Hæstiréttur íslands

Mál nr. 257/2012


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 25. október 2012.

Nr. 257/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Ásbjörn Jónsson hrl.

Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

(Sveinn Andri Sveinsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, sem framin voru á árunum 2001 til 2008 er A var á aldrinum 10 til 18 ára, en brotin voru talin varða við 1. og 2. mgr. 201. gr., 1. og 2. mgr. 202. gr., 1. og 2. mgr. 194. gr. og 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í fimm ár. Þá var X gert að greiða A 3.000.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. apríl 2012. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um háttsemi ákærða en að hún verði heimfærð undir refsiákvæði samkvæmt ákæru og að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu „af öllum ákæruliðum, nema ákærulið 2.b. og 5 í ákæru en af þeim er krafist vægustu refsingar.“ Til vara krefst ákærði þess að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann lækkunar á einkaréttarkröfu.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakarmat vegna kafla 1, 2, 4 og 5 í ákæru. Samkvæmt þessu braut ákærði ítrekað gegn brotaþola allt frá árinu 2001, jafnframt því sem upplýst er að ákærði gekk stöðugt lengra í atferli sínu gagnvart brotaþola eftir því sem tímar liðu. Fram er komið að um það leyti sem kafli 3 í ákæru tekur til hafi ákærði verið byrjaður að viðhafa þá háttsemi að nudda kynfæri brotaþola og stinga fingri í kynfæri hennar. Þá var framburður ákærða um atvik máls um margt misvísandi eins og greinir í héraðsdómi og verður niðurstaða hans um sönnunargildi munnlegs framburðar þar fyrir dómi lögð til grundvallar. Með þessari athugasemd verður einnig staðfest niðurstaða héraðsdóms um sönnun sakargifta samkvæmt kafla 3 í ákæru.

Eins og atferli ákærða var háttað, sem um ræðir í fyrstu fjórum köflum ákæru, verður fallist á með héraðsdómi að líta verði á það sem áframhaldandi röð brota, sem hófust á árinu 2001 en lauk á árinu 2005. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að háttsemi sú sem ákærði er fundinn sekur um samkvæmt köflum 1 og 2 í ákæru hafi átt sér stað í skjóli þess trúnaðartrausts sem ríkti milli hans og brotaþola, en mikil tengsl voru milli heimila þeirra eins og greinir í héraðsdómi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. janúar 2012 í máli nr. 562/2011. Atvik samkvæmt köflum 3 og 4 í ákæru áttu sér einnig stað á heimili ákærða og innan þess tímabils sem um ræðir í fyrstu tveimur köflum ákæru. Eru því ekki efni til annars en að telja á sama hátt þessa háttsemi ákærða brot gegn trúnaðarskyldum hans gagnvart brotaþola í skilningi 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á hinn bóginn er fallist á með ákærða að sú kynferðislega áreitni sem um ræðir í a. lið kafla 2 í ákæru verði heimfærð undir þau sömu lagaákvæði og greinir í fyrsta kafla hennar. Að öðru leyti verður héraðsdómur staðfestur um heimfærslu háttsemi ákærða undir refsiákvæði. Með lögum nr. 61/2007 tóku ákvæði XXII. kafla almennra hegningarlaga nokkrum breytingum. Ber að líta til ákvæða 2. gr. almennra hegningarlaga um refsinæmi og refsingu ákærða. Með breytingarlögunum var refsirammi hækkaður vegna þeirra brota sem um ræðir í fyrstu fjórum köflum ákæru. Að virtu öllu því sem að framan greinir, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í fimm ár.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm ár.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 630.265 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 19. mars 2012.

                Málið er höfðað með ríkissaksóknara, dagsettri 19. desember 2011, á hendur:

                ,,X, kennitala [...],

                [...],[...],

fyrir eftirfarandi kynferðisbrot gegn A, kt. [...], framin á árunum 2001 – 2008 en A og ákærði tengdust fjölskylduböndum og dvaldi hún mikið á heimili hans eftir að faðir hennar lést í janúar 2001:

1.       Með því að hafa nokkrum sinnum í viku frá vorinu 2001 til vorsins 2004, á þáverandi heimili sínu að [...],[...], og ítrekað frá vorinu 2004 fram á sumar 2005, á þáverandi heimili sínu að [...],[...], strokið læri, maga, bringu, brjóst og kynfæri stúlkunnar ýmist utanklæða eða innanklæða og kysst hana tungukossum.

Telst þetta varða við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og jafnframt 2. mgr. 202. gr. sömu laga, áður 2. ml. 1. mgr. 202. gr. sömu laga, til 24. september 2004.

2.       Með því að hafa á árunum 2001 til 2005, á þeim stöðum sem að ofan greinir:

a.       Í um 10 skipti nuddað kynfæri stúlkunnar.

b.       Í um 6 skipti sett fingur í kynfæri hennar.

c.        Í um 10 skipti látið stúlkuna halda um getnaðarlim sinn og ýmist hreyft hendur hennar eða hreyft sjálfan sig.

Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga og jafnframt 1. mgr. 202. gr. sömu laga, til 24. september 2004.

3.       Nauðgun, með því að hafa árið 2004 eða 2005, er A var 14 ára, á þáverandi heimili sínu að [...],[...], stungið fingri sínum í kynfæri stúlkunnar þar sem hún lá sofandi á dýnu í stofunni og gat ekki spornað við verknaðinum.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr., sbr. áður 196. gr. almennra hegningarlaga, og 1. mgr. 201. gr. sömu laga.

4.       Nauðgun, með því að hafa, sumarið 2005, er A var 14 ára, þröngvað henni með ofbeldi til samræðis á þáverandi heimili sínu að [...],[...], en ákærði klæddi hana úr fötum og nærbuxum þrátt fyrir beiðni hennar um að gera það ekki, lagðist ofan á hana og hafði við hana samræði og lét ekki af háttseminni þrátt fyrir beiðni hennar þar um. 

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., áður 194. gr., og 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga.

