Hæstiréttur íslands
Mál nr. 470/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Framlagning skjals
|
Miðvikudaginn 4. júlí 2012. |
|
|
Nr. 470/2012. |
Sérstakur saksóknari (Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari) gegn X og (Óttar Pálsson hrl.) Y (Þórður Bogason hrl.) |
Kærumál. Framlagning skjala.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu X og Y um að ákæruvaldinu yrði meinuð framlagning á tilteknu dómskjali. Hafði ákæruvaldið lagt skjalið fram í þinghaldi er fjalla átti um frávísunarkröfu X og Y. Vísaði Hæstiréttur til þess að umrætt gagn þjónaði þeim tilgangi einum að varpa ljósi á rannsókn málsins og féllst dómurinn ekki á þau rök að gagnið væri tilgangslaust við úrlausn um formhlið þess. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 29. júní 2012 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði „meinuð framlagning á dskj. nr. 41.“ Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa þeirra tekin til greina. Varnaraðilinn Y krefst þess til vara að sóknaraðila verði meinuð framlagning skjalsins að svo stöddu þar til leyst hefur verið úr ágreiningi um frávísun málsins.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sérstakur saksóknari mál á hendur varnaraðilum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með ákæru 14. desember 2011, þar sem þeim voru gefin að sök umboðssvik í störfum sínum hjá A hf. með lánveitingu til B ehf. Er brotið talið varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Málið var þingfest 10. janúar 2012.
Við fyrirtöku málsins 6. júní 2012 lögðu varnaraðilar fram bókun þar sem þess var krafist að málinu yrði vísað frá dómi. Er krafan einkum reist á því að tveir nafngreindir starfsmenn sóknaraðila, sem unnu að rannsókn málsins, hafi verið vanhæfir til að starfa að rannsókn þess vegna verks, sem unnið var af félagi í þeirra eigu, í þágu þrotabús B ehf. er snerti sakarefni málsins. Til stuðnings kröfunni er meðal annars fært fram að umræddir starfsmenn hafi haft beinna og verulega fjárhagslegra hagsmuna að gæta af því að gefin yrði út ákæra á hendur varnaraðilum. Því sé ástæða til að ætla að við rannsóknina hafi ekki verið gætt jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, heldur hafi fyrirfram verið byggt á sekt varnaraðila. Rannsókn málsins geti því ekki verið lögmætur grundvöllur saksóknar.
Í fyrrgreindu þinghaldi 6. júní 2012 lagði sóknaraðili fram bókun þar sem fram kom að embættið hefði með bréfi 26. apríl sama ár tilkynnt ríkissaksóknara um ætluð þagnarskyldubrot fyrrgreindra starfsmanna. Í bókuninni kom einnig fram að sóknaraðili hefði afráðið að láta fara fram athugun á vegum embættisins á nánar tilgreindum atriðum sem lúta að rannsókn málsins. Þegar málið var næst tekið fyrir 27. júní 2012 óskaði sóknaraðili eftir að leggja fram greinargerð 25. sama mánaðar „um skoðun og greiningu tiltekinna atriða“ við rannsókn málsins. Með hinum kærða úrskurði var hrundið kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði meinað að leggja skjalið fram.
Í greinargerðinni er framvindu rannsóknarinnar lýst og þá sérstaklega þætti fyrrgreindra tveggja starfsmanna sóknaraðila sem höfðu þar hlutverki að gegna. Jafnframt er lagt mat á hvort merkja megi einhvern mun í áherslum eða framgöngu þessara starfsmanna eftir að þeir tóku í september 2011 að sér verk fyrir þrotabú B ehf. Er um þetta fjallað án þess að nokkuð sé vikið að sakargiftum á hendur varnaraðilum. Án þess að afstaða verði tekin til sönnunargildis greinargerðarinnar, sem tekin var saman að tilhlutan sóknaraðila, þjónar hún þeim tilgangi einum að varpa ljósi á rannsóknina og tiltekna þætti hennar. Á það verður því ekki fallist með varnaraðilum að gagnið sé tilgangslaust við úrlausn um formhlið málsins. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Það athugast að héraðsdómari lagði fram og þingmerkti umrætt skjal þrátt fyrir andmæli varnaraðila, en að réttu lagi bar ekki að leggja skjalið fram fyrr en að gengnum úrskurði þess efnis.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2012.
