Hæstiréttur íslands

Mál nr. 243/2002


Lykilorð

  • Sjúkrahús
  • Læknir
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. nóvember 2002.

Nr. 243 /2002.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

Z

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

 

Sjúkrahús. Læknar. Skaðabætur. Örorka. Gjafsókn. Sératkvæði.

Móðir Z greindist með meðgöngueitrun í mæðraskoðun og skrifaði læknir í mæðraskrá að hún skyldi leggjast inn á kvennadeild. Hún fór samt heim að lokinni skoðuninni en til stóð að hún legðist inn að morgni næsta dags. Í kjölfar skyndilegarar blæðingar um kvöldið var hún flutt á sjúkrahús þar sem í ljós kom að um fylgjulos var að ræða. Z fæddist skömmu síðar en hún er mjög skert andlega. Talið var að miða yrði við það að ástand konunnar í skoðuninni hefði verið mjög alvarlegt og að lækninum er annaðist hana hefði verið þetta ljóst. Þegar litið væri annars vegar til þessa alvarlega ástands og hins vegar til skrásetningar læknisins við mæðraskoðunina og aðgerðarlýsingar hans eftir fæðinguna yrði að telja að Í hefði ekki tekist sönnun þess að konunni hefði verið gerð nægileg grein fyrir nauðsyn innlagnar þegar í stað og hvað í húfi væri ef ekki kæmi til þess. Að öllu athuguðu hefðu ekki verið gerðar viðhlítandi ráðstafanir til að bregðast við þeirri alvarlegu hættu sem blasti við. Yrði því að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms að það hefðu verið mistök sem Í bæri ábyrgð á að móðir Z lagðist ekki tafarlaust inn á sjúkrahúsið í framhaldi skoðunarinnar. Þegar litið væri til gagna málsins í heild yrði því mati héraðsdóms ekki haggað að líklegast væri að meðgöngueitrun sú er móðirin var með hefði komið fylgjulosi af stað og leitt til þess að barnið varð fyrir súrefnisskorti. Væri fötlun þess þannig sennileg afleiðing af ofangreindum mistökum. Var niðurstaða héraðsdóms um fébótaábyrgð Í á tjóni Z því staðfest og henni dæmdar bætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

          Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2002 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefndu og honum dæmdur málskostnaður úr þeirra hendi í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á dómkröfum stefndu og að málskostnaður verði felldur niður.

          Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

I.

          Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram greindist móðir stefndu með meðgöngueitrun við mæðraskoðun í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur síðdegis 11. febrúar 1991, þar sem hún var með eggjahvítu í þvagi, hækkaðan blóðþrýsting og vaxandi bjúg. Í mæðraskrá var skráð innlögn á kvennadeild Landspítalans. Hún fór samt heim að lokinni skoðun og stóð til að hún legðist inn að morgni næsta dags. Um kvöldið varð skyndilega mikil blæðing hjá henni og var hún flutt á sjúkrahúsið með sjúkrabíl og kom hún þangað kl. 23.10. Kom í ljós að um fylgjulos var að ræða. Var keisaraskurður framkvæmdur eftir viðeigandi undirbúning og fæddist stefnda kl. 23.37 fyrrgreindan dag. Eins og greint er frá í héraðsdómi er hún mjög skert andlega og hefur læknisfræðileg örorka hennar verið metin 90% og fjárhagsleg örorka 100%. Er ekki ágreiningur með aðilum um þá örorku.

          Í málinu er deilt um það hver beri ábyrgð á því að móðir stefndu fór heim eftir mæðraskoðunina 11. febrúar 1991 en lagðist ekki þegar í stað inn á sjúkrahúsið. Einnig er deilt um, hvort þroskaskerðing barnsins og örorka verði rakin til þessa, svo og um útreikning bóta. Stefnda byggir málsókn sína á því að við mæðraskoðunina hafi átt sér stað mistök af hálfu læknis þess, sem annaðist skoðunina, og beri áfrýjandi ábyrgð á þeim. Hefði átt að leggja móðurina inn á sjúkrahús þegar í stað til að hún fengi viðeigandi eftirlit og meðferð. Þetta hafi ekki verið gert. Ennfremur hafi hún ekki fengið fullnægjandi upplýsingar frá lækninum um að hún þyrfti skilyrðislaust að leggjast inn og hafi honum borið að gera henni grein fyrir hugsanlegum afleiðingum þess fyrir hana og barnið ef hún neitaði að leggjast inn á spítalann.

          Áfrýjandi hafnar því að mistök hafi orðið af hálfu þeirra, er hann beri ábyrgð á, og vísar til skriflegrar sjúkdómsgreiningar læknisins í mæðraskrá og ákvörðunar hans um innlögn, en skráningum þessum eru gerð nákvæm skil í héraðsdómi. Er og af hálfu áfrýjanda byggt á því, sem læknirinn hefur sagt við meðferð málsins, að móðirin hafi ekki viljað leggjast inn þrátt fyrir sjúkdómsgreiningu og ráðleggingar hans.

          Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að í fyrrgreindri mæðraskoðun hafi ástand móður stefndu verið á það alvarlegu stigi að þörf hafi verið á innlögn þegar í stað svo að unnt væri að hefja viðeigandi meðferð til að lækka blóðþrýsting hennar. Dómurinn, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, taldi að mjög brýnt hefði verið að hún væri fullkomlega upplýst um ástand sitt og hugsanlegar afleiðingar þess fyrir hana og barnið. Við aðstæður sem þessar sé veruleg hætta á að konan sjálf geti skaðast af krampa, heilaáverka, bráðasjúkdómi í hjarta- og æðakerfi svo og nýrum og lifur. Þá sé fóstrinu háski búinn vegna hættu á fylgjulosi og fósturköfnun. Taldi dómurinn ekki útilokað að viðeigandi ráðstafanir til að lækka blóðþrýstinginn hefðu verið nægjanlegar til að koma í veg fyrir fylgjulos. Þar að auki hefði vera hennar á sjúkrahúsi sennilega stytt tíma frá fyrstu einkennum fylgjuloss að fæðingu, en minni líkur væru á sköddun vegna súrefnisskorts eftir því sem sá tími væri styttri. Er þetta og stutt öðrum læknisfræðilegum gögnum í málinu.

          Við það verður að miða samkvæmt framansögðu að ástand konunnar í skoðuninni 11. febrúar 1991 hafi verið mjög alvarlegt og að lækninum, er annaðist hana, hafi verið þetta ljóst. Í fyrirmælum kvennadeildar Landspítalans um meðferð á meðgöngueitrun frá 1986, sem fyrir liggja í málinu og óumdeilt er að fara átti eftir á þessum tíma, segir meðal annars, að finnist háþrýstingur hjá konu við mæðraskoðun yfir 140-160/100 og eggjahvíta í þvagi þurfi að koma til innlögn á meðgöngudeild. Samkvæmt skráningu í mæðraskrá var blóðþrýstingur hjá móður stefndu við mæðraskoðunina fyrrgreindan dag 160/120 og eggjahvíta reyndist í þvagi eins og áður er fram komið. Í umsögn Reynis Tómasar Geirssonar, dr. med., prófessors og forstöðulæknis á kvennadeild Landspítala, háskólasjúkrahúss, um fæðingu stefndu, segir hann það sitt mat að móðirin hafi verið með „alvarlega meðgöngueitrun á þessum tímapunkti, og í þannig tilvikum er tafarlaus innlögn nauðsynleg“. Staðfesti hann þetta fyrir dómi og sagði jafnframt að venjulega væri ekki beðið með að leggja konu með þennan blóðþrýsting og þetta mikla eggjahvítu inn á sjúkrahús.

          Þegar annars vegar er litið til þessa alvarlega ástands og hins vegar til skrásetningar læknisins við mæðraskoðunina og aðgerðarlýsingar hans eftir fæðinguna, sem raktar eru í héraðsdómi, verður að telja að áfrýjanda hafi ekki tekist sönnun þess að konunni hafi verið gerð nægileg grein fyrir nauðsyn innlagnar þegar í stað og hvað í húfi væri ef ekki kæmi til þess. Að öllu athuguðu hafi ekki verið gerðar viðhlítandi ráðstafanir til að bregðast við þeirri alvarlegu hættu, sem blasti við. Verður samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms fallist á þá niðurstöðu hans að það hafi verið mistök, sem áfrýjandi beri ábyrgð á, að hún lagðist ekki tafarlaust inn á sjúkrahúsið í framhaldi skoðunarinnar.

          Eins og rakið er í héraðsdómi komu til álita aðrir þættir, sem gátu átt þátt í þeirri þroskaskerðingu, sem stefnda varð fyrir. Eftir að hafa fjallað um þá var það niðurstaða dómsins að líklegast væri að meðgöngueitrun sú, er móðirin var með, hefði komið fylgjulosi af stað og leitt til þess að barnið varð fyrir súrefnisskorti og væri fötlun þess þannig sennileg afleiðing af ofangreindum mistökum. Þegar litið er til gagna málsins í heild verður þessu mati ekki haggað og ber því að staðfesta niðurstöðu dómsins um fébótaábyrgð áfrýjanda á tjóni stefndu.

II.

