Hæstiréttur íslands

Mál nr. 13/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. janúar 2006.

Nr. 13/2006.

M

(Helga Leifsdóttir hdl.)

gegn

K

(Andri Árnason hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að K hefði forsjá tveggja barna málsaðila til bráðabirgða þar til dómur gengi í forsjármáli þeirra, sem og niðurstaða um umgengnisrétt barnanna við M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. janúar 2006. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2005, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um forsjá tveggja sona þeirra til bráðabirgða, umgengni við þá og meðlagsgreiðslur. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá drengjanna til bráðabirgða, en þeir eru fæddir 1995 og 1997. Til vara krefst hann þess, að forsjáin verði áfram sameiginleg til bráðabirgða og að samvistir aðila við þá verði vika í senn. Til þrautavara krefst hann þess, fái varnaraðili forsjána til bráðabirgða, að umgengni sín verði eins og kveðið er á um í hinum kærða úrskurði, en við hana bætist samvistartími hans við drengina í vikunni á eftir helgarumgengni frá kl. 14.00 á miðvikudegi til kl. 09.00 á fimmtudegi, þar til endanlegur dómur gengur um forsjána. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt var sambúð málsaðila skráð í þjóðskrá. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnalaga fóru málsaðilar þá báðir með forsjá drengjanna. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laganna skal ávallt skipa forsjá barns við slit sambúðar foreldra, sem skráð hefur verið í þjóðskrá, og geta þeir samið um að hún skuli verða sameiginleg, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Við fyrirtöku máls um sambúðarslitin hjá sýslumanninum í Reykjavík 11. ágúst 2005 var bókað eftir sóknaraðila, að hann samþykkti ekki að varnaraðili færi ein með forsjá barnanna. Yrði málið „í biðstöðu meðan foreldrar eru í sáttameðferð.” Hefur því ekki komið til þess að sýslumaður staðfesti samning um forsjá barnanna, en slík staðfesting er skilyrði þess að samningur öðlist gildi samkvæmt 5. mgr. 32. gr. barnalaga. Líta verður svo á, að sameiginleg forsjá foreldranna haldist áfram meðan á fresti hjá embætti sýslumanns stendur. Hvort þeirra um sig krefst í máli þessu bráðabirgðaforsjár sér til handa. Verði kröfum þeirra hafnað leiðir af því að núverandi skipan helst óbreytt þar til dómur hefur gengið í forsjármálinu. Verður að telja að varakrafa sóknaraðila lúti að þessu.

Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2005.

Krafa sóknaraðila, K, [heimilisfang], um forsjá til bráðabirgða var móttekin í héraðsdómi 18. nóvember sl. Varnaraðili er M, [heimilisfang].

Sóknaraðili gerir þá kröfu að honum verði falin til bráðabirgða forsjá barnanna A, fædds [...] 1995 og B, fædds [...] 1997, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá er þess krafist að ákveðið verði meðlag og umgengnisréttur varnaraðila og barnanna meðan forsjármál aðila er rekið. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Varnaraðili krefst þess einnig að honum verði falinn forsjá barnanna til bráðabirgða eða allt þar til endanlegur dómur hefur gengið í forsjármáli aðila. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir af dómara 25. nóvember sl. og þá frestað til greinargerðar og gagnaöflunar varnaraðila til 9. desember sl. jafnframt því sem dómari óskaði eftir því að sóknaraðili legði fram frekari gögn um námsframmistöðu barnanna. Í þinghaldi 9. desember sl. var bókað eftir lögmönnum aðila að þeir teldu sig ekki þurfa að leggja fram frekari sýnileg sönnunargögn. Ákvað dómari þá að frekari meðferð málsins yrði þannig háttað að aðilar gæfu skýrslu fyrir dómi auk þess sem dómari ræddi við börnin, en málið yrði flutt munnlega í framhaldi af því. Dómari upplýsti aðila jafnframt um að hann teldi ekki þörf á frekari gagnaöflun til að leysa úr forsjá til bráðabirgða. Af hálfu aðila var óskað eftir því að dómari ræddi einu sinni við börnin þegar þau dveldust hjá sóknaraðila og einu sinni þegar þau dveldu hjá varnaraðila. Í samráði við aðila ræddi dómari því við börnin í fyrsta sinn síðdegis 9. desember sl. og enn á ný 13. sama mánaðar. Af hálfu barnanna kom ekki fram nein ákveðin afstaða til þess hjá hvorum málsaðila þau vildu búa. Hinn 13. desember sl. gáfu aðilar skýrslur fyrir dómi. Var málið tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi sama dag.

