Hæstiréttur íslands

Mál nr. 170/2001


Lykilorð

  • Landskipti
  • Landamerki
  • Stjórnsýsla
  • Andmælaréttur
  • Stöðuumboð
  • Gjafsókn
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001.

Nr. 170/2001.

Ingólfur Árnason og

Rósa Gísladóttir

(Dögg Pálsdóttir hrl.

Jón R. Pálsson hdl.)

gegn

Högna Albertssyni

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.

Þorbjörg I. Jónsdóttir hdl.)

 

Landskipti. Landamerki. Stjórnsýsla. Andmælaréttur. Stöðuumboð. Gjafsókn. Aðfinnslur.

I og R héldu því fram, að lögfest skipti milli jarðanna K og Kh annars vegar og KI og KII hefðu þegar farið fram og að landamerki milli jarðanna lægju ljós fyrir. Því hefði ekki átt að taka jörðina K, ásamt Kh, inn í landskipti milli jarðanna KI og KII. Bæri að dæma landskiptagerð frá 21. febrúar 1998 ógilda af þeim sökum. Enda þótt I og R hefðu bent á ýmislegt, er gefið gæti til kynna, að umræddum löndum hefði að einhverju leyti verið skipt, var þó ekki á það fallist, að nægilega væri sannað, að lögfest skipti hefðu farið fram í lagaskiningi, enda lægi ekki annað fyrir en að hlutföllum um dýrleika jarðanna væri þá stórlega raskað frá jarðamati, er gert var árið 1861 og hafa varð til hliðsjónar, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1941. Skiptagerð, sem gerð var milli jarðanna K og Kh árið 1979, gat ekki haft þýðingu í þessu sambandi, en eigendur KI og KII áttu ekki aðild að henni og varð ekki séð, að hún hefði verið undirrituð af þeim eða eiganda K. Fallist var á það með I og R, að sýslumaður hefði ekki gætt andmælaréttar þeirra áður en hann varð við kröfu H, eiganda jarðanna K og Kh, um að draga jarðir hans undir landskiptin milli KI og KII, en ekki var þó talið, að þau hefðu orðið fyrir réttarspjöllum af þessum sökum og leiddi málsmeðferð sýslumanns því ekki til ógildingar á landskiptagerðinni. Þá var ekki talið, að þeir ágallar hefðu verið á málsmeðferð landskiptanefndar, sem valdið gætu ógildingu gerðarinnar. Var H því sýknaður af öllum kröfum I og R. Gerð var athugasemd við það, að héraðsdómari hafði vísað tiltekinni kröfu H frá dómi vegna vanreifunar en ekki getið þess í dómsorði, auk þess sem hann hefði með réttu átt að vísa til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um þá frávísun.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 11. maí 2001. Þeir krefjast þess aðallega, að viðurkennt verði, að lögfest skipti hafi farið fram milli jarðanna Kross og Krosshjáleigu annars vegar og jarðanna Krossgerðis I og Krossgerðis II hins vegar og landamerki séu við Gvendarhól frá sjó og þaðan sjónhending í Krosshjáleigukamb í austanverðu Hjáleigugili og að landskiptagerð frá 21. febrúar 1998 um jarðirnar Krossgerði, Kross og Krosshjáleigu í Djúpavogshreppi verði dæmd ógild. Til vara krefjast áfrýjendur þess, að framangreind landskiptagerð verði ógilt með dómi. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en þeir njóta gjafsóknar við áfrýjun málsins.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en hann hefur gjafsókn fyrir réttinum.

Áfrýjandi Ingólfur Árnason er eigandi Krossgerðis I, áfrýjandi Rósa Gísladóttir eigandi Krossgerðis II, en stefndi, Högni Albertsson, er eigandi Kross og Krosshjáleigu.

I.

Í Jarðatali á Íslandi, sem gefið var út af Jóni Johnsen yfirdómara í Landsyfirréttinum árið 1847, var jörðin Kross í Beruneshreppi metin til 20 hundraða, en Krossgerði og Krosshjáleiga voru ekki metnar sérstaklega. Í neðanmálsgrein segir: „1696 eru 6 h. af dýrleikanum talin á Krossgerði og nú eins hjá sýslumanni, en hann telur Kross sér 12, og Krosshjáleigu 3 h. að dýrleika.“

Í konunglegri tilskipun um nýjan jarðardýrleika á Íslandi 27. maí 1848 var boðið í 1. gr.: „ Á landi voru Íslandi skal setja nýjan dýrleika á allar jarðir sem fyrst má verða.“ Í 3. gr. sagði, að virðingarmenn skyldu meta hverja jörð til peningaverðs, „að því sem slíkar jarðir verða sanngjarnlega seldar eptir gæðum sínum.“ Var svo í tilskipuninni nánar mælt fyrir um virðingarmenn og framkvæmd jarðamats. Í kjölfar þessa setti Rentukammerið hinn 1. september 1848 „Reglugjörð fyrir þá menn, sem meta eiga jarðir á Íslandi, til þess að nýr dýrleiki verði á þær lagður.“ Þar var fyrst vísað til 3. gr. hinnar konunglegu tilskipunar og sagt, að hana ætti svo að skilja „að meta skal hverja jörð eptir því, sem hún er í raun og veru með kostum og ókostum, en ekki eptir þeim atriðum, er einúngis nú sem stendur mundu rýra verð hennar eða auka.“ Í 2. gr. reglugjörðarinnar er svofellt ákvæði: „Ef hjáleigur fylgja jörð, ber þessa að gæta: Óbyggðar hjáleigur allar skal meta með heimajörðinni. – Svo er og um byggðar hjáleigur, sem ekki hafa landamerki sér. – En byggðar hjáleigur, sem hafa landamerki sér, skal meta sem jarðir sér.“

Lagður hefur verið fram útdráttur úr Gjörðabók virðingarmannanefndar jarða í Suður-Múlasýslu 1849. Þar er annars vegar umfjöllun um jörðina Kross ásamt Krosshjáleigu, sem talin er 3 hundruð, en engin landamerki séu þar á milli. Þrír virðingarmenn meta jörðina á 504 rbd. en tveir á 600 rbd. og er meðaltal sagt vera 542 rbd. Hins vegar er mat á hjáleigunni Krossgerði, sem talin er 6 hundruð, en „þessa jörð meta allir virðingarmenn á 240 rbd.“

Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland, sem samin var eftir tilskipuninni 27. maí 1848 og staðfest með tilskipun 1. apríl 1861, var jörðin Kross í Beruneshreppi talin 12 forn hundruð. Getið var um tvær hjáleigur og þær metnar: Krosshjáleiga 3 hundruð og Krossgerði 6 hundruð. Samtals var dýrleikinn talinn nema 21 fornu hundraði. Ný hundraðatala fyrir Kross ásamt Krosshjáleigu er skráð 17,80 en fyrir hjáleiguna Krossgerði 7,87. Samtala Kross með hjáleigunum er sögð 25,6.

Jarðamatið 1861 var tekið til endurskoðunar á árunum 1916 til 1918 og var gefin út ný fasteignamatsbók, sem tók gildi 1922. Þar voru Krossgerði I og II metnar sérstaklega hvor um sig auk Krosshjáleigu en Kross var nú metinn í þrennu lagi sem Kross I, II og III. Hið sama var uppi á teningunum í fasteignabókinni 1932.

II.

Málavextir og málsástæður aðila eru rakin í meginatriðum í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram óskaði áfrýjandi Rósa Gísladóttir eftir skiptum jarðarinnar Krossgerðis með bréfi til sýslumannsins á Eskifirði 23. ágúst 1996 Í framhaldi þess skipaði sýslumaður 18. október 1996 Gísla M. Auðbergsson hdl. til að vera formaður í landskiptanefnd ásamt tveimur úttektarmönnum í Djúpavogshreppi, sbr. 1. mgr. 4. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, en Beruneshreppur, Búlandshreppur og Geithellnahreppur í Suður-Múlasýslu höfðu á árinu 1992 sameinast undir nafninu Djúpavogshreppur.  Þegar meðferð þessa skiptamáls var komin nokkuð á veg krafðist Helgi Jensson hdl. þess fyrir hönd stefnda með bréfi til oddamanns landskiptanefndar 22. apríl 1997, að jörðin Kross yrði tekin inn í skiptin, þar sem engin skipti hefðu farið fram milli þessara jarða og allt land frá Núpi að utan að Krossá að innan væri í óskiptri sameign jarðanna þriggja. Sýslumaðurinn á Eskifirði féllst á þessa kröfu, án þess að bera hana undir eigendur Krossgerðisbæjanna, og skipaði Gísla 18. júní 1997 formann í landskiptanefnd ásamt sömu úttektarmönnum en nú með víðtækara verkefni en áður.