          Héraðsdómur hefur ákveðið bætur vegna varanlegrar örorku á grundvelli læknisfræðilegrar örorku, sem metin var 90% eins og áður greinir. Segir í héraðsdómi að byggt sé á útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings 28. janúar 2002, sem tekur mið af meðaltekjum verkamanna á útreikningsdegi og tekur tillit til 10% fjármagnstekjuskatts. Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps nam samkvæmt þeim útreikningi 34.587.000 krónum og töpuð lífeyrisréttindi námu 2.075.000 krónum, en í honum er miðað við 100% örorku. Í 1. varakröfu stefndu er miðað við þennan útreikning, að því breyttu að byggt er á 90% örorku. Þykir rétt, eins og málið er flutt hér fyrir dómi, að hafa hliðsjón af þeirri kröfu. Þegar tekið hefur verið tillit til hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu þykja bætur vegna varanlegrar örorku hæfilega ákveðnar 23.500.000 krónur. Frá þeim dragast greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, 11.101.000 krónur. Bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda verða dæmdar eins og í héraðsdómi segir, 1.867.500 krónur. Með skírskotun til forsendna dómsins verður og staðfest ákvörðun hans um miskabætur, 1.800.000 krónur. Samkvæmt þessu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu 16.066.000 krónur með vöxtum í samræmi við héraðsdóm, eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

          Staðfest verður gjafsóknarákvæði héraðsdóms.

          Stefnda hefur gjafsókn í málinu og þykja því ekki efni til að kveða sérstaklega á um greiðslu málskostnaðar af hálfu áfrýjanda. Gjafsóknarkostnað stefndu skal greiða eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Z, 16.066.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. febrúar 1997 til 8. mars 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur.

 

Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

Ég er ósammála mati meiri hluta réttarins á sönnunarbyrði, sem fram kemur í næst síðustu málsgrein I. kafla, og að sannað sé að það hafi verið mistök læknisins, sem annaðist mæðraskoðunina á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur 11. febrúar 1991, að móðir stefndu lagðist ekki inn á sjúkrahúsið þegar í framhaldi skoðunarinnar. Þessi mistök læknis er það fyrsta sem stefnda þarf að sanna til þess að um bótarétt til hennar geti orðið að ræða.

Ágreiningslaust er að í mæðraskoðuninni 11. febrúar 1991 var ástand móður svo alvarlegt að þörf var á innlögn hennar strax svo unnt yrði að hefja viðeigandi meðferð til þess að lækka blóðþrýsting hennar.

Móðirin hefur borið að læknirinn hafi þá eingöngu tjáð sér að blóðþrýstingur væri hár og hún væri komin með meðgöngueitrun, en hann hafi ekki gert henni grein fyrir því að ástandið væri svo alvarlegt að hún þyrfti að leggjast inn strax. Þvert á móti hafi hann ákveðið að hún færi heim og næði í sloppinn sinn, því hún ætti að leggjast inn á meðgöngudeild morguninn eftir. Læknirinn hefur mótmælt þessum framburði móðurinnar og borið að hann hafi gert henni fulla grein fyrir alvarleika meðgöngueitrunar og að hún þyrfti að leggjast strax inn til þess unnt væri að hefja viðeigandi meðferð. Það hafi hún ekki viljað og hann hafi því leyft henni að fara heim gegn því að hún hefði þegar í stað samband ef ástand hennar breyttist, enda hafi hann sjálfur verið á vakt á sjúkrahúsinu og hún átt að koma á meðgöngudeild morguninn eftir til innlagningar.

Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi er ljóst af gögnum málsins að læknirinn vildi leggja móðurina strax inn á meðgöngudeild, og kemur það fram bæði í mæðraskrá 11. febrúar 1991 og í aðgerðarlýsingu hans eftir hinn bráða keisaraskurð um kvöldið. Hins vegar hefur hann ekki skráð í sjúkraskrá móðurinnar um þann mótþróa við innlögn þegar í stað sem hann segir hana hafa sýnt. Á þessum tíma bar honum ekki skylda til að skrá slíkar athugasemdir, en ljóst má vera að hefði hann gert það þá væri ekki um þetta deilt.

Þegar til þess er litið að lækninum bar ekki skylda til að skrá í sjúkraskrá um neitun móður á að leggjast inn þegar í stað getur skortur á þessari skráningu ekki ráðið úrslitum um sönnunarstöðu málsins og fært sönnunarbyrði yfir á áfrýjanda. Orð læknisins fyrir dómi, að hann hafi gefið móðurinni ráðleggingar um innlögn strax og hver hætta væri á ferðum fyrir hana og barn hennar ella, eru studd skráðum heimildum frá þessum tíma. Standa því orð móður gegn skriflegri sjúkdómsgreiningu læknisins. Læknirinn hefur haldið því staðfastlega fram að ástæða þess að móðirin fékk að fara heim hafi verið að hún vildi ekki leggjast inn strax, þrátt fyrir upplýsingar hans og ráðleggingar, og hann hafi ekki getað hindrað hana. Í ljósi þess sem hann skráði á þessum tíma er engin ástæða til að draga þessa frásögn hans í efa.

Við þessar aðstæður verður ekki lögð sönnunarbyrði á áfrýjanda, eins og gert er í héraðsdómi. Þar sem gögn og líkur benda til þess að móðurinni hafi verið leiðbeint um nauðsyn innlagnar og reynt hafi verið til þrautar að fá hana til að leggjast inn strax, en hún hafi þrátt fyrir það viljað fara heim fyrst, hvílir sönnunarbyrði á stefndu um hið gagnstæða. Hún þarf að sýna fram á eða leiða líkur að því að frásögn móður hennar af því sem þarna gerðist sé rétt og sýna þannig fram á að læknirinn hafi gert mistök. Það hefur hún ekki gert.

Verður þegar af þessari ástæðu að taka til greina kröfu áfrýjanda um sýknu af kröfum stefndu.

Ég er sammála ákvæði meiri hluta um máls- og gjafsóknarkostnað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2002.

I

Mál þetta var höfðað 5. febrúar 2001 og dómtekið 8. febrúar 2002.  Stefnendur eru X 958-...9,   Y 58-...9, fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra,  Z , kt. ..91­-...9, öll búsett að ......  Z telst stefnandi málsins en samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 fara ofangreindir foreldrar með forræði málsins sökum skorts hennar á málflutningshæfi fyrir æsku sakir.  Stefndi er  íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Aðalkrafa stefnanda er um greiðslu stefnda á skaðabótum að fjárhæð 24.463.800 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá  ...febrúar 1991 til 8. febrúar 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags. 

Fyrsta varakrafa stefnanda er krafa um greiðslu stefnda á skaðabótum að fjárhæð 21.489.340 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. ...1991 til 8. febrúar 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga um vexti og verðtryggingu  nr. 38/2001 til greiðsludags. 

Önnur varakrafa stefnanda er krafa um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 21.148.780 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá  .....1991 til 8. febrúar 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags. 

Þriðja varakrafa stefnanda er krafa um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 18.505.820 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá  .... 1991 til 8. febrúar 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikningi eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál en stefnandi fékk leyfi til gjaf­sóknar 10. apríl 2001.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar en til vara lækkunar og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.

 

II

Forsaga máls þessa er sú að X, móðir stefnanda, Z  var í upphafi ársins 1991 komin langt á leið meðgöngu með stefnanda.  Var þetta hennar þriðja meðganga en fyrri meðgöngur voru á árunum 1985 og 1987 og gengu fæðingar eðlilega fyrir sig í bæði skiptin.

Samkvæmt gögnum málsins kom X í mæðraskoðun 30. október 1990 og reyndist blóðþrýstingur hennar þá vera 110/60.  Næst kom hún í skoðun 4. desember sama ár og var blóðþrýstingur hennar mældur 110/65.  Í mæðraskoðun 3. janúar 1991 var blóðþrýstingur hennar mældur 120/70.  Í mæðraskoðun 28. janúar 1991 kom í ljós að blóðþrýstingur hennar var 130/80 en skoðun að öðru leyti eðlileg.  Kom fram í þeirri skoðun að X hafði lesið grein í dagblaði þess efnis að meðgöngueitrun væri ættgeng.  Varð hún við það kvíðin þar sem systir hennar hafði tvisvar sinnum fengið meðgöngueitrun og gengist undir keisaraskurð af þeim sökum.   Q læknir sem annaðist skoðun ákvað að X skyldi koma aftur í skoðun eftir tvær vikur í stað þriggja eins og venja var til.  Af hálfu stefnda er því haldið fram að ástæða þess hafi fyrst og fremst verið sú að hún hafði ættgengi um meðgöngueitrun og hún verið kvíðin.  X bar fyrir dómi að ástæðu þess teldi hún vera hækkandi blóðþrýsting.

Í mæðraskoðun þann ...1991 greindist X með meðgöngueitrun, hún var með eggjahvítu í þvagi, hækkaðan blóðþrýsting og vaxandi bjúg.  Mældist blóðþrýstingur hennar 160/120.  Við það tækifæri skráði læknirinn,  Q í mæðraskrána: "Pre-eclampsi Þ 23-B innlögn/dagönn ef ¯".  Hefur hann borið að þessi ritun merki: Meðgöngueitrun. Innlögn á kvennadeild 23-B en ef blóðþrýstingur lækkar, þá dagönn., en dagönn er það kallað þegar móðir leggst inn á spítala hluta úr degi í því skyni að kanna hvort blóðþrýstingur lækkar auk þess sem teknar eru blóðprufur og hjartsláttarlínurit af fóstri.

Q og X ber ekki saman um hvað fór þeim á milli í umræddri mæðraskoðun þann..... 1991.  Hann hefur staðfastlega borið að hann hafi viljað að hún legðist inn strax vegna meðgöngueitrunar en hún ekki viljað það og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hans við að fá hana til þess hafi hann ekki náð til hennar og hafi hann því leyft henni að fara heim gegn því að hún hefði strax samband ef hún yrði vör við einhverjar breytingar á ástandi sínu, annars ætti hún að koma strax daginn eftir á meðgöngudeild.

