Hæstiréttur íslands

Mál nr. 517/2006


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Kaupsamningur
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. apríl 2007.

Nr. 517/2006.

Harðviður ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Sigurði Árna Ólafssyni og

Lilju Þorsteinsdóttur

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

og gagnsök

 

Skuldamál. Kaupsamningur. Málskostnaður.

H krafði S og L um greiðslu vegna kaupa þeirra á efni sem nota átti til smíðis einbýlishúss. Taldi H þau S og L skulda sér fyrir efni sem hann hafði þegar afhent þeim, auk þess sem honum bæri greiðsla gegn afhendingu á tilteknu efni sem hann ætti eftir að afhenda í samræmi við kaupsamning 7. janúar 2004. Ekki lágu frammi í málinu nein þau gögn er gerðu dóminum kleift að meta hversu mikið kynni að vera ógreitt fyrir það efni sem H taldi sig hafa afhent S og L. Taldist H því ekki hafa tekist að sanna  að hann ætti rétt á frekari greiðslu. Var ástæðan meðal annars sú að við útreikninga H var ekki gert ráð fyrir að samsettir gluggar hefðu verið meðal þess sem H bar að afhenda samkvæmt kaupsamningnum. Taldi Hæstiréttur H bera meginábyrgð á því að samningurinn var óskýr hvað þetta varðaði og var samningurinn því túlkaður þannig að samsettu gluggarnir hefðu átt að fylgja með. Voru S og L því sýknuð af kröfu H. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. október 2006. Hann krefst þess nú aðallega að gagnáfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér 1.438.077 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.323.033 krónum frá 19. ágúst 2004 til 28. janúar 2005 en af 1.438.077 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt gegn afhendingu á efni sem hann eigi eftir að afhenda gagnáfrýjendum samkvæmt kaupsamningi 7. janúar 2004: „1. panelklæðningu 90 x 10 mm 220 ferm., 2. stoðum undir þak utanhúss 3 m 4 stk., 3. sperrum í þak ... 7 x 15 cm 27 metrar og 4. stoðum í þak inni 4 stk. 4 metrar hver.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu fyrir sitt leyti 13. desember 2006. Þau krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði að fjárhæð 1.482.394 krónur. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í greinargerð fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi leitast við að tilgreina innkaupsverð á því efni sem hann telur sig hafa afhent gagnáfrýjendum, áður en þeir lýstu yfir riftun kaupsamningsins að hluta 15. febrúar 2005, og reiknað út frá því hvað hann telur þá hafa átt að greiða fyrir það. Þessi greinargerð aðaláfrýjanda nægir ekki til að unnt sé að meta hversu mikið kunni að vera ógreitt fyrir afhent efni. Er það meðal annars vegna þess að við þessa útreikninga er ekki gert ráð fyrir að samsettir gluggar hafi verið meðal þess sem aðaláfrýjanda bar að afhenda gagnáfrýjendum samkvæmt kaupsamningi 7. janúar 2004, en svo sem fram kemur í héraðsdómi var samið um eitt heildarverð fyrir allt efni sem samningurinn tók til.

Aðaláfrýjandi samdi texta kaupsamningsins og naut við það sérfræðilegrar aðstoðar lögmanns síns, svo sem tekið er fram í samningnum. Bar hann því meginábyrgð á því að samningurinn varð óskýr um hvort samsettir gluggar hafi átt að fylgja með í kaupunum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöðu hans um að aðaláfrýjandi eigi ekki kröfu á hendur gagnáfrýjendum um frekari greiðslu á kaupverði samkvæmt samningnum en þeir hafa þegar innt af hendi.