Af hálfu áfrýjenda hefur áhersla verið á það lögð, að með skiptagjörð frá 22. september 1979 hafi landi handa Krosshjáleigu verið skipt úr sameiginlegu landi hennar og Kross, bæði ræktuðu og óræktuðu í þeim hlutföllum, að Krosshjáleiga fengi í sinn hlut 3/15 hluta af slíku landi. Ekki hafi þá verið ágreiningur um landamerki gagnvart Krossgerði. Áfrýjandi Ingólfur Árnason var umboðsmaður eiganda Krosshjáleigu við þessi skipti, en stefndi var umboðsmaður föður síns, sem var eigandi Kross. Í skiptagjörðinni var eftir þeim haft, að þeim bæri saman um, að landamerki, sem afmörkuðu það land, sem skipta átti, væru ágreiningslaus og hefði hvorugur sérstakar óskir um það, hvernig skiptum skyldi hagað. Fyrir héraðsdómi bar stefndi, að þetta væri ekki rétt eftir haft í skiptagjörðinni. Ekki hefði verið rætt um merki aðliggjandi landa, en „merki í kringum alla torfuna og alla bæina, ég held að það hafi alltaf verið ágreiningslaust.“ Áfrýjandi Ingólfur gaf ekki skýrslu fyrir héraðsdómi. Af framburði þriggja landskiptamanna fyrir dóminum verður ekki örugglega ráðið, að landamerki milli þessara jarða í heild hafi komið til sérstakrar athugunar.

Stefndi eignaðist Krosshjáleigu með afsali 1. ágúst 1997 og var þar meðal annars tekið fram, að jörðin væri 3/21 hlutar af óskiptu landi jarðanna Kross og Krossgerðis I og II. Við þinglýsingu afsalsins í september á sama ári var gerð sú athugasemd, að ekkert yrði ráðið af þinglýsingarbókum um það, að hið selda væri hluti af óskiptu landi framangreindra jarða.

Í forsendum héraðsdóms er nokkuð rækilega lýst bréfaskiptum landskiptanefndar og eigenda og umboðsmanna jarðanna í svonefndu Krossþorpi bæði fyrir og eftir útvíkkun á verkefni nefndarinnar auk bréfaskipta við hreppsnefnd Djúpavogshrepps og jarðanefnd Suður-Múlasýslu.

III.

Landskiptanefndin hélt fjóra bókaða fundi. Á fyrsta fundinum í Hamraborg á Berufjarðarströnd 9. ágúst 1997 voru auk landskiptamannanna Gísla M. Auðbergssonar og Magnúsar Hreinssonar mættir þeir Bernhard Bogason hdl. og Þór og Örn Ingólfssynir fyrir hönd eiganda Krossgerðis I og Helgi Jensson hdl. vegna Kross og Krosshjáleigu, en af hálfu eiganda Krossgerðis II  var ekki mætt. Meðal annars voru lagðar fram greinargerðir af hálfu allra aðila, en greinargerðir beggja áfrýjenda voru skrifaðar, áður en stefndi krafðist þess, að Kross og Krosshjáleiga yrðu tekin inn í landskiptin. Í greinargerð áfrýjanda Ingólfs kom auk annars fram, að hann mótmælti því, að skipting færi fram milli Krossgerðisbæjanna. Á fundinum var skipst á skoðunum, bæði um skiptagerðina 1979, aðkomu jarðarinnar Kross að skiptunum nú og eignarhlutföll jarðanna.

Næsti fundur var haldinn á Eskifirði 22. september 1997. Á hann mættu einungis landskiptamennirnir Gísli og Magnús, en þriðji nefndarmaðurinn, Dagbjartur Harðarson, var fjarverandi, eins og á fyrsta fundi. Lögð voru fram frekari bréfaskipti og gögn auk greinargerðar áfrýjanda Ingólfs frá 9. september 1997. Þar var aðallega krafist frávísunar á kröfu stefnda um að taka Kross og Krosshjáleigu inn í skiptin, en til vara var þess krafist, að landamerki yrðu ákveðin frá Gvendarhóli við sjó og þaðan sjónhending í Krosshjáleigukamb í austanverðu Hjáleigugili. Í framlögðu bréfi áfrýjanda Rósu frá 13. september 1997 kom einnig fram krafa um frávísun á kröfu eiganda Kross. Bókað var, að í kjölfar fundarins 9. ágúst 1997 hefðu nefndarmennirnir farið á fund áfrýjanda Rósu Gísladóttur í Krossgerði II og hafi hún tjáð þeim, að Sigurður Björgvinsson myndi fara með mál þetta af hennar hálfu. Loks var bókað, að á næsta fundi 10. október yrði reynt að afgreiða frávísunarkröfuna.

Á þriðja fundi landskiptanefndarinnar á Eskifirði 25. nóvember 1997 voru aðeins Gísli og Magnús, en bókað var, að vegna búferlaflutninga tæki Flosi Ingólfsson sæti í nefndinni í stað Dagbjarts, en hann hafði einnig komið í hans stað sem úttektarmaður í Djúpavogshreppi. Lagðar voru fram viðbótargreinargerðir af hálfu áfrýjanda Rósu og stefnda. Ekki var tekin afstaða til frávísunarkröfunnar, en í lok fundargerðar kemur fram, að boðað verði til fundar um miðjan desember og þess þá freistað að ljúka skiptum.

Til fyrirhugaðs fundar landskiptanefndar í desember 1997 kom ekki. Með bréfi 18. febrúar 1998 boðaði oddamaður til fundar um landskiptin á Hótel Framtíð á Djúpavogi 21. sama mánaðar. Í bréfinu var sagt, að á fundinum myndi nefndin taka ákvarðanir um framhald málsins. Brýnt var fyrir aðilum að koma að athugasemdum og frekari gögnum daginn fyrir fund, ef óskað væri, en að öðrum kosti liti nefndin svo á, að gagnaöflun væri lokið. Þetta fundarboð var sent þeim Sigurði Björgvinssyni, Bernhard Bogasyni og Helga Jenssyni.

Á fjórða og síðasta fund landskiptanefndar 21. febrúar 1998 mættu allir nefndarmenn. Enginn kom af hálfu aðila málsins og var bókað, að nefndin legði þá til grundvallar, að þeir teldu sig ekki hafa frekari gögn eða sjónarmið fram að færa. Jafnframt sagði, að oddamaður hefði margsinnis í samtölum við umboðsmenn aðila undanfarna tvo til þrjá mánuði ítrekað hvatt þá til að koma frekari sjónarmiðum á framfæri, ef einhver væru. Þá var bókað eftir oddamanni, að sams konar frávísunarkrafa og fram var komin frá eiganda Krossgerðis I hefði einnig verið sett fram munnlega af hálfu eiganda Krossgerðis II. Loks var skráð, að nefndin hafi gengið eftir því við embætti sýslumannsins á Eskifirði, hvort þar væri í þinglýsingar- eða landamerkjabókum að finna eitthvað um meint landamörk milli Krossgerðisbæjanna annars vegar og Kross og Krosshjáleigu hins vegar. Þær upplýsingar hefðu fengist, að ekkert slíkt væri þar að finna. Að svo búnu hafnaði landskiptanefndin frávísunarkröfu eigenda Krossgerðis I og II og samþykkti hina umdeildu landskiptagjörð, sem tekin er upp í héraðsdóm.

IV.

Aðalkrafa áfrýjenda lýtur að því, að lögfest skipti milli Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis I og II hins vegar hafi þegar farið fram og landamerki jarðanna liggi ljós fyrir. Því hafi ekki átt að taka jörðina Kross ásamt Krosshjáleigu inn í landskipti milli jarðanna Krossgerðis I og II og beri að dæma landskiptagerðina frá 21. febrúar 1998 ógilda af þeim sökum.

Í engu þeirra jarðamata, sem að framan voru rakin, var fjallað um landamerki jarða. Með landamerkjalögum nr. 5/1882 var sú skylda lögð á eiganda eða umráðamann hverrar jarðar að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar, eins og hann vissi þau réttust, og sýna eigendum aðliggjandi landa og fá áritað samþykki þeirra, en síðan skyldi merkjalýsingin afhent sýslumanni til þinglesturs á næsta manntalsþingi, sbr. 3. og 4. gr.  Samkvæmt 5. gr. skyldi sýslumaður á manntalsþingi grennslast eftir, hvort þessum skyldum hefði verið fullnægt. Sektir voru lagðar við því að vanrækja skyldur sínar í þessum efnum.

Fyrir liggur þinglesin landamerkjalýsing frá árinu 1884 milli jarðanna Kross, Krosshjáleigu og Krossgerðis annars vegar og hins vegar jarðanna Núps að austan og Fossgerðis og Steinaborgar að vestan eða innan við Krossá, sem þar ræður merkjum. Í þessari landamerkjalýsingu er ekki minnst á landamerki milli Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðisbæjanna hins vegar né mörk þessara jarða innbyrðis. Áfrýjendur hafa engar haldbærar skýringar getað fært fram fyrir því, hvers vegna landamerki þarna í milli hafi ekki verið skráð þá eða síðar og þeim þinglýst, hafi þau á annað borð verið ákveðin og þekkt.