5.       Með því að hafa á árinu 2008, er þau voru stödd í bifreið ákærða, káfað á læri A utanklæða.

Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verið dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 4.000.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. desember 2008 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því bótakrafa er kynnt sakborningi, og dráttarvaxta eftir þann dag skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.

Verjandi ákærða krefst sýknu af öllum köflum ákæru, utan ákærulið 2b og ákærulið 5. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Bótaskylda er viðurkennd en krafist er lækkunar bótakröfu. Þess er krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð að öllu leyti eða að hluta.

Hinn 14. janúar 2011 kom A til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í ákæru greinir. Sama dag gaf hún ítarlega skýrslu hjá lögreglu og aftur 23. júní 2011. Í skýrslunum greindi hún frá atburðum sem í ákæru greinir.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 20. janúar 2011. Þar játaði hann að hluta háttsemina sem ákært er fyrir.

Lögregluskýrslurnar verða að hluta raktar síðar.

                Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu að hluta og vitnisburður fyrir dómi.

A tengdist ákærða fjölskylduböndum á þeim tíma sem í ákæru greinir þannig að sambýliskona ákærða og móðir A eru systur. Undir dómsmeðferð og rannsókn málsins hefur komið fram að A dvaldi mikið á heimili ákærða á þeim tíma sem lýst er í ákærunni. Nánar verður vikið að þessu síðar.

Nú verður vikið að einstökum ákæruliðum.

Ákæruliður 1

Ákærði játar sök samkvæmt þessum ákærulið en taldi brotin hafa verið færri en ákært er fyrir. Taldi hann brotin geta hafa verið 10 talsins á þessu tímabili og að þau hafi átt sér stað í [...], en hann hafi flutt að [...] í [...] í apríl/ maí 2004. Hann kvaðst hafa haldið áfram brotum eftir flutning á [...] og taldi hann að brotin þar gætu hafa verið 10 talsins „eða eitthvað svoleiðis“ eins og ákærði bar. Hann taldi að brotin, framin í [...], hefðu átt sér stað í nokkur skipti og að þau hefðu ekki hafist á árinu 2001 heldur síðar, eða á árunum 2002 eða 2003. Hann lýsti vinnutíma sínum og konu sinnar á þessu tímabili og því að A hefði komið í pössun hjá konu sinni eftir vinnu þá daga sem hún passaði A. Hann kvað ekki rétt að brotin hafi verið nokkrum sinnum í viku, eins og lýst er í ákærunni. Hann kvað A og tvíburasystur hennar hafa komið í pössun hjá konu sinni fljótlega eftir að faðir A lést í janúar 2001. Þær hafi komið oft, jafnvel nokkrum sinnum í viku, í pössun á tímabilinu sem í ákæru greinir. Nánar spurður kvaðst hann ekki muna þetta. Hann kvað brotin hafa byrjað á þann hátt sem A hefur borið um hjá lögreglu. Þau hafi setið í sófa og horft á sjónvarpið. Ákærða var kynntur vitnisburður A hjá lögreglu þess efnis að brotin hefðu byrjað tveimur til þremur mánuðum eftir að faðir lést í janúar 2001 og hann spurður hvort vitnisburður A um þetta væri rangur. Hann kvaðst telja að brotin hefðu byrjað síðar en fram kom hjá ákærða að hann myndi þetta ekki, en taldi A hafa verið 12-13 ára gamla er brotin hefðu hafist. Nánar spurður kvaðst ákærði muna fjölda brota illa og einnig hvenær þau byrjuðu. Því sé ekki útilokað að hans mati að vitnisburður A, um það hvenær brotin hófust, sé réttur. Hann kvað þau A oftast hafa verið tvö ein er brotin voru framin.

Vitnisburður verður nú rakinn í heild þótt vitnisburður eigi við síðari ákæruliði.

Vitnið A kvað kynferðisbrot ákærða gegn sér hafa hafist þremur til fjórum mánuðum eftir að faðir hennar lést í janúar 2001. Hún hafi þá verið 11 ára gömul og brotin byrjað í [...]. Hún kvaðst viss um tímann og hafa lát föður síns sem viðmið. Hún muni þetta því vel. Hún hafi í fyrstu ekki gert sér grein fyrir því að ákærði braut gegn henni með háttsemi sinni. Hún hafi talið að karlmenn sýndu samúð á þann hátt sem ákærði kom fram gagnvart henni og lýst er í þessum ákærulið. Hún kvaðst mikið hafa dvalið í [...], þar sem hún var í pössun. Dvöl hennar þarna tók mið af því hvort móðir hennar sá sér fært að taka þær systur með sér í vinnu eða ekki og stundum hafi hún verið í [...] marga daga í viku, en aðrar vikur fór hún ekki þangað. Þau ákærði hafi verið að horfa á sjónvarpið og flest brotin sem hér um ræðir hafi verið framin við þær aðstæður. Hún kvað ákærða ekki hafa brotið gegn sér í hvert sinn sem hún kom í [...], en brotin hafi verið „tækifærissinnt“ af hálfu ákærða, eins og hún bar. Tilvikin í [...], skv. ákærulið 1, hafi verið mörg. Það hafi verið misjafnt hversu oft í viku hún kom í [...], en komið hafi vikur þar sem brotið var gegn henni nokkrum sinnum í viku í [...] og á þeim tíma sem í ákæru greinir.

Vitnisburður annarra en A verður nú rakinn í heild þótt vitnisburður eigi við síðari ákæruliði.

Vitnið B, tvíburasystir A, kom fyrir dóminn. Hún lýsti því að þær systur voru í pössun í [...], á heimili ákærða. Hún kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu óeðlilegu. Hún kvað A hafa greint sér frá því sem gerðist hinn 20. janúar 2011, en áður hafði móðir hennar greint sér frá þessum atburðum. A hafi lýst því svo að ákærði hefði byrjað að brjóta gegn henni eftir að faðir hennar lést og hún hafi þá verið 10 ára gömul. Hún lýsti eiginleikum í fari A tvíburasystur sinnar og tengdi vanlíðan hennar láti föður þeirra. Hún lýsti því að hún hefði litið þannig á að þær systur hefðu verið í pössun hjá „C og X“.