Fallist er á með gagnáfrýjendum að kröfugerð aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi hafi gefið þeim tilefni til að láta dómkveðja mann til þess mats sem greinir í dóminum, enda var þeim rétt að hafa uppi varnir byggðar á rétti til skuldajafnaðar gegn kröfu aðaláfrýjanda með gagnkröfu um skaðabætur eða afslátt af kaupverði vegna vanefnda aðaláfrýjanda á samningi aðila. Fyrir liggur jafnframt að gagnáfrýjendur höfðu með bréfi 15. febrúar 2005 óskað eftir upplýsingum frá aðaláfrýjanda um sundurliðun á kaupverðinu og fleiri atriði og buðust til að ganga til samninga við hann um ágreininginn, meðal annars með því að hafa ekki uppi skaðabótakröfu vegna vanefnda hans. Þessu svaraði aðaláfrýjandi ekki en höfðaði þess í stað mál þetta til þingfestingar 15. mars 2005. Verður höfð hliðsjón af þessu við ákvörðun málskostnaðar gagnáfrýjendum til handa.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu gagnáfrýjenda af kröfu aðaláfrýjanda og aðaláfrýjandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar, sem verður ákveðinn í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur um sýknu gagnáfrýjenda, Sigurðar Árna Ólafssonar og Lilju Þorsteinsdóttur, af kröfu aðaláfrýjanda, Harðviðar ehf.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                  

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2006.

             Mál þetta höfðaði Harðviður ehf., kt. 650204-3440, Sundaborg 7, Reykjavík, með stefnu birtri 10. mars 2005 á hendur Sigurði Árna Ólafssyni, kt. 180761-2929, og Lilju Þorsteinsdóttur, kt. 140966-4959, báðum til heimilis að Háseylu 32, Njarðvík.  Málið var dómtekið 12. júní sl. 

             Stefnandi krefst greiðslu á 1.446.553 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.323.033 krónum frá 19. ágúst 2004 til 28, janúar 2005 en af 1.446.553 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar. 

             Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda, til vara lækkunar á stefnukröfum.  Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun. 

             Með kaupsamningi 7. janúar 2004 sömdu stefndu um kaup á efni í einbýlishús af Hálendisflugi ehf.  Stefnandi tók síðar við réttindum og skyldum þess félags. 

             Í kaupsamningi segir nánar að um sé að ræða harðvið og tilsniðna efnishluta úr harðviði til smíði 128 m2 einbýlishúss og 50 m2 bílgeymslu.  Vísað er til efnislista sem sé hluti samningsins.  Kaupverð er sagt USD 28.085, auk virðisaukaskatts.  Greiða skyldi 30% kaupverðs eigi síðar en 9. janúar 2004, en eftirstöðvar við afhendingu efnisins, sem skyldi vera 10. mars 2004. 

             Í 6. gr. samningsins segir að hið selda sé efnispakki úr harðviðarefni í nefnt hús og bílgeymslu, samkvæmt teikningu Sveins Ívarssonar arkitekts.  Tekið er fram að kaupanda sé ljóst að ekki fylgi með efni eða byggingarhlutar úr öðru efni en harðviði frá framleiðandanum í Brasilíu. 

             7. gr. samningsins er svohljóðandi: 

             „Kaupanda er kunnugt að í kaupverðinu og í efnispakkanum er ekki einangrun, efni í þakið svo sem þaksperrur, þakklæðning, rennur, járn á þaki, vinklar, gler, þéttingar.  Gluggar eru samsettir.” 

             Í efnislistanum, sem vísað er til og var undirritaður um leið og kaup­samningurinn, kemur fram að um sé að ræða tvær útihurðir, 4,5 cm, 90x210.  Þá eru gluggar eða efni í þá ekki nefnd. 

             Samningur þessi er undirritaður af stefnda Sigurði Árna, en ekki af stefndu Lilju.  Aðild hennar er ekki mótmælt þrátt fyrir þetta.  Sigurður lýsti því í aðilaskýrslu sinni að hann hefði verið boðaður til undirritunar inn í Hafnarfjörð að kvöldi dags.  Hann hefði stoppað stutt við, kannski 10 mínútur.  Hann hefði lesið samninginn yfir en ekki efnislistann sem fylgdi.  Hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að hann væri öðru vísi en sá efnislisti sem þau hefðu fengið frá Páli áður og farið með í banka.  Hann hefði ekki litið á þennan lista fyrr en löngu síðar er upp hafi komið deilur um hvort gluggar hafi átt að fylgja.  Páll hafi alltaf talað um að gluggarnir fylgdu. 

