Hæstiréttur íslands

Mál nr. 591/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Föstudaginn 15. október 2010.

Nr. 591/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanns.

Úrskurður héraðsdóms, sem staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra um X skyldi framseldur til Póllands, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Honum var veitt kæruleyfi sbr. 2. mgr. 193. gr. og 200. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2010 þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra 30. júlí 2010 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum dæmdur kærumálskostnaður. Þá krefst hann hækkunar á þóknun réttargæslumanns frá því sem ákveðið er í úrskurði héraðsdóms.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um framsal varnaraðila.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 og ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um framsal varnaraðila, X.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferð málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2010.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 9. september sl.að loknum munnlegum málflutningi, sbr. 14. gr. laga nr. 13, 1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins frá 30. júlí 2010 um að framselja X til Póllands.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 30. júlí 2010 um að framselja varnaraðila til Póllands. Þá er krafist þóknunar verjanda úr ríkissjóði að mati dómsins.

Samkvæmt greinargerð ríkissaksóknara og gögnum málsins er það upphaf þess að íslenskum yfirvöldum barst beiðni frá pólskum yfirvöldum um það að varnaraðili yrði handtekinn þar sem til stæði að krefjast þess að hann yrði framseldur samkvæmt 95. gr. Schengen-samningsins.  Var hann handtekinn 24. september sl. og kannaðist hann þá við að eiga óafplánaða refsingu í Póllandi og viðurkenndi að hafa komið hingað til lands til að koma sér undan henni.   Dómsmálaráðuneytinu barst svo framsalsbeiðnin 19. október sl.  Samkvæmt beiðninni og gögnum sem fylgdu henni er hún gerð til þess að fullnægja því sem eftir stendur af fangelsisdómi héraðsdómstólsins [...] í Póllandi frá 3. apríl 2003 í máli nr. II K 96/01 en þá var varnaraðili dæmdur í fangelsi í 2 ár og 10 mánuði fyrir þrjú fíkniefnalagabrot:

1)       Fyrir að hafa, á tímabilinu mars til 5. september 2001 í bænum [...] þar í landi, í auðgunartilgangi, afhent nafngreindum manni 100 skammta af heróíni, sem hver um sig vó 0,25 grömm, samtals að fjárhæð PLN 5.000 hið minnsta.

2)       Fyrir að hafa, á tímabilinu maí 2000 til 5. september 2001 í sama bæ, í auðgunartilgangi, afhent nafngreindum manni 50 grömm af amfetamíni að fjárhæð PLN 1.500 hið minnsta, og 30 skammta af heróíni, sem hver um sig vó 0,25 grömm, samtals að fjárhæð PLN 1.350 hið minnsta.

Brotin samkvæmt liðum 1 og 2 vörðuðu við 1. mgr. 46. gr. þágildandi pólskra fíkniefnalaga frá 24. apríl 1997, sbr. 12. gr. pólskra hegningarlaga.

3)       Fyrir að hafa, þann 6. september 2001 í sama bæ,  haft í vörslum sínum 11,108 grömm af amfetamíni. Varðaði þetta við 1. mgr. 48. gr. þágildandi pólskra fíkniefnalaga.

Varnaraðili hóf að afplána dóm þennan en eftir að hafa fengið leyfi úr fangelsinu eftir eitt ár, þrjá mánuði og sjö daga vist gaf hann sig ekki fram til afplánunar á ný á tilskilinni stundu.  Sami dómstóll ákvað svo 14. júní 2007 að framkvæmd refsingar varnaraðila skyldi frestað og að lýst skyldi eftir honum.

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin 22. október 2009 og kannaðist við að hún ætti við hann en jafnframt mótmælti hann henni.  Í samræmi við 17. gr. laga um framsal sakamanna o.fl. sendi ríkissaksóknari dómsmálaráðuneytinu álitsgerð um málið 4. nóvember 2009.   Þar kemur fram það álit ríkissaksóknara að efnisskilyrði framsals séu uppfyllt, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. laganna, sem og formskilyrði, sbr. 12. gr. þeirra.  Athygli ráðuneytisins var jafnframt vakin á því að mál á hendur varnaraðila sætti þá lögreglurannsókn vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni og að á meðan málið væri til meðferðar hér á landi væri ekki heimilt að framselja hann, sbr. 2. málslið 1. mgr. 10. gr. framsalslaganna. Mál þetta kom upp þegar varnaraðili var handtekinn vegna framsalsmálsins sem fyrr er getið.  Var  gefin út ákæra á hendur honum 12. janúar sl. fyrir fíkniefnalagabrot og með dómi héraðsdóms Reykjaness 16. mars sl. var hann dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði en því frestað skilorðsbundið að framkvæma fjóra mánuði af þessari refsingu.  Fyrirhugað er að varnaraðili hefji innan tíðar að afplána hinn óskilorðsbundna hluta dómsins. 

Dómsmálaráðuneytið tók ákvörðun um að verða við beiðni pólskra dómsmálayfirvalda að framselja varnaraðila þann 30. júlí sl.  Í bréfi ráðuneytisins var tekið fram að fyrirliggjandi upplýsingar um persónulega hagi varnaraðila geti ekki, að mati ráðuneytisins, talist nægilegar til að synja um framsal, samkvæmt undantekningarákvæði 7. gr.  Varnaraðili hefur sætt farbanni í þágu málsins frá 24. september 2009 og rennur það út 4. október nk. 

