Hæstiréttur íslands

Mál nr. 441/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur


                                     

Miðvikudaginn 12. ágúst 2015.

Nr. 441/2015.

UBS AG

(Geir Gestsson hdl.)

gegn

LBI hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Frestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu L um að fresta máli hans á hendur U.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2015, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var frestað til 9. október sama ár í samræmi við kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að ákveða aðalmeðferð svo fljótt sem því verður við komið. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki komið frekar til álita.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, UBS AG, greiði varnaraðila, LBI hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2015.

Mál þetta, sem þingfest var 29. maí 2012, var tekið til úrskurðar 26. maí sl. um beiðni stefnanda, LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík, um frestun málsins til gagnaöflunar um erlendan rétt, en í þinghaldinu mótmælti stefndi, UBS AG, Aeschencorstadt, Basel, Sviss, því að stefnanda yrði veittur frekari frestur í þessum tilgangi. Var ágreiningur aðila tekin til úrlausnar eftir að gefinn hafði verið kostur á munnlegum athugasemdum.

Beiðni stefnanda um frest er reist á því hann afli nú gagna um erlendar réttarreglur, þ. á m. álitsgerðar sérfræðings. Er meðal annars bent á dóm Hæstaréttar 17. apríl sl. í hæstaréttarmáli nr. 231/2015 þessu til stuðnings. Af hálfu stefnda er hins vegar vísað til þess að hann hafi fyrst lagt fram álitsgerð um erlendan rétt með greinargerð sinni 12. desember 2012 og frekari réttarheimildir um erlendan rétt hafi verið lagðar fram 6. desember ári síðar. Stefndi vísar einnig til þess að í bókun stefnanda 6. febrúar sl. komi fram „að ekki kunni að reyna á erlend lög í málinu“ auk þess sem því hafi verið lýst yfir að ekki væri gerður ágreiningur um tilvist og efni þeirra réttarheimilda sem vísað hafi verið til af stefnanda. Stefndi hafi brugðist við bókun stefnanda með yfirlýsingu um að ekki væri ágreiningur um efni erlendra réttarreglna heldur væri einungis deilt um lagaskil. Þessari bókun hafi ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda. Með vísan til 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála telur stefndi því að synja eigi stefnanda um frekari frestun málsins.

Niðurstaða

Svo sem áður greinir lagði stefndi fram greinargerð sína 12. desember 2012 og fylgdi greinargerðinni álitsgerð sérfræðings um erlendan rétt. Á það verður fallist með stefnda að með þessu hafi orðið tilefni til gagnaöflunar um þetta atriði erlendra réttarreglna af hálfu stefnda. Á hitt er að líta að umfjöllun stefnda um erlendan rétt í greinargerð hans, svo og meðfylgjandi álitsgerð, beindist að meginstefnu að þeirri málsástæðu að hin umstefnda greiðsla stefnanda til stefnda hinn 5. ágúst 2008 hafi ekki falið í sér greiðslu skuldar samkvæmt enskum lögum og sé ráðstöfunin af þeirri ástæðu ekki riftanleg.

Fyrir liggur að 7. nóvember 2013 ákvað héraðsdómur að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana í máli sem stefnandi hefur höfðað gegn Merrill Lynch International Ltd. Við fyrirtöku málsins 1. október 2013 lét stefndi bóka að hann styddi beiðni Merrill Lynch International Ltd. um að aflað yrði ráðgefandi álits í því máli. Jafnframt áréttaði stefndi við þessa fyrirtöku málsins að ekki væri unnt að ljúka gagnaöflun fyrr en niðurstaða EFTA-dómstólsins lægi fyrir. Verður afstaða stefnanda ekki skilin á aðra leið en að hann telji ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins hafa þýðingu í málinu og þá þannig að reglur ensks gjaldþrotaréttar um riftun kunni að hafa þýðingu fyrir málatilbúnað hans. Að þessu virtu telur dómurinn að afstaða stefnda til þýðingar ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hafi gefið stefnanda nægilegt tilefni til að afla gagna um erlendar réttarreglur um riftun ráðstafana þrotamanns.

