár verið kunnugt um þá gerninga sem í öðrum kröfulið er krafist riftunar á. Við munnlegan málflutning byggði stefnandi á því að þar réði þinglýsing upphafstíma umrædds frests, en ekki hefði verið sýnt fram á að stefnanda hefði mátt vera kunnugt um gerninginn fyrr. Að mati dómsins hefur sú staðhæfing stefnda, að stefnanda hafi í raun verið kunnugt um gerninginn lengur en ár, þegar mál þetta var höfðað, ekki verið sönnuð og verður því að miða ársfrestinn við þinglýsingu hans. Samkvæmt því er málið að því er þennan kröfulið varðar höfðað innan ársfrests 2. mgr. 15. gr. erfðalaga og verður honum ekki vísað frá dómi með vísan til hans.

Stefndi hefur byggt á því, að með gerð þess samkomulags, sem stefndi nefnir dómsátt, hafi stefnandi með endanlegum hætti samið um með hverjum hætti hann fái sinn arfshlut greiddan. Hafi dómsáttin sama gildi og dómur og bindi stefnanda með þeim hætti. Geti stefnandi, eftir gerð dómsáttarinnar, ekki haft uppi „á sama grundvelli og í því máli kröfur um riftun einstakra gerninga, sem móðir málsaðila [hafi gert] áður en dómsáttin [hafi tekið] gildi og því síður um gerninga, sem [átt hafi sér stað] eftir þann tíma.“

Dómurinn álítur, að hvað sem segja megi um umrætt samkomulag, þá verði í þessu máli ekki horft fram hjá því að það var fyrir dómi stimplað dómsátt og áritað af héraðsdómara sem slík. Dómurinn álítur sig bundinn af mati héraðsdómara á því að á ferð hafi verið tæk dómsátt.

Dómsáttin var gerð milli stefnanda, G, systur hans og stefnda, og dánarbús F Lauk þannig máli sem stofnast hafði vegna kröfu stefnanda um að bú föður hans yrði tekið til opinberra skipta. Var í sáttinni kveðið á um að dánarbúið greiddi stefnanda nánar greinda fjárhæð og til hans og G féllu tiltekin réttindi vegna borholu. Segir svo í sáttinni: „Með samkomulagi þessu er fallið frá kröfu um opinber skipti á dánarbúi F.“

Dóminum þykir ljóst að krafa stefnanda um opinber skipti dánarbúsins hafi verið til komin vegna óánægju hans með tilteknar ráðstafanir móður hans, er sat í óskiptu búi eftir mann sinn. Í því ljósi þykir verða að skoða ákvæði sáttarinnar um annars vegar greiðslur og réttindi frá dánarbúinu til stefnanda og svo það að stefnandi hafi fallið frá þeirri kröfu um opinber skipti sem hann hafði þá gert. Ekki hafi hins vegar verið sýnt fram á að stefnandi hafi með sáttinni fallið frá öllu arfstilkalli eftir föður sinn og verði sáttin ekki skýrð að því leyti framar en orð hennar sjálfrar nái. Ummæli í greinargerð stefnanda í einkamáli því er hann höfðaði árið 2007, um tilgang sáttarinnar, þykja ekki verða til þess að hún verði skýrð framar en texti hennar sjálfrar segir. Þykir dóminum því sem ekki hafi verið sýnt fram á, að með gerð dómsáttar í september 2006 hafi af hálfu sóknaraðila verið girt fyrir að hann gæti fengið efnisniðurstöðu um kröfu sína um riftingu gernings sem þinglýst hafi verið hinn 31. ágúst 2007. Ummæli í greinargerð stefnanda í einkamáli, er hann höfðaði árið 2007, þykja engu breyta um þetta.

Með því er hins vegar engu slegið föstu um það, hvort og hver önnur áhrif dómsáttin hefði þegar til þess kemur að leysa efnislega úr kröfu stefnanda um riftun samkvæmt síðari kröfulið sínum.

Með vísan til framanritaðs verður fyrri kröfulið stefnanda vísað frá dómi en frávísunarkröfu vegna hins síðari hafnað. Ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Málið fluttu héraðsdómslögmennirnir Bjarki Már Baxter fyrir stefnanda og Daði Ólafsson fyrir stefnda. Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um að rift verði kaupsamningi og afsali, dags. 23. maí 2006, sem innfært var í þinglýsingarbók hinn 9. júní 2006, þar sem E afsalaði til stefnda, B, jörðinni X, ásamt fasteignum, hlunnindum og réttindum.

Hafnað er kröfu stefnda um að vísað verði frá dómi kröfu stefnanda um að rift verði afsali, dagsettu 14. mars 2007, sem innfært var í þinglýsingarbók hinn 31. ágúst 2007, þar sem E afsalaði til stefnda, B, landspildum með landnúmerin [...], [...], [...] og [...].

Málskostnaður bíður efnisdóms.