I.

Málsaðilar hófu sambúð á árinu 1994 og eignuðust A [...] 1995 og B [...] 1997. Þeir slitu sambúðinni 15. júní sl. að frumkvæði sóknaraðila og flutti varnaraðili þá út af heimili aðila að [...], Reykjavík. Hann leigir nú íbúð að [...] sem er í Grafarvogi líkt og húsið að [...]. Aðilum málsins ber saman um að í lok ágúst sl. hafi það orðið að samkomulagi að börnin myndu dvelja í senn eina viku hjá sóknaraðila og eina viku hjá varnaraðila.

Sóknaraðili hefur ekki lokið formlegri menntun eða starfsþjálfun, en hefur sinnt ýmsum störfum, þar á meðal var hann heimavinnandi frá því að börnin fæddust til ársins 2004. Sóknaraðili vinnur nú hjá [...] sem er [...]. Að sögn sóknaraðila er hann í 60% starfi, en sinnir auk þess aukaverkefnum sem greitt er fyrir sérstaklega. Sóknaraðili kveðst yfirleitt hafa lokið vinnu sinni um kl. 13 á daginn. Taki hann á móti börnunum þegar þau koma heim úr skóla upp úr kl. 14 og 14.30 og leiki þau sér þá úti eða inni fram að matartíma. A vinni stundum heimaverkefni sem sóknaraðili aðstoði hann við eftir þörfum. Mánaðarlaun sóknaraðila eru um 105.000 krónur og eru þá ekki taldar með tekjur vegna meðlagsgreiðslna. Sóknaraðili telur heimilisaðstæður sínar góðar, en auk barnanna A og B á sóknaraðili tvö önnur börn sem búa á heimilinu, C sem er tæpra 15 ára og D sem er 17 ára. Þeir stunda báðir nám. Hjá sóknaraðila deila A og B herbergi.

Varnaraðili hefur ekki lokið formlegri menntun eða starfsþjálfun, en hefur unnið við ýmis störf, þar á meðal sem flutningabílstjóri og við smíðar. Hann hefur meðal annars starfað nokkuð úti á landi undanfarin ár. Hann starfar nú hjá byggingarfyrirtæki sem [...] og hefur ríflega 200.000 krónur í mánaðarleg laun. Hann lýkur vinnu yfirleitt milli kl. 17 og 18 á daginn en hefur lýst því að vinnutími hans geti verið sveigjanlegur ef á þurfi að halda. Hann leigir húsnæði að [...] sem er ekki langt frá [...] sem og skólum barnanna. Hefur hann jafnvel í hyggju að festa kaup á þessu húsnæði. Varnaraðili telur heimilisaðstæður sínar góðar, en hann er enn að koma sér upp innbúi eftir að hann og sóknaraðili slitu sambúð síðastliðið sumar. Hjá honum hafa börnin sameiginlegt herbergi. Varnaraðili nýtur aðstoðar móður sinnar þegar börnin dvelja hjá honum. Sækir hún þá börnin í skólann og dvelur með þeim heima þar til varnaraðili kemur heim úr vinnu upp úr kl. 17.

Nokkur gögn liggja fyrir um nám og hegðun A og B í skóla. Af þessum gögnum verður ráðið að A eigi við nokkra námsörðugleika að stríða og hefur hann notið sérkennslu með einstaklingskennslu á skólagöngu sinni. Samskipti við jafnaldra virðast vera A erfið. Í verklegum greinum stendur A sig hins vegar vel. Fyrir liggur sálfræðilegt mat frá október sl. á A sem framkvæmt var af Guðrúnu Ingu Guðmundsdóttur, sálfræðingi í Miðgarði. Kemur þar fram að A virðist eiga í vaxandi erfiðleikum með að fóta sig í hópi jafnaldra, þar sem stríðni og árekstrar virðist áberandi. Athyglisvandkvæði og erfið hegðun virðist hafa færst í aukana og eigi A sífellt erfiðara með að einbeita sér að heimavinnu. Þá segir að einkenni um athyglisbrest uppfylli greiningarviðmið og veruleg ofvirknieinkenni komi fram í skólaumhverfi. Samkvæmt upplýsingum málsaðila hefur A nýlega hafið að taka lyf vegna ofvirknieinkenna og athyglis­brests.