Vitnið D, móðir A, kom fyrir dóminn. Hún kvað tengsl ákærða og A í gegnum tíðina hafa verið góð og lýsti hún því. Systir vitnisins hafi passað A fyrir hana, eftir að eiginmaður hennar lést á árinu 2001. Milli heimilanna hafi verið náin tengsl og mikill samgangur. A og systir hennar hafi oft verið á heimili systur sinnar, allt upp í þrisvar sinnum í viku, þann tíma sem í ákæru greinir og ákærði þá verið heima. Hún hafi leitað til systur sinnar með pössun og litið þannig á að þær systur væru í pössun hjá henni þótt ákærði væri á heimilinu enda sambýlismaður systurinnar. Hún kvað systurnar hafa verið 12-13 ára er þær hættu að vilja fara í pössun á heimili ákærða og þær hafi þá verið einar heima. Þær hafi engu að síður farið í pössun eftir það og alveg þar til systir hennar og ákærði fluttu til [...] á árinu 2004.

Vitnið C var sambýliskona ákærða á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hún lýsti miklum samgangi milli heimila þeirra D systur sinnar. Hún kvað A og systur hennar hafa komið til sín í pössun í [...] oft í viku á þessum tíma. Ákærði hafi annast systurnar með henni og lýsti hún því. Hún kvað rétt það sem fram kemur í ákærunni að A hafi komið nokkrum sinnum í viku í [...], á tímabilinu frá vorinu 2001 til vorsins 2004. Eftir að þau ákærðu fluttu til [...], á árinu 2004, var samgangur áfram mikill og lýsti hún því. A hafi ekki komið jafn oft til [...] og hún gerði í [...], en hún kvaðst ekki geta svarað hversu oft hún kom. Hún kvaðst hafa gengið á ákærða og spurt um málið eftir að lögreglan sótti hann. Ákærði hafi greint henni frá atburði sem lýst er í ákærulið 4.

Vitnið E kvað A vinkonu sína hafa greint sér frá atburðunum, sem í ákæru greinir, á árinu 2006 eða 2007, er þær voru saman í skóla. A hafi greint frá því að þetta hafi byrjað er hún var 11 eða 12 ára, en hún mundi þetta ekki vel, en það kom fram hjá vitninu að brotin hafi byrjað eftir að faðir A dó. Þá hafi A lýst því að er hún var 15 ára og stödd á heimili ákærða í [...], þá hafi hann „gengið alla leið“. A hafi ekki lýst þessu nánar, en hún hafi grátið er hún greindi frá þessu. Þá hafi A lýst því að ákærði hefði eitt sinn, er hún lá sofandi á dýnu á gólfi, sett fingur í leggöng hennar. Á sama tíma hafi tvíburasystir hennar verið sofandi í sama herbergi. Hún mundi ekki hvar þetta gerðist, en þetta hafi átt sér stað á árinu 2005 eða 2006 samkvæmt frásögn A.

Vitnið F kvað A vinkonu sína hafa greint sér frá afbrotum ákærða er þær voru í 9. eða 10. bekk grunnskóla. A hafi sagt ákærða hafa káfað á sér. Hún mundi ekki hvort A sagði frá upphafinu. Hún kvað A hafa kviðið fyrir að fara í pössun hjá móðursystur sinni, þar sem ákærði braut gegn henni.

Vitnið G kvað A hafa rætt við sig á árinu 2008 og greint sér frá því að X hefði beitt sig kynferðislegu ofbeldi frá 11 ára aldrei þar til hún varð 16 ára, en þær A eru bræðradætur. A kvað ákærða hafa káfað á sér, látið hana káfa á sér og fleira. Hún kvað A hafa átt erfitt með að ræða þetta. Hún hafi spurt A hvort ákærði hefði einhvern tímann „gengið alla leið“. A hefði þá sagt já, en hann hafi haft samfarir við hana. Það hafi gerst er hún var 16 ára gömul. Hún kvaðst þekkja A vel og vita hvernig hún bregðist við kringumstæðum sem þessum. Hún kvað A hafa greint sér frá því að hún hafi þarna í fyrsta skipti sagt eitthvað við ákærða og sýnt viðbrögð, en viðbrögðin voru þau að segja honum að hún vildi þetta ekki og hún hafi beðið hann um að hætta. Eftir það forðaðist hún ákærða og forðaðist að vera ein með honum. Þá hafi A greint sér frá því að eitt sinn hafi hún verið sofandi á dýnu á gólfi á heimili ákærða í [...]. Hún mundi þetta illa, en frásögn A fyrir dómi var borinn undir hana. Mundi hún eftir því að A hefði greint sér frá atburðum eins og hún lýsti fyrir dóminum. G kvaðst vita að A hefði verið mikið í pössun hjá ákærða og móðursystur sinni eftir að faðir hennar lést og hún hafi greint sér frá því að brotin hefðu byrjað eftir það.

Vitnið H kvað G dóttur sína hafa greint sér frá atburðunum sem í ákæru greinir og hann hafi eftir það rætt málið við A bróðurdóttur sína á árinu 2009. Hún hafi sagt að brotin hefðu byrjað eftir að faðir hennar lést. Hún hafi í fyrstu talið að þetta væri sorgarferli sem átti sér stað. Hún hafi sagt ákærða hafa haft samfarir við sig er hún var 15 eða 16 ára gömul.

Vitnið I kvað A hafa passað börn sín í [...] á árinu 2005. Hún gat ekkert borið um dvöl A á heimili ákærða á þeim tíma.