Samkvæmt 1. tl. 1. gr. laga nr. 46/1941 getur komið til skipta eftir þeim, ef lögfest skipti hafa eigi áður farið fram. Til vitnis um slík skipti eru fyrst og fremst skráð merkjagerð samkvæmt eldri eða núgildandi landamerkjalögum og skiptagerð á grundvelli landskiptalaga. Sé því haldið fram, að skiptum hafi verið ráðið til lykta með öðrum hætti, svo sem samningum, verður að færa óyggjandi sönnur á slíka staðhæfingu. Í því efni nægir ekki að vísa til þess, að hjáleiga hafi verið metin sérstaklega á 19. öld, sbr. 2. gr. áðurnefndrar reglugjörðar Rentukammersins frá 1. september 1848, enda var þegar í landamerkjalögum 1882 gert ráð fyrir öruggri skipan á tilgreiningu landamerkja. Áfrýjendur hafa vissulega bent á ýmislegt, sem nánar er rakið í héraðsdómi og gefið getur til kynna, að svo hafi verið litið á, að löndum hafi að einhverju leyti verið skipt milli Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðisbæjanna hins vegar. Á það verður þó ekki fallist, að það sé nægilega sannað, að lögfest skipti hafi farið fram í lagaskilningi, enda liggur ekki annað fyrir en að hlutföllum um dýrleika jarðanna væri þá stórlega raskað frá jarðamatinu 1861, sem hér verður að hafa til hliðsjónar samkvæmt 2. gr. laga nr. 46/1941. Skiptagerðin milli Kross og Krosshjáleigu á árinu 1979 getur ekki haft þýðingu í þessu sambandi, en eigendur Krossgerðisbæjanna áttu ekki aðild að henni og verður ekki séð, að hún hafi verið undirrituð af þeim eða eiganda Kross. Aðalkrafa áfrýjenda nær því ekki fram að ganga.

V.

Varakröfu sína um ógildingu landskiptagerðarinnar 21. febrúar 1998 reisa áfrýjendur annars vegar á því, að þeir hafi ekki notið andmælaréttar, áður en sýslumaðurinn á Eskifirði varð hinn 18. júní 1997 við kröfu stefnda um að draga Kross og Krosshjáleigu undir landskiptin milli Krossgerðis I og II, og hins vegar hafi málsmeðferð landskiptanefndarinnar verið stórlega ábótavant í mörgum atriðum. Er ítarlega fjallað um þessi atriði í héraðsdómi.

Telja verður, að sýslumanni hafi borið að tilkynna áfrýjendum um kröfu stefnda og gefa þeim kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, áður en framangreind ákvörðun var tekin, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins er þó að gæta, að í 1. tl. 1. gr. laga nr. 46/1941 er mælt fyrir um rétt eiganda eða umráðamanns jarðar, jarðarparts eða landsnytja til að krefjast skipta samkvæmt lögunum, ef lögfest skipti hafa eigi áður farið fram, en um það eru aðilar ekki á eitt sáttir. Málið lá þannig fyrir sýslumanni, að ekki varð annað ráðið af þinglesinni landamerkjalýsingu frá 1884 en að jarðirnar væru í óskiptri sameign. Jafnframt verður til þess að líta, að áfrýjendum gafst þegar kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við landskiptanefnd, sem var bær um að ráða þessu álitaefni til lykta með úrlausn, sem bera mátti undir dómstóla, eins og nú er gert. Hafa áfrýjendur ekki orðið fyrir réttarspjöllum af þessum sökum og leiðir málsmeðferð sýslumanns því ekki til ógildingar á landskiptagerðinni.

Ekki verður áfrýjanda Ingólfi samsinnt um það, að landskiptanefndin hafi ekki mátt líta svo á, að Bernhard Bogason hdl. hefði umboð til að koma fram fyrir hans hönd, þótt synir hans hefðu umboð til hins sama, enda hefði þá með skýrum hætti þurft að afturkalla stöðuumboð lögmannsins, sem mætt hafði á fund landskiptanefndar og skrifað bréf og lögfræðilegar álitsgerðir fyrir hann. Fundarboð 18. febrúar 1998 var því réttilega sent til hans vegna Krossgerðis I. Í bréfinu var tekið fram, að á boðuðum fundi 21. sama mánaðar myndi nefndin taka ákvarðanir um framhald málsins, en á fundinum var landskiptunum þó lokið. Miðað við orðalag fundarboðsins hefði verið réttara að boða til nýs fundar með því fundarefni, að gengið yrði frá landskiptagerð. Hins vegar var í fundarboðinu skýrlega tekið fram, að gagnaöflun teldist lokið, ef aðilar kæmu engu frekar á framfæri við nefndina eigi síðar en að morgni næsta dags á undan fundinum. Kemur þessi háttur við fundarboðun og lok skipta því ekki að sök, enda höfðu landeigendum gefist næg tækifæri til að kynna sjónarmið sín til hlítar. Með þessum athugasemdum og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður fallist á það, að málsmeðferð landskiptanefndar eigi ekki að valda ógildingu á hinni umdeildu landskiptagerð.

VI.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum áfrýjenda. Ákvæði hérðaðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt þykir, að málskostnaður falli einnig niður fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað mælir í dómsorði.

Héraðsdómari vísaði kröfu stefnda um tiltekin landamerki milli Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis I og II hins vegar frá dómi vegna vanreifunar en gat þess þó ekki í dómsorði. Stefndi höfðaði ekki gagnsök í héraði til þess að koma þessum kröfum sínum að, svo sem nauðsyn bar til samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Héraðsdómari hefði því átt að vísa kröfu hans frá dómi þegar af þeirri ástæðu, en þessi krafa er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun beggja lögmanna, 300.000 krónur til hvors um sig.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 12. febrúar 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag að loknum munnlegum málflutningi, hafa Ingólfur Árnason, kt. 190616-4369, Hrafnistu við Kleppsveg, Reykjavík, og Rósa Gísladóttir, kt. 130319, Vesturgötu 17, Reykjavík, höfðað fyrir Héraðsdómi Austurlands með stefnu útgefinni 10. maí 2000 gegn Högna Albertssyni, kt. 040928-3249, Krossi, Djúpavogshreppi, og var málið þingfest á Egilsstöðum hinn 16. maí 2000.

Dómkröfur stefnenda eru, aðallega, að viðurkennt verði með dómi að lögfest skipti hafi farið fram milli jarðanna Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis I og II hins vegar og að landamerki milli jarðanna séu við Gvendarhól frá sjó og þaðan sjónhending í Krosshjáleigukamb í austanverðu hjáleigugili og að landskiptagerð dags. 21. febrúar 1998 um jarðirnar Krossgerði, Kross og Krosshjáleigu í Djúpavogshreppi verði jafnframt dæmd ógild.

Til vara krefst stefnandi þess, að stefnda verði dæmt að þola að landskiptagerð dags. 21. febrúar 1998 um jarðirnar Krossgerði, Kross og Krosshjáleigu í Djúpavogshreppi verði dæmd ógild.

Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað ásamt virðisaukaskatti í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, án tillits til þess, að málið er gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Krossgerðis I og II annars vegar og Kross og Krosshjáleigu hins vegar séu með svofelldum hætti: Dregin er lína frá gamla þjóðvegi og niður í sjó. Efst liggur línan í svokölluðum Leitislæk, en heldur síðan áfram við rætur klettabeltis sem er innan við þann læk, að sjó. Kross og Krosshjáleiga eiga það land sem verður innan (vestan) við línuna og að Krossá. Dregin er lína frá innanverðum Gvendarhól við sjó, þaðan beint upp í Hjáleigugil. Kross og Krosshjáleiga eiga landið utan (austan) við línuna og að landamerkjum við Núp. Krossgerði I og II eiga landið á milli ofangreindra lína. Að ofan (norðan) er dregin lína við brekkurætur, eftir gamla þjóðveginum að mestu, nema yst eftir nýja þjóðveginum á þeim kafla þar sem hann liggur ofar í landinu en gamli þjóðvegurinn. Landið ofan þessarar línu er óskipt. Að sunnan ræður sjór.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum ásamt virðisaukaskatti að mati dómsins eða í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, án tillits til þess að málið er gjafsóknarmál. 

Málavextir:

 Stefnendur eru eigendur jarðanna Krossgerðis I og Krossgerðis II í Djúpavogshreppi. Jarðirnar eru í óskiptri sameign. Stefndi er eigandi Kross og Krosshjáleigu.