X kveðst ekki hafa fengið upplýsingar um alvarleika meðgöngueitrunar og þá hættu sem af henni stafi fyrir móður og barn.  Hafi læknirinn leyft henni að fara heim til að ná í sloppinn sinn eins og hann hafi orðað það og hún hafi átt að leggjast inn daginn eftir kl. 9,00.  Engin vitni voru að samtali þeirra en faðir stefnanda, Y, bar fyrir dómi að  Q hafi rætt við sig eftir að stefnandi var fædd og hafi  Q verið miður sín og sagt að hann vissi ekki hvað hafi komið yfir sig, hann hafi farið úr sambandi og leyft X að fara heim.   Q hefur borið um þetta að vel kunni að vera að hann hafi verið miður sín og verið leiður yfir því að hafa ekki getað sannfært X um að hún yrði að leggjast inn.

 Um kvöldið þennan dag varð skyndilega mikil blæðing hjá X og var hún flutt heiman frá sér með sjúkrabíl á sjúkrahús.  Kom í ljós að um fylgjulos væri að ræða og var bráður keisaraskurður undirbúinn.  Samkvæmt gögnum málsins kom X á Landspítalann kl. 23.10, var tekið á móti henni á skurðstofu kl. 23.20 og var svæfing undirbúin til kl. 23.30 og keisaraskurður framkvæmdur kl. 23.35.  Kl. 23.37 fæddist stefnandi, sem við fæðingu vó 1066 g og var 38 sm löng.  Meðgöngulengd móður var þá 29 vikur og 1-3 dagar.

Stefnandi átti í öndunarerfiðleikum til að byrja með, var sett á öndunarvél sem hún losnaði úr næsta dag.  Lá stefnandi á vökudeild Barnaspítala Hringsins til 5. apríl 1991 og nokkrum sinnum eftir það.  Hún átti í upphafi við blóðleysi að stríða og var meðhöndluð með blóðgjöf og járnmeðferð.  Þegar blóðleysi hélt áfram að vera vandamál var tekið mergsýni 20. júní 1991 og þá kom í ljós við mælingu að hún hafði B-12 vítamínskort.  Frekari rannsóknir á fyrstu mánuðum leiddu í ljós verulega lækkun á B-12 vítamíni sem einnig reyndist vera til staðar hjá móður.  Barnið bjó því við B-12 vítamínskort fyrstu mánuðina.  Við innlögn stefnanda í október 1991 var getið um áhyggjuefni móður um að stefnandi væri seinþroska og var það staðfest sem sjúkdómsgreining við útskrift.

Þann 21. október 1992 kvartaði X til landlæknis vegna meintra mistaka við mæðraskoðun á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur  .... 1991.  Kallaði landlæknir í því skyni eftir sjónarmiðum hlutaðeigandi læknis, Q.  Í áliti landlæknis frá 20. ágúst 1993 eru rakin sjónarmið  Q um að útskýrt hafi verið fyrir X um hvaða sjúkdóm hafi verið að ræða og að hún þyrfti að leggjast strax inn á sjúkrahús.  Hafi hún virst kvíðin vegna þess og spurt hvort nauðsynlegt væri að leggjast inn þar sem hún þyrfti að gera nauðsynlegar ráðstafanir heima fyrir.  Þá kemur fram í áliti landlæknis að ljósmóðirin, sem að jafnaði taki þátt í mæðraskoðuninni, hafi brugðið sér frá í síma og geti því ekki vottað um hvernig samtal hennar og læknisins hafi verið.  Fullyrðing standi því gegn fullyrðingu og ekki á færi embættisins að skera úr í því máli. 

Þann 2. ágúst 2000 var af hálfu lögmanns stefnanda óskað eftir afstöðu embættis ríkislögmanns til bótaskyldu ríkisins.  Þann 13. september 2000 var bótaskyldu hafnað og var sú niðurstaða ítrekuð í bréfi ríkislögmanns 27. september 2000.

Samkvæmt vottorði læknisins, Péturs Lúðvígssonar, 20. nóvember 2000 segir að stúlkan sé í dag þroskaskert á öllum sviðum og einnig að til staðar séu verulegar hegðunartruflanir sem tengist sterku áráttu- og þráhyggjumynstri.   Kemur fram í vottorði læknisins að stefnandi hafi verið til athugunar á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, síðast í maí 1997.  Þá hafi komið í ljós verulega skert greindarvísitala á bilinu 45-50.  Þá hafi spurningalistar einnig sýnt mörg einkenni ofvirkni og hegðunar­erfiðleika við ýmsar aðstæður.  Þá hafi hæð og þyngd einnig fylgt lágri kúrfu.  Þá kemur fram að stúlkan hafi hafið skólagöngu sína í Öskjuhlíðaskóla en hafi síðastliðna tvo vetur verið í ...skóla og þarfnist mikils stuðnings og sérkennslu.  Í sam­skiptum við jafnaldra standi hún höllum fæti vegna áráttu- og þráhyggjueinkenna.  Þá sé umönnun hennar heima fyrir erfið og tímafrek.  Lyfjameðferð hafi verið reynd vegna hegðunartruflana, einbeitingarörðugleika, áráttu og þráhyggju án verulegs árangurs.  Almennt heilsufar hennar að öðru leyti hafi verið gott.

Með bréfi dagsettu 2. ágúst 2000 óskaði lögmaður stefnanda eftir því að Jónas Hallgrímsson læknir mæti læknisfræðilegar og fjárhagslegar afleiðingar meintra mistaka eftir að meðgöngueitrun var greind skömmu fyrir fæðingu stefnanda. 

Álit læknisins er dagsett 8. janúar 2001.  Niðurstaða hans er sú að stefnandi sé mjög skert andlega og hafi sú skerðing komið betur í ljós eftir því sem tíminn hafi liðið.  Telur hann að stefnandi komi aldrei til með að geta lifað sjálfstæðu lífi sem starfandi einstaklingur.  Hún muni ætíð þurfa mikla umönnun bæði andlega og líkamlega.  Ekki sé ljóst hvenær andlegir hæfileikar hennar komist í þrot til frekari aukningar en hætta virðist vera á að svo geti orðið löngu fyrr en eðlilegt sé og lokastig langt neðan þeirra marka sem telja verði að fullorðinn einstaklingur eigi að ná.  Hvað fjárhagslegar afleiðingar af fötlun hennar varði telur læknirinn þær vera slíkar að hún muni aldrei geta aflað sér tekna til framfærslu og að aðrir muni alla tíð þurfa að sjá um framfærslu hennar.  Hugsanlega gæti hún aflað einhverra tekna á sérstaklega völdum og vernduðum vinnustað en þær myndu aldrei svara nema til þess sem kalla mætti vasapeninga. Metur læknirinn læknisfræðilega örorku stefnanda 90% og fjárhagslega örorku 100%.

Í málinu liggur frammi ódagsett umsögn Reynis Tómasar Geirssonar læknis og prófessors á kvennadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss um fæðingu stefnanda.  Þar kemur meðal annars fram að reykingar móður séu sérstakur áhættuþáttur sem auki áhættuna á fylgjulosi um 40%.  Þá hafi móðir skyndilega fengið blæðingu um leggöng snemma á meðgöngu eða í kringum 19. viku meðgöngunnar.  Megi líklega telja blæðinguna hafa komið frá legholi og sé blæðing af þessu tagi einnig áhættuþáttur fyrir fylgjulos. Þriðji áhættuþátturinn hafi síðan bæst við er um alvarlega blóðþrýstings-hækkun var að ræða sem uppgötvaðist sama dag og stefnandi fæddist.  Þá kemur eftirfarandi fram hjá lækninum, “Það er mitt mat að þessi kona hafi verið með alvarlega meðgöngueitrun á þessum tímapunkti, og í þannig tilvikum er tafarlaus innlögn nauðsynleg.  Við þannig aðstæður er veruleg hætta á að konan sjálf geti skaðast af krampa, heilaáverka, bráðasjúkdómi í hjarta- og æðakerfi svo og nýrum, ásamt lifrarskemmd og fóstrið er í hættu vegna möguleika á fylgjulosi og fósturköfnun.”

Þá kemur fram í umsögn Reynis Tómasar að miðað við aðgerðarlýsingu telji hann ekki hægt að segja að óeðlilega mikill dráttur hafi orðið á aðgerðinni.  Fáeinum mínútum eftir að X hafi komið á deildina hafi verið búið að skoða hana og greina ástand hennar rétt og hafi hún verið komin inn á skurðstofu um 10 mínútum eftir komu og hafi aðgerðin hafist 10 mínútum eftir komu á skurðstofuna og barnið fætt 7 mínútum síðar sem sé innan eðlilegra viðbragðsmarka.  Þá segir hann að unnt sé að gera keisaraskurð á skemmri tíma á Landspítalanum og gæti þar munað um 5-10 mínútum að jafnaði.  Það sé þó álit hans að slíkur tímamunur hefði sennilega engu máli skipt, þar sem hjartsláttarritið við komu á deildina bendi, svo langt sem það nái, til þess að álag á fóstrið hafi sennilega þegar verið fyrir hendi þá og vandamál af því tagi sem barnið eigi við að stríða nú hljóti að tengjast súrefnisskorti, sem staðið hafi lengur en svo að þessar 5-10 mínútur skipti máli.

Að lokum skýrir læknirinn frá því að hann muni eftir að  Q hafi sagt á morgunfundi daginn eftir atburðinn þegar rætt var um að konan hefði þurft að leggjast strax inn þegar ástand hennar var greint í mæðraskoðun, að konan sjálf hefði ekki viljað það og því hefði hann samþykkt að hún væri heima til næsta dags með þeim formerkjum að hún hefði samband ef einkenni um versnandi ástand kæmu fram.  Reynir Tómas gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti framangreinda umsögn sína.  Þá bar hann að það væri hans álit að þegar í mæðraskoðun þann 28. janúar 1991 hafi blóðþrýstingur verið orðinn óeðlilega hár.  Kvað hann það sína skoðun að þegar með­göngueitrun var greind hjá X hefði hún átt að leggjast strax inn á spítala og hefði hann lagt hart að viðkomandi að gera svo án tafar.