Vitnið J, starfsmaður Heilsugæslu [...], lýsti því er hún var kölluð á fund í [...]skóla í október 2003, en tilefnið var að styðja A sem átti í erfiðleikum í námi auk þess sem hún hafi verið greind með athyglisbrest. Hún hafi hitt A þrisvar sinnum auk þess að hitta móður hennar. Í framhaldinu var A vísað til barnasérfræðings í taugasjúkdómum og þar með lauk afskiptum vitnisins af málum A. Ekkert kom þarna fram um það sem er sakarefni máls þessa. A hafi komið til vitnisins í október 2005 til mars 2006 og þá hafi hún unnið með heimilislækni og hjúkrunarfræðingum við að hjálpa A vegna líkamsþyngdar. Þá kom ekkert fram um sakarefni málsins. Næst hitti hún A í desember 2010, þá hafi hún fundið vanlíðan hjá A og hafi hún greint frá sjálfsvígshugsunum. Í framhaldi var A lögð á bráðadeild geðdeildar. J frétti síðan af því að A hefði greint frá kynferðislegu ofbeldi er hún dvaldi á geðdeildinni. Nokkrum mánuðum síðar kom A til hennar á ný og greindi frá því að hún hefði ákveðið að leggja fram kæru vegna málsins.

Vitnið K lýsti því er námsráðgjafi hafði samband við hann á árinu 2007 og lýsti áhyggjum vegna A sem þá var nemandi [...]skólans í [...]. Hann kvaðst hafa hitt A nokkrum sinnum, hún hafi verið mjög lokuð en þó greint frá því að hún hefði verið misnotuð kynferðislega. Það hafi byrjað sem káf og þreifingar en gerandinn að lokum haft við hana samfarir, en brotin hafi hætt fyrir tveimur árum síðan. Hún hafi ekki lýst atburðum nánar. Hún vildi ekki segja hver hlut ætti að máli og vildi ekki að móðir hennar frétti af þessu og ástæðan var sú hversu nákominn aðili átti hlut að máli. K lýsti viðbrögðum í framhaldinu og að A hafi verið vísað til Hrafndísar Teklu Pétursdóttur sálfræðings í því skyni að aðstoða A, svo hún gæti greint frá því sem gerðist.

Vitnið Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur lýsti því er félagsmálaþjónusta [...] vísaði A til sín á árinu 2006. Hún lýsti ástæðu tilvísunarinnar, sem voru erfiðleikar í skóla, vanlíðan, kvíði, erfiðleikar í samskiptum við fjölskyldu og að grunur hafi verið um misnotkun. Hún kvað mann móðursystur hennar hafa leitað á hana er hún var yngri og það hafi staðið yfir í nokkur ár. A var hrædd um að opna á málið af ótta við afleiðingarnar fyrir fjölskylduna og hún hafi þess vegna verið hrædd við að greina móður sinni frá þessu. Komið hafi fram hjá A að brotin hefðu átt sér stað meðan hún var í pössun. A hafi nefnt við vitnið að maðurinn sem um ræðir hefði farið alla leið. Hún hafi reynt að fá A til þess að skýra við hvað hún ætti. A hafi þá verið mjög fjarræn, brostið í grát og ekki treyst sér til þess að ræða þetta nánar. Spurð hvort A hefði rætt viðbrögð sín við þessum atburði eða öðrum, hvað vitnið A hafa læsts og stirðnað upp og hún „farið út úr sjálfri sér“ eins og A lýsti fyrir vitninu. Hún hafi ekki þorað að bregðast við eða segja frá þessum atburðum. Er hún eltist hafi hún áttað sig á því sem gerðist og að brotið hefði verið gegn henni. Vanlíðan A hafi einnig verið vegna fráfalls föður hennar og hafi hún haft áhyggjur vegna móður sinnar í sorg.

Vitnið Ísafold Helgadóttir læknir kvaðst hafa starfað á geðdeild Landspítalans í desember 2010 er A var þar sjúklingur og einnig í önnur skipti er A var þar lögð þar inn. Hún lýsti kvíða, spennu og fleiri einkennum í fari A. Fram kom hjá A að hún hefði gengið í gegnum mörg áföll, en það þungbærasta var áfall sem hún varð fyrir vegna sakarefnis máls þessa. Hún lýsti erfiðleikum sem A átti við að stríða vegna brotanna sem um ræðir í ákæru og lýsti aðstoð við A í framhaldinu.

Vitnið Þórunn Hreinsdóttir sálfræðingur kvað A hafa leitað til sín í kjölfar nauðgunar á árinu 2009. A hafi einnig greint sér frá brotum mágs móður sinnar. Maðurinn hafi tekið að leita á hana um þremur mánuðum eftir að faðir hennar lést. Hann hafi káfað á henni og fleira. A kvaðst hafa talið á þessum tíma að svona sýndi maður stuðning eða samúð. Þá hafi A nefnt að hún hefði legið á dýnu er hún var 12-13 ára gömul og maður þá eitthvað gert við hana. Þá hafi hún nefnt fleiri minningarbrot frá 11 ára aldri. Þá hafi hún nefnt tilvik sem varð er hún var 15 ára. Hún hafi sofnað í sófa á heimili mannsins, að hún taldi, og að maðurinn hafi verið í sturtu. Hún hafi vaknað við að maðurinn leiddi hana inn í herbergi þar sem hann afklæddi hana og nauðgaði henni eins og hún bar. A hafi sagt að hún hefði beðið manninn um að taka sig ekki úr nærbuxum og sagt við manninn „æ þetta er vont“. Maðurinn hafi svarað að þetta væri alltaf vont í fyrsta skipti. A hafi upplifað hjálparleysi og skömm vegna þessara atburða og vegna atburðar sem hún varð fyrir á árinu 2009, en er ekki sakarefni máls þessa. Hún hafi greint A með áfallastreituröskun og lýsti hún því nánar.

Niðurstaða ákæruliðar 1

Ákærði hefur að mestu leyti játað sök skv. þessum ákærulið en telur brotin sem framin voru í [...] færri en ákært er fyrir. Vitnið A bar að sumar vikur hafi hún komið oft í [...], þar sem hún var í pössun eins og rakið hefur verið. Aðrar vikur kom hún þangað ekki. Ákærði hefur borið á svipaðan hátt um komur A í [...], þar sem sambýliskona hans passaði A og tvíburasystur hennar. Fram kom hjá ákærða að hann mundi ekki vel hvenær hann hóf að brjóta gegn A í [...]. Nánar spurður um þetta kvað hann ekki útilokað að vitnisburður A um upphafið væri réttur. Vitnisburður A er trúverðugur um þetta, en hún hefur til viðmiðunar lát föður síns og kvað brotin hafa byrjað tveimur til þremur mánuðum síðar eða á vordögum 2001 eins og í ákæru greinir. Það er mat dómsins að sannað sé með trúverðugum vitnisburði A með stoð í framburði ákærða, að brotin sem í ákæru greinir hafi hafist á vordögum 2001 og staðið fram til vorsins 2004, er ákærði flutti í [...]. Á sama hátt er sannað, að hluta gegn neitun ákærða sem kvað brotin ekki eins mörg og ákært er fyrir, að brotin voru allt frá því að vera nokkrum sinnum í viku sumar vikurnar en aðrar vikur engin.