Með skiptagjörð frá 22. september 1979 var landi handa Krosshjáleigu, þá í Beruneshreppi, skipt úr sameiginlegu landi Kross og Krosshjáleigu. Í skiptagjörð segir m.a: „Hóf nefndin störf með því að kynna sér landið sem skipta átti, bæði af korti og með því að fara um það. Var síðan haft tal af Högna Albertssyni Krossi, sem Albert Bergsveinsson, eigandi Kross tilnefndi sem sinn umboðsmann, og Ingólfi Árnasyni, Krossgerði, sem tilnefndur hafði verið sem umboðsmaður dánarbús Þorvarðar Sigurðssonar, sem er eigandi Krosshjáleigu. Bar þeim Högna og Ingólfi saman um að landamerki sem afmörkuðu land það, sem skipta átti, væru ágreiningslaus og höfðu hvorugur sérstakar óskir um það, hvernig skiptum skyldi hagað.“

Hinn 23. júní 1884 var þinglýst á Djúpavogarmanntalsþingi, landamerkjalýsingu Kross, Krosshjáleigu og Krossgerðis í Beruneshreppi, annars vegar og Núps í Beruneshreppi hins vegar, og síðan landamerkjum milli Kross, Krosshjáleigu og Krossgerðis að innan og Fossgerðis og Steinaborgar, „hin svokallaða „Krossá“ frá upptökum alla leið í sjó niður...“

Ekki hafa verið lögð fram nein gögn um formlega eða skriflega og staðfesta ákvörðun um mörk jarðanna gagnvart öðrum jörðum eða á milli jarðanna Kross, Krosshjáleigu, Krossgerðis I og Krossgerðis II innbyrðis.

Lagðar hafa verið fram yfirlýsingar þeirra Gunnars Einarssonar, Aðalsteins Gíslasonar og Sigurðar Þorleifssonar, þar sem fram kemur samhljóða: „...lýsi hér með þeim landamerkjum, sem mér hefur alltaf verið kunnugt um á milli jarðanna Kross og Krossgerðis, en þau eru: Neðan frá sjó innst á Gvendarhóli og þaðan í sjónlínu beint í svonefnt Hjáleigugil.“

Með bréfi dagsettu 23. ágúst 1996 til sýslumannsins á Eskifirði, óskaði Rósa Gísladóttir, annar stefnenda máls þessa, eftir skiptum jarðarinnar Krossgerðis.

Í framhaldi af því skipaði sýslumaður Gísla Auðbergsson, hdl. til að vera oddamaður í landskiptanefnd ásamt tveimur úttektarmönnum í Djúpavogshreppi og vísar sýslumaður í skipunarbréfinu til 4. gr. laga nr. 46, 1941.

Landskiptanefndin hafði hafið störf og m.a. fengið greinargerðir frá báðum eigendum, Krossgerðis, stefnendum máls þessa, þegar krafa kom fram um það frá eiganda jarðarinnar Kross, Högna Albertssyni, stefnda í máli þessu, að jörðin Kross verði jafnhliða tekin inn í þau skipti, með þeim rökum, að nauðsyn sé á að skipti jarðanna fari fram samtímis, en þær séu í óskiptri sameign.

Var Gísli M. Auðbergsson hdl. enn skipaður til að vera oddamaður og formaður landskiptanefndar til þess að annast þessi skipti.

Haldnir voru þrír bókaðir fundir í landskiptanefndinni. Allir landeigendur skiluðu greinargerðum til nefndarinnar og kröfðust eigendur Krossgerðis I og II, stefnendur máls þessa, frávísun kröfu eiganda Kross og Krosshjáleigu, stefnda í máli þessu, um að þær jarðir kæmu undir skiptin.

Hinn 21. febrúar 1998 lauk landskiptanefnd störfum og skilaði landskiptagerð. Er í landskiptagerðinni ítarlega rakinn gangur málsins fyrir nefndinni. Þá eru rakin sjónarmið landeigenda um það, hvernig skipta beri landinu. Áliti landskiptanefndarinnar lýkur með niðurstöðu á þessa leið:

„Frávísunarkröfu eigenda Krossgerðis I og II á því að Kross og Krosshjáleiga komi undir skiptin, er hafnað.

Í hlut Kross og Krosshjáleigu kemur svæðið milli Krossár og línu A og svæðið utan við línuna C.

Í hlut Krossgerðis I kemur svæðið milli línanna A og B.

Í hlut Krossgerðis II kemur svæðið milli línanna B og C.

Landsvæði það sem er ofan við línu merkta D er óskipt sameign allra jarðanna.

Heimkeyrsla heim að bæjunum Krossgerði I og II er sameiginleg.

Jarðirnar Krossgerði I og Krossgerði II hafa heimild til að taka neysluvatn úr landi hvor annarar og leggja leiðslur í því skyni, þó þannig að valdi sem minnstri röskun.

Kostnaður af skiptum þessum skiptist þannig að Kross/Krosshjáleiga greiði 5/7 hluta, Krossgerði I greiði 1/7 hluta og Krossgerði II greiði 1/7 hluta.

Lagt er fyrir landeigendur að setja upp merki fyrir skiptunum.“ 

Málsástæður stefnenda:

Aðalkröfu sína byggja stefnendur á því, að lögfest landskipti milli jarðanna Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis I og II hins vegar, sbr. 1. tl. 1. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 hafi löngu farið fram og að milli jarðanna séu gild landamerki við Gvendarhól frá sjó og þaðan sjónhending í Krosshjáleigukamb í austanverðu Hjáleigugili. Eigendur Kross/Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis hins vegar hafi svo lengi sem elstu menn muna talið að lögfest landskipti hefðu farið fram og að milli jarðanna væru ágreiningslaus landamerki.

Þessu til staðfestingar megi benda á fjölmörg atriði. Í fyrsta lagi hafi eigendur jarðanna girt landið og haldið við merkjum frá því að þessi skipti komust á. Á landamerkjum jarðanna séu óumdeild landamerki, en ekki eingöngu fjárgirðing eins og stefndi hafi haldið fram, eins og 15. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 geri ráð fyrir að útbúin séu, sbr. einnig ákvæði 1. gr. laga nr. 41/1919.

Í öðru lagi hafi nýting hlunninda í landi Kross/Krosshjáleigu og Krossgerðis farið fram án athugasemda af hálfu eigenda hins og án þess að þeir hafi gert tilkall til tekna af þeim hlunnindum. Báðum aðilum hafi verið kunnugt um þessa nýtingu. Sem dæmi megi nefna að árið 1978 hafi vegur verið endurlagður um land beggja jarðanna. Vegagerð ríkisins hafi greitt landeigendum bætur samkvæmt almennum reglum og greitt stefnda aðgreinda greiðslu vegna bóta fyrir veg í Krosslandi og Krosshjáleigu annars vegar og hins vegar til stefnenda vegna bóta fyrir veg í Krossgerðislandi. Sömuleiðis hafi verið gert eignarnám í landi Krossgerðis árið 1993 vegna vegagerðar. Eigendur Kross hafi engum andmælum hreyft við þetta eignarnám.

Í þriðja lagi séu margar ritaðar heimildir til um þessi landamerki og eigendur jarðanna um áratuga skeið talið að þau giltu. Aðalheimildarmaður upplýsinga sem nokkrar þeirra byggja á varðandi landamerkin sé stefndi Högni Albertsson, sbr. samantektir Örnefnastofnunar. Öllum beri saman um að landamerkin séu þau, sem krafist er í stefnu þessari að dæmt verði að gildi á milli jarðanna.

Í fjórða lagi megi benda á að er stefndi hafi  þinglýst afsali vegna kaupa sinna á Krosshjáleigu dags. 1. ágúst 1997, þar sem fullyrt er, að Krosshjáleiga væri 3/21 af óskiptu landi jarðanna Kross og Krossgerðis I og II, hafi afsalinu verið þinglýst með eftirfarandi athugasemd: „Ath. Af þinglýsingarbókum verður ekkert ráðið um það að hið selda sé hluti af óskiptu landi jarðanna Kross og Krossgerðis I og II.“ Athugasemdin styðji þá fullyrðingu stefnenda, að lögfest skipti milli Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis I og II hins vegar, hafi farið fram.

Í fimmta lagi megi benda á landskipti milli Kross og Krosshjáleigu árið 1979. Hinn 22. september 1979 hafi komið saman landskiptanefnd til þess að skipta út landi handa Krosshjáleigu í Beruneshreppi úr sameiginlegu landi Kross og Krosshjáleigu. Væru jarðirnar fjórar í óskiptri sameign eins og haldið hefur verið fram af hálfu stefnda, hefði ekki verið hægt að skipta landi Krosshjáleigu og Kross milli þessara tveggja jarða, eins og gert var. Í skiptagerðinni komi ekkert fram um það, að Kross, Krosshjáleiga og Krossgerði I og II séu í óskiptri sameign. Þvert á móti komi fram í skiptagjörðinni að nefndin hafi hafið störf á því að kynna sér landið sem skipta átti, bæði af korti og með því að fara um það. Síðan hafi nefndin haft tal af Högna Albertssyni, Krossi, stefnda í máli þessu, sem eigandi Kross hafi tilnefnt sem umboðsmann sinn og Ingólf Árnason, annan stefnenda í máli þessu, sem umboðsmann dánarbús eiganda Krosshjáleigu. Högna og Ingólfi hafi borið saman um að landamerki, sem afmörkuðu land það, sem skipta átti, væru ágreiningslaus. Landskiptagerðin frá 1979 hafi byggt á þessu, enda hefði hún ella ekki getað farið fram samkvæmt 9. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Af hálfu stefnda sé því haldið fram, að við þessi skipti hafi landamerki ekki verið könnuð. Sú fullyrðing standist ekki eins og gögn málsins beri með sér.