Sérstaklega aðspurður taldi hann að hinn hái blóðþrýstingur hafi komið fylgju­losinu af stað og væri hinn hái blóðþrýstingur áhættuþátturinn almennt séð.  Þá taldi hann að sennilega verði að ætla að almennt séð dragi það úr hættu á blæðingum ef hafist er handa við að meðhöndla háan blóðþrýsting strax.  Sé sennilegt að það hefði verið gagnlegt þótt erfitt sé að fullyrða með vissu að það hefði komið í veg fyrir fylgjulos.

Í vottorði Atla Dagbjartssonar læknis 8. maí 2001, þar sem hann svarar spurn­ingum sem lögmaður stefnda lagði fyrir hann, kemur fram að lífslíkur fyrirbura sem fæddir eru í 29. viku árið 1991 séu 90%.   Þá kemur fram hjá honum að í tilviki stefnanda hafi verið ljóst að hún hafi orðið fyrir marktækum súrefnisskorti fyrir fæðingu vegna fylgjuloss hjá móður.  Hafi sú tilviljun orðið í þessu máli að til hafi staðið að leggja móður inn á kvennadeild Landspítalans nokkrum klukkutímum áður en fylgjulos varð en af því hafi ekki orðið.  Hefði hún legið inni á spítalanum þegar fylgjan losnaði hefði barnið náðst út með bráðum keisaraskurði mun fyrr en raun varð á.   Tilviljun þessi sé hins vegar óháð því að móðirin hafi verið með fóstureitrun.  Sé fylgjulos jafnan mjög hættulegur atburður fyrir ófædda barnið á hvaða tíma meðgöngunnar sem er.  Jafnvel þótt það taki aðeins örfáar mínútur að ná barninu út, þegar einkenni komi fram um fylgjulos, sé ómögulegt að fullyrða að það takist án þess að barnið verði fyrir varanlegum heilaskaða vegna súrefnisskortsins sem fylgjulos geti valdið.  Það sé því ómögulegt að fullyrða að stefnandi hefði ekki hlotið heilaskaða, ef móðirin hefði legið inni á spítalanum, þegar fylgjan losnaði frá legveggnum.

Varðandi spurningu um hvort langvarandi B-12 vítamínskortur fyrir og eftir fæðingu barnsins geti hafa stuðlað að fötlun stefnanda í dag kemur fram hjá lækninum að erfitt sé að draga ákveðnar ályktanir þó sá B-12 vítamínskortur sem stefnandi hafi lifað við á fyrstu mánuðum lífs síns hefði getað stuðlað að skertri heilastarfsemi hennar að einhverju leyti.  Hitt sé þó ljóst að langlíklegasta ástæðan fyrir fötlun stefnanda sé súrefnisskortur fyrir fæðinguna.  Atli gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti álitsgerð sína.   Kom fram hjá honum að miðað við þau gögn sem hægt væri að styðjast við væri ljóst í tilviki stefnanda að greinilega hefði eitthvað gerst áður en hún fæddist.  Sé ómögulegt að fullyrða nokkuð um ástand fyrstu dagana og vikurnar og jafnvel mánuðina en eftir tíu mánuði hafi verið ljóst að eitthvað hafði komið fyrir, en taka þurfi jafnframt tillit til þess að hér hafi verið um að ræða fyrirbura.  Taldi hann ólíklegt að B-12 vítamínsskortur væri orsök örorku stefnanda, það væri ekki það sem skipti máli hér.

Eins og rakið hefur verið lýtur ágreiningur aðila fyrst og fremst að því hvort um mistök hafi verið að ræða í mæðraskoðun .... 1991 af hálfu læknis sem leiði til bótaskyldu stefnda.  Þá er og deilt um það, ef talið er að um mistök hafi verið að ræða, hvort þroskaskerðing stefnanda og örorka verði rakin til þeirra mistaka.  Ekki er ágreiningur um örorku stefnanda en aðila greinir á um útreikning bóta ef bótaskylda telst vera fyrir hendi.

Fyrir dóminum gáfu skýrslur foreldrar stefnanda, X og Y og vitnin Reynir Tómas Geirsson læknir, Atli Dagbjartsson læknir og  Q læknir.

 

III

Stefnandi byggir á því að við mæðraskoðunina á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur þann ....febrúar 1991, sem  Q læknir annaðist, hafi átt sér stað bótaskyld mistök.  Á þeim mistökum beri stefndi ábyrgð samkvæmt reglunni um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum sínum, en íslenska ríkið undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi farið með rekstur heilsuverndarstöðvarinnar á þessum tíma.

Stefnandi byggir á því að leggja hefði átt X, móður stefnanda, þegar í stað inn á Landspítalann til að hún fengi viðeigandi eftirlit og meðferð vegna með­göngu­eitrun­arinnar sem hún greindist með, en það hafi ekki verið gert.  Enn fremur byggir stefnandi á því að hún hafi ekki fengið réttar upplýsingar frá  Q lækni, sem sá um skoðunina, en honum hafi borið að upplýsa hana um að það yrði skil­yrðislaust að leggja hana inn á spítala þegar í stað.  Þá hafi honum enn fremur borið að upplýsa hana um hugsanlegar afleiðingar þess fyrir hana og barnið ef hún neitaði að leggjast inn á spítalann.  Hann hafi hvorugt gert. 

Stefnandi telur að leggja beri frásögn X til grundvallar um ástæður þess að hún var ekki lögð inn strax.  Ástæða þess sé sú að væri frásögn  Q læknis rétt um að X hefði neitað meðferð þá hefði honum borið að færa í sjúkraskrá um þá neitun og að X hefði verið upplýst um afleiðingar hennar.  Þetta hafi  Q ekki gert þótt honum hafi borið ótvíræð skylda til þess.  Um skyldu til að færa þetta í sjúkraskrá megi vísa til 9. og 10. gr. læknalaga nr. 53/1988  og l. og 3. mgr. 8. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, en telja megi víst að sú regla sem birtist í síðast nefndu lögunum hafi gilt fyrir gildistöku þeirra þótt ólögfest hafi verið.  Þá hljóti stað­hæfing á borð við þá sem  Q haldi fram í málinu að hafa líkurnar gegn sér.  Það sé afar ótrúlegt að móðir sem hefur verið réttilega upplýst um skilyrðislausa þörf fyrir innlögn þegar í stað og hugsanlegar afdrifaríkar afleiðingar ef ekki sé við því orðið, neiti að hlíta slíkum ráðum.  Þá sé það afar ólíklegt, sem læknirinn haldi fram,  þegar litið er til þess að þegar mæðraskoðunin fór fram hafi hann ekkert fært um þessa meintu neitun á innlögn í mæðraskrána og það sem hafi verið fært í aðgerðarlýsinguna sem hengd hafi verið við mæðraskrána styðji ekki frásögn læknisins.  Það geri jafnframt aðstæður tortryggilegar að ljósmóðir sem alla jafnan sé viðstödd mæðra­skoðun sé sögð hafa brugðið sér frá einmitt þegar þetta hafi gerst og því ekki sögð til frásagnar um það sem raunverulega hafi átt sér stað.  Við aðstæður sem þessar verði að leggja frásögn X til grundvallar. Stefnandi telur allt framangreint leiða til bótaskyldu ríkisins vegna málsins.

Þá kveður stefnandi, varðandi afleiðingar umræddra mistaka, að í norrænum skaðabótarétti, þar á meðal hér á landi, hafi sönnunarsjónarmið þróast á þann veg að sú sönnunarregla sé talin gilda um skaðabótaábyrgð lækna og sjúkrastofnana, að sannist á annað borð mistök eða vanræksla, þá beri viðkomandi læknir og/eða sjúkrastofnun sönnunarbyrði fyrir því að afleiðingar hefðu komið fram þótt engin mistök hefðu verið gerð.  Umrædd regla feli þannig í sér öfuga sönnunarbyrði hvað þennan þátt varðar, en hún styðjist við fjölda dómafordæma. 

Stefnandi heldur því fram að telja verði afleiðingar þeirra læknamistaka sem hér um ræði það skýrar, að vafasamt sé að á umrædda sönnunarreglu reyni með beinum hætti í málinu.  Megi í þeim efnum benda á að klukkustund hafi liðið frá því fylgjulos átti sér stað þar til keisaraskurðurinn var framkvæmdur.  Þá hafi stefnandi átt við öndunarerfiðleika að stríða þegar hún kom í heiminn.