Þá er ákærða samkvæmt þessum ákærulið gefið að sök að hafa „ítrekað frá vorinu 2004 fram á sumar 2005 á þáverandi heimili sínu að [...] [...]“, brotið gegn A eins og lýst er í ákærunni. Með vitnisburði A og með játningu ákærða er sannað að brotin sem hér um ræðir hafi verið 10 talsins.

A og ákærði tengdust fjölskylduböndum eins og rakið hefur verið. A var í pössun á heimili ákærða og sambýliskonu hans er ákærði framdi brotin samkvæmt þessum ákærulið og einnig samkvæmt ákærulið 2. Mikill samgangur var á milli heimilis ákærða og heimilis A á þessum tíma, eins og komið hefur fram. A var komið fyrir í pössun á heimili ákærða sem þar með var trúað fyrir barninu á þann hátt sem lýst er í 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga og breytir engu í því sambandi þótt A hafi talið sig vera í pössun hjá sambýliskonu ákærða. Samkvæmt þessu eru brot ákærða, samkvæmt þessum ákærulið, rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákæruliður 2-a

Ákærði játar sök skv. þessum ákærulið. Hann kvað brot skv. þessum lið hafa byrjað árin 2002 eða 2003 í [...], en brot sem hann játar skv. ákærulið b og c hafi verið framin í Keflavík.

Niðurstaða ákæruliðar 2a

Sannað er með skýlausi játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem hér er ákært fyrir.

Ákæruliður 2-b

Ákærði játar sök skv. þessum ákærulið, utan að hann taldi brotin hafa verið 3 en ekki 6 eins og ákært er fyrir. Þessi brot hafi verið framin eftir flutning ákærða til [...], en fram kom hjá honum að þetta væri ekki ljóst í hans huga. Brotin hafi þó verið framin á árinu 2004 eða 2005. Hann lýsti brotunum sem hann taldi hafa átt sér stað í sjónvarpsherbergi íbúðarinnar, en hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær fyrsta brotið var framið. Hann kvað A ekki hafa sýnt nein viðbrögð við háttsemi hans skv. þessum ákærulið og heldur ekki við háttseminni sem lýst er í a-lið að framan.

Niðurstaða ákæruliðar 2b

Af framburði ákærða má ráða að hann man ekki vel hvenær brot þau sem hér um ræðir hófust. Vitnið A bar að brotin hefðu byrjað er hún var 12 ára gömul, á árinu 2002. Eins og rakið hefur verið bar ákærði að ekki væri útilokað að vitnisburður A um upphaf brotanna væri réttur. Að þessu virtu er það mat dómsins að sannað sé með vitnisburði A og með játningu ákærða að hann hafi framið brotin sem hér er ákært út af og að brotin hafi byrjað á árinu 2002 eins og rakið var.

Ákæruliður 2 c

Ákærði játar sök skv. þessum lið, utan að hann kvað brotin hafa verið 3 en ekki 10 eins og ákært er fyrir. Hann kvað brot skv. þessum lið hafa byrjað árið 2004 eða 2005 í [...], en þau A hafi verið tvö ein er brotin voru framin. Hann bar eins um þennan lið um viðbrögð A við háttsemi hans. Þau hafi engin verið utan eitt skipti en þá hafi komið fram hjá henni að hún kærði sig ekki um að hreyfa hendur sínar. Fram kom hjá ákærða að hann væri ekki viss um það hvenær brotin hófust. Hann var spurður nánar um þetta á sama hátt og varðandi ákærulið 1 og kvað hann sama svarið eiga við, en þar bar hann að ekki væri útilokað að vitnisburður A um upphaf brotanna væri réttur. Hann kvaðst telja að A og systir hennar, sem komu í pössun á heimili ákærða, hafi fyrst og fremst verið í umsjón og pössun C, sambýliskonu sinnar. Engum detti í hug að láta ákærða passa, auk þess sem hann kvaðst stundum hafa verið í vinnu fram á kvöld.

Vitnið A kvað brot ákærða hafa breyst og hann gengið lengra og leyft sér meira eftir því sem hún varð eldri. Hann hafi viðhaft alla háttsemina sem í ákærulið 2 greinir. Hún taldi sig hafa verið orðna 12 ára gamla er þessir atburðir áttu sér stað. Hún var spurð um fjölda tilvika og átti hún erfitt með að nefna fjöldann varðandi a-lið  en tilvikin hafi ekki verið færri en sex sem ákærði setti fingur í kynfæri hennar, eins og lýst er í b-lið 2. kafla ákæru. Aðspurð um c-liðinn kvað hún tilvikin hafa verið um 10 og líklega ekki miklu fleiri að hennar sögn. Hún kvað þessi brot hafa verið framin bæði í [...] og á [...] í [...] og þau hefðu byrjað á árinu 2002 og staðið yfir til ársins 2005.

Niðurstaða ákæruliðar 2c

Á sama hátt og rakið var í niðurstöðu ákæruliðar 2-b að framan er sannað að brotin sem hér um ræðir hófust á árinu 2002, er A var 12 ára gömul. Fram kom hjá ákærða að hann kvað brotin hafa verið þrjú talsins. Vitnið A bar að brotin sem hér um ræðir hefðu verið um 10 talsins. Vitnisburður A er trúverðugur um þennan ákærulið. Hún var ekki viss um fjölda tilvika. Eins og á stendur er ekki unnt að leggja vitnisburð hennar einan til grundvallar niðurstöðunni og sakfella ákærða fyrir að hafa framið brot gegn henni „í um 10 skipti“ eins og segir í ákæru. Að þessu virtu telur dómurinn sannað með játningu ákærða og með vitnisburði A að brotin sem hér um ræðir hafi verið þrjú talsins.

