Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhaldsvist
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 4. október 2001. |
|
Nr. 371/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Jón Höskuldsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og c. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsvist. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Kröfu um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi var vísað frá héraðsdómi, þar sem X hafði þegar verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á því tímabili sem um ræddi og ekki yrði kveðinn upp annar slíkur úrskurður þótt lögreglustjóri teldi skilyrði hafa breyst frá uppkvaðningu fyrri úrskurðarins. Tekið var fram að ef lögreglustjóri teldi að grunur um aðild X að fleiri brotum gæfi tilefni til breytinga á fyrri ákvörðunum um fyrirkomulag gæsluvarðhaldsvistar hans færi um það samkvæmt ákvæðum 108. gr. laga nr. 19/1991 með síðari breytingum, en heimilt er gæsluvarðhaldsfanga að bera slíkar ákvarðanir undir dómara samkvæmt 75. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. október sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2001 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. október nk. kl. 16. Var gæsluvarðhaldið reist á ákvæði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í forsendum þess úrskurðar sagði meðal annars að varnaraðili hafi viðurkennt fyrir dómi aðild sína að þremur innbrotum, fjársvikum og þjófnaði á tímabilinu 29. ágúst til 20. september 2001. Yrði, þegar litið væri til brotaferils varnaraðila, að telja líkur á að hann héldi áfram brotum færi hann frjáls ferða sinna. Varnaraðili kærði þennan úrskurð ekki til Hæstaréttar. Við uppkvaðningu úrskurðarins tilkynnti fulltrúi sóknaraðila varnaraðila að fyrirkomulag gæsluvarðhaldsvistarinnar yrði án takmarkana, eins og greinir í 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.
Sóknaraðili krafðist þess 28. september 2001 að varnaraðili yrði „vegna rannsóknarhagsmuna úrskurðaður til að sæta einnig gæsluvarðhaldi“ á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr laga nr. 19/1991 allt til föstudagsins 5. október 2001 kl. 16. Þá var þess krafist að varnaraðili sætti í gæsluvarðhaldinu „frelsisskerðingu samkvæmt b- c- og d-liðum 1. mgr 108. gr. sömu laga.“ Voru kröfur þessar reistar á því að eftir að fyrri gæsluvarðhaldsúrskurður var upp kveðinn hafi lögreglan fengið rökstuddan grun um að varnaraðili tengdist fleiri málum en þeim, sem lágu til grundvallar úrskurðinum. Væri rannsókn þeirra mála á frumstigi og þætti vegna rannsóknarhagsmuna nauðsynlegt að varnaraðili sætti einangrun meðan rannsókn stæði yfir. Féllst héraðsdómari með hinum kærða úrskurði á framangreinda kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald.
Þegar sóknaraðili gerði 28. september 2001 kröfu um að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi allt til 5. október nk. hafði varnaraðila þegar verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á því tímabili með fyrri úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2001. Verður ekki kveðinn upp annar úrskurður um gæsluvarðhald yfir varnaraðila á þessu tímabili þótt sóknaraðili telji að skilyrði hafi breyst frá því að fyrri úrskurður var upp kveðinn. Telji sóknaraðili að grunur um aðild varnaraðila að fleiri brotum gefi tilefni til breytinga á fyrri ákvörðunum um fyrirkomulag gæsluvarðhaldsvistar hans fer um það samkvæmt ákvæðum 108. gr. laga nr. 19/1991 með síðari breytingum, en heimilt er gæsluvarðhaldsfanga að bera slíkar ákvarðanir undir dómara samkvæmt 75. gr. sömu laga. Samkvæmt framansögðu verður að vísa máli þessu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2001.
Ár 2001, föstudaginn 28. september, á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allani Vagni Magnússyni, héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 20. september sl. hafi lögreglan í Reykjavík handtekið framangreindan X ásamt öðrum manni í framhaldi af tilkynningu um innbrot í húsnæði Vegagerðarinnar, Borgartúni 7b í Reykjavík.
Vegna afbrotaferils kærða vikurnar á undan hafi verið daginn eftir lögð fram krafa í Héraðsdómi Reykjavíkur um gæsluvarðhald yfir kærða og hafi kærði verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi í 4 vikur á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml.
Á þeim tíma sem liðinn sé frá því að kærði hafi verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi hafi lögreglan fengið rökstuddan grun um að hann tengdist fleiri málum en þeim sem legið hafi til grundvallar gæslukröfunni þann 21. september sl. og vegna þessa sé krafa þessi lögð fram.
Rannsókn þessara mála sé á frumstigi og því þyki vegna rannsóknarhagsmuna nauðsynlegt að kærði sæti frelsisskerðingu á meðan rannsókn málanna standi yfir svo hann hafi ekki tækifæri til að hafa samband við aðra þá sem tengst geti málunum.
Kærði sé grunaður um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna, og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19,1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til rannsóknargagna er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga auk þeirra brot sem upplýst voru er hann var handtekinn. Rannsóknarnauðsynjar þykja leiða til þess að taka beri kröfu lögreglu um gæsluvarðhald á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 enda á hún við hér en brot kærða geta varðað hann fangelsisrefsingu ef þau sannast. Samkvæmt þessu verður krafa lögreglu um gæsluvarðhald tekin til greina eins og hún er fram sett.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 5. október 2001 kl. 16.00.