Með ákæru embættis sérstaks saksóknara 14. desember 2011 og framhaldsákæru 28. febrúar 2012 er ákærðu, X og Y, gefið að sök umboðssvik, í störfum sínum fyrir A hf. með tilgreindri lánveitingu til einkahlutafélagsins B, sem talin eru varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Með bókunum verjenda ákærðu á dskj. nr. 24 og nr. 28 gerðu verjendur ákærðu kröfu um að máli þessu yrði vísað frá dómi. Var sú krafa að stofni til byggð á því að tilteknir rannsakendur í málinu hefðu gerst brotlegir við 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í tengslum við umfangsmikil störf rannsakendanna fyrir þb. B ehf. á sama tíma og þeir unnu að rannsókn málsins. Var ætlunin að málið yrði flutt um þá kröfu í þinghaldi í dag. Með bókun á dskj. nr. 22 í þinghaldi 6. júní sl. boðaði sækjandi að embætti sérstaks saksóknara myndi láta framkvæma skoðun og greina sérstaklega tilgreind atriði varðandi rannsókn málsins og skila niðurstöðum í formi greinargerðar. Varðaði það atriði ætluð brot tveggja starfsmanna embættis sérstaks saksóknara. Í upphafi þinghalds í dag þegar flytja átti málið um frávísunarkröfu verjenda lagði sækjandi fram greinargerð um skoðun og greiningu tiltekinna atriða í tilefni af máli ákæruvaldsins gegn X og Y. Verjendur ákærðu hafa mótmælt því að greinargerð þessi verði lögð fram í málinu og krafist úrskurðar dómsins um það atriði.
Af hálfu varnaraðila, X og Y, er þess krafist, að sækjanda verði meinuð framlagning dskj. nr. 41.
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kröfum varnaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði heimilað að leggja fram dskj. nr. 41.
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að sérstakur saksóknari hafi með vísan til 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 kært mál tveggja rannsakenda til ríkissaksóknara. Í kærunni felist sú efnilega afstaða sérstaks saksóknara að rökstuddur grunur sé uppi um brot á ákvæðum laga nr. 19/1940 um brot í opinberu starfi við rannsókn í málinu. Ljóst sé að við rannsókn ríkissaksóknara á hlutlægum og huglægum skilyrðum refsiábyrgðar samkvæmt þeim ákvæðum þurfi með einum eða öðrum hætti að staðreyna þau atriði sem sérstaklega séu tilgreind í bókun sérstaks saksóknara á dómskjali nr. 22. Í því ljósi og með tilliti til grunnreglna íslensks réttar um valdmörk stjórnvalda sé embætti sérstaks saksóknara, hið lægra setta stjórnvald, þannig ekki valdbært til að láta fara fram þá innri rannsókn sem lýst sé í bókuninni á meðan ríkissaksóknari, hið æðra stjórnvald, hafi málið til meðferðar á grundvelli 35. gr. laga nr. 90/1996. Innri rannsókn sé því ólögmæt og teljist til valdþurrðar.