Í fyrirliggjandi gögnum um B kemur fram að hann eigi erfitt með nám í almennum bekk vegna ofvirkni og athyglisbrests, en hann hefur einnig notið sérkennslu. Í gögnum málsins koma fram upplýsingar um ýmis atvik í skóla sem ekki er ástæða til að rekja nánar. Samkvæmt upplýsingum málsaðila hefur B nýlega hafið að taka lyf vegna ofvirknieinkenna og athyglisbrests.

II.

Sóknaraðili telur að hegðun barnanna hafi versnað til muna upp úr miðjum september sl. og megi rekja það til fyrrgreindrar viku og viku skiptingar. Telur sóknaraðili ekki fært að halda áfram umgengni með þessum hætti og því óhjákvæmilegt að krefjast úrskurðar um bráðabirgðaforsjá í ljósi ágreinings málsaðila. Sóknaraðili telur að það sé börnunum fyrir bestu að honum verði falin forsjáin til bráðabirgða. Vísar hann til þess að með þeim hætti yrðu börnin áfram á sínu gamla heimili. Þá vinni sóknaraðili úti aðeins hálfan daginn og sé því betur í stakk búinn til að hlúa að börnunum og vinna með náms- og hegðunarerfiðleika þeirra.

Varnaraðili leggur áherslu á að náin tengsl séu á milli hans og barnanna sem hafi ekkert síður verið í hans umsjá en sóknaraðila. Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi sýnt skilningsleysi á hagsmunum barnanna með ýmsum hætti. Vísar hann til samskipta varðandi eignaskipti og fyrirtekta hjá sýslumanni um málefni aðila. Það þjóni hagsmunum barnanna betur að búa hjá varnaraðila. Hafi hann yfir að ráða rúmgóðu húsnæði sem hafi frá upphafi verið hugsað með tilliti til barnanna. Heimili varnaraðila sé nálægt skólum barnanna og þar sé góð aðstaða fyrir börnin til að leika sér. Þá sé vinnutími varnaraðila sveigjanlegur og hann njóti stuðnings nánustu fjölskyldu við ummönnun barnanna. Varnaraðili lýsir sig að öðru leyti reiðubúinn til að halda áfram því fyrirkomulagi á umgengni sem hefur verið við lýði frá því í lok ágúst. Telur hann að þetta fyrirkomulag hafi gengið vel og ekkert sé komið fram um að það hafi haft óæskileg áhrif á börnin. Hins vegar sé eðlilegt að skilnaður geti haft neikvæð áhrif á líðan og hegðan barna. Sé fyllilega heimilt að kveða upp úrskurð um slíkt fyrirkomulag samkvæmt 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Börnin eigi rétt á um­gengni við hann rétt eins og sóknaraðila. Sóknaraðili eigi ekki að fá betri stöðu í forsjárdeilu aðila með því að ákveða einn dvalarstað barnanna. Fái sóknaraðili forsjá til bráðabirgða séu líkur á því að umgengni við varnaraðila verði lítil. Þá bendir varnaraðili á að fjárhagslegar aðstæður sóknaraðila séu lakar, en hann geti tæplega framfleytt fimm manna fjölskyldu með hálfsdags vinnu. Varnaraðili bendir einnig á mikilvægi þess að börnin búi við stöðugleika, mikla umönnun og aðstoð, sérstaklega í sambandi við skólasókn þeirra, þar sem þau hafi þurft mikla sérkennslu og stuðning í skóla.

III.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að málsaðilar sammæltust í lok ágúst sl. um að börnin skyldu dvelja hjá þeim viku og viku í senn. Dómari telur að fyrirkomulag sem þetta geti í undantekningartilvikum samrýmst hagsmunum barna, t.d. þegar heimili foreldra eru mjög nálægt hvor öðru eða um er að ræða skamman tíma. Að áliti dómara er fyrir­komu­lag sem þetta þó almennt vafasamt með hliðsjón af þörf barna á festu og öryggi í umhverfi sínu.

Í máli þessu eru aðilar sammála um að þeir A og B hafi þörf á stöðugleika í umhverfi sínu svo og nokkuð stöðugri athygli og aðstoð frá foreldrum. Er þessi skoðun í samræmi við fyrirliggjandi gögn um hegðun og námsörðugleika A og B. Þá liggur fyrir í málinu að heimili málsaðila eru í svo mikilli fjarlægð hvort frá öðru að ekki er hægt að búast við því að börnin fari gangandi þar á milli. Að öllu þessu virtu er það álit dómara að núverandi fyrirkomulag geti ekki samrýmst hagsmunum A og B til lengri tíma. Getur réttur þeirra til samvista við báða foreldra sína ekki helgað þá niðurstöðu að þeim sé ætlað að skipta um dvalarstað á vikufresti í ótiltekinn tíma, líkt og varnaraðili hefur haldið fram í málinu. Að mati dómara hefur ekkert komið fram í málinu sem bent getur til þess að heppilegt sé að aðskilja börnin. Er það því niðurstaða dómara að heppilegast sé að A og B eigi báðir heimili sitt hjá öðrum málsaðila og sæki þaðan skóla, en njóti ríkulegrar umgengni við hinn aðilann.