Því er borið við af hálfu stefnda, að landskiptagerðin frá 1979 hafi ekki verið staðfest af eigendum Kross og Krosshjáleigu og hafi því ekkert gildi. Landskiptagerðinni hafi verið þinglýst, eins og 14. gr. laganna bjóði. Ef eigandi sé óánægður með landskipti skuli hann krefjast yfirmats innan sex mánaða frá þeim degi, er skiptin fóru fram. Það hafi ekki verið gert.

Landskiptagerðin frá 1979 staðfesti fullyrðingu stefnenda um það að lögfest skipti hafi farið fram milli jarðanna Kross/Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis hins vegar og að landamerki milli þessara jarða hafi verið ágreiningslaus.

Stefnendur telji, að öll háttsemi málsaðila síðustu áratugi hafi verið í samræmi við það, að lögfest skipti hafi farið fram og að landamerki séu þau, sem krafist er í aðalkröfu stefnenda. Í gögnum málsins komi fram að við alla hlunnindanýtingu jarðanna hafi verið miðað við þessi skipti, ágreiningslaust og í fullu samkomulagi, enda við það miðað að mati stefnenda, að milli jarðanna Krossgerðis og Kross/Krosshjáleigu séu óumdeild landamerki, og jarðirnar fjórar væru því ekki í óskiptri sameign eins og stefndi hefur nú haldið fram.

Stefnendur krefjist þess því aðallega að dæmt verði að landamerki jarðanna Kross/Krosshjáleigu og Krossgerðis séu við Gvendarhól frá sjó og þaðan sjónhending í Krosshjáleigukamb í austanverðu Hjáleigugili og að landskiptagerðin verði með því ógilt, þar sem lagaskilyrði samkvæmt landskiptalögum nr. 46/1941 hafi ekki verið fyrir framkvæmd hennar, þar sem landskipti milli Kross/Krosshjáleigu hafi þegar farið fram.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnenda sé þess krafist til vara, að landskiptagerð dags. 21. febrúar 1998 um jarðirnar Krossgerði, Kross og Krosshjáleigu verði dæmd ógild, þar sem landskiptanefnd hafi virt að vettugi meginreglur stjórnsýslulaga um málsmeðferð.

Fram hefur komið, að áður en fyrsti fundur landskiptanefndarinnar var haldinn, hefði nefndin unnið ötullega að meðferð málsins, án þess að það væri gert með þeim hætti, sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 gera ráð fyrir. Hafi málsmeðferð landskiptanefndarinnar verið ábótavant í fjölmörgum atriðum. 

Stefnendur telja það meginreglu stjórnsýsluréttar, að stjórnsýslunefndir séu aðeins starfhæfar á fundum. Í 33. gr. stjórnsýslulaga komi fram, að tilkynni nefndarmaður forföll, skuli formaður boða varamann til fundarsetu. Landskiptanefndin hafi haldið fjóra formlega fundi, þar sem fundargerðir voru skráðar. Á þremur þeirra vantaði einn af þremur nefndarmönnum. Fyrir þessa fundi lá fyrir að nefndarmaður yrði forfallaður. Þrátt fyrir það var varamaður ekki boðaður í hans stað heldur þess getið, að nefndarmaðurinn væri í kallfæri gegnum síma ef á þyrfti að halda.

Fyrir liggi, að landskiptanefndin starfaði í liðlega 10 mánuði áður en fyrsti fundur hennar var haldinn. Á þessum tíma hafi nefndin skrifað bréf þar sem vísað hafi verið til ákvarðana sem hún hafi tekið og jafnvel funda, sem engar fundargerðir eru til um. Nefndin hafi tekið stefnumarkandi ákvarðanir varðandi málið á þessum tíma, þar á meðal hafi hún neitað að taka gilda afturköllun á samþykki sveitarfélags fyrir landskiptum. Þrátt fyrir afturköllun samþykkis hafi nefndin, án þess að funda formlega, haldið áfram málsmeðferðinni. Slík málsmeðferð sé lögleysa og beri því að ógilda landskiptagerðina þegar af þeirri ástæðu.  

Er fyrsti fundur í nefndinni var haldinn, höfðu stefnendur skilað greinargerðum vegna skipta milli Krossgerðisjarðanna. Á fundinum hafi komið fram, að stefndi hafði komið fram með kröfu um að draga undir skiptin Kross/Krosshjáleigu, þar sem jarðirnar fjórar væru í óskiptri sameign. Stefnendur hafi  krafist frávísunar kröfunnar og skilað greinargerðum um þá frávísunarkröfu. Í stað þess að taka frávísunarkröfuna fyrir sérstaklega og halda síðan málsmeðferðinni áfram og gefa stefnendum kost á að tjá sig um afstöðu til landskiptanna vegna jarðanna fjögurra, hafi frávísunarkröfunni verið hafnað á fundinum 21. febrúar 1998 og landskiptin framkvæmd strax á eftir. Eingöngu stefndi hafi tjáð sig gagnvart landskiptanefndinni um það, hvernig skyldi skipta landi jarðanna fjögurra. Stefnendum hafi aldrei verið gefinn kostur á að tjá sig um það atriði. Andmælaréttur hafi því verið brotinn á stefnendum varðandi afstöðu þeirra til skipta landsins. Sé þetta slíkur annmarki á málsmeðferð, að ógildingu varði.

Landskiptanefndin hafi í engu virt ákvæði 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga. Legið hafi ljóst fyrir að verulegur ágreiningur hafi verið milli Krossgerðis annars vegar og Kross/Krosshjáleigu hins vegar um eignarhlutföll. Þegar svo hátti til segi landskiptalög að úr ágreiningi verði ekki skorið nema með dómi.

Stefnendur telji, að landskiptanefndin hafi brotið 4. gr. landskiptalaga, þegar hún hafi ákveðið að kalla Flosa Ingólfsson til starfa í nefndinni. Í gögnum málsins komi fram, að sýslumaður hafi í bréfi sínu ákveðið, að nefndarmenn væru valdir úr hópi úttektarmanna, sem nefndir séu í bréfi hans. Nefndir hafi verið Magnús Hreinsson, Dagbjartur Harðarson, Unndór Snæbjörnsson og Ragnar Eiðsson. Ætla verði, að nefndarmenn og varamenn þeirra skuli koma úr þessum hópi. Þegar Dagbjartur Harðarson óskaði eftir því að ganga úr nefndinni hafi verið lögleysa að taka inn í nefndina án atbeina sýslumanns, mann sem ekki var í hópi tilnefndra varamanna. Með þessu hafi landskiptanefndin brotið 4. gr. landskiptalaga með þeim hætti að landskiptagerðin verði ógildanleg.

Samantekt í málavaxtalýsingu sýni, að reglur um fundarboðun hafi ítrekað verið brotnar. Samkvæmt 33. gr. stjórnsýslulaga skuli boða til fundar með hæfilegum fyrirvara. Málsaðilar hafi verið boðaðir á síðasta fund landskiptanefndar með tveggja sólarhringa fyrirvara og í fundarboði hafi þess að engu verið getið að um síðasta fund nefndarinnar væri að ræða. Tveggja sólarhringa fyrirvari um hávetur þegar nokkrir þeirra, sem boðaðir voru til fundar hafi þurft að fara á milli landshluta, geti ekki talist hæfilegur fyrirvari. Slíkur annmarki í málsmeðferð teljist verulegur þannig að ógildingu varði.

Fundargerðir landskiptanefndar beri með sér að öll umsýsla nefndarinnar með skjöl málsins hafi verið óvönduð. Skjöl beri ekki þau númer sem fullyrt sé í fundargerð. Nokkur skjöl hafi tvö númer og önnur vanti og hafi ekki enn komið í leitirnar. Þá liggur fyrir að nokkuð hafi vantað upp á að málsaðilum hafi verið send gögn málsins jafnóðum.

Byggt sé á því, að landskiptagerðin sé í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 þar sem kveðið sé á um að staðbundin skipti megi ekki gera í námaréttindum. Samkvæmt skiptingu landskiptanefndar falli malarnám að öllu leyti til Kross. Með þeim skiptum sé verulega hallað á eigendur Krossgerðis án þess að þeir hafi samþykkt það. Þetta fyrirkomulag landskiptanna brjóti í bága við áðurnefnt ákvæði og geri landskiptagerðina ógildanlega sé þess krafist eins og gert sé með málshöfðun þessari.

Byggt er á því að staðfesting landbúnaðarráðuneytisins á landskiptagerðinni sé brot á viðurkenndum reglum stjórnsýsluréttar. Í rökstuðningi ráðuneytisins sé því haldið fram, að það sé ekki bært til að endurskoða málsmeðferð landskiptanefndarinnar. Almennt sé á því byggt, að lagaákvæði, sem mæli fyrir um samþykki eða staðfestingu stjórnvalds á ákvörðunum annars aðila, feli í sér skyldu viðkomandi stjórnvalds til endurskoðunar eða eftirlits með lögmæti hlutaðeigandi gernings. Endurskoðun á lögmæti feli í sér bæði endurskoðun á málsmeðferð sem og efnisinnihaldi. Rökstuðningur ráðuneytisins standist því ekki viðurkenndar reglur í stjórnsýslurétti um hlutverk æðra setts stjórnvalds í tilvikum af þessu tagi.