             Páll Jónsson, forsvarsmaður stefnanda, bar í aðilaskýrslu sinni að töluverður aðdragandi hefði verið að samningsgerðinni.  Það hafi verið gerð mörg uppköst og málin rædd fram og til baka.  Niðurstaðan hafi verið frágengin með undirrituðum samningi 7. janúar 2004.  Hann kvaðst hafa ritað efnislistann sem fylgdi samningnum og afhent lögmanni sínum.  Fundurinn þar sem samningurinn var undirritaður hefði tekið allt að tveimur tímum.  Hann sagði að í þessu tilviki hefði verið samið um kaup á efnispakka.  Í þeim tilvikum væru gluggar aldrei innifaldir.  Hann hefði farið með stefndu á ýmsa staði til að sýna þeim glugga, m.a. til Salvars Guðmundssonar sem hefði oft smíðað glugga í hús sem hann hefði flutt inn efni í.  Það væru þá alltaf kaupendurnir sem borguðu gluggana. 

             Spurður um þann efnislista sem stefndu vísa til sagði hann að sá listi væri eitt af mörgum uppköstum sem gerð hefðu verið. 

             Stefndu greiddu 590.424 krónur inn á reikning Páls 9. janúar 2004. 

             Stefnandi kveðst þann 25. júní 2004 hafa afhent 2 útihurðir, 4 gluggapósta, 7 innihurðir ásamt einni forstofuhurð fyrir gler og 2 svalahurðir.  Einnig 7 hurðaskrár, lamir og hurðarhúna.  Dagana á eftir hafi hann afhent þakkant, veggklæðningu og skápahurðir.  Stefndu sóttu efni þetta til Hafnarfjarðar og fluttu sjálf á byggingarstað í Njarðvíkum. 

             Aðilar segja báðir að samið hafi verið um að tiltekin veggklæðning utanhúss yrði felld úr samningnum.  Verð hennar var USD 5.500.  Stefnandi segir að í staðinn hafi komið tvær innihurðir með læsingum og skrám sem reiknast hafi á USD 1.000.  Kemur þetta fram í bréfi lögmanns stefnanda 19. ágúst.  Er þar bæði vísað til vegg­klæðningarinnar og þessara innihurða og þessar fjárhæðir nefndar.  Stefndi Sigurður mótmælti því í aðilaskýrslu sinni að samið hefði verið um hækkun fyrir innihurðirnar. 

             Með síðastgreindu bréfi var stefndu enn fremur tilkynnt að panelklæðning og stoðir undir þak utanhúss væri tilbúið til afhendingar.  Var skorað á stefndu að greiða fyrir það efni sem þegar hefði verið afhent.  Var tekið fram að eftir væri að afhenda sperrur og stoðir í þak, en ekkert annað. 

             Í greinargerð stefndu er skýrt frá fundi er aðilar áttu ásamt lögmönnum sínum 14. október 2004.  Náðu þeir ekki að sætta sjónarmið sín.  Lögmaður stefndu ritaði stefnanda bréf tveimur vikum síðar og vísar til þessa fundar og áðurnefnds bréfs lögmanns stefnanda.  Í bréfi lögmanns stefndu kemur fram sú afstaða að gluggar hafi átt að fylgja í kaupunum.  Ekki er vikið að öðrum ágreiningsefnum í bréfinu. 

             Lögmaður stefnanda ritaði stefndu bréf 28. janúar 2005.  Þar er skorað á þau að sækja sperrur og stoðir í þak.  Segir að efni þetta sé fyrir löngu tilbúið til afgreiðslu.  Þá eru stefndu krafin um greiðslu á efni því sem afhent hafði verið eða boðið til afgreiðslu. 