Ríkissaksóknari vísar um skilyrði til framsals til I. og II. kafla framsalslaganna og þess sem rakið var svo og til ákvörðunar dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, dags. 30. júlí sl.

Í greinargerð varnaraðila segir að hann hafi komið hingað til lands í atvinnuleit í ársbyrjun 2007 ásamt konu sinni og ungum syni  og dreng, sem nú er níu ára og hafi hann þegar fengið vinnu.  Frá því í apríl það ár hafi hann unnið hjá fyrirtækinu [...] og getið sér gott orð.  Sonur þeirra hjóna hafi stundað nám í [...]skóla og honum sóst námið vel.  Í mars á þessu ári hafi þeim hjónum fæðst annar sonur en við fæðingu hafi komið í ljós að um var að ræða sjúkdóm sem á ensku heiti „congenital cystic adenomatoid malformation“, sem lýsti sér í því að í lungunum hafi verið vökvafylltar blöðrur, sérstaklega í neðri lappa hægri lunga.  Sé barnið enn undir læknishendi vegna þessa.  Vegna þessa hafi eiginkona varnaraðila ekki getað unnið utan heimilis eins og hún gerði áður.  Varnaraðili mótmæli framsalsbeiðninni með skírskotun til 7. gr. framsalslaga og krefjist þess að tekið verði tillit til mannúðarsjónarmiða.  Dómsmálaráðuneytið hafi ekki metið aðstæður varnaraðila svo að ákvæði 7. gr. laganna ætti við og því sé þess krafist að dómurinn hnekki því mati ráðuneytisins og fallist á það að ákvæði 7. greinarinnar komi í veg fyrir framsal varnaraðila.  Vísar varnaraðili til þess að sjúkdómur barnsins sé þess eðlis að hann geti fyrirvaralítið á næstu mánuðum eða árum þurft að fara í uppskurð til þess að fjarlægja hluta sýkta lungans. Þurfi ekki að fjölyrða um hve fjarvera varnaraðila kæmi sér illa fyrir barnið og fjölskylduna ef til þessa kæmi.  Dóminum beri að meta hagsmuni þeirra er að máli þessu koma, þ.e. annars vegar hagsmuni varnaraðila og hins vegar hagsmuni pólskra yfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan.  Hagsmunir varnaraðila snúi að fjölskyldu hans, þ.e. eiginkonu og tveimur börnum, og velferð fjölskyldunnar.  Varnaraðili vísar til niðurstöðu greiðslumats, sem lögð hefur verið fram í málinu.  Segir hann jafnframt að verði fallist á það að hagsmunir pólska ríkisins séu ríkari og að framsalskrafan nái fram að ganga sé veruleg hætta á því að fjölskyldan fari á vonarvöl eða lendi a.m.k. í verulegum fjárhagsvandræðum.  Þá sé og veruleg hætta á því að velferð og heilsu litla drengsins verði stefnt í hættu geti varnaraðili ekki verið til staðar ef heilsu barnsins skyldi hraka og hann jafnvel þurfa að gangast undir mikla skurðaðgerð.  Ekki sé verjandi að leggja þá áhættu á fjölskylduna og barnið.  Af þessu megi vera ljóst að hagmunir varnaraðila eru langtum ríkari og ganga miklu framar en hagsmunir pólskra yfirvalda.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu þar á meðal endurrit þeirra dóma sem framfylgja á, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. framsalslaganna er því aðeins heimilt að framselja mann ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.  Ljóst er að brot þau sem varnaraðili var sakfelldur fyrir í Póllandi myndu varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og gætu varðað 6 ára fangelsi. Skilyrði 3. gr. framsalslaga eru því uppfyllt.  Þá væri fangelsisrefsing ekki fallin niður, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er því einnig uppfyllt skilyrði 9. gr. framsalslaganna.

Samkvæmt 7. gr. laga um framsal sakamanna o.fl. má í sérstökum tilfellum synja um framsal ef mannúðaráðstæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður.

Hér að framan var gerð grein fyrir andmælum varnaraðila gegn framsalskröfunni og rökstuðningi hans fyrir þeim.  Í ákvörðun dómsmálaráðherra frá 30. júlí sl. er fjallað ítarlega um það hvort skilyrði séu til þess að hafna kröfu um framsal á grundvelli 7. gr. framsalslaga eins og varnaraðili ber fyrir sig.  Þar vegast á gagnstæð sjónarmið. Annars vegar eru eðlilegir hagsmunir hins erlenda ríkis af því að fá einstakling framseldan og mikilvægi þess að ekki sé grafið undan framsalskerfinu sem er hluti af alþjóðlegu samstarfi á sviði afbrotamála.  Hins vegar eru mannúðarástæður sem eru fjölskyldu- og fjárhagsástæður.  Ekki verður annað séð en þessi atriði hafi verið metin með réttum og málefnalegum hætti af hálfu dómsmálaráðherra og verður því mati ekki haggað.  Verður því ekki talið að skilyrði séu til þess að hafna kröfu um framsal á grundvelli 7. gr. laga um framsal sakamanna o.fl..

Samkvæmt framansögðu eru uppfyllt lagaskilyrði um framsal varnaraðila og verður því staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 30. júlí 2010 um að framselja varnaraðila til Póllands, eins og nánar greinir í úrskurðarorði, enda verði gætt ákvæðis 1. mgr. 10. gr. laga um framsal sakamanna o.fl.

Þóknun verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur með virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 16. gr. framsalslaga.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðherra 30. júlí 2010 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands.

Þóknun verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.