Eftir að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins lá fyrir 17. október 2014 var málið tekið fyrir að nýju 3. desember 2014. Lagði stefndi þá fram framhaldsálitsgerð eftir höfund fyrri álitsgerðar auk endurrita dóma enskra dómstóla. Að mati dómsins er ljóst að þessi gagnaframlagning stefnda beindist að sömu atriðum og áður framlögð álitsgerð. Í þinghaldinu skoraði stefndi jafnframt á stefnanda að taka afstöðu til tilvistar og efnis erlendra laga sem kynnu að skipta máli, en jafnframt áskildi stefndi sér réttar til að afla matsgerðar og/eða leggja fram önnur gögn um erlendar réttarreglur. Stefnandi svaraði bókun stefnda með bókun í þinghaldinu 26. febrúar sl. sem áður greinir. Í þeirri bókun kemur fram að stefnandi telji stefnda ekki geta byggt á þeirri málsástæðu að umrædd ráðstöfun hafi ekki verið riftanleg samkvæmt enskum gjaldþrotarétti þar sem þetta komi ekki fram í greinarferð og sé gagnaöflun um þetta atriði því tilgangslaus. Hins vegar kom einnig fram í bókun stefnanda að hann áskildi sér rétt til að leggja fram gögn um erlendar réttarreglur við þær aðstæður að stefndi leitaðist við að „axla sönnunarbyrði um efni og tilvist ótilgreindra erlendra réttarreglna sem stefndi byggði sýknukröfu sína á“. Stefndi lýsti því hins vegar yfir að hann teldi að þau gögn sem hann hefði þegar lagt fram fullnægði þeim kröfum sem fram kæmu í bókun stefnanda. Af hálfu stefnanda var því lýst yfir að því væri ekki mótmælt að lögð yrðu fram ljósrit úr erlendum laga- og dómasöfnum. Málinu var frestað að beiðni beggja aðila til gagnaöflunar.

Við fyrirtöku málsins 18. mars sl. lagði stefndi meðal annars fram bókun þar sem fram kom að enskar réttarheimildir hefðu verið lagðar fram og bæri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að þessi gögn væru röng. Málinu var á ný frestað að beiðni beggja aðila þótt dómari ítrekaði jafnframt fyrri tilmæli um að aðilar lyku gagnaöflun innan hæfilegs tíma.

Þótt stefnandi haldi því fram að málsástæður stefnda byggðar á tilskipun nr. 2001/24/EB og enskum reglum gjaldþrotaréttar um riftun ráðstafana þrotamanns séu of seint fram komnar og enskar reglur um þetta efni séu þar af leiðandi þýðingarlausar, verður ekki á það fallist að stefnanda sé af þessum ástæðum óheimilt að afla gagna um þetta atriði og tefla þeirri málsástæðu fram, til vara, að hin umstefnda greiðsla sé í reynd riftanleg samkvæmt enskum rétti. Í ljósi afstöðu stefnda til þýðingar ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins telur dómari að stefnanda hefði verið rétt að gera reka að gagnaöflun um þetta atriði í framhaldi af fyrirtöku málsins 3. desember 2014, ef hann á annað borð hugði á slíka gagnaöflun. Þá var sérstakt tilefni til slíkrar gagnaöflunar í framhaldi af því að stefndi skýrði afstöðu sína til þessa þáttar málsins við fyrirtöku málsins 6. febrúar sl. Hjá því verður þó ekki horft að stefnandi áskildi sér einnig rétt til gagnaöflunar um þetta atriði við fyrirtöku málsins 3. desember 2014 og var málinu tvívegis frestað að beiðni beggja aðila eftir það, svo sem áður greinir. Verður því ekki stefnanda alfarið um það kennt að meðferð málsins hefur dregist fyrr en nú.

Ekki verður fram hjá því horft að með dómi Hæstaréttar 17. apríl sl. í máli nr. 231/2015 var fallist á beiðni Merril Lynch International Ltd. um dómkvaðningu matsmanns sem ætlað er að veita álit á enskum réttarreglum um riftun ráðstafana á grundvelli samnings sem kann að vera sambærilegur þeim sem um ræðir í máli þessu. Þótt tilvist erlendra réttareglna sé háð sönnun aðila samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, hefur ekki verið litið svo á að aðilar geti ráðstafað sakarefninu að þessu leyti, sbr. dóm Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 620/2010. Er því ekki útilokað að vísað verði til fyrirhugaðrar matsgerðar í þessu máli til stuðnings fullyrðingum um afstöðu enskra réttarreglna til sakarefnis málsins við aðalmeðferð málsins. Eins og málið liggur fyrir verður því að fallast á það með stefnanda að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar hafi orðið honum nokkuð tilefni til þess að hefjast handa um gagnaöflun um erlendan rétt. Þegar þetta er haft í huga þykir fyrirhuguð gagnaöflun stefnanda ekki svo bersýnilega tilgangslaus að rétt sé að synja honum um frestun málsins þannig að aðalmeðferð málsins sé ákveðin þegar í stað. Er með þeirri niðurstöðu engin efnisleg afstaða tekin til málsástæðna aðila sem byggjast á erlendum réttareglum eða gagna sem þeir hafa eða hyggjast leggja fram.

Samkvæmt framangreindu verður málinu frestað til gagnaöflunar stefnanda, gegn mótmælum stefnda, til 9. október nk.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Málinu er frestað að beiðni stefnanda, LBI hf., gegn mótmælum stefnda, UBS AG, til 9. október nk. kl. 10 í dómsal 301.