             Lögmaður stefndu svaraði með bréfi 15. febrúar 2005.  Þar er vísað til fyrra bréfs varðandi glugga og sagt að þau hafi ákveðið að halda eftir greiðslu samkvæmt heimild í 22. gr. laga nr. 50/2000.  Þá er því hreyft að afhendingardráttur hafi orðið af hálfu stefnanda.  Skorað er á stefnanda að sundurliða verð hvers hlutar í samningnum og leggja fram pöntun sína á efninu.  Er vísað til orðróms um að efni í gluggana hafi verið flutt inn. 

             Þá er í bréfinu bent á að afhenda hafi átt efnið á byggingarstað.  Er skorað á stefnanda að afhenda stoðirnar innan tveggja daga.  Er lýst yfir riftun að því er þessar stoðir varðar hafi þær ekki verið afhentar.  Þá er jafnframt lýst yfir riftun samningsins að því er varðar sperrur og panelklæðningu.  Loks er gert samningstilboð og settur stuttur frestur til svara. 

             Ekki er að sjá sem þessu síðasta bréfi hafi verið svarað formlega, en stefna í málinu er dagsett 2. mars 2005. 

             Fram kemur í greinargerð stefndu að þau hafi selt húsið og flutt úr því.

             Undir rekstri máls þessa óskuðu stefndu eftir dómkvaðningu matsmanns.  Var Guðni Örn Jónsson, húsasmiður og byggingatæknifræðingur, dómkvaddur 19. september 2005.  Í matsbeiðni eru þessar spurningar lagðar fram:

                1.  Hver er kostnaður við að láta smíða glugga úr harðviði, mahogny, í húsið að Lágseylu 9, Ytri-Njarðvík í Reykjanesbæ samkvæmt uppdráttum Sveins Ívarssonar arkitekts, dags. 22. janúar 2004, sem samþykktir voru þann 11. maí 2004 sbr. og séruppdrátt af sömu gluggum, dags. 30. apríl 2004. Uppgefnar kostnaðartölur skulu taka til efnis og vinnu við smíði glugganna þó ekki glers, lama og stormjárna og gefnar upp með og án virðisaukaskatts. 

                2.  Hvort stærðir glugga og frágangur þeirra samkvæmt uppdráttum Sveins Ívarssonar arkitekts, dags. 22. janúar 2004, sem samþykktir voru þann 11. maí 2004 sbr. og séruppdrátt af sömu gluggum, dags. 30. apríl 2004, sé hefðbundinn og eðlilegur miðað við íslenskar aðstæður.  Ef matsmaður telur svo ekki vera er þess óskað að hann geri ítarlega grein fyrir í hverju stærðir eða frágangur glugganna sé frábrugðinn því sem almennt gerist í byggingum á Íslandi. 

                3.  Hvert er eðlilegt og sanngjarnt verðmæti eftirtalinna byggingarefna úr harðviði, mahogny, sem matsþoli átti að afhenda matsbeiðanda samkvæmt samningi þeirra frá 7. janúar 2004. Uppgefnar kostnaðartölur skulu gefnar upp með og án virðisaukaskatts: 

a.    Veggklæðning Tatjuba 133x20 mm 180 m2.

b.    Inniklæðning Lambrini 90x10 mm 220 m2.

c.    Stoðir/þak inni 4stk 4m 8m.

d.    Stoðir/þak úti 4stk 2,80m ll,2m.

e.    Sperrur í þak V2-7xl5cm 27m.

                4.  Hvort þrjár útihurðar og tvær svalahurðar, ásamt dyraumbúnaði, sem matsbeiðendur hafa fengið afhentar frá matsþola samræmast kröfum sem gerðar eru til slíkra útihurða og dyraumbúnaðar samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441 frá 1998 og öðrum reglum sem um slíkar hurðar gilda á Íslandi sem og venjum í  þessum efnum í byggingariðnaði hér á landi.  Er þess óskað að stærðum og þykkt hurðanna og dyra­umbúnaðarins verði lýst.  Telji matsmaður hurðarnar eða umbúnað þeirra frábrugðinn því sem kröfur eru gerðar um eða venjum í þessum efnum er óskað eftir að matsmaður geri ítarlega grein fyrir því í hverju sá munur liggi og kostnaði við að láta smíða sambærilegar hurðar og dyraumbúnað á Íslandi.  Óskað er eftir að kostnaðurinn verði sundurliðaður og uppgefnar kostnaðartölur gefnar upp með og án virðisaukaskatts. 