Brot ákærða samkvæmt 2. lið ákæru eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákæruliður 3

Ákærði neitar sök skv. þessum ákærulið en kvaðst vita um hvaða atvik væri að ræða. Hann kvað A hafa sofið á dýnu í stofu á [...], er hann lagðist fyrir aftan hana og hóf að láta vel að henni. Hann hefði strokið hana um brjóst og maga, en ákærði neitaði að hafa stungið fingri inn í kynfæri hennar eins og ákært er fyrir. A hefði vaknað við þetta og hefði hún kannað hvort B, systir hennar, væri vakandi. A hefði gefið ákærða í skyn að hún vildi þetta ekki og hefði hann farið við svo búið.

Ákærða var kynntur vitnisburður A hjá lögreglu, sem bar að hún hefði vaknað upp við að ákærði hefði stungið fingri í kynfæri hennar. Ákærði kvað þetta rangt hjá A.

Vitnið A kvaðst hafa sofnað á dýnu í stofunni að [...], á þeim tíma sem hér um ræðir, og systir hennar hafi sofið þar í sófa. Þær systur hafi verið á [...] í heimsókn. Hún kvað sér hafa þótt mjög vænt um C, sambýliskonu ákærða og móðursystur sína, og hún hafi því látið sem ekkert væri í því skyni að missa ekki C eins og hún bar. Þær systur hafi því viljað heimsækja C og verið í heimsókn hjá henni. Hún hafi ekki komið jafnoft í heimsókn til C í [...] eins og hún gerði er hún bjó í [...]. Hún kvaðst hafa verið í vist í [...] á árinu 2005 og meðan á því stóð hafi hún komið daglega að [...]. Hún hafi í raun litið á heimili C sem sitt annað heimili. Hún hafi vaknað upp við það, þar sem hún lá sofandi á gólfinu, að ákærði var við hlið hennar með fingur í kynfærum hennar. Hún hefði reynt að komast undan og snúið sér við og reyndi hún að rekast í skáp sem þarna var, í von um að systir hennar vaknaði. Ákærði hafi þá hætt þessu, farið í burtu en ekkert sagt. Hún hafi ekki rætt þetta við ákærða og engum sagt frá þessum atburði fyrr en eftir að ákærði hafði við hana samfarir sem lýst er í ákærulið 4. Hún kvaðst hafa sagt F, vinkonu sinni, frá öllu sem ákærði gerði henni. Það hafi hún gert er þær F voru í 10. bekk grunnskóla. Hún hafi einnig sagt E, vinkonu sinni, frá þessum atburði. Það hafi hún gert í lok árs 2006 eða ársbyrjun 2007. Hún greindi G, frænku sinni, einnig frá þessum atburði á árinu 2008.

Niðurstaða ákæruliðar 3

Ákærði og A bera að mestu leyti á sama veg um þennan atburð, utan að  ákærði neitar að hafa stungið fingri sínum í kynfæri A eins og ákært er fyrir. Ákærði bar um það að hafa strokið A um brjóst og maga eins og rakið var. Vitnisburður A um þennan atburð er trúverðugur og ekki verður annað ráðið af honum en að atburðurinn sitji henni fast í minni. Þetta álit dómsins fær meðal annars stoð í því að hún greindi nokkrum aðilum frá þessum atburði alllöngu síðar og í öllum tilvikum efnislega á sama veg. Má í þessu sambandi vísa til vitnisburðar E, G og Þórunnar Hreinsdóttur. Engin vísbending hefur komið fram um það að A segi ekki satt og rétt frá þessum atburði. Þá fær frásögn hennar einnig aukinn trúverðugleika er litið er til þess að ákærði hafði margbrotið gegn henni kynferðislega áður og kom fram við hana eins og rakið hefur verið. Að öllu þessu virtu og öðrum gögnum málsins er sannað með trúverðugum vitnisburði A, sem fær stoð í vitnisburði vitnanna sem getið var um að framan og með vísan til þess sem rakið var og dómurinn telur styrkja vitnisburð hennar, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis, þó þannig að ákvæði 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga á ekki við, en A var í heimsókn að [...] er brotið var framið.

Ákæruliður 4

Ákærði neitar sök. Hann kvað atvik ekki hafa verið eins og lýst er í ákærunni. Hann kvaðst hafa verið einn heima á þeim tíma sem í þessum ákærulið greinir, þó hafi þetta verið haustið 2005, líklega í ágúst að sögn ákærða. Hann hafi verið inni á baðherbergi, nýkominn úr baði, er A kom þar inn. Hún hafi komið „í fangið á mér“ eins og ákærði bar og þau tekið að kyssast. Leikurinn hafi borist inn í svefnherbergi þar sem þau afklæddust og hafi hann aðstoðað A úr peysu og fleiri fötum, en hún hafi lyft höndum og hjálpað til við að afklæðast. A hafi þá spurt hann um smokk sem hann kvaðst ekki eiga, en hann hafi boðist til að sækja hann. A hafi ekki viljað það og þau hafi eftir það farið nakin upp í rúmið. Hann kvaðst ekki hafa ætlað að hafa samfarir við A, heldur ætlað að hafa munnmök við hana. Hún hafi þá togað hann upp og hann hafi eftir það haft við hana samfarir og orðið sáðfall. Hann hafi ekki beitt líkamlegu ofbeldi eins og lýst sé í ákærunni. Eftir þetta hafi A orðið fyrir miklu áfalli og fengið sjokk að því er ákærði taldi, vegna samfaranna. Hún hafi sagt að hún gæti ekki gert C þetta og farið í bað eftir þetta. Ákærði kvaðst hafa reynt að róa hana og sagt að hann væri ófrjór. Hún hafi ekki róast við þetta og hafi hann þá boðist til að sækja „daginn eftir pilluna“. Í ljós kom að hann fékk pilluna ekki afgreidda. Hann hafi greint A frá þessu og hún þá sagt að hún þyrfti að komast til [...] og hann hafi látið hana hafa peninga fyrir farinu þangað. Ákærði kvaðst hafa talið að A vissi að ákærði var einn heima á þessum tíma. Hann kvað A hafa komið á eftir sér inn á snyrtinguna og í fang sér jafnvel er kona hans var heima. Þetta hafi gerst tvisvar til þrisvar sinnum að sögn ákærða, eftir að hann flutti til [...].