Í máli þessu liggur ekki fyrir mat á forsjárhæfni aðila eða tengslum þeirra við A og B. Málsaðilar  bera hins vegar hvor öðrum gott vitni sem foreldrum og leggja báðir áherslu á að börnin njóti samvista við þá báða. Að mati dómara er því enginn vafi uppi í málinu um hæfni málsaðila til að fara með forsjá til bráða­birgða. Dómari lítur hins vegar til þess að börnin bjuggu að [...], þ.e. á heimili sóknaraðila, fyrir skilnað málsaðila. Er þetta heimili barnanna skammt frá skólum þeirra sem verður að telja heppilegt með tilliti til samskipta og tengsla við önnur börn. Þá liggur fyrir að sóknaraðili er í aðstöðu til að taka á móti börnunum úr skóla eftir hádegi og annast þau það sem eftir er dags. Þótt tekjur sóknaraðila verði vissulega að teljast lágar telur dómari ekki ástæðu til að draga í efa þá fullyrðingu hans að honum takist að búa sér og börnum sínum mannsæmandi aðstæður.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða dómara að það þjóni hagsmunum barnanna best að þau eigi heimili sitt áfram að [...] meðan forsjár­mál aðila hefur ekki verið til lykta leitt. Ekki er heimilt að úrskurða að forsjá skuli vera sameiginleg til bráðabirgða. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um honum verði falin forsjáin til bráðabirgða.

Eins og áður segir eru aðilar einhuga um að umgengni beggja foreldra við börnin eigi að vera rúm. Dómari er sammála þessu mati málsaðila og telur augljóst að aðstæður umræddra barna kalli á ríkulega aðkomu beggja forelda að uppeldi þeirra. Verður umgengni til bráðabirgða því rúm, eins og nánar greinir í dómsorði.

Að virtum þeim upplýsingum sem liggja fyrir um tekjur aðila verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila einfalt meðlag. Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið krafist meðlags aftur í tímann. Verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða meðlag frá og með 1. næsta mánaðar eftir uppkvaðningu úrskurðar þessa.

Eins og atvikum málsins er háttað þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila. Sóknaraðili fékk útgefið leyfi til gjafsóknar við rekstur málsins fyrir héraðsdómi 31. október 2005. Greiðist gjafsóknarkostnaður sóknaraðila því úr ríkissjóði. Yfirlit lögmanns sóknaraðila um málskostnað ber m.a. með sér að í undirbúning munnlegs málflutnings í málinu hafi farið alls 17 vinnustundir. Dómari telur þennan fjölda vinnu­stunda úr hófi. Þykir þóknun lögmanns sóknaraðila, Eddu Andradóttur hdl., hæfilega ákveðin 170.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Edda Andradóttir hdl.

Af hálfu varnaraðila flutti málið Helga Leifsdóttir hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Sóknaraðili, K, fari til bráðabirgða með forsjá A, fædds [...] 1995, og B, fædds [...] 1997, eða þar til mál sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila, M, er endanlega til lykta leitt.

Varnaraðili skal hafa umgengni við börnin aðra hverja viku frá fimmtudegi kl. 14 til kl. 14 á mánudegi, í fyrsta sinn fimmtudaginn 5. janúar 2006. Börnin skulu dvelja hjá varnaraðila frá kl. 14 hinn 25. desember til kl. 14 hinn 27. sama mánaðar og  frá kl. 14 hinn 1. janúar til kl. 14 hinn 2. sama mánaðar. Börnin skulu dvelja hjá varnar­aðila frá kl. 14 á skírdag til kl. 14 þarnæsta dag. Börnin skulu dvelja hjá varnaraðila fimm vikur í sumarleyfi og skal varnaraðili tilkynna sóknaraðila fyrir 1. maí ár hvert hvaða tímabil hann kýs.

Varnaraðili greiði einfalt meðlag með börnunum frá og með 1. janúar 2006.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þar með talin þóknun lögmanns sóknaraðila, Eddu Andradóttur hdl., að fjárhæð 170.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.