                Matsgerð er dagsett 20. desember 2005. 

                Kostnaður við smíði glugga samkvæmt matslið 1 er talinn munu nema 876.700 krónum, 1.091.492 krónum með virðisaukaskatti. 

                Um matslið 2 segir að ekkert sé óeðlilegt við stærðir glugga, þeir séu hefðbundnir og eðlilegir miðað við íslenskar aðstæður. 

                Verðmæti hins tilgreinda efnis samkvæmt matslið 3 telur matsmaður vera 2.400.640 krónur, 2.988.797 krónur með virðisaukaskatti. 

                Um matslið 4 segir í matsgerðinni:

                „Ekki er fjallað um svalahurðir þar sem matsþoli sagði á matsfundi að þær væru rangt afgreiddar, sjá bókun í matsfundargerð. 

                Útihurðirnar eru fulningahurðir og er stærð þeirra 0.9 x 2.1 m og þykkt 42 mm.  Þversnið karma er 140 x 43 mm.  Dýpt á falsi er 45 mm og hæð 10 mm.  Stærð á hurð stenst ákvæði 79. gr. byggingareglugerðar. 

                Hér á landi er algeng þykkt á útihurð um 55 mm og dýpt á falsi 58 mm og hæð 20 mm.  Með 10 mm hæð á falsi er illmögulegt að koma fyrir þéttilistum, sem þéttingu milli hurðar og karms.

                Hurðarspjald er samsett úr ramma með fulningum...  Hurðarspjald var leka­prófað með því að sprauta á hana vatni úr garðslöngu.  Eftir skamman tíma byrjaði hurðarflekinn að leka með samsetningum...  Samsetning á hurðarspjaldinu er ekki límd saman eins og tíðkast hér á landi heldur er hún fest saman með töppum... sem skýrir leka um samsetningu.”

                Matsmaður segir loks að útihurðirnar henti ekki aðstæðum hér á landi og að kostnaður við gerð nýrra hurða nemi 462.000 krónum, 575.190 krónum með virðis­aukaskatti. 

             Málsástæður og lagarök stefnanda. 

             Stefnandi segir að réttindi Hálendisflugs ehf. samkvæmt ofangreindum samningi hafi verið framseld til sín með samningi í október 2004. 

             Stefnandi segir að fyrst 15. febrúar 2005 hafi stefndu kvartað vegna afhendingardráttar, en fram til þess tíma hafi þau tekið við öllu efni athugasemdalaust.  Þá hafi allt efni verið tiltækt til afhendingar.  Þann dag hafi þau krafist riftunar samningsins að hluta.  Þetta telur stefnandi of seint fram komið og eigi ekki við nein rök að styðjast. 

             Í stefnu var krafist greiðslu á 1.517.391 krónu.  Var fjárhæðin skýrð svo að upphafleg samningsfjárhæð hafi verið USD 28.085.  Samkomulag hafi orðið um að fella úr kaupunum tiltekna veggklæðningu að verðmæti USD 5.500, en við hafi bæst tvær innihurðir fyrir USD 1.000.  Samningsfjárhæðin hafi því orðið USD 23.585.  Stefndu hafi greitt 504.789 krónur þann 9. janúar 2004, sem miðað við gengi þá nemi USD 7.229.  Eftirstöðvarnar, USD 16.365, kveðst stefnandi hafa greitt 23. júní, sem miðað við gengi þann dag nemi 1.119.452 krónum.  Að viðbættum virðisaukaskatti nemi skuldin stefnufjárhæðinni.  Undir rekstri málsins lækkaði stefnandi kröfu sína vegna tveggja útihurða og tveggja svalahurða um 70.838 krónur.  Eftir stendur endanleg krafa stefnanda, 1. 446.553 krónur. 