Ákærða var kynntur vitnisburður A, m.a. um að hún hafi ekki viljað að ákærði afklæddi hana og að hún hefði beðið ákærða um að taka sig ekki úr nærbuxunum. Ákærði kannaðist ekki við þetta og heldur ekki að A hefði sagt að hún vildi þetta ekki, þar sem þetta væri vont. Hann kvaðst hafa skilið aðstæður þannig að A vildi það sem fram fór og merkti hann það af því að hún hefði lyft upp höndum og hjálpað til og hann hefði litið á þau viðbrögð A sem samþykki. Hann kvaðst ekki muna eftir neinum viðbrögðum A meðan á samförunum stóð. Þau hafi kyssts en hún ekki tekið þátt í samförunum.

Ákærði kvað fas A hafa breyst í sinn garð eftir þetta og lýsti hann því, þótt honum hafi ekki fundist hún forðast sig. Ákærði var spurður hvort vitnisburður A hjá lögreglu, þess efnis að heimili ákærða og konu hans í [...] væri hennar annað heimili, væri réttur. Ákærði kvað A eiga aðra móðursystur í [...] og hafi hann talið A dvelja meira þar en á heimili sínu, en að öðru leyti kvaðst ákærði ekki getað svarað fyrir það sem A teldi í þessum efnum. Hann kvað A ekki hafa verið mikið á heimili hans á þeim tíma sem hér um ræðir, þótt hún hafi stundum komið um helgar að sumarlagi eftir að ákærði flutti til [...].

Vitnið A kvaðst á þeim tíma sem hér um ræðir hafa verið í vist og að passa fyrir fólk. Er hún lauk pössuninni þennan dag hafi hún ætlað að kíkja á C en hún hafi ekki verið heima. Hún hafi haldið, við komuna á [...], og heyrt einhvern vera í sturtu, að þar væri C. Hún hafi þá lagst í sófa í stofunni. Ákærði kom þá úr sturtunni og hún spurði um C, en ákærði sagði að hún væri í sumarbústað. Eftir þetta sofnaði hún í sófanum en vaknaði við ákærða sem leiddi hana inn í herbergi þar sem hann byrjaði með káfi, auk þess sem hann tók hana úr fötunum. Þegar ákærði ætlaði að taka hana úr buxum og nærbuxum hafi hún andmælt og beðið hann um að taka sig ekki úr nærbuxunum. Ákærði hafi ekki orðið við þessu og tekið hana úr nærbuxunum. Síðan lagðist hann ofan á hana og hóf að hafa samfarir við hana. Hún bað hann um að hætta og sagði ákærða að sér þætti þetta vont. Hann hafi þá sagt henni að allt væri í lagi, þetta væri allaf vont í fyrsta skipti. Hún hafi ítrekað en árangurslaust beðið hann um að hætta, sem hann gerði ekki fyrr en eftir að honum varð sáðfall. Hún lýsti því sem gerðist í framhaldinu. Hún kvað ákærða hafa tekið utan um sig og sagt að hún mætti ekki segja móður sinni frá því sem gerðist. Gerði hún það myndi hún ekki trúa henni og jafnvel drepa þau bæði. Hún hafi þá spurt ákærða hvað hann ætlaði að gera ef hún yrði ólétt. Ákærði hafi þá tekið bók um tíðahringinn og þóttist kenna henni. Þá hafi hann sagt að hann væri ófrjór, en hún kvaðst ekki hafa vitað þá hvað það þýddi. Þá hafi hann beðið hana um að bíða meðan hann sækti „neyðarpilluna“ í apótek. Hún hafi gert það, en er hann kom til baka hafi hann sagt að hann fengi ekki pilluna keypta. Hún hafi þá farið út og hitt L, frænku sína, og látið sem allt væri með felldu. Hún kvað framburð ákærða um smokkinn rangan og að það sem gerðist hafi verið gegn vilja hennar og hún hafi látið það skýrt í ljós, eins og rakið var. Hún hafi eftir þetta reynt að láta sem ekkert væri en það hafi hún gert til að missa ekki C, eins og hún bar. Hún lýsti mikilli hræðslu sinni eftir þennan atburð. Hún lýsti samskiptum við ákærða og hvernig hún reyndi að forðast hann og erfiðleikum sem upp komu vegna þess. Hún kvaðst hafa sagt E, F og G frá þessum atburði á sama hátt og hún gerði varðandi atburðinn í ákærulið 3.

A leitaði sér aðstoðar vegna atburðanna sem í ákæru greinir á árinu 2006, en þá hafi þessir atburðir verið farnir að hafa mikil áhrif á allt hennar líf og lýsti hún því og þeirri aðstoð sem hún naut í kjölfarið. Hún lýsti því er hún lagðist inn á geðdeild í desember 2010, vegna atburðanna sem í ákæru greinir. Ákærði hefði vogað sér að koma í heimsókn með C, eins og hún bar. Hún kvaðst síðan hafa farið í heimsókn til ákærða og C síðar í sama mánuði, þá hafi þar verið 6 ára gamalt barn sem hún fékk í fangið og hafi barnið kysst hana í andlitið. Hún lýsti því hvernig hún fékk í magann við þetta og upp kom sú hugmynd að hún væri ekki sú eina sem ákærði hefði brotið gegn. Hún hefði lagt fram kæru, ekki sín vegna, heldur til að reyna að koma í veg fyrir að aðrir lentu í því sama og hún. Hún lýsti líðan sinni í dag og aðstoð sem hún hefur notið vegna þessa. A kvaðst ekki hafa litið svo á, í gegnum árin, að ákærði væri að passa hana og systur hennar, heldur hafi það verið C móðursystir hennar. Hún hafi litið á ákærða sem „frænda okkar“ þar sem hann var eiginmaður C. Hún kvaðst hafa verið 14 ára er hún áttaði sig á því að ákærði var að brjóta gegn henni. Hún hefði áttað sig á þessu þegar hún var í kynfræðslu í skólanum. Meðal gagna málsins er dagbók sem A ritaði, hún kvaðst hafa skrifað bókina eftir að faðir hennar dó. Hún lýsti líðan sinni og atburðum sem í ákæru greinir og hún greinir þar satt og rétt frá öllu. Þar hafi hún lýst öllu en breytt nöfnum, utan nafni ákærða sem nefndur er réttu nafni. Hún hafi lokið ritun bókarinnar í janúar árið 2011.

