Hæstiréttur íslands
Mál nr. 663/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 11. desember 2008. |
|
Nr. 663/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari) gegn X (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en gæsluvarðhaldi markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 7. maí 2009 kl. 17. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 26. mars 2009 klukkan 17.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2008.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, sbr. 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 7. maí 2009 kl. 17.00.
Í greinargerð kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 6. nóvember 2008 hafi dómfelldi, X, verið sakfelldur fyrir tilraun til manndráps, sbr. 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur til að sæta fangelsi í 5 ár. Með yfirlýsingu dagsettri 27. nóvember s.l. hafi dómfelldi lýst yfir áfrýjun dómsins.
Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 14. ágúst 2008 á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 (síðasti úrskurður nr. R-604/2008).
Að mati ákæruvaldsins krefjast almannahagsmunir þess að maður sem sannur hafi orðið að tilefnislausri atlögu að lífi annars manns, líkt og dómfelldi hafi verið dæmdur fyrir, sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Með vísan til 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 þykir nauðsynlegt að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur í máli hans.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 6. nóvember sl., var dómfelldi sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og dæmdur til að sæta fimm ára fangelsi og hefur hann lýst yfir áfrýjun dómsins til Hæstaréttar.
Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991, lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi. Dómfelldi hefur áður sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laganna. Með tilliti til þess og með því að skilyrði 106. gr. eru uppfyllt, verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 7. maí 2009 kl. 17.00.