             Stefnandi byggir á samningi aðila.  Í samningnum sé að finna nákvæma lýsingu á gagnkvæmum skyldum.  Stefnandi kveðst hafa efnt sínar skyldur að fullu.  Hann muni afhenda síðustu munina, sperrur og stoðir, gegn greiðslu stefnukröfunnar.  Stefndu hafi lýst því yfir að þau muni ekki greiða kröfuna þótt það sem eftir stendur verði afhent.  Því hafi þau vanefnt skuldbindingar sínar og eigi ekki rétt á síðustu afhendingu efnis.  Þar sé um að ræða óverulegan hluta samningsins.  Verðmæti sem nemi 143.536 krónum. 

             Stefnandi mótmælir því að stefndu hafi átt að fá afhenta samsetta glugga úr harðviði.  Gluggar séu ekki nefndir í efnislista sem sé hluti samnings.  Orðin „gluggar eru samsettir” í 7. tl. samningsins sé í upptalningu þess sem ekki fylgi með í kaupunum. 

             Stefnandi vísar til meginreglna um skuldbindingargildi samninga.  Þá vísar hann til VII. kafla laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. 

             Málsástæður og lagarök stefndu. 

             Stefndu telja að í samningi aðila hafi m.a. falist skylda til að afhenda glugga úr harðviði í umrætt hús.  Framkvæmdastjóri stefnda, Páll Jónsson, hafi beint og óbeint bæði í orði og verki tjáð stefndu að gluggar hafi átt að fylgja með í kaupunum.  Hafi hann með þessu fellt skyldu til afhendingar glugganna á stefnanda.  Þá verði ákvæði samnings aðila ekki skilin á annan veg.  Vísa stefndu hér til 1. og 6. gr. samningsins.  Þá sé í 7. gr. tekið fram að gluggar séu samsettir.  Þá vísa stefndu til fyrra tilboðs Páls Jónssonar.  Enn fremur benda stefndu á að hönnun glugganna sé mjög sérstök og í samræmi við glugga og gluggafög sem Páll flutti inn og höfðu verið notaðir í önnur hús sem sem hann hafði selt efni í og Sveinn Ívarsson arkitekt hafði teiknað.  Loks hafi samningur aðila verið saminn af lögmanni stefnanda.  Vafaatriði beri því að skýra stefndu í hag. 

             Stefndu byggja sýknukröfu á því að þeim beri, samkvæmt skýrum ákvæðum samningsins ekki að greiða eftirstöðvar kaupsverðs fyrr en allt það efni sem keypt var hafi verið afhent.  Þar á meðal beri að telja glugga úr harðviði.  Þau taka fram að þau krefjist ekki lengur afhendingar þess efnis sem þau hafi rift samningi um, þ.e. inniklæðningu, sperrum og stoðum.  Þá krefjist þau ekki afhendingar þess sem samkomulag hafi tekist um að fella úr samningnum, þ.e. veggklæðningar. 

             Þá telja stefndu sér heimilt að halda eftir greiðslu þar til stefnandi hafi efnt samninginn.  Vísa þau hér til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, 22. og 42. gr.  Nemi verðmæti glugganna ekki lægri fjárhæð en stefnufjárhæðinni, að teknu tilliti til lækkunar vegna riftunar á hluta samnings og skaðabótakröfu stefndu vegna vanefnda stefnanda. 

             Verði ekki á framangreindar málsástæður fallist krefjast stefndu sýknu vegna skuldajafnaðar.  Telja þau sig eiga rétt til skaðabóta vegna vanefnda stefnanda.  Verði ekki á skaðabótakröfu fallist eigi þau rétt til afsláttar af umsaminni samningsfjárhæð sem nemi verðmæti harðviðarglugga. 

             Skaðabótakrafa er reist á 27. gr. laga nr. 50/2000 og almennu sakarreglunni.  Þá er vísað til reglunnar um vinnuveitendaábyrgð.  Verulegar vanefndir á afhendingu hafi valdið tjóni og töfum við framkvæmdir.  Afsláttarkrafa er byggð á meginreglum kröfuréttar. 