Stefnendur telja, að á málsmeðferð landskiptanefndar hafi verið svo alvarlegir annmarkar að skylt sé að ógilda hana og krefjast þess að svo verði gert með dómi úr því að lögbært stjórnvald, sem hefði átt að neita um staðfestinguna, hefur talið sér óheimilt að endurskoða málsmeðferðina.

Verði ekki fallist á varakröfu stefnenda er til þrautavara krafist að landskiptagerðin frá 21. febrúar 1998 verði ógilt, þar sem sýslumaðurinn á Eskifirði hafi brotið andmælareglu stjórnsýslulaga með þeim afleiðingum að ákvörðun hans um að draga jarðirnar Kross og Krosshjáleigu undir landskiptin að kröfu stefnda.

Viðurkennt sé í gögnum málsins að sýslumaður hafi ekki gefið stefnendum kost á að tjá sig um kröfu stefnda um að gerast aðili að landskiptum Krossgerðis. Viðurkennt hafi verið af hálfu dómsmálaráðuneytis að andmælaréttur hafi með því verið brotinn. Stefnendur telji að úrskurður dómsmálaráðuneytisins frá 21. desember 1998 standist ekki því að í honum hafi falist viðurkenning á því, að sýslumaður hafi brotið andmælarétt á stefnendum. Í úrskurðinum sé að því fundið að sýslumaður skyldi ekki gæta andmælaréttar en þrátt fyrir það komist ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sýslumanns skuli standa. Þessi niðurstaða stenst ekki miðað við meginreglur stjórnsýslulaga. Stefnendur krefjist þess því að landskiptagerðin verði ógilt vegna þessa annmarka á málsmeðferðinni.

Krafa um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Um kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað vísist til laga nr. 50/1988, en stefnendur reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.

Málsástæður stefnda:

Stefndi styður kröfu sína við landskiptagerðina frá 21. febrúar 1998. Þar hafi landamerki verið ákveðin með þeim hætti, sem dómkrafa stefnda gerir ráð fyrir. Stefndi hafni kröfu stefnenda um að viðurkennd verði einhver önnur landamerki, enda sé sú krafa ekki studd neinum viðhlítandi gögnum og algerlega ósönnuð.

Málsástæða stefnenda um, að lögfest landskipti milli jarðanna Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis I og II hins vegar hafi löngu farið fram, sé röng og ósönn að mati stefnda, enda geti stefnendur ekki bent á, hvenær umrædd lögskipti hafi farið fram. Gera verði strangar formkröfur í tengslum við skiptingu á óskiptri sameign milli sameigenda, enda um að ræða réttindi, sem þinglýsa þarf til að þau njóti verndar gagnvart þriðja manni. Þar sem um óskipta eign hafi verið að ræða í eigu margra aðila, sem hver um sig rak sitt eigið fjárbú, hafi verið mjög eðlilegt og reyndar nauðsynlegt að eigendur afmörkuðu sér landsvæði með fjárgirðingu. Því fari hins vegar fjarri að fjárgirðingarnar hafi skapað beinan eignarrétt, enda settar upp í sumum tilvikum án samráðs við aðra eigendur. Hafi nýting hlunninda verið með þeim hætti að hallað hafi á stefnda, sé það óskylt mál. Það væri í hæsta máta óeðlilegt og ósanngjarnt að yfirgangur eins aðila í tengslum við nýtingu eignar gæti leitt til þess að hann ávinni sér beinan eignarrétt að henni.

Í Jarðabók frá 1861 sé að finna skráningu á lögbýlinu Krossi, ásamt  hjáleigunum Krosshjáleigu og Krossgerði. Þar komi skýrt fram, að um eina óskipta eign sé að ræða. Í landamerkjabók Suður-Múlasýslu, dags. 23. júní 1884, komi fram, að allt land frá Núpi að utan og að Krossá að innan, hafi verið í óskiptri sameign. Þar sé verið að skýra landamerki Kross, Krossgerðis og Krosshjáleigu gagnvart aðliggjandi jörðum. Ekkert sé fjallað þar um innbyrðis skiptingu Kross, Krossgerðis og Krosshjáleigu. Engin skipti hafi farið fram á landi Kross, Krossgerðis og Krosshjáleigu, ef frá sé talin afmörkun á hluta Krosshjáleigu í Krosslandi árið 1979, fyrr en með landskiptagerð 21. febrúar 1998. Stefndi telji, að landskiptagjörðin frá 1979 hafi verið byggð á misskilningi matsbeiðanda og hugsanlega sýslumannsins, sem skipaði matsnefndina. Þannig sé óumdeilt að matsnefndin hafi ekki kannað landamerki Kross og Krosshjáleigu og hvort ágreiningur væri um þau. Þá breyti skráning hjá Fasteignamati ríkisins engu, enda hafi eigninni þar verið skipt upp í 6 hluta, þ.e. Krossbæina þrjá, Krossgerði I og II og Krosshjáleigu.

Stefndi hafni varakröfu stefnenda um að landskiptagjörðin sé ólögmæt vegna brota á stjórnsýslureglum og ákvæðum jarðalaga og landskiptalaga. Vinnubrögð nefndarinnar og sýslumannsins á Eskifirði hafi verið lögmæt og engir slíkir gallar á þeim að varði ógildingu ákvörðunar þeirra.

Þá byggi stefndi kröfu sína á því, að sú tillaga, sem lögð er fram í landskiptagerðini, sé eðlileg og sanngjörn skipting á hinni óskiptu eign. Umboðsmaður stefnda á stjórnsýslustigi hafi lagt fram tvær tillögur að skiptum byggðar á útreikningi Sveins Þórarinssonar, verkfræðings, og skiptum í hlutföllunum 15/21 og 6/21. Sú tillaga, sem landskiptanefndin hafi fallist á, og er dómkrafa stefnda í máli þessu, gangi skemmra gagnvart eigendum Krossgerðis I og II að því leyti, að þeir fái land að sjó og land stefnda sé ekki samfellt, þrátt fyrir að slíkt skuli vera meginreglan skv. landskiptalögum nr. 46/1941. Fari svo, að dómari telji að landskiptanefndinni hafi, með vísan til 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, ekki verið heimilt að skipta landinu vegna ágreinings um eignarhlutföll, þá sé sett fram sú krafa, að dómari skeri úr þeim ágreiningi í máli þessu og skipti landinu með þeim hætti sem lýst er í dómkröfu stefnda. Um sé að ræða sömu niðurstöðu og landskiptanefnd hafi komist að, að því undanskyldu, að ekki sé gerð krafa um að Krossgerði I og II verði skipt upp, heldur við það miðað að þeir eignarhlutar verði áfram í óskiptri sameign.

Forsendur:

Aðalkrafa stefnenda er sú, að viðurkennt verði með dómi, að lögfest skipti hafi farið fram milli jarðanna Kross og Krosshjáleigu. Í 2. gr. landskiptalaga er það sett sem eitt af skilyrðum þess, að landskipti geti farið fram, að lögfest skipti hafi ekki farið fram. Ekki kemur beinlínis fram í lögunum, hvað séu lögfest skipti. Ljóst mun vera, að skipti eins og þeim er lýst í landskiptalögum geta talist lögfest skipti. Þá virðist nokkuð ljóst, að skipti munu geta talist lögfest, ef landi er skipt með þeim hætti, sem lýst er í 1. og 2. gr. laga um landamerki o.fl. nr. 41/1919, en þar segir, að að lokinni gerð merkjaskrár skuli hún afhent hreppstjóra ásamt þinglýsingar- og stimpilgjaldi, en hann skuli þegar í stað senda sýslumanni skrána til  þinglýsingar. Í 14. gr. laga nr. 46/1941 segir, að skiptagerðir eftir lögunum skuli rita í bók er sýslumaður löggildir, og að skiptagerðum eftir lögunum skuli þinglýsa.

Virðist mega ganga út frá, að lögfest skipti séu þannig skráð merkjagerð í  samkomulagi þeirra, sem land eiga, eða merkjagerð úttektarmanna samkvæmt 1. og 2. gr. laga nr. 41/1919 eða landskiptagerð samkvæmt lögum nr. 46/1941, enda hafi þessum gerðum verið þinglýst.

Stefnendur hafa ekki lagt fram nein gögn um, að fram hafi farið lögfest skipti þeirra jarða, sem mál þetta snýst um, enda er þá hafnað þeim möguleika, að lögfest skipti hafi getað átt sér stað á löngum tíma með því að mörk hafi myndast, hvort heldur er með girðingum, öðrum sýnilegum einkennum svo sem skurðum eða öðrum einkennum í landslagi, eða hugmyndum þeirra, sem á jörðunum bjuggu, um mörk, sem þeir töldu vera á milli jarðanna.