Í þinghaldi 6. júní sl. hafi því verið lýst yfir af hálfu ákæruvalds að sú innri rannsókn embættisins sem nú hafi farið fram og lýst sé í greinargerð gæti eftir atvikum leitt til afturköllunar ákæru. Meðal annars af þeim sökum sé ótvírætt að hæfisreglur stjórnsýsluréttar eigi við um þá sem komi að afmörkun þeirra rannsóknaratriða sem hin innri rannsókn embættis sérstaks saksóknara lúti að svo og framkvæmd hennar. Ljóst sé að þær upplýsingar sem fyrir liggi um verulega persónulega og fjárhagslega hagsmuni rannsakendanna af rannsóknarniðurstöðum í málinu og augljóslega skortur á fullnægjandi eftirliti sérstaks saksóknara með störfum rannsakendanna hjá embættinu og utan þess hafi orðið til mikils álitshnekkis fyrir sérstakan saksóknara og embætti hans. Blasi við að vísun máls þessa frá dómi vegna slíkra annmarka á rannsókninni yrði verulegt áfall fyrir embættið og trúverðugleika þess. Sé því óhjákvæmilegt að líta svo á að fyrir hendi séu aðstæður sem séu til þess fallnar að draga í efa óhlutdrægni sérstaks saksóknara til að afmarka og láta framkvæma þá innri rannsókn sem fram hafi farið og að aukinheldur séu fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að efast um óhlutdrægni þeirra starfsmanna við embætti hans sem komið hafi að rannsókninni. Um hæfi rannsakenda til rannsóknar máls fari eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1996. Sé vísað til 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993 varðandi hæfi þeirra til meðferðar máls. Ákærðu haldi því fram að hagsmunaárekstur í störfum rannsakenda fyrir ákæruvaldið annars vegar og hins vegar einkaaðila, eða hætta á slíkum hagsmunaárekstri, séu slíkir að óhjákvæmilegt sé að draga hæfi rannsakendanna í efa. Rannsókn málsins sé ólögmæt og háð bersýnilegum annmörkum. Greinargerð sérstaks saksóknara á dskj. nr. 41 sé ekki sönnunargagn um hæfi rannsakenda. Sérstakur saksóknari og starfsmenn hans hafi því verið vanhæfir í skilningi stjórnsýslulaga til að koma að málinu, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. nr. 37/1993
Loks feli sú skoðun og greining sem birtist í greinargerð sækjanda í sér mat á þáttum sem með réttu hafi átt undir XIX. kafla sakamálalaga nr.88/2008 um matsgerðir. Þar sem reglum þess kafla laganna, svo sem um dómskvaðningu matsmanna, hæfi þeirra og rétt ákærðu til að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd matsins, hafi ekki verið fylgt, sé sú matsgerð sem greinargerðin feli í sér með öllu þýðingarlaus sem sönnunargagn í málinu.
Sóknaraðili mótmælir málflutningi varnaraðila í þessum þætti málsins. Greinargerðinni sé ætlað að upplýsa málið til að betur megi leggja grundvöll að framvindu þess. Ekkert sé því til fyrirstöðu að greinargerðin verði lögð fram við meðferð málsins áður en málið verði flutt um frávísun þess.
Niðurstaða:
Fyrir dyrum er málflutningur um kröfu verjenda um frávísun málsins. Byggir sú krafa á því að rannsókn málsins sé verulega áfátt í ljósi þess að tilteknir rannsakendur hafi á sama tíma og þeir unnu að rannsókn málsins unnið fyrir þrotabú einkahlutafélagsins B og notað í þeim störfum sínum trúnaðarupplýsingar úr lögreglurannsókninni. Hafi þeir verið vanhæfir til rannsóknar og meðferðar málsins. Dómskjali nr. 41 er af sóknaraðila ætlað að varpa ljósi á tiltekin atriði í tengslum við rannsókn málsins. Er hennar ekki aflað að frumkvæði dómsins, heldur að eigin frumkvæði sérstaks saksóknara og er henni upphaflega beint til þess embættis en ekki dómsins. Veitir skjalið öðru fremur upplýsingar um tiltekin atriði í framvindu rannsóknar málsins og hvernig henni hafi verið háttað.
Fyrir dóminum liggur krafa verjenda um frávísun málsins frá dómi. Við úrlausn um þá kröfu hefur dómurinn við að styðjast rannsóknargögn málsins, sem og þau gögn og bókanir sem fram hefur verið lagt undir meðförum málsins fyrir dómi. Ekki er fyrirfram unnt fyrir dóminn að meta hvaða þýðingu þessi gögn geti haft við úrlausn um frávísun og kemur það fyrst til úrlausnar eftir málflutning þar um. Gildir það sama um dskj. nr. 41 og verður því ekki fullyrt að skjalið sé tilgangslaust. Með hliðsjón af þessu, sbr. og 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008, verður hafnað kröfu verjenda ákærðu og ákæruvaldi heimilað að leggja fram dskj. nr. 41.
Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu varnaraðila, X og Y, um að sóknaraðila verði meinuð framlagning á dskj. nr. 41, er hafnað.