             Þá er vísað til niðurstöðu matsgerðar.  Í fyrsta lagi um verðmæti glugga, en einnig um verðmæti annars þess efnis sem ekki hefur verið afhent samkvæmt samningi. 

             Stefndu mótmæla því að þau hafi fyrst með bréfi 15. febrúar kvartað yfir afhendingardrætti.  Það hafi þau margoft gert munnlega við Pál Jónsson, framkvæmdastjóra stefnanda.  Stefndu segjast hafa neitað að taka við innipanel, sem þeim hafi verið sýndur, þar sem hann hafi verið of grófur og ekki hæfur til notkunar innanhúss. 

             Þá segir að riftun varðandi annað efni hafi ekki verið óeðlileg.  Er fjallað um þetta atriði nánar, en sú umfjöllun er óskiljanleg og var ekki skýrð við munnlegan málflutning. 

             Þá mótmæla stefndu því að bætt hafi verið við pöntunina tveimur innihurðum.  Samið hafi verið um að í stað glugga í stofu yrði sett hurð út á verönd.  Ekki hafi átt að koma til greiðslu vegna þessa. 

             Varakrafa stefndu er byggð á sömu sjónarmiðum og sýknukrafa. 

             Loks mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfu.  Stefnandi hafi ekki enn efnt samning aðila og heldur ekki lagt fram gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að meta verðmæti þess sem afhent hefur verið. 

             Forsendur og niðurstaða. 

             Báðir málsaðilar vísa til laga um lausafjárkaup.  Um þau skipti aðila sem hér eru til umfjöllunar gilda lög um neytendakaup nr. 48/2003, sbr. 1. gr. laganna, og verður að beita þeim til að leysa úr þeim málsástæðum sem aðilar hafa uppi. 

             Endanleg krafa stefnanda er að fjárhæð 1.446.553 krónur.  Stefndu mótmæla því ekki að krafa sé gerð í íslenskum krónum, en samið var um kaupverðið í dollurum. 

             Stefnandi heldur því fram að endanleg samningsfjárhæð sé USD 23.585.  Segir hann þá að kaupverðið hafi hækkað um USD 1.000 vegna tveggja innihurða.  Þessari hækkun mótmælir stefndi og er hún gegn mótmælum hans ekki studd neinum gögnum og því ósönnuð.  Innborgun stefnda hinn 9. janúar 2004 reiknar stefnandi á USD 7.229 og verður því að telja að eftirstöðvar nemi USD 15.365, auk virðisaukaskatts.  Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem sýna sundurliðun á kaupverðinu.  Í samningi kemur fram eitt heildarverð, en verð einstakra hluta er ekki tilgreint. 

             Samkvæmt ákvæði samningsins átti að afhenda efni á byggingarstað.  Það var ekki gert.  Stefndu sóttu það efni sem þau hafa tekið við, en síðar hafa þau skorað á stefnanda að afhenda á réttum afhendingarstað.  Áskorun þessa efnis í bréfi lögmanns stefndu 15. febrúar 2005 svaraði stefnandi með útgáfu stefnu í máli þessu.  Þar er ekki að finna neinn fyrirvara um afhendingu efnis eða áskoranir um að taka við efni.  Verður að líta svo á að efni það sem ekki er komið í hendur stefndu sé ekki afhent, sbr. 7. gr. laga nr. 48/2003. 

             Aðila greinir á um hvort eitthvert gluggaefni hafi átt að fylgja í kaupunum.  Páll Jónsson sagði í aðilaskýrslu sinni að hann seldi ekki gluggaefni með þessari gerð húsa.  Þrátt fyrir þetta var á uppkasti að efnislista sem stafar frá stefnanda gert ráð fyrir því að gluggaefni myndi fylgja.  Af uppsetningu samnings verður ekki séð að gluggaefni hafi verið undanskilið.  Hins vegar er ekki tekið skýrlega fram að það eigi að fylgja.  Orðin Gluggar eru samsettir eru sett aftan við upptalningu tiltekinna hluta sem ekki áttu að fylgja.  Þetta er þó sérstakur málsliður og miðað við venjulegt tungutak er þetta ekki framhald upptalningar þess sem ekki átti að fylgja.  Eftir orðanna hljóðan er þetta lýsing á því hvernig gluggar verði afhentir.  Í efnislista sem aðilar skrifuðu undir við sama tækifæri er ekki minnst á neitt gluggaefni.  Þetta misræmi verður að skýra stefndu í hag.  Verður því að skilja samninginn svo að samsettir gluggar til ísetningar hafi átt að fylgja með í kaupunum. 