Í skiptagerð frá 1979 kemur fram, að umboðsmenn þeirra jarðeigenda, sem aðild áttu að skiptunum, hafi sagt, að ekki væri ágreiningur um mörk jarðanna. Í skiptagerð kemur ekki fram, að kannað hafi verið hvaða mörk jarðanna það voru, sem ekki var ágreiningur um. Í þessu sambandi breytir það engu, að  þessir umboðsmenn eru nú aðilar að þessu máli sem landeigendur.

Ber af þessum ástæðum að hafna þeirri aðalkröfu stefnenda, að viðurkennt verði að lögskipti hafi farið fram milli jarðanna, með þeim mörkum, sem fram koma í aðalkröfu, og þá jafnframt, að hafna kröfu um að landskiptagerð dagsett 21. febrúar 1998 verði ógilt af þeim sökum.

Til vara hafa stefnendur gert þá kröfu, að stefnda verði gert að þola að landskiptagerð dags. 21. febrúar 1998 um jarðirnar Krossgerði, Kross og Krosshjáleigu í Djúpavogshreppi verði dæmd ógild.

 Krafa stefnenda um ógildingu byggist á þeirri málsástæðu, að sýslumaðurinn á Eskifirði hafi ekki gætt réttra aðferða við skipun landskiptanefndar, þegar hann lagði fyrir nefndina að taka inn í  skiptin allar jarðirnar, Kross, Krosshjáleigu og Krossgerði I og II. Var ákvörðun sýslumanns kærð stjórnsýslukæru til dómsmálaráðuneytisins af þessum sökum og gerð sú krafa, að skipun sýslumanns á oddamanni í landskiptanefnd, sem felur í sér að starfssvið landskiptanefndar Krossgerðis I og II taki einnig til skipta á jörðunum Krossi og Krosshjáleigu, verði ógilt. Kæran var studd þeim rökum, að sýslumaður hafi ekki gætt andmælaréttar eigenda jarðanna Krossgerðis I og II áður en hann tók ákvörðun um að víkka út starfssvið landskiptanefndarinnar.

Eins og fram kemur í landskiptalögum, 1. mgr. 4. gr., skal sýslumaður kveðja oddamann til skiptagerða, og á hann ekkert val um þá gerð. Andmælaréttur við því, að öllum jörðunum yrði skipt í einni gerð, var hjá landskiptanefndinni. Að öðru leyti er fallist á úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 21. desember 1998. Er hafnað kröfu um ógildingu landskiptagerðarinnar af þessari ástæðu.

Stefnendur hafa einnig byggt kröfur sínar um ógildingu landskiptagerðarinnar frá 21. febrúar 1998 á því, að málsmeðferð landskiptanefndarinnar hafi verið ábótavant í fjölmörgum atriðum. Verða nú rakin þau atriði eins og þau koma fram í stefnu og tekin afstaða til þeirra hvers fyrir sig.

Stefnendur telja, að landskiptanefnd sé fjölskipuð stjórnsýslunefnd og gildi um störf hennar ákvæði stjórnsýslulaga. Jafnframt telja stefnendur eina af meginreglum stjórnsýsluréttar, að stjórnsýslunefndir séu almennt aðeins starfhæfar á fundum. Þá eru gerðar athugasemdir um boðun til funda nefndarinnar og um skipun varamanna.

Skilja verður þá óskráðu reglu að stjórnvaldsnefndir séu almennt aðeins starfhæfar á fundum þannig, að nefnd geti ekki tekið ákvarðanir sameiginlega eða lokið þeirra stjórnvaldsákvörðun, sem henni hefur verið falin, nema á fundi. Hins vegar geti ýmis önnur verk, sem tengist starfi nefndarinnar, svo sem bréfaskriftir, átt sér stað utan fundar. Þá er ekki í stjórnsýslulögum að finna neina reglu um það, hvernig fundir skulu haldnir, en í 34. gr. segir, að stjórnsýslunefnd sé ályktunarhæf þegar meirihluti nefndarmanna situr fund. Hefur ekki verið sýnt fram á, að starf nefndarinar á fundum eða utan funda, hafi verið með þeim hætti, að varðað geti ógildingu landskiptagerðarinnar.

Stefnendur hafa lagt áherslu á, að seta Flosa Ingólfssonar í nefndinni hafi verið þannig til komin, að geti leitt til ógildingar landskiptagerðarinnar. Samkvæmt  4. gr. landskiptalaga skulu úttektarmenn vera matsmenn og gera skiptin hver í sínu umdæmi. Flosi Ingólfsson var á fundi sveitarstjórnar Djúpavogshrepps 6. nóvember 1997, kosinn úttektarmaður til vara í stað Dagbjarts Harðarsonar, sem jafnframt var upplýst að væri fluttur af staðnum. Í bréfi Gísla M. Auðbergssonar, oddamanns landskiptanefndar dagsettu 17. nóvember 1997, til aðila skiptamálsins, er gerð grein fyrir mannabreytingum í nefndinni og að Flosi Ingólfsson taki sæti Dagbjarts Harðarsonar. Voru aðilar beðnir um að gera athugasemdir eigi síðar en 21. sama mánaðar, ef þeir hefðu eitthvað við þessa málsferð að athuga. Engar slíkar athugasemdir er að finna í málinu. Að þessu athuguðu verður ekki séð, að neitt sé athugavert við setu Flosa Ingólfssonar í landskiptanefndinni og þá ekki að hún geti haft áhrif á gildi landskiptagerðarinnar.

Stefnendur hafa haldið því fram, að andmælaréttur hafi verið á þeim brotinn og þeir hafi ekki fengið kost á að koma að sjónarmiðum sínum um skiptingu jarðanna, eftir að ákveðið hafði verið, að nefndin tæki til meðferðar skipti milli allra jarðanna fjögurra.

Eftir að landskiptanefndin hafði verið skipuð eftir ósk Rósu Gísladóttur, eiganda Krossgerðis II, annars stefnenda í máli þessu, sendi oddamaður Ingólfi Árnasyni, eiganda Krossgerðis I, hinum stefnenda, bréf dagsett 25. október 1996 og var honum gefinn kostur á að mæta á fundi nefndarinnar og leggja gögn fyrir fundinn. Var bent á, að mikilvægt væri að fram kæmi, hvaða skipting hefði viðgengist í framkvæmd á hinu sameiginlega landi til þessa og hvaða kröfur eða óskir hann hefði um að tilteknir hlutar landsins féllu í hans hlut. Með bréfi dagsettu 8. mars 1997 var Rósu Gísladóttur sent bréf svipaðs efnis, en nú voru spurningar ítarlegri. Rósa Gísladóttir sendi nefndinni greinargerð dagsett 31. mars 1997. Ingólfi Árnasyni er hinn 16. apríl 1997 sent afrit af þessari greinargerð og er enn beðinn um að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Greinargerð af hálfu Ingílfs Árnasonar er dagsett 9. maí 1997.

Eftir að ákveðið hafði verið að taka allar jarðirnar fjórar undir skiptin, sem varð með ákvörðun sýslumanns 18. júní 1997, var sams konar bréfi, dagsettu 9. júlí s.á., beint til Helga Jenssonar umboðsmanns stefnda í málinu. Hann skilaði greinargerð 23. júlí s.á.

Með bréfum dagsettum 30. júlí s.á. er báðum stefnendum, eða umboðsmönnum þeirra, send gögn í málinu, þar á meðal skipunarbréf sýslumanns og greinargerð af hálfu stefnda. Þá er þessum aðilum gefinn kostur á að koma fram með gögn, kröfur og málsástæður, að því leyti sem ekki hefur verið tilefni til fyrr.

Greinargerð Bernhards Bogasonar hdl. vegna stefnanda Ingólfs Árnasonar er dagsett 9. september 1997 og stimpluð móttekin 17. s.m. Greinargerð Sigurðar Björgvinssonar vegna stefnanda Rósu Gísladóttur er dagsett 13. september 1997 og stimpluð um móttöku 17. s.m.

Í báðum þessum greinargerðum stefnenda kemur fram krafa um frávísun frá nefndinni á kröfu um skipti á öllum jörðunum saman, en þar eru einnig færð fram rök sem varða skipti á heildarjörðinni eða jörðunum fjórum.

Með bréfi dagsettu 22. september 1997 er Helga Jenssyni f.h. stefnda í máli þessu gefinn kostur á að skila athugasemdum varðandi frávísunarkröfu, sem fram kom í ofangreindum greinargerðum stefnenda. Skilaði hann greinargerð af hálfu stefnda dagsettri 7. október 1997 og stimplaðri um móttöku 14. s.m.

Með bréfum dagsettum 30. október 1997 er Bernhard Bogasyni, hdl., umboðsmanni Ingólfs Árnasonar og Sigurði Björgvinssyni, umboðsmanni Rósu Gísladóttur, send greinargerð stefnda. Segir í bréfinu, að gefi hún viðtakanda tilefni til að leggja eitthvað frekar fyrir nefndina skuli það gert innan 14. daga.

