Hæstiréttur íslands
Mál nr. 782/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. nóvember 2016, þar sem leyst var úr ágreiningi aðila um málskostnað og kveðið á um gjafsóknarkostnað sóknaraðila en að öðru leyti var málinu lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málflutningsþóknun lögmanns síns vegna reksturs málsins í héraði verði ákveðin 2.858.169 krónur, en til vara að þóknunin verði ákveðin að mati réttarins. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði lauk máli því sem sóknaraðili hafði höfðað gegn varnaraðila fyrir héraðsdómi með sátt 3. nóvember 2016. Þar sem samkomulag náðist ekki um málskostnað milli aðila úrskurðaði héraðsdómari um hann, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991, svo og um gjafsóknarkostnað, en sóknaraðili naut gjafsóknar í héraði. Niðurstaða héraðsdóms var sú að hvor aðila skyldi bera sinn hluta málskostnaðar. Um gjafsóknarkostnað sagði að hann skyldi allur greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns sóknaraðila, sem ákveðin var 1.000.000 krónur og hafði þá ,,verið tekið tillit til virðisaukaskatts.“
Sóknaraðili telur að sú þóknun sem lögmanni hennar var ákveðin af héraðsdómi sé til muna of lág. Lögmaðurinn hafi lagt fram sundurliðað yfirlit um unna tíma í málinu en samkvæmt því hafi hann unnið 105,25 klukkustundir vegna þess. Þá bendir sóknaraðili á að skjöl málsins séu mikil að vöxtum, haldin hafi verið dómþing í málinu 16 sinnum, auk þess sem það hafi verið flutt um kröfu sóknaraðila um forsjá til bráðabirgða. Þá hafi sóknaraðili óskað eftir dómkvaðningu matsmanns 10. mars 2016 og mætt á matsfund, auk þess sem ýmis önnur vinna hafi tengst matsmálinu.
Fyrir liggur sundurliðað yfirlit lögmanns varnaraðila í héraði um þá tíma sem hann hafi unnið í þágu umbjóðanda síns í málinu, sem ekki naut gjafsóknar. Fram kemur að lögmaðurinn hafi unnið 60,75 klukkustundir vegna málsins.
Að teknu tilliti til alls framangreinds verður fallist á með sóknaraðila að gjafsóknarþóknun lögmanns hennar fyrir héraðsdómi skuli hækka. Verður hún ákveðin 1.200.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þuríðar B. Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, 1.200.000 krónur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. nóvember 2016.
Mál þetta, sem var höfðað 1. desember 2015, var tekið til úrskurðar 3. nóvember 2016. Stefnandi er K, [...], [...]. Stefndi er M, [...], [...].
Dómkröfur stefnanda voru þær að slitið yrði sameiginlegri forsjá aðila og að stefnanda yrði dæmd forsjá drengsins A, kt. [...], til 18 ára aldurs hans. Einnig gerði stefnandi kröfu um einfalt meðlag með drengnum frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs hans og að ákveðið yrði með dómi inntak umgengni drengsins við stefnda. Auk þess var gerð krafa um málskostnað, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Einnig gerði stefnandi kröfu um úrskurð um bráðabirgðaforsjá.
Stefndi krafðist sýknu af öllum kröfum stefnanda og þess að honum yrði falin forsjá drengins A, en til vara að forsjá yrði áfram sameiginlega í höndum beggja aðila en að drengurinn ætti lögheimili hjá stefnda. Til þrautavara var þess krafist að forsjá yrði áfram sameiginleg en að drengurinn ætti lögheimili hjá stefnanda. Yrði fallist á aðal- eða varakröfu var jafnframt gerð krafa um einfalt meðlag með drengnum.
Stefndi krafðist þess að kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá yrði hafnað og að lögheimili barnsins yrði ákveðið hjá stefnda meðan á rekstri málsins stæði.
Í öllum tilvikum krafðist stefndi málskostnaðar.
Aðalmeðferð hófst í málinu 26. október 2016 en var frestað til 3. nóvember s.á. Aðilar urðu þá sammála um að ljúka málinu með dómsátt. Samkvæmt henni skulu aðilar fara sameiginlega með forsjá drengsins. Þá er í sáttinni kveðið á um jafna umgengni, umgengni í sumarleyfi og á hátíðisdögum.
Samkvæmt framangreindu hefur tekist sátt með málsaðilum um annað en málskostnað. Gera báðir aðilar kröfu um málskostnað úr hendi hins, stefnandi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Með vísan til 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber því að ákveða málskostnað með úrskurði.
Að virtum atvikum málsins og lyktum þess þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Stefnandi fékk útgefið leyfi til gjafsóknar vegna reksturs málsins í héraði. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þuríðar B. Sigurjónsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Málskostnaður í máli þessu fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, K, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þuríðar B. Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.