Niðurstaða ákæruliðar 4

Ákærði játar samræði við A eins og rakið var en kvað það hafa átt sér stað með hennar samþykki. Framburður hans um þetta og frumkvæði A er þó allur með nokkrum ólíkindablæ. Vitnisburður A um þennan atburð er trúverðugur. Atburðurinn markaði hana og breytti framkomu hennar gagnvart ákærða, eins og þau hafa bæði borið um. Á sama hátt og lýst var í niðurstöðukafla ákæruliðar 3 að framan var atburðurinn henni ofarlega í minni og hafði mikil áhrif á líf hennar, eins og hún bar og vitnisburður styður. Hún greindi frá þessum atburði, ítarlega og efnislega á sama hátt, við vitnin E, F og Þórunni Hreinsdóttur. Á sama hátt og rakið var í niðurstöðukafla ákæruliðar 3 að framan er það mat dómsins að vitnisburður A fái einnig aukinn trúverðugleika er litið er til þess að ákærði hafði margbrotið gegn henni kynferðislega áður og kom fram við hana eins og rakið hefur verið. Að þessu virtu er það mat dómsins að leggja beri vitnisburð A til grundvallar því sem gerðist, en vitnisburður hennar fær stoð í vitnisburði vitnanna sem getið var um að framan. Er þannig sannað með vitnisburði A og með öðrum gögnum málsins, en gegn ótrúverðugum framburði ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir.

Atburðurinn sem hér um ræðir átti sér stað fyrir lagabreytinguna sem varð á 194. gr. almennra hegningarlaga, með 3. gr. laga nr. 61/2007. Í 194. gr. almennra hegningarlaga, sem í gildi var er þessi atburður átti sér stað, segir að hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvi manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka skuli sæti fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Það er mat dómsins að ekkert í vitnisburði A sé þannig að unnt sé að virða háttsemi ákærða svo að hún varði við þessa lagagrein. Hins vegar er það mat dómsins að háttsemi ákærða beri að færa undir þágildandi 195. gr. almennra hegningarlaga, sbr. nú 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007. Vikið var að þessu undir flutningi málsins. A var í heimsókn á heimili ákærða er hann framdi brot sitt. Brot ákærða verður því ekki jafnframt talið varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður 5

Ákærði játar sök skv. þessum ákærulið og er skírskotað til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

Fyrir liggur mat á andlegum þroska og andlegu heilbrigði ákærða sem Þórarinn V. Hjartarson sálfræðingur ritar. Skýrsla hans er dagsett 17. ágúst 2011. Niðurstöðukaflinn er svofelldur: ,,Undirritaður sér engin merki um geðveiki, andlegan vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða annað samsvarandi ástand sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga sem gerir X ófæran um að stjórna gerðum sínum er afbrot voru framin. Með vísan til 16. gr. sömu laga er að mati undirritaðs ekkert sálfræðilegt að hjá X sem kemur í veg fyrir að refsing beri árangur ef hann reynist sekur. Undirritaður telur því að ekki þurfi að beita ráðstöfunum sem fjallað er um í 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga.“

Þórarinn kom fyrir dóminn, staðfesti og skýrði skýrslu sína. Hann kvað hafa komið fram hjá ákærða að hann væri haldinn girnd til unglingsstúlkna. Hann kvað ákærða hafa komið heiðarlega fram í matinu og lýsti hann þessu nánar og prófum sem lögð voru fyrir ákærða.

Ákærði er sakhæfur.

Ákærði framdi brot sín á árinu 2001 til ársins 2005, en síðasta brotið framdi hann á árinu 2008, sbr. ákærulið 5. Brot ákærða samkvæmt fyrstu fjórum köflum ákæru eru mörg, þau eru virt sem áframhaldandi samkynja brot og eru öll ófyrnd, sbr. 3. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.

Frá því ákærði framdi brot sín hafa almenn hegningarlög breyst eins og fram kemur í ákærunni varðandi heimfærslu brota til refsiákvæða. Ákærða er gerð refsing eftir nýrri lögunum, þó þannig að ekki verður beitt þyngri refsingu en heimilt var á þeim tíma er brotin voru framin, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Brot hans eru mörg og alvarleg og höfðu alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ákærði brást trausti sem honum var sýnt. Hann á sér engar málsbætur. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 ár.

A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja bætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 3.000.000 króna auk vaxta eins og greinir í dómsorði, en dráttarvextir reiknast frá 5. febrúar 2012 er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða. Þá greiði ákærði 251.000 króna réttargæsluþóknun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.

Ákærði greiði 373.650 króna útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði Ásbirni Jónssyni hæstaréttarlögmanni 1.255.000 króna málsvarnarlaun og 29.970 krónur í aksturskostnað. Þóknun verjandans er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Arnfríður Einarsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir.

Dómsorð:

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 ár.

                Ákærði greiði A 3.000.000 króna auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 31. desember 2008 til 5. febrúar 2012, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 373.650 króna útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

                Ákærði greiði 251.000 króna réttargæsluþóknun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.

Ákærði greiði 1.255.000 króna málsvarnarlaun Ásbjörns Jónssonar hæstaréttarlögmanns og 29.970 krónur í aksturskostnað. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.