Með bréfi dagsettu 18. febrúar 1998 hefur nefndin skrifað umboðsmönnum allra aðila að skiptunum og þessa máls og tilkynnt um að landskiptanefndin mundi halda fund þann 21. sama mánaðar, kl. 10 f.h. á Djúpavogi. Þá segir í bréfinu: „Kjósi aðilar að koma frekari gögnum eða athugasemdum að á fundinum, þá verður að koma því til undirritaðs eigi síðar en kl. 10:00 f.h. þann 20. þ.m. Að öðrum kosti lítur nefndin svo á, að gagnaöflun sé lokið af hálfu aðila.“

Í  5. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 segir: „Þegar skipta skal landi eða landsnytjum, skal bjóða öllum eigendum og öðrum þeim, er notkunarrétt hafa á því, er til skipta getur komið, að vera við skiptin og gefinn kostur á að upplýsa málið fyrir matsmönnum, en gætt skal þess, að matsstörfin dragist ekki fyrir það lengur en nauðsyn krefur.“

Að þessu athuguðu, verður ekki séð, að stefnendum hafi ekki gefist kostur á að hafa uppi andmæli, eða upplýsa málið fyrir matsmönnum. Verður landskiptagerðin ekki ógilt af þeim sökum.

Stefnendur hafa haldið því fram, að ágreiningur um eignarhlutföll eigi að leiða til þess, að óheimilt hafi verið að halda skiptum áfram, en úr ágreiningi verði ekki skorið nema með dómi.

Í greinargerð stefnda fyrir landskiptanefnd er því haldið fram, að skipta eigi jörðunum eftir þeim eignarhlutföllum, sem tiltekin séu í jarðamati frá árinu 1861, eins og boðið sé í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1941, en heildarmat jarðanna sé þar talið 21 hundrað, og sé Kross talinn 12 hundruð, Krosshjáleiga 3 hundruð og Krossgerði 6 hundruð. Beri því að skipta jörðinni í þessum hlutföllum, eða 5/7 hlutar til Kross og Krosshjáleigu, en 2/7 hlutar til Krossgerðis.

 Fram hefur komið í greinargerð stefnanda Ingólfs Árnasonar til landskiptanefndar, að hlutföll þau, sem eigandi Kross vísar til, séu ekki eignarhlutföll, heldur hafi forn hundruð verið metin eftir gæðum en ekki flatarmáli. Heldur hann því fram, að landinu hafi þegar verið skipt eftir þessum hlutföllum og vísar þá til þeirra merkja, sem hann telur að um hafi verið samið fyrir löngu og byggt er á, að séu nú orðin bindandi landamerki.

Í greinargerð stefnanda Rósu Gísladóttur til landskiptanefndar, er talið að hlutföllin séu Kross ásamt Krosshjáleigu 14 hundruð og Krossgerði 6 hundruð.

Ekki hafa verið bornar á það brigður af hálfu stefnenda, að í jarðamati frá árinu 1861 sé Kross metinn 12 hundruð, Krosshjáleiga 3 hundruð og Krossgerði 6 hundruð, en í jarðatali Johnsens frá 1847 er Kross og Krosshjáleiga metin 14 hundruð, og Krossgerði 6 hundruð. Virðist ágreiningurinn þá snúast annars vegar um það, hvort stuðst skuli við jarðamatið frá 1861 eða jarðatalið frá 1847, og hins vegar hvort hlutföll byggð á þessum mötum geti verið grundvöllur skiptingar landsins.

Ágreiningur sá, sem stefnendur telja verulegan er þannig um það, hvernig skuli skilja 2. gr. landskiptalaganna, en í henni segir, að skipta skuli eftir jarðamati frá árinu 1861, þar sem því verði við komið. Því aðeins, að tvær eða fleiri jarðir, sem skipta á séu metnar í einu lagi til dýrleika í því jarðamati, en aðgreint mat þeirra sé að finna í jarðatali Johnsens frá 1847, eigi að nota það mat. Jarðirnar eru í jarðamati frá 1861 metnar hver fyrir sig og ber því að nota það. Þetta hefur landskiptanefndin réttilega gert og telur sig hafa skipt landinu í þeim hlutföllum, sem þar er greint. Fram kemur, að nefndin hefur aðeins skipt landinu neðan gamla þjóðvegarins og að hluta ofan þess nýja,þara sem hann er ofar, en látið eftir í óskiptri sameign land ofan vegarins.  Eftir uppdrætti Sveins Þórarinssonar, verkfræðings, sem nefndin hefur notast við, er landið, sem skipt er, 231,2 ha. Í hlut Kross og Krosshjáleigu kemur 153,7 ha, sem er mun minna en 5/7 af landinu, en í hlut Krossgerðis kemur 77,5 ha, sem er mun meira en 2/7 af landinu. Kemur í hlut Krossgerðis meira land að flatarmáli en þessum hlutföllum nemur og að sama skapi minna í hlut Kross og Krosshjáleigu. Verður þá að gera ráð fyrir, að nefndin hafi haft í huga, ákvæði 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga.

 Jafnframt kemur fram í forsendum landskiptagerðarinnar, að höfð hafa verið í huga sjónarmið og óskir aðila og verið reynt að hafa land jarðanna sem heildstæðast, þannig að þær haldi sem allra mestu af þeim svæðum, sem þær hafa nýtt fram að þessu. Kveðið er á um, að neysluvatnsréttindi skuli vera sameiginleg fyrir Krossgerðisbæina, en ekki nefnd önnur námaréttindi. Ekki eru nefnd í niðurstöðu nefndarinnar önnur námaréttindi, sem stefnendur telja, að óheimilt sé að gera á staðbundin skipti. Niðurlagsákvæði 1. mgr. 3. gr. segja að ekki megi gera staðbundin skipti á nánar tilgreindum hlunnindum, nema skiptin séu það hagkvæm að á engan eiganda sé hallað.

Verður ekki séð annað en að landskiptanefndin hafi farið að lögum og gætt þeirra sjónarmiða við landskiptin, sem boðið er í landskiptalögum nr. 46/1941.

Stefndi hefur ekki krafist staðfestingar landskiptagerðarinnar í heild, en hefur krafist viðurkenningar á, að landamerki milli Krossgerðis I og II  annars vegar og Kross og Krosshjáleigu hins vegar séu með svofelldum hætti: Dregin er lína frá gamla þjóðvegi og niður í sjó. Efst liggur línan í svokölluðum Leitislæk, en heldur síðan áfram við rætur klettabeltis sem er innan við þann læk, að sjó. Kross og Krosshjáleiga eiga það land sem verður innan (vestan) við línuna og að Krossá. Dregin er lína frá innanverðum Gvendarhól við sjó, þaðan beint upp í Hjáleigugil. Kross og Krosshjáleiga eiga landið utan (austan) við línuna og að landamerkjum við Núp. Krossgerði I og II eiga landið á milli ofangreindra lína. Að ofan (norðan) er dregin lína við brekkurætur, eftir gamla þjóðveginum að mestu, nema yst eftir nýja þjóðveginum á þeim kafla þar sem hann liggur ofar í landinu en gamli þjóðvegurinn. Landið ofan þessarar línu er óskipt. Að sunnan ræður sjór.

Enda þótt landamerkjalýsing þessi sé í megindráttum sú sem fram kemur í landskiptagerðinni, er hún þó frábrugðin um nokkur atriði, sem ekki hefur verið nægilega skýrt. Er krafan vanreifuð að þessu leyti og verður vísað frá dómi.

Niðurstaða:

Kröfu stefnenda um að viðurkennt verði með dómi, að lögfest skipti hafi farið fram milli jarðanna Kross og Krosshjáleigu annars vegar og Krossgerðis I og II hins vegar er hafnað. Verður þá jafnframt hafnað þeirri kröfu, að viðurkennt verði að landamerki milli jarðanna séu þau, sem í aðlakröfu stefnenda greinir. Þá er hafnað kröfu um að landskiptagerð dagsett 21. febrúar 1998 verði dæmd ógild af þessum sökum.

Hafnað er varakröfu stefnenda um að stefnda verði gert að þola ógildingu landskiptagerðarinnar vegna atriða, sem varða málsmeðferð, verklag  eða forsendur landskiptanefndar.

Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda.

Kröfu stefnda um að viðurkennd verði með dómi ofangreind landamerki Kross, Krooshjáleigu og Krossgerðis, er vísað frá dómi.

Málskostnaður  fellur niður

Báðir málsaðilar hafa fengið gjafsókn í máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun talsmanns stefnenda, Daggar Pálsdóttur, hrl. kr. 400.000 og talsmanns stefnda, Hilmars Gunnlaugssonar, hdl. kr. 400.000.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi Högni Albertsson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnenda Ingólfs Árnasonar og Rósu Gísladóttur í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun talmanns stefnenda, Daggar Pálsdóttur, hrl. kr. 400.000 og  talsmanns stefnda, Hilmars Gunnlaugssonar hdl. kr. 400.000.