Aðalkrafa stefnanda, sem miðuð sé við 100% fjárhagslega örorku og tekið tillit til 10% fjármagnstekjuskatts miðað við útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar frá 28. janúar 2002, sundurliðast svo:

 

Örorkutjón                               kr.                     34.587.000

-greiðslur frá T.r.                     kr.                     11.101.000

                                                  kr.                     23.486.000

-20% v/skatta og eingr.         kr.                       4.697.200

                                                  kr.                     18.788.800

tapaður lífeyrir                        kr.                       2.075.000

miskabætur                              kr.                       3.600.000

                                                  kr.                     24.463.800

 

Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku byggir á örorkutjóns-útreikn­ingum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings dags. 24. janúar 2001 og 28. janúar 2002. Samkvæmt útreikningi hans er slysadagsverðmæti tekjutaps vegna þeirrar 100% fjárhagslegu örorku sem stefnandi hefur verið metinn til að teknu tilliti til 10% fjármagnstekjuskatts samtals 34.587.000 krónur miðað við tekjur verkamanna á útreikn­ingsdegi.  Þá byggi krafan á því að í tilvikum á borð við þau sem hér um ræði beri að leggja fjárhagslega örorku tjónþola til grundvallar.  Sé þá einkum að líta til þess að stefnandi hafi orðið fyrir afdrifaríku áfalli strax í fæðingu og ástand hennar er metið svo að varanleg fjárhagsleg örorka hennar sé 100%.  Í því felist að hún, sem er ung að aldri muni aldrei í framtíðinni geta aflað sér tekna svo máli geti skipt um framfærslu hennar.  Sé eðlilegt í tilvikum sem þessum að taka fjárhagslegt örorkumat fram yfir læknisfræðilega matið.  Við kröfuna um bætur fyrir varanlega örorku sé frádráttur vegna hagræðis af skattfrelsi bóta og eingreiðslu þeirra metinn 20% með hliðsjón af dómaframkvæmd. Þá sé frádráttur vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins byggður á útreikningi Jóns Erlings og sömuleiðis krafa stefnanda um bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi.  Loks byggir krafa stefnanda um bætur fyrir miska á því að stefnanda beri að fá bætur í samræmi við læknisfræðilegt örorkustig sem er metið 90% og í samræmi við dómvenju séu miskabætur 40.000 krónur á hvert miskastig.

Fyrsta varakrafa stefnanda, sem miðuð er við 90% læknisfræðilega örorku og tekið tillit til 10% fjármagnstekjuskatts, miðað við 90% af útreiknuðum bótum vegna 100% örorku í útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar frá 28. janúar 2002, sundurliðast svo:

 

Örorkutjón                               kr.                     31.128.300

-greiðslur frá T.r.                     kr.                     11.101.000

                                                  kr.                     20.027.300

-20% v/skatta og eingr.         kr.                       4.005.460

                                                  kr.                     16.021.840

tapaður lífeyrir                        kr.                       1.867.500

miskabætur                              kr.                       3.600.000

                                                  kr.                     21.489.340

 

Önnur varakrafa, sem miðuð er við 100% fjárhagslega örorku og ekki reiknað af fjár­magnstekjuskatti, sundurliðast svo:

 

Örorkutjón                               kr.                     30.732.100

-greiðslur frá T.r.                     kr.                     11.101.000

                                                  kr.                     19.631.100

-20% v/skatta og eingr.         kr.                       3.926.220

                                                  kr.                     15.704.880

tapaður lífeyrir                        kr.                       1.843.900

miskabætur                              kr.                       3.600.000

                                                  kr.                     21.148.780

 

Þriðja varakrafa stefnda, sem miðuð er við 90% læknisfræðilega örorku og ekki reiknað af fjármagnstekjuskatti, sundurliðast svo:

Örorkutjón                               kr.                     27.658.900

-greiðslur frá T.r.                     kr.                     11.101.000

                                                  kr.                     16.557.900

-20% v/skatta og eingr.         kr.                       3.311.580

                                                  kr.                     13.246.320

tapaður lífeyrir                        kr.                       1.659.500

miskabætur                              kr.                       3.600.000

                                                  kr.                     18.505.820

Stefnandi krefst vaxta af bótakröfu sinni samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá fæðingardegi til þingfestingardags máls þessa, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá hafi jafnframt verið liðinn mánuður frá því að mat Jónasar Hallgrímssonar læknis lá fyrir.

Um lagarök að öðru leyti en að framan er getið vísar stefnandi einkum til almennra reglna skaðabótaréttarins og að því er varðar málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. og 129. gr.

 

IV

Því er haldið fram af hálfu stefnda að  Q hafi upplýst X um alvar­leika veikinda hennar og lagt að henni að leggjast inn á kvennadeild Land­spítalans strax en hún hafi ekki þegið það.   Telur stefndi að framburður læknisins um þetta eigi sér stoð í gögnum málsins, en ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi mæðraskrá  að hreyfingar fósturs höfðu minnkað og sónar tilgreindur.  Þar sé jafnframt ritað vegna skoðunar þennan dag: "Pre-eclampsi Þ 23-B innlögn/dagönn ef ¯". Þýði þessi ritun að X hafi verið með meðgöngueitrun og skyldi leggjast inn á deild 23-B sem sé kvennadeild, en ef blóðþrýstingur lækki þá skuli hún leggjast inn í svokallaða dagönn.

Þá komi einnig fram í aðgerðarlýsingu að átt hafi að leggja  X inn en hún hafi viljað fara heim og ræða við mann sinn.  Þannig ætti hún að koma aftur daginn eftir, því þá yrði hún í betra andlegu jafnvægi.  Ótvírætt sé að gögn frá .... 1991 styðji framburð læknisins en ekki framburð  X.  Framburðurinn fái einnig stoð í um­sögn Reynis Tómasar Geirssonar læknis, en í umsögn hans komi fram að hann muni vel eftir fundi að morgni 12. febrúar 1991 þar sem  Q hafi tjáð öðrum læknum, að X hafi neitað að leggjast inn og farið heim þar til næsta morgun.  Þá bendir stefndi á að í lok janúar 1991 hafi X komið í mæðraskoðun og hafi hún þá verið ofsahrædd við meðgöngueitrun eins og skráð sé í mæðraskrá.  Ekkert hafi þá bent til meðgöngueitrunar.  Þrátt fyrir það hafi mæðraskoðun verið flýtt og boðuð tveimur vikum síðar, en ekki þremur vikum eins og venja sé.  Þetta hafi verið gert svo hægt væri að grípa inn í ef X fengi hækkandi blóðþrýsting.  Þetta hafi einnig verið gert þar sem lækninum hafi verið fullkunnugt um hættuna sem stafi af alvarlegri með­göngu­eitrun bæði fyrir móður og barn. 

Stefndi telur að þegar litið sé til alvarleika ástands X, þess að komu hennar hafi verið flýtt vegna hugsanlegrar hættu og þess sem ritað sé í mæðraskrá, standi engin rök til annars en að leggja framburð læknisins til grundvallar í málinu.

Stefndi kveður að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni að X hafi ekki verið upplýst um að hún yrði skilyrðislaust að fara inn á sjúkrahús og afleiðingar þess fyrir barnið ef hún neitaði að leggjast inn.  Þá sé ekkert tortryggilegt við það að ljósmóðir sú sem annaðist skoðun ásamt  Q umrætt sinn hafi brugðið sér frá er samtalið átti sér stað.

Þegar X hafi verið gerð grein fyrir alvarleika veikindanna í skoðun hinn  ... 1991 en hún þrátt fyrir það óskað eftir því að fara heim í stað innlagnar eins og læknirinn hafði lagt til, hafi læknirinn engin ráð haft til að stöðva hana. Hann skorti lagaheimildir til innlagnar hennar án hennar samþykkis.  Hún sé sjálfráða, hennar sé ákvörðunin og ábyrgðin.  Hafi fullnægjandi skráning um framangreint verið gerð í sjúkraskrá þar sem fram komi að læknirinn hafi viljað að X færi í sónar og yrði lögð inn á kvennadeild.  Engin lagaskylda hafi staðið til þess að lækninum hafi borið að rita sérstaklega neitun X á að leggjast inn en þegar umrætt atvik átti sér stað hafi lög um réttindi sjúklinga ekki öðlast gildi.  Því sé þýðingarlaust að hálfu stefnanda að vísa til þeirra.  Ekki hafi heldur verið um að ræða ólögfestar reglur er lagt hafi fyrir lækna að skrá umfram það er gert var í þessu tilviki.  Kjarninn sé sá að sjúkraskráin beri með sér vilja læknisins til innlagnar.  Staðreyndin hafi orðið önnur vegna neitunar X.  Það að sú neitun hafi ekki verið skráð sérstaklega skapi ekki sjálfstæðan bótarétt.

Telji dómurinn hinsvegar að um mistök hafi verið að ræða þá heldur stefndi því fram, að þroskaskerðing stefnanda og örorka hennar verði ekki rakin til þess, að X hafi ekki lagst inn á kvennadeildina hinn  ....1991.  Fyrir því séu margar ástæður.  Í fyrsta lagi séu líkur á því að lega á kvennadeild í um það bil 8 klst. hefðu ekki breytt fæðingu stefnanda um kvöldið.  Sjúkdómsframgangurinn virðist hafa verið það hraður, að þó að hún hefði lagst strax inn og hægt hefði verið að hefja fyrir­byggjandi lyfjameðferð strax,  sé alls óvíst hvort tekist hefði að seinka fæðingu eða hindra fylgjulosið.  Í öðru lagi hafi X verið með meðgöngueitrun er greindist fyrst við komu í mæðraskoðun þann ... 1991. Meðgöngueitrun sé einnig áhættu­þáttur fyrir fylgjulosi.  Meðgöngueitrunin sé ekki á ábyrgð þess læknis sem sakaður sé um mistökin og sjúkdómurinn sé grundvallarforsenda fyrir fæðingu stefnanda.  Í þriðja lagi sé lögð á það áhersla að X hafi haft fleiri sjálfstæða áhættuþætti fyrir fylgjulosi.  Samkvæmt mæðraskrá hafi hún reykt en nú sé vitað að reykingar auki hættuna á fylgjulosi verulega eða um 40%.  Þá hafi X haft blæðingar í um það bil 19. viku og sé það einnig sérstakur áhættuþáttur fyrir fylgjulosi.  Á þessum áhættu­þáttum beri X sjálf ábyrgð.  Í fjórða lagi hafi stefnandi fæðst eftir 29 vikna með­göngu.  Lífslíkur fyrirbura fæddra í 29. viku hafi ekki verið góðar og verulegar líkur á sköddun eða síðari fötlun barna sem fædd séu eftir svo stutta meðgöngu.  Í fimmta lagi sé bent á langvarandi B-12 skort hjá stefnanda og móður hennar en slíkur skortur valdi skerðingu á þroska stefnanda.