             Hluti af umsömdu efni hefur verið afhent stefndu.  Í samningi segir að efnið skuli afhent á byggingarstað í Njarðvík.  Það efni sem þó hefur verið afhent munu stefndu hafa sótt til Hafnarfjarðar.  Með bréfi lögmanns þeirra 15. febrúar er skorað á stefnanda að afhenda á byggingarstað allt efni sem þá var eftir.  Þessu svaraði stefnandi með því að gefa út stefnu þá sem hér er fjallað um.  Er hér var komið sögu var liðið nærri ár frá upphaflegum afhendingartíma, en í samningi segir að „áætlaður” afhendingartími sé 10. mars 2004.  Þessi viðbrögð stefnanda verður að skilja svo að hann muni ekki afhenda stefndu meira efni.  Stefndu hafa selt umrætt hús.  Það var byggt með talsvert öðrum hætti en ráðgert var, en byggt var steinhús. 

             Samkvæmt þessu vantar talsvert upp á að allt það efni sem selt var hafi verið afhent.  Ekki liggja frammi í málinu nein þau gögn er gera dóminum kleift að meta hversu mikið kann að vera ógreitt fyrir efni það sem þó hefur verið afhent.  Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að kaupverð sé ógreitt.  Málsreifun af hans hálfu er ekki með þeim hætti að unnt sé að taka afstöðu til þessara atriða.  Þar sem þeirri málsástæðu hans er hafnað, að honum dugi að bjóða efni til afhendingar, verður að líta svo á að hann hafi ekki sannað að stefndu beri að greiða meira en þau gerðu hinn 9. janúar 2004.  Verða stefndu því sýknuð af kröfum stefnanda. 

             Stefndu hafa ekki uppi gagnkröfur til sjálfstæðs dóms.  Að fenginni þessari niðurstöðu þarf ekki að leysa úr kröfu þeirra um skaðabætur.  Verður því ekki fjallað það hvort hurðir hafi verið gallaðar þrátt fyrir að þær væru í samræmi við lýsingu í efnislista, eða hvaða máli það skipti að stefndu geta ekki skilað þeim aftur.  Þá verður ekki fjallað um þá málsástæðu stefndu að afhending hafi dregist. 

             Stefndu óskuðu matsgerðar og greiddu kostnað af matsgerð sem áður er getið.  Við hana er það að athuga að þar er metinn kostnaður af sérsmíði hluta í stað fjölda­framleiddra eininga.  Hefði komið til þess að reikna stefndu skaðabætur hefðu þau þurft að sýna fram á að ekki væri raunhæft að afla þeirra hluta sem á vantaði með sambærilegum hætti, þ.e.a.s beinum innflutningi á sambærilegu hjá öðrum aðila.  Er því ekki unnt að líta til matskostnaðar þegar málskostnaður er ákveðinn.  Í samræmi við niðurstöðu málsins verður stefnanda gert að greiða stefndu 500.000 krónur í málskostnað.  Er þá virðisaukaskattur innifalinn. 

             Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari og meðdómendurnir Haraldur Sumarliðason húsasmíðameistari og Kristinn Tanni Hannesarson byggingaverkfræðingur. 

D ó m s o r ð

             Stefndu, Sigurður Árni Ólafsson og Lilja Þorsteinsdóttir, eru sýknuð af kröfum stefnanda, Harðviðar ehf. 

             Stefnandi greiði stefndu 500.000 krónur í málskostnað.