Hæstiréttur íslands

Mál nr. 831/2016

Héraðssaksóknari (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Kristján Stefánsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. desember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 5. janúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

                                                              

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. desember 2016

Héraðssaksóknari krefst þess að ákærða, X, verði gert að sæta áfram gæzluvarðhaldi þar til endanlegur dómur gangi í máli hans en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 5. janúar 2017 kl. 16:00.

Ákærði krefst þess að kröfunni verði hafnað. Til vara krefst hann þess að gæzluvarðhaldstími verði ákveðinn skemmri. Krafan var tekin til úrskurðar í dag.

Með ákæru héraðssaksóknara, dags. 29. marz 2016, var ákærða gefið að sök að hafa hinn 5. febrúar 2016 gerzt sekur um meiri háttar líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot, frelsissviptingu og stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþola, A, á heimili þeirra. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 21. júní 2016, var ákærði vegna þeirrar ákæru sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194., 199., 1. mgr. 218., 1. mgr. 226., 233. og 233. g gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 559/2016, upp kveðnum í gær, var umræddur héraðsdómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju. Frá 7. febrúar 2016 hefur ákærði sætt gæzluvarðhaldi, fyrstu þrjá sólarhringana vegna rannsóknarhagsmuna en upp frá því á grunni 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Síðast var úrskurður héraðsdóms í þá veru staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 806/2016 sem upp var kveðinn 7. desember 2016, en áður hafði Hæstiréttur Íslands dæmt um gæzluvarðhald ákærða í málum nr. 98, 184, 244 og 410/2016.

Í kröfu sinni vísar héraðssaksóknari til framanrakinnar ákæru. Segir héraðssaksóknari að ákærði hafi svipt sambýliskonu sína frelsi í fjórar klukkustundir á heimili þeirra og á meðan á frelsissviptingunni hafi staðið hafi ákærði slegið brotaþola ítrekuð hnefahögg í síðu og höfuð, rifið í hár hennar, tekið hana hálstaki og sparkað ítrekað í síðu hennar og fætur. Hann hafi skipað henni að setjast á stól og því næst sparkað undan henni stólnum svo hún hafi fallið í gólfið. Jafnframt hafi hann ítrekað hótað henni lífláti. Er brotaþoli hafi reynt flótta hafi ákærði stöðvað hana, rifið í hár hennar og slegið hnefahögg. Ákærði hafi látið brotaþola leysa niður um sig, skoðað kynfæri hennar og sitjanda með vasaljósi og áreitt hana kynferðislega með því að taka mynd af kynfærum hennar. Í kjölfar þessa hafi ákærði neytt brotaþola til munnmaka og endaþarmsmaka. Af öllu þessu hafi brotaþoli fengið mar á höfði, bæði á enni og í hársvörð og eymsli víða um líkama. Þá hafi jaxl brotnað í efri gómi auk þess sem ákærði hafi móðgað og smánað brotaþola með háttseminni.

Héraðssaksóknari vísar til þeirra dóma héraðsdóms og Hæstaréttar sem raktir hafa verið, sem og þess gæzluvarðhalds sem ákærði hefur sætt. Rekur héraðssaksóknari í kröfu sinni að ákæruvaldið hafi áfrýjað héraðsdómi yfir ákærða og hafi dómurinn verið ómerktur þar sem þversögn hafi verið talin í þeirri niðurstöðu héraðsdóms að sakfella ákærða fyrir hluta þeirrar háttsemi sem honum hafi verið gefin að sök en sýkna af sakagiftum vegna hennar að öðru leyti. Væru líkur komnar fyrir því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo einhverju skipti um úrslit málsins.

Héraðssaksóknari segir að brot þau, sem ákærði hafi verið sakfelldur fyrir, geti varðað allt að sextán ára fangelsi og með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og því að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir sem svo standi á sé gerð krafa um að ákærða verði gert að sæta gæzluvarðhaldi þar til endanlegur dómur gangi í máli hans. Sé krafa héraðssaksóknara studd við 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði telur ekki lagaskilyrði til að verða við kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað. Til vara krefst hann þess að gæzluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið úr greinargerð héraðssaksóknara og fær stoð í gögnum málsins, og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 98/2016, verður að telja að kærði sé undir sterkum grun um að hafa svipt sambúðarkonu sína frelsi sínu og beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi þannig að varðað geti við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 218. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga. Þau brot sem kærði er undir sterkum grun um að hafa framið varða meira en 10 ára fangelsi. Með sama hætti verður að fallast á það með héraðssaksóknara að brot þessi séu þess eðlis að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt og verður krafa héraðssaksóknara um að ákærði sæti gæzluvarðhaldi tekin til greina eins og í úrskurðarorði segir, en ekki þykja efni til að marka gæzluvarðhaldi skemmri tíma en farið er fram á.

Fyrir dómi var byggt á því af hálfu ákærða að hann hefði í gær verið handtekinn með óréttmætum hætti. Í niðurstöðu um þá kröfu héraðssaksóknara sem hér er til úrlausnar felst ekki niðurstaða um það álitaefni.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, sæti gæzluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 5. janúar 2017 kl. 16:00.