Til vara gerir stefndi kröfu um verulega lækkun á dómkröfum málsins.  Mótmælir hann því að leggja eigi til grundvallar fjárhagslega örorku þar sem tjónsatvik hafi verið fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 og beri því að miða við læknisfræðilega örorku.  Stefndu mótmæla 20% frádrætti vegna skatts og eingreiðsluhagræðis og telja þennan frádrátt of lágan.  Þá beri einnig að reikna frádráttinn af töpuðum líf­eyr­is­réttindum.  Þá sé mótmælt að miskabætur séu kr. 40.000 á hvert miskastig.  Gerð sé krafa um að tekið verði tillit til greiðslna er stefnandi fái frá Tryggingastofnun ríkisins vegna örorkunnar. 

Í tilefni varakröfu sinnar til rökstuðnings um lækkun kröfu stefnanda, lagði stefndi fram nýjan útreikning tryggingafræðings sem miðar við meðaltekjur verka­manna í stað iðnaðarmanna eins og stefnandi byggir á, ýmist miðað við meðaltekjur á útreikn­ingsdegi og slysdegi.  Þá telur stefndi að við ákvörðun bóta beri einnig að taka tillit til eigin sakar, en ljóst megi vera að B-12 skortur stefnanda og það að hún hafi verið fyrirburi sé ekki á ábyrgð stefnda og beri að taka tillit til þess við ákvörðun bóta.  Þá sé vöxtum og upphafstíma vaxta mótmælt.  Vextir eldri en fjögur ár fyrir þing­fest­ingu málsins séu fyrndir sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Varðandi málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

V

Af hálfu stefnanda er byggt á því að mistök hafi átt sér stað við mæðraskoðun á móður stefnanda, X, á Heilsuverndarstöðinni þann  ...1991.  Hafi þau mistök verið þess eðlis að vegna alvarlegrar meðgöngueitrunar hennar hafi borið að leggja hana strax inn á sjúkrahús, sem ekki hafi verið gert.  Þá hafi þau mistök verið gerð að hún hafi ekki fengið nægilega skýrar upplýsingar um það hverjar væru hugsan­legar afleiðingar þessa alvarlega ástands sem hún var í, fyrir móður og barn ef ekki yrði strax af innlögn.

Óumdeilt er að í mæðraskoðuninni þann  ... 1991 var ástand X á það alvarlegu stigi að þörf var á innlögn þegar í stað svo hægt væri að hefja viðeigandi með­ferð til að lækka blóðþrýsting hennar.  Fyrir dóminum bar X að í umræddri mæðra­skoðun hafi henni verið tjáð að blóðþrýstingur væri hár og hún með með­göngu­eitrun.  Hafi verið ákveðið að hún færi heim og hafi  Q sagt henni að hún skyldi fara heim og ná í sloppinn sinn því hún ætti að leggjast inn á með­göngu­deild daginn eftir.  Hún hafi spurt lækninn hvort henni væri óhætt að aka heim og hann hafi talið það vera.  Hann hafi ekki gert henni grein fyrir því að ástandið væri svo alvarlegt né að hún þyrfti að leggjast inn strax.  Þessum framburði hefur læknirinn, Q, alfarið hafnað, þvert á móti hafi hann gert X fulla grein fyrir alvarleika meðgöngueitrunar en hún ekki viljað leggjast inn á sjúkrahús strax og hafi hann því leyft henni að fara heim gegn því að hún hefði strax samband ef ástand hennar breyttist, annars átti hún að koma á meðgöngudeild strax morguninn eftir til innlagnar.

Stendur því orð á móti orði hvað þetta varðar og engin vitni voru að samtali læknisins og móður umrætt sinn.  Í ljósi þess hve ástand móður stefnanda var alvarlegt í skoðuninni þann  ...1991 var mjög brýnt að hún væri fullkomlega upplýst um ástand sitt og mögulegar afleiðingar ástandsins fyrir bæði móður og barn.   Þá var og mjög mikilvægt að upplýsa hana um mögulega þróun sjúkdómsins en eins og fram kemur í læknisfræðilegum gögnum sem fyrir liggja í málinu er við aðstæður sem þessar veruleg hætta á að konan sjálf geti skaðast af krampa, heilaáverka, bráða­sjúkdómi í hjarta- og æðarkerfi svo og nýrum, ásamt lifrarskemmd og að fóstrið sé í hættu vegna möguleika á fylgjulosi og fósturköfnun. 

Eins og rakið hefur verið er ekki deilt um nauðsyn þess að X hefði átt að leggjast strax inn á sjúkrahús svo hægt væri að bregðast við því hættuástandi sem hún var í.  Það er álit dómsins að ekki sé hægt að fullyrða að fæðing stefnanda hefði ekki borið að með svo skjótum hætti vegna fylgjuloss þó X hefði verið inniliggjandi á sjúkrahúsi.  Ekki er þó útilokað að viðeigandi ráðstafanir til að lækka blóðþrýstinginn hefðu verið nægjanlegar til að koma í veg fyrir fylgjulos.  Þar að auki hefði vera hennar á sjúkrahúsi sennilega stytt tíma frá fyrstu einkennum fylgjuloss að fæðingu en minni líkur eru á sköddun vegna súrefnisskorts eftir því sem skemmri tími líður frá fylgjulosi að fæðingu.  Ef fylgjulos hefði ekki orðið er þó líklegt að til fæðingar hefði komið fljótlega, innan fárra vikna, vegna annarra einkenna meðgöngueitrunar og barnið því verið fyrirburi.

Eins og fram hefur komið stendur fullyrðing stefnanda um að hún hafi ekki fengið nægilegar ráðleggingar gegn fullyrðingu læknisins um að hann hafi upplýst hana rækilega um að hún væri haldin meðgöngueitrun og hugsanlegar afleiðingar hennar og að hún þyrfti að leggjast strax inn.

Ljóst má vera af gögnum málsins að  Q vildi leggja X inn á með­göngudeild eins og kemur fram í athugasemdum hans í mæðraskrá  ...1991 sem hann hefur skýrt með trúverðugum hætti á þann veg að X væri með með­göngu­eitrun og ætti að leggjast inn á meðgöngudeild og ef blóðþrýstingur lækkaði ætti hún að leggjast inn hluta úr degi í svokallaða dagönn.  Í aðgerðarlýsingu eftir hinn bráða keisaraskurð sem móðir stefnanda gekkst undir að kvöldi sama dags eftir fylgjulos kemur meðal annars fram: “Stóð til að leggja hana acut inn, til að forða henni frá traumanu, en henni var leyft að fara heim og ræða við mann sinn og leggjast inn að morgni, átti að taka því rólega heima fyrir. Var reiknað með að þannig kæmi hún í betra andlegu jafnvægi inn.”  

Ekkert er skráð í sjúkraskrá X um þann mótþróa við innlögn sem læknirinn heldur fram að hún hafi sýnt.  Jafnvel þó ekki hafi staðið lagaskylda til þess á þessum tíma að færa slíkar upplýsingar í sjúkraskrá verður að telja í ljósi þessarar sönnunar­stöðu aðila að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að ráð læknisins og aðvaranir hafi verið forsvaranlegar í ljósi þess alvarlega ástands sem X var í.  Þær ástæður sem læknirinn tilgreindi er hann gaf skýrslu fyrir dómi fyrir því að hann hafi ekki viljað skrá neitun móðurinnar við innlögn af tillitssemi við móðurina eru að mati dómsins ófullnægjandi og breyta því ekki þessari niðurstöðu. 

Í ljósi stöðu aðila, þekkingar og færni læknisins á ástandinu og hugsanlegum af­leið­ingum þess ber stefndi hallann af sönnunarskorti í þessum efnum.  Þykir í engu breyta að móðirin hafi skömmu fyrir skoðunina í janúar lesið grein um með­göngu­eitrun.   Þar sem stefndi hefur ekki sýnt fram á það svo óyggjandi sé að X  hafi verið leiðbeint um nauðsyn innlagnar og reynt hafi verið til þrautar að fá hana til að leggjast inn en hún þrátt fyrir það neitað innlögn verður því slegið föstu að um bóta­skyld mistök hafi verið að ræða sem stefndi beri ábyrgð á.

Orsakasamband milli þess að fæðing stefnanda bar svo brátt að með fylgjulosi eins og raun ber vitni og þeirrar fötlunar sem óumdeilt er að stefnandi búi við, er að vísu ósannað, enda má telja víst af þeim læknisfræðilegu gögnum sem við er að styðjast í málinu að sú sönnunarfærsla sé mjög torveld.

Ekkert er fram komið sem bendir til þess að stefnandi hafi orðið fyrir sköddun fyrr á meðgöngunni nema þá hugsanlega af B12 vítamínskorti en fram kemur í grein­argerð Péturs Lúðvígssonar læknis dagsettri 12. febrúar 1993,að skortur á B-12 vítamíni geti fræðilega haft alvarlegar afleiðingar fyrir þroska miðtaugakerfis hjá fóstri. B-12 vítamínskortur hrjáði stefnanda sannanlega í nokkra mánuði eftir fæðingu og getur sá skortur stuðlað að skertri heilastarfsemi að einhverju leyti.  Kemur fram hjá honum að oftast gangi einkenni vegna B-12 vítamínsskorts hratt til baka og í flestum tilfellum verði ekki um langvarandi heilaskaða að ræða.  Þá kemur fram hjá honum að hvað varði stefnanda sérstaklega sé erfitt að fullyrða hvaða hlut B-12 skortur eigi í þroskaskerðingu hennar, þar sem hún hafi ýmsa aðra áhættuþætti svo sem það að vera fædd fyrir tímann.  Telur hann að líklega sé B-12 skorturinn að minnsta kosti samverkandi orsakaþáttur.  

Um þetta segir Atli Dagbjartsson læknir í greinargerð sinni 8. maí 2001 að B-12 vítamín­skortur hafi á þessum tíma verið mjög sjaldgæfur og því erfitt að draga ákveðnar ályktanir um málið í heild.  Þó geti sá B-12 vítamínskortur sem stefnandi lifði við fyrstu ævimánuðina hafa stuðlað að skertri heilastarfsemi hennar að einhverju leyti.  Kemur fram í greinargerð Atla að langlíklegasta ástæðan fyrir fötlun stefnanda sé súrefnisskortur fyrir fæðinguna og fyrir dómi bar hann að ólíklegt væri að B-12 vítamín­skortur væri orsök örorku stefnanda.

X reykti á meðgöngu og það blæddi hjá henni um leggöng á fyrrihluta með­göngu en hvoru tveggja eru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir fylgjulosi.  Hár blóð­þrýstingur er hinsvegar sterkur áhættuþáttur og er það álit dómsins að vægi hinnar svæsnu meðgöngueitrunar sé hér yfirgnæfandi.

Börn sem fædd eru mikið fyrir tímann eins og stefnandi eru í aukinni áhættu fyrir varanlegum miðtaugakerfisskaða og eru líkurnar því meiri sem barnið fæðist fyrr fyrir tímann.  Súrefnisskortur fyrirbura fyrir fæðingu eykur enn frekar líkurnar á varan­legum skaða.  Sú staðreynd að stefnandi var ekki á sjúkrahúsi þegar einkenni fylgjuloss komu fram lengdi tímann að keisaraskurði og við það jukust líkurnar á súrefnisskorti fyrir fæðingu.  Vegna hins góða framgangs barnsins eftir fæðingu virðast læknar hafa verið  bjartsýnir um horfur barnsins þannig að þegar þroskahömlun hennar kom í ljós mánuðum eftir fæðinguna var hún í fyrstu talin vera vegna B-12 vítamínskorts.  Það var ekki fyrr en barnið svaraði ekki B-12 vítamíngjöf að farið var að ræða um líklegan súrefnisskort fyrir fæðingu.  Ekkert er hægt að fullyrða með vissu að um raunverulegan súrefnisskort hafi verið að ræða fyrir fæðingu en líkur eru taldar á að svo hafi verið.  Þá er heldur ekkert hægt að fullyrða um það hvort stefnandi hefði þroskast á sama hátt og raun varð á ef hún hefði fæðst svo snemma fyrir tímann án súrefnisskorts fyrir fæðingu en síðar fengið B-12 vítamínskort þó vissulega séu líkurnar á þroskahömlun meiri vegna þess dráttar sem varð á að gera keisaraskurðinn.  Þá er heldur ekkert hægt að fullyrða að niðurstaðan hefði orðið sú sama ef hinn ætlaði súrefnisskortur fyrir fæðingu hefði ekki komið til. 

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er það mat dómsins, að líklegast sé að meðgöngueitrun sú sem X var með hafi komið fylgjulosi af stað sem hafði í för með sér að stefnandi varð fyrir súrefnisskorti og er fötlun stefnanda því sennileg afleiðing af þeim mistökum sem slegið hefur verið föstu að hafi átt sér stað þegar X var ekki lögð strax inn á sjúkrahús þegar hún greindist með meðgöngueitrun, enda hefur stefndi ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi sé.  Eins og atvikum er háttað í máli þessu leiða sönnunarreglur til þess að stefndi verður að bera hallann af óvissu í þessum efnum.  Þar sem stefnda hefur ekki tekist að að sýna fram á að fötlun stefnanda verði rakin til annarra atvika en mistakanna verður að leggja á stefnda fébótaábyrgð á tjóni stefnanda.

Tjónsatburður sá sem mál þetta fjallar um varð á árinu 1991.  Við uppgjör bóta vegna líkamstjóna sem urðu fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 hefur verið höfð hliðsjón af örorkutjónsútreikningi sem byggður er á örorkumati og viðmiðunar­tekjum miðað við tiltekna framtíðarávöxtun. 

Aðilar eru sammála því að leggja örorkumat Jónasar Hallgrímssonar frá 8. janúar 2001 til grundvallar útreikningi bóta en eins og rakið er að framan er það mat læknisins að læknisfræðileg örorka stefnanda sé varanleg 90% en varanleg fjárhagsleg örorka hennar sé 100%.

Aðila greinir hins vegar á um hvort miða skuli útreikning bóta við læknis­fræðilega- eða fjárhagslega örorku.  Í úrlausnum dómstóla um verðmæti tapaðra fram­tíðar­tekna vegna örorku hefur almennt verið litið til hinnar læknisfræðilegu örorku og lagt til grundvallar að hundraðshluti tekjutaps sé hinn sami og læknis­fræðileg örorka.  Eins og mál þetta er vaxið þykja ekki vera forsendur til að víkja frá þeirri hefðbundnu aðferð.

Samkvæmt beiðni lögmanns stefnanda reiknaði Jón Erlingur Þorláksson trygg­inga­fræðingur út tjón stefnanda þann 24. janúar 2001.  Þar kemur fram að tekjur stefnanda áætli hann framvegis þannig að á 15. og 16. aldursári geri hann ráð fyrir 15 vikna vinnu hvort ár á unglingatöxtum Dagsbrúnar  Á 22. aldursári reikni hann með 52 vikna vinnu með 40 dagvinnustundum án orlofs og 467 ½ yfirvinnustund á taxta Dagsbrúnar fyrir fiskvinnu með 10,17% orlofi.  Á 21. aldursári miði hann við 95% fyrrnefndra tekna og lækkandi um 5% á ári niður í 75% á 17. aldursári.  Frá og með 26. aldursári gangi hann út frá meðaltekjum iðnaðarmanna sem á þeim tíma er útreikn­ingurinn átti sér stað var 2.761.300 á ári samkvæmt skýrslum Kjararannsóknarnefndar.  Hækkun tekna frá 22. til 26. aldursárs skipti hann jafnt á árin þar á milli.

Miðað við læknisfræðilega örorku 90%, á framangreindum forsendum um tekjur fær tryggingafræðingurinn eftirfarandi áætlun:

 

Á 15. aldursári átlaðar tekjur      148.400 og tekjutap því     133.500

- 16. -                  -                      171.200               -              154.100

- 17. -                  -                   1.096.200               -              986.700

- 18. -                  -                   1.169.400               -            1.052.500

- 19. -                  -                   1.242.500               -            1.118.300

- 20. -                  -                   1.315.600               -            1.184.100

- 21. -                  -                   1.388.700               -            1.249.800

- 22. -                  -                   1.461.800               -            1.315.600

- 23. -                  -                   1.786.700               -            1.608.000

- 24.-                   -                   2.111.600               -            1.900.400

- 25. -                  -                   2.436.400               -            2.192.800

Síðan árlega         -                  2.761.300                -          2.485.200

 

Samkvæmt þessum útreikningi er höfuðstólsverðmæti vinnutekna á slysdegi 27.658.900 krónur og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuð­stólsverðmæti taps af varanlegri örorku 1.659.500 krónur.  Á sömu forsendum fær hann út ef miðað er við 100% fjárhagslega örorku að slysdagsverðmæti tekjutaps sé 30.732.100 krónur og töpuð lífeyrisréttindi þá 1.843.900.

Þá kemur fram að við útreikning höfuðstólsverðmætis séu fram að útreikn­ingsdegi notaðir vextir og vaxtavextir af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands, 5% frá slysdegi, 6% frá 1. júní 1991, 7% frá 1. ágúst 1991 4% frá 11. október 1991, 3,75% frá 1. nóvember 1991, 3,5% frá 21. nóvember 1991, 3% frá 1. desember 1991, 2,5% frá 1. febrúar 1992, 2% frá  ...febrúar 1992, 1,25% frá 21. mars 1992, 1% frá 1. maí 1992, 1,25% frá 11. ágúst 1993, 0,5% frá 11. nóvember 1993, 0,65% frá 1. júní 1995, 0,75% frá 1. október 1996, 0,9% frá 21. janúar 1997, 1% frá 1. maí 1997, 0,7% frá 1. apríl 1998, 0,6% frá 21. október 1998, 0,7% frá 11. apríl 1999, 1% frá 21. janúar 2000, 1,2% frá 21. janúar 2000, 1,2% frá 21. janúar 2000(sic), 1,3% frá 21. ágúst 2000 og 1,7% frá 21. nóvember 2000.  Samsettir vextir frá slysdegi til útreikn­ingsdags séu 13,05%.  Eftir útreikningsdag séu notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir.  Dánar­líkur fari eftir reynslu áranna 1976 til 1980 og líkur fyrir missi starfsorku í lifanda lífi eftir sænskri reglu.  Þá sé ekki tekið tillit til skatta.

Að kröfu stefnda var þess óskað í framhaldi þessa útreiknings frá 24. janúar 2001 að Jón Erlingur reiknaði út:

1.        Slysdagsverðmæti tjónsins miðað við meðaltekjur verkamanna.

2.        Miðað við meðaltekjur annars vegar verkamanna og hins vegar iðnaðarmanna eins og þær voru á slysdegi.

3.        Að reiknað verði slysdagsverðmæti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins þ.e. örorkulífeyris, tekjutryggingar- og tekjutryggingarauka frá 16 ára til 67 ára aldurs, annars vegar eins og þær voru á útreikningsdegi og hins vegar á slysdegi.

Útreikningur tryggingafræðingsins miðað við meðaltekjur verkamanna á útreikn­ingsdegi miðað við 100% varanlega örorku áætlar hann tekjur framvegis þannig að á 15. og 16. aldursári gerir hann ráð fyrir 15 vikna vinnu hvort ár.  Frá 17. aldursári reiknar hann með meðaltekjum verkamanna sem á útreikningsdegi voru 2.324.700 á ári samkvæmt skýrslum Kjararannsóknarnefndar. Reiknast honum því til að höfuð­stóls­verðmæti vinnutekjutaps á slysdegi vera 32.025.000 krónur og töpuð lífeyris­réttindi 1.921.000 krónur.

Í útreikningi tryggingafræðingsins miðað við meðaltekjur verkamanna á slysdegi þá hafi meðaltekjur verkamanna verið taldar 1.102.900 á ári.  Þegar reiknað sé með þeim tekjum verði slysdagsverðmæti tekjutaps 15.194.000 krónur og töpuð lífeyris­réttindi 912.000 krónur.  Á sama hátt ef miðað væri við meðaltekjur iðnaðarmanna sem hafi verið á slysdegi 1.555.300 krónur á ári og slysdagsverðmæti tekjutaps því 17.062.000 krónur og töpuð lífeyrisréttindi 1.024.000 krónur.

Varðandi útreikning bóta almannatrygginga á útreikningsdegi þá sé örorku­lífeyrir nú 19.990 krónur á mánuði, tekjutrygging 35.334 krónur og tekjutryggingar­auki 15.527 krónur.  Slysdagsverðmæti slíkra greiðslna frá 16 til 67 ára séu þannig:

Örorkulífeyrir                 3.144.000

Tekjutrygging                 5.557.000

Tekjutryggingarauki       2.400.000

Samtals                        11. 101.000

Á sama hátt reiknist bætur almannatrygginga miðað við slysdag þannig að örorku­lífeyrir á þeim degi hafi verið 11.497 krónur á mánuði á slysdegi og tekjutrygging 21.153 krónur.  Tekjutryggingarauki hafi ekki hafa verið til þá og sé niðurstaðan þannig:

Örorkulífeyrir                  1.816.000

Tekjutrygging                  3.327.000

Samtals                            5.143.000

       Í útreikningi tryggingafræðingsins er vísað til sömu vaxtaútreikninga og í hinum fyrri útreikningi hans og rakið er að framan með þeirri breytingu að samsettir vextir séu frá slysdegi til útreikningsdags 15,07%.

Að kröfu lögmanns stefnanda reiknaði hann við sama tækifæri út slysdags­verðmæti bóta miðað við meðaltekjur verkamanna á útreikningsdegi að teknu tilliti til 10% fjármagnstekjuskatts og samkvæmt þeim útreikningi eru bætur ef reiknað er með 100% örorku  34.587.000 krónur og töpuð lífeyrissréttindi 2.075.000.  Á sama hátt ef miðað sé við meðaltekjur verkamanna á slysdegi sé slysdagsverðmæti 16.410.000 og lífeyrisréttindi 985.000 og ef miðað sé við meðaltekjur iðnaðarmanna á slysdegi sé slys­dagsverðmætið 18.427.000 og töpuð lífeyrissjóðsréttindi 1.106.000.  Þá kemur fram í niðurlagi útreikningsins varðandi það hvort fjármagnstekjur muni dragast frá greiðslum Tryggingarstofnunar ríkisins telur tryggingarfræðingurinn að fjár­magns­tekjur muni ekki skerða bætur.

Að ósk lögmanns stefnda gerði tryggingarfræðingurinn jafnframt útreikninga miðað við 90 % örorku og samkvæmt þeirri niðurstöðu ef miðað er við meðaltekjur verka­manna á útreikningsdegi sé höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps 28.822.000 krónur og töpuð lífeyrissjóðsréttindi 1.729.000 krónur.  Ef miðað er við meðaltekjur verka­manna á slysdegi sé höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps 13.675.000 krónur og töpuð lífeyrissjóðsréttindi 820.000 krónur og miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna á slysdegi sé höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps 15.356.000 og töpuð lífeyrissjóðs-réttindi 921.000 krónur. 

Í úrlausnum dómstóla varðandi viðmiðunartekjur tjónþola sem ekki hafa tekju­sögu hefur jafnan verið miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna og gerði upphafleg kröfu­gerð stefnanda ráð fyrir þeim viðmiðunartekjum auk þess sem hann gerir ráð fyrir þeim tekjum í 2. og 3. varakröfu.  Málatilbúnaður stefnda verður skilinn á þann veg að hann telji rétt að miða við meðaltekjur verkamanna eins og þær voru þegar slysið varð.  Leiðrétt kröfugerð stefnanda í aðalkröfu og 1. varakröfu gerir ráð fyrir að tekið sé tillit til 10% fjármagnstekjuskatts í samræmi við útreikning Jóns Erlings 28. janúar 2002 og þá miðað við meðaltekjur verkamanna á útreikningsdegi. Það er grundvallarregla í skaðabótarétti að tjónþoli skuli fá tjón sitt bætt og samkvæmt þeirri grundvallarreglu á tjónvaldur ekki að greiða hærri bætur en sem nemur tjóni.  Útreikningur á höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps í framtíðinni fyrir svo unga manneskju eins og hér á í hlut byggir að mestu leyti á gefnum forsendum um hvað muni gerast í framtíðinni.  Til að nálgast raunverulegt tjón verður í slíkum líkinda­reikningi að styðjast við þær staðreyndir sem þó liggja fyrir hvað snertir þær árstekjur sem notaðar eru sem viðmiðun á þeim tíma þegar útreikningur fer fram og engin rök til að styðjast í því efni við hverjar þær voru á slysdegi um 11 árum áður.  Þá er fyrir því dómvenja að styðjast við útreikning tryggingafræðings sem reiknar höfuð­stólsverðmæti vinnutekjutaps á slysdegi miðað við viðmiðunartekjur á útreikn­ings­degi.  Þá er einnig ljóst að bætur muni óhjákvæmilega skerðast vegna lögbundins 10% fjár­magnstekjuskatts og samkvæmt dómvenju sæta bætur sem þessar frádrætti vegna hag­ræðis við eingreiðslu bóta og skattfrelsis þeirra.  Þykir því rétt að útreikningur Jóns Erlings Þorlákssonar frá 28. janúar 2002 sem tekur mið af meðaltekjum verka­manna á útreikningsdegi og tekur tillit til 10% fjármagnstekjuskatts verði hafður til hlið­sjónar við ákvörðun bóta.  Með hliðsjón af þessu og þegar litið er til læknis­fræðilegrar örorku svo og frádráttar vegna hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu þykja bætur vegna varanlegrar örorku vera hæfilegar 26.000.000 krónur.  Frá þeim bótum dragast greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins enda ekki ágreiningur um það samtals að fjárhæð 11.101.000.  Þá hefur tryggingafræðingurinn í framangreindum útreikningi áætlað verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda 6% af höfuðstólsverðmæti taps vegna varanlegrar örorku.  Krafa um bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi er byggð á sömu viðmiðunartekjum og krafa um bætur vegna varanlegrar örorku vegna vinnutekjutaps sem tekin hefur verið til greina samkvæmt framansögðu.  Eru því engin rök til að gera undantekningu frá skýrri dómvenju í þessu máli og er 1. varakrafa stefnanda um bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda að fjárhæð 1.867.500 tekin til greina.

Eins og rakið er í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar sem byggt er á í máli þessu er ljóst að stefnandi er mjög skert andlega og ólíklegt að hún muni nokkurn tímann geta lifað sjálfstæðu lífi sem starfandi einstaklingur og kemur til með að þurfa mikla umönnun bæði andlega og líkamlega.  Þegar litið er til hins háa örorkustigs og hinnar alvarlegu sköddunar sem stefnandi býr við þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.800.000.

Hvað snertir vexti af kröfu stefnanda þá hefur stefndi borið fyrir sig að vextir sem eru eldri en 4 ára fyrir þingfestingu séu fyrndir.  Samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast vextir á fjórum árum.  Ekkert liggur fyrir um að fyrning hafi verið rofin fyrr en með höfðun máls þessa þann 5. febrúar 2001 og samkvæmt því eru vextir frá tjónsdegi 11. september 1991 til 5. febrúar 1997 fyrndir.  Samkvæmt 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 bera skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim tíma sem kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, en dómstólar geta þó ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta.  Með hliðsjón af framangreindu, eðli dráttarvaxta og svo sem mál þetta er að öðru leyti vaxið þykir rétt að dráttarvextir reiknist á dæmdar kröfur frá 8. mars 2001, en þá var liðinn mánuður frá þingfestingu málsins þar sem stefnandi lagði fyrir stefnda gögn um tjón sitt og krafði þá um bætur á grundvelli þeirra gagna.

Það er því niðurstaða máls þessa að stefnda beri að greiða stefnanda bætur samtals að fjárhæð 18.566.500 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi til málshöfðunarinnar með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 10. apríl 2001 og greiðist gjafsóknarkostnaður stefnanda samtals 1.576.920 krónur úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar Reimars Péturssonar hdl.  1.500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til lækkunar dómkröfu og virðisaukaskatts.  Eftir niðurstöðu þessa máls væru efni til að dæma stefnda til að greiða málskostnað samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991.  Þar sem stefndi hefur gjafsókn í málinu myndi dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda renna í ríkissjóð og þar með til stefnda sjálfs.  Af þessum sökum þykir rétt að láta ógert að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Konráð Lúðvíkssyni og Alexander Smárasyni.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið greiði stefnanda, X og Y fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra, Z 18.566.500 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. febrúar 1997 til 8. mars 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.576.920 krónur greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Reimars Péturssonar